Hæstiréttur íslands
Mál nr. 310/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaðartrygging
|
|
Mánudaginn 16. júní 2008. |
|
Nr. 310/2008. |
Þrotabú Insolidum ehf. (Jóhannes Karl Sveinsson hrl.) gegn Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. (Gestur Jónsson hrl.) |
Kærumál. Málskostnaðartrygging.
Deilt var um kröfu S hf. um málskostnaðartryggingu í máli sem höfðað var af I ehf., D og P en bú I ehf. hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta skömmu eftir málshöfðunina. Í málinu lá fyrir orðsending skiptastjóra í þb. I ehf. þar sem meðal annars kom fram að hann gerði ekki að svo stöddu athugasemdir við að fyrirsvarsmenn félagsins, D og P, héldu áfram rekstri málsins en frekari ákvarðanir um það efni yrðu teknar síðar. Af orðsendingunni varð ekkert ráðið um að skiptastjórinn hefði tekið ákvörðun um að þb. I ehf. myndi ekki halda uppi hagsmunum, sem dómsmálið væri höfðað um. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að líta yrði svo á að skiptastjórinn hefði veitt lögmanninum, sem farið hefði með mál þetta af hálfu þb. I ehf., D og P, málflutningsumboð til að halda áfram rekstri þess að svo stöddu til hagsbóta fyrir þb. I ehf. og á kostnað þeirra síðastnefndu. Sú aðstaða gæti engu breytt um skyldu þb. I ehf. til að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar samkvæmt b. lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991. Var skilyrðum ákvæðisins talið fullnægt og niðurstaða héraðsdóms um fjárhæð tryggingarinnar staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. maí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur, sem kveðinn var upp 21. maí 2008 í máli sóknaraðila, Daggar Pálsdóttur og Páls Ágústs Ólafssonar á hendur varnaraðila, en með úrskurðinum var sóknaraðila gert að leggja fram tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar að fjárhæð 4.500.000 krónur. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að kröfu varnaraðila um málskostnaðartryggingu verði hafnað, en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I.
Insolidum ehf., Dögg Pálsdóttir og Páll Ágúst Ólafsson höfðuðu mál þetta á hendur varnaraðila 7. febrúar 2008 og var það þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 12. sama mánaðar. Þau þrjú fyrstnefndu kröfðust þess að viðurkennd yrði riftun þeirra 8. nóvember 2007 á kaupsamningi, sem gerður hafi verið við varnaraðila 20. júlí sama ár um stofnfjárhluti að nafnvirði 47.500.000 krónur í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, hluta lánssamnings við varnaraðila 3. ágúst 2007 að því er varðar töku láns hjá honum að fjárhæð 571.575.890 krónur og átta handveðssamningum, sem gerðir hafi verið við hann síðastnefndan dag. Að auki var krafist málskostnaðar. Varnaraðili höfðaði gagnsök í málinu 11. mars 2008 og krafðist þess að gagnaðilunum yrði gert að greiða sér 298.282.616 krónur með nánar tilteknum vöxtum auk málskostnaðar. Í greinargerð varnaraðila í aðalsök krafðist hann aðallega að málinu yrði vísað frá dómi, til vara sýknu af kröfum, sem þar voru hafðar uppi á hendur honum, en að því frágengnu sýknu að hluta.
Samkvæmt kröfu varnaraðila var bú Insolidum ehf. tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 6. maí 2008. Sá úrskurður var kærður til Hæstaréttar 16. sama mánaðar. Þegar mál þetta var tekið fyrir í héraðsdómi 19. maí 2008 var lögð fram orðsending frá skiptastjóra í þrotabúi félagsins, þar sem meðal annars kom fram að hann gerði ekki að svo stöddu athugasemdir við að fyrirsvarsmenn þess, sem voru fyrrnefnd Dögg og Páll Ágúst, héldu áfram rekstri þessa máls, en frekari ákvarðanir yrðu teknar um það efni þegar fyrir lægi niðurstaða um kæru úrskurðarins um gjaldþrotaskipti. Þess væri þó óskað að yfirlýsing yrði gefin um að þetta yrði gert á kostnað fyrirsvarsmannanna fyrrverandi og til hagsbóta fyrir þrotabúið. Því til samræmis var slík yfirlýsing lögð fram í þinghaldinu. Við sama tækifæri krafðist varnaraðili þess að sóknaraðila yrði gert að leggja fram tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar og tók héraðsdómari þá kröfu til greina með hinum kærða úrskurði.
Með dómi Hæstaréttar, sem kveðinn var upp í dag í máli nr. 282/2008, var úrskurður héraðsdóms um gjaldþrotaskipti á búi Insolidum ehf. staðfestur.
II.
Kæra í máli þessu var borin fram í nafni sóknaraðila og í engu getið þar um málskot af hendi þeirra, sem eiga aðild að málinu í héraði við hlið hans. Í greinargerð sóknaraðila til Hæstaréttar 3. júní 2008 var á hinn bóginn tekið svo til orða að hún væri lögð fram af hálfu þrotabús Insolidum ehf., Daggar Pálsdóttur og Páls Ágústs Ólafssonar sem sóknaraðila. Slíkri breytingu á aðild að málinu fyrir Hæstarétti verður ekki komið við á þennan hátt í greinargerð og verður því litið svo á að þrotabúið sé eitt síns liðs sóknaraðili hér fyrir dómi.
Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. getur lánardrottinn, sem lýst hefur kröfu á hendur þrotabúi, sem ekki hefur þegar verið hafnað við skiptin, haldið uppi í eigin nafni til hagsbóta fyrir búið hagsmunum, sem skiptastjóri hefur ákveðið að gæta ekki, en það verður þá gert á kostnað og áhættu þess lánardrottins. Fyrir Hæstarétti hefur verið greint frá því að Dögg Pálsdóttir og Páll Ágúst Ólafsson hafi lýst kröfum á hendur sóknaraðila. Til þess verður á hinn bóginn að líta að af áðurgreindri orðsendingu skiptastjóra verður ekkert ráðið um að hann hafi tekið ákvörðun um að sóknaraðili muni ekki halda uppi hagsmunum, sem dómsmál þetta var höfðað um. Við svo búið verður að líta svo á að skiptastjórinn hafi veitt lögmanninum, sem farið hefur með mál þetta af hálfu sóknaraðila, Daggar og Páls Ágústs, málflutningsumboð til að halda áfram rekstri þess að svo stöddu til hagsbóta fyrir sóknaraðila og á kostnað þeirra síðastnefndu. Sú aðstaða getur engu breytt um skyldu sóknaraðila til að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar samkvæmt b. lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991. Skilyrðum þess ákvæðis er því fullnægt til að verða við kröfu varnaraðila, en fjárhæð málskostnaðartryggingar er hæfilega ákveðin á þann hátt, sem í dómsorði greinir.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Sóknaraðila, þrotabúi Insolidum ehf., ber að leggja fram tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar að fjárhæð 2.000.000 krónur í því formi, sem greinir í hinum kærða úrskurði, innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu þessa dóms.
Sóknaraðili greiði varnaraðila, Saga Capital Fjárfestingarbanka hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. maí 2008.
Mál þetta er höfðað með stefnu, áritaðri um birtingu 7. febrúar 2008.
Dómkröfur stefnenda eru þær að viðurkennd verði riftun stefnenda 8. nóvember 2007 á kaupsamningi við stefnda, sem gerður var 20. júlí 2007, um 47.500.000 stofnfjárbréf í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis.
Þá er þess krafist að viðurkennd verði riftun stefnenda 8. nóvember 2007 á þeim hluta lánasamnings við stefnda, sem undirritaður var 3. ágúst 2007, til að fjármagna kaup á 47.500.000 stofnfjárbréfum í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, að fjárhæð 571.575.890 krónur, og 8 handveðsamningum milli stefnenda og stefnda, dags. 3. ágúst 2007, sem voru hluti lánasamningsins.
Loks krefjast stefnendur málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega frávísunar á kröfum stefnenda, en ella sýknu af öllum kröfum þeirra, og til vara sýknu að hluta. Þá gerir hann kröfu um málskostnað úr hendi stefnenda in solidum.
Með gagnstefnu, sem þingfest var 11. mars sl., höfðaði stefndi gagnsök og gerir þær kröfur á hendur Insolidum ehf. að félagið verði dæmt til að greiða gagnstefnanda 298.282.616 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 19. nóvember 2007 til greiðsludags, auk málskostnaðar að skaðlausu.
Gagnstefndi krefst sýknu af kröfum gagnstefnanda, auk málskostnaðar að skaðlausu.
II.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 6. maí 2008 var bú aðalstefnanda, Insolidum ehf., tekið til gjaldþrotaskipta. Úrskurðurinn sætir nú kæru til Hæstaréttar.
Við fyrstu fyrirtöku þessa máls, 19. maí sl., lagði lögmaður stefnenda og gagnstefnda fram tölvubréf frá skiptastjóra þrotabús Insolidum ehf., þar sem fram kemur að hann hafi ekki haft tök á því að setja sig inn í málefni búsins, en geri ekki athugasemdir við það að fyrirsvarsmaður Insolidum ehf. haldi áfram málarekstri, m.a. vegna reksturs ágreiningsmáls við Saga Capital hf. um riftun gerninga o.fl. Þó óskar skiptastjórinn eftir því að umræddur fyrirsvarsmaður gefi yfirlýsingu um að hann muni reka málið á sinn kostnað, en til hagsbóta fyrir búið, sbr. 130. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti. Samhliða þessu lagði lögmaðurinn einnig fram svohljóðandi yfirlýsingu:
„Undirrituð, Dögg Pálsdóttir, kt. 020856-6109, Laugarnesvegi 89, Reykjavík og Páll Ágúst Ólafsson, kt. 260283-3759, Bergstaðastræti 86, Reykjavík, kröfuhafar í þrotabú Insolidum ehf., kt. 411205-1340, lýsum því hér með yfir að við munum halda uppi hagsmunum búsins í eigin nafni til hagsbóta búinu vegna málaferla félagsins við Saga Capital Fjárfestingabaka hf., kt. 660906-1260.
Tekur yfirlýsing þessi til kæru til Hæstaréttar á úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. X-7/2008, upp kveðinn 6. maí 2008, og málarekstrar héraðsdómsmálsins nr. 928/2008: Insolidum ehf., Dögg Pálsdóttir og Páll Ágúst Ólafsson gegn Saga Capital Fjárfestingabanka hf. og gagnsök, fyrir héraði og eftir atvikum í Hæstarétti.“
Í sama þinghaldi lagði lögmaður stefnda og gagnstefnanda fram kröfu um að Insolidum ehf. yrði gert að leggja fram málskostnaðartryggingu að fjárhæð 17.000.000 króna, eða aðra fjárhæð að mati dómsins. Til stuðnings kröfunni er vísað til b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Tekið er fram að ekkert sé fram komið sem styðji að þrotabúið eða kröfuhafar þess séu reiðubúnir eða hafi getu til þess að standa undir þeim kostnaði sem af máli þessu kunni að hljótast. Því teljist skilyrði ákvæðisins uppfyllt, um leið og vísað sé til fordæmis Hæstaréttar í málinu nr. 427/2001. Að mati lögmannsins breyti framlögð yfirlýsing frá fyrirsvarsmönnum Insolidum ehf. hér engu um, enda jafngildi hún ekki málskostnaðartryggingu og ekki liggi fyrir hvort þeir muni lýsa kröfum á hendur búinu. Þar sem bú Insolidum ehf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 6. maí sl., hafi ekki fyrr verið tilefni til að setja kröfuna fram.
Af hálfu stefnenda og gagnstefnda var framkominni kröfu um málskostnaðartryggingu mótmælt sem of seint fram kominni. Hafi krafan átt að koma fram við þingfestingu málsins. Þá var því haldið fram að dómur Hæstaréttar í málinu nr. 427/2001 hefði hér ekki fordæmisgildi, enda hafi í því máli ekki notið við sambærilegrar yfirlýsingar og lögð hafi verið fram í þessu máli. Sérstaklega mótmælti lögmaður stefnenda og gagnstefnda fjárhæð málskostnaðartryggingarinnar.
Ágreiningur aðila var lagður í úrskurð dómsins og er hann hér til úrlausnar.
III.
Samkvæmt b. lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, getur stefndi krafist þess við þingfestingu máls að stefnandi setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar, ef leiða má líkur að því að stefnandi sé ófær um greiðslu hans.
Fyrir liggur í máli þessu að bú stefnanda í aðalsök og stefnda í gagnsök, Insolidum ehf., var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 6. maí sl. Mál þetta var hins vegar þingfest 12. febrúar sl. og lá þá ekkert fyrir um ógjaldfærni félagsins. Var því ekki tilefni fyrir stefnda að krefjast málskostnaðartryggingar fyrr en við fyrstu fyrirtöku þess, 19. maí sl. Með vísan til þessa, sbr. og dóms Hæstaréttar 16. nóvember 2001 í málinu nr. 427/2001, verður því ekki á það fallist að krafa stefnda um málskostnaðartryggingu sé of seint fram komin.
Áðurnefnt tölvubréf skiptastjóra í þrotabúi Insolidum ehf. verður ekki skilið öðruvísi en svo að skiptastjóri hafi á þeirri stundu ákveðið að halda ekki sjálfur uppi hagsmunum þrotabúsins í þeim ágreiningi sem til úrlausnar er í máli þessu, en geri ekki athugasemdir við það að fyrrverandi fyrirsvarsmaður félagsins standi að málarekstrinum á eigin kostnað, en til hagsbóta fyrir búið.
Í 1. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, er að finna heimild fyrir aðra en skiptastjóra til þess að halda uppi hagsmunum þrotabús. Þar segir m.a.: „Ákveði skiptastjóri að halda ekki uppi hagsmunum sem þrotabúið kann að njóta eða geta notið, hvort sem það er gert samkvæmt ályktun skiptafundar eða ekki, getur lánardrottinn sem hefur lýst kröfu á hendur búinu, sem hefur ekki þegar verið hafnað, gert það í eigin nafni til hagsbóta búinu hafi skiptastjóri ekki þegar skuldbundið það á annan veg.“
Innköllun til lánardrottna í þrotabúi Insolidum ehf. hefur ekki verið gefin út og sætir úrskurður um töku búsins til gjaldþrotaskipta kæru til Hæstaréttar. Því er á þessari stundu með öllu óvíst hverjir kunni að lýsa kröfum í búið og um afstöðu skiptastjóra til krafna. Þrátt fyrir yfirlýsingu fyrrverandi fyrirsvarsmanna Insolidum ehf. um að þau muni halda uppi hagsmunum búsins í eigin nafni til hagsbóta búinu vegna þessara málaferla, verður ekki framhjá því litið að í áðurnefndu ákvæði 1. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991 er sú heimild bundin við þá lánardrottna sem lýst hafa kröfu á hendur búinu, sem ekki hefur þegar verið hafnað. Þar sem þau skilyrði ákvæðisins eru ekki uppfyllt, verður ekki séð að heimild standi til þess að umræddir fyrirsvarsmenn fari með hagsmuni þrotabúsins í máli þessu. Er því fallist á kröfu stefnda í aðalsök um að þrotabúi Insolidum ehf. verði gert að setja málskostnaðartryggingu vegna reksturs þessa máls.
Með hliðsjón af gögnum málsins og umfangi þess þykir fjárhæð málskostnaðartryggingar hæfilega ákveðin 4.500.000 krónur, og skal hún lögð fram í formi bankabókar eða bankatryggingar innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu þessa úrskurðar.
Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Stefnandi í aðalsök, þrotabú Insolidum ehf., skal innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu þessa úrskurðar leggja fram tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli þessu, að fjárhæð 4.500.000 krónur, í formi bankabókar eða bankatryggingar.