Hæstiréttur íslands

Nr. 2018-81

A og B ehf. (Sigríður Rut Júlíusdóttir lögmaður)
gegn
C (Eiríkur Gunnsteinsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Málskostnaðartrygging
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Markús Sigurbjörnsson.

Með beiðni 22. mars 2018 sem barst Hæstarétti degi síðar leita A og B ehf. eftir að fá leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 9. mars 2018 í málinu nr. 209/2018: C gegn A og B ehf., á grundvelli 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. C leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu A og B ehf., á grundvelli 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991, um að C verði gert á að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í héraði í máli sem hún hefur höfðað á hendur þeim. Héraðsdómur féllst á kröfuna en með ofangreindum úrskurði Landsréttar var henni hafnað.

Samkvæmt 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 er unnt að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurði Landsréttar í kærumálum þegar svo er fyrir mælt í öðrum lögum. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort skilyrðum 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 sé fullnægt í málinu þannig að C verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í héraði. Úrskurði um slíkan ágreining er heimilt að kæra til Landsréttar á grundvelli o. liðar 143. gr. laga nr. 91/1991 en úrskurður Landsréttar í kærumáli samkvæmt framangreindu sætir ekki kæru til Hæstaréttar á grundvelli 1. mgr. 167. gr. laganna. Þá er ekki mælt fyrir um heimild til að sækja um leyfi Hæstaréttar til kæru á úrskurði Landsréttar hvað þetta varðar í öðrum lögum svo sem áskilið er í 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þegar af þeirri ástæðu er beiðninni hafnað.