Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-11

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Unnsteinn Örn Elvarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Umferðarlagabrot
  • Sönnun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.

2. Með beiðni 21. desember 2023 leitar X leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 24. nóvember 2023 í máli nr. 10/2023: Ákæruvaldið gegn X. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir nánar tilgreint umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti, undir áhrifum áfengis og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna. Hafi bifreiðin skollið á kyrrstæða bifreið og leyfisbeiðandi í kjölfarið ekki sinnt skyldum sínum heldur yfirgefið vettvang. Var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að hafið væri yfir skynsamlegan vafa, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008, og því slegið föstu, sbr. 109. gr. sömu laga, að leyfisbeiðandi hefði ekið bifreiðinni umrætt sinn. Jafnframt var staðfest niðurstaða héraðsdóms um ákvörðun refsingar fyrir brotið auk annarra brota sem hann hafði verið sakfelldur fyrir í héraði, sem og um sviptingu ökuréttar, upptöku fíkniefna, sakarkostnað, miskabætur og málskostnað brotaþola.

4. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulega almenna þýðingu og mikilvægt sé að fá úrlausn Hæstaréttar um hvort heimilt sé að sakfella fyrir akstur undir áhrifum þegar viðkomandi hafi ekki verið staðinn að akstri.

5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.