Hæstiréttur íslands
Mál nr. 486/2005
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
|
|
Fimmtudaginn 4. maí 2006. |
|
Nr. 486/2005. |
Árni Hannesson(Kristinn Hallgrímsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Óskar Thorarensen hrl.) |
Skaðabætur. Líkamstjón.
Á kvaðst hafa orðið fyrir líkamsárás aðfaranótt 7. ágúst 1999 í Ingólfsstræti í Reykjavík. Fallist var á með héraðsdómi að ekki hefðu verið færðar að því sönnur að tjón Á umrædda nótt hafi leitt af broti á almennum hegningarlögum. Voru því ekki talin skilyrði fyrir bótaábyrgð ríkisins samkvæmt lögum nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. nóvember 2005. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér skaðabætur að fjárhæð 2.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. janúar 2002 til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar úr hendi stefnda í héraði og fyrir Hæstarétti. Áfrýjandi hefur lækkað höfuðstól kröfu sinnar með vísan til ákvæðis b. liðar 2. mgr. 7. gr. laga nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, sbr. 18. gr. laga nr. 144/1995.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður fyrir Hæstarétti felldur niður.
Fallist er á með héraðsdómi að ekki hafi verið færðar að því sönnur að tjón áfrýjanda 7. ágúst 1999 hafi leitt af broti á almennum hegningarlögum. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Árni Hannesson, greiði stefnda, íslenska ríkinu, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 14. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Árna Hannessyni kt. 241064-2049, Laufási 3, Garðabæ, gegn íslenska ríkinu, með stefnu birtri 20. ágúst 2004.
Dómkröfur stefnanda eru þær að ákvörðun bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995, nr. 14/2000, verði felld úr gildi og að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 5.928.302 kr. með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 843.000 kr. frá 7. ágúst 1999 til 7. október 1999, en með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga af 5.928.302 kr. frá þeim degi til 23. janúar 2002, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 5.928.302 kr. frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Auk þess er krafist að tekið verði tillit til skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun, þar sem stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur aðili.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins. Til vara er krafist lækkunar á dómkröfum stefnanda og í því tilviki verði málskostnaður látinn niður falla.
Málsatvik
Mál þetta snýst um líkamstjón sem stefnandi kveðst hafa orðið fyrir vegna líkamsárásar aðfaranótt 7. ágúst 1999. Í frumskýrslu lögreglu dags. 7. ágúst 1999, segir að lögreglumenn hafi verið sendir að Nasty bar, Ingólfsstræti, til þess að huga þar að manni sem væri með áverka á höfði. Lögreglan kom á staðinn kl. 03:25 og hitti þar fyrir stefnanda. Voru sjáanlegar miklar bólgur á enni og virtist nefið vera brotið. Að sögn lögreglu var hann mikið ölvaður. Er haft eftir stefnanda að þrír menn hafi ráðist á hann að tilefnislausu. Þeir hafi barið og sparkað í hann. Gat stefnandi einungis gefið lýsingu á einum þessara manna. Lýsti hann þeim manni svo að hann hafi verið dökkhærður með millisítt hár, íklæddur ljósum bol og að hann hafi verið u.þ.b. 30 ára.
Í skýrslu er stefnandi gaf fyrir lögreglunni í Reykjavík 9. ágúst 1999 lýsir hann málavöxtum hins vegar á annan máta. Kveður hann þá að maður í kringum 20 ára í hvítum bol, hafi ráðist á hann utan við veitingastaðinn Nasty Bar í Ingólfsstræti. Hann hafi ráðist aftan að stefnanda og fellt hann í götuna. Þá hafi hann fengið spark í andlitið, og skömmu síðar hafi hann fengið annað spark í höfuðið og rotast við það. Kvaðst hann ekki muna eftir að hafa rætt við lögreglumenn á vettvangi, og ekkert muna fyrr en hann kom til sjálfs sín á slysadeild.
Síðar kom í ljós að stefnandi varð fyrir varanlegum afleiðingum af árásinni. Matsmaðurinn, Júlíus Valsson læknir, mat afleiðingar árásarinnar fyrir stefnanda með örorkumati dags. 4. október 2001. Samkvæmt niðurstöðu matsgerðar hafði stefnandi nefbrotnað og varanlegur skaði orðið á lyktartaugum sem leitt hafi til minnkaðs lyktarskyns. Einnig hafi hann haft þrálát óþægindi frá hálsi og höfði eftir þetta slys. Samkvæmt matsgerð var stefnandi metinn með 20% varanlega örorku og 15% varanlegan miska.
Þar sem árásaraðili fannst ekki krafði lögmaður stefnanda bótanefnd samkvæmt lögum nr. 69/1995 um bætur með bréfi dags. 23. desember 2001. Bótanefndin hafnaði umsókn stefnanda, með ákvörðun dags. 8. júlí 2002, um greiðslu bóta úr ríkissjóði á grundvelli sömu laga. Hefur stefnandi höfðað dómsmál þetta til að fá kröfu sína viðurkennda.
Málsástæður stefnanda
Krafa stefnanda byggist á því að stefnda beri að greiða honum bætur úr ríkissjóði á grundvelli laga nr. 69/1995.
Ljóst sé að ráðist hafi verið á stefnanda þann 7. ágúst 1999 og honum veittir umtalsverðir líkamsáverkar. Hann hafi þannig orðið fyrir líkamstjóni vegna refsiverðrar háttsemi sem fellur undir 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Bótaskilyrðum 1. mgr. 1. gr. laga nr. 69/1995, sbr. 9. gr. laganna, sé þannig fullnægt og beri bótanefnd því að greiða stefnanda hámarksbætur samkvæmt lögum nr. 69/1995. Samkvæmt framansögðu beri jafnframt að fella ákvörðun nefndarinnar nr. 14/2000 úr gildi.
|
Dómkrafa stefanda sundurliðast svofellt: |
|
|
a) Þjáningabætur |
kr. 55.200.- |
|
Um er að ræða 60 daga sem stefnandi var ekki rúmliggjandi (60 x kr. 920.- = 55.200).
|
|
|
b) Varanlegur miski 15% skv. 4. gr. skaðabótalaga 15% x 5.258.000. |
kr. 788.700.- |
|
c) Varanleg örorka 20% skv. 6. gr. skaðabótalaga Árslaunaviðmið er kr. 2.273.883.- (20% x 2.273.883 x 11,180= 5.084.402.-). Viðmiðið er í samrmi við árslaun stefnanda árið 1998. Ætla má að árslaun stefnanda fyrir árið 1998 sé réttari mælikvarði á líklegar framtíðartekjur tjónþola heldur en meðaltal þriggja ára fyrir slys, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.
|
kr. 5.084.402.- |
|
d) Útlagður kostnaður |
kr. 39.004.- |
|
e) Útlagður kostnaður lögmanns |
kr. 83.034,- |
|
Samtals |
kr. 6.050.340.- |
Stefnandi
krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 4,5% vexti
samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 843.000 kr. frá 7.
ágúst 1999 til 7. október 1999, er
stöðugleikatímamarki var náð. Frá þeim degi með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga af 5.928.302 kr. frá þeim degi til 23. janúar 2002, en
með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga
nr. 38/2001 af 5.928.302 kr. frá þeim degi til greiðsludags. Krafan um dráttarvexti styðst við III. kafla
vaxtalaga nr. 38/2001 en 23. janúar var mánuður liðinn frá því að stefnandi sannanlega krafði stefnda um
bætur.
Stefnandi byggir kröfu sína á lögum nr. 69/1995. Þá vísar stefnandi til ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993. Auk þess er vísað til hegningalaga nr. 19/1940. Varðandi ógildingarkröfuna er vísað til stjórnsýslulaga nr. 37/1993 auk meginreglna stjórnsýsluréttarins. Um varnarþing er vísað til 3. mgr. 33. gr. einkamálalaga. Um dráttarvexti er vísað til vaxtalaga nr. 38/2001. Varðandi málskostnað er vísað til ákvæða XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og framlagðs málskostnaðarreiknings. Krafa um virðisaukaskatt byggir á ákvæðum laga nr. 50/1988.
Málsástæður stefnda
Af hálfu stefnda er vísað til atvika málsins eins og þeim er lýst í frumskýrslu lögreglunnar frá 7. ágúst 1999 og í framburðarskýrslu stefnanda hjá lögreglu 9. ágúst 1999. Bent er á að það ósamræmi sem gætir um lýsingu málavaxta í framburðum stefnanda fyrir lögreglu, geri það að verkum að málsatvik séu með öllu óljós í málinu. Þá veki einnig athygli að í bréfi lögmanns stefnanda til dómsmálaráðuneytisins, dags. 23. desember 2001, komi fram að óþekktir menn hafi ráðist á stefnanda, sem sé í ósamræmi við síðari framburð stefnanda hjá lögreglu. Þá er þess getið að í málinu liggi einnig frammi lögregluskýrsla, þar sem upplýst sé að stefnanda hafi símleiðis verið gerð grein fyrir því að málið yrði sett í geymslu sem óupplýst, enda lægi ekkert fyrir um það hver eða hverjir hefðu ráðist á stefnanda í umrætt sinn. Engra annarra gagna um hið umdeilda atvik sé til að dreifa í máli þessu.
Málsástæður stefnda eru þær að samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 69/1995 greiði ríkissjóður bætur vegna tjóns sem leiðir af broti á almennum hegningarlögum í samræmi við ákvæði laganna. Sé það þannig skilyrði fyrir greiðslu bóta á grundvelli laga nr. 69/1995 að tjón það sem bóta sé krafist fyrir verði rakið til háttsemi sem talist geti brot á almennum hegningarlögum. Í þessu felist að tjónþoli eigi lögvarða kröfu á hendur ríkissjóði til greiðslu bóta þegar skilyrði greiðslu þeirra samkvæmt lögunum séu að öðru leyti uppfyllt. Hins vegar séu í lögunum einnig ýmsar undantekningarreglur sem skýra beri þröngri lögskýringu auk ýmissa takmarkana á greiðsluskyldu ríkissjóðs.
Að mati stefnda komi ekkert fram í málatilbúnaði stefnanda sem bendir til þess að hin umdeilda ákvörðun bótanefndar sé ekki í fullu samræmi við lögskýringargögn og markmið laganna í sinni víðustu mynd. Í þessu dómsmáli hagi þannig til að tjónþoli sé einn til frásagnar um málsatvik og sé framburður hans fyrir lögreglu þversagnarkenndur og ekkert sem styðji staðhæfingar hans um líkamsárás nema hugsanlega líkamstjón það sem bóta sé krafist fyrir. Þar gæti þó fleira komið til. Framburður stefnanda um hina meintu atburðarrás virðist því getgátur einar. Síðastnefnt fái m.a. stoð í frumskýrslu lögreglunnar í Reykjavík frá 7. ágúst 1999 þar sem fram komi að stefnandi hafi verið mikið ölvaður.
Það verði að árétta að skýrt komi fram í 1. gr. laga nr. 69/1995, um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, að ákvæðum laganna sé einungis ætlað að gilda um tjón sem leiði af broti á almennum hegningarlögum. Það sé því undantekningalaust skilyrði bóta að um ásetningsverknað hafi verið að ræða eða refsivert gáleysi, þannig að unnt yrði að refsa tjónvaldi ef hann væri sakhæfur. Auk þess þurfi tjónvaldur, þótt hann sé ósakhæfur, að vera skaðabótaskyldur samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar. Stefndi telur að af gögnum málsins verði ekki unnt að ráða að skilyrði 1. gr. laganna, um að tjón sé afleiðing brots á almennum hegningarlögum, sé uppfyllt, enda verði bótanefnd að meta sjálfstætt hverju sinni hvort tjón sé afleiðing af verknaði sem refsiverður sé samkvæmt almennum hegningarlögum samkvæmt þeim gögnum er liggi fyrir í hverju máli. Að mati stefnda hafi stefnandi ekki fært fram gögn sem sýni fram á, svo ekki verði um villst, að líkamstjón hans verði rakið til refsiverðrar háttsemi á grundvelli almennra hegningarlaga. Verður stefnandi því að bera hallann af þeim sönnunarskorti sem uppi sé í málinu.
Af öllu framangreindu telur stefndi ljóst að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda.
Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að stefnandi eigi rétt á greiðslum á grundvelli laga nr. 69/1995 er þess krafist að bótakrafa stefnanda verði lækkuð vegna eigin sakar stefnanda sjálfs. Um eigin sök er vísað til ástands stefnanda sjálfs með skírskotun til þeirrar óvissu sem ríkir um atburði þá sem leiddu til líkamstjóns stefnanda.
Um hámark bóta er jafnframt vísað til 7. gr. laga nr. 69/1995. Komi til greiðsluskyldu stefnda verði að taka mið af hámarksbótum til einstakra tjónþola.
Ekki eru gerðar athugasemdir við örorkumat Júlíusar Valssonar læknis, sem liggur frammi í málinu. Mótmælt er dráttarvaxtakröfu stefnanda.
Niðurstaða
Fyrir dómi skýrði stefnandi frá atvikum á þá lund að aðfaranótt 7. ágúst 1999 hafi hann verið að koma úr Þjóðleikhúskjallaranum, þar sem hann hafði verið um kvöldið og gengið upp Ingólfsstræti, og ætlað að ná sér í leigubíl á Laugaveginum. Hann kvaðst hafa verið einn á ferð. Hann kvaðst muna eftir strák í hvítum bol, sem bankaði í bakið á honum, og er hann snéri sér við, hafi verið stokkið aftan á sig og við það féll stefnandi í götuna. Hann kvaðst hafa náð að koma stráknum af sér, en þá fengið spark í andlitið. Stefnandi kvaðst fyrst hafa haldið að einn maður hefði ráðist á sig en teldi nú að þeir hafi verið tveir eða þrír, einhver annar hljóti að hafa sparkað í sig. Aðspurður kvaðst stefnandi hafa verið búinn að drekka þrjá eða fjóra bjóra, hafi verið svona létt hífaður, ekki fullur. Hann kvaðst ekki muna atburði frekar og ekkert muna eftir sér fyrr en á slysadeild.
Í málinu er deilt um það hvort uppfyllt sé það skilyrði bótaábyrgðar ríkisins samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 69/1995 að um brot á almennum hegningarlögum sé að ræða, en skilyrðum laganna er fullnægt að öðru leyti, sbr. 1. og 2. mgr. 6. gr. laganna. Eins og hér hagar til er stefnandi einn til frásagnar um málsatvik og gætir nokkurs ósamræmis í frásögnum hans þar um. Þá er ekkert komið fram sem styður staðhæfingar hans um líkamsárás, ef frá eru taldir þeir áverkar, sem hann hlaut. Verður því fallist á þá niðurstöðu bótanefndar að ekki sé unnt að slá því föstu samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja að tjón það sem bóta er krafist fyrir verði leitt af refsiverðri háttsemi á grundvelli almennra hegningarlaga.
Samkvæmt framansögðu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu, en málskostnaður verður felldur niður.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Árna Hannessonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.