Hæstiréttur íslands

Mál nr. 253/2015

Landsbankinn hf. (Aðalsteinn E. Jónasson hrl.)
gegn
Festu - lífeyrissjóði (Hlynur Halldórsson hrl.)
og gagnsök

Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Riftun
  • Endurgreiðsla
  • Tómlæti

Reifun

Fjármálafyrirtækið SV, sem síðar sameinaðist sparisjóðnum SK, gaf út skuldabréf sem greiða átti í einu lagi á gjalddaga í mars 2010, en F var kröfuhafi bréfsins. Í mars 2009 keypti SK bréfið af F og sama dag gerðu aðilar samning um að innlausnarverð þess, ásamt öðrum fjármunum, skyldi lagt á innlánsreikning hjá sparisjóðnum, en á þessum tíma var lausafjárstaða SK erfið. Í apríl 2010 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald stofnfjáreigendafundar SK og skipaði honum bráðabirgðastjórn. Jafnframt tók eftirlitið ákvörðun um ráðstöfun tilgreindra eigna sjóðsins og skuldbindinga hans vegna innlána og tiltekinna ábyrgða til nýs sparisjóðs, SpK. Samkvæmt 7. tölulið ákvörðunarinnar átti SpK ekki að yfirtaka innlánaskuldbindingar SK sem stofnað hefði verið til með þeim hætti að kröfueigandi samkvæmt skuldabréfi hefði fengið kröfu sína greidda fyrir gjalddaga en á sama tíma stofnað til innláns hjá SK, enda væri um riftanlegan gerning að ræða. Þrátt fyrir orðalag ákvörðunarinnar var áðurnefnd innstæða F skráð í kerfum SpK og að fyrirmælum F greiddi SpK honum út allt innlánið með vöxtum í júní 2010. Bú SK var tekið til gjaldþrotaskipta í nóvember 2010 og lauk skiptunum í september 2013 án þess að nokkuð fengist upp í lýstar kröfur. Þá tók Fjármálaeftirlitið yfir vald stofnfjáreigendafundar SpK í mars 2011 og samkvæmt ákvörðun eftirlitsins tók L hf. yfir allar eignir og skuldbindingar sjóðsins. Með samkomulagi L hf. og íslenska ríkisins í mars 2012 skuldbatt sá fyrrnefndi sig til þess að krefja F um endurgreiðslu áðurnefnds innláns. Í dómi Hæstaréttar kom fram að skuld SK við F hefði verið greidd í mars 2009, réttu ári fyrir gjalddaga hennar. Samkvæmt skýrum orðum ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá apríl 2010 hefði SpK ekki átt að taka yfir umrætt innlán F, enda hefði verið um að ræða riftanlega ráðstöfun samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Vegna þessara mistaka hefði stofnast krafa SpK á hendur F um endurgreiðslu innlánsins, en sú krafa komst síðar í hendur L hf. á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins í mars 2011. Hæstiréttur vísaði á hinn bóginn til þess að þegar í október eða nóvember 2010 hefði legið fyrir vitneskja um atvik að baki kröfu L hf. á hendur F, en hvorki yrði séð að F hafi viðurkennt skyldu sína til endurgreiðslu né að hann hefði fengið skýra tilkynningu um að kröfunni yrði haldið upp á hann. Þá hefði L hf. skuldbundið sig með samningnum við íslenska ríkið í mars 2012 til að innheimta þessa tilteknu kröfu. Eigi að síður sendi L hf. ekki kröfu til F um greiðslu fjármunanna fyrr en í október 2013, löngu eftir að kröfulýsingarfresti lauk í þrotabú SK og eftir að skiptum á búinu var lokið, en með þessu kom hann í veg fyrir að krafa F kæmist að gagnvart sparisjóðnum. Að öllu þessu virtu komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að L hf. hefði glatað fyrir tómlæti kröfunni á hendur F og var sá síðarnefndi því sýknaður.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. apríl 2015. Hann krefst þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 101.810.048 krónur, aðallega með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. júlí 2010 til 1. mars 2012 og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, en til vara með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna frá 14. júlí 2010 til 11. nóvember 2013 og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. þeirra frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 11. júní 2015. Hann krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms um annað en málskostnað, sem honum verði dæmdur í héraði og fyrir Hæstarétti.

I

Eftir gögnum málsins mun lausafjárstaða Sparisjóðsins í Keflavík hafa verið erfið frá því um mitt ár 2008 og 10. mars 2009 sótti hann um eiginfjárframlag úr ríkissjóði, en um það leyti var eiginfjárstaða hans undir lögbundnum mörkum. Dagana 11. og 12. mars 2009 áttu sér stað samskipti milli framkvæmdastjóra gagnáfrýjanda og forstöðumanns fjármálasviðs sparisjóðsins um mögulega umbreytingu skulda sjóðsins við gagnáfrýjanda samkvæmt skuldabréfum yfir í innlánsskuldbindingar hjá sjóðnum. Í samræmi við samskipti þessi keypti sparisjóðurinn 19. sama mánaðar skuldabréf af gagnáfrýjanda, sem Sparisjóður Vestfirðinga hafði gefið út og greiða átti í einu lagi á gjalddaga 15. mars 2010, en vegna sameiningar sjóðanna í lok árs 2007 var Sparisjóðurinn í Keflavík orðinn skuldari bréfsins. Innlausnarverð þess var 88.677.120 krónur, en bréfið hafði verið að nafnverði 60.000.000 krónur, bundið vísitölu neysluverðs og borið 7% ársvexti. Sama dag og innlausn skuldabréfsins fór fram gerðu gagnáfrýjandi og Sparisjóðurinn í Keflavík jafnframt samning um að innlausnarverðið ásamt öðrum fjármunum, samtals 118.444.220 krónur, skyldi lagt á innlánsreikning hjá sparisjóðnum. Var innlánið með 12% ársvöxtum og bundið til eins árs. Undir samninginn rituðu forstöðumaður fjármálasviðs sparisjóðsins og framkvæmdastjóri gagnáfrýjanda. Á þeim tíma átti gagnáfrýjandi 6,7% stofnfjár í sparisjóðnum og sat einn stjórnarmaður gagnáfrýjanda jafnframt í stjórn sparisjóðsins.

Vegna stöðu sparisjóðsins skipaði Fjármálaeftirlitið sérfræðing 4. júní 2009 til að hafa sértækt eftirlit með honum. Á grundvelli VI. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. IV. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009 um breyting á fyrrgreindum lögum, tók Fjármálaeftirlitið 22. apríl 2010 yfir vald stofnfjáreigendafundar Sparisjóðsins í Keflavík, vék stjórn hans frá og skipaði honum bráðabirgðastjórn. Jafnframt tók eftirlitið ákvörðun um ráðstöfun tilgreindra eigna sparisjóðsins og skuldbindinga hans vegna innlána og tiltekinna ábyrgða til nýs sjóðs, Spkef sparisjóðs. Um þetta sagði meðal annars í 7. tölulið ákvörðunarinnar: „Spkef sparisjóður yfirtekur skuldbindingar Sparisjóðsins í Keflavík vegna innlána frá fjármálafyrirtækjum, Seðlabanka Íslands og öðrum viðskiptavinum. ... Spkef sparisjóður yfirtekur þó ekki innlánaskuldbindingar Sparisjóðsins í Keflavík sem stofnað hefur verið til með þeim hætti að kröfueigandi samkvæmt skuldabréfi og/eða öðru sambærilegu skuldaskjali hefur fengið kröfu sína greidda fyrir gjalddaga en á sama tíma hefur verið stofnað til innláns hjá Sparisjóðnum í Keflavík enda sé um riftanlegan gerning að ræða skv. lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.“

Þrátt fyrir framanritað varð framkvæmd ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins á þann veg að innlánsskuldbinding samkvæmt fyrrgreindum samningi gagnáfrýjanda við Sparisjóðinn í Keflavík frá 19. mars 2009 var í heild skráð sem innstæða í kerfum Spkef sparisjóðs. Að fyrirmælum gagnáfrýjanda greiddi Spkef sparisjóður 23. júní 2010 honum út allt innlánið með vöxtum, 135.985.604 krónur, og færði á tilgreindan reikning gagnáfrýjanda hjá sjóðnum. Sættu fjármunir þessir síðan millifærslum af þeim reikningi á aðra reikninga gagnáfrýjanda á tímabilinu 24. júní til 14. júlí 2010.

Störfum bráðbirgðastjórnar Sparisjóðsins í Keflavík lauk 23. júlí 2010 með því að hann var tekinn til slita og honum skipuð slitastjórn samkvæmt XII. kafla laga nr. 161/2002. Frestdagur við slit sparisjóðsins var 25. maí 2009, en bú hans var síðan tekið 1. nóvember 2010 til gjaldþrotaskipta sem lauk 2. september 2013 án þess að nokkuð fengist upp í lýstar kröfur.

Fram er komið í málinu að í október eða nóvember 2010 áttu þáverandi sparisjóðsstjóri Spkef sparisjóðs og starfsmaður í bókhaldsdeild sjóðsins fund með framkvæmdastjóra gagnáfrýjanda þar sem meðal annars hafi verið rætt um að fyrrgreindur flutningur á innláni gagnáfrýjanda til sjóðsins hafi verið tekinn til athugunar. Í tengslum við þetta sendi starfsmaðurinn í bókhaldsdeild tölvubréf 27. október 2010 til stjórnarformanns sparisjóðsins með afriti til sparisjóðsstjórans. Í bréfinu, sem var undir yfirskriftinni „skoðun á innlánum“ sagði: „Í framhaldi af ákvörðun Sparisjóðabankans um tilboðið til kröfuhafa Sparisjóðsins í Keflavík var ákveðið að skilanefnd sparisjóðsins framkvæmdi skoðun á tilurð innlána og þá sérstaklega hvort skuldabréfum sparisjóðsins hafi verið breytt í innlán. Við fórum yfir þetta sjálfir og eftirfarandi þarf nánari skoðunar við og gæti þessum færslum verið rift og þurft að bakfæra þær ... og einnig er búið að hafa samband við Festu lífeyrissjóð.“ Í lok bréfsins voru talin upp nokkur tilvik af þessum meiði og var þar meðal annars getið um að skuldabréfi í eigu gagnáfrýjanda hafi 20. mars 2009 verið „breytt í innlán að fjárhæð 88 m.“

Fjármálaeftirlitið tók yfir vald stofnfjáreigendafundar Spkef sparisjóðs 5. mars 2011. Samhliða tók eftirlitið ákvörðun um að aðaláfrýjandi tæki frá 7. sama mánaðar við rekstri, eignum og skuldbindingum sparisjóðsins.

Aðaláfrýjandi tilkynnti gagnáfrýjanda með bréfi 1. febrúar 2012 að hann teldi að til innláns, sem fært var af reikningi gagnáfrýjanda hjá Spkef sparisjóði 23. júní 2010, hefði verið stofnað með riftanlegum gerningi og í ljósi ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 22. apríl sama ár hefði skuldbindingin aldrei átt að flytjast milli sparisjóðanna.

Aðaláfrýjandi og íslenska ríkið gerðu með sér samkomulag 27. mars 2012 „vegna afmarkaðra þátta tengda ágreiningi aðila um uppgjör vegna samruna“ Spkef sparisjóðs og aðaláfrýjanda. Í 4. gr. samkomulagsins var fjallað um „riftanleg innlán til hækkunar á kröfu Landsbankans“ en þar sagði: „Eftirfarandi innlán hefur verið metið af aðilum sem riftanleg ráðstöfun sem ekki hefði átt að færast frá Sparisjóðnum í Keflavík ... til Spkef sparisjóðs samkvæmt ákvörðun FME: 1. Reikningur nr. ... innlán Festa Lífeyrissjóðs að fjárhæð þann 20. mars 2009 kr. 88.677.120. Landsbankinn hefur tilkynnt ofangreindum innlánseiganda að innlán þetta hafi ekki átt að færast frá þrotabúi Sparisjóðsins í Keflavík til Spkef sparisjóðs. Fjárhæðin var hinsvegar tekin út af reikningi innlánseiganda í tíð Spkef sparisjóðs áður en hann var yfirtekinn af Landsbankanum. Landsbankinn skuldbindur sig til þess að gera kröfu um að fjárhæðin verði endurgreidd, enda ber Festu að gera kröfu um greiðslu innlánsins til þb. Sparisjóðsins í Keflavík. Komi til þess að fjárhæðin verði endurgreidd í heild eða að hluta, skuldbindur Landsbankinn sig til þess að lækka skuld ríkisins við bankann“.

Aðaláfrýjandi sendi 11. október 2013 greiðsluáskorun til gagnáfrýjanda sem hafnaði greiðsluskyldu með bréfi 4. nóvember sama ár. Höfðaði aðaláfrýjandi mál þetta 13. janúar 2014.

II

Skuld Sparisjóðsins í Keflavík við gagnáfrýjanda samkvæmt áðurgreindu skuldabréfi var greidd 19. mars 2009, réttu ári fyrir gjalddaga þess, og andvirðið fært á innlánsreikning gagnáfrýjanda hjá sjóðnum. Samkvæmt skýrum orðum í framangreindum 7. tölulið ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 22. apríl 2010 var því ekki um að ræða innlánsskuldbindingu sem Spkef sparisjóður átti að taka yfir að því leyti sem hún átti rætur að rekja til uppgreiðsluverðs skuldabréfsins, enda var þar um að ræða riftanlega ráðstöfun samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Allt að einu var innlán gagnáfrýjanda flutt í heild til Spkef sparisjóðs sem greiddi það síðan út til gagnáfrýjanda 23. júní 2010. Verður að líta svo á að þetta hafi gerst vegna augljósra mistaka. Samkvæmt meginreglum fjármunaréttar eiga þeir, sem fá fyrir mistök greitt fé sem þeir ekki eiga rétt til, að endurgreiða það, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 13. september 2007 í máli nr. 32/2007. Stofnaðist þannig krafa Spkef sparisjóðs á hendur gagnáfrýjanda um endurgreiðslu og komst krafa þessi síðar í hendur aðaláfrýjanda á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 5. mars 2011. Að því verður á hinn bóginn að gæta að annar samningsaðili getur glatað rétti til að bera fyrir sig vanefnd eða annað réttarbrot viðsemjanda síns ef athugasemdum er ekki hreyft af slíku tilefni án ástæðulauss dráttar eða krafa er ekki höfð uppi innan hæfilegs tíma.

Við mat á því hvort aðaláfrýjandi hafi glatað rétti til að krefjast endurgreiðslu úr hendi gagnáfrýjanda verður að líta til þess að aðaláfrýjandi er fjármálafyrirtæki sem eignaðist kröfu þessa 7. mars 2011 þegar annað fjármálafyrirtæki, Spkef sparisjóður, rann saman við hann. Aðaláfrýjandi gat ekki öðlast betri rétt gegn gagnáfrýjanda en mátti leiða af rétti Spkef sparisjóðs. Framangreind samskipti starfsmanna sparisjóðsins og framkvæmdastjóra gagnáfrýjanda í október eða nóvember 2010 bera með sér að þá þegar lá fyrir vitneskja um atvik að baki kröfu aðaláfrýjanda á hendur gagnáfrýjanda, en hvorki verður séð að gagnáfrýjandi hafi viðurkennt skyldu sína til endurgreiðslu né að hann hafi fengið skýra tilkynningu um að kröfunni yrði haldið upp á hann. Til viðbótar þessu skuldbatt aðaláfrýjandi sig með fyrrgreindum samningi við íslenska ríkið 27. mars 2012 til að innheimta þessa tilteknu kröfu. Eigi að síður sendi hann gagnáfrýjanda ekki kröfu um greiðslu fyrr en löngu eftir að kröfulýsingarfresti lauk í þrotabú Sparisjóðsins í Keflavík eða 11. október 2013, en þá hafði skiptum á búinu þegar verið lokið. Með þessu kom aðaláfrýjandi jafnframt í veg fyrir að krafa gagnáfrýjanda kæmist að gagnvart sparisjóðnum.

Að öllu framangreindu virtu er óhjákvæmilegt að líta svo á að aðaláfrýjandi hafi glatað fyrir tómlæti kröfunni á hendur gagnáfrýjanda sem mál þetta varðar. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest.

Eftir þessum úrslitum er rétt að aðilarnir beri hvor sinn málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 7. janúar 2015.

Mál þetta, sem var höfðað 13. janúar 2014, var dómtekið 11. desember 2014. Stefnandi er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík. Stefndi er Festa lífeyrissjóður, Krossmóum 4a, Reykjanesbæ.

Dómkröfur stefnanda eru aðallega þær að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 122.862.102 kr., með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. mars 2012 til greiðsludags. Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 144.864.384 kr., með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 11. nóvember 2013 til greiðsludags. Til þrautavara er gerð krafa um að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 101.810.048 kr., með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 23. júní 2010 til 1. mars 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Stefnandi krefst þess til þrautaþrautavara að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 101.810.048 kr., auk skaðabóta að álitum dómsins, vegna þess tjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir frá 23. júní 2010, og að samanlögð fjárhæð beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. mars 2012 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess í öllum tilvikum að stefndi verði auk þess dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað.

Stefndi krafðist þess aðallega í greinargerð sinni að máli þessu yrði vísað frá dómi, en til vara að stefndi yrði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum var krafist málskostnaðar.

Frávísunarkröfu stefnda var hafnað með úrskurði 7. júlí 2014. 

I.

                Í stefnu er málsatvikum lýst þannig að stefndi hafi átt skuldabréf upprunalega útgefið af Sparisjóði Vestfirðinga, sbr. markaðspöntun 19. mars 2009. Skuldabréfið hafi verið með auðkennið SPVF 03 1 og nafnverð þess verið 60.000.000 kr. Skuldabréfið hafi borið 7% vexti og höfuðstóll þess bundinn vísitölu neysluverðs. Skuldabréfið hafi verið á gjalddaga 15. mars 2010 og átt að greiða höfuðstólinn í einu lagi þann dag ásamt vöxtum og verðbótum. Sparisjóður Vestfirðinga hafi sameinast Sparisjóðnum í Keflavík í árslok 2007 og með því hafi Sparisjóðurinn í Keflavík tekið yfir réttindi og skyldur Sparisjóðs Vestfirðinga samkvæmt umræddu skuldabréfi sem útgefandi og þar með skuldari skuldabréfsins.

Með neyðarlögunum svokölluðu nr. 125/2008, sbr. og lög nr. 44/2009, hafi innlánum verið veitt staða forgangskrafna við slit fjármálafyrirtækja. Í kjölfar falls stóru bankanna þriggja í október 2008 hafi borið nokkuð á því að skuldabréf sem útgefin voru af smærri fjármálafyrirtækjum hafi verið gerð upp fyrir gjalddaga þeirra en innlán hærri fjárhæðar stofnað í staðinn og með sama binditíma og upphaflega skuldabréfið. Hagsmunir beggja aðila hafi staðið til þessa að vissu leyti, enda hafi slík aðgerð tryggt kröfuhöfum stöðu framar í kröfuröð og þar með auknar heimtur ef til slitameðferðar útgefanda kæmi. Reyndar hafi heimtur verið tryggðar að fullu samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands sem áréttuð var 6. október 2008 og ítrekuð með yfirlýsingu 3. febrúar 2009. Fyrir fjármálafyrirtækið hafi þetta hins vegar verið leið til að afla frekara fjármagns. 

Hinn 19. mars 2009 hafi Sparisjóðurinn í Keflavík keypt skuldabréfið af stefnda. Kaupverð bréfsins hafi verið 88.677.120 kr., miðað við gengið 1,47795200. Þann sama dag hafi verið gerður samningur milli Sparisjóðsins í Keflavík og stefnda um að kaupverð skuldabréfsins skyldi lagt inn á innlánsreikning stefnda hjá Sparisjóðnum í Keflavík nr. 1109-26-24000, auk frekari fjármuna af hálfu stefnda (samtals 118.444.220 kr.) Samkvæmt samningnum hafi binditími innlánsins verið frá 19. mars 2009 til 19. mars 2010. Innlánið hafi verið óverðtryggt og vaxtakjör miðast við 12% fasta vexti ofan á höfuðstól. Umræddir fjármunir hafi verið lagðir inn á umræddan reikning í tveimur greiðslum þennan sama dag, annars vegar greiðslu að fjárhæð 88.677.120 kr. og hins vegar greiðslu að fjárhæð 29.767.100 kr. Þetta hafi verið gert þrátt fyrir að tveimur dögum áður hefði Fjármálaeftirlitið (FME) tekið ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda frá Straumi-Burðarási fjárfestingabanka (Straumur-Burðarás) til Íslandsbanka, þar sem m.a. hafi verið kveðið á um það að Íslandsbanki tæki ekki yfir innlánsskuldbindingar Straums-Burðaráss sem stofnað hefði verið til með framangreindum hætti.

Stefndi sé lífeyrissjóður og teljist því til fagfjárfesta samkvæmt a-lið 9. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og hafi þar af leiðandi yfirgripsmikla þekkingu og reynslu af fjármála- og verðbréfamarkaði á hverjum tíma. Stefnandi heldur því fram að stefndi hafi þekkt sérstaklega vel til málefna Sparisjóðsins í Keflavík, enda hafi þessir aðilar verið í sama húsi og talsverður samgangur milli starfsmanna þeirra. Á þessum tíma hafi Sparisjóðurinn í Keflavík verið talsvert í fréttum vegna bágrar fjárhagsstöðu sjóðsins og hafi eiginfjárstaða sjóðsins verið undir lögbundnum mörkum frá lokum mars 2009. Vegna þess hafi FME veitt sjóðnum ítrekaðan frest til að koma við raunhæfri endurskipulagningu á fjárhaginn og auka eiginfjárgrunn sjóðsins þannig að lágmarki samkvæmt 84. gr. laga um nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 4. mgr. 86. gr. laganna, yrði náð.   

Með ákvörðun 22. apríl 2010, um ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðsins í Keflavík til SpKef sparisjóðs (SpKef), hafi FME skipað Sparisjóðnum í Keflavík bráðabirgðastjórn með heimild í 100. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 4. gr. laga nr. 44/2009. Störfum bráðabirgðastjórnarinnar hafi lokið 23. júlí 2010 er Héraðsdómur Reykjaness hafi skipað Sparisjóðnum í Keflavík slitastjórn samkvæmt heimild í 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009. Frestdagur við slit Sparisjóðsins í Keflavík hafi verið 25. maí 2009. Í inngangi ákvörðunar FME hafi verið getið um bága fjárhagsstöðu sjóðsins og að eiginfjárstaða hans hafi verið undir lögbundnum mörkum frá lokum mars 2009.

Samkvæmt ákvörðun FME skyldi nánar tilteknum eignum og skuldum Sparisjóðsins í Keflavík ráðstafað til SpKef. Samkvæmt 7. tölul. ákvörðunar FME skyldi SpKef yfirtaka skuldbindingar Sparisjóðsins í Keflavík vegna innlána frá fjármálafyrirtækjum, Seðlabanka Íslands og öðrum viðskiptavinum. Ákveðnar innlánsskuldbindingar hafi þó verið undanþegnar yfirfærslu til SpKef, sbr. 4. málsl. 7. tölul. ákvörðunarinnar:

 

Spkef sparisjóður yfirtekur þó ekki innlánaskuldbindingar Sparisjóðsins í Keflavík sem stofnað hefur verið til með þeim hætti að kröfueigandi samkvæmt skuldabréfi og/eða öðru sambærilegu skuldaskjali hefur fengið kröfu sína greidda fyrir gjalddaga en á sama tíma hefur verið stofnað til innláns hjá Sparisjóðnum í Keflavík enda sé um riftanlegan gerning að ræða skv. lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. ...

                        

Innlánsskuldbindingum sem stofnað hafi verið til með framangreindum hætti hafi því að lögum ekki verið ráðstafað frá Sparisjóðnum í Keflavík til SpKef og þar með ekki til stefnanda við samruna stefnanda og SpKef. Þetta hafi m.a. átt við um innlánsskuldbindingu Sparisjóðsins í Keflavík gagnvart stefnda á innlánsreikningi stefnda hjá Sparisjóðnum í Keflavík nr. 1109-26-24000, að þeim hluta hennar sem hafi verið að rekja til uppgreiðsluverðmætis fyrrgreinds skuldabréfs, þ.e. 88.677.120 kr. ásamt áföllnum vöxtum af þeirri fjárhæð.  

Sökum mistaka við framkvæmd ákvörðunar FME hafi umrædd innláns­skuldbinding hins vegar að öllu leyti verið skráð í kerfum SpKef. Um ranga skráningu í kerfum Sparisjóðsins í Keflavík og SpKef hafi því verið að ræða, sem hafi orsakast m.a. af því að SpKef tók yfir alla starfsemi Sparisjóðsins í Keflavík í einu lagi, þ. á m. aðild Sparisjóðsins í Keflavík að hvers konar greiðslukerfum samkvæmt 5. tölul. ákvörðunar FME.

Stefndi hafi beint fyrirmælum til SpKef 23. júní 2010 um að greiða út umrædda innlánsskuldbindingu að öllu leyti ásamt áföllnum vöxtum til útgreiðslu­dags, samtals 135.985.604 kr. Að beiðni stefnda hafi umræddir fjármunir því verið millifærðir af reikningi nr. 1109-26-24000 yfir á reikning stefnda nr. 1109-26-2006. Þaðan virðist fjármunirnir síðan hafa verið millifærðir af hálfu stefnda yfir á reikning stefnda nr. 552-26-200010, með millifærslu 24. júní 2010 að fjárhæð 40.000.000 kr., millifærslu 25. júní 2010 að fjárhæð 40.000.000 kr. og millifærslu 14. júlí 2010 að fjárhæð kr. 50.000.000 kr. (samtals millifærslur að fjárhæð 130.000.000 kr.) sem og reikning stefnda nr. 1175-26-040003, með millifærslu 7. júlí 2010 að fjárhæð 12.000.000.

Í október 2010 hafi stefnda verið gerð grein fyrir því af hálfu SpKef að umrædd innlánsskuldbinding Sparisjóðsins í Keflavík gagnvart stefnda, sem stefndi hafði þá tekið út frá SpKef, væri til skoðunar hjá slitastjórn Sparisjóðsins í Keflavík, enda hafi SpKef þá talið málið vera á forræði slitastjórnarinnar samkvæmt ákvörðun FME. Sparisjóðurinn í Keflavík hafi síðan verið tekinn til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, dags. 1. nóvember 2010, og SpKef þá talið að forræði á málinu færðist til skiptastjóra.

Í bréfi fjármálaráðuneytisins til FME, dags. 5. mars 2011, komi fram að Bankasýsla ríkisins hefði kynnt þann 3. mars 2011 fyrir fjármálaráðuneytinu að það væri niðurstaða starfshóps Bankasýslunnar að leggja til að leitað yrði eftir því að sameina SpKef og stefnanda (sem bar þá heitið NBI hf.) í stað þess að fjármagna hann sem sjálfstæðan sparisjóð. Í bréfinu hafi enn fremur sagt að fjármálaráðuneytið hefði á grundvelli tillögu Bankasýslu ríkisins leitað eftir samningi við stefnanda um yfirtöku og samruna við SpKef. Samningur þessa efnis hafi verið undirritaður 5. mars 2011, sbr. og ákvörðun FME um þetta efni sem tekin var þann sama dag. Í meginatriðum hafi samningurinn falið í sér að stefnandi hafi tekið yfir rekstur, eignir og skuldbindingar SpKef, með þeim hætti að sjóðurinn hafi verið sameinaður stefnanda. Því hafi verið um að ræða samruna án skuldaskila, þannig að SpKef hafi verið algerlega sameinaður stefnanda með yfirtöku eigna og skulda (samruni með yfirtöku) og SpKef slitið. Á þessum tíma hafi stefnandi talið málið enn á forræði skiptastjóra þrotabús Sparisjóðsins í Keflavík og af þeim sökum ekkert aðhafst í málinu.

Í ljósi þess að enginn framgangur hafi virst vera í vinnslu málsins hafi stefnandi talið réttast að ýta á eftir málinu með því að senda bréf til stefnda, dags. 1. febrúar 2012, þar sem gerð hafi verið grein fyrir atvikum málsins. Sama dag hafi stefnandi jafnframt sent bréf til skiptastjóra þrotabús Sparisjóðsins í Keflavík, í því skyni að minna á og vekja frekari athygli hans á málinu. Stefndi hafi svarað bréfi stefnanda með bréfi 22. maí 2012 og öllum sjónarmiðum stefnanda verið hafnað. Að lokum hafi það einnig farið svo að skiptastjóri hafi ekkert aðhafst í málinu og skiptum lokið á þrotabúinu 2. september 2013. 

Sökum alls þessa hafi stefnandi sent stefnda bréf 11. október 2013, þar sem krafist hafi verið greiðslu, ásamt almennum vöxtum og dráttarvöxtum, samtals að fjárhæð 132.059.473 kr. Greiðslan hafi ekki verið innt af hendi af hálfu stefnda og hafi stefnanda því verið nauðsynlegt að höfða mál þetta til heimtu kröfu sinnar. 

II.

                Við aðalmeðferð málsins gaf skýrslu Gylfi Jónasson, framkvæmdastjóri stefnda. Hann var spurður út í tölvupóstsamskipti við Sparisjóðinn í Keflavík, sem fyrir liggja í málinu, hinn 11. og 12. mars 2009, og sagði hann að á þessum tíma hafi Sparisjóðurinn í Keflavík sífellt verið að óska eftir því að sjóðurinn kæmi með frekari innlán í sparisjóðinn. Út úr umræðu í téðum tölvupósti hafi spunnist samkomulag um innlán upp á um 480 milljónir króna. Þá útskýrði hann að með yfirskrift tölvupóst­samskiptanna, „svap í innlán“ hafi verið átt við að skuldabréfum væri umbreytt í innlán, en samhliða hafi sparisjóðnum verið færð aukin innlán, þ.e. samhliða þessum viðskiptum. Skuldabréfin hafi ekki verið gjaldfallin á þessum tíma. M.a. hafi verið gerður innlánssamningur, dags. 19. mars 2009, um vaxtakjör á bundnum innlánsreikningi stefnda hjá sparisjóðnum, að höfuðstól 118.444.220 kr., í upphafi binditíma, sem var 12 mánuðir, eða frá 19. mars 2009 til 19. mars 2010. Að baki höfuð­stólum hafi verið tvö skuldabréf, annars vegar að fjárhæð 88.677.120 kr. og hins vegar 29.767.100 kr. Samningurinn hafi verið framlengdur fram á sumarið 2010, enda hafi vextir verið 12%. Hinn 23. júní 2010 hafi lánið verið tekið út og enginn fyrirvari eða athugasemd verið gerð við úttektina. Þá greindi hann frá því að formleg tilkynning hefði borist frá stefnanda, þegar stefnandi hafi verið búinn að yfirtaka SpKef, í byrjun febrúar 2012 vegna umrædds innláns. Áður, eða í nóvember 2009, hafi komið til umræðu að innlán væru til skoðunar í sparisjóðnum, þ.e. hvort þau hafi ekki átt að færast yfir í SpKef, en hann hefði aldrei fengið niðurstöðu um það. Það hafi verið annað og stærra innlán sem hafi verið til skoðunar, en ekki það innlán sem um ræðir í máli þessu. Í framangreindum tölvupóstsamskiptum hafi skuldabréf að baki umræddu innláni ekki verið til umræðu, heldur hafi önnur skuldabréf verið tilgreind. Jafnframt sagði hann að það hefði aldrei borist athugasemd frá slitastjórn eða skiptastjóra um að lánið væri riftanlegur gerningur. Það hefði ekki verið fyrr en með bréfi 11. október 2013 sem stefnandi hafi haft uppi endurgreiðslukröfu á hendur stefnda.

                Spurður hvernig samskiptum stefnda hafi verið háttað við Sparisjóðinn í Keflavík á árunum 2009 og 2010 greindi hann frá því að þau hefðu verið eins og við aðrar fjármálastofnanir. Á árinu 2006 hafi verið klippt á eignastýringu sjóðsins en stefndi haft innlán hjá sparisjóðnum og sparisjóðurinn séð um innheimtu skuldabréfa sjóðfélaga. Einn stjórnarmaður stefndu hafi verið í stjórn sparisjóðsins. Þá hafi stefndi og sparisjóðurinn ásamt fleiri aðilum rekið fasteignafélag um fasteign sem þeir voru til húsa í. Stefndi átti stofnfjárbréf í sparisjóðnum, sem hafi fram til ársins 2006 og 2007 verið 16% en lækkað eftir það í 5%. Jafnframt sagði hann að stefndi hefði ekki haft neinar aðrar upplýsingar um fjárhagsstöðu Sparisjóðsins í Keflavík en aðrir á markaði. Innri málefni sparisjóðsins, eða fjárhagsstaða sparisjóðsins, hafi ekki verið rædd meðal starfsmanna stefnda og starfsmanna sparisjóðsins.  

Inntur eftir því af hverju Sparisjóðurinn í Keflavík hafi óskað eftir því, í mars 2009, að sjóðurinn kæmi með frekari innlán í sparisjóðinn, sagði hann að eins og fram komi í rannsóknarskýrslum hafi sparisjóðirnir þurft að fjármagna sig með innlánum. Hann var þá spurður hvort stefnda hafi á þessum tíma verið kunnugt um lausafjárerfiðleika sparisjóðsins og svaraði hann því til að það hefði verið síðar. Spurt hvort stefndi hefði fylgst með málefnum annarra lífeyrissjóða sagði hann að það hefði verið gert eftir bestu getu og einnig greindi hann frá því að stefndi hefði átt hlutabréf í Straumi-Burðarási, en það hefði verið afar lítill hlutur. Jafnframt hafi stefndi átt eitt eða tvö skuldabréf hjá Straumi-Burðarási en það hefðu verið afar litlar eignir miðað við það sem stefndi hafi átt hjá öðrum fjármálastofnunum. Þá kom fram að honum hafi verið kunnugt um ákvörðun FME hinn 22. apríl 2010, um ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðsins í Keflavík til SpKef. Stefnda hefði fyrst verið kunnugt um að Sparisjóðurinn í Keflavík hefði verið undir lögbundnum viðmiðum FME þegar ársreikningur var birtur í apríl 2009 og umræða hefði verið um þetta í fjölmiðlum. Einnig kom fram að stefndi hafi áður breytt skilmálum skuldabréfa og lengt í lánum eða keypt fyrir gjalddaga. Í því tilviki sem um ræðir í máli þessu hafi verið að lengja í öðru bréfinu en ekki stytta í því. Stefndi hafi velt á þessum tíma um sjö milljörðum króna á ári og viðskiptin með umrætt innlán því verið mjög lítill hluti af starfsemi stefnda. Heildareignir stefnda hafi verið um 60 milljarðar króna, þar af hafi skuldabréf verið um 75%. Þá greindi hann frá því að stefndi hefði ekki gert neina varúðarfærslu í bókhaldi sínu vegna þessa innláns. Það hefði komið til tals eftir að stefna í máli þessu var birt stefnda, í janúar 2014, en ekki hafi komið til þess að það væri gert.       

                Vitnið Gunnlaugur Harðarson, sem var fulltrúi í bókhaldi hjá Sparisjóðnum í Keflavík og síðar SpKef, nú sérfræðingur í reikningshaldi hjá stefnanda, greindi frá því fyrir dómi að það hefði framkvæmt færslur í bókhaldi vegna umrædds innláns samkvæmt samningi 19. mars 2009, að fjárhæð 118.444.220 kr. Vitnið var innt eftir því hvort það hefði komið fram skýring í bókhaldinu á því að innlánið væri að rekja til þess að greidd hefði verið upp skuldabréf. Vitnið sagði að það sem hefði verið lagt inn á reikninginn sem tilgreindur er í samningnum, 1109-26-24000, hafi verið andvirði skuldabréfa sem Sparisjóðurinn í Keflavík hafi verið greiðandi að og stefndi átti. Það hefði verið fært í bókhaldi til lækkunar á skuld sparisjóðsins, s.s. í verðbréfaútgáfu, og síðan hafi verið lagt inn á reikninginn á móti. Það hafi alveg verið ljóst í bókhaldinu að uppruni þessa innláns hafi verið úr skuldabréfum. Þetta hafi verið í sömu færslunni í bókhaldinu. 

                Vitnið Angantýr Valur Jónasson, sem var starfsmaður SpKef en nú starfsmaður stefnanda, skýrði frá því fyrir dómi að það hefði greint Gylfa Jónassyni, í lok október 2009, ásamt Gunnlaugi Harðarsyni, frá því að samkvæmt áliti KPMG væri umrætt innlán riftanlegur gerningur.

                                                                                          III.                                   

                Stefnandi byggir aðild sína á því að stefnandi hafi tekið yfir rekstur, eignir og skuldbindingar SpKef þegar sjóðurinn var sameinaður stefnanda, sbr. samning þess efnis 5. mars 2011. Um hafi verið að ræða samruna án skuldaskila, þannig að SpKef hafi algerlega verið sameinaður stefnanda með yfirtöku eigna og skulda (samruni með yfirtöku) og SpKef slitið. Í ljósi samrunans og eftirfarandi slita SpKef sé ljóst að stefnandi sé réttur eigandi dómkrafnanna.

Aðalkröfu sína byggir stefnandi á því að stefndi hafi með úttekt sinni á fjármunum að höfuðstólsfjárhæð 88.677.120 kr. og áföllnum vöxtum að fjárhæð 13.132.928 kr. (samtals 101.810.048 kr.) frá SpKef 23. júní 2010 valdið stefnanda tjóni sem stefndi beri ábyrgð á gagnvart stefnanda á grundvelli sakarreglunnar. Háttsemi stefnda hafi verið orsök tjóns stefnanda, sem svari til stefnufjárhæðarinnar, og hafi tjónið verið sennileg afleiðing af háttsemi stefnda. Stefnda beri að bæta stefnanda tjónið með greiðslu skaðabóta sem svari til stefnufjárhæðarinnar.

Í 4. málsl. 7. tölul. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 22. apríl 2010, um ráðstöfun tiltekinna eigna og skulda Sparisjóðsins í Keflavík til SpKef, hafi verið tekið sérstaklega fram að innlánsskuldbindingum sem orðið höfðu til með þeim hætti að skuldabréf voru gerð upp fyrir gjalddaga þeirra og uppgreiðsluverðmæti þeirra notað til þess að stofna í staðinn til innlána á sama tíma skyldi ekki ráðstafað frá Sparisjóðnum í Keflavík til SpKef.

Í 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. segi að krefjast megi riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hefur skert greiðslugetu þrotamannsins verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum.

Umrætt skuldabréf stefnda hafi verið með auðkennið SPVF 03 1 og verið á gjalddaga 15. mars 2010. Þegar Sparisjóðurinn í Keflavík keypti bréfið af stefnda 19. mars 2009 hafi skuldabréfið því ekki verið fallið í gjalddaga. Samkvæmt meginreglu fjármunaréttar falli krafa niður við það að réttindi og skyldur komist á sömu hendi. Með kaupum á skuldabréfinu hafi Sparisjóðurinn í Keflavík því greitt kröfur stefnda á hendur sér, án tillits til þess að í skiptum þeirra hafi orðum verið hagað þannig að Sparisjóðurinn í Keflavík hafi þá keypt af stefnda skuldabréf sem Sparisjóðurinn í Keflavík var útgefandi að. Sparisjóðurinn í Keflavík hafi þannig greitt þessa skuld sínar við stefnda fyrr en eðlilegt var í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991.

Frestdagur við slit Sparisjóðsins í Keflavík hafi verið 25. maí 2009, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002 og 1. mgr. 2. gr. laga nr. 21/1991. Sparisjóðurinn í Keflavík hafi greitt umrædda skuld sína við stefnda 19. mars 2009. Samkvæmt því hafi skuldin verið greidd á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag.

Gripið hafi verið til framangreindrar ráðstöfunar þrátt fyrir að tveimur dögum áður, eða 17. mars 2009, hefði Fjármálaeftirlitið (FME) tekið ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda frá Straumi-Burðarási fjárfestingabanka (Straumur-Burðarás) til Íslandsbanka, þar sem m.a. hafi verið kveðið á um það að Íslandsbanki tæki ekki yfir innlánsskuldbindingar Straums-Burðaráss sem stofnað hefði verið til með framangreindum hætti. Í ljósi stöðu Sparisjóðsins í Keflavík á þessum tíma sem og stöðu stefnda, sem sé lífeyrissjóður og teljist því til fagfjárfesta samkvæmt a-lið 9. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, og hafi þar af leiðandi yfirgripsmikla þekkingu og reynslu af fjármála- og verðbréfamarkaði á hverjum tíma, dregur stefnandi mjög í efa að þessi ráðstöfun hafi verið forsvaranleg, einkum og sér í lagi að virtum hagsmunum annarra kröfuhafa Sparisjóðsins í Keflavík.

Stefnandi kveður að kaup Sparisjóðsins í Keflavík á umræddu skuldabréfi virðist hafa átt sér stað að frumkvæði stefnda. Í því sambandi telur stefnandi einnig mikilvægt að halda því til haga að þennan sama dag, 19. mars 2009, hafi Sparisjóðurinn í Keflavík einnig keypt annað skuldabréf af stefnda sem þá hafi heldur ekki verið fallið í gjalddaga. Um hafi verið að ræða skuldabréf í flokki með auðkennið SPK 02 2, upphaflega að nafnvirði 250.000.000 kr. Bréfin hafi borið 6,75% vexti og höfuðstóll þeirra verið bundinn vísitölu neysluverðs. Bréfin hafi verið með 25 gjalddögum, hinum fyrsta 1. apríl 2003 og þeim síðasta 1. apríl 2027. Sparisjóðurinn í Keflavík hafi greitt stefnda 356.222.750 kr. Þann sama dag hafi uppgreiðsluverðmæti skuldabréfsins verið lagt inn á innlánsreikning stefnda hjá Sparisjóðnum í Keflavík samkvæmt sérstöku samkomulagi milli Sparisjóðsins í Keflavík og stefnda. Í samningnum komi m.a. fram að binditími innlánsins væri frá 19. mars 2009 til 19. mars 2014 og bæri það 6,8% verðtryggða vexti.

Að þessu virtu telur stefnandi ljóst að ekki hafi verið um eitt afmarkað tilvik umbreytingar skuldabréfakröfu í innlánskröfu að ræða, heldur markvissar aðgerðir Sparisjóðsins í Keflavík og stefnda, að því er virðist að frumkvæði stefnda.

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið telur stefnandi ljóst að það geti engan veginn talist venjulegt að stórfelldum og ógjaldföllnum skuldum samkvæmt skuldabréfum sé breytt í innlán, sem bundin séu til umsamins gjalddaga skuldabréfa með hærri vöxtum en þau hefðu borið, hvað þá þegar atvikum er að auki þannig háttað að kröfuhafi skuldbindi sig til þess að leggja til frekara lánsfé og öðlist um leið forgangsrétt fyrir allri kröfu sinni gagnvart öðrum lánardrottnum. Ráðstafanir Sparisjóðsins í Keflavík og stefnda hafi að sönnu ekki leitt til þess að fé gengi að svo komnu úr höndum Sparisjóðsins í Keflavík, en þær hafi á hinn bóginn miðað að því að stefndi fengi forgangsrétt gagnvart hliðsettum lánardrottnum, sem stefndi hefði annars ekki notið.

Í ljósi framangreinds telur stefnandi ljóst að skilyrðum 1. mgr. 134. laga nr. 21/1991 hafi verið fullnægt. Á grundvelli þessa hafi þannig verið mögulegt að rifta kaupum Sparisjóðsins í Keflavík á skuldabréfinu. Um riftanlegan gerning í samræmi við 4. málsl. 7. tölul. ákvörðunar FME hafi því verið að ræða þegar Sparisjóðurinn í Keflavík keypti umrætt skuldabréf af stefnda og stefndi lagði andvirði þess inn á innlánsreikning hjá Sparisjóðnum í Keflavík.

Samkvæmt framangreindu hafi stefndi því fengið kröfu sína samkvæmt umræddu skuldabréfi greidda fyrir gjalddaga og sú ráðstöfun verið riftanleg. Sama dag og stefndi hafi fengið kröfu sína greidda hafi andvirði þeirrar greiðslu verið lagt inn á innlánsreikning hjá Sparisjóðnum í Keflavík, auk frekari greiðslna inn á innlánsreikninginn. Því hafi verið stofnað til innlánsskuldbindingarinnar á sama tíma og uppgreiðsla skuldabréfsins hafi átt sér stað, eins og áskilið sé í 4. málsl. 7. tölul. ákvörðunar FME frá 22. apríl 2010. 

Á grundvelli þessa telur stefnandi ljóst að samkvæmt 4. málsl. 7. tölul. ákvörðunar FME hafi þeim hluta innlánsskuldbindingar Sparisjóðsins í Keflavík gagnvart stefnda, sem stofnað var til með framangreindum hætti, að lögum ekki verið ráðstafað frá Sparisjóðnum í Keflavík til SpKef. Þetta verði ljóslega ráðið af ákvörðun FME. Stefnda hafi og verið eða mátt vera ljóst efni og réttaráhrif ákvörðunar FME, m.a. í ljósi stöðu stefnda sem lífeyrissjóðs, sem starfi á grundvelli laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og beri réttindi og skyldur sem slíkur, stöðu stefnda sem fagfjárfestis samkvæmt a-lið 9. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti sem og vegna nýfallinna dóma Hæstaréttar frá 16. apríl 2010 í málum nr. 162/2010 (Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins gegn Straumi-Burðarási Fjárfestingarbanka hf.) og 163/2010 (Gildi lífeyrissjóður gegn Straumi-Burðarási Fjárfestingarbanka hf.), þar sem staðfest hafi verið riftun á fullkomlega sambærilegum ráðstöfunum og í þessu máli. Gera verði ríkar kröfur til stefnda sem lífeyrissjóðs og fagfjárfestis, sem hafi eðli málsins samkvæmt yfirgripsmikla þekkingu og reynslu af fjármála- og verðbréfamarkaði á hverjum tíma, m.a. á grundvelli sjónarmiða íslensks skaðabótaréttar um sérfræðiábyrgð. Samkvæmt ársreikningum stefnda fyrir reikningsárin 2009 og 2010 virðist og sem stefndi hafi sjálfur ekki litið svo á að innlánsskuldbindingum Sparisjóðsins í Keflavík gagnvart stefnda hefði verið ráðstafað til SpKef.

Samkvæmt framangreindu telur stefnandi einsýnt að stefnda hafi verið ljóst eða mátt vera ljóst efni og réttaráhrif fyrrgreindrar ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 22. apríl 2010. Eðli málsins samkvæmt hafi stefnda jafnframt verið ljós tilvist, efni og tilurð innlánsskuldbindinganna og hafi stefndi raunar haft mun betri vitneskju um þau atriði en einstakir starfsmenn slitastjórnar og endurskoðendafyrirtækja, sem önnuðust framkvæmd ákvörðunar FME og fengnir voru til þess að meta eignir og skuldir Sparisjóðsins í Keflavík, og hvað þá heldur einstakir starfsmenn SpKef. Í því efni bendir stefnandi sérstaklega á að 30. apríl 2013 hafi fjöldi innlánsreikninga hjá SpKef verið 90.246 og reikningarnir skipst á 34.289 kennitölur. Framangreindir starfsmenn hafi því þurft að huga að öllum þessum fjölda innlánsreikninga á meðan stefndi hafi einungis þurft að huga að sínum örfáu reikningum.  

Sökum mistaka við framkvæmd ákvörðunar FME hafi innlánsskuldbindingin gagnvart stefnda í kjölfar ákvörðunarinnar verið ranglega skráð, þannig að innlánsskuldbindingin hafi að öllu leyti verið skráð í kerfum SpKef, en með réttu hafi einungis átt að vera skráður sá hluti innlánsskuldbindingarinnar, sem ekki féll undir 4. málsl. 7. tölul. ákvörðunar FME. Hafa beri í huga að þegar ákvörðun FME var hrint í framkvæmd 22. apríl 2010 hafi öll greiðslukerfi og gagnagrunnar Sparisjóðsins í Keflavík verið færðir í einu lagi til SpKef, sbr. 5. tölul. ákvörðunar FME. Ekki hafi þannig þurft að grípa til neinna sérstakra aðgerða við færslu innlánsskuldbindinga, heldur þurft að færa til baka þær innlánsskuldbindingar sem ekki hafi átt að ráðstafa  til SpKef. Þetta hafi ekki verið gert að því er innlánsskuldbindingar af þessum toga varðar. Framkvæmd ákvörðunarinnar, sem fulltrúar FME, bráðabirgðastjórnar og endurskoðunarfyrirtækja hafi annast, hafi því leitt til rangrar skráningar í kerfum SpKef, sem m.a. hafi mátt rekja til yfirtöku SpKef á aðild Sparisjóðsins í Keflavík að hvers konar greiðslukerfum. Þrátt fyrir að um ranga skráningu hafi verið að ræða sé hins vegar ljóst að innlánsskuldbindingunni hafi að lögum ekki verið ráðstafað frá Sparisjóðnum í Keflavík til SpKef að því leyti sem hún féll undir 4. máls. 7. tölul. ákvörðunar FME. 

Stefnandi telur að með því að millifæra umrædda fjármuni á annan reikning hafi stefndi hagnýtt sér þau mistök sem hafi orðið við framkvæmd ákvörðunar FME með saknæmum og ólögmætum hætti og tekið út fjármunina frá SpKef gegn betri vitund. Samkvæmt skýru orðalagi ákvörðunar FME telur stefnandi ljóst að innlánsskuldbindingunni hafi ekki verið ráðstafað að lögum til SpKef að öllu leyti og að stefndi hafi ekki verið eða ekki átt að vera í neinum vafa um þá staðreynd. Hafi stefndi hins vegar verið í nokkrum vafa hafi honum borið skylda til þess að ráðfæra sig við SpKef áður en hann gaf fyrirmæli um eða krafðist útgreiðslu fjármunanna frá SpKef. Í kjölfar þess að fjármunirnir hafi verið millifærðir inn á reikning stefnda nr. 1109-26-2006 virðist sem stefndi hafi markvisst unnið að því að koma fjármununum frá SpKef, með millifærslum að fjárhæð samtals 142.000.000 kr. á tímabilinu frá 24. júní 2010 til 14. júlí 2010. Þá hafi stefnandi fengið óstaðfestar upplýsingar um það að stefndi hafi gripið til sérstakrar varúðarniðurfærslu í bókhaldi eða annarra svipaðra aðgerða í tengslum við úttekt umræddra fjármuna frá SpKef og/eða þær ráðstafanir sem gripið hafi verið til af hálfu Sparisjóðsins í Keflavík og stefnda 19. mars 2009 varðandi umbreytingu fyrrgreindra skuldabréfakrafna stefnda gagnvart Sparisjóðnum í Keflavík í innlánskröfur. Stefnandi skorar í stefnu málsins á stefnda að upplýsa stefnanda um þetta.   

Stefnandi telur ljóst að mistök við framkvæmd ákvörðunar FME hafi ekki getað orðið til þess að umræddum innlánsskuldbindingum Sparisjóðsins í Keflavík gagnvart stefnda hafi verið ráðstafað að lögum frá Sparisjóðnum í Keflavík til SpKef, þvert gegn bindandi ákvörðun FME. Með hinum svokölluðu neyðarlögum nr. 125/2008 og síðar lögum nr. 44/2009 hafi FME verið veittar umfangsmiklar valdheimildir sem ekki séu dæmi um að íslensku stjórnvaldi hafi áður verið fengnar í hendur. Á grundvelli þeirra hafi það verið á valdi FME að taka ákvarðanir eins og fyrrgreinda ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðsins í Keflavík til SpKef svo bindandi yrði fyrir eldri sparisjóðinn, þann yngri og viðsemjendur þeirra, þ. á m. stefnda. Allir þessir aðilar hafi því að lögum verið bundnir við ákvörðun FME og ekki haft vald til þess að breyta henni. Mistökin við framkvæmdina hafi ekki eðli málsins samkvæmt getað haggað efnislegu og lagalega bindandi inntaki ákvörðunarinnar. FME hafi að lögum verið eitt til þess bært. Til þessa dags hafi FME ekki breytt þessari ákvörðun sinni.

Stefnandi telur ljóst að með þessari ólögmætu og saknæmu háttsemi hafi stefndi valdið SpKef tjóni. Eignir SpKef hafi rýrnað þannig að þessu leyti sem nemi þeirri fjárhæð innlánsskuldbindingarinnar, sem með réttu hafi tilheyrt Sparisjóðnum í Keflavík, en ekki SpKef, samkvæmt ákvörðun FME. Tjón SpKef hafi annars vegar falist í þeim fjármunum sem greiddir hafi verið stefnda 23. júní 2010 (101.810.048 kr.) og hins vegar missi ávöxtunar fjármunanna frá þeim degi. Stefnandi byggir kröfu sína á því að umræddir fjármunir hafi komist í hendur stefnda vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda, og vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda í kjölfarið, m.a. með ólögmætum vörslum fjármunanna, hafi stefnandi orðið fyrir tjóni vegna missis ávöxtunar fjármunanna. Lögvarðir hagsmunir SpKef hafi þannig verið skertir. Við útreikning fjárhæðar þess tjóns telur stefnandi eðlilegt að taka mið af lögákveðnum meðalhófsbótum, þ.e. birtum dráttarvöxtum Seðlabanka Íslands samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 á tjónstímabilinu, sem í aðalkröfu miðist að þessu leyti við tímabilið frá 23. júní 2010 til 1. mars 2012, þ.e. þegar stefnandi sendi bréf sitt til stefnda. Samkvæmt því reiknist bótakrafa stefnanda á umræddu tímabili 21.052.054 kr. Á grundvelli framangreinds nemi heildarbótakrafa stefnanda því 122.862.102 kr. (101.810.048 + 21.052.054), sem svari til stefnufjárhæðar í aðalkröfu.

Verði hins vegar ekki talið að miða eigi við dráttarvexti við útreikning fjárhæðar tjónsins á tímabilinu frá 23. júní 2010 til 1. mars 2012 telur stefnandi í öllu falli að miða eigi útreikninginn við vexti á útlánum hjá lánastofnunum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001. SpKef og síðar stefnandi hafi enda farið á mis við þann möguleika að lána fjármunina út til viðskiptavina. Stefndi beri ábyrgð á tjóni stefnanda að þessu leyti á grundvelli sakarreglunnar og hafi hin saknæma og ólögmæta háttsemi stefnda orsakað þetta tjón stefnanda og sé tjónið sennileg afleiðing þeirrar háttsemi. Gera verði ríkar kröfur til stefnda sem lífeyrissjóðs og fagfjárfestis, sem hafi eðli málsins samkvæmt mikla reynslu og þekkingu á verðbréfa- og fjármálamarkaði.

Samkvæmt framangreindu telur stefnandi að öllum skilyrðum sakarreglunnar sé fullnægt. Ljóst sé að stefndi beri skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda vegna framangreinds tjóns stefnanda, sem nemi stefnufjárhæðinni.

Stefnandi byggir í öðru lagi á því að stefnda beri að greiða stefnanda þá fjármuni sem stefndi hafi tekið út 23. júní 2010 frá SpKef (101.810.048 kr.) á grundvelli ólögfestrar meginreglu fjármunaréttar um endurgreiðslu ofgreidds fjár. SpKef hafi enda greitt stefnda þá fjármuni án nokkurrar skyldu, þar eð innlánsskuldbindingu Sparisjóðsins í Keflavík gagnvart stefnda á innlánsreikningi stefnda hjá Sparisjóðnum í Keflavík nr. 1109-26-24000 hafi að lögum ekki verið ráðstafað frá Sparisjóðnum í Keflavík til SpKef og síðar stefnanda, að því leyti sem hún féll undir 4. málsl. 7. tölul. fyrrgreindrar ákvörðunar FME frá 22. apríl 2010. Stefnda beri því að endurgreiða stefnanda fjármunina.

Líkt og áður hefur verið rakið telur stefnandi einsýnt að stefnda hafi verið ljóst eða mátt vera ljóst efni og réttaráhrif ákvörðunar FME. Stefnda hafi þar af leiðandi verið ljóst eða mátt vera ljóst að innlánsskuldbindingu stefnda hjá Sparisjóðnum í Keflavík á innlánsreikningi nr. 1109-26-24000 hafi ekki verið ráðstafað að öllu leyti til SpKef. Stefndi hafi þannig verið grandsamur um að langstærstur hluti innlánsskuldbindingarinnar væri ennþá hjá Sparisjóðnum í Keflavík og ætti stefndi þar af leiðandi ekki lögmæta kröfu á hendur SpKef um greiðslu innláns­skuldbindingarinnar að öllu leyti. Engu að síður hafi stefndi hagnýtt sér að eigin frumkvæði mistök við framkvæmd ákvörðunar FME og tekið fjármuni út úr SpKef sem svöruðu til allrar innlánsskuldbindingarinnar ásamt áföllnum vöxtum. Þetta hafi stefndi gert þvert gegn bindandi ákvörðun Fjármálaeftirlitsins og gegn betri vitund um að hluti innlánsskuldbindingarinnar væri ennþá hjá Sparisjóðnum í Keflavík og SpKef því ekki lagalega skuldbundinn til þess að greiða stefnda fjármunina að öllu leyti. Eðli málsins samkvæmt hafi stefnda verið kunnugt um tilvist, efni og tilurð innláns­skuldbindingarinnar og hafi verið í betri aðstöðu en fulltrúar FME, bráðabirgða­stjórnar/slitastjórnar Sparisjóðsins í Keflavík og endurskoðunarfyrirtækja, sem fengnir hafi verið til þess að hrinda ákvörðun FME í framkvæmd, og hvað þá einstakir starfsmenn SpKef. Í tengslum við framangreint tekur stefnandi fram að stefndi hafi verið í miklum mun betri stöðu en einstakir starfsmenn SpKef til þess að leggja mat á tilvist og efni kröfunnar. Þar að auki flokkist stefndi sem fagfjárfestir og hafi því mikla reynslu og þekkingu af verðbréfa- og fjármálamarkaðnum. Engin atvik hafi átt sér stað sem hafi verið til þess fallin að veita stefnda ástæðu til þess að ætla að kröfu um greiðslu innlánsskuldbindingarinnar skyldi fremur beint að SpKef en Sparisjóðnum í Keflavík í kjölfar ákvörðunar FME, heldur þvert á móti hafi stefndi ekki haft ástæðu til annars en að ætla að innlánsskuldbindingin væri að langstærstum hluta hjá Sparisjóðnum í Keflavík.

Á grundvelli alls þessa telur stefnandi ljóst að SpKef hafi ofgreitt stefnda umrædda fjármuni, án nokkurrar skyldu. Með vísun til meginreglu íslensks réttar um endurgreiðslu ofgreidds fjár telur stefnandi að stefndi beri skyldu til þess að endurgreiða honum fjármunina.

Stefnandi byggir í þriðja lagi á því að stefnda beri að greiða stefnanda stefnufjárhæðina á grundvelli ólögfestrar meginreglu kröfuréttar um óréttmæta auðgun. Á grundvelli þeirra sjónarmiða sem rakin hafi verið hér að framan hafi úttekt stefnda á fyrrgreindum fjármunum frá SpKef (101.810.048 kr.) leitt til óréttmætrar auðgunar stefnda á kostnað stefnanda. Á úttektardeginum 23. júní 2010 hafi stefndi  auðgast á kostnað stefnanda með óréttmætum hætti og nemi auðgunin ávöxtun stefnda á fjármununum á tímabilinu. Af þessum sökum sé stefnanda nauðsynlegt að skora á stefnda að gera grein fyrir ávöxtun fjármunanna allt frá úttekt þeirra 23. júní 2010. Auðgun stefnda og tjón stefnanda svari a.m.k. til stefnufjárhæðarinnar og á grundvelli fyrrgreindrar auðgunarreglu beri stefnda að standa stefnanda skil á þessum fjármunum.

Stefnandi krefst þess að stefnufjárhæðin beri dráttarvexti frá 1. mars 2012 til greiðsludags, þ.e. að liðnum mánuði frá því að stefnandi sendi bréf sitt til stefnda, sbr. 3. mgr. 5. gr. og 9. gr. laga nr. 38/2001. Verði hins vegar ekki fallist á að stefnufjárhæðin beri dráttarvexti frá þeim tíma krefst stefnandi þess á sama lagagrundvelli að upphafstímamark dráttarvaxta miðist við 11. nóvember 2013, þ.e. að mánuði liðnum frá öðru bréfi stefnanda til stefnda. Verði hins vegar ekki fallist á það krefst stefnandi þess að upphafstímamark dráttarvaxta miðist við stefnubirtingardag, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.

Stefnandi sundurliðar aðalkröfu sína, að fjárhæð 122.862.102 kr., með eftirfarandi hætti:

I. Útteknir fjármunir 23. júní 2010 (101.810.048 kr.).

  1. 88.677.120 kr.

Um sé að ræða uppgreiðsluverðmæti skuldabréfa í flokki með auðkennið SPVF 03 1, lagt inn á innlánsreikning stefnda hjá Sparisjóðnum í Keflavík 19. mars 2009 samkvæmt samningi stefnda og Sparisjóðsins í Keflavík sama dags.

  1. 13.132.928 kr.

Um sé að ræða áfallna vexti á þann hluta innstæðuskuldbindingarinnar sem hafi verið að rekja til uppgreiðslu skuldabréfanna, sbr. lið 1, á tímabilinu frá 19. mars 2009 til 23. júní 2010 (þ.e. áfallnir vextir á umræddu tímabili af 88.677.120 kr.). Samkvæmt fyrirliggjandi reikningsyfirliti hafi greiddir áfallnir vextir verið samtals 17.541.384 kr. (7.106.654 kr. + 3.592.808 kr. + 394.813 kr. + 3.324.821 kr. + 3.122.288 kr.). Áfallnir vextir af 88.677.120 kr. hafi því samtals verið 13.132.928 kr. (88.677.120 kr. / 118.444.220 kr. (74,87%) af 17.541.384 kr.). 

II. Missir ávöxtunar (21.052.054 kr.).

  1. 21.052.054 kr.

Um sé að ræða bætur vegna missis ávöxtunar sem svari til fjárhæðar dráttarvaxta af 101.810.048 kr. á tímabilinu frá 23. júní 2010 til 1. mars 2012. Athuga beri að þar sem um útreikning bóta sé að ræða, en ekki útreikning dráttarvaxta, hafi engar fjárhæðir verið lagðar við höfuðstól á 12 mánaða fresti til nýs útreiknings.

Þar að auki krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda dráttarvexti, svo sem nánar er rakið í kafla 1.4 að framan.

Stefnandi krefst þess til vara að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 144.864.384 kr., með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 11. nóvember 2013 til greiðsludags. Varakrafa stefnanda byggist á öllum þeim sömu málsástæðum og aðalkrafa. Stefnandi vísar því til og byggir á öllu því sem áður hefur verið rakið í tengslum við hana. Varakrafa stefnanda sé einungis frábrugðin aðalkröfu að því leyti að verði ekki fallist á að krafa stefnanda beri dráttarvexti frá 1. mars 2012, heldur fremur talið að krafa stefnanda skuli bera dráttarvexti frá 11. nóvember 2013, byggir stefnandi á því að tjónstímabilið vegna missis ávöxtunar vari frá úttektardeginum 23. júní 2010 til 11. nóvember 2013. Uppreikna beri fjárhæð tjóns stefnanda miðað við það, en í samræmi við þær forsendur útreikningsins sem gerðar eru í aðalkröfu. Varakrafa stefnanda miðist þannig við að auk úttektarfjárhæðarinnar (101.810.048 kr.) hafi stefnandi orðið fyrir tjóni á tímabilinu frá 23. júní 2010 til 11. nóvember 2013 vegna missis ávöxtunar sem svari til útreiknaðra dráttarvaxta á því tímabili, án nokkurrar höfuðstólsfærslu, samtals 43.054.336 kr.

Stefnandi krefst þess til þrautavara að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 101.810.048 kr., með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 23. júní 2010 til 1. mars 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. frá þeim degi til greiðsludags. Þrautavarakrafa stefnanda byggist á öllum þeim sömu málsástæðum og aðalkrafa og varakrafa. Stefnandi vísar því til og byggir á öllu því sem áður hefur verið rakið í tengslum við þær. Þrautavarakrafa stefnanda sé einungis frábrugðin aðalkröfu og varakröfu að því leyti að verði ekki fallist á kröfur stefnanda um greiðslu bóta vegna missis ávöxtunar frá 23. júní 2010, á grundvelli framangreindra sjónarmiða, byggir stefnandi á því að samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 skuli stefnufjárhæðin í þrautavarakröfu (fjárhæð þeirra fjármuna sem teknir voru út af hálfu stefnda með saknæmum og ólögmætum hætti 23. júní 2010) bera almenna vexti frá 23. júní 2010, þ.e. frá og með þeim degi sem hið bótaskylda atvik átti sér stað, og dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. frá 1. mars 2012, þ.e. að liðnum mánuði frá bréfi stefnanda til stefnda, sbr. og 3. mgr. og 9. gr. laga nr. 38/2001. Verði ekki fallist á það upphafstímamark byggir stefnandi á því að stefnufjárhæðin beri dráttarvexti a.m.k. frá 11. nóvember 2013, þ.e. að liðnum mánuði frá öðru bréfi stefnanda til stefnda.

Stefnandi krefst þess til þrautaþrautavara að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 101.810.048 kr., auk skaðabóta að álitum dómsins, vegna þess tjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir frá 23. júní 2010, og að samanlögð fjárhæð beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. mars 2012 til greiðsludags. Þrautaþrautavarakrafa stefnanda byggist á öllum þeim sömu málsástæðum og aðalkrafa, varakrafa og þrautavarakrafa. Stefnandi vísar því til og byggir á öllu því sem áður hefur verið rakið í tengslum við þær. Þrautaþrautavarakrafa stefnanda sé einungis frábrugðin aðalkröfu, varakröfu og þrautavarakröfu að því leyti að verði ekki fallist á kröfur stefnanda um greiðslu bóta vegna missis ávöxtunar frá 23. júní 2010 eða greiðslu almennra vaxta á tímabilinu frá þeim degi til 1. mars 2012, á grundvelli framangreindra sjónarmiða, krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda bætur að álitum dómsins vegna þess tjóns sem stefnandi varð fyrir á því tímabili vegna missis ávöxtunar þeirra fjármuna sem stefndi tók út 23. júní 2010, enda sé stefnanda þá ekki fært að sýna fram á fjárhæð tjónsins. Tjónstímabilið miðast við að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda dráttarvexti frá 1. mars 2012, þ.e. að mánuði liðnum frá bréfi stefnanda til stefnda. Verði hins vegar ekki fallist á það upphafstímamark dráttarvaxta krefst stefnandi þess að upphafstímamarkið miðist við 11. nóvember 2013, þ.e. að mánuði liðnum frá öðru bréfi stefnanda til stefnda. Verði hins vegar ekki fallist á það telur stefnandi ljóst að miða beri upphafstímamark dráttarvaxta við stefnubirtingardag, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Verði upphafstímamark dráttarvaxta þannig ekki miðað við 1. mars 2012 krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda bætur að álitum dómsins fyrir umrætt tjón stefnanda á tímabilinu frá 23. júní 2010 og allt fram til upphafstímamarks dráttarvaxta.

Stefnandi krefst þess í öllum ofangreindum tilvikum að stefndi verði auk þess dæmdur til þess að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti eða samkvæmt mati dómsins. Málskostnaðarkrafa stefnanda byggist í öllum tilvikum á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV.

                Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að stefnandi eigi ekki þá hagsmuni sem hann leitar dóms fyrir og því sé um að ræða aðildarskort sem leiða eigi til sýknu. Í öðru lagi byggir stefndi á því að skilyrði sakarreglunnar séu ekki uppfyllt og því sé hann ekki skaðabótaskyldur gagnvart stefnanda. Í þriðja lagi byggir stefndi á því að stefnandi hafi ekki ofgreitt honum fé og því sé ekki hægt að krefjast endurgreiðslu úr hendi stefnda. Þá mótmælir stefndi því að hann hafi auðgast á ólögmætan hátt. Í fimmta lagi byggir stefndi á því að ef talið verður að stefnandi hafi átt kröfu á stefnda um greiðslu fjármuna hafi stefnandi með aðgerðarleysi sínu fyrirgert öllum þeim rétti sem hann kynni að hafa átt. Loks byggir stefndi á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni.

Málsástæða um aðildarskort er byggð á því að stefnandi eigi ekki þá hagsmuni sem hann leitar dóms fyrir og því sé um að ræða aðildarskort sem leiða eigi til sýknu á grundvelli 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sú innstæða, sem deilt er um í málinu, hafi verið laus til útgreiðslu 19. mars 2010 samkvæmt samkomulagi Sparisjóðsins í Keflavík og stefnda. Samkomulag um innlánið hafi hins vegar verið framlengt í þrjá mánuði eða fram í júní 2010. Á því þriggja mánaða tímabili, eða þann 22. apríl 2010, hafi FME tekið ákvörðun um að taka yfir vald hluthafafundar í Sparisjóðnum í Keflavík og skipa bráðabirgðastjórn yfir honum. Samhliða hafi FME tekið ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðsins í Keflavík til SpKef. Við framkvæmd FME á þeirri ákvörðun hafi innlán stefnda verið flutt frá Sparisjóðnum í Keflavík til SpKef. Að loknum framlengdum binditíma innlánsins 23. júní 2010 hafi innlánið svo verið millifært af hinum bundna reikningi yfir á annan innlánsreikning í eigu stefnda hjá SpKef. Tæpum níu mánuðum eftir að innlánið var tekið út af bundnum reikningi hjá SpKef sparisjóði, eða þann 5. mars 2011, hafi SpKef  verið sameinaður stefnanda með ákvörðun FME frá 5. mars 2011. Við sameininguna hafi samningur aðila um hið umdeilda innlán verið að fullu efndur af beggja hálfu og því hafi engin réttindi eða skyldur samkvæmt þeim samningi getað flust yfir til stefnanda. Því sé ljóst að stefnandi hafi aldrei átt kröfu á stefnda, enda hafi hinu umdeilda samningssambandi verið lokið þegar stefnandi tók yfir rekstur SpKef. Því geti stefnandi ekki verið réttur aðili að málinu. Á grundvelli framangreinds krefst stefndi sýknu á grundvelli aðildarskorts stefnanda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Stefndi telur að ekki geti komið til skaðabótaábyrgðar á grundvelli sakarreglunnar nema skilyrðum reglunnar sé fullnægt, en þau séu að tjóni sé valdið með saknæmum og ólögmætum hætti, að tjónið sé sennileg afleiðing af hegðun þess sem ber skaðabótaábyrgð á því, að raskað sé hagsmunum sem verndaðir eru með skaðabótareglum og að sérstakar huglægar afsökunarástæður eigi ekki við um tjónvald. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að framangreindum skilyrðum sé fullnægt, enda verður ekki séð að stefndi hafi sýnt af sér saknæma eða ólögmæta háttsemi. Þá hafi ekki verið sýnt fram á að meint tjón sé sennileg afleiðing af hegðun stefnda.

Til að hægt sé að beita sakarreglunni þurfi að liggja fyrir háttsemi sem sé óforsvaranleg eða ólögmæt og þurfi háttsemin að hafa verið viðhöfð af ásetningi eða gáleysi og þar með vera saknæm. Stefndi hafi ekki að neinu leyti sýnt af sér ólögmæta hegðun og er fullyrðingum í stefnu um það vísað á bug. Þvert á móti hafi stefndi að öllu leyti farið að þeirri framkvæmd sem FME, opinber stofnun sem fer með eftirlit með fjármálafyrirtækjum, viðhafði við ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðsins í Keflavík á grundvelli ákvörðunar stofnunarinnar frá 22. apríl 2010.

Þann 19. mars 2009 hafi Sparisjóðurinn í Keflavík keypt skuldabréf af stefnda að nafnvirði 60.000.000 kr. og kaupverðið verið 88.677.120 kr. Sama dag hafi verið undirritað samkomulag milli aðila um vaxtakjör á bundnum innlánsreikningum stefnda hjá Sparisjóðnum í Keflavík og verið samið um binditíma innlána í eitt ár. Eins og sést af gögnum málsins hafi tölvupóstur gengið milli aðila frá 11. mars 2009 þar sem umrædd viðskipti hafi verið rædd. Á þessum tíma hafi mörg fjármálafyrirtæki boðið viðskiptavinum sínum upp á að gera slíka gerninga og hafi stefndi verið í góðri trú varðandi viðskiptin.

Stefndi mótmælir því sem látið er liggja að í stefnu um að stefndi hafi ekki verið í góðri trú sökum þess að tveimur dögum áður en stefndi stofnaði til umrædds innláns hjá Sparisjóðnum í Keflavík hafi FME tekið ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda frá Straumi-Burðarási fjárfestingabanka hf. (Straumi) til Íslandsbanka hf., þar sem m.a. hafi verið kveðið á um það að Íslandsbanki tæki ekki yfir innlánsskuldbindingar sem stofnað hefði verið til með þeim hætti að Straumur greiddi upp kröfur samkvæmt skuldabréfunum fyrir gjalddaga gegn því að greiðslan yrði lögð á innlánsreikninga. Stefndi vill árétta að hann hafi ekki haft vitneskju um umrædda ákvörðun þegar stofnað var til innlánsins. Stefndi hafi engin innlán átt hjá Straumi og því enga ástæðu haft til að fylgjast með ákvörðunum FME sem snertu Straum.

Stefndi mótmælir því að stefndi hafi þekkt sérstaklega vel til málefna Sparisjóðsins í Keflavík vegna þess að þessir aðilar hafi verið til staðar í sama húsi og að talsverður samgangur hafi verið milli starfsmanna þeirra. Þrátt fyrir að hafa haft skrifstofur í sama húsi og Sparisjóðurinn í Keflavík hafi stefndi ekki haft meiri upplýsingar um málefni og fjárhagsstöðu umrædds fjármálafyrirtækis en aðrir. Þá hafi enginn sérstakur samgangur verið á milli starfsmanna stefnda og starfsmanna Sparisjóðsins umfram samskipti stefnda við starfsmenn annarra fjármálafyrirtækja. Hið rétta sé að á miðju ári 2006 hafi stefndi sagt upp eignastýringarsamningi við Sparisjóðinn í Keflavík sem hafi verið í gildi milli Sparisjóðsins í Keflavík og Lífeyrissjóðs Suðurlands, áður en Lífeyrissjóðurinn sameinaðist stefnda. Eftir það hafi viðskipti stefnda við Sparisjóðinn í Keflavík aðallega verið í formi innlána, en einnig hafi Sparisjóðurinn séð um innheimtu skuldabréfa sjóðfélaga sjóðsins. Það sé því fjarri lagi að stefndi hafi þekkt sérstaklega vel til málefna Sparisjóðsins í Keflavík.

Þá mótmælir stefndi því að við stofnun innlánsins hafi stefndi átt að vita um bága stöðu Sparisjóðsins í Keflavík. Þegar stofnað var til innláns þess sem deilt er um í málinu, þann 19. mars 2009, hafi engin umræða átt sér stað um eiginfjárhlutfall sjóðsins. Sú umræða hafi ekki farið af stað fyrr en nokkru eftir að stofnað var til umrædds innláns eða í kjölfar birtingar ársuppgjörs Sparisjóðsins í Keflavík 4. apríl 2009. Þann 5. apríl 2009 hafi síðan verið fjallað um það í fjölmiðlum að eiginfjárhlutfall sparisjóðsins væri undir lögbundnum mörkum, eða 7,06%. Frestur sem FME veitti Sparisjóðnum í Keflavík til að auka eiginfjárgrunn sinn að lágmarki samkvæmt 84. gr. laga um fjármálafyrirtæki hafi fyrst verið veittur 25. maí 2009 og síðan 13 sinnum eftir það, síðast 29. mars 2010. Þetta megi sjá í ákvörðun FME frá 22. apríl 2010. Því hafi stefndi engar upplýsingar haft um bága fjárhagsstöðu Sparisjóðsins í Keflavík þegar stofnað var til innlánsins.

Einnig mótmælir stefndi því að stefnda hafi mátt vera ljóst að hluta innlánsskuldbindinga hans hafi ekki verið ráðstafað frá Sparisjóðnum í Keflavík til SpKef. Í þessu sambandi áréttar stefndi að innlán lífeyrissjóðsins hafi verið færð yfir til SpKef á grundvelli ákvörðunar FME og stefndi verið í góðri trú um þá aðgerð. Eins og áður var rakið hafi stefndi engin innlán átt hjá Straumi og því ekki haft sérstaka ástæðu til að fylgjast með dómum Hæstaréttar sem snertu Straum. Þá bendir stefndi á að dómar sem stefnandi vísar til hafi gengið ári eftir að stofnað hafi verið til innlánanna og rúmum mánuði eftir að stefndi, í góðri trú, hafi framlengt umræddan innlánssamning um þrjá mánuði, en árs binditíma innlánsins hafi lokið 19. mars 2010. Stefndi hafi enga ástæðu haft til annars en að treysta framkvæmd FME á ákvörðun stofnunarinnar, enda hafi enginn gert athugasemd við færslu innlánsins frá Sparisjóðnum í Keflavík til SpKef fyrr en nær tveimur árum eftir að binditíma þess lauk og það var greitt út. Þannig hafi hvorki Sparisjóðurinn í Keflavík né SpKef gert  athugasemdir við umrætt innlán né aðrir sem á þessum tíma hafi farið ítarlega og nákvæmlega yfir allar eignir og skuldir, m.a. hafi stefnandi sjálfur látið gera ítarlega skoðun á eignum og skuldum, án þess að gera athugasemdir við innlánið. Stefndi hafi, eins og áður segir, verið í góðri trú varðandi stofnun umrædds innláns í mars 2009, framlengingu samnings um það í mars 2010 og útgreiðslu þess í júní 2010 og talið samning aðila og framkvæmd FME á eigin ákvörðun frá 22. apríl 2010 að öllu leyti í samræmi við ákvæði laga og reglna. Verði því ekki séð að stefndi hafi sýnt af sér saknæma eða ólögmæta háttsemi í tengslum við umrætt innlán.

Jafnframt segir stefndi að það sé skilyrði fyrir stofnun skaðabótaábyrgðar á grundvelli sakarreglunnar að orsakatengsl séu á milli háttsemi og þess tjóns sem bóta er krafist fyrir. Því verði sá sem tjóni veldur að vera viðriðinn þá atburðaráðs sem leiðir til tjóns og þarf tjónið að vera sennileg afleiðing af hegðun þess sem ber skaðabótaábyrgð á því.  Í stefnu sé fullyrt að meint tjón stefnanda sé sennileg afleiðing af háttsemi stefnda, en fullyrðingin sé ekki studd neinum gögnum eða rökum og mótmælir stefndi því að meint tjón stefnanda geti verið sennileg afleiðing af háttsemi stefnda. Í stefnu komi hins vegar ítrekað fram að fulltrúar FME, bráðabirgðastjórnar Sparisjóðsins í Keflavík og endurskoðunarfyrirtækja, sem önnuðust framkvæmd ákvörðunar FME frá 22. apríl 2010, hafi gert mistök við yfirfærslu innlánsskuldbindinga frá Sparisjóðnum í Keflavík til SpKef. Af stefnu sé einnig ljóst að stefnandi telji að meint tjón hans megi rekja til þess að innlán stefnda hjá Sparisjóðnum í Keflavík hafi ranglega verið fært til SpKef. Í ljósi þessa telur stefndi að stefnandi hafi með skýrum hætti lýst því yfir að það hafi verið FME og þeir sem aðstoðuðu stofnunina við framkvæmd ákvörðunar stofnunarinnar sem hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi sem valdið hafi tjóni stefnanda. Í ljósi þess beinir stefnandi málinu ranglega að stefnda. Af þeim sökum beri að sýkna stefnda vegna aðildarskorts á grundvelli 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála.

Í stefnu sé í löngu máli fjallað um möguleika á riftun kaupa Sparisjóðsins í Keflavík á skuldabréfi því sem sparisjóðurinn keypti af stefnda, þann 19. mars 2009, á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Fyrir liggi að við skipti á búi Sparisjóðsins í Keflavík hafi ekki verið gerð krafa um riftun umrædds gernings. Slitastjórn sparisjóðsins hafi farið með forræði þrotabúsins og verið ein bær um að ráðstafa hagsmunum og svara fyrir skyldur þess skv. 122. gr. laga nr. 21/1991 og tekið ákvarðanir um hvernig eignum og réttindum þrotabúsins yrði ráðstafað, þar á meðal hvort halda ætti uppi kröfu, mál yrði höfðað um hana eða hún gefin eftir, sbr. 124. gr. laga nr. 21/1991. Skiptum á búi Sparisjóðsins í Keflavík hafi lokið 2. september 2013 án þess að búið rifti eða höfðaði mál vegna framangreinds gernings. Stefnandi hafi ekki lagt fram gögn sem sýni með óyggjandi hætti að hægt hefði verið að rifta umræddum gerningi, eða að skilyrðum 4. málsl. 7. tölul. ákvörðunar FME frá 22. apríl 2010 hafi verið fullnægt, enda liggi afrit af umræddu skuldabréfi ekki fyrir í málinu, né önnur gögn sem sýni með óyggjandi hætti að skuldabréfið hafi verið greitt upp fyrir gjalddaga. Hvað sem öllu framangreindu líði hafi stefnandi hvorki sýnt fram á né rökstutt hvernig hann leiði fram rétt sinn á hendur stefnda á grundvelli heimilda sem skiptastjórn Sparisjóðsins í Keflavík hafði samkvæmt ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti o.fl. til að mögulega rifta framangreindum kaupum, en nýtti ekki.

Stefndi hafnar því að stefnandi hafi ofgreitt stefnda fé. Stefndi áréttar í þessu sambandi að ekki hafi verið sýnt fram á það með ótvíræðum hætti að SpKef hafi ranglega greitt stefnda út hið umdeilda innlán þann 23. júní 2010. Verði talið að SpKef hafi greitt innlánið út umfram skyldu sé ekki þar með sagt að stofnast hafi krafa um endurheimtu. Til að slík krafa stofnist sé almennt talið að sá sem greiðir út fjármunina þurfi að hafa verið í villu um staðreyndir eða augljósar reglur. FME hafi tekið ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðsins í Keflavík til SpKef þann 22. apríl 2010, tveimur mánuðum áður en hin umdeilda innstæða var greidd út. Í kjölfarið hafi farið fram ítarleg og nákvæm skoðun á öllum eignum og skuldbindingum bæði Sparisjóðsins í Keflavík og SpKef. Það sé því ljóst að starfsmenn SpKef hafi haft ítarlegar upplýsingar um og þekkingu á innlánsskuldbindingum sjóðsins og tilurð þeirra. Þá hafi þeir þekkt vel til stöðu innlána, flokkunar þeirra eftir eðli, upphæðum og binditíma á hverjum tíma. Starfsmenn SpKef hafi einnig verið mjög vel meðvitaðir um ákvörðun FME frá 22. apríl 2010 og ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðsins í Keflavík til SpKef. Því sé ljóst að starfsmenn SpKef hafi ekki verið í villu um staðreyndir eða augljósar reglur þegar þeir greiddu umrætt innlán út. Þvert á móti hafi þeir verið vel upplýstir bæði um staðreyndir og ákvörðun FME.  Stefndi mótmælir því að hann hafi verið í mun betri stöðu en einstakir starfsmenn SpKef til þess að leggja mat á tilvist og efni kröfunnar. Eins og allar innlánsstofnanir hafi SpKef reglulega þurft að gera Seðlabankanum grein fyrri stöðu innlána bankans. Því hafi starfsmenn sparisjóðsins þekkt vel til stöðu og tilurðar innlána sparisjóðsins. Þá verði að hafa í huga að SpKef hafi verið fjármálafyrirtæki og borið ýmsar skyldur sem slíkt, sbr. ákvæði laga um fjármálafyrirtæki. Þá bendir stefndi á að SpKef hafi greitt umrætt innlán út án nokkurs fyrirvara, en fyrirvaralaus greiðsla sé almennt talin jafngilda uppgjöri, enda veki slík greiðsla það traust hjá viðtakanda að hún sé endanleg einkum ef ekki sé leitað leiðréttingar fljótlega. Í ljósi alls framangreinds telur stefnandi að skilyrðum reglna um endurgreiðslu ofgreidds fjár sé ekki fullnægt og því beri að sýkna stefnda af endurgreiðslukröfum stefnanda.

Stefndi mótmælir því einnig að hann hafi auðgast á ólögmætan hátt, enda liggi ekki fyrir að skilyrði stofnunar auðgunarkröfu séu fyrir hendi. Þannig hafi stefnandi hvorki sýnt fram á að hann hafi beðið sannanlegt tjón né hvert meint tjón hans sé. Þá liggi heldur ekki fyrir hvort stefndi geti haft uppi kröfu á öðrum grundvelli. Ljóst sé að stefnandi hafi samið við fjármálaráðherra f.h. íslenska ríkisins um yfirtöku stefnanda á SpKef og hafi endanleg niðurstaða varðandi endurgjald til stefnanda fyrir yfirtöku á eignum og skuldum verið sú að það skyldi vera samtals 19.198.000.000 kr. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi ekki fengið meint tjón sitt bætt með umræddum greiðslum frá íslenska ríkinu. Þá hafi stefnandi heldur ekki sýnt fram á að stefndi hafi auðgast á kostnað annars aðila eða að orsakasamband sé á milli meintrar auðgunar stefnda og meintrar skerðingar stefnanda. Stefnandi hafi hvorki sýnt fram á að meint auðgun stefnda sé óréttmæt, né að fjárhæð kröfu hans samsvari þeirri upphæð sem meint auðgun tekur til. Því verður ekki talið að skilyrði stofnunar auðgunarkröfu séu fyrir hendi.

Verði talið að stefnandi eigi kröfu á stefnda um greiðslu fjármuna byggir stefndi á því að með aðgerðarleysi sínu hafi stefnandi fyrirgert öllum þeim rétti sem hann kynni að hafa átt (tómlæti). Hið umdeilda innlán í mars 2009 hafi verið greitt út í júní 2010. Engar athugasemdir hafi verið gerðar við umrætt innlán af hálfu bráðabirgðastjórnar eða slitastjórnar Sparisjóðsins í Keflavík. Þá hafi skiptastjóri Sparisjóðsins í Keflavík aldrei gert neina athugasemd við umrædd innlán, en skiptum á búi sjóðsins hafi lokið í september 2013. Þá hafi aldrei borist athugasemdir eða tilkynningar um innlánið frá SpKef sparisjóði. Því er mótmælt að í október 2010 hafi stefnda verið gerð grein fyrir því af hálfu SpKef að hin umdeilda innlánsskuldbinding Sparisjóðsins í Keflavík, sem stefndi hafði þá tekið út frá SpKef, væri til skoðunar hjá slitastjórn Sparisjóðsins í Keflavík. Um þetta vísar stefnandi til tölvupóstsamskipta í október og nóvember 2010. Sá tölvupóstur sýni ekki á neinn hátt að stefndi hafi fengið tilkynningu um að málið væri til skoðunar. Í tölvupósti 27. október 2010, frá starfsmanni SpKef til stjórnarformanns og annars starfsmanns sparisjóðsins, segi að búið sé að hafa samband við Festu lífeyrissjóð, en engin gögn hafi verið lögð fram sem sýna fram á að það hafi í raun verið gert. Í tölvupósti 9. nóvember 2010, frá framkvæmdastjóra stefnda til starfsmanns SpKef, komi fram að framkvæmdastjóri stefnda hafi rætt við starfsmann sparisjóðsins um innlánsmál og að starfsmaðurinn hafi ekkert vitað um málið, en haldið að það væri ennþá verið að skoða málið. Í tölvupósti sama dag, 9. nóvember, milli starfsmanna SpKef, komi fram að framkvæmdastjóri stefnda hafi óskað eftir upplýsingum um innlán sjóðsins. Ekki hafi hins vegar verið lögð fram nein gögn um að þær upplýsingar hafi verið veittar.

Á tímabilinu apríl 2010 til mars 2011 hafi farið fram ítarleg og nákvæm skoðun á öllum eignum og skuldbindingum bæði Sparisjóðsins í Keflavík og SpKef, í kjölfar ákvörðunar FME um ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðsins til SpKef og uppgjörs sem fara skyldi fram á milli sjóðanna. Það sé fráleitt að halda því fram að starfsmenn SpKef og slitastjórnar Sparisjóðsins í Keflavík hafi ekki haft vitneskju og þekkingu á efni, tilurð og tilvist innlánsskuldbindinga sjóðanna og að stefndi hafi haft mun betri vitneskju um efni, tilurð og tilvist innlánsskuldbindinganna en einstakir starfsmenn slitastjórnar og endurskoðunarfyrirtækja, sem önnuðust framkvæmd ákvörðunar FME og fengnir voru til að meta eignir og skuldir Sparisjóðsins í Keflavík. Eins og allar innlánsstofnanir hafi Sparisjóðurinn í Keflavík, og síðar SpKef, þurft að gera Seðlabankanum grein fyrri stöðu innlána bankans. Því hafi starfsmenn sparisjóðsins þekkt vel til stöðu innlána, flokkunar þeirra eftir eðli, upphæðum og binditíma á hverjum tíma. Ljóst sé að starfsmenn stefnda hafi ekki komið með neinum hætti að umræddri yfirfærslu og því ekki verið í neinni aðstöðu til að hafa áhrif á framkvæmd hennar. Því til stuðnings sé rétt að árétta að á meðan umræddur innlánssamningur hafi verið í gildi hafi stefndi fengið reglulegar tilkynningar frá SpKef um vaxtatekjur af umræddri innstæðu, en aldrei hafi verið gerð nein athugasemd við tilurð eða tilvist innstæðunnar.

Stefnandi hafi tekið yfir eignir og skuldir SpKef í byrjun mars 2011. Bankinn hafi þó engar athugasemdir gert við umrætt innlán fyrr en tæpu ári síðar, eða í febrúar 2012, en þá hafi verið liðin tæp tvö ár frá því að innstæðan var greidd út af innlánsreikningnum. Í bréfi stefnanda frá því í febrúar 2012 sé ekki krafist greiðslu á umræddri innstæðu, heldur sé þar fjallað um að stefnandi hafni því að stefndi eigi kröfur á hendur bankanum vegna tveggja innlána. Þá hafi stefnandi áskilið sér rétt til að krefjast endurgreiðslu vegna úttektar á riftanlegum innlánum. Stefndi hafi mótmælt athugasemdum stefnanda í maí 2012. Ekki hafi verið gripið til neinna aðgerða af hálfu stefnanda fyrr en 11. október 2013, meira en einu og hálfu ári eftir að fyrsta bréfið hafi verið sent, en þá hafi stefnda borist greiðsluáskorun frá stefnanda og greiðsluskyldu alfarið verið hafnað með bréfi 4. nóvember s.á. Stefndi telur að verulega hafi skort á að stefnandi gerði tafarlaust fyrirvara um meintan rétt sinn gagnvart stefnda og verði ekki séð að þær ástæður hafi verið fyrir hendi sem réttlætt geti að það hafi verið dregið svo lengi sem raun varð á.

Einnig byggir stefndi á því að í stefnu séu hvorki færðar sönnur fyrir því að stefndi hafi beðið tjón né sé það rökstutt með skýrum hætti hvert meint tjón stefnanda eigi að hafa verið. Stefnandi telur að hann hafi orðið annars vegar fyrir beinu tjóni, en hins vegar fyrir óbeinu tjóni vegna missis ávöxtunar fjármuna. Engin nánari grein sé gerð fyrir beinu eða óbeinu tjóni í stefnu og telur stefndi því að tjón stefnanda sé ósannað með öllu. Auk þess hafi stefnandi ekki sýnt fram á hvernig hann hafi beðið tjón af ráðstöfunum sem fóru fram um ári áður en hann yfirtók SpKef. Þá er sérstaklega mótmælt aðferðum við útreikning tjóns vegna missis ávöxtunar og telur stefndi engin rök fyrir því að beita þeim viðmiðunum við útreikninginn sem stefnandi gerir í stefnu.

Ef ekki verður fallist á að sýkna stefnda af kröfum stefnanda gerir stefndi kröfu um að dráttarvextir verði ekki dæmdir fyrr en í fyrsta lagi frá og með uppkvaðningu endanlegs dóms. Byggir stefndi þessa kröfu sína á 7. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Það verði að telja óeðlilegt, í ljósi tómlætis stefnanda, að stefndi verði dæmdur til greiðslu dráttarvaxta af umræddri kröfu í samræmi við kröfugerð stefnanda.

Um málskostnaðarkröfu stefnda er vísað til 129. og 131. gr. laga nr. 91/1991.

Vegna áskorunar í stefnu, um að stefndi veiti upplýsingar um það hvort stefndi hafi gripið til sérstakrar varúðarniðurfærslu í bókhaldi eða annarra svipaðra aðgerða í tengslum við útgreiðslu hinnar umdeildu innstæðu þann 23. júní 2010, upplýsir stefndi að hann hafi ekki fært varúðarniðurfærslu í reikningum sínum vegna umrædds innláns. Stefndi mótmælir því að hægt sé að sjá það af ársreikningum stefnda fyrir reikningsárin 2009 og 2010 að stefndi hafi sjálfur litið svo á sem innlánsskuldbindingum Sparisjóðsins í Keflavík gagnvart stefnda hafi ekki verið ráðstafað til SpKef. Í framlögðu dómskjali sé að finna skýringar með ársskýrslu stefnda frá 2009, 2010 og 2011. Á þeim blaðsíðum sem lagðar hafa verið fram sé gerð grein fyrir öllum innlánum sjóðsins, annars vegar greint eftir fjármálafyrirtækjum og hins vegar sem heildartölu. Megi sjá af ársskýrslunum að fjárhæð innlána breytist milli ára, en stefndi telur rétt að taka fram að þær breytingar tengist ekki á neinn hátt því innláni sem deilt er um í þessu máli og sýni umrætt dómskjal því ekki á neinn hátt afstöðu stefnda, enda hafi hann ekki fært varúðarniðurfærslu í reikningum sínum vegna umrædds innláns.

Þá segir stefndi, vegna áskorunar í stefnu um að veita upplýsingar um ávöxtun stefnda á útteknum fjármunum af reikningi nr. 1109-26-24000 frá 23. júní 2010 til þess dags, að stefnda sé ómögulegt að veita upplýsingar um ávöxtun umræddra fjármuna, enda sé þeim ekki haldið sérgreindum frá öðrum fjármunum sem sjóðurinn ávaxtar í samræmi við fjárfestingarstefnu sína frá einum tíma til annars. Þeir hafi runnið saman við aðra fjármuni sjóðsins, sem til ráðstöfunar séu hverju sinni til fjárfestinga. Fjárfestingar sjóðsins nemi milljörðum króna á hverju ári og sé ómögulegt að tengja umrædda fjármuni við einhverja ákveðna fjárfestingu sjóðsins.

V.

Eins og rakið hefur verið átti stefndi skuldabréf útgefið af Sparisjóði Vestfirðinga að nafnverði 60.000 kr., sem var auðkennt SPVF 03 1. Gjalddagi bréfsins var 15. mars 2010. Sparisjóður Vestfirðinga sameinaðist Sparisjóðnum í Keflavík sem keypti skuldabréfið af stefnda fyrir gjalddaga þess, hinn 19. mars 2009, á 88.677.120 kr. Sama dag gerðu stefndi og Sparisjóðurinn í Keflavík samkomulag um vaxtakjör á bundnum innlánsreikningi stefnda hjá sparisjóðnum. Höfuðstóll í upphafi binditíma, sem var til tólf mánaða, var 118.444.220 kr. Innlánið var óverðtryggt og fastir vextir 12% á höfuðstól. Kaupverð framangreinds skuldabréfs, 88.677.120 kr., var lagt inn á innlánsreikninginn auk frekari fjármuna frá stefnda, 29.767.100 kr., samtals 118.444.220 kr. Samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands frá 6. október 2008 var innistæðan tryggð að fullu, sbr. og 6. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., er breytti 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Með ákvörðun FME 22. apríl 2010 var eignum og skuldum Sparisjóðsins í Keflavík ráðstafað til SpKef. Í ákvörðun FME var sérstakt ákvæði í 7. tölul. um að SpKef tæki ekki yfir innlánsskuldbindingar Sparisjóðsins í Keflavík sem stofnað hefði verið til með þeim hætti að kröfueigandi samkvæmt skuldabréfi hefði fengið kröfu sína greidda fyrir gjalddaga en á sama tíma hafi verið stofnað til innláns í Sparisjóðnum í Keflavík „enda sé um riftanlegan gerning að ræða skv. lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991“. Framangreint innlán stefnda mun fyrir mistök hafa verið flutt úr Sparisjóðnum í Keflavík yfir í SpKef. Stefndi tók út innistæðuna hinn 23. júní 2010 ásamt vöxtum, 135.985.604 kr. Hinn 5. mars 2011 tók FME yfir vald stofnfjáreigenda SpKef og ákvað að NBI hf., nú Landsbankinn hf., tæki frá 7. mars við rekstri, eignum og skuldbindingum SpKef, samkvæmt samningi íslenska ríkisins og NBI hf. um yfirtökuna, dags. 5. mars 2011. 

Í máli þessu byggir stefnandi í fyrsta lagi á því að stefndi hafi með úttekt sinni á innlánsreikningnum hjá SpKef hinn 23. júní 2010 valdið stefnanda tjóni sem stefndi beri ábyrgð á gagnvart stefnanda á grundvelli sakarreglunnar. Nánar tiltekið hafi stefndi með saknæmum og ólögmætum hætti hagnýtt sér mistök sem hafi orðið við framkvæmd ákvörðunar FME frá 22. apríl 2010 og tekið út fjármunina gegn betri vitund. Eignir SpKef hafi þannig rýrnað. Verði ekki fallist á skaðabótakröfu stefnanda er í öðru lagi byggt á ólögfestri meginreglu um endurgreiðslu ofgreidds fjár. Þá byggir stefnandi í þriðja lagi á ólögfestri meginreglu kröfuréttar um óréttmæta auðgun. Stefnandi byggir aðild sína í málinu á því að hann hafi tekið yfir rekstur, eignir og skuldbindingar SpKef með þeim hætti að sparisjóðurinn var sameinaður stefnanda, sbr. samning þess efnis, dags. 5. mars 2011, og er kröfu stefnanda um aðildarskort því hafnað.

Samkvæmt því sem fram kom fyrir dómi hjá framkvæmdastjóra stefnda átti Sparisjóðurinn í Keflavík frumkvæði að því að kaupa framangreint skuldabréf fyrir gjalddaga þess og að andvirði þess var ráðstafað á innlánsreikning. Er ekkert í gögnum málsins sem bendir til annars og í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna, sem lögmaður stefnanda lagði fram til hliðsjónar fyrir dómara við aðalmeðferð málsins, kemur fram að Sparisjóðurinn í Keflavík hafi á árinu 2008 hafið ákveðna sókn í innlánum vegna þröngrar lausafjár­stöðu sparisjóðsins. Ósannað er gegn mótmælum stefnda að stefndi hafi þekkt sérstaklega vel til málefna Sparisjóðsins í Keflavík og þess hver staða sparisjóðsins var þegar samkomulagið um innlánið var gert 19. mars 2009. Ákvörðun FME tveimur dögum áður, 17. mars 2009, um ráðstöfun eigna og skulda frá Straumi-Burðarási til Íslandsbanka og að Íslandsbanki tæki ekki yfir innlánsskuldbindingar sem stofnað hafi verið til með þeim hætti að kröfueigandi samkvæmt skuldabréfi hafi fengið kröfu greidda fyrir gjalddaga en á sama tíma stofnað til innláns hjá Straumi, getur ekki leitt til þess að skaðabótaábyrgð verði nú felld á stefnda, enda var ákvörðunin bundin við Straum-Burðarás og ekki verður fullyrt að stefnda hafi verið eða mátt vera kunnugt um hana.

Stefnandi byggir skaðabótaábyrgð stefnda fyrst og fremst á því að í 7. tölul. ákvörðunar FME frá 22. apríl 2010 hafi sérstaklega verið tekið fram að innlánsskuld­bindingum, sem hafi orðið til með þeim hætti að skuldabréf voru gerð upp fyrir gjalddaga þeirra og uppgreiðsluverðmæti notað til að stofna í staðinn til innlána á sama tíma, skyldi ekki ráðstafað frá Sparisjóðnum í Keflavík til SpKef, og vísar í þessu sambandi til 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Umrædd greiðsla sem fór fram 23. júní 2010 er aðeins riftanleg á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 og þeirra málsmeðferðarreglna sem þar er að finna, m.a. um málshöfðunarfrest 148. gr. Fyrir liggur að mál var ekki höfðað til riftunar á umræddri greiðslu og getur stefnandi því ekki byggt á því hér að greiðslan hafi verið riftanleg. Enn fremur verður í máli þessu að líta til þess að fjöldi sérfræðinga kom að því að meta eignir og skuldir Sparisjóðsins í Keflavík og framkvæma yfirtöku SpKef á eignum og skuldbindingum Sparisjóðsins í Keflavík. Yfirfærslan á umræddri innláns­skuldbindingu var ekki á ábyrgð stefnda og verður stefnandi að bera hallann af því að mistök voru gerð þegar innlánið var flutt úr Sparisjóðnum í Keflavík yfir í SpKef. Ekki hefur verið sýnt fram á að stefndi hafi samkvæmt ársreikningum sínum litið svo á að innláninu hafi ekki verið ráðstafað yfir í SpKef eða að hann hafi framkvæmt varúðarniðurfærslu í bókhaldi.

Þegar litið er til alls framangreinds er skaðabótaskyldu stefnda hafnað. Auk þess verður að horfa til þess að það var ekki fyrr en með bréfi 11. október 2013 sem stefnandi hafði uppi endurgreiðslukröfu á hendur stefnda. Verður því að líta svo á að hann hafi með tómlæti sínu glatað rétti til að bera fyrir sig bótaskyldu stefnda.

Samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 39/2003 hefur ekki verið talið að almenn auðgunarregla gildi í íslenskum rétti en fallist hefur verið á að réttmætt geti verið að beita auðgunarreglu við sérstakar aðstæður, þótt ekki sé til þess bein heimild í settum rétti. Verður þá að meta kröfu af þessum toga eftir eðli máls í einstökum tilvikum með hliðsjón af öllum atvikum. Þegar litið er til atvika í máli þessu, einkum þess sem áður segir um að mistök við yfirfærslu á umræddri innlánsskuldbindingu úr Sparisjóði Keflavíkur í SpKef hafi ekki verið á ábyrgð stefnda, og þess langa tíma sem liðinn er frá því að greiðslan fór fram, er því hafnað að grundvöllur sé fyrir kröfu stefnanda samkvæmt óskráðri reglu um óréttmæta auðgun.

Þá verður við mat þess hvort stefnandi eigi kröfu á hendur stefnda á grundvelli reglna um endurheimtu ofgreidds fjár að líta til atvika í máli þessu. Stefndi kveðst hafa treyst á framkvæmd FME á ákvörðuninni frá 22. apríl 2010 og ítarlega skoðun sem stefnandi hafi látið gera á eignum og skuldum SpKef, án þess að athugasemdir væru gerðar við innlánið. Þannig hafi stefndi mátt ætla að greiðslan væri endanleg. Eins og áður segir voru mistökin við yfirfærslu innlánsskuldbindingarinnar úr Sparisjóðnum í Keflavík í SpKef ekki á ábyrgð stefnda og verður stefnandi fremur að bera hallann af þeim. Þá hefur stefnandi sýnt tómlæti í málinu. Verður því að hafna endurkröfu stefnanda.

Eftir atvikum og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þykir rétt að láta hvorn aðila bera sinn kostnað af málinu.

Af hálfu stefnanda flutti málið Jóhannes Eiríksson hdl. en af hálfu stefnda Hlynur Halldórsson hrl.

Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

                                                                                 D ó m s o r ð:                         

                Stefndi, Festa – lífeyrissjóður, er sýkn af kröfu stefnanda, Landsbankans hf.

                Málskostnaður fellur niður.