Hæstiréttur íslands
Mál nr. 288/2015
Lykilorð
- Samningur
- Lán
- Gengistrygging
- Vextir
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 17. desember 2015. |
|
Nr. 288/2015.
|
Sigurvin Ólafsson (sjálfur) gegn Landsbankanum hf. (Aðalsteinn E. Jónasson hrl.) |
Samningur. Lán. Gengistrygging. Vextir. Sératkvæði.
Árið 2008 gerði S lánssamning við SP hf., síðar L hf. Þar sem í samningnum hafði verið mælt fyrir um ólögmæta gengistryggingu endurútreiknaði L hf. lánið í september 2010 og miðaðist útreikningurinn við stöðu lánsins í júní það ár, en óumdeilt var að S hafði staðið við greiðsluskyldu sína samkvæmt samningnum fram að þeim gjalddaga. S greiddi áfram mánaðarlega af hinum nýja höfuðstól auk þess sem hann greiddi vexti af honum sem miðaðir voru við 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í september 2013 fór fram nýr endurútreikningur og var niðurstaðan sú að eftirstöðvar lánsins hefðu átt að vera lægri er lánið var endurútreiknað í september 2010. Við hinn hinn nýja endurútreikning, er tók til tímabilsins frá júní 2010 til september 2013, fór L hf. að í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 og miðaði við vexti af óverðtryggðum kröfum samkvæmt 1. málslið 4. gr. sömu laga og lagði vexti við höfuðstól á tólf mánaða fresti, sbr. 12. gr. laganna. Í málinu krafðist S þess að viðurkennt yrði að L hf. hefði verið óheimil taka vaxtavaxta við hinn síðari endurútreikning lánsins, enda hefði hann greitt vexti á hverjum og einum gjalddaga og því væri ekki fullnægt skilyrðum 12. gr. laga nr. 38/2001. Í dómi Hæstaréttar kom fram að gildissvið greinarinnar væri ekki bundið við að krafa sú, sem bæri vexti, væri í vanskilum og hvorki orðalag hennar né lögskýringargögn renndu stoðum undir þá skýringu á efni hennar sem S vildi leggja til grundvallar. Hefði útreikningur L hf. á nýjum höfuðstól eftirstöðvanna verið réttur og var hann því sýknaður af kröfu S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. apríl 2015 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst þess að viðurkennt verði að stefnda hafi verið óheimil taka vaxtavaxta við endurútreikning og leiðréttingu á nánar greindu láni frá 9. september 2013. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Áfrýjandi gerði 7. janúar 2008 samning við SP-Fjármögnun hf., sem síðar sameinaðist stefnda, en samningurinn var nefndur: ,,Bílasamningur Kaupleiga“. Samkvæmt honum tók áfrýjandi, sem nefndur var leigutaki, nánar tilgreinda bifreið á leigu frá viðsemjanda sínum, leigusala, og var samningsverð tilgreint 1.811.224 krónur. Það skyldi áfrýjandi greiða með 84 mánaðarlegum greiðslum, í fyrsta sinn 7. mars 2008. Samningstími var sagður til 7. janúar 2015 og kveðið á um að kaupverð leigumunar, sem svo var nefndur, væri í lok samnings 1.000 krónur. Mánaðarleiga var tilgreind 26.786 krónur. Í samningnum sagði meðal annars: ,,Samningur er 66% gengistryggður og 34% verðtryggður.“ Óumdeilt er að áfrýjandi stóð við greiðsluskyldu sína samkvæmt samningnum til 7. júní 2010. Í kjölfar dóma Hæstaréttar 16. júní það ár í málum nr. 92/2010 og 153/2010 og 16. september sama ár í máli nr. 471/2010 ákvað SP-Fjármögnun hf. að endurútreikna skuldbindingar áfrýjanda samkvæmt framangreindum samningi. Að gengnum dómum þessum lá ljóst fyrir að í raun var um að ræða samning um lán í íslenskum krónum sem að tveimur þriðju hlutum var bundið gengi erlendra gjaldmiðla. Við þann endurútreikning lækkaði skuld áfrýjanda úr 2.453.373 krónum í 1.418.693 krónur miðað við 7. júní 2010.
Áfrýjandi greiddi áfram mánaðarlega af hinum nýja höfuðstól auk þess sem hann greiddi vexti af honum sem miðaðir voru við 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Er ágreiningslaust að hann greiddi réttilega umkrafðar afborganir og vexti til 9. september 2013.
Stefndi ritaði áfrýjanda bréf 20. september 2013 þar sem rifjað var upp að í kjölfar dóma Hæstaréttar á árinu 2010, sem áður er vísað til, hefði lán hans verið endurútreiknað í samræmi við lög nr. 38/2001 og við þann endurútreikning ,,notaðir lægstu óverðtryggðu vextir sem Seðlabanki Íslands birtir“. Þá sagði að með þremur dómum Hæstaréttar í ,,málum nr. 600/2011, 464/2012 og 50/2013“ hafi rétturinn komist að þeirri niðurstöðu að greiðslukvittanir hefðu falið í sér fullnaðarkvittanir og að endurútreikningur lána hefði átt að taka mið af því. Bankinn hafi því með hliðsjón af þessum dómum ,,leiðrétt endurútreikninginn“ svo sem sjá mætti í bréfinu. Því fylgdi svo nánari sundurliðun á tveimur blöðum. Við þennan endurútreikning var ljóst að höfuðstóll sá, sem miðaðist við 7. júní 2010, að fjárhæð 1.418.693 krónur, samkvæmt hinum fyrri endurútreikningi, var rangur. Nýr höfuðstóll, sem miðaði við sama dag, var 1.274.656 krónur. Þar sem ljóst var af þessu að áfrýjandi hafði á tímabilinu frá 7. júní 2010 til 9. september 2013 greitt af of háum höfuðstól lá fyrir að hann hafði greitt of háar afborganir og of háa vexti. Niðurstaða hins nýja endurútreiknings var að í stað eftirstöðva 9. september 2013 að fjárhæð 690.846 krónur ættu eftirstöðvar miðað við þann dag að vera 521.453 krónur.
Áfrýjandi telur að þessi endurútreikningur og sá sem gerður var á greiðslum hans á síðastgreindu tímabili sé ekki reistur á réttum forsendum og að réttar eftirstöðvar skuldar hans miðað við 9. september 2013 hafi átt að vera 505.088 krónur. Þær forsendur sem hann telur að séu rangar í útreikningi stefnda eru að stefndi hafi á tólf mánaða fresti bætt vöxtum við höfuðstól og þannig myndað nýjan höfuðstól og farið eins með endurútreikning á innborgunum áfrýjanda á tímabilinu. Telur áfrýjandi að óheimilt hafi verið að bæta vöxtum við höfuðstól, þar sem slíkt væri ekki í samræmi við 12. gr. laga nr. 38/2001 sem væri lagagrundvöllur útreiknings vaxtavaxta. Hann hefur höfðað málið í því skyni að fá því hnekkt að þessi forsenda sé notuð við endurútreikninginn.
II
Þegar dómar Hæstaréttar um svonefndar fullnaðarkvittanir gengu á árunum 2012 og 2013 lá ljóst fyrir að áfrýjandi hafði frá 7. júní 2010 greitt afborganir og vexti af skuld sinni við stefnda sem miðaðar voru við of háan höfuðstól. Stefnda var við svo búið skylt að endurútreikna lánið og stöðu þess miðað við framangreindan dag. Eins og fyrr segir leiddi sá endurútreikningur til þess að réttar eftirstöðvar þá voru 1.274.656 krónur. Við þessar aðstæður lá fyrir stefnda að taka tvenns konar ákvarðanir. Annars vegar hvernig reikna skyldi út nýjan höfuðstól miðað við 9. september 2013, hvaða vexti ætti að miða við á tímabilinu frá 7. júní 2010 til fyrrgreinds dags og hvort bæta skyldi þeim vöxtum við höfuðstól á tólf mánaða fresti eða ekki. Hins vegar þurfti stefndi að ákveða hvernig endurútreikna skyldi þær greiðslur afborgana og vaxta sem áfrýjandi hafði skilvíslega innt af hendi á tímabilinu, en í því efni komu fleiri en ein leið til álita.
Að því er varðar fyrrgreinda atriðið fór stefndi að í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, eins og því ákvæði var breytt með 1. gr. laga nr. 151/2010. Samkvæmt því miðaði hann við vexti af óverðtryggðum kröfum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001. Í ljósi þess að útreikningstímabilið var frá 7. júní 2010 til 9. september 2013 og spannaði því um þrjú ár og þrjá mánuði lagði hann vexti við höfuðstól á tólf mánaða fresti, svo sem gera skal samkvæmt 12. gr. laganna. Niðurstaða þessa útreiknings var að eftirstöðvar skuldar áfrýjanda síðastgreindan dag, áður en uppreiknaðar innborgarnir hans höfðu verið dregnar frá, voru 1.547.913 krónur.
Um síðargreinda atriðið, hvernig endurútreikna skyldi mánaðarlegar innborganir áfrýjanda á höfuðstól og greiðslur hans á vöxtum, studdist stefndi við sömu forsendur og í fyrrgreinda útreikningnum. Í því fólst að hann uppreiknaði hverja einstaka mánaðarlega greiðslu áfrýjanda frá greiðsludegi til 9. september 2013 á þann hátt að hann bætti vöxtum við höfuðstól hennar á tólf mánaða fresti og lagði að því búnu saman allar greiðslurnar og dró samtöluna frá 1.547.913 krónum. Niðurstaðan var, sem fyrr segir, 521.453 krónur.
Ekki er að marki tölulegur ágreiningur í málinu, heldur einungis um framangreindar forsendur. Áfrýjandi telur að réttar eftirstöðvar 9. september 2013, áður en tekið er tillit til uppreiknaðra innborgana hans, hefðu átt að vera 1.540.482 krónur. Frá þeirri fjárhæð eigi að dragast samtala uppreiknaðra innborgana hans, án þess þó að vöxtum þar sé bætt við höfuðstól á tólf mánaða fresti, sem numið hafi 1.035.394 krónum. Skuld hans síðastgreindan dag hafi því numið 505.088 krónum.
III
Stefnda var rétt við útreikning sinn, sem tók til tímabils er spannaði um þrjú ár og þrjá mánuði, að byggja á 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 og þar með reisa útreikninginn á 1. málslið 4. gr. laganna. Við þann útreikning gilti 12. gr. þeirra, sem mælir fyrir um að sé vaxtatímabil lengra en tólf mánuðir, án þess að vextir séu greiddir, skuli þeir lagðir við höfuðstól og vextir reiknaðir af nýjum höfuðstól. Þetta megi þó ekki gera oftar en á tólf mánaða fresti, nema um sé að ræða innlánsreikninga lánastofnana. Ákvæði 12. gr. er almennt í þeim skilningi að það tekur til hvers konar almennra vaxta og dráttarvaxta. Gildissvið greinarinnar er ekki bundið við að krafa sú, sem ber vexti, sé í vanskilum og hvorki orðalag hennar né lögskýringargögn renna stoðum undir þá skýringu á efni hennar sem áfrýjandi vill leggja til grundvallar. Var því útreikningur stefnda á nýjum höfuðstól eftirstöðvanna réttur.
Þegar greiðslur áfrýjanda á afborgunum og vöxtum frá 7. júní 2010 til 9. september 2013 voru uppreiknaðar var stefnda rétt að leggja til grundvallar sömu forsendur og hann gerði við fyrrnefnda útreikninginn. Í því efni skiptir ekki máli þótt rétt sé að áfrýjandi hafi greitt vexti mánaðarlega á tímabilinu þar sem stefnda var skylt við endurútreikning sinn að uppreikna greiðslurnar til þess að geta dregið samtölu þeirra, miðað við 9. september 2013, frá endurútreiknuðum eftirstöðvum tímabilsins. Með því var í engu hallað á áfrýjanda. Samkvæmt framansögðu verður viðurkenningarkröfu hans hafnað og hinn áfrýjaði dómur staðfestur um sýknu stefnda.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er rétt að hvor málsaðila beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um sýknu stefnda, Landsbankans hf.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Sératkvæði
Ólafs Barkar Þorvaldssonar
Í fyrsta málslið 1. mgr. 12. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu segir að sé vaxtatímabil lengra en tólf mánuðir án þess að vextirnir séu greiddir skuli þeir lagðir við höfuðstól og nýir vextir reiknaðir af samanlagðri fjárhæð. Fram er komið að áfrýjandi greiddi í raun vexti allt það tímabil sem endurútreikningur stefnda tók til. Því er ekki fullnægt hinu lögboðna skilyrði ákvæðisins að liðið hafi tólf mánuðir án þess að vextir hafi verið greiddir. Af þeirri ástæðu ber að fallast á kröfu áfrýjanda. Að fenginni þessari niðurstöðu er einnig rétt að fella á stefnda málskostnað vegna reksturs málsins á báðum dómstigum.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. febrúar 2015.
Mál þetta, sem höfðað var með stefnu birtri 18. desember 2013, var dómtekið að lokinni aðalmeðferð þann 28. janúar sl. Stefnandi er Sigurvin Ólafsson, Álagranda 2 í Reykjavík. Stefndi er Landsbankinn hf. Austurstræti 11 í Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefnda hafi verið óheimilt að leggja vaxtavexti við endurútreikning og leiðréttingu á láni SBB 095842 þann 9. september 2013. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda auk greiðslu málskostnaðar úr hendi hans.
Atvik máls og ágreiningsefni
Stefnandi gerði kaupleigusamning við SP-Fjármögnun þann 7. janúar 2008 en stefndi tók síðar yfir kröfu SP-Fjármögnunar samkvæmt samningnum eftir samruna félagsins við stefnda, sbr. auglýsingu Fjármálaeftirlitsins frá 8. júní 2011 þar sem fram kemur að það hafi veitt samþykki fyrir samrunanum.
Óumdeilt er að í samningnum fólst í reynd gengistryggt lán í íslenskum krónum, sem stangaðist á við 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu sbr. 13. gr. sömu laga. Endurreiknaði SP-Fjármögnun því lán stefnanda þann 30. september 2010. Lækkaði skuld stefnanda við þann endurútreikning úr 2.453.373 krónum í 1.444.680 krónur.
Í kjölfar dóma Hæstaréttar, þar sem leyst var úr gildi fullnaðarkvittana vegna afborgana af ólögmætum gengistryggðum lánum, var skuld stefnanda endurútreiknuð á ný. Síðari endurútreikningurinn fór fram 20. september 2013 en miðaðist við stöðu lánsins þann 9. sama mánaðar. Lækkaði skuld stefnanda við þennan endurútreikning úr 690.846 krónum í 521.453 krónur. Síðari endurútreikningur byggði á þeirri forsendu að fullnaðarkvittanir stefnda til stefnanda leiddu til þess að hann átti ekki frekari kröfu á hendur stefnanda en hann hafði þegar greitt vegna tímabilsins frá lántökudegi til 7. júní 2010. Eftir þann tíma byggði stefndi endurútreikning sinn á 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 2. gr. laga nr. 151/2010 og miðaði við vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. sömu laga. Við endurútreikninginn beitti stefndi jafnframt þeirri aðferð að leggja vexti við höfuðstól, bæði krafna sinna og innborgana stefnda, á tólf mánaða fresti með vísan til heimildar í 12. gr. sömu laga. Ágreiningur aðila málsins lýtur einvörðungu að því álitaefni hvort stefnda hafi verið þessi vaxtavaxtaútreikningur heimill eða ekki.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Í málinu krefst stefnandi viðurkenningar á því að stefnda hafi ekki verið heimilt, við leiðréttingu láns hans, að leggja vexti við höfuðstól á 12 mánaða fresti og reikna nýja vexti af samanlagðri fjárhæð.
Stefnandi byggir á því að í 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu sé ekki að finna heimild til að reikna vaxtavexti aftur í tímann og bæta þeim við höfuðstól lána. Komi það hvorki fram berum orðum í ákvæðinu sjálfu né sé vikið að slíkri heimild í frumvarpi til laga nr. 151/2010, um breytingu á lögum nr. 38/2001.
Stefndi geti ekki sótt heimild til að reikna vaxtavexti beint til 12. gr. laganna, sem sé eina lagaheimildin fyrir töku vaxtavaxta. Þar komi fram í 1. mgr. að ,,sé vaxtatímabil lengra en tólf mánuðir án þess að vextirnir séu greiddir skulu þeir lagðir við höfuðstól og nýir vextir reiknaðir af samanlagðri fjárhæð“. Í tilviki stefnanda liggi fyrir að hinu undirstrikaða skilyrði sé ekki fullnægt, enda hafi stefnandi ætíð innt af hendi þær vaxtagreiðslur sem stefndi krafði hann um. Þar sem stefnandi hafi ekki getað greitt aðrar vaxtagreiðslur en þær sem hann hafi verið krafinn um telur hann að stefndi geti ekki beitt ákvæði 12. gr. vaxtalaga afturvirkt. Þá sé augljóst að fyrrgreint ákvæði 12. gr. vaxtalaganna hafi ekki verið fest í lög með atvik sem þetta í huga, heldur hafi ákvæðinu þvert á móti einungis verið ætlað að eiga við um vanskilatilfelli. Því liggi fyrir að hvorki í ákvæðum vaxtalaga né í lögskýringargögnum sé að finna stoð fyrir því að heimilt sé að áskilja sér vaxtavexti þar sem ekki hafi verið um nein vanskil að ræða.
Þá geti taka vaxtavaxta hvorki byggt á ákvæðum samnings aðila, enda ekkert ákvæði þess efnis í honum, né venju þar sem engri venju sé til að dreifa við endurútreikning lána af því tagi sem um sé deilt, enda sé endurútreikningurinn fordæmalaus framkvæmd.
Enn fremur byggir stefnandi á því að ekki sé heimilt að leggja íþyngjandi byrðar á aðila nema á grundvelli skýrrar heimildar og að fullnægðum tilteknum skilyrðum og vísar hann í því sambandi til meginreglna laga. Aðstöðumunur málsaðila, þ.e. að stefnandi sé neytandi en stefndi fjármálafyrirtæki, leiði til þess að túlka beri samning þeirra þeim aðila í óhag sem hafi ráðið þeim atriðum til lykta er ágreiningi valda, sbr. og hina svokölluðu andskýringarreglu. Þá sé ljóst að öllu virtu að það sé ósanngjarnt ef stefnandi þarf að þola álagningu vaxtavaxta með afturvirkum hætti á lán sem aldrei hafi verið í vanskilum. Enn ósanngjarnari sé sú niðurstaða þegar litið sé til þess að ástæða þess að endurreikna þurfti lánið hafi verið afglöp lánveitandans, þ.e. að veita honum lán með skilmálum sem stönguðust á við landslög. Vísi stefnandi í þessu sambandi til 7. gr. vaxtalaga með lögjöfnun.
Með álagningu vaxtavaxta við endurútreikninginn hafi niðurstaða hans orðið stefnda hagstæðari en ella svo sem framlagðir útreikningar sýni. Ef ekki er bætt við vaxtavöxtum á höfuðstól og innborganir sé niðurstaða útreikningsins sú að eftirstöðvar lánsins séu 505.088 krónur en ekki 521.453 krónur eins og í endurútreikningi stefnda. Sama eigi við í öllum öðrum endurútreikningum stefnda. Endurútreikningsaðferðin sé stefnda ávallt í hag á kostnað lántakenda, enda leggjast eðli máls samkvæmt hærri vaxtafjárhæðir á hærri upphæðir. Stefnandi krefst viðurkenningar á því að stefnandi hafi hvorki haft heimild í lögun né á grundvelli venju eða annarra réttarheimilda til að reikna stöðu láns stefnanda út með þessum hætti.
Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum 7., 12., og 18. gr. þeirra. Um málskostnað vísar hann til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 129. og 130. gr. laganna.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann hafi reiknað vexti af láni stefnanda með réttum hætti og á grundvelli gildandi laga.
Stefndi telur að málatilbúnaður stefnanda hvað varðar túlkun á gildi 18. gr. vaxtalaga fái ekki staðist. Skýrlega sé kveðið á um það í 1. mgr. 18. gr. að ef samningsákvæði um vexti telst ógilt skuli peningakrafan bera vexti skv. 1. málslið 4. gr. sömu laga. Athugasemdir í frumvarpi til laga nr. 151/2010 séu á sömu lund hvað varðar skýringu á núgildandi 18. gr. laga nr. 38/2001. Vextir sem reiknaðir séu á grundvelli 18. gr. séu ekki vextir sérstaks eðlis, sem njóti sérstöðu gagnvart öðrum ákvæðum laganna, heldur vísi 18. gr. til þess að þar sé um að ræða vexti skv. 4. gr. laganna en í þeirri grein og kaflanum þar sem hana sé að finna, sé fjallað um almenna vexti.
Vextir í endurútreikningi stefnda séu almennir vextir skv. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og því sé heimilt að höfuðstólsfæra þá samkvæmt 12. gr. sömu laga. Sú staðhæfing stefnanda að 12. gr. eigi einvörðungu við þar sem um vanskil sé að ræða sé bæði röng og órökstudd. Í greininni felist almenn meginregla um höfuðstólsfærslu vaxta sem beri að beita í málinu, ef ekki á grundvelli meginreglunnar sem hún hvíli á þá á grundvelli venju þar að lútandi. Af orðalagi 1. mgr. 12. gr. sé ljóst að einu skilyrðin sem gerð eru fyrir höfuðstólsfærslu vaxta séu (i) að vaxtatímabil sé lengra en tólf mánuðir; og (ii) að vextirnir séu ekki greiddir á því tímabili. Ekki sé að finna neinn áskilnað um að vanskil hafi orðið hjá skuldara. Reglan sé hlutlæg og skiptir því nákvæmlega engu máli af hverju vextir hafa ekki verið greiddir á 12 mánaða tímabili. Það eitt dugar að vextir hafi ekki verið greiddir. Ákvæði greinarinnar eigi við um vexti af hvaða tagi sem er, kröfuhafa sé heimilt beita henni og að höfuðstólsfæra vexti án þess að hafa gert sérstakan áskilnað um það í samningi við skuldara.
Telji dómurinn, þrátt fyrir allt ofangreint, að 12. gr. vaxtalaga verði ekki beitt samkvæmt efni sínu í máli þessu byggir stefndi á því að í greininni sé að finna meginreglu sem heimili almennt höfuðstólsfærslu vaxta á 12 mánaða fresti auk þess sem það sé almenn venja að höfuðstólsfæra vexti á 12 mánaða fresti í viðskiptum almennt og sé t.d. vel þekkt að bankar höfuðstólsfæri vexti á almennum innlánsreikningum á ársgrundvelli.
Þá mótmæli stefndi því jafnframt að beita megi 7. gr. sömu laga með lögjöfnun um höfuðstólsfærslu vaxta við endurútreikning. Greinin eigi við um dráttarvexti sem séu allt annars eðlis en almennir vextir og tilvik þar sem heimilt sé að taka slíka vexti séu ekki sambærileg umdeildum atvikum.
Loks mótmæli stefndi því að sanngirnisrök geti leitt til þeirrar niðurstöðu að krafa stefnanda verði tekin til greina. Skýr lagaheimild sé í 12. gr. vaxtalaganna, um heimild til að leggja vexti við höfuðstól skuldar sem hafi hingað til ekki verið talin sérstaklega íþyngjandi eða ósanngjörn í garð skuldara. Stefnandi, sem sé lögfræðingur að mennt geti ekki hafa talist standa höllum fæti við samningagerð við stefnda auk þess sem hann hafi haft verulegan hag af endurútreikningi stefnda.
Þá geti svokölluð andskýringarregla samningaréttarins ekki átt við í málinu. Það hafi ekki verið stefndi sem hlutaðist til um að lánsskuldbinding stefnanda lyti vöxtum samkvæmt 4. gr. vaxtalaga, heldur hafi sá vaxtafótur verið afleiðing af dómaframkvæmd Hæstaréttar en samningur aðila hafi gert ráð fyrir allt öðrum kjörum.
Með vísan til alls framangreinds telur stefndi ljóst að honum hafi verið heimilt að höfuðstólsfæra vexti við endurútreikning láns stefnanda, hvort sem er með beinni vísan til 12. gr. laga nr. 38/2001 eða þeirrar almennu reglu sem af henni leiðir og er venja í lánsviðskiptum á Íslandi. Ekki sé hægt að líta svo á að höfuðstólsfærsla vaxta hafi verið án heimildar eða að hún hafi lagt svo íþyngjandi byrðar á stefnanda að hún hafi talist ósanngjörn og af þeim sökum verið óheimil. Þar sem höfuðstólsfærsla vaxta við endurútreikning lánsins hafi verið í samræmi við gildandi lög og reglur telur stefndi að það beri að sýkna hann af kröfu stefnanda.
Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 38/2002 um vexti og verðtryggingu, helst 4., 12. og 18. gr. auk almennra reglna kröfuréttar og samningaréttar. Kröfuna um málskostnað styður hann við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Forsendur og niðurstaða
Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort stefndi hafi endurútreiknað lán stefnanda með réttum hætti en óumdeilt er að upphaflegt ákvæði í lánasamningi aðila um gengistryggingu lánsins er ógilt. Þá er ekki um það deilt að beita beri þeirri aðferð sem kveðið er á um í 5. sbr. 1 mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 við þennan endurútreikning. Aðferðin sem stefndi beitti og deilt er um felst í því að við endurútreikning láns stefnanda bætti hann áföllnum vöxtum samkvæmt 4. gr. laganna við höfuðstól (eftirstöðvar) lánsins á tólf mánaða fresti frá 7. júní 2010 til endurútreikningsdags, 9. september 2013. Sömu aðferð var beitt við útreikning á greiðslum frá stefnanda, þ.e. stefndi færði vexti inn á höfuðstól innborgana með sama millibili. Stefnandi byggir á því að stefnda hafi verið óheimilt að nota vaxtavexti í útreikningum sínum og vísar aðallega til þess að engin slík heimild sé í 18. gr. vaxtalaga auk þess sem skilyrðum 12. gr. sömu laga sé ekki fullnægt. Stefndi hafnar þessari lagatúlkun og byggir á því að tilvísun 1. mgr. 18. gr. vaxtalaga til 4. gr. sömu laga feli í sér að beita megi öðrum ákvæðum laganna sem gildi um vexti samkvæmt þeirri grein.
Núgildandi 18. gr. vaxtalaga var lögfest með ákvæði 2. gr. laga nr. 151/2010 til að bregðast við því óvissuástandi sem skapaðist þegar ljóst var að mikill fjöldi lánasamninga hafði að geyma óskuldbindandi gengisviðmið sbr. fjölda dóma Hæstaréttar þar að lútandi. Markmið löggjafarinnar var því að búa til reglu sem endurútreikningar ættu að styðjast við og væri í senn almenn og sanngjörn í garð skuldara. Aðferðin sem mælt er fyrir um í 5. sbr. 1. mgr. 18. gr. felst í því að upphaflegur höfuðstóll skuldar skal vaxtareiknaður með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laganna, þ.e. vöxtum sem eru jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir eru samkvæmt 10. gr. laganna. Frá þeirri fjárhæð sem fæst með þessum útreikningi skal draga þær fjárhæðir sem inntar hafa verið af hendi fram að uppgjörsdegi í vexti, hvers kyns vanskilaálögur og afborganir miðað við hvern innborgunardag og mynda þannig útreiknuð fjárhæð eftirstöðvar skuldarinnar.
Samkvæmt 12. gr. laga nr. 38/2001 er heimilt, án þess að gera þurfi sérstakan áskilnað þar að lútandi í samningi aðila, að leggja vexti við höfuðstól á 12 mánaða fresti, sé vaxtatímabil lengra en það. Heimildin í 12. gr. er almenn heimild til að höfuðstólsfæra vexti og nær því m.a. til vaxta samkvæmt 4. gr. laganna. Með tilvísun 1. mgr. 18. gr. vaxtalaga til vaxta samkvæmt 4. gr. sömu laga verður því að líta svo á að í henni felist einnig heimild til að höfuðstólsfæra vexti af kröfunni á grundvelli 12. gr. laganna enda ótvírætt að ákvæði þeirrar greinar tekur til vaxta samkvæmt 4. gr. Jafnframt er niðurstaða dómsins sú að önnur skilyrði 12. gr. séu fyrir hendi í þessu tilviki, þ.e. vaxtatímabil var lengra en 12 mánuðir og greiðsla fór ekki fram samkvæmt endurútreikningi stefnanda á grundvelli 18. gr. fyrr en eftir að sá útreikningur var gerður. Sú staðhæfing stefnanda að það sé skilyrði fyrir höfuðstólsfærslu vaxta að um vanskil sé að ræða á sér ekki stoð í lögum. Þá er heldur ekki að finna vísbendingu í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 151/2010 um að skýra beri ákvæði 18. gr. á þann veg sem stefnandi byggir á, þ.e. að heimild 12. gr. til að höfuðstólsfæra vexti eigi ekki við þegar endurútreikningur fer fram samkvæmt greininni. Með vísan til framangreinds er það niðurstaða dómsins að umdeild aðferð stefnda við endurútreikning láns stefnanda hafi verið í samræmi við ákvæði laga nr. 38/2001, með síðari breytingum.
Dómurinn felst ekki á að framangreind niðurstaða sé ósanngjörn svo sem stefnandi byggir á. Verður í því sambandi að líta til samnings aðila í heild en ekki afmarkaðs þáttar við endurútreikning láns stefnanda. Fyrir liggur að vegna ógildra samningaákvæða um gengistryggingu á skuld stefnanda við stefnda hefur stefndi endurútreiknað lán hans miðað við gefnar forsendur sem löggjafinn hefur sett, einmitt í þeim tilgangi að greiða úr réttaróvissu og leitast við að tryggja jafnræði með skuldurum sem eru í líkri stöðu. Leiðrétting á láni stefnanda hefur þegar leitt til umtalsverðrar lækkunar á höfuðstól þess og jafnframt er ljóst að vegna áhrifa fullnaðarkvittana, sem stefndi gaf út vegna afborgana frá lántökudegi fram til 7. júní 2010, lækkaði lánið enn frekar. Loks er ekki um það deilt að við endurútreikning stefnda beitti hann sömu aðferð varðandi innborganir stefnanda, þ.e. vaxtareiknaði þær og höfuðstólsfærði vexti af þeirri fjárhæð á 12 mánaða fresti. Með hliðsjón af framangreindum atvikum og aðstæðum að öðru leyti er ekki fallist á það með stefnanda að umdeildur endurútreikningur stefnda sé ósanngjarn, jafnvel þótt niðurstaðan hafi orðið sú að höfuðstóll skuldar stefnanda, eftir alla endurútreikninga, hafi orðið lítillega hærri en ella.
Þá koma skýringareglur samningaréttar ekki til skoðunar í málinu þegar af þeirri ástæðu að endurútreikningur stefnda byggir á ákvæðum laga en ekki samningi milli aðila. Enn fremur er hafnað þeirri málstástæðu stefnanda að lögjöfnun frá 7. gr. laganna sé tæk aðferð til að greiða úr þeim ágreiningi sem hér er uppi þar sem ákvæði laga, svo sem þau hafa að framan verið skýrð, kveða á um aðra niðurstöðu og er tilvikið því ekki ólögákveðið.
Með vísan til alls framangreinds verður stefndi sýknaður af kröfu stefnanda. Stefnanda verður jafnframt gert að greiða stefnda málskostnað í samræmi við niðurstöðu dómsins svo sem kveðið er á um í 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Með hliðsjón af umfangi máls þykir hann hæfilega ákveðinn 280.000 krónur.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir, héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð :
Stefndi, Landsbankinn hf., er sýkn af kröfu stefnanda, Sigurvins Ólafssonar. Stefnandi greiði stefnda 280.000 krónur í málskostnað.