Hæstiréttur íslands
Mál nr. 270/2005
Lykilorð
- Sveitarfélög
- Uppgjör
|
|
Fimmtudaginn 3. nóvember 2005. |
|
Nr. 270/2005. |
Eggert Haukdal(Ragnar Aðalsteinsson hrl.) gegn Rangárþingi eystra (Elvar Örn Unnsteinsson hrl. Jón Höskuldsson hdl.) |
Sveitarfélög. Uppgjör.
E var oddviti hreppsins VL frá 1970 uns hann sagði af sér starfinu í desember 1998. Krafði hann hreppinn um greiðslu tiltekinnar upphæðar er nam mismun á fjárhæð vegna leiðréttinga og bakfærslna, sem hann áleit að gera ætti í bókhaldi hreppsins honum til tekna, og skuldar, sem hann var í við hreppinn samkvæmt bókhaldinu. Byggði E m.a. á því að tilteknar fjárhæðir hefðu verið ranglega færðar í reikningum VL sem skuld hans við hreppinn þar sem þær hefðu stafað frá kaupum hreppsins á jörð en ekki verið persónuleg skuld hans. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að ekkert hefði verið fært í reikninga hreppsins um kaup og endursölu á umræddri jörð og var E ekki talinn hafa sýnt fram á að þær skuldbindingar, sem deilt var um að þessu leyti, hefðu með réttu átt að falla á hreppinn. Þá áleit E að bókhaldsmistök hefðu verið gerð, er leiddu til þess að talið var að hann væri í skuld við hreppinn í ársbyrjun 1996. Með vísan til niðurstöðu héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, var ekki talið sannað að E ætti kröfu um leiðréttingu á þessu atriði. Kröfugerð E byggðist enn fremur á því að oddvitalaun til hans á árunum 1994 til 1998 hefðu verið vangreidd. Var á það fallist að hann ætti vangreidd laun fyrir árin 1995, 1997 og 1998 um tiltekna fjárhæð. Þá byggði E enn fremur á því að hann ætti kröfu á hendur hreppnum vegna þess að hann hefði greitt hluta af skuldbindingu, sem hann gekkst undir fyrir hönd hreppsins í tengslum við viðskipti með áðurgreinda jörð. Talið var að E hefði skort heimild til að binda hreppinn við sjálfskuldarábyrgð á þeirri skuldbindingu, sem vísað var til í þessu sambandi, og var því ekki fallist á að umrædd greiðsla ætti að færast honum til eignar á viðskiptareikningi hjá hreppnum. Með hliðsjón af öllu framangreindu og að teknu tilliti til þeirra fjárhæða, sem óumdeilt var að rétt hefði verið að færa E til skuldar á viðskiptareikningi hans hjá hreppnum, svo og greiðslna E til hreppsins, var talið að hann hafi eftir sem áður verið í skuld við hreppinn. Þótt fallist yrði á kröfugerð E um bakfærslu á skuld vegna vaxta að ákveðinni fjárhæð, sem hreppurinn hafði fært á viðskiptareikning hans, myndi sú skuld standa eftir. Því þótti ekki þörf á að taka afstöðu til þessa atriðis í dómkröfu E. Var R, sem tekið hafði við aðild hreppsins að málinu, sýknað af kröfum E.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. júní 2005 og krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 4.144.598 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. janúar 1999 til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Málið var höfðað gegn Vestur-Landeyjahreppi, sem hefur verið sameinaður sex öðrum sveitarfélögum undir heitinu Rangárþing eystra.
I.
Áfrýjandi varð oddviti Vestur-Landeyjahrepps 1970. Á fundi hreppsnefndar 15. nóvember 1985 var bókað að boðinn væri forkaupsréttur að jörðinni Eystra-Fíflholti og að fyrir lægi bindandi kaupsamningur milli eiganda hennar, Birgis Péturssonar, og Þorkels St. Ellertssonar. Hreppsnefndin samþykkti að neyta forkaupsréttar síns, en ekki varð þó af kaupum um sinn. Á fundi hreppsnefndar 7. apríl 1986 var aftur bókað um að forkaupsrétturinn væri boðinn og kaupsamningur milli Birgis og Þorkels lægi fyrir. Þá var bókað í framhaldi, að eftir nokkrar umræður hafi verið samþykkt með þrem atkvæðum, en tveir hafi setið hjá, að neyta forkaupsréttar og ganga inn í kaupsamninginn. Hafi ákvörðunin meðal annars verið byggð á samkomulagi við fulltrúa eiganda um nýja greiðsluskilmála og kaupsamning varðandi skepnur og vélar, svo og að hreppurinn hefði frest fram í maí til að ganga endanlega frá kaupsamningi. Hinn 19. apríl 1986 undirrituðu áfrýjandi fyrir hönd hreppsins og seljandinn kaupsamning um jörðina ásamt vélum og skepnum fyrir 8.750.000 krónur. Kaupverðið var sundurliðað í níu töluliðum og skyldi greiða með peningum samtals 2.410.000 krónur, yfirtöku skulda samtals 5.159.639 krónur og útgáfu veðskuldabréfs við afsal að fjárhæð 1.180.361 króna. Í kaupsamninginn var sett svofellt ákvæði: „Sveitarsjóður Vestur-Landeyjahrepps er ábyrgur fyrir öllum skuldbindingum þessa kaupsamnings gagnvart seljanda, þó að hann endurselji jörðina, þar á meðal veðskuldabréfin samkvæmt 9. tölulið, sem verði með ábyrgð sveitarsjóðs (Hreppsábyrgð).“
Seljandinn gaf út afsal 25. maí 1987 til hreppsins. Í því kom fram að umsamið verð hafi kaupandi að fullu greitt, meðal annars með því að gefa út þann dag fjögur veðskuldabréf að fjárhæð samtals 907.600 krónur, tryggð með 9. veðrétti í hinni seldu eign, verðtryggð með lánskjaravísitölu og með hæstu lögleyfðu vöxtum. Með kaupsamningi 3. júní sama ár seldi hreppurinn Þorvaldi Elíssyni jörðina ásamt vélum og bústofni fyrir samtals 9.865.126 krónur, sem átti að greiða meðal annars með því að kaupandinn tæki að sér að standa skil á skuldabréfunum fjórum á 9. veðrétti. Kaup þessi gengu til baka og var yfirlýsing þess efnis undirrituð 8. september sama ár. Í framhaldi af því seldi hreppurinn með kaupsamningi 22. sama mánaðar Guðmundi Erni Ólafssyni jörðina með vélum og bústofni fyrir samtals 10.640.429 krónur. Átti kaupandinn að greiða hluta þess verðs með því að yfirtaka margnefnd fjögur skuldabréf. Í tengslum við greiðslu kaupverðsins stofnaði hann 13. október 1987 til skuldar við Landsbanka Íslands með skuldabréfi að fjárhæð 645.000 krónur og gekkst áfrýjandi fyrir hönd hreppsins í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuldinni með áritun á bréfið. Hreppurinn gaf út afsal til kaupandans 3. ágúst 1988. Þar var þess getið að kaupverð væri að fullu greitt, meðal annars með því að kaupandinn hafi tekið að sér skuld samkvæmt skuldabréfunum fjórum, upphaflega að nafnverði 907.600 krónur. Á fundi hreppsnefndarinnar 5. júní 1990 var bókað að oddviti kynnti fyrirliggjandi undirritaðan kaupsamning um jörðina Eystra-Fíflholt milli seljandans Guðmundar Ólafssonar og Hafsteins Alfreðssonar. Hreppsnefndin hafði ekkert við samninginn að athuga og afsalaði sér forkaupsrétti.
Eins og nánar er rakið í héraðsdómi urðu annmarkar á bókhaldi og reikningsskilum hreppsins til þess að samþykkt var á fundi hreppsnefndar 11. nóvember 1998 að gerður yrði „nýr ársreikningur fyrir árið 1997 í samræmi við lög og góðar reikningsskilavenjur“, svo og að endurskoðanda, sem fenginn yrði til þess verks, yrði falið að annast endurskoðun og gerð ársreiknings fyrir árið 1998. Áfrýjandi sagði af sér starfi oddvita í hreppsnefnd með bréfi 17. desember 1998. Löggiltur endurskoðandi, sem tók framangreint verk að sér, undirritaði ásamt áfrýjanda yfirlýsingu 19. sama mánaðar, þar sem meðal annars var greint frá því að við afstemmingu viðskiptareikninga hafi komið fram að skuld áfrýjanda við hreppinn í árslok 1997 hafi numið 1.863.350 krónum, en samkvæmt ársreikningi fyrir það ár hafi hann talist eiga inni hjá hreppnum 19.162 krónur. Þá hafi áfrýjandi á árinu 1994 tekið út 1.207.499 krónur, sem færðar hafi verið á reikning, sem kenndur var við Eystra-Fíflholt, en frá 1994 til 1996 hafi sú fjárhæð verið lækkuð um 679.269 krónur með nánar tilgreindum færslum á rekstrargjöldum hreppsins. Fram hafi komið hjá áfrýjanda að þessar færslur hafi verið gerðar án samþykkis sveitarstjórnar. Einnig hafi á árinu 1996 verið færðar til gjalda 500.000 krónur hjá hreppnum vegna viðhalds gatna, en á móti hafi verið færð skuld sömu fjárhæðar við Ræktunarsamband Landeyja, sem sögð var tengjast kostnaði við Þúfuveg. Með millifærslu hafi þessi fjárhæð verið flutt af reikningi ræktunarsambandsins yfir á viðskiptareikning áfrýjanda sem skuld hreppsins við hann. Sagði í yfirlýsingunni að samkvæmt þessu teldist áfrýjandi hafa fært sér til inneignar samtals 1.179.269 krónur, sem hann óskaði eftir að yrðu bakfærðar við leiðréttingu ársreiknings fyrir 1997. Í lok þess árs hafi því skuld áfrýjanda við hreppinn numið 3.042.619 krónum, en á árinu 1998 hafi hann endurgreitt 1.200.000 krónur af þeirri fjárhæð. Eftir stæði að fjalla um útreikning launa áfrýjanda fyrir 1997, sem gætu lækkað skuld hans við hreppinn, svo og um vexti af skuldinni. Endurskoðandinn skilaði síðan greinargerð til hreppsnefndarinnar 10. febrúar 1999 um vinnu við ársreikning 1997. Í héraðsdómi er einnig rakið að opinbert mál var höfðað gegn áfrýjanda með ákæru 15. febrúar 2000, en því lauk með dómi Hæstaréttar 17. maí 2001, þar sem ákærði var sakfelldur fyrir brot gegn 247. gr., sbr. 138. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 vegna nánar tilgreindrar háttsemi, sem varðaði áðurnefnda reikningsfærslu í tengslum við kostnað af Þúfuvegi. Að öðru leyti var áfrýjandi sýknaður af þeim sökum, sem hann var borinn. Að þeim dómi gengnum krafði áfrýjandi Vestur-Landeyjahrepp um endurgreiðslu á 2.800.000 krónum, sem hann hafi greitt hreppnum á árinu 1998, sökum þess að fyrrgreindur endurskoðandi hafi með villandi og röngum fullyrðingum vakið misskilning hjá áfrýjanda um að hann stæði í skuld við hreppinn og áfrýjandi innt þessar greiðslur af hendi í rangri trú. Að auki ætti áfrýjandi óuppgerð laun vegna starfa sem oddviti á árunum 1997 og 1998. Hreppurinn hafnaði þessum kröfum og höfðaði áfrýjandi mál þetta 5. febrúar 2002.
II.
Krafa áfrýjanda er sundurliðuð í héraðsdómi. Í henni tekur áfrýjandi mið af því að samkvæmt bókhaldi Vestur-Landeyjahrepps hafi hann í árslok 2000 staðið í skuld við hreppinn að fjárhæð 2.557.173 krónur, þegar tekið hafi verið tillit til fyrrnefndrar greiðslu hans á 2.800.000 krónum. Eru síðan í tíu liðum taldar leiðréttingar og bakfærslur, sem áfrýjandi telur að gera eigi í bókhaldinu honum til tekna á samtals 6.701.771 krónu, en mismunurinn á þessum tveimur fjárhæðum nemur kröfu hans í málinu. Felast þessir tíu liðir í eftirtöldu:
1. Áfrýjandi segir að fyrstu tveir liðirnir, 1.035.000 krónur og 172.449 krónur, séu vegna jarðarinnar Eystra-Fíflholts. Löggilti endurskoðandinn, sem fenginn hafi verið til starfa í nóvember 1998, hafi fært áfrýjanda til skuldar í reikningum sveitarsjóðs 1.035.000 krónur, sem endurskoðandinn hafi talið vera vegna ábyrgðar, sem oddviti hafi bundið hreppinn við án heimildar. Þetta hafi verið röng ályktun. Hið rétta sé að hreppsnefndin hafi stofnað til skulda vegna kaupanna á Eystra-Fíflholti, meðal annars með útgáfu fyrrgreindra fjögurra veðskuldabréfa, sem samtals voru upphaflega að fjárhæð 907.600 krónur. Sá, sem keypti jörðina af hreppnum, hafi ekki staðið í skilum og lent hafi á hreppnum að greiða eftirstöðvar skuldabréfanna, sem 31. mars 1989 hafi numið 680.700 krónum. Til þessa uppgjörs hafi meðal annars verið gefið út skuldabréf til Búnaðarbanka Íslands 4. desember 1989 að fjárhæð 571.000 krónur. Hinn 21. janúar 1991 hafi verið greiddar úr sveitarsjóði 172.449 krónur í afborgun og vexti af skuldabréfi þessu og það síðan gert upp 19. júní sama ár með nýju skuldabréfi að fjárhæð 622.000 krónur. Skuldabréfið við Búnaðarbanka Íslands að fjárhæð 1.035.000 krónur hafi loks verið gefið út 27. desember 1994 til þess að greiða upp skuldabréfið frá 19. júní 1991 með áföllnum vöxtum. Af þessu megi sjá að fjárhæðirnar 1.035.000 krónur og 172.449 krónur, sem endurskoðandinn hafi fært til skuldar hjá áfrýjanda í bókum hreppsins, hafi báðar stafað frá kaupum hreppsins á jörðinni Eystra-Fíflholti en ekki verið persónuleg skuld áfrýjanda.
2. Í öðru lagi sé fjárhæðin 500.841 króna, sem stafi af bókhaldsmistökum um áramótin 1995/1996. Í dómi Hæstaréttar 17. maí 2001 hafi verið talið að áfrýjandi hafi verið í skuld við sveitarsjóð og að þessi fjárhæð hefði verið færð milli reikninga í bókhaldi til þess að jafna hana út. Áfrýjandi telur á hinn bóginn að mistök hafi verið gerð í bókhaldi með því að lokafærslur, sem gerðar hafi verið undir árslok, hafi ekki skilað sér í upphafsfærslum bókhaldsins árið eftir, en með þessu hafi myndast mismunur, sem ranglega hafi verið talin skuld áfrýjanda við hreppinn.
3. Þá telur áfrýjandi í fimm liðum vangreidd laun fyrir störf oddvita árin 1994 til 1998, samtals 2.606.043 krónur. Krafan er sundurliðuð í héraðsdómi eins og áfrýjandi setur hana fram, en hún er reist á því að launin hafi átt að nema 6% af tekjum hreppsins og hafi ekki átt að draga þar frá kostnað, sem hreppurinn hafi haft af störfum þeirra, sem verið hafi áfrýjanda til aðstoðar.
4. Áfrýjandi telur í sérstökum lið að bakfæra eigi vexti að fjárhæð 1.732.437 krónur, sem honum hafi verið færðar til skuldar á viðskiptareikningi hans hjá hreppnum, en við útreikning þessara vaxta hafi verið gengið út frá þeirri röngu forsendu að hann hafi staðið í skuld við hreppinn.
5. Loks krefst áfrýjandi þess að honum verði endurgreiddar 655.000 krónur vegna greiðslna, sem hann hafi orðið að bera í tengslum við áðurnefnt skuldabréf, sem gefið var út 13. október 1987 til Landsbanka Íslands af kaupanda jarðarinnar Eystra-Fíflholts, Guðmundi Erni Ólafssyni. Útgefandinn hafi ekki staðið í skilum og hafi áfrýjandi ásamt öðrum gert skuldina upp með nýju skuldabréfi í ágúst 1996 að fjárhæð 2.965.000 krónur. Hlutur áfrýjanda í þeirri skuldbindingu hafi numið umræddum 655.000 krónum og telur hann mega rekja hana til viðskipta hreppsins með áðurnefnda jörð.
III.
Undir rekstri málsins í héraði leitaði áfrýjandi eftir því við Héraðsdóm Reykjavíkur 9. janúar 2003 að dómkvaddur yrði maður til gera matsgerð, sem áfrýjandi hygðist nota sem sönnunargagn í tengslum við beiðni um endurupptöku opinbera málsins á hendur honum, sem lokið var með dómi Hæstaréttar 17. maí 2001, og jafnframt í þessu máli. Með úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 2. apríl 2004, var fallist á að dómkveðja matsmann. Löggiltur endurskoðandi var dómkvaddur og lauk hann matsgerð 20. desember 2004.
Eins og nánar er rakið í héraðsdómi var leitað álits matsmannsins um atriði varðandi tvö skuldabréf, sem getið hefur verið hér að framan, annað að fjárhæð 1.035.000 krónur og hitt að fjárhæð 2.965.000 krónur, svo og varðandi fjárhæðina 500.841 krónu, sem áfrýjandi var í dómi Hæstaréttar sakfelldur fyrir að hafa dregið sér af fjármunum hreppsins. Samkvæmt matsgerðinni var skuldabréfið að fjárhæð 1.035.000 krónur fært í bækur hreppsins og þess getið í ársreikningi hans 1994. Unnt væri að rekja tilurð þess til viðskipta með jörðina Eystra-Fíflholt, en andvirði þess hafi verið varið til greiðslu á skuldabréfi frá 1991 og framlengingarkostnaði vegna víxils, hvort tveggja vegna kaupanna á jörðinni. Ekki hafi verið getið um eldra skuldabréfið og víxilinn í bókum hreppsins þegar skuldbindingar þessar voru greiddar og verði það að teljast handvömm við færslu bókhaldsins, að jarðarviðskiptin hafi ekki verið færð þar eins og lög og reglur geri ráð fyrir, svo sem komist var að orði í matsgerðinni. Um síðara skuldabréfið, að fjárhæð 2.965.000 krónur, sagði í matsgerð að við athugun framlagðra gagna yrði ekki annað séð en að það tilheyri viðskiptum hreppsins með jörðina Eystra-Fíflholt, en eins og áður hafi komið fram hafi viðskipti hreppsins vegna jarðarinnar ekki verið færð í bókhald eins og hefði átt að gera. Verði þau því ekki rakin í bókhaldi hreppsins, heldur hafi þurft að vinna út frá utanaðkomandi gögnum. Niðurstaða matsmannsins varðandi færslu fjárhæðarinnar 500.841 króna á viðskiptareikningi áfrýjanda á árinu 1996 er rakin í héraðsdómi.
Áfrýjandi telur að með matsgerð þessari sé sannað að fjárhæðirnar 1.035.000 og 172.449 krónur, sem færðar hafi verið honum til skuldar í reikningum Vestur-Landeyjahrepps, stafi frá kaupum hreppsins á jörðinni Eystra-Fíflholti og eigi því ekki að færa þær honum til skuldar á viðskiptareikningi hans. Einnig sé sannað að skuldabréf að fjárhæð 2.965.000 krónur heyri til viðskiptum hreppsins með jörðina, svo og að færslan í reikningum vegna Þúfuvegar, 500.000 krónur, sem færð var á viðskiptareikning áfrýjanda, geti ekki tengst tilraun til auðgunar af hans hendi. Með matsgerðinni sé einnig sýnt, að vinnubrögð endurskoðanda hreppsins við ársuppgjör og frágang bókhalds árin 1994 til og með 1997 hafi ekki verið í samræmi við góða reikningsskilavenju. Sannað sé að bókfærð viðskiptastaða áfrýjanda miðað við upphaf árs 1996, 500.841 króna, hafi með réttu átt að vera í jöfnuði. Nauðsyn hafi borið til að leiðrétta þessa röngu opnunarfærslu og álykta megi að færslan á 500.000 krónum hafi verið til leiðréttingar á rangri upphafsstöðu á viðskiptareikningi áfrýjanda. Þannig sé sannað að áfrýjandi hafi ekki auðgast á því að 500.000 krónur hafi verið færðar á viðskiptareikning hans, heldur hitt, að hann hefði orðið fyrir tapi, sem nemi þessari fjárhæð, hefði leiðréttingarfærslan ekki verið gerð.
Um sönnunargildi matsgerðarinnar vísar áfrýjandi til þess, að hún hafi verið staðfest fyrir dómi. Stefndi hafi ekki krafist yfirmats og því verði að leggja niðurstöðu hennar til grundvallar dómi í málinu.
IV.
Áðurgreindur fyrsti hluti í kröfugerð áfrýjanda lýtur að viðskiptum um jörðina Eystra-Fíflholt. Eins og málið liggur fyrir verður að leggja til grundvallar að sýnt hafi verið fram á að veðskuldabréfin fjögur, sem áfrýjandi gaf út fyrir hönd Vestur-Landeyjahrepps 25. maí 1987, samtals að fjárhæð 907.600 krónur, hafi leitt af sér skuldbindingu fyrir hreppinn, sem áfrýjanda var heimilt að stofna til í skjóli samþykktar hreppsnefndar um að neyta forkaupsréttar að jörðinni. Í málinu er ekki deilt um að ráðstöfun fjármuna vegna kaupa hreppsins á jörðinni og endursölu hennar hafi ekki verið færð í bókhaldi hans. Ekki er heldur deilt um að ekkert hafi verið fært í reikningum hreppsins um eignarhald hans á jörðinni, kröfuréttindi, sem hann öðlaðist við endursölu hennar, eða skuldbindingar, sem hann stofnaði til vegna kaupanna. Liggur ekkert fyrir um hvaðan fé hafi komið til að greiða kaupverð úr hendi hreppsins eða hvert greiðslur til hans vegna endursölu jarðarinnar hafi runnið, en í þeim efnum verður ekki litið fram hjá því að samkvæmt framlögðum kaupsamningum endurseldi hreppurinn jörðina fyrir hærra verð en hann keypti hana fyrir og gaf út afsal til kaupandans í ágúst 1988, þar sem lýst var yfir að kaupverð væri að fullu greitt. Áfrýjandi heldur því fram, svo sem áður greinir, að rekja megi skuld við Búnaðarbanka Íslands samkvæmt skuldabréfi útgefnu í desember 1994 að fjárhæð 1.035.000 krónur til þess að hreppurinn sem útgefandi veðskuldabréfanna fjögurra frá 25. maí 1987 hafi orðið að standa skil á eftirstöðvum þeirra. Í fyrrgreindri matsgerð segir þessu til samræmis að rekja megi tilurð þessarar skuldar frá 1994 ásamt afborgun að fjárhæð 172.449 krónur af eldra láni á árinu 1991 til viðskipta með jörðina Eystra-Fíflholt. Þótt fallist yrði á þessa ályktun matsmannsins, sem ekki er rökstudd svo að neinu nemi í matsgerð og lítil sem engin önnur gögn liggja fyrir um í málinu, fær það því ekki breytt að ekkert er fram komið til stuðnings því að réttmætt hafi verið að færa afborgunina 1991 til gjalda í bókum hreppsins á því ári og skuldbindinguna við Búnaðarbankann til skuldar þar á árinu 1994 án þess að nokkuð lægi að öðru leyti fyrir um stöðuna í viðskiptunum um jörðina allar götur frá árinu 1986. Að þessu virtu verður að fallast á með stefnda að áfrýjandi hafi ekki sýnt fram á að skuldbindingar þessar einar út af fyrir sig hafi með réttu átt að falla á Vestur-Landeyjahrepp. Verður því að hafna kröfu áfrýjanda að því leyti, sem hún verður rakin til þessa.
Annar hluti kröfugerðar áfrýjanda lýtur að færslu á 500.841 krónu á viðskiptareikning hans hjá hreppnum á árinu 1996. Dómkvaddur maður hefur lagt mat á atriði, sem að vissu marki varða þennan þátt málsins, eins og í héraðsdómi greinir. Samkvæmt 2. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála tekur dómari afstöðu til matsgerðar, þar á meðal til sönnunargildis hennar, þegar leyst er að öðru leyti úr máli. Héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, hefur gert þetta og hafnað því að leggja niðurstöðu matsgerðarinnar til grundvallar. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms ber að staðfesta niðurstöðu hans um þennan kröfulið.
Þriðji hluti kröfugerðar áfrýjanda snýr að vangreiddum launum fyrir störf oddvita á árunum 1994 til 1998. Samkvæmt framlögðu yfirliti Vestur-Landeyjahrepps frá 11. janúar 2002 um oddvitalaun og laun starfsmanns á skrifstofu hreppsins eftir ársreikningum sveitarsjóðs 1984 til 2000 hefur verið miðað við að laun oddvita fram til ársins 1997 næmu fjárhæð, sem svaraði til 6% af nánar tilgreindum tekjum hreppsins á því tímabili. Er þetta í samræmi við það, sem haft var eftir áfrýjanda um laun oddvita í bókun frá hreppsnefndarfundi 5. júní 1994, en þar segir að hann hafi kveðið þau vera „6% af tekjum sveitarsjóðs lögum samkvæmt og hann borgaði síðan af þeim sínu aðstoðarfólki.“ Ekki verður séð að áfrýjandi hafi hreyft því fyrr en í tengslum við kröfurnar, sem mál þetta varðar, að taka hafi átt tillit til vatnsskatts við þennan útreikning á launum hans. Þá eru ekki efni til annars en að byggja á því, sem fram kom í fyrrgreindri bókun frá 5. júní 1994 um að laun aðstoðarmanna áfrýjanda hafi átt að greiðast af þeirri fjárhæð, sem honum voru árlega reiknuð í heildarlaun. Á þessum grundvelli verður að miða við að rétt laun áfrýjanda fyrir árin 1994 til 1998 hafa átt að vera 869.255, 908.861, 822.290, 1.190.992 og 1.331.793 krónur. Samkvæmt yfirliti um skiptingu á oddvitalaunum og launum starfsmanns frá stefnda og yfirliti áfrýjanda sjálfs má sjá að þegar launagreiðslur til áfrýjanda og aðstoðarmanna hans hafa verið dregnar frá þessum fjárhæðum er ekkert vangreitt til hans árin 1994 og 1996, en vangreiðslur 1995 nema 126.861 krónu, 1997 nema þær 213.992 krónum og 1998 nema þær 371.793 krónum, eða samtals 670.191 krónu þessi þrjú ár. Verður að fallast á með áfrýjanda að hann eigi kröfu á hendur stefnda sem þessu nemur.
Fimmti hluti kröfugerðar áfrýjanda lýtur að 655.000 krónum, sem hann kveðst hafa orðið að greiða vegna hluta síns í skuldbindingu, sem hann hafi gengist undir ásamt öðrum með skuldabréfi í ágúst 1996 að fjárhæð 2.965.000 krónur. Verði þessi skuldbinding rakin til fyrrnefnds skuldabréfs að fjárhæð 645.000 krónur, sem kaupandi Eystra-Fíflholts, Guðmundur Örn Ólafsson, gaf út til Landsbanka Íslands 13. október 1987 og áfrýjandi áritaði í nafni Vestur-Landeyjahrepps um sjálfskuldarábyrgð. Áfrýjandi hefur hvorki lagt fram viðhlítandi gögn um hvernig þessar ráðstafanir kunna að hafa tengst né um greiðslu sína á þeirri fjárhæð, sem dómkrafa hans tekur mið af í þessu sambandi. Til þess er jafnframt að líta að ekki hefur verið hnekkt þeirri mótbáru stefnda að skuldabréfið frá 13. október 1987 hafi verið gefið út af Guðmundi til að standa straum af hluta þeirrar fjárhæðar, sem honum bar að inna af hendi til hreppsins vegna kaupa sinna á Eystra-Fíflholti, og hafi bréfið því ekki tengst kaupum hreppsins á jörðinni. Verður að því virtu að fallast á með stefnda að áfrýjanda hafi brostið heimild til að binda hreppinn við sjálfskuldarábyrgð á þessari skuldbindingu, sbr. 4. mgr. 89. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki fallist á með áfrýjanda að greiðslan, sem hann kveðst hafa innt af hendi í þessu sambandi, eigi að færast honum til eignar á viðskiptareikningi hjá hreppnum.
Í kröfugerð sinni miðar áfrýjandi sem áður segir við það að hann hafi í árslok 2000 staðið í skuld við Vestur-Landeyjahrepp samkvæmt bókhaldi hreppsins að fjárhæð 2.557.173 krónur, en þeir liðir, sem til umfjöllunar eru í málinu, eigi að koma til leiðréttingar á þeirri stöðu þannig að hann eigi inni hjá stefnda fjárhæð, sem nemur dómkröfu hans. Meðal þeirra reikningsliða, sem mynduðu framangreinda bókfærða skuld áfrýjanda í árslok 2000, eru úttektir hans á peningum hjá hreppnum umfram laun á árunum 1996, 1997 og 1998, samtals að fjárhæð 1.916.445 krónur. Með því að dómkrafa áfrýjanda varðar ekki þessar úttektir verður að líta svo á að óumdeilt sé að hreppnum hafi verið rétt að færa þær honum til skuldar. Hér að framan hefur verið hafnað málatilbúnaði áfrýjanda um að efni séu til að gera leiðréttingar á bókfærðri stöðu viðskiptareiknings hans hjá hreppnum vegna þriggja liða, sem þar voru færðir honum til skuldar og nema samtals 1.708.290 krónum. Samkvæmt þessu verður að leggja til grundvallar að viðskiptareikningur áfrýjanda hafi réttilega verið skuldfærður fyrir samtölu þessara fjárhæða með 3.624.735 krónum. Áfrýjandi innti sem áður segir samtals 2.800.000 krónur af hendi til hreppsins á árinu 1998 til greiðslu á skuld samkvæmt viðskiptareikningi sínum. Eftir þá innborgun hefðu staðið eftir 824.735 krónur af skuld áfrýjanda vegna framangreindra liða. Til lækkunar á henni eiga að koma áðurnefnd vangreidd laun áfrýjanda, 670.191 króna, þannig að eftir stæðu af skuldinni 154.544 krónur. Með því að fimmta hlutanum í kröfugerð áfrýjanda er hafnað samkvæmt áðurgreindu getur ekkert færst honum til eignar á viðskiptareikningnum vegna þeirra atriða, sem þar um ræðir.
Með fjórða hluta dómkröfu áfrýjanda leitar hann bakfærslu á skuld vegna vaxta að fjárhæð 1.732.437 krónur, sem Vestur-Landeyjahreppur hafði fært á viðskiptareikning hans og mynda ásamt öðrum liðum bókfærða skuld áfrýjanda í árslok 2000 að fjárhæð 2.557.173 krónur. Þótt krafa áfrýjanda yrði tekin til greina að þessu leyti stæði eftir fyrrgreind skuld hans á viðskiptareikningi að fjárhæð 154.544 krónur. Er því engin þörf á að taka efnislega afstöðu til þessa hluta í dómkröfu áfrýjanda, enda ljóst af framansögðu að staðfesta verður niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um sýknu stefnda af kröfu hans.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað verður staðfest. Verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Eggert Haukdal, greiði stefnda, Rangárþingi eystra, 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 22. júní 2005.
Mál þetta, sem tekið var til dóms 1. júní sl., er höfðað 5. febrúar 2002.
Stefnandi er Eggert Haukdal, Bergþórshvoli II, Hvolsvelli
Stefndi er Rangárþing eystra, Njálsbúð, Hvolsvelli.
Stefnandi krefst þess að stefndi greiði sér 4.144.598 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af þeirri fjárhæð frá 1. janúar 1999 til 1. júlí 2001, en þá samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Heiti stefnda breyttist undir rekstri málsins, en málið var höfðað á hendur sveitarfélaginu Vestur-Landeyjahreppi. Sveitarfélagið var sameinað sex öðrum sveitarfélögum og ber nú heitið Rangárþing eystra.
Málsatvik.
Stefnandi var oddviti Vestur-Landeyjahrepps í tæp þrjátíu ár, en sagði af sér embætti í lok ársins 1998.
Á fundi hreppsnefndar Vestur-Landeyjahrepps 4. apríl 1986 var samþykkt með þremur atkvæðum að neyta forkaupsréttar að jörðinni Eystra-Fíflholti og ganga inn í kaupsamning Birgis Sævars Péturssonar við Þorkel Steinar Ellertsson. Tveir hreppsnefndarmenn sátu hjá. Í fundargerð hreppsnefndar er bókað svo orðrétt: ,,Boðinn forkaupsréttur að Eystra-Fíflholti. Fyrir liggur bindandi kaupsamningur milli Birgis Péturssonar og Þorkels Steinars Ellertssonar Grímshaga 8 Reykjavík. Eftir nokkrar umræður var samþykkt með þrem atkvæðum, tveir sátu hjá að neyta forkaupsréttar síns (sic) að ganga inn í kaupsamning Þorkels Steinars Ellertssonar að jörðinni Eystra-Fíflholti. Þessi ákvörðun er meðal annars byggð á samkomulagi við fulltrúa eiganda um nýja greiðsluskilmála og hvað snertir kaupsamning og varðandi skepnur og vélar að Vestur-Landeyjahreppur hafi frest fram í maí til að ganga endanlega frá kaupsamningi”... Samningur milli Þorkels Steinars Ellertssonar og Birgis Péturssonar er ekki meðal gagna málsins.
Kaupsamningur Birgis Sævars og Vestur-Landeyjahrepps um jörðina dags. 19. apríl 1986 var ekki lagður sérstaklega fyrir hreppsnefnd. Í kaupsamningnum er m.a. ákvæði um að stefndi sé ábyrgur fyrir öllum skuldbindingum samningsins gagnvart seljanda, þó að stefndi endurselji jörðina, þar á meðal greiðslu fasteignaveðtryggðs veðskuldabréfs, sem útgefið skyldi við afsal samkvæmt 9. tl. í kaupsamningi.
Stefndi seldi Þorvaldi Elíssyni jörðina Eystra-Fíflholt 3. júní 1987, en kaupin gengu til baka 8. september sama ár. Þá afsalaði stefndi jörðinni til Guðmundar Arnar Ólafssonar 22. september 1987. Guðmundur Örn lenti í verulegum vanskilum með greiðslu kaupverðs jarðarinnar. Með skuldabréfi útgefnu 13. október 1987 stofnaði fyrrgreindur Guðmundur Örn til skuldar við Landsbanka Íslands að fjárhæð 645.000 krónur og er skuldabréfið áritað af stefnanda sem sjálfskuldarábyrgðaraðila, f.h. Vestur-Landeyjahrepps.
Vegna annmarka á bókhaldi og gerð ársreiknings Vestur-Landeyjahrepps fyrir árið 1997 var lögð fram tillaga á fundi hreppsnefndar 11. nóvember 1998 um að gerður yrði nýr ársreikningur fyrir árið 1997 í samræmi við lög og góðar reikningsskilavenjur. Tillagan var samþykkt með fimm samhljóða atkvæðum og jafnframt að sama endurskoðanda yrði falið að framkvæma endurskoðun og gera ársreikning fyrir árið 1998. Til verksins var ráðinn Einar Sveinbjörnsson, löggiltur endurskoðandi, hjá KPMG endurskoðun.
Í kjölfar endurskoðunar þessarar sagði stefnandi af sér starfi oddvita í hreppsnefnd með bréfi dags. 17. desember 1998.
Í greinargerð KPMG dags. 10. febrúar 1999, er m.a. rakið að samþykktur ársreikningur stefnda fyrir árið 1997 hafi í veigamiklum atriðum verið í ósamræmi við ákvæði reglugerðar nr. 280/1989 um bókhald og ársreikninga sveitarfélaga, fyrirtækja þeirra og stofnana. Þá kemur þar fram að inn- og útborganir hafi í sumum tilvikum ekki verið færðar undir rétt reikningsár og færð hafi verið rekstrargjöld í ársreikningum sveitarsjóðs sem ekki verði séð að tilheyri stefnda. Þá hafi stefnandi undirritað ábyrgðaryfirlýsingar f.h. stefnda án þess að formleg heimild hreppsnefndar hefði legið fyrir. Í greinargerðinni kemur fram að staða á viðskiptareikningi stefnanda og skuld hans við stefnda eftir afstemmningu ársreiknings fyrir árið 1997 hafi verið 1.808.256 krónur, auk skuldfærslu á reikninginn vegna Eystra-Fíflholts að fjárhæð 1.207.449 krónur, eða samtals 3.015.705 krónur án vaxta. Stefnandi hafi þegar á árinu 1998 greitt inn á reikning sinn hjá stefnda 2.800.000 krónur.
Í kjölfar greinargerðar þessarar sendu níu íbúar Vestur-Landeyjahrepps bréf til Ríkislögreglustjóra þar sem þess var farið á leit að fram færi opinber rannsókn á meintum brotum stefnanda m.a. á almennum hegningarlögum. Ákæra var gefin út á hendur stefnanda 15. febrúar 2000 fyrir:
,,I. Umboðssvik í opinberu starfi, með því að hafa hinn 27. desember 1994, misnotað aðstöðu sína til að gefa út í nafni hreppsins, án þess að hreppsnefnd samþykkti, skuldabréf til Búnaðarbanka Íslands, að fjárhæð kr. 1.035.0000, með sjálfskuldarábyrgð ákærða og tveggja annarra hreppsnefndarmanna, og eignfæra þá fjárhæð á viðskiptareikning á nafni Eystra-Fíflholts. Lánsfénu varði ákærði að meginhluta til greiðslu á skuldabréfi, útgefnu 19.6.91 að fjárhæð kr. 622.000, sem var rekstri hreppsins óviðkomandi.
Telst þetta varða við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940, sbr. 138.gr. sömu laga.
II.
Fyrir fjárdrátt í opinberu starfi, með því að hafa dregið sér af fjármunum hreppsins samtals kr. 1.777.360 á þann hátt sem hér greinir:
1. 1. Á árunum 1994, 1995 og 1996, lækkað skuld, sem ákærði hafði stofnað til á viðskiptareikningi Eystra-Fíflholts, um kr. 677.360, með því að millifæra á rekstur hreppsins sem útgjöld vegna ábyrgðar, heimildarlaust og án vitundar hreppsnefndarinnar, sem hér greinir:
31.12.1994 kr. 250.000
31.12.1995 kr. 200.000
31.12.1996 kr. 227.360 kr. 677.360
2. 2. Á árinu 1996 látið færa til inneignar á viðskiptareikning sinn kr. 500.000, sem höfðu verið gjaldfærðar hjá sveitarsjóði sem kostnaður vegna vegagerðar í hreppnum, án reikninga að baki þeirri færslu. Mótfærslan var í fyrstu færð á Ræktunarsamband Vestur-Landeyja, en síðan millifærð sem inneign ákærða á viðskiptareikning hans.
Teljast þessi brot varða við 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940”
Með dómi Hæstaréttar 17. maí 2001 var stefnandi dæmdur fyrir fjárdrátt, með því að hafa látið færa til inneignar á viðskiptareikning sinn 500.000 krónur, sem gjaldfærðar höfðu verið hjá sveitarsjóði sem kostnaður vegna vegagerðar í Vestur-Landeyjahreppi, án reikninga að baki þeirri færslu. Vegna breytinga á ákæru fyrir Hæstarétti kom ekki til skoðunar ákæruliður er laut að því að ákærði hefði dregið sér fé, með því að hafa á árunum 1994, 1995 og 1996 lækkað skuld á viðskiptareikningi Eystra-Fíflholts um 677.360 krónur undir þeim formerkjum að verið væri að millifæra þær á rekstur hreppsins sem útgjöld vegna ábyrgðar. Um háttsemi þá sem færð er undir I. kafla ákæru, meint umboðssvik, segir m.a. í dómi Hæstaréttar: ,, Án tillits til þess hvort Vestur-Landeyjahreppur var að lögum bundinn við þá ábyrgðaryfirlýsingu sem fram kom í áðurnefndum kaupsamningi um Eystra-Fíflholt 19. apríl 1986, liggur ekki fyrir að hreppurinn hafi skaðast fjárhagslega vegna aðgerða ákærða í tengslum við jarðakaupin, en ósannað er að auðgunarásetningur hafi legið að baki þeim gjörðum hans er I. kafli ákæru lýtur að, sbr. 243. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms ber að sýkna ákærða af þessum hluta ákærunnar.”
Í kjölfar þessa dóms hóf stefnandi að innheimta meinta skuld hjá stefnda vegna þeirra greiðslna sem stefnandi hafði innt af hendi til Vestur-Landeyjarhrepps í þeirri trú að hann hefði verið í skuld við stefnda.
Stefnandi óskaði eftir því við héraðsdóm Reykjavíkur að dómkvaddur yrði matsmaður til öflunar matsgerðar sem hann hugðist nota sem sönnunargagn í tengslum við fyrirhugaða beiðni um endurupptöku refsimáls fyrir Hæstarétti og einnig til notkunar í máli þessu. Stefndi mótmælti dómkvaðningu matsmanns, en í úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 2. apríl 2004, var fallist á dómkvaðningu matsmanns. Dómkvaddur var Jón Þór Hallsson, löggiltur endurskoðandi, og er matsgerð hans dagsett 20. desember 2004.
Samkvæmt matsgerðinni var haldinn matsfundur á skrifstofu matsmanns 2. júní 2004. Á matsfundinum voru lögð fram gögn af hálfu matsbeiðanda. Þá bárust gögn frá Einari Sveinbjörnssyni löggiltum endurskoðanda hjá KPMG. Í matsgerðinni kemur fram að matsmaður hafi kynnt sér framlögð gögn og skýrslur og þá sérstaklega hreyfingarlista bókhalds hreppsins árin 1994-1996, auk áranna 1997 og 1998 og jafnframt það sem komi fram í yfirheyrslum og sérstaklega varðandi matsspurningarnar. Eins og fram komi í ýmsum liðum matsins, hafi bókhalds- og uppgjörmál hreppsins verið í ólagi, þar sem bókhaldi hvers árs hafi ekki verið lokað eins og lög og reglur kveði á um, og teljast verði grundvallarregla í bókhaldi og reikningsskilum, sbr. árin 1994-1996. Jafnframt hafi viðskipti hreppsins vegna viðskipta með jörðina Eystra-Fíflholt verið utan bókhalds- og ársuppgjöra þegar viðskiptin hafi átt sér stað. Þessi vinnubrögð hafi skapað mikil vandamál.
Svar við 1. matsspurningu um hvort skuldabréf að nafnverði 1.035.000 krónur hafi verið fært í bækur Vestur-Landeyjahrepps, var að skuldabréfið hafi verið fært í bækur Vestur-Landeyjahrepps. Þá kvað matsmaður að skuldabréfið kæmi fram í ársreikningi Vestur- Landeyjahrepps og að unnt væri að rekja tilurð bréfsins til viðskipta með jörðina Eystra-Fíflholt. Andvirði lánsins hafi verið varið til greiðslu á skuldabréfi frá 1991 og framlengingarkostnaði vegna víxils, sem hvoru tveggja væri vegna Eystra-Fíflholts. Skuldabréfið og víxillinn hafi ekki verið til staðar í bókum hreppsins þegar til greiðslu hreppsins hafi komið og verði það að teljast handvömm við færslu bókhaldsins að jarðarviðskiptin hafi ekki verið færð í bækur hreppsins. Þá kveður matsmaður að afborgun að fjárhæð 171.112 krónur á láni nr. 12695 að fjárhæð 571.000 krónur tengist áðurnefndum kaupum á Eystra-Fíflholti. Greiðslan hafi verið greiðsla upp í lánið, en andvirði þess virðist á sínum tíma hafa verið ráðstafað til greiðslu á lánum vegna Eystra-Fíflholts. Þá kveður matsmaður að með hliðsjón af því sem áður hafi komið fram um viðskipti Vestur-Landeyjahrepps með jörðina Eystra-Fíflholt verði að teljast óeðlilegt að færa 1.207.449 krónur fyrirvaralaust af viðskiptareikningi stefnanda. Ekki hafi verið um það að ræða að stefnandi hafi auðgast á þessum viðskiptum. Þó þurfi að horfa til þess að bókhald hreppsins og fundargerðir um viðskiptin komi að litlu haldi við að fá botn í málið, þar sem viðskiptin með jörðina og skuldbindingar vegna þeirra hafi ekki verið færð í bókhald eins og lög og reglur geri ráð fyrir. Jafnframt liggi fyrir skýringarblað undirritað af stefnanda frá 28. október 1999 þar sem hann undir lið 2 telji það mistök hjá fyrrverandi endurskoðanda hreppsins að hafa ekki sérgreint fjárhæðina (sem reyndar er 1.200.000 á skýringarblaðinu) sem skuld stefnanda við Vestur-Landeyjahrepps v/ G.Ól. Fjárhæðin, kr.1.200.000, hafi síðan verið greidd með þremur greiðslum snemma árs 1998. Þessi yfirlýsing stefnanda hljóti því að hafa haft áhrif á færslu KPMG. Ástand bókhalds og uppgjörsmála hjá hreppnum hefði þó átt að kalla á frekari skoðun málsins áður en til færslunnar kom.
Matsmaðurinn kvað að rekja mætti tilurð skuldabréfs að fjárhæð 2.965.000 krónur til viðskipta Vestur-Landeyjahrepps með jörðina Eystra-Fíflholt og byggði þá skoðun sína á því að við athugun framlagðra gagna vegna skuldabréfsins og tilurð þess, verði ekki annað séð en að það tilheyri viðskiptum hreppsins með jörðina Eystra-Fíflholt, en eins og áður hafi komið fram séu viðskipti hreppsins vegna jarðarviðskiptanna ekki færð í bókhald eins og hefði átt að gera og verði viðskiptin þar af leiðandi ekki rakin í gegnum bókhald hreppsins, heldur hafi þurft að vinna út frá utanaðkomandi gögnum.
Matsspurningu um hvort saldó að fjárhæð kr. 500.841.70 hafi verið ranglega tilgreind sem upphafsstaða á viðskiptareikningi stefnanda í ársbyrjun 1996, svarar matsmaður á þá leið að samkvæmt hreyfingalista bókhalds 1995 hafi verið notaðir tveir viðskiptareikningar vegna viðskipta stefnanda við hreppinn, þ.e. nr 29-63-416 og 29-63-430. Viðskiptareikningur 29-63-416 sé með 0 stöðu í árslok 1995. Hann er opnaður 1996 með saldo 1.1. færð undir dagsetningunni 31.12.1996 með skuld að fjárhæð kr. 500.841.70. Þessi vinnubrögð séu í ósamræmi við eðlileg vinnubrögð í bókhaldi og út af fyrir sig óskiljanleg. Viðskiptareikningur 29-63-430 sé í árslok 1995 með inneign Eggerts hjá hreppnum kr. 193.364. Sú inneign virðist ekki skila sér á þann reikning 1996, en tengist fluttri stöðu á lykli 29-63-416. Það var því niðurstaða matsmannsins, miðað við eðlilegar bókhaldsreglur og niðurstöðu viðskiptareikninganna í árslok 1995, sem ekki hafi verið bornar efnislegar brigður á og fyrir hafi legið samþykktur ársreikningur 1995, að viðskiptastaðan sé ranglega tilgreind, hún hafi átt að vera 0, en ekki skuld að fjárhæð kr. 500.841.70. Matsmaður svarar þeirri spurningu játandi hvort nauðsynlegt hafi verið að færa 500.841.70 krónur til að leiðrétta viðskiptareikning stefnanda. Nauðsynlegt hafi verið að leiðrétta opnunarfærsluna, þar sem ekki hafi verið opnað með sömu stöðu og hafði verið i árslok árið áður. Þá kveður matsmaður að í raun megi álykta sem svo að færsla á kr. 500.000 hafi verið gerð til leiðréttingar á rangri saldó á viðstkiptareikningi stefnanda, sérstaklega með tilliti til þess hve fjárhæðirnar séu líkar (500.840.70 og 500.000) og þegar horft sé til vinnubragða í bókhaldinu að öðru leyti. Þegar síðan sé horft til þess að um hvað málið snúist, þá ætti sá möguleiki ekki að vera fyrir hendi að verið sé að leiðrétta ranga opnun ársins með þessari færslu, sökum þess að engin tengsl séu þarna á milli og ekki sé hægt að gera ráð fyrir að löggiltur endurskoðandi framkvæmi svona færslu sem hafi á sér yfirbragð fjárdráttar, þegar hún er skoðuð ein og sér. Færslur hefði átt að leiðrétta á sama hátt til baka eins og þær komu rangar inn í bókhaldið. Þá segir matsmaðurinn að stefnandi hafi ekki auðgast á því að færsla að fjárhæð 500.000 krónur var færð á reikning hans, þar sem nauðsynlegt hafi verið að gera leiðréttingu vegna hinnar röngu opnunar ársins eins og áður hafi komið fram. Það liggi því fyrir að eins og málum hafi verið háttað, hafi stefnandi ekki auðgast á færslunni, heldur hafi hlutir hans verið lagfærður með henni og hefði hann tapað 500.000 krónum hefði færslan ekki verið gerð.
Skýrslur sem stefnandi, Magnús Benediktsson, Jón Þ. Hilmarsson, Einar Sveinbjörnsson, Brynjólfur Bjarnason, Hafsteinn Alfreðsson, Guðrún Bogadóttir, Sigurður Sigmundsson, Þórir Ólafsson, Hjörtur Hjartarson, Jón Gunnar Karlsson, Indriði Theódór Ólafsson og Haraldur Júlíusson gáfu fyrir dóminum voru lagðar fram í endurriti. Fyrir dóminn kom einnig Jón Þór Hallsson, er málflutningur fór fram 1. júní sl.
Fyrir dómi var stefnandi inntur eftir því hvort einhver breyting hefði orðið á verði jarðarinnar í sölunni til Guðmundar Arnar Ólafssonar, frá því sem verið hefði. Stefnandi kvaðst ekki muna til þess að svo hefði verið.
Vitnið, Brynjólfur Bjarnason, var inntur eftir því hvort hann þekkti til viðskipta með jörðina Eystra-Fíflholt. Kvaðst vitnið ekki þekkja mikið til þeirra, en kvaðst vita að Vestur-Landeyjahreppur hefði tekið ákvörðun um að neyta forkaupsréttar við söluna. Vitnið kvaðst ekki hafa séð skjöl eða nokkur gögn því til stuðnings að sveitarfélagið hefði tekið að sér einhverjar fjárhagslegar ábyrgðir tengdar sölunni.
Vitnið, Magnús Benediktsson, kvað að í starfi sínu fyrir stefnda, hefði meðal annars falist að reikna út oddvitalaun, en það hefði verið gert eftir forskrift stefnanda, þannig að hann hafi átt að fá greidda ákveðna prósentutölu og síðan hefðu laun starfsmanns átt að greiðast af því. Laun starfsmannsins hafi átt að skerða oddvitagreiðslur.
Vitnið, Hjörtur Hjartarson, bar á sama veg, að oddviti hafi tekið að sér að greiða aðstoðarmanni sínum laun og hafi stefnandi upplýst það á fundum hreppsnefndar. Varðandi ábyrgðir stefnda vegna sölu á Eystra-Fíflholti, kvað vitnið stefnanda hafa margoft lýst því yfir að ábyrgðir stefnda vegna sölunnar væru engar.
Vitnið, Indriði Theódór Ólafsson, kvaðst vita til þess að skrifað hefði verið upp á skuldabréf sem tengdust viðskiptum með Eystra-Fíflholt. Hann kvaðst hafa skrifað upp á skuldabréfið í desember 1994, en kvað stefnanda hafa rætt um að það væri í tengslum við Njálsbúð, félagsheimilið í Vestur-Landeyjum. Það hafi hins vegar ekki verið fyrr en síðar að vitnið hafi fengið vitneskju um að bréfið tengdist viðskiptum hreppsins með Eystra-Fíflholt.
Vitnið, Haraldur Júlíusson, var spurður um fundargerð hreppsnefndar frá 5. júní 1994. Kvað vitnið að fram hefði komið hjá stefnanda á fundi þessum að laun oddvita og starfsmanna hefðu verið reiknuð þannig að þau væru lögð saman og hefðu átt að vera 6% af tekjum sveitarsjóðs. Varðandi fjárhagslegar skuldbindingar stefnda vegna viðskipta með Eystra-Fíflholt kvað vitnið að það hefði setið fund hreppsnefndar 7. apríl 1986, þar sem lagður hefði verið fyrir kaupsamningur milli Þorkels Steinars Ellertssonar og Birgis Sævars Péturssonar og að meirihluti hreppsnefndar hefði samþykkt að ganga inn í kaupsamninginn. Þá hafi stefnandi talað um að hreppurinn yrði að borga ,,eitthvað smávegis”. Í framhaldi af því hafi vitnið spurt stefnanda að því hvort nokkur kostnaður hefði fallið á stefnda vegna þessa, og hafi ætíð fengið þau svör að enginn kostnaður félli á hreppinn vegna þessa.
Kröfur stefnanda eru vegna vangreiddra launa fyrir árin 1994-1998 auk endurgreiðslu -og bakfærslukrafna og vaxtakrafna.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir á því að yfirlit stefnda um stöðu viðskiptareiknings stefnanda í árslok 2000 sé alrangt.
Hann sundurliðar stefnukröfu sína svo:
Vestur-Landeyjahreppur
Viðskiptareikningur Eggerts Haukdal sundurgreinist þannig:
1. KPMG færir á viðskr. EH v/Eystra Fíflholts 1994 kr. 1.035.000
2. KPMG færir á viðskr. EH v/Eystra Fíflholts 1991 kr. 172.449
3. KPMG segir skuld EH samkvæmt bókhaldi 31/12/95 kr. 500.842
4. Útteknir peningar umfram laun á árinu 1996 kr. 289.904
5. Útteknir peningar umfram laun á árinu 1997 kr. 1.017.509
6. Útteknir peningar umfram laun á árinu 1998 kr. 600.032
7. Færðir vextir samtals vegna áranna 1991-1998 kr. 1.732.437
8. Eggert greiðir á árinu 1998 kr.-2.800.000
Staða samkvæmt bókhaldi í árslok 2000 skuld kr. 2.557.173
Leiðrétting Jóns Þ. Hilmarssonar endurskoðanda við framangreint yfirlit er eftirfarandi;
9. Staða á viðskiptareikningi stefnanda í árslok 2000 kr.- 2.557.173
10.1) Bakfært skuldabréf v.sýknudóms kr. 1.035.000
11.1) Bakfært v/Eystra Fíflholts skv. Sýknudómi kr. 172.449
12.2) Bakfærð röng saldó kr. 500.842
13.3) Leiðrétt laun 1994 kr. 420.986
14.3) Leiðrétt laun 1995 kr. 496.861
15.3) Leiðrétt laun 1996 kr. 270.291
16.3) Leiðrétt laun 1997 kr. 646.116
17.3) Leiðrétt laun 1998 kr. 771.789
18.4) Bakfærðir vextir í tl.7 að framan kr. 1.732.437
20.5) Greitt af stefnanda v/skuldabr.sem stefndi
var í ábyrgð fyrir kr. 655.000
Inneign Eggerts Haukdal skv. framansögðu kr. 4.144.000
Stefnandi byggir kröfur sínar m.a. á eftirfarandi:
1. Hæstiréttur hafi staðfest að tilgreindar tölur, kr. 172.449 frá 1991 og kr. 1.035.000 frá 1994, á viðskiptareikningi stefnanda hjá stefnda, séu ekki skuldir stefnanda við stefnda heldur greiðslur sem stefnda hafi borið að greiða vegna ábyrgðar er tengdust kaupsamningi um Eystra Fíflholt og áður hefur verið lýst. Stefnandi hafi aldrei borið persónulega ábyrgð fyrir stefnda á greiðslu þessara fjárhæða og því hafi aldrei átt að færa þessar fjárhæðir á viðskiptareikning stefnanda hjá stefnda.
2. Jón Þ. Hilmarsson endurskoðandi hafi sýnt fram á að meint skuld stefnanda samkvæmt bókhaldi 31. desember 1995 að fjárhæð kr. 500.842 eigi rætur að rekja til bókhaldsmistaka. Stefnandi vísar til meðfylgjandi greinargerðar hans og framlagðra gagna en þar komi m.a. fram að við gerð ársreiknings fyrir árið 1996 hafi fallið niður að leiðrétta árið 1996 um færslur sem sé að finna á leiðréttingarfylgiskjali 239 í bókhaldi stefnda á árinu 1995.
Við opnun á árinu 1996 séu þessar færslur á fylgiskjali 239 ekki teknar með enda handvömmin í bókhaldinu sú að lokafærslur séu ekki færðar jafnóðum þegar bókhaldi hvers árs er lokað og því beri bókhaldinu ekki saman við ársreikning.
Fjárhæðin krónur 500.841,70 er mynduð þannig:
Óbókuð lokafærsla til leiðréttingar á árinu 1995 523.177,00
Óbókuð lokafærsla til leiðréttingar á árinu 1995 171.028,70
Saldó lykill 29-33-430 ranglega millifærð (193.364.00)
Samtals kr. 500.841.70
Jón vísi ennfremur til framlagðra gagna hæstaréttarmálsins en samkvæmt ómerktu dómsskjali bls 141B í hefti I (næst á eftir dómsskjali II/D-1.19.4) sjáist færslan "Saldó 1/1 Eggert Haukdal" krónur 500.841,70 sem skuld hans við hreppinn. Ef ofangreindar færslur hefðu verið færðar eins og lög gerðu ráð fyrir þá hefði saldó á bókhaldslykli 29-63-416 verið með núllstöðu, ekki 500.841,70 kr. Leiðrétta þurfi saldó á bókhaldslykli 29-63-416 í byrjun árs 1995 um krónur 523.177,00 í kredit, krónur 174.028,70 (sic) í kredit og krónur 193.364 í debet frá öðrum óviðkomandi reikningi, 29-33-430. Saldó kr. 500.841,70 eigi því rætur að rekja til bókhaldsmistaka en séu alls ekki lýsandi fyrir stöðu á bókhaldslykli.
3. Laun stefnanda tímabilið 1994-1998 hafi verið vanreiknuð sem nemi tilgreindum neðangreindum fjárhæðum.
1994
|
Tekjur VL 1994 |
14.487.608 |
|
|
|
Vatnsskattur |
228.824 |
|
|
|
|
14.716.432 |
|
|
|
Laun oddvita 6% |
|
882.986 |
|
|
Laun Eggerts skv. ársreikn./bókhaldi |
|
462.000 |
|
|
Vanreiknuð laun oddvita 1994 |
|
420.986 |
420.986 |
1995
|
Tekjur VL 1995 |
15.147.691 |
|
|
|
Vatnsskattur ??? |
|
|
|
|
Laun oddvita 6% |
|
908.861 |
|
|
Laun Eggerts skv. ársreikn/bókhaldi |
|
412.000 |
|
|
Vanreiknuð laun oddvita 1995 |
|
496.861 |
496.961 |
1996
|
Tekjur VL 1996 |
13.704.844 |
|
|
|
Vatnsskattur ??? |
|
|
|
|
|
13.704.844 |
|
|
|
Laun oddvita 6% |
|
822.291 |
|
|
Laun Eggerts skv. ársreikn./bókhaldi |
|
552.000 |
|
|
Vanreiknuð laun oddvita 1996 |
|
270.291 |
270.291 |
|
|
|
|
|
1997
|
Tekjur VL 1997 |
19.849.870 |
|
|
|
Vatnsskattur +hækkanir |
118.735 |
|
|
|
|
19.968.605 |
|
|
|
Laun oddvita 6% |
|
1.198.116 |
|
|
Laun Eggerts skv. ársreikn./bókhaldi |
|
552.000 |
|
|
Vanreiknuð laun oddvita 1997 |
|
646.116 |
646.116 |
1998
|
Tekjur VL 1998 |
22.196.549 |
|
|
|
Vatnsskattur +hækkanir |
|
|
|
|
|
22.196.549 |
|
|
|
Laun oddvita 6% |
|
1.331.793 |
|
|
Laun Eggerts skv. ársreikn./bókhaldi |
|
560.004 |
|
|
Vanreiknuð laun oddvita 1998 |
|
771.789 |
771.789 |
|
Vanreiknuð laun samtals 1994-1998 |
|
|
2.606.043 |
Núverandi endurskoðandi stefnda hafi reiknað út rétt laun stefnanda fyrir árið 1997. Útreikningur hans sýni að rétt laun stefnanda fyrir það ár eigi að vera kr. 1.198.116, en laun hans skv. ársreikningi/bókhaldi hafi verið aðeins kr. 552.000. Stefnandi hafi að sönnu tekið út peninga umfram rétt reiknuð laun á árinu 1997, en til þess verði að líta að þá hafi hann átt inni ógreidd laun frá 1994-1996 er numið hafi töluvert hærri fjárhæð.
4. Það leiði af liðum 1 til 3 að dráttarvextir sem hafa verið reiknaðir af fyrstu sexliðunum á viðskiptareikningi stefnanda eins og hann birtist í bókhaldi stefnda frá árinu 2000 falli niður með öllu. Liðir sem nefndir eru þar ,,útteknir peningar umfram laun á árunum 1996-8 falli niður þar sem sýnt hafi verið fram á að stefnandi hafi átt inni laun hjá stefnda eftir að réttur útreikningur hafi legið fyrir.
Stefnandi byggir skv. framangreindu á að laun hans hafi verið 6 % af tekjum stefnda þann tíma sem hann hafi gegnt starfi oddvita svo sem tíðkast hafi hjá minni sveitarfélögum. Þegar Jón Þ. Hilmarsson hafi sett upp leiðrétt laun stefnanda hafi laun Guðrúnar Bogadóttur verið innifalin í þeim launum, en Guðrún hafði þegið laun hjá stefnda, m.a. fyrir færslu bókhalds að forskrift endurskoðanda stefnda ásamt annarri skrifstofuvinnu og umsjón eigna. Þennan hátt hafi Jón haft á þar sem stefnandi og Guðrún Bogadóttir hafi haft sameiginlegan viðskiptareikning í bókhaldi stefnda skv. ákvörðun endurskoðanda stefnda bæði þess sem áður var og þess sem nú sé hjá stefnda. Engin rök séu hins vegar fyrir þessu fyrirkomulagi og laun stefnanda skv. viðskiptareikningnum því nú aðgreind frá launum Guðrúnar og kröfur hans aðskildar. Ljóst sé af framangreindum yfirlitum að vangreidd laun stefnanda séu langt umfram svokallaðar ,,útteknir peningar umfram laun” á árunum 1994-8. Því eigi stefnandi skilyrðislausa kröfu til greiðslu þess mismunar úr hendi stefnda með vöxtum frá 1.janúar 1999 til greiðsludags. Endurskoðandi stefnda hafi haft alla aðstöðu til að leiðrétta laun stefnanda og að láta hann njóta sanngirnis og sannmælis hvað þennan kröfulið varðar en ekki hirt um það, þrátt fyrir að hafa reiknað út rétt laun hans fyrir 1997.
Þá byggir stefnandi á því að hann eigi kröfu til endurgreiðslu úr hendi stefnda vegna greiðslu á skuldabréfi að fjárhæð kr. 645.000 útg. 1987. Stefndi hafi verið í ábyrgð fyrir greiðslu þessa bréfs. Greiðandi bréfsins hafi ekki staðið í skilum og greiðsluskyldan fallið á stefnda, sem verið hafi eini ábyrgðaraðilinn. Engar reglur, skráðar eða óskráðar, kveði á um að oddviti eða aðrir sveitarstjórnarmenn beri persónulega ábyrgð við slíkar aðstæður. Engin skuldskeyting hafi átt sér stað á upphaflega bréfinu. Þótt það hafi að endingu verið greitt með bréfi að fjárhæð kr. 2.965.000, útg. 2.8.1996, sem stefnandi ásamt fleirum tóku að sér að greiða, sé ábyrgð stefnda enn virk. Stefnandi geri því kröfu um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem hann hafi tekið tímabundið að sér að greiða fyrir stefnda. Hlutur stefnda þann 2. ágúst 1996 hafi verið kr. 655.000 af kr. 2.965.000 og hafi hann þegar greitt þá fjárhæð með vöxtum til greiðsludags. Því telji hann sig geta endurkrafið stefnda um fyrrgreindar kr. 655.000 með dráttarvöxtum frá 1. janúar1999.
Kröfu um endurgreiðslu ofgreidds fjár kr. 2.800.000 til stefnda á árinu 1998 byggir stefnandi á reglum condictio indebiti, en stefnanda hafi verið talin trú um af endurskoðendum stefnda að hann skuldaði stefnda þessa fjárhæð. Stefnandi hafi enga bókhaldsþekkingu og þeir, sem aðstoðað hafi stefnanda á þessum tíma, hafi talið að löggiltum endurskoðendum mætti treysta í þessum efnum. Nú liggi hins vegar fyrir skv. gögnum málsins að þegar stefnandi hóf að greiða til stefnda í byrjun árs 1998 þá hafi hann í raun ekki verið í skuld heldur hafi staðan verið á þveröfugan veg, þ.e. að stefnandi eigi töluvert fé inni hjá stefnda.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi kveður málatilbúnað stefnanda og fjárkröfur hans öðrum þræði byggðar á því að stefndi hafi undirgengist tilteknar fjárhagslegar ábyrgðir sem stefnandi kveði tengjast jörðinni Eystra-Fíflholti. Í stefnu sé þannig staðhæft að á stefnda hafi fallið ábyrgðir vegna vanefnda Guðmundar Arnar Ólafssonar á samningi um jörðina. Þessi staðhæfing fái ekki staðist. Stefndi hafi á fundi 7. apríl 1986 beitt heimild jarðalaga nr. 65/1976 og neytt forkaupsréttar að jörðinni Eystra-Fíflholti. Það hafi verið gert að beiðni seljanda jarðarinnar sem viljað hafi rifta kaupum. Stefndi hafi þá þegar endurselt jörðina og skuldbindingar samkvæmt samningi um jörðina aldrei færðar í bókhald stefnda og geti því ekki talist skuldbindingar sem Vestur-Landeyjahreppur beri ábyrgð á, eins og ranglega sé haldið fram af hálfu stefnanda.
Þá hafi stefnandi ævinlega staðhæft á þessum tíma að engar fjárhagslegar skuldbindingar myndu falla á hreppinn vegna ákvörðunar hreppsnefndar um að neyta forkaupsréttar að jörðinni. Löngu síðar, eða við athugun KPMG endurskoðunar á bókhaldi og færslum í ársreikningi stefnda fyrir árið 1997 hafi komið í ljós færslur í bókhaldi hreppsins sem tengst hafi meintum eldri skuldbindingum vegna jarðakaupanna en séu með öllu óviðkomandi stefnda, en á ábyrgð stefnanda. Skuldbindingar þessar hafi verið færðar á viðskiptareikning stefnanda til leiðréttingar, enda hafi þær ekki getað verið á ábyrgð stefnda, án sérstakrar ákvörðunar hreppsnefndarfundar þar um.
Stefnandi hafi fráleitt fært sönnur á að stefndi hafi við sölu á Eystra-Fíflholti gengist í ábyrgð á tilteknum fjárskuldbindingum og enn síður lagt fyrir dóminn gögn til stuðnings staðhæfingum sínum. Þá bendir stefndi á takmörkun í þágildandi sveitarstjórnarlögum við ábyrgðum sveitarsjóða, sbr. 89. gr. laga nr. 8/1986. Stefndi hafi selt jörðina Eystra-Fíflholt á árinu 1987. Þá hafi gilt nefnd sveitarstjórnarlög, sem leggi óundanþægt bann við því að sveitarsjóður sé bundinn sjálfskuldarábyrgð á skuldbindingum annarra aðila en stofnana sveitarfélags. Aðeins sé unnt samkvæmt lögunum að veita svonefnda einfalda ábyrgð til annarra og þá gegn tryggingum sem sveitarstjórn meti gilda. Samkvæmt því hafi ekki verið á færi stefnanda að binda sveitarsjóð fjárskuldbindingum. Sama eigi við um aðra sveitarstjórnarmenn en oddvita, en mjög sé til þess vitnað af hálfu stefnanda að tveir nafngreindir hreppsnefndarmenn, þeir Jón Gunnar Karlsson og Guðjón Sigurjónsson hafi haft vitneskju um það að ,,sjálfskuldarábyrgð hreppsins” hafi verið gefin með vitund þeirra og samþykki. Slík yfirlýsing hafi að sjálfsögðu ekkert gildi gagnvart stefnda og bindi hann fráleitt gegn skýru banni sveitarstjórnarlaga við slíkum ábyrgðum. Til þeirra hafi ekki verið heimild að lögum og því fái fullyrðingar um annað ekki staðist og verði stefnandi sjálfur persónulega að bera ábyrgð á fjárskuldbindingum sem sagðar séu tilkomnar vegna vanefnda kaupenda Eystra-Fíflholts af stefnda. Stefnandi hafi þegar viðurkennt yfirsjónir sínar og greitt til sveitarsjóðs stefnda þær skuldbindingar sem taldar eru hafa fallið á ábyrgðaraðila vegna jarðarinnar og hafi verið ranglega færðar í bókhaldi stefnda. Ekki sé vitað hvað valdið hafi skyndilegri afstöðubreytingu hjá stefnanda sem felist í kröfum hans á hendur stefnda.
Að mati stefnda rangtúlki stefnandi umfjöllun og forsendur í dómi Hæstaréttar frá 17. maí 2001. Þannig sé einungis tekið fram í forsendum Hæstaréttar að ekki hafi verið sannað að auðgunarásetningur hafi legið að baki þeim gjörðum stefnanda sem lýst var í I. kafla ákæru. Beinlínis sé fráleitt að halda því fram að Hæstiréttur hafi með umræddum dómi fellt greiðsluskyldu á stefnda vegna ábyrgða, tengdum viðskiptum með jörðina Eystra-Fíflholt. Nægi í þeim efnum að benda á forsendur dómsins, þar sem m.a. segi: ,,Án tillits til þess hvort Vestur-Landeyjahreppur var að lögum bundinn við þá ábyrgðaryfirlýsingu sem fram kom í áðurnefndum kaupsamningi um jörðina Eystra-Fíflholt 19. apríl 1986, liggur ekki fyrir að hreppurinn hafi skaðast fjárhagslega vegna aðgerða ákærða í tengslum við jarðakaupin...”
Stefndi kveður að meðal fjárkrafna á hendur sér sé krafa að fjárhæð 655.000 krónur, sem stefnandi kveðist hafa greitt vegna skuldabréfs á dskj. nr. 11. Stefndi mótmælir því sem röngu og ósönnuðu. Hvergi sé í gögnum málsins sýnt fram á stefnandi hafi greitt umkrafða fjárhæð eða lagt fram gögn til staðfestingar þessari kröfu sinni. Krafan sé augljóslega vanreifuð og ódómhæf og gildi það raunar um allar fjárkröfur stefnanda á hendur stefnda.
Þegar af þessum ástæðum beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda um endurgreiðslu á meintri skuld stefnda við stefnanda.
Í málinu hafi stefnandi krafið stefnda um endurgreiðslu á 500.842 krónum sem hann telji vera skuld við sig vegna ,,bókhaldsmistaka”.
Í stefnu sé að finna útlistun á því hvernig viðskiptastöðu stefnanda hafi verið breytt úr því að vera skuld við stefnda, Vestur-Landeyjahrepp, að fjárhæð 2.557.173 krónur yfir í að vera inneign að fjárhæð 4.144.598 krónur. Meðal liða sem tilgreindir eru í stefnu að leiðrétta þurfi sé ,,bakfærð röng saldó” að fjárhæð 500.842 krónur.
Í stefnu sé greint frá bókhaldslykli 29-33-430. Sá bókhaldslykill sé ekki til í fjárhagsbókhaldi Vestur-Landeyjahrepps, en líklega sé átt við bókhaldslykil 29-63-430. Sá bókhaldslykill sé alls ekki óviðkomandi stefnanda. Rök stefnanda fyrir því að bókhaldslykillinn 29-63-416 hafi verið opnaður með rangri byrjunarsaldó í ársbyrjun 1996 séu þau að ekki hafi verið tekið tillit til lokafærslna endurskoðanda í árslok 1995. Lokafærslurnar séu samkvæmt fylgiskjali nr. 239 dags. 31. desember 1995. Þær séu annars vegar 523.177 krónur og hins vegar 171.028,70 krónur. Þessar tölur séu báðar færðar kredit á viðskiptareikning stefnanda nr. 29-63-416 og geri stöðu stefnanda hagfelldari en ella. Færslan kr. 523.177, sé þannig tilkomin að verið sé að færa stöðu á bókhaldslykli 29-33-516 sem heiti Eystra-Fíflholt á 0 með færslu í kredit þar kr. 684.272, með debet færslu á bókhaldslykil 29-33-522, sem einnig heiti Eystra-Fíflholt að fjárhæð 1.207.449 krónur, og með kreditfærslu á reikning 29-63-416, kr. 523.177. Með þessari færslu sé verið að millifæra stöður (saldó) á milli reikninga, einungis í þeim tilgangi að sýna stöðu þeirra aðra en hún í raun er, í árslok 1995, en í byrjunarfærslum ársins 1996 sé staða reikninganna sýnd eins og hún eigi að vera, samkvæmt stöðu fjárhagsbókhaldsins í árslok 1995 fyrir umræddar ,,lokafærslur”. Færsla að fjárhæð kr. 171.028,70 í kredit á 29-63-416, sem setji stöðu þess reiknings á kr. 0, í árslok 1995 sé færð til gjalda í rekstrarrreikningi augsjáanlega gerð í þeim tilgangi að setja þennan viðskiptareikning stefnanda á núll, án nokkurra skýringa.
Við opnunarfærslur í ársbyrjun 1996 sé ekki tekið tillit til þessara lokafærslna þar sem þeir sem staðið hafi að þeim vissu að ekki var rétt með þær farið í fjárhagsbókhaldi 1995. Opnunarfærslan í bókhaldinu 1996 samanstandi af stöðu bókhaldsreikninganna 29-63-416 sem sé debet kr. 694.205,70 og bókhaldsreikningnum 29-63-430 með kreditstöðu að fjárhæð kr. 193.364,70 í árslok 1995 eða debet staða að fjárhæð kr. 500.841,70. Eins og að framan greini tilheyri færslur á bókhaldsreikningnum 29-63-416 og 29-63-430 stefnanda og því þurfi að taka tillit til stöðu beggja þeirra reikninga þegar staða stefnanda við stefnda sé skoðuð. Fullyrðingin um að taka þurfi tillit til rangrar saldó í upphafi árs 1996 eigi því ekki við rök að styðjast og beri að sýkna stefnda af þessum kröfulið stefnanda.
Meðal fjárkrafna stefnanda sé krafa um greiðslu á 2.606.043 krónum sem stefnandi telji vera vangreidd oddvitalaun á tímabilinu 1994-1998. Þessari kröfu hafnar stefndi alveg og við athugun af hálfu stefnda hafi komið í ljós að ekki sé fyrir að fara neinni ákvörðun hreppsnefndar stefnda um launakjör oddvita og virðist því stefndi hafa ákveðið launakjör sín sjálfur.
Í 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 sem gilt hafi á því tímabili sem krafa stefnanda nái yfir sé gert ráð fyrir því að laun oddvita séu ákveðin sérstaklega af sveitarstjórn og skuli þá ýmist miða við ákveðið fast hlutfall af tekjum sveitarfélagsins og stofnana þess, sem oddviti hafi umsjón með, eða áætlaðan vinnutíma oddvita við stjórnsýslustörf. Þannig sé ljóst að laun oddvita séu háð sérstakri ákvörðun hreppsnefndar. Slíkri ákvörðun sé ekki fyrir að fara og því fái krafa stefnanda ekki staðist.
Stefnandi hafi sjálfur svarað því til á fundi hreppsnefndar Vestur-Landeyjahrepps 5. júní 1994, að laun oddvita væru 6% af tekjum sveitarsjóðs lögum samkvæmt og hann borgaði síðan af þeim sínu aðstoðarfólki. Ljóst sé að kröfugerð stefnanda nú fái ekki samræmst hans eigin ummælum á tilvitnuðum fundi. Í fyrsta lagi byggi stefnandi á því að tekjur vatnsveitu sveitarfélagsins eigi að hafa áhrif á laun oddvita til hækkunar, en svo sé ekki. Um sé að ræða stofnun sveitarfélagsins, sem stefnandi hafi aldrei haft neina sérstaka umsjón með né borið ábyrgð á. Stefnanda megi vera kunnugt um að Guðjón heitinn Sigurjónsson hafi haft umsjón með vatnsveitu sveitarfélagsins um langt árabil og að eftir hans dag hafi Brynjólfur Bjarnason núverandi oddviti tekið við umsjón veitunnar. Í öðru lagi taki stefnandi ekki mið af því að laun ,,aðstoðarfólks” skerði oddvitalaunin og virðist stefnandi eðlilega hafa gert sér nokkuð ljósa grein fyrir því á hreppsnefndarfundi árið 1994.
Stefndi vísar til upplýsinga um launagreiðslur til oddvita stefnda og aðstoðarmanns hans kröfu sinni til stuðnings. Beri samkvæmt framangreindu að sýkna stefnda af þessari kröfu stefnanda.
Stefndi vísar til almennra reglna kröfu- og samningaréttarins, sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986, sbr. núgildandi sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Niðurstaða.
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að stefndi sé í skuld við stefnanda um a.m.k. 4.144.598 krónur. Niðurstöðutala sú er fram kemur í sundurliðun kröfu stefnanda, 2.557.173 krónur, er í tölulegu samræmi við niðurstöðutölu á yfirliti sem Einar Sveinbjörnsson löggiltur endurskoðandi samdi fyrir stefnda. Það yfirlit felur í sér samanteknar hreyfingar í bókhaldi stefnda á árunum 1995-1998, þar sem sameinaðar hafa verið í eitt yfirlit reikningar 29-63-416 og 29-63-430, sem báðir varða viðskipti stefnanda við stefnda á nefndum árum. Yfirlit þetta hefst á skuld stefnanda í ársbyrjun 1995, kr. 154.057, og lýkur á fyrrnefndri fjárhæð 2.557.173 kr. í árslok 1998. Yfirlitið á að sýna öll viðskipti stefnanda við stefnda á árunum 1995 til 1998 og felur m.a. í sér sundurliðun á launum til stefnanda og starfsmanns hans, úttektum á peningum, og innborgunum ásamt bókuðum og reiknuðum vöxtum. Yfirlitið inniheldur jafnframt þær breytingar sem KPMG endurskoðun hefur talið nauðsynlegt að láta gera á viðskiptareikningi stefnanda vegna þeirrar rannsóknar sem framkvæmd var á bókhaldi stefnda og færslur vaxta vegna áranna 1991-1998.
Hluta stefnukröfu kveður stefnandi vera vegna þess að stefndi hafi átt að greiða annars vegar 172.449 krónur og hins vegar 1.035.000 krónur, sem færðar voru sem skuldir stefnanda við stefnda í viðskiptabókhald stefnda, vegna ábyrgða samkvæmt kaupsamningi um Eystra-Fíflholt, dags. 19. apríl 1986. Í samningnum sé ákvæði þess efnis að sveitarsjóður Vestur-Landeyjahrepps sé ábyrgur fyrir öllum skuldbindingum samningsins gagnvart seljanda, þótt sveitarsjóður endurselji jörðina, þar á meðal greiðslu fasteignatryggðs veðskuldabréfs.
Í dómi hæstaréttar frá 17. maí 2001 í máli ákæruvaldsins gegn Eggert Haukdal, kom undirréttardómur Héraðsdóms Suðurlands til endurskoðunar. Eins og fram kemur í forsendum dóms Hæstaréttar var ekki úr því skorið með dóminum hvort Vestur-Landeyjahreppur hafi að lögum verið bundinn við þá ábyrgðaryfirlýsingu sem fram kom í áðurgreindum kaupsamningi. Breytir álit undirréttardóms um ábyrgðir Vestur-Landeyjahrepps í því máli sem höfðað var sem opinbert mál á hendur stefnanda engu um það að ekki hefur verið úr því skorið með bindandi hætti milli aðila þessa máls. Það verður því tekið til sjálfstæðrar skoðunar í máli þessu hvort Vestur-Landeyjahreppur hafi að lögum verið bundinn við ofangreinda ábyrgðaryfirlýsingu.
Fyrir liggur að Vestur-Landeyjahreppur samþykkti á hreppsnefndarfundi 4. apríl 1986, að neyta forkaupsréttar að jörðinni Eystra-Fíflholti og ganga inn í kaupsamning Birgis Sævars Péturssonar og Þorkels Steinars Ellertssonar. Sá samningur hefur ekki verið lagður fram í málinu og er því með öllu óvíst hvað sá samningur fól í sér og hvort kaupverð var hið sama og í ofangreindum kaupsamningi frá 19. apríl 1986 milli stefnda og Birgis Sævars Péturssonar, en sá samningur var aldrei lagður fyrir hreppsnefnd. Orðalag í fundargerð hreppsnefndarinnar frá 4. apríl 1986, um að ákvörðun um að neyta forkaupsréttar sé meðal annars byggð á samkomulagi við fulltrúa eiganda um nýja greiðsluskilmála, bendir til þess að samningurinn milli Birgis Sævars og stefnda hafi verið með einhverjum öðrum hætti en samningurinn milli Þorkels Steinars og Birgis Sævars, sem stefndi samþykkti að ganga inn í. Það er því mat dómsins að stefnandi hafi ekki fært sönnur á, í hverju skuldbindingar þær fólust sem stefndi tókst á hendur með samþykkt hreppsnefndarfundar frá 4. apríl 1986, og hvort þær voru þær sömu og greinir í kaupsamningnum milli Vestur-Landeyjahrepps og Birgis Sævars Péturssonar. Því hefur samkvæmt framangreindu ekki verið sýnt fram á að samþykkt sveitarstjórnar hafi legið fyrir til greiðslu útgjalda þeirra er féllu á stefnda vegna kaupsamningsins milli stefnda og Birgis Sævars Péturssonar, en samkvæmt 2. mgr. 47. gr. laga nr. 58/1961, sem í gildi voru er kaupsamningur við Birgi Sævar var undirritaður, 19. apríl 1986, verður til að koma samþykkt sveitarstjórnar, ef greiða á útgjöld, sem ekki eru lögbundin, samningsbundin, eða leiða ekki af fyrri samþykkt sveitarstjórnar. Þá hefur komið fram í framburði vitnisins Hjartar Hjartarsonar og Haraldar Júlíssonar að stefnandi hafi margoft lýst því yfir að engar ábyrgðir féllu á hreppinn vegna sölu Eystra-Fíflholts.
Stefnandi kaus að endurgreiða hluta þeirra ábyrgða sem færðar höfðu verið á Vestur-Landeyjahrepp vegna meintra ábyrgða hreppsins. Það leiðir af þeirri niðurstöðu dómsins að ekki hafi verið færðar sönnur á að stefndi hafi samþykkt framangreindar skuldbindingar, að stefnandi getur ekki átt endurkröfu á hendur stefnda vegna þess að hann hafi greitt umfram skyldu. Ber því að hafna þessari kröfu stefnanda.
Stefnandi hefur krafist endurgreiðslu á 500.841 krónu sem hann telur rætur eiga að rekja til bókhaldsmistaka stefnda og hafi stefnandi verið skuldlaus við stefnda um áramótin 1995/1996.
Í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar er gengið út frá því að skuld stefnanda við stefnda hafi numið 500.841 krónu í ársbyrjun 1996. Þessi skuld hafi verið jöfnuð út með tveimur færslum, annars vegar með færslu á viðskiptareikning Ræktunarsambands Landeyja, að fjárhæð 500.000 krónur og hins vegar með færslu á reikning 29-63-416, að fjárhæð 841 króna.
Fram hefur komið í málinu að ýmsar misfellur hafa verið í bókhaldi stefnda sem tengjast lokafærslum í árslok og opnunarfærslum einstakra reikninga í ársbyrjun næsta árs. Ekki hefur fengist viðhlítandi skýring á þessum færslum við meðferð málsins eða í hvaða tilgangi þær hafa verið gerðar. Fram er komið að Magnús Benediktsson endurskoðandi sá um færslu bókhalds stefnda fyrir þau ár sem hér um ræðir, en stefnandi réð hann til starfa.
Af framlagðri samantekt Jóns Þ. Hilmarssonar endurskoðanda, um tilgreindar bókhaldsfærslur í bókhaldi stefnda, sem hann vann fyrir stefnanda, má ráða að niðurstöðu sína byggi hann m.a. á þeim fjölmörgu gögnum sem lágu frammi í máli ákæruvaldsins gegn stefnanda, sbr. ofangreindan hæstaréttardóm. Þau gögn hafa ekki verið lögð fram í máli þessu.
Ofangreindur dómur Hæstaréttar hefur fullt sönnunargildi um þau atvik sem þar koma til skoðunar, þar til annað sannast. Lögð hefur verið fram matsgerð dómkvadds matsmanns, Jóns Þórs Hallssonar, löggilts endurskoðanda. Matsgerðin staðfestir það sem áður hefur komið fram í málinu, að viðskiptareikningur stefnanda hjá stefnda nr. 29-63-416 sé með núll stöðu í árslok 1995 og að sami reikningur sé opnaður með færslu í árslok 1996 með skuld stefnanda að fjárhæð kr. 500.841,70. Matsgerðin fjallar hins vegar ekkert um þær lokafærslur í árslok 1995 sem færðu skuldastöðu stefnanda úr síðast nefndri fjárhæð í núll stöðu, en af hálfu stefnda hefur því verið haldið fram að við opnunarfærslur í bókhaldi stefnda í ársbyrjun 1996, með kr. 500.841.70, hafi ekki verið tekið tillit til nefndra lokafærslna, þar sem þeir sem að þeim stóðu hafi vitað að ekki var rétt með þær farið í fjárhagsbókhaldi ársins 1995. Þá ber einnig að líta til þess að hin meinta ranga opnunarstaða í bókhaldi stefnda árið 1996 er sem næst þurrkuð út með færslu að fjárhæð kr. 500.000 merkt Þúfuvegur sem ekki virðist eiga sér stoð. Á þeim tíma sem nefndar lokafærslur voru færðar bar stefnandi sem oddviti ábyrgð á færslu bókhalds stefnda.
Það er mat dómsins að á grundvelli þeirra gagna sem lögð hafa verið fram í máli þessu, meðal annars matsgerðar dómkvadds matsmanns, Jóns Þórs Hallssonar, sé ekki unnt að staðreyna réttmæti færslna þeirra er stefnandi byggir þessa kröfu sína á. Því er ósannað að stefnandi eigi kröfu á hendur stefnda sem nemur framangreindri fjárhæð.
Stefnandi hefur krafið stefnda um greiðslu að fjárhæð 655.000 krónur vegna skuldabréfs, upphaflega að fjárhæð 645.000 krónur, útgefið að Guðmundi Erni Ólafssyni. Stefnandi hefur haldið því fram að stefnda beri að greiða skuldabréf þetta, en stefndi er sjálfskuldarábyrgðaraðili á bréfinu. Í stefnu kemur fram að stefnandi hafi ,,talið sig ” vera í ábyrgð fyrir þessu skuldabréfi og til að leysa skuldina hafi stefnandi gefið út skuldabréf fyrst að fjárhæð 2.370.000 en síðan með skuldabréfi 2. ágúst 1996 að fjárhæð 2.965.000. Bréf þessi eru ekki meðal gagna málsins og stefnandi hefur ekki lagt fram nein gögn til stuðnings þeirri staðhæfingu sinni að hann hafi greitt umkrafðar 655.000 krónur. Þar sem það er alveg ósannað ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda vegna þessa kröfuliðs.
Loks hefur stefnandi krafist greiðslu á ógreiddum launum, en hann hefur haldið því fram að laun sín hefðu átt að vera 6% af tekjum sveitarsjóðs þ.m.t. tekjum vatnsveitu sveitarfélagsins.
Af framlögðum upplýsingum úr ársreikningum Vestur-Landeyjahrepps verður ráðið að laun oddvita og starfsfólks hans hafi tilgreind ár, 1994-1998, ýmis numið lægri eða hærri fjárhæð en sem nam 6% af tekjum sveitarsjóðs.
Samkvæmt 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 sem giltu á því tímabili sem krafa stefnanda nær til er kveðið á um að laun oddvita séu ákveðin sérstaklega af sveitarstjórn og skuli þá ýmist miða við ákveðið fast hlutfall af tekjum sveitarfélagsins og stofnana þess, sem oddviti hafi umsjón með eða við áætlaðan vinnutíma oddvita við stjórnsýslustörf. Laun oddvita eru samkvæmt framangreindu háð sérstakri ákvörðun hreppsnefndar.
Fært er til bókar í fundargerð hreppsnefndar 5. júní 1994 að stefnandi hafi sjálfur talið oddvitalaun vera 6% af tekjum sveitarsjóðs, lögum samkvæmt, og að hann greiddi af þeim til aðstoðarfólks síns. Samkvæmt fundargerð frá 12. september 1983 samþykkti hreppsnefnd að veita oddvita heimild til að ráða starfsmann til skrifstofustarfa og skyldi kaup hennar greiðast af oddvitalaunum. Fundargerð þessi rennir því stoðum undir það sem stefnandi upplýsti sjálfur á fundi hreppsnefndar um laun oddvita 5. júní 1994. Það er því alveg ósannað af hálfu stefnanda að laun hans hafi átt að vera önnur en þau sem stefnandi hefur móttekið og staðfest eru í ársreikningum stefnda, enda í ósamræmi við framangreindar bókanir að laun oddvita sjálfs skyldu nema 6% af tekjum sveitarsjóðs, eins og kröfugerð stefnanda tekur mið af. Ber því að sýkna stefnda af kröfu stefnanda um vangreidd laun, eins og hún er fram sett.
Þar sem niðurstaða dómsins er samkvæmt framangreindu að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda og stefnandi hefur ekki gert efnislegar athugasemdir við útreikningu vaxta, er stefndi einnig sýknaður af kröfu stefnanda um bakfærslu vaxta að fjárhæð 1.732.437 krónur.
Samkvæmt framangreindu er stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda.
Í ljósi þessara úrslita greiði stefnandi stefnda 500.000 krónur í málskostnað.
Ingveldur Einarsdóttir, héraðsdómari, ásamt meðdómsmönnunum Önnu Kristínu Traustadóttur, löggiltum endurskoðanda og Garðari Valdimarssyni hrl., og löggiltum endurskoðanda, kveða upp dóm þennan.
D ó m s o r ð:
Stefndi, Rangárþing eystra, er sýkn af kröfum stefnanda, Eggerts Haukdal.
Stefnandi greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað.