Hæstiréttur íslands

Mál nr. 310/2002


Lykilorð

  • Stjórnsýsla
  • Kjaramál
  • Endurmenntun
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 26

 

Fimmtudaginn 26. september 2002.

Nr. 310/2002.

Íslenska ríkið

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

gegn

Háskóla Íslands

gegn

Ágústi Einarssyni

Brynjólfi Sigurðssyni

Ingjaldi Hannibalssyni

Snjólfi Ólafssyni og

Erni D. Jónssyni

(Hörður Felix Harðarson hrl.)

 

Stjórnsýsla. Kjaramál. Endurmenntun. Sératkvæði.

H og prófessorar við viðskipta- og hagfræðideild skólans kröfðust þess að tveir úrskurðir kjaranefndar frá maí 2001 og febrúar 2002 um aukastörf prófessora við MBA nám á vegum deildarinnar yrðu felldir úr gildi. Í málinu lá fyrir að kjaranefnd teldi að hún hefði komið til móts við sjónarmið H og prófessoranna í úrskurði sínum frá desember 2001 þar sem ákvæði um yfirvinnuþak hefði verið rýmkað verulega. Með vísan til 2. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 11. gr. laga nr. 120/1992 um Kjaradóm og kjaranefnd var talið ótvírætt að kjaranefnd bæri að meta hvort kennslustörf prófessora við viðskipta- og hagfræðideildar H við MBA nám teldust hluti aðalstarfs þeirra eða hvort þau væru þess eðlis að launa bæri þau sérstaklega. Í málinu yrði hins vegar ekki framhjá því litið að löggjafinn hefði ákveðið H verulegt sjálfstæði eins og fram kæmi í lögum nr. 41/1999 um Háskóla Íslands. Þannig hefði stjórn skólans víðtækar heimildir varðandi skipulag og framkvæmd endurmenntunarnáms innan hans og hefði löggjafinn m.a. gengið út frá því að fjárhagsgrundvöllur þess yrði annar en gilti um hið almenna nám innan skólans. Var talið að fram væru komin gild rök fyrir því að kennslustörf prófessora við umrætt MBA nám væri viðbót við regluleg störf þeirra hjá viðskipta- og hagfræðideild. Að öllu virtu þótti sú ákvörðun H að þessi störf prófessoranna skyldu falla utan marka aðalstarfs þeirra sem og aðrar ákvarðanir varðandi framkvæmd námsins eiga sér stoð í lögum nr. 41/1999. Var fallist á að ekki hefði verið tekið tillit til þessa í úrskurðum kjaranefndar og samkvæmt því og að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms var niðurstaða hans um að fella úrskurðina úr gildi staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

          Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Haraldur Henrysson og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. júlí 2002 og krefst þess að hann verði sýknaður af öllum dómkröfum stefndu og sér dæmdur málskostnaður úr þeirra hendi í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

          Eins og fram kemur í héraðsdómi varðar mál þetta ágreining aðila um úrskurði kjaranefndar 8. maí 2001 og 12. febrúar 2002 þar sem hafnað var ósk forstöðumanns MBA náms við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands um að kennsla prófessora deildarinnar við nám þetta teldist aukastarf, sem launa bæri sérstaklega. Eru málsástæður aðila raktar í héraðsdómi.

           Viðskipta- og hagfræðideild gekk frá samþykktum fyrir umrætt nám á fundi 2. júní 2000, og var jafnframt samþykkt að kennsla og stjórnun í MBA námi yrði fyrir utan starfsskyldur lektora, dósenta og prófessora. Samþykktir fyrir námið voru staðfestar á fundi háskólaráðs 14. júní 2000. Hinn 3. júlí 2000 gerði viðskipta- og hagfræðideild þjónustusamning við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands, sem tók að sér að sjá um framkvæmd námsins, en í því fólst meðal annars að sjá því fyrir húsnæði og annarri aðstöðu og annast fjármál og bókhald vegna námsins, þar á meðal greiðslur til kennara fyrir vinnu þeirra.

Fyrir liggur í málinu að sérstakt gjald er tekið af nemendum vegna umrædds náms á grundvelli 1. mgr. 18. gr. laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands. Á fundi háskólaráðs 14. júní 2000 var samþykkt að gjaldið yrði 1.250.000 krónur á hvern nemanda. Í sérstakri bókun rektors af þessu tilefni sagði, að sú ákvörðun að heimila gjaldtöku fyrir MBA nám byggðist á því að um starfstengt endurmenntunarnám væri að ræða og væri þetta sérstakt tilvik.

Í tilefni óskar forstöðumanns MBA námsins til kjaranefndar, sem áður er nefnd, leitaði nefndin meðal annars umsagnar menntamálaráðuneytisins. Í svarbréfi þess 1. nóvember 2000 segir, að í ljósi sjálfstæðis Háskóla Íslands og þess að háskólaráð sé æðsti ákvörðunaraðili innan skólans og fari með úrskurðarvald í málefnum hans, sbr. 3. gr. laga um skólann, komi það ekki í hlut ráðuneytisins að skilgreina starfsskyldur prófessora, sem séu ráðnir af háskólarektor. Jafnframt bendir ráðuneytið á að umrætt nám grundvallist á því að það sé rekið fyrir sjálfsaflafé og að í fjárveitingum ráðuneytisins sé ekki gert ráð fyrir því að það verði fjármagnað að neinu leyti með framlögum úr ríkissjóði, heldur sjái skólinn sjálfur um rekstur námsins innan síns fjárhagsramma og með þeim heimildum til tekjuöflunar, sem hann hafi.

Fram hefur komið í málinu að kjaranefnd hefur talið að hún hafi komið til móts við sjónarmið stefndu í úrskurði sínum 11. desember 2001 um laun og önnur starfskjör prófessora þar sem ákvæði um yfirvinnuþak hafi verið rýmkuð verulega. Einnig hefur komið fram að nefndin hefur úrskurðað að kennsla prófessora úr öðrum deildum en viðskipta- og hagfræðideild við MBA námið skuli teljast aukastörf, sem greitt skuli sérstaklega fyrir. Hafði nefndin áður úrskurðað að þetta gilti um kennslu prófessora við endurmenntunarstofnunina. Þá hefur og komið fram að kennsla við MBA námið fer fram síðdegis og að kvöldlagi.

Í málflutningi stefndu fyrir Hæstarétti var fullyrt, að úrskurðir kjaranefndar 8. maí 2001 og 12. febrúar 2002 hefðu þær afleiðingar, að háskólinn gæti ekki boðið upp á endurmenntun innan deilda hans, sem væri rekin fyrir það fé sem fengist greitt frá þeim er það stunda.

II.

Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 41/1999 segir að Háskóli Íslands skuli vera vísindaleg rannsókna- og fræðslustofnun og samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skal hann einnig sinna endurmenntun þeirra sem lokið hafa háskólaprófi.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 41/1999 er háskólaráð æðsti ákvörðunaraðili innan háskólans. Fer háskólaráð með úrskurðarvald í málefnum skólans og stofnana sem honum tengjast og með almennt eftirlit með starfsemi hans og rekstri samkvæmt því sem nánar er mælt fyrir um í lögunum og reglum settum með stoð í þeim.

Í 1. mgr. 9. gr. er tekið fram að háskóladeildir séu grunneiningar háskólans. Innan þeirra fari fram kennsla, rannsóknir og stjórnun. Deildir séu sjálfstæðar um eigin málefni innan þeirra marka er sameiginlegar reglur háskólans setji. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er háskóladeildum og stofnunum heimilt að stunda þjónusturannsóknir og standa fyrir endurmenntun og fræðslu fyrir almenning. Skal hver deild gera sérstakar samþykktir um kennslu sem háskólaráð staðfestir. Í athugasemdum með þessu ákvæði í frumvarpi því, er varð að lögum nr. 41/1999, kemur fram að með ákvæðum 9. og 18. gr. sé fengin skýr lagastoð fyrir starfsemi af þessu tagi sem skapi deildum nokkurt svigrúm til að afla sértekna og nýta þær eins og best samrýmist hagsmunum og þörfum deildarinnar hverju sinni.

Samkvæmt 4. mgr. 11. gr. setur háskólaráð almennar reglur um starfsheiti og starfsskyldur háskólakennara. Háskóladeild ákveður hvernig starfsskyldur einstakra kennara skulu skiptast. Í athugasemdum í frumvarpi með þessu ákvæði kemur fram að verið sé að árétta völd háskólaráðs sem æðsta ákvörðunaraðila innan háskólans til að ákveða starfsskyldur starfsmanna og beri að leggja ákvarðanir ráðsins til grundvallar við mat á launakjörum starfsmanna háskólans. Háskóladeildir skulu hins vegar á grundvelli þessara reglna ákveða hvernig starfsskyldur einstakra kennara skiptist.

Með 1. mgr. 18. gr. er háskólanum heimilað að taka gjald fyrir þjónustu sem telst utan þeirrar þjónustu sem háskólanum er skylt að veita. Honum er enn fremur heimilt að taka gjöld fyrir endurmenntun og fræðslu fyrir almenning.

Stefndi Háskóli Íslands hefur samkvæmt heimildum í framangreindum lögum sett reglugerð, sem birt hefur verið í Stjórnartíðindum og er nr. 458/2000. Í 14. gr. hennar er fjallað um endurmenntun á vegum háskóladeilda og á þeim tíma, er til umrædds náms var stofnað, voru talin upp í sjö töluliðum skilyrði sem slíkt nám skyldi lúta. Þannig þarf nemandi að uppfylla inntökuskilyrði 46. gr. reglugerðarinnar sem fjallar um almenn inntökuskilyrði í háskólann en heimilt er að setja strangari inntökuskilyrði. Þá skal námið vera á faglega ábyrgð háskóladeildar og er henni heimilt að meta það til eininga. Deild er heimilt að semja við þriðja aðila um ákveðin framkvæmdaratriði, svo sem skráningu nemenda, fjárreiður, reikningshald, húsnæði, kynningu o.fl., en fagleg ábyrgð er hjá deildinni. Þá er deild heimilt að ákveða að endurmenntunarnámi á vegum hennar ljúki með sérstakri prófgráðu. Um gjaldtöku vegna endurmenntunar á vegum háskóladeilda fer eftir lögum um Háskóla Íslands og ákvæðum í reglugerðinni. Þá er tekið fram í 7. tl. að endurmenntunarnám samkvæmt greininni sé utan við hefðbundið námsframboð deildar. Vegna ágreinings milli stefnda Háskóla Íslands og kjaranefndar, sem hér er um fjallað, var nýju ákvæði, 8. tl., bætt við grein þessa, sbr. reglur nr. 718/2001, en þar er tekið fram að kennsla í endurmenntun á vegum deilda samkvæmt 14. gr. sé ekki hluti af starfsskyldum fastra kennara við kennslu, rannsóknir og stjórnun. Er tilskilið að rektor heimili þeim að sinna þessum verkefnum.

III.

Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 120/1992 um Kjaradóm og kjaranefnd, sbr. lög nr. 150/1996, ákveður kjaranefnd laun og starfskjör prófessora enda verði talið að þeir gegni þeim störfum að aðalstarfi. Í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 120/1992, sbr. lög nr. 70/1996, segir að kjaranefnd skuli ákvarða föst laun fyrir dagvinnu og kveða á um önnur starfskjör. Hún úrskurði hvaða aukastörf tilheyri aðalstarfi og hver beri að launa sérstaklega.

Ótvírætt er samkvæmt framansögðu að kjaranefnd bar að meta það hvort kennslustörf prófessora viðskipta- og hagfræðideildar stefnda Háskóla Íslands við margumrætt MBA nám teldust hluti aðalstarfs þeirra eða hvort þau væru þess eðlis að launa bæri þau sérstaklega. Ljóst er að löggjafinn hefur ætlað nefndinni víðtækt vald á þessu sviði enda nauðsynlegt að þar sé gætt samræmis milli stofnana og að ekki sé byggt á handahófskenndum ákvörðunum. Hins vegar ber henni sem úrskurðaraðila á stjórnsýslustigi að miða mat sitt við þann grunn, sem viðeigandi starfsemi er búinn samkvæmt lögum og reglum, sem settar hafa verið með lögmætum hætti, og taka tillit til sjónarmiða, sem fram hafa verið sett með vísan til þeirra. Í máli þessu verður ekki framhjá því litið að löggjafinn hefur ákveðið stefnda Háskóla Íslands verulegt sjálfstæði, svo sem fram kemur í lögum nr. 41/1999, en þar er meðal annars lagt í vald hans að setja reglur um hin ýmsu málefni skólans. Af lögunum er þannig ljóst að stjórn skólans hefur víðtækar heimildir varðandi skipulag og framkvæmd endurmenntunarnáms innan hans og hefur  löggjafinn meðal annars gengið út frá því að fjárhagsgrundvöllur þess yrði annar en gilti um hið almenna nám innan skólans. Þykir þessi skilningur og hafa komið fram í áðurnefndri umsögn menntamálaráðuneytisins til kjaranefndar 1. nóvember 2000 og fær auk þess stoð í áðurnefndum athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 41/1999.

Skoða verður þær reglur, sem stefndi Háskóli Íslands hefur sett um endurmenntun á vegum deilda skólans og ákvarðanir, sem teknar hafa verið á grundvelli þeirra, í framangreindu ljósi. Ber hér sérstaklega að hafa í huga það skipulagslega og fjárhagslega forræði sem skólinn hefur á þessu sviði að lögum. Verður og að telja fram komin gild rök af hálfu stefndu fyrir því að kennslustörf prófessora við umrætt MBA nám séu viðbót við regluleg störf þeirra hjá viðskipta- og hagfræðideild.  Að öllu virtu þykir sú ákvörðun stefnda Háskóla Íslands, að þessi störf þeirra skuli falla utan marka aðalstarfs þeirra sem og aðrar ákvarðanir varðandi framkvæmd námsins, eiga sér stoð í lögum nr. 41/1999. Er á það fallist með stefndu að í úrskurðum kjaranefndar 8. maí 2001 og 12. febrúar 2002 hafi ekki verið tekið tillit til þessa og samkvæmt því og að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Dæma ber áfrýjanda til að greiða stefndu málskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefndu, Háskóla Íslands, Ágústi Einarssyni, Brynjólfi Sigurðssyni, Ingjaldi Hannibalssyni, Snjólfi Ólafssyni og Erni D. Jónssyni, sameiginlega 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 


Sératkvæði

Gunnlaugs Claessens

Samkvæmt 8. gr. laga nr. 120/1997 um Kjaradóm og kjaranefnd með áorðnum breytingum ákveður kjaranefnd laun og starfskjör annarra embættismanna ríkisins en þeirra, sem sérstaklega eru taldir upp í greininni. Er þar tekið fram að nefndin ákveði meðal annars laun og starfskjör prófessora, enda verði talið að þeir gegni því starfi að aðalstarfi. Í 1. mgr. 11. gr. sömu laga segir að nefndin skuli ákveða föst laun fyrir dagvinnu og kveða á um önnur starfskjör. Um hlutverk nefndarinnar segir ennfremur í 2. málslið sömu greinar: „Hún úrskurðar hvaða aukastörf tilheyra aðalstarfi og hver beri að launa sérstaklega.“

Svo sem rakið er í héraðsdómi ákvað kjaranefnd að kennslustörf prófessora viðskipta- og hagfræðideildar Háskóla Íslands við svokallað MBA nám á vegum deildarinnar skyldu teljast til aðalstarfs þeirra. Yrðu laun greidd í samræmi við það og að þar með væri ekki um að ræða aukastörf, sem launa skyldi sérstaklega. Taldi nefndin sig jafnframt hafa komið til móts við kröfur kennaranna um laun fyrir aukið vinnuálag vegna þessara tilteknu starfa með því að rýmka verulega heimildir um greiðslur fyrir yfirvinnu í úrskurði sínum um launakjör prófessora 11. desember 2001.

Meðal málsgagna eru svokallaðar viðmiðunarreglur kjaranefndar um greiðslur fyrir aukastörf og rökstuðningur nefndarinnar fyrir niðurstöðu sinni í þeim tveimur úrskurðum frá 8. maí 2001 og 12. febrúar 2002, sem stefndu krefjast að verði felldir úr gildi. Er meðal annars komið fram að nefndin leggur til grundvallar ákvörðunum sínum að séu störf prófessors unnin innan þeirrar deildar, sem hann er ráðinn til starfa við, falli öll störf hans þar undir kennslu, rannsóknir eða stjórnun og rúmist innan aðalstarfs hans sem prófessors og þar með innan þess úrskurðar um heildarlaun, sem honum séu ákveðin. Liggur einnig fyrir að MBA námið er á vegum viðskipta- og hagfræðideildar Háskóla Íslands og kennsla þar teljist hluti af starfsemi þeirrar deildar. Hefur nefndin jafnframt úrskurðað að gagnstæð regla eigi við um kennslu prófessora við MBA námið, sem koma úr öðrum deildum Háskóla Íslands en viðskipta- og hagfræðideild. Í þeim tilvikum hefur nefndin ákveðið að um sé að ræða aukastarf og að heimilt sé að greiða fyrir þá kennslu sérstaklega. Hið sama mun þá eiga við um kennslu prófessora viðskipta- og hagfræðideildar við aðrar deildir skólans.

Lög nr. 41/1999 um Háskóla Íslands hafa ekki að geyma ákvæði, sem færa stofnuninni það vald til launaákvarðana starfsmanna sinna, sem reynir á í málinu. Þótt hún njóti verulegs sjálfstæðis gagnvart æðstu handhöfum framkvæmdarvalds um sín innri málefni, sem ýmsar aðrar stofnanir ríkisins hafa einnig, leiðir ekki af því að hún geti í raun tekið ákvarðanir um það hvaða aukastörf tilheyra aðalstarfi og hver beri að launa sérstaklega, sem með lögum er skýrlega lagt í hendur kjaranefndar. Engu máli skiptir heldur í því sambandi þótt sértekjum viðskipta- og hagfræðideildar sé ætlað að standa undir kostnaði við MBA námið. Er þá til þess að líta að flestar stofnanir ríkisins afla sértekna til að standa undir kostnaði við rekstur sinn að hluta eða jafnvel að verulegu leyti. Hefur Háskóli Íslands að því leyti enga þá sérstöðu, sem ráðið getur úrslitum í þessu máli. Kjaranefnd er ætlað að meta tengsl aukastarfs við aðalstarfið og er hér um að ræða skyldubundið mat nefndarinnar. Bar henni að gera það á málefnalegan hátt og þá meðal annars á grundvelli þeirra upplýsinga, sem fyrir hana voru lagðar um aukastarfið. Hefur ekki verið skotið stoðum undir að ómálefnaleg sjónarmið hafi leitt til þeirrar ákvörðunar nefndarinnar, sem að framan var gerð grein fyrir. Að virtu því, sem fram er komið, tel ég að sýkna beri áfrýjanda af kröfum stefndu í málinu.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júlí 2002.

Mál þetta, sem dómtekið var 11. júní síðastliðinn, er höfðað 13. maí 2002 af Háskóla Íslands, kt. 600169-2039, Suðurgötu, Reykjavík, Ágústi Einarssyni, kt. 110152-3969, Brynjólfi Sigurðssyni, kt. 010540-2839, Ingjaldi Hannibalssyni, kt. 171151-3099, Snjólfi Ólafssyni, kt. 200454-5299 og Erni D. Jónssyni, kt. 090654-2179, gegn íslenska ríkinu.

Stefnendur gera eftirfarandi dómkröfur

1. Að úrskurður kjaranefndar, dagsettur 8. maí 2001, um aukastörf prófessora í viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands við MBA nám á vegum deildarinnar, verði felldur úr gildi.

2. Að úrskurður kjaranefndar, dagsettur 12. febrúar 2002, um aukastörf prófessora í viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands við MBA nám á vegum deildarinnar, verði felldur úr gildi.

Þá krefjast stefnendur málskostnaðar.

Stefndi krefst þess, að hann verði sýknaður af kröfum stefnenda og að þeim verði gert að greiða stefnda málskostnað.

I.

Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands er honum heimilt að standa fyrir endurmenntun og fræðslu fyrir almenning. Á fundi háskólaráðs 23. mars 2000 voru kynntar hugmyndir viðskipta- og hagfræðideildar um að koma á fót MBA (Master of Business Administration) námi við Háskóla Íslands. Voru samþykktir fyrir námið lagðar fyrir deildarfund viðskipta- og hagfræðideildar 2. júní 2000 og samþykktar þar einróma. Í samþykktunum kemur fram, að um  er að ræða 45 eininga endurmenntunarnám í viðskiptaskor, sem lýkur með MBA prófgráðu. Stjórn námsins er í höndum þriggja manna, sem viðskiptaskor velur, og forstöðumanns, sem kemur úr hópi kennara deildarinnar. Tilskilið er, að nemendur hafi að lágmarki B.S./B.A. próf eða samsvarandi menntun og minnst þriggja ára starfsreynslu. Á sama fundi var samþykkt, að kennsla og stjórnun í MBA náminu yrði fyrir utan starfsskyldur lektora, dósenta og prófessora.Samþykktir fyrir MBA námið voru lagðar fyrir háskólaráð og samþykktar á fundi ráðsins 14. júní 2000. Jafnframt var samþykkt, að gjald fyrir allt námið yrði 1.250.000 krónur á hvern nemanda. Um þá ákvörðun gerð svohljóðandi bókun: ,,Sú ákvörðun Háskóla Íslands að heimila gjaldtöku fyrir MBA-nám byggist á því að þar er um starfstengt endurmenntunarnám að ræða og sérstakt tilvik. Ákvörðun Háskóla Íslands markar því ekki stefnubreytingu hvað varðar upptöku skólagjalda við Háskólann”.

Gerður var sérstakur samningur milli viðskipta- og hagfræðideildar og Endurmenntunar­stofnunar Háskóla Íslands 3. júlí 2000. Samkvæmt samningnum sér stofnunin um framkvæmd námsins með því að sjá meðal annars um skjalavörslu, skráningu nemenda, fjármál og bókhald vegna námsins. Þá leggur stofnunin til kennslusal og aðra aðstöðu, sem þörf er á. Með bréfi, dagsettu 22. ágúst 2000, gerði dr. Runólfur Smári Steinþórsson, dósent og forstöðumaður MBA námsins, kjaranefnd grein fyrir MBA náminu og kennslu prófessora við námið þar sem segir meðal annars svo: ,,Tilvist MBA námsins grundvallast á því að það sé rekið fyrir sjálfsaflafé, sbr. ákvæði reglugerðarinnar um gjaldtöku og hjálagðar samþykktir deildarinnar um námið sem háskólaráð hefur staðfest. Deildarfundur hefur einnig samþykkt, sbr. hjálagða staðfestingu deildarforseta, að vinna kennara við kennslu og stjórnun í MBA námi sé fyrir utan starfsskyldur lektora, dósenta og prófessora við deildina. Deildarfundur hefur þannig ákveðið að kennarar geti ekki uppfyllt vinnuskyldu sína við deildina með störfum í MBA náminu. Deildin hefur gert samstarfssamning við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands um rekstur námsins vegna sérstöðu þess sem endurmenntunar á vegum deildarinnar. Öll kennsla og þjónusta við nemendur mun fara fram á vettvangi Endurmenntunar­stofnunar Háskóla Íslands. Segja má að starfsemi Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands sé fyrirmyndin að rekstrarformi MBA námsins. MBA námið við Háskóla Íslands hefur þannig eins og Endurmenntunarstofnun mikla sérstöðu í Háskóla Íslands. Ákveðið er að stjórn MBA námsins og forstöðumaður þess fari með öll málefni námsins og velji nemendur og kennara án milligöngu annarra aðila. Líkt og í Endurmenntunarstofnun er litið á störf prófessora, dósenta og lektora Háskóla Íslands við kennslu og stjórnun í MBA náminu sem aukastarf sem launa beri sérstaklega fyrir. Kjarnefnd hefur með bréfi til Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands þ. 10. nóvember 1998 ákvarðað að kennsla prófessora fyrir Endurmenntunarstofnun sé aukastarf sem launa beri sérstaklega. Hér með er óskað staðfestingar á að hið sama gildi um kennslu og stjórnun í MBA náminu”.

Með bréfi, dagsettu 5. október 2000, gaf Guðrún Zoëga, formaður kjaranefndar, yfirstjórn Háskóla Íslands kost á að senda kjaranefnd greinargerð í tilefni af erindi forstöðumanns MBA námsins. Þá var menntamálaráðuneytinu og Félagi prófessora einnig veittur slíkur umsagnarréttur. Málið var tekið fyrir á fundi háskólaráðs 30. nóvember 2000 og ákveðið að mæla með erindi forstöðumanns MBA námsins enda væri námið endurmenntun á vegum háskóladeildar og utan við hefðbundið námsframboð deildarinnar, sbr. 14. gr. reglna nr. 458/2000 fyrir Háskóla Íslands. Með bréfi 10. maí 2001 greindi formaður kjaranefndar frá því, að fjallað hefði verið um erindi forstöðumanns MBA námsins og sú ákvörðun tekin að telja störf prófessora við MBA námið falla innan aðalstarfs þeirra. Var og tekið fram, að af þeim sökum bæri ekki að launa sérstaklega fyrir þau störf umfram það, sem segir í úrskurði kjaranefndar um launakjör prófessora frá 2. júlí 1998.

Framangreind niðurstaða kjaranefndar var kynnt á fundi háskólaráðs 22. maí 2001 og var rektor falið að taka málið upp við kjaranefnd. Með bréfi Páls Skúlasonar, rektors, dagsettu 22. júní 2001, til kjaranefndar var þess óskað, að nefndin tæki umræddan úrskurð til endurskoðunar. Er tekið fram, að það sé mat Háskóla Íslands, að úrskurðurinn byggist á ófullnægjandi forsendum og misskilningi á eðli og sérstöðu MBA námsins. Í bréfinu er gerð ítarleg grein fyrir náminu og röksemdum að baki kröfu háskólans um, að kennsla við MBA nám teljist ekki til aðalstarfs prófessora við viðskipta- og hagfræðideild. Þá er þar gerð grein fyrir því, að háskólaráð hafi samþykkt breytingu á áðurnefndri 14. gr. reglna nr. 458/2000. Nánar tiltekið hefði verið samþykkt, að nýr töluliður bættist við greinina, 8. töluliður, svohljóðandi: ,,Kennsla í endurmenntun á vegum deilda samkvæmt þessari grein er ekki hluti af starfsskyldum fastra kennara við kennslu, rannsóknir og stjórnun. Tilskilið er að rektor heimili þeim að sinna þessum verkefnum.” Í bréfinu og skýringu við tillöguna, sem fylgdi hjálagt, kom fram, að tilefni ,,reglugerðarbreytingarinnar” hafi verið umræddur úrskurður kjaranefndar. Ástæða hafi þótt til að skilgreina nánar en áður þann mun, sem er á reglulegu námi við Háskóla Íslands sem greitt er fyrir af fjárveitingu samkvæmt kennslusamningi við stjórnvöld, og endurmenntun á vegum háskóladeildar, sem er fjármögnuð sérstaklega með öðrum hætti. Með bréfi rektors fylgdi jafnframt áðurnefndur þjónustusamningur við Endurmenntunarstofnun.

Með bréfi, dagsettu 14. september 2001, tilkynnti formaður kjaranefndar  forstöðumanni MBA námsins um þá niðurstöðu nefndarinnar, að störf prófessora sem koma úr öðrum deildum Háskóla Íslands en viðskipta- og hagfræðideild við kennslu í MBA náminu, teljist til aukastarfa, sem tilheyri ekki aðal­starfi þeirra.

Kjaranefnd kvað upp úrskurð um laun prófessora við Háskóla Íslands 11. desember 2001. Í ljósi þess, að í engu virtist vera komið til móts við þau sjónarmið, sem færð höfðu verið fram í bréfi til nefndarinnar 22. júní 2001, ítrekaði rektor Háskóla Íslands fyrri kröfur með bréfi, dagsettu 13. desember 2001. Með bréfi kjaranefndar til Háskóla Íslands frá 15. febrúar 2002 var tilkynnt um nýjan úrskurð kjaranefndar um álitaefnið og var afstaða nefndarinnar sú sama og áður.

Með bréfi, dagsettu 20. febrúar 2002, óskaði lögfræðingur háskólarektors eftir rökstuðningi kjaranefndar fyrir úrskurði nefndarinnar 12. febrúar 2002. Barst rökstuðningurinn með bréfi, dagsettu 13. mars 2002. Voru helstu röksemdir nefndarinnar fyrir fyrrnefndri niðurstöðu á þá leið, að það væri mat nefndarinnar, að öll störf prófessors innan þeirrar deildar, sem hann er ráðinn til starfa við og falli undir kennslu, rannsóknir og stjórnun, hljóti að falla innan aðalstarfs hans sem prófessors og þar með innan úrskurðar um heildarlaun sem kjaranefnd hafi ákveðið. Leiði fjárhagsleg sérstaða og aðskilnaður MBA námsins frá hefðbundnu námsframboði deildarinnar ekki til þess, að starf prófessors innan sömu deildar verði aðskilið í tvö störf. Þá er rakið, að með úrskurði kjaranefndar frá 11. desember 2001 hefðu laun prófessora verið hækkuð, auk þess sem yfirvinnuþak hefði verið rýmkað verulega, meðal annars til að mæta sjónarmiðum háskólans.

Stefnendur una ekki umræddum úrskurðum kjaranefndar frá 8. maí 2001 og 12. febrúar 2002 og telja, að með þeim sé kjaranefnd að hlutast til um innri málefni Háskóla Íslands, sem honum hafi verið falið ákvörðunarvald um með lögum. Er því krafist ógildingar á þeim báðum.

II.

Á því er byggt af hálfu Háskóla Íslands, að hann hafi brýna hagsmuni af niðurstöðu þessa máls enda feli úrskurðir kjaranefndar í sér mikla íhlutun í starfsemi hans. Með því að bjóða upp á MBA nám sé háskólinn að uppfylla veigamikinn þátt í lögákveðnu hlutverki sínu þótt endurmenntun standi fyrir utan hefðbundið námsframboð deilda. Til þess að unnt sé að bjóða upp á nám af þessu tagi sé afar mikilvægt fyrir Háskóla Íslands að fá notið reynslu og þekkingar kennara viðkomandi deildar. Eigi það ekki síst við um þá prófessora, sem þar starfa. Telur Háskóli Íslands ljóst, að úrskurðir kjaranefndar hafi í reynd kippt grundvellinum undan þessari starfsemi háskólans. Sé ekki við því að búast, að háskólinn fái prófessora viðskipta- og hagfræðideildar til að starfa við námið meðan þeir fái ekki notið sambærilegra kjara og aðrir prófessorar og kennarar fyrir sömu eða sambærileg störf.

Stefnendurnir, Ágúst Einarsson, Brynjólfur Sigurðsson, Ingjaldur Hannibalsson, Snjólfur Ólafsson og Örn Daníel Jónsson, séu allir prófessorar við viðskipta- og hagfræðideild. Þeir hafi allir gegnt kennslustörfum við MBA námið án þess að fá sérstaklega fyrir það greitt. Þessir stefnendur séu því meðal þeirra, sem umþrættir úrskurðir kjaranefndar taki beint til. Þá hafi stefnendurnir fengið heimild háskólarektors til að sinna kennslu og stjórnun í MBA náminu háskólaárið 2002-2003  Þeir hafi því augljósa hagsmuni af því að fá úr því skorið hvort launa beri störf þeirra við MBA námið sérstaklega.

Stefnendur byggja á því, að samkvæmt 4. mgr. 11. gr. laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands setji háskóla­ráð almennar reglur um starfsheiti og starfsskyldur háskólakennara. Ákveði ráðið hvernig starfsskyldur sérfræðinga, fræðimanna og vísindamanna skuli skiptast samkvæmt þeim reglum, sem háskólaráð eða deild hefur sett, sbr. nánar 32. gr. reglna nr. 458/2000.

Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 41/1999 sé deildum heimilt að standa fyrir endurmenntun og fræðslu fyrir almenning. Í 1. mgr. 18. gr. sömu laga sé skýrt tekið fram, að Háskóla Íslands sé heimilt að taka gjald fyrir þjónustu, sem telst utan þeirrar þjónustu sem háskólanum er skylt að veita. Setji háskólaráð nánari reglur um gjaldtöku og ráðstöfun gjalda, sem innheimt eru á grundvelli 18. gr. Heimild til gjaldtöku fyrir þá þjónustu, sem telst utan þeirrar þjónustu sem háskólanum er skylt að veita, sé áréttuð í 70. gr. reglna nr. 458/2000 fyrir Háskóla Íslands. Þar undir sé felld endurmenntun á vegum deilda og fræðsla fyrir almenning.

Í 7. tölul. 14. gr. reglna nr. 458/2000 komi fram, að endurmenntunarnám á vegum háskóladeilda sé utan við hefðbundið námsframboð deilda. MBA námið sé endurmenntunarnám. Með reglum nr. 718/2001 um breytingu á reglum nr. 458/2000 hafi, fyrr segir, verið bætt við nýjum tölulið í 14. gr., 8. tl. Þar sé nú skýrt tekið fram, að kennsla í endurmenntun á vegum deilda samkvæmt 14. gr. sé ekki hluti af starfsskyldum fastra kennara við kennslu, rannsóknir og stjórnun. Tilskilið sé, að rektor heimili þeim að sinna þessum verkefnum. Stefnendur telji ljóst, að efni 8. tl. 14. gr. hafi áður leitt af öðrum töluliðum 14. greinar og raunar fleiri ákvæðum reglna nr. 458/2000. Svo sem sjá megi af skýringum við 8. tl. hafi ákvæðinu verið ætlað að taka af öll tvímæli í þessum efnum, einkum í ljósi forsendna úrskurðar kjaranefndar frá 8. maí 2001.

Stefnendur telja, að samkvæmt orðanna hljóðan þessara laga- og reglugerðar­ákvæða heyri það undir valdsvið Háskóla Íslands, þ.m.t. þar til bærra stofnana innan hans, að ákveða hverjar séu starfsskyldur prófessora. Ákvarðanir Háskóla Íslands í þessu efni hafi verið teknar og eru skýrar samkvæmt framansögðu. Það heyri ekki undir starfsskyldur prófessora, hvorki innan viðskipta- og hagfræðideildar né annarra deilda, að starfa við MBA námið, hvort sem starfið felst í kennslu eða stjórnun, sbr. áðurnefnd reglugerðarákvæði. Í úrskurðum kjaranefndar sé farið þvert gegn þessari skipan, sem Háskóli Íslands hefur komið á með lögmætum hætti. Beri þegar af þeirri ástæðu að taka kröfur stefnenda til greina.

Lögð sé áhersla á, að lög nr. 41/1999 um Háskóla Íslands séu sérlög um stofnunina, sem gangi framar almennum lögum um kjaranefnd og kjaradóm nr. 120/1992. Þá séu ákvæði laga um Háskóla Íslands yngri og gangi af þeim sökum framar ákvæðum laga nr. 120/1992 að því leyti sem þau séu ekki samrýmanleg.

Telji dómurinn, að þrátt fyrir framangreind ákvæði laga nr. 41/1999, reglna nr. 458/2000 og ákvarðana háskólaráðs og viðskipta- og hagfræðideildar sé kjaranefnd heimilt að taka sjálfstæða afstöðu til þess hvort störf prófessora við viðskipta- og hagfræðideild teljist til aðalstarfs þeirra er byggt á því af hálfu stefnenda, að kjaranefnd hafi engu að síður borið að taka mið af umræddum laga- og reglugerðarákvæðum við ákvörðunartöku sína. Þá telji stefnendur ljóst, að kjaranefnd hafi borið að fara eftir almennum efnisreglum stjórnsýsluréttarins.

Kjaranefnd beri samkvæmt l. ml. l. mgr. 11. gr. laga nr. 120/1992 að ákvarða föst laun fyrir dagvinnu og kveða á um önnur starfskjör. Til viðbótar þeim launum, sem þannig eru ákveðin, geti komið laun fyrir aukastörf en kjaranefnd eigi úrskurðarvald samkvæmt 2. tl. l. mgr. 11. gr. sömu laga um það hvaða störf teljist til aðalstarfs. Þau störf, sem ekki tilheyra aðalstarfi, séu launuð sérstaklega en ákvörðun um fjárhæð launa fyrir slík störf sé ekki í höndum kjaranefndar. Ákvörðun kjaranefndar um hvaða aukastörf tilheyri aðalstarfi og hver beri að launa sérstaklega teljist vera matskennd stjórnvaldsákvörðun. Þurfi kjaranefnd að leggja mat á hvort þau störf, sem um ræðir, séu þess eðlis, að greiða beri fyrir þau sérstaklega eða hvort þau tilheyri aðalstarfi þess starfsmanns, sem í hlut á. Hafi kjaranefnd sett sér viðmiðunarreglur, sem hún geti stutt mat sitt við, en ekki verði séð, að þær taki beint til þess tilviks sem hér er til umfjöllunar.

Að mati stefnenda beri að ganga út frá því sem meginreglu, að falli starf utan þess ramma, sem aðalstarfi er markaður samkvæmt lögum og feli í sér viðbót við þær starfs­skyldur sem því starfi fylgja, beri að launa það sérstaklega. Gera verði ríka kröfu til þess, að skýr og málefnaleg sjónarmið liggi til grundvallar niðurstöðu um, að starfsmaður skuli ekki njóta sérstakra launa fyrir starf, sem falli með þessum hætti utan ramma aðalstarfs. Verði að horfa til þess í þessu sambandi, að ákvörðun kjaranefndar sé einhliða ákvörðun stjórnvalds um starfskjör einstaklings, sem ekki verði kærð til æðra stjórnvalds. Þá beri að líta til þess, að ákvæði laga nr. 120/1992 feli í sér frávik frá þeirri meginreglu, að launþegar á vegum ríkisins skuli eiga þess kost að semja um kaup og kjör í kjarasamningum við fjármálaráðherra. Ákvæði 2. ml. l. mgr. 11. gr. laga nr. 120/1992 verði því ekki skýrð svo, að kjaranefnd hafi frjálsar hendur við mat sitt.

Stefnendur telji, að kjaranefnd hafi m.a. borið að taka mið af eftirgreindum atriðum við mat sitt á störfum prófessora við viðskipta- og hagfræðideild við MBA námið:

l. Af þeim ákvæðum laga nr. 41/1999 og reglna nr. 458/2000, sem til sé vísað hér að framan, sé ljóst, að kennsla við MBA námið falli utan starfsskyldna allra prófessora, sem starfa við Háskóla Íslands. Háskóli Íslands geti ekki krafist þess, að prófessorar viðskipta- og hagfræðideildar taki að sér störf við MBA námið. Háskólaprófessorar geti ekki uppfyllt kennsluskyldu sína með kennslu við MBA námið og þeim sé ekki skylt að taka að sér slíka kennslu.

2. MBA námið hafi afgerandi sérstöðu gagnvart hefðbundnu námsframboði deilda. Lýsi sérstaðan sér m.a. í því, að um starfstengda endurmenntun sé að ræða. Námið sé starfsmiðað og nemendur séu valdir sérstaklega til þátttöku. MBA námið sé rekið að fullu fyrir sértekjur á meðan hefðbundið háskólanám sé greitt af ríkisfé á grundvelli l. mgr. l. gr. laga nr. 41/1999, sbr. einnig samninginn við menntamálaráðuneytið. Þá komi sérstaða námsins einnig fram í skipulagi námsins, sem sé í verulegum atriðum frábrugðið því, sem tíðkist um almennt háskólanám. Þá beri að geta þess, að engar rannsóknir tengist MBA náminu. Hefðbundin skipting starfa háskólakennara í kennslu og rannsóknir eigi því ekki við um MBA námið. Loks beri að geta þess, að kennsla í MBA náminu eigi sér stað utan hefðbundins vinnutíma.

3. Kennslukraftur háskóladeilda sé takmarkaður og því hafi kennsluverkefni, sem háskólanum sé skylt að sinna skv. l. mgr. l. gr. laga nr. 41/1999, forgang fram yfir verkefni, sem deildum sé heimilt en ekki skylt að sinna. Heimild til gjaldtöku skv. l. mgr. 18. gr. sé reist á því, að þessi greinarmunur sé gerður enda taki samningurinn við menntamála­ráðuneyti um fjárframlög til Háskóla Íslands eingöngu til þeirra verkefna, sem háskólanum er skylt að sinna. Sé háskólaráði í l. mgr. 18. gr. laga nr. 41/1999 fengið vald til að setja reglur um ráðstöfun þeirra gjalda sem innheimt eru á grundvelli 1. mgr. 18. gr.

4. Kjaranefnd hafi þegar fallist á, að störf prófessora við endurmenntunar­námskeið á vegum Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands tilheyri ekki aðalstarfi þeirra. Um þóknun prófessora fyrir þau störf þurfi því að semja sérstaklega hverju sinni. Kjaranefnd hafi komist að sömu niðurstöðu varðandi rétt prófessora annarra deilda en viðskipta- og hagfræðideildar til þóknunar fyrir störf við MBA námið. Háskóli Íslands hafi ítrekað bent á, að enginn eðlismunur sé á störfum við MBA námið annars vegar og störfum við önnur endurmenntunarnámskeið hins vegar. Það sé heldur enginn eðlismunur á því hvort það er prófessor innan viðskipta- og hagfræðideildar, sem starfar við MBA námið, eða prófessor annarrar deildar. Það sé hins vegar augljóst, að framkvæmd MBA námsins sé óhugsandi án aðstoðar færustu kennara viðskipta- og hagfræðideildar stefnanda. Í afstöðu kjaranefndar, sem birtist í úrskurðunum sem krafist er ógildingar á, felist augljós mismunun, sem stefnandi telji, að brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Stefndi krefst í fyrsta lagi sýknu á grundvelli aðildarskorts allra stefnenda, en vekur jafnframt athygli á óljósri aðild þeirra, sem leiða kunni til frávísunar málsins. Séu ekki uppfyllt skilyrði III. kafla einkamálalaga nr. 91/1991 um eðlilega og skýra aðild og beri því að sýkna stefnda af kröfum stefnenda, sbr. 2. tl. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Í dómsmáli þessu krefjist stefnendur þess, að felldir verði úr gildi tveir úrskurðir kjarnefndar frá 8. maí 2001 og 12. febrúar 2002, þar sem eingöngu sé úrskurðað um hvort kennsla í MBA námi við viðskipta- og hagfræðideild sé hluti af aðalstarfi prófessora eða ekki. Í báðum tilvikum telji kjaranefnd, að kennsla þessi sé hluti af aðalstarfi þeirra prófessora við viðskipta- og hagfræðideild, sem kenna í þessu námi. Séu engir efnisannmarkar á úrskurðum kjaranefndar eða aðrir slíkir annmarkar, sem leiða eigi til ógildingar þeirra. Byggir stefndi sýknu­kröfu sína, með öðru, á þeim forsendum og málsástæðum, sem kjaranefnd sjálf byggir á í framagreindum úrskurðum sínum.

Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 120/1992 um Kjaradóm og kjaranefnd eigi kjaranefnd að ákveða laun og starfskjör prófessora. Samkvæmt 11. gr. sömu laga skuli kjaranefnd ákveða föst laun fyrir dagvinnu, kveða á um önnur starfskjör og úrskurða hvaða aukastörf tilheyri aðalstarfi og þá hvaða aukastörf með aðalstarfi beri að launa sérstaklega. Í þessu tilviki hafi kjaranefnd úrskurðað almennt, að kennsla prófessora í þessu tiltekna námi falli undir aðalstarf þeirra, en samkvæmt umræddri 11. gr. laga nr. 120/1992 sé þetta skýrt hlutverk kjaranefndar.

Stefndi mótmæli þeirri fullyrðingu stefnenda, að kjaranefnd sé með úrskurðum þessum að hlutast til um innri málefni Háskóla Íslands. Séu valdheimildir kjaranefndar að þessu leyti mjög skýrar og hvorki ákvæði laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands né þaðan af síður ákvæði reglna nr. 458/2000 um Háskóla Íslands breyti þar nokkru um.

Í málsókn sinni dragi stefnendur þær ályktanir af ákvæðum 9., 11. og 18. gr. laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands, sbr. 7. og 8. tl. 14. gr. reglna nr. 458/2000 fyrir Háskóla Íslands, að ákvæði þessi víki í raun til hliðar meðal annars ákvæðum 11. gr. laga 120/1992. Séu þessi sjónarmið stefnenda augljóslega byggð á misskilningi. Deili stefndi í sjálfu sér ekki um það, að samkvæmt lögum nr. 41/1999 sé það innan valdsviðs Háskóla Íslands að ákveða starfsskyldur prófessora, skilgreina eðli þeirra og annað í þeim dúr. Ekki sé heldur deilt um það, að einstökum deildum skólans sé heimilt að standa fyrir endurmenntun og fræðslu fyrir almenning. Hins vegar sé á það bent, að þessi ákvæði hafi ekkert með það að gera hvernig skilgreina beri aukastarf, sem eftir atvikum tilheyri aðalstarfi. 

Tilefni setningar 8. tl. 14. gr. reglna nr. 458/2000 með reglum nr. 718/2001 sýnist hafa verið þær deilur, sem dómsmál þetta fjallar um. Að mati stefnda skorti lagastoð fyrir ákvæði þessu. Regluákvæði þetta sé ekki í samræmi við 4. mgr. 11. gr. laga nr. 41/1999, þar sem fjallað sé almennt um starfsskyldur kennara við Háskóla Íslands. Þar sé hins vegar ekki fjallað um hvort tiltekin aukastörf teljist hluti af aðalstarfi kennara við skólann, en það sé hlutverk kjaranefndar að kveða á um þetta. Af því leiði, að regluákvæði þetta sé í beinni andstöðu við lög nr. 120/1992 auk þess að vera bersýnilega utan þess ramma, sem lög nr. 41/1999 kveði á um.

Stefndi fái ekki skilið, að nokkru breyti fyrir málstað stefnenda þótt umdeilt MBA nám sé fjármagnað með gjaldtöku, en ekki með fjárveitingu úr ríkissjóði eða hvort námið teljist endurmenntun í skilningi 2. mgr. 9. gr. laga nr. 41/1999. Hins vegar telji stefndi, að meginmáli skipti, að MBA námið sé alfarið á vegum og á ábyrgð viðskipta- og hagfræðideildar Háskóla Íslands. Ljóst sé, að deildin hafi átt frumkvæði að því að koma náminu af stað og hafi deildin fulla stjórn á tilhögun og umfangi námsins. Tengsl MBA námsins við deildina séu því óumdeild. Þá verði ekki annað séð en að störf prófessora við MBA námið séu sama eðlis og störf þeirra við hefðbundna kennslu í deildinni þótt engar rannsóknir tengist MBA náminu með beinum hætti.

Stefndi telji, að eðlilega hafi verið staðið að allri málsmeðferð kjaranefndar varðandi úrskurðina tvo og að gætt hafi verið almennra ákvæða stjórnsýsluréttar við málsmeðferðina og ákvarðanatöku. Séu úrskurðirnir byggðir á málefnalegum grundvelli og tvímælalaust innan þess lagaramma, sem lög nr. 120/1992 kveði á um.

Engin áhöld séu um það, að kjaranefnd sé ætlað það hlutverk samkvæmt lögum nr. 120/1992 að skilgreina, leggja mat á og afmarka hvað sé aðalstarf þeirra ríkisstarfs­manna, sem heyra undir lögin, og um leið hvað séu launuð eða ólaunuð aukastörf. Mat þetta verði að sjálfsögðu að byggjast á málefnalegum grundvelli, eðlilegum viðmiðunum og þurfi nefndin að geta rökstutt mat þetta sé eftir því leitað. 

Í stefnu tilgreini stefnendur, að kjaranefnd hefði átt að taka tillit til tiltekinna atriða við mat á störfum prófessora við MBA námið. Um þetta hafi stefndi eftirfarandi að segja:

1. Að mati stefnda skipti engu máli hvort vinna prófessora við MBA kennslu í viðskipta- og hagfræðideild sé til viðbótar öðrum störfum þeirra við deildina. Kjaranefnd beri að ákvarða prófessorum heildarlauna- og starfskjör þar á meðal fyrir vinnu, sem sé umfram dagvinnu. Þá skipti heldur ekki máli hvort prófessorum við deildina er skylt að taka að sér kennslu við MBA námið eða ekki.

2. Stefnendur telji, að MBA námið hafi ákveðna sérstöðu gagnvart hefðbundnu námsframboði deilda, sem m.a. lýsi sér í skilgreiningu á náminu (starfstengd endurmenntun) fjármögnun og skipulagi þess. Stefndi telji, að ekkert af þeim atriðum, sem stefnendur telja upp, skipti máli varðandi mat á aðalstarfi/aukastarfi í skilningi laga nr. 120/1992. Í þessu sambandi vilji stefndi aftur minna á, að MBA námið sé alfarið á ábyrgð viðskipta- og hagfræðideildar og lúti sambærilegum skilyrðum og annað hefðbundið nám innan deildarinnar. Þótt námið sé skilgreint sem endurmenntunarnám innan deildar fái stefndi ekki séð, að það eitt og sér hafi nokkra þýðingu.

3. Stefndi fái heldur ekki séð, að samspil skylduverkefna samkvæmt 1. gr. laga nr. 41/1999 og verkefna, sem greitt er fyrir samkvæmt 18. gr. sömu laga, skipti nokkru máli varðandi úrlausn þessa máls.

4. Stefndi geri á sama hátt og kjaranefnd skýran greinarmun á kennslu prófessora við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands annars vegar og kennslu sömu prófessora við sína eigin deild hins vegar. Aðalstarf prófessora sé eðlilega hjá sinni háskóladeild. Þeir séu ráðnir til tiltekinnar háskóladeildar og þar séu starfsskyldur þeirra. Endurmenntunarstofnun sé sjálfstæð deild innan háskólans og sé kennsla prófessora þar því aukastarf. Sömu sjónarmið eigi við um kennslu prófessora í öðrum deildum en þeim sem þeir sjálfir tilheyri. Kjaranefnd hafi úrskurðað um þetta og sé sjálfri sér samkvæm að þessu leyti. Fullyrðing stefnenda um mismunun og brot á jafnræðisreglu sé því fráleit. Þvert á móti sé fullt jafnræði milli kennara, þ.e. kennsla innan eigin háskóladeildar sé hluti af aðalstarfi en kennsla utan deildar sé aukastarf.

Að lokum byggi stefndi á því, að með úrskurði sínum frá 11. desember 2001 um laun prófessora hafi kjaranefnd í raun tekið tillit til sjónarmiða stefnenda með því að rýmka verulega yfirvinnuþak prófessora, en þar sé verulega komið til móts við þá prófessora, sem séu í svipaðri aðstöðu og stefnendur.

III.

Kjaranefnd er sjálfstæður úrskurðaraðili á stjórnsýslustigi, sem hefur það lögbundna hlutverk að ákveða laun og starfskjör tiltekinna embættismanna og úrskurða hvaða aukastörf tilheyri aðalstarfi og þá hvaða aukastörf með aðalstarfi beri að launa sérstaklega, sbr. lög nr. 120/1992 um Kjaradóm og kjaranefnd. Hefur kjaranefnd þannig engra lögvarða hagsmuni af úrslitum þessa máls og er því engin þörf aðildar hennar að málinu. Hins vegar greiðir stefndi, íslenska ríkið, laun prófessora samkvæmt úrskurðum kjaranefndar og hefur hér því réttarhagsmuna að gæta. Er stefndi því réttur varnaraðili málsins.

Háskóli Íslands er sjálfstæð stofnun, sem getur átt réttindi og borið skyldur að landslögum samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Aðrir stefnendur eru prófessorar við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, sem bæði hafa áður kennt í MBA námi við deildina og eru skráðir þar til kennslu á næstkomandi námsmisseri. Hafa þeir því einstaklega, beina og lögvarða hagsmuni af úrslitum málsins. Þá eru uppfyllt skilyrði 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um samlagsaðild stefnenda í máli þessu. Samkvæmt framansögðu eru engir þeir réttarfarsannmarkar á málatilbúnaði stefnenda, að frávísun varði án kröfu.

Um Háskóla Íslands gilda lög nr. 41/1999. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. þeirra skal háskólinn vera vísindaleg rannsóknarstöð og fræðslustofnun, er veiti nemendum sínum menntun til að sinna sjálfstætt vísindalegum verkefnum og gegna ýmsum störfum í þjóðfélaginu. Samkvæmt 2. mgr. sama ákvæðis skal háskólinn einnig sinna endurmenntun þeirra, sem lokið hafa háskólaprófi, miðla fræðslu til almennings og veita þjóðfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar, allt eftir því sem nánar er kveðið á um í lögunum og reglum settum á grundvelli þeirra. Í athugsemdum með frumvarpi því, er varð að nefndum lögum, segir að ákvæði greinarinnar sé nýtt miðað við gildandi lög og sé þar tekið af skarið um, að það sé hlutverk Háskóla Íslands að sinna endurmenntun, almenningsfræðslu og þjónusturannsóknum innan þeirra marka, sem samkeppnisreglur heimila, og með ákvæðinu sé treystur lagagrundvöllur undir þennan mikilvæga þátt í starfsemi hans. Þá kemur fram í 9. gr. laganna, að háskóladeildum og rannsóknarstofnunum hans sé heimilt að stunda þjónusturannsóknir og standa fyrir endurmenntun og fræðslu fyrir almenning. Skuli hver deild gera sérstakar samþykktir um slíkar þjónusturannsóknir og kennslu, sem háskólaráð staðfesti. Í 18. gr. laganna er síðan að finna heimild fyrir háskólann að taka gjald fyrir þjónustu, sem honum er skylt að veita. Þá er honum þar enn fremur heimilað að taka gjöld fyrir endurmenntun og fræðslu fyrir almenning og háskólaráði falið að setja nánari reglur um gjaldtöku og ráðstöfun gjalda.

Samkvæmt 7. tl. 14. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 458/2000 er endur­menntunar­nám utan við hefðbundið námsframboð deildar og er deild óheimilt að innheimta annað gjald en skrásetningargjald fyrir hefðbundið nám, sbr. 13. gr. áðurnefndra laga um Háskóla Íslands. Með 4. gr. reglna nr. 715/2001 fyrir Háskóla Íslands var bætt við 14. gr. nýju ákvæði, 8. tl., þess efnis að kennsla í endurmenntun á vegum deildar samkvæmt greininni sé ekki hluti af starfsskyldum fastra kennara við kennslu, rannsóknir og stjórnun, en tilskilið er, að rektor heimili þeim að sinna þessum verkefnum. Í greinargerð með ákvæðinu kemur fram, að deildir háskólans geti skipulagt sérstök námskeið, sem ætluð séu til endurmenntunar þeim, sem áhuga hafa eða þeim einum, sem lokið hafa háskólanámi í tiltekinni grein. Sé ákvörðun um slíkt námsframboð deildanna sjálfra og kostnaður vegna þeirra greiðist af þeim, sem námið sækja. Verði þetta nám að lúta þeim skilyrðum, sem kveðið sé á um í þessari grein og krefjist samþykkis háskólaráðs. Nýmælið, sem felist í þessari grein, sé að settar séu skýrar reglur um hvað átt sé við með endurmenntun á vegum deilda, sem sé utan við hefðbundið námsframboð þeirra, og gjaldtöku fyrir hana. Eftir sem áður geti þeir, sem lokið hafa háskólaprófi, sótt einstök námskeið sér til endurmenntunar í reglubundnu námi í deildunum gegn greiðslu skrásetningargjalds, enda flokkist það ekki sem endurmenntun á þeirra vegum samkvæmt greininni. Þá segir þar einnig, að niðurlagsákvæði greinarinnar [8. tl.] hafi verið sett í júní 2000 vegna túlkunar kjaranefndar á starfsskyldum prófessora. Taki viðbótarákvæðið af tvímæli um, að kennsla í endurmenntun í háskóladeild samkvæmt 14. gr. sé ekki hluti af starfsskyldum fastra háskólakennara, enda sé reglulegt nám við háskólann kostað af fjárveitingu samkvæmt kennslusamningi við stjórnvöld, en endurmenntun á vegum háskóladeildar, eins og hún sé hér afmörkuð, sé kostuð af öðrum en háskólanum samkvæmt sérstökum samþykktum í hverju tilviki og með staðfestingu háskólaráðs á gjaldtöku vegna námsins, sbr. 9. og 18. gr. laga um Háskóla Íslands og 70. gr. reglnanna, en í síðastnefnda ákvæðinu er að finna heimild til að taka gjald fyrir þá þjónustu, sem er fyrir utan þá þjónustu, sem háskólanum er skylt að veita, og fyrir endurmenntun og fræðslu fyrir almenning.

Með 4. mgr. 11. gr. laga nr. 41/1999, um Háskóla Íslands, var háskólaráði falið að setja almennar reglur um starfsheiti og starfsskyldur háskólakennara og ákveður ráðið hvernig þær skuli skiptast samkvæmt þeim reglum, sem það setur. Svo sem áður greinir voru samþykktir fyrir MBA námið lagðar fyrir háskólaráð og samþykktar á fundi þess 14. júní 2000. Jafnframt var samþykkt, að gjald fyrir allt námið yrði 1.250.000 krónur á hvern nemanda. Um þá ákvörðun var gerð bókun þess efnis, að   um sé að ræða starfstengt endurmenntunarnám og sérstakt tilvik. Marki ákvörðun Háskóla Íslands því ekki stefnubreytingu hvað varðar upptöku skólagjalda við háskólann. Á deildarfundi viðskipta- og hagfræðideildar 2. júní 2000 var samþykkt, að kennsla og stjórnun í MBA námi yrði fyrir utan starfsskyldur lektora, dósenta og prófessora. Þá var á fundi háskólaráðs 30. nóvember 2000 ákveðið, í tilefni af meðferð málsins fyrir kjaranefnd, að mæla með, að litið yrði á störf þessara kennara við MBA námið sem aukastarf, sem launa bæri sérstaklega, enda væri námið endurmenntun á vegum háskóladeildar og utan við hefðbundið námsframboð deildarinnar.

Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 120/1992 um Kjaradóm og kjaranefnd, sbr. 6. gr. laga nr. 150/1996, ákveður kjaranefnd laun og starfskjör prófessora og samkvæmt  2. ml. 1. mgr. 11. gr. sömu laga heyrir það undir valdsvið kjaranefndar að úrskurða hvaða aukastörf þeirra embættismanna, er heyra undir nefndina, tilheyra aðalstarfi og hver beri að launa sérstaklega. Var kjaranefnd því ótvírætt heimilt að taka sjálfstæða ákvörðun um hvort aukastarf prófessora í viðskipta- og hagfræðideild við kennslu í umræddu MBA námi tilheyrði aðalstarfi þeirra eða hvort launa bæri það sérstaklega.

Í rökstuðningi kjaranefndar frá 6. júní 2001 fyrir þeirri niðurstöðu hennar, að umrædd kennsla tilheyrði aðalstarfi umræddra prófessorana, segir meðal annars, að skýrlega megi ráða af 98. gr. og 14. reglugerðar um Háskóla Íslands, að MBA námið sé alfarið á ábyrgð viðskipta- og hagfræðideildar og lúti svipuðum skilyrðum og annað nám í deildinni hvað varðar faglega umsjón, skipulag, uppbyggingu, rannsóknir því tengdu, námsefni, námskeið, kennslu, próf og veitingu háskólagráðu við námslok. Þegar það sé virt, að viðbættu því, að umræddir prófessorar séu ráðnir til starfa við deildina og starfsskyldur þeirra séu þar, sé það mat kjaranefndar, að kennsla og stjórnun þeirra í MBA náminu falli innan aðalstarfs þeirra. Verði ekki fallist á, að fyrri úrskurður kjaranefndar varðandi kennslu prófessora við Endurmenntunarstofnun hafi hér fordæmisgildi, meðal annars vegna þess að þar sé um að ræða nám utan deilda og á allan hátt á ábyrgð Endurmenntunarstofnunar. Sé gerður skýr greinarmunur samkvæmt lögum og reglugerð um Háskóla Íslands á eðli og formi endurmenntunar á vegum háskóladeildar annars vegar og þeirrar endurmenntunar, er fram fer á vegum Endurmenntunarstofnunar. Sé Endurmenntunarstofnun ekki háskóladeild og hafi ekki heimild til að veita prófgráður. Þá kemur fram í rökstuðningi kjaranefndar frá 13. mars 2002, í tilefni af úrskurði nefndarinnar þann 12. sama mánaðar þess efnis, að ekki sé tilefni til breytinga á fyrri úrskurði um kennslu og stjórnun prófessora í viðskipta- og hagfræðideild í MBA náminu, að fjárhagsleg sérstaða og aðskilnaður MBA námsins frá hefðbundnu námsframboði deildarinnar leiði ekki til þess, að starf prófessors innan sömu deildar verði aðskilið í tvö störf óháð hvort öðru. Sú staðreynd, að MBA námið hafi að þessu leyti ákveðna sérstöðu gagnvart öðru námi innan háskólans hafi því ekki þýðingu við mat á því hvort um aukastarf sé að ræða eða ekki. Hins vegar geti kjaranefnd fallist á, að vinna prófessoranna við MBA námið geti verið viðbót við starf þeirra í þeim skilningi, að um yfirvinnu geti verið að ræða og beri þá að greiða fyrir hana í samræmi við það. Telji nefndin, að hún hafi komi til móts við sjónarmið háskólans hvað þetta varðar með því að rýmka verulega heimildir til að greiða prófessorum laun fyrir tímamælda yfirvinnu samkvæmt úrskurði frá 11. desember 2001. Hafi yfirvinnuþak verið hækkað verulega með úrskurðinum og sé nú heimilt að greiða prófessorum fyrir 24 - 45 klukkustunda yfirvinnu á mánuð að meðaltali alla mánuði ársins auk þeirrar föstu yfirvinnu, sem greidd sé prófessorum í IV.-VII. launaflokki prófessora og þeirrar yfirvinnu, sem greidd sé úr ritlauna- og rannsóknarsjóði prófessora. Þótt ekki komi það berlega fram í úrskurðinum hafi meðal annars verið horft til þess, að störf vegna MBA námsins ættu að rúmast innan hans. Hafi hér verið um verulega breytingu að ræða, þar sem fyrri úrskurður hafi takmarkað möguleika prófessora til að fá greitt fyrir yfirvinnu. Geti kjaranefnd því ekki fallist á, að hún hafi í engu komið til móts við sjónarmið háskólans í úrskurðinum.

Óumdeilt er, að MBA námið er fyrir utan hefðbundið námsframboð viðskipta- og hagfræðideildar og að ekki er gert ráð fyrir því í fjárveitingum menntamála-ráðuneytisins til Háskóla Íslands, að námið sé að neinu leyti fjármagnað með framlögum úr ríkissjóði. Er og ágreiningslaust með aðilum, að námið er rekið fyrir það fé, sem deildin aflar sjálf hjá þeim, sem það stunda. Viðskipta- og hagfræðideild háskólans hefur samþykkt, að kennsla lektora, dósenta og prófessora við deildina sé fyrir utan starfsskyldur þeirra. Geta háskólakennararnir því ekki fullnægt kennsluskyldu sinni með því að kenna við MBA námið. Undir þetta hefur háskólaráð eindregið tekið og staðfest með 8. tl. 14. gr. reglna nr. 245/2000, sbr. 4. gr. reglna nr. 715/2001. Verður að telja, að ákvæði þetta hafi fullnægjandi stoð í 4. mgr. 11. gr. laga nr. 41/1999.

Þegar allt framangreint er virt heildstætt er það mat dómsins, að kennsla við  MBA námið falli utan þess ramma, sem aðalstarfi umræddra háskólakennara er markaður samkvæmt lögum og reglum um Háskóla Íslands. Er það því niðurstaða dómsins, að launa beri það sérstaklega. Ber þar af leiðandi að fallast á kröfur stefnenda um ógildingu umræddra úrskurða kjaranefndar.

Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnendum sameiginlega málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.

Dóminn kvað upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.

Dómsorð:

Úrskurðir kjaranefndar, dagsettir 8. maí 2001 og 12. febrúar 2002, um aukastörf prófessora í viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands við MBA nám á vegum deildarinnar, eru felldir úr gildi.

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnendum, Háskóla Íslands, Ágústi Einarssyni, Brynjólfi Sigurðssyni, Ingjaldi Hannibalssyni, Snjólfi Ólafssyni og Erni D. Jónssyni, sameiginlega 300.000 krónur í málskostnað.