Hæstiréttur íslands

Mál nr. 617/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi


Föstudaginn 8

 

Föstudaginn 8. desember 2006.

Nr. 617/2006.

Sýslumaðurinn í Kópavogi

(enginn)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi.

X kærði úrskurð héraðsdóm, þar sem honum var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1996. S lét ekki málið til sín taka fyrir Hæstarétti og lágu því ekki fyrir réttinum upplýsingar um stöðu rannsóknarinnar þannig að unnt væri með öruggum hætti að taka ákvörðun um að svipta X frelsi sínu. Úrskurður héraðsdóms var því felldur úr gildi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. desember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. desember 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 11. desember 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.

Samkvæmt gögnum málsins var lögreglu tilkynnt um slagsmál margra manna fyrir utan veitingastað í Kópavogi aðfaranótt laugardagsins 2. desember 2006. Lögregla handtók kærða á vettvangi og er hann grunaður um að hafa veitt öðrum manni alvarlega áverka með hnífi. Mun kærði þá hafa verið handtekinn og gaf hann skýrslu hjá lögreglu eftir hádegi sama dag. Eftir það var hann látin laus en handtekinn aftur degi síðar að lokinni skýrslugjöf hjá lögreglu. Hefur hann verið í gæslu lögreglu síðan þá. Af fyrirliggjandi gögnum má fallast á með héraðsdómara að skilyrði fyrir gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 hafi verið fyrir hendi er hinn kærði úrskurður gekk. Af sömu gögnum sést að rannsókn málsins er á frumstigi enda kemur fram í kröfu sóknaraðila fyrir héraðsdómi 4. desember að lögregla muni meðal annars „halda áfram yfirheyrslum yfir fjölda vitna“. Verður að ætla að rannsókn lögreglu hafi haldið áfram líkt og boðað var og að yfirheyrslur hafi að einhverju leyti farið fram frá því að hinn kærði úrskurður gekk. Hins vegar hefur sóknaraðili ekki látið réttinum í té þau gögn sem ætla verður að hann hafi aflað á þeim tíma. Er ekki loku fyrir það skotið að þau gögn hafi þýðingu við meðferð málsins fyrir Hæstarétti. Sóknaraðili hefur í engu sinnt máli þessu fyrir réttinum og þar með ekki upplýst réttinn um stöðu rannsóknarinnar á þessu stigi þannig að unnt sé með öruggum hætti að taka ákvörðun um þá frelsissviptingu sem gæsluvarðhald felur í sér. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. desember 2006.

Ár 2006, mánudaginn 4. desember, er dómþing Héraðsdóms Reykjaness háð í dómhúsinu að Fjarðargötu 9, Hafnarfirði, af Halldóri Björnssyni settum héraðs­dómara  og kveðinn upp úrskurður í málinu R-211/2006: Sýslumaðurinn í Kópavogi gegn  X sem tekið var til úrskurðar samdægurs

             Sýslumaðurinn í Kópavogi hefur krafist þess að kærða, X, verði með skírskotun a. liðar  1. mgr. og 2. mgr. 103. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 11. desember 2006 kl. 16.

             Kærði krefst þess aðallega að kröfu um gæsluvarðhald verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Í greinargerð sýslumanns með kröfunni kemur fram að aðfaranótt laugardagsins 2. desember sl. um kl. 01:24 hafi lögreglunni í Kópavogi verið tilkynnt um hópslagsmál fyrir utan veitingastaðinn Shooters í Engihjalla, en lögreglu hafi verið tilkynnt um að þar væru menn með barefli og hnífa á lofti. Skömmu síðar hafi lögreglu verið tilkynnt um að maður hefði orðið fyrir hnífsstungu.

Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi verið mikill hópur ungmenna fyrir utan veitingastaðinn og sum þeirra verið með barefli á lofti og virst ætla að brjóta sér leið inn á veitingastaðinn. Skömmu síðar hafi hinn slasaði, A, [kt.], komið út af veitingastaðnum og haldið höndum að kvið sínum. Hafi hann þegar verið fluttur á sjúkrahús en fórnarlambið hlotið þriggja sentímetra djúpt stungusár í lifrina. 

Lögregla hafi fundið kúbein, hafnarboltakylfu, ásamt fjölnota hníf (hnífur og höggvopn sbr. nánar mynd skjalaskrá nr. 18) á vettvangi. Hafi fjölnota hnífurinn fundist undir bifreið sem staðsett hafi verið syðst á bifreiðastæði, næst veitingastaðnum, rétt vestan við aðalinngang. Hafi munirnir verið haldlagðir í þágu rannsóknar málsins. Þá hafi verið blóð á víð og dreif utan við veitingastaðinn. Lögregla hafi rætt við vitni á vettvangi og handtekið þrjá einstaklinga, en auk kærða hafi B, [kt.], og C, [kt.], verið handteknir og færðir á lögreglustöð þar sem tekið hafi verið blóðsýni úr þeim og þeir svo allir vistaðir í fangaklefa.

Skýrsla hefi verið tekin af fórnarlambinu A í fyrradag á gjörgæsludeild Landspítala Háskólasjúkrahúss.  Hafi A sagst muna eftir því að hafa séð mann hraða sér í burtu frá sér eftir að hann hefði hlotið stungu í magann. Hafi A veitt því athygli að sá maður sem hraðaði sér í burtu frá honum hafi verið í ljósri peysu eða skyrtu.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu hafi framburður kærða á vettvangi verið á þann veg að hann kvaðst hafa komið á staðinn með besta vini sínum, B, [kt.], til þess að gera upp sakir við aðila sem hafi verið á veitingastaðnum en þessir aðilar hafi átt að hafa lamið B fyrr um kvöldið. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu muni kærði hafa sagst hafa komið með kúbein á vettvang en látið einhvern annan hafa það. Á vettvangi muni kærði ekki hafa munað eftir meiru.

Í skýrslutökum hjá lögreglu 2. og 3. desember sl., hafi kærði kvaðst hafa fengið að fara inn á veitingastaðinn einsamall úr hópi vina sinna en vitnum beri auk þess saman um það atriði, sem og að dyravörður hafi náð að loka og varna öðrum inngöngu. Hafi kærði sagst hafa gengið beint að þeim einstaklingi rétt innan við andyri skemmtistaðarins, sem vinur hans, B, hafði bent sér á að hefði lamið sig fyrr um kvöldið. Hafi kærði sagst hafa beðið þennan einstakling um að koma með sér út til að ganga frá málum gagnvart B. Hafi vinir þessa einstaklings gengið ögrandi að sér og hafi þeir tekið þátt í að munnhöggvast við sig.  Síðan kveðist kærði ekki muna meira eftir atburðum fyrr en fyrir utan skemmtistaðinn og rétt áður en lögreglan hafi komið á vettvang.

Í framburði vitnisins D í skýrslutöku hjá lögreglu 3. desember sl., hafi komið fram að vitnið kvæðist hafa séð að einum pilti sem klæddur hafi verið í gráa peysu, með hvíta derhúfu og í ljósleitum gallabuxum, hafi verið hleypt inn á veitingastaðinn af dyraverði. Hafi þessi piltur gengið beint að A og byrjað að ögra honum með því að segja honum að koma út og hafi pilturinn gefið til kynna að þar yrði gengið frá honum. Segi vitnið að ryskingar hafi byrjað milli A og piltsins og hafi vitnið séð þegar A hafi veitt pilti þessum eitt hnefahögg í andlitið. Hafi pilturinn hörfað aðeins aftur á bak en þá hafi A tekið skref að piltinum en strax þar á eftir hafi A skyndilega gripið um kviðinn á sér, eins og eitthvað hefði komið fyrir hann. Strax í framhaldinu hafi pilturinn með hvítu derhúfuna hlaupið í burtu frá A og út af staðnum. Þessu næst hafi A sagt við vitnið D, að hann fyndi verulega til í kviðnum og hann hafi aldrei fundið álíka til í líkamanum. Hafi vitnið D lyft upp skyrtubol A og séð stungusár á kviði hans.

Í vottorði Ölmu D. Möller yfirlæknis á gjörgæsludeild Landspítala-Háskólasjúkrahúsi frá 2. desember sl., komi fram að A hafi hlotið lífshættulegan áverka á lifur, að öllum líkindum eftir hnífsstungu.  

Kærði sé nú í haldi lögreglunnar í Kópavogi, og sé undir rökstuddum grun um að hafa ráðist að A og lagt til hans með hnífi og veitt honum stungu í kvið með framangreindum afleiðingum. Hafi kærði sjálfur lýst atburðarrásinni á þann veg að hann hafi farið inn á veitingastaðinn og rætt þar við þann einstakling sem vinur hans B hafi bent honum á að hafði ráðist á sig fyrr um kvöldið. Þá hafi vitnið D lýst því að A hafi skyndilega haldið um kvið sinn og frekar lágvaxinn piltur, skolhærður og klæddur grárri peysu, sem átt hefði í ryskingum við A, hafi í kjölfarið hlaupið á brott og út af staðnum. Meðal muna sem lögregla haldlagði í kjölfar handtöku kærða var grá peysa sem hann hafi klæðst umrætt sinn. Þyki ætluð háttsemi kærða hafa stefnt hinum slasaða í stórkostlega hættu sem hafi haft í för með sér lífshættulegan áverka. Kærði liggi því undir grun um alvarlegt brot, sem varðað getur fangelsi allt að 16 árum. 

Rannsókn málsins sé enn á byrjunarstigi.  Svo sem ráða má af rannsóknargögnum málsins eigi eftir að yfirheyra fjölda vitna.  Þá eigi enn eftir að taka formlega kæruskýrslu af fórnarlambi árásarinnar en eins og fram komi í stuttri skýrslu lögreglu 2. desember sl., sem tekin hafi verið af fórnarlambinu A á gjörgæsludeild Landspítala Háskólasjúkrahúss við Hringbraut, hafi líðan hans þá verið mjög bágborin.

Að mati lögreglunnar í Kópavogi sé fyrir hendi augljós hætta á að kærði torveldi frekari rannsókn málsins, svo sem með því að hafa áhrif á framburði vitna, gangi hann laus.  Beri því brýna nauðsyn til þess að kærði sæti gæsluvarðhaldi á meðan rannsókn málsins fari fram.  Þegar litið sé til alvarleika þess brots sem kærði sé grunaður um að hafa framið, sem og til þess að nauðsynlegt sé að rannsaka frekar haldlagða muni, s.s. vopn, blóðsýni á fatnaði og halda áfram yfirheyrslum yfir fjölda vitna, þykji skilyrði fyrir gæsluvarðhaldi vera fyrir hendi. Þá muni lögregla rannsaka lífsýni sem fundist hafi á vettvangi, fundist á fatnaði og á vopnum. Þá sé enn fremur vísað til alvarleika þess brots sem nú sé til rannsóknar og til þess að árásarþoli hafi fyrirvaralaust verið stunginn með hnífi í kviðinn. Þykji almannahagsmunir einnig mæla með því að krafa um gæsluvarðhald nái fram að ganga.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið, framlagðra rannsóknargagna og með skírskotun til a. liðar 1. mgr. og 2.mgr. 103. gr. laga nr. 91/1991 sé þess krafist að framangreind gæsluvarðhaldskrafa nái fram að ganga.

 

             Sýnt þykir af rannsóknargögnum málsins að kærði er undir rökstuddum grun um að hafa stungið nafngreindan mann með hnífi þannig að lífshættulegt má teljast. Getur brot hans, ef sannast, varðað við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en brot á því ákvæði varðar allt að 16 ára fangelsi. Af gögnum málsins verður ráðið að rannsókn er enn á frumstigi og eftir að taka skýrslur af mikilvægum vitnum. Rannsóknarhagsmunir þykja því standa til þess að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Ekki þykir ástæða að svo komnu að leggja mat á það hvort skilyrði 2. mgr. sömu lagagreinar séu fyrir hendi í málinu.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

      Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 11. desember 2006 kl. 16:00. 

                                                                          

                                                                                                                                                                                                                                       Halldór Björnsson