Hæstiréttur íslands
Mál nr. 24/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísunarúrskurður staðfestur
- Vanreifun
- Kröfugerð
|
|
Miðvikudaginn 26. janúar 2005. |
|
Nr. 24/2005. |
Rebekka Rósa Frímannsdóttir Jón Ingi Óskarsson Þórhallur Frímann Óskarsson Ásthildur Gunnarsdóttir Halldór Gunnarsson Halldís Gunnarsdóttir Frímann Benediktsson og Kolbrún S. Benediktsdóttir (Eyvindur G. Gunnarsson hdl.) gegn Þorkeli SigmundssyniKjartani Sigmundssyni Birnu G. Þorbergsdóttur og dánarbúi Péturs Sigmundssonar (Halldór H. Backman hrl.) |
Kærumál. Frávísunarúrskurður staðfestur. Vanreifun. Kröfugerð.
Sóknaraðilar kröfðust þess að varnaraðilum yrði gert að fjarlægja hús, sem stóðu á eignarhluta sóknaraðila á jörðinni H. Var málið talið svo vanreifað af hálfu sóknaraðila að óhjákvæmilegt væri að vísa því frá dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 29. desember 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. janúar 2005. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 17. desember 2004 þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þeir krefjast og málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og þeim verði dæmdur kærumálskostnaður.
Í héraðsdómsstefnu kröfðust sóknaraðilar þess að varnaraðilum yrði gert skylt með dómi að fjarlægja sumarhús, þ.m.t. útihús, sem standi á eignarhluta sóknaraðila á jörðinni Horni í Sléttuhreppi, Ísafjarðarbæ, án þess að umrædd hús væru nánar tilgreind í stefnu svo sem nauðsynlegt var sbr. d. lið 80. gr. laga nr. 91/1991. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til þeirra forsendna hins kærða úrskurðar sem lúta að reifun stefnukröfunnar verður hann staðfestur.
Sóknaraðilar verða dæmd til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Rebekka Rósa Frímannsdóttir, Jón Ingi Óskarsson, Þórhallur Frímann Óskarsson, Ásthildur Gunnarsdóttir, Halldór Gunnarsson, Halldís Gunnarsdóttir, Frímann Benediktsson og Kolbrún S. Benediktsdóttir, greiði varnaraðilum, Þorkeli Sigmundssyni, Kjartani Sigmundssyni, Birnu G. Þorbergsdóttur og dánarbúi Péturs Sigmundssonar, 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 17. desember 2004.
Mál þetta var höfðað 22. maí 2003, þingfest 18. júní 2003 og dómtekið 24. nóvember 2004.
Stefnendur eru Rebekka Rós Frímannsdóttir, kt. 290432-2279, Álftamýri 8, Reykjavík, Jón Ingi Óskarsson, kt. 300457-3129, Álfaskeiði 51, Hafnarfirði, Þórhallur Frímann Óskarsson, kt. 120263-2859, Álfaskeiði 51, Hafnarfirði, Ásthildur Gunnarsdóttir, kt. 130241-4179, Hólabergi 30, Reykjavík, Halldór Gunnarsson, kt. 290342-4499, Skipasundi 5, Reykjavík, Halldís Gunnarsdóttir, kt. 110843-2679, Böðvarsgötu 15, Borgarnesi, Frímann Benediktsson, kt. 121153-4089, Blikahólum 4, Reykjavík og Kolbrún S. Benediktsdóttir, kt. 121153-4169, Suðurmýri 26, Seltjarnarnesi.
Stefndu eru Þorkell Sigmundsson, kt. 110125-3219, Traðarstíg 10, Bolungarvík, Kjartan Sigmundsson, kt. 221227-7949, Seljalandsvegi 87, Ísafirði, Birna G. Þorbergsdóttir, kt. 301034-5399, Skarðshlíð 24c, Akureyri og Db. Péturs Sigmundssonar, kt. 010921-2879.
Stefnendur krefjast þess að stefndu verði gert skylt með dómi að fjarlægja sumarhús, þ.m.t. útihús, sem stendur á eignarhluta stefnenda á jörðinni Horni í Sléttuhreppi, Ísafjarðarbæ (fastanúmer 225-6743), innan 15 daga frá uppsögu dómsins að viðlögðum 50.000 króna dagsektum, sem renni til stefnenda. Þá krefjast stefnendur þess að stefndu verði dæmd til greiðslu málskostnaðar að skaðlausu.
Stefndu krefjast sýknu og greiðslu málskostnaðar að skaðlausu. Til vara er gerð krafa um að synjað verði kröfu um dagsektir eða þær lækkaðar verulega og að þær taki ekki gildi fyrr en að loknum eðlilegum tíma til brottflutnings hússins.
Í greinargerð höfðu stefndu uppi kröfu um frávísun málsins. Var málið flutt um þá kröfu 3. maí 2004. Með úrskurði héraðsdóms 28. júní 2004 var kröfu um frávísun málsins hafnað.
Málsatvik:
Á jörðinni Horni í Sléttuhreppi, Ísafjarðarbæ, reistu bræðurnir Frímann og Stígur Haraldssynir húseignir, sem fengu nöfnin ,,Frímannshús” og ,,Stígshús”. Var um að ræða íbúðarhús, ásamt útihúsum þeim fylgjandi. Með kaupsamningi 19. mars 1947 seldi Hallfríður Finnbogadóttir, ekkja Frímanns Haraldssonar, bræðrunum Pétri Sigmundssyni og Þorkatli Sigmundssyni allar húseignir sínar á jörðinni Horni. Pétur og Þorkell voru þá til heimilis að Látravík við Hornbjargsvita. Í kaupsamningi um eignina segir svo: ,,Kaupendum er heimilt að láta hin seldu hús standa þar sem þau eru, meðan ég er eigandi fyr greinds jarðarhluta.” Hallfríður Finnbogadóttir lést 27. maí 1983. Í máli þessu gera erfingjar hennar kröfu um að framangreint kaupsamningsákvæði verði efnt og að stefndu verði gert skylt að fjarlægja umræddar húseignir af jörðinni Horni.
Málsástæður og lagarök stefnenda
Af hálfu stefnenda er á því byggt, að þegar að eignarheimild að jörðinni Horni hafi flust til erfingja Hallfríðar Finnbogadóttur, hafi fallið niður heimild húseigenda til þess að láta húseignirnar standa áfram á jörðinni. Í því efni sé vísað til ótvíræðs ákvæðis í kaupsamningi frá 19. mars 1947. Þrátt fyrir það hafi húseigendur nýtt sér eignirnar áfram, þó svo réttur þeirra til að láta eignirnar standa áfram á jörðinni hafi fallið niður. Við því hafi stefnendur ekki amast. Krafa stefnenda um brottflutning húseignanna sé byggð á beinum eignarrétti að jörðinni Horni. Samkvæmt skýru ákvæði í kaupsamningi hafi kaupendum húseignanna verið heimilt að láta þær standa á meðan seljandi væri eigandi jarðarhlutans. Með því að hin samningsbundna heimild hafi runnið út beri stefndu, við yfirfærslu eignarréttar að jörðinni til erfingja, að fjarlægja húseignirnar af jörðinni. Þrátt fyrir að stefnendur hafi ekki gert athugasemdir við það að húseignirnar stæðu áfram á jörðinni, hafi ekki falist í því viðurkenning á því að réttur stefndu væri meiri en þinglýst eignarheimild tilgreindi. Væru löglíkur fyrir því sem fram kæmi í þinglýsingarbókum um réttindi yfir fasteignum.
Í stefnu lýsa stefnendur því yfir að þeir væru reiðubúnir til að ganga til samninga við stefndu um kaup á húseignunum, en næðist ekki samkomulag væri þeim nauðsynlegt að fá dóm fyrir kröfum sínum.
Jörðin Horn í Sléttuhreppi sé friðlýst. Sú kvöð hvíli á jörðinni samkvæmt friðlýsingu að þar sé óheimilt að reisa hús nema á grunni þeirra húsa er fyrir væru á jörðinni. Af friðlýsingunni leiddi að stefnendur gætu ekki nýtt sér þann rétt nema á grunni þeirra húsa sem væru fyrir á jörðinni. Stefnendum sé því nauðsyn að fá dóm fyrir skyldu stefndu til að fjarlægja allar húseignir sem stæðu á eignarhluta þeirra á jörðinni Horni.
Stefnendur gera þá grein fyrir aðild að málinu að Hallfríður Finnbogadóttir hafi látist 27. maí 1983. Börn hennar og erfingjar, Elín Frímannsdóttir, Óskar Frímannsson og Rebekka Rós Frímannsdóttir, hafi tekið jörðina í arf eftir móður sína. Elín Frímannsdóttir hafi látist 3. ágúst 1993 og hafi hennar börn, Ásthildur Gunnarsdóttir, Halldór Gunnarsson, Halldís Gunnarsdóttir, Frímann Benediktsson og Kolbrún S. Benediktsdóttir tekið hluta móður sinnar í arf eftir hana. Óskar Frímannsson hafi látist 14. janúar 1968 og hafi synir hans, Jón Ingi Óskarsson og Þórhallur Frímann Óskarsson tekið hlut föður síns í jörðinni í arf eftir hann. Að því er stefndu varði hafi Pétur Sigmundsson látist 23. september 1992. Eftirlifandi eiginkona hans, Birna G. Þorbergsdóttir, hafi fengið leyfi til setu í óskiptu búi eftir eiginmann sinn. Í vottorði Fasteignamats ríkisins komi fram að Kjartan Sigmundsson sé skráður eigandi, til jafns á við Þorkel Sigmundsson, að húseignum að Horni í Sléttuhreppi. Nafn hans komi þó hvergi fram í þinglýsingarbókum fyrir jörðina. Af því leiði að hann kunni að telja til eignarréttinda yfir fasteignum að Horni og sé því nauðsynlegt að stefna honum til varna í málinu.
Um kröfur sínar vísa stefnendur til meginreglna eignarréttar og þinglýsingalaga, nr. 39/1978. Þá er vísað til almennra reglna samningaréttar um skuldbindingargildi samninga. Um málskostnað er vísað til 129. gr., sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök stefndu:
Stefndu lýsa atvikum þannig að bræðurnir Þorkell og Pétur Sigmundssynir hafi í mars 1947 fest kaup á öllum húseignum Hallfríðar Finnbogadóttur að Horni. Ástæður kaupanna hafi verið þær að þeir bræður hafi verið bjargmenn og hafi þeir nýtt sér bjargið til eggjatöku. Hafi þeir þurft aðstöðu til að geta stundað bjargið og aðra nytjatöku. Hafi sölu húseignanna fylgt full lóðarréttindi, að svo miklu leyti er seljandi hafi átt þau. Seljandi hafi hins vegar ekki átt landið nema að hluta, þar sem a.m.k. útihúsin hafi verið reist á landi sem hafi tilheyrt Stíg Haraldssyni, bróður Frímanns eiginmanns Hallfríðar. Hafi sú tilhögun komið til vegna innbyrðis skiptinga eigenda jarðarinnar, en jörðin sé metin sex hundruð að fornu mati og hafi seljandi einungis átt eitt hundruð. Sé það ástæða þess hvernig kaupsamningurinn frá 19. mars 1947 hafi verið orðaður. Kaupendur hafi þegar við kaupsamning tekið við öllum eignarráðum á jörðinni og hafi þeir í upphafi einungis nýtt sér hlunnindin. Á árinu 1951 hafi Þorkell, ásamt eiginkonu sinni Huldu Eggertsdóttur, flutt að Horni með bústofn og hafi þau búið þar til í október 1952. Því hafi ekki verið andmælt, hvorki af hálfu seljanda eða annarra eigenda jarðarinnar. Á þeim tíma hafi 3 hús verið á Horni, svokölluð Frímannshús og Stígshús og hús Kristins Gunnarssonar. Þorkell og Hulda hafi verið síðustu ábúendurnir að Horni. Frá þeim tíma hafi stefndu nýtt jörðina eins og hún væri þeirra eign og dvalið þar, eða fólk á þeirra vegum, meira eða minna öll sumur. Ekki sé til þess vitað að seljandi eignanna hafi komið þar síðar, en vitað sé að ein dóttir hennar hafi dvalið þar daglangt fyrir 10 til 15 árum. Stefnendur hafi aldrei haft samband við stefndu í því skyni að óska eftir kaupum á eignunum eða í öðrum tilgangi. Ekki hafi verið óskað eftir leigu fyrir jörðina af hálfu stefnenda og hafi stefndu því mátt ætla að eignirnar væru þeirra eign þrátt fyrir ákvæði í kaupsamningi, er þeir hafi talið að eingöngu ætti við um útihúsin.
Stefndu byggja sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að stefnendur séu ekki eigendur að landi því sem fasteignir í landi Horns standi á og beri því að sýkna stefndu af kröfum stefnenda á grundvelli aðildarskorts. Stefndu telji sig vera eigendur að þeim eignarhluta er Hallfríður hafi átt í jörðinni. Með kaupsamningnum frá 19. mars 1947 hafi allur eignarréttur seljanda að jörðinni flust til þeirra. Hin tilvitnuðu ákvæði í kaupsamningi feli einungis í sér yfirlýsingu um það að seljandi hafi ekki átt landið undir hinum seldu fasteignum og því hafi verið takið þannig til orða. Við kaupin hafi eignarréttur að öllum réttindum seljanda flust til kaupenda og hafi þeir farið í alla staði með full eignarráð í öllum eignarhluta seljanda, þ.e. einu hundraði í jörðinni Horni og öllum fasteignum hans frá samningsdegi. Ekki sé vitað til að seljandi eða erfingjar hans hafi haft afskipti af jörðinni frá samningsdegi, né greitt af henni skatta eða skyldur. Til stuðnings þessari málsástæðu sé vísað til dskj. nr. 7, sem sé yfirlýsing erfingja Stígs Haraldssonar. Því sé haldið fram að sala á jörðinni, ásamt fasteignum, hafi verið viðkvæmt mál þar sem fasteignirnar hafi ekki staðið á landi seljanda og hafi heimildir til að láta þær standa verið bundnar við persónu hennar. Tilvitnað orðalag kaupsamnings beri vitni um það. Kaupendur hafi alla tíð talið sig eigendur jarðarinnar og hafi þeir nýtt sér hana eins og tilefni hafi verið til í 56 ár, án afskipta erfingja seljanda eða hinna eigenda jarðarinnar. Hafi einhver vandkvæði verið gagnvart fullum eignarrétti seljanda að jörðinni, þá séu þau vandkvæði fallin niður á grundvelli hefðar. Þau hafi farið með full og óskorin eignarráð að jörðinni í 56 ár og hafi þau því eignast full eignarréttindi fyrir hefð.
Verði ekki fallist á sýknu á grundvelli aðildarskorts byggja stefndu sýknukröfu sína á því að stefnendur séu ekki eigendur að þeim hluta jarðarinnar sem húsin standi á, heldur erfingjar Stígs Haraldssonar. Um það megi vísa til yfirlýsingar erfingja Stígs á dskj. nr. 7. Þar sé lýst upprunalegum eignarrétti að þeim hluta landsins sem húsin standi á, eða a.m.k. hluti þeirra. Kröfu sinni til stuðnings sé vísað til 4. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991.
Loks byggja stefndu sýknukröfu sína á því að sönnunarbyrðin fyrir því að í kaupsamningnum frá 1947 felist heimild fyrir stefnendur til að krefjast brottnáms fasteignarinnar, hvíli á stefnendum. Ef skylda til að fjarlægja hinar seldu fasteignir hvíli á kaupendum, eftir andlát seljanda, þá hafi borið að tilgreina það berum orðum í kaupsamningnum. Því sé haldið fram að með orðalagi í kaupsamningnum hafi seljandi einungis verið að ábyrgjast gagnvart kaupendum að krafa um brottnám húsanna eða flutning, kæmi ekki fram frá hinum raunverulegu landeigendum, Stíg Haraldssyni og erfingjum hans, á meðan hún væri lifandi. Krafa um brottnám fasteignar sé afar íþyngjandi fyrir þann sem fyrir slíkri kröfu verði. Að Horni sé slík krafa nánast óframkvæmanleg, þar sem engum tækjum verði við komið. Húseignirnar hafi verið seldar fullu verði og engir fyrirvarar gerðir um að húsin væru seld til niðurrifs. Sé því afar ólíklegt að kaupendur hafi gengið til samninga þess vitandi að fljótlega kæmi til andláts seljanda og að samningurinn yrði þeim einskis virði í kjölfarið.
Verði ekki fallist á framangreindar málsástæður, geri stefndu kröfu um að kaupsamningnum verði vikið til hliðar með vísan til meginreglna samningaréttar, um að ekki sé sanngjarnt að framfylgja hinu tilvitnaða kaupsamningsákvæði.
Komi til þess að krafa stefnenda verði tekin til greina er gerð krafa um að synjað verði um dagsektir eða að þær verði lækkaðar verulega. Engin heimild sé í kaupsamningnum til að krefjast brottnáms hússins að viðlögðum greiðslu dagsekta.
Stefndu vísa til 56. gr. laga nr. 46/1905 um hefð, samningalaga nr. 7/1936, einkum 36. gr. og 4. mgr. 18. gr. , 129. gr. og 131. gr. laga nr. 91/1991.
Niðurstaða:
Með kaupsamningi á dskj. nr. 5, selur Hallfríður Finnbogadóttir bræðrunum Pétri Sigmundssyni og Þorkatli Sigmundssyni allar húseignir sínar, sem eru á hennar hluta í jörðinni Horni í Sléttuhreppi, hverju nafni sem nefnist, svo sem íbúðarhús, skepnuhús, geymsluhús, sjárvarhús o.s.frv. Í kaupsamningnum er tekið fram að kaupendum sé heimilt að láta hin seldu hús standa þar sem þau séu, meðan seljandi sé eigandi jarðarhlutans. Á grundvelli þessa kaupsamningsákvæðis gera stefnendur kröfu um að stefndu verði gert skylt að fjarlægja umræddar húseignir af jörðinni, að viðlögum dagsektum. Á vottorði fasteignamats ríkisins, frá 20. maí 2003, er eignarhluti þessi tilgreindur 78,3 m2.
Mál þetta er hvergi nærri eins skýrt sem skyldi. Af málatilbúnaði aðila verður ráðið að stefnendur séu ekki einu eigendur að jörðinni Horni og hefur verið haldið fram af hálfu stefndu að hluti þeirra húseigna er Hallfríður hafi selt 1947 standi á landi er hafi tilheyrt Stíg Haraldssyni. Í þá átt hnígur yfirlýsing Arnórs Stígssonar á dskj. nr. 7, en yfirlýsinguna hefur Arnór staðfesti fyrir réttinum. Dskj. nr. 4 og 13 bera þess aukreitis vitni, að fleiri telji til eignarréttar yfir jörðinni en stefnendur. Að þessu virtu hefur ekki verið gerð grein fyrir hvernig eignarhaldi að jörðinni sé háttað og hvort og með hvaða hætti landi hefur verið skipt niður á eigendur eða hvort landi sé að einhverju leyti eða öllu óskipt. Hafa engir uppdrættir verið lagðir fram af landsvæðinu af hálfu stefnenda. Verður ekki ráðið af gögnum málsins hvaða hluta jarðarinnar stefnendur telja undirorpna eignarrétti sínum, en telji þeir til eignarréttar að landinu í óskiptu með öðrum standa ákvæði laga nr. 91/1991 um samaðild því í vegi að þeim sé unnt að haga dómkröfum sínum með þeim hætti er hér er gert. Krafa um brottflutning húseignanna verður ekki gerð án tengsla við skýrt afmarkað land, sem háð er ótvíræðum eignarrétti tiltekinna einstaklinga. Verður að telja málið svo vanreifað af hálfu stefnenda að þessu leyti, að óhjákvæmilegt er að vísa því frá dómi, sbr. 3. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991.
Eftir úrslitum málsins þykir rétt að stefnendur greiði stefndu málskostnað í máli þessu og þykir hann hæfilega ákveðinn 150.000 krónur.
Af hálfu stefnenda flutti málið Eyvindur Grétar Gunnarsson héraðsdómslögmaður, en af hálfu stefndu Sigurður A. Þóroddsson héraðsdómslögmaður.
Úrskurð þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnendur greiði stefndu 150.000 krónur í málskostnað.