Hæstiréttur íslands

Mál nr. 104/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Föstudaginn 12

Föstudaginn 12. mars 1999.

Nr. 104/1999.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Kristján Stefánsson hrl.)

                                                        

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

X, skipverji á ms. Goðafossi, var grunaður um brot gegn 123. og 124. gr. tollalaga nr. 55/1987 og 4. sbr. 27. gr. áfengislaga nr. 75/1998, með því að hafa smyglað til landsins miklu magni af áfengi, tóbaki og fleiru. Talið var að skilyrði a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, væri fullnægt til að staðfesta mætti úrskurð héraðsdóms um að X sætti gæsluvarðhaldi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. mars 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. mars 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 15. mars nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinum kærða úrskurði verði hrundið, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar og málsvarnarlauna.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður og málsvarnarlaun dæmast ekki.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. mars 1999.

                Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur með vísan til a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 krafist þess að X, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 15. mars nk. kl. 16:00.

                Kærði hefur mótmælt framkominni kröfu.

                Samkvæmt gögnum málsins eru málavextir þeir að tollgæsla og lögregla hafa um nokkra hríð haft grun um að skipverjar m.s. Goðafoss hafi í undanförnum ferð­um skipsins til landsins stundað reglubundið smygl. Ms. Goða­foss kom Reykjavíkur frá Kanada í gærkvöldi. Tollgæslan hafi fylgst með skip­inu á siglingu þess frá Garðskaga áleiðis til Reykjavíkur Þegar skipið hafi verið komið að svokallaðri sex-bauju við innsiglinguna í Reykjavíkurhöfn hafi starfs­menn tollgæslunnar séð að tveimur trossum var kastað fyrir borð með skömmu millibili. Hafi þeir fundið megna áfengislykt skömmu síðar. Í ann­arri trossunni hafi verið 29 plastbrúsar, um 20 lítrar hver brúsi, og hafði verið skorið á þá gat. Hafi trossa þessi flotið upp en hin trossan sokkið í sjóinn.

                Skipið kom til hafnar um kl. 20 og voru 11 skipverjar handteknir um kl. 21 og hófst þá leit í skipinu. Hafi fundist falið hólf neðan þilja í skipinu sem hafði að geyma 551 vindlingalengju, 551,14 lítra af sterku áfengi, 20,5 lítra af rauðvíni, 2,25 lítra af líkjör og 2.910 töflur af ætluðu “herbalife”, sem samkvæmt merkingum á umbúðum innihaldi ephedrine.

                Lögreglan kveðst hafa rökstuddan grun um að umtalsvert magn af smygli sé enn ófundið. Húsleitir hjá skipverjum m.s. Goðafoss standa yfir.

                Rannsókn standi yfir á ætluðu broti kærða á 123., sbr. 124. gr. tollalaga nr. 55/1987 og 4. gr., sbr. 33. gr. áfengislaga nr. 75/1998. Geti refsing samkvæmt þeim greinum varðað fangelsi allt að 6 árum.

                Samkvæmt því sem fram er komið má ætla að margir séu um brot þetta, bæði skipverjar og samverkamenn í landi.

                Með vísan til rannsóknargagna þykir fram kominn rökstuddur grunur um að kærði kunni að tengjast broti á tollalögum nr. 55/1987 og 4. gr. sbr. 27. gr. áfengislaga nr. 75/1998.

                Er fallist á þau sjónarmið lögreglustjórans í Reykjavík, að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins, sem er skammt á veg komin, með því að koma undan sönnunargögnum eða hafa áhrif á vitni eða samseka, gangi hann laus.

                Samkvæmt framansögðu verður krafa lögreglustjórans í Reykjavík tekin til greina með vísan til a-liðar, 1. mgr. 103. gr. l. nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála eins og hún er fram sett.

Úrskurðarorð:

                Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 15. mars nk. kl. 16:00.