Hæstiréttur íslands

Mál nr. 151/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Innstæða
  • Innsetningargerð


                                     

Fimmtudaginn 13. mars 2014.

Nr. 151/2014.

LBI hf.

(Kristinn Bjarnason hrl.)

gegn

Landsbankanum hf.

(Ólafur Örn Svansson hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Innstæða. Innsetningargerð.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu LB hf. um að LA hf. yrði gert að afhenda innstæðu á tilgreindum innlánsreikningi með innsetningargerð á grundvelli 78. gr., sbr. 73. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, þar sem líta yrði svo á að LB hf. hefði í reynd krafist fullnustu á kröfu um peningagreiðslu sem ekki væri unnt að verða við í slíku máli.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. febrúar 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. febrúar 2014 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að afhenda honum innstæðu á tilgreindum innlánsreikningi. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að sér verði afhent innstæðan á innlánsreikningnum „með því að öll innstæðan ásamt áföllnum vöxtum á úttektardegi verði tekin út af þeim reikningi og lögð inn á“ nánar tiltekinn innlánsreikning hjá sér. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Jafnframt krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Þar sem varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms af sinni hálfu kemur krafa hans um málskostnað í héraði ekki til umfjöllunar hér fyrir dómi.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, LBI hf., greiði varnaraðila, Landsbankanum hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. febrúar 2014.

Þetta mál var þingfest 30. september 2013 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 8. janúar sl.

Sóknaraðili er LBI hf., Álfheimum 74, Reykjavík, en varnaraðili er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík.

                Sóknaraðili krefst þess að honum verði afhent öll innstæða á innlánsreikningi nr. 0140-15-380411, með því að öll innstæðan ásamt öllum áföllnum vöxtum á úttektardegi verði tekin út af þeim reikningi og lögð inn á innlánsreikning sóknaraðila nr. 0180-26-900187. Sóknaraðili krefst einnig málskostnaðar úr hendi varnaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

                Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Málavextir

Hinn 14. apríl 2008 gerðu Landsbankinn í Lúxemborg S.A. og Sutherland Consultancy Inc. með sér lánssamning þar sem bankinn lánaði síðarnefnda félaginu 500.000 evrur. Til tryggingar á greiðslu lánsins var bankanum veitt veð, annars vegar í eignum Sutherland í vörslum bankans, hins vegar setti Jón Rúnar Halldórsson, kt. 231057-4129, að veði innstæðu í hans eigu sem þá var í vörslum Landsbanka Íslands hf. Í handveðsyfirlýsingu Jóns Rúnars, dags. 27. apríl 2008, kemur fram að hann setji og afhendi bankanum ,,að handveði, innstæðu á bankareikningi nr. 140-15-380411, eins og hún er á hverjum tíma‟. Tekið er fram að handveðrétturinn nái til hvers konar arðs af hinu veðsetta. Handveðréttur nái til allrar innstæðu bankareikningsins, hverju nafni sem nefnist, og hvort sem um höfuðstól, vexti, verðbætur eða annað sé að ræða. Á gildistíma veðréttarins sé veðsala óheimilt að ráðstafa hinu veðsetta, s.s. með því að taka fjármuni út af reikningnum. Þessu til tryggingar verði reikningnum læst fyrir útborgunum annarra en bankans. Verði vanskil á þeim skuldum sem handveðið eigi að tryggja, þær gjaldfelldar af öðrum ástæðum eða veðsali brjóti gegn ákvæðum yfirlýsingarinnar, sé bankanum heimilt að taka innstæðuna út, í heild eða hluta, til lúkningar þeirra skulda og kostnaðar sem handveðið eigi að tryggja.

Á grundvelli ákvarðana Fjármálaeftirlitsins í október 2008, einkum ákvörðunar, dags. 9. október 2008, tók varnaraðili yfir skuldbindingar vegna innlána sem voru hjá Landsbanka Íslands hf. Innstæðan er því í vörslum varnaraðila og er númer innlánsreikningsins 0140-15-380411.

Með bréfi, dags. 12. janúar 2011, var Sutherland tilkynnt um gjaldfellingu skuldarinnar, þar sem vanskil hefðu orðið á greiðslum lánsins auk þess sem Sutherland hefði ekki bætt úr brotum á ákvæðum lánasamningsins um veðþekju. Hinn 29. júní 2012 framseldi Landsbankinn í Lúxemborg kröfu sína á hendur Sutherland, ásamt öllum tryggingarréttindum, til sóknaraðila, og var Sutherland upplýst um framsalið með bréfi dagsettu 26. júní 2012. Sóknaraðili sendi Jóni Rúnari tilkynningu, dags. 21. mars 2013, um að hann myndi ganga að fyrrnefndu handveði.

Hinn 26. apríl 2013 óskaði sóknaraðili eftir því við varnaraðila að fyrrnefndur reikningur yrði eyðilagður og sóknaraðila afhent innstæðan með því að hún yrði færð inn á reikning sóknaraðila nr. 0180-26-900187. Um leið lýsti sóknaraðili því skriflega yfir að varnaraðila yrði haldið skaðlausum vegna þessarar aðgerðar. Varnaraðili kveður sér hafa verið ókunnugt um fyrrnefndan lánssamning og handveðsyfirlýsingu. Varnaraðili hafi talið sér ekki óhætt að verða við kröfu sóknaraðila. Jón Rúnar hafi upplýst varnaraðila um að hann væri andsnúinn því að fjárhæðin yrði greidd út, telji að hann hafi ekki hlotið sanngjarna meðferð og að nú eigi að svipta hann eigum sínum með valdi án þess að hans sjónarmið og varnir komist að. Hinn 25. maí 2013 tilkynnti varnaraðili sóknaraðila að hann hefði ekki tekist á hendur vörslur veðsins. Varnaraðili gæti því ekki hlutast til um að fjárhæðin yrði látin af hendi án samþykkis eiganda reikningsins.

Málsástæður sóknaraðila

                Sóknaraðili byggir á því að hann njóti veðréttinda í reikningi nr. 0140-15-380411. Sóknaraðili hafi birt fyrir eiganda reikningsins og veðsala, Jóni Rúnari Halldórssyni, tilkynningu um að gengið verði að innstæðu á hinum handveðsetta reikningi. Lánið sem veðið eigi að tryggja sé í vanskilum og hafi verið gjaldfellt. Skuld Sutherland Consultancy Inc., sem veðinu sé ætlað að tryggja, sé óumdeild að mati sóknaraðila, enda hafi honum aldrei borist nein mótmæli við kröfum á grundvelli lánasamningsins, hvorki frá skuldara hennar né Jóni Rúnari. Varnaraðili hafi hafnað því að afhenda sóknaraðila innstæðu reikningsins án lögmætrar ástæðu, enda verði synjun afhendingar ekki byggð á óréttmætum og órökstuddum mótmælum Jóns Rúnars.

                Varnaraðili hafi samkvæmt því með ólögmætum hætti aftrað því að sóknaraðili njóti réttinda sinna yfir innstæðu reikningsins. Aðgerðir og afstaða varnaraðila hafi leitt til þess að sóknaraðili geti ekki leitað fullnustu í innstæðu reikningsins eins og hann eigi rétt á. Sóknaraðili vísar til þess að samkvæmt 7. gr. handveðsyfirlýsingarinnar sé veðsala heimilt að leita fullnustu í innstæðu reikningsins, verði vanskil á þeirri skuld sem veðið eigi að tryggja. Sóknaraðila sé því nauðsyn að krefjast afhendingar á innstæðu hins handveðsetta reiknings.

                Sóknaraðili telur að varnaraðili skuli einn hafa aðild að þessu máli til varnar, enda hafi Jón Rúnar afsalað sér ráðstöfunarrétti yfir hinu veðsetta með veðsetningu innstæðu reikningsins, sbr. ákvæði handveðsyfirlýsingarinnar. Með því að handveðsetja innstæðu reikningsins hafi Jón Rúnar verið sviptur vörslum og ráðstöfunarrétti. Varnaraðili geti því einn ráðstafað innstæðu reikningsins til sóknaraðila. Skyldan til að afhenda hina veðsettu innstæðu hvíli því á varnaraðila einum. Fram kom hjá lögmanni sóknaraðila við munnlegan flutning málsins að sóknaraðili krefðist ekki afhendingar á ákveðnum peningum, heldur yfirfærslu yfirráða yfir fjárupphæð.

Um lagarök vísar sóknaraðili til aðfararheimildar í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 78. gr. sömu laga. Um heimild til að krefjast málskostnaðar vísar sóknaraðili til 2. mgr. 36. gr. og 84. gr. laga nr. 90/1989, sbr. einnig 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður varnaraðila

                Varnaraðili mótmælir því að lagaskilyrði beinnar aðfarargerðar séu uppfyllt. Að meginreglu sé ekki unnt að leita fullnustu á kröfu um peningagreiðslu með beinni aðför. Sóknaraðili sé hins vegar í reynd að leita fullnustu í peningum sem séu á innlánsreikningi hjá varnaraðila.

                Varnaraðili segir að ákvæði 73. gr. laga nr. 90/1989 hafi verið túlkað þannig að krafa sóknaraðila verði að beinast að því að sýslumaður taki af gerðarþola umráð yfir einhverju áþreifanlegu og nægilega sérgreindu. Í fræðilegri umfjöllun um beina aðför hafi ekki verið talið útilokað að fá peninga afhenta með beinni aðfarargerð, séu peningarnir sérgreindir í vörslum þess sem beiðni lýtur að. Þessu skilyrði sé hins vegar ekki fullnægt í þessu máli. Alkunna sé að peningar viðskiptamanna fjármálafyrirtækja séu ekki sérgreindir í vörslum þeirra. Innlán og innstæður feli ekki í sér annað og meira en að viðkomandi eigi kröfu sem nemur viðkomandi fjárhæð á hendur hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki. Í þessu felist að tilteknir fjármunir séu ekki sérstaklega sérgreindir hlutaðeigandi viðskiptamanni. Það lýsi sér t.d. vel í því að fari fjármálafyrirtæki í greiðsluþrot geti ekki allir innlánseigendur fengið fjármuni sína afhenta, t.d. á grundvelli sértökuréttar samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti, svo sem aðstaðan væri hins vegar ef fjármunir væru sérstaklega sérgreindir gagnvart hverjum viðskiptamanni, sbr. m.a. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Af framangreindu leiði að eigandi umkrafinnar innstæðu eða aðrir geti aldrei talist eiga sérgreinda fjármuni í vörslum varnaraðila, þannig að skilyrðum beinnar aðfarargerðar sé fullnægt. Telji sóknaraðili sig eiga lögvarinn rétt til fjárhæðar sem nemur innlánskröfunni verði hann að krefjast greiðslu á slíkri fjárhæð í almennu einkamáli sem hann geti síðan fullnustað með aðfarargerð í kjölfarið. Vandséð sé hvernig sýslumaður gæti fullnustað úrskurð um innsetningu, enda engum sérgreindum fjármunum fyrir að fara. Ekki verði heldur séð hvernig sýslumaður geti framkvæmt aðfarargerðina og afhent gerðarbeiðanda innstæðu tiltekins reiknings hjá varnaraðila.

                Réttarfarslegt skilyrði fyrir beinni aðfarargerð samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 sé að réttindi gerðarbeiðanda séu svo ljós að sönnur verði færðar fyrir réttmæti þeirra með gögnum sem afla má samkvæmt 1. mgr. 83. gr. sömu laga. Varnaraðili mótmælir því að skilyrði um skýrleika sönnunar réttinda við beina aðför sé fullnægt. Í dómaframkvæmd hafi verið byggt á því að skilyrði beinnar aðfarargerðar sé að krafa gerðarbeiðanda sé það ljós að öldungis megi jafna til að dómur hafi gengið um hana. Réttmæti umráðakröfu gerðarbeiðanda verði þannig að vera auðsannað og um leið hafið yfir skynsamlegan vafa, sbr. 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989. Gögn meðfylgjandi aðfararbeiðninni varði samningssamband Landsbankans í Lúxemborg og Sutherland Consultancy Inc. Jafnframt fylgi með einhliða tilkynningar til síðarnefnda félagsins og Jóns Rúnars Halldórssonar um ætlaða vanefnd á samningnum. Engin gögn séu lögð fram sem sýni með ótvíræðum hætti að lánið hafi verið vanefnt, t.d. yfirlit yfir greiðslur lánsins o.fl. Framlögð gögn séu óþýdd og sé það ekki í samræmi við 3. mgr. 10. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

                Umræddur lánssamningur sé gerður af aðilum sem ekki séu aðilar að þessu máli og ágreiningur um réttmæti kröfu sóknaraðila komist ekki að í slíku máli fyrir dómstólnum. Í ákvæði lánssamningsins nr. 22.2 segi að ágreiningur um efni hans skuli borið undir dómstól í Lúxemborg. Ekki sé hægt að aðskilja ágreining um efndir og efni samningsins við ágreining um uppgjör hans. Því beri að hafna að aðförin nái fram að ganga þar sem að ágreiningur um lánssamninginn eigi ekki undir lögsögu íslenskra dómstóla, þrátt fyrir að fram komi í handveðsyfirlýsingunni að ágreiningsmál um hana megi reka fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Fyrir liggi að eigandi innstæðunnar hafi sjónarmið um uppgjör lánssamningsins sem séu líkleg til ágreinings. Úr slíkum ágreiningi verði ekki leyst nema með því að taka aðila- og vitnaskýrslur af hlutaðeigandi. Slíkt sé hins vegar ófært í fyrirliggjandi máli, sbr. 81. gr. laga nr. 90/1989. Með vísan til 3. mgr. sömu greinar verði að synja um gerðina enda varhugavert að láta hana fara fram eingöngu á grundvelli þeirra gagna sem fyrir liggja í málinu.    

Um lagarök vísar varnaraðili til laga nr. 75/1997 um samningsveð, laga nr. 90/1989 um aðför, laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og meginreglna samninga- og veðréttar. Krafa um málskostnað byggist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 84. gr. laga um aðför. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Varnaraðili sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir þessum skatti úr hendi sóknaraðila.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför er manni, sem með ólögmætum hætti er aftrað að neyta réttinda sinna, heimilað að beina til héraðsdómara beiðni um að skyldu þess efnis sem getur í 72. eða 73. gr. laganna verði fullnægt með aðfarargerð þótt aðfararheimild samkvæmt 1. gr. laganna liggi ekki fyrir. Ákvæði 72. gr. fjallar um skyldu gerðarþola til að víkja af fasteign eða til að láta gerðarbeiðanda af hendi umráð hennar að einhverju leyti eða öllu, eða til að fjarlægja hluti af henni. Í 73. gr. er fjallað um skyldu gerðarþola til að veita gerðarbeiðanda umráð annars en þess sem 72. gr. tekur til.

Ákvæði 73. gr. hefur verið túlkað þannig að krafa gerðarbeiðanda verði að beinast að því að sýslumaður taki af gerðarþola umráð yfir einhverju áþreifanlegu. Þá verður krafa gerðarbeiðanda að vera þess efnis að hægt sé að fullnægja henni við gerðina samkvæmt aðalefni hennar. Af þessu leiðir m.a. að andlag innsetningargerðar verður að vera bæði áþreifanlegt og nægilega sérgreint. Vegna þessa hefur verið litið svo á að með aðfarargerð sé ekki hægt að leita fullnustu á kröfu um peningagreiðslu, nema féð sé skýrt aðgreint í vörslum gerðarþola, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands frá 11. mars 1953 í máli nr. 116/1952 og 24. mars 2010 í máli nr. 167/2010. Sönnunarbyrði um að fjármunir séu nægilega sérgreindir hvílir á sóknaraðila.

Sóknaraðili krefst þess að honum verði afhent öll innstæða á tilteknum bankareikningi sem er í vörslum varnaraðila, með því að öll innstæðan ásamt öllum áföllnum vöxtum á úttektardegi verði tekin út af þeim reikningi og lögð inn á tiltekinn innlánsreikning sóknaraðila. Fram kom hjá lögmanni sóknaraðila við munnlegan flutning málsins að sóknaraðili krefðist ekki afhendingar á ákveðnum peningum, heldur yfirfærslu yfirráða yfir fjárupphæð. Í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 167/2010 krafðist gerðarbeiðandi þess að tiltekin fjárhæð, sem ekki var deilt um að væri í vörslum gerðarþola á tilteknum bankareikningi, yrði með beinni aðfarargerð tekin úr vörslum gerðarþolans. Um var að ræða heildarinnstæðu bankareikningsins. Í úrskurði héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti með vísan til forsendna, sló dómurinn því föstu að ekki hefði komið fram að fjármunir gerðarbeiðandans væru þrátt fyrir það sérgreindir í vörslum gerðarþola og var kröfu hans um beina aðfarargerð því hafnað. Í því máli snerist kröfugerð gerðarbeiðanda í reynd um að heildarinnstæða bankareiknings yrði tekin úr vörslum gerðarþola, fjármálafyrirtækis, og afhent honum, þótt kröfugerðin hafi verið orðuð með öðrum hætti en í þessu máli. Sóknaraðili hefur ekki fært fram haldbær rök fyrir því af hverju dómurinn ætti að víkja frá þessu fordæmi Hæstaréttar. Sóknaraðili hefur ekki haldið því fram að umræddir fjármunir séu með öðrum hætti sérgreindir í vörslum varnaraðila. Raunar hefur sóknaraðili útskýrt kröfugerð sína þannig að hann krefjist þess ekki að honum verði afhentir ákveðnir peningar sem séu sérgreindir í vörslum varnaraðila, heldur að yfirráð yfir fjárupphæð verði yfirfærð til hans. Að þessu virtu verður málatilbúnaður sóknaraðila ekki skilinn öðruvísi en svo að hann krefjist í reynd fullnustu á kröfu um peningagreiðslu. Við slíkri kröfu er ekki unnt að verða í máli sem rekið er eftir 13. kafla laga nr. 90/1989. Verður því að hafna kröfu sóknaraðila.

Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir, eftir atvikum og með hliðsjón af umfangi málsins, vera hæfilega ákveðinn 313.750 krónur og er þá tekið tillit til virðisaukaskatts.

Ásbjörn Jónasson, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kröfu sóknaraðila, LBI hf., um að honum verði afhent öll innstæða á innlánsreikningi nr. 0140-15-380411, með því að öll innstæðan ásamt öllum áföllnum vöxtum á úttektardegi verði tekin út af þeim reikningi og lögð inn á innlánsreikning sóknaraðila nr. 0180-26-900187, er hafnað.

Sóknaraðili greiði varnaraðila, Landsbankanum hf., 313.750 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskatt.