Hæstiréttur íslands
Mál nr. 585/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Barnavernd
- Börn
- Vistun barns
|
|
Föstudaginn 11. nóvember 2011. |
|
Nr. 585/2011.
|
A (Leifur Runólfsson hdl.) gegn Barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar (Haukur Örn Birgisson hrl.) |
Kærumál. Barnavernd. Börn. Vistun barns.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem barnaverndarnefnd var heimilað að vista B, dóttur A, utan heimilis hennar í 12 mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. október 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. október 2011, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að dóttir sóknaraðila, B, verði vistuð utan heimilis sóknaraðila í 12 mánuði frá 28. júní 2011. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og „að henni verði fengin forsjá barnsins að nýju.“ Til vara krefst hún þess að vistun stúlkunnar utan heimilis verði markaður skemmri tími. Í báðum tilvikum er krafist kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Fallist er á með héraðsdómi að brýnir hagsmunir B, dóttur sóknaraðila, leiði til þess að nauðsynlegt sé að vista hana utan heimilis þann tíma, sem í hinum kærða úrskurði greinir. Vegna aldurs hennar breyta viðhorf hennar sjálfrar ekki þessari niðurstöðu, sbr. 2. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður dæmist ekki.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. október 2011
Sóknaraðili er Barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar, en varnaraðili er A, kt. [...], [...], [...].
Sóknaraðili krefst þess að stúlkan B, kt. [...], sem lýtur forsjá varnaraðila, verði vistuð utan heimilis varnaraðila í tólf mánuði frá 28. júní 2011 að telja, samkvæmt 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Ekki er krafist málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að stúlkan verði þegar afhent varnaraðila. Til vara er þess krafist að vistun stúlkunnar utan heimilis verði markaður skemmri tími en tólf mánuðir. Þá gerir varnaraðili kröfu um að sóknaraðili greiði honum málskostnað, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, auk virðisaukaskatts.
Málsatvik og aðdragandi máls.
Samkvæmt sóknaraðila kom mál B fyrst inn á borð sóknaraðila í september 2006 þegar tilkynning barst frá lækni vegna vanrækslu varnaraðila á umsjón og eftirliti með dóttur sinni. Varnaraðili hafði þá reynt að fá verkjalyf leyst út úr apóteki með því að láta dóttur sína skrökva til um eftirnafn.
Á árinu 2007 hafi sóknaraðila borist þrjár tilkynningar vegna B. Sú fyrsta frá leikskólanum [...] þar sem fram kom að varnaraðili hafi verið undir áhrifum lyfja þegar hún sótti B á leikskólann. Einnig lýsti starfsfólk leikskólans áhyggjum sínum af því að B hafi ekki verið böðuð né henni greitt í heila viku. Í viðtali þann 3. apríl 2007 greindi varnaraðili frá því að hún stundaði AA-fundi og væri í hópmeðferð hjá SÁÁ í [...]. Í meðferðaráætlun sem gerð hafi verið í sama mánuði samþykkti varnaraðili að stunda áfram AA-fundi og hópmeðferð auk þess að vera í reglulegu sambandi við geðlækni. Síðar sama ár hafi borist önnur tilkynning frá [...] af sama tilefni og sú fyrsta og í framhaldi af henni hafi starfsfólk sóknaraðila farið í vitjun til varnaraðila. Hún virtist þá ekki vera undir áhrifum lyfja en hafi verið bólgin í kringum augun og hafi varnaraðili sagt það skýrast af því að hún væri með ofnæmi. Þriðja tilkynningin þetta árið hafi borist frá ónafngreindum aðila þar sem kom fram að varnaraðili væri að svíkja út lyf á margar kennitölur og hafi þar verið lýst verulegum áhyggjum af B vegna lyfjaneyslu varnaraðila. Varnaraðili hafi þvertekið fyrir það að vera í neyslu og sagst ekki svíkja út lyf og undir það hafi móðir varnaraðila tekið.
Þann 22. janúar 2008 hafi verið gerð áætlun um meðferð máls þar sem varnaraðili samþykkti að stunda AA-fundi og vera í reglulegu sambandi við geðlækni. Þann 27. maí 2008 barst sóknaraðila tilkynning frá Læknavakt [...] þar sem lýst var áhyggjum af lyfjanotkun varnaraðila sem þá var með B hjá sér. Þá hafi komið í ljós að varnaraðili var að taka inn 100 mg af Nobligan fimm sinnum á dag og taldi læknir að varnaraðili gæti ekki verið með ráði og rænu ef hún tæki svo stóra skammta af því lyfi. Varnaraðili hafði tjáð lækni að hún ætlaði í meðferð á næstu 2-3 vikum. Í þessari tilkynningu kom einnig fram að varnaraðili hafi verið kærð fyrir að leysa út lyfseðil sem ekki var á hennar nafni. Í viðtali við félagsráðgjafa í byrjun júlí s.á. hafi komið fram að B gengi vel í leikskólanum og að þær mæðgur byggju nú hjá móður varnaraðila. Varnaraðili sagðist hafa áhuga á því að flytja út frá móður sinni og fá sér eigin íbúð. Hún hafði einnig áhuga á að tengjast [...], sem sé geðræktarmiðstöð [...]. Ákveðið hafi verið að félagsráðgjafi myndi aðstoða varnaraðila við það og einnig sagðist hún ætla að stunda AA-fundi reglulega og vera í sambandi við geðlækni.
Um miðjan apríl 2009 hafi sóknaraðila borist tilkynning þar sem lýst var áhyggjum af því að varnaraðili væri flutt með B út frá móður sinni og sæi því alfarið um uppeldi dóttur sinnar. Tilkynnandi taldi þörf á eftirliti með uppeldi B og lýsti áhyggjum af því að varnaraðili væri að falsa lyfseðla og að stela. Einnig sagðist tilkynnandi vita til þess að varnaraðili hefði kennt dóttur sinni að stela. Í framhaldi af tilkynningunni fór varnaraðili í viðtal hjá félagsráðgjafa þar sem samþykkt var áætlun um könnun máls.
Í upplýsingum frá leikskóla B í júlí s.á. kom fram að umhirðu B hefði hrakað nýliðið vor eftir að þær mægður hefðu flutt í eigin húsnæði, sbr. fskj. nr. 6. Einnig kom þar fram að B kæmi oft illa til fara, óhrein og ógreidd auk þess sem hún væri farin að mæta seinna í leikskólann og oft ekki búin að borða. B hafi sagst koma of seint þar sem hún kæmi móður sinni ekki á fætur því hún svæfi svo fast. Starfsfólk leikskólans hafi þótt B vera vör um sig þegar heimilisaðstæður hennar voru ræddar og hafi B viljað sem minnst tala um aðstæðurnar heima fyrir. Starfsfólk leikskólans hafi talið mikilvægt að fylgst yrði með högum þeirra mæðgna. Í viðtali við varnaraðila á þessum tíma hafi varnaraðili sagst sækja AA-fundi til að halda sér edrú. Varnaraðili hafi einnig sagst gera sér grein fyrir því hvaða áhrif stelsýki hennar hefði á B og sagst vilja takast á við hana. Í lok ágúst hafi könnun máls lokið og hafi niðurstaðan verið sú að varnaraðili hugsaði að mörgu leyti vel um B en þyrfti samt sem áður á stuðningi að halda í uppeldishlutverki sínu og til að halda sér frá neyslu.
Í áætlun um meðferð máls, sem gerð hafi verið í byrjun september 2009, hafi varnaraðili samþykkt að fara í sálfræðiviðtöl, vera í sambandi við geðlækni eftir þörfum og sækja AA-fundi, sbr. fskj. nr. 7. Áður en varnaraðili komst til að skrifa undir áætlunina hafi borist tilkynning frá lækni á slysa- og bráðadeild Landspítala þangað sem varnaraðili hafði verið flutt vegna gruns um misnotkun lyfja, sbr. fskj. nr. 8. B hafi komið að henni og látið ömmu sína vita. Í viðtali við félagsráðgjafa hafi varnaraðili upplýst að hún hefði búið sér til smjörsýru eftir upplýsingum úr Morgunblaðinu í þeim tilgangi að komast í vímu. Einnig hafi varnaraðili greint frá því að hún hefði verið að misnota lyfin Tafil og Tramol sem séu sterk verkja- og róandi lyf. Varnaraðili hafi sagst finna til sektarkenndar, sýnt eftirsjá og viðurkennt að hún hefði sýnt algjört dómgreindarleysi. Varnaraðili hafi ekki viljað fara í inniliggjandi meðferð og sagst vera að fara til læknis á [...] ásamt móður sinni og ætla að hefja niðurtröppunarferli. Hún hafi sagst vilja hætta að taka öll lyf að Serol undanskildu en það lyf taki hún við geðhvarfasýki. Varnaraðili sagði að móðir hennar yrði með lyfin í sinni umsjá auk þess sem hún ætlaði að sækja AA-fundi, sem hún hafði ekki verið að gera, og fá sér trúnaðarmann. Varnaraðili hafi einnig samþykkt að fá tilsjónarmann inn á heimilið til að styðja og styrkja hana sem einstakling og móður.
Þann 26. september 2009 hafi borist tilkynning í gegnum bakvakt barnaverndarnefndar frá hjúkrunarfræðingi á slysa- og bráðadeild Landspítala. Varnaraðili hafi komið á slysadeild vegna meðvitundarskerðingar. Þar komi fram að varnaraðili hafði ítrekað komið inn á slysadeild vegna lyfjainntöku og meðvitundarleysis. Þetta væri í þriðja skipti sem B komi að móður sinni meðvitundarlausri og í annað sinn á tveimur vikum. Í kjölfarið hafi B farið til móðurfjölskyldu sinnar. Varnaraðili kvað ástæðu tilkynningarinnar vera þá að hún hafi fengið flog vegna fráhvarfsmeðferðarinnar sem hún væri í. Einnig sagðist varnaraðili hafa gert öryggisáætlun fyrir B ef hún fengi flog aftur og gæti hún leitað til nágranna síns sem væri sjúkraliði auk þess sem móðuramma hennar fylgdist með heimilinu og kæmi til þeirra þrisvar á dag. Haft var samband við yfirlækni á slysa- og bráðadeild Landspítala sem hafi greint frá því að varnaraðili hafi komið inn nokkrum dögum áður vegna ofskömmtunar lyfja. Þá þætti sýnt að ekki væri hægt að tryggja öryggi B í umsjá varnaraðila þar sem hún væri að misnota lyf og hún hafi í tvígang síðust tvær vikur fengið krampa og misst meðvitund vegna þess. Þá hafi það einnig verið mat félagsráðgjafa að sex ára gömul stúlka ætti ekki að þurfa að bera slíka ábyrgð á móður sinni líkt og B gerði. Auk framangreinds hafi lyfjafræðingur haft samband við lækni á [...] þar sem hann taldi að átt hefði verið við lyfseðil sem varnaraðili var að reyna að leysa út, með því að eyða út dagamerkingum og fjölda úttekta til þess að fá stærri skammt. Varnaraðili hafi neitað þessu og sagt lyfseðilinn hafa blotnað. Þegar rætt hafi verið einslega við varnaraðila hafi hún játað að hafa farið til læknis þann 25. september 2009 til að fá frekari lyf.
Í lok september 2009 hafi einnig borist þrjú læknabréf frá Landspítala þar sem kom fram að varnaraðili hefði fengið krampaköst, væri að taka inn töluvert magn af Tramadol og Tafil auk þess sem hún hafði reynt að komast í vímu af smjörsýru.
Á þessum tímapunkti hafi varnaraðili verið afar ósátt við vinnslu málsins og sagst vera búin að ráða sér lögmann. Varnaraðili hafi neitað að skrifa undir yfirlýsingu skv. 25. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 um samþykki til vistunar B utan heimilis. Hún hafi ekki heldur samþykkt vistun fram að meðferð en hafi þó fallist á að B yrði hjá C, systur sinni, og D, eiginmanni hennar, á meðan hún færi í meðferð. Í ljósi þess að ekki náðist samkomulag við varnaraðila var B neyðarvistuð á grundvelli 31. gr. laga nr. 80/2002 hjá móðursystur sinni og eiginmanni hennar.
Í byrjun október 2009 hafi aftur borist bréf frá lækni hjá [...]. Þar komi fram að varnaraðili væri hætt í niðurtröppun lyfja og hefði aftur hafið neyslu á Tramol og Tafil. Einnig komi þar fram að hún hefði myndað mikið þol og vaxandi fíkn í umrædd lyf og tæki of stóra skammta af þeim. Enn fremur komi fram að hún hafi reynt að breyta útgefnum lyfseðlum. Læknir mælti með langtímameðferð sem allra fyrst og lýsti áhyggjum sínum af uppeldisaðstæðum dóttur hennar.
Mál B hafi verið lagt fyrir fund sóknaraðila þann 12. október 2009 og í greinargerð félagsráðgjafa hafi verið lagt til að B yrði vistuð hjá móðursystur sinni meðan varnaraðili væri í meðferð. Þegar hún færi svo í dagdeildarmeðferð á [...] var lagt til að B færi aftur heim en eftirlit yrði með heimilinu. Varnaraðili samþykkti þær tillögur og auk þess fól nefndin félagsráðgjafa að ræða við varnaraðila um að B færi til stuðningsfjölskyldu tvisvar í mánuði. Einnig var gerð meðferðaráætlun þann 14. október s.á. þar sem varnaraðili hefði samþykkt tilsjón inn á heimilið einu sinni á dag, fimm daga vikunnar og skoðað yrði hvort B færi til stuðningsfjölskyldu tvisvar í mánuði. Þá hafi varnaraðili samþykkt að hætta misnotkun allra lyfja og stunda AA-fundi að minnsta kosti tvisvar í viku. Meðferðaráætlunin hafi verið endurnýjuð þann 3. mars 2010 og markmiðið hafi verið að halda áfram stuðningi við varnaraðila.
Þann 15. mars sama ár hafi borist tilkynning frá skóla B þar sem áhyggjum var lýst yfir því hve döpur hún væri. Í framhaldinu hafi félagsráðgjafi haft samband við tilsjónaraðila til að kanna með stöðuna á varnaraðila og hvort vísbendingar væru um að hún væri fallin. Tilsjónaraðili hafi greint frá því að B hefði sagst hafa farið í tvígang með móður sinni í apótek og þá í sitt hvort apótekið. Einnig hafi tilsjónaraðili komið í mars á heimili móður og hún verið titrandi og sagst vera veik. B hafi sagst hafa farið í tvígang í apótek með móður sinni og þá í sitt hvort apótekið. Hún hafi einnig sagt frá því að þegar hún kom heim til sín í byrjun mars hafi móðir hennar verið titrandi og sagðist vera veik. Í framhaldi af þessu hafi tilsjónin með heimili varnaraðila gengið vel en þegar tilsjónaraðili hafi farið í sumarfrí óskaði varnaraðili ekki eftir því að fá annan í hans stað.
Í viðtali við varnaraðila þann 6. október 2010 hafi hún greint frá því að hún hefði fallið um vorið. Hún hafi náð að vinna sig út úr því en fallið aftur í ágúst 2010. Hún hafi ekki getað hætt sjálf og því óskað eftir því að leggjast inn á deild [...] á Landspítalanum og færi þangað á næstu dögum. Varnaraðili sagðist vera orðin þreytt á neyslunni og þeirri vanlíðan sem henni fylgdi og vildi fá aðstoð við að hætta. Hún sagðist einnig hafa náð framförum varðandi stelsýkina en væri ekki alveg laus við hana. Gerð var áætlun um meðferð máls þennan dag þar sem fram kom að varnaraðili ætlaði í meðferð á deild [...] og í framhaldi af því í átta vikna eftirmeðferð á dagdeild [...]. Hún hafi farið í meðferðina þann 12. október. Í samtali við félagsráðgjafa í nóvember 2010 hafi varnaraðili sagst hafa lokið meðferð þann 22. október 2010 og væri að fara tvisvar sinnum í viku á undirbúnings- og hópfundi á [...]. Hún kvaðst vera edrú og líða ágætlega og hafi verið ákveðið að tilsjón myndi hefjast fljótlega. Í nóvember 2010 hafi ítrekað verið reynt að ná sambandi við varnaraðila en án árangurs.
Í janúarbyrjun 2011 hafi sóknaraðila borist tvær tilkynningar vegna B frá systur varnaraðila. Í fyrri tilkynningunni hafi komið fram að varnaraðili hafi tekið eitthvað inn og væri á sjúkrahúsi en B hjá ömmu sinni. Í þeirri síðari hafi komið fram að varnaraðili væri nú í daglegri neyslu og að skömmu áður hefði B ekki getað vakið móður sína sökum þess að hún hefði tekið inn smjörsýru. Í það skipti hafi B farið til nágranna sinna og fengið aðstoð og hafi varnaraðili verið flutt á sjúkrahús í kjölfarið og B til móðursystur sinnar. Einnig kom fram í tilkynningunni að varnaraðili væri á leið í [...] að sækja hund og að B væri með henni. Systir varnaraðila taldi hana vera akandi undir áhrifum lyfja og sagði hana oft hafa ekið á. Einnig sagði hún að B væri nýfarin að stela með móður sinni.
Hjúkrunarfræðingur hafi staðfest símleiðis að varnaraðili hafi tekið inn smjörsýru umræddan dag og upplýsingar bárust í byrjun febrúar frá Landspítala þess efnis að varnaraðili hafi verið lögð inn þann 1. janúar vegna vímuefnaneyslu. Hún hafi þá leyst upp strimla af naglalakksleysi í vatni og drukkið. Þar komi fram að B hafi komið að móður sinni meðvitundarlausri í sófanum. Um svipað leyti hafi borist upplýsingar frá félagsráðgjafa á geðdeild Landspítala þar sem fram komi að varnaraðili hafi verið í stuðningshópi á göngudeild [...] en lítið mætt. Síðast hafi hún mætt 12.-15. október 2010 og þá greint frá mikilli neyslu verkja- og róandi lyfja. Félagsráðgjafi sagði að það gæti ekki verið rétt að varnaraðili hefði verið að bíða frá því í október 2010 eftir því að komast í meðferð líkt og hún hefði haldið fram. Þann 15. janúar 2011 hafi varnaraðili innritað sig aftur í dagmeðferð á [...] þar sem hún mætti tvisvar sinnum í viku. Um miðjan janúarmánuð hafi varnaraðila verið greint frá mati félagsráðgjafa á því að hún þyrfti að fara í langtímameðferð og að á meðan þyrfti B að vera vistuð hjá móðursystur sinni til 1. júní 2011. Ef varnaraðili héldi sér edrú á tímabilinu fengi hún umgengni við dóttur sína. Á þessum tímapunkti hafi systir varnaraðila lýst miklum áhyggjum af B, hún væri taugatrekktari en áður og sýndi mikið óöryggi. Í kjölfarið hafi varnaraðili lagst inn á geðdeild að eigin ósk og B farið til móðursystur sinnar. Á meðan varnaraðili hafi verið inni á geðdeild hafi hún dregið samþykki sitt um vistun B til 1. júní til baka og hafi henni af því tilefni verið kynnt að hún yrði boðuð á fund hjá sóknaraðila þar sem mál hennar yrðu kynnt og gögn lögð fram.
Þann 3. febrúar 2011 hafi varnaraðili skrifað undir samþykki þess efnis að B yrði vistuð hjá móðursystur sinni. Einnig hafi hún undirritaði áætlun um meðferð máls þar sem ráðgert hafi verið að hún undirgengist foreldrahæfnismat og að B gengist undir sálfræðimat. Hafi tilkynning um ráðstöfun B til bráðabirgða í samræmi við ákvæði 44. gr. reglugerðar nr. 652/2004 um úrræði á ábyrgð sveitarfélaga verið send Barnaverndarstofu í byrjun febrúar 2011. Auk þess hafi verið send umsókn til sama embættis um að systir varnaraðila og maðurinn hennar fengju leyfi til reksturs annarra úrræða í samræmi við 84. gr. laga nr. 80/2002 og 2. mgr. 36. gr. reglugerðar nr. 652/2004. nr. 21. Barnaverndarstofa hafi veitt umrætt leyfi og gildi það frá 3. febrúar 2011 til 3. júní 2011.
Frá því að varnaraðili hafi lokið meðferð í janúar 2011 hafi markmið meðferðaráætlunar frá því í byrjun febrúar ekki staðist að neinu leyti. Erfitt hafi reynst að ná í varnaraðila og fá hana í viðtal og hún hafi ekki staðið við edrúmennsku sína frá því að B var vistuð utan heimilis. Í símtali við félagsráðgjafa á [...] þann 31. mars sl. hafi komið fram að móðir hefði ekki mætt í meðferðina á [...]. Varnaraðili hafi aftur farið í meðferð í byrjun maí 2011 og útskrifast þann 18. sama mánaðar. Þann 1. júní 2011 hafi varnaraðili hitt starfsmenn sóknaraðila á fundi til að ræða stöðu mála. Varnaraðili kvaðst hafa verið tólf daga á [...] og hafa verið edrú undanfarnar þrjár vikur og stundaði AA-fundi. Varnaraðili hafi ekki samþykkt vistun B utan heimilis en sagst ætla að vinna í því að halda sér edrú. Farið hafi verið yfir tillögur félagsráðgjafa um að B yrði vistuð hjá systur varnaraðila í eitt ár á meðan varnaraðili ynni að því að halda sér edrú. Þar sem varnaraðili hafi ekki viljað fallast á vistunina hafi henni verið tilkynnt að málið yrði tekið fyrir á fundi hjá sóknaraðila þann 14. júní 2011. Málinu hafi verið frestað til 16. júní 2011 en á þeim fundi hafi varnaraðili mætt ásamt Leifi Runólfssyni hdl. sem lagði fram greinargerð fyrir hennar hönd og var málinu aftur frestað til frekari gagnaöflunar.
Þann 22. júní 2011 hafi sóknaraðila borist læknabréf sem óskað hafði verið eftir hjá hjúkrunarforstjóra á [...]. Bréfið hafi tekið til tímabilsins 1. janúar 2011 til 22. júní 2011 og á því tímabili hafi varnaraðili leitað töluvert oft á læknavaktir og fengið ávísað talsverðu magni lyfja, m.a. Tramol og Tafil. Hún hafi meðal annars fengið ávísað á ákveðnu tímabili 100 töflum af Tramol á 3-5 daga fresti og í marsmánuði alls 800 töflur. Einnig komi þar fram að læknir hafi gert samning við varnaraðila sem hún hafi samþykkt en síðar svikið. Í bréfinu hafi komið fram að þann 12. júní sl. hafi varnaraðili komið í fylgd sjúkraflutningamanna verulega ölvuð og með skurð á enni. Við komuna hafi hún verið sofandi en vaknað þegar kallað var á hana. Hún hafi verið þvoglumælt og blótað bæði lækni og sjúkraflutningamönnum og brugðist hin versta við þegar læknir reyndi að gefa henni deyfilyf. Þegar læknir ætlaði að sauma saman sárið hafi hún sparkað í hægri hönd hans og þurfti að kalla til lögreglu. Þennan sama dag hafi hún óskað eftir því að fá ávísað Tramól og Stesólíni en fengið neitun, enda hefði hún fengið skammt tveimur dögum áður. Þá hafi hún sagst ætla að neyta áfengis í staðinn. Þann 21. júní sl. hafi hún hótað því einnig að neyta áfengis fengi hún ekki annan skammt og fór svo að henni voru ávísaðar 20 töflur af Tramol. Í læknabréfinu komi einnig fram að varnaraðili steli ítrekað lyfseðlum og falsi í því skyni að fá fleiri og stærri skammta.
Í viðtali sálfræðings við B þann 21. febrúar 2011 sem og í samtölum sínum við félagsráðgjafa, meðal annars, þann 25. maí 2011, segi B að sér líði vel hjá móðursystur sinni og manni hennar. Hún lýsi heimilisaðstæðum þar sem venjulegum og að allt sé gott þar auk þess að hún segist hafa hlakkað til að fara til þeirra til að vera með stelpunum og prófa eitthvað nýtt. Hún segðist líka hlakka til að flytja aftur til móður sinnar og fyndist jafn gaman að vera hjá öllum. Að mati sálfræðings var B glaðlynd, jákvæð og samstarfsfús stúlka. Einnig kom fram að B væri náms- og félagslega vel stödd og stundaði íþróttir. Sálfræðingur taldi ekki þörf á inngripi í formi stuðningsviðtala að svo stöddu en sagði að með auknum aldri og þroska B myndu erfiðleikar í umhverfi hennar mögulega hafa meiri áhrif á líðan hennar.
Þann 28. júní 2011 kvað sóknaraðili upp úrskurð þess efnis að B yrði vistuð utan heimilis, hjá móðursystur sinni og eiginmanni hennar, í tvo mánuði frá þeim degi að telja. Í kjölfarið skipaði sóknaraðili B talsmann sem ræddi m.a. við hana um afstöðu hennar varðandi búsetu. Niðurstaða talsmanns hafi verið sú að B væri mjög hrifin af þeim stað þar sem hún búi núna og vilji eindregið búa áfram með móðursystur sinni og eiginmanni hennar. Eftir að úrskurður sóknaraðila hafi verið kveðinn upp í lok júní sl. hafi borist þær upplýsingar að varnaraðili væri í afplánun í [...]. Samkvæmt samtali við lögreglu séu 78 mál skráð á varnaraðila en síðast hafi hún verið handtekin þann 13. júlí 2011 vegna ölvunar á almannafæri og fyrir að hafa ekki fylgt fyrirmælum lögreglu. Varnaraðili hafi byrjað í afplánun á sex mánaða fangelsisdómi þann 14. júlí 2011 og muni því ekki losna út fyrr en í fyrsta lagi 12. október n.k. Beðið sé eftir skriflegum gögnum frá Fangelsismálastofnun og lögreglunni í Reykjavík og Keflavík vegna þessa.
Varnaraðili mótmælir málavaxtalýsingu sóknaraðila sem rangri. Þar komi fram tilhæfulausar fullyrðingar og haldið sé undan málavöxtum sem málið varða. Varnaraðili kveður mál hennar fyrst koma til kasta sóknaraðila er hún hafi sótt um að fá felld niður leikskólagjöld vegna lágra tekna. Varnaraðili eigi við geðhvarfasýki, stelsýki, lyfjafíkn og þunglyndi að stríða. Hún hafi hins vegar leitað sér hjálpar með sín vandamál. Meðal annars hafi hún farið í meðferð á [...] og lagst inn á deild [...]. Hún sé óhrædd við að leita sér aðstoðar þegar hún telji þörf á. Varnaraðili hafi verið mjög samstarfsfús við sóknaraðila og þess megi geta sérstaklega að ekkert atvik hafi komið upp, þegar hún hafi haft dóttur sína, síðan á árinu 2009, það er fyrir tveimur árum. Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á nein haldbær rök fyrir því að varnaraðili sé ófær um að hugsa um barn sitt í dag með viðunandi hætti.
Þá segir varnaraðili að víðsvegar í gögnum málsins megi sjá að varnaraðili hugsi mjög vel um dóttur sína. Þannig segi til að mynda í fylgiskjali nr. 1: „B er glaðlynd stúlka sem er í góðum tengslum við alla í leikskólanum....samstarfið við A móðir B hefur verið gott“. Í fylgiskjali 5 standi svo: „Engar athugasemdir að sjá í sjúkraskrá um stúlkuna nema ef vera skildi að hún sé dugleg og hraust....Stúlkan er hrein og gengur í heilum fötum og virðist kát og ánægð.“ Í fylgiskjali 6 segi: „umhirða á stúlkunni og mæting yfirleitt góð.“ Í fylgiskjali nr. 26 segi svo: „ .lýsti samskiptum við móður sína á jákvæðan hátt....Ekki er hægt að greina neina vanlíðan hjá henni sem gefur tilefni til inngrips að svo stöddu.“ Varðandi tilkynningu frá leikskólanum [...] frá árinu 2007 um að varnaraðili hafði verið undir áhrifum lyfja er hún sótti dóttur sína í leikskólann, þá sé rétt að benda á að starfsmenn frá sóknaraðila hafi farið heim til varnaraðila síðar þennan sama dag eins og komi fram í fylgiskjali nr. 13, en þar segi orðrétt: „A virtist ekki vera undir áhrifum lyfja en var aðeins bólgin kringum augum vegna ofnæmis að hennar sögn. Þann 10 maí var aflað munnlegra upplýsinga frá leikskólanum [...] og þar kom fram að vel gangi með B í leikskólanum, umhirða í lagi og samskipti við móður góð.“
Sú fullyrðing að sóknaraðila hafi borist tilkynning frá Læknavakt [...] þann 27. maí 2008 sé ekki studd neinum gögnum og því sé óhægt um vik fyrir varnaraðila að svara þeim ásökunum. Varnaraðili neiti því alfarið að hún hafi verið rænulaus með dóttur sinni á Læknavakt [...]. Það verði að telja alveg ljóst að varnaraðili hafi ekki verið stödd á Læknavakt [...] ásamt dóttur sinni án þess að vera með réttu ráði og rænulítil. Það segi sig sjálft að hafi svo verið þá hefði læknir varla leyft henni að fara með dóttur sinni í slíku ástandi.
Varnaraðili kveðst neita því að hún hafi nokkru sinni kennt dóttur sinni að stela. Hún skori á varnaraðila að upplýsa um hver hafi komið með þessa tilkynningu og eins á hvaða rökum hún sé reist. Ekki sé hægt að taka mark á hvaða vitleysu sem fólk segi og nota gegn sér. Varnaraðili þekki vel til sinna veikleika, hún viðurkenni að hafa sjálf stolið, enda greind með stelsýki af lækni, hún hafi hins vegar aldrei kennt dóttur sinni að stela. Þær mæðgur hafi aldrei orðið uppvísar að því að stela saman, enda hafi hún ekki kennt dóttur sinni að stela. Varnaraðila þyki það mjög alvarlegt ef sóknaraðili sé að gera að því skóna að hún hafi kennt dóttur sinni að stela og enn alvarlegra þyki henni ef sóknaraðili, sem eigi að vera sérfræðingur í málefnum barna og mannlegum samskiptum, sé að ásaka dóttur hennar um að stela. Varnaraðili skori á sóknaraðila að styðja þessa fullyrðingu sína gögnum ellegar að draga hana til baka hið snarasta. Jafnframt krefjist hún þess að bæði hún og dóttir hennar fái afsökunarbeiðni vegna þessara ásakana.
Varnaraðili kveðst neita því staðfastlega að dóttir hennar hafi oft komið illa til fara, óhrein og ógreidd í leikskólann. Í fylgiskjali nr. 6 segi orðrétt: „A kom oft með stúlkuna illa til fara, óhreina og ógreidda, en klæðnaður í góðu lagi.“ Varla sé stúlkan illa til fara ef klæðnaður er í góðu lagi. Varnaraðili neiti því harðlega að dóttir sín hafi verið óhrein. Rétt sé hins vegar að um stuttan tíma hafi dóttir hennar verið ógreidd. Ástæða þess sé sú að stúlkan hafi verið með sítt hár og hún sé mjög hársár, þannig að varnaraðili hafi ekki ráðið við að greiða henni. Hafi það orðið til þess að stúlkan fór í klippingu. Eftir það sé ekkert vandamál að greiða stúlkunni, enda sé hún ávallt vel greidd og vel til fara þegar hún sé hjá varnaraðila.
Varnaraðili kveðst viðurkenna að dóttir hennar hafi í eitt sinn komið að henni rænulítilli. Það hafi verið á árinu 2009. Rétt sé að dóttir hennar hafi farið til ömmu sinnar, móður varnaraðila, og látið hana vita. Á þessum tímapunkti hafi varnaraðili sýnt dómgreindarleysi og viðurkenni það. Hún viðurkenni hins vegar ekki að hafa tekið inn né að hún hafi reynt að útbúa smjörsýru. Varnaraðili vilji hins vegar benda á að það geti allir foreldrar lent í því að missa meðvitund út af veikindum, t.d. hjartaáfalli, sykurskorti hjá sykursjúkum o.s.frv. Þessi atburður hafi gerst á árinu 2009, það sé langt um liðið og í framhaldi af þessum atburði hafi stúlkunni verið leiðbeint um hvað gera skyldi ef móðir hennar myndi missa meðvitund aftur. Varnaraðili sé þó ekkert líklegri til að missa meðvitund en næsti maður í dag, enda sé hún að taka á sínum málum.
Þá fullyrði sóknaraðili að barnið hafi verið neyðarvistað skv. 31. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 skv. ákvörðun sóknaraðila, dags. 30. september 2009. Varnaraðili kveðst ekki kannast við þessa neyðarráðstöfun. Hugsanlega hafi sóknaraðili verið að íhuga neyðarráðstöfun skv. 31. gr. laganna, en hún hafi þá aldrei komið til framkvæmda. Ekki komi fram í gögnum þessa máls hvort neyðarvistunin hafi komið til framkvæmda og síðar hafi verið hætt við hana né að sóknaraðili hafi úrskurðað um áframhaldandi neyðarvistun, en sóknaraðila sé skylt skv. 2. mgr. 31. gr. laganna að taka málið til meðferðar og úrskurða innan fjórtán daga frá því að neyðarráðstöfun skv. 1. mgr. 31. gr. eigi sér stað. Eins og áður segi hafi ekki verið lagður fram neinn úrskurður frá þessu tímabili. Þó svo að starfsmaður sóknaraðila hafi skrifað undir eitthvert skjal sé ekki þar með sagt að neyðarráðstöfun hafi verið framkvæmd.
Varnaraðili kveður að árið 2009 hafi verið þeim mæðgunum erfitt. Á því ári hafi faðir varnaraðila, afi barnsins, verið mjög veikur og látist þann 21. október 2009. Það hafi tekið á alla í fjölskyldunni, ekki síst þær mæðgur sem hafi verið mjög tengdar honum. Frá október 2009 og stóran hluta ársins 2010 hafi varnaraðili stundað AA-fundi reglulega. Samkvæmt meðferðaráætlunum, sjá fylgiskjöl nr. 16 og nr. 17, þá skyldi hún fara á AA-fund tvisvar í viku. Allan þennan tíma hafi hún farið á AA-fundi þrisvar í viku að jafnaði. Hún hafi staðið við sinn hluta af þessum samningum og gott betur. Varnaraðili kveður frásögn sóknaraðila um að varnaraðili hafi í tvígang farið í apótek, og það sitt hvort apótekið, loðna. Þarna sé verið að láta líta út fyrir að varnaraðili hafi farið í apótek til að svíkja út lyfseðilsskyld lyf. Varnaraðili kveðst aldrei hafa tekið dóttur sína með í þau skipti sem hún hefur svikið út lyfseðilsskyld lyf. Væntanlega hafi varnaraðili átt eitthvert erindi inn í apótek í tvö skipti og dóttir hennar verið með í för. Hvort hún hafi verið að kaupa plástur, dömubindi, hausverkjartöflur eða eitthvað annað sé ómögulegt fyrir hana að vita í dag, enda komi ekki fram hvenær hún hafi átt að fara með dóttur sína í apótekin, né hvort að það hafi verið á sama degi. Um það að varnaraðili hafi verið titrandi er tilsjónaraðili kom á heimili hennar í mars 2010, þá vilji varnaraðili benda sóknaraðila á að hún getur orðið veik eins og hver önnur manneskja. Vel megi vera að hún hafi titrað, enda líti fólk, þegar það sé með flensu og háan hita, yfirleitt ekki sérlega vel út og titri hugsanlega.
Varnaraðili kveðst neita því að hafa sagt sóknaraðila þann 6. október 2010 að hún væri ekki alveg laus við stelsýkina. Varnaraðili sé laus við stelsýkina, það sé langt síðan að hún hafi stolið einhverju síðast, sem best sést kannski á því að það sé langt um liðið síðan hún var síðast tekin fyrir þjófnað.
Varnaraðili kveðst mótmæla því harðlega að tilsjónaraðili hafi ítrekað reynt að hafa samband við hana í nóvember 2010 án árangurs. Sóknaraðili hafi vel vitað hvar hún byggi, símanúmer hennar sé birt í símaskránni, að jafnaði sé kveikt á farsíma hennar, en þrátt fyrir þetta hafi hún aldrei orðið vör við að tilsjónaraðilinn hafi reynt að hafa samband við sig.
Á bls. 6 í greinargerð sóknaraðila segi að „B væri nýfarin að stela með móður sinni.“ Varnaraðili kveðst hafa borið þetta upp á systur sína, C, sem sé sögð hafa tilkynnt þetta. Sé skemmst frá því að segja að C segist aldrei hafa tilkynnt að B væri farin að stela, hvorki ein og sér, né með varnaraðila. Þessar ítrekuðu ásakanir sóknaraðila um að dóttir varnaraðila sé að stela, hvort heldur með sér eða án, líti varnaraðili mjög alvarlegum augum. Varnaraðili kveðst vita það fyrir víst að dóttir sín hafi aldrei stolið með sér og hafi enga trú á því að dóttir sín hafi nokkru sinni stolið einu né neinu. Dóttir hennar sé góð og heiðarleg stúlka. Á sama stað í greinargerð sóknaraðila sé talað um að varnaraðili hafi farið upp í [...] að sækja hund ásamt dóttur sinni, talið væri að hún væri akandi undir áhrifum lyfja. Óskiljanlegt sé hví sóknaraðili taki þetta upp í greinargerð sinni. Rétt sé að benda á, eins og komi fram í fylgiskjali nr. 28, að lögreglan í [...] hafi stöðvað varnaraðila í umrætt sinn, í ljós hafi komið að varnaraðili var ekki undir áhrifum áfengis né sýnilega undir áhrifum lyfja. Lögreglan hafi leyft henni að halda akstri áfram enda ekkert sem benti til annars en að hún væri í fullfæru ástandi til að aka bifreið skv. umferðarlögum.
Eins og komi fram á fylgiskjali nr. 20 þá hafi varnaraðili samþykkt að sóknaraðili vistaði B, dóttur varnaraðila, til 1. júní 2011, ekki sé rétt það sem komi fram í greinargerð sóknaraðila að hún hafi dregið þá samþykkt til baka. Hið rétta sé að hún hafi hafnað því að dóttir sín yrði áfram vistuð utan heimilis.
Varðandi atvik það sem hafi átt sér stað þann 12. júní sl. þá sé rétt að taka það skýrt fram að dóttir varnaraðila hafi hvergi verið þar nálægt. Hún hafi verið á ferðalagi með móðursystur sinni og eiginmanni hennar. Vissulega sjái varnaraðili eftir þessari uppákomu, en svona hegði hún sér ekki þegar dóttir hennar sé nálægt henni.
Varðandi upplýsingar sem komi að sögn fram í læknabréfi frá 22. júní um að varnaraðili steli ítrekað lyfseðlum og falsi í því skyni að fá fleiri og stærri skammta, þá hafi slíkt ekki gerst lengi. Ekki sé hægt að beita varnaraðila svo íþyngjandi aðgerðum sem að vista dóttur hennar utan heimilis vegna einhvers atburðar sem hafi átt sér stað fyrir löngu.
Þá mótmælir varnaraðili hugleiðingum sálfræðings um líðan dóttur hennar í nútíð eða framtíð. Varðandi atvik sem átti sér stað þann 13. júlí sl., þá hafi dóttir varnaraðila ekki verið nærri. Hún hafi þá verið í umsjón systur varnaraðila og eiginmanns hennar.
Varðandi fangavist varnaraðila kveður hún rétt að taka fram að hún hafi byrjað afplánun án fyrirvara og þá hafi ekki mælst í henni ávana- og fíkniefni né áfengi, sbr. fylgiskjal nr. 33. Vissulega hafi varnaraðili verið þunglynd er hún hóf afplánun og hafi reynt að skaða sig. Hún hafi fyllilega gert sér grein fyrir því að sóknaraðili myndi nota sér fangavist þessa gegn henni, þá á þann veg að dóttir hennar yrði vistuð utan heimilis. Sömuleiðis hafi hún verið tekin af geðlyfjum sem séu henni nauðsynleg sökum geðhvarfasýki. Varnaraðili sé greind með geðhvarfasýki og þurfi nauðsynlega á lyfjum að halda. Þegar búið sé að loka hana inni í fangelsi þá þurfi hún enn frekar á lyfjunum að halda til að ráða við aðstæður. Læknir Fangelsismálastofnunar hafi neitað henni um að taka lyfin sín. Hann kvað þau vera á bannlista fangelsisins og engar undanþágur væru gerðar. Engu að síður beri varnaraðila að taka umrædd lyf skv. uppáskrift frá sínum geðlækni. Þess megi geta að læknir Fangelsismálastofnunar sé heimilislæknir en ekki geðlæknir og sé því ekki sérfræðingur á sviði geðheilsu.
Varðandi skýrslu talsmanns B, kveður varnaraðili rétt að árétta að B sé einungis átta ára gömul stúlka. Ekki sé vitað hvort viðkomandi talsmaður hafi einhverja sérmenntun í að taka viðtöl við börn. Hins vegar sé vitað að það skipti miklu máli hvernig börn séu spurð. Oft og tíðum sé auðvelt að leiða börn inn á það svar sem viðkomandi vilji ná fram. B hafi margoft sagt móður sinni, varnaraðila þessa máls, að hún vilji helst af öllu búa hjá henni. Það standi ekki til að skipta um skóla hjá stúlkunni, enda búi þær mæðgur í dag hjá móðurömmu barnsins. Varnaraðili þessa máls hafi ekki í hyggju að láta dóttur sína skipta um skóla án samþykkis dótturinnar. Varnaraðili vilji benda á að faðir stúlkunnar hafi aldrei samband við hana. Það séu mörg ár síðan hún eða dóttir hennar hafi heyrt frá honum.
Varnaraðili kveðst vilja benda á að sóknaraðili hafi ekki einu sinni reynt að ná samkomulagi við hana, hvorki um vistun dóttur hennar utan heimilis né að veita henni og dóttir hennar þá aðstoð sem sóknaraðili telji að hún þurfi á að halda. Sóknaraðili hafi heldur ekki látið fara fram svokallað foreldrahæfnismat á henni. Með því hafi sóknaraðili brugðist skyldum sínum og ákveðið þess í stað að fara mun meira íþyngjandi leið fyrir alla aðila málsins en nauðsyn er á.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila.
Krafa sóknaraðila um að B verði vistuð utan heimilis varnaraðila í tólf mánuði er reist á 1. mgr. 28. gr. laga nr. 80/2002, enda sé það mat sóknaraðila að nauðsynlegt sé að vistun stúlkunnar standi lengur en í tvo mánuði.
Sóknaraðili byggir á því að skilyrði b-liðar 1. mgr. 27. gr. laga nr. 80/2002 séu uppfyllt. Úrræði samkvæmt 24. og 25. gr. laganna hafi ekki skilað árangri, sbr. 1. mgr. 26. gr. laganna. Eins og þegar hafi verið rakið séu vægari úrræði barnaverndarlaga fullreynd án þess að viðunandi árangur hafi náðst. Þá sé það skoðun sóknaraðila að brýnir hagsmunir barnsins mæli með því að hún verði vistuð utan heimilis í allt að 12 mánuði.
Á því sé einnig byggt af hálfu sóknaraðila að meðalhófsreglunnar hafi verið gætt í hvívetna við meðferð málsins og að ekki hafi verið gripið til viðurhlutameiri úrræða en nauðsyn krafðist. Ljóst sé að vægari úrræði en vistun utan heimilis dugi ekki til og því nauðsynlegt að vistun standi lengur en þá tvo mánuði sem sóknaraðili hafi úrskurðað um og því sé þess krafist að dómurinn úrskurði um að vistun utan heimilis standi í tólf mánuði.
Þá sé það mat sóknaraðila að varnaraðili sé ekki tilbúinn að taka á móti dóttur sinni á heimili sitt á nýjan leik og að varnaraðili geti ekki boðið henni upp á viðunandi uppeldisaðstæður. Varnaraðili hafi lokið meðferð á [...] og hafi meðferðaráætlun ekki staðist sem skyldi, enda hafi varnaraðili fallið aftur í neyslu á tímabilinu eins og svo oft áður eftir að hafa sótt meðferð. Auk þess afpláni hún nú fangelsisdóm en hún sé með tæplega 80 mál á skrá hjá lögreglunni. Með hagsmuni stúlkunnar í huga telji sóknaraðili að varnaraðili þurfi að vinna að varanlegri lausn á sínum vandamálum áður en hægt sé að bjóða B aftur inn á heimili varnaraðila.
Langvarandi lyfjamisnotkun varnaraðila hafi eðlilega haft áhrif á B. Hún hafi þrívegis komið að móður sinni meðvitundarlausri sökum þess að hún hafi innbyrt smjörsýru og aðra vímugjafa. Þá hafi varnaraðili einnig glímt við stelsýki og hafi m.a. kennt dóttur sinni að stunda búðarhnupl. Enn fremur hafi varnaraðili falsað lyfseðla í því skyni að taka út lyf sem ekki hafi verið ávísað á hana og hafi hún fengið dóttur sína til að aðstoða sig við það. Börn sem alist upp við viðlíka aðstæður séu undir miklu tilfinningalegu álagi sem geti birst í ótta, þreytu, kvíða, depurð og þunglyndi. Það sé mat sóknaraðila að B geti ekki búið hjá varnaraðila miðað við hvernig ástandið hafi verið á heimilinu undanfarin ár og óttast sóknaraðili að áframhaldandi vera hennar á heimili varnaraðila geti haft afar slæm áhrif á hana.
Í ákvörðun sóknaraðila um vistun B utan heimilis felist jafnframt ályktun um hvar hagsmunum og velferð stúlkunnar sé best borgið. Af hálfu sóknaraðila sé á því byggt að það þjóni hagsmunum hennar best að vistast utan heimils um takmarkaðan tíma, enda ljóst að ekki hafi verið unnt að vinna á vandanum á heimili þeirra mæðgna. B sé nýorðin átta ára og sé afar mikilvægt að hún dragist ekki aftur úr í námi eða á öðrum sviðum. Til að koma í veg fyrir slíkt þurfi að búa henni viðunandi heimilisaðstæður og veita henni mikinn stuðning. Að mati sóknaraðila sé lágmarkstími til að þetta úrræði gagnist B tólf mánuðir, enda hafi vandi varnaraðila varað í fjöldamörg ár og mál B verið til meðferðar hjá barnaverndaryfirvöldum í um það bil fimm ár. Það sé því afar nauðsynlegt að veita B tækifæri til að dafna og þroskast við viðunandi uppeldisskilyrði, fjarri óreglusömu líferni varnaraðila.
Af öllu framangreindu virtu telji sóknaraðili fullljóst að varnaraðili sé í dag óhæfur til að bera ábyrgð á og sinna uppeldisskyldum gagnvart dóttur sinni. Af þessum sökum geri sóknaraðili þá kröfu að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að stúlkan skuli vistuð utan heimilis móður sinnar í tólf mánuði, sbr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Sóknaraðili styður kröfur sínar við reglur barnaverndarlaga nr. 80/2002, einkum 4. gr., 27. gr. og 28. gr. þeirra laga.
Málsástæður og lagarök varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila um að dóttir varnaraðila verði vistuð utan heimilis í 12 mánuði, verði hafnað. Varnaraðili byggir mál sitt á því að sóknaraðili hafi farið offari varðandi aðgerðir gagnvart sér og dóttir sinni síðustu mánuði og hafi ekki þurft að grípa til þeirra róttæku aðgerða sem gert hafi verið. Varnaraðili telji að ekki hafi verið fullreynt að ná samkomulagi um vistunina, og þannig hafi verið hægt að beita úrræði samkvæmt 24. gr. laga nr. 80/2002 með samþykki varnaraðila ef sóknaraðila hafi ekki verið svo mikið í mun að vista barn varnaraðila utan heimilis.
Varnaraðili byggi kröfu sína um að hafnað verði kröfu sóknaraðila og að hún fái dóttur sína nú þegar heim til sín, á þeirri meginreglu barnaverndarlaga, sem komi skýrt fram í 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, að barnaverndaryfirvöld skuli eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið sé til annarra úrræða. Þau skuli jafnframt ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt. Því aðeins skuli gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti. Varnaraðili byggir einnig á meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar með vísan til 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. og 38. gr. barnaverndarlaga. Þá telji varnaraðili, með vísan til þess sem fram hafi komið hér fyrr, að skilyrði b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga geti ekki talist vera fyrir hendi þar sem ekki hafi verið reynd önnur og vægari úrræði í stöðunni, svo sem greini í 24. gr., sbr. 23. gr. og 26. gr. barnaverndarlaga. Þá sé einnig byggt á þeirri meginreglu barnaverndarlaga að íþyngjandi ráðstafanir eigi ekki að standa lengur en þörf krefji hverju sinni, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga 80/2002.
Þá telur varnaraðili að krafa sóknaraðila brjóti í bága við 8. gr. Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveði á um friðhelgi fjölskyldu og heimilis, og segir að opinberum stjórnvöldum beri að stuðla að því að sameina fjölskyldur en ekki sundra þeim.
Varnaraðili kveðst benda á að krafa sóknaraðila virðist byggja á því að hún eigi við fjölþættan vanda að stríða sem hún hafi ekki náð tökum á með viðeigandi hætti né viljað nýta sér alla þá fjölbreyttu aðstoð sem henni hafi staðið til boða í gegnum tíðina. Varnaraðili mótmæli þessu sem röngu. Hún hafi verið til samvinnu og haft fullan vilja til að nýta sér þá aðstoð sem henni hafi staðið til boða.
Varnaraðili mótmælir því harðlega að hún sé ekki tilbúin að taka á móti dóttur sinni á sitt heimili á nýjan leik. Varnaraðili vill árétta það að hún búi í dag hjá móður sinni, ömmu barnsins. Ekki standi neitt annað til en að þær mæðgur dvelji þar komandi vetur. Þar skammt frá búi systir hennar, C, og D, eiginmaður hennar, sem hafi vistað dóttur hennar síðasta vetur. Ekki sé nein ástæða að óttast um velferð stúlkunnar, jafnvel þó svo að svo ólíklega færi að varnaraðili félli á nýjan leik, enda sé gott stuðningsnet í kringum hana. Fjölskyldan standi saman og styðji við bakið hvert á öðru. Þá hafi hún aldrei verið í slæmu ástandi er hún hefur verið með dóttur sinni, né hafi dóttir hennar nokkurn tímann slasast hjá sér. Það að hún sé í afplánun núna sé vissulega ekki gott, en þeirri afplánun muni væntanlega ljúka um miðjan október og því sé óþarfi að vista dóttur hennar utan heimilis í tólf mánuði sökum hennar. Varnaraðili mótmæli því sem röngu að dóttir hennar hafi komið að sér meðvitundarlausri þrívegis sökum þess að hún hafi innbyrt smjörsýru og aðra vímugjafa. Dóttir varnaraðila hafi því miður komið að móður sinni í tvígang þar sem hún hafi verið meðvitundarlítil. Það sé þó langt um liðið síðan þau atvik komu upp, en það hafi verið á árinu 2009. Varnaraðili vill skora á sóknaraðila að benda á atvik á árinu 2010 eða 2011 þar sem hún hafi verið með dóttir sína B í annarlegu ástandi eða alls ófær um að hugsa um barn sitt. Staðreyndin er sú að varnaraðili hugsar mjög vel um barn sitt og passar vel upp á hana.
Varnaraðili vill skora á sóknaraðila að upplýsa með sannanlegum hætti hvenær hún hafi fengið aðstoð frá dóttur sinni við að falsa lyfseðla. Þessu sé harðlega mótmælt sem röngu, enda eigi þetta ekki við nein rök að styðjast. Varnaraðili vilji benda á að dóttur sinni líði mjög vel er hún sé hjá sér. Staðreyndin sé sú að hún skilir ekki hvers vegna hún megi ekki búa hjá móður sinni. Það hafi reynst B gífurlega erfitt að kveðja móður sína til að fara til C og D og dvelja þar eftir umgengni við móður sína. B hafi ekki dregist aftur úr í námi, þvert á móti þá sé hún talin mjög dugleg í skóla, enda hafi móðir hennar, varnaraðili þessa máls, hjálpað henni mikið með námið, auk þess að fara með hana reglulega á leiksýningar, söfn, listasýningar o.fl. til að þroska menningarvitund hennar, svo hefur hún einnig verið dugleg að skutla henni á [...]æfingar og [...]æfingar.
Sóknaraðili hafi ekki en sem komið er látið framkvæma foreldrahæfnismat á varnaraðila. Í þessu sambandi sé ekki við varnaraðila að sakast, því hún hafi ávallt verið reiðubúin til að gangast undir foreldrahæfnismat. Varnaraðili telur að sóknaraðili vilji ekki láta sig gangast undir foreldrahæfnismat þar sem sóknaraðili telji nokkuð víst að hún myndi standast slíkt mat með sóma.
Varnaraðili byggir kröfur sínar á barnalögum nr. 76/2003, barnaverndarlögum nr. 80/2002, stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Krafa um málskostnað byggir á 1. mgr. 60. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Málskostnaðarkrafan byggir á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun byggir á lögum nr. 50/1988. Verði ekki fallist á aðalkröfu málsins sé þess krafist að vistunartíminn verði styttur.
Forsendur og niðurstaða.
Í máli þessu er gerð krafa um að stúlkan B, fædd [...], verði vistuð utan heimilis á vegum barnaverndarnefndar í tólf mánuði samkvæmt 28. gr., sbr. b-lið 27. gr., barnaverndarlaga nr. 80/2002 frá 28. júní 2011. Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað, en til vara, ef krafa sóknaraðila verði tekin til greina, að vistun stúlkunnar verði markaður skemmri tími.
Fyrir dóminum kvaðst varnaraðili vilja neyta allra úrræða svo að ekki kæmi til þess að stúlkan yrði vistuð annars staðar en hjá henni. Hún væri búin að vera án neyslu frá því í vor og stundaði fundi í meðferðarhópum. Varnaraðili kvaðst ekki geta samþykkt að dóttir hennar yrði vistuð utan heimilis hennar og var málið því flutt og tekið til úrskurðar að málflutningi loknum.
Aðila greinir á um málsatvik og mótmælir varnaraðili mörgu í greinargerð sóknaraðila sem röngu og hefur það verið rakið hér að ofan.
Í gögnum málsins liggur fyrir greinargerð stefnanda þar sem forsaga málsins er rakin og afskipti af varnaraðila. Kemur þar fram að varnaraðili hafi átt við lyfjamisnotkun að stríða frá árinu 1999. Varnaraðili eigi við geðhvarfasýki að stríða og taki lyf við því. Tilkynningar til stefnanda frá september 2006 til september 2009 eru raktar í greinargerðinni. Í greinargerðinni eru upptalin stuðningsúrræði handa varnaraðila.
Í gögnum málsins liggur fyrir að afskipti sóknaraðila af varnaraðila hafa byrjað á árinu 2006. Varnaraðili skrifaði undir áætlun um meðferð máls skv. 23. gr. barnaverndarlaga þann 31. desember 2007 þar sem fram kemur að móðir eigi við félagslega og geðræna erfiðleika að stríða. Þá var ný áætlun gerð þann 22. janúar 2008. Var markmið áætlunarinnar að veita móður félagslegan stuðning. Var eitt skilyrði áætlunarinnar að varnaraðili ynni áfram í sínum málum, m.a. með því að vera í sambandi við geðlækni sinn, og stundaði AA-fundi.
Þá liggur fyrir læknabréf, dagsett 7. desember 2008, vegna komu varnaraðila á Slysa-og bráðadeild. Hafði varnaraðili fengið krampa og dottið í verslun og ekki borið fyrir sig hendur. Rankaði varnaraðili við sér á sjúkrahúsi. Kemur fram í læknabréfinu að varnaraðili eigi sögu um þunglyndi og nokkrar sjálfsvígstilraunir, meðal annars lyfjaeitrun á árinu 2000.
Í bréfi Heilbrigðisstofnunar [...], dagsettu 22. júní 2009, kemur fram að barnið hafi komið reglulega í ungbarnaeftirlit og fær góða umsögn varðandi þroska og umhirðu.
Í bréfi frá leikskólanum [...], dagsettu 23. júlí 2009, kemur fram að umhirðu á barninu hafi farið hrakandi frá síðastliðnu vori. Stúlkan komi oft illa til fara, óhrein og ógreidd en klæðnaður í góðu lagi. Þá væri móðir farin að mæta seinna með barnið í leikskólann eða undir hádegi. Bar varnaraðili því við að barnið færi oft seint að sofa á kvöldin en barnið sagðist ekki koma móður sinni fyrr á fætur, hún svæfi svo fast. Þá segir í lokin að B hafi yfirleitt ekki verið farin að borða neitt þegar hún mætti á leikskólann um hádegi.
Óundirrituð áætlun um meðferð máls liggur fyrir, dagsett 4. september 2009. Kemur þar fram að ástæða afskipta sé félagslegur stuðningur við móður. Ber varnaraðila þá að vera til samvinnu við félagsráðgjafa, fara í sálfræðiviðtöl og vinna áfram í sínum málum, meðal annars með því að vera í sambandi við geðlækni og fara á AA-fundi. Sömu skilyrði voru einnig í fyrri áætlunum.
Þann 13. september 2009 kom varnaraðili á Slysa- og bráðadeild [...] í [...]. Var greining á henni eitrun af öðrum og ótilgreindum lyfjum, meðulum og lífrænum efnum. Ástæða komu og saga sögð lyfjaeitrun. Segir í læknabréfinu að varnaraðili sé með þekkta sögu um þunglyndi og sjálfsvíg og sé fjölfíkill. Segir í bréfinu að móðir varnaraðila hafi hringt á sjúkrabíl eftir að B, fimm ára gömul, hafði hringt í ömmu sína og skýrt frá því að móðir sín væri eitthvað skrítin. Eftir tveggja klukkustunda dvöl á sjúkrahúsi komst varnaraðili til meðvitundar. Kvaðst hún hafa tekið 15 stykki af Tafil og svipað af Tramol 50 mg. Hún hafi ekki tekið töflurnar í sjálfsvígstilgangi.
Þann 26. september 2009 kom varnaraðili á Slysa- og bráðadeild [...], [...], meðvitundarlaus með sjúkrabifreið. Hafði varnaraðili fundist meðvitundarlaus heima hjá sér og ekki vitað hvað hún hafði tekið inn. Var varnaraðili á sjúkrahúsi yfir nóttina. Kemur fram í læknabréfinu að varnaraðili hafi tekið ofskammt af lyfjum. Samkvæmt nótum hafi varnaraðili átt í vanda með misnotkun á Tramol, Benzodiazepinum. Afþakkaði varnaraðili frekari hjálp við útskrift.
Í læknisvottorði frá Heilsugæslunni [...], dagsettu 29. september 2009, kemur fram að varnaraðili hafi hætt í niðurtröppun þar sem hún treysti sér ekki til að leggja erfiðið á sig nú sem standi. Hún hafi því aftur tekið upp sömu neyslu á Tramol og Tafil, þ.e. sterkum verkjatöflum og róandi lyfjum í skömmtum sem séu ekki notaðir venjulega í verkjameðferð eða sefandi lyfjameðferð. Hún hafi myndað þol og vaxandi fíkn í þessi lyf og finni sig knúna til að taka ofskammta af þeim. Kemur fram að varnaraðili hafi brugðist trúnaðartrausti læknis með því að breyta lyfseðlum frá lækninum. Mælir læknirinn með því að reynt sé að koma varnaraðila sem allra fyrst í meðferð á [...] eða [...] á LSH og síðan í framhaldsmeðferð þar sem málin hafi verið í dapurlegum farvegi í áraraðir. Þá segir að áhyggjur séu af dóttur hennar sem vafalítið hafi upplifað að sjá móður sína bjargarlitla í vímu og/eða fráhvarfseinkennum. Varnaraðili hafi misst meðvitund af ofskömmtum eða milliverkunum lyfjanna og fengið flogaköst sem gætu verið merki um að sjúkdómurinn sé kominn á hættulegt stig.
Með yfirlýsingu 30. september 2009 samþykkti varnaraðili að dóttir hennar yrði vistuð tímabundið utan heimilis hjá systur varnaraðila, fram að því að meðferð hæfist hjá varnaraðila og á meðan á henni stæði. Var undanfari þessa samkomulags ákvörðun barnaverndarnefndar að vista barnið utan heimilis þar sem ekki var unnt að tryggja öryggi barnsins á heimili varnaraðila vegna neyslu hennar.
Þann 14. október 2009 undirrituðu aðilar áætlun um meðferð máls skv. 23. gr. laga nr. 80/2002. Voru ástæður tilgreindar neysluvandi varnaraðila og meðferðaráætlun. Segir að varnaraðili hafi lokið afeitrun á deild [...] á Landspítalanum. Hún sé í hópmeðferð einn klukkutíma daglega á [...] á LSH og fari eftir um það bil tvær vikur í áframhaldandi meðferð þar frá klukkan 9.00-15.00 daglega.
Þann 3. mars 2010 var ný áætlun um meðferð máls undirrituð af aðilum og ástæðan sögð vera misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja varnaraðila. Þá segir að unnið sé að því að styðja varnaraðila í því að vera edrú og í uppeldishlutverkinu.
Þann 6. október 2010 var ný áætlun undirrituð af aðilum. Ástæða er samvinna aðila og að unnið sé að því að styðja varnaraðila í því að vera edrú og í uppeldishlutverkinu.
Í læknabréfi dagsettu 31. janúar 2011 kemur fram að varnaraðili hafi verið innlögð á deild [...] frá 12. til 25. október 2010 vegna misnotkunar á lyfjum. Við útskrift hafi verið planað að hún færi í dagmeðferð á [...] og hún mætti í grunnhóp en varnaraðili hafi ekki mætt. Varnaraðili hafi innskrifast aftur á deild [...] þann 15. janúar 2011 til 29. janúar. Sótt hafi verið um dagmeðferð fyrir hana á [...] og muni hún mæta í grunnhóp tvisvar í viku og geti hún mætt í stuðningshópa alla virka daga nema miðvikudaga. Varnaraðili stefni í endurhæfingu hjá [...] eftir að hún hafi lokið dagmeðferð á [...].
Þann 3. febrúar 2011 samþykkti varnaraðili að dóttir hennar yrði vistuð til 1. júní 2011 hjá systur varnaraðila og eiginmanni. Gerði hún í framhaldi samning um umgengi móður og dóttur.
Í læknabréfi dagsettu 7. febrúar 2011 kemur fram að varnaraðili hafi komið á bráðadeild Landspítalans í [...] þann 1. janúar 2011 vegna vímuefnaneyslu. Varnaraðili hafi sögu um geðhvarfasýki, áfengis- og vímuefnamisnotkun. Hún hafi verið heima hjá sér og leyst upp strimla af naglalakksleysi í vatni og drukkið en í honum ku vera eitthvert magn af smjörsýru. Hún hafi gert þetta í þeim tilgangi að komast í vímu. Sjö ára dóttir B hafi komið að henni meðvitundarlausri í sófanum.
Þann 1. júní 2011 undirrituðu aðilar áætlun um meðferð máls. Voru ástæður afskipta barnaverndarnefndar sagðar misnotkun varnaraðila til margra ára en unnið sé að því að styðja varnaraðila í því að vera edrú og í uppeldishlutverkinu. Eru úrræði, sem varnaraðila ber að fara eftir, að vera í samvinnu við barnaverndarnefnd, vera edrú og vinna í sinni edrúmennsku, mæta í grunnhóp [...] tvisvar í viku og aðra virka daga í stuðningshópa þar til dagdeildarmeðferð hefjist. Að fara í eftirmeðferð í sex vikur á dagdeild [...], fara í endurhæfingu hjá [...] að meðferð lokinni til að vinna að áframhaldandi bata, vera í samvinnu við tilsjónarkonu, samþykkja að fara í foreldrahæfnismat auk þess að samþykkja sálfræðimat fyrir B, samþykkja vistun B utan heimilis til 1. júní 2011 og gangast undir lyfja- og vímuefnapróf ef þess sé þörf.
Í bréfi F sálfræðings, dagsettu 10. mars 2011, kemur fram að hún hafi rætt við B og lagt fyrir hana nokkur próf. Kemur fram að B sé glöð og virðist líða almennt vel.
Með bréfi Barnaverndarstofu, dagsettu 26. apríl 2011, er samþykkt að vista B frá 3. febrúar 2011 til 3. júní 2011 hjá móðursystur varnaraðila og eiginmanni hennar.
Í greinargerð sóknaraðila, dagsettri þann 14. júní 2011, vegna máls varnaraðila og dóttur hennar kemur fram að samþykki varnaraðila fyrir vistun barnsins hjá systur varnaraðila sé runnið út og einnig meðferðaráætlunin. Þá segir að frá því að varnaraðili samþykkti vistunina og kom úr meðferð í janúar hafi það markmið sem unnið hafi verið eftir í meðferðaráætluninni ekki staðist. Þar segir:
„1. Að vera í samvinnu við Barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar varðandi B. Mjög erfitt var að ná á A og fá hana í viðtöl. Búið var að hringja ítrekað í A, senda henni sms skilaboð um að hafa samband auk viðtalsboðunar bréfleiðis.
2. Að vera edrú og vinna í sinni edrúmennsku. A hefur ekki verið edrú frá því að dóttir hennar var vistuð utan heimilis. Hún fór í meðferð á [...] 6. maí og útskrifaðist þaðan 18. maí sl. Í símtali þann 28. apríl 2011 við G hjúkrunarfræðing [...] kom fram að 6. apríl sl. barst þeim á LSH beiðni frá lækni A um að hún kæmist í inniliggjandi meðferð. G vildi koma þeim upplýsingum áleiðis að inntökuteymið á LSH mat að A þyrfti að fara í inniliggjandi meðferð á [...] og framhaldsmeðferð. Afeitrunarmeðferð væri ekki nægjanleg. Þau höfðu efasemdir um að A væri tilbúin í dagdeildarmeðferð [...] þar sem hún hafði ekki getað tekið þátt í undirbúningshópnum í febrúar sl.
3. Mæta í grunnhóp [...] tvisvar sinnum í viku og aðra virka daga í stuðningshópa á [...] þar til dagdeildarmeðferð hefst. Að fara í eftirmeðferð í 6 vikur á dagdeild [...]. Það hefur ekki staðist en þær upplýsingar fengust símleiðis þann 31. mars 2011 frá H félagsráðgjafa [...] að A hefði ekki mætt í meðferðina á [...] sem stefnt var að eftir útskrift í janúar sl. Í framhaldinu var beiðni A um meðferð tekin út þar sem hún mætti ekki í undirbúningshópinn en það er forsenda fyrir því að komast að í dagdeildarmeðferðina á [...].
4. Fara í endurhæfingu að meðferð lokinni til að vinna að áframhaldandi bata. A hefur ekki sótt neina endurhæfingu svo vitað sé til.
5. Vera í samvinnu við tilsjónarkonu. Ítrekað var reynt að ná á A til að hefja tilsjónina en ekki náðist samband við hana.
6. Samþykkja að fara í foreldrahæfnismat auk þess að samþykkja sálfræðimat fyrir B. Starfsmaður barnaverndar hafði samband við sálfræðing til að kanna með fyrirlögn foreldrahæfnismats fyrir A. Hann ráðlagði að A lyki eftirmeðferðinni á [...] áður en matið færi fram. A lauk ekki meðferð á [...] auk þess sem ekki hefur náðst í hana á tímabilinu til að fara yfir hvenær matið yrði framkvæmt. B fór í sálfræðimat og eru niðurstöður F sálfræðings raktar hér að ofan.
7. Samþykkja að B verði hjá C móðursystur sinni og D eiginmanni hennar út skólaárið 2010/2011. B mun vera í reglulegri umgengni við móður sína sem er nánar kveðið á um í umgengnissamningi. vistun B hjá þeim hefur gengið vel og hefur B verið í umgengni við móður sína heima hjá E móðurömmu sinni.
8. A samþykkir að gangast undir lyfja- og vímuefnapróf ef þess er þörf.
9. Móðir B gerir sér grein fyrir því að misnotkun á lyfjum hefur ekki góð áhrif á B og hennar líf og er algjörlega óásættanlegt.“
Þá kemur fram í greinargerðinni að starfsmenn barnaverndar hafi hitt varnaraðila þann 1. júní sl. til að ræða stöðu mála. Varnaraðili hafi sagst hafa verið í tólf daga á [...] og hún sé búin að vera edrú nú í þrjár vikur. Hún stundi AA-fundi og hafi fengið trúnaðarkonu hjá samtökunum. Þá hafnaði varnaraðili því að B yrði vistuð áfram utan heimilis.
Þá liggja fyrir í gögnum málsins upplýsingar um samskipti varnaraðila við Heilbrigðisstofnun [...] frá 1. janúar 2011 til 21. júní 2011. Kemur þar fram að varnaraðili kom mjög oft til að fá ávísun á lyf. Er ljóst af nótum lækna að verulegar áhyggjur eru af lyfjanotkun varnaraðila og reynt að trappa hana niður í lyfjanotkun. Þann 31. maí sl. fékk varnaraðili fimm daga skammt af Tramol þar sem varnaraðili kvaðst vera að fara í fimm daga ferðalag til [...]. 5. júní sl. hafði hún samband við Heilsugæsluna og var í fráhvarfseinkennum og hafði aldrei farið til [...]. Kvaðst hafa klárað skammtinn einum degi fyrr en hún hafði ætlað sér og óskaði eftir róandi lyfjum, sem hún fékk. Þá fær hún ávísuð lyf þann 7., 8., 9., 10. og 12. júní sl. Þann 12. júní sl. kom hún á Heilsugæsluna í fylgd sjúkraflutningamanna þar sem hún var verulega ölvuð og hafði dottið og fengið skurð á enni. Hafði þá fyrr um daginn komið á Heilsugæsluna og viljað fá Tramól og Stesólíð en verið hafnað. Þá segir í lokin að varnaraðili sé í lyfjaskömmtun á slysó. „ekki skrifa út lyfseðla á meðan/Tramol. Leitar mikið á vaktir til að fá Tramól. Ofnotkun. / Stelur ítrekað lyfseðlum og falsar. Stöðvun uppáskrifta. / er tramol og paxal fíkill, falsar lyfseðla og er í ranns hj Landl /Á EKKI AÐ FÁ LYFSEÐLA FYRIR TRAMÓL OG PAXAL!!! er með inniliggjandi lyfseðla í L&H f/daglega skömmtun /ibukod sterkar. Á ekki að fá hér eftir 19.08.2006/Contalgin /Ibukod sterkar /Diazepan li/Parkodin /rohypnol /Paxal.“
Þann 28. júní 2011 úrskurðaði Barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar að B yrði vistuð utan heimilis hjá móðursystur sinni og eiginmanni hennar í tvo mánuði frá og með þeim degi að telja, sbr. a-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Þá hafa verið lagðar fram dagbækur lögreglu allt frá árinu 2002. Þar kemur fram að í níu skipti hafði lögregla afskipti af tilkynningum vegna framvísunar falsaðra lyfseðla í apótekum, síðast þann 10. nóvember 2010. Þá eru í dagbókum lögreglu tilkynningar um hnupl eða þjófnað varnaraðila í tuttugu og níu skipti og nokkrar aðrar bókanir þar sem lögreglan hafði haft afskipti af varnaraðila. Í júní 2005 fór varnaraðili í afplánun vegna sex mánaða fangelsisvistar. Þann 12. júní 2011 hafði lögregla afskipti af varnaraðila á Heilbrigðisstofnun [...] þar sem varnaraðili var töluvert ölvuð og átti erfitt með gang.
Af öllu framansögðu liggur ljóst fyrir að varnaraðili hefur átt, í langan tíma, við lyfjafíkn að stríða og ekki sinnt meðferðarúrræðum sem henni hefur verið gert að sæta. Varnaraðili hóf afplánun vegna sex mánaða fangelsisdóms þann 12. júlí sl. Af eðlilegum orsökum hefur varnaraðili verið án lyfja frá þeim tíma, en síðast í gögnum málsins hafði lögreglan afskipti af henni mánuði áður vegna neyslu. Þá liggur fyrir að varnaraðili er haldin stelsýki og hefur hún ekki lagt fram nein gögn sem sýna eða styðja að hún hafi leitað sér meðferðar vegna þess.
Varnaraðili kvaðst fyrir dóminum ætla að flytja með dóttur sína til móður sinnar eftir að hún losnar úr afplánun og búa þar komandi vetur. Móðir varnaraðila kom fyrir dóminn og staðfesti að dóttir hennar, varnaraðili í máli þessu, og barnabarn myndu flytja til hennar og búa hjá henni komandi vetur. Það væri hins vegar háð því skilyrði að varnaraðili væri ekki í neins konar neyslu. Ef svo færi þá myndi varnaraðili flytja út af heimilinu.
Varnaraðili hefur ekki sjálf getað tekið á sínum vanda þrátt fyrir ítrekuð inngrip sóknaraðila undanfarin ár og tilraunir varnaraðila til að fara í meðferð. Hefur lyfjafíkn varnaraðila ítrekað bitnað á dóttur hennar þannig að nauðsyn hefur verið að taka hana af heimili varnaraðila og koma henni í tímabundið fóstur. Varnaraðili samþykkti að dóttir hennar, B, yrði vistuð utan heimilis fram til 1. júní sl. Á meðan barnið var í vistun og eftir þann tíma var varnaraðili ítrekað í lyfjaneyslu eins og gögn málsins bera með sér.
Við úrlausn þessa máls skiptir engu vilji barnsins að búa hjá móður sinni, né yfirlýsingar varnaraðila um að hún sé laus undan lyfjafíkn sinni og stelsýki. Þá breytir engu við úrlausn málsins að foreldrahæfnismat hafi ekki farið fram á varnaraðila.
Krafa sóknaraðila er byggð á því að varnaraðila hafi ekki tekist að vinna bug á alvarlegri lyfjafíkn sem varað hafi um árabil, þrátt fyrir margítrekuð inngrip og aðstoð sóknaraðila, og komi það niður á umönnun og öryggi B.
B er fædd [...] og er því nýorðin átta ára. Þrátt fyrir ítrekaða samninga sóknaraðila við varnaraðila á árunum 2006 til ársins 2010, hefur varnaraðila ekki tekist að vinna úr vandamálum sínum og sýna fram á hæfni sína sem forsjárforeldri svo óyggjandi sé. Hefur stúlkan í nokkur skipti verið fjarlægð af heimili móður sinnar á því tímabili og vistuð hjá móðursystur og manni hennar. Sóknaraðili hefur veitt varnaraðila og stúlkunni margvíslega aðstoð og stuðning, en stuðningsúrræðin hafa hins vegar ekki skilað tilætluðum árangri. Varnaraðili hefur ávallt verið til samvinnu um úrræði vegna B en ekki er að sjá að hún hafi sinnt sínum skyldum og verður að telja að vægari úrræði en vistun utan heimilis hafi verið reynd til þrautar.
Verður að telja að það óöryggi sem stúlkan býr við sé óásættanlegt. Gæta verður þó meðalhófs við inngrip sem krafa sóknaraðila snýr að. Miðað við forsögu varnaraðila telur dómurinn að engin reynsla sé komin á að varnaraðili geti haldið sig frá misnotkun lyfja né hafi varnaraðili sýnt fram á að hagsmunum barnsins sé best borgið með að búa hjá henni.
Þegar litið er til alls framangreinds verður að fallast á með sóknaraðila að brýnir hagsmunir B krefjist þess að hún verði vistuð utan heimilis varnaraðila. Verður krafa sóknaraðila því tekin til greina þannig að stúlkan B, kt. [...], verði vistuð utan heimilis á vegum sóknaraðila í tólf mánuði frá 28. júní 2011 til 28. júní 2012. Af hálfu sóknaraðila er ekki gerð krafa um málskostnað úr hendi varnaraðila.
Gjafsóknarkostnaður varnaraðila greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun lögmanns varnaraðila, Leifs Runólfssonar hdl., sem þykja hæfilega ákveðin 250.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Úrskurð þennan kveður upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Sóknaraðila, barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar, er heimilt að vista B, kt. [...], utan heimilis varnaraðila, A, í tólf mánuði eða frá 28. júní 2011 til 28. júní 2012.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður varnaraðila greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun lögmanns hennar, Leifs Runólfssonar héraðsdómslögmanns, 250.000 krónur.