Hæstiréttur íslands

Mál nr. 440/2014

A (Jóhannes Albert Kristbjörnsson hdl.)
gegn
B (enginn), Tryggingamiðstöðinni hf. (Guðmundur Pétursson hrl.) og Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Guðjón Ármannsson hrl.)

Lykilorð

  • Ökutæki
  • Vátryggingarsamningur
  • Líkamstjón
  • Stórkostlegt gáleysi
  • Eigin sök
  • Ábyrgðartrygging


A höfðaði mál á hendur B, T hf. og S hf. til viðurkenningar á bótaskyldu þeirra vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í umferðarslysi í júlí 2008. Laut ágreiningur aðila að því hvort að A hefði umrætt sinn sýnt af sér stórfellt gáleysi sem leiða ætti til þess að hann skyldi bera tjón sitt sjálfur að öllu leyti eða hluta, en einkum var deilt um hraða bifreiðar hans. Í dómi héraðsdóms kom fram að ekki yrði byggt á niðurstöðum rannsóknar og útreikninga sérfræðinga um ökuhraða A, sem kvæðu á um að hann hefði verið á að minnsta kosti 67 km hraða á klukkustund. Þess í stað yrði að miða við framburð A í sakamáli gegn honum vegna umrætt umferðarslys, um afstöðu bifreiðar hans og B þegar óhappið varð, en sá framburður leiddi til þess að A hefði ekið ívið hraðar en B, sem sakfelldur hefði verið fyrir að aka á 86 km hraða á klukkustund. Hámarkshraði á þeim stað sem atvik gerðust væri 50 km á klukkustund. Yrði því að telja að meginorsök þess að A missti stjórn á bifreiðinni væri hraðaakstur hans sjálfs og aðgæsluleysi við aðstæður á vettvangi. Var A gert að bera tjón sitt sjálfur að öllu leyti. Í dómi Hæstaréttar kom fram að með hliðsjón af atvikum málsins og skýrslur A og B fyrir dómi í sakamálunum tveimur yrði hvorki dregin sú eindregna ályktun að bifreiðirnar hefðu verið samsíða um nánar tilgreinda fjarlægð áður en slysið varð, né að þær hefðu verið á sama hraða við slysið. Væri því nægilega leitt í ljós að bifreið A hefði að minnsta kosti verið ekið á 67 km hraða á klukkustund er slysið varð. Þá yrði talið að aksturslag B hefði verið meginorsök þess að A missti stjórn á bifreiðinni og varð fyrir líkamstjóni. Á hinn bóginn yrði að líta til þess að bifreið A hefði ekki verið í notkunarhæfu ástandi, á of miklu hraða á fjölfarinni umferðargötu í þéttbýli, á blautum vegi um nótt og í rigningu og í námunda við gatnamót og gangbraut. Hefði hann því sýnt af sér stórfellt gáleysi við aksturinn. Að öllu framangreindu virtu var talið að B og T hf. væru bótaskyld að 2/3 hlutum vegna líkamstjóns A, en að hann skyldi bera sjálfur 1/3 hluta tjóns síns.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. júní 2014. Hann krefst viðurkenningar á bótaskyldu vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í umferðarslysi 26. júlí 2008, aðallega gagnvart stefndu B og Tryggingamiðstöðinni hf. á grundvelli ábyrgðartryggingar ökutækisins M, til vara gagnvart öllum stefndu á grundvelli ábyrgðartryggingarinnar og ökumannstryggingar ökutækisins N, en að því frágengnu gagnvart stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. á grundvelli ökumannstryggingarinnar. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt hér fyrir dómi, en til vara að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Stefndu Tryggingamiðstöðin hf. og Sjóvá-Almennar tryggingar hf. krefjast, hvor fyrir sitt leyti, staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi B hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

I

Ekki er ágreiningur með málsaðilum að um klukkan tvö aðfaranótt 26. júlí 2008 var áfrýjandi að aka bifreiðinni N á vinstri vegarhelmingi austur Hringbraut er hann stöðvaði á vinstri akrein við rautt umferðarljós á gatnamótum við Hofsvallagötu. Við hlið hans á ljósunum á hægri akrein vegarins hafði stefndi B stöðvað bifreiðina M. Þegar grænt ljós logaði á götuvitanum óku þeir báðir af stað, en við gatnamót Hringbrautar og Furumels, um 218 metrum austar, varð árekstur milli bifreiðarinnar M og leigubifreiðar sem ekið var inn á Hringbraut frá Furumel. Augnabliki fyrir áreksturinn sveigði bifreiðin M nokkuð inn á vinstri akreinina þar sem bifreiðinni N var ekið samsíða eða rétt fyrir framan fyrrgreindu bifreiðina. Í kjölfarið sveigði áfrýjandi bifreiðina til vinstri með þeim afleiðingum að hún kastaðist upp á rennustein við umferðareyju á ljósastaur sem brotnaði og snerist þá bifreiðin rangsælis og stöðvaðist loks við gangbrautarvita nokkrum metrum frá. Við áreksturinn kastaðist leigubifreiðin til um nokkra metra áfram til austurs, en bifreiðin M stöðvaðist tæplega 70 metrum austar eftir að hafa hafnað á steinsteyptum vegg við kjallaratröppur fjölbýlishúss við Hringbraut og brotið hann niður. Bæði áfrýjandi og stefndi B voru einir í bifreiðunum, en fimm farþegar voru í leigubifreiðinni. Áfrýjandi hlaut líkamstjón af völdum slyssins. Bifreiðin N var tryggð með húftryggingu og lögboðinni slysatryggingu ökumanns hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf., en bifreiðin M var tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu og húftryggingu hjá stefnda Tryggingamiðstöðinni hf.

Með héraðsdómi 5. október 2010 var stefndi B sakfelldur fyrir að hafa ekið bifreið sinni umrætt sinn ,,í hættulegu ástandi ... með að minnsta kosti 86 km hraða á klst., of hratt miðað við aðstæður og almenn hraðatakmörk, við gatnamót að gangbraut í þéttbýli ... þar sem hámarkshraði var 50 km“. Var honum gert að greiða 70.000 króna sekt í ríkissjóð jafnframt því sem hann var sviptur ökurétti í þrjá mánuði. Þá gekk héraðsdómur 17. desember 2012, sem staðfestur var í Hæstarétti 19. september 2013 í máli nr. 126/2013, þar sem stefndi B var talinn hafa fyrirgert rétti til greiðslu úr húftryggingu hjá stefnda Tryggingamiðstöðinni hf. vegna stórkostlegs gáleysis við aksturinn.

Með héraðsdómi 21. september 2010 var áfrýjandi fundinn sekur um að hafa ekið með 67 kílómetra hraða á klukkustund umrætt sinn „of hratt miðað við aðstæður og almenn hraðatakmörk, við gatnamót að gangbraut í þéttbýli og þar sem hámarkshraði var 50 km“ en misst stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að umferðarmannvirki skemmdust og eyðilögðust. Var honum gert að greiða 50.000 króna sekt í ríkissjóð.

II

Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi deila málsaðilar um hvort áfrýjandi hafi umrætt sinn sýnt af sér stórfellt gáleysi sem leiða eigi til þess að hann skuli bera tjón sitt sjálfur að öllu leyti eða hluta, en ágreiningur þeirra lýtur einkum að hraða bifreiðarinnar N. Til stuðnings fullyrðingum sínum um ofsaakstur áfrýjanda vísa hin stefndu tryggingafélög til rannsóknar lögreglu og útreikninga sérfræðinga um ökuhraða með tilliti til ummerkja á vettvangi. Þá vísa þau til þess að bifreiðunum N og M hafi verið ekið samsíða austur Hringbraut alveg frá umferðarljósunum við Hofsvallagötu að gatnamótunum við Furumel, en óumdeilt sé að síðargreindu bifreiðinni hafi verið ekið á ofsahraða.

Eftir að stefndi B hafði skilað greinargerð í málinu í héraði varð útivist af hans hálfu og sætti það hvað hann varðar meðferð samkvæmt 3. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Af hans hálfu var því haldið fram að bifreiðinni N hefði verið ekið óvarlega og á undan bifreið sinni alveg frá umferðarljósunum þar til áfrýjandi hafi að óþörfu ekið út af vegi við árekstursstað.

III

Ljósmyndir voru teknar af vettvangi sömu nótt og slysið varð, jafnframt því sem lögregla skráði frásagnir ökumanna bifreiðanna og farþega sem voru í leigubifreiðinni. Á hinn bóginn fór nánari rannsókn lögreglu á vettvangi ekki fram fyrr en 7. ágúst 2008, eða 13 dögum eftir slysið. Í skýrslu C rannsóknarlögreglumanns 19. mars 2009, sem var einn þeirra er kannaði vettvang síðargreint sinn, var komist að þeirri niðurstöðu að enginn vafi léki á að bifreiðunum N og M hafi verið ekið langt umfram löglegan hámarkshraða. Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi fóru fram bíltæknirannsóknir á ástandi þessara tveggja ökutækja. Samkvæmt niðurstöðum þeirra var N fyrir slysið „ekki í notkunarhæfu ástandi vegna verulegs slits í stýrisenda vinstra megin að framan, vegna ástands hemlabúnaðar og vegna ástands hjólbarðans vinstra megin að aftan.“ Þá hafi M verið „í stórhættulegu ástandi vegna ásigkomulags hjólbarða, hemla, hjólabúnaðar og gírkassa.“ Var um þessa bifreið einnig tiltekið að þótt virkni kúplingar hafi verið eðlileg hafi fyrsti og annar gír í gírkassa verið óvirkir og því ekki annað unnt en að taka hana af stað í þriðja gír.

Einnig var fenginn útreikningur Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands um ökuhraða bifreiðanna beggja. Var það niðurstaða D prófessors, sem gerði skýrslu 25. október 2008 um útreikning þennan, að líklegasti hraði bifreiðarinnar M hafi verið 99 kílómetrar á klukkustund, mögulegur lágmarkshraði 86, en hámarkshraði 113. Samkvæmt skýrslu prófessorsins 13. janúar 2009 taldi hann líklegasta hraða bifreiðarinnar N hafa verið 80 kílómetrar á klukkustund, mögulegan lágmarkshraða 67, en hámarkshraða 95. D kom fyrir héraðsdóm við aðalmeðferð málsins og skýrði niðurstöður sínar. Við meðferð málsins kom fram að í útreikningum hans væri ekki reiknað með hraðabreytingu vegna loftmótstöðu og því væri raunverulegur hraði meiri en útreiknaður hraði.

Vettvangi er ítarlega lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir andmælti áfrýjandi því að tilgreint stakt skriðfar, sem fundist hafi við vettvangsrannsókn lögreglu 7. ágúst 2008 í rennusteini við Hringbraut, um 6,5 metrum norðan þverlínu yfir götuna frá Furumel, geti talist vera eftir N. Fái þau mótmæli hans stuðning í þeirri ályktun lögreglu að ekki væri unnt að slá því föstu að farið sé eftir bifreiðina. Þá sé þetta skriðfar vel fyrir aftan árekstursstað og samræmist í engu þeirri atburðarás sem átt hafi sér stað við slysið. Að gengnum dómi héraðsdóms var D beðinn um frekari útreikninga um ætlaðan hraða bifreiðarinnar að teknu tilliti til þeirrar forsendu að skriðfarið væri ekki af hennar völdum. Með sömu aðferð og miðað við allar fyrri forsendur utan þessarar einu var það niðurstaða prófessorsins í skýrslu 24. september 2014 að ætlaður hraði bifreiðarinnar hefði verið 67 kílómetrar á klukkustund, mögulegur lágmarkshraði 56, en hámarkshraði 73.

IV

Með hinum áfrýjaða dómi var talið að miða yrði við það atriði sem fram komi í dómi Hæstaréttar í máli nr. 126/2013 að bifreiðunum N og M hafi verið ekið samhliða „frá gatnamótum Hofsvallagötu og Hringbrautar.“

Eins og áður greinir voru tveir fyrstu gírar bifreiðarinnar M ónýtir og þurfti hún því að taka af stað við umferðarljósin á gatnamótum Hringbrautar og Hofsvallagötu í þriðja gír. Samræmist það skýrslu stefnda B um að hann hafi þurft að taka rólega af stað á ljósunum þar sem bifreiðin hafi verið í þriðja gír. Ennfremur skýrslu áfrýjanda um að hann hafi tekið af stað á undan B á ljósunum, en síðar hafi bifreið hans náð sinni og verið við hana er árekstur varð. Af orðum dóms Hæstaréttar verður, með skírskotun til 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, hvorki sú eindregna ályktun dregin að bifreiðarnar hafi verið samsíða allt frá umferðarljósunum, né að þær hafi verið á sama hraða við slysið.

Af því sem fram er komið í málinu og rakið hefur verið er nægilega í ljós leitt að bifreiðinni N hafi að minnsta kosti verið ekið á 67 km hraða miðað við klukkustund er slysið varð. Þá verður jafnframt talið að aksturslag bifreiðarinnar M, er kom á miklum hraða á eftir bifreiðinni N og sveigði til vinstri rétt í sömu mund og henni var ekið á leigubifreiðina, hafi verið meginorsök þess að áfrýjandi sveigði bifreiðina til vinstri. Við það missti hann stjórn á bifreiðinni og varð fyrir líkamstjóni.

Þótt áfrýjandi hafi ekki verið skráður eigandi bifreiðarinnar N verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að hún hafi um langa hríð verið í umráðum hans. Þannig er ómótmælt að áfrýjandi höfðaði árið 2009 dómsmál þar sem hann byggði á því að hann væri eigandi bifreiðarinnar þótt hún hafi ekki verið skráð hans eign. Bar honum sem umráðamanni bifreiðarinnar að gæta að því að hún væri í lögmæltu ástandi, sbr. 2. mgr. 59. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Þá skal ökumaður bifreiðar sérstaklega gæta að því að stýrisbúnaður og hemlar séu í lögmæltu ástandi og virki örugglega, sbr. 3. mgr. greinarinnar. Eins og áður segir var bifreiðin ekki í ökuhæfu ástandi og skorti verulega á að stýrisendar og hemlabúnaður sem og hjólbarði vinstra megin að aftan væru í lagi.

Hámarkshraði á þeim stað sem atvik gerðust var 50 kílómetrar á klukkustund, sbr. 1. mgr. 37. gr. umferðarlaga. Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laganna skal ökuhraði jafnan miðaður við aðstæður með sérstöku tilliti til öryggis annarra. Þá skal ökumaður miða hraðann við gerð og ástand vegar, ástand ökutækis og umferðaraðstæður að öðru leyti. Sérstök aðgæsluskylda hvílir á ökumanni að aka nægilega hægt miðað við aðstæður í þéttbýli, við vegamót og í beygjum, þegar útsýn er takmörkuð vegna birtu eða veðurs, áður en komið er að gangbraut og þegar vegur er blautur eða háll, sbr. a., b., c., d. og h. liði 2. mgr. sömu lagagreinar.

Eins og áður greinir var aksturslag stefnda B meginorsök umferðarslyssins. Á hinn bóginn er einnig til þess að líta að áfrýjandi ók bifreið, sem var ekki í notkunarhæfu ástandi, á of miklum hraða á fjölfarinni umferðargötu í þéttbýli, á blautum vegi um nótt og í rigningu og í námunda við gatnamót og gangbraut. Sýndi hann þannig af sér stórfellt gáleysi við aksturinn. Að öllu framangreindu virtu verður fallist á aðalkröfu áfrýjanda þannig að stefndu Tryggingamiðstöðin hf. og B séu bótaskyld að 2/3 hlutum vegna tjóns er áfrýjandi varð fyrir í umræddu slysi, en hann beri sjálfur 1/3 hluta tjóns síns.

Um málskostnað á báðum dómstigum og gjafsóknarkostnað fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Viðurkennd er bótaskylda stefndu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. og B á 2/3 hlutum þess tjóns sem áfrýjandi, A, varð fyrir í umferðarslysi 26. júlí 2008 á Hringbraut í Reykjavík.

Stefndu Tryggingamiðstöðin hf. og B greiði óskipt áfrýjanda 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði, en málskostnaður þar fyrir dómi fellur að öðru leyti niður.

Stefndu Tryggingamiðstöðin hf. og B greiði óskipt 1.500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti sem rennur í ríkissjóð. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur að öðru leyti niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 1.500.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. mars 2014.

Mál þetta, sem dómtekið var 25. febrúar 2014, var höfðað af A, […] með stefnu, birtri 20. febrúar 2013 á hendur B, […], birtri 21. febrúar s.á. á hendur Tryggingamiðstöðinni hf., Síðumúla 24, Reykjavík og birtri 25. febrúar s.á. á hendur Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík, til viðurkenningar á bótaskyldu.

Dómkröfur stefnanda eru þær að aðallega er krafist viðurkenningar á bótaskyldu stefndu, B og Tryggingamiðstöðvarinnar hf., úr ábyrgðartryggingu ökutækisins M […] hjá Tryggingamiðstöðinni hf. vegna líkamstjóns sem stefnandi varð fyrir í umferðarslysi þann 26. júlí 2008, þegar bifreið sú sem stefnandi ók, […] með fastanúmerið N, fór upp á rennustein við umferðareyju á Hringbraut á móts við Furumel í Reykjavík, snerist í hálfhring og stöðvaðist á gangbrautargötuvita skammt austan við gatnamót Hringbrautar og Furumels.

Til vara er krafist viðurkenningar á bótaskyldu, skiptri á milli allra stefndu, úr ábyrgðartryggingu ökutækisins M […] hjá Tryggingamiðstöðinni hf. og úr ökumannstryggingu N hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf., vegna líkamstjóns sem stefnandi varð fyrir í umferðarslysi þann 26. júlí 2008, þegar bifreið sú sem stefnandi ók, […] með fastanúmerið N, fór upp á rennustein við umferðareyju á Hringbraut á móts við Furumel í Reykjavík, snerist í hálfhring og stöðvaðist á gangbrautargötuvita skammt austan við gatnamót Hringbrautar og Furumels.

Til þrautavara er krafist viðurkenningar á bótaskyldu stefnda, Sjóvá-Almennra trygginga hf., úr ökumannstryggingu N vegna líkamstjóns, sem stefnandi varð fyrir í umferðarslysi þann 26. júlí 2008, þegar bifreið sú sem stefnandi ók, […] með fastanúmerið N, fór upp á rennustein við umferðareyju á Hringbraut á móts við Furumel í Reykjavík, snerist í hálfhring og stöðvaðist á gangbrautargötuvita skammt austan við gatnamót Hringbrautar og Furumels.

Stefnandi krefst málskostnaðar að mati réttarins, þ.m.t. kostnaðar stefnanda af 25,5% virðisaukaskatti, eða samkvæmt málskostnaðarreikningi. Verði gjafsókn veitt í málinu er þess krafist að dæmdur verði málskostnaður eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. Gjafsóknarleyfi hefur ekki komið fram við meðferð málsins.

Aðalkrafa stefnda, B, var sú upphaflega að máli þessu yrði vísað frá héraðsdómi. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði dómsins 5. júlí 2013. Upphafleg varakrafa, endanleg aðalkrafa stefnda B, er að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Gerð er krafa um málskostnað úr hendi stefnanda að skaðlausu að mati réttarins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi, að teknu tilliti til 25,5% virðisaukaskatts á tildæmdan málskostnað.

Dómkröfur stefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., eru aðallega þær að kröfum stefnanda um viðurkenningu bótaskyldu úr lögboðinni ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar M verði hafnað, en til vara að bótarétturinn verði lækkaður, sbr. 2. og 3. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Í aðalkröfu er krafist málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins, en í varakröfunni er þess krafist að málskostnaður verði felldur niður.

Dómkröfur stefnda Sjóvá-Almennra trygginga hf. eru aðallega um sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins. Til vara er þess krafist að stefndi verði aðeins talinn skaðabótaskyldur að hluta vegna meints líkamstjóns stefnanda og að málskostnaður verði þá felldur niður.

Yfirlit málavaxta og ágreiningsefna

Aðfaranótt 26. júlí 2008 barst lögreglu tilkynning um árekstur sem varð er bifreið stefnda B, M, sem var á hægri akrein á leið austur Hringbraut, var ekið utan í leigubifreiðina O, sem var ekið inn á Hringbraut frá Furumel. Bifreið stefnda B stöðvaðist um 70 metra frá þeim stað þar sem árekstur varð, eftir að hafa hafnað á steinsteyptum vegg við kjallaratröppur fjölbýlishúss við Hringbraut og brotið hann niður. Stefnandi, sem ekið hafði bifreiðinni N samhliða bifreiðinni M á vinstri akrein Hringbrautar frá gatnamótum Hofsvallagötu og Hringbrautar, sveigði bifreiðinni N til vinstri frá M þegar áreksturinn varð, þannig að hún kastaðist upp á rennustein við umferðareyju, á ljósastaur sem brotnaði og stöðvaðist loks á gangbrautargötuvita skammt þar frá. Stefnandi slasaðist í umferðaróhappinu og eru meiðslin samkvæmt læknisvottorði talin hafa valdið 12% læknisfræðilegri örorku eða miska. Í málinu er krafist viðurkenningar á bótaskyldu vegna líkamstjóns stefnanda, en bifreiðin N sem varð fyrir skemmdum er ekki skráð eign stefnanda. Í stefnu er atvikum þannig lýst að ökumaður bifreiðarinnar M hafi reynt á ofsahraða að komast á milli bifreiðanna N og O með þessum afleiðingum. Málsatvik þessi hafa verið rannsökuð af lögreglu og sérfræðingum og um þau hefur ítrekað verið fjallað fyrir dómi.

Bifreiðin N sem stefnandi ók var tryggð lögboðinni slysatryggingu ökumanns hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf., auk húftryggingar. Bifreiðin M sem stefndi B ók var tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda Tryggingamiðstöðinni hf., auk húftryggingar hjá sama félagi.

Stefnandi krafði tryggingafélagið Sjóvá-Almennar tryggingar hf. um greiðslu bóta úr húftryggingu bifreiðarinnar N, sem félagið hafnaði m.a. með þeim rökum að hann hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi í aðdraganda óhappsins og þannig fyrirgert rétti sínum til bóta úr húftryggingunni. Stefnandi skaut málinu til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, sem féllst á sjónarmið tryggingafélagsins í úrskurði 5. ágúst 2009 og hafnaði því að greiðsluskylda væri fyrir hendi.

Ákæra var gefin út á hendur stefnanda 2. febrúar 2010 þar sem honum var gefið að sök að hafa ekið bifreiðinni N umrætt sinn ,,... með að minnsta kosti 67 km hraða á klst., of hratt miðað við aðstæður og almenn hraðatakmörk, við gatnamót að gangbraut í þéttbýli og þar sem hámarkshraði var 50 km...“. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 21. september 2010 var stefnandi sakfelldur fyrir of hraðan akstur og fyrir að hafa sýnt af sér óvarkárni við aksturinn, en dóminum þótti sannað að hann hefði umrætt sinn ekið með fyrrgreindum hraða. Var honum gert að greiða 50.000 króna sekt í ríkissjóð að viðlagðri vararefsingu.

Stefndi B var einnig ákærður 2. febrúar 2010 fyrir háttsemi sína í greint sinn og var hann sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur 5. október 2010 fyrir of hraðan akstur og vanbúnað bifreiðarinnar, en dóminum þótti sannað að hann hefði í umrætt sinn ekið með 86 km hraða á klst. Honum var gert að greiða 70.000 króna sekt í ríkissjóð að viðlagðri vararefsingu og sæta sviptingu ökuréttar í þrjá mánuði.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 17. desember 2012, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 19. september 2013, var stefnda Tryggingamiðstöðin hf. sýknuð af kröfu stefnda B um bætur úr húftryggingu bifreiðarinnar M, þar sem því var slegið föstu að hann hefði ekið allt of hratt miðað við aðstæður og sýnt af sér stórkostlegt gáleysi og með því fyrirgert rétti sínum til bóta úr húftryggingunni.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar 2013 var vísað frá dómi máli sem stefnandi hafði upphaflega höfðað á hendur sömu aðilum og hann stefnir í máli þessu. Var í málinu, eins og í máli þessu, byggt á skaðabótaábyrgð B á slysinu og bótaskyldu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. á grundvelli ábyrgðartryggingar M, en kröfur á hendur Sjóvá-Almennum tryggingum hf. voru reistar á slysatryggingu ökumanns N hjá félaginu. Við meðferð málsins fyrir héraðsdómi féll stefnandi frá kröfum á hendur stefndu B og Tryggingamiðstöðinni hf., en málið var dómtekið á hendur Sjóvá-Almennum hf. Það varð niðurstaða dómsins að ekki yrði tekin afstaða til endanlegrar ábyrgðar stefnda Sjóvá-Almennra trygginga hf. til greiðslu úr slysatryggingu ökumanns til stefnanda, án þess að áður lægi fyrir að hvaða marki bæta bæri tjón stefnanda af hálfu stefnda B og úr ábyrgðartryggingu ökutækisins M hjá stefnda Tryggingamiðstöðinni hf. Var málinu vísað frá dómi þar sem ekki varð lagður dómur á bótaskyldu, svo og hugsanlega sakarskiptingu, án þess að B og Tryggingamiðstöðinni hf. væri stefnt til varnar. Að þeirri niðurstöðu fenginni höfðaði stefnandi mál þetta.

Stefnandi kom fyrir dóm til skýrslugjafar við aðalmeðferð málsins, svo og vitnin D prófessor og E bíltæknimaður, og C lögreglumaður gaf skýrslu í síma.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggi á því að hann hafi orðið fyrir bótaskyldu tjóni þegar hann, sem ökumaður N, hafi misst stjórn á bifreiðinni á Hringbraut í Reykjavík á móts við Furumel með þeim afleiðingum að bifreiðin hafi farið upp á rennustein við umferðareyju, snúist og endað á gangbrautargötuvita nokkru austar. 

Stefnandi byggi aðallega á því að sökin á slysinu liggi hjá stefnda, ökumanni M, sem tryggður sé hjá stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf., sem beri bótaábyrgð á tjóni stefnanda samkvæmt ábyrgðartryggingu ökutækisins M, sbr. XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987. Ökumaður M hafi verið valdur að slysi stefnanda af stórkostlegu gáleysi með ofsaakstri þegar hann hafi reynt á ofsahraða að komast frá hægri á milli bifreiðanna N og O á Hringbraut við Furumel í Reykjavík. Stefnandi hafi ekki átt annars úrkosta en að sveigja til hliðar, til vinstri, til að koma í veg fyrir árekstur við M, með þeim afleiðingum að N hafi farið upp á rennustein á umferðareyju og stöðvast á gangbrautargötuvita skammt þar frá. Atburðarásin hafi verið óvænt og viðbrögð stefnanda verið ósjálfráð. Stefnandi hafi verið grunlaus um aksturslag ökumanns M þar til bifreiðinni hafi skyndilega verið sveigt í veg fyrir N augnabliki fyrir slysið, enda liggi fyrir að M hafi verið á mjög miklum hraða. Meginástæðu slyssins megi rekja til háttsemi stefnda, ökumanns M, en sú bifreið hafi verið ábyrgðartryggð hjá stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf., þegar slysið hafi orðið og hafi tryggingin verið í gildi.

Stefnandi byggi á því til vara að líkamstjón hans skuli bætt úr ökumannstryggingu N hjá stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., verði slysið ekki rakið til ofsaaksturs M. Slys stefnanda virðist hafa orðið án áreksturs við bifreiðina M og útilokað sé að árekstur hafi orðið við bifreiðina O. Stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., sé stefnt til viðurkenningar á bótaskyldu úr ökumannstryggingu N.

Fyrir liggi að bifreiðin N hafi orðið fyrir tjóni í árekstrinum. Í lögregluskýrslu segi að mikið sjáanlegt tjón hafi orðið á N. Í þessu slysi hafi stefnandi hlotið líkamsáverka sem fyrst sé getið um í lögregluskýrslu. Í fyrirliggjandi læknisvottorði slysa- og bráðadeildar LSH 26.4.2011 segi m.a. að stefnandi hafi verið greindur með mar á brjóstkassa og mar á framhandlegg. Í læknisvottorði F heilsugæslulæknis 31.5.2011 segi m.a. að stefnandi hafi leitað þangað 16.3.2009 vegna verkja vinstra megin í baki og vinstri öxl og aftur síðar, 31.8.2009, vegna höfuðverkja, allt afleiðingar sem stefnandi reki til slyssins. Tjón stefnanda hafi ekki verið metið, en stefnandi byggi á því að rekja megi líkamstjón það sem hann nú búi við til umferðarslyssins.

Stefnandi byggi á því að akstur hans þegar slysið hafi orðið hafi verið forsvaranlegur og hafi í engu ógnað umferðaröryggi. Stefnandi verði ekki gerður ábyrgur fyrir vítaverðum ofsaakstri ökumanns M og afleiðingum þess aksturs.

Stefnandi telji að tvær aðskildar rannsóknir D, prófessors við verkfræðideild Háskóla Íslands, annars vegar frá október 2008 á ökuhraða M og hins vegar frá janúar 2009 á ökuhraða N, staðfesti að ökuferill bifreiðanna hafi verið ólíkur að öðru leyti en því að báðum bifreiðunum hafi verið ekið í sömu átt eftir Hringbraut á sama tíma, en þó aldrei samsíða. Bifreiðarnar hafi enga samleið átt og hafi þeim þar af leiðandi ekki verið ekið í kapp eða verið um spyrnuakstur að ræða. Rannsóknin staðfesti að ökuhraði N hafi verið mun minni en M og ekki hafi verið um neinn ofsaakstur að ræða hjá stefnanda. Rannsóknir D styðji ekki ályktun lögreglu um að hraði bifreiðarinnar N hafi verið meiri en hægt hafi verið að sýna fram á með bíltæknirannsókn og hraðaútreikningi og því mun meiri en ökumaður N hafi haldið fram við skýrslutöku, eða 60-65 km/klst. Bifreiðin N hafi stöðvast aðeins fáeinum metrum frá þeim stað þar sem áreksturinn hafi orðið. Rannsókn D á N staðfesti ekki að bifreiðinni N hafi verið ekið langt umfram löglegan hámarkshraða þegar slysið hafi orðið eins og lögreglan álykti. Þó svo að hraði stefnanda hafi verið eitthvað yfir löglegum hámarkshraða í umrætt skipti hafi ekki verið um ofsaakstur að ræða sem svipta eigi stefnanda bótarétti.

Stefnandi andmæli því að það staka skriðfar sem fundist hafi við vettvangsrannsókn lögreglu 7. ágúst 2008 í rennusteini við Hringbraut, 6,5 metrum norðan við þverlínu yfir Hringbraut frá Furumel, geti talist vera eftir N. Fái þau mótmæli stefnanda stuðning í þeirri ályktun lögreglu að ekki sé hægt að slá því föstu að farið sé eftir N. Þá sé þetta ætlaða skriðfar vel fyrir aftan vettvang slyssins og samræmist í engu þeirri atburðarás sem átt hafi sér stað við slysið. Þá séu gerðar alvarlegar athugasemdir við að D prófessor skuli gefa sér það sem forsendu við útreikning á ökuhraða N að þetta tiltekna skriðfar sé eftir N, sérstaklega í ljósi þeirra efasemda sem fram hafi komið hjá lögreglu við vettvangsrannsókn. Sú ranga forsenda leiði til þess að útreiknaður ökuhraði N teljist vera mun meiri en allar aðrar aðstæður á vettvangi gefi til kynna.

Þá hafi stefnandi verið í góðri trú um að ástand bifreiðarinnar N væri í góðu lagi, enda hafi farið fram athugasemdalaus skoðun á bifreiðinni tveimur dögum fyrr, eða 24. júlí 2008, auk þess sem hann hafi hvorki verið eigandi né umráðamaður bifreiðarinnar og því ekki mátt vita betur um meint slæmt ástand N. Ekkert bendi til þess að ætlað ástand N hafi valdið slysinu.

Stefnandi byggi á því að hann hafi orðið fyrir líkamstjóni sem rakið verði til slyssins. Fyrir liggi mat G bæklunarskurðlæknis á læknisfræðilegri örorku stefnanda af völdum slyssins. Þyki matið staðfesta líkamlegt tjón stefnanda og örorka hans hafi verið metin 12%. Þá þyki stefnandi hafa lögvarða hagsmuni af því að fá úr því skorið með dómi hver beri ábyrgð á því tjóni sem hann búi við og á hverjum bótaskyldan vegna þess hvíli.

Krafist sé viðurkenningardóms um bótaskyldu stefnda með vísan til 2. mgr. 25. gr. laga 91/1991. Kröfur stefnanda séu reistar á umferðarlögum nr. 50/1987, einkum XIII. kafla. Sérstaklega sé vísað til 90. gr., sbr. 88. gr., 89. gr., og 92. gr. Einnig sé byggt á almennum ólögfestum reglum íslensks skaðabótaréttar.

Stefnandi styðji kröfur um málskostnað við lög nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað sé reist á lögum nr. 50/1988, sbr. og reglugerð nr. 562/1989. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og sé honum því nauðsyn að fá dóm fyrir þessum skatti úr hendi stefndu.

Málsástæður og lagarök stefnda B

Af hálfu stefnda B sé þess krafist að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda í máli þessu en ekki verði bótakrafa stefnanda túlkuð svo að hún beinist að stefnda B persónulega heldur sé hún takmörkuð við samábyrgð stefnda TM og takmörkuð við ábyrðartryggingu M. Málatilbúnaður stefnanda sé á því reistur að stefndi B hafi ekið ofsalega í umrætt sinn og að hann hafi verið í kappakstri við stefnanda í máli þessu. Á því hafi verið byggt af hálfu stefnanda að stefndi B hafi ekið bifreið sinni utan í hans bifreið. Það sé rangt og ekki verði byggt á því í þessu máli. Verði þá að líta til þess með hvaða hætti rökstuðningi stefnanda sé háttað fyrir sakfellingu á stefnda B. Ekki verði árekstur með bifreiðum þessara aðila og framburður stefnanda sé afar ruglingslegur varðandi tildrög málsins. Hins vegar hafi H vitni lýst því glögglega hvernig aksturslagi hafi verið háttað. Hafi hann afdráttarlaust fullyrt fyrir dómi, að fráleitt sé að um einhvern kappakstur hafi verið að ræða á milli aðila. Þá sé upplýst í málinu að bifreið stefnda B hafi verið gölluð þannig að annað gangstig bifreiðarinnar hafi verið óvirkt. Hafi hann og stefndi B sjálfur borið, að stefnandi hafi sjálfur ekið bifreið sinni á vinstri akrein á undan bifreið stefnda, sem ekið var að hægri akrein. Stefndi B hafi upplýst að þegar hann hafi nálgast gatnamót Furumels hafi bifreiðinni O verið ekið inn á götuna. Það sé í samræmi við lýsingu stefnanda og stefnda B í málinu. Stefndi B lýsi því svo, að þegar bifreiðinni O hafi verið ekið í veg fyrir hann, hafi hann valið það úrræði að sveigja til vinstri til að reyna að koma í veg fyrir árekstur við bifreiðina. Hafi nægjanlegt rými verið fram hjá bifreið stefnanda til þess. Bifreiðin O hafi hins vegar verið komin það inn á akrein, að ógerlegt hafi verið að koma í veg fyrir árekstur og hafi afturhjól bifreiðanna krækst saman við það. Bifreið stefnda B, M, hafi borist áfram, hemla- og sambandslaus í stýri og hafi hún hvergi komið nærri bifreið stefnanda.

Nauðsynlegt sé að líta til aksturslags stefnanda sjálfs. Hann hafi ekið á undan á meiri hraða eftir Hringbrautinni en stefndi. Engu að síður verði lögmanni stefnanda tíðrætt um ofsaakstur stefnda B, sem stefnandi beri enga ábyrgð á. Röksemdafærsla og uppbygging málsins sé með þeim hætti, að ekki verði lögð bótaskylda vegna tjóns stefnanda á B eða vátryggingafélag bifreiðar hans Tryggingamiðstöðina hf. Það sé grundvallarskylda, að ökumanni beri að haga akstri sínum með þeim hætti, að hann eigi að geta stöðvað bifreið sína. Í máli þessu horfi svo við, að stefnandi sjálfur hafi ekið bifreið sinni án þess að reyna að hemla. Hafi hann þó séð til bifreiðarinnar O, sem ekið hafi verið í veg fyrir aksturslínu bifreiðar hans og bifreiðar stefnda B en hemli ekki, heldur velji þá leið að halda akstri áfram. Með því að velja þá leið í stað þess stöðva bifreið sína, sem haldið sé fram að hafi ekki verið á mikilli ferð, þá verði af óhapp og hann aki á staur. Það sé algjörlega þáttur stefnanda og á hans eigin ábyrgð hvernig til hafi tekist. Ekki gangi að varpa þeirri ábyrgð yfir á aðra aðila og alls ekki stefnda B. Líklegast sé að stefnandi hafi truflast við aksturslag O, sem ekið hafi verið inn á aðalbrautina, en þá beri stefnanda að beina kröfum að þeim ökumanni og vátryggingafélagi þeirrar bifreiðar, sem sé Sjóvá-Almennar tryggingar hf.

Ljóst sé, að sönnunarfærsla fyrir bótaskyldu stefnda liggi alfarið hjá stefnanda. Stefndi mótmæli sjónarmiðum og fullyrðingum, sem gefi að líta í stefnu, enda augljósar rangfærslur og missagnir í stefnu. Útilokað sé að sjá, hvernig fari saman fullyrðingar stefnanda um ofsaakstur stefnda B, þegar stefnandi aki sjálfur á undan stefnda alla Hringbrautina að Furumel. Ljóst sé, að aksturslag ökumanna hafi verið með svipuðum hætti. Niðurstaða D á hraðamælingum er ekki marktæk. Sú skýrsla er gerð löngu eftir að umferðaróhappið varð og löngu eftir að öll merki á vettvangi voru horfin. Í niðurstöðu D gefi að líta ályktun á þann veg, að mögulegur lágmarkshraði á bifreið stefnanda N hafi verið 67 km á klst. en mesti mögulegi hámarkshraði 95 km á klst. Í niðurstöðu D gagnvart bifreið stefnda B M, sé mögulegur lágmarkshraði tilgreindur 86 km á klst. en mesti mögulegi hámarkshraði tilgreindur 99 km á klst. Auðvitað blasi við ónákvæmni í ályktun D. Hún sé í reynd ekki marktæk að öðru leyti en því, að hraði sem mælist 70 til 90 km á klst. á tveggja akreina akbraut sé ekki ofsaakstur í skilningi umferðarlaga eða stórkostlegt gáleysi. Það sé svo, að þó að leyfilegur hámarkshraði á Hringbraut sé 50 km á klst. sé almennur hraði á meginumferðarstraum á bilinu 80 til 90 km á klst. sem teljist í reynd vera eðlilegur hraði á umræddri götu. Í röksemdafærslu stefnanda sé því haldið fram, að um ofsaakstur stefnda B hafi verið að tefla. Með engum hætti sé reynt að færa sönnur á þá fullyrðingu eða leiða rök að því, hvernig hinn meinti ofsaakstur geti verið orsök þess, að stefnandi hafi ekið á staur. Stefndi B hafi upplýst, að árekstur á milli bifreiðanna O og bifreiðar hans hafi átt sér stað eftir að hann hafi verið kominn fram fyrir bifreið stefnanda eins og stefnandi hafi sjálfur haldið fram. Stefnandi sveigi ekki frá bifreið stefnda heldur sé bifreið stefnda hægra megin á akreininni fyrir aftan bifreið stefnanda. Auðvitað blasi við, að truflun stefnanda á akstri komi frá ökumanni O, þegar bifreið hans sé ekið inn á götuna með ógnandi hætti. Hefði bifreiðinni M verið ekið á bifreið stefnanda háttaði allt öðru vísi til í máli þessu. Þá sé áleitin spurning, af hverju stefnandi hafi ekki getað stöðvað bifreið sína við innkomu O inn á Hringbraut heldur aki viðstöðulaust á götumannvirki utan akbrautar. Það sé vegna ofsahraða stefnanda sjálfs eða eigin gáleysis. Stefnandi hljóti að bera ábyrgð á eigin aksturslagi og verði að réttlæta sinn þátt í tjóni. Slíkum rökum sé ekki til að dreifa í málinu.

Af hálfu stefnda B sé því mótmælt sem ósönnuðu og röngu að hann beri einhverja ábyrgð á aksturslagi stefnanda sjálfs í umrætt sinn. Stefndi telji ljóst að hann verði ekki dreginn inn í ágreining vátryggingafélaga um ábyrgðarskuldbindingar og ábyrgð á vátryggingaratburðum eins og hér hátti til. Athygli verði þó að vekja á því, hvernig saman fari hagsmunir vátryggingafélaga þeirra er að málinu koma, en við blasi markmið félaganna að komast hjá því að greiða bætur, hvort heldur sé úr ábyrgðartryggingu ökutækja, ökumannstryggingu eða húftryggingu. Ljóst sé að málshöfðun stefnanda sé tilefnislaus.

Af hálfu stefnda sé vísað til umferðarlaga nr. 50/1987. Þá sé vísað til meginreglna skaðabótaréttarins um að aðili verði að sanna tjón sitt og sanna sök með því að upplýsa orsök umrædds vátryggingaatburðar. Vísað sé til laga nr. 91/1991 varðandi málskostnað, sbr. 1. mgr. 130. gr.og 131. gr. s.l. Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað sé reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt en stefndi sé eigi virðisaukaskattskyldur og beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir umræddum skatti úr hendi stefnanda.

Málsástæður og lagarök stefnda Tryggingamiðstöðvarinnar hf.

Óumdeilt sé að lögbundin ábyrgðartrygging bifreiðar samkvæmt 91. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 hafi verið í gildi hjá stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf. (TM hf.) vegna bifreiðarinnar M þegar óhappið hafi orðið.

Af hálfu stefnanda sé á því byggt gagnvart stefnda TM hf. að stefndi B hafi valdið óhappi þessu af stórkostlegu gáleysi með ofsaakstri þegar hann hafi reynt að komast á milli bifreiðanna N og O á Hringbraut á móts við Furumel í Reykjavík. Að sögn stefnanda hafi viðbrögð hans verið þau að sveigja undan bifreiðinni M til að koma í veg fyrir árekstur og við það hafi hann misst stjórn á bifreið sinni, sem lent hafi við það á ljósastaur, rifið síðan niður girðingu og staðnæmst loks á gangbrautarvita, sem þarna sé. Bifreiðin N hafi stórskemmst, auk þess sem stefnandi hafi orðið fyrir líkamstjóni í umrætt sinn.

Í fyrstu bókun í tölvukerfi lögreglu um slysið eftir símtal við tilkynnanda þess segi m.a. svo: tilkynnir um umferðaslys, heyrði fyrst mikil spyrnuhljóð og síðan hátt krasshljóð. Þetta skýri það að frá upphafi hafi legið fyrir rökstuddur grunur um kappakstur eða ofsaakstur í aðdraganda slyssins.

Vegna þessa hafi verið framkvæmd ítarleg rannsókn af hálfu rannsóknardeildar lögreglunnar, sem m.a. hafi falist í nákvæmri skoðun vettvangs, skoðun ökutækja þeirra er hlut hafi átt að máli og fjöldi ljósmynda hafi verið tekinn í sambandi við það.

Aðilar hafi verið yfirheyrðir nokkrum sinnum og einnig hafi lögreglan leitað til utanaðkomandi aðila við rannsókn, þeirra E hjá Gnostika ehf. vegna bíltæknirannsókna og D prófessors, sem gert hafi hraðaútreikninga vegna slyssins. Rannsókninni hafi af hálfu lögreglu stýrt C rannsóknarlögreglumaður og í niðurlagi rannsóknarinnar taki hann saman í stuttu máli þær ályktanir sem hann dragi af henni, svohljóðandi:

Ég tel að hraði bifreiðanna [N] og [M] hafi verið meiri en hægt var að sýna fram á með bíltæknirannsókn og hraðaútreikningum og því mun meiri en ökumenn bifreiðanna hafa viljað viðurkenna við skýrslutökur.

Byggi ég ályktun mína á því að þar sem vettvangsrannsókn rannsóknardeildar umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fór ekki fram fyrr enn 7. ágúst (en upphaf málsins var aðfararnótt 26. júlí, eða 13 dögum fyrr) höfðu mikilvæg ummerki á vettvangi spillst eða afmáðst, s.s. skriðför og hemlaför á og við veg, sem hefðu haft veruleg áhrif á endanlega niðurstöðu hraðaútreiknings til hækkunar.

Vettvangurinn var svo stór að ég tel ekki vafa leika á að bifreiðunum var ekið langt umfram lögleyfðan hámarkshraða áður en svona fór.

Framburður ökumanna bifreiðanna [N] og [M] er ótrúverðugur, hvað hraða varðar og málsatvik önnur, ber framburð þeirra ekki saman við gögn málsins.

Skýrara geti þetta tæpast verið. Það sé niðurstaða sérfræðinga á þessu sviði eftir ítarlega rannsókn þar sem málið hafi verið skoðað frá öllum hliðum að um ofsaakstur hafi verið að ræða hjá ökumönnum N og M í umrætt sinn. Í frumtilkynningu vegna slyssins sé talað um mikil spyrnuhljóð og síðan hátt krasshljóð.

Vitnið I, ökumaður leigubifreiðarinnar O, hafi litið eftir umferð frá vinstri þegar hann hugðist aka af Furumel inn á Hringbrautina, en enga séð og svo ekki vitað fyrr enn M þeysist vinstra megin fram hjá honum á ofsahraða og stöðvist við Hringbraut 41, tæpum 70 metrum frá árekstursstað og brjóti þar steyptan vegg við kjallaratröppur, eftir að hafa snúist í hálfhring. Farþegar í leigubifreiðinni þeir J, K, L og P, hafi ekki mikið fram að færa í málinu, enda undir áhrifum áfengis í umrætt sinn, en það sem eftir þeim sé haft styðji þó tvímælalaust niðurstöðu rannsóknar lögreglu um ofsaakstur.

K segi aðspurður: Bara að þetta voru tveir sportbílar og mér finnst augljóst að þeir voru að spyrna þarna. L segi: Þá virtist mér eins og leigubíllinn æki inn á eitthvað sem sem virtist vera eins og spyrnukeppni tveggja […] bíla. Alla vega virtist mér bílarnir vera á óeðlilega miklum hraða. P segi um fjarlægðina í M og N: Ég get svo sem ekkert fullyrt um hvað það var langt frá í metrum , en mér fannst þau svo langt í burtu að óhætt væri að aka inn á Hringbrautina.

Að auki liggi fyrir að ökumenn M og N séu síbrotamenn í umferðinni. Stefnandi hafi t.d. þegar rannsókn hafi farið fram verið kærður í 32 skipti fyrir 41 brot á umferðarlögum, þar af 17 sinnum vegna hraðaksturs.

Í 2. og 3. mgr. 88. gr. umferðalaga nr. 50/1987 séu heimildir til þess að lækka bætur eða fella þær niður hafi sá sem hlut eigi að máli verið meðvaldur að tjóninu af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi að því er varði líkamstjón (2. mgr.), en ásetningi eða gáleysi varðandi munatjón (3. mgr.).

Þessi ákvæði umferðalaganna eigi einmitt við hér og stefnandi hafi í umrætt sinn hagað akstri sínum á þann veg að það teljist stórkostlegt gáleysi í skilningi lagaákvæðisins og niðurfelling bóta því fyllilega réttmæt, eins og hér standi á. Nægilega sé í ljós leitt að um ofsaakstur hafi verið að ræða í umrætt sinn og að auki bendi allt til þess að ökumenn M og N hafi verið í kappakstri og sé það ekki stórkostlegt gáleysi þá sé vandséð hvenær sú sé raunin.

Þá liggi einnig fyrir að bifreið stefnanda N hafi samkvæmt niðurstöðum bíltæknirannsóknar Gnostika ehf. 7. september 2008, verið vanbúin og ekki í notkunarhæfu ástandi vegna verulegs slits í stýrisenda vinstra megin að framan, vegna ástands hemlabúnaðar og vegna ástands hjólbarðans vinstra megin að aftan.

Samkvæmt 2. mgr. 59. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, skuli ökumaður sérstaklega gæta þess að stýrisbúnaður, hemlar o.fl. séu í lögmæltu ástandi, sem ekki hafi verið raunin hér og ábyrgð stefnanda hvað þetta varði sé augljós.

Um frekari röksemdir vísist sérstaklega til hinnar ítarlegu rannsóknar sem fjöldi lögreglumanna og annarra fagmanna hafi komið að, bíltæknirannsóknar Gnostika ehf. í september 2008 og hraðarannsóknar D prófessors 13. janúar 2009.

Athugsemdir við málatilbúnað stefnanda

Stefnandi  mótmæli niðurstöðum rannsóknar lögreglu um meintan hraðakstur. Hann haldi því fram að niðurstöður rannsóknar lögreglu um að ökuhraði hafi verið annar og meiri en rannsókn D prófessors segi til um eigi a.m.k. ekki við hann. Því til stuðnings bendi hann á að samkvæmt niðurstöðum prófessorsins hafi hraði bifreiðanna á árekstursaugnablikinu verði mismunandi og M verið á mun meir hraða en hann. Vakin sé athygli á eftirfarandi staðreyndum í málinu.

Óumdeilt sé og ítrekað viðurkennt af stefnanda að báðar bifreiðarnar hafi verið kyrrstæðar og samhliða á Hringbraut á umferðarljósunum vestan við Hofsvallagötu og farið samtímis af stað. Ökuferð beggja hafi svo lokið samtímis nokkrum sekúndum síðar við gatnamót Furumels og Hringbrautar, þannig að auðvitað hafi bifreiðarnar verið þarna báðar samtímis í ofsaakstri þó afstaðan milli þeirra kunni eitthvað að hafa verið mismunandi á leiðinni.

Kjarni málsins hvað þetta varði sé einnig sá að hvað sem líði meintum hraða M þá reiknist líklegur hraði bifreiðar stefnanda N a.m.k. 80 km á klst., eða 60% yfir lögleyfðum hámarkshraða þarna, sem hvernig sem á allt er litið hljóti að teljast stórkostlegt gáleysi af hálfu stefnanda. Fyrir svo utan það að meiri líkur en minni hljóti að teljast vera fyrir því að hraðinn hafi þvert á móti verið meiri eða a.m.k. 95 km á klst. svo vísað sé til niðurstöðu prófessorsins.

Engu breyti hér þó að slysið hafi orðið um nótt og því færri á ferli en venjulega, eins og haldið sé fram í málatilbúnaði stefnanda, þar sem fyrir liggi að auk bifreiðanna M og N hafi a.m.k. ein önnur bifreið verið við gatnamót Hringbrautar og Hofsvallagötu og þá megi alltaf búast við umferð frá hliðargötum eins og þarna hafi orðið raunin.

Ljóst megi vera að stefnandi og ökumaður M hafi engu skeytt um öryggi annarra vegfaranda, sem þarna kynnu að vera á ferð og það hafi ekki verið þeim að þakka að afleiðingar aksturslags þeirra hafi ekki orðið mun alvarlegri en raun beri vitni. Myrkur hafi verið og rigning, sem séu óhagstæð akstursskilyrði, en leyfður hámarkshraði miðist við bestu akstursskilyrði sem augljóslega hafi ekki verið þarna. Óhappið hafi orðið við gatnamót og merkta gangbraut og því enn meiri ástæða til þess að sýna varúð.

Hvað varði stöðvunarstað bifreiðar stefnanda eftir óhappið sé bent á að bifreið hans lendi á ljósastaur, felli hann, snúist og fljúgi síðan algerlega stjórnlaus þvert yfir akbrautina, og rjúfi á því flugi niður rammgerða girðingu sem þarna sé boltuð niður og stöðvist loks svo á gangbrautarvita og hafi gereyðilagt hann.

Miðað við fyrirliggjandi ljósmyndir sé bifreiðin nánast ónýt og það verði því ekkert fullyrt um það hvar ferðalagið hefði endað ef ekki hefði verið til að dreifa umræddum hindrunum til að draga úr ferðinni.

Engu breyti heldur um niðurstöður rannsóknarmanna athugasemdir og ályktanir stefnanda í stefnunni varðandi skriðfar eftir bifreið hans 6,5 m fyrir norðan þverlínu yfir Hringbraut og áhrif þess á niðurstöður rannsóknarinnar, en ekki verði séð að þær séu á haldbærum rökum reistar og sé þeim mótmælt.

Að því er varði saknæman vanbúnað bifreiðarinnar, þá vísi stefnandi til þess að hann hafi fengið athugasemdalausa skoðun á bifreiðina tveim dögum fyrir óhappið eða þann 24. júlí 2008 hjá Frumherja hf. Eins einkennilegt og það nú kann að vera að athugasemdalaus skoðun hafi fengist á þessum tíma þá breyti það þó engu varðandi ábyrgð stefnanda á vanbúnaði N. Kjarni málsins sé sá að rannsókn hlutlauss aðila, sem ekki verði vefengd, hafi leitt í ljós verulegan vanbúnað bifreiðarinnar og meint grandleysi stefnanda, sem þó hljóti að verða að draga í efa, skipti hér ekki máli.

Þá megi einnig ljóst vera að hvað sem líði skráðum eiganda og eða umráðamanni N, þá beri gögn málsins það með sér á ótvíræðan hátt að það hafi verið stefnandi sem hafi verið hinn raunverulegi umráðamaður N og borið bæði sem slíkur og sem ökumaður í umrætt sinn ábyrgð á búnaði hennar, sbr. 59. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987.

Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum hafi komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi í umrætt sinn og þannig fyrirgert rétti sínum til bóta. Framan rakið eigi að mati stefnda TM hf. að leiða til þeirrar niðurstöðu að fallast beri á aðalkröfu hans um sýknu.

Varakrafa um lækkun lúti annars vegar að því að verði ekki fallist á niðurfellingu bóta stefnanda til handa vegna stórkostlegs gáleysis samkvæmt 2. mgr. 88. gr. umferðalaga þá eigi háttsemi hans í umrætt sinn a.m.k. að leiða til lækkunar bótanna.

Hins vegar lúti lækkunarkrafan að 3. mgr. 88. gr. umferðalaga, þ.e. að ef ekki verður fallist á stórkostlegt gáleysi, þá hljóti hér a.m.k. að vera um að ræða einfalt gáleysi, sem þá ætti að leiða til lækkunar eða niðurfellingar bóta vegna munatjónsins, þ.e. tjóns á bifreiðinni N.

Málsástæður og lagarök stefnda Sjóvá-Almennra trygginga hf.

Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., byggi á því að stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi við aksturinn og verði slys stefnanda því alfarið rakið til háttsemi hans. Jafnframt sé byggt á því að bifreið stefnanda hafi ekki verið í notkunarhæfu ástandi vegna ásigkomulags hemla og hjólbarða. Framangreint leiði til niðurfellingar bótaréttar stefnanda úr lögboðinni ökumannstryggingu.

Ákvæði vátryggingarskilmála um stórkostlegt gáleysi og ástand hins vátryggða.

Í 90. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004 segi að hafi vátryggður í öðrum vátryggingum en líftryggingum valdið því af stórkostlegu gáleysi að vátryggingaratburður hafi orðið eða afleiðingar hans orðið meiri en ella hefðu orðið megi lækka eða fella niður ábyrgð félagsins. Hið sama eigi við hafi vátryggður af stórkostlegu gáleysi valdið því að vátryggingaratburður hafi orðið með því að hlíta ekki varúðarreglum. Þá segi m.a. í 2. mgr. 27. gr. sömu laga að hafi vátryggður í öðrum vátryggingum en ábyrgðartryggingum, með háttsemi sem telja verði stórkostlegt gáleysi, valdið vátryggingaratburði losni félagið úr ábyrgð í heild eða að hluta. Loks segi í 26. gr. laganna að vátryggingarfélag geti gert fyrirvara um það að það skuli laust úr ábyrgð sé varúðarreglum ekki fylgt.

Í vátryggingarskilmálum stefnda, um lögboðna ábyrgðartryggingu ökumanns, sé í 6. gr. vísað til 2. mgr. 27. og 1. mgr. 90. laga nr. 30/2004 um lækkun eða niðurfellingu á ábyrgð félagsins vegna þess að vátryggður valdi slysi af stórkostlegu gáleysi eða afleiðingar þess verði meiri en ella. Í 7. gr. skilmálanna sé jafnframt vísað til 26. gr. laganna um að hafi vátryggður vanrækt að hlíta varúðarreglum megi lækka eða fella niður ábyrgð vátryggingarfélags.

Stefnandi sýndi af sér stórkostlegt gáleysi.

Stefndi byggi á því að stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að hafa í umrætt sinn ekið bifreið sinni langt umfram lögleyfðan hámarkshraða þannig að hann hafi misst stjórn á bifreiðinni með áður röktum afleiðingum. Slíkt leiði til niðurfellingar á bótaábyrgð stefnanda, sbr. ákvæði vátryggingarskilmála stefnda. Vísað sé til niðurstöðu rannsóknardeildar lögreglu um að bifreið stefnanda hafi verið ekið langt umfram löglegan hámarkshraða áður en slysið hafi orðið. Lögleyfður hámarkshraði á slysstað hafi verið 50 km/klst. en samkvæmt útreikningi verkfræðings hafi líklegur hraði bifreiðarinnar verið 80 km/klst. en mögulegur hámarkshraði 95 km./klst. Í niðurstöðu lögreglu sé byggt á því að hraðinn hafi verið enn meiri sem skýrist af því að ýmis ummerki eftir slysið hefðu afmáðst þegar hraðarannsókn hafi farið fram. Allt að einu sé ökuhraði langt umfram lögleyfðan hámarkshraða og því um stórfellt gáleysi að ræða hjá stefnanda í umrætt sinn. Aðstæður hafi verið með þeim hætti að eðlilegt hafi verið að sýna sérstaka aðgát en akbrautin hafi verið blaut vegna rigningar. Þegar slysið hafi verið tilkynnt til lögreglu hafi verið greint frá því að hugsanlega hefði verið um kappakstur milli bifreiða að ræða. Bendi önnur gögn málsins einnig til að stefnandi og meðstefndi, B, hafi verið í spyrnukeppni þegar slysið hafi orðið. Um sé að ræða vítaverða háttsemi sem leiði til niðurfellingar bótaábyrgðar.

Stefndi vísi til þess að málatilbúnaður stefnanda staðfesti í raun að hann hafi keyrt langt umfram lögleyfðan ökuhraða. Í stefnu sé byggt á því að meðstefndi, B, ökumaður M, hafi verið valdur að slysinu með ofsaakstri með því að hafa reynt að komast á milli bifreiðanna N og O. Af þessu sjáist berlega að stefnandi byggi á því að hafa ekið á undan bifreiðinni M. Það sé athyglisvert í ljósi þess að báðir ökumennirnir hafi ítrekað greint frá því fyrir lögreglu að þeir hafi samtímis beðið á rauðu ljósi við gatnamót Hringbrautar og Hofsvallagötu rétt áður en slysið hafi orðið. Stefndi telji að þessi málatilbúnaður sýni með nær óyggjandi hætti að í umrætt sinn hafi stefnandi ekið á meiri hraða heldur en meðstefndi, B, ökumaður bifreiðarinnar M. Bent sé á framburð ökumanns leigubifreiðarinnar, O, en hann hafi greint frá því að hann hefði hvorki séð bifreiðina M né N þegar hann hafi beygt inn á Hringbraut af Furumel. Bendi það ótvírætt til þess að báðum bifreiðunum hafi verið ekið samhliða á ofsahraða frá umferðarljósunum við gatnamót Hringbrautar og Hofsvallagötu að gatnamótunum við Furumel.

Stefndi byggi einnig á því að framburður stefnanda á tildrögum slyssins hafi allt frá fyrstu lögregluskýrslu verið mjög ótrúverðugur. Í upphafi virðist stefnandi hafa talið að slysið hefði orðið með þeim hætti að leigubifreiðin, O, hafi rekist á hægra horn bifreiðarinnar. Síðar hafi stefnandi talið að bifreiðin M hefði rekist á bifreiðina með þeim afleiðingum að hann hafi misst stjórn á henni.

Ljóst sé hins vegar að gögn málsins bendi ekki til þess að þessi framburður sé réttur enda séu engin ummerki á bifreiðunum sem stutt geti þessa frásögn. Stefndi árétti að sé bifreið ekið utan í aftanverða hægri hlið annarrar ætti sú síðarnefnda að leita til hægri en ekki til vinstri. Framburður stefnanda fáist því með engu móti staðist. Stefndi telji ljóst að ástæða þess að stefnandi hafi misst stjórn á bifreið sinni hafi fyrst og fremst verið sú að hann hafi ekið bifreið sinni á ofsahraða eftir Hringbraut með þeim afleiðingum að hann missti stjórn á bifreiðinni. Ekkert í gögnum málsins styðji þá fullyrðingu að annar bíll hafi rekist á bifreiðina.

Af hálfu stefnda sé byggt á því að vettvangur slyssins að því er varði bifreiðina N sýni svo ekki verði um villst að stefnandi hafi ekið bifreið sinni á ofsahraða. Jafnframt sýni hinar miklu skemmdir á bifreiðinni að henni hafi verið ekið á slíkum hraða þegar slysið hafi orðið. Staðhæfingum í stefnu um að vettvangur slyssins sýni að hraði N hafi ekki verið mikill í umrætt sinn sé mótmælt sem röngum.

Bifreið ekki í lögmæltu ásigkomulagi.

Í 26. gr. vátryggingarlaga. 30/2004 segi að vátryggingarfélag geti gert fyrirvara um að það skuli laust úr ábyrgð sé varúðarreglum ekki fylgt. Í vátryggingarskilmálum stefnda séu gerðir slíkir fyrirvarar sé ástand ökutækja ekki í lögmæltu ástandi eða fullkomnu lagi. Þá komi fram í 2. mgr. 59. gr. umferðarlaga nr. 95/1987 að ökumaður skuli gæta þess að ökutæki sé í góðu ástandi. Sérstaklega skuli gætt að því að stýrisbúnaður og hemlar séu í lögmæltu ástandi og virki örugglega.

Í niðurstöðu bíltæknirannsóknar á bifreið stefnanda komi fram að á slysdegi hafi ökutækið ekki verið í notkunarhæfu ástandi vegna verulegs slits í stýrisenda vinstra megin að framan, vegna ástands hemlabúnaðar og vegna ástands hjólbarðans vinstra megin að aftan. Af þessu megi ljóst vera að bifreiðin hafi verið langt frá því að vera í lögmæltu ásigkomulagi og kunni það að hafa haft meðvirkandi áhrif á að slysið hafi orðið. Leiði það ástand bifreiðarinnar til niðurfellingar á bótaskyldu stefnda úr lögboðinni ökumannstryggingu vegna meints líkamstjóns. Engu skipti í því sambandi þótt umrædd bifreið hafi komist í gegnum skoðun skömmu fyrir slys, sú sjálfstæða skylda hvíli á ökumanni að gæta að því að bifreið sem hann aki sé í góðu ástandi.

Hér verði einnig að benda á að gögn málsins beri það með sér að stefnandi hafi verið hinn raunverulegi umráðamaður bifreiðarinnar N og borið sem slíkum að gæta að því að bifreiðin væri í lögmæltu ástandi. Í því sambandi sé bent á að stefnandi hafi höfðað árið 2009 dómsmál þar sem hann hafi byggt á því að hann væri eigandi bifreiðarinnar. Í ljósi þess sé það mjög ótrúverðugt þegar stefnandi haldi því nú fram að hann hafi ekki einu sinni verið umráðamaður bifreiðarinnar.

Háttsemi stefnda B, ökumanns M

Stefndi taki undir þau sjónarmið í stefnu að bifreiðinni M hafi í umrætt sinn verið ekið langt yfir lögleyfðum hámarkshraða. Verði talið að slysið hafi ekki átt sér stað vegna aksturslags stefnanda sjálfs sé byggt á því að stefndi B hafi valdið slysinu og beri því ábyrgð á tjóni stefnanda. Í þessu sambandi sé minnt á að í 5. mgr. 92. gr. umferðarlaga segi að eigi tjónþoli rétt á skaðabótum vegna slyssins eftir lögum þessum eða öðrum skaðabótareglum lækki bætur úr þessari vátryggingu sem því nemi. Af þessu leiði að stefnandi eigi ekki rétt á bótum úr slysatryggingu bifreiðar N nema sýnt sé að hann eigi ekki fulla skaðabótakröfu á hendur stefnda, B, og eftir atvikum úr ábyrgðartryggingu ökutækis hans, M.

Varakrafa um bótaskyldu að hluta

Fari svo ólíklega að ekki verði fallist á sýknukröfu stefnda, Sjóvár-Almennra trygginga hf., geri félagið þá kröfu á það verði einungis talið bótaskylt að hluta vegna meints líkamstjóns og vísist þar til eigin sakar stefnanda og eftir atvikum háttsemi ökumanns bifreiðarinnar M. Um lækkun bóta vegna stórkostlegs gáleysis vátryggðs og brota á varúðarreglum vísist í vátryggingarskilmála vegna lögboðinnar slysatryggingar ökumanns, sbr. einnig 26. gr., 2. mgr. 27. gr. og 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004.

Um lagarök vísi stefndi einkum til reglna skaðabótaréttar um sönnun tjóns og sönnunarbyrði, stórkostlegt gáleysi og eigin sök tjónþola. Þá vísi stefndi til vátryggingarskilmála vegna slysatryggingar ökumanns, sérstaklega 6. og 7. gr. Loks sé vísað til laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Um málskostnað sé vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Í máli þessu krefst stefnandi viðurkenningar á bótaskyldu stefndu vegna líkamstjóns sem hann hlaut í umferðaróhappi. Með framlögðu læknisvottorði þykir stefnandi hafa sýnt fram á að hann hafi slasast við umferðaróhappið og eigi því lögvarða hagsmuni af því að fá viðurkenningardóm um það hvort bótaábyrgð af slysinu verði lögð á þá aðila sem hann hefur stefnt í málinu. Stefnandi byggir á því að sökin á slysinu liggi hjá stefnda B.

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 126/2013 kemur fram að málsatvik séu þau að aðfaranótt 26. júlí 2008 barst lögreglu tilkynning um árekstur sem orðið hafði er bifreið stefnda B M, sem var á hægri akrein á leið austur Hringbraut, var ekið utan í leigubifreiðina O, sem var ekið inn á Hringbraut frá Furumel. Jafnframt að bifreiðinni N, sem stefnandi ók, hafði verið ekið samhliða bifreiðinni M á vinstri akrein frá gatnamótum Hofsvallagötu og Hringbrautar. Við árekstur bifreiðanna M og O hafi bifreiðin N kastast fyrst á ljósastaur og síðan á gangbrautarvita sem brotnaði við það.

Dómur hefur fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem í honum greinir þar til það gagnstæða er sannað, sbr. 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verður því, enda hefur hið gagnstæða ekki verið sannað, að telja að bifreiðunum M og N hafi verið ekið samhliða frá umferðarljósum á gatnamótum Hofsvallagötu og Hringbrautar og að bifreiðin N hafi kastast út af vinstri akrein Hringbrautar í greint sinn, við árekstur bifreiðanna M og O.

Stefnandi hefur fyrir dóminum lýst atvikum þannig að hann hafi á akstri sínum séð ljós bifreiðarinnar M í baksýnisspegli og því næst heyrt dynk við árekstur M og O við afturhluta hægri hliðar bifreiðarinnar sem hann ók. Þessar lýsingar geta einungis samrýmst því að stefnandi hafi ekið bifreiðinni N ívið hraðar en stefndi B ók bifreiðinni M frá umferðarljósunum.

Stefnandi og B hafa báðir verðið sakfelldir fyrir hraðakstur í greint sinn. Í sakamálunum var í báðum tilvikum sakfellt fyrir þau brot sem þeim var gefið að sök í ákæru, sem í tilviki stefnanda var hraðakstur á 67 km hraða á klukkustund, en í tilviki stefnda B hraðakstur á 86 km hraða á klukkustund. Stefnandi hefur fyrir dóminum einnig haldið því fram að hann hafi ekki ekið hraðar en hann var ákærður og sakfelldur fyrir. Það fær ekki samræmst þeim framburði hans um afstöðu bifreiðanna þegar óhappið varð, en sá framburður leiðir samkvæmt framansögðu til þeirrar niðurstöðu að hann hafi ekið ívið hraðar en stefndi B. Með vísun til sönnunarreglu 1. mgr. 50. gr. laga um meðferð einkamála verður að taka mið af þeirri lýsingu sem stefnanda er óhagstæðari um ökuhraðann, enda samræmist hún betur öðru því sem fram er komið í málinu um ökuhraða stefnanda.

Í málinu hefur ekki annað komið fram sem veikt getur þessa niðurstöðu en ökuhraðarannsókn, þar sem sett er fram líkan af atburðarás og reiknaður út ætlaður hraði miðað við þær forsendur. Niðurstaðan var að stefnandi hefði að lágmarki ekið á 67 km hraða á klukkustund. Í greinargerð stefnda B er niðurstaða rannsóknarinnar ekki talin marktæk, þar sem skýrslan hafi verið gerð löngu eftir slysið og löngu eftir að öll merki á vettvangi hefðu verið horfin. Í stefnu er á því byggt að rannsóknin staðfesti að ökuferill bifreiðanna hafi verið ólíkur, en jafnframt er því haldið fram að útreikningar rannsóknarinnar séu byggðir á rangri forsendu. Sönnunargildi rannsóknarinnar hefur því einnig verið dregið í efa af hálfu stefnanda og var það áréttað við aðalmeðferð málsins af lögmanni stefnanda, þegar fram komu misvísandi skýringar vitna um það hvar fyrsta skriðfar og þar með upphaf skriðs bifreiðarinnar út af götunni hafi verið samkvæmt rannsókninni og munaði þar nokkru. Fyrir liggur að rannsókn var ekki gerð á vettvangi fyrr en 7. ágúst 2008, 13 dögum eftir að slysið varð og því er sennilegt að einhver vegsummerki hafi á þeim tíma horfið eða önnur bæst við af öðrum orsökum. Um þetta segir í héraðsdómi í sakamálinu gegn stefnanda að leitað hafi verið að ummerkjum á götunni og við hana. Hafi sú leit borið misjafnan árangur enda búið að lagfæra sumt en annað orðið máð. Að öllu því virtu sem fram er komið í málinu og málatilbúnaði aðila verður ekki byggt á niðurstöðum rannsóknarinnar um ökuhraða stefnanda. Þykir mega slá því föstu að ökuhraði bifreiðarinnar N hafi ekki verið minni en ökuhraði bifreiðarinnar M þegar slysið varð.

Fram kemur í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 126/2013 að hámarkshraði á þeim stað sem fyrrgreindur árekstur varð er 50 kílómetrar á klukkustund, sbr. 1. mgr. 37. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laganna skal ökuhraði jafnan miðaður við aðstæður með sérstöku tilliti til öryggis annarra. Þá skal ökumaður miða hraðann við gerð og ástand vegar, ástand ökutækis og hleðslu, svo og umferðaraðstæður að öðru leyti. Sérstök aðgæsluskylda hvílir á ökumanni að aka nægilega hægt við aðstæður í þéttbýli, við vegamót og í beygjum, þegar útsýn er takmörkuð vegna birtu eða veðurs, áður en komið er að gangbraut og þegar vegur er blautur eða háll, sbr. a-, b-, c-, d- og h-liði 2. mgr. sömu lagagreinar. Fram er komið að þar sem áreksturinn varð eru gatnamót og gangbraut í næsta nágrenni við þau. Í dómi Hæstaréttar segir að bifreiðinni M hafi verið ekið í þéttbýli á fjölfarinni umferðargötu, á blautum vegi um nótt og í rigningu. Í dóminum er því slegið föstu að bifreiðinni M hafi verið ekið allt of hratt miðað við aðstæður og andstætt tilvitnuðum ákvæðum umferðarlaga. Með akstrinum hafi áfrýjandi málsins, stefndi B, sýnt af sér stórkostlegt gáleysi og hafi því fyrirgert rétti sínum til bóta úr húftryggingu stefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf.

Allar þessar sömu aðstæður og lýsingar, sem stefnandi nefnir í stefnu vítaverðan ofsaakstur, eiga við um hegðun stefnanda sjálfs í greint sinn, að því viðbættu að stefnandi telst hafa ekið ívið hraðar en stefndi B. Stefnandi hefur þegar verið dæmdur í sakamáli fyrir að hafa þá brotið gegn flestum framangreindum ákvæðum umferðarlaga, auk brots gegn varúðarreglu 1. mgr. 4. gr. laganna. Enn fremur er upplýst með bíltæknirannsókn, sem staðfest var fyrir dóminum, að bifreiðin N sem stefnandi ók var vanbúin bæði að því er varðar hemlabúnað og stýri. Með akstri bifreiðarinnar í því ástandi gætti stefnandi ekki að skyldum sínum samkvæmt 3. mgr. 59. gr. umferðarlaga.

Stefnandi telur að slys hans verði rakið til árekstursins sem ökumaður M, stefndi B, olli við bifreiðina O með stórkostlegu gáleysi sínu. Á því beri hann sakarábyrgð samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar og 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga. Samkvæmt 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga má lækka eða fella niður bætur vegna líkamstjóns ef sá sem varð fyrir tjóni var meðvaldur að tjóninu af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Stefndu telja að stefnandi hafi  fyrirgert rétti sínum til bóta með hegðun sinni, stórkostlegu gáleysi og hraðakstri.

Af öllu því sem fram er komið í málinu verður að telja að meginorsök þess að stefnandi missti stjórn á bifreiðinni N, við árekstur bifreiðanna M og O við hægri afturhluta bifreiðarinnar sem stefnandi ók, sé hraðakstur hans sjálfs og aðgæsluleysi við framangreindar aðstæður, sbr. fyrrnefndan dóm Hæstaréttar. Bætur vegna líkamstjóns stefnanda verða því ekki sóttar til eiganda eða ábyrgðartryggjanda bifreiðarinnar M og verður aðalkröfu stefnanda því hafnað. Af sömu ástæðu kemur ekki til álita að fallast á varakröfu stefnanda um óskipta ábyrgð allra stefndu og verður henni því einnig hafnað.

Af hálfu stefnda Sjóvá-Almennra trygginga hf. er á því byggt að í 5. mgr. 92. gr. umferðarlaga segi að eigi tjónþoli rétt á skaðabótum vegna slyss eftir lögum þessum eða öðrum skaðabótareglum lækki bætur úr slysatryggingu ökumanns sem því nemi. Stefnandi eigi ekki rétt á bótum úr slysatryggingu bifreiðar N nema sýnt sé að hann eigi ekki fulla skaðabótakröfu á hendur stefnda, B, og eftir atvikum úr ábyrgðartryggingu ökutækis hans M hjá Tryggingamiðstöðinni hf. Á bótaábyrgð þeirra hefur ekki verið fallist og kemur þrautavarakrafa stefnanda því til skoðunar, en stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf., krefst aðallega sýknu af kröfunni.

Í 90. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004 kemur fram að hafi vátryggður valdið því af stórkostlegu gáleysi, að vátryggingaratburður hafi orðið eða afleiðingar hans orðið meiri en ella hefðu orðið, megi lækka eða fella niður ábyrgð félagsins. Hið sama eigi við hafi vátryggður af stórkostlegu gáleysi valdið því að vátryggingaratburður hafi orðið með því að hlíta ekki varúðarreglum. Í 2. mgr. 27. gr. sömu laga segir að hafi vátryggður í öðrum vátryggingum en ábyrgðartryggingum, með háttsemi sem telja verði stórkostlegt gáleysi, valdið vátryggingaratburði losni félagið úr ábyrgð í heild eða að hluta. Loks segir í 26. gr. laganna að vátryggingarfélag geti gert fyrirvara um að það skuli laust úr ábyrgð sé varúðarreglum ekki fylgt.

Í vátryggingarskilmálum stefnda, um lögboðna tryggingu ökumanns, er í 6. gr. vísað til 2. mgr. 27. gr. og 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004 um lækkun eða niðurfellingu á ábyrgð félagsins vegna þess að vátryggður valdi slysi af stórkostlegu gáleysi eða afleiðingar þess verði meiri en ella. Í 7. gr. skilmálanna er jafnframt vísað til 26. gr. laganna um að hafi vátryggður vanrækt að hlíta varúðarreglum megi lækka eða fella niður ábyrgð vátryggingarfélags. Að öllu framangreindu virtu verður fallist á það með stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. að stefnandi hafi fyrirgert rétti sínum til bóta úr vátryggingunni hjá stefnda með stórkostlegu gáleysi í greint sinn. Þrautavarakröfu stefnanda verður því hafnað.

Eftir atvikum er rétt að hver aðili beri sinn kostnað af málinu og verður málskostnaður felldur niður.

Dóm þennan kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð

Hafnað er kröfum stefnanda, A, um viðurkenningu á bótaskyldu stefndu, B, Tryggingamiðstöðvarinnar hf. og Sjóvá-Almennra trygginga hf., vegna líkamstjóns sem stefnandi varð fyrir í umferðarslysi þann 26. júlí 2008, þegar bifreið sú sem stefnandi ók, […] með fastanúmerið N, fór upp á rennustein við umferðareyju á Hringbraut á móts við Furumel í Reykjavík, snerist í hálfhring og stöðvaðist á gangbrautargötuvita skammt austan við gatnamót Hringbrautar og Furumels.