Hæstiréttur íslands
Mál nr. 175/2012
Lykilorð
- Nauðasamningur
- Riftun
- Gjöf
|
|
Fimmtudaginn 15. nóvember 2012. |
|
Nr. 175/2012.
|
Advania hf. (Anton B. Markússon hrl. Bryndís Guðmundsdóttir hdl.) gegn Stoðum hf. (Heimir Örn Herbertsson hrl. Björgvin Þórðarson hdl.) |
Nauðasamningur. Riftun. Gjöf.
S hf. höfðaði mál á hendur T hf., nú A hf., til riftunar lánssamnings, sbr. 1. mgr. 131. gr. eða 141. gr. laga nr. 21/1991, og endurgreiðslu lánsfjárhæðarinnar, sbr. 142. gr. laganna, en S hf. hafði veitt T hf. víkjandi lán til kaupa á nánar tilteknum hlutum S hf. í AF hf. Héraðsdómur hafði eftir lántökuna staðfest nauðasamning fyrir S hf. og T hf., hvorn í sínu lagi, og skuldbindingin féll ekki undir nauðasamning T hf. samkvæmt 3. mgr. 28. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 1. gr. laga nr. 24/2009, sem gerði S hf. ókleift að endurheimta skuldina. Óumdeilt var að lánssamningurinn var gerður innan sex mánaða fyrir frestdag vegna nauðasamningsumleitana S hf. Fallist var á með S hf. að samningurinn jafngilti gjöf í merkingu 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991, enda hefði S hf., vegna náinna tengsla við T hf., mátt vita að engar líkur væru á að félagið gæti efnt hann vegna erfiðrar fjárhagsstöðu þess, auk þess sem sýnt var að T hf. hagnaðist á kostnað S hf. við gerð samningsins. Voru kröfur S hf. því teknar til greina og endurgreiðslukröfunni skipað sem samningskröfu við nauðasamning T hf., til jafns við kröfur annarra sem fóru með slíkar kröfur á hendur félaginu samkvæmt nauðasamningnum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Benedikt Bogason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. mars 2012. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda, en til vara að fjárkrafa hans verði lækkuð. Þá krefst áfrýjandi málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt áfrýjunarstefnu rann Teymi hf., sem var stefndi málsins í héraði, saman við Skýrr hf. í janúar 2011 undir heiti þess síðarnefnda, sem var síðan breytt í Advania hf. 7. mars 2012.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Advania hf., greiði stefnda, Stoðum hf., 1.500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2011.
Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi 30. nóvember sl., er höfðað með stefnu, birtri 14. september 2009. Stefnandi er Stoðir hf., Hátúni 2b, Reykjavík, en stefndi er Teymi hf., Suðurlandsbraut 18, einnig í Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:
Aðallega að rift verði með dómi víkjandi láni sem stefnandi veitti stefnda 1. september 2008 samkvæmt samningi aðila frá 30. júlí 2008, og að stefnda verði gert að greiða stefnanda 656.560.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 1. september 2008 til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Til vara að rift verði með dómi víkjandi láni sem stefnandi veitti stefnda 1. september 2008 samkvæmt samningi aðila frá 30. júlí 2008, og að viðurkenndur verði réttur stefnanda til greiðslu úr hendi stefnda til jafns við þá lánardrottna stefnda sem fóru með samningskröfur á hendur honum, í samræmi við nauðasamning stefnda, sem staðfestur var með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. N-5/2009.
Til þrautavara að viðurkenndur verði réttur stefnanda til greiðslu úr hendi stefnda til jafns við þá lánardrottna stefnda sem fóru með samningskröfur á hendur stefnda, í samræmi við staðfestan nauðasamning stefnda sem staðfestur var með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. N-5/2009.
Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, en til að vara að kröfur verði lækkaðar verulega, og að viðurkennt verði að krafa stefnanda falli undir skilmála nauðasamnings stefnda. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Málsatvik og ágreiningsefni
Stefnandi og stefndi gerðu með sér samning 30. júlí 2008 sem ber yfirskriftina „Kaupréttarsamningur og víkjandi lánssamningur“. Með samningnum skuldbatt stefnandi sig til að selja stefnda allt að 212.000.000 nafnverðshluti í Alfesca hf., sem þá voru í eigu stefnanda. Samkvæmt 1. grein samningsins var kauprétturinn gerður í því skyni að gera stefnda kleift að uppfylla skyldur sínar gagnvart hluthöfum félagsins vegna fyrirhugaðrar afskráningar á hlutabréfum stefnda úr kauphöll Nasdaq OMX á Íslandi. Hluthöfum stefnda stóð þannig til boða að selja stefnda hlutabréf sín í félaginu og fá greitt fyrir þau með hlutum í Alfesca hf. Tekið var fram að kaupverð hluta í stefnda yrði 1,90 fyrir hvern hlut, en gengi hvers hlutar í Alfesca hf. yrði 6,96. Kaupverð allra seldra nafnverðshluta í Alfesca hf. gat því numið allt að 1.500.000.000 króna. Samkvæmt grein 1.4 átti afhending hlutanna að fara fram að fenginni skriflegri tilkynningu stefnda til stefnanda um fjölda þeirra hluta í Alfesca hf., sem stefndi vildi kaupa, eigi síðar en 30. ágúst 2008.
Með samningnum skuldbatt stefnandi sig einnig til að lána stefnda kaupverð hinna seldu hluta í Alfesca hf., allt að 1.500.000.000 króna. Í grein 2.1 segir m.a. svo um lán þetta: „Lán þetta er víkjandi og víkur fyrir öllum öðrum kröfum á hendur Teymi nema öðrum jafnstæðum kröfum og kröfu um endurgreiðslu hlutafjár. Í þessu felst að kröfur á grundvelli lánssamnings þessa víkja fyrir forgangskröfum og almennum kröfum á hendur Teymi við gjaldþrot eða slit sbr. 4. tl. 114. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991.“ Lánið átti að endurgreiða með einum gjalddaga, 1. ágúst 2013, og skyldi bera 21% ársvexti, sem greiða átti við lok lánstímans. Samkvæmt 6. grein samningsins bar stefnda að greiða stefnanda 6,23% þóknun af endanlegri lánsfjárhæð, og skyldi þóknuninni bætt við höfuðstól lánsins við útborgun þess.
Í 10. grein samningsins var mælt fyrir um að stefnanda væri heimilt að gjaldfella lánið og krefjast endurgreiðslu þess fyrir gjalddaga, að uppfylltum þessum skilyrðum:
- að stefndi sé ekki lengur meirihlutaeigandi símafélagsins Vodafone (Og fjarskipti ehf.),
- að þriðji aðili, eða aðilar í samstarfi sem stefnandi eigi ekki aðild að, eignist meirihluta í stefnda,
- að stefndi sé í vanskilum með skuldbindingar við einhvern lánardrottinn eða kröfuhafa að fjárhæð umfram 500.000.000 króna, og að slík vanskil vari lengur en 30 daga, og loks
- að stefndi leggi fram beiðni um gjaldþrotaskipti eða bú félagsins sé tekið til gjaldþrotaskipta.
Með bréfi 1. september 2008 óskaði stefndi eftir afhendingu á hlutabréfum í Alfesca hf. að nafnvirði 94.333.908 krónur inn á VS reikning stefnda hjá Landsbanka Íslands hf. Heildarkaupverðið var 656.564.000 krónur og þóknun 40.902.937 krónur. Heildarádráttur á lánssamninginn nam því 697.466.937 krónum, sem er töluvert minni en samningurinn heimilaði.
Stefnandi fékk heimild til greiðslustöðvunar 29. september 2008. Í kjölfarið gerði félagið nauðasamning við kröfuhafa, sem staðfestur var af Héraðsdómi Reykjavíkur 15. júní 2009.
Í árslok 2008 sendi stefndi frá sér fréttatilkynningu um að hafnar væru viðræður við kröfuhafa félagsins um fjárhagslega endurskipulagningu þess í ljósi erfiðra markaðsaðstæðna. Fékk félagið heimild héraðsdóms til að leita nauðasamnings við kröfuhafa 21. apríl 2009 og var frumvarp að nauðasamningi samþykkt af kröfuhöfum 4. júní sama ár. Í samningnum fólst að ótryggðum kröfum á hendur félaginu var breytt í hlutafé. Var nauðasamningurinn staðfestur af Héraðsdómi Reykjavíkur 23. sama mánaðar. Þar sem stefnandi hafði veitt stefnda víkjandi lán vegna framangreinds kaupréttarsamnings um hluti í Alfesca hf., féll krafa stefnanda ekki undir nauðasamninginn vegna ákvæða 28. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 1. gr. laga nr. 24/2009. Stefnanda hefur af þessum sökum ekki tekist að endurheimta lánsfjárhæðina. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort umrædd lánveiting til stefnda sé riftanleg samkvæmt ákvæðum laga nr. 21/1991.
Undir rekstri málsins óskuðu málsaðilar, hvor með sinni matsbeiðni, eftir því að dómkvaddir yrðu matsmenn til þess að leggja mat á fjárhagslega stöðu stefnda um mitt ár 2008, í ljósi þeirra upplýsinga um félagið sem lágu fyrir á þeim tíma. Í matsbeiðni stefnanda var tekið fram að sérstaklega yrði „lagt mat á fyrirsjáanlegt hæfi matsþola, miðað við stöðu félagsins þann 30. júlí 2008, til að endurgreiða víkjandi lán að upphæð kr. 656.564.000 sem matsbeiðandi veitti þeim 1. september 2008 með gjalddaga 1. ágúst 2013“. Í matsbeiðni stefnda var þess óskað að sérstaklega yrði „lagt mat á hvaða áhrif sala stefnda á dótturfélaginu Og fjarskiptum ehf., hefði haft á fjárhagslega stöðu stefnda og hæfi hans til að endurgreiða víkjandi lán að upphæð kr. 656.564.000“. Til matsstarfa voru dómkvaddir Ársæll Valfells lektor og Einar Pálmi Sigmundsson MBA.
Í þinghaldi 19. nóvember 2010 lagði stefnandi fram umbeðna matsgerð matsmanna. Sem svar við spurningu stefnanda um fjárhagslega stöðu stefnda um mitt ár 2008 segja matsmenn eftirfarandi:
Samkvæmt athugunum matsmanna er fjárhagsleg staða Teymis slík um mitt ár 2008 að félagið getur ekki staðið við sínar skuldbindingar eins og þær koma fram í ársreikningi og árshlutareikningum félagsins. Ef miðað er við að félagið nái mjög góðum árangri í endurfjármögnun og að endurgreiðslutími sé 20 ár nær félagið samt ekki að standa við skuldbindingar sínar. Samkvæmt athugun matsmanna hefðu skuldir félagsins þurft að lækka um 14 milljarða til að félagið ætti möguleika að standa skil á vöxtum og afborgunum skuldbindinga félagsins. Því getur félagið ekki staðið við greiðslu á víkjandi láni til Stoða eins og það er skilgreint skv. lánasamningi.
Í niðurstöðu matsgerðarinnar segir síðan:
Það er niðurstaða matsmanna að fjárhagsstaða Teymis hafi verið með þeim hætti um mitt ár 2008 að ólíklegt var að það hefði hæfi til að standa við skuldbindingu um að greiða víkjandi lán frá Stoðum að upphæð kr. 656.564.000 árið 2013 með 21% ársvöxtum eins og bréfið bar. Skuldastaða Teymis var þung samkvæmt efnahagsreikningi um mitt ár 2008 en að auki var félagið í ábyrgð fyrir Hands Holding, Sikker og 365 er var gert grein fyrir utan efnahags. Samanlagðar uppreiknaðar nettó skuldir samkvæmt efnahagsreikningi að viðbættum ábyrgðum og víkjandi láni frá Stoðum námu tæplega 39 milljörðum í lok 2008. Það er álit matsmanna að félagið gæti í raun einungis staðið undir um 25 milljörðum og því er ólíklegt að það geti greitt af víkjandi láni frá Stoðum.
Gert er ráð fyrir að ábyrgðir vegna Sikker, 365 og Hands Holding falli á Teymi. Ekki er gert ráð fyrir neinum heimtum á þeim kröfum sem Teymi eignast á félögin í kjölfar þess að það reynir á ábyrgðirnar. Ljóst er að þó heimtur yrðu í efri mörkum þess sem matsmenn meta að gæti orðið hefur það ekki afgerandi áhrif á niðurstöðuna og hún stendur.
Stefndi hefur ekki lagt fram matsgerð sömu matsmanna, þar sem einnig var lagt mat á hvaða áhrif sala stefnda á dótturfélaginu Og fjarskiptum ehf. hefði haft á fjárhagslega stöðu stefnda og hæfi hans til að endurgreiða umrætt lán.
Meðal gagna málsins er einnig matsgerð frá Auði Capital, dagsett 16. apríl 2010, en stefnandi réð það fyrirtæki 19. mars sama ár til þess að svara þeirri spurningu hvort raunhæft hafi verið, miðað við þær upplýsingar sem lágu fyrir í lok júlí 2008, að stefndi gæti staðið skil á umræddu víkjandi láni á gjalddaga þess. Niðurstaða Auðar Capital var sú að í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga hafi verið óraunhæft að ætla að fyrirtækið gæti staðið skil á láninu.
Við upphaf aðalmeðferðar komu dómkvaddir matsmenn fyrir dóminn og staðfestu matsgerð sína. Þá gaf skýrslu fyrir dóminum vitnið Ólafur Þór Jóhannesson, fyrrverandi fjármálastjóri Teymis hf.
Í máli Ólafs Þórs kom fram að á þeim tíma sem lánssamningurinn var undirritaður hafi hvorki hann né stjórn Teymis hf. haft efasemdir um að félagið gæti staðið við endurgreiðslu á láni Stoða hf. Að vísu hafi það haft áhrif á fjárhagsstöðu Teymis hf. að á sama tíma hafi fjármögnun félagsins að mestu leyti verið í erlendri mynt og að krónan hefði veikst mikið á árinu. Engu að síður hafi menn gert sér vonir um að krónan styrktist á ný og að unnt yrði að standa við allar skuldbindingar samstæðunnar. Þess utan hafi um sama leyti verið í gangi þreifingar vegna hugsanlegrar sölu á stærstu eign félagsins, Og Vodafone. Hefði sú sala gengið eftir hefði það létt mjög á skuldum Teymis hf. Vitnið neitaði því að stjórn eða starfsmenn Teymis hf. hefðu á þessum tíma haft einhverjar upplýsingar um slæma fjárhagsstöðu Stoða hf. Sagði hann að innan Teymis hf. hefðu menn aðeins haft þær upplýsingar sem birst hefðu opinberlega um Stoðir hf., þ.e. uppgjör félagsins fyrir 1. og 2. ársfjórðung 2008, en á þeim tíma hafði stærsta eign Stoða hf. ekki þurrkast út, eins og raunin varð um mánaðamótin september / október sama ár.
Ólafur Þór var að því spurður hvers vegna Teymi hf. hafi leitað til Stoða hf. um fjármögnun vegna fyrirhugaðrar afskráningar félagsins og kaupa félagsins á hlutabréfum hlutahafa í félaginu. Svaraði hann með þeim orðum að þetta hafi verið eins og innan sömu fjölskyldu. Baugur hafi verið langstærsti hluthafinn í Teymi hf. Við afskráningu félagsins hafi verið eðlilegt að fulltrúar stjórnar og eigandi félagsins færu í þá vinnu að tryggja fjármögnun. Niðurstaðan hafi orðið sú að Stoðir hf. hafi komið að fjármögnun kaupanna með því að afhenda bréf í Alfesca hf. Ástæðan hafi sem sagt verið eignatengslin. Ólafur Þór tók hins vegar fram að ákvörðun um afhendingu bréfa í Alfesca hf. hafi ekki verið tekin af stjórn Teymis hf.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Aðalkrafa stefnanda um riftun á lánssamningi hans og stefnda, vegna kaupa þess síðarnefnda á hlutum stefnanda í Alfesca hf., er annars vegar reist á ákvæði 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en hins vegar á 141. gr. sömu laga.
Til stuðnings kröfu sinni leggur stefnandi áherslu á að á þeim tíma þegar hann gerði umræddan samning við stefnda, hafi legið fyrir að rekstrarstaða stefnda væri mjög erfið og gjaldfærni hans ótrygg. Ljóst hafi því verið að litlar sem engar líkur væru á því að hann fengi skuld sína greidda úr hendi stefnda. Byggir hann á því að ráðstöfun til stefnda á hlutunum í Alfesca hf. megi jafna til gjafar eða örlætisgernings af hálfu stefnanda, og sé gerningurinn af þeirri ástæðu riftanlegur samkvæmt 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Jafnframt bendir stefnandi á að náin eigna- og stjórnunartengsl hafi verið milli eigenda stefnanda og stefnda á þessum tíma. Þannig hafi stærstu hluthafar í stefnanda einnig verið stórir hluthafar í stefnda, og nefnir hann sérstaklega í því sambandi Baug Group hf. og aðila og félög tengd því félagi. Báðum aðilum hafi því hlotið að vera ljós hin erfiða staða sem stefndi var í, og jafnframt að afsal á hlutum stefnanda í Alfesca hf. til stefnda gegn víkjandi láni, án nokkurra trygginga og með einum gjalddaga fimm árum eftir að lánið var veitt, jafngilti í reynd því að stefndi fengi umrædda hluti að gjöf, eða í öllu falli að verulegur munur væri á því verðmæti sem stefnandi þannig afhenti stefnda og því endurgjaldi sem stefndi gæti staðið skil á. Að auki telur stefnandi að enga nauðsyn hafi borið til þess af hans hálfu að afhenda stefnda hlutina á þeim kjörum sem samningur aðila kvað á um. Þær ástæður, sem tilgreindar séu í samningnum séu raunar þvert á móti óeðlilegar þegar hliðsjón sé höfð af hagsmunum stefnanda og kröfuhafa hans. Raunar telur stefnandi vandséð hvernig það fái samrýmst hagsmunum hans að afhenda stefnda bréf í skráðu félagi gegn jafn óvissu og ótraustu endurgjaldi og raun ber vitni, eingöngu í því skyni að gera stefnda kleift að uppfylla tilteknar skyldur við sínar við hluthafa í stefnda, sem komu stefnanda þó ekki við.
Samkvæmt framanrituðu byggir stefnandi á því að uppfyllt séu öll skilyrði til að telja þá ákvörðun stefnanda að samþykkja víkjandi lán sem greiðslu fyrir hlutina í Alfesca hf. riftanlega á grundvelli 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Augljóst sé að með því hafi eignir stefnanda skerst sem nemi verðmæti hlutanna í Alfesca hf., og telur stefnandi það verðmæti hafa að lágmarki jafngilt því kaupverði sem samið hafi verið um milli aðila málsins. Ráðstöfunin hafi jafnframt leitt til auðgunar í hendi stefnda, sem þannig hafi fengið umrædda hluti í hendur og nýtt þá í þeim tilgangi að uppfylla skyldur sínar við sína hluthafa. Loks telur stefnandi blasa við að afhending hlutanna til stefnda, gegn hinu víkjandi láni, hafi í raun jafngilt gjöf eða örlætisgerningi sem nemi verðmæti bréfanna. Beri af þessum sökum að fallast á kröfu stefnanda um riftun umræddrar ráðstöfunar.
Verði ekki fallist á að rifta beri framangreindri ráðstöfun á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991, byggir stefnandi á því að rifta beri henni með vísan til 141. gr. sömu laga. Ákvæðið feli í sér að krefjast megi riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt eru kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, eða leiði til þess að eignir þrotamanns, í þessu tilviki stefnanda, verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum, ef þrotamaður var ógjaldfær og sá sem hafði hag af ráðstöfuninni vissi um ógjaldfærni hans og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg. Telur stefnandi að uppfyllt séu öll skilyrði ákvæðisins fyrir riftun. Þannig leiki enginn vafi á að ráðstöfun stefnanda á hlutunum í Alfesca hf. til stefnda, á þeim kjörum og í þeim tilgangi sem samið hafi verið um, sé ótilhlýðileg í skilningi ákvæðisins. Í því sambandi ítrekar stefnandi að samningur aðila hafi verið gerður í þeim tilgangi að auðvelda stefnda að standa við skuldbindingar gagnvart sínum hluthöfum, sem hafi verið stefnanda óviðkomandi. Grundvöllur viðskiptanna hafi að þessu leyti verið óeðlilegur, enda hafi stefnanda hvorki verið rétt né skylt að leggja stefnda lið með þessum hætti. Þá hafi rekstrarstaða og gjaldfærni stefnda á þessum tíma verið með þeim hætti að með öllu hafi verið ótilhlýðilegt að afhenda honum hluti í skráðu félagi, gegn algerlega ótryggðu láni með einum gjalddaga, fimm árum síðar. Þar að auki hafi lánssamningurinn verið víkjandi gagnvart öðrum skuldbindingum stefnda. Um mjög óvenjulegan samning hafi verið að ræða fyrir stefnanda, sem ekki hafi stundað það að veita víkjandi lán í stórum stíl í viðskiptum við viðsemjendur sína.
Að dómi stefnanda er óumdeilanlegt að umrædd ráðstöfun var stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa stefnanda, enda hefðu hlutirnir í Alfesca hf., eða það verðmæti sem í þeim fólst, að öðrum kosti staðið til fullnustu krafna á hendur stefnanda. Ekkert endurgjald hafi komið fyrir hlutina, einungis verðlaus krafa í formi víkjandi láns á gjalddaga mörgum árum síðar. Stefnandi leggur einnig áherslu á að á þeim tíma þegar samningur aðila var gerður hafði rekstur stefnanda beðið gífurlega hnekki. Verðmæti eigna hafði rýrnað verulega og skuldir aukist stórlega. Upplýsingar um rekstrarerfiðleika stefnanda hafi á þessum tíma verið á allra vitorði og hljóti stefnda að hafa verið fullkunnugt um þá, ekki síst vegna hinna nánu tengsla milli málsaðila, sem bæði fólust í nátengdu eignarhaldi og stjórnunarlegum tengslum milli lykilhluthafa í félögunum. Í þessu sambandi minnir stefnandi einnig á að hann fékk heimild til greiðslustöðvunar 29. september 2008, eða aðeins um fjórum vikum eftir að lánið var veitt, og tæpum tveimur mánuðum eftir að samningurinn um afhendingu hlutanna í Alfesca hf. var gerður. Í ljósi ofanritaðs telur stefnandi að uppfyllt séu öll skilyrði fyrir riftun á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.
Með aðalkröfu sinni krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða honum 656.564.000 krónur. Segir hann fjárhæð kröfunnar svara til verðmætis þeirra hlutabréfa í Alfesca hf., alls að nafnvirði 94.333.908 krónur, sem hann afhenti stefnda á grundvelli hinnar riftanlegu ráðstöfunar, en í samningi aðila hafi kaupverð hlutanna verið ákveðið 6,96 kr. fyrir hverja krónu nafnverðs. Við mat á því hvort eðlilegt sé að ætla að verðmæti bréfanna hafi numið þessari fjárhæð, bendir stefnandi á að lokatilboðsgengi bréfa í Alfesca hf. í kauphöll 1. september 2008 hafi verið 6,75. Því telji hann ljóst að hið umsamda kaupverð hafi verið eðlilegt og jafngilt því verðmæti sem í bréfunum hafi falist. Af 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., leiði að stefnda beri að greiða stefnanda fé sem svari til þess sem greiðsla stefnanda hafi orðið honum að notum, þó ekki hærri fjárhæð en nemi tjóni stefnanda. Öll greiðsla stefnanda hafi komið stefnda að notum. Því nemi tjón stefnanda öllu verðmæti hinna afhentu hluta, enda hafi í raun ekkert gagngjald komið fyrir þá. Hið sama eigi við þótt riftun fari fram á grundvelli 141. gr. umræddra laga, en í því tilviki skal sá sem hag hafði af riftanlegri ráðstöfun greiða bætur eftir almennum reglum, sbr. 3. mgr. 142. gr. sömu laga.
Krafa stefnanda um vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af stefnufjárhæðinni frá 1. september 2008, er studd þeim rökum að þann dag hafi hlutunum verið ráðstafað til stefnda samkvæmt samningi aðila. Telur stefnandi eðlilegt að krafa hans beri skaðabótavexti frá þeim tíma enda hafi stefnandi þá orðið fyrir því tjóni sem krafist sé uppgjörs á í málinu. Að auki krefjist hann dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga af stefnufjárhæðinni frá þingfestingardegi til greiðsludags.
Varakrafa stefnanda, um að viðurkenndur verði réttur hans til greiðslu úr hendi stefnda til jafns við þá lánardrottna stefnda sem fóru með samningskröfur á hendur honum, í samræmi við staðfestan nauðasamning stefnda, er byggð á sama lagagrunni og aðalkrafan. Kröfunni til frekari stuðnings er á það bent að fyrir liggi að stefndi hafi með nauðasamningi við kröfuhafa sína gengið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu. Telji dómurinn að sökum þessa skuli farið með kröfu stefnanda eins og um samningskröfu við nauðasamning sé að ræða, sbr. eftir atvikum ákvæði 28. - 32. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., byggir stefnandi á því að telja beri kröfu hans jafngilda öðrum samningskröfum á hendur stefnda. Því eigi stefnandi rétt á uppgjöri hennar með sama hætti og öðrum samningskröfuhöfum stóð til boða, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga, og úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. N-5/2009, sem kveðinn var upp 23. júní 2009. Verði fallist á riftun hins víkjandi láns telur stefnandi að hann eigi ekki minni rétt en svo að hann sé jafnsettur þeim kröfuhöfum sem áttu almennar kröfur á hendur stefnda. Samkvæmt því telur stefnandi að honum beri að lágmarki réttur til uppgjörs með þeim hætti sem varakrafan geri ráð fyrir.
Þrautavarakrafa stefnanda, um að viðurkenndur verði réttur hans til greiðslu úr hendi stefnda til jafns við þá lánardrottna stefnda sem fóru með samningskröfur á hendur stefnda, í samræmi við staðfestan nauðasamning stefnda, er byggð á eftirfarandi sjónarmiðum:
Fallist dómurinn ekki á kröfu stefnanda um riftun þeirrar ráðstöfunar sem fólst í að veita stefnda víkjandi lán fyrir afhendingu hluta í Alfesca hf., liggur fyrir að stefnandi eigi kröfu á hendur stefnda samkvæmt lánssamningi aðila 30. júlí 2008. Þegar sá samningur var gerður hafi um réttarstöðu víkjandi lána gagnvart skuldara í nauðasamningsferli gilt ákvæði 3. mgr. 28. gr. laga nr. 21/1991, en þar sagði að nauðasamningur leiddi til brottfalls skulda sem skipað yrði í skuldaröð eftir 1.-3. tl. og 5. tl. 114. gr., ef bú skuldarans hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta. Af þessu orðalagi hafi verið ljóst að kröfur samkvæmt 4. tl. 114. gr. umræddra laga, þ.e. kröfur sem samið hafi verið um að viki fyrir öðrum kröfum (víkjandi lán), féllu ekki niður við nauðasamning, heldur myndu þær aðeins skerðast eftir almennum ákvæðum nauðasamnings. Um þetta hafi verið fjallað í greinargerð með frumvarpi til laga um gjaldþrotaskipti o.fl., sem síðar varð að lögum nr. 21/1991, og þar sagt að það þætti andstætt tilgangi og eðli þeirra samninga að nauðasamningur hefði í för með sér brottfall slíkra krafna eða að þær stæðu óhaggaðar af samningnum. Í þessu hafi falist að kröfur af þessu tagi sættu meðferð eins og aðrar samningskröfur.
Með 1. gr. laga nr. 24/2009, sem öðluðust gildi 1. apríl 2009, hafi 3. mgr. 28. gr. laga nr. 21/1991 verið breytt þannig að felld hafi verið niður tilvísun ákvæðisins til 1.-3. og 5. tölul. 114. gr. sömu laga. Hafi breytingin komið til í meðförum Alþingis, að tillögu allsherjarnefndar. Í nefndaráliti segi svo um þessa breytingartillögu: „Fyrir nefndinni kom fram að í viðskiptaráðuneytinu sé unnið að breytingum á lögum um fjármálafyrirtæki og að við þá vinnu hafi komið fram að misræmi sé í meðferð svokallaðra víkjandi lána þegar um gjaldþrotaskipti er að ræða annars vegar og hins vegar í nauðasamningum. Í nauðasamningum er þessum kröfum gert hærra undir höfði en í gjaldþrotaskiptum. Þessar kröfur geta haft áhrif á nauðasamning og fellt hann jafnvel þótt þær eigi að standa aftast í skiptaröð sbr. ákvæði 114. gr. gjaldþrotalaga. Nefndin telur nauðsynlegt að leggja til lagfæringu á lögunum að þessu leyti og leggur til að tilvísun í 1..3. og 5. tölul. í 3. mgr. 28. gr. falli brott.“
Að dómi stefnanda er sú breyting sem fólst í 1. gr. laga nr. 24/2009 andstæð 72. gr. stjórnarskrárinnar. Telur hann að enga nauðsyn hafi borið til þess að rýra réttarstöðu þeirra sem áttu rétt á grundvelli samninga um víkjandi lán með þeim hætti sem gert var með lögunum, og raunar gangi umrædd grein þeirra þvert á þau lögmætu markmið sem vernduð voru í lögunum eins og þau voru fyrir breytinguna. Í lagabreytingunni felist með afturvirkum hætti stórkostleg skerðing á réttindum stefnanda, sem hann átti samkvæmt umræddum lánssamningi við stefnda. Fari slíkt í bága við meginreglur um stjórnskipulegt meðalhóf og fyrirsjáanleika laga, enda hafi stefnandi mátt treysta því, þegar hann gerði margumræddan lánssamning við stefnda, að ef til nauðasamnings kæmi skyldi hann njóta réttarstöðu eins og aðrir samningskröfuhafar. Bendir stefnandi jafnframt á að stefndi hafði fengið heimild til greiðslustöðvunar löngu áður en lög nr. 24/2009 tóku gildi, en slík heimild sé undanfari þess að til nauðasamningsumleitana komi, eins og raunin hafi orðið með stefnda.
Með vísan til framangreinds telur stefnandi að ákvæði 1. gr. laga nr. 24/2009 skorti stjórnskipulegt gildi, en af því leiði að líta beri fram hjá ákvæðinu við úrlausn um réttarstöðu stefnanda vegna lánssamnings hans og stefnda. Þess í stað eigi að leysa úr þeirri réttarstöðu á grundvelli 3. mgr. 28. gr. gjaldþrotaskiptalaga, eins og hún var orðuð fyrir þá breytingu sem gerð var með hinum stjórnskipulega ógildu lögum nr. 24/2009. Leiði það til þess að fallast beri á þrautavarakröfu hans í málinu.
Til stuðnings kröfu sinni um málskostnað vísar stefnandi til ákvæða XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr. þeirra.
Málsástæður stefnda og lagarök
Aðalkrafa stefnda byggist í fyrsta lagi á því að lagaheimild skorti fyrir kröfu stefnanda, og beri af þeim sökum að sýkna hann af öllum kröfum stefnanda. Því til stuðnings vísar stefndi til þess að með lögum nr. 24/2009 hafi ákvæðum 3. mgr. 28. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 verið breytt á þá lund að felld hafi verið brott tilvísun í 1.-3. og 5. tölulið 114. gr. laganna. Eftir það leiði nauðsamningur til brottfalls skulda sem skipað yrði í skuldaröð eftir ákvæðum 114. gr. laganna, ef bú skuldara yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Kröfur, sem samið hafi verið um að víki fyrir öðrum kröfum, líkt og hátti til um samning stefnda og stefnanda, falli þar undir. Um leið mótmælir stefndi þeirri málsástæðu stefnanda að umrædd lagabreyting brjóti í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrár, meginreglu um stjórnskipulegt meðalhóf eða fyrirsjáanleika laga. Stefndi vekur jafnframt á því athygli að rangt sé að hann hafi hlotið heimild til greiðslustöðvunar, eins og fullyrt sé í stefnu. Hið rétta sé aftur á móti að héraðsdómur hafi veitt honum heimild til þess að leita nauðasamnings 20. apríl 2009, en umrædd lagabreyting hafi tekið gildi 1. þess mánaðar. Að þessu virtu beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Í öðru lagi byggir stefndi á því að skilyrði til riftunar á lánssamningi aðila samkvæmt 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 séu ekki fyrir hendi. Stefnandi hafi þannig ekki sýnt fram á að um gjafagerning sé að ræða. Ekki sé þar heldur að finna nein óvenjuleg ákvæði eða greiðsluskilmála sem bendi til þess að um gjafagerning sé að ræða. Vissulega hafi stefndi ekki lagt fram eiginlegar tryggingar til greiðslu lánsins, enda hafi um víkjandi lánssamning verið að ræða. Hins vegar hafi verð fyrir hina keyptu hluti verið tiltölulega hátt, eða 6,96 fyrir hlut, en lokagengi á bréfum í Alfesca hf. hafi verið 6,75. Vaxtakjör lánsins hafi einnig verið með hærra móti, eða 21%. Þá bendir stefndi á að hagsmunir stefnanda sem kröfuhafa víkjandi láns hafi verið tryggðir með gjaldfellingarheimildum, kæmi til sölu stærstu eignar stefnda, Og fjarskipta ehf., eða verulegra vanskila stefnda.
Stefndi byggir einnig á því að stefnandi hafi ekki fært sönnur fyrir þeirri fullyrðingu sinni að við undirritun samnings hafi legið fyrir að gjaldfærni stefnda væri ótrygg. Þvert á móti telur hann að leiða megi líkur að því að á þeim tíma hafi erfiðleikar stefnda verið tímabundnir og helst tengdir sveiflum í gengi íslensku krónunnar. Í eignasafni hans hafi verið traust þjónustufyrirtæki, líkt og Og fjarskipti ehf. Ákvörðun forsvarsmanna stefnda um að hefja viðræður við kröfuhafa félagsins um fjárhagslega endurskipulagningu hafi fyrst komið til í kjölfar efnahagshrunsins, þegar ljóst hafi verið að markaðsaðstæður hér á landi yrðu erfiðar til lengri tíma litið. Að mati stefnda sé þó fráleitt að forsvarsmenn stefnda eða stefnanda hafi getað órað fyrir atburðum októbermánaðar 2008, þegar gengið var til þess samnings sem hér um ræði.
Af hálfu stefnda er því mótmælt að forsendur hans fyrir gerð samningsins, sem tilgreindar eru í inngangi hans, geti talist óeðlilegar með hliðsjón af hagsmunum stefnanda og kröfuhafa hans. Umræddar forsendur, og í raun fyrirvari við samninginn, hafi einvörðungu varðað stefnda og ekki falið í sér neitt skuldbindingargildi fyrir stefnanda, umfram almenn ákvæði samningsins. Jafnframt er því mótmælt að stefnandi hafi gengið til samningsins eingöngu í því skyni að gera stefnda kleift að freista afskráningar úr kauphöll. Bendir stefndi á að í fréttatilkynningu stefnanda frá 29. ágúst 2008 komi þannig fram að stefnandi hafi unnið að endurskipulagningu starfsemi sinnar og sölu eigna. Haft hafi verið eftir forstjóra stefnanda að í því skyni hefðu verið seldar eignir sem ekki féllu undir breytta fjárfestingarstefnu félagsins, en meginstarfsemi stefnanda hafi verið á sviði fjármála-, trygginga- og fasteignafélaga. Með þetta í huga telur stefndi að sala stefnanda á hlutum í félagi, sem einbeiti sér að matvælaiðnaði, þ.e. Alfesca hf., hafi verið í samræmi við framangreind markmið stefnanda.
Stefndi hafnar því einnig að um náin stjórnunartengsl hafi verið að ræða milli stefnanda og stefnda á þeim tíma sem hér um ræði. Aðeins einn stjórnarmaður stefnanda hafi jafnframt átt sæti í stjórn stefnda. Sá hafi hins vegar ekki tekið þátt í umræðum eða ákvörðun stjórnar stefnda um að ganga til samninga við stefnanda. Að öðru leyti hafi stefnandi ekki fært nein haldbær rök fyrir frekari tengslum milli forsvarsmanna stefnanda og stefnda, sem kunni að hafa haft áhrif á ákvörðunartöku stjórna málsaðila.
Með vísan til ofanritaðs telur stefndi að hafna eigi kröfu stefnanda um riftun samningsins á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991.
Stefndi byggir enn fremur á því að skilyrði riftunar á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991 séu ekki fyrir hendi, enda hafi stefnandi hvorki sýnt fram á að umrædd ráðstöfun hafi verið ótilhlýðileg í skilningi ákvæðisins, né að stefndi hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni stefnanda og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin teldist ótilhlýðileg. Um leið mótmælir stefndi sem órökstuddri þeirri fullyrðingu stefnanda að enginn vafi leiki á um ótilhlýðileika ráðstöfunarinnar.
Til stuðnings ofangreindu bendir stefndi á að hvorki kaupverð hlutanna sem stefnandi seldi stefnda samkvæmt umræddum samningi hafi verið óeðlilegt, né önnur kjör samningsins. Alkunna sé að t.d. vaxtakjör lánssamninga taki mið af þeirri áhættu sem lánveitandi takist á hendur. Af þeirri ástæðu hafi verið samið um nokkuð hærri vexti en almennt tíðkaðist, auk þess sem stefnandi hafi haft víðtækar heimildir til gjaldfellingar. Þá ítrekar stefndi að forsendur og fyrirvari í samningi aðila, að því er varðar afskráningu stefnda úr kauphöll, hafi einungis átt við stefnda en ekki stefnanda. Mótmælir stefndi einnig fullyrðingum stefnanda um að vafi hafi leikið á um gjaldfærni stefnda og rekstrarstöðu hans, á þeim tíma sem umræddur samningur var undirritaður. Að sama skapi er því mótmælt að stefndi hafi vitað eða mátt vita að stefnandi hafi verið ógjaldfær þegar umræddur samningur var gerður. Ekkert í fréttatilkynningu stefnanda frá 29. ágúst 2008, eða tæpum mánuði eftir að samningur aðila var undirritaður, hafi gefið til kynna að ógjaldfærni vofði yfir stefnanda. Telur stefndi að ályktanir stefnanda um heimild til greiðslustöðvunar mánuði síðar hafi enga þýðingu í þessu sambandi, enda hafi raunverulegar orsakir hennar verið skyndilegt og fyrirvaralaust brotthvarf stærstu eignar stefnanda. Líta beri og til þess að stefnandi hafi verið útgefandi skuldabréfa sem skráð hafi verið í kauphöll, og hafi honum af þeim sökum borið að upplýsa um fjárhagsstöðu sína. Loks ítrekar stefndi að ekki hafi verið slík stjórnunartengsl á milli aðila að stefnda hefði átt að vera kunnugt um rekstrarerfiðleika stefnanda, umfram það sem almenn vitneskja var um.
Varakrafa stefnda, um að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og viðurkennt verði að kröfur stefnanda falli undir skilmála nauðasamnings stefnda, er studd þeim rökum að í málinu liggi ekki fyrir hvert hafi verið raunverulegt verðmæti þeirra bréfa sem stefndi fékk afhent frá stefnanda. Stefndi hafi nýtt umrædd hlutabréf til þess að greiða fyrir hlutabréf í stefnda á genginu 1,90. Umsamið kaupverð hlutabréfanna í Alfesca hf. hafi verið nokkru hærra en skráð lokagengi þeirra í kauphöll á afhendingardegi, sem hafi verið 6,75. Þann dag hafi viðskipti verið með ríflega 3 milljónir hluta í Alfesca hf. Samningur stefnda og stefnanda hafi hins vegar kveðið á um bréf að nafnvirði 94.333.908 krónur. Ekkert liggi fyrir um möguleika stefnanda á að selja slíkan fjölda bréfa á umræddu verði, en stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi orðið fyrir tjóni, sbr. 142. gr. laga nr. 21/1991.
Stefndi mótmælir loks alfarið kröfu stefnanda um dráttarvexti, en til vara byggir hann á því að upphaf dráttarvaxta miðist við síðara tímamark, verði að einhverju leyti fallist að fjárkröfur stefnanda, sbr. III. kafla laga nr. 38/2001.
Um lagarök vísar stefndi til laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991, einkum, 28., 131. 141. og 142. gr., en einnig til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Krafa hans um málskostnað er reist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Eins og rakið hefur verið á ágreiningur þessa máls rætur að rekja til samnings sem aðilar gerðu með sér 30. júlí 2008 og bar yfirskriftina „Kaupréttarsamningur og víkjandi lánssamningur“. Samkvæmt samningnum samþykkti Stoðir hf. (áður FL Group hf.), stefnandi í máli þessu, að selja Teymi hf., stefnda í málinu, 212.000.000 nafnverðshluta sinna í Alfesca hf. í því skyni að gera stefnda kleift að uppfylla skyldur sínar gagnvart hluthöfum félagsins, en fyrir lá að stjórn stefnda hugðist afskrá hlutabréf Teymis hf. úr kauphöll Nasdaq OMX á Íslandi. Var gengi hvers hlutar í Alfesca hf. ákveðið 6,96. Með samningnum skuldbatt stefnandi sig jafnframt til að lána stefnda andvirði hinna seldu hluta með víkjandi lánssamningi. Gjalddagi lánsins var ákveðinn 1. ágúst 2013 og átti lánið að bera 21% ársvexti, sem áttu að greiðast við lok lánstímans. Í samræmi við ákvæði samningsins óskaði stefndi eftir því 1. september 2008 að stefnandi afhenti honum hlutabréf í Alfesca hf. að nafnverði 94.333.908 krónur, og varð stefnandi við því. Kaupverð hlutabréfanna, miðað við gengi 6,96 fyrir hvern hlut, nam því 656.564.000 krónum, sem greitt var stefnanda með hinu víkjandi láni.
Stefnandi fékk heimild til greiðslustöðvunar 29. september 2008, en gerði í kjölfarið nauðasamning við kröfuhafa, sem staðfestur var af Héraðsdómi Reykjavíkur 15. júní 2009. Stefnda var veitt heimild til að leita nauðasamnings 21. apríl 2009 og var samningurinn staðfestur af Héraðsdómi Reykjavíkur 23. júní sama ár. Í nauðasamningi stefnda fólst að óveðtryggðum kröfum á hendur félaginu var breytt í hlutafé. Þar sem stefnandi hafði veitt stefnda víkjandi lán féll krafa hans ekki undir nauðasamninginn vegna ákvæða 28. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 1. gr. laga nr. 24/2009, og hefur stefnanda því ekki tekist að endurheimta lánsfjárhæðina. Í málinu krefst stefnandi riftunar á áðurnefndu víkjandi láni til stefnda, svo og endurgreiðslu lánsfjárhæðarinnar, 656.564.000 króna, ásamt vöxtum og dráttarvöxtum, en til vara að viðurkenndur verði réttur hans til greiðslu úr hendi stefnda til jafns við þá lánardrottna sem fóru með samningskröfur á hendur stefnda samkvæmt nauðasamningi hans við kröfuhafa. Deila aðila lýtur annars vegar að því hvort lagaheimild sé fyrir kröfum stefnanda eftir þá breytingu sem gerð var á 3. mgr. 28. gr. laga nr. 21/1991 með lögum nr. 24/2009, en hins vegar hvort umrædd lánveiting til stefnda sé riftanleg ráðstöfun samkvæmt 1. mgr. 131. gr. eða 141. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.
Sú breyting sem gerð var á 3. mgr. 28. gr. laga nr. 21/1991 með lögum nr. 24/2009, og fól í sér að skuld samkvæmt víkjandi lánssamningi féll brott við staðfestingu nauðasamnings, hefur engin áhrif á heimild stefnanda til að höfða mál þetta, enda er málið höfðað í þeim tilgangi að freista þess að rifta þeirri ráðstöfun sem fólst í hinu víkjandi láni og endurheimta um leið lánsfjárhæðina sem stefnandi veitti stefnda. Með riftuninni er þannig stefnt að því að gera stefnanda eins settan og ef hann hefði ekki veitt stefnda umrætt lán til greiðslu kaupverðs seldra hlutabréfa Alfesca hf. Er því hafnað þeirri málsástæðu stefnda að lagaheimild skorti fyrir kröfum stefnanda. Tekið skal fram að hvorki er um það deilt að stefnandi höfðaði mál þetta innan lögmælts málshöfðunarfrests, né að sú ráðstöfun sem krafist er riftunar á átti sér stað innan sex mánaða fyrir frestdag vegna nauðasamningsumleitana stefnanda. Kemur þá til skoðunar hvort uppfyllt séu skilyrði til riftunar umræddrar ráðstöfunar samkvæmt 1. mgr. 131. gr. eða 141. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.
Samkvæmt 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 má krefjast riftunar á gjafagerningi ef gjöfin var afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Við skýringu á hugtökunum „gjafagerningi“ og „gjöf“ ber að líta til þess að hugtökin taka einnig til örlætisgerninga, þ.e. gagnkvæmra samninga þar sem verulegur munur er á þeim verðmætum sem látin hafa verið af hendi og því gagngjaldi sem móttakandi innti af hendi. Þá hefur almennt einnig verið talið að gjafahugtakið hafi að geyma þrjú meginatriði, þ.e. að gjöfin rýri eignir skuldarans, að gjöfin leiði til eignaaukningar hjá móttakanda og að tilgangurinn með gerningnum sé að gefa.
Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir efni þess samnings sem aðilar gerðu með sér 30. júlí 2008, að því leyti sem hér skiptir máli. Að áliti dómsins þykir samningurinn óneitanlega nokkuð sérstakur, þótt ekki væri nema fyrir þær sakir að með honum skuldbatt stefnandi sig til að selja stefnda mikinn fjölda auðseljanlegra hlutabréfa sinna í Alfesca hf. og veita stefnda lán fyrir kaupverðinu í formi víkjandi lánssamnings með einum gjalddaga í lok samningstímans, 1. ágúst 2013. Þótt stefnandi hafi á sama tíma unnið að endurskipulagningu starfsemi sinnar og sölu eigna sem ekki féllu undir breytta fjárfestingarstefnu, verður með engu móti séð að nauðsyn hafi borið til þess að hann seldi bréfin á þeim kjörum sem um var samið, né að salan hafi að einhverju leyti verið honum til hagsbóta. Nokkra furðu vekur einnig að fram kemur í 1. gr. samningsins að kaup stefnda á hlutabréfunum séu í því skyni að gera honum kleift að uppfylla skyldur sínar gagnvart hluthöfum vegna fyrirhugaðrar afskráningar á hlutabréfum stefnda úr kauphöll, enda var sú ráðstöfun stefnda á hlutabréfunum stefnanda með öllu óviðkomandi og án þess að hann nyti þar nokkurs af, að því er séð verður. Á sama tíma lágu hins vegar fyrir opinberar upplýsingar um mjög slæma rekstrarafkomu beggja félaganna, gífurlegt tap af fjárfestingum stefnanda, lækkandi eigin fé þeirra beggja, mikla skuldaaukningu í kjölfar lækkandi gengis krónunnar og sérlega erfiða endurfjármögnun á erlendum mörkuðum. Bera framlögð gögn þessu ótvírætt vitni, og má í því efni sérstaklega vísa til umfjöllunar fjölmiðla um afkomu beggja félaganna í kjölfar fyrsta og annars árshlutauppgjörs þeirra árið 2008. Þá liggur fyrir í málinu matsgerð dómkvaddra matsmanna, þar sem fram kemur að fjárhagsstaða stefnda hafi verið slík um mitt ár 2008 að félagið gat ekki staðið við skuldbindingar sínar, hvorki í bráð né lengd. Hefur stefndi ekki hnekkt niðurstöðum matsgerðarinnar og verður hún því lögð til grundvallar við úrlausn málsins. Loks ber þess að geta að stefndi hefur ekki sýnt fram á að neinu hafi breytt um niðurstöðu matsmanna þótt stefnda tækist að selja stærstu eign sína, Og fjarskipti ehf., en eins og áður greinir óskaði stefndi eftir því að matsmenn legðu mat á hvaða áhrif það hefði haft á fjárhagslega stöðu stefnda og hæfi hans til að endurgreiða lánsfjárhæðina. Stefndi kaus hins vegar að leggja ekki fram matsgerð matsmanna þar sem þeirri spurningu var svarað.
Meðal gagna málsins eru upplýsingar um 10 stærstu hluthafa í stefnanda og 20 stærstu hluthafa í stefnda á þeim tíma sem áðurnefndur samningur var gerður. Af þeim má sjá að stærstu hluthafar í stefnanda voru einnig stórir hluthafar í stefnda. Þannig fór Baugur Group hf., í gegnum félagið Styrk Invest ehf. og tengda aðila, með ráðandi hlut í stefnanda. Á sama tíma átti Baugur Group hf. stærstan eignarhlut í stefnda, 24,4692%, auk þess sem aðilar tengdir því félagi voru einnig stórir hluthafar. Fyrir liggja einnig upplýsingar um stjórnarmenn beggja félaganna. Ljóst er af gögnum þessum, og ekki síður framburði fyrrverandi fjármálastjóra stefnda fyrir dómi, að náin eigna- og stjórnunartengsl voru á milli stefnanda og stefnda. Til hins sama bendir einnig ákvæði 10. gr. 1.2 í oftnefndum samningi aðila frá 30. júlí 2008, þar sem mælt er fyrir um að stefnanda sé heimilt að gjaldfella lánið ef „þriðji aðili, eða aðilar í samstarfi sem Stoðir á ekki aðild að, eignast meiri hluta í Teymi“. Vegna náinna tengsla félaganna verður sú ályktun dregin að stefnanda hafi hlotið að vera kunnugt um erfiða fjárhagsstöðu stefnda á þeim tíma sem umræddur samningur var gerður, svo og að litlar sem engar líkur væru á að stefndi gæti staðið skil á endurgreiðslu lánsins á gjalddaga.
Með því að veita stefnda umrætt víkjandi lán til fimm ára, sem endurgjald fyrir hlutabréf stefnanda í Alfesca hf., að nafnverði 94.333.908 krónur, stuðlaði stefnandi að því að eignir hans rýrnuðu sem nam verðmæti hlutabréfanna og stóðu þar af leiðandi kröfuhöfum hans ekki til boða. Að sama skapi leiddi sú ráðstöfun til auðgunar stefnda, enda hagnýtti hann sér hlutabréfin sem greiðslu til hluthafa sinna vegna fyrirhugaðrar afskráningar félagsins úr kauphöll. Þar sem stefnanda hlaut að auki að vera kunnugt um erfiða fjárhagsstöðu stefnda, sem staðfest er með framlagðri matsgerð dómkvaddra matsmanna, er það álit dómsins að uppfyllt sé skilyrði til að rifta umræddu víkjandi láni stefnanda til stefnda 1. september 2008, enda telur dómurinn að slíkur munur sé á því verðmæti sem stefnandi lét þá af hendi og gagngjaldi stefnda, að jafngildi gjöf í skilningi 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991.
Auk riftunar gerir stefnandi kröfu um að stefnda verði gert að endurgreiða honum lánsfjárhæðina, auk vaxta og dráttarvaxta til greiðsludags. Í dómkröfu hans er fjárhæðin sögð 656.560.000 krónur, en í bréfi stefnda frá 1. september 2008, þar sem stefndi óskar eftir afhendingu hlutabréfanna í Alfesca hf., er heildarkaupverð þeirra sagt 656.564.000 krónur, og muni sú fjárhæð falla undir lánssamning aðila. Af umfjöllun í stefnu um atvik málsins og málsástæður er augljóst að stefnandi hefur fyrir mistök tilgreint fjárhæð kröfunnar lægri en til stóð. Þar sem dómari er bundinn af kröfugerð aðila, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður við það miðað að endurgreiðslukrafa hans nemi þeirri fjárhæð sem tilgreind er í dómkröfu hans, þ.e. 656.560.000 krónum, að því leyti sem sú fjárhæð getur hér skipt máli.
Samkvæmt 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 skal sá sem hag hafði af riftanlegri ráðstöfun með stoð í 131. gr. laganna greiða þrotabúinu fé sem svarar til þess sem greiðsla þrotamannsins hefur orðið honum að notum, þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur tjóni þrotabúsins. Fjárhæð kröfu stefnanda miðast við að verðmæti þeirra hlutabréfa sem hann afhenti stefnda hafi að lágmarki svarað til kaupverðs þeirra í samningi aðila. Kaupverðið hafi þar verið ákveðið 6,96 krónur fyrir hvern nafnverðshlut, og hafi bæði stefnandi selt stefnda hlutabréfin á því verði og stefndi síðar hagnýtt þau á sama verði í viðskiptum við hluthafa sína.
Í skjölum málsins er yfirlit um viðskipti með hlutabréf Alfesca á tímabilinu frá 1. ágúst 2008 til 31. október sama ár, ásamt yfirliti um fjárhæðir og fjölda viðskipta á sama tíma. Samkvæmt gögnum þessum var lokagengi hlutabréfa í félaginu 1. ágúst 2008 6,79 krónur fyrir hvern hlut, en 6,75 krónur 1. september sama ár. Sjá má að gengið hélst nokkuð stöðugt á þessum tíma, en athygli vekur að hæst fór það 3. september í 6,96 krónur á hlut. Af fjárhæð viðskipta þann dag má ætla að þá hafi verið skráð þau viðskipti málsaðila, sem hér er fjallað um.
Þótt fyrir liggi samkvæmt ofansögðu að hlutabréf stefnanda í Alfesca hf. hafi orðið stefnda að notum á genginu 6,96 krónur á hlut, verður að telja ósannað að stefnanda hafi auðnast að selja bréfin í öðrum viðskiptum á því gengi, hvort sem hann kaus að selja þau í einu lagi eða í smærri viðskiptum. Er því ekki unnt að leggja það gengi til grundvallar endurgreiðslukröfu á hendur stefnda. Þess í stað verður miðað við að lokagengi hlutabréfanna 1. september 2008, þ.e. 6,75 krónur á hlut, sé réttari mælikvarði á tjón stefnanda. Svarar það gengi nokkurn veginn til meðalgengis á hlutabréfunum frá þeim tíma er samningur aðila var gerður og þar til hann var efndur með afhendingu hlutabréfanna, gegn margnefndu víkjandi láni. Hefur dómurinn þá einnig í huga að á þessum tíma vann stefnandi að endurskipulagningu starfsemi sinnar og sölu eigna sem ekki féllu undir breytta fjárfestingarstefnu, og verður að telja líklegt að hann hefði á þeim tíma getað selt hlutabréfin á því gengi á markaði. Samkvæmt því telur dómurinn að tjón stefnanda af umræddri ráðstöfun, og um leið endurgreiðslukrafa hans á hendur stefnda, nemi 636.753.879 krónum (6,75 x 94.333.908).
Fram er komið að stefndi gerði nauðasamning við kröfuhafa sína og var hann staðfestur af Héraðsdómi Reykjavíkur 23. júní 2008. Í honum fólst að óveðtryggðum kröfum var breytt í hlutafé í félaginu. Yrði dómurinn við aðalkröfu stefnanda um greiðslu vaxta og dráttarvaxta af endurgreiðslufjárhæð er ljóst að stefnandi yrði þá að því leyti betur settur en aðrir lánardrottnar stefnda sem áttu samningskröfur á hendur honum sem féllu undir nauðasamninginn. Verður því hafnað kröfu hans um vexti og dráttarvexti af fjárhæð endurgreiðslukröfunnar. Með vísan til 2. mgr. 32. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. verður hins vegar fallist á að endurgreiðslukrafan teljist samningskrafa við nauðasamning stefnda og að við ákvörðun heildarfjárhæðar hennar skuli tekið tillit til 3. mgr. 30. gr. sömu laga. Samrýmist sú niðurstaða varakröfu stefnanda.
Samkvæmt öllu framanrituðu er fallist á kröfu stefnanda um að rifta beri víkjandi láni sem hann veitti stefnda 1. september 2008, að fjárhæð 656.564.000 krónur, samkvæmt samningi aðila 30. júlí sama ár. Jafnframt verður viðurkenndur réttur stefnanda til greiðslu úr hendi stefnda, að fjárhæð 636.753.879 krónur, til jafns við þá lánardrottna stefnda sem fóru með samningskröfur á hendur honum samkvæmt nauðasamningi sem staðfestur var með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júní 2009.
Eftir úrslitum málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð einkamála, verður stefndi dæmdur til greiðslu málskostnaðar. Hefur stefnandi lagt fram málskostnaðarreikning og nemur kostnaðurinn alls 5.631.624 krónum. Af þeirri fjárhæð er kostnaður vegna vinnu dómkvaddra matsmanna 1.908.855 krónur og virðisaukaskattur af málflutningsþóknun lögmannsins 756.419 krónur. Ekki verður þó annað séð en að stefndi stundi virðisaukaskattskylda starfsemi. Með hliðsjón af því, umfangi málsins og útlögðum kostnaði stefnanda verður málskostnaður ákveðinn 4.000.000 króna.
Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Rift er víkjandi láni sem stefnandi, Stoðir hf., veitti stefnda, Teymi hf., 1. september 2008, að fjárhæð 656.564.000 krónur, samkvæmt samningi aðila 30. júlí sama ár.
Viðurkenndur er réttur stefnanda til greiðslu úr hendi stefnda, að fjárhæð 636.753.879 krónur, til jafns við þá lánardrottna stefnda sem fóru með samningskröfur á hendur honum samkvæmt nauðasamningi sem staðfestur var með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júní 2009.
Stefndi greiði stefnanda 4.000.000 króna í málskostnað.