Hæstiréttur íslands
Mál nr. 183/1999
Lykilorð
- Börn
- Forsjá
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 4. nóvember 1999. |
|
Nr. 183/1999. |
K (Gísli M. Auðbergsson hdl.) gegn M (Bjarni G. Björgvinsson hdl.) |
Börn. Forsjá. Gjafsókn.
K og M deildu um forsjá dóttur sinnar B. Voru báðir foreldrarnir taldir hæfir til að fara með forsjána, en um aðstæður K skorti nokkuð upplýsingar. B hafði búið hjá föður sínum um nokkurt skeið og naut þar festu og öryggis og stuðnings í námi. Umgengni hennar við móður sína hafði verið óhindruð og samband mæðgnanna mikið. Það var talið best til þess fallið að tryggja velferð B, að M hefði forsjá hennar um leið og hún nyti rúmrar umgengni við K. Var héraðsdómur því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. apríl 1999. Hún krefst þess aðallega, að dómur héraðsdóms verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar. Til vara krefst hún þess, að sér verði falin forsjá dóttur sinnar og stefnda, B, sem fædd er [...] 1986. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en hún nýtur gjafsóknar á báðum dómstigum.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Nokkur ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt.
I.
Aðilar málsins gengu í hjónaband [...] desember 1986, en höfðu áður búið í óvígðri sambúð um nokkurt skeið og eignast dótturina B í september 1986. Bæði áttu börn frá fyrri samböndum og ólust fjögur börn áfrýjanda upp á heimili þeirra á E, hið yngsta fjórum árum eldra en B og hið elsta rúmlega ellefu árum eldra. Áfrýjandi og stefndi slitu samvistum vorið 1996 og flutti stefndi þá brott. Þau tóku aftur upp sambúð í nokkra mánuði veturinn 1996 til 1997, en sambúðinni lauk endanlega, þegar stefndi fór af heimilinu 1. maí 1997 og flutti til Reykjavíkur. Leyfi til lögskilnaðar fengu þau [...] nóvember 1998. Er aðstæðum þeirra á þessum tíma nánar lýst í héraðsdómi.
Eftir skilnað foreldra sinna dvaldist B á heimili áfrýjanda á E og stundaði nám við Grunnskóla E veturinn 1997 til 1998. Var áfrýjandi mikið fjarverandi frá heimili sínu um veturinn, þar sem hún þurfti oft að dvelja á sjúkrahúsum vegna veikinda, og var B þá aðallega hjá móðursystkinum sínum á E. Sumarið 1998 dvaldi hún hjá föðurforeldrum sínum í S, en fluttist um haustið, með samþykki móður sinnar, til stefnda, sem stofnað hafði heimili í K og hafið sambúð með P grunnskólakennara. Hefur B dvalið hjá þeim síðan og stundað nám við [...]skóla í K.
Áfrýjandi hóf sambúð með R sjómanni í desember 1998 og fluttist þá til Þ ásamt næstyngstu dóttur sinni. Engra gagna nýtur hins vegar í málinu um aðstæður hennar á Þ, en fyrir Hæstarétt hefur verið lögð umsögn fyrrum skólastjóra Grunnskólans á Þ um ágæt kynni hans af sambýlismanni áfrýjanda á árunum 1992 til 1998.
Við flutning málsins fyrir Hæstarétti kom fram, að eftir uppsögu héraðsdóms lauk B námi sínu í [...]skóla á liðnu vori með ágætum árangri og hafði þá tekið verulegum framförum í námi frá því á E. Í sumar dvaldi hún í fjórar vikur hjá föðurforeldrum sínum í S, í þrjár til fjórar vikur hjá móður sinni á Þ og í eina viku hjá móðurforeldrum sínum á E, en að öðru leyti hefur hún verið hjá föður sínum í K og stundar nú áframhaldandi nám í [...]skóla. Hún hefur að auki haft mikið samband við móður sína og hitt hana, er hún hefur verið syðra.
II.
Fyrir héraðsdómi var leitað umsagna barnaverndarnefnda þeirra sveitarfélaga, sem málsaðilar bjuggu í á þeim tíma, er málið var þar til meðferðar, sbr. 3. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 20/1992. Var niðurstaða í báðum tilvikum sú, að ekkert mælti gegn því, að viðkomandi foreldri hefði forsjá B með höndum.
Þá var Kristjáni Má Magnússyni sálfræðingi falið að gefa héraðsdómi skýrslu um viðhorf B til forsjár hennar við og eftir skilnað foreldra hennar, sbr. 4. mgr. 34. gr. barnalaga. Skýrsla hans frá 15. ágúst 1998 er rakin í héraðsdómi og kemur þar meðal annars fram, að B vilji eindregið búa hjá föður sínum, sem hún virði og hafi mætur á, og sé talsverður þungi að baki viljayfirlýsingu hennar. Telur sálfræðingurinn ákvörðun hennar um það meðal annars byggjast á óöryggi, sem hún hafi upplifað við tíða fjarveru móður frá heimili, og erfiðleikum tengdum skólagöngu á E. B líki ágætlega við sambýliskonu föður síns og með flutningi til hans eignist hún heimili, þar sem hún geti dvalist meginhluta ársins og setjist í nýjan skóla. Þá sé henni ljóst, að hún geti áfram verið í sambandi við móður sína og heimsótt hana, þótt hún búi hjá föður sínum. Kristján Már telur, að B hafi mótað með yfirvegun og rökum það viðhorf sitt að vilja búa hjá föður sínum.
Við aðalmeðferð málsins í héraði 8. janúar 1999 lagði lögmaður áfrýjanda fram skýrslu Einars Inga Magnússonar sálfræðings, sem undirrituð var sama dag, og eru niðurstöður hennar reifaðar í héraðsdómi. Skýrslan var unnin að beiðni áfrýjanda í þeim tilgangi að kanna viðhorf B til þess, hvar hún vildi eiga framtíðarheimili. Var þetta gert án vitundar stefnda. Við vinnslu skýrslunnar ræddi sálfræðingurinn einu sinni við B, og fór það viðtal fram daginn áður en skýrslan var lögð fram í héraðsdómi. Að öðru leyti kynnti sálfræðingurinn sér ekki sérstaklega aðstæður málsaðila. Í skýrslunni segir og, að vegna tímaskorts feli hún í sér mjög afmarkaða könnun. Þar kemur fram, að B sakni móður sinnar mjög og vilji búa hjá henni, þótt hún teldi ekki illa fara um sig á heimili föður. Búseta móður á E hafi verið helsta fyrirstaða þess, að hún hafi kosið að búa á heimili hennar.
III.
Áfrýjandi reisir ómerkingarkröfu sína á því, að leita hafi átt eftir afstöðu B sjálfrar, áður en héraðsdómur var kveðinn upp. Héraðsdómari hafi hafnað óskum hans um sérfræðiálit, beiðni um dómkvaðningu matsmanns og beiðni um skýrslutöku af B fyrir dómi. Þannig hafi héraðsdómari aftrað honum sönnunarfærslu og brotið gegn meginreglum einkamálaréttarfars um málsforræði aðila.
Eins og fram er komið fól héraðsdómari Kristjáni Má Magnússyni sálfræðingi að kanna viðhorf B til forsjár hennar og var það gert á grundvelli 4. mgr. 34. gr. barnalaga. Sálfræðingurinn skilaði skýrslu sinni 15. ágúst 1998. Verður ekki séð, að áfrýjandi hafi óskað eftir framhaldskönnun hans á síðari stigum. Héraðsdómur synjaði 2. desember 1998 kröfu áfrýjanda um dómkvaðningu matsmanns til að meta afstöðu B til þess hjá hvorum málsaðila hún vildi búa og hjá hvorum hagsmunum hennar væri best borgið. Sá úrskurður var ekki kærður til Hæstaréttar. Nokkru áður höfðu lögmenn málsaðila fallist á, að héraðsdómari ræddi sjálfur við barnið og kannaði frekar viðhorf þess, áður en dómur yrði lagður á málið. Ekki er annað fram komið en að dómari hafi gert það.
Með hliðsjón af framansögðu og því, sem fyrir liggur í málinu, eru ekki efni til að fallast á ómerkingarkröfu áfrýjanda.
IV.
Málsaðilar eru bæði hæf til að fara með forsjá dóttur sinnar, sem nú er 13 ára gömul. Aðstæður stefnda virðast að öllu leyti góðar, en um aðstæður áfrýjanda nú eru upplýsingar af skornum skammti. Í skýrslu Kristjáns Más Magnússonar sálfræðings kemur fram, að B vilji eindregið búa hjá föður sínum, þótt hún sé ekki með því að gera upp á milli foreldra sinna. Eins og sálfræðiskýrslu Einars Inga Magnússonar bar að verður hún ekki lögð til grundvallar dómi. Miklu skiptir, að umgengni B við móður sína hefur verið óhindruð og samband þeirra mæðgnanna mikið. Hún virðist njóta festu og öryggis á heimili föður síns og stuðnings í námi. Verður að telja, að það hafi minnsta röskun í för með sér fyrir B að dveljast þar áfram. Sú skipan ásamt rúmri umgengni við áfrýjanda sýnist því vera best til þess fallin að tryggja velferð hennar.
Að þessu athuguðu verður héraðsdómur staðfestur.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun talsmanns hennar fyrir Hæstarétti, 150.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Austurlands 1. febrúar 1999.
Mál þetta, sem þingfest var hinn 25. maí 1998 og dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi hinn 8. janúar 1999, er höfðað af K, kt. [...], þá til heimilis að [...] gegn M, kt. [...], þá til heimilis að [...].
Stefnanda var hinn 6. maí 1998 veitt gjafsókn í máli þessu.
Dómkröfur stefnanda eru, að henni verði dæmd forsjá sameiginlegs barns málsaðila, B, kt. [...]86-[...].
Þá krefst stefnandi úr hendi stefnda málskostnaðar að mati réttarins samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, ásamt virðisaukaskatti af málskostnaði. Málskostnaðar er krafist eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.
Af hálfu stefnda eru gerðar þær dómkröfur, að stefnda verði dæmd forsjá sameiginlegs barns málsaðila, B.
Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda og að virðisaukaskattur verði lagður á málskostnað.
Málavextir eru þeir, að aðilar málsins gengu í hjúskap þann [...] desember 1986. Á þeim tíma höfðu þau búið í óvígðri sambúð nokkur misseri og áttu saman dótturina B, en bæði áttu þau börn frá fyrri sambúð. Hjónin slitu samvistum vorið 1996 og var þá gerður með þeim skilnaðarsamningur. Forsjá með barni þeirra var einnig þá ágreiningsatriði, sem í samningnum var samþykkt af aðilum að skjóta til dómsmálaráðuneytisins. Af því málskoti varð þó ekki enda tóku aðilar upp sambúð að nýju veturinn 1996-1997, en henni lauk 1. maí 1997 og flutti stefndi þá til R. B bjó í fyrstu á heimili móður sinnar á E og hefur gengið í grunnskóla á E.
Sumarið 1998 dvaldist B hjá föðurforeldrum sínum að [...] í S, en fór að hausti með samþykki beggja aðila til dvalar hjá stefnda, sem nú er fluttur að [...], K. Jafnframt er B komin í skóla í K.
Í árslok 1998 tók stefnandi upp sambúð við R og flutti þá með fjölskyldu sína til Þ.
Málsástæður stefnanda:
Stefnandi byggir kröfur sína um forsjá á því að hagsmunum B sé best borgið með því að forsjá hennar sé í höndum stefnanda og að skaði barnsins vegna skilnaðar aðila verði þannig miklum mun minni en verði forsjá hennar fengin stefnda.
Stefnandi telur sig hæfari til að fara með forsjána en stefnda. Stefnandi er öryrki og hefur því verið heimavinnandi allan hjúskap aðila og mun verða það framvegis. Örorka hennar skerði þó ekkert getu hennar til að annast B. Þvert á móti muni sú staðreynd, að stefnandi hafi verið og muni verða til staðar inni á heimilinu, tryggja B góða umönnun og forsjá. Stefndi sé langferðabílstjóri sem m.a. sé fjarri heimili sínu dögum saman vegna ferðalaga um landið. Séu aðstæður hans því verulega lakari en stefnanda til að veita B daglega umönnun.
Af þessu leiði einnig, að tengsl B séu meiri og nánari við stefnanda en stefnda.
Á heimili stefnanda séu, auk B, tvö eldri hálfsystkini hennar, börn stefnanda, og jafnframt eitt barnabarn stefnanda. Tengsl B við þessa fjölskyldumeðlimi séu henni mikilvæg og mundu rofna ef forsjáin yrði fengin stefnda.
Í máli þessu sé deilt um forsjá unglingsstúlku á 13. ári. Að öðru jöfnu sé forsjá stúlkna á því reki betur komin hjá móður en föður, þær hafi meiri þörf fyrir tengsl við móður.
Kröfu sína um forsjá styður stefnandi við barnalög nr. 20/1992, einkum 2. mgr. 34. gr.
Málsástæður stefnda.
Stefndi byggir kröfur sínar um forsjá á því, að hagsmunum B sé best borgið með því að forsjá hennar sé í höndum stefnda og skaði hennar vegna skilnaðarins verði þannig minni en verði forsjá hennar fengin stefnanda í hendur.
Stefndi telur sig betur fallinn en stefnanda til þess að hafa með höndum forsjá B. Stefndi búi nú í K í góðu leiguhúsnæði og hafi stöðuga vinnu og hafi tekið upp samband við konu, er starfi sem grunnskólakennari. Grunn- og framhaldsskólar séu í næsta nágrenni við heimili stefnda og aðstaða þar öll hin besta.
Stefndi vinni sem bílstjóri hjá [...] og þurfi þar af leiðandi að vera fjarri heimili sínu yfir blásumarið á meðan hann aki ferðamönnum um landið. Á öðrum tíma ársins vinni hann verkstæðisvinnu hjá fyrirtækinu og sé því síst meira fjarri heimili en t.d. stefnandi.
Stefndi bendir á, að stefnandi sé öryrki og hafi verið óvinnufær af þeim sökum um langt skeið og líkur séu á, að að svo muni verða áfram. Stefnandi hafi ekki stundað atvinnu árum saman og byggist tekjur hennar á tryggingabótum. Stefnandi hafi þurft að dvelja langdvölum á sjúkrahúsum vegna örorku sinnar. Meðan á slíkri sjúkrahúsvist hafi staðið, hafi B orðið að dveljast eftir hentugleikum annarra en hennar sjálfrar, hjá hálfsystkinum sínum og öðrum skyldmennum. Slíkt óöryggi er ekki æskilegt neinu barni, auk þess sem örorka stefnanda valdi því að stefnandi eigi erfitt með að sinna heimilisstörfum og annarri umönnun með B.
Forsendur
Samkvæmt tilmælum stefnda og í samræmi við ákvæði 4. mgr. 34. gr. laga nr. 20/1992, var hinn 30. júní 1998 leitað umsagna barnaverndarnefnda á E og í K um aðstöðu foreldra, hvors um sig, til að hafa með höndum forsjá B.
Jafnframt var samkvæmt ákvæðum 4. mgr. 34. gr. laga 20/1992, ákveðið að fela Kristjáni Má Kristjánssyni, sálfræðingi, að kynna sér viðhorf B, til forsjár hennar við og eftir skilnað foreldra hennar og gefa skýrslu um það til dómsins.
Í umsögn barnaverndarnefndar sameinaðs sveitarfélags E, [...]segir m.a.:
„Eftir að hafa skoðað vandlega aðstæður B er niðurstaða nefndarinnar sú, að ekkert mæli gegn því að K hafi með höndum forsjá yfir dóttur sinni.”
Í umsögn Félagsmálaráðs K segir, að ráðið telji, „að í framlagðri greinargerð starfsmanns (ráðsins) komi ekkert það fram er mæli gegn því að faðir, M, sé hæfur til að fara með forsjá telpunnar B.”
Í skýrslu Kristjáns Más Kristjánssonar, sálfræðings, segir:
„....
4. Samantekt og álit um viðhorf barnsins
Viðhorf B til forsjár hennar við og eftir skilnað foreldra hennar er einhlítt: Hún vill vera hjá föður sínum. Hún virðist taka þessa afstöðu að yfirveguðu máli og talsverður þungi er að baki þessari viljayfirlýsingu hennar. Hún veit að hún kemur til með að sakna mömmu sinnar, en það gerir hún hvort sem er þann fjórðung ársins sem mamma hennar er að heiman til lækninga. Síðan veit hún að hún getur verið í sambandi við mömmu og heimsótt hana í fríum. Þó miklu virðist skipta fyrir hana að hún tengir ekki góðar upplifanir við skólagöngu á E, sýna bæði viðtöl og tengslapróf að það óöryggi sem hún býr við hjá móður sinni skiptir hana miklu máli. Dvölin hjá afa og ömmu á [...] er greinilega jákvæð í hennar huga og telpan sér þau bæði í mjög jákvæðu ljósi. Öðru máli gegnir um dvalir hennar hjá móðursystkinunum á E, sem hún talar um sem „að vera á flækingi”.
Það er ekki hlutverk undirritaðs að meta heimilisaðstæður eða aðbúnað telpunnar hjá foreldrunum. En rétt er þó að nefna að vísbendingar í tengslaprófinu benda til að B upplifi sig að einhverju leyti utanveltu í fjölskyldunni á E. Þarna virðist margt hjálpast að; fjarverutímabil móður vekja óöryggi, þar sem B getur ekki verið heima vegna þess að hún er ekki sátt við eldri systkini sín og finnur ekki til verndar þeirra, heldur verður að fara á „flæking”. Þrátt fyrir jákvæðar tilfinningar í garð móður sinar virðist B samt ekki fá vernd og stuðning frá móður sinni sem hún þarf á að halda. Hjá henni virðist hún tiltölulega ein að basla með áhyggjur sínar af skilnaðinum og skólaerfiðleikana. Í þessari stöðu óskar B að fara til föður síns, sem hún virðir og hefur mætur á. Hann getur boðið upp á annan skóla. Hann býr með P sem B þekkir og líst ágætlega á og hann býður upp á heimili, þar sem hægt er að dvelja alla daga ársins nema etv. á sumrin, þegar hún vill hvort eð er fara til afa og ömmu á [...] og síðan til mömmu á E.
5. Lokaorð
B verður 12 ára í september. Hún er með meðalgreind og ágæta rökhyggju en hefur ekki nýst skólaganga í grunnskóla nægilega vel - a.m.k. gengur henni ekki vel í stærðfræði og henni hefur á tímabilum liðið illa í skóla. Hún hefur reynslu af því að búa hjá mömmu sinni - og þeim kostum og göllum sem það hefur í för með sér. Hún hefur ekki búið í lengri tíma hjá föður sínum eftir að hann fór frá E og getur því bara ímyndað sér kosti og galla við það af þeirri reynslu sem hún hefur af styttri heimsóknum til hans. Það er mitt álit að hún hafi mótað þetta álit sitt að vilja búa hjá pabba sínum með yfirvegun og rökum. Tengslaprófið staðfestir þá skoðun sem hún gefur til kynna í viðtölum og það gefur bakgrunn sem nota má til að skilja betur viðhorf hennar til hvort foreldra hennar eigi að hafa forsjána með höndum.”
Í þinghaldi hinn 2. desember s.l. lagði lögmaður stefnanda fram matsbeiðni, þar sem óskað var eftir því, að dómkvaddur yrði matsmaður til að meta:
1. Hjá hvorum málsaðila er hagsmunum B best borgið að forsjáin verði.
2. Hver er nú afstaða B til þess hjá hvorum málsaðila forsjáin verði.
Með úrskurði í því þinghaldi var synjað um dómkvaðningu matsmanns í þessu skyni.
Í upphafi aðalmeðferðar hinn 8. janúar s.l. lagði lögmaður stefnanda fram skýrslu Einars Inga Magnússonar, sálfræðings, dagsetta sama dag.
Í skýrslunni er tilurð hennar lýst á þennan veg: „Að beiðni K, móður stúlkunnar B, ræddi undirritaður við þá síðarnefndu þann 7. janúar 1999. K óskaði eftir því að undirritaður kannaði viðhorf B annars vegar til þess að eiga framtíðarheimili hjá sér og hins vegar að eiga framtíðarheimili hjá föður sínum. Fram kom í máli móður að B hefði verið í viðtölum hjá sálfræðingi (síðsumars 1998) og var hans niðurstaða að stúlkan kysi að vera hjá föður sínum. Hún hefur dvalið á heimili föðurs frá því í haust, en var í sveit sl. sumar hjá foreldrum föður í S. K taldi að B hefði breytt afstöðu sinni og vildi nú gjarnan búa hjá sér, því hún væri nú flutt frá E, en dóttir sín hefði átt erfitt uppdráttar í skólanum þar, sem hefði átt drjúgan þátt í að hún fór á heimili föður.
Einnig kom fram í máli K að þeir foreldrarnir deila um forsjá stúlkunnar B og er málið rekið fyrir Héraðsdómi Austurlands.
Beiðni K til undirritaðs um viðtal við B barst með afar skömmum fyrirvara og gat því aðeins orðið um mjög afmarkaða könnun að ræða. Könnunin afmarkast því formlega af einu viðtali og efnislega af því að kannað var hvort stúlkan hafi breytt fyrra viðhorfi sínu um framtíðarheimili.”
Niðurstaða:
Samkvæmt umsögnum barnaverndaryfirvalda á E og í K er ekkert í fari málsaðila eða aðstöðu þeirra, sem mælir gegn því, að foreldrarnir, hvor um sig, fari með forsjá B og fellst dómurinn á það álit.
Samkvæmt 2. mgr. 34. gr. barnalaga, skal úrlausn þess, hjá hvoru foreldri forsjá barns verði, ráðast af því hvað er barni fyrir bestu. Jafnframt er ákveðið, að eigi verði mælt fyrir um sameiginlega forsjá, nema foreldrar séu sammála um þá skipan.
Þegar viðhorf B var kannað, kom fram, að hugur hennar virtist hneigjast til þess, að fylgja frekar föður sínum en móður.
Þau atriði, sem Kristjáni Má Kristjánssyni, sálfræðingi virtust vega þyngst í þessu efni voru:
„a) Í fyrsta lagi segist hún ekki vilja vera hjá mömmu sinni vegna þess að hún sé svo oft í burtu vegna veikinda. Á þeim tíma sé hún sjálf „á flækingi” og geti ekki búið heima. Þegar nánar er að spurt um hvar hún sé þegar hún er á flækingi, kemur í ljós, að hún hefur búið hjá móðursystkinum til skiptis.”
Að sögn móður, hefur hún síðan þetta varð gengið undir læknisaðgerð, sem verður til þess, að hún muni ekki þurfa að vera að heiman vegna veikinda í fyrirsjáanlegri framtíð.
„b) Í öðru lagi segir hún að henni komi ekki vel saman við systkini sín, sem búa heima. S sé ágæt, en T vilji láta hana passa og það treysti hún sér ekki til nema stundum. U sé oft reiður við hana eða að stríða henni og V og henni hafi ekki komið vel saman lengi.”
Á heimili stefnanda hafa búið þrjú eldri börn hennar auk B, U, rúmlega tvítugur, T, rúmlega tvítug ásamt dóttur sinni S, tveggja ára, þegar athugun var gerð, og V 16 ára. V er ekki samfeðra þeim eldri, fremur en B. Hún er í athuguninni sögð hafa búið síðast liðið sumar hjá stefnanda, en hafa verið hjá föður sínum sl. vetur.
Ekki verður séð, að neitt mæli á móti því, að skilja B frá þessum systkinum, enda eru þau mjög misaldra.
„c) Í þriðja lagi langi hana að fara í annan skóla, því henni hafi ekki liðið vel í skólanum á E.”
Síðast liðið haust flutti B í K til stefnda og hefur búið þar í vetur. Hún hefur verið í skóla í K í vetur.
Þá segir í skýrslu sálfræðingsins:
„B virðist hafa velt málinu talsvert fyrir sér. Hún segir meðal annars að hún eigi samt eftir að sakna mömmu sinnar ef hún verði hjá pabba, en hún geti þá bara farið að heimsækja hana um helgar og næsta sumar.”
Í skýrslu Einars Inga Magnússonar, sálfræðings segir svo um viðtal hans við B: „Í upphafi virtist hún nokkuð vör um sig varðandi þau atriði, er henni þótti á einhvern hátt geta leitt til samanburðar á persónulegum kostum foreldra sinna. Hún varð mun opnari þegar undirritaður hafði rætt við hana og bent henni á að þótt tekið yrði tillit til óska hennar um frambúðarheimili, þá bæri hún ekki ábyrgð á þeirri ákvörðun sem tekin yrði í forsjármálinu. Og óskir hennar um að búa hjá öðru foreldrinu myndu ekki verða skoðaðar sem höfnun hennar á hinu foreldrinu.
IV. Niðurstöður viðtals.
Af efnislegri niðurstöðu viðtalsins má ráða að viðhorf B til síns framtíðarheimilis hefur verið í mótun um einhverra mánaða skeið eða frá því um mitt sl. haust. Hún kveðst ekki hafa hugsað svo mjög um heimili móður sinnar á E sl. sumar, þegar hún var í sveitinni hjá sínu föðurfólki og svo framan af á heimili föður síns. Hins vegar hafi söknuðurinn eftir móður sinni farið vaxandi og hann hafi síst minnkað nú. Aðspurð um hvernig færi um hana á heimili föður og sambýliskonu hans, svaraði hún því til að sér liði þar ágætlega og þau væru góð við hana en hún vildi samt vera hjá móður sinni, ...því „mömmurnar [væru] bestar”.”
Báðir málsaðilar hafa lýst því, að verði forsjáin hjá þeim, hvoru um sig, muni ekki verða nein fyrirstaða á umgengni B við hitt foreldrið.
Ekki kemur fram í barnalögum, að ákvörðun um forsjá skuli ákveðin í samræmi við viðhorf barns, enda þótt það sé kannað, samkvæmt 4. mgr. 34. gr. laganna. Ekki verður þó hjá því komist, að hafa af því nokkra hliðsjón við ákvörðun um það, hvar forsjá skuli vera.
Þegar litið er til þess, að B hefur nú dvalið með samþykki beggja foreldra hjá stefnda undanfarna sex mánuði og er komin í skóla í K, þykir varhugavert, að taka hana þaðan og flytja hana í ókunnugt umhverfi og skóla á Þ, þar sem stefnandi hefur nú sest að.
Verður því að telja B fyrir bestu, að forsjá hennar verði hjá stefnda frá uppkvaðningu dóms þessa.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarlaun talsmanns stefnanda, Gísla M. Auðbergssonar, hdl., 225.000 krónur, þ.m.t virðisaukaskattur, greiðast úr ríkissjóði.
Kostnaður vegna öflunar greinargerðar Kristjáns Más Magnússonar, sálfræðings 73.480 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Logi Guðbrandsson, dómstjóri, kvað upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefndi, M, skal fara með forsjá dóttur málsaðila, B.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarlaun talsmanns stefnanda, 225.000 krónur, þ.m.t virðisaukaskattur, greiðast úr ríkissjóði
Kostnaður vegna öflunar greinargerðar Kristjáns Más Magnússonar, sálfræðings 73.480 krónur, greiðist úr ríkissjóði.