Hæstiréttur íslands
Mál nr. 69/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
- Sjálfræði
|
|
Föstudaginn 8. febrúar 2013.
|
|
Nr. 69/2013.
|
A (Brynjólfur Eyvindsson hdl.) gegn B (enginn) |
Kærumál. Lögræði. Sjálfræði.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem A var svipt sjálfræði í tvö ár.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Helgi I. Jónsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. janúar 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. janúar 2013, þar sem sóknaraðili var að kröfu varnaraðila svipt sjálfræði í tvö ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að sjálfræðissviptingu verði markaður skemmri tími. Þá er krafist kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 150.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. janúar 2013.
Mál þetta, sem varðar kröfu sóknaraðila um að varnaraðili verði sviptur sjálfræði tímabundið í tvö ár, barst dóminum 22. janúar sl. Málið var þingfest og tekið til úrskurðar í dag.
Sóknaraðili málsins er B, [...], [...] en varnaraðili er A, [...], [...].
Sóknaraðili krefst þess að varnaraðili verði svipt sjálfræði tímabundið í tvö ár, sbr. a. og b. liði 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Þá er þess krafist að málskostnaður greiðist úr ríkissjóði þar með talin hæfileg þóknun til handa skipuðum talsmanni sóknaraðila, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997.
Varnaraðili krefst þess aðallega að beiðni sóknaraðila verði hafnað en til vara að sjálfræðissviptingu verði markaður skemmri tími. Þá er og gerð krafa um að skipuðum verjanda varnaraðila verði ákveðin hæfileg þóknun úr ríkissjóði með vísan til 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997.
Um aðild sína vísar sóknaraðili til a. liðar 2. mgr. 7. gr. laga nr. 71/1997 en hún er systir varnaraðila. Í beiðni sóknaraðila kemur fram að varnaraðili er fráskilin þriggja dætra móðir. Allar eru dætur hennar lögráða. Kemur fram í beiðninni að þær viti allar af beiðninni og styðji hana.
Varnaraðili var nauðungarvistuð á sjúkrahúsi með ákvörðun Innanríkisráðuneytisins 4. janúar sl., nánar tiltekið á deild 33A á Landspítala. Bar varnaraðili þá ákvörðun undir dóm sem hafnaði kröfu hennar um að fella framangreinda ákvörðun úr gildi með úrskurði 16. janúar sl. Sá úrskurður var staðfestur með dómi Hæstaréttar 21. janúar sl. í máli réttarins nr. 36/2013.
Með beiðni sóknaraðila fylgir læknisvottorð [...] geðlæknis á deild 33A á Landspítala-háskólasjúkrahúsi. Kemur þar m.a. fram að varnaraðili sé [...] árs gömul. Hún sé öryrki vegna alvarlegs geðsjúkdóms og fíknivanda til tuga ára. Kveðst læknirinn oftsinnis hafa komið að hennar málum á síðustu 10 árum og sé hann læknir hennar í yfirstandandi spítalalegu.
Þá kemur fram í vottorðinu að sjúkrasaga varnaraðila sé löng en hún hafi fyrst lagst inn á geðdeild fyrir 30 árum með geðrofseinkenni, en slík einkenni hafi loðað við hana allar götur síðan. Tímabil þar sem henni hafi versnað hafi einkennst af miklum ranghugmyndum, ofskynjunum og innsæisleysi. Einnig hafi geðslag verið sveiflukennt á köflum, bæði með örlyndi og einkennum þunglyndis. Á milli hafi komið góð tímabil sérstaklega í byrjun veikinda. Góð reynsla hafi verið af notkun geðrofslyfja við þessum einkennum. Til viðbótar geðrofssjúkdómi hafi varnaraðili ofnotað vímuefni til langs tíma. Fari yfirleitt saman vímuefnanotkun og versnandi geðhagur. Varnaraðili hafi á tímabilum náð góðum tökum á þessari neyslu og þá jafnan sýnt mikinn almennan bata. Fram kemur í vottorðinu að alla tíð hafi reynst erfitt að ná tökum á geðrænum vandamálum varnaraðila. Skoðun á sjúkraskrá sýni að síðustu tæpa tvo áratugi hafi varnaraðili verið lögð yfir 100 sinnum inn á geðdeild eða slysadeild. Mikið innsæisleysi hafi einkennt sjúkdóm varnaraðila alla tíð og hún endurtekið hætt töku geðlyfja og leitað í vímuefni (lögleg og ólögleg). Sjúkdómseinkenni hennar hafi endurtekið valdið því að líf hennar hafi verið í hættu. Í tvígang hafi kviknað í íbúð hennar.
Þá kemur fram að síðustu tvö ár hafi verið afleit. Varnaraðili hafi lagst 16 sinnum inn á deild 33A á þeim tíma. Hún hafi ekki sótt eftirlit eða stuðning og neitað að taka þau lyf sem læknar hafi talið henni nauðsynleg. Í núverandi innlögn hafi varnaraðili verið mjög veik. Hún sé með miklar ranghugmyndir um alls kyns hættur og óáran sem hrjái hana. Hún heyri stöðugt raddir. Það sé ekki nein samvinna og hún sé innsæislaus. Því hafi reynst nauðsynlegt að nauðungarvista hana í 21 dag.
Í niðurstöðu vottorðsins kemur fram að fagfólk á fíknigeðdeild hafi enn og aftur farið yfir mál varnaraðila. Það sé samdóma álit að hún þurfi nauðsynlega á meðferð að halda við sínum geðsjúkdómi. Þessa meðferð hafi ekki verið unnt að veita undanfarin ár vegna mikils innsæisleysis hennar og skorti á samvinnu við fagfólk geðdeildar. Það sé sömuleiðis samdóma álit fagfólks að ekki sé hægt að veita varnaraðila viðeigandi meðferð á næstunni nema gegn hennar vilja. Kveðst læknirinn því styðja beiðni um tímabundna sjálfræðissviptingu til tveggja ára.
[...] gaf skýrslu fyrir dóminum, staðfesti vottorð sitt og svaraði spurningum um efni þess. Varnaraðili gaf einnig skýrslu fyrir dómi.
Þá gaf [...] geðlæknir einnig skýrslu fyrir dóminum. Fram kom m.a í skýrslu hans að hann hafi ekki annast varnaraðila í nokkurn tíma, en af skýrslunni mátti ráða að hann teldi varnaraðila hafa verið haldna geðsjúkdómi sem þó hyrfi nánast alveg ef hún héldi sig frá neyslu áfengis og fíkniefna.
Það er mat dómsins að framburður varnaraðila hafi ekki verið með þeim hætti að varpað hafi rýrð á réttmæti fyrirliggjandi læknisvottorðs [...], eða þeirra ályktana sem þar eru dregnar um heilsufar hennar. Þá var skýrsla [...] ekki til þess fallin að draga úr trúverðugleika vottorðs [...], en einnig verður að hafa í huga að hann hefur ekki annast varnaraðila í þeirri innlögn á sjúkrahús sem nú stendur yfir.
Með vísan til þess sem rakið er hér að framan og þá einkum vottorðs geðlæknis, sem og framburðar læknisins hér fyrir dómi, þykir sýnt að varnaraðili er haldin alvarlegum geðsjúkdómi sem hún hefur ekki innsæi í og verður talið að hún sé af þeim sökum ófær um að ráða persónulegum högum sínum, sbr. a. lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 71/1997. Þykir einnig sýnt að hún á við fíknivanda að stríða sem telja verður að minnki batahorfur og er það mat dómsins að skilyrði b. liðar síðastnefnds lagaákvæðis séu því einnig uppfyllt í málinu. Verður af framangreindum ástæðum fallist á beiðni sóknaraðila. Með vísan til sjúkrasögu varnaraðila og fyrirliggjandi læknisvottorðs eru ekki rök til að marka sjálfræðissviptingu hennar skemmri tíma en krafist er, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 71/1997.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist málskostnaður úr ríkissjóði og er þar meðtalin þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila og þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, sem þykir hæfilega ákveðin með þeim fjárhæðum sem nánar greinir í úrskurðarorði og er virðisaukaskattur þar meðtalinn.
Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Varnaraðili, A, kt. [...], er svipt sjálfræði tímabundið í tvö ár.
Málskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Lúðvíks Emils Kaaber hdl., 75.300 krónur, og skipaðs verjanda varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 75.300 krónur.