Hæstiréttur íslands

Mál nr. 209/2003


Lykilorð

  • Frávísun frá Hæstarétti


Fimmtudaginn 12

 

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004.

Nr. 209/2003.

Ásdís Björnsdóttir og

Hróðmar Margeirsson

(sjálfur)

gegn

Aldínu Snæbjörtu Ellertsdóttur

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Frávísun máls frá Hæstarétti.

Að gengnum dómi héraðsdóms höfðu áfrýjendur fyrirvaralaust innt af hendi greiðslu til stefndu í samræmi við niðurstöðu héraðsdóms. Áfrýjun málsins af þeirra hálfu var ekki samrýmanleg þeirri greiðslu og var málinu því vísað frá Hæstarétti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar að fengnu áfrýjunarleyfi 28. maí 2003. Þau krefjast aðallega sýknu af kröfu stefndu. Til vara krefjast þau þess að hlutur stefndu í greiðslumarki jarðarinnar Ögmundarstaða í Skagafirði verði miðaður við eign hennar sem hlutfall af lögbýlinu öllu sem sé 1,17%. Þá krefjast þau málskostnaðar.

Stefnda áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 22. júlí 2003. Krefst hún þess í aðalsök aðallega að kröfum áfrýjenda verði vísað frá Hæstarétti en til vara krefst hún sýknu. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Í gagnsök krafðist hún þess að krafa sín fyrir héraðsdómi á hendur áfrýjendum og Bændasamtökum Íslands yrði tekin til greina og þau dæmd til að greiða sér óskipt 1.628.000 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Með bréfi 9. febrúar 2004 felldi stefnda gagnsökina niður. 

Bændasamtök Íslands áfrýjuðu héraðsdómi fyrir sitt leyti 27. ágúst 2003. Kröfðust samtökin aðallega sýknu af kröfu Aldínu Snæbjartar Ellertsdóttur, en til vara að krafan yrði lækkuð. Að því frágengnu kröfðust samtökin staðfestingar héraðsdóms. Í öllum tilvikum var krafist málskostnaðar úr hendi Aldínu Snæbjartar, bæði í héraði og fyrir Hæstarétti. Með bréfi 9. febrúar 2004 var gagnsök felld niður af hálfu Bændasamtaka Íslands.

Fyrir liggur að áfrýjendur inntu í nóvember 2002 fyrirvaralaust af hendi greiðslu til stefndu í samræmi við niðurstöðu hins áfrýjaða dóms. Er áfrýjum málsins af þeirra hálfu ekki samrýmanleg þeirri greiðslu og verður málinu því vísað frá Hæstarétti.

 Verða áfrýjendur dæmd óskipt til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

        Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Áfrýjendur, Ásdís Björnsdóttir og Hróðmar Margeirsson, greiði óskipt stefndu, Aldínu Snæbjörtu Ellertsdóttur, 75.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 10. júlí 2002.

I.

                Mál þetta sem tekið var til dóms að loknum munnlegum flutningi 24. maí sl., er höfðað af Aldínu Snæbjörtu Ellertsdóttur, Hólavegi 4, Sauðárkróki með stefnu birtri 24. og 26. nóvember 2001 á hendur Ásdísi Björnsdóttur og Hróðmari Margeirssyni, Ögmundarstöðum, Skagafirði og Bændasamtökum Íslands, Bændahöllinni við Hagatorg í Reykjavík.

                Dómkröfur stefnanda.

                Stefnandi krefst þess að stefndu verði sameiginlega gert að greiða honum 1.628.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 16. júlí 1999 til 1. júlí 2001 en með vöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt kefst hann málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti samkvæmt málskostnaðarreikningi.

                Dómkröfur stefndu.

                Stefndu, Ásdís Björnsdóttir og Hróðmar Margeirsson, krefjast aðallega sýknu en til var að krafa stefnanda verði lækkuð. Í báðum tilfellum krefjast þau málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

                Stefndi, Bændasamtök Íslands, krefst sýknu af kröfum stefnanda en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar.  Í báðum tilfellum krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

                Upphaflega krafðist stefnandi ógildingar á sölusamningi stefndu Hróðmars og Ásdísar við Sigurð Sigfússon bónda, Vík, Skagafirði en undir rekstri málsins féll hann frá þeirri kröfu.

II.

                Málavextir.

                Stefnandi fékk á árinu 1995 leyfi til setu í óskiptu búi eftir maka sinn Friðrik Margeirsson. Dánarbúið er samkvæmt fasteignabók eigandi að 1/12 hluta jarðarinnar Ögmundarstöðum í Skagafirði samkvæmt skiptagerningi frá 1961.  Stefndi Hróðmar eignaðist samkvæmt sama gerningi einnig 1/12 hluta jarðarinnar en hefur keypt hluta annarra sameigenda sinna og síðast keypti hann 7/12 á árinu 1978 og er hann samkvæmt fasteignabók eigandi að 11/12 hlutum jarðarinnar.  Í október 1997 seldi stefnandi stefnda Hróðmari hluta sinn í íbúðarhúsi byggðu 1940 og eldri hlöðu. Eftir það átti stefnandi ekki hlut í mannvirkjum á jörðinni. 

                Stefndu Hróðmar og Ásdís hafa búið að Ögmundarstöðum undanfarna áratugi og stundað þar mjólkurframleiðslu og hefur allt mjólkurinnlegg sem frá jörðinni hefur komið verið í nafni stefnda Hróðmars.  Óumdeilt er að stefnandi hefur aldrei stundað mjólkurframleiðslu á jörðinni en Friðrik heitinn Margeirsson var þar með hross og sauðfé. 

                Á árinu 1983 var úthlutað búmarki til Ögmundarstaða og byggðist það, samkvæmt reglugerð nr. 465/1983, á skattframtölum stefnda Hróðmars fyrir árin 1976, 1977 og 1978.  Á árinu 1986 kom fullvirðisréttur í stað búmarks og með lögum nr. 99/1993 kom greiðslumark í stað fullvirðisréttar.  Óumdeilt er að greiðslumark jarðarinnar er til komið vegna mjólkurframleiðslu stefndu Hróðmars og Ásdísar.  Fyrir verðlagsárið 1998 til 1999 var greiðslumark Ögmundarstaða 85.085 lítrar af mjólk.  Af því magni keyptu stefndu Ásdís og Hróðmar á árunum 1991 til 1996 alls 30.643 lítra.  Þá er því haldið fram af stefndu Ásdísi og Hróðmari  hafi á árinu 1986, fengið úthlutað 7000 lítrum af mjólk sem sérstakan styrk vegna byggingar á fjósi og haughúsi.  Heildargreiðslumark var lækkað sem nam tæpu 1% fyrir verðlagsárið 1998 til 1999 en sú lækkun náði ekki til þess greiðslumarks sem selt var frá býlinu til Sigurðar Sigfússonar í júlímánuði 1999.  Samtals seldu stefndu Ásdís og Hróðmar Sigurði 81.400 lítra af greiðslumarki til mjólkurframleiðslu og hafa stefndu haldið því fram að kaupverð hafi verið 150 krónur fyrir hvern lítra.  Tilkynning um aðilaskiptin að greiðslumarkinu var undirrituð 17. ágúst 1999 og staðfest af Framleiðsluráði landbúnaðarins 16. september 1999. Þann 16. júlí 1999 sendi þáverandi lögmaður stefnanda Framleiðsluráði landbúnaðarins bréf þar sem fram kom að stefndi Hróðmar hefði selt mjólkurkvóta jarðarinnar.  Í bréfinu var þess óskað að salan yrði stöðvuð á þeim forsendum að ekki lægi fyrir samþykki allra eigenda jarðarinnar. Sama dag sendi lögmaðurinn stefnda Hróðmari bréf og fór þess á leit við hann að hann greiddi stefnendum 1/12 hluta andvirðis greiðslumarksins. Þann 17. september sama ár ítrekaði lögmaðurinn erindið við Framleiðsluráð landbúnaðarins og áskildi umbjóðendum sínum allan rétt. 

                Þann 18. apríl 2000 tilkynnti stefnandi Bændasamtökum Íslands um sölu á 4.506 lítrum af greiðslumarki til Foss ehf. frá Ögmundarstöðum.  Bændasamtökin leituðu eftir afstöðu stefnda Hróðmars vegna þessarar sölu en hann mótmælti sölunni harðlega.  Með bréfi dagsettu 28. júní 2000 samþykktu Bændasamtökin söluna.  Þeirri ákvörðun skaut stefndi Hróðmar til úrskurðarnefndar greiðslumarks skv. 42. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Með úrskurði uppkveðnum þann 28. september 2000 felldi nefndin staðfestingu Bændasamtakanna á sölunni úr gildi. 

 

III.

                Málsástæður og lagarök stefnanda.

                Af hálfu stefnanda er á því byggt að hún fari með öll umráð dánarbús Friðriks Margeirssonar á grundvelli búsetuleyfis og eigi þannig aðild að málinu.  Stefnandi heldur því fram að greiðslumark jarðarinnar hafi verið bundið við lögbýlið Ögmundarstaði en ekki ábúendur jarðarinnar stefndu, Ásdísi og Hróðmar.  Stefndu Ásdísi og Hróðmari hafi af þeim sökum borið skylda til að leita eftir samþykki hennar sem sameiganda að jörðinni áður en þau seldu greiðslumarkið frá jörðinni sbr. ákvæði 46. og 47. gr. laga nr. 99/1993 og 2. gr. rgj. nr. 363/1996.  Af hálfu stefnanda er því haldið fram að heimildum til að framleiða mjólk á jörðinni hafi verið úthlutað til lögbýlisins en ekki til stefndu.  Með sölu greiðslumarksins frá jörðinni hafi stefndu rýrt þessi hlunnindi jarðarinnar svo mjög að jörðin muni ekki hafa heimild til mjólkurframleiðslu nema sem nemi þeim litla hluta sem enn eru skráðir á býlið.  Ljóst sé að ekki verði framar framleidd mjólk á býlinu nema með því að greiðslumark verði keypt þangað gegn hærra endurgjaldi en það var selt á en fyrir liggi að á síðasta verðlagsári hafi almennt gangverð á greiðslumarki mjólkur verið 240 krónur fyrir lítrann.

                Stefnandi heldur því fram að með sölu greiðslumarksins hafi stefndu Ásdís og Hróðmar, með fulltingi stefnda Bændasamtaka Íslands, rýrt verðmæti jarðarinnar sem nemur þessum verðmætum og þar með valdið honum tjóni. 

                Stefnandi byggir kröfu sína á hendur Bændasamtöku Íslands á því að samningur um sölu greiðslumarksins hafi verið háður því að Bændasamtökin samþykktu söluna.  Stefnda hafi verið kunnugt um að stefnandi var sameigandi jarðarinnar og því hafi honum borið að hafna aðilaskiptunum.  Eyðublað varðandi viðskipti sem þessi sem stafar frá stefnanda sjálfum gerir ráð fyrir samþykki eiganda lögbýlis ef hann er ekki seljandi.  Stefnda hafi því borið skylda til að stöðva sölu greiðslumarksins.  Með aðgerðaleysi sínu og athöfn hafi Bændasamtökin með beinum hætti skaðað stefnanda og orsakasamhengi sé á milli þess að stefndi hafðist ekkert að þrátt fyrir lagaskyldu og vitneskju um eignarheimildir stefnanda og tjóns þess sem stefnandi varð fyrir.  Ábyrgð Bændasamtakanna sé óvefengjanleg og skýlaus hvað þetta varðar og vísar stefnandi til dóms Hæstaréttar Íslands nr. 279/2000 í því efni. 

                Stefnandi heldur því fram að hann eigi óskiptan 1/12 hluta jarðarinnar með gögnum hennar og gæðum. Samkomulag stefnanda og stefnda Hróðmars frá 17. september 1997 sé ekki skiptagerningur og því sé jörðin enn í óskiptri sameign og þar með eigi stefnandi eignarrétt í öllu landi jarðarinnar hvort sem það er ræktað eða óræktað. Þá heldur stefnandi því fram að stefndu Hróðmar og Ásdís hafi notað sameiginlegt beitiland og ræktuð tún til mjólkurframleiðslu.  Stefndi Hróðmar hafi aldrei viljað skipta út jarðarskika til handa stefnanda þrátt fyrir vilja stefnanda í þá átt.  Af hálfu stefnanda er því sérstaklega mótmælt að úrskurður úrskurðarnefndar greiðslumarks skv. 42. gr. laga nr. 93/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum hafi nokkra þýðingu í þessu máli. 

                Stefnandi byggir kröfur sínar ennfremur á 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og kveður að stefndu Ásdís og Hróðmar með atbeina stefnda Bændasamtaka Íslands, sem í þessu tilfelli sé stjórnvald, hafi með aðgerðum sínum svipt hann eignarréttindum sem séu samkvæmt nefndri grein stjórnarskrárinnar friðhelg.  Lög nr. 99/1993 sérstaklega greinar 46 og 47 taki undir þetta eignarréttarákvæði og veiti sameigenda sérstaka vernd með skýlausum ákvæðum sínum um að samþykki allra sameigenda þurfi að liggja fyrir ef ráðstafa eigi greiðslumarki frá lögbýli.  Stefndu Ásdís og Hróðmar hafi með ólögmætum og saknæmum hætti ráðstafað greiðslumarki sem þau vissu að var háð eignarrétti annarra og þau verði að svara fyrir vanheimild sína hvað þetta varðar og bæta stefnanda að fullu það tjón sem hann varð fyrir.  Stefndi, Bændasamtök Íslands studdi þessar ólögmætu athafnir með því að leita ekki eftir samþykki annarra sameigenda eins og honum var skylt að gera áður en hann staðfesti flutning á greiðslumarkinu af býlinu.  Í stað þess að stöðva söluna eftir að fram komu hörð mótmæli frá stefnanda hafi stefndi Bændasamtök Íslands samþykkt söluna og þar með bakað stefnanda tjón.  Stefnandi heldur því fram að beint orsakasamband sé á milli samþykkis Bændasamtakanna á sölu greiðslumarksins og tjóns þess sem hann varð fyrir. 

                Stefnandi kveður kröfu sína vera skaðabótakröfu utan samninga vegna sannanlegs tjóns sem stefndu bera ábyrgð á.  Stefnandi krefst dráttarvaxta frá 16. júlí 1999 en þann dag var ritað bréf af hans hálfu til stefndu og þess krafist annarsvegar að stefndi Bændasamtök Íslands stöðvaði sölu greiðslumarksins og hins vegar að stefndi Hróðmar greiddi stefnanda hans hluta af söluandvirði greiðslumarksins.  Stefnandi byggir á því að hann eigi tilkall til 1/12 af söluverði greiðslumarksins og miðar kröfu sína við að selt hafi verið greiðslumark er nam 81.400 lítrum af mjólk.  Stefnandi leggur til grundvallar að verð hvers lítra hafi verið 240 krónur.  Samtals hafi andvirðið því verið 19.536.000 krónur og hans hluti af þeirri fjárhæð sé 1.628.000 krónur með gjalddaga sama dag og kröfubréf vegna sölunnar var ritað þann 16. júlí 1999. 

                Hvað lagarök varðar vísar stefnandi til 46. og 47. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu og verðlagningu og sölu á búvörum með síðari breytingum og reglugerðar nr. 363/1996.  Þá vísar hann til 72. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.  Einnig til meginreglna kröfuréttarins og íslensks skaðabótaréttar.  Þá vísar hann til III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 og laga nr. 38/2000.  Málskostnaðarkröfu sína byggir stefnandi á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála og krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er studd við lög nr. 50/1988.

Málsástæður stefndu Ásdísar Björnsdóttur og Hróðmars Margeirssonar.

Stefndu Ásdís og Hróðmar byggja kröfur sínar á því að stefnandi eigi enga hlutdeild í greiðslumarki lögbýlisins Ögmundarstaða og þess vegna ekki aðild að málinu sem þegar af þeirri ástæðu leiði til sýknu.  Greiðslumark lögbýlisins sé að öllu leyti tilkomið vegna mjólkurframleiðslu þeirra svo og vegna kaupa þeirra á greiðslumarki.  Jarðarhluti stefnanda hafi ekkert verið nýttur til mjólkurframleiðslu og þar með hafi hans jarðarpartur ekki skapað neinn grundvöll að úthlutuðu greiðslumarki.  Stefnandi hafi þvert á móti alltaf nýtt sinn hluta jarðarinnar til heyskapar og girt hann af.  Stefndu halda því fram að stefnandi hafi ekki öðlast eignarrétt, verndaðan af 72. gr. stjórnarskrárinnar, á búmarki, fullvirðisrétti eða greiðslumarki því sem skráð var á stefnda Hróðmar og fylgdi lögbýlinu Ögmundarstöðum. Löggjöf á þessu sviði hafi þvert á móti lagt grundvöll að atvinnuréttindum sem njóti verndar stjórnarskrárinnar með þeim hætti að búvöruframleiðendur hafi stundað atvinnu sína í réttmætu trausti og fyrirheita löggjafans um fjárframlög og á því hafi þeir reist afkomu sína.  Stefnandi hafi ekki framleitt búvörur, ekki búið á lögbýli og því ekki fengið búmark á þeim tíma sem því var úthlutað og þar með eigi hann engin réttindi sem tengjast greiðslumarki jarðarinnar eða framsali á því.  Þá vísa stefndu til úrskurðar úrskurðarnefndar greiðslumarks samkvæmt 42. gr. laga nr. 99/1993 en nefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi ætti ekkert tilkall til greiðslumarks jarðarinnar Ögmundarstaða með þeim rökum að stefndi Hróðmar hafi alla tíð verið skráður fyrir greiðslumarki jarðarinnar, greiðslumarkið sé tilkomið vegna mjólkurframleiðslu á hans jarðarparti og að jarðarparti stefnanda hafi verið skipt út, hvað mjólkurframleiðslu varðar með þeim hætti að jafna megi til afnotaskipta. 

Stefndu halda því fram, ef krafa stefnanda um hlutdeild í greiðslumarkinu verður tekin til greina, að miða beri við eignahlut stefnanda í lögbýlinu Ögmundarstöðum eins og það er í fasteignamati eða 1, 17%.  Halda stefndu því fram að búskapur verði ekki stundaður án bygginga og aðstöðu til búrekstrar.  Búmarki hafi verið úthlutað til lögbýlisins Ögmundarstaða og samkvæmt 1. gr. ábúðarlaga nr. 64/1976 komi fram að lögbýli þurfi ákveðið landrými og búrekstraraðstöðu. Fasteignamat lögbýlisins Ögmundarstaða sé 10.900.000 krónur og þar af sé hluti stefnanda 1/12 hluti af ræktuðu landi sami hluti af óræktuðu landi og sami hluti af lax- og silungsveiðiréttindum samtals 129.699 krónur eða 1,17%.  Af hálfu stefndu er á því byggt að fyrir liggi að greiðslumark lögbýlisins hafi á verðlagsárinu 1998 til 1999 verið 85.906 lítrar.  Þar af hafi 30.643 lítrar verið sérskráðir á stefndu þar sem þau hefðu keypt það til lögbýlisins.  Auk þess séu 7.000 lítrar tilkomnir sem sérstakur styrkur til þeirra vegna fjósbyggingar.  Keypt greiðslumark og styrkinn beri að draga frá heildargreiðslumarkinu og komi ekki til skipta.  Greiðslumark sem stefnandi geti gert tilkall til sé því 48.263 lítrar.  Stefndu halda því fram að stefnandi eigi því aldrei meiri rétt en sem nemur 565 lítrum en á lögbýlinu séu enn skráðir 3.757 lítrar. 

                Af hálfu stefndu er á því byggt að verð það sem stefnandi miðar kröfu sína við sé of hátt.  Greiðslumarkið hafi verið selt á 150 krónur hver lítri og við þá fjárhæð verði að miða.  Stefnandi geti ekki krafið um fjárhæð sem tekur mið af hærra söluverði ella yrði hann betur settur en ef hann hefði fengið greiðslu í samræmi við eignarhlut sinn.  Stefndu mótmæla sérstaklega viðmiðunarverði því sem stefnandi byggir á og segja ósannað að 240 krónur hafi verið greiddar fyrir hvern lítra á síðasta verðlagsári.  Þá telja stefndu að ekki sé fært að dæma dráttarvexti fyrr en frá dómsuppsögu.

                Málsástæður og lagarök Bændasamtaka Íslands.

                Af hálfu Bændasamtaka Íslands er því haldið fram að stefnandi hafi ekki átt neina hlutdeild í því greiðslumarki sem selt var frá Ögmundarstöðum og þar af leiðandi engan bótarétt. Greiðslumark jarðarinnar sé að öllu leyti til komið fyrir tilverknað meðstefndu. Vísar stefndi í þessu sambandi til úrskurðar úrskurðarnefndar um greiðslumark en þar komi fram að stefnandi hafi ekki framleitt mjólk á Ögmundarstöðum og greiðslumark jarðarinnar sé að öllu leyti til komið vegna mjólkurframleiðslu meðstefndu og kaupa þeirra á greiðslumarki.  Telur stefndi að stefnandi verði að sanna að hann hafi eignast hlutdeild í greiðslumarkinu en slík sönnun hafi ekki komið fram.  Þar sem stefnandi eigi ekki hlutdeild í greiðslumarkinu skorti hann aðild að málinu sem leiði til sýknu.

                Af hálfu stefnda er á því byggt, ef ekki verður fallist á kröfu hans um sýknu, að lækka beri kröfur stefnanda verulega þar sem tjón hans hafi ekki orðið eins mikið og hann heldur fram.  Áunnið greiðslumark jarðarinnar fyrir verðlagsárið 1998 til 1999 hafi verið 55.263 lítrar og 1/12 hluti þess sé 4.605 lítrar sem sé hámarkshluti stefnanda í greiðslumarkinu.  Á jörðinni séu í dag 3.757 lítrar og því geti tjón stefnanda ekki numið meiru en söluverði 848 lítra. 

Stefndi byggir á því að við útreikning á tjóni stefnanda verði að leggja til grundvallar það verð sem greiðslumarkið var selt á eða 150 krónur fyrir hvern lítra.  Tjón stefnanda takmarkist við þá fjárhæð sem var raunverulegt söluverð greiðslumarksins.  Verði miðað við aðra og hærri fjárhæð verði stefnandi betur settur en ef hann hefði fengið greitt í samræmi við eignarhlutdeild sína í jörðinni á þeim tíma sem salan fór fram.  Telur stefndi engan grundvöll vera fyrir því að miða við 240 krónur á lítrann eins og stefnandi geri og mótmælir því sérstaklega að það hafi verið gangverð á síðasta verðlagsári.

                Þá telur stefndi ekki grundvöll til að dæma dráttarvexti fá fyrra tímamarki en dómsuppsögu.  Í bréfum lögmanns stefnanda frá 16. júlí 1999 sé ekki að finna neina fjárkröfu og því ekki hægt að miða við það tímamark eins og stefnandi geri. 

                Hvað lagarök varðar vísar stefndi til ákvæða laga nr. 99/1993 um framleiðslu og sölu á búvörum með síðari breytingum, einkum X. kafla laganna.  Þá vísar hann og til almennra reglna skaðabótaréttarins. Einnig til almennra reglna eignaréttar um sérstaka sameign. Þá vísar hann til almennra reglna fjármunaréttar um réttaráhrif tómlætis.  Hvað dráttarvexti varðar bendir stefndi á 3. mgr. 9. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 nú 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.  Málskostnaðarkröfu sína byggir stefndi á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 

IV.

                Niðurstaða.

                Stefndi, Bændasamtök Íslands hefur tekið við öllum réttindum og skyldum Framleiðsluráðs landbúnaðarins og á þannig aðild að málinu. 

Fyrir liggur að stefnandi hefur ekki stundað mjólkurframleiðslu á jörðinni og að greiðslumark hefur alla tíð verið skráð á stefnda Hróðmar.  Hæstiréttur Íslands hefur í dómum sínum, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar 8. mars 2001 í málinu nr. 279/2000, slegið því föstu að eigandi jarðar þurfi ekki að standa að búrekstri til þess að eiga tilkall til þeirra verðmæta sem felast í greiðslumarki.  Greiðslumark tilheyri viðkomandi lögbýli án tillits til þess hver stundaði framleiðslu sem greiðslumarkið grundvallast á.  Skiptir því ekki máli þótt greiðslumark Ögmundarstaða, sem hér er deilt um, sé alfarið tilkomið vegna mjólkurframleiðslu stefndu Hróðmars og Ásdísar.

                Hæstiréttur Íslands hefur einnig komist að þeirri niðurstöðu að þó svo búmarki hafi ekki verið úthlutað sem framleiðslurétti, heldur að það sé viðmiðunartala sem skerðing á afurðarverði reiknist frá, þá skapi það engu að síður takmarkaðan rétt til handa framleiðendum búvara sem geti haft fjárhagslega þýðingu fyrir þá.  Ákvæði um greiðslumark er í lögum nr. 99/1993.  Í 2. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 124/1995, er greiðslumark lögbýlis skilgreint sem tiltekinn fjöldi ærgilda eða magn mjólkur mælt í lítrum, sem ákveðið er fyrir hvert lögbýli og veitir það rétt til beingreiðslu úr ríkissjóði.  Í 1. mgr. 46. gr. laga nr. 99/1993 segir að greiðslumark skuli bundið við lögbýli.  Hafi þessi réttur ekki verið framseldur með lögmætum hætti til annars lögbýlis fylgir hann lögbýlinu við eigenda- eða ábúendaskipti, sbr. dóm Hæstaréttar 24. febrúar 2000 í málinu nr. 310/1999.  Með vísan til þess sem að framan er rakið og áðurnefnds dóms Hæstaréttar í málinu nr. 279/2000 á stefnandi hlutdeild í umþrættu greiðslumarki lögbýlisins Ögmundarstaða og þannig hagsmuna að gæta við ráðstöfun þess. 

                Af hálfu stefndu, Hróðmars og Ásdísar, hefur verið bent á að eignarhluti stefnanda nemi einungis 1,17% af fasteignamati jarðarinnar og því eigi hann einungis þann hluta af lögbýlinu Ögmundarstöðum.  Á þetta sjónarmið verður ekki fallist enda er búmarki eingöngu úthlutað til lögbýla á grundvelli framleiðslu landbúnaðarafurða en ekkert tillit tekið til þeirra þátta sem metnir eru í fasteignamati.  

                Stefndu, Hróðmar og Ásdís, hafa einnig haldið því fram að landskipti sem jafna megi við útskiptingu sumarbústaðalands eða landskipta milli lögbýla.  Við skýrslugjöf fyrir dómi skýrði stefndi Hróðmar skiptingu túna milli hans og stefnanda.  Kvað hann tún stefnanda hafa verið afgirt og eingöngu notuð af stefnanda.  Þessu var mótmælt af vitninu Páli Friðrikssyni sem hefur nýtt land stefnanda á jörðinni eftir að faðir hans féll frá.  Bar hann að skepnur frá stefnda hafi farið inn á tún stefnanda.  Í málinu liggur frammi ljósrit úr fasteignabók sem ber með sér að landskipti hafa ekki farið fram.  Þrátt fyrir að stefnandi hafi um alllanga hríð notað afgirtar spildur af heimalandi jarðarinnar til beitar og heyskapar fyrir sínar skepnur leiðir það ekki til þess, gegn mótmælum stefnanda og skráningu í fasteignabók, að jafna megi til landskipta.  Eignarhluti stefnanda er því hluti af lögbýlinu Ögmundarstöðum.  Hér verður einnig að hafa í huga að sameiginlegt óræktað land var notað af stefndu Ásdísi og Hróðmari  til beitar fyrir búfénað þeirra og nýttist það þeim þannig beint og óbeint við mjólkurframleiðslu sína. 

                Stefnandi hefur frá upphafi mótmælt sölu greiðslumarksins.  Fyrst með bréfi þáverandi lögmanns síns frá 16. júlí 1999.  Hann reyndi einnig að selja sjálfur frá lögbýlinu hluta af greiðslumarkinu og með þeim hætti ætlaði hann að ná til sín þeim hluta sem hann telur að honum beri.  Stefndi Hróðmar andmælti þessari sölu og kærði ákvörðun stefnda, Bændasamtaka Íslands um að staðfesta söluna, til úrskurðarnefndar greiðslumarks samkvæmt 42. gr. laga nr. 99/1993 eins og áður er getið.  Þrátt fyrir að rúmt ár hafi liðið frá því að úrskurður nefndarinnar gekk og þar til mál þetta var höfðað verður ekki fallist á að sýkna beri stefndu vegna tómlætis stefnanda. 

                Af gögnum málsins verður ráðið að stefndu Hróðmar og Ásdís keyptu á árunum 1991 til 1996 30.643 lítra af greiðslumarki til jarðarinnar.  Það greiðslumark er tvímælalaust eign þeirra og getur stefnandi ekki átt tilkall til hlutdeildar í því.  Af hálfu stefndu hefur verið á það bent að á jörðinni sé enn 3.757 lítrar af greiðslumarki.  Því hefur ekki verið haldið fram að þetta greiðslumark sé hluti af því greiðslumarki sem stefndu Ásdís og Hróðmar keyptu og þannig séreign þeirra.  Skoða verður þetta greiðslumark sem hluta af sameign lögbýlisins. Ekki verður fallist á að 7000 lítra greiðslumark sem stefndu Hróðmar og Ásdís halda fram að úthlutað hafi verið til þeirra sem styrk vegna byggingar á fjósi og haughúsi sé séreign þeirra.  Gögn sem leiða til slíkrar niðurstöðu hafa ekki verið lögð fram í dóminum.  Samkvæmt þessu átti stefnandi 1/12 hluta af 55.263 lítrum greiðslumarks þegar salan fór fram á árinu 1999 eða sem svarar 4.605 lítrum.  (85.906 - 30.643 = 55.263 x 1/12 = 4.605.)

                Sala greiðslumarksins var til þess fallin að hafa í för með sér rýrnun á verðmæti jarðarinnar og þar með minnkaði verðmæti eignarhluta stefnanda.  Stefnandi á rétt á að vera eins settur og salan hefði ekki farið fram og má meta tjón hans sem kostnað við að koma jörðinni í samt horf.  Verð á greiðslumarki í mjólk er breytilegt frá einum tíma til annars og til að bæta stefnanda tjón hans hefði verið eðlilegt að miða við gangverð greiðslumarks á þeim tíma sem málinu var stefnt.  Stefnandi hefur hins vegar ekki lagt fram gögn sem sýna svo ekki verði um deilt hvert verðið var á þeim tíma.  Hann hefur lagt fram bréf Garðars Eiríkssonar skrifstofustjóra hjá Mjólkurbúi Flóamanna þar sem fram kemur að verð mjólkurkvóta hafi verið um 200 til 205 krónur fyrir hvern lítra í nóvember 2001. 

                Stefndu byggja á því að greiðslumarkið hafi verið selt á 150 krónur hver lítri og að við þá fjárhæð skuli miðað verði talið að stefnandi eigi einhvern hlut í greiðslumarkinu.  Því til stuðnings hefur verið lagt fram afrit skuldabréfs sem vitnið Sigurður Sigfússon í Vík gaf út til Kaupfélags Skagfirðinga.  Upphæð bréfsins í krónum er sama tala og seldir mjólkurlítrar margfaldaðir með 150. Vitnið Sigurður Sigfússon kaupandi greiðslumarksins bar fyrir dóminum að hann hefði greitt 150 krónur fyrir hvern lítra. Þetta ásamt framburði stefnda Hróðmars og yfirlýsingu fjármálastjóra Kaupfélags Skagfirðinga leiðir til þess að sannað þykir að stefndu Hróðmar og Ásdís hafi selt greiðslumarkið á 150 krónur lítrann. 

Stefnda Bændasamtökum Íslands var kunnugt um eignarhald stefnanda á hluta jarðarinnar og andstöðu hans við sölu greiðslumarksins.  Engu að síður staðfesti hann sölu greiðslumarksins, þrátt fyrir að honum bæri lögum samkvæmt að leita eftir samþykki þinglýstra eigenda.  Er hann því ábyrgur fyrir tjóni stefnanda ásamt stefndu Ásdísi og Hróðmari.  Áður er rakið að hluti stefnanda í greiðslumarkinu nam sem svarar 4.605 lítrum og miðað við 150 krónur fyrir hvern lítra nemur tjón hans 690.750 krónum.  Krafa stefnanda um vexti er tekin til greina eins og greinir í dómsorði. 

                Með hliðsjón af niðurstöðu málsins ber stefndu að greiða stefnanda in solidum málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur og hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

                Halldór Halldórsson dómstjóri, kveður upp dóm þennan.  Dómsuppsaga hefur dregist vegna anna dómarans og orlofs en sakflytjendur hafa lýst því yfir að þeir telji ekki þörf á endurflutningi málsins þess vegna.

 

DÓMSORÐ.

                Stefndu, Ásdís Björnsdóttir og Hróðmar Margeirsson, og Bændasamtök Íslands, greiði in solidum stefnanda, Aldínu Ellertsdóttur, 690.750 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 16. júlí 1999 til 1. júlí 2001, með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 11. desember 2001 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

                Stefndu greiði in solidum stefnanda 350.000 krónur í málskostnað.