Hæstiréttur íslands

Mál nr. 425/2013


Lykilorð

  • Verksamningur
  • Uppgjör
  • Galli
  • Afhendingardráttur
  • Skuldajöfnuður
  • Dagsektir
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta


                                     

Fimmtudaginn 23. janúar 2014.

Nr. 425/2013.

Ístak hf.

(Heiðar Örn Stefánsson hrl.)

gegn

Idex gluggum ehf.

(Ásgeir Þór Árnason hrl.)

og gagnsök

Verksamningur. Uppgjör. Gallar. Afhendingardráttur. Skuldajöfnuður. Dagsektir. Vanreifun. Frávísun frá héraðsdómi að hluta.

I ehf. höfðaði mál gegn Í hf. og krafðist greiðslu reikninga vegna verks sem I ehf. hafði unnið sem undirverktaki Í hf. í kjölfar útboðs. Umræddir reikningar voru til komnir vegna verka sem I ehf. taldi viðbótar- og aukaverk. Á hinn bóginn krafðist Í hf. greiðslu reikninga fyrir úrbætur á verki I ehf. sem Í hf. hélt fram að hefði þurft að vinna. Þá krafðist Í hf. skaðabóta vegna galla og tafabóta. Greiðsluskylda Í hf. vegna ýmissa reikninga var óumdeild. Var Í hf. dæmt til að greiða þá reikninga sem og hluta þeirra reikninga sem I ehf. taldi að væru til komnir vegna viðbótar- og aukaverka. Meðal annars var vísað til þess að sannað þótti að Í hf. hefði beðið I ehf. um að vinna tiltekin verk og afhenda efni sem ekki var talið að I ehf. hefði verið skylt að gera samkvæmt samningi aðila. Þótti sýnt fram á að samskipti aðila á verktímanum hefðu verið óformleg og að Í hf. hefði vikið frá þeim formlegu kröfum samnings aðila um að allar beiðnir um viðbótar- og aukaverk skyldu gerðar skriflega. Ekki var fallist á hluta þeirra reikninga sem Í hf. gaf út vegna úrbóta. Ýmist var vísað til þess að Í hefði ekki sýnt fram á að ágallar hefðu verið á verki I ehf. eða að vinnan sem unnin hefði verið af hálfu Í hf. hefði verið til komin vegna slíkra ágalla. Þá var krafa Í hf. að hluta til vanreifuð. Talið var að Í hf. hefði hvorki sýnt fram á að fyrirtækið hefði orðið fyrir tjóni vegna of stórra glerja sem I ehf. hafði sett í glugga né hvert umfang þess tjóns hefði verið. Var I ehf. því sýknað af skaðabótakröfu Í hf. þar að lútandi.  Þá þótti skaðabótakrafa Í hf. er laut að skorti á glerábyrgð vanreifuð og var henni vísað frá héraðsdómi. Á hinn bóginn var fallist á kröfu Í hf. um tafabætur. Vísað var til þess að I ehf. hefði ekki óskað eftir viðbótarfresti á skilum sinna verkþátta í samræmi við ákvæði ÍST 30:2003. Þótt Í hf. hefði ekki greitt tiltekna reikninga meðan á framkvæmdum stóð hefði það ekki getað réttlætt að I ehf. stöðvaði vinnu við verkið, enda hafði I ehf. ekki veitt Í hf. frest til að greiða reikningana eins og áskilið var í ÍST 30:2003. Var Í hf. gert að greiða I ehf. þann hluta af dómkröfu I ehf. sem fallist var á að frádreginni þeirri fjárhæð sem fallist var á að I ehf. skyldi greiða Í hf. 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 7. maí 2013. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 19. júní sama ár og áfrýjaði hann öðru sinni til Hæstaréttar 21. júní 2013 samkvæmt heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann krefst sýknu af öllum kröfum gagnáfrýjanda og að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 35.137.004 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 5.807.958 krónum frá 31. júlí 2009 til 31. ágúst 2009, af 11.412.271 krónu frá þeim degi til 31. október 2009, af 16.491.895 krónum frá þeim degi til 30. desember 2009, af 20.477.641 krónum frá þeim degi til 25. janúar 2010, af 22.006.761 krónu frá þeim degi til 25. febrúar 2010, af 22.725.910 krónum frá þeim degi til 25. mars 2010, af 34.619.658 krónum frá þeim degi til 25. apríl 2010, af 35.082.968 krónum frá þeim degi til 25. maí 2010, af 35.137.004 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 3. september 2013. Hann krefst sýknu af öllum kröfum aðaláfrýjanda að frádregnum 45.296 krónum sem aðaláfrýjanda verði heimilað að skuldajafna „miðað við þingfestingardag gagnsakar.“ Þá krefst hann þess að aðaláfrýjandi greiði sér 46.164.737 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 1.241.027 krónum frá 31. júlí 2009 til 30. september 2009, af 5.745.284 krónum frá þeim degi til 31. október 2009, af 5.874.530 krónum frá þeim degi til 30. nóvember 2009, af 6.780.382 krónum frá þeim degi til 31. desember 2009, af 12.310.016 krónum frá þeim degi til 31. janúar 2010, af 28.176.444 krónum frá þeim degi til 5. febrúar 2010, af 22.705.564 krónum frá þeim degi til 8. febrúar 2010, af 21.176.444 krónum frá þeim degi til 31. mars 2010, af 36.225.048 krónum frá þeim degi til 30. apríl 2010, af 43.853.306 krónum frá þeim degi til 31. maí 2010 en af 46.164.737 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Loks krefst gagnáfrýjandi þess að aðaláfrýjandi greiði sér málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.  

I

Aðaláfrýjandi var stýriverktaki við nýbyggingu Háskólans í Reykjavík á grundvelli verksamnings við Eignarhaldsfélagið Fasteign hf. Einn þáttur verksins sneri að glugga- og hurðakerfi nýbyggingarinnar og fór útboð fram í þann verkþátt í febrúar og mars 2008. Tilboð Formaco ehf. reyndist lægst. Samningur milli aðaláfrýjanda og Formaco ehf. sem undirverktaka um frágang utanhúss, glugga og útihurðir var gerður 23. maí 2008. Í 2. gr. samningsins er vísað til samningsgagna, meðal annars hluta I sem eru útboðs- og samningsskilmálar, kafla 7.2 í hluta II, sem er sérverkefnalýsing fyrir glugga og útihurðir og kafla 9 sem fjallar um breytingu á verki og aukaverk. Þessi gögn eru hluti af samningi aðila sem og útboðsteikningar frá Henning Larsen Architects/ARKÍS, 22. febrúar 2008. Í fyrrnefndum útboðs- og samningsskilmálum er vísað til almennra útboðs- og samningsskilmála um verkframkvæmdir ÍST 30:2003. Í maí 2009 gerðu gagnáfrýjandi, aðaláfrýjandi og Formaco ehf. með sér þríhliða samning um að gagnáfrýjandi yfirtæki tiltekin réttindi og skyldur Formaco ehf. samkvæmt undirverktakasamningi félagsins og aðaláfrýjanda. Samningurinn bar yfirskriftina „Viðauki við verksamning milli Formaco og Ístaks, dags. 28. maí 2008.“ Ekki fóru fram formleg verkskil við yfirtöku gagnáfrýjanda á verki Formaco ehf., sem miðaðist við 1. mars 2009.

Efni samningsins er rakið í héraðsdómi en samkvæmt honum skyldi gagnáfrýjandi taka yfir ábyrgð á því verki Formaco ehf. sem greitt hefði verið fyrir. Gagnáfrýjandi skyldi bera ábyrgð á hugsanlegum framleiðslu- og útlitsgöllum á prófílum sem síðar kæmu í ljós, en ekki á göllum og skemmdum sem rekja mætti til slæmrar umgengni annarra á verkstað eða vinnu annarra. Þá tók aðaláfrýjandi samkvæmt viðaukasamningnum að sér uppsetningarvinnu og aðra verkþætti, þar með talið verkstjórn á byggingarstað. Samkvæmt 11. gr. hans skyldi gagnáfrýjandi útvega efni í verkið nema það sem sérstaklega var undanskilið í samningnum. Aðaláfrýjandi skyldi samkvæmt 12. gr. samningsins tilkynna strax tjón sem meðal annars mætti rekja til flutnings. Í 13. gr. samningsins segir að engin ófrágengin deilumál eða viðbótar- og aukaverk frá Formaco ehf. færist yfir í nýtt félag, gagnáfrýjanda, og öll deilumál, viðbótar- og aukaverk teljist uppgerð milli aðila og séu innifalin í uppgjörinu, nema þau sem séu umbeðin og samþykkt eftir 1. mars 2009.  

 Samkvæmt 14. gr. samningsins skyldi öll tímavinna aðaláfrýjanda á verkþáttum sem rekja mætti til skekkju eða ágalla í framleiðslu gagnáfrýjanda tilkynnt gagnáfrýjanda án tafar og skyldi gefa honum kost á að vinna úrbætur, væri unnt að koma því við án þess að tefja verkið.

Eins og rakið er í héraðsdómi reis ágreiningur milli aðila eftir því sem leið á verkið, meðal annars vegna tafa á tilteknum verkþáttum, afhendingu efnis og ætlaðra galla á verkinu. Þá varð ágreiningur um á hvorum aðila hvíldi greiðsluskylda vegna tilgreindra aukaverka og afbrigða frá útboðsgögnum. Vegna þessa hélt aðaláfrýjandi að sér höndum með greiðslur, en gagnáfrýjandi neitaði að sinna frekari vinnu við verkið eftir að dráttur varð á greiðslu frá aðaláfrýjanda. Efla verkfræðistofa sem hafði eftirlit með verkinu tók það út 28. júní 2010 að viðstöddum fulltrúum aðila. Niðurstaða úttektarinnar var sú að ,,útihurðir og gluggar í byggingu HR eru ekki full kláraðir samkvæmt útboðsgögnum“ og fram hefðu komið ákveðnir gallar á verkinu.

II

Í hinum áfrýjaða dómi eru rakin ákvæði í áðurnefndum 9. kafla sérverklýsingar útboðsskilmála Eignarhaldsfélagsins Fasteignar  hf. sem eru hluti af samningi aðila, en þar segir að verkkaupi áskilji sér rétt til breytinga á verkinu og að láta vinna aukaverk eins og nauðsyn krefji á verktímanum, en fyrirmæli þar að lútandi verði gefin af eftirlitsmanni verkkaupa með skriflegum hætti. Þá segir jafnframt að verktaki megi ekki gera neinar breytingar á verkinu eða vinna aukaverk nema gegn skriflegum fyrirmælum frá eftirlitsmanni verkkaupa. Verkkaupi samkvæmt ákvæði þessu var Eignarhaldsfélagið Fasteign hf. og eftirlitsmaður hans aðaláfrýjandi, sem var aðalverktaki framkvæmdarinnar. Eins og fram kemur í 6. gr. upphaflegs verktakasamnings  Formaco ehf.,  þar sem vísað er  í ákvæði ÍST 30:2003 og skilmála útboðsgagna, hluta II, sérverklýsingar, kafla 9,  kemur einnig fram að beiðni verktaka um aukaverk skuli vera skrifleg og að verktaki skuli gera kröfu um viðbótargreiðslu vegna verks áður en vinna við það hefst. Samkvæmt framangreindum ákvæðum samnings aðila var gert ráð fyrir að allar beiðnir um viðbótar- og aukaverk skyldu gerðar með skriflegum hætti. Höfnun aðaláfrýjanda á greiðslu fyrir viðbótarverk er einkum byggð á því að ekki liggi fyrir skrifleg beiðni um þau verk.

Af gögnum málsins verður glögglega ráðið að samskipti aðila er lutu að breytingum á verkinu og vinnu við auka- og viðbótarverk hafi verið mjög óformleg. Þannig skiptust þeir á orðsendingum í tölvuskeytum, þar sem meðfylgjandi voru breytingar á teikningum eða nánari útfærslur á verkinu, án þess að séð verði að hreyft hafi verið mótmælum við því af hálfu aðaláfrýjanda, hvorki þegar tölvuskeyti bárust né síðar, eftir því sem verkinu vatt fram. Þá báru vitnin Sigurður Hreinsson verkefnastjóri gagnáfrýjanda og Brynjar Brjánsson verkefnastjóri aðaláfrýjanda um að þessi óformlegi háttur um breytingar á verkinu hefði verið viðhafður í samskiptum aðila. Þannig bar fyrrnefndur Brynjar meðal annars fyrir dómi að aðaláfrýjandi hefði litið svo á að sending breyttrar teikningar fæli í sér verkbeiðni. Er því fallist á þær forsendur hins áfrýjaða dóms að með hinum óformlega hætti í samskiptum aðila um einstök viðbótarverk hafi aðaláfrýjandi vikið frá þeim formlegu kröfum samnings þeirra um að allar beiðnir um viðbótar- og aukaverk skyldu gerðar með skriflegum hætti og að þessi lýsing á samskiptum aðila verði lögð til grundvallar sönnunarmati um einstök viðbótarverk sem um er deilt.

Undir rekstri málsins óskaði aðaláfrýjandi eftir mati dómkvadds matsmanns. Í matsbeiðni var óskað eftir að matsmaður kannaði sérstaklega og léti í té ítarlega, rökstudda og skriflega álitsgerð um hver væri eðlilegur og sanngjarn kostnaður vegna tiltekinna viðbótarverka sem matsþoli hefði krafið matsbeiðanda um. Nánar segir í matsbeiðni að matsþoli ,,geri kröfu um ... að matsbeiðandi inni af hendi greiðslu tiltekinna reikninga vegna meintra viðbótarverka. Matsbeiðandi hafnar því að honum beri að inna af hendi greiðslu vegna þessara reikninga, m.a. vegna þess að verk þessi voru ekki unnin skv. skriflegum fyrirmælum matsbeiðanda, að þau hafi verið innifalin í verksamningi aðila o.fl. ... Ef hins vegar svo ólíklega fer að talið verður sannað að umkrafin viðbótarverk hafi verið unnin og að matsbeiðanda beri að greiða fyrir þau, er óskað eftir að matsmaður meti hvort að það endurgjald sem matsþoli krefst sé sanngjarnt og eðlilegt miðað við eðli, gæði og umfang verksins og atvik öll. Nánar tiltekið er óskað eftir því að matsmaður meti hvort það endurgjald sem matsþoli krefst skv. ... reikningum sé sanngjarnt og eðlilegt, og ef talið er að endurgjaldið sé of hátt miðað við það sem er sanngjarnt og eðlilegt, hvert er sanngjarnt og eðlilegt endurgjald?“ Matsgerðinni sem er frá í maí 2012 hefur ekki verið mótmælt sem rangri eða ófullnægjandi og ekki verður ráðið af gögnum málsins að ágreiningur sé um tölulegar niðurstöður hennar. Niðurstöður matsgerðar verða því lagðar til grundvallar varðandi fjárhæð endurgjalds fyrir einstaka liði.

Í máli þessu hefur gagnáfrýjandi annars vegar krafist greiðslu úr hendi aðaláfrýjanda vegna ógreiddra reikninga fyrir verk unnin á grundvelli verksamnings aðila og hins vegar greiðslu fyrir viðbótar- og aukaverk. Aðaláfrýjandi hefur viðurkennt greiðsluskyldu sína vegna tiltekinna reikninga gagnáfrýjanda, en byggt á því að hann eigi gagnkröfu til skuldajafnaðar vegna þeirra reikninga sem hann hefur viðurkennt að séu ógreiddir. Þá mótmælti hann greiðsluskyldu vegna fjölda reikninga fyrir  viðbótar- og aukaverk. Aðaláfrýjandi krafðist greiðslu útlagðs kostnaðar vegna ýmissa úrbóta- og viðbótarverka sem hann taldi sér nauðsynlegt að ráðast í vegna vanefnda gagnáfrýjanda. Þá krafðist hann bóta vegna galla á verki gagnáfrýjanda auk tafabóta.

III

1

Í hinum áfrýjaða dómi eru raktar kröfur gagnáfrýjanda vegna ógreiddra framvindureikninga. Þar greinir að ógreiddir framvindureikningar gagnáfrýjanda fyrir verk unnin samkvæmt verksamningi aðila nemi 27.532.201 krónu. Um greiðsluskyldu aðaláfrýjanda vegna þeirra reikninga er ekki ágreiningur. Þá er ágreiningslaust að hann hafi greitt gagnáfrýjanda ótiltekið 7.000.000 krónur. Með vísan til þess ber aðaláfrýjanda að greiða gagnáfrýjanda 20.532.201 krónu vegna ógreiddra framvindureikninga.

Gagnáfrýjandi hefur krafist greiðslu vegna tilgreindra viðbótar- og aukaverka og hefur aðaláfrýjandi viðurkennt greiðsluskyldu sína að fullu vegna hluta þeirra reikninga, eða viðbótarverka samkvæmt reikningi nr. 17, að fjárhæð 421.487 krónur með gjalddaga 31. júlí 2009, samkvæmt reikningi nr. 71, með gjalddaga 31. janúar 2010, vegna viðbótarverks 2009-202, að fjárhæð 557.678 krónur, viðbótarverks 2009-210, að fjárhæð 554.004 krónur, viðbótarverks 2009-212, að fjárhæð 29.527 krónur, viðbótarverks 2009-214, að fjárhæð 228.230 krónur, viðbótarverks 2009-215, að fjárhæð 336.000 krónur, viðbótarverks 2009-216, að fjárhæð 21.888 krónur, viðbótarverks 2009-218, að fjárhæð 158.470 krónur, viðbótarverks 2009-225, að fjárhæð 58.947 krónur, viðbótarverks 2009-226, að fjárhæð 492.530 krónur, viðbótarverka 2009-228, 229 og 231, samtals að fjárhæð 1.423.403 krónur, viðbótarverks 2009-232, að fjárhæð 149.172 krónur, samkvæmt reikningi nr. 74 með gjalddaga 31. mars 2010 vegna viðbótarverks 2010-101, að fjárhæð 132.154 krónur, viðbótarverks 2010-103, að fjárhæð 89.235 krónur, viðbótarverks 2010-105, að fjárhæð 396.004 krónur, samkvæmt reikningi nr. 77 með gjalddaga 30. apríl 2010, vegna viðbótarverks 2010-111, að fjárhæð 140.811 krónur, viðbótarverka 2010-112 og 113, að fjárhæð 162.922 krónur, samkvæmt reikningi nr. 82 með gjalddaga 30. apríl 2010 vegna viðbótarverks 2010-120, að fjárhæð 64.238 krónur, viðbótarverks 2010-123, að fjárhæð 684.274 krónur og viðbótarverks 2010-130, 99.704 krónur, samtals að fjárhæð 6.200.678 krónur.

Um önnur viðbótarverk sem gagnáfrýjandi hefur innt af hendi verður fjallað undir lið 2.

2

Viðbótarverk sem tilgreint er 204 er grundvallað á reikningi nr. 13 með gjalddaga 31. júlí 2009. Verður  niðurstaða hins áfrýjaða dóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, um að tekin verði til greina krafa gagnáfrýjanda að fjárhæð 169.410 krónur staðfest með vísan til forsendna dómsins.

Ný gögn hafa verið lögð fyrir réttinn vegna reiknings nr. 14  um viðbótarverk 2009-205 með gjalddaga 31. júlí 2009 sem renna frekari stoðum undir  niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um að tekin verði til greina krafa gagnáfrýjanda að fjárhæð 189.923 krónur og verður hún staðfest með vísan til forsendna dómsins að öðru leyti.

Þá verður niðurstaða dómsins um reikning nr. 15 með gjalddaga 31. júlí 2009, vegna viðbótarverks 206 um að tekin verði til greina krafa gagnáfrýjanda að fjárhæð 174.097 krónur, reikning nr. 16 með gjalddaga 31. júlí 2009 vegna viðbótarverks 207 að fjárhæð 286.110 krónur og reikning nr. 33 að fjárhæð 129.246 krónur með gjalddaga 31. október 2009 einnig staðfest með vísan til forsendna dómsins. Jafnframt er staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms með vísan til forsendna hans um reikning nr. 50  með gjalddaga 31. desember 2009 vegna viðbótarverks 2009-222, sem lækkaður var um 100.000 krónur og ber því aðaláfrýjanda að greiða gagnáfrýjanda 450.010 krónur vegna hans.

Reikningur nr. 62 með gjalddaga 31. janúar 2010 er vegna kröfu gagnáfrýjanda um leigu gáms frá Samskipum í þrjá daga, að fjárhæð 12.436 krónur. Í hinum áfrýjaða dómi er vitnað til almennra skilmála flutningafyrirtækja um að jafnaði sé ætlast til þess að gámar séu tæmdir innan þriggja daga eftir að þeir koma á verkstað. Í stefnu til héraðsdóms verður ekki séð að gagnáfrýjandi hafi á því byggt að um sé að ræða kröfu vegna tafa á tæmingu gáms. Fyrir liggur að gagnáfrýjandi leigði gáminn og ekki verður séð af gögnum málsins að aðaláfrýjanda hafi verið gert viðvart um að tæma gáminn innan tiltekins tíma, en ella bæri honum að greiða fyrir leigu hans. Verður aðaláfrýjandi því sýknaður af kröfu samkvæmt þessum lið.

Reikningur nr. 71 með gjalddaga 31. janúar 2010 er vegna ýmissa viðbótarverka. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um  að taka til greina kröfu gagnáfrýjanda reista á þessum reikningi, vegna viðbótarverks 2009-203 að fjárhæð 135.000 krónur og viðbótarverks 2009-208 að fjárhæð 53.611 krónur. Með sama hætti er staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að sýkna aðaláfrýjanda af endanlegri kröfu gagnáfrýjanda vegna viðbótarverks 2009-211 að fjárhæð 388.446 krónur. Krafa gagnáfrýjanda vegna viðbótarverks 2009-213 er að fjárhæð 21.552 krónur. Í málinu liggur fyrir tölvuskeyti starfsmanns gagnáfrýjanda til starfsmanns aðaláfrýjanda 10. september 2009 þar sem fram kemur að vinna við borun gata fyrir raflagnir verði reikningsfærð sem viðbótarverk af hendi gagnáfrýjanda. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms sem skipaður var sérfróðum meðdómendum verður niðurstaða hans um þennan lið staðfest og aðaláfrýjanda gert að greiða gagnáfrýjanda kröfufjárhæðina. Hið sama gildir um viðbótarverk 2009-217, að fjárhæð 36.257 krónur og viðbótarverk 2009-219 að sömu fjárhæð, 36.257 krónur.

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi hefur aðaláfrýjandi samþykkt að greiða 1.568.000 krónur vegna vinnu við 56 horn á glugga í görðum, vegna viðbótarverks  2009-224, en fjárhæð kröfunnar var 1.914.200 krónur. Gagnáfrýjandi féll hins vegar við meðferð málsins frá kröfu sinni um álag vegna yfirvinnu og lækkaði kröfu sína niður í 1.600.600 krónur, en krefst greiðslu þeirrar fjárhæðar úr hendi aðaláfrýjanda. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms um þennan kröfulið var að aðaláfrýjanda bæri að greiða gagnáfrýjanda 1.568.000 krónur vegna hans. Hefur gagnáfrýjandi haldið því fram að um reikningsskekkju sé að ræða í hinum áfrýjaða dómi að fjárhæð 32.600 krónur sem skýri mun á þessum fjárhæðum. Eins og fram kemur á reikningi gagnáfrýjanda til stuðnings kröfunni nemur sú fjárhæð kostnaði vegna flutnings. Af hálfu gagnáfrýjanda hefur sá liður reikningsins ekki verið rökstuddur með nægjanlegum hætti og verður því krafa gagnáfrýjanda vegna þessa viðbótarverks því aðeins tekin til greina að því marki sem gert var í hinum áfrýjaða dómi með vísan til forsendna hans.

Fallist er á greiðslu kröfu gagnáfrýjanda vegna viðbótarverks 2009-227 að fjárhæð 347.928 krónur með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms.

Í héraðsdómi hefur láðst að fjalla um kröfu vegna viðbótarverks 2010-101, sem grundvölluð er á reikningi nr. 71, en krafa gagnáfrýjanda vegna þessa verks er um greiðslu 132.154 króna. Þann kröfulið hefur aðaláfrýjandi samþykkt eins og fram kemur í greinargerð hans fyrir héraðsdómi og er hennar getið hér að framan í 1. lið þessa kafla sem kröfu er enginn ágreiningur stendur um. Hins vegar er í hinum áfrýjaða dómi fjallað um viðbótarverk 2010-102, vegna kröfu gagnáfrýjanda að fjárhæð 45.455 krónur og aðaláfrýjandi sýknaður af þeirri kröfu. Ekki verður séð að breytingar þær sem gagnáfrýjandi hefur krafið aðaláfrýjanda um greiðslur fyrir hafi verið nauðsynlegar vegna breytinga á verkinu á verktíma. Ekki liggja fyrir gögn sem sýna fram á að gerðar hafi verið breytingar á hönnunargögnum á verktímanum eða önnur gögn sem styðja fullyrðingar gagnáfrýjanda um að hann hafi orðið að breyta teikningum sínum af ástæðum sem aðaláfrýjandi beri ábyrgð á. Verður því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu aðaláfrýjanda af þessum kröfulið.

 Í reikningi nr. 74 með gjalddaga 31. mars 2010 eru tilgreind viðbótarverk 2010-104, reikningsfjárhæð 1.420.553 krónur, 2010-106, reikningsfjárhæð 2.441.125 krónur, 2010-107, reikningsfjárhæð 3.057.420 krónur og 2010-108, reikningsfjárhæð 651.683 krónur vegna endurpöntunar á gleri. Aðaláfrýjandi hefur fallist á að greiða fyrir það gler sem hann telur hafa skemmst í meðförum sínum eða undirverktaka á sínum vegum en hefur hafnað greiðsluskyldu að öðru leyti. Undir þessum kröfulið er deilt um hvor aðila beri á því ábyrgð að gagnáfrýjandi þurfti að panta gler til viðbótar því sem hann kvaðst áður hafa afhent í samræmi við samning aðila. Í gögnum málsins er hvorki að finna yfirlit yfir það gler sem gagnáfrýjandi afhenti né staðfestingar aðaláfrýjanda á móttöku þess. Þá verður ekki ráðið af gögnum málsins að aðaláfrýjandi hafi yfirfarið það gler sem hann tók við áður en það var tekið úr umbúðum sem það barst í og kannað magn þess og eftir atvikum tilkynnt um gallað gler í sendingum. Í málinu er hins vegar að finna minnisblað aðaláfrýjanda 17. apríl 2009  þar sem hann fór fram á að gagnáfrýjandi pantaði gler, þar sem nokkuð væri um að gler hafi brotnað, væri gallað eða of stórt fyrir gluggaop sem það ætti að fara í. Þá liggja jafnframt fyrir tölvuskeyti starfsmanna aðila, þar sem fjallað er um endurpöntun á gleri. Þannig segir í tölvuskeyti starfsmanns gagnáfrýjanda til aðaláfrýjanda 27. mars 2009 að verið sé að safna í sendingu því sem hafi breyst og mögulega gler sem hafi brotnað. Óskað sé eftir lista yfir brotið gler, hvernig það hafi brotnað, í flutningi eða í meðförum á byggingarstað. Í tölvuskeyti 17. júlí 2009  sem sami starfsmaður gagnáfrýjanda sendi starfsmanni aðaláfrýjanda segir að ljóst sé að meginpartur af gleri því sem um er fjallað í því tölvuskeyti sé annað hvort skemmdur vegna meðferðar, hluti þess sé ekki í réttum málum og ,,3 stk. framleiðslugalli ... ég tel að allt sé á ábyrgð verkstaðar“. Þá segir að ljóst sé að mikil vinna liggi að baki endurpöntunar glers sem verktaki setji fyrirvara um að verði greidd. Í tölvuskeyti sama starfsmanns gagnáfrýjanda til starfsmanns aðaláfrýjanda 11. ágúst 2009 segir að staðfesting verði að koma frá aðaláfrýjanda hvort endurframleiða skuli gler þau sem tilgreind eru í tölvuskeytinu. Kostnaður vegna endurpöntunar verði sendur á aðaláfrýjanda. Í tölvuskeyti 5. nóvember 2009 til starfsmanns aðaláfrýjanda segir starfsmaður gagnáfrýjanda að ,,auðvitað ber  IDEX Gluggar ábyrgð á að skila á verkstað gleri í alla glugga sem IDEX Gluggar hefur tekið að sér smíði og efnisútvegun í skv. verksamning ... tölvupóstur þessi er sendur til þess að tilkynna aðalverktaka að ef einhverjar rúður hafa týnst eða brotnað þá er síðasta glersendingin tilbúin til flutnings og mögulega hægt að koma gleri ... með í sendinguna ... Verktaki vill árétta að gler er á ábyrgð aðalverktaka eftir móttöku á verkstað hvort sem það brotnar eða týnist. Tilkynni aðalverktaki ekki flutningstjón sem hann verður var við um leið og gámur er tæmdur hefur aðalverktaki yfirtekið ábyrgð á gleri á byggingarstað.“ Þá segir í tölvuskeyti sama starfsmanns gagnáfrýjanda til aðaláfrýjanda 21. september 2009 að vegna breytinga á málum af hurðum sem aðaláfrýjandi hafi farið fram á sé meðfylgjandi listi af glerstærðum í hurðir. Mikilvægt sé að rétt gler verði pöntuð.

 Eins og að framan greinir liggja ekki fyrir í málinu afhendingarlistar gagnáfrýjanda á því gleri sem afhent var, en ekki verður heldur ráðið af  framlögðum gögnum að aðaláfrýjandi hafi talið að hann hafi ekki móttekið það efni sem umdeildur reikningur byggir á. Er því ósannað að vantað hafi í fyrri sendingar gagnáfrýjanda á gleri.

Á framangreindu minnisblaði aðaláfrýjanda 17. apríl 2009 kemur fram að eitthvað af gleri því sem afhent var, hafi ekki verið í réttri stærð, brotnað eða verið gallað. Þrátt fyrir áskoranir starfsmanns gagnáfrýjanda í tölvuskeytum þeim sem að framan eru rakin um að tilkynna um flutningstjón, brotið og gallað gler verður ekki séð að það hafi verið gert. Þá er ekki fallist á að í yfirlitsteikningum þeim sem aðaláfrýjandi vann að og hann hefur vísað til um rökstuðning kröfu sinnar felist sönnun fyrir því hversu mikinn hluta glers gagnáfrýjandi afhenti ekki í samræmi við samning aðila, hve mikill hluti glers var af rangri stærð eða gallaður. Því er fallist á forsendur hins áfrýjaða dóms um að aðaláfrýjandi hafi ekki fært sönnur á hversu mikið magn þess glers sem afhent var hafi verið að rangri stærð. Þá er einnig með sama hætti staðfest sú niðurstaða  hins áfrýjaða dóms um þennan lið að ábyrgðin á því að glerið hafi skemmst eftir að það var afhent á byggingarstað hvíli á aðaláfrýjanda. Þá hefur aðaláfrýjandi ekki fært sönnur á hversu mikill hluti glers þess sem afhent var, hafi verið gallaður, þótt fyrir liggi í tölvusamskiptum aðila að svo hafi verið um einhvern hluta þess. Ber samkvæmt öllu ofanrituðu að fallast á niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um viðbótarverk þessi að fjárhæð 7.570.781 króna.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á niðurstöðu hans um viðbótarverk 2010-109 um að aðaláfrýjanda verði gert að greiða gagnáfrýjanda 1.303.550 krónur vegna þessa viðbótarverks.

Viðbótarverk 2010-110 er grundvallað á reikningi nr. 77 með gjalddaga 30. apríl 2010. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms, sem eins og áður greinir var skipaður sérfróðum meðdómendum, staðfest með vísan til forsendna hans um þennan lið og aðaláfrýjanda gert að greiða gagnáfrýjanda 65.845 krónur vegna þess viðbótarverks. Á sama hátt er staðfest niðurstaða hans um viðbótarverk 2010-114 að fjárhæð 146.630 krónur og vegna viðbótarverks  2010-117 að fjárhæð 976.881 króna. Þá er staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms varðandi viðbótarverk 2010-118 að um aukaverk sé að ræða sem stafað hafi af ófullnægjandi útboðsgögnum og aðaláfrýjanda gert að greiða gagnáfrýjanda 431.977 krónur. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms um reikning nr. 78 með gjalddaga 30. apríl 2010 og viðbótarverk 2010-119 er staðfest niðurstaða hans um að aðaláfrýjanda verði gert að greiða gagnáfrýjanda 519.614 krónur vegna þess viðbótarverks.

Staðfest er niðurstaða héraðsdóms með vísan til forsendna hans, um reikning nr. 82 með gjalddaga 30. apríl 2010, þar sem aðaláfrýjandi var dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda vegna viðbótarverks 2010-121, 16.292 krónur, viðbótarverks 2010-122, 505.060 krónur, viðbótarverks 2010-124, 97.753 krónur, viðbótarverks 2010-125, 187.361 krónu, viðbótarverks 2010-126,  290.666 krónur, viðbótarverks 2010-128, 59.578 krónur,  viðbótarverks 2010-129, 122.192 krónur, viðbótarverks 2010-131, 373.293 krónur, viðbótarverks 2010-132, 130.338 krónur, viðbótarverks 2010-133, 273.177 krónur, viðbótarverks 2010-134, 408.873 krónur, viðbótarverks 2010-136, 841.611 krónur og viðbótarverks 2010-137, 751.954 krónur.

Þá er staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms með vísan til forsendna hans um reikning nr. 94 með gjalddaga 31. maí 2010 að aðaláfrýjanda beri að greiða gagnáfrýjanda 15.093 krónur vegna þess reiknings.

Samkvæmt framangreindu verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda vegna viðbótarverka sem ágreiningur stendur um hér fyrir dómi 18.685.920 krónur.

IV

Kröfur aðaláfrýjanda á hendur gagnáfrýjanda eru af þrennu tagi og byggði aðaláfrýjandi á því í fyrsta lagi að hann ætti rétt til greiðslu kostnaðar vegna ýmissa viðbótar- og aukaverka og útlagðs kostnaðar vegna ætlaðra vanefnda gagnáfrýjanda, í öðru lagi ætti hann rétt til bóta vegna galla á verki gagnáfrýjanda og í þriðja lagi var á því byggt að aðaláfrýjandi ætti rétt til tafabóta vegna afhendingardráttar. Um kröfur sínar hefur aðaláfrýjandi einkum vísað til 14. gr. framangreinds viðaukasamnings þar sem kveðið var á um heimild aðaláfrýjanda til að reikningsfæra kostnað af verkþáttum sem rekja mætti til skekkju eða ágalla í framleiðslu gagnáfrýjanda. Þá var þar kveðið á um að gagnáfrýjanda skyldi án tafar tilkynnt um ágalla sem kæmu í ljós og honum gefinn kostur á að vinna verkið sjálfur, enda tefði það ekki verkið.

Fallist er á þær forsendur hins áfrýjaða dóms að skilyrði þess að aðaláfrýjandi geti krafið gagnáfrýjanda um greiðslu kostnaðar á grundvelli þessa ákvæðis séu þau að aðaláfrýjandi sýni fram á að hann, eða að aðilar á hans vegum, hafi orðið að vinna að úrbótum sem rekja megi til galla í framleiðslu gagnáfrýjanda. Þá er fallist á þær forsendur dómsins að úrbótarétt gagnáfrýjanda verði að skoða í því ljósi að verkefni hans samkvæmt samningi aðila fólust í afhendingu vöru en ekki uppsetningu og af því leiði að úrbótaréttur hans nái fyrst og fremst til afhendingar ógallaðrar vöru. Þá verði að telja að aðaláfrýjandi hafi nokkuð rúman rétt til að vinna að úrbótum sjálfur þar sem slíkt sé hagfelldara fyrir hann eða líklegra til að skila betra verki. Verður í V. kafla fjallað um þessar kröfur aðaláfrýjanda á hendur gagnáfrýjanda.

V

Fallist er á niðurstöðu hins áfrýjaða dóms með vísan til forsendna hans um að sýkna gagnáfrýjanda af kröfu aðaláfrýjanda að fjárhæð 342.995 krónur samkvæmt lið er ber yfirskriftina ,,lagfæringar“.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi undir lið er ber yfirskriftina ,,frágangur glugga“ lýtur deila aðila að því hvort gagnáfrýjandi hafi afhent það efni er honum bar samkvæmt samningi aðila, en samkvæmt 11. gr. viðaukasamnings þeirra bar honum að útvega allt efni í verkið, annað en það sem sérstaklega var undanskilið í því ákvæði. Hefur aðaláfrýjandi krafist greiðslu úr hendi gagnáfrýjanda vegna efniskaupa vegna frágangs, að fjárhæð 2.252.831 króna. Greinir í hinum áfrýjaða dómi að báðir aðilar hafi vísað til útboðsteikninga 20. maí 2008, þar sem verkmörk séu lituð inn á teikningar. Engar magntölur sé hins vegar að finna í teikningum þessum eða öðrum gögnum sem lögð hafa verið fram. Í verkfundargerðum febrúar 2008, 18. ágúst og 10. september sama ár, sem aðaláfrýjandi hafi bent á til stuðnings kröfu sinni, sé ekki að finna vísbendingar um magn þess efnis sem innifalið hafi verið í samningi aðila.

 Jafnvel þótt óumdeilt sé að gagnáfrýjanda hafi borið að afhenda allt efni er tengdist uppsetningu glugga sem hann framleiddi samkvæmt samningi aðila, verður ekki glögglega ráðið af gögnum þeim sem aðaláfrýjandi hefur lagt fram til stuðnings kröfu sinni að umkrafinn kostnaður hans stafi af efniskaupum sem gagnáfrýjanda bar að leggja til verksins. Ekki verður fallist á með aðaláfrýjanda að með úrlausn sinni um þennan lið hafi héraðsdómur farið út fyrir málsástæðu gagnáfrýjanda í héraði. Með þessari athugasemd verður gagnáfrýjandi sýknaður af þessari kröfu aðaláfrýjanda með vísan til forsendna dómsins að öðru leyti um þennan lið.

Þá verður gagnáfrýjandi einnig sýknaður af kröfu aðaláfrýjanda undir liðnum ,,gler“, að fjárhæð 634.410 krónur og ,,glerskipti“ að fjárhæð 3.960.873 krónur, með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms.

Undir liðnum ,,gustlokun“ hefur aðaláfrýjandi krafist greiðslu úr hendi gagnáfrýjanda vegna kostnaðar aðaláfrýjanda við að loka gluggaopum, þar sem gler hafi vantað í glugga. Um sundurliðun kröfunnar, sem er að fjárhæð 2.768.425 krónur, hefur aðaláfrýjandi vísað til skjals sem hann sjálfur hefur útbúið, en fjárhæð hennar verður ekki staðreynd af því skjali. Þá hefur hann vísað ósundurgreint til reikninga vegna vinnu sinnar og undirverktaka sinna vegna þessa kröfuliðar. Þótt sumar tímaskýrslna þeirra sem aðaláfrýjandi byggir kröfu sína á virðist vera vegna gustlokunar, á það ekki við um þær allar. Þar sem reifun kröfunnar er að þessu leyti verulega ábótavant verður kröfulið þessum vísað frá héraðsdómi. 

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms um liðinn ,,gúmmíþéttilistar“   verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda 1.288.139 krónur. Í hinum áfrýjaða dómi var gagnáfrýjandi dæmdur til greiðslu kröfu samkvæmt liðnum ,,hurðapumpur og pinnar“ að fjárhæð 45.296 krónur og krafðist hann ekki endurskoðunar á þeirri niðurstöðu.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður fallist á þá niðurstöðu hans að sýkna gagnáfrýjanda af kröfu aðaláfrýjanda að fjárhæð 402.235 krónur undir liðnum ,,láshringir“.

Undir liðnum ,,lok/þykkingar“ hefur aðaláfrýjandi krafist greiðslu úr hendi gagnáfrýjanda að fjárhæð 1.672.619 krónur. Krafan er sundurliðuð í skjali sem aðaláfrýjandi hefur sjálfur útbúið, en ekki verður glögglega ráðið að þeir reikningar sem aðaláfrýjandi hefur vísað til um kröfu þessa, séu allir vegna vinnu við þennan kröfulið. Þá eru sumir þeirra vegna annarra verkliða en þeirra sem krafa undir þessum lið lýtur að,  en aðaláfrýjandi hefur ekki  sundurliðað reikninga sína með tilliti til þess hvað heyrir til kröfu þessarar. Þar sem reifun kröfunnar er að þessu leyti verulega ábótavant verður kröfulið þessum vísað frá héraðsdómi. Krafa aðaláfrýjanda undir liðnum „rauðar festingar“ að fjárhæð 318.134 krónur er sama marki brennd og verður þeim kröfulið einnig vísað frá héraðsdómi.

Þá er staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms með vísan til forsendna hans að sýkna gagnáfrýjanda af kröfu aðaláfrýjanda vegna liða sem auðkenndir eru ,,seinni kíttun“ en krafa aðaláfrýjanda samkvæmt þeim lið nam 2.372.996 krónum,  „skemmdir/gallaðir álprófílar“, en krafa aðaláfrýjanda samkvæmt þeim lið nam 2.649.709 krónum og „stálfestingar“, en krafa aðaláfrýjanda samkvæmt þeim lið nam 684.812 krónum.

Krafa aðaláfrýjanda vegna ,,þakglugga milli húsa nr. 2 og 3“ að fjárhæð 1.676.719 krónur er tekin til greina með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms.

Þá verður gagnáfrýjandi sýknaður af kröfu aðaláfrýjanda um stjórnunarkostnað að fjárhæð 10.000.000 krónur og ,,akstur“ að fjárhæð 1.020.352 krónur með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms.

Undir liðnum ,,hurðapumpur og fleira“ hefur aðaláfrýjandi krafist þess að gagnáfrýjandi greiði fyrir kaup á hurðapumpum frá fyrirtækinu Járni og gleri sem og efni sem þurft hafi til verksins, en krafan er að fjárhæð 1.060.540 krónur. Gagnáfrýjandi var sýknaður af þessum kröfulið í héraðsdómi. Samkvæmt 11. gr. viðaukasamnings aðila skyldi gagnáfrýjandi útvega allt efni í verkið nema það sem sérstaklega var undanskilið í samningnum. Hurðapumpur voru ekki meðal þess efnis sem undanskilið var, enda hefur gagnáfrýjandi ekki mótmælt því að hurðir bæri að afhenda með öllum búnaði, þar með töldum hurðapumpum. Verður krafa aðaláfrýjanda undir þessum lið því tekin til greina.

Staðfest er niðurstaða hins áfrýjaða dóms með vísan til forsendna hans um að fallast á kröfu aðaláfrýjanda um greiðslu undir liðnum ,,efni til verksins“, að fjárhæð 1.390.437 krónur, en að sýkna gagnáfrýjanda af kröfu samkvæmt liðnum ,,stjórnunarkostnaður“  að fjárhæð 3.193.584 krónur.

Samkvæmt ofangreindu verður krafa aðaláfrýjanda á hendur gagnáfrýjanda, sem hér er undir fyrir dómi, vegna tilgreindra viðbótar- og aukaverka og útlagðs kostnaðar tekin til greina samkvæmt kröfuliðum sem auðkenndir voru ,,gúmmíþéttilistar“, 1.288.139 krónur, ,,hurðapumpur og pinnar“ 45.296 krónur, ,,þakgluggi milli húsa nr. 2 og 3“, 1.676.719 krónur, ,,hurðapumpur og fleira“ 1.060.540 krónur og ,,efni til verksins“ 1.390.437 krónur, samtals að fjárhæð 5.461.131 krónur.

VI

Aðaláfrýjandi hefur krafið gagnáfrýjanda um bætur vegna galla og er krafan í tveimur liðum, annars vegar krafa vegna glerja sem reyndust of stór og er fjárhæð vegna þess liðar 5.000.000 krónur og hins vegar krafa að fjárhæð 3.000.000 krónur vegna ,,skorts á glerábyrgð“.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að sýkna gagnáfrýjanda af kröfu aðaláfrýjanda vegna glerja sem reyndust of stór. Krafa aðaláfrýjanda um bætur vegna galla sem falist hafi í því að glerábyrgð hafi vantað er rökstudd með þeim hætti að aðaláfrýjandi þurfi að bera ábyrgð á því ef gler reynist haldið framleiðslugöllum, þar sem ekki sé fyrir hendi ábyrgðaryfirlýsing gagnáfrýjanda. Ekki er að finna frekari reifun á kröfunni í gögnum málsins, en ágreiningslaust er að gagnáfrýjanda beri að gefa slíka ábyrgðaryfirlýsingu út, enda hefur hann lýst því yfir að slík yfirlýsing verði lögð fram er uppgjör verksins hefur farið fram. Þar sem skortir á að gerð sé fullnægjandi grein fyrir kröfu þessari verður henni vísað frá héraðsdómi.

  Þá hefur aðaláfrýjandi krafist tafabóta úr hendi gagnáfrýjanda að fjárhæð 19.550.000 krónur. Krafan er reist á grein I 0.5.4. í 1. hluta útboðs- og samningsskilmála sem fjallar um fresti og tafabætur og fylgiskjali 1 með samningi aðila þar sem afhendingardagar einstakra verkþátta eru ákveðnir. Samkvæmt þessum gögnum átti aðaláfrýjandi rétt á tafabótum að fjárhæð 100.000 krónur á dag vegna hvers dags eftir 31. júlí 2009 vegna afhendingardráttar þakglugga og 50.000 krónur á dag vegna afhendingardráttar á öðrum verkliðum miðað við tilgreinda afhendingardaga. Krafa aðaláfrýjanda er byggð á því að 45 daga töf hafi orðið á afhendingu þakglugga og 149 daga töf á lokum verkþáttarins „Garður 6“ en afhendingardagur umrædds verkþáttar hafi verið 15. september 2009. Þá er krafist bóta vegna 152 daga tafar á afhendingu hurða, lausra faga og annars en afhendingardagar vegna þessara verkþátta hafi verið 15. og 30. október 2009.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að krafa aðaláfrýjanda um tafabætur hafi ekki verið fallin niður vegna tómlætis.

Gagnáfrýjandi hefur á því byggt að hafna bæri kröfu um tafabætur þar sem aðaláfrýjandi hafi vanefnt skyldu sína til að greiða framvindureikninga meðan á verkinu hafi staðið. Greiðsluskylda aðaláfrýjanda vegna umræddra reikninga er óumdeild og var gjalddagi elsta reikningsins 30. september 2009. Eins og að framan greinir var krafa aðaláfrýjanda reist á töfum verksins frá 31. júlí 2009 en 1. júlí 2009 tilkynnti gagnáfrýjandi aðaláfrýjanda um að hann hygðist „ekki afgreiða vöru frá verksmiðju fyrr en reikningar sem þegar hafa verið sendir verkkaupa hafa verið greiddir að fullu“ og að gagnáfrýjandi hefði áður „munnlega gert verkkaupa grein fyrir að hann gæti ekki greitt starfsfólki sínu laun á umsömdum greiðsludegi launa, þ.e. 30. júní 2009, nema greiðsla reikninganna myndi eiga sér stað fyrir þann tíma“. Þá kom fram í orðsendingu gagnáfrýjanda 9. september 2009 til aðaláfrýjanda að hann teldi að aðaláfrýjandi bæri ábyrgð á töfum á verkinu þar sem þær mætti rekja til erfiðleika sem leiddu af því að aðaláfrýjandi hefði ekki greitt gjaldfallna reikninga.  Áður hefði verið tilkynnt um „að full greiðsla yrði að berast til að rekstur verksmiðjunnar gæti haldið áfram“. Lýsti gagnáfrýjandi ábyrgð á öllum drætti verksins á hendur aðaláfrýjanda.

Samkvæmt grein 25.8  ÍST 30:2003 er verktaka heimilað að rifta samningi eða stöðva framkvæmdir inni verkkaupi ekki af hendi umsamdar greiðslur eða vanefni aðrar samningsskyldur. Samningi verði þó ekki rift samkvæmt ákvæðinu eða framkvæmdir stöðvaðar nema vanefnd sé veruleg og verktaki hafi áður gert verkkaupa skriflega viðvart og sett honum hæfilegan frest. Þótt óumdeilt sé að aðaláfrýjandi vanefndi skyldu sína til að greiða gagnáfrýjanda tiltekna framvindureikninga vegna verksins var gagnáfrýjanda ekki heimilt samkvæmt fyrrnefndu ákvæði ÍST 30:2003 að stöðva framkvæmdir sínar nema gera aðaláfrýjanda viðvart og setja honum hæfilegan frest. Hvorki í orðsendingu gagnáfrýjanda 1. júlí 2009 né orðsendingu hans 9. september sama ár var aðaláfrýjanda veittur slíkur frestur og fullnægðu umræddar orðsendingar því ekki áskilnaði greinar 25.8 í ÍST 30:2003. Gátu tafir á afhendingu gagnáfrýjanda vegna umræddra verkþátta því ekki með réttu stuðst við það ákvæði.

 Af hálfu gagnáfrýjanda hefur einnig verið á því byggt að þær tafir sem orðið hafi á framkvæmd hans verkþátta megi að hluta rekja til atriða við verkið sem aðaláfrýjandi beri ábyrgð á. Slíkar tafir gátu gefið gagnáfrýjanda tilefni til að krefjast framlenginga á skiladögum á grundvelli greinar 24.2 í ÍST 30:2003. Þrátt fyrir það sendi gagnáfrýjandi aðaláfrýjanda ekki rökstudda tilkynningu um að hann teldi sig eiga rétt á slíkum fresti eins og áskilið er samkvæmt grein 24.3 í ÍST 30:2003. Verður því staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að gagnáfrýjandi geti ekki borið fyrir sig að honum hafi verið heimilt að skila verkinu eftir umsamda skiladaga og fallist á kröfu aðaláfrýjanda um tafabætur með vísan til skýrra ákvæða samnings aðila þar um, en krafa aðaláfrýjanda nemur eins og áður greinir 19.550.000 krónum.

Samkvæmt öllu framangreindu ber aðaláfrýjanda að greiða ógreidda reikninga vegna viðbótar- og aukaverka samtals 24.886.598 krónur (6.200.678 krónur + 18.685.920 krónur). Auk þess ber honum að greiða gagnáfrýjanda ógreidda framvindureikninga að fjárhæð 20.532.201 krónu og hefur þá verið tekið tillit til ótilgreindra innborgana sem inntar voru af hendi 5. og 8. febrúar 2010 samtals að fjárhæð 7.000.000 krónur. Verður aðaláfrýjandi því dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda 45.418.799 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 miðað við gjalddaga hvers reiknings eins og nánar greinir í dómsorði.

Til frádráttar ofangreindri greiðslu koma kröfur aðaláfrýjanda á hendur gagnáfrýjanda sem dómurinn hefur fallist á. Er þar annars vegar um að ræða kröfuliði sem tilgreindir eru hér að framan vegna greiðslu um viðbótar- og aukaverk auk útlagðs kostnaðar, samtals að fjárhæð 5.461.131 króna. Ekki verður séð af gögnum málsins að aðaláfrýjandi hafi gert gagnáfrýjanda reikning vegna ofangreindra kröfuliða. Eru því ekki efni til að taka til greina kröfu hans um greiðslu dráttarvaxta eða skuldajöfnuð frá fyrra tímamarki en við þingfestingu gagnsakar í málinu sem var 26. apríl 2011. Hins vegar koma til frádráttar kröfu gagnáfrýjanda tafabætur til handa aðaláfrýjanda að fjárhæð 19.550.000 krónur, sem aðaláfrýjanda er heimilt að skuldajafna við kröfu gagnáfrýjanda miðað við þingfestingardag gagnsakar, samtals 25.011.131 krónur.

Með vísan til  1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður aðaláfrýjanda gert að greiða gagnáfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Ístak hf., greiði gagnáfrýjanda, Idex gluggum ehf., 45.418.799 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.241.027 krónum frá 31. júlí 2009 til 30. september sama ár, af 5.745.284 krónum frá þeim degi til 31. október sama ár, af 5.874.530 krónum frá þeim degi til 30. nóvember sama ár, af 6.780.382 krónum frá þeim degi til 31. desember sama ár, af 12.310.016 krónum frá þeim degi til 31. janúar 2010, af 27.707.473 krónum frá þeim degi til 5. febrúar sama ár, af 22.236.593 krónum frá þeim degi til 8. febrúar sama ár, af  20.707.473 krónum frá þeim degi til 31. mars sama ár, af 35.756.078 krónum frá þeim degi til 30. apríl sama ár, af 43.107.122 krónum frá þeim degi til 31. maí sama ár og af 45.418.799 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Til frádráttar framangreindri kröfu er aðaláfrýjanda heimilt að skuldajafna 25.011.131 krónu miðað við 26. apríl 2011.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda samtals 5.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. febrúar 2013.

Mál þetta, sem var dómtekið 6. nóvember 2012 og á ný 16. janúar 2013, er höfðað í aðalsök með stefnu birtri á ótilgreindum degi í mars 2011 og þingfest 15. sama mánaðar af Idex gluggum ehf., Smiðjuvegi 3 í Kópavogi, á hendur Ístaki hf., Engjateigi 7 í Reykjavík. Gagnsök var höfðuð með gagnstefnu, birtri þann 14. apríl 2011 sem lögð var fram í þinghaldi 26. apríl 2011.

Endanlegar dómkröfur aðalstefnanda í aðalsök eru þær að gagnstefnandi greiði honum 48.121.181 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.307.072 kr. frá 31. júlí 2009 til 30. september 2009, af 5.860.771 kr. frá þeim degi til 31. október 2009, af 5.990.017 kr. frá þeim degi til 30. nóvember 2009, af 6.895.869 kr. frá þeim degi til 31. desember 2009, af 12.525.503 kr. frá þeim degi til 31. janúar 2010, af 28.562.761 kr. frá þeim degi til 5. febrúar 2010, af 23.941.004 kr. frá þeim degi til 8. febrúar 2010, af 22.411.884 kr. frá þeim degi til 28. febrúar 2010, af 22.416.653 kr. frá þeim degi til 31. mars 2010, af 37.519.064 kr. frá þeim degi til 30. apríl 2010, af 45.810.133 kr. frá þeim degi til 31. maí 2010 og af 48.121.181 kr. frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Af hálfu gagnstefnanda er krafist sýknu af öllum kröfum í aðalsök auk greiðslu málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Gagnstefna var birt 14. apríl 2011. Endanlegar dómkröfur í gagnstefnu eru þær að aðalstefnanda verði gert að greiða gagnstefnanda 36.747.038 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 5.807.958 kr. frá 31. júlí 2009 til 31. ágúst 2009, af 11.412.271 kr. frá þeim degi til 31. október 2009, af 16.491.895 kr. frá þeim degi til 30. desember 2009, af 20.477.641 kr. frá þeim degi til 25. janúar 2010, af 22.006.761 kr. frá þeim degi til 25. febrúar 2010, af 22.725.910 kr. frá þeim degi til 25. mars 2010, af 34.619.658 kr. frá þeim degi til 25. apríl 2010, af 35.082.968 kr. frá þeim degi til 25. maí 2010, af 35.225.100 kr. frá þeim degi til 25. júlí 2010, af 35.395.329 kr. frá þeim degi til 25. ágúst 2010, af 36.747.038 kr. frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt gerir gagnstefnandi þá kröfu að aðalstefnanda verði gert að greiða sér málskostnað að mati réttarins.

                Aðalstefnandi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum gagnstefnanda og til vara að kröfurnar verði lækkaðar stórlega. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

I. Málsatvik

Í maí 2009 gerðu aðalstefnandi og gagnstefnandi, ásamt Formaco ehf., með sér þríhliða samning um að aðalstefnandi yfirtæki tiltekin réttindi og skyldur Formaco ehf. samkvæmt undirverktakasamningi þess félags og gagnstefnanda, dagsettum 28. maí 2008, um framleiðslu og uppsetningu á gluggum og útihurðum í nýbyggingu Háskólans í Reykjavík við Hlíðarfót í Reykjavík. Gagnstefnandi var aðalverktaki við byggingu hússins og tengdra verkþátta á grundvelli verksamnings við Eignarhaldsfélagið Fasteign hf. sem á húsið og leigir það Háskólanum í Reykjavík. Samningurinn bar yfirskriftina Viðauki við verksamning Formaco og Ístaks, dags. 28. maí 2008. Upphaflegur samningur Formaco ehf. og gagnstefnanda var hefðbundinn undirverktakasamningur, sem gerður var í kjölfar útboðs verkkaupa og byggði á tilteknum útboðsgögnum. Formaco ehf. hóf verkið á grundvelli samningsins en lenti í greiðsluerfiðleikum og gat ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart gagnstefnanda. Engin formleg verkskil fóru fram við yfirtöku aðalstefnanda á verki Formaco, sem miðaðist við 1. mars 2009. Verktrygging sem Formaco ehf. hafði lagt til gagnstefnanda frá Landsbanka Íslands gilti áfram um þau verk sem félagið hafði þegar skilað og síðan áfram um verk aðalstefnanda.

Samkvæmt upphaflega undirverktakasamningnum bar Formaco ehf. ábyrgð á öllu verkinu, sem fólst í smíði glugga og útihurða, gleri og allri vinnu við uppsetningu og þéttingu. Í hinum yfirtekna samningi var samið um að sumir þessara þátta upprunalega samningsins féllu niður þannig að umfang hans varð minna, auk þess sem gagnstefnandi tók sjálfur að sér uppsetningarvinnuna og allar þéttingar.

Í samningi aðila segir í upphafi að nýtt fyrirtæki Idex gluggar ehf. taki yfir réttindi og skyldur Formaco samkvæmt verksamningi með þeim breytingum sem fram komi í 17 tölusettum liðum samningsins. Þá er svohljóðandi ákvæði í upphafi samnings (5. mgr.): „Idex gluggar ehf. yfirtaka ábyrgð á því verki Formaco sem búið er að greiða fyrir. Idex gluggar ehf. ber ábyrgð á hugsanlegum framleiðslu- og útlitsgöllum á prófílum sem síðar koma í ljós. Idex gluggar ehf. ber ekki ábrygð á göllum og skemmdum sem rekja má til slæmrar umgengni annarra á verkstað eða vinnu annarra.“ Í tölustettum liðum samningsins segir í 1. tölul. að yfirtaka verksins milli Formaco og Idex glugga ehf. miðist við 1. mars 2009 en annar staðar kemur fram að engin formleg verksskil hafi farið fram. Þá eru ákvæði um það hvaða verkþættir falli niður og hvaða áhrif það hafi á greiðslu gagnstefnanda. Á móti lækkun samningsupphæðar falla niður verkþættir sem taldir eru upp í 5 liðum (7.-11. tölul.) þar á meðal (skv. 7. tölul.) „ [ö]ll vinna á byggingarstað varaðandi verkþætti, stakir gluggar, útigarðar, gluggafrontar og þakgluggar, bæði uppsetningarvinna og verkstjórn. Innifalið í lækkun er einnig endurvinna á byggingarstað á þeim gluggum sem byrjað var á þegar Ístak yfirtók uppsetningu.“ Þá segir m.a. í 13. tölul. að engin ófrágengin deilumál eða viðbótar- og aukaverk frá Formaco færist yfir í nýtt félag, enda séu þau umbeðin og samþykkt fyrir yfirtökudag samningsins sem er 1. mars 2009. Í 14 tölul. er ákvæði um rétt Ístaks til að vinna að útbótum á kostnað Idex glugga ehf. ef um er að kenna skekkju eða göllum í verki þeirra. Þá er í 16. tölul. fjallað um tafabætur og í fylgiskjali I með viðaukasamningum eru ákvæði um nýja afhendingadaga á einstökum verkhlutum.

Eftir því sem leið á verkið reis upp ágreiningur milli aðila vegna dráttar á afhendingu efnis og tafa á tilteknum verkþáttum, um greiðslur vegna frábrigða frá útboðsgögnum og ætlaðs uppsetningarkostnaðar sem gagnstefnandi taldi að aðalstefnandi ætti að bera. Undir lok verktímans greindi málsaðila einnig á um gæði verksins, ætlaða galla á því og tiltekna reikninga beggja málsaðila vegna aukaverka. Vegna þessa hélt gagnstefnandi að sér höndum með greiðslur en aðalstefnandi neitaði á móti að sinna frekari vinnu við verkið eftir að dráttur varð á greiðslu frá gagnstefnanda. Efla verkfræðistofa, sem hafði eftirlit með verkinu, tók verkið út 28. júní 2010 að viðstöddum fulltrúum aðalstefnanda og gagnstefnanda. Fulltrúi aðalstefnanda hvarf þó af fundi áður en úttektinni var að fullu lokið. Niðurstaða úttektarinnar var sú að útihurðir og gluggar væru ekki fullkláruð samkvæmt útboðsgögnum og að fram hefðu komið ákveðnir gallar á verkinu. Í kjölfar þessa fóru fram samningaviðræður milli málsaðila um lausn málsins, sem ekki báru árangur.

Undir rekstri málsins óskaði gagnstefnandi eftir dómkvaðningu matsmanns. Hjalti Sigmundsson, húsasmíðameistari og byggingartæknifræðingur, var dómkvaddur til verksins. Samkvæmt matsbeiðni var óskað eftir því að matsmaður mæti hver væri eðlilegur og sanngjarn kostnaður vegna tiltekinna viðbótarverka sem aðalstefnandi krefur gagnstefnanda um greiðslu fyrir. Matsmaður skilaði matsskýrslu sem lögð var fram í þinghaldi 20. júní 2012. Matsmaður staðfesti skýrslu sína fyrir dómi og gerði nánari grein fyrir niðurstöðu matsgerðar. Þá gáfu eftirfarandi aðilar skýrslu fyrir dómi: Ragnar Jóhannsson, framkvæmdastjóri og eigandi Idex glugga ehf., Sigurður Ingibergur Hreinsson, fyrrverandi verkefnastjóri hjá Idex gluggum, Halldór Þór Wium Kristinsson, framleiðslustjóri í verksmiðju Idex glugga, Þórólfur Halldórsson, fyrrverandi tæknimaður hjá sama fyrirtæki, Brynjar Brjánsson, starfsmaður Ístaks, Eggert Ólafur Jónsson, starfmaður Ístaks, Gísli Rafnsson, starfsmaður Ístaks, Jóhann Ríkharðsson, uppsetningarmaður, Heiðar Víking Eiríksson, fulltrúi Schüco á Íslandi, Páll Emil Beck eftirlitsmaður og Sævar Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri Eignarhaldsfélagsins Fasteignar hf.

II.

Málsástæður og lagarök aðalstefnanda í aðalsök

Aðalstefnandi byggir kröfur sínar á því að gagnstefnanda beri að greiða allar ógreiddar kröfur sem lúti að aðalsamningi aðila um verkið á grundvelli þeirra framvindureikninga sem aðalstefnandi hafi gert, sem og á grundvelli lokareiknings, enda liggi fyrir að verkinu sé lokið.

Þá byggir aðalstefnandi á því að gagnstefnanda beri lögum samkvæmt skylda til að greiða aðalstefnanda allar þær dómkröfur er lúti að viðbótarverkum, nema gagnstefnandi geti sýnt fram á að viðbótarverkin hafi verið óþörf, að hann hafi ekki beðið um þau eða að umkrafðar fjárhæðir séu ekki réttmætar fyrir sambærileg verk.

Aðalstefnandi vísar til þess að hafa gert gagnstefnanda reikninga samtals að fjárhæð 313.134.271 króna og tekið við greiðslum að fjárhæð 264.077.715 krónur. Skuld gagnstefnanda sé því 49.056.556 krónur sem sundurliðist þannig eftir reikningum:

Nr.  Útgáfudagur     Gjalddagi       Upphafleg fjárhæð                   Ógreitt 

13   19.06.2009        31.07.2009     kr.      218.852                        kr.    218.852

14   19.06.2009        31.07.2009     kr.      189.923                        kr.    189.923

15   19.06.2009        31.07.2009     kr.      174.097                        kr.    174.097

16   19.06.2009        31.07.2009     kr.      286.110                        kr.    286.110

17   19.06.2009        31.07.2009     kr.      487.532                        kr.    487.532

29   31.08.2009        30.09.2009     kr.   8.700.961                        kr.  2.944.809

30   31.08.2009        30.09.2009     kr.   1.559.448                        kr.  1.559.448

33   25.09.2009        31.10.2009     kr.      129.246                        kr.     129.246

34   02.10.2009        30.11.2009     kr. 10.000.001                       kr.     905.852

50   23.11.2009        31.12.2009     kr.      550.010                        kr.     550.010

53   27.11.2009        31.12.2009     kr.   5.389.733                        kr.   5.079.624

58   22.12.2009        31.01.2010     kr. 21.035.509                       kr.  3.985.746

62   31.12.2009        31.01.2010     kr.        12.436                        kr.        12.436

66   31.12.2009        31.01.2010     kr.   1.804.811                        kr.  1.804.811

67   31.12.2009        31.01.2010     kr.   3.266.292                        kr.  3.266.292

71   31.12.2009        31.01.2010     kr.   7.817.096                        kr.  7.817.096

64   18.01.2010        28.02.2010     kr.          4.769                         kr.          4.769

74   22.02.2010        31.03.2010     kr.   9.413.376                        kr.  9.413.376

83   28.02.2010        31.03.2010     kr.   5.251.960                        kr.  5.251.960

84   28.02.2010        31.03.2010     kr.      437.075                        kr.      437.075

77   02.03.2010        30.04.2010     kr.   2.614.690                        kr.  2.614.690

78   02.03.2010        30.04.2010     kr.      519.614                        kr.      519.614

82   12.03.2010        30.04.2010     kr.   6.091.511                        kr.  6.091.511

89   20.04.2010        31.05.2010     kr.      488.287                                        kr.      488.287

93   20.04.2010        31.05.2010     kr.   1.808.297      .                               kr.  1.808.297

94   20.04.2010        31.05.2010     kr.        15.093                       kr.        15.093 

Samtals                                                                                                               kr. 56.056.556

                Í upphafi aðalmeðferðar lækkað aðalstefnandi kröfur sínar í 48.121.181 kr. Lækkun stefnanda skýrist af lækkun krafa vegna eftirfarandi reikninga: Reikningur nr. 13 lækkar um 49.442 kr. og verður 169.410 kr., reikningur nr. 71 lækkar um 799.681 kr. (vegna lækkunar á kröfum vegna viðbótarverka 2009-211, 215, 224 og 226) og verður því 7.017.415 kr. og reikningur nr. 82 lækkar um 85.623 kr. vegna lækkunar kröfur vegna viðbótarverks 2010-135 og verður því 6.005.888 kr.

Tvær greiðslur sem gagnstefnandi innti af hendi 5. og 8. febrúar 2010, samtals að fjárhæð 7.000.000 króna komi til frádráttar framangreindri skuld.

Við reikningsgerð hafi aðalstefnandi að jafnaði miðað við einingarverð samkvæmt tilboði og samningsgögnum, hvort heldur um hafi verið að ræða einingarverð vegna efnis eða vinnu. Til viðbótar leggi aðalstefnandi verðbætur á einstakar fjárkröfur sínar, í réttu hlutfalli við hækkanir sem orðið hafa á vísitölu byggingarkostnaðar frá vísitölu samningsmánaðar, 386 stigum, til vísitölu þeirrar sem í gildi hafi verið á útgáfudegi einstakra reikninga samkvæmt ákvæði I 0 5.6. í útboðs- og samningsskilmálum. Eftir áramótin 2009/2010 hafi aðalstefnandi enn fremur krafið gagnstefnanda um að bæta sér hækkun á virðisaukaskatti, úr 24,5% til 25,5%, sbr. 15. gr. laga nr. 130/2009.

Nánar sundurliðar aðalstefnandi kröfur sínar varðandi þá reikninga sem ágreiningur er um með eftirfarandi hætti:

Reikningur nr. 13, útgefinn 19. júní 2009 að fjárhæð 218.852 kr. – Viðbótarverk 204. Verkfræðistofan Mannvit hf. hafi hannað stálburðarvirki undir þakglugga. Mál stálburðarvirkis hafi ekki staðist í reynd. Mannvit hf. hafi því gert útreikninga á sérstakri festingu í þakglugga og hafi aðalstefnandi átt að smíða og leggja til festingarnar. Gagnstefnandi óskaði eftir að aðalstefnandi breytti framleiðsluteikningum til samræmis. Gerð sé krafa samkvæmt reikningnum um að gagnstefnandi greiði aðalstefnanda fyrir 6 klst. teiknivinnu, 12.450 kr. fyrir hverja klukkustund, auk samningsbundinna verðbóta að fjárhæð 20.262 kr., samtals 94.962 kr. Þá sé gerð krafa samkvæmt reikningnum um greiðslu fyrir 173 kg af flatjárni, sem notað hafi verið við smíðina, 660 kr. pr. kg, samtals 114.180 kr. og fyrir akstur 9.711 kr. Samtals sé krafist greiðslu 218.852 kr. samkvæmt þessum kröfulið.

Reikningur nr. 14, útgefinn 19. júní 2009 að fjárhæð 189.923 kr. – Viðbótarverk 205. Um sé að ræða teiknivinnu aðalstefnanda vegna álklæddra neyðarhurða en mismunur hafi komið í ljós á teikningum og raunstærðum. Vegna mikils byggingahraða á verkinu hafi Formaco ehf. og gagnstefnandi gert samkomulag um að framleiðsla yrði samkvæmt teikningum arkitekta en ekki miðað við máltöku á verkstað eins og útboðsgögn segi til um. Samkvæmt teikningum áttu allar hurðir að vera jafn stórar en hurðargöt voru misstór vegna skekkju í uppsteypu og eða flotun gólfa. Gerð sé krafa samkvæmt reikningnum um að gagnstefnandi greiði aðalstefnanda fyrir 11 klst. teiknivinnu, 12.450 kr. fyrir hverja klukkustund, samtals 149.400 kr. auk samningsbundinna verðbóta að fjárhæð 40.524 kr. Samtals sé krafa samkvæmt þessum lið 189.923 kr. í samræmi við reikning nr. 14.

Reikningur nr. 15, útgefinn 19. júní 2009 að fjárhæð 174.097 kr. – Viðbótarverk 206. Um sé að ræða teiknivinnu aðalstefnanda vegna hornglugga. Horngluggar hafi verið teiknaðir eins og aðrir gluggar í byggingunni samkvæmt málum á teikningu (31) 4.22 C. Ný útgáfa teikninga, merkt D, hafi verið gefin út eftir að bent hafði verið á möguleg hönnunarmistök. Aðalstefnandi hafi þurft að endurgera teikningu og leggja í vinnu við að endurpanta gler, sem þegar hafði verið pantað samkvæmt teikningu C. Sérstök krafa sé gerð vegna sjálfs glersins með öðrum glerpöntunum. Gerð sé krafa samkvæmt reikningnum um að gagnstefnandi greiði aðalstefnanda fyrir 11 klst. teiknivinnu og umsjón, 12.450 kr. fyrir hverja klukkustund, samtals 136.950 kr., auk samningsbundinna verðbóta að fjárhæð 37.147 kr. Samtals er krafa þessa liðar að fjárhæð 174.097 kr. í samræmi við reikning nr. 15.

Reikningur nr. 16, útgefinn 19. júní 2009 að fjárhæð 286.110 kr. – Viðbótarverk 207. Hönnun horna í inngarða hafi verið breytt frá útboðsgögnum. Aðalstefnandi hafi gert prufustykki, tekið mál og smíðaði og átti fundi vegna þessa. Gerð sé krafa samkvæmt reikningnum um að gagnstefnandi greiði aðalstefnanda fyrir 16 klst. vinnu við smíði, mátun o.fl., 5.976 kr. fyrir hverja klukkustund og fyrir 8 klst. vinnu við fundi, hönnun og umsjón, 12.450 kr. fyrir hverja klukkustund, auk samningsbundinna verðbóta að fjárhæð 52.951 kr., samtals 248.167 kr. Þá sé gerð krafa samkvæmt reikningnum um greiðslu fyrir efni og vélavinnu að fjárhæð 37.943 kr. Samtals er krafist greiðslu 286.110 kr. í þessum lið í samræmi við reikning nr. 16.

Reikningur nr. 17, útgefinn 19. júní 2009 að fjárhæð 487.532 kr.– Viðbótarverk 209. Gagnstefnandi hafi beðið aðalstefnanda um að endursmíða glugga af gerðinni „2100 02 typa C“. Verkið hafi verið unnið utan hefðbundins vinnutíma og geri aðalstefnandi kröfu um greiðslu vegna þess á grundvelli einingaverðs að fjárhæð 515.973 kr., að frádregnu gleri, festingum og ísetningu, að fjárhæð 185.750 kr., samtals að fjárhæð 396.267 kr., að viðbættum samningsbundnum verðbótum að fjárhæð 91.265 kr. Samtals er krafist greiðslu á 487.532 kr. í þessum lið í samræmi við reikning nr. 17.

Reikningur nr. 29, útgefinn 31. ágúst 2009 að fjárhæð 8.700.961 kr. Reikningurinn sé vegna framvindu 1. áfanga verksins. Við reikningsgerðina hafi aðalstefnandi stuðst við framvinduyfirlit 1. áfanga. Gagnstefnandi hafi einungis greitt aðalstefnanda 5.756.152 kr. vegna þessa reiknings og séu því ógreiddar 2.944.809 kr., sem aðalstefnandi krefst greiðslu á. Gagnstefnandi hafi ekki gert aðalstefnanda grein fyrir því hvers vegna reikningurinn hafi ekki verið greiddur að fullu né heldur rökstutt frádrátt. Aðalstefnandi krefji því gagnstefnanda um greiðslu eftirstöðva reikningsins að fjárhæð 2.944.809 kr.

Reikningur nr. 30, útgefinn 31. ágúst 2009, að fjárhæð 1.559.448 kr. Reikningurinn sé vegna framvindu 2. áfanga verksins. Við reikningsgerðina hafi aðalstefnandi stuðst við framvinduyfirlit 2. áfanga. Gagnstefnandi hafi ekkert greitt aðalstefnanda vegna þessa reiknings. Gagnstefnandi hafi ekki gert aðalstefnanda grein fyrir því hvers vegna reikningurinn hafi ekki verið greiddur. Aðalstefnandi geri kröfu um að fá reikninginn greiddan.

Reikningur nr. 33, útgefinn 25. september 2009 að fjárhæð 129.246 kr. Reikningurinn sé vegna kaupa gagnstefnanda á 2x Schüco EPDM-dúk, 650 mm, af aðalstefnanda. Dúkurinn hafi verið pantaður af Haraldi Jósefssyni f.h. gagnstefnanda. Aðalstefnandi krefji gagnstefnanda um greiðslu samkvæmt einingaverði 51.906 kr. að viðbættum virðisaukaskatti eða samtals 129.246 kr.

Reikningur nr. 34, útgefinn 2. október 2009 að fjárhæð. 10.000.000 kr.

Á reikningnum sé sérstaklega tilgreint „innborgun á verk 0729 Háskólinn í Reykjavík ÁLGLUGGAR Sala frá álgluggaverksmiðju“. Um sé að ræða hluta af tilboðsverkinu og reikningurinn hafi verið gefinn út í trausti þess að gagnstefnandi myndi inna af hendi umsamda innborgun að fjárhæð 10.000.000 kr. Gagnstefnandi hafi hins vegar einungis greitt 9.094.149 kr. inn á reikninginn. Eftirstöðvar reikningsins séu því 905.852 kr. sem sé krafa samkvæmt þessum lið.

Reikningur nr. 50, útgefinn 23. nóvember 2009 að fjárhæð 550.010 kr. – Viðbótarverk 2009-222. Um sé að ræða endursmíði á hurð UHB3-2.1.01 samkvæmt beiðni gagnstefnanda. Samkvæmt einingaverði í magnskrá ber gagnstefnanda að greiða aðalstefnanda 423.300 kr. fyrir smíði hurðarinnar, auk samningsbundinna verðbóta að fjárhæð 119.862 kr. eða samtals 543.162 kr. Þá geri aðalstefnandi kröfu um að gagnstefnandi greiði sér 5.500 kr. fyrir akstur með hurðina. Aðalstefnandi hafi getað nýtt húna, skrá og gler úr eldri hurð og hafi boðið gagnstefnanda að slá 100.000 kr. af þessum reikningi en því tilboði hafi ekki verið svarað af hálfu gagnstefnanda og standi það því ekki lengur. Samtals gerir aðalstefnandi því kröfu til greiðslu á 550.010 kr. samkvæmt þessum lið í samræmi við reikning nr. 50.

Reikningur nr. 53, útgefinn 27. nóvember 2009 að fjárhæð 5.389.733 kr. Reikningurinn sé vegna framvindu 1. áfanga verksins. Við reikningsgerðina hafi aðalstefnandi stuðst við framvinduyfirlit 1. áfanga. Gagnstefnandi hafi einungis greitt aðalstefnanda 310.109 kr. vegna þessa reiknings og séu því ógreiddar 5.079.624 kr., sem aðalstefnandi krefjist greiðslu á. Gagnstefnandi hafi ekki gert aðalstefnanda grein fyrir því hvers vegna reikningurinn hafi ekki verið greiddur að fullu né heldur rökstutt frádrátt. Aðalstefnandi krefji því gagnstefnanda um greiðslu eftirstöðva reikningsins að fjárhæð 5.079.624 kr.

Reikningur nr. 58, útgefinn 22. desember 2009 að fjárhæð 21.035.509 kr. Á reikningnum sé sérstaklega tilgreint „ÁLGLUGGAR innborgun á verk 0729 HR2“. Um sé að ræða hluta af tilboðsverkinu og reikningurinn hafi verið gefinn út í trausti þess að gagnstefnandi myndi inna af hendi umsamda innborgun að fjárhæð 21.035.509 kr. Gagnstefnandi greiddi hins vegar einungis 17.049.763 kr. inn á reikninginn og því séu ógreiddar 3.985.746 kr. sem sé fjárhæð kröfu samkvæmt þessum lið

Reikningur nr. 62, útgefinn 31. desember 2009 að fjárhæð 12.436 kr. Um sé að ræða viðbótarreikning aðalstefnanda við reikning nr. 46 vegna gáms AMFU5014572, sem hafi verið á leigu hjá Samskipum hf. og aðalstefnandi greiddi fyrir en gagnstefnanda bar að greiða. Krafan sé vegna leigu í þrjá daga að fjárhæð 11.844 kr., auk 12% umsjónarálags að fjárhæð 592 kr. Gagnstefnandi hafi samþykkt að greiða reikninginn en hafi þó ekki gert það. Aðalstefnandi krefji gagnstefnanda um greiðslu á 12.436 kr. vegna þessa reiknings.

Reikningur nr. 66, útgefinn 31. desember 2009 að fjárhæð 1.804.811 kr. Reikningurinn sé vegna framvindu 1. áfanga verksins í desember 2009. Við reikningsgerðina hafi aðalstefnandi stuðst við framvinduyfirlit 1. áfanga.Gagnstefnandi hafi ekkert greitt aðalstefnanda vegna þessa reiknings og hvorki gert grein fyrir ástæðu þess né rökstutt frádrátt. Aðalstefnandi krefji því gagnstefnanda um greiðslu reikningsins að fjárhæð 1.804.811 kr.

Reikningur nr. 67, útgefinn 31. desember 2010 að fjárhæð 3.266.292 kr. Reikningurinn sé vegna framvindu 2. áfanga verksins í desember 2009. Við reikningsgerðina hafi aðalstefnandi stuðst við framvinduyfirlit 2. áfanga. Gagnstefnandi hafi ekkert greitt aðalstefnanda vegna þessa reiknings og hvorki getið ástæðna þess né rökstutt frádrátt. Aðalstefnandi krefji því gagnstefnanda um greiðslu reikningsins að fjárhæð 3.266.292 kr.

Reikningur nr. 71, útgefinn 31. desember 2010 að fjárhæð. 7.817.096 kr.

Reikningurinn sé vegna viðbótarverka sem nánar séu skýrð þannig:

a)       Viðbótarverk nr. 2009-201: Móttaka aðalstefnanda á tölvupóstfyrirspurn 30. apríl 2009 vegna þess að arkitektar töldu sig ekki hafa fengið svör við fyrirspurnum. Starfsmaður aðalstefnanda þurfti vegna þess að yfirfara gögn og svara. Gerð er krafa samkvæmt reikningnum um að gagnstefnandi greiði aðalstefnanda fyrir 0,5 klst. vinnu, 12.450 kr. fyrir hverja klukkustund, auk samningsbundinna verðbóta að fjárhæð 1.520 kr., samtals 7.122 kr. Aðalstefnandi hafi boðist til að draga þennan reikningslið til baka í tilraunum til uppgjörs við gagnstefnanda en það tilboð standi ekki lengur.

b)       Viðbótarverk nr. 2009-202: Aðalstefnandi þurfti að endursmíða glugga af gerðinni „G_1500_02_Type B“ samkvæmt breyttri teikningu arkitekta nr. (31)4.23. Krafist sé greiðslu á tveimur einingum samtals að fjárhæð 685.448 kr., að frádregnum metnum kostnaði vegna glers, festinga og ísetningar að fjárhæð 246.761 kr. en að viðbættum samningsbundnum verðbótum að fjárhæð 118.991 kr. eða samtals 557.678 kr. Gagnstefnandi hafði samþykkt þennan lið í tilraunum aðila til uppgjörs.

c)       Viðbótarverk nr. 2009-203: Aðalstefnandi hafi afhent gagnstefnanda prófíla til hljóðmælinga samkvæmt beiðni. Um hafi verið að ræða 9 metra af prófíl og krefji aðalstefnandi gagnstefnanda um greiðslu á 15.000 kr. fyrir hvern metra, samtals 135.000 kr. Aðalstefnandi telji að gagnstefnandi hafi ranglega neitað greiðslu vegna þessa liðar og fellst ekki á að bera ábyrgð á þeim vanda sem verið var að leysa með þessu verki svo sem gagnstefnandi hafi haldið fram.

d)       Viðbótarverk nr. 2009-208: Aðalstefnandi hafi þurft að leggja í viðbótarvinnu vegna misræmis sem fram hafi komið í teikningum arkitekta. Gerð sé krafa samkvæmt reikningnum um að gagnstefnandi greiði aðalstefnanda fyrir 3,5 klst. vinnu, 12.450 kr. fyrir hverja klukkustund, samtals 43.575 kr., auk samningsbundinna verðbóta að fjárhæð 10.036 kr. Samtals sé krafist greiðslu á 53.611 kr.

e)       Viðbótarverk nr. 2009-210: Aðalstefnandi hafi gert gagnstefnanda sérstakt tilboð um breytingu á glugga í „djúpinu“. gagnstefnandi hafi gengið að tilboðinu og aðalstefnandi unnið verkið. Gerð sé krafa um greiðslu vegna þessa að fjárhæð 515.973 kr., auk samningsbundinna verðbóta að fjárhæð 28.031 kr., samtals 544.004 kr. Gagnstefnandi hafi samþykkt þennan lið í tilraunum aðila til uppgjörs.

f)        Viðbótarverk nr. 2009-211: Aðalstefnandi hafi unnið að sérfestingum í garða á 1. hæð í mars 2009 að beiðni gagnstefnanda vegna hönnunarmistaka. Tveir smiðir aðalstefnanda hafi unnið að verkinu í samtals 63 klst., aðalstefnandi gerir kröfu um greiðslu 5.976 kr. fyrir hverja unna vinnustund, samtals 376.488 kr. að viðbættum samningsbundnum verðbótum að fjárhæð 102.120 kr., samtals 478.608 kr. Þá hafi stefndi varið til smíðinnar 720 kg af stáli, sem hann krefjist greiðslu fyrir að fjárhæð 230.400 kr. auk greiðslu fyrir þrjár ferðir með smábíl að fjárhæð 20.543 kr. Vegna þessa viðbótarverks geri aðalstefnandi því kröfu um greiðslu 729.550 kr.  Gagnstefnandi hafi talið sig hafa gert upp vinnu vegna þessa við Formaco ehf. en það sé á misskilningi byggt þar sem aðalstefnandi krefji gagnstefnanda einungis um greiðslu vegna vinnu og efnis sem hann hafi lagt til verksins eftir yfirtökudag, 1. mars 2009.

g)       Viðbótarverk nr. 2009-212: Aðalstefnandi hafi endursmíðað gluggapóst eftir beiðni gagnstefnanda. Vegna þess verks krefjist aðalstefnandi greiðslu 20.000 kr., auk álags að fjárhæð 4.000 kr., þar sem verkið var unnið utan hefðbundins vinnutíma, auk samningsbundinna verðbóta að fjárhæð 5.527 kr., samtals 29.527 kr. Gagnstefnandi hafi samþykkt þennan lið í tilraunum aðila til uppgjörs.

h)       Viðbótarverk nr. 2009-213: Aðalstefnandi hafi gert nýtt gat fyrir raflagnir í karm við útgarð að ósk gagnstefnanda. Vegna þessa verks krefjist aðalstefnandi greiðslu 11.952 kr. fyrir tveggja tíma vinnu iðnaðarmanns að viðbættum samningsbundnum verðbótum að fjárhæð 2.753 kr. og aksturskostnaði að fjárhæð 6.848 kr., samtals 21.552 kr.

i)         Viðbótarverk nr. 2009-214: Að ósk gagnstefnanda hafi aðalstefnandi framleitt stálprófíla í plastlista og sett undir 49 hurðir (hurðir_hlið-gafl_H2 og Hurðir_hlið_gafl_H3). Vegna þessa verks krefjist aðalstefnandi greiðslu 146.412 kr. fyrir 24,5 klst. vinnu iðnaðarmanns að viðbættum samningsbundnum verðbótum að fjárhæð 2.438 kr., samtals 148.850 kr. Þá hafi aðalstefnandi lagt til verksins 63 metra af prófíl, og krefur hann gagnstefnanda um greiðslu 79.380 kr. fyrir þá. Samtals sé krafa vegna þessa liðar 228.230 kr. Gagnstefnandi hafi samþykkt að greiða hluta þessa liðar í tilraunum aðila til uppgjörs.

j)        Viðbótarverk nr. 2009-215: Aðalstefnandi hafi unnið við 12 horn á glugga í görðum að beiðni gagnstefnanda. Fyrir það krefjist aðalstefnandi greiðslu 336.000 kr. auk álags að fjárhæð 67.200 kr., þar sem verkið var unnið utan hefðbundins vinnutíma, samtals 403.200 kr. Gagnstefnandi hafi samþykkt þennan lið í tilraunum aðila til uppgjörs að undanskilinnii kröfu aðalstefnanda um greiðslu álags vegna vinnu utan hefðbundins vinnutíma.

k)       Viðbótarverk nr. 2009-216: Aðalstefnandi hafi gert svokallaða „blöðku“ undir kíttun í stóra þakgluggann („Structural Galsing“), sem viðbót í göngugötu að ósk gagnstefnanda. Um hafi verið að ræða 38 metra, sem aðalstefnandi krefjist greiðslu fyrir að fjárhæð 21.888 kr. Gagnstefnandi hafi samþykkt þennan lið í tilraunum aðila til uppgjörs.

l)         Viðbótarverk nr. 2009-217: Aðalstefnandi hafi borað viðbótargöt fyrir rafmagnsleiðslur að ósk gagnstefnanda. Gerð sé krafa samkvæmt reikningnum um að gagnstefnandi greiði fyrir 4 klst. vinnu, 5.976 kr. fyrir hverja klukkustund, samtals 23.904 kr., auk samningsbundinna verðbóta að fjárhæð 5.505 kr. og 6.848 kr. vegna aksturskostnaðar. Samtals sé krafist greiðslu á 36.257 kr.

m)     Viðbótarverk nr. 2009-218: Samkvæmt beiðni gagnstefnanda hafi aðalstefnandi endurgert „Structural Glazing“ fag, sem hafi brotnað. Gerð sé krafa samkvæmt reikningnum um greiðslu fyrir 2 klst. vinnu tæknimanns, 12.450 kr. fyrir hverja klukkustund, samtals 24.900 kr., fyrir 6 klst. vinnu iðnaðarmanns, 5.976 kr. fyrir hverja klukkustund, samtals 35.856 kr., allt að viðbættum samningsbundnum verðbótum að fjárhæð 16.480 kr., samtals 77.236 kr. Auk þess sé gerð krafa um greiðslu fyrir efni og flutning 81.234 kr. Samtals sé krafist greiðslu á 158.470 kr. Gagnstefnandi hafi samþykkt þennan lið í tilraunum aðila til uppgjörs.

n)       Viðbótarverk nr. 2009-219: Aðalstefnandi hafi borað gat á suðurhlið fyrir rafmagnsleiðslur að ósk gagnstefnanda. Gerð sé krafa samkvæmt reikningnum um greiðslu fyrir 4 klst. vinnu, 5.976 kr. fyrir hverja klukkustund, samtals 23.904 kr., auk samningsbundinna verðbóta að fjárhæð 5.505 kr. og 6.848 kr. vegna aksturskostnaðar. Samtals sé krafan 36.257 kr.

o)       Viðbótarverk nr. 2009-220: Aðalstefnandi hafi lagt til drenstúta að ósk gagnstefnanda og krefst greiðslu 4.500 kr. fyrir þá auk 3.500 kr. sendingarkostnaðar, samtals 8.000 kr. Aðalstefnandi bauðst til að draga þennan reikningslið til baka í tilraunum til uppgjörs við gagnstefnanda en það tilboð standi ekki lengur.

p)       Viðbótarverk nr. 2009-221: Aðalstefnandi hafi lagt til fjóra pakka af póstaskrúfum að ósk gagnstefnanda til viðbótar við áður afhent magn og krefjist greiðslu vegna þeirra að fjárhæð 23.257 kr. Aðalstefnandi hafi áður afhent stefnda nægjanlegt magn og telji sig ekki bera ábyrgð á rýrnun á skrúfum hjá gagnstefnanda.

q)       Viðbótarverk nr. 2009-224: Aðalstefnandi hafi unnið við 56 horn á glugga í görðum að beiðni gagnstefnanda. Fyrir það krefst aðalstefnandi greiðslu 1.568.000 kr. auk 313.600 kr. álags, þar sem verkið hafi verið unnið utan hefðbundins vinnutíma og 32.600 kr. fyrir flutning, samtals 1.914.200 kr. Gagnstefnandi hafði samþykkt þennan lið í tilraunum aðila til uppgjörs að undanskilinni kröfu aðalstefnanda um greiðslu álags vegna vinnu utan hefðbundins vinnutíma.

r)        Viðbótarverk nr. 2009-225: Aðalstefnandi hafi lagað skemmdan prófíl að beiðni gagnstefnanda. Gerð sé krafa um greiðslu fyrir 2 klst. vinnu, 12.450 kr. á. klst., samtals 24.900 kr., auk samningsbundinna verðbóta að fjárhæð 7.399 kr. og efniskostnaðar, aksturskostnaðar og vélavinnukostnaðar að fjárhæð 26.648 kr. Samtals krefjist aðalstefnandi 58.947 kr. vegna þessa viðbótarverks. Gagnstefnandi hafi samþykkt þennan lið í tilraunum aðila til uppgjörs.

s)        Viðbótarverk nr. 2009-226: Aðalstefnandi hafi endursmíðað tvo glugga í garði að ósk gagnstefnanda. Gerð sé krafa um greiðslu 607.632 kr., að frádregnum 27.000 kr. vegna áður samþykktrar endursmíði og 218.748 kr. vegna kostnaðarverðs glers, festinga og ísetningar en að viðbættu 77.777 kr. álagi. vegna þess að verkið hafi verið unnið utan hefðbundins vinnutíma, auk samningsbundinna verðbóta að fjárhæð 130.645 kr. Samtals krefjist aðalstefnandi 570.307 kr.greiðslu vegna þessa viðbótarverks. Gagnstefnandi hafði samþykkt þennan lið í tilraunum aðila til uppgjörs að undanskilinni kröfu aðalstefnanda um greiðslu álags vegna vinnu utan hefðbundins vinnutíma.

t)        Viðbótarverk nr. 2009-227: Gagnstefnandi hafi óskað eftir því að aðalstefnandi legði sérstaklega til 12 hurðarhandföng af annarri og dýrari gerð en útboðsgögn kváðu á um. Aðalstefnandi hafi þurft að sérpanta þau. Aðalstefnandi krefjist greiðslu umframkostnaðar vegna þessa fyrir hvert handfang að fjárhæð 27.500 kr., samtals 330.000 kr., auk samningsbundinna verðbóta að fjárhæð 17.298 kr. Krafa samkvæmt þessum verklið sé því 347.928 kr.

u)       Viðbótarverk nr. 2009-228: Aðalstefnandi hafi þurft að endursmíða glugga af gerðinni „G_1500_02_Type B“ samkvæmt breyttri teikningu arkitekta nr. (31)4.23, samanber viðbótarverk 2009-202, áskilinn hafi verið réttur til að reikningsfæra síðar vegna glers. Aðalstefnandi krefjist 223.528 kr. greiðslu fyrir glerið. Gagnstefnandi hafði samþykkt þennan lið í tilraunum aðila til uppgjörs.

v)       Viðbótarverk nr. 2009-229: Arkitektar hafi breytt teikningu af horngluggum í húsi 2 og húsi 3. Aðalstefnandi hafi áður pantað gler samkvæmt fyrri teikningu. Krafist er 559.927 kr. greiðslu fyrir glerið. gagnstefnandi hafði samþykkt þennan lið í tilraunum aðila til uppgjörs.

w)      Viðbótarverk nr. 2009-231: Hönnuðir hafi ákveðið að hafa hert gler framan við steinvegg en ekki hafi verið gert ráð fyrir því á útboðsteikningum. Krafa um viðbótarkostnað vegna þessa sé 639.984 kr. Gagnstefnandi hafi samþykkt þennan lið í tilraunum aðila til uppgjörs.

x)       Viðbótarverk nr. 2009-232: Aðalstefnandi hafi fengið leiðrétta hurðarskrá 1. apríl 2009 og hafi í kjölfarið þurft að leiðrétta hurðabúnað á teikningum og efnispöntun hjá erlendum birgjum, senda inn leiðréttar teikningar o.fl. Krafa um greiðslu samkvæmt þessum lið sé fyrir 20,5 klst. teiknivinnu, 12.450 kr. fyrir hverja klst., samtals 255.225 kr. að viðbættum samningsbundnum verðbótum að fjárhæð 75.840 kr. Aðalstefnandi krefur gagnstefnanda samtals um 331.065 kr. vegna þessa verkliðar. gagnstefnandi hafi samþykkt þennan lið í tilraunum aðila til uppgjörs en ágreiningur hafi verið um fjárhæð þóknunar.

y)       Viðbótarverk nr. 2010-101: Aðalstefnandi hafi breytt póstum í fasöðu (þ.e. gluggaútvegg) í byggingu 1 að ósk gagnstefnanda. Krafist sé greiðslu vegna þessa fyrir 4 klst. vinnu smiðs á verkstæði, 5.976 kr. fyrri hverja klst., samtals 23.904 kr., fyrir 2 klst. vegna teiknivinnu og fundar, 12.450 kr. fyrir hverja klst., samtals 24.900 kr., hvort tveggja að viðbættum samningsbundnum verðbótum að fjárhæð 14.502 kr. Þá geri aðalstefnandi kröfu um greiðslu 68.848 kr. vegna efniskostnaðar og aksturs. Samtals sé krafan 132.154 kr. vegna þessa verkliðar. Gagnstefnandi hafi samþykkt þennan lið í tilraunum aðila til uppgjörs.

z)       Viðbótarverk nr. 2010-102: Aðalstefnandi hafi breytt festingum í fasöðu í byggingu 1 að ósk gagnstefnanda. Aðalstefnandi krefur gagnstefnanda um greiðslu vegna þessa fyrir 4 klst. vinnu smiðs á verkstæði, 5.976 kr. fyrri hverja klst., samtals 23.904 kr., að viðbættum samningsbundnum verðbótum að fjárhæð 7.103 kr. Þá gerir aðalstefnandi kröfu um að gagnstefnandi greiði sér vegna aksturs og vélavinnu 14.448 kr. Samtals krefur aðalstefnandi gagnstefnanda um greiðslu á 45.455 kr. vegna þessa verkliðar. Gagnstefnandi hafi hafnað þessum lið í tilraunum aðila til uppgjörs og sagt að festingar hafi snúið öfugt en ekki hafi verið sýnt fram á það.

Samanlögð fjárhæð ofangreindra viðbótarverka er 7.817.098 kr. Reikningur aðalstefnanda nr. 71, sem aðalstefnandi krefst greiðslu á nemur 2 kr. lægri fjárhæð vegna samreiknings á virðisaukaskatti.

                Reikningur nr. 64, útgefinn 18. janúar 2010 að fjárhæð 4.769 kr. Gagnstefnandi hafi fengið hjá aðalstefnanda 200 stk. af svonefndum „Oval Head“ skrúfum á grundvelli beiðni númer 293475. Aðalstefnandi krefji gagnstefnanda um 4.769 kr. vegna þessa.

Reikningur nr. 74, útgefinn 31. mars 2010 að fjárhæð 9.413.376 kr. Reikningurinn er vegna viðbótarverka sem nánar eru skýrð þannig:

a)       Viðbótarverk 2010-103: Samkvæmt beiðni gagnstefnanda hafi aðalstefnandi framleitt stálprófíla í plastlista og setti undir „hurðir_H1“ og „hurðir-H6“, alls 12 stk. Gerð sé krafa um greiðslu vegna þessa fyrir vinnu smiðs í 8 klst., 5.976 kr. fyrir hverja klukkustund, samtals 47.808 kr., að viðbættum samningsbundnum verðbótum að fjárhæð 14.256 kr., auk efniskostnaðar vegna 21 metra af prófíljárni að fjárhæð 26.460 kr.. Samtals krefjist aðalstefnandi 88.524 kr. vegna þessa verkliðar, auk 711 kr. vegna hækkunar á virðisaukaskatti, samtals 89.235 kr. Gagnstefnandi hafi samþykkt að greiða helming þessarar kröfu í tilraunum aðila til uppgjörs.

b)       Viðbótarverk 2010-104: Samkvæmt beiðni gagnstefnanda hafi aðalstefnandi endurpantað rúður í hurðir í áfanga 1. Aðalstefnandi krefst greiðslu vegna þessa verkliðar fyrir vinnu tæknimanns í 8 klst., 12.450 kr. fyrir hverja klukkustund, samtals 99.600 kr., að viðbættum samningsbundnum verðbótum að fjárhæð 29.699 kr. Þá gerir aðalstefnandi kröfu til þess að gagnstefnandi greiði sér fyrir 35,9 m² öryggisgler í innri og ytri skífu 1.279.934 kr. Samtals krefjist aðalstefnandi 1.409.234 kr. vegna þessa verkliðar, auk 11.319 kr. vegna hækkunar á virðisaukaskatti, samtals 1.420.553 kr. Gagnstefnandi hafi ekki samþykkt að greiða þennan verklið að fullu og hafi borið fyrir sig að glerin hafi ekki fundist á staðnum eða þau hafi verið of stór og nokkuð hafi vantað í gáma. Þá hafi gagnstefnandi einnig borið fyrir sig að hafa ekki haft vitneskju um hvað var komið á staðinn við yfirtöku aðalstefnanda. Nokkur gler hafi verið brotin á staðnum af verktökum, sem gagnstefnandi samþykkti að greiða fyrir. Aðalstefnandi telji að rýrnun og ónýting glerja þessara hafi alfarið verið á ábyrgð gagnstefnanda eftir yfirtöku á uppsetningarhluta eldri verksamnings, enda í hans verkahring að gæta að efninu, varðveita það svo sem frekast var kostur og eftir atvikum að tilkynna öll flutningstjón til tryggingaraðila sem meti flutningstjón. Engar tilkynningar um tjón sem rekja megi til flutnings liggi fyrir.

c)       Viðbótarverk 2010-105: Samkvæmt beiðni gagnstefnanda hafi aðalstefnandi útbúið 14 horn á glugga í görðum í húsi 6 vegna breytinga á hönnun arkitekta. Aðalstefnandi krefjist greiðslu að fjárhæð 28.000 kr. fyrir hvert horn á grundvelli einingaverðs að viðbættum samningsbundnum verðbótum að fjárhæð 21.626 kr. og flutningskostnaði að fjárhæð 32.600 kr. Samtals krefjist aðalstefnandi 446.226 kr. vegna þessa verkliðar, auk 3.584 kr. vegna hækkunar á virðisaukaskatti, samtals 449.811 kr. Gagnastefnandi hafi samþykkt þennan lið í tilraunum aðila til uppgjörs að undanskilinni kröfu aðalstefnanda um greiðslu álags vegna vísitöluhækkunar og flutnings framleiðslunnar á verkstað.

d)       Viðbótarverk 2010-106: Aðalstefnandi hafi endurpantað gler í glugga í áfanga 1 hús 3 að beiðni gagnstefnanda. Aðalstefnandi krefst greiðslu vegna þessa fyrir 6 klst. vinnu tæknimanns, 12.450 kr. fyrir hverja klukkustund, samtals 74.400 kr. að viðbættum verðbótum samkvæmt samningi að fjárhæð 22.275 kr., auk efniskostnaðarins að fjárhæð 2.324.699 kr. Samtals krefjist aðalstefnandi greiðslu 2.421.673 kr. vegna þessa verkliðar, auk 19.451 kr. vegna hækkunar á virðisaukaskatti, samtals 2.441.125 kr. Gagnstefnandi hafi ekki samþykkt að greiða þennan verklið að fullu og hafi borið fyrir sig að glerin hafi ekki fundist á staðnum eða þau hafi verið of stór og nokkuð hafi vantað í gáma. Þá hefur gagnstefnandi einnig borið fyrir sig að hafa ekki haft vitneskju um hvað var komið á staðin við yfirtöku aðalstefnanda. Nokkur gler hafi verið brotin á staðnum af verktökum, sem gagnstefnandi samþykkti að greiða fyrir. Aðalstefnandi telur að rýrnun og ónýting glerja þessara hafi alfarið verið á ábyrgð gagnstefnanda eftir yfirtöku á uppsetningarhluta eldri verksamnings, enda í hans verkahring að gæta að efninu, varðveita það svo sem frekast var kostur og eftir atvikum að tilkynna öll flutningstjón til tryggingaraðila sem kemur og metur flutningstjón. Engar tilkynningar um tjón sem rekja megi til flutnings liggi fyrir. Engar tilkynningar liggi fyrir um að gler hafi ekki skilað sér eða að gler hafi vantað í gám sem ekki eigi sér eðlilegar skýringar og hafi ekki komið með næsta gámi.

e)       Viðbótarverk 2010-107: Aðalstefnandi hafi endurpantað gler í glugga í áfanga 1 hús 2 að beiðni gagnstefnanda. Krafist sé greiðslu vegna þessa fyrir 9 klst. vinnu tæknimanns, 12.450 kr. fyrir hverja klukkustund, samtals 112.050 kr. að viðbættum verðbótum samkvæmt samningi að fjárhæð 33.412 kr., auk efniskostnaðarins að fjárhæð 2.887.597 kr. Samtals krefst aðalstefnandi greiðslu 3.033.058 kr. vegna þessa verkliðar, auk 24.362 kr. vegna hækkunar á virðisaukaskatti, samtals 3.057.420 kr. Gagnstefnandi hafi ekki samþykkt að greiða þennan verklið að fullu og hafi borið fyrir sig að glerin hafi ekki fundist á staðnum eða þau hafi verið of stór og nokkuð hafi vantað í gáma. Þá hafi gagnstefnandi einnig borið fyrir sig að hafa ekki haft vitneskju um hvað var komið á staðinn við yfirtöku aðalstefnanda. Nokkur gler hafi verið brotin á staðnum af verktökum, sem gagnstefnandi samþykkti að greiða fyrir. Aðalstefnandi telji að rýrnun og ónýting glerja þessara hafi alfarið verið á ábyrgð gagnstefnanda eftir yfirtöku á uppsetningarhluta eldri verksamnings, enda í hans verkahring að gæta að efninu, varðveita það svo sem frekast var kostur og eftir atvikum að tilkynna öll flutningstjón til tryggingaraðila sem meti flutningstjón. Engar tilkynningar um tjón sem rekja megi til flutnings liggi fyrir. Engar tilkynningar liggi fyrir um að gler hafi ekki skilað sér eða að gler hafi vantað í gám sem ekki eigi sér eðlilegar skýringar og hafi ekki komið með næsta gámi.

f)        Viðbótarverk 2010-108: Aðalstefnandi hafi endurpantað meira gler í glugga í áfanga 1 hús 2 að beiðni gagnstefnanda vegna breytinga á gluggum að ósk arkitekta. Aðalstefnandi krefjist greiðslu vegna þessa fyrir 6 klst. vinnu tæknimanns, 12.450 kr. fyrir hverja klukkustund, samtals 74.700 kr. að viðbættum samningsbundnum verðbótum að fjárhæð 22.275 kr., auk efniskostnaðarins að fjárhæð 549.516 kr. Samtals sé krafan 651.683 kr. vegna þessa verkliðar að meðtöldum 5.193 kr. vegna hækkunar á virðisaukaskatti. Gagnstefnandi hafi ekki samþykkt að greiða þennan verklið að fullu.

g)       Viðbótarverk 2010-109: Aðalstefnandi hafi endursmíðað laus fög sem skemmdust á verkstað. Gagnstefnandi hafi tekið einhliða ákvörðun um að senda fögin til verksmiðju aðalstefnanda en lagfæringu hafi mátt sinna án mikillar fyrirhafnar á verkstað að mati aðalstefnanda. Við móttöku hjá aðalstefnanda hafi fögin verið meira og minna skemmd og einungis mögulegt að lagfæra 10 fög af 12. Aðalstefnandi krefji gagnstefnanda um greiðslu fyrir 13 klst. vinnu iðnaðarmanns, 5.976 kr. fyrir hverja klukkustund, samtals 77.688 kr. að viðbættum samningsbundnum verðbótum að fjárhæð 23.166 kr., auk efniskostnaðar samkvæmt einingaverðum, 1.983.110 kr., að frádregnum nýtilegum hlutum úr eldri fögum, þ.e.a.s. gleri, lömum, læsingum og póstum, 856.000 kr., og vegna flutningskostnaðar, 65.200 kr. Samtals sé krafa 1.303.550 kr. vegna þessa verkliðar. þar með taldar 10.387 kr. vegna hækkunar á virðisaukaskatti.

Samanlögð fjárhæð ofangreindra viðbótarverka sé 9.413.377 kr. Reikningur aðalstefnanda nr. 74, sem aðalstefnandi krefst greiðslu á nemi 1 kr. lægri fjárhæð vegna samreiknings á virðisaukaskatti.

                Reikningur nr. 83, útgefinn 28. febrúar 2010 að fjárhæð 5.251.960 kr. Reikningurinn sé vegna framvindu 2. áfanga verksins í janúar 2010. Við reikningsgerðina hafi aðalstefnandi stuðst við framvinduyfirlit 2. áfanga. Gagnstefnandi hafi ekki greitt þennan reikning, ekki gert aðalstefnanda grein fyrir ástæðu þess né heldur rökstutt frádrátt. Aðalstefnandi krefjist greiðslu reikningsins að fjárhæð 5.251.960 kr.

                Reikningur nr. 84, útgefinn 28. febrúar 2010 að fjárhæð. 437.075 kr. Reikningurinn sé vegna framvindu 1. áfanga verksins í janúar 2010. Við reikningsgerðina hafi aðalstefnandi stuðst við framvinduyfirlit 1. áfanga. gagnstefnandi hafi ekki greitt reikninginn og hvorki rökstutt greiðslufall né frádrátt. Aðalstefnandi krefjist því greiðslu reikningsins að fjárhæð 437.075 kr.

Reikningur nr. 77, útgefinn 2. mars 2010 að fjárhæð 2.614.690 kr. Reikningurinn sé vegna viðbótarverka sem nánar séu skýrð þannig:

a)       Viðbótarverk 2010-110: Gagnstefnandi óskaði eftir 0,6 m breiðum EPMD-dúk til viðbótar því sem aðalstefnandi hafði áður afhent. Samtals krefur aðalstefnandi gagnstefnanda um greiðslu á 65.320 kr. vegna þessa verkliðar, auk 525 kr. vegna hækkunar á virðisaukaskatti, samtals 65.845 kr.

b)       Viðbótarverk 2010-111: Gagnstefnandi óskaði eftir hornum á glugga í görðum í húsi 6 vegna breytinga á hönnun arkitekta. Aðalstefnandi gerir kröfu um að gagnstefnandi greiði fyrir 2 horn, einingaverð 28.000 kr., samtals 56.000 kr. að viðbættum verðbótum að fjárhæð 3.089 kr. og fyrir 8 pressuplötur með „Cover“, 6.000 kr. fyrir hverja, samtals 32.600 kr. Aðaltefnandi krefur því gagnstefnanda um greiðslu á 139.689 kr. vegna þessa verkliðar, auk 1.122 kr. vegna hækkunar á virðisaukaskatti, samtals. 140.811 kr. Gagnstefnandi hafði samþykkt þennan lið í tilraunum aðila til uppgjörs að undanskilinni kröfu aðalstefnanda um greiðslu álags vegna vinnu utan hefðbundins vinnutíma.

c)       Viðbótarverk 2010-112: Ósamræmi var í teikningum arkitekta. Þetta kallaði á aukavinnu tæknimanna aðalstefnanda sem hann krefur gagnstefnanda um greiðslu á. Krafist er greiðslu fyrir 8 klst. vinnu tæknimanna, 12.450 kr. fyrir hverja klukkustund, samtals 99.600 kr. að viðbættum samningsbundnum verðbótum að fjárhæð 29.699 kr. vegna þessa verkliðar, auk 1.039 kr. vegna hækkunar á virðisaukaskatti, samtals 130.338 kr.

d)       Viðbótarverk 2010-113: Ósamræmi var í teikningum arkitekta. Þetta kallaði á aukavinnu tæknimanns aðalstefnanda sem hann krefur gagnstefnanda um greiðslu á. Krafist er greiðslu fyrir 2 klst. vinnu tæknimanns, 12.450 kr. fyrir hverja klukkustund, samtals 24.900 kr. að viðbættum samningsbundnum verðbótum að fjárhæð 7.425 kr. vegna þessa verkliðar, auk 260 kr. vegna hækkunar á virðisaukaskatti, samtals 32.584 kr.

e)       Viðbótarverk 2010-114: Áður samþykktum teikningum af hurðum í húsi 2 var breytt af tæknimönnum aðalstefnanda en mistök í flotun gólfa innanhúss leiddu til breyttra hæðarmála á útihurðum. Vegna þessa krefur aðalstefnandi gagnstefnanda um greiðslu fyrir 28 klst. vinnu tæknimanna, 12.450 kr. fyrir hverja klukkustund, samtals 348.600 kr. að viðbættum samningsbundnum verðbótum að fjárhæð 103.948 kr., auk 3.635 kr. vegna hækkunar á virðisaukaskatti, samtals 456.183 kr.

f)        Viðbótarverk 2010-115: Gagnstefnandi óskaði eftir því að aðalstefnandi breytti K-festingu í byggingu 1. Aðalstefnandi hafði áður sparað húsbyggjanda verulega fjárhæð með lausn þar sem ekki þurfti lengur allt stál á bak við gluggakerfi en umrædd breyting var nauðsynleg vegna hinnar nýju lausnar. Vegna þessa krefur aðalstefnandi gagnstefnanda um greiðslu fyrir 6,5 klst. vinnu tæknimanns, 12.450 kr. fyrir hverja klukkustund, samtals 80.925 kr. að viðbættum samningsbundnum verðbótum að fjárhæð 24.131 kr., auk 844 kr. vegna hækkunar á virðisaukaskatti, samtals 105.900 kr.

g)       Viðbótarverk 2010-116: Arkitekt í umboði gagnstefnanda óskaði eftir því að aðalstefnandi kannaði möguleika á breytingu á skúffum í görðum. Vegna þessa krefur aðalstefnandi gagnstefnanda um greiðslu fyrir 3 klst. vinnu tæknimanns, 12.450 kr. fyrir hverja klukkustund, samtals 37.350 kr. að viðbættum samningsbundnum verðbótum að fjárhæð 11.137 kr., auk 389 kr. vegna hækkunar á virðisaukaskatti, samtals 48.877 kr.

h)       Viðbótarverk 2010-117: Gagnstefnandi ákvað, að tillögu aðalstefnanda, að breyta úr svokölluðu „Add-on FW50+AOS“ kerfi, sbr. útboðsgögn, yfir í svokallað „FW50+50mm“ kerfi en það sparaði húsbyggjanda umtalsverðar fjárhæðir þar sem húsbyggjandi sparaði sér að setja stálleiðara innan við allt gluggakerfið eins og fyrirskrifað er í verklýsingu. „Add-on“ kerfið, eins og fram kemur á teikningum og lesa má í verklýsingu, þ.e. efni, vinna, festingar og uppsetning, er ódýrara kerfi þar sem sjálft burðarkerfið, sem var stál í þessu tilfelli skv. verklýsingu, hefði átt að setja upp af aðalverktaka og miðaðist upphaflegt tilboð Formaco ehf. í verkið við það. Vegna þessa krefur aðalstefnandi gagnstefnanda um greiðslu fyrir 26 klst. vinnu tæknimanna, 12.450 kr. fyrir hverja klukkustund, samtals 323.700 kr. að viðbættum samningsbundnum verðbótum að fjárhæð 96.523 kr. Þá krefur aðalstefnandi gagnstefnanda um mismunaverð á kerfum að fjárhæð 548.874 kr. en aðalstefnandi telur að kostnaður hefði ella orðið 2-3 milljónir króna. Til viðbótar krefst aðalstefnandi 7.784 kr. vegna hækkunar á virðisaukaskatti. Samtals krefur aðalstefnandi gagnstefnanda því um 976.881 kr. vegna þessa verkliðar.

i)        Viðbótarverk 2010-118: Aðalstefnandi þurfti að hanna og setja upp sérlausn vegna flasninga ofan við hurðir í byggingu 1. Samkvæmt útboðsgögnum, teikningu (31) 5.20 deili 3 eða verklýsingu, var ekkert sem sýndi að taka þyrfti tillit til sérlausna. Aðalstefnandi krefur gagnstefnanda um greiðslu fyrir 9,5 klst. vinnu við hönnun, teiknivinnu og fund, 12.450 kr. fyrir hverja klukkustund, samtals 118.275, kr. að viðbættum samningsbundnum verðbótum að fjárhæð 35.268 kr. Þá krefur hann gagnstefnanda vegna þessa enn fremur um 498.490 kr. fyrir efniskostnað, akstur, smíði flasninga og pólýhúðun. Samtals krefur aðalstefnandi gagnstefnanda vegna þessa verkliðar um 652.033 kr. að viðbættum 5.237 kr. vegna hækkunar á virðisaukaskatti, eða samtals um 657.270 kr.

Samanlögð fjárhæð ofangreindra viðbótarverka er 2.614.689 kr. Reikningur aðalstefnanda nr. 77, sem aðalstefnandi krefst greiðslu á nemur 1 kr. hærri fjárhæð vegna samreiknings á virðisaukaskatti.

Reikningur nr. 78, útgefinn 2. mars 2010 að fjárhæð 519.614 kr. – Viðbótarverk 2010-119. Gagnstefnandi óskaði eftir tveimur nýjum öryggisglerjum í innri og ytri skífu vegna þess að hann taldi að gler sem áður höfðu verið afhent væru ónýt. Fulltrúi aðalstefnanda skoðaði glerin sem búið var að koma fyrir í byggingunni án þess að tjón hefði verið tilkynnt fyrir ísetningu. Ljóst var við skoðun að rakasogsperlur sem féllu í gegnum skrúfugat á milli ytri og innri glerskífu hefðu strax átt að gefa til kynna að glerið væri þá orðið skemmt. Því hefðu starfsmenn gagnstefnanda ekki átt að hreyfa glerið úr flutningskistu og hífa það eins og gert var og þar með færa það úr ábyrgð sendanda eða tryggingarfélags. Starfsmenn gagnstefnanda fóru ekki eftir venjulegum vönduðum vinnubrögðum glerísetningarmanna, sem ber að skoða öll gler vandlega áður en hafist er handa við vinnu með þau. Aðalstefnandi krefur gagnstefnanda um greiðslu fyrir 2,2 klst. vinnu tæknimanns við skoðun glers, 12.450 kr. fyrri hverja klukkustund, samtals 27.935 kr. að viðbættum samningsbundnum verðbótum að fjárhæð 8.330 kr. og um 472.361 kr. fyrir 2 stk. 1480X4481 öryggisgler, samtals 515.474 kr. að viðbættum 4.140 kr. vegna hækkunar á virðisaukaskatti, samtals samkvæmt þessum lið 519.614 kr.

Reikningur nr. 82, útgefinn 30. apríl 2010 að fjárhæð 6.091.511 kr.

Reikningurinn er vegna viðbótarverka er nánar eru skýrð þannig:

a)       Viðbótarverk 2010-120: Prófill skemmdist og gagnstefnandi bað aðalstefnanda um nýjan. Aðalstefnandi krefur gagnstefnanda um greiðslu fyrir 1 klst. vinnu tæknimanns að fjárhæð 12.450 kr. og 2 klst. vinnu iðnaðarmanns, 5.976 kr. fyrir hverja klukkustund, samtals 11.952 kr., auk samningsbundinna verðbóta að fjárhæð 7.276 kr. Þá krefur aðalstefnandi gagnstefnanda um greiðslu fyrir efni, vélavinnu og akstur, samtals 32.048 kr. Samtals krefur aðalstefnandi gagnstefnanda um greiðslu 63.726 á kr. samkvæmt þessum lið að viðbættum 512 kr. vegna hækkunar á virðisaukaskatti, samtals 64.238 kr. Gagnstefnandi hafði samþykkt þennan lið í tilraunum aðila til uppgjörs.

b)       Viðbótarverk nr. 2010-121: Mál á hurð í prufurými breyttist vegna ónákvæmni við ílögn/gólfflotun. Aðalstefnandi varð að breyta teikningum vegna þess og krefur hann gagnstefnanda um kostnað því samfara vegna vinnu tæknimanns í 3,5 klst., 12.450 kr. fyrir hverja klukkustund, samtals 43.575 kr., að viðbættum samningsbundnum verðbótum að fjárhæð 12.993 kr. og 454 kr. vegna hækkunar á virðisaukaskatti, samtals 57.023 kr.

c)       Viðbótarverk nr. 2010-122: Máli á 24 hurðum breytt vegna ónákvæmni við ílögn/gólfflotun. Aðalstefnandi varð að breyta teikningum vegna þess og krefur gagnstefnanda um kostnað því samfara vegna vinnu tæknimanns í 48 klst., 12.450 kr. fyrir hverja klukkustund, samtals 597.600 kr., að viðbættum samningsbundnum verðbótum að fjárhæð 178.196 kr. og 6.231 kr. vegna hækkunar á virðisaukaskatti, samtals 782.028 kr.

d)       Viðbótarverk nr. 2010-123: Gagnstefnandi breytti hurðarskrá (útgáfa 9 og 10) og þurfti tæknimaður aðalstefnanda vegna þess að breyta teikningum og skrám fyrir verksmiðju og vann að því í júní 2009. Aðalstefnandi krefur gagnstefnanda um greiðslu fyrir 42 klst. vinnu tæknimanns, 12.450 kr. fyrir hverja klukkustund, samtals 522.900 kr. að viðbættum samningsbundnum verðbótum að fjárhæð 155.922 kr.og 5.452 kr. vegna hækkunar á virðisaukaskatti. Samtals krefur aðalstefnandi gagnstefnanda vegna þessa verkliðar um 684.274 kr. Gagnstefnandi samþykkti greiðsluskyldu sína vegna þessa verkliðs að hluta eða alls 124.630 kr. í tilraunum aðila til uppgjörs en gerði athugasemd við fjárhæð reikningsins að öðru leyti.

e)       Viðbótarverk nr. 2010-124: Gagnstefnandi breytti hurðarskrá (útgáfa 11) og þurfti tæknimaður aðalstefnanda vegna þess að breyta teikningum og skrám fyrir verksmiðju og vann að því í júlí 2009. Aðalstefnandi krefur gagnstefnanda um greiðslu fyrir 6 klst. vinnu tæknimanns, 12.450 kr. fyrir hverja klukkustund, samtals 74.700 kr. að viðbættum samningsbundnum verðbótum að fjárhæð 22.275 kr. og 779 kr. vegna hækkunar á virðisaukaskatti. Samtals krefur aðalstefnandi gagnstefnanda vegna þessa verkliðar um 97.753 kr. Gagnstefnandi samþykkti greiðsluskyldu sína vegna þessa verkliðs í tilraunum aðila til uppgjörs en gerði athugasemd við fjárhæð reikningsins.

f)        Viðbótarverk nr. 2010-125: Aðalstefnandi þurfti að breyta áður samþykktum teikningum af 11 hurðum í húsi 3 vegna ónákvæmni við ílögn/gólfflotun. Tæknimaður aðalstefnanda vann að breytingum í júlí 2009 og krefur aðalstefnandi gagnstefnanda um greiðslu fyrir 22 klst. vinnu hans, 12.450 kr. fyrir hverja klukkustund, samtals 273.900 kr. að viðbættum samningsbundnum verðbótum að fjárhæð 81.673 kr. og 2.856 kr. vegna hækkunar virðisaukaskatts, samtals krefur aðalstefnandi því gagnstefnanda um 358.429 kr. vegna þessa verkliðar.

g)       Viðbótarverk nr. 2010-126: Gagnstefnandi sérpantaði 10 hurðarhandföng. Aðalstefnandi krefur gagnstefnanda um greiðslu viðbótarverðs í 2. áfanga vegna þess, 27.500 kr. fyrir hvert handfang, samtals 275.000 kr., auk samningsbundinna verðbóta að fjárhæð 13.350 kr. og 2.316 kr. vegna hækkunar á virðisaukaskatti. samtals krefur aðalstefnandi gagnstefnanda um greiðslu á 290.666 kr. samkvæmt þessum verklið.

h)       Viðbótarverk nr. 2010-127: Iðnaðarmaður frá aðalstefnanda varði 7 klst. í breytingar á festingum, sem nauðsynlegt reyndist að ráðast í vegna þess að skekkja var í teikningum sem þær voru upphaflega smíðaðar eftir. Aðalstefnandi krefur gagnstefnanda um greiðslu vegna þessa, 5.976 kr. fyrir hverja klukkustund að viðbættum samningsbundnum verðbótum að fjárhæð 12.474 kr., auk greiðslu fyrir akstur að fjárhæð 13.695 kr. og 546 kr. vegna hækkunar á virðisaukaskatti. Samtals 68.547 kr. vegna þessa verkliðar.

i)         Viðbótarverk nr. 2010-128: Aðalstefnandi lagði gagnstefnanda til 32 m af 0,65 m breiðum EPDM-dúk. Aðalstefnandi krefur gagnstefnanda um greiðslu á 52.256 kr. vegna þess auk kostnaðar við akstur að fjárhæð 6.848 kr. og 475 kr. vegna hækkunar virðisaukaskatts. Aðalstefnandi hafði dregið reikning þennan til baka við tilraunir aðila til uppgjörs en það boð stendur ekki lengur. Samtals krefur aðalstefnandi gagnstefnanda um greiðslu á 59.578 kr. vegna þessa verkliðar.

j)        Viðbótarverk nr. 2010-129: Aðalstefnandi þurfti að breyta áður samþykktum teikningum af 7 hurðum í húsi 2 og 3 vegna ónákvæmni við gólfílögn. Tæknimaður aðalstefnanda vann að breytingum í júlí 2009 og krefur aðalstefnandi gagnstefnanda um greiðslu fyrir 14 klst. vinnu hans, 12.450 kr. fyrir hverja klukkustund, samtals 174.300 kr. að viðbættum samningsbundnum verðbótum að fjárhæð 51.974 kr. og 1.817 kr. vegna hækkunar virðisaukaskatts. Samtals krefur aðalstefnandi því gagnstefnanda um 228.091 kr. vegna þessa verkliðs.

k)       Viðbótarverk nr. 2010-130: Arkitektar ákváðu að breyta umgengni á 7 hurðum skv. hurðaskrá útg. 12. Því þurfti að færa allan búnað sem teiknaður hafði verið í vinstri hurðir yfir í hægri og öfugt. Aðalstefnandi krefur gagnstefnanda um greiðslu fyrir 32,9 klst. vinnu tæknimanns vegna þessa, 12.450 kr.fyrir hverja klukkustund auk samningsbundinna verðbóta að fjárhæð 122.139 kr. og 4.271 kr. vegna hækkunar á virðisaukaskatti. Samtals krefur aðalstefnandi gagnstefnanda um 536.015 kr. vegna þessa verkliðar. Gagnstefnandi samþykkti greiðsluskyldu að hluta eða alls 99.704 kr. í tilraunum aðila til uppgjörs en gerði athugasemd við fjárhæð reikningsins að öðru leyti.

l)         Viðbótarverk nr. 2010-131: Aðalstefnandi boraði lagnagöt að beiðni gagnstefnanda og smíðaði lok yfir raflagnagöt sem gagnstefnandi ákvað að nota ekki. Aðalstefnandi gerir kröfu um að gagnstefnandi greiði fyrir 19,2 klst. vinnu iðnaðarmanns, 12.450 kr. fyrir hverja klukkustund, samtals 239.040 kr. að viðbættum samningsbundnum verðbótum að fjárhæð 71.279 kr. og 2.974 kr. vegna hækkunar virðisaukaskatts, samtals 373.293 kr.

m)     Viðbótarverk nr. 2010-132: Tæknimaður aðalstefnanda þurfti að leiðrétta framleiðslu-teikningar af horngluggum, sem höfðu verið teiknaðir upp á grundvelli teikninga arkitekta sem síðan reyndust rangar þegar mælt var á staðnum. Samsvarandi viðbótarverki 206. Aðalstefnandi krefur gagnstefnanda um greiðslu fyrir 8 klst. vinnu tæknimanns, 12.450 kr. fyrir hverja klukkustund, samtals 99.600 kr. að viðbættum verðbótum að fjárhæð 29.699 kr. og 1.039 kr. vegna hækkunar virðisaukaskatts, samtals 130.338 kr.

n)       Viðbótarverk nr. 2010-133: Aðalstefnandi þurfti að endurhanna hluta festinga  þakglugga í húsi 1 og sérsmíða 42 festingar. Ekki var mögulegt að smíða glugga í þeim málum sem sýnd voru í útboðsgögnum. Aðalstefnandi krefur gagnstefnanda um greiðslu fyrir 6,5 klst. vinnu tæknimanns, 12.450 kr. fyrir hverja klukkustund, samtals 80.925 kr., að viðbættum samningsbundnum verðbótum að fjárhæð 24.131 kr.. Þá krefur aðalstefnandi gagnstefnanda um greiðslu fyrir smíði 42 festinga, 3.625 kr. fyrir hverja, samtals 152.250 kr., 13.692 kr. fyrir akstur og 2.177 kr. vegna hækkunar virðisaukaskatts, samtals 273.177 kr. fyrir þennan verklið.

o)       Viðbótarverk nr. 2010-134: Gagnstefnandi fór fram á að aðalstefnandi legði til verksins EPDM-dúk við þakglugga þótt ekki væri gert ráð fyrir því í útboðs- og hönnunargögnum en þar er einfaldlega gert ráð fyrir að „þakdúkur“ skuli þéttast við glugga. Aðalstefnandi krefur gagnstefnanda samkvæmt verklið þessum um endurgjald fyrir 240 m af 0,6 m breiðum EPMD-dúk vegna þakglugga á A göngugötu, B göngugötu og Krossgötu, auk aksturskostnaðar að fjárhæð samtals 405.615 kr., auk 3.258 kr. vegna hækkunar á virðisaukaskatti, samtals vegna þessa verkliðar 408.873 kr.

p)       Viðbótarverk 2010-135: Gagnstefnandi pantaði hjá aðalstefnanda sérstakan búnað vegna björgunaropa. Aðalstefnandi krefur gagnstefnanda um endurgjald fyrir hann skv. þessum verklið að fjárhæð 71.246 kr. auk greiðslu fyrir akstur að fjárhæð 13.695 kr. og 682 kr. vegna hækkunar á virðisaukaskatti. Samtals krefur aðalstefnandi gagnstefnanda um greiðslu á 85.623 kr. vegna þessa verkliðar. Aðalstefnandi hafði samþykkt að draga þennan verklið til baka við tilraunir málsaðila til uppgjörs en það tilboð stendur ekki lengur.

q)       Viðbótarverk 2010-136: Gagnstefnandi óskaði eftir því að aðalstefnandi skipti út þremur rafdrifnum hurðarpumpum af „Slim Drive“ gerð sem gagnstefnandi og hönnuður höfðu áður samþykkt, þrátt fyrir að aðalstefnandi legði til aðra lausn í upphafi. Vegna þessa viðbótarverks krefur aðalstefnandi gagnstefnanda um greiðslu fyrir 4 klst. vinnu tæknimanns, 12.450 kr.fyrir hverja klukkustund, samtals 49.800 kr., fyrir 12 klst. vinnu iðnaðarmanns, 5.976 kr.fyrir hverja klukkustund, samtals 71.712 kr., að viðbættum samningsbundnum verðbótum að fjárhæð 36.233 kr.. Þá krefst aðalstefnandi greiðslu fyrir 3 hurðapumpur af gerðinni „GEZE 160“ að fjárhæð 663.465 kr., fyrir akstur 13.695 kr. og 6.706 kr.vegna hækkunar á virðisaukaskatti. Samtals krefur aðalstefnandi gagnstefnanda um 841.611 kr.vegna þessa verkliðar.

r)        Viðbótarverk nr. 2010-137: Prófílar skemmdust á verkstað og telur aðalstefnandi að gagnstefnandi beri ábyrgð á því vegna umsjónarskyldna sinna. Prófílarnir voru rifnir úr, beygðir og bjagaðir og ekki var mögulegt að endurnýta þá með því að láta polyhúða þá eins og gagnstefnandi hafði heimilað. Prófílarnir voru því ónýtir og aðalstefnandi útbjó nýja. Aðalstefnandi krefur gagnstefnanda vegna þessa um greiðslu fyrir 3 klst. vinnu tæknimanns, 12.450 kr. fyrir hverja klukkustund, 37.350 samtals kr., fyrir 5 klst. vinnu iðnaðarmanns, 5.976 kr. fyrir hverja klukkustund, samtals 29.880 kr., að viðbættum samningsbundnum verðbótum að fjárhæð 20.047 kr., auk efniskostnaðar og aksturskostnaðar að fjárhæð 658.685 kr. og 5.992 kr. vegna hækkunar virðisaukaskatts. Samtals krefur aðalstefnandi gagnstefnanda um greiðslu á 751.954 kr. vegna þessa verkliðar.

Samanlögð fjárhæð ofangreindra viðbótarverka er 6.091.511 kr., sem er fjárhæð reiknings nr. 82, sem aðalstefnandi krefur gagnstefnanda um greiðslu á.

                Reikningur nr. 89, útgefinn 20. apríl 2010 að fjárhæð 488.287 kr. Um er að ræða lokareikning aðalstefnanda vegna framvindu áfanga 1. Við reikningsgerðina studdist aðalstefnandi við framvinduyfirlit 1. áfanga. Gagnstefnandi hefur ekkert greitt aðalstefnanda vegna þessa reiknings, sem aðalstefnandi krefst greiðslu á. Gagnstefnandi hefur ekki gert aðalstefnanda grein fyrir því hvers vegna reikningurinn hefur ekki verið greiddur að fullu né heldur rökstutt frádrátt. Aðalstefnandi krefur því gagnstefnanda um greiðslu reikningsins að fjárhæð 488.287 kr.

                Reikningur nr. 93, útgefinn 20. apríl 2010 að fjárhæð 1.808.297 kr. Um er að ræða lokareikning aðalstefnanda vegna framvindu áfanga 2. Við reikningsgerðina studdist aðalstefnandi við framvinduyfirlit 2. áfanga. Gagnstefnandi hefur ekkert greitt aðalstefnanda vegna þessa reiknings, sem aðalstefnandi krefst greiðslu á. Gagnstefnandi hefur ekki gert aðalstefnanda grein fyrir því hvers vegna reikningurinn hefur ekki verið greiddur að fullu né heldur rökstutt frádrátt. Aðalstefnandi krefur því gagnstefnanda um greiðslu reikningsins að fjárhæð 1.808.297 kr.

                Reikningur nr. 94, útgefinn 20. apríl 2010 að fjárhæð 15.093 kr. Gagnstefnandi keypti 200 skrúfur (5,5x48) af aðalstefnanda og krefur aðalstefnandi gagnstefnanda um greiðslu á 15.093 kr. vegna þeirra kaupa. Í skýringu með reikningi eru kaupin sögð vera vegna flugstöðvar 5300 en um var að ræða kaup gagnstefnanda á skrúfum vegna verks sem gagnstefnandi var með fyrir Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Aðalstefnandi heldur því fram að gagnstefnandi hafi ekki greitt sér verklaun samkvæmt þeim reikningum, sem að framan eru raktir. Gagnstefnandi hafi ýmist borið fyrir sig að aðalstefnandi eigi ekki réttmætt tilkall til greiðslu fyrir þau viðbótarverk sem krafist sé greiðslu fyrir eða að gagnstefnandi eigi sjálfur ýmsar gagnkröfur á hendur aðalstefnanda vegna galla á verki aðalstefnanda eða vinnuframlags gagnstefnanda til verksins, sem aðalstefnandi hafi með réttu átt að sinna. Með vísan til þessa hafi gagnstefnandi gefið út fjölda reikninga á hendur aðalstefnanda, samtals að fjárhæð 37.275.100 krónur, vegna vinnu sinnar eða annarra vegna ætlaðra vanefnda aðalstefnanda á verksamningnum, en aðalstefnandi mótmæli öllum þessum reikningum gagnstefnanda.

Þá vísar aðalstefnandi til þess að vinna hans og framlag í þágu gagnstefnanda og heildarverksins hafi verið nauðsynleg til þess að gagnstefnandi gæti skilað verki sínu með fullnægjandi hætti til verkkaupans, Eignarhaldsfélagsins Fasteignar ehf. og þar með að það félag gæti síðan skilað byggingunni til leigutaka hennar, Háskólans í Reykjavík, með viðunandi hætti. Aðalstefnandi telji að með framlagi sínu hafi verðgildi fasteignarinnar aukist enda sé útilokað að ætla að gagnstefnandi hefði hætt við að láta framkvæma verkin, jafnvel þótt hann hafi gert ráð fyrir tilteknum kostnaði vegna þeirra.

Ennfremur sé byggt á því að gagnstefnandi geti og hafi í skjóli aðalverktakasamnings við eignarhaldsfélagið Fasteign hf. krafið verkkaupa um greiðslur á þeim kröfum sem lúti að þeim viðbótarverkum sem aðalstefnandi krefji hann um greiðslur fyrir. Gagnstefnandi verði því ekki fyrir fjárhagslegu tjóni við greiðslu á kröfum aðalstefnanda heldur sé líklegra að gagnstefnandi hagnist á kostnað aðalstefnanda verði kröfur hans ekki teknar til greina. Með vísan til þessa sé byggt á því til vara af hálfu aðalstefnanda að hann eigi allt að einu rétt til umkrafinna fjárhæða enda sé það sanngjarnt vegna vinnu hans og útlagðs kostnaðar.

Um gjalddaga hvers einstaks reiknings aðalstefnanda sé vísað til 2. mgr. 7. gr. hins yfirtekna undirverktakasamnings þar sem komi fram að gagnstefnanda hafi borið skylda til að greiða reikninga aðalstefnanda við lok næsta mánaðar eftir reikningsgerð.

Um lagarök til stuðnings kröfum sínum vísar aðalstefnandi til laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og reglna kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga. Kröfur um dráttarvexti styðji aðalstefnandi við 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og upphafsdag þeirra til 1. mgr. 5. gr. sömu laga. Krafan um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála

III.

Málsástæður og lagarök gagnstefnanda í aðalsök

Gagnstefnandi mótmælir ekki fjárhæðum eða greiðsluskyldu eftirfarandi framvindureikninga, samtals að fjárhæð 27.532.201 kr.: Reikning nr. 29, að fjárhæð 2.944.809 kr., reikning nr. 30 að fjárhæð 1.559.448 kr., eftirstöðvar reiknings nr. 34 að fjárhæð 905.852 kr., reikning nr. 53 að fjárhæð 5.079.624 kr., eftirstöðvar reiknings nr. 58 að fjárhæð 3.985.746 kr., reikning nr. 66 að fjárhæð 1.804.811 kr., reikning nr. 67 að fjárhæð 3.266.292 kr., reikning nr. 83 að fjárhæð 5.251.960 kr., reikning nr. 84 að fjárhæð 437.075 kr., reikning nr. 89 að fjárhæð 488.287 kr., og reikning nr. 93 að fjárhæð 1.808.297 kr. Til frádráttar þessum reikningum komi greiðsla gagnstefnanda að fjárhæð 7.000.000 kr. sem hann hafi þegar innt af hendi sem greiðsla ótiltekinna reikninga. Gagnstefnandi viðurkenni því að skulda aðalstefnanda 20.532.201 kr. vegna ógreiddra framvindureikninga.

Þá mótmælir gagnstefnandi ekki kröfu um greiðslu að fjárhæð 8.513.778 kr. vegna auka- eða viðbótarverka. Ekki sé því deilt um kröfur aðalstefnanda að fjárhæð 29.045.979 kr. (20.532.201+8.513.778) í málinu og snúist því ágreiningur í aðalsök einkum um hvort aðalstefnandi eigi rétt á 20.010.577 krónum (49.056.556-29.045.979) vegna viðbótarverka.

                Gagnstefnandi byggir sýknukröfu sína á því að hann eigi gagnkröfur til skuldajafnaðar á móti framangreindum kröfum aðalstefnanda. Gagnkröfu sína byggir hann á því að hann eigi rétt á greiðslu vegna ýmissa auka- og viðbótarverka og kostnaðar sem hann hafi orðið fyrir vegna vanefnda aðalstefnanda á verksamningi og að hann eigi rétt á bótum vegna annars vegar vegna galla á verki aðalstefnanda og hins vegar vegna tafa á verklokum aðalstefnanda. Í greinargerð er því lýst að samtals nemi þessar gagnkröfur 79.793.117 kr. og krafa gagnstefnanda sé því, að frádregnum ágreiningslausum kröfum aðalstefnanda, 50.747.038 kr. Við upphaf aðalmeðferðar féll gagnstefnandi frá 14.000.000 kr. kröfu vegna galla í opnanlegum fögum og lækkaði kröfu sína í gagnsök sem því nam.

                Gagnstefnandi byggir á því að í samningi gagnstefnanda og Formaco ehf. frá 28. maí 2008, sem yfirtekinn hafi verið af aðalstefnanda með viðaukasamningi, sem undirritaður var í maí 2009, komi fram, nánar tiltekið í 2. mgr. 6. gr. að: Varðandi kröfur um greiðslur vegna aukaverka eða vegna breytinga á verki frá útboðslýsingu/teikningum, þá skal undirverktaki strax gera aðalverktaka grein fyrir breytingum/kröfum sínum þannig að hann geti strax upplýst EFF verkkaupa aðalverktaka um þær. Allar slíkar kröfur skal leggja fram skriflega og innan tímaramma útboðsgagna og ÍST 30. Sjá einnig skilmála útboðsgagna Hluti II, sérverklýsing, Kafli 9, Bretting (svo) á verki-aukaverk.

                Í útboðs- og samningsskilmálum þeim sem hafi gilt um verkið, grein 0.5.3 komi eftirfarandi fram: Verktaki má engin aukaverk eða viðbótarverk vinna nema samkvæmt skýlausum fyrirmælum verkkaupa. Allar upplýsingar um breytingar skulu vera skriflegar, svo og kröfugerð og samningar.

Í hluta II í útboðsgögnum, sérverklýsingu, sé að finna sambærilegt ákvæði um að engin viðbótar- eða aukaverk megi vinna nema samkvæmt skriflegum fyrirmælum. Einungis hafi verið heimilt að fylgja munnlegum fyrirmælum væri lífi eða eignum stefnt í hættu. Sambærilegt sé að finna í ákvæðum 16.6 og 16.7 í ÍST 30.

                Gagnstefnandi vísar til þess að aðalstefnandi hafi í málatilbúnaði sínum ekki gert grein fyrir því að þau viðbótarverk sem hann krefjist greiðslu fyrir hafi verið unnin samkvæmt skýlausum fyrirmælum verkkaupa, eða að fram hafi komið skrifleg fyrirmæli af hálfu gagnstefnanda um að aðalstefnandi skyldi framkvæma tiltekin auka- og viðbótarverk. Auk þess hafi aðalstefnandi ekki upplýst gagnstefnanda um slík verk og þar af leiðandi hafi gagnstefnandi ekki getað upplýst verkkaupa um þau. Því telji gagnstefnandi að aðalstefnandi eigi ekki rétt á greiðslu fyrir þau auka- og viðbótarverk sem hann geri kröfu um samkvæmt ákvæðum samninga.

Athuga beri að gagnstefnandi hafi, umfram skyldu og í því skyni að gæta ýtrustu sanngirni, samþykkt að greiða fyrir tiltekin auka- eða viðbótarverk, samtals að fjárhæð 8.513.778 kr.

                Auk þess byggi gagnstefnandi á því að þau auka- og viðbótarverk sem aðalstefnandi krefjist greiðslu fyrir hafi verið innifalin í verksamningi málsaðila og því eigi aðalstefnandi ekki rétt á greiðslu fyrir öll þessi verk. Þá liggi ekki fyrir sönnun um að þessi verk hafi í raun verið innt af hendi. Þar af leiðandi sé öllum kröfum aðalstefnanda um greiðslur fyrir auka- og viðbótarverk hafnað, að undanskildu verki að fjárhæð 8.513.778 kr., líkt og áður hafi komið fram.

Þá hafnar gagnstefnandi öllum kröfum aðalstefnanda um greiðslu álags á vinnu. Sú vinna sé tilkomin vegna þess að aðalstefnandi hafi ekki verið með nægilegt vinnuafl í verkinu. Í II. hluta sérverklýsingar, sem hafi verið hluti af útboðsgögnum, kafla 9, sé fjallað um breytingar á verki og aukaverk. Þar komi skýrt fram að ekki sé greitt fyrir yfirvinnu og því skuli tímagjaldið fyrir vinnu vera meðalgjald.

                Gagnstefnandi gerir nánar grein fyrir mótmælum sínum og athugasemdum við einstaka reikninga aðalstefnanda með eftirfarandi hætti:

Reikningur nr. 13., útgefinn 19. júní 2009, að fjárhæð 218.852 kr. – Viðbótarverk 204. Gerð er krafa um greiðslu reiknings vegna breytinga á framleiðsluteikningum vegna festinga í þakglugga. Gagnstefnandi hafnar þessum reikningi alfarið á þeim grundvelli að fyrri teikning aðalstefnanda sem hann lagði til grundvallar vegna verksins hafi aldrei verið samþykkt og því ekki um viðbótar- eða aukaverk að ræða enda hluti af verksamningi að leggja fram samþykktar teikningar, sbr. t.a.m. kafla 7.2.0 í II. hluta verklýsingar.

Reikningur nr. 14, útgefinn 19. júní 2009 að fjárhæð kr. 189.923 – Viðbótarverk 205. Gerð er krafa um greiðslu á kostnaði sem er tilkominn vegna teiknivinnu aðalstefnanda á álklæddum neyðarhurðum þar sem mismunur hafi komið fram á teikningum og raunstærðum. Gagnstefnandi hafnar þessum reikningi alfarið þar sem teiknivinna þessi sé innifalin í hönnunarvinnu aðalstefnanda, sbr. kafli 7.2.0 í II. hluta verklýsingar.

Reikningur nr. 15, útgefinn 19. júní 2009 að fjárhæð 174.097 kr. – Viðbótarverk 206. Gerð er krafa um kostnað vegna teiknivinnu aðalstefnanda vegna hornglugga.Gagnstefnandi fellst á að greiða 126.616 kr. vegna þessarar vinnu en hafnar öðrum kostnaði. Gagnstefnandi fellst á að greiða kostnað vegna teiknivinnu en hafnar því hins vegar að greiða aðra vinnu sem teljist hluti af hönnunarvinnu verktaka og því ekki viðbótarverk.

        Reikningur nr. 16, útgefinn 19. júní 2009 að fjárhæð 286.110 kr.– Viðbótarverk 207. Gerð er krafa um kostnað vegna hönnunar, efnis og vinnu við horn í inngörðum. Gagnstefnandi fellst á að greiða efniskostnað, samtals 37.943 kr. en hafnar öðrum kostnaði sem teljist hluti af hönnunarvinnu verktaka og flokkist því ekki sem viðbótarverk.

        Reikningur nr. 17, útgefinn 19. júní 2009 að fjárhæð 487.532 kr. – Viðbótarverk 209. Krafist er greiðslu á reikningi vegna breytinga á hönnun horna í inngörðum. Gagnstefnandi fellst á að greiða 67.500 kr. vegna skemmdra pósta sem talið er að verktakar á hans vegum hafi skemmt. Öðrum kostnaði er hafnað þar sem hann sé hluti af samningi aðila. Þar á meðal sé kostnaði hafnað sem felur í sér verk utan hefðbundins vinnutíma. Í hluta II í útboðsgögnum, sérverklýsingu, kafla 9 er fjallað um breytingu á verki og aukaverk. Þar kemur skýrt fram að ekki sé greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu og því skuli tímagjaldið fyrir vinnu vera meðalgjald.

        Reikningur nr. 33, útgefinn 25. september 2009 að fjárhæð 129.246 kr. Reikningur vegna kaupa aðalstefnanda á EPDM-dúk. Gagnstefnandi hafnar því að greiða umræddan kostnað þar sem aðalstefnanda bar að leggja til EPDM-dúk til þéttinga samkvæmt verklýsingu. Í 11. gr. viðaukasamnings, sbr. dskj. 31, kemur fram að Hamraborg útvegi efni vegna þéttinga að utan og vinkla undir hurðaþröskulda en þó ekki Schuco-dúk sem stefnda beri að útvega. Allt annað efni skuli stefndi útvega í verkið, sbr. einnig II. hluta verklýsingar (síða 7 af 27).

        Reikningur nr. 50, útgefinn 23. nóvember 2009 að fjárhæð 550.010 kr. – Viðbótarverk 222. Aðalstefnandi krefst greiðslu vegna ýmiss kostnaðar við að endursmíða tiltekna hurð. Gagnstefnandi samþykkir að greiða 221.297 kr. af þessum reikningi. Aðalstefnandi hefur ekki tekið tilliti til þess efnis sem var endurnýtanlegt í hurðina gagnstefnandi krefst þess að tekið sé tillit til þess efnis sem var endurnýtt og reikningurinn lækkaður sem því nemur.

        Reikningur nr. 62, útgefinn 31. desember 2009 að fjárhæð 12.436 kr. Viðbótarreikningur við reikning nr. 46 vegna gámaleigu. Gagnstefnandi hafnar umræddum reikningi þar sem í verklýsingu og viðaukasamningi sé gert ráð fyrir að aðalstefnandi útvegi allt efni í verkið. Hluti af því sé að greiða leigu á gámum sem er notaðir undir efni. Því sé það ekki á ábyrgð stýriverktaka að greiða leigu á gámum undir efni sem aðalstefnandi á að leggja fram.

        Reikningur nr. 71, útgefinn 31. desember 2009 að fjárhæð 7.817.096 kr.            Aðalstefnandi krefst greiðslu á nánar tilteknum viðbótarverkum undir þessum lið. Gagnstefnandi samþykkir að greiða 5.730.533 kr. af þeirri fjárhæð svo sem nánar er gerð grein fyrir í umfjöllun um einstaka liði hér að neðan.

a)         Viðbótarverk 201 –7.122 kr. Gagnstefnandi hafnar því alfarið að greiða sérstaklega fyrir það að starfsmaður aðalstefnanda hafi þurft að svara fyrirspurn í tölvupósti frá arkitektum. Ljóst sé að þegar aðalstefnandi tók að sér verkið sem um ræðir hafi það falið í sér að hafa almenn samskipti við aðra aðila vegna verksins, m.a. að svara almennum fyrirspurnum vegna þess. Gagnstefnandi hafnar því alfarið að slík samskipti geti talist viðbótarverk.

b)         Viðbótarverk 202 – 557.678 kr. Gagnstefnandi andmælir ekki reikningi vegna viðbótarverks 202 að fjárhæð 557.678 kr.

c)         Viðbótarverk 203 – 135.000 kr. Aðalstefnandi krefst þess að gagnstefnandi greiði kostnað vegna prófíla til hljóðmælinga. Gagnstefnandi hafnar því alfarið að greiða umræddan kostnað þar sem umrætt verk hafi frá upphafi verið innifalið í tilboði aðalstefnanda, sbr. kafla 7.2.0 í verklýsingu, hluta II (á síðu 7 af 27) þar sem taldar séu upp kröfur sem gerðar eru til burðarkerfis, hurða, gluggakerfis og glers. Formaco ehf. lagði í upphafi verks fram skilgreiningar á verkmörkum hvað þennan þátt varðar. Eftirlitsaðili verksins, verkfræðistofan Efla, lagði í framhaldi mat á þau verkmörk og var frá upphafi litið svo á að umrætt verk væri hluti af því samningsverki á grundvelli tilboðs Formaco ehf. sem aðalstefnandi tók yfir með viðbótarsamningi aðila.

d)         Viðbótarverk 208 – 53.611 kr. Aðalstefnandi krefst þess að gagnstefnandi greiði kostnað vegna viðbótarvinnu vegna misræmis í teikningum arkitekta. Gagnstefnandi hafnar því að greiða framangreindan kostnað þar sem misræmi hafi ekki fundist á umræddum teikningum.

e)         Viðbótarverk 210 – 554.004 kr. Gagnstefnandi andmælir ekki reikningi vegna viðbótarverks 210 að fjárhæð 554.004 kr.

f)          Viðbótarverk 211 – 729.550 kr. Aðalstefnandi krefst greiðslu vegna vinnu við sérfestingar vegna hönnunarmistaka. Gagnstefnandi hafnar því að greiða framangreindan kostnað þar sem gagnstefnandi hafi gert upp þennan kostnað við Formaco á sínum tíma. Með nýjum samningi hafi öll viðbótar- og aukaverk fyrir 1. mars 2009 talist uppgerð, sbr. grein 13 í samningnum.

g)         Viðbótarverk 212 – 29.527 kr. Gagnstefnandi andmælir ekki reikningi vegna viðbótarverks 212 að fjárhæð 29.527 kr.

h)         Viðbótarverk 213 – 21.552 kr. Aðalstefnandi krefst greiðslu vegna vinnu við að setja göt í raflagnir í karm við útgarð. Gagnstefnandi hafnar því að greiða framangreindan kostnað þar sem aðalstefnandi hafi átt að skila umræddum körmum með þessum götum. Aðalstefnandi beri því sjálfur kostnaðinn af því að hafa ekki skilað körmunum með réttum hætti, sbr. kafla 7.2.0 í verklýsingu, II. hluta (á síðu 7 af 27) þar sem taldar séu upp kröfur sem gerðar eru til burðarkerfis, hurða, gluggakerfis og glers, sbr. dskj. 35.

i)          Viðbótarverk 214 – 228.230 kr. Gagnstefnandi andmælir ekki reikningi vegna viðbótarverks 214.

j)          Viðbótarverk 215 – 403.200 kr. Aðalstefnandi krefst greiðslu við vinnu á hornum í gluggum á görðum. Gagnstefnandi samþykkir að greiða umræddan kostnað að undanskildu álagi á vinnu sem kemur til vegna þess að aðalstefnandi sé ekki með nægilegan mannskap í verkinu. Í II. hluta útboðsgagna, sérverklýsingu, kafla 9, sé fjallað um breytingu á verki og aukaverk. Þar kemur skýrt fram að ekki sé greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu og því skuli tímagjaldið fyrir vinnu vera meðalgjald. Gagnstefnandi fellst því á að greiða 336.000 kr. vegna þessa liðar.

k)         Viðbótarverk 216 – 21.888 kr. Gagnstefnandi andmælir ekki reikningi vegna viðbótarverks 216.

l)          Viðbótarverk 217 – 36.257 kr. Aðalstefnandi krefst greiðslu vegna vinnu við að bora viðbótargöt fyrir rafmagnsleiðslur. Gagnstefnandi hafnar því að greiða framangreindan kostnað þar sem aðalstefnandi hafi átt að skila umræddum körmum með þessum götum. Aðalstefnandi beri því sjálfur kostnaðinn af því að hafa ekki skilað körmunum með réttum hætti, sbr. kafla 7.2.0 í verklýsingu, II. hluta (á síðu 7 af 27) þar sem taldar séu upp kröfur sem gerðar eru til burðarkerfis, hurða, gluggakerfis og glers.

m)        Viðbótarverk 218 – 158.470 kr. Gagnstefnandi andmælir ekki reikningi vegna viðbótarverks 218.

n)         Viðbótarverk 219 – 36.257 kr. Aðalstefnandi krefst greiðslu vegna vinnu við að bora gat á suðurhlið fyrir rafmagnsleiðslur. Gagnstefnandi hafnar því að greiða framangreindan kostnað þar sem aðalstefnandi hafi átt að skila umræddum körmum með þessum götum. Aðalstefnandi beri því sjálfur kostnaðinn af því að hafa ekki skilað körmunum með réttum hætti, sbr. kafla 7.2.0 í verklýsingu, II. hluta (á síðu 7 af 27) þar sem taldar séu upp kröfur sem gerðar eru til burðarkerfis, hurða, gluggakerfis og glers.

o)         Viðbótarverk 220 – 8.000 kr. Aðalstefnandi krefst greiðslu vegna kostnaðar við drenstúta og sendingarkostnaðar. Gagnstefnandi hafnar því að greiða framangreindan kostnað þar sem um er að ræða efni sem var hluti af tilboði aðalstefnanda í verkið. Í 11. gr. viðaukasamnings, sbr. dskj. 31, komi fram að Hamraborg útvegi efni vegna þéttinga að utan og vinkla undir hurðaþröskulda en þó ekki Schüco-dúk sem aðalstefnanda beri að útvega. Allt annað efni skuli aðalstefnandi útvega í verkið, sbr. einnig II. hluta verklýsingar (síða 7 af 27).

p)         Viðbótarverk 221 – 23.257 kr. Aðalstefnandi krefst greiðslu vegna kostnaðar við póstaskrúfur. Gagnstefnandi hafnar því að greiða framangreindan kostnað þar sem umrætt efni er hluti af því efni sem aðalstefnanda bar að útvega samkvæmt verklýsingu og viðaukasamningi. Í 11. gr. viðaukasamnings, sbr. dskj. 31, komi fram að Hamraborg útvegi efni vegna þéttinga að utan og vinkla undir hurðaþröskulda en þó ekki Schuco-dúk sem aðalstefnanda beri að útvega. Allt annað efni skuli aðalstefnandi útvega í verkið, sbr. einnig II. hluta verklýsingar (síða 7 af 27).

q)         Viðbótarverk 224 – 1.914.200 kr. Aðalstefnandi krefst greiðslu við vinnu á hornum í gluggum á görðum. Gagnstefnandi samþykkir að greiða umræddan kostnað fyrir utan álag á vinnu sem komi til vegna þess að aðalstefnandi sé ekki með nægilegan mannskap í verkinu. Í II. hluta útboðsgagna, sérverklýsingu, kafla 9, sé fjallað um breytingu á verki og aukaverk. Þar komi skýrt fram að ekki sé greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu og því skuli tímagjaldið fyrir vinnu vera meðalgjald. Gagnstefnandi fellst því á að greiða 1.568.000 kr. vegna verksins.

r)          Viðbótarverk 225 – 58.947 kr. Gagnstefnandi andmælir ekki reikningi vegna viðbótarverks 225.

s)          Viðbótarverk 226 – 570.307 kr. Aðalstefnandi krefst greiðslu vegna vinnu við að endursmíða tvo glugga í garði. Gagnstefnandi samþykkir að greiða umræddan kostnað að undanskildu álagi á vinnu sem komi til vegna þess að aðalstefnandi sé ekki með nægilegan mannskap í verkinu. Í II. hluta útboðsgagna, sérverklýsingu, kafla 9, sé fjallað um breytingu á verki og aukaverk. Þar komi skýrt fram að ekki sé greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu og því skuli tímagjaldið fyrir vinnu vera meðalgjald. Gagnstefnandi fellst því á að greiða 492.530 kr. vegna verksins.

t)          Viðbótarverk 227 – 347.928 kr. Aðalstefnandi krefst greiðslu vegna kostnaðar við tólf hurðarhandföng. Gagnstefnandi hafnar því að greiða umræddan kostnað þar sem gögn að baki þessari kröfu séu ófullnægjandi og því ekki hægt að taka afstöðu til hennar.

u)         Viðbótarverk 228 – 223.528 kr. Gagnstefnandi andmælir ekki reikningi vegna viðbótarverks 228.

v)         Viðbótarverk 229 –559.927 kr. Gagnstefnandi andmælir ekki reikningi vegna viðbótarverks 229.

w)        Viðbótarverk 231 – 639.984 kr. Gagnstefnandi andmælir ekki reikningi vegna viðbótarverks 231.

x)         Viðbótarverk 232 – 331.065 kr. Aðalstefnandi krefst greiðslu vegna kostnaðar við að leiðrétta hurðabúnað á teikningum og efnispöntun hjá erlendum birgi. Stefnandi samþykkir að greiða 112.167 kr. vegna þessa verkþáttar sem byggi á mati stefnda á eðlilegri þóknun fyrir umrædda vinnu og verkkaupi hefur samþykkt.

y)         Viðbótarverk 101 – 132.154 kr. Gagnstefnandi andmælir ekki reikningi vegna viðbótarverks 101.

z)         Viðbótarverk 102 – 45.455 kr. Aðalstefnandi krefst kostnaðar við að breyta festingum í byggingu 1. Gagnstefnandi hafnar því að greiða þennan kostnað þar sem umræddar festingar hafi í upphafi verið rangt smíðaðar af aðalstefnanda miðað við samningsgögn. Af því leiði að aðalstefnandi beri sjálfur kostnað við að breyta þeim til samræmis við kröfur samningsgagna enda hluti af verksamningi að leggja fram samþykktar festingar, sbr. t.a.m. kafla 7.2.0 í II. hluta verklýsingar.

        Reikningur nr. 64, útgefinn 18. janúar 2010 að fjárhæð kr. 4.769. Aðalstefnandi krefst greiðslu vegna kostnaðar við 200 stk. af skrúfum. Gagnstefnandi hafnar því að greiða framangreindan kostnað þar sem umrætt efni sé hluti af því efni sem aðalstefnanda hafi borið að útvega samkvæmt verklýsingu og viðaukasamningi. Í 11. gr. viðaukasamnings komi fram að Hamraborg útvegi efni vegna þéttinga að utan og vinkla undir hurðaþröskulda en þó ekki Schuco-dúk sem aðalstefnanda beri að útvega. Allt annað efni skuli aðalstefnandi útvega í verkið, sbr. einnig II. hluta verklýsingar (síða 7 af 27).

        Reikningur nr. 74, útgefinn 31. mars. 2010 að fjárhæð 9.413.376 kr. Aðalstefnandi krefst greiðslu á nánar tilteknum viðbótarverkum undir þessum lið. Gagnstefnandi mótmælir ekki greiðslu að fjárhæð 1.889.895 kr. af þeirri fjárhæð svo sem nánar er gerð grein fyrir í umfjöllun um einstaka liði hér að neðan.

a)         Viðbótarverk 2010-103 – 89.235 kr. Gagnstefnandi andmælir ekki reikningi vegna viðbótarverks 2010-103.

b)         Viðbótarverk 2010-104 – 1.420.553 kr. Aðalstefnandi krefst greiðslu vegna kostnaðar við að endurpanta rúður í hurðir í áfanga 1. Gagnstefnandi hafnar því að greiða kostnað vegna þessa þar sem þær rúður sem hafi þurft að endurpanta komu ekki á verkstað, vantaði í gáma eða voru ekki af réttri stærð miðað við samningsgögn. Gagnstefnandi hefur áður upplýst stefnanda um hvaða gler hafi vantað á staðinn sem hafi verið á ábyrgð aðalstefnanda að afhenda. Gagnstefnandi samþykkir hins vegar að greiða fyrir gler sem voru brotin eftir afhendingu á verkstað af verktökum. Gagnstefnandi fellst á að greiða 117.422 kr. vegna þessa verkþáttar.

c)         Viðbótarverk 2010-105 – 449.811 kr. Aðalstefnandi krefst greiðslu vegna kostnaðar við að útbúa horn á glugga í görðum í húsi 6 vegna breytinga á hönnun arkitekta. Gagnstefnandi samþykkir að greiða umræddan kostnað að undanskildu álagi á vinnu sem komir til vegna þess að aðalstefnandi sé ekki með nægilegan mannskap í verkinu. Í II. hluta útboðsgagna, sérverklýsingu, kafla 9, sé fjallað um breytingu á verki og aukaverk. Þar komi skýrt fram að ekki sé greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu og því skuli tímagjaldið fyrir vinnu vera meðalgjald. Gagnstefnandi fellst því á að greiða 396.004 kr.vegna þessa verkþáttar.

d)         Viðbótarverk 2010-106 – 2.441.125 kr. Aðalstefnandi krefst greiðslu vegna þess að endurpanta þurfti gler í glugga í áfanga 1, hús 3. Gagnstefnandi hafnar því að greiða kostnað vegna þessa þar sem þær rúður sem þurfti að endurpanta hafi ekki komið á verkstað, vantað í gáma eða ekki verið af réttri stærð miðað við samningsgögn. Gagnstefnandi hefur áður upplýst aðalstefnanda um hvaða gler hafi vantað á staðinn sem hafi verið á ábyrgð aðalstefnanda að afhenda. Aðalstefnandi samþykkir hins vegar að greiða fyrir gler sem voru brotin eftir afhendingu á verkstað af verktökum. Gagnstefnandi fellst á að greiða 208.651 kr. vegna þessa verkþáttar.

e)         Viðbótarverk 2010-107 – 3.057.420 kr. Aðalstefnandi krefst kostnaðar vegna þess að endurpanta þurfti gler í glugga í áfanga 1, hús 2. Gagnstefnandi hafnar því að greiða kostnað vegna þessa þar sem þær rúður sem þurfti að endurpanta hafi ekki komið á verkstað, vantað í gáma eða ekki verið af réttri stærð miðað við samningsgögn. Gagnstefnandi hefur áður upplýst aðalstefnanda um hvaða gler hafi vantað á staðinn sem hafi verið á ábyrgð aðalstefnanda að afhenda. Gagnstefnandi samþykkir hins vegar að greiða fyrir gler sem voru brotin eftir afhendingu á verkstað af verktökum. Gagnstefnandi fellst á að greiða 645.373 kr. vegna verksins.

f)          Viðbótarverk 2010-108 – 651.683 kr. Aðalstefnandi krefst greiðslu vegna þess að endurpanta þurfti gler í glugga í áfanga 1, hús 2. Gagnstefnandi samþykkir að greiða 433.210 kr. vegna þessa verks. Gagnstefnandi hafnar kröfunni að öðru leyti og vísast til sömu skýringa og eiga við viðbótarkröfu 104 hér að framan.

g)         Viðbótarverk 2010-109 – 1.303.550 kr. Aðalstefnandi krefst greiðslu kostnaðar við að endursmíða laus fög sem skemmdust á verkstað. Gagnstefnandi hafnar því að greiða umræddan kostnað þar sem þessi fög hafi ekki verið skemmd af uppsetningarmönnum gagnstefnanda heldur hafi þau komið skemmd frá aðalstefnanda eða verið skemmd í flutningum á ábyrgð hans.

Reikningur nr. 77, útgefinn 2. mars. 2010 að fjárhæð 2.614.690 kr. Af reikningi 77 mótmælir gagnstefnandi ekki 218.922 kr., sjá sundurliðun einstakra liða hér að neðan.

a)         Viðbótarverk 110 – 65.845 kr. Aðalstefnandi krefst greiðslu á kostnaði vegna EPMD-dúks. Gagnstefnandi hafnar því að greiða framangreindan kostnað þar sem umrætt efni sé hluti af því efni sem aðalstefnanda bar að útvega samkvæmt verklýsingu og viðaukasamningi. Í 11. gr. viðaukasamnings komi fram að Hamraborg útvegi efni vegna þéttinga að utan og vinkla undir hurðaþröskulda en þó ekki Schüco-dúk sem aðalstefnanda beri að útvega, sbr. einnig II. hluta verklýsingar (síða 7 af 27).

b)         Viðbótarverk 111 – 140.811 kr. Aðalstefnandi krefst greiðslu vegna kostnaðar við að útbúa horn á glugga í görðum í húsi 6 vegna breytinga á hönnun arkitekta. Gagnstefnandi samþykkir að greiða umræddan kostnað að undanskildu álagi á vinnu sem komi til vegna þess að aðalstefnandi sé ekki með nægilegan mannskap í verkinu. Í II. hluta útboðsgagna, sérverklýsingu, 9. kafla, er fjallað um breytingu á verki og aukaverk. Þar komi skýrt fram að ekki sé greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu og því skuli tímagjaldið fyrir vinnu vera meðalgjald. Gagnstefnandi fellst því á að greiða 56.000 kr. vegna verksins.

c)         Viðbótarverk 112 – 130.338 kr. Gagnstefnandi mótmælir ekki reikningi vegna viðbótarverks 112.

d)         Viðbótarverk 113 – 32.584 kr. Gagnstefnandi mótmælir ekki reikningi vegna viðbótarverks 113.

e)         Viðbótarverk 114 – 456.183 kr. Aðalstefnandi krefst greiðslu á kostnaði vegna vinnu tæknimanna vegna breytinga á teikningum. Gagnstefnandi hafnar því að greiða umræddan kostnað þar sem sú vinna sé innifalin í hönnunarvinnu aðalstefnanda. Samkvæmt verklýsingu hafi verktaki þurft að leggja fram allar teikningar af gluggum og hurðum fyrir verkkaupa til samþykktar, sbr. II. hluta verklýsingar, kafla 7.2.0.

f)          Viðbótarverk 115 – 105.900 kr. Aðalstefnandi krefst greiðslu á kostnaði vegna breytinga á K-festingu. Gagnstefnandi hafnar þessari kröfu þar sem upphafleg K-festing sem aðalstefnandi lagði fram hafi aldrei verið samþykkt af hönnuðum. Aðalstefnandi hafi þá ákveðið að leysa málið á annan hátt til að fá festingarnar samþykktar. Sá kostnaður sé því hluti af samningsbundnum skyldum aðalstefnanda en ekki viðbótarverk, enda hluti af verksamningi að leggja fram samþykktar festingar, sbr. t.a.m. kafla 7.2.0 í II. hluta verklýsingar.

g)         Viðbótarverk 116 – 48.877 kr. Aðalstefnandi krefst kostnaðar vegna breytinga á skúffum í görðum. Gagnstefnandi hafnar því að greiða umræddan kostnað þar sem umsýsla aðalstefnanda á hönnunargögnum teljist eðlilegur hluti verksins en ekki viðbótarverk.

h)         Viðbótarverk 117 – 976.881 kr. Aðalstefnandi krefst greiðslu á kostnaði vegna breytinga á svokölluðu „Add-on FW50+AOS“ kerfi yfir í annað kerfi „FW50+50mm“. Gagnstefnandi hafnar því að greiða umræddan kostnað á þeim grundvelli að í upphafi verks hafi Formaco lagt fram skilgreiningar á verkmörkum þessa verkþáttar. Í framhaldinu hafi eftirlitsaðili verksins, verkfræðistofan Efla, tekið þau verkmörk til skoðunar. Enginn ágreiningur hafi verið frá upphafi um þennan verkþátt. Bæði Formaco og Efla hafi litið svo á að stálfestingar milli prófíls og stáls væru hluti af verki verktaka (Formaco og síðar aðalstefnanda). Með nýjum samningi við aðalstefnanda hafi allur ágreiningur um verkmörk verið afgreiddur og enginn ágreiningur verið um þetta atriði. Aðalstefnandi hafi síðan lagt til aðra prófíla en samið hefði verið um, sem hafi verið samþykktir af hálfu verkkaupa og eftirlitsaðila. Engin krafa hafi komið fram frá aðalstefnanda um að hann ætti rétt á viðbótargreiðslu vegna þessara breytinga enda hafi verið um að ræða breytingu frá áður samþykktu verki að frumkvæði aðalstefnanda. gagnstefnandi hafnar því alfarið að greiða þann kostnað við þessa breytingu.

i)          Viðbótarverk 118 – 657.270 kr. Aðalstefnandi krefst greiðslu á kostnaði vegna sérlausnar við flasningar ofan við hurðir í byggingu 1. gagnstefnandi hafnar því að greiða umræddan kostnað þar sem aðalstefnanda hafi borið að hanna umrætt kerfi í hús 1. Sú lausn sem þeir lögðu til hafi því verið innifalin í verki þeirra samkvæmt samningi. Samkvæmt verklýsingu hafi verktaki þurft að leggja fram allar teikningar af gluggum og hurðum fyrir verkkaupa til samþykktar, sbr. II. hluta verklýsingar, kafla 7.2.0.

Reikningur nr. 78, útgefinn 2. mars 2010 að fjárhæð 519.614 kr. – Viðbótarverk 119. Aðalstefnandi krefst greiðslu vegna nýrra öryggisglerja. Gagnstefnandi hafnar kröfunni á þeim grundvelli að umræddar skemmdir á glerinu séu ekki af völdum undirverktaka gagnstefnanda heldur hafi að öllum líkindum komið til í flutningi í gámum.

Reikningur nr. 82, útgefinn 30. apríl. 2010 að fjárhæð 6.091.511 kr. Af reikningi 82 mótmælir gagnstefnandi ekki kostnaði að fjárhæð kr. 288.572 svo sem nánar er gerð grein fyrir hér að neðan.

a)         Viðbótarverk 120 – 64.238 kr. Gagnstefnandi mótmælir ekki reikningi vegna viðbótarverks 120.

b)         Viðbótarverk 121 – 57.023 kr. Aðalstefnandi krefst greiðslu á kostnaði vegna breytinga á teikningum vegna hurða í prufurými. Gagnstefnandi hafnar því að greiða umræddan kostnað þar sem sú vinna sé innifalin í hönnunarvinnu aðalstefnanda enda hluti af verksamningi að leggja fram allar teikningar af gluggum og hurðum fyrir verkkaupa til samþykktar, sbr. II. hluta verklýsingar, kafla 7.2.0.

c)         Viðbótarverk 122 – 782.028 kr. Aðalstefnandi krefst greiðslu á kostnaði vegna vinnu tæknimanna vegna breytinga á teikningum. Gagnstefnandi hafnar því að greiða umræddan kostnað þar sem sú vinna sé innifalin í hönnunarvinnu aðalstefnanda enda hluti af verksamningi að leggja fram allar teikningar af gluggum og hurðum fyrir verkkaupa til samþykktar, sbr. II. hluta verklýsingar, kafla 7.2.0.

d)         Viðbótarverk 123 – 684.274 kr. Aðalstefnandi krefst greiðslu vegna kostnaðar við breytingar á teikningum á hurðarskrám (útgáfu 9 og 10). Gagnstefnandi fellst á að greiða 124.630 kr. vegna þessa verks sem byggir á mati gagnstefnanda á eðlilegri þóknun fyrir umrædda vinnu og verkkaupi hefur samþykkt.

e)         Viðbótarverk 124 – 97.753 kr. Aðalstefnandi krefst kostnaðar vegna breytinga á teikningum af hurðaskrám (útgáfu 11). Gagnstefnandi hafnar kröfu aðalstefnanda þar sem gagnstefnandi hafi sjálfur breytt hurðaskrám sem áður höfðu verið lagðar fram vegna þessa verkþáttar og beri því sjálfur kostnaðinn af því.

f)          Viðbótarverk 125 – 358.429 kr. Aðalstefnandi krefst kostnaðar vegna breytinga á teikningum af 11 hurðum í húsi 3. Gagnstefnandi hafnar kröfunni á þeim grundvelli að sú vinna teljist hluti af hönnunarvinnu aðalstefnanda samkvæmt samningi aðila enda sé það hluti af verksamningi að leggja fram allar teikningar af gluggum og hurðum fyrir verkkaupa til samþykktar, sbr. II. hluta verklýsingar, kafla 7.2.0.

g)         Viðbótarverk 126 – 290.666 kr. Aðalstefnandi krefst greiðslu vegna 10 hurðahandfanga í 2. áfanga verksins. Gagnstefnandi hafnar kröfu aðalstefnanda þar sem gögn til stuðnings þessari kröfu séu með öllu ófullnægjandi og því ekki hægt að taka afstöðu til hennar.

h)         Viðbótarverk 127 – 68.547 kr. Aðalstefnandi krefst greiðslu á kostnaði vegna breytinga á festingum vegna skekkju í teikningum. Gagnstefnandi hafnar kröfunni. Aðalstefnanda hafi sjálfum borið að leggja fram teikningar sem stæðust kröfur verklýsingar og því sé það á ábyrgð aðalstefnanda ef lagfæra þarf festingar sem uppfylla ekki kröfur verklýsingar.

i)          Viðbótarverk 128 – 59.578 kr. Aðalstefnandi krefst greiðslu kostnaðar vegna kaupa á EPDM-dúk. Gagnstefnandi hafnar því að greiða framangreindan kostnað þar sem umrætt efni sé hluti af því efni sem aðalstefnanda hafi borið að útvega samkvæmt verklýsingu og viðaukasamningi. Í 11. gr. viðaukasamnings komi fram að Hamraborg útvegi efni vegna þéttinga að utan og vinkla undir hurðaþröskulda en þó ekki Schüco-dúk sem aðalstefnanda beri að útvega. Allt annað efni skuli aðalstefnandi útvega í verkið, sbr. einnig II. hluta verklýsingar.

j)          Viðbótarverk 129 – 228.091 kr. Aðalstefnandi krefst greiðslu vegna breytinga á teikningum á hurðum í húsi 2 og 3. Gagnstefnandi hafnar því að greiða umræddan kostnað þar sem sú vinna sé innifalin í hönnunarvinnu aðalstefnanda enda hluti af verksamningi að leggja fram allar teikningar af gluggum og hurðum fyrir verkkaupa til samþykktar, sbr. II. hluta verklýsingar, kafla 7.2.0.

k)         Viðbótarverk 130 – 536.015 kr. Aðalstefnandi krefst greiðslu á kostnaði vegna vinnu tæknimanns við breytingar á teikningum á hurðum (útgáfu 12). Gagnstefnandi samþykkir að greiða 99.704 kr. vegna verksins sem hann telur eðlilega þóknun fyrir umrædda vinnu og verkkaupi hefur samþykkt.

l)          Viðbótarverk 131 – 373.293 kr. Aðalstefnandi krefst greiðslu á kostnaði sem til féll þegar bora þurfti lagnagöt og smíða lok yfir raflagnagöt. Gagnstefnandi hafnar því að greiða framangreindan kostnað þar sem aðalstefnandi hafi átt að skila umræddum körmum með þeim götum sem óskað var eftir að yrðu gerð. Aðalstefnandi beri því sjálfur kostnaðinn af því að hafa ekki skilað körmunum með réttum hætti, sbr. kafla 7.2.0 í verklýsingu, II. hluta þar sem taldar eru upp kröfur sem gerðar eru til burðarkerfis, hurða, gluggakerfis og glers.

m)        Viðbótarverk 132 – 130.338 kr. Aðalstefnandi krefst greiðslu á kostnaði vegna leiðréttinga á framleiðsluteikningum á horngluggum. Gagnstefnandi hafnar því að greiða umræddan kostnað þar sem sú vinna sé innifalin í hönnunarvinnu aðalstefnanda enda hluti af verksamningi að leggja fram allar teikningar af gluggum og hurðum fyrir verkkaupa til samþykktar, sbr. II. hluta verklýsingar, kafla 7.2.0.

n)         Viðbótarverk 133 – 273.177 kr. Aðastefnandi krefst greiðslu á kostnaði vegna þess að endurhanna þurfti hluta festinga þakglugga í húsi 1 og sérsmíða festingar. Gagnstefnandi hafnar kröfu aðalstefnanda þar sem aðalstefnandi hafi átt samkvæmt útboðsgögnum að leggja til og hanna festingar undir prófíla, sbr. kafla 7.2.0 í II. hluta verklýsingar. Aðalstefnandi hafi fengið teikningar af burðarkerfi þakglugga til að hanna gluggann ofan á. Þessar festingar hafi þurft til viðbótar við áður hannaðar festingar til að bera uppi glugga og falli verkið því undir skyldur aðalstefnanda samkvæmt samningi en teljist ekki viðbótarverk.

o)         Viðbótarverk 134 – 408.873 kr. Aðalstefnandi krefst greiðslu á kostnaði vegna kaupa á EPDM-dúk. Gagnstefnandi hafnar því að greiða umræddan kostnað þar sem aðalstefnanda hafi borið að leggja til EPDM-dúk til þéttinga samkvæmt verklýsingu og viðaukasamningi. Í 11. gr. viðaukasamnings komi fram að Hamraborg útvegi efni vegna þéttinga að utan og vinkla undir hurðaþröskulda en þó ekki Schüco-dúk sem aðalstefnanda beri að útvega. Allt annað efni skuli aðalstefnandi útvega í verkið, sbr. einnig II. hluta verklýsingar.

p)         Viðbótarverk 135 – 85.623 kr. Aðalstefnandi krefst greiðslu vegna sérstaks búnaðar vegna björgunaropa. Gagnstefnandi hafnar kröfu aðalstefnanda á þeim grundvelli þar sem umrædd björgunarop eru á útboðsteikningum og því hluti af samningsskyldum aðalstefnanda en ekki viðbótarverk.

q)         Viðbótarverk 136 – 841.611 kr. Aðalstefnandi krefst greiðslu á kostnaði vegna þess að skipta þurfti út rifdrifnum hurðarpumpum. Gagnstefnandi hafnar kröfu aðalstefnanda þar sem þær pumpur sem aðalstefnandi lagði upphaflega til uppfylltu ekki þau skilyrði sem sett voru í samningsgögnum og því varð aðalstefnandi að útvega aðrar pumpur, sbr. skýringu eftirlitsaðila verksins.

r)          Viðbótarverk 137 – 751.954 kr. Aðalstefnandi krefst kostnaðar vegna prófíla sem skemmdust á verkstað. Gagnstefnandi hafnar þessari kröfu aðalstefnanda þar sem umræddir prófílar komu skemmdir á verkstað eða var skipt út vegna skemmda á póstum á meðan Formaco var með verkið.

Reikningur nr. 94, útgefinn 20. apríl 2010 að fjárhæð 15.093 kr. Aðalstefnandi krefst greiðslu á reikningi vegna skrúfukaupa. gagnstefnandi hafnar því að greiða umræddan reikning þar sem um er að ræða efniskaup sem telst hluti af samningi aðila og aðalstefnandi bar að afhenda. Í 11. gr. viðaukasamnings kemur fram að Hamraborg útvegi efni vegna þéttinga að utan og vinkla undir hurðaþröskulda en þó ekki Schuco dúk sem aðalstefnanda beri að útvega. Allt annað efni skuli aðalstefnandi útvega í verkið, sbr. einnig II. hluta verklýsingar (síða 7 af 27).

Ljóst sé af framangreindu að gagnstefnandi hafi einungis samþykkt að inna af hendi greiðslu reikninga að fjárhæð 8.513.778 kr. af kröfum aðalstefnanda vegna viðbótarverka en geri ekki ágreining um reikninga vegna verkframvindu að fjárhæð 20.532.201 kr. Því sé ágreiningslaust að ógreiddir reikningar aðalstefnanda í aðalsök séu að fjárhæð 29.045.591 kr.

                Gagnstefnandi byggi hins vegar á því að aðalstefnanda í aðalsök beri að greiða kostnað sem gagnstefnandi varð fyrir vegna ýmissa viðbótar- og aukaverka og útlagðs kostnaðar sem gagnstefnanda var nauðsynlegt að framkvæma vegna vanefnda aðalstefnanda á samningi aðila svo að ljúka mætti uppsetningu og frágangi á álgluggakerfi í nýbyggingu HR, sbr. m.a. grein I 0.8.2. í 1. hluta útboðs- og samningsskilmála og 14. gr. viðaukasamnings aðila. Fjárhæð krafna gagnstefnanda á hendur aðalstefnanda byggi á dagskýrslum verktaka sem unnu að uppsetningu og frágangi á álgluggakerfinu sem og reikningum vegna kostnaðar við kaup á efni sem aðalstefnandi afhenti ekki þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um. Krafa gagnstefnanda, sem nánar er gerð grein fyrir í umfjöllun um gagnsök, sé að fjárhæð 36.747.038 kr. að teknu tilliti til lækkunar kröfunnar við upphaf aðalmeðferðar málsins.

                Krafa gagnstefnanda byggist á því að honum sé heimilt að skuldajafna þessum kröfum á móti kröfu aðalstefnanda í aðalsök.

                Um lagarök vísi gagnstefnandi einkum til meginreglna kröfu- og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga, og um skyldu verktaka til greiðslu skaðabóta og/eða afsláttar vegna vanefnda á samningi. Þá sé einnig vísað til laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, einkum IV. og V. kafla laganna. Þá sé vísað til ÍST 30, sem og útboðs- og samningsskilmála vegna framangreinds verks. Einnig sé vísað til ákvæða laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um málskostnað sé vísað til 129. gr., sbr. 130. gr. sömu laga.

IV.

Málsástæður og lagarök gagnstefnanda í gagnsök

Af hálfu gagnstefnanda í gagnsök er byggt á því að hann eigi gagnkröfur til skuldajafnaðar við kröfur aðalstefnanda vegna ýmissa auka- og viðbótarverka og kostnaðar sem hann hafi orðið fyrir vegna vanefnda aðalstefnanda á verksamningi, vegna galla á verki aðalstefnanda og vegna tafa á verklokum aðalstefnanda. Samtals nemi þessar gagnkröfur 79.793.117 kr., sem lækkaðar voru í 65.793.117 kr. í upphafi aðalmeðferðar, og sundurliðist þær nánar með þeim hætti sem síðar greini. Gagnkröfur hans nemi hærri fjárhæð en kröfur aðalstefnanda á hendur honum í aðalsök og sé því gagnstefnanda nauðsynlegt að höfða þetta mál á hendur aðalstefnanda. Kröfur sínar sundliði gagnstefnandi þannig:

Auka- og viðbótarverk

                Gagnstefnandi byggir á því að aðalstefnanda beri að greiða þann kostnað sem gagnstefnandi hafi orðið fyrir vegna ýmissa viðbótar- og aukaverk sem gagnstefnanda hafi verið nauðsynlegt að framkvæma vegna vanefnda aðalstefnanda á samningi aðila svo að ljúka mætti uppsetningu og frágangi á álgluggakerfi í nýbyggingu HR, auk útlagðs kostnaðar. Gagnstefnandi vísi til þess að í 1. hluti útboðs- og samningsskilmála, sbr. grein I 0.8.2. segi meðal annars: Um er að ræða framkvæmd þar sem miklar kröfur eru gerðar til vandvirkni allra verka. Verktaki ber ábyrgð á því að öll störf í verkefninu séu fagmannlega unnin og skal hann haga sinni vinnu með heildar hagsmuni verksins að leiðarljósi. Öll vinna og allur frágangur verksins skulu vera vönduð og fagmannlega unnin, í samræmi við fyrirsögn um vinnubrögð, góðar fagvenjur, faghefðir og metnað.

                Gagnstefnandi bendi á að í ákvæðinu sé lögð sérstök áhersla á að verktakar ynnu verkið með heildarhagsmuni verksins að leiðarljósi. Vanefndir aðalstefnanda á að afhenda efni á réttum tíma hafi haft mikil áhrif á aðra þætti verksins og því hafi verið nauðsynlegt fyrir gagnstefnanda að grípa inn í til að halda verkinu gangandi. Í 14. gr. viðaukasamningsins segi jafnframt: Öll tímavinna Ístaks á verkþáttum sem rekja má til skekkju eða ágalla í framleiðslu Idex glugga skal tilkynntur til Idex glugga ehf. án tafar. Gefa skal Idex gluggum ehf. kost á að vinna úrbætur, sé hægt að koma því við án þess að tefja verk. Vinna og kostnaður sem af þessu hlýst verður reikningsfærður á Idex glugga ehf.

                Gagnstefnandi vísar til þess að í þeim tilvikum sem aðalstefnandi hafi ekki afhent efni á réttum tíma á verkstað eða tafir hafi orðið vegna gallaðs efnis, hafi það verið tilkynnt og honum gert kleift að bæta þar úr, þar sem því hafi verið komið við án þess að tefja verkið. Gluggaísetning hafi hins vegar verið einn mikilvægasti þáttur verksins og hafi dráttur á ísetningu glugga og hurða valdið því að vinna við aðra verkþætti innanhúss hafi ekki farið í gang á tilsettum tíma. Það hafi raskað allri vinnu við verkið sem hafi leitt til þess að áætlanir um mannaflaþörf og afhendingu verka stóðust ekki. Því hafi ekki alltaf verið unnt að gefa aðalstefnanda kost á að vinna að úrbótum, en gagnstefnandi hafi ávallt leitast við að gera athugasemdir og gefa aðalstefnanda færi á úrbótum þegar því hafi verið komið við. Gagnstefnandi beri því við að aðalstefnandi hafi sjaldnast orðið við athugasemdum gagnstefnanda, sem hafi leitt til þess að gagnstefnandi taldi nauðsynlegt að grípa inn í til að verkið tefðist ekki enn frekar en orðið var. Í samræmi við 14. gr. viðaukasamnings málsaðila hafi gagnstefnandi útvegað efni og séð til þess að nauðsynleg vinna yrði unnin. Þetta hafi verið gert til að aðrir verktakar gætu haldið áætlunum sínum og til að forða verkinu frá frekara tjóni og töfum. Gagnstefnandi krefjist því þess að honum verði bættur þessi kostnaður með stoð í framangreindu ákvæði og í samræmi við almennar bótareglur innan samninga.

Fjárhæðir kröfu gagnstefnanda byggist á dagskýrslum verktaka sem hafi unnið að uppsetningu og frágangi á álgluggakerfinu, sem og reikningum vegna kostnaðar við kaup á efni sem aðalstefnandi hafi ekki afhent, þrátt fyrir beiðnir þess efnis. Krafa gagnstefnanda vegna þessa sundurliðist á eftirfarandi hátt og nemi samtals 38.243.117 kr.:

Nr.

Viðbótar-/aukaverk

    Fjárhæð

1

Lagfæringar

342.995

2

Frágangur glugga

2.252.831

3

Gler

634.410

4

Glerskipti

3.960.873

5

Gustlokun

2.768.425

6

Gúmmíþéttilistar

1.288.139

7

Horn í görðum

90.953

8

Hurðarpumpur og pinnar

45.296

9

Láshringir

402.235

10

Lok/þykkingar

1.672.619

11

Rauðar festingar

318.134

12

Seinni kíttun

2.372.996

13

Skemmdir/gallaðir álprófílar

2.649.709

14

Stálfestingar

684.812

15

Verja prófíla með krossvið

160.620

16

Vinnupallar

256.338

17

Þakgluggi

1.676.719

18

Stjórnunarkostnaður

10.000.000

19

Akstur

1.020.352

20

Hurðarpumpur o.fl.

1.060.540

21

Efni ger, covercap o.fl.

1.390.437

22

Stjórnunarkostnaður, efni og vinna

3.193.584

Samtals

38.243.117

                Nánar gerir gagnstefnandi grein fyrir framangreindum kröfum sínum um greiðslu viðbótar- og aukaverka með eftirfarandi hætti:

1.            Lagfæringar Gagnstefnandi krefst þess að aðalstefnandi greiði fyrir efni og vinnu við lagfæringar, m.a. fyrir veggpappa, kíttun með hurðum í austurhlið nýbyggingar HR og „flasningar“ í kringum flóttahurðir að sunnan. Ítarlega sundurliðun á þessum kostnaði er að finna í framlögðu dómsskjali sem og í dagskýrslum undirverktaka og reikningum fyrir efni. Fjárhæð kröfu samkvæmt þessum lið sé 342.995 kr.

2.         Frágangur glugga Gagnstefnandi krefst þess að aðalstefnandi greiði fyrir efniskaup vegna frágangs glugga sem aðalstefnanda bar að afhenda á verkstað á ákveðnum tíma til annarra verktaka sem búið var að semja við um gluggaísetningu, sbr. 11. gr. viðaukasamnings. Þar á meðal sé kostnaður vegna kaupa á kítti, steinull, þéttipulsum og öðru efni sem notað hafi verið til að ganga frá og þétta með gluggum. Á útboðsteikningum sem eftirlitsaðili verksins, verkfræðistofan Efla ehf., hafi farið yfir, dags. 20. maí 2008, komi fram hvað taldist vera innan verksamnings aðila og þar með á hendi aðalstefnanda að sjá um. Á teikningum frá þeim megi sjá að það efni sem gagnstefnandi þurfti að kaupa fyrir gluggaísetningarmenn átti aðalstefnandi sannanlega að leggja til samkvæmt verksamningi. Fjárhæð kröfu samkvæmt þessum lið sé 2.252.831 kr.

3.         Gler Í grein 20.7 í ÍST 30 komi fram að efni sem fullnægir ekki kröfum sem settar séu beri verktaka að flytja á brott af vinnustað án tafar. Krafist sé greiðslu kostnaðar vegna vinnu sem fór fram á verkstað vegna glers sem þurfti að meðhöndla sérstaklega, þ.e. vinnu gluggaísetningarmanna við að telja gler, endursenda gallað gler, eða gler sem ekki passaði þar sem það átti að vera, til baka til aðalstefnanda. Þar á meðal hafi verið gler sem nota átti í opnanleg fög sem kom á verkstað en átti að fara til aðalstefnanda. Þessi gler voru glerjuð í verksmiðju gagnstefnda í Keflavík. Starfsmenn gagnstefnanda þurftu því að fara í gegnum allar glerkistur sem komu á verkstað frá aðalstefnanda og leita að þeim rúðum sem þurfti að senda til baka og ganga þannig frá þeim að þær kæmust óskemmdar á verkstað. Aðalstefnandi sendi einnig gler á verkstað sem voru ætluð í önnur verkefni aðalstefnanda annars staðar. Gluggaísetningarmenn hafi því einnig þurft að flokka það gler frá og senda annað. Þá kom fyrir að gler hafi komið brotið á verkstað í kistunum eða brotnað á verkstað en undir ábyrgð aðalstefnanda. Aðalstefnandi hafi borið ábyrgð á að rétt efni bærist á verkstað og því beri hann ábyrgð á flokkun glers og endursendingum. Sama eigi við um vinnu vegna flokkunar á brotnu gleri. Krafa samkvæmt þessum lið sé að fjárhæð 634.410 kr.

4.         Glerskipti Gagnstefnandi krefst þess að aðalstefnandi greiði kostnað vegna rúða sem þurfti að endurpanta vegna framleiðslugalla, brotins glers og glers af rangri stærð. Aðalstefnanda hafi verið send lituð teikning, þann 1. apríl 2009, þar sem sýndar hafi verið þær rúður sem þurfti að endurpanta og var tilkynnt um slíka kröfu gagnstefnanda á verktíma án þess að úr væri bætt.

             Framleiðslugallar. Í nokkrum rúðum sem sendar voru á verkstað af hálfu aðalstefnanda hafi verið framleiðslugallar. Í þeim voru „bollar“, þ.e. kvarnast hafði úr kanti viðkomandi rúðu. Eftirlit verkkaupa hafi gert athugasemdir við þessa galla og krafist þess að þessum rúðum yrði skipt út. Þá hafi verið gerð krafa um að tveimur eða þremur rúðum yrði skipt út þar sem sólarfilma hafi verið lítillega laus frá kanti rúðunnar. Hluta þessara rúða hafði Formaco og eða undirverktaki þeirra sett í á fyrri hluta verktímans.

             Brotið gler. Eitthvað hafi verið um að rúður brotnuðu eftir að þær voru komnar í. Ástæðu þess megi annars vegar rekja til slysa á verkstað og tvær rúður hafi brotnað í ofsaveðri þegar timburfjöl fauk í þær og braut. Hins vegar hafi komið fyrir að gler brotnaði þegar verið var að glerja.

             Gler af rangri stærð. Á verkstað hafi iðulega komið gler sem ekki var af réttri stærð og hafði þá oftast verið pantað of stórt Á framlögðu dómsskjali hafi kostnaði vegna glerskipta verið skipt milli aðila. Gagnstefnandi hafi tekið á sig kostnað við gler sem starfsmenn hans eða undirverktakar hafa brotið. Gagnstefnandi tók jafnframt á sig foktjón þar sem tvær rúður brotnuðu. Önnur glerskipti séu til komin vegna gallaðs glers eða glers sem kom brotið á verkstað og var notað til bráðabirgða sem gustlokun, sbr. lið 5 hér að neðan, og aðalstefnanda beri að greiða.

             Kostnaður vegna glerskipta/vinnulyfta. Aðalstefnanda ber að greiða fyrir vinnulyftur sem voru hluti af því verki að skipta um það gler sem ekki stóðst kröfur samnings aðila. Engir vinnupallar hafi verið til staðar við verkið þar sem glerinu hafi verið skipt út seint á verktíma þegar búið hafi verið að taka alla verkpalla niður.

             Krafa gagnstefnanda vegna ofangreindra liða er að fjárhæð 3.960.873 kr.

5.            Gustlokun Gagnstefnandi krefst þess að aðalstefnandi greiði kostnað við gustlokun. Sá kostnaður sé tilkominn vegna þess að gallað efni var sent á verkstað af hálfu aðalstefnanda. Í þeim tilvikum sem aðalstefnandi afhenti ekki efni á réttum tíma, sem leiddi til þess að eina eða fleiri rúður vantaði í þá glugga sem settir voru upp, hafi þurft að grípa til aðgerða til að loka gluggagötum til að vinna annarra verktaka innanhúss gæti haldið áfram. Í slíkum tilvikum hafi gagnstefnandi lokað þeim gluggagötum þar sem vantaði gler með krossviðarplötum eða með brotnum rúðum sem höfðu borist á verkstað. Í sumum tilvikum hafi verið einfaldara og ódýrara að nota brotnar rúður sem bárust á verkstað sem gustlokun í stað þess að sníða niður krossvið í gluggana í sama tilgangi. Þegar nýjar rúður bárust á verkstað var brotnu rúðunum skipt út. Fjárhæð kröfu vegna þessa liðar sé 2.768.425 kr.

6.            Gúmmíþéttilistar Gagnstefnandi krefst þess að aðalstefnandi greiði fyrir vinnu sem til féll þegar skipta þurfti um gúmmíþéttilista á gluggum sem Formaco og undirverktakar þeirra höfðu sett upp en uppfylltu ekki skilyrði verksamnings og sé því um vanefnd samnings að ræða. Þegar farið var að glerja ákveðna glugga hafi komið í ljós að of þunnur gúmmíþéttilisti hafi verið settur í gluggapósta miðað við þykkt glugganna. Af því leiddi að setja hafi þurft þykkari gúmmíþéttilista á ákveðna gluggapósta. Sama vandamál hafi komið upp með gluggapósta frá aðalstefnanda og því hafi einnig þurft að skipta um gúmmíþéttilista í þeim. Aðalstefnandi hafi lagt til allt efni í þessa vinnu en gagnstefnandi hafi lagt til alla vinnupalla og vinnulyftur sem voru nauðsynlegar til að vinna verkið. Krafa samkvæmt þessum lið sé að fjárhæð 1.288.139 kr.

7.         Horn í görðum Gagnstefnandi krefst þess að aðalstefnandi greiði kostnað vegna frágangs við samskeyti samlokueininga við gluggapósta með fyllilista, pressulista og loki. Samið hafi verið við sjálfstæðan verktaka, Kant ehf., um að smíða og setja upp þessi horn. Eftir að Kantur ehf. hafi sett upp þessar samlokueiningar samkvæmt teikningu og tilboði hafi þess verið krafist af eftirliti að gengið yrði frá láréttum samskeytum þessara samlokueininga með sama frágangi og ef samlokueiningin væri úr gleri. Vinnu við þennan viðbótarfrágang beri aðalstefnanda að greiða. Fjárhæð samkvæmt þessum lið nemi 90.953 kr.

8.         Hurðarpumpur og pinnar Samkvæmt verksamningi áttu hurðir að koma frá verksmiðjum með öllum búnaði. Gagnstefnandi krefst þess að aðalstefnandi greiði fyrir vinnu við að setja hurðarpumpur á hurðir sem komu án þeirra á verkstað. Annars vegar komu hurðir í garða 02 01 og 02 02 án hurðarpumpa. Allar aðrar hurðir komu frá verksmiðju með hurðarpumpum. Starfsmenn Kants ehf. settu hurðarpumpur á þær hurðir sem á vantaði. Yfirlit yfir vinnu verktaka má finna í dskj. 60 (mál 0, fylgiskjal 1, bls. 15) og undirliggjandi gögn því til stuðnings í sama skjali (mál 8). Gagnstefnandi krefst þess að aðalstefnandi greiði vinnu vegna þessa verks að fjárhæð 45.296 kr.

9.         Láshringir Gagnstefnandi krefst þess að aðalstefnandi greiði kostnað vegna tiltekinna láshringja í þakglugga og vinnu við að setja þá upp, sbr. 5. grein í viðaukasamningi. Í þakglugga í görðum við nýbyggingu HR hafi verið krafa um að nota ákveðna láshringi eða spennuskífur. Þessa láshringi/spennuskífur hafi þurft að nota að innanverðu í þakglugga í görðum og koma þeim á ryðfría teina. Aðalstefnandi sendi hins vegar svarta, óryðvarða láshringi. Eftirlitið hafi leyft notkun þeirra í þakglugga á milli húss tvö og þrjú en sett það skilyrði að framvegis yrðu notaðir ryðfríir láshringir með þessum ryðfríu teinum. Óskað hafi verið eftir því að aðalstefnandi léti í té ryðfríu láshringina. Til bráðabirgða hafi verið notast við gúmmíteygjur í stað láshringjanna. Að lokum hafi reynst nauðsynlegt að skipta teygjunum út og hafi gagnstefnandi þurft að leggja til bæði efni og vinnu vegna þess. Kostnaður vegna vinnu Kants ehf. og innkaupa gagnstefnanda er sundurliðaður í dómskjölum en krafa samkvæmt þessum lið er að fjárhæð 402.235 kr.

10.       Lok/þykkingar Gagnstefnandi krefst greiðslu fyrir viðbótar-/aukaverk vegna frágangs við gluggapósta sem kom til vegna þess að aðalstefnandi gat ekki útvegað rétt efni á verkstað. Samkvæmt teikningum og fleiri gögnum áttu allir gluggapóstar, láréttir og lóðréttir, sem koma að veggjum, lofti og gólfi, að vera 225 mm á dýpt. Millipóstar við opnanleg fög og hurðir áttu að vera 175 mm á dýpt, sbr. kafla 7.2.0 í verklýsingu. Formaco hafi á sínum tíma farið fram á að fá að nota 175 mm prófíl í þessa láréttu gluggapósta við loft og gólf þar sem Formaco hafi átt takmarkað magn af 225 mm prófílum. Þetta hafi verið samþykkt með þeim fyrirvara að Formaco myndi þykkja þessa lóðréttu 175 mm prófíla um 50 mm með því að skrúfa framan á þá 50 mm lok/þykkingu. Gluggaísetningarmenn hafi þurf að skrúfa plastlistann á 175 mm prófílinn og setja lokin/skúffuna á þar sem á vantaði. Yfirlit yfir vinnu verktaka megi finna í framlögðum dómsskjölum. Framangreinda vinnu gluggaísetningarmanna við að þykkja gluggapósta beri aðalstefnanda að greiða. Fjárhæð þessa kröfuliðar sé 1.672.619 kr.

11.       Rauðar festingar Gagnstefnandi krefst þess að aðalstefnandi greiði vinnu við að koma smellufestingum í gluggapósta. Aðalstefnanda bar að afhenda póstana með ákveðnum smellufestingum, sbr. almenna lýsingu í sérverklýsingu, kafla 7.2.0. Jafnframt hafi sérstaklega verið óskað eftir því af hálfu gluggaísetningarmanna að það yrði gert en ekki hafi verið orðið við þeim óskum af hálfu aðalstefnanda. Sérstakar festingar sem komið hafi á gluggapóstum, svokallaðar rauðar festingar, séu settar á gluggapósta sem séu styrktir sérstaklega. Gluggaísetningarmenn hafi þurft að setja sérstakar smellufestingar þar sem þessar rauðu festingar eru sem hefði ekki komið til ef aðalstefnandi hefði sent gluggapóstana með þeim festingum. Yfirlit yfir vinnu verktaka megi finna á framlögðum dómsskjölum. Gagnstefnandi krefst þess að aðalstefnandi greiði 318.134 kr. fyrir vinnu við þessar smellufestingar.

12.       Seinni kíttun Samkvæmt teikningum og fleiri gögnum hafi allir gluggapóstar, láréttir og lóðréttir, sem koma að veggjum, lofti og gólfi átt að vera 225 mm á dýpt, sbr. lið 10 hér að ofan. Millipóstar við opnanleg fög og hurðir hafi átt að vera 175 mm á dýpt. Formaco hafi á sínum tíma farið fram á að fá að nota 175 mm prófíl í þessa láréttu gluggapósta við loft og gólf. Vegna þessara vinnubragða aðalstefnanda krafðist eftirlit þess að tvíkíttað yrði með láréttum gluggapóstum við gólf og loft m.a. til að koma í veg fyrir rakaþéttingu við gluggana og til að óhreinindi söfnuðust ekki í fúguna undir gluggapóstunum. Í þeim tilfellum þegar aðalstefnandi hafi sent ósamsetta gluggapóstana á verkstað og smiðir á verkstað hafi þurft að setja lokin/þykkinguna á 175 mm póstinn krafðist eftirlitið tvöfaldrar kíttunar. Ef gluggapóstarnir höfðu komið rétt samsettir frá verksmiðju aðalstefnanda hafi ekki verið gerð krafa um tvöfalda kíttun. Gagnstefnandi krefst þess að aðalstefnandi greiði fyrir þá viðbótar-/aukavinnu vegna tvöfaldrar kíttunar sem hafi komið til vegna óska þeirra um breytingu frá upphaflegum kröfum verksins. Yfirlit yfir vinnu verktaka má finna í framlögðum dómsskjölum. Samtals nemi krafa samkvæmt þessum lið 2.372.996 kr.

13.       Skemmdir/gallaðir álprófílar Í 5. mgr. á bls. 1 í viðaukasamningi aðila komi fram að aðalstefnandi yfirtaki ábyrgð á því verki Formaco sem búið sé að greiða fyrir. Þar segi að aðalstefnandi beri ábyrgð á hugsanlegum framleiðslu- og útlitsgöllum á prófílum sem síðar komi í ljós. Í verkinu var mikið um að gluggapóstar skemmdust eða þeim hafi þurft að skipta. Aðalstefnandi hefur viðurkennt mistök við framleiðslu einhverra gluggapósta. Helstu ástæður sem lágu að baki skemmdum/göllum voru eftirfarandi: Vanræksla á frágangi glugga fyrir flutninga. Í upphafi hafi gluggapóstar verið sendir á verkstað án hlífðarfilmu úr plasti og því hafi þeir rispast auðveldlega. Af þeim sökum hafi skemmst mikið af óvörðum gluggapóstum í flutningi frá verksmiðju í Keflavík til Reykjavíkur. Skakkir og skemmdir gluggapóstar. Slíka gluggapósta hafi þurft að laga eða skipta út. Jafnframt hafi rangt hannaðir prófílar verið sendir á verkstað. Gluggapóstar rangt sagaðir. Á tímabili hafi komið á verkstað gluggapóstar sem ekki hafi verið sagaðir í 90° og hafi eftirlit gert athugasemdir við það eins og framlögð gögn sýni. Eins hafi komið á verkstað gluggapóstar sem ekki hafi verið skornir rétt í geirung. Gluggapóstar ekki af réttri stærð. Þá hafi komið á verkstað gluggapóstar í rangri lengd. Saga hafi þurft af þessum póstum eftir atvikum svo þeir pössuðu. Prófílar í þakglugga hafi m.a. verið vitlaust sagaðir og hafi þurft að taka þá úr og endursenda til aðalstefnanda með tilheyrandi töfum og kostnaði. Aðalstefnandi hafi viðurkennt mistök vegna slíkra galla. Í gögnum málsins sé að finna gögn vegna þessa, m.a. minnisblöð Verkfræðistofunnar Eflu, eftirlitsaðila við verkið. Skemmda og gallaða gluggapósta hafi þurft að taka niður og koma úr húsi og senda til Keflavíkur. Krafa samkvæmt þessum lið nemi samtals 2.649.709 kr.

14.       Stálfestingar Gagnstefnandi krefst þess að aðalstefnandi greiði kostnað við vinnu sem hafi hlotist af töfum á afhendingu efnis. Í upphafi verks hafi Formaco verið falið að hanna stálfestingar sem nota átti við að festa áglugga- og hurðakerfi nýbygginga HR. Almenna verkfræðistofan hafi í framhaldinu verið fengin til að hanna festingarnar sem Formaco og síðar aðalstefnandi hafi smíðað og sent á verkstað. Vegna þeirra fjölbreyttu aðstæðna sem skapist í stóru verki eins og þessu þá hafi komið upp sú staða að sníða hafi þurft af þessum stöðluðu festingum í einhverjum tilvikum og laga á nokkrum stöðum þannig að þær pössuðu við allar aðstæður. Þá leiddi seinkun á afhendingu gluggapósta í hús 2 og 3 til aukavinnu múrara við flotun gata í gólfi. Krafa gagnstefnanda samkvæmt þessum lið nemur 684.812 kr. vegna framangreindrar vinnu við stálfestingar.

15.       Aðgerðir til að verja gluggapósta með krossvið Gagnstefnandi krefst þess að aðalstefnandi greiði fyrir vinnu við að koma fyrir krossviðarhlífum og flytja á milli hurða sem settar voru á hurðarkarma. Um sé að ræða viðbótarkostnað sem féll til þegar hurðir voru afhentar of seint af hálfu aðalstefnanda og leiddi til þess að breyta þurfti þeim hurðum sem notaðar hafi verið sem gönguhurðir í verkinu. Krafa vegna þessa liðar er að fjárhæð 160.620 kr.

16.       Vinnupallar Gagnstefnandi krefst þess að aðalstefnandi greiði fyrir vinnu sem var unnin í byrjun árs 2009 fyrir EFF þegar ákveðið var að nýir verktakar tækju við ísetningu álglugga- og hurða. Vinnupallar sem Formaco hafði látið setja upp vegna verksins voru of nálægt veggjum og því gátu gluggaísetningarmenn ekki notast við þá í vinnu sinnu. Aðalstefnanda var tilkynnt þar um, sbr. dskj. 73, þar sem óskað var eftir úrbótum en ekki var orðið við þeirri beiðni. Nýr verktaki, Kantur ehf. var fenginn til að taka vinnupallana niður og setja þá upp aftur í réttri fjarlægð. Gagnstefnandi krefst þess að aðalstefnandi greiði fyrir þessa vinnu þar sem uppsettir vinnupallar þeirra uppfylltu ekki þau skilyrði sem gerð voru til verksins um fjarlægð palla frá vegg samkvæmt gildandi reglum, að fjárhæð 256.338 kr., sbr. dskj. 60 (mál 16-17).

17.       Þakgluggi milli húsa nr. 2 og 3 Gagnstefnandi krefst þess að aðalstefnandi greiði fyrir kostnað við að skipta út rúðum sem ekki uppfylltu kröfur verklýsingar. Í útboðs- og samningsskilmálum, hluta 1, kafla 7.2. 113 og 7.2.114, komi fram að allt gler skuli vera öryggisgler, hert gler í ytri skífu og samlímt í neðri skífu. Eftir að gluggaísetningarmenn hafi glerjað tvo þakglugga, sem eru á milli húsa nr. 2 og 3, hafi komið í ljós að 24 rúður sem voru í miðjum glugganum hafi ekki verið öryggisgler eins og verklýsing geri ráð fyrir. Eftirlitsaðili verksins hafi óskað eftir því að þessum rúðum yrði skipt út og settar yrðu í rúður í samræmi við verklýsingu og ákvæði byggingarreglugerðar. Pantaðar hafi verið nýjar rúður og skipt um þær þegar þær hafi borist Verkkaupi og eftirlitsaðili hafi sérstaklega farið fram á að sömu aðilar og settu upp þakgluggann ynnu allt verkið, þar með talið að skipta út þessum rúðum, þannig að ljóst mætti vera hvar ábyrgðin lægi, kæmi upp leki á þakglugga síðar. Gagnstefnandi sendi reikning vegna þessa á aðalstefnanda ásamt skýringum og sundurliðun kostnaðar. Upphaflegur kostnaður við verkið hafi verið 2.310.624 kr. en gagnstefnandi hafi fengið afslátt af verkinu auk þess sem það gefur eftir 12% umsjónarkostnað vegna málsins og nemi krafan því 1.676.719 kr. vegna þessa liðar.

18.       Stjórnunarkostnaður Gagnstefnandi krefst þess að aðalstefnandi greiði kostnað sem hlaust af því að þurft hafi að hafa stjórnendur á verkstað mun lengur en gert hafi verið ráð fyrir samkvæmt verksamningi aðila. Samkvæmt verksamningi hafi verkinu átt að vera að mestu lokið 15. september 2009; allt efni hafi átt að vera komið inn í verkið 30. október 2009. Þetta hafi ekki gengið eftir, eins og áður hafi komið fram, og því hafi verið nauðsynlegt fyrir gagnstefnanda að halda bæði tæknimanni og verkstjóra að störfum áfram á verkstað. Þeirra verk hafi falist í að stýra verktökum við gluggauppsetningar þar sem efni hafi ekki komið á réttum tíma frá aðalstefnanda. Þessu hafi fylgt stöðugar breytingar og aðlaganir á verkstað þar sem nánast hafi verið vonlaust að reiða sig á upplýsingar frá aðalstefnanda. Krafa samkvæmt þessum lið sé vegna vinnu tæknimanns við gluggauppsetningu frá 30. október 2009 til 28. febrúar 2010 og verkstjóra á sama tímabili, vegna framangreindra tafa aðalstefnanda og vanhæfi hans til að stjórna því verki sem hann hafi borið ábyrgð á, á verkstað. Krafa gagnstefnanda samkvæmt þessum lið sé að fjárhæð 10.000.000 kr.

19.       Akstur Gagnstefnandi krefst þess að aðalstefnandi greiði fyrir kostnað vegna aksturs þar sem gagnstefnandi hafi þurft að sækja efni til stefnda og koma því á verkstað. Um sé að ræða sendiferðir eftir efni frá 15. febrúar 2009 til 1. febrúar 2010. Fjárhæð þessa kröfuliðar nemi 1.020.352 kr.

20.       Hurðarpumpur og fl. Gagnstefnandi krefst þess að aðalstefnandi greiði kostnað við hurðarpumpur frá fyrirtækinu Járni og gleri sem og efni sem þurfti til vegna verksins. Kröfu sinni til stuðnings leggur gagnstefnandi fram dagskýrslur verktaka og reikninga vegna þessa. Samtals nemur sú fjárhæð 1.060.540 kr. sem er fjárhæð þessa kröfuliðar.

21        Efni til verksins Gagnstefnandi krefst þess að aðalstefnandi greiði fyrir efni sem hann lagði ekki til en bar að afhenda samkvæmt samningi aðila. Um sé að ræða gler og „cover cap“ ásamt öðru smávægilegu efni. Samtals nemi krafa samkvæmt þessum lið 1.390.437 kr.

22.       Stjórnunarkostnaður, efni og vinna Gagnstefnandi krefst þess að aðalstefnandi greiði fyrir þann stjórnunarkostnað, efni og vinnu sem ekki falli undir liði 1-21 að framan en sé hluti af kröfum hans á hendur aðalstefnanda sem komi skýrt fram á framlögðum reikningum gagnstefnanda á hendur aðalstefnanda. Sá kostnaður nemi samtals 3.193.584 kr.

Samtals nemi kröfur gagnstefnanda vegna viðbótar- og aukaverka sem að framan er lýst 38.243.017 kr. Kröfurnar byggist á vanefnd aðalstefnanda á skyldum samkvæmt samningi aðila. Til stuðnings kröfum í einstökum kröfuliðum er í gagnstefnu vísað til vinnuskýrslna, reikninga og annarra gagna málsins. Eru þessi skjöl tekin saman sem eitt dómsskjal, nr. 60.

                Gallar

                Gagnstefnandi byggir á því að fram hafi komið margvíslegir gallar á verki aðalstefnanda, og að það hafi því engan veginn staðist þær kröfur sem gerðar séu í útboðsgögnum eða sem almennt megi gera til slíkra verka. Því eigi gagnstefnandi rétt á að aðalstefnandi bæti honum það tjón sem hann hafi orðið fyrir vegna þessa með skaðabótum eða afslætti í samræmi við almennar reglur.

                Í fyrsta hluti útboðs- og samningsskilmála, sbr. grein I 0.8.2. sé fjallað um gæði verksins þar sem segi meðal annars: Verktaki skal bæta að fullu alla galla, sem fram kunna að koma á verkinu og um er að kenna slæmum frágangi eða efni. Þrátt fyrir eftirlit aðalverktaka og verkkaupa, ber verktaki fulla ábyrgð á efni og vinnu. Eftirlitsaðili verktaka getur sett tímatakmörk um hvenær það sem áfátt er talið, skuli vera lagfært og heimilt er að stöðva greiðslur til verktaka uns þær lagfæringar hafa farið fram.

                Gagnstefnandi vísi einnig til þess að í grein 20.6 í ÍST 30 komi fram að sé galli á verkinu og hafi hann ekki verið lagfærður innan hæfilegs tíma sé verkkaupa heimilt að halda eftir upphæð sem samsvari kostnaði við að lagfæra gallann. Þá liggi fyrir í málinu að 28. júní 2010 hafi farið fram úttekt á þeim gluggum og hurðum sem aðalstefnandi hafi framleitt í byggingu Háskólans í Reykjavík. Hafi úttektin verið gerð af Eflu verkfræðistofu, eftirlitsaðila verksins, að viðstöddum fulltrúum gagnstefnanda og aðalstefnanda. Fulltrúi aðalstefnanda hafi þó yfirgefið verkstað áður en úttektinni hafi verið að fullu lokið. Niðurstaða úttektarinnar hafi verið eftirfarandi: Eftir þessa úttekt og lestur minnisblaðanna sem listuð eru upp hér fyrir neðan er ljóst að útihurðir og gluggar í byggingu HR eru ekki full kláraðir samkvæmt útboðsgögnum. Má í því sambandi nefna að ekki hefur fengist yfirlýsing frá sérfræðingi í gleri sem segir að of þröngt gler í falsi sé í lagi, Idex hefur ekki lokið við að endurgera leka ramma utan um opnanleg fög, líklega koma útihurðir til með að leka í vindi og rigningu. Þá er ekki ljóst hvort pólýhúðun sem framkvæmd var hér innanlands endist, en borið hefur á að húðin hefur losnað t.d. víða við að taka hlífðarfilmu af. Benda má á að meira var polýhúðað hér innanlands en upphaflega var samþykkt.

                Í úttekt þessari hafi jafnframt verið vísað til fjölda annarra minnisblaða sem hafi staðfest verulega galla á verkinu auk þess sem settur hafi verið fram fjöldi athugasemda yfir atriði sem þyrfti að lagfæra. Eftir að úttektin hafi farið fram hafi enn frekar komið í ljós óþéttleiki í opnanlegum fögum og mikill leki.

                Gagnstefnandi telji af þessu ljóst að gallar séu á verkinu sem felist einkum í því að opnanleg fög leki, að of stórar rúður séu í gluggafölsum og að aðalstefnandi hafi ekki lagt fram umsamdar glertryggingar sem eigi að fylgja verkinu samkvæmt verksamningi, sbr. grein 7.2.0 í II. hluta verklýsingar. Gagnstefnandi hafi metið tjón sitt vegna þessara galla með eftirfarandi hætti:

N

Gallar

1.

Lek opnanleg fög

14.000.000

2

Of stór gler

5.000.000

3

Vöntun á glerábyrgð

3.000.000

Samtals:

22.000.000

                                                                                                                                                                              

                Gagnstefnandi krefst því þess að aðalstefnandi greiði 22.000.000 króna vegna framangreindra galla. Svo sem að framan er rakið féll gagnstefnandi frá kröfu um bætur vegna liðar 1, lek opnanleg fög, í upphafi aðalmeðferðar. Fjárhæð kröfu um bætur vegna galla verður því 8.000.000. kr.

                Tafabætur

Gagnstefnandi vísar til þess að sérstakir afhendingardagar hafi verið ákveðnir í fylgiskjali 1 við viðaukasamning milli gagnstefnanda og aðalstefnanda. Þar segi að komi til afhendingardráttar reiknist sérstakar tafabætur sem nema skuli 100.000 krónum á dag vegna þakglugga og 50.000 kr. á dag vegna annarra verkliða.

Sé tekið mið af þeim dagsetningum sem settar hafi verið fram í framangreindu fylgiskjali sé ljóst að aðalstefnandi hafi ekki skilað neinum verkþætti á réttum tíma. Gagnstefnandi krefjist þó aðeins tafabóta vegna neðangreindra þriggja verkþátta. Þeir verkþættir hafi haft afgerandi áhrif á heildarframvindu verksins og tafir á þeim hafi leitt til kostnaðar og tjóns fyrir gagnstefnanda sem og hafi valdið töfum á vinnu annarra verktaka við verkið.

Samkvæmt viðaukasamningi aðila hafi verið kveðið á um ákveðna afhendingardaga fyrir einstaka verkþætti:

                Þakgluggi: Skiladagur þakglugga hafi verið 31. júlí 2009 samkvæmt samningi aðila. Glugginn hafi verið tilbúinn 45 dögum á eftir áætlun, þann 14. september 2009. Tafabætur vegna þakglugga séu því alls 4.500.000 kr. (100.000 kr. pr/dag*45).

                Garður 6: Áætlaður skiladagur vegna þess verkþáttar sem kallaður hafi verið „Garður 6“ (útigarður við byggingu 6) hafi verið 15. september 2009 en verkinu hafi verið skilað af hálfu aðalstefnanda þann 11. febrúar 2010, 149 dögum á eftir áætlun. Tafabætur vegna þessa verkþáttar nemi því 7.450.000 kr. (50.000 kr. pr/dag *149).

                Hurðir, laus fög og annað: Skiladagur þessa verkþáttar hafi annars vegar verið 15. október 2009 og 30. október 2009 en verkinu hafi verið skilað af hálfu aðalstefnanda þann 31. mars 2010, 152 dögum á eftir áætlun. Fjárhæð tafabóta vegna þessa verkþáttar sé því 7.600.000 krónur (50.000 kr. pr/dag *152).

Krafa gagnstefnanda um tafabætur styðjist að auki við grein I 0.5.4 í 1. hluta útboðs- og samningsskilmála, sem fjalli um fresti og tafabætur. Þá geri gagnstefnandi áskilnað um innheimtu tafabóta.

Gagnstefnandi krefjist því samtals 19.550.000 kr. í tafabætur úr hendi aðalstefnanda.

Samtals nemi kröfur gagnstefnanda á hendur aðalstefnanda því 79.793.017 kr. en að frádregnum þeim kröfum aðalstefnanda á hendur gagnstefnanda í aðalsökinni sem ekki sé ágreiningur um nemi heildarkröfur gagnstefnanda 50.747.038 kr., sem sé því stefnufjárhæðin í gagnsök.

Gagnstefnandi krefst auk þess dráttarvaxta af gjalddaga hvers reiknings sem hann hafi gert aðalstefnanda vegna auka- og viðbótarverka. Af gallakröfum og kröfum um tafabætur sé krafist dráttarvaxta frá þingfestingardegi gagnsakar.

Gagnstefnandi byggi, auk framangreindra málsástæðna, jafnframt á öllum sömu málsástæðum og lagarökum í gagnsök og byggt sé á í greinargerð hans í aðalsök.

Um lagarök vísar gagnstefnandi til meginreglu kröfu- og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga, og um skyldu verktaka til greiðslu skaðabóta og/eða afsláttar vegna vanefnda á samningi. Þá sé einnig vísað til laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, einkum IV. og V. kafla þeirra laga. Jafnframt sé vísað til ÍST 30, sem og útboðs- og samningsskilmála vegna framangreinds verks. Þá er einnig byggt á lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 28. gr. um heimild til höfðunar gagnsakar. Kröfu um málskostnað reisi gagnstefnandi á 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Um varnarþing sé vísað til 2. mgr. 42. gr. sömu laga.

V.

Málsástæður og lagarök aðalstefnanda í gagnsök

Aðalstefnandi mótmælir lýsingu gagnstefnanda, sem komi fram í stefnu í gagnsök og í greinargerð gagnstefnanda í aðalsök, á ætluðum vanefndum aðalstefnanda á skyldum sínum samkvæmt viðaukasamningi, sem gerður hafi verið 7. maí 2009 en dagsettur í maí 2009, um yfirtöku aðalstefnanda á verksamningi gagnstefnanda og Formaco ehf., og þeim úrræðum sem gagnstefnandi telji sig hafa gripið til vegna þeirra.

                Aðalstefnandi byggir sýknukröfu sína á þeirri málsástæðu að hann hafi að öllu leyti staðið við samningsskyldur sínar við gagnstefnanda. Aðalstefnandi neiti því að bera ábyrgð gagnvart gagnstefnanda á ætluðum auka- og viðbótarverkum, sem gagnstefnandi telji sig hafa þurft að vinna vegna ætlaðra vanefnda aðalstefnanda, ætluðum göllum á verkinu og kostnaði sem gagnstefnandi telji sig hafa þurft að bera vegna þessa. Auk þess mótmæli aðalstefnandi að gagnstefnandi eigi rétt til tafabóta vegna afhendingardráttar, sem aðalstefnandi beri ábyrgð á.

Aðalstefnandi heldur því fram að gagnstefnanda hafi ekki greitt honum verklaun samkvæmt þeim reikningum sem aðalsök lúti að. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. hins yfirtekna undirverktakasamnings hafi gagnstefnanda borið að inna þessar greiðslur af hendi við lok næsta mánaðar eftir reikningsgerð. Í greinargerð sinni í aðalsök og málatilbúnaði í gagnsök hafi gagnstefnandi viðurkennt og lýst óumdeilt að hann skuldi aðalstefnanda 29.045.979 krónur af kröfum þeim sem aðalsök lúti að. Elsti reikningur aðalstefnanda vegna viðbótarverka, sem gagnstefnandi hafi viðurkennt að skulda aðalstefnanda, sé frá 19. júní 2009 með gjalddaga 31. júlí 2009. Elsti framvindureikningur, sem gagnstefnandi hafi viðurkennt að skulda aðalstefnanda, sé frá 31. ágúst 2009 með gjalddaga 30. september 2009. Meginskylda gagnstefnanda í réttarsambandinu hafi verið að greiða verklaun til aðalstefnanda á réttum gjalddögum. Þá skyldu hafi hann vanefnt verulega og verði því sjálfur að bera áhættu af því að aðalstefnanda hafi gripið til þeirra úrræða sem honum hafi verið heimil og tæk í því sambandi, meðal annars að hafa dregið síðari afhendingar og vinnu þar til greiðslur væru inntar af hendi. Því sé byggt á því, að ef talið verði að aðalstefnandi hafi ekki afhent efni og sinnt verkum á umsömdum tíma, verði gagnstefnandi sjálfur að bera allan kostnað sem af því kynni að hafa hlotist, auk þess sem hann geti hvorki krafið aðalstefnanda um bætur fyrir ætlaða galla á verkinu né tafabætur. Varðandi ætlaða galla sé sérstaklega vísað til þess að úrbótaréttur verktaka sé mjög víðtækur og almennt sé verkkaupa ekki heimilt að ráðast í úrbætur á kostnað verktaka nema verktaka hafi áður verið gefinn kostur á að bæta úr verki. Í þessu máli hafi það ekki verið gert af hálfu gagnstefnanda og jafnvel þó litið verði svo á að það hafi verið gert af hálfu gagnstefnanda, sé ljóst að aðalstefnanda hafi ekki borið skylda til að ráðast í slíkar úrbætur vegna þess að gagnstefnandi hafi ekki greitt umsamið verkkaup á réttum tíma.

Aðalstefnandi vísi til þess að hann hafi formlega mótmælt öllum reikningum gagnstefnanda sem leggi grunn að kröfum gagnstefnanda í gagnsök. Mótmæli sín hafi aðalstefnandi sett fram á sérstökum minnisblöðum eða í orðsendingum sem hann hafi komið á framfæri við gagnstefnanda eftir því sem tilefni hafi gefist til. Þá vísi gagnstefnandi jafnframt um málsástæður og rök til sérstakrar greinargerðar aðalstefnanda, er fylgdi bréfi lögmanns aðalstefnanda til gagnstefnanda, dags. 10. ágúst 2010, og nefnd sé Athugasemdir og mótmæli Idex glugga ehf. við kröfum Ístaks hf.

Samkvæmt 13. tölulið viðaukasamningsins hafi verið umsamið með aðilum að engin ófrágengin deilumál milli Formaco ehf. og gagnstefnanda eða viðbótar- og aukaverk ættu að flytjast yfir til aðalstefnanda við yfirtöku hans á verksamningnum. Þá segi að yfirtaka verksins miðist við 1. mars 2009. Aðalstefnandi byggi á því að öll mál sem fyrir þann tíma hafi komið upp í samskiptum Formaco ehf. og gagnstefnanda séu honum óviðkomandi og að gagnstefnandi geti í þessu ljósi hvergi byggt réttindi á hendur aðalstefnanda vegna slíkra atriða og beri að líta fram hjá þeim við úrlausn málsins. Í því sambandi sé sérstaklega vísað til þess að yfirtökusamningurinn hafi verið gerður 7. maí 2009 og hafi því gagnstefnanda verið í lófa lagið að koma að öllum fyrirvörum hvað þetta atriði varði á þeim tíma og beri því halla af að hafa ekki gert það.

Aðalstefnandi byggir á að ekki sé rétt að leggja til grundvallar við úrlausn málsins ákvarðanir og skýrslur eftirlitsaðila. Eftirliti hafi verið ábótavant af hálfu Eflu verkfræðistofu hf. og allt á annan veginn, þ.e. að eftirlitsmaður hafi leitast við að verja mistök í hönnun og mistök aðalverktaka í stað þess að hafa verið hlutlaus aðili sem ynni að lausn mála með sanngjörnum hætti. Aðalstefnandi hafi ítrekað gert athugasemdir við þetta. Auk þess heldur aðalstefnandi því fram að eftirlitsaðili hafi verið vanhæfur til að gegna eftirlitsstörfum vegna þess að aðaleftirlitsmaður við verkið hafi verið skyldur verkefnisstjóra gagnstefnanda. Þá hafi hann einnig verið vanhæfur þar sem verkefnisstjóri aðalverkkaupa, hafi verið fyrrum samstarfsmaður hans hjá eftirlitsaðilanum, áður en hann hafi verið ráðinn til starfa hjá gagnstefnanda.

                Aðalstefnandi telur að ranglega sé haldið fram í gagnstefnu að Formaco ehf. hafi ekki getað staðið við tilboð sitt þar sem félagið hafi ekki getað útvegað þá álglugga- og hurðakerfi sem legið hafi til grundvallar tilboði þeirra. Hið rétta sé að Formaco ehf. hafi getað útvegað það kerfi frá framleiðandanum Reynaers, en birginn hafi síðan ekki treyst sér til að styðja Formaco ehf. tæknilega vegna þess að verkið hafi verið orðið of flókið og að hans mati hafi það verið illa undirbúið af hálfu verkkaupans. Í framhaldi af því hafi verið ákveðið milli Formaco ehf. og gagnstefnanda, með samþykki aðalverkkaupa, að nota kerfi frá framleiðandanum Schüco í Þýskalandi þar sem sá framleiðandi hafi haft tæknimenntaðan umboðsmann í fullu starfi á Íslandi.

                Aðalstefnandi mótmælir því sem komi fram í gagnstefnu um að síðar hafi komið í ljós að Formaco ehf. hafi ekki ráðið við verkefnið. Gluggapóstar hafi...ítrekað verði sagaðir með röngum hætti, þeir skemmdir í flutningi, rangt gler pantað o.s.frv. og að þetta hafi leitt til þess að öll vinna við háskólabygginguna hafi tafist. Þó að þetta séu atriði sem aðalstefnandi beri ekki ábyrgð á, sbr. 13. tölulið í viðaukasamningnum, þá telji hann nauðsynlegt að mótmæla öllum slíkum fullyrðingum gagnstefnanda sérstaklega enda sé þar rangt með farið. Gluggapóstar hafi ekki ítrekað verið rangt sagaðir, skemmdir orðið í flutningi eða rangt gler verið pantað. Það hafi örfáum sinnum komið fyrir að gluggar hafi verið rangt sniðnir og sennilega í mun færri tilfellum en að leiðrétta hafi þurft skekkjur frá hendi aðalverktaka, þ.e. gagnstefnanda, og hönnuða. Hönnun byggingarinnar hafi ekki verið nægjanlega vel undirbúin og í sumum tilfellum hafi byggingin ekki passað á grunninn, og deili hennar verið óklár og beinlínis röng. Meðal annars liggi fyrir að starfsmaður Formaco ehf. hafi uppgötvað að annar þakglugginn yfir aðalgangi skólans hafi verið vitlaust hannaður og hafi þannig náð að forða því að 150m² gluggi yrði rangt smíðaður með tilheyrandi vinnu og kostnaði. Formaco ehf. hafi átt að hefja uppsetningu glugganna samkvæmt verkáætlun í byrjun september 2008. Engin gluggagöt hafi verið tilbúin á þeim tíma til ísetningar. Fyrsta uppsetning hafi ekki getað hafist fyrr en 21. október það ár. Þegar loks hafi verið hægt að hefja uppsetningu hafi gagnstefnandi ákveðið að gustloka á eigin kostnað innan við gluggagöt til að flýta fyrir að innivinna gæti hafist. Starfsmönnum Formaco ehf. hafi gengið erfiðlega að fá umbeðnar upplýsingar og teikningar sem hafi átt að fara eftir til framleiðslu glugganna. Auk þess hafi teikningum oft verið breytt og/eða upplýsingar skort frá verkkaupa.

Aðalstefnandi mótmælir jafnframt þeirri fullyrðingu í gagnstefnu að fljótlega hafi komið í ljós að aðalstefnandi hafi ekki ráðið við verkið frekar en forveri hans. Framlögð gögn varpi ljósi á að tafir á framvindu verksins hafi orðið vegna þátta sem gagnstefnandi beri sjálfur ábyrgð á.

                Varðandi það sem áður hafi komið fram um að starfsmaður aðalstefnanda hafi yfirgefið vettvang áður en úttektarfundi hafi lokið 28. júní 2010, sé ástæða þess sú að úttektin hafi verið farin að snúast um aðra hluti en aðalstefnanda hafi verið viðkomandi. Stóran hluta athugasemda í úttektinni hafi mátt rekja til uppsetningar og skemmda sem hafi verið unnar á gluggum og hurðum á vinnustaðnum á verktímanum, sem gagnstefnandi hafi sjálfur borið ábyrgð á. Einnig hafi stillingum hurða verið ábótavant en það hafi verið hlutverk uppsetningarmanna, sem störfuðu á vegum gagnstefnanda, að stilla hurðir til þess að þær virkuðu rétt. Nokkrir hlutir hafi komið fram við úttektina sem hafi verið á ábyrgð aðalstefnanda og hafi starfsmaður aðalstefnandi samþykkt að vinna að úrbótum á þeim atriðum um leið og gagnstefnandi myndi gera upp skuld sína. Það hafi gagnstefnandi hins vegar ekki gert.

                Aðalstefnandi telur að gagnstefnandi hafi framleitt reikninga á móti framvindu og viðbótarverkareikningum aðalstefnanda, að því er virðist til að koma í veg fyrir að standa í skilum. Gagnstefnandi hafi einungis vísað til þess að hann teldi aðalstefnanda vera á eftir áætlun með verkið en hann hafi aldrei tekið tillit til krafna hans við aðalstefnanda að hann ynni ýmis aukaverk vegna gallaðra útboðsgagna og lélegs undirbúnings. Á því sé byggt að aðalstefnandi hafi ekki tafið heildarverkið heldur hafi gagnstefnandi gripið til þess að lýsa ætlaðri sök aðalstefnanda fyrir aðalverkkaupa til að afsaka það að hann hafi sjálfur verið langt á eftir áætlun.

                Allir reikningar frá gagnstefnanda á hendur aðalstefnanda brjóti í bága við ákvæði 14. töluliðs viðaukasamningsins en þar segi: Öll tímavinna Ístaks á verkþáttum sem rekja má til skekkju eða ágalla í framleiðslu Idex glugga skal tilkynntur Idex gluggum ehf. án tafar. Gefa skal Idex gluggum ehf. kost á að vinna úrbætur, sé hægt að koma því við án þess að tefja verk.

Umræddri tilkynningarskyldu hafi gagnstefnandi sinnt stöku sinnum og hafi aðalstefnandi ævinlega brugðist þegar við og sinnt umkröfðum úrbótum. Dæmi séu um að starfsmenn aðalstefnanda hafi verið reknir frá úrbótaverki við útskiptingu á gleri í þakglugga af fulltrúum gagnstefnanda. Engin gögn séu lögð fram í málinu sem sanni að aðalstefnandi hafi ekki sinnt úrbótarétti sínum eftir að formleg krafa hafi borist frá gagnstefnanda um það.

                Ætluð viðbótar- og aukaverk

                Aðalstefnandi byggir á því að enga sundurliðun kröfu vegna ætlaðra viðbótar- og aukaverka sé að finna í gagnstefnu og tilvísun til undirgagna í dómskjali 60 nægi ekki til að aðalstefnandi geti varist kröfunni efnislega. Greiðsluskyldu sé því hafnað í öllum tilvikum. Málsástæður aðalstefnanda er lúta sérstaklega að hverri kröfu gagnstefnanda í gagnsök verða hér sérstaklega reifaðar en almennt er vísað til umfjöllunar að framan.

1.       Lagfæringar. Gagnstefnandi hafi enga grein gert fyrir því hvers vegna aðalstefnandi eigi að greiða honum umkrafða fjárhæð. Þá sé enga sundurliðun kröfunnar að finna í gagnstefnu og tilvísun til undirgagna í dómskjali 60 sé hvergi nærri nægjanleg til þess að aðalstefnandi geti varist kröfunni efnislega. Greiðsluskyldu sé því hafnað og beri að sýkna aðalstefnanda af kröfum gagnstefnanda skv. þessum lið. Þá sé vísað til þess að aðalstefnanda var ekki gefinn kostur á að bæta sjálfur úr verki sínu ef um lagfæringar á verkum hans er að tefla á annað borð í samræmi við almennar reglur verktakaréttar og sérstakt samningsákvæði í 14. tölulið viðaukasamnings, sbr. dómskjal 31.

2.       Frágangur glugga. Enga sundurliðun kröfunnar sé að finna í gagnstefnu og tilvísun til undirgagna í dómskjali 60 sé hvergi nærri nægjanleg til þess að aðalstefnandi geti varist kröfunni efnislega. Ekki sé með skýrum hætti sýnt fram á að umkrafinn kostnaður sé vegna efniskaupa sem aðalstefnanda bar að leggja til verksins skv. viðaukasamningi, sbr. dómskjal 31. Aðalstefnanda bar einungis að leggja til það efni sem tilheyrði verkinu skv. teikningum en annað ekki. Greiðsluskyldu sé því hafnað og beri að sýkna aðalstefnanda af kröfum gagnstefnanda skv. þessum lið. Gagnstefnandi virðist krefja aðalstefnanda um greiðslu fyrir efni sem í verkið fór vegna ónákvæmni í uppsteypu, breytinga sem hvergi hafi verið sýndar á teikningum og aðalstefnandi hafi þ.a.l. ekki reiknað með að skila, ákvarðana eftirlits verkkaupa sem ekkert samkomulag hafi verið um við aðalstefnanda eða nokkur önnur aðkoma hans við ákvarðanir. Á því sé byggt að efnisbeiðnir gagnstefnanda hafi í öllum tilvikum verið allt of seint fram settar og að vegna þess hafi aðalstefnandi ekki haft nægjanlegt ráðrúm til að útvega umbeðið efni að því magni sem gagnstefnandi átti rétt á frá aðalstefnanda. Til vara sé þess því krafist að lækka beri kröfu gagnstefnanda af þessum sökum.

3.       Gler. Enga sundurliðun kröfunnar sé að finna í gagnstefnu og tilvísun til undirgagna í dómskjali 60 sé hvergi nærri nægjanleg til þess að aðalstefnandi geti varist kröfunni efnislega. Greiðsluskyldu sé því hafnað og beri að sýkna aðalstefnanda af kröfum gagnstefnanda skv. þessum lið. Krafa gagnstefnanda eigi sér enn fremur enga stoð í raunveruleikanum. Umsjón efnis á verkstað hafi verið í höndum gagnstefnanda og á hans ábyrgð enda hafi hann tekið á móti öllu gleri sem flutt var í áföngum í gámum frá Eistlandi. Í gámunum hafi allt gler komið sem þurfti til byggingarinnar. Eftir að aðalstefnandi yfirtók verksamninginn hafi hann sérstaklega óskað eftir því við verksmiðju í Eistlandi að öllu gleri sem átti að fara í laus fög og hurðir yrði pakkað sérstaklega í kistur þar sem þá hefði verið ákveðið að það yrði glerjað í verksmiðju aðalstefnanda. Þegar þó nokkur hluti af þessu gleri hefði verið settur á vöruflutningabíl aðalstefnanda á verkstað hafi gagnstefnandi tekið ákvörðun um að hurðir yrðu ekki glerjaðar í verksmiðju aðalstefnanda, þrátt fyrir að aðalstefnandi hefði kosið það. Því þurfti að senda hurðagler sem þegar var komið í verksmiðjuna aftur á verkstað án þess að það hefði farið úr kistum. Gagnstefnandi hafi því sjálfur borið ábyrgð á öllu því gleri, sem hann geri nú kröfur á hendur aðalstefnanda vegna. Mistök við glerísetningu séu síðan alfarið á ábyrgð gagnstefnanda. Vísað sé til þess að glerpöntun aðalstefnanda fór þannig fram að eftir heiti gluggans skv. magntöluskrá var gerður alsjálfvirkur glerlisti sem sendur var til glerverksmiðjunnar til framleiðslu. Á listanum kom fram stærð glers, þykkt glerja og heildarþykkt, tegund glers m.t.t. sólar, herslu, öryggis og annars sem koma þurfti fram vegna framleiðslunnar. Á hverja einustu rúðu hafi verið límdur framleiðslumiði frá verksmiðju þar sem áður taldar framleiðsluupplýsingar komu fram sem og í hvaða glugga rúðan skyldi fara. Við verkið sem gagnstefnandi eða undirverktakar, sem hann réð til starfa önnuðust, var ekki farið eftir þessum merkingum, þrátt fyrir að aðalstefnandi ítrekaði margsinnis að eftir þessum leiðbeiningum yrði að fara, sérstaklega í svo stóru verki ef ekki ætti illa að fara. Þessi tilmæli voru hundsuð gjörsamlega. Aðalstefnandi ítrekaði margsinnis við gagnstefnanda að ef vart yrði við brotið gler í gámum eða kistum, þá yrði að gera tjónaskýrslu, tilkynna tryggingarfélagi eða skipafélagi tjónið sem þá myndi senda tjónaskoðunarmann áður en hreyft yrði við vörunni. Allt gler sem hreyft hafði verið úr kistum væri ella á ábyrgð gagnstefnanda. Þrátt fyrir þetta sendi gagnstefnandi enga tjónaskýrslu og aldrei tilkynnti hann um flutningstjón né hefur hann sent fráviksskýrslur skv. gæðakerfi sínu. Þegar framangreint er virt verður að telja að öldungis fráleitt sé að gagnstefnandi geti krafið aðalstefnanda um það sem hann kallar kostnað vegna vinnu sem fram fór á verkstað vegna glers sem þurfti að meðhöndla sérstaklega þ.e. vinnu gluggaísetningarmanna við að telja gler, endursenda gallað gler, eða gler sem ekki passaði þar sem það átti að vera. Hið sama á við um kostnað vegna glers sem ...kom brotið á verkstað í kistunum eða brotnaði á verkstað... Tjón það eða fjárútlát sem gagnstefnandi telur sig hafa orðið fyrir samkvæmt þessum lið verður hann því, af framangreindum sökum, sjálfur að bera.

4.       Glerskipti. Enga sundurliðun kröfunnar sé að finna í gagnstefnu og tilvísun til undirgagna í dómskjali 60 sé hvergi nærri nægjanleg til þess að aðalstefnandi geti varist kröfunni efnislega. Greiðsluskyldu sé því hafnað og beri að sýkna aðalstefnanda af kröfum gagnstefnanda skv. þessum lið. Gagnstefnandi byggi á því að hann hafi hinn 1. apríl 2009 sent aðalstefnanda litaða teikningu, sbr. dómskjal 82, þar sem sýndar hafi verið rúður sem endurpanta þurfti. Aðalstefnandi svaraði þessu um hæl með innáskrift á þessar lituðu teikningar, hvaða rúður hann fyrir hönd framleiðanda samþykkti að endurpanta á sinn kostnað. Var það gert án athugasemda frá gagnstefnanda. Uppgötvaðar voru 2 rúður þar sem framleiðslugalli hafði komið fram, sbr. áður nefndar teikningar. Einnig samþykkti aðalstefnandi að panta á sinn kostnað eða framleiðanda nokkrar rúður til viðbótar. Allt annað gler var gagnstefnandi, eða menn sem hann bar ábyrgð á, annaðhvort búinn að hreyfa úr kistum, með hættu á skemmdum eða það skemmdist í meðförum þeirra. Þá lágu engar tjónstilkynningar fyrir eða ógerlegt var að sjá hvort umræddir bollar væru það miklir að verkkaupa væri heimilt að krefjast nýrra rúða. Búið var að setja glerið í glugga hússins, líma yfir með dúkborða og setja svokallaða klemmulista yfir en bollar í gleri eru yfirleitt í útjöðrum glers og hyljast því oftast um leið og búið er að setja glerið í. Aðeins kemur fram í 7. tölulið viðaukasamningsins að aðalstefnandi endurvinni rispaða gluggapósta en ekki er þar minnst á að aðalstefnandi leggi til nýtt gler í stað þess sem þegar hafði verið greitt Formaco ehf. Ekki getur staðist að aðalstefnanda verði gert að greiða þetta án þess að skýr ákvæði séu um það í samningi aðila. Varðandi dómskjal 93 er rétt að taka fram að gagnstefnandi færði aldrei fram sönnur um að uppsetningarmenn hefðu ekki gatað glereininguna við stýfingu á staðnum. Ef þetta hefði gerst við pökkun hjá framleiðanda glersins hefði það átt að vera ljóst strax við að glerið var tekið úr kassanum. Kostnað sem gagnstefnandi telur sig hafa orðið fyrir vegna þessa verði hann því sjálfur að bera. Ljóst sé að aðalstefnandi geti ekki borið ábyrgð á rúðum sem brotnuðu við ísetningu á vegum gagnstefnanda eða eftir að þær voru komnar í. Ekkert liggi fyrir um orsakir þess og næsta víst að þær hafi brotnað af ástæðum sem gagnstefnandi bar sjálfur áhættu af. Þá mótmæli aðalstefnandi því að hann hafi afhent gagnstefnanda gler af rangri stærð. Vísað sé til þess sem að framan segir um það gæðakerfi sem viðhaft var við framleiðslu glers í verksmiðju og merkingar á því. Aðalstefnandi geti ekki borið ábyrgð á því að gagnstefnandi, eða aðilar sem á hans ábyrgð sinntu glerísetningum, skildu ekki þær merkingar eða ákváðu að hundsa þær og grípa það gler sem hendi var næst til innsetningar þrátt fyrir aðvaranir aðalstefnanda um að slík vinnubrögð kynnu ekki góðri lukku að stýra. Varðandi þennan lið sé enn fremur byggt á því að gagnstefnandi hafi viðurkennt að hann beri sjálfur ábyrgð á því meinta fjártjóni sem hann telur sig hafa orðið fyrir.

5.       Gustlokun. Enga sundurliðun kröfunnar sé að finna í gagnstefnu og tilvísun til undirgagna í dómskjali 60 sé hvergi nærri nægjanleg til þess að aðalstefnandi geti varist kröfunni efnislega. Greiðsluskyldu sé því hafnað og beri að sýkna aðalstefnanda af kröfum gagnstefnanda skv. þessum lið. Fráleitt verði einnig að telja að gagnstefnandi eigi réttmæta kröfu á hendur aðalstefnanda að öðru leyti skv. þessum kröfulið. Ekkert sé í samningi eða viðaukasamningi um að þetta fyrirkomulag skuli viðhaft, heldur þvert á móti. Þá liggur fyrir að gagnstefnandi krafði aðalstefnanda ekki um greiðslu vegna þessa meinta kostnaðar fyrr en hálfu ári eftir að hann féll til. Í ljósi þess og jafnframt að gagnstefnandi sendi aðalstefnanda engar tilkynningar vegna þessa og að hann fór ekki eftir fyrirmælum um glerjun og virti merkingar á rúðum að vettugi hljóti hann sjálfur að bera ábyrgð á því meinta fjártjóni sem hann telur sig hafa orðið fyrir.

6.       Gúmmíþéttilistar. Enga sundurliðun kröfunnar sé að finna í gagnstefnu og tilvísun til undirgagna í dómskjali 60 sé hvergi nærri nægjanleg til þess að aðalstefnandi geti varist kröfunni efnislega. Greiðsluskyldu sé því hafnað og beri að sýkna aðalstefnanda af kröfum gagnstefnanda skv. þessum lið. Fráleitt verði einnig að telja að gagnstefnandi eigi réttmæta kröfu á hendur aðalstefnanda að öðru leyti skv. þessum kröfulið, sem varðar verk Formaco ehf. og er aðalstefnanda óviðkomandi. Ekkert sé í viðaukasamningi um að aðalstefnandi beri hér ábyrgð gagnvart gagnstefnanda. Hér sé um það að ræða að gagnstefnandi samþykkti vinnu þriðja aðila án samþykkis aðalstefnanda og girti fyrir alla möguleika hans til að annast sjálfur úrbætur ef um vanefnd af hálfu aðalstefnanda var að ræða. Það hafi hins vegar ekki verið í ljós leitt. Engar tilkynningar hafi komið vegna umfangs verksins. Það var á ábyrgð gagnstefnanda að tilkynna ef um mistök hefði verið að ræða í framleiðslu og gefa aðalstefnanda kost á að bæta úr áður en hann kallaði til þriðja mann. Í ljósi þessa og að gagnstefnandi fór ekki eftir fyrirmælum um glerjun og virti merkingar á rúðum að vettugi hljóti hann sjálfur að bera ábyrgð á því meinta fjártjóni sem hann telur sig hafa orðið fyrir.

7.       Horn í görðum. Enga sundurliðun kröfunnar sé að finna í gagnstefnu og tilvísun til undirgagna í dómskjali 60 sé hvergi nærri nægjanleg til þess að aðalstefnandi geti varist kröfunni efnislega. Greiðsluskyldu sé því hafnað og beri að sýkna aðalstefnanda af kröfum gagnstefnanda skv. þessum kröfulið. Þá sé jafnframt ljóst að aðalstefnandi geti ekki borið greiðsluskyldu vegna þessa kröfuliðar þegar af þeirri ástæðu að hvergi í magnskrá né verklýsingu sé að finna neitt um þessi horn auk þess sem hönnuðir gagnstefnanda breyttu teikningum verulega án þess að gefa nokkrar skýringar og gagnstefnandi óskaði heldur ekki eftir viðbótarverki vegna þessa eins og honum bar að gera og tekið sé fram í útboðslýsingu. Eftirlit hefði átt að fylgja þessu eftir en gerði það ekki og eftirlit hafi skipt sér af úrlausnum og komið að samkomulagi við þriðja mann án nokkurra viðræðna eða aðkomu aðalstefnanda. Það að gagnstefnandi, eins og hann sjálfur skrifar, skuli hafa tekið af efni sem til var á staðnum séu hrein skemmdarverk við heildarverkið, því í tölvukerfi verksmiðjunnar hafi hvert og eitt stykki úr áli sitt númer og því sé eingöngu ætlað á ákveðinn stað. Um leið og eitt stykki er tekið frá nýtist það ekki á þeim stað þar sem því sé ætlað að vera og við það riðlist allt verkið. Í ljósi þessa hljóti gagnstefnandi sjálfur að bera ábyrgð á því meinta fjártjóni sem hann telur sig hafa orðið fyrir.

8.       Hurðarpumpur og pinnar. Enga sundurliðun kröfunnar sé að finna í gagnstefnu og tilvísun til undirgagna í dómskjali 60 sé hvergi nærri nægjanleg til þess að aðalstefnandi geti varist kröfunni efnislega. Greiðsluskyldu sé því hafnað og beri að sýkna aðalstefnanda af kröfum gagnstefnanda skv. þessum kröfulið. Til vara sé á því byggt að málsaðilar hafi sammælst um að skipta þessum kostnaði á milli sín og beri því að lækka kröfu samkvæmt þessum kröfulið um helming.

9.       Láshringir. Enga sundurliðun kröfunnar sé að finna í gagnstefnu og tilvísun til undirgagna í dómskjali 60 sé hvergi nærri nægjanleg til þess að aðalstefnandi geti varist kröfunni efnislega. Greiðsluskyldu sé því hafnað og beri að sýkna aðalstefnanda af kröfum gagnstefnanda skv. þessum kröfulið. Allt að einu beri enn fremur að hafna þessum kröfulið vegna þess að til þess var ætlast í útboðsgögnum að bjóðandi sæi um burðarþolslega útreikninga og kæmi að verkefninu með sína þekkingu og reynslu. Teinar og láshringir sem notaðir voru voru samþykktir af gagnstefnanda. Festingin er á innanverðum glugganum tengd við stál sem ekki er ryðfrítt og átti að málast. Ekki hafi verið hægt að mála fyrr en búið var að festa gluggann og glerja og þar af leiðandi átti teinn og láshringur að málast um leið og annað stál. Engin krafa hafi verið gerð í verklýsingu um að láshringir ættu að vera ryðfríir enda fásinna þar sem þeir séu að innanverðu og engin hætta á ryði eða tæringu til frambúðar. Þegar tilkynning frá eftirliti kom um að láshringir ættu að vera ryðfríir, án þess að þess hefði verið getið af hönnuðum, hefði aðalstefnandi þegar afhent alla láshringi sem notast áttu í heildarverkið. Engin ástæða var heldur til að skipta út þessum láshringjum, eins og þegar hefur verið tilgreint, og því beri að hafna þessari kröfu gagnstefnanda.

10.    Lok / þykkingar. Enga sundurliðun kröfunnar sé að finna í gagnstefnu og tilvísun til undirgagna í dómskjali 60 sé hvergi nærri nægjanleg til þess að aðalstefnandi geti varist kröfunni efnislega. Greiðsluskyldu sé því hafnað og beri að sýkna aðalstefnanda af kröfum gagnstefnanda skv. þessum kröfulið. Telja verður að gagnstefnandi beri sjálfur ábyrgð á meintum aukakostnaði sínum sem hann krefur aðalstefnanda um skv. þessum kröfulið. Samningsgögn voru óljós um það hvernig þetta átti að útfærast og verður að leggja til grundvallar að gagnstefnandi hafi samþykkt þá útfærslu sem Formaco ehf. lagði til og unnið var eftir. Útboðsgögnin samanstóðu af útboðslýsingu, útboðsteikningum og útboðsverklýsingu og var það sá grunnur sem smíða átti eftir og afhenda gagnstefnanda. Þá skipti hér einnig máli að nánast engir gluggar koma að niðurhengdu lofti heldur fara þeir flestallir upp fyrir loftalínuna. Ástæða þess að notaður var aðeins 175 mm prófíll með viðbótarþykkingu var einfaldlega sú að ekki eru framleiddir 225 mm láréttir prófílar eins og betur verður skýrt hér á eftir. Vegna þess samþykkti gagnstefnandi að sett yrði 50 mm þykking að innan. Skýring á þessu sé einfaldlega sú að á móti 220 mm lóðréttum pósti, eins og í þessu verkefni, þurfi, kerfisins vegna, að vera 225 mm láréttur póstur, enda hafi hann aðra lögun og allt annað verkefni í álgluggakerfi en sá lóðrétti. Þegar Formaco ehf. tilkynnti hönnuðum þetta var fallist á að settar yrðu þessar þykkingar að innan. Í ljósi þessa hljóti gagnstefnandi sjálfur að bera ábyrgð á því meinta fjártjóni sem hann telur sig hafa orðið fyrir. Þá er ljóst að ágreiningur um þetta atriði á milli gagnstefnanda og Formaco ehf. var að baki við gerð viðaukasamningsins.

11.    Rauðar festingar. Enga sundurliðun kröfunnar sé að finna í gagnstefnu og tilvísun til undirgagna í dómskjali 60 sé hvergi nærri nægjanleg til þess að aðalstefnandi geti varist kröfunni efnislega. Hafnað er því greiðsluskyldu og beri að sýkna aðalstefnanda af kröfum gagnstefnanda skv. þessum kröfulið. Að því frátöldu liggi ekkert fyrir um að aðalstefnanda beri að greiða gagnstefnanda vegna þessa kröfuliðar. Engar tilkynningar voru sendar af hálfu gagnstefnanda vegna þessa og því gafst aðalstefnanda ekki tækifæri til að bæta úr ef þess hefði raunverulega verið þörf. Gluggaísetningarmenn óskuðu ekki eftir að smellufestingar yrðu settar á í verksmiðju aðalstefnanda. Ef þeir hefðu gert það hefði það væntanlega verið gert. Í ljósi þessa hlýtur gagnstefnandi sjálfur að bera ábyrgð á því meinta fjártjóni sem hann telur sig hafa orðið fyrir.

12.    Seinni kíttun. Enga sundurliðun kröfunnar sé að finna í gagnstefnu og tilvísun til undirgagna í dómskjali 60 sé hvergi nærri nægjanleg til þess að aðalstefnandi geti varist kröfunni efnislega. Greiðsluskyldu sé því hafnað og beri að sýkna aðalstefnanda af kröfum gagnstefnanda skv. þessum kröfulið. Gagnstefnandi geti ekki átt kröfu á hendur aðalstefnanda um greiðslu skv. þessum kröfulið vegna þess að verkið hafi verið algerlega þarflaust og hafi gagnstefnandi ekki lagt fram viðhlítandi skýringu á því hvers vegna ráðist var í verkið. Það að ráðist var í þessa miklu og kostnaðarsömu aðgerð sé því aðalstefnanda óviðkomandi. Eftirlitsmaður aðalverkkaupa gerði enga tilraun til að spyrjast fyrir um þörf á verkinu hjá aðalstefnanda eða umboðsmanni Schüco áður en ráðist var í framkvæmdina, hún hafi verið gerð án röksemdarfærslu og alls ekki í samræmi við viðaukasamninginn. Virðist eftirlitsaðili hafa ákveðið þetta upp á sitt eindæmi. Gagnstefnandi hefði átt að bera málið undir aðalstefnanda áður en fyrirskipun til uppsetningarmanna var gefin um að framkvæma verkið. Þá er ljóst að aðalstefnandi var í viðaukasamningnum undanskilinn allri ábyrgð á vinnu á staðnum nema mögulegum lagfæringum á eigin smíði. Þegar starfsmaður aðalstefnanda hafi orðið þess áskynja að verið væri að vinna þessa þarflausu vinnu hafi hann reynt að telja mönnum hughvarf. Álgluggakerfi sé einfaldlega þannig, eðli sínu samkvæmt, að lóðréttar og láréttar samsetningar eru ekki þéttar. Það mun alltaf loft fara um þau samskeyti og því breyti engu hvort þessi „tvöfalda kíttun“ hafi verið gerð eða ekki. Nú er staðan sú að gluggar í húsum 2 og 3 eru með aukakíttun inn undir miðjum efsta og neðsta þverpósti en ekki í húsi 6. Umboðsmaður Schüco á Íslandi, Víkingur Eiríksson, hafi einnig gert tilraun til að leiða eftirlitsmann og gagnstefnanda í ljós viskunnar en ekki orðið ágengt frekar en aðalstefnanda. Í ljósi þessa hljóti gagnstefnandi sjálfur að bera ábyrgð á því meinta fjártjóni sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna hinnar óþörfu iðju.

13.    Skemmdir/gallaðir álprófílar. Enga sundurliðun kröfunnar sé að finna í gagnstefnu og tilvísun til undirgagna í dómskjali 60 sé hvergi nærri nægjanleg til þess að aðalstefnandi geti varist kröfunni efnislega. Greiðsluskyldu sé því hafnað og beri að sýkna aðalstefnanda af kröfum gagnstefnanda skv. þessum kröfulið. Krafa þessi lúti að gömlum erjum milli gagnstefnanda og Formaco ehf. Aðalstefnandi hafi ekki ábyrgst meintar skyldur Formaco ehf. í þessu tilliti við yfirtökuna. Sérstaklega sé tekið fram í viðaukasamningi hvaða skyldur aðalstefnandi skyldi bera við útskiptingu vegna fyrri framleiðslu. Verk sem krafist er greiðslu vegna samkvæmt þessum kröfulið séu þar ekki innifalin enda yfirtók aðalstefnandi aðeins framleiðslu á skemmdum prófílum sem Formaco ehf. hafði framleitt. Í ljósi þessa hlýtur gagnstefnandi sjálfur að bera ábyrgð á því meinta fjártjóni sem hann telur sig hafa orðið fyrir. Skýrt hafi verið tekið fram í viðaukasamningi að vinna á byggingarstað var á höndum gagnstefnanda enda greiðslumat fyrir uppsetningavinnu sem hafði verið greitt Formaco ehf. dæmt við yfirtökuna einskis virði af gagnstefnanda.

14.    Stálfestingar. Enga sundurliðun kröfunnar sé að finna í gagnstefnu og tilvísun til undirgagna í dómskjali 60 sé hvergi nærri nægjanleg til þess að aðalstefnandi geti varist kröfunni efnislega. Greiðsluskyldu sé því hafnað og beri að sýkna aðalstefnanda af kröfum gagnstefnanda skv. þessum kröfulið. Aðalstefnandi tók við hönnun sem þegar hafði verið samþykkt með tilliti til aðstæðna á verkstað og framleiddi festingar skv. þessari hönnun. Þar sem fulltrúar aðalstefnanda höfðu ekki viðveru á verkstað og gátu á engan hátt mælt eða kannað aðstæður þá hljóti það að liggja í augum uppi að aðalstefnandi, sem framleiddi eftir samþykktum teikningum, geti ekki borið ábyrgð á lagfæringum festinga sem passa ekki á byggingarstað. Því geti verið um að kenna skekkju í uppsteypu, teikningum hönnuða eða skorti á því að gagnstefnandi hafi tilkynnt aðalstefnanda um frábrigði. Sýnt dæmi sé að arkitektar og verkfræðingar unnu ekki eftir sama grunni þegar í ljós kom að jarðhæð passaði ekki ofan á kjallara, með gífurlegum kostnaði við smíði og leiðréttingu stálfestinga fyrir gluggakerfið sem nánast hékk utan á kjallaranum á viðbótarstáli í stað steyptra veggja. Í ljósi þessa hljóti gagnstefnandi sjálfur að bera ábyrgð á því meinta fjártjóni sem hann telur sig hafa orðið fyrir.

15.    Aðgerðir til að verja gluggapósta með krossvið. Enga sundurliðun kröfunnar sé að finna í gagnstefnu og tilvísun til undirgagna í dómskjali 60 sé hvergi nærri nægjanleg til þess að aðalstefnandi geti varist kröfunni efnislega. Greiðsluskyldu er því hafnað og beri að sýkna aðalstefnanda af kröfum gagnstefnanda skv. þessum kröfulið. Krossviðarhlífar séu engan veginn settar á hurðarkarma vegna þess að hurðir séu afgreiddar of seint. Krossviðarhlífar séu settar á hurðakarma til að varna gegn skemmdum þar sem verið sé að ganga um dyr á byggingartíma. Aðalstefnandi fékk seint og um síðir beiðni frá gagnstefnanda um að smíða hurðir í mismunandi málum. Endurpanta hafi þurft gler sem gagnstefnandi vissi mætavel að tæki um 8 - 12 vikur að fá til landsins, allt eftir öðrum glersendingum, en alltaf var miðað við, og samþykkt af gagnstefnanda, að sendir yrðu fullir gámar vegna flutningskostnaðar. Ekki lá heldur fyrir nánari útfærsla á hurðunum. 12. útgáfa af hurðarskrá hafi borist aðalstefnanda í september 2009, mánuðum eftir að verki aðalstefnanda átti að vera lokið samkvæmt viðaukasamningnum, og þá hafi þurft að breyta teikningum og síðan pöntunum til erlendra birgja, bíða eftir að efni kæmi til verksmiðju og framleiða. Ljóst má vera að allt þetta gerist ekki á örskömmum tíma þrátt fyrir að gagnstefnandi hafi ætlast til þess. Skortur á hönnun og réttri hönnun verksins af hálfu gagnstefnanda og bein afleiðing af vandamálum gagnstefnanda gagnvart aðalverkkaupa hafi hér verið um að kenna. Þá er ljóst að kostnaður á verkstað gat aldrei fallið á aðalstefnanda á grundvelli samnings aðila. Í ljósi þessa hljóti gagnstefnandi sjálfur að bera ábyrgð á því meinta fjártjóni sem hann telur sig hafa orðið fyrir.

16.    Vinnupallar. Enga sundurliðun kröfunnar sé að finna í gagnstefnu og tilvísun til undirgagna í dómskjali 60 sé hvergi nærri nægjanleg til þess að aðalstefnandi geti varist kröfunni efnislega. Greiðsluskyldu sé því hafnað og beri að sýkna aðalstefnanda af kröfum gagnstefnanda skv. þessum kröfulið. Samkomulag var á milli klæðningarfyrirtækisins, sem tók að sér álklæðningu utanhúss, og Formaco ehf. um að Formaco ehf. legði til efni í vinnupalla á verkstaðinn en klæðningafyrirtækið sæi um uppsetningu og niðurtöku vinnupallanna. Klæðningafyrirtækið setti því vinnupallana upp og bar eitt ábyrgð á staðsetningu þeirra. Fyrir þetta sem og aðra vinnupalla greiddi gagnstefnandi umsamda upphæð til þessara fyrirtækja. Skyldur vegna vinnupalla hafi ekki verið verkefni aðalstefnanda samkvæmt viðaukasamningnum og hann hafi aldrei afgreitt neitt til þeirra né sinnt vinnu vegna þeirra. Ekki hafi verið farið eftir viðaukasamningi vegna færslu á vinnupöllum og að auki sé ekki við aðalstefnanda að eiga með kröfu skv. þessum kröfulið þar sem aðalstefnandi framleiddi aðeins til afhendingar á verkstað skv. viðaukasamningnum og geti aðalstefnandi því ekki borið ábyrgð gagnvart gagnstefnanda á meintum viðbótarkostnaði hans vegna vinnupalla. Í ljósi þessa hljóti gagnstefnandi sjálfur að bera ábyrgð á því meinta fjártjóni sem hann telur sig hafa orðið fyrir.

17.    Þakgluggi milli húsa nr. 2 og 3. Enga sundurliðun kröfunnar sé að finna í gagnstefnu og tilvísun til undirgagna í dómskjali 60 sé hvergi nærri nægjanleg til þess að aðalstefnandi geti varist kröfunni efnislega. Greiðsluskyldu sé því hafnað og beri að sýkna aðalstefnanda af kröfum gagnstefnanda skv. þessum kröfulið. Aðalstefnandi hafi ákveðið að panta og skipta út þessu gleri eftir að í ljós kom að mistök höfðu verið gerð í erlendri efnispöntun. Hann hafi tilkynnt gagnstefnanda að hann myndi sjálfur sjá um útskiptingu glersins í samræmi við úrbótarétt sinn. Hefði aðalstefnandi samið við vanan mannskap til verksins fyrir fast verð. Þann dag sem mannskapurinn mætti á verkstað hafi honum verið meinaður aðgangur. Forsendur sem eftirlit aðalverkkaupa gaf upp vegna þeirrar ákvörðunar um ábyrgð á leka eða einhverju standist ekki. Upp komst um mistökin áður en glugginn var þéttur þannig að aldrei stóð til að uppsetningarmenn á vegum aðalstefnanda myndu koma nálægt þéttingu gluggans. Þeir hafi einungis átt að fjarlægja rangar rúður og leggja nýjar niður. Það kom hins vegar á daginn, eins og í verkinu öllu, að ekki var glerjað skv. forskrift, þ.e. ekki var farið eftir miðunum sem límdir eru á hverja einustu rúðu sem segir í hvaða glugga rúðan skuli fara, 8 rúður úr öðrum glugganum, rangt framleiddar en í sömu stærð, höfðu verið settar í hinn gluggann þar sem engin mistök höfðu verið gerð og hinar 8 var búið að leggja í gluggann sem rangt var pantað í og öfugt. Búið var að ganga frá þéttingum á þeim rúðum og mögulega þess vegna tók eftirlit einhliða ákvörðun um að nýr verktaki myndi ekki koma að útskiptingu þessara rúða.

             Rakið verður af lestri dómsskjals 90, sem sýnir tölvupóstsamskipti í ágúst 2009, að gagnstefnandi er að reyna að varpa ábyrgð af því að hafa tekið fram fyrir hendur aðalstefnanda um glerskipti í þakglugga yfir á aðalverkkaupa. Engin tilkynning barst þar um frá aðalverkkaupa eða það rætt við fulltrúa aðalstefnanda á nokkurn hátt. Því sé þessi kostnaður algerlega óviðkomandi aðalstefnanda.

             Gagnstefnandi verði því samkvæmt framansögðu sjálfur að bera þann kostnað sem hann telur sig hafa orðið fyrir af þessum sökum vegna þess að aðalstefnandi fékk ekki ráðrúm til að sinna úrbótum og vegna þess að í ljós kom að raunveruleg ástæða þess að öryggisgler hafði ekki verið sett í gluggann reyndist vera vegna þess að menn á vegum gagnstefnanda höfðu einfaldlega sett rangt númeraðar rúður í gluggann.

18.    Stjórnunarkostnaður. Algerlega beri að hafna kröfu gagnstefnanda skv. þessum kröfulið. Krafan á sér enga stoð í samningi aðila eða réttarheimildum. Hvergi sé því að finna heimild að lögum fyrir því að aðalstefnanda verði gert að greiða gagnstefnanda sérstaklega fyrir innri kostnað eða fastakostnað í rekstri gagnstefnanda, ekki frekar en að heimild sé fyrir því að aðalstefnandi geti krafið gagnstefnanda um slíkan kostnað þó ærið tilefni væri til. Þá sé fjárhæð kröfu gagnstefnanda ekki með nokkru móti rökstudd til þess að aðalstefnandi geti varist kröfunni efnislega. Þá liggi fyrir að í samningi aðila var kveðið á um tilteknar tafabætur í 16 tölulið. Þegar þannig háttar sé ljóst að frekari skaðabætur verði ekki sóttar í vasa samningsaðila eftir almennum reglum verktakaréttar. Greiðsluskyldu sé því hafnað og beri að sýkna aðalstefnanda af kröfum gagnstefnanda skv. þessum kröfulið.

19.    Akstur. Enga sundurliðun kröfunnar sé að finna í gagnstefnu og tilvísun til undirgagna í dómskjali 60 sé hvergi nærri nægjanleg til þess að aðalstefnandi geti varist kröfunni efnislega. Greiðsluskyldu sé því hafnað og beri að sýkna aðalstefnanda af kröfum gagnstefnanda skv. þessum kröfulið. Aðalstefnandi mótmælir því að honum beri að greiða gagnstefnanda umkrafða fjárhæð. Engin sönnun liggi fyrir um nauðsyn meintra ferða gagnstefnanda í því skyni að sækja efni til aðalstefnanda og hvort þær hafi yfirleitt verið farnar. Í ljósi þessa hljóti gagnstefnandi sjálfur að bera ábyrgð á því meinta fjártjóni sem hann telur sig hafa orðið fyrir.

20.    Hurðarpumpur og fl. Enga sundurliðun kröfunnar sé að finna í gagnstefnu og tilvísun til undirgagna í dómskjali 60 sé hvergi nærri nægjanleg til þess að aðalstefnandi geti varist kröfunni efnislega. Greiðsluskyldu sé því hafnað og beri að sýkna aðalstefnanda af kröfum gagnstefnanda skv. þessum kröfulið. Á engan hátt sé í málatilbúnaði gagnstefnanda sýnt fram á að aðalstefnanda beri að greiða honum þennan kostnað á grundvelli samnings aðila eða af öðrum ástæðum. Í ljósi þessa hljóti gagnstefnandi sjálfur að bera ábyrgð á því meinta fjártjóni sem hann telur sig hafa orðið fyrir.

21.    Efni til verksins. Enga sundurliðun kröfunnar sé að finna í gagnstefnu og tilvísun til undirgagna í dómskjali 60 sé hvergi nærri nægjanleg til þess að aðalstefnandi geti varist kröfunni efnislega. Greiðsluskyldu sé því hafnað og beri að sýkna aðalstefnanda af kröfum gagnstefnanda skv. þessum kröfulið. Á engan hátt sé í málatilbúnaði gagnstefnanda sýnt fram á að aðalstefnanda beri að greiða honum þennan kostnað á grundvelli samnings aðila eða af öðrum ástæðum. Í ljósi þessa hljóti gagnstefnandi sjálfur að bera ábyrgð á því meinta fjártjóni sem hann telur sig hafa orðið fyrir.

22.    Stjórnunarkostnaður, efni og vinna. Enga sundurliðun kröfunnar sé að finna í gagnstefnu og tilvísun til undirgagna í dómskjali 60 sé hvergi nærri nægjanleg til þess að aðalstefnandi geti varist kröfunni efnislega. Greiðsluskyldu sé því hafnað og beri að sýkna aðalstefnanda af kröfum gagnstefnanda skv. þessum kröfulið. Á engan hátt sé í málatilbúnaði gagnstefnanda sýnt fram á að aðalstefnanda beri að greiða honum þennan kostnað á grundvelli samnings aðila eða af öðrum ástæðum. Ekki verði annað séð en að kröfur samkvæmt þessum lið hafi áður verið fram settar af hálfu gagnstefnanda í liðum 1. til 21. og vísist um rök fyrir því að aðalstefnanda beri ekki að greiða kröfuna til fyrri umfjöllunar. Í ljósi þessa hljóti gagnstefnandi sjálfur að bera ábyrgð á því meinta fjártjóni sem hann telur sig hafa orðið fyrir.

                Ætlaðir gallar

                Aðalstefnandi vísar til þess að enga útlistun sé að finna í gagnstefnu á þeim lagarökum sem gagnstefnandi telji að leggja eigi til grundvallar því að aðalstefnandi greiði honum 22.000.000 kr. vegna ætlaðra galla. Ekki sé greint frá því hvort gagnstefnandi krefji aðalstefnanda um þá fjárhæð á grundvelli lagareglna um afslátt eða skaðabætur. Aðalstefnandi telji því að krafan sé ekki nægjanlega reifuð til þess að hann geti varist henni efnislega. Beri þá þegar af þessari ástæðu að sýkna aðalstefnanda af kröfum gagnstefnanda vegna ætlaðra galla.

                Aðalstefnandi byggir almennt á því að sönnunarbyrði hvíli á gagnstefnanda fyrir þeim fullyrðingum sínum að verk aðalstefnanda séu haldin göllum og þyki aðalstefnanda sem sú sönnun hafi ekki verið færð fram. Mótmælt sé að gagnstefnandi hafi haft rétt til að halda greiðslu vegna meintra galla á grundvelli greinar 20.6 í ÍST 30. Mati gagnstefnanda á fjárhæðum einstakra meintra gallaliða sé jafnframt mótmælt.

Jafnvel þó talið verði að galli hafi komið fram í einhverjum hlutum, sem aðalstefnandi afhenti gagnstefnanda á grundvelli viðaukasamningsins, þá sé réttur gagnstefnanda til að krefja aðalstefnanda um afslátt eða skaðabætur vegna þess fallinn niður vegna þess að aðalstefnanda hafi ekki verið gefinn kostur á að bæta úr verkum sínum eins og skylt hafi verið samkvæmt 14. tölulið samningsins.  Þá sé enn fremur á því byggt að verksali hafi almennt víðtækan úrbótarétt í verktakarétti og að gagnstefnandi hafi án ástæðu falið öðrum eða framkvæmt sjálfur úrbætur, sem hann geti ekki krafið aðalstefnanda um greiðslu kostnaðar vegna. Í þessu sambandi sé vísað til þess að gagnstefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi með formlegum hætti krafist þess að aðalstefnandi bætti úr þeim ætluðum göllum sem hann krefst greiðslu á. Þá sé ljóst að með vanskilum sínum á greiðslu fyrir verkið, sérstaklega framvindureikningum aðalstefnanda, hafi gagnstefnandi í sumum tilvikum beinlínis sjálfur tekið áhættu af því að úrbótum af hálfu aðalstefnanda yrði ekki sinnt enda hafi aðalstefnandi mátt halda að sér höndum með úrbætur á meðan framvindureikningar sem hafi verið komnir á gjalddaga væru ógreiddir.

                Varðandi úttekt á verkinu 28. júní 2010 sé vísað til framangreindra athugasemda. Ítrekað sé að ætlaða galla, sem gagnstefnandi krefjist greiðslu vegna og hafi verið til umfjöllunar við úttektina, hafi mátt rekja til uppsetningar og skemmda sem hafi verið unnar á gluggunum og hurðum á vinnustaðnum á verktímanum, sem gagnstefnandi beri sjálfur ábyrgð á.

                Gagnstefnandi tekur fram að tölvupóstur forstöðumanns fasteignaumsjónar Háskólans í Reykjavík, frá 14. mars 2011, hafi ekki verið kynntur aðalstefnanda. Hins vegar liggi fyrir að fljótlega hafi uppgötvast hugsanlegur galli á samsetningu á fögum og hafi tvö þeirra farið að leka. Gert hafi verið við þau eftir prófun á hugsanlegri viðgerð hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Þessi viðgerð hafi verið gerð eftir leiðbeiningum hönnuða gluggakerfisins Schüco, sem einnig hafi framleitt og selt allt efni til verksins, undir handleiðslu umboðsmanns fyrirtækisins á Íslandi. Til að koma í veg fyrir hugsanlegan leka í öðrum fögum hússins hafi aðalstefnandi boðist til að gera sambærilegar fyrirbyggjandi úrbætur á öðrum fögum hússins. Gagnstefnandi hafi hins vegar hafnað því og staðið í vegi fyrir þessari viðgerð. Í þessu sambandi vilji aðalstefnandi vekja sérstaka athygli á því að á stöðufundi 9. júlí 2008, við upphaf verksins, hafi gagnstefnandi verið varaður við að hurðir hafi ekki verið prófaðar við meira en 600 pa þrýsting og ekki væri útilokað að þær gætu lekið í verstu veðrum. Gagnstefnandi hafi í engu sinnt þessum varnaðarorðum og verði því sjálfur að bera ætlað tjón sitt af því að hafa valið aðferð eða efni sem hann síðar telji ófullnægjandi. Aðalstefnandi byggi á því, að hann hafi að öllu leyti framleitt gluggakerfi og útihurðir eftir fyrirmælum hönnuða og útboðs- og samningsskilmálum og sérverklýsingu og gæði verka hans séu í samræmi við þau.

                Ætlaðar tafabætur

                Aðalstefnandi vísar til fyrri umfjöllunar sinnar um hvernig heildarverkið við smíði byggingar Háskóla Reykjavíkur hafi tafist af ástæðum sem hafi varðað gagnstefnanda og að gagnstefnandi hafi ekki sent aðalstefnanda réttar upplýsingar, eins og t.d. málsetningar á tilsettum tíma, til þess að aðalstefnandi gæti pantað aðföng frá erlendum framleiðanda. Bein afleiðing þessa hafi verið sú að afhending aðalstefnanda á gluggaefni hafi tafist. Á öllum slíkum drætti beri gagnstefnandi sjálfur ábyrgð og geti hann því ekki krafið aðalstefnanda um tafabætur á grundvelli ákvæðis í 16. tölulið viðaukasamningsins, sbr. fylgiskjal 1. Þá hafi enn fremur að framan verið rakið hvernig gagnstefnandi hafi vanefnt aðalskyldu sína samkvæmt viðaukasamningnum um greiðslu á réttum framvindureikningum aðalstefnanda en það hafi hann jafnframt viðurkennt í málatilbúnaði sínum. Ætluð skylda aðalstefnanda til afhendingar hafi því fallið niður á meðan gagnstefnandi hafi staðið í vanskilum. Þrátt fyrir það hafi aðalstefnandi afhent allt efni til gagnstefnanda og á hann því enga kröfu á hendur aðalstefnanda um greiðslu tafabóta.

                Aðalstefnandi byggir á því að gluggakerfi í byggingu 1 hafi legið vikum saman óuppsett, eftir afgreiðslu frá aðalstefnanda til verkstaðar, þar sem uppsteypa burðarkerfis hafi ekki staðist tímaáætlanir. Engar tilkynningar hafi borist frá gagnstefnanda til aðalstefnanda um að einstök afgreiðsla eða fleiri afgreiðslur aðalstefnanda hafi haft þau áhrif að heildarverkinu seinkaði af þeim sökum. Undanskildir séu litlir hlutir, s.s. kítti og dúkur, sem þegar hafi orðið ágreiningur um hver ætti að útvega, þar sem það efni sem þegar hafi verið lagt til verksins hafi hugsanlega verið búið að nota í annað eða að teikningar hönnuða hafi sýnt einhverjar lausnir sem ekki voru framkvæmanlegar. Augljóst dæmi um þetta sé frágangur ofan við glerkerfið í byggingu 1, en þar hafi verið gefnar út teikningar af frágangi löngu eftir að sú bygging hafi átt að vera tilbúin samkvæmt áætlunum. Við samanburð á samþykktum áætlunum sem hafi legið til grundvallar verkinu og rauntíma gagnstefnanda sjáist að ekki hafi verið mögulegt, og því síður ástæða fyrir aðalstefnanda, að skila gluggakerfum fyrr en raun hafi orðið. Steypuvinnu hafi ekki verið lokið það langt á undan framleiðslu og afhendingu gluggakerfis að það hafi verið eðlileg afhending á svo viðkæmum hlut sem fulllakkaðri einingu, svo ekki sé talað um áhrif sem raki frá nýlagðri steypu gæti haft gagnvart viðloðun á þéttingum glugganna.

                Strax við uppsetningu á fyrstu gluggunum hafi komið í ljós að gagnstefnandi hafði á engan hátt undirbúið bygginguna fyrir uppsetningu á slíkri vandavöru enda hafi komið upp ágreiningur með aðilum þar sem gagnstefnandi hafi gert kröfu um að varnarplast yrði sett á prófíla eftir að uppsetning hófst. Hvergi í samningsgögnum hafi verið að finna ákvæði um að byggingin væri á því stigi að ekki væri hægt að setja glugga í hana án sérstakra aðgerða. Þá hafi nánasta umhverfi byggingarinnar verið meira og minna uppgrafið þar sem lagnir í jörðu hafi ekki verið lagðar fyrr en á sama tíma og uppsetning glugga hafi hafist. Byggingin hafi auk þess gengið það illa í uppsteypu að húsið hafi verið opið í annan endann á meðan unnið hafi verið að uppsteypu í hinum endanum eða á hæðinni fyrir ofan. Á öllu afhendingarferlinu frá því í mars 2009 hafi aðalstefnandi aldrei verið boðaður á verkfundi né sendar neinar tilkynningar um seinkanir af hendi gagnstefnanda, aðalverktakans, eins og ákveðið hafi verið þegar 1. áfanga var seinkað um hálft ár. Það sé allavega ekki gluggaafhendingum frá mars 2009 um að kenna. Einfaldlega hafi verið um það að ræða að uppsteypa hafi verið það langt á eftir áætlun að ekki hafi verið hægt að ljúka verki. Gögn um þetta hafi aðalstefnandi ekki undir höndum þar sem hann hafi aðeins verið framleiðandi en ekki þátttakandi verksins á verkstað. Allt þetta megi sjá á framvinduskýrslum gagnstefnanda þegar þær séu bornar saman við áætlanir. Skorað sé á gagnstefnanda að leggja öll slík gögn fram. Alvarleg handvömm komi í ljós við hönnun og ósamræmis gæti milli kjallara og jarðhæðar. Því sé algerlega mótmælt að gagnstefnandi geti vegna þessa sótt tafabætur til aðalstefnanda.

                Ljóst sé að aðalstefnandi hafi ráðist í fjölda viðbótar- og aukaverka að ósk gagnstefnanda eins og nánar sé gerð grein fyrir í aðalsök. Á því sé byggt að hvert þessara verka beri sjálfstætt að virða til lengingar á umsömdum afhendingartíma og því verði að taka tillit til þeirra þegar metið sé hvort gagnstefnandi eigi rétt til tafabóta. Hið sama eigi við um kröfur gagnstefnanda um breytta verktilhögun.

                Þegar framagreint sé virt í heild sinni verði að telja að hlutfall af óafhentum einingum sem aðalstefnanda hafi borið að afhenda til verksins hafi á engum tímapunkti verið slíkt gagnvart framvindu heildarverksins að réttur gagnstefnanda til tafabóta, óháð öðrum skilyrðum, hafi stofnast. Þá sé ljóst að gagnstefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir því, að allar óafhentar einingar hafi komið honum að notum frá og með umsömdum skiladögum.

                Verði ekki fallist á framangreindar málsástæður telji aðalstefnandi að taka verði til athugunar að aðalstefnanda hafi verið ókleift að standa við tímaáætlun verksins. Annars vegar sé það af ástæðum sem varði gagnstefnanda en hins vegar vegna ómöguleika sem leiða eigi til þess að krafa gagnstefnanda falli niður á grundvelli almennra reglna um forsendubrest eða á grundvelli 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Á því sé byggt að gagnstefnandi verði sjálfur að bera áhættu af því að aðalstefnandi hafi ekki lokið verkinu á tilsettum tíma. Hann hafi látið aðalstefnanda í té ófullnægjandi útboðsgögn, hafi ekki svarað fyrirspurnum aðalstefnanda eða veitt honum svör of seint og með ófullkomnum hætti og síðan beri hann ábyrgð á töfum vegna þess að hafa ekki greitt aðalstefnanda framvindureikninga þegar þeir hafi fallið í gjalddaga. Meginástæðan þess að heildarverkið hafi tafist hafi verið fall íslensku viðskiptabankanna haustið 2008 og setning neyðarlaganna svokölluðu, laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Þá sé enn fremur á því byggt að í kjölfar hruns viðskiptabankanna hafi það reynst aðalstefnanda erfitt að fjármagna innkaup aðfanga erlendis frá. Allar vörur hafi hann orðið að greiða fyrir fram og hafi því átt í vandræðum með innkaupin eftir að gagnstefnandi hafi byrjað að vanefna greiðslur reikninga. Afleiðingar þessa hafi einnig haft áhrif á þann verkþátt sem snúi að Formaco ehf. og síðan aðalstefnanda þar sem ekki hafi verið unnt að leggja fram bankaábyrgðir til erlendra framleiðenda. Í góðu samráði við gagnstefnanda hafi aðalstefnandi ákveðið að fyrirframgreiða allt efni hjá framleiðanda og hafi viðmiðunarupphæðin verið ákveðin 100 þúsund evrur. Í stað mun stærri magnpantana hafi því þurft að gæta þess að efnispantanir færu ekki yfir þetta markmið og það yrði að brjóta efnispantanir, sem oftast hafi innihaldið marga tugi mismunandi efnisnúmera, niður þannig að verkið gæti halda áfram sleitulaust.

                Þá er á því byggt að gagnstefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt tómlæti með því að krefja aðalstefnanda ekki um tafabætur innan eðlilegra tímamarka. Krafa þessa efnis hafi fyrst komið fram í gagnstefnu þessa máls. Nauðsynlegt hafi verið fyrir gagnstefnanda í þessu sambandi að gera aðalstefnanda skýra grein fyrir því að hann hygðist krefja hann um tafabætur, jafnskjótt og tilefni hafi orðið til þess. Það hafi hann ekki gert og sé krafa hans því fallin niður sakir tómlætis.

                Verði fallist á kröfur gagnstefnanda um tafabætur þrátt fyrir framangreind rök aðalstefnanda krefjist aðalstefnandi þess að slíkar tafabætur verði lækkaðar að álitum fyrir þann tíma sem talið verði að gagnstefnandi beri ábyrgð á töfum eftir atvikum. Mótmælt sé sérstaklega einstökum útreikningum tafabóta í gagnstefnu.

VI.

Forsendur og niðurstaða

                Aðilar deila um uppgjör verksamnings frá 23. maí 2008. Grundvöllur krafna aðalstefnanda í aðalsök er tvíþættur, annars vegar telur hann sig eiga rétt á greiðslu úr hendi gagnstefnanda vegna ógreiddra framvindureikninga, þ.e. reikninga fyrir verk unnin á grundvelli verksamnings aðila, og hins vegar greiðslur vegna viðbótar- og aukaverka svo sem að framan er lýst. Gagnstefnandi viðurkennir greiðsluskyldu sína vegna tiltekinna reikninga aðalstefnanda en varnir hans byggjast á því að hann eigi gagnkröfu til skuldajafnaðar vegna þeirra reikninga sem hann hefur viðurkennt að séu ógreiddir. Þá mótmælir hann greiðsluskyldu varðandi fjölda reikninga vegna viðbótar- og aukaverka svo sem nánar er rakið síðar.

Grundvöllur krafna gagnstefnanda er þríþættur; í fyrsta lagi telur hann sig eiga rétt á greiðslu útlagðs kostnaðar vegna ýmissa úrbóta- og viðbótarverka sem honum var nauðsynlegt að ráðast í vegna vanefnda aðalstefnanda, í öðru lagi krefst hann bóta vegna galla á verki aðalstefnanda og í þriðja lagi krefst hann tafabóta á grundvelli ákvæða í samningi þar að lútandi. Í gagnstefnu er nánar gerð grein fyrir sundurliðun þessara krafna.

                Vísast til kafla II til V hér að framan um almenna umfjöllun um málsástæður og lagarök aðila fyrir kröfum sínum.

Aðalstefnandi lækkaði nokkrar kröfur sínar undir rekstri málsins og gangstefnandi viðurkenndi greiðsluskyldu í nokkrum tilvikum til viðbótar áður viðurkenndum kröfum. Er gerð grein fyrir breyttri afstöðu aðila í umfjöllun dómsins um hvern kröfulið fyrir sig.

                Við úrlausn þessa máls verður að leggja til grundvallar þá samninga sem aðilar gerðu. Fyrir liggur að samningssamband þeirra á rætur að rekja til verksamnings á milli Formaco og gagnstefnanda sem dagsettur er 23. maí 2008 (sagður dags. 28. maí í viðaukasamningi aðila). Samkvæmt þeim verksamningi tók Formaco ehf. að sér smíði, afhendingu og uppsetningu á gluggum og útihurðum við nýbyggingu Háskólans í Reykjavík. Í 2. gr. samningsins er vísað til útboðsgagna, m.a. hluta I, sem eru útboðs- og samningsskilmálar, kafla 7.2 í hluta II, sem er sérverkefnalýsing fyrir glugga og útihurðir og kafla 9 í sama hluta, sem fjallar um breytingu á verki og aukaverk, og eru þessi gögn hluti af samningi aðila samkvæmt framangreindu ákvæði samningsins sem og útboðsteikningar frá Henning Larsen Architects/ARKÍS, dagsettar 22. febrúar 2008. Þá er í áðurnefndum útboðs- og samningsskilmálum vísað til almennra útboðs- og samningssikilmála um verkframkvæmdir (ÍST 30:2003). Framangreind gögn verða því lögð til grundvallar úrlausn málsins eftir því sem við á sem og almenn sjónarmið um túlkun verksamninga og staðlaðra samningsskilmála. Samningur aðila þessa máls, sem er viðauki við framangreindan samning milli Formaco og gagnstefnanda, var undirritaður í maí 2009 (án dags). Samkvæmt ákvæðum hans tekur gagnstefnandi að sér alla uppsetningarvinnu og aðra verkþætti, þ.m.t. verkstjórn á byggingarstað. Aðalstefnandi hélt áfram framleiðslu glugga og hurða í verksmiðju sinni og bar honum að afhenda vöruna á tilteknum afhendingardögum, samkvæmt fylgiskjali með samningnum. Þá bar aðalstefnanda að útvega allt efni í verkið, nema það sem sérstaklega var undanskilið í samningnum. Samningsskyldur aðalstefnanda samkvæmt framangreindum viðaukasamningi eru því í mörgu líkari kaupsamningi en verksamningi og koma því sjónarmið kauparéttar, auk framangreindra gagna, til skoðunar við úrlausn einstakra ágreiningsliða svo sem rakið er nánar varðandi úrlausn einstakra liða.

                Í almennum ákvæðum samningsskilmála aðila er ákvæði þess efnis að verkkaupi áskilji sér rétt til breytinga á verkinu og að láta vinna aukaverk eins og nauðsyn krefji á verktímanum. Segir að fyrirmæli þar að lútandi verði gefin af eftirlitsmanni verkkaupa með skriflegum hætti. Þá segir jafnframt að verktaki megi ekki gera neinar breytingar á verkinu eða vinna aukaverk nema gegn skriflegum fyrirmælum frá eftirlitsmanni verkkaupa. Vísast um þessi atriði til 9. kafla sérverkefnalýsingar útboðsskilmála Eignarhaldsfélagsins Fasteignar, sem eru hluti af samningi aðila. Verkkaupi samkvæmt þessu ákvæði er Eignarhaldsfélagið Fasteign og eftirlitsmaður hans er gagnstefnandi, sem var aðalverktaki framkvæmdarinnar. Áskilnaður um að kröfur um greiðslu vegna viðbótarverka skuli vera skriflegar kemur einnig fram í 6. gr. upphaflegs verktakasamnings Formaco ehf. og gagnstefnanda og er þar vísað til ákvæða ÍST 30 en í 16. kafla þeirra er m.a. kveðið á um að beiðni verktaka um aukaverk skuli vera skrifleg og að verktaki skuli gera kröfu um viðbótargreiðslu vegna verks áður en vinna við það hefst. Samkvæmt framangreindum ákvæðum samnings aðila og staðla er gert ráð fyrir því að allar beiðnir um viðbótar- eða aukaverk séu gerðar með skriflegum hætti. Gagnstefnandi byggir og á því að hafna beri kröfu aðalstefnanda um greiðslu fyrir viðbótar- og aukaverk þar sem ekki liggi fyrir skýlaus skrifleg beiðni um að vinna þau. Dómurinn fellst ekki á að svo strangar kröfur eigi að gera til sönnunar um beiðni gagnstefnanda um viðbótarverk. Fram kom í málflutningi aðila að ekki hafi á nokkru stigi í samskiptum aðila verið notast við formlegar verkbeiðnir vegna viðbótarverka. Þá má af gögnum ráða að samskipti aðila hafi oft og tíðum verið afar óformleg og aðilar skipst á teikningum og orðsendingum í tölvuskeytum, sem án efa fólu í sér breytingar eða nánari útfærslur á verkinu, frá því sem ráða má af útboðsteikningum. Þá báru bæði Sigurður Hreinsson og Brynjar Brjánsson fyrir dómi að þessi óformlegi háttur hefði verið viðhafður í samskiptum aðila. Sigurður bar að ávallt hefði verið litið svo á af hálfu aðalstefnanda að nýjar teikningar fælu í sér verkbeiðni og hefði ekki verið gengið eftir nánari eða skýrari beiðni frá gagnstefnanda áður en hafist var handa við að vinna verkið. Brynjar bar fyrir dómi að gagnstefnandi hefði einnig litið svo á að sending nýrrar teikningar fæli í sér verkbeiðni. Verður þessi lýsing á venjum í samskiptum aðila í þessu verki lögð til grundvallar sönnunarmati varðandi einstök viðbótarverk sem um er deilt svo sem nánar er rakið í umfjöllun um einstaka kröfuliði.

                Í allmörgum kröfuliðum í stefnu í aðalsök liggur fyrir matsgerð Hjalta Sigmundssonar, sem dómkvaddur var að beiðni gagnstefnanda til að vinna matsgerðina. Í matsbeiðni er óskað eftir mati á því hvað teljist eðlilegt og sanngjarnt endurgjald fyrir tiltekna verkliði sem deilt er um. Í matsgerðinni er ítarlega rökstudd niðurstaða varðandi endurgjald fyrir hvern þeirra liða sem metnir voru. Aðilar hafa ekki komið fram með gögn eða rök sem benda til þess að forsendur matsins séu rangar. Þá hefur matsgerðinni í heild ekki verið mótmælt sem rangri eða ófullnægjandi eða gerðar athugasemdir við forsendur matsins í heild eða að hluta. Í aðalmeðferð málsins mótmælti aðalstefnandi hins vegar fjárhæðum varðandi einstaka liði svo sem rakið er hér að neðan í umfjöllun um viðkomandi kröfuliði. Andmæli aðalstefnanda eru hins vegar ekki studd viðhlítandi gögnum sem sanna eða gera sennilegt að matsgerð matsmanns sé röng. Því verður niðurstaða matsgerðarinnar lögð til grundvallar varðandi fjárhæð endurgjalds fyrir einstaka liði í kröfugerð stefnanda í aðalsök í þeim tilvikum þegar krafa hans er viðurkennd. Matsmanni var hins vegar ekki falið að meta hvort matsliðir væru hluti af samningsverki eða viðbótar- og aukaverk. Byggir niðurstaða dómsins um það atriði á almennum sönnunarreglum miðað við það sem talið verður að leitt sé í ljós í málinu.

                Verða nú rakin sjónarmið aðila varðandi einstaka kröfuliði og reikninga og afstaða dómsins til hvers og eins liðar.

Kröfur aðalstefnanda í aðalsök

                Aðalstefnandi krefst greiðslu ógreiddra reikninga fyrir verk unnin samkvæmt verksamningi aðila. Samtals nema ógreiddir framvindureikningar 27.532.201 kr. sem sundurliðast þannig: reikningur nr. 29 með gjalddaga 30. september 2009, að fjárhæð 2.944.809 kr., eftirstöðvar reiknings nr. 30, gjalddagi 30. september 2009, að fjárhæð 1.559.448 kr., eftirstöðvar reiknings nr. 34, gjalddagi 30. nóvember 2009, að fjárhæð 905.852 kr., reikningur nr. 53, gjalddagi 31. desember 2009, að fjárhæð 5.079.624 kr., eftirstöðvar reiknings nr. 58, gjalddagi 31. janúar 2010, að fjárhæð 3.985.746 kr., reikningur nr. 66, gjalddagi 31. janúar 2010 að fjárhæð 1.804.811 kr., reikningur nr. 67, gjalddagi 31. janúar 2010, að fjárhæð 3.266.292 kr., reikningur nr. 83, gjalddagi 31. mars 2010, að fjárhæð 5.251.960 kr., reikningur nr. 84, gjalddagi 31. mars 2010, að fjárhæð 437.075 kr., reikningur nr. 89, gjalddagi 31. maí 2010, að fjárhæð 488.287 kr. og reikningur nr. 93, gjalddagi 31. maí 2010, að fjárhæð 1.808.297 kr.

Ekki er ágreiningur um greiðsluskyldu gagnstefnanda vegna þessara framvindureikninga og ekki er heldur ágreiningur um að hann hafi greitt aðalstefnanda ótiltekið 7.000.000 kr.Með vísan til þessa ber gagnstefnanda að greiða aðalstefnanda 20.532.201 kr. (27.532.201 - 7.000.000)

Þá krefst aðalstefnandi greiðslu vegna fjölmargra viðbótar- og aukaverka og nema kröfur hans vegna reikninga fyrir slík verk samtals 28.524.355 kr. Gagnstefnandi mótmælir ekki greiðsluskyldu hluta þessara reikninga svo sem nánar er rakið í umfjöllun um einstaka liði hér fyrir neðan. Niðurstaða dómsins um einstaka kröfuliði er eftirfarandi:

Reikningur nr. 13, útgefinn 19. júní 2009, vegna viðbótarverks 204

Krafan byggir á kostnaði við breytingar á framleiðsluteikningum sérstakra festinga á þakglugga eftir að Mannvit hf. gerði breytingar á útreikningum og óskað var eftir því að aðalstefnandi breytti framleiðsluteikningum sínum til samræmis við það.

        Hér er um breytta hönnun verks að ræða og vinna aðalstefnanda því viðbótarverk. Matsmaður taldi endurgjald fyrir vinnu sanngjarnt en að efnismagn væri oftmetið. Aðalstefnandi lækkaði kröfu sína, til samræmis við niðurstöðu matsgerðar, í 169.410 kr. Er krafa hans tekin til greina með framangreindum rökstuðningi.

                Reikningur nr. 14, útgefinn 19. júní 2009, vegna viðbótarverks 205

                Krafan er vegna teiknivinnu vegna álklæddra neyðarhurða en mismunur kom í ljós í teikningum og raunstærðum. Fjárhæð kröfu samkvæmt þessum lið er 189.923 kr. Aðalstefnandi beri því við að vegna mikils byggingarhraða hafi Formaco ehf. og gagnstefnandi gert samkomulag um að framleiðsluteikningar skyldu byggðar á teikningum arkitekta en ekki máltöku á verkstað eins og útboðsgögn segi til um. Samkvæmt teikningum hafi allar hurðir átt að vera jafn stórar en hurðargöt hafi reynst misstór vegna skekkju í uppsteypu og flotun gólfa. Gagnstefnandi hafnar greiðslu þessa kostnaðar enda hafi umrædd teiknivinna verið innifalin í hönnunarvinnu stefnanda og það hafi verið eðlileg vinnubrögð að mæla fyrir hurðum á verkstaðnum.

                Í málinu liggja ekki fyrir samþykktar framleiðsluteikningar. Gagnstefnandi heldur því fram að framleiðsluteikningar hafi verið sendar gagnstefnanda haustið 2008 og veturinn 2008-9. Til stuðnings þessari fullyrðingu sinni liggur m.a. tölvupóstur aðalstefnanda til gagnstefnanda frá 30. júní þar sem vísað er til þess að slíkar teikningar hafi verið lagðar fyrir gagnstefnanda og aðalstefnanda hafi ekki borist neinar athugasemdir við þær. Þá er í sama tölvuskeyti vísbending um að aðilar hafi gert umrætt samkomulag, um að gera skuli framleiðsluteikningar eftir teikningum arkitekta. Gagnstefnandi hefur ekki mótmælt því að honum hafi borist umræddar teikningar en hann hefur hins vegar haldið því fram að þær hafi ekki verið samþykktar af sinni hálfu. Í málinu liggja hins vegar ekki fyrir nein gögn sem lúta að athugasemdum eða höfnun hans á umræddum teikningum eða fyrirmæli um að hefja ekki framleiðslu á grundvelli þeirra. Að mati dómsins er eðlilegt að gera þá kröfu til gagnstefnanda sem verkkaupa að hann geri athugasemdir við framlagðar teikningar ef hann óskar ekki eftir því að þær verði lagðar til grundvallar vinnu aðalstefnanda sem verktaka. Jafnframt þykir það standa gagnstefnanda nær en aðalstefnanda að sýna fram á réttmæti fullyrðingar sinnar um að hann hafi ekki samþykkt umræddar teikningar eða mótmælt þeim skilningi verktaka að miða megi við teikningar arkitekta. Samkvæmt framansögðu hefur honum ekki tekist sú sönnun. Í því sambandi verður að hafa í huga að ekkert liggur fyrir um það í gögnum málsins hvort og þá hvaða verkferli var fylgt við samþykki verkteikninga. Því verður að leggja til grundvallar við úrlausn þessa kröfuliðar, í ljósi þeirra gagna sem lögð hafa verið fram, að aðalstefnandi hafi gert það líklegt að um viðbótarverk hafi verið að ræða enda óumdeilt að vinna við framleiðsluteikningar sem leiðir af breytingum sem gerðar eru á verkinu á verktíma er ekki hluti af samningsverði. Gagnstefnandi hefur ekki sannað að hann hafi gert athugasemdir við framlagðar teikningar eða hafnað þeim. Krafa aðalstefnanda samkvæmt þessum lið er því tekin til greina.

                Reikningur nr. 15, útgefinn 19. júní 2009 vegna viðbótarverks 206

                Krafa aðalstefnanda samkvæmt þessum lið, sem er að fjárhæð 174.097 kr., byggir á teiknivinnu vegna hornglugga. Horngluggar hafi verið teiknaðir eins og aðrir gluggar í byggingunni samkvæmt málum á teikningu (31) 4.22 C. Ný útgáfa teikningar, merkt D, hafi verið gefin út eftir að bent hafi verið á möguleg hönnunarmistök. Aðalstefnandi hafi því þurft að endurgera teikningu og endurpanta gler, sem þegar hafi verið pantað samkvæmt teikningu C. Sérstök krafa sé gerð vegna glersins með öðrum glerpöntunum. Gagnstefnandi hefur samþykkt að greiða 126.616 kr. vegna teiknivinnu við þetta verk en hafnar frekari greiðslu þar sem hluti vinnunnar hafi verið hluti af hönnunarvinnu sem sé innifalin í verksamningi aðila.

                Ekki er ágreiningur um að gerðar voru breytingar á teikningum frá þeim útboðsteikningum sem lágu til grundvallar samningi aðila. Ekki er fallist á sjónarmið gagnstefnanda um að hluti verksins sé innifalinn í samningi aðila. Er því um viðbótarverk að ræða. Í niðurstöðu matsgerðar um þennan lið segir að endurgjald vegna vinnu þessu tengdri sé í hærra lagi en þó ekki bersýnlega ósanngjarnt. Með vísan til niðurstöðu matsgerðar er krafa aðalstefnanda tekin til greina að fullu.

Reikningur nr. 16, útgefinn 19. júní 2009 vegna viðbótarverks 207

                Krafist er greiðslu 286.110 kr. endurgjalds vegna hönnunarvinnu á hornum í inngarða sem hafi verið breytt frá útboðsgögnum. Aðalstefnandi hafi gert prufustykki, tekið mál og átt fundi vegna þessa. Gagnstefnandi fellst á að greiða efniskostnað vegna þessa verks, samtals að fjárhæð 37.943 kr. en hafnar öðrum kostnaði sem hann telur vera hluta af hönnunarvinnu aðalstefnanda og því hluta af samningsverki.

Ekki er ágreiningur um að gerðar hafi verið breytingar á teikningum frá þeim útboðsteikningum sem lágu til grundvallar samningi aðila. Ekki er fallist á sjónarmið gagnstefnanda um að vinnuhluti verksins sé innifalinn í samningi aðila heldur telst allt verkið viðbótarverk. Í niðurstöðu matsgerðar um þennan lið segi að endurgjald vegna vinnu sé sanngjarnt og eðlilegt og efniskostnaður sanngjarn. Með vísan til niðurstöðu matsgerðar er krafa aðalstefnanda tekin til greina að fullu.

                Reikningur nr. 17, útgefinn 19. júní 2009, vegna viðbótarverks 209

                Krafan er vegna endursmíði aðalstefnanda, að beiðni gagnstefnanda, á glugga 2100 02 týpu C, að fjárhæð 487.532. Það hafi verið unnið utan hefðbundins vinnutíma og því sé krafist yfirvinnuálags á tímakaup. Gagnstefnandi vísar til þess að krafist sé greiðslu á reikningi vegna breytinga á hönnun horna í inngörðum. Hann hafi fallist á að greiða 67.500 kr. vegna skemmdra pósta, sem talið sé að verktakar á hans vegum hafi skemmt. Hann hafnar öðrum kostnaði þar sem hann sé hluti af samningi aðila. Sérstaklega sé mótmælt greiðslu yfirvinnuálags þar sem í samningi aðila komi skýrt fram að ekki sé greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu og því skuli tímagjaldið fyrir vinnu vera meðalgjald.

                Í gögnum málsins liggur fyrir tölvupóstur frá gagnstefnanda þar sem hann lýsir því að gluggi hafi skemmst og óskar eftir endursmíði glugga af því tagi sem reikningur þessi er gerður fyrir. Því er um viðbótarverk að ræða og hefur gagnstefnandi ekki fært fram haldbær rök fyrir því af hverju miða beri við þá fjárhæð sem hann hefur samþykkt að greiða fyrir þennan verklið. Matsmaður telur endurgjald fyrir nýja glugga í samræmi við umsamið verð en tók ekki afstöðu til réttmætis yfirvinnuálags. Við aðalmeðferð málsins féll aðalstefnandi frá kröfu sinni um greiðslu yfirvinnuálags á tímakaup og er krafa hans því tekin til greina að frádregnu álagi vegna yfirvinnu sem samkvæmt reikningum nam 66.045 kr. Fjárhæð viðurkenndrar kröfu er því 421.487 kr.

                Reikningur nr. 33, útgefinn 25. september 2009

                Krafan er vegna afhendingar aðalstefnanda á tveimur rúllum af 650 mm Schüco EPDM-dúk. Aðalstefnandi krefur gagnstefnanda um greiðslu samkvæmt einingaverði að fjárhæð 51.906 kr. að viðbættum virðisaukaskatti eða samtals 129.246 kr. Gagnstefnandi hafnar greiðslu og kveður að aðalstefnanda hafi borið að leggja til allt efni til verksins, þ. á m. umræddan dúk. Í verklýsingu sé kveðið á um að dúkurinn sem aðalstefnanda beri að leggja til skuli vera af þessari tilteknu gerð.

                Í gögnum málsins er tölvupóstur frá Haraldi Jósepssyni, starfsmanni gagnstefnanda, frá 21. september 2009 til Sigurðar Hreinssonar og Halldórs Kristinssonar, starfsmanna aðalstefnanda, þar sem óskað er eftir 32 metrum af 65 cm breiðum EPDM-dúk til notkunar í þakglugga. Jafnframt segir: „… það að var búið að senda í þetta svo þetta er auka magn.“ Þetta er í samræmi við framburð Sigurðar Hreinssonar fyrir dómi. Í umfjöllun dómsins um a-lið kröfu samkvæmt reikningi nr. 77 er rökstudd sú afstaða dómsins að EPDM dúkur til notkunar í þakglugga sé ekki hluti af samningsbundnu verki aðalstefnanda. Vísast til þeirrar umfjöllunar varðandi nánari röksemdir um það atriði. Af framangreindu skeyti má ráða að þessi pöntun var ætluð til notkunar í þakglugga og kom til viðbótar öðru efni sem áður hafði verið pantað til sama verks. Þykir með vísan til framangreinds vafalaust að hér sé verið að óska eftir efni til viðbótar því sem innifalið var í tilboði aðila samkvæmt þeim ákvæðum sem gagnstefnandi vísar til. Er krafa aðalstefnanda því að fullu tekin til greina enda fjárhæðinni ekki mótmælt af gagnstefnanda.

                Reikningur nr. 50, útgefinn 23. nóvember 2009, vegna viðbótarverks nr. 2009-222

                Umræddur reikningur er að fjárhæð 550.010 kr. vegna endursmíði á hurð UHB3-2.1.0. Aðalstefnandi byggir fjárhæð reikningsins á einingaverði í magnskrá auk samningsbundinna verðbóta og sérstakrar greiðslu fyrir akstur með hurðina. Gagnstefnandi hefur samþykkt greiðslu 221.297. kr. vegna þessa liðar og rökstyður kröfu um lækkun með því að aðalstefnandi hafi getað endurnýtt hluta efnis úr áður framleiddri hurð.

Ekki er deilt um að verkið falli utan verka sem samið hafi verið um. Gagnstefnandi viðurkennir þannig greiðsluskyldu en krefst lækkunar reiknings. Fram er komið hjá aðalstefnanda að hægt hafi verið að nýta húna, skrá og gler úr eldri hurð og í fyrri samskiptum aðila hafi hann boðist til að lækka kröfu sína um 100.000 kr. vegna þessa. Dómurinn felst á að lækka beri reikninginn sem þessu nemur en gagnstefnandi hefur ekki rökstutt réttmæti frekari lækkunar. Krafa aðalstefnanda er því tekin til greina með 450.010 kr.

        Reikningur nr. 62, útgefinn 31. desember 2009

        Reikningur er að fjárhæð 12.436 kr. vegna leigu gáms frá Samskipum hf. í þrjá daga. Gagnstefnandi hafnar greiðslu og ber því við að í samningi aðila sé kveðið á um að aðalstefnandi útvegi allt efni. Það sé því ekki á ábyrgð gagnstefnanda að greiða fyrir leigu á gámum sem notaðir eru undir efni sem aðalstefnandi eigi að afhenda.

        Samkvæmt almennum skilmálum flutningafyrirtækja er að jafnaði ætlast til þess að gámar séu tæmdir innan þriggja daga eftir að þeir koma á verkstað. Því er ekki mótmælt að krafa um greiðslu byggist á því að umræddur gámur hafi verið umfram þennan tíma á verkstað.

        Gagnstefnandi hafði ekki ástæðu til að ætla að í tilboði aðalstefnanda fælist leiga á gámi í ótiltekinn tíma eftir að hann var komin á verkstað. Því er um viðbótarverk að ræða og krafa aðalstefnanda um greiðslu reikningsins tekin til greina.

      Reikningur nr. 71, útgefinn 31. desember 2010

      Reikningurinn er að fjárhæð 7.817.096 kr. Kröfur samkvæmt þessum reikningi sundurliðast með eftirfarandi hætti:

a)                   Viðbótarverk nr. 2009-201. Verkið fólst í því að yfirfara gögn og svara fyrirspurn arkitekta í tölvupósti frá 30. apríl 2009. Aðalstefnandi krefst þess að gagnstefnandi greiði sér fyrir hálfa klukkustund vegna þessa. Kröfufjárhæðin er 7.122 kr. Gagnstefnandi hafnar greiðsluskyldu og telur viðvikið hluta af samningsverki. Á það sjónarmið er fallist og kröfu aðalstefnanda því hafnað.

b)            Viðbótarverk 2009-202. Kröfufjárhæðin vegna þessa verks er 557.687 kr. Gagnstefnandi andmælir ekki greiðslu þessa hluta og er krafan því tekin til greina.

c)            Viðbótarverk 2009-203. Fjárhæð kröfu er 135.000 kr. Verkið fólst í afhendingu á níu metrum af prófílum til hljóðmælinga samkvæmt beiðni gagnstefnanda. Gagnstefnandi hafnar greiðslu og telur verkið hafa verið innifalið í tilboði aðalstefnanda. Vísar hann í því sambandi til bls. 7 í II. hluta verklýsingar 7.2.0 þar sem taldar eru upp kröfur sem gerðar eru til burðarkerfis, hurða og gluggakerfis og glers. Af skilgreiningum á verkmörkum megi enn fremur ráða að umrætt verk hafi verið hluti af upphaflegu tilboði.

      Fyrir liggur beiðni gagnstefnanda um afhendingu þessara prófíla og engar vísbendingar eru í þeim gögnum sem gagnstefnandi vísar til um að afhending þeirra hafi verið hluti verksamnings. Matsmaður taldi endurgjaldið sanngjarnt og eðlilegt. Krafa aðalstefnanda er því tekin til greina.

d)            Viðbótarverk 2009-208. Krafist er greiðslu fyrir aukavinnu sem leiddi af misræmi sem fram kom í teikningum arkitekta. Krafist er greiðslu fyrir 3,5 klst. vinnu og hljóðar reikningurinn upp á 53.611 kr. Gagnstefnandi hafnar greiðslu og kveður misræmi ekki hafa fundist á umræddum teikningum.

      Í gögnum málsins liggja fyrir ljósrit af teikningum sem virðast vera hinar umdeildu teikningar. Á þeim er að finna misræmi sem réttlæta viðbótarverk vegna endurgerðra teikninga. Gagnstefnandi hefur ekki lagt fram viðhlítandi skýringar á því af hverju þetta misræmi hafi ekki kallað á lagfæringar. Krafa aðalstefnanda er því tekin til greina.

e)            Viðbótarverk 2009-210. Kröfufjárhæðin vegna þessa verks er 554.004 kr. Gagnstefnandi andmælir ekki greiðslu þessa hluta og er krafan því tekin til greina.

f)             Viðbótarverk 2009-211. Aðalstefnandi krefst greiðslu vegna vinnu við gerð sérfestinga í garða á 1. hæð í mars 2009 að beiðni gagnstefnanda vegna hönnunarmistaka. Aðalstefnandi gerir kröfu um greiðslu 478.608 kr. vegna vinnu auk greiðslu fyrir efni og akstur, samtals 729.550 kr. Gagnstefnandi hafnar greiðslu, hann telur sig hafa gert upp kostnað vegna þessa liðar við Formaco ehf. og vísar í því efni til 13. gr. í samningi aðila. Aðalstefnandi kveður það vera misskilning af hálfu gangstefnanda að hann hafi þegar greitt forvera hans, Formaco ehf., fyrir verkið, þar sem krafa aðalstefnanda lúti einvörðungu að greiðslu fyrir vinnu sem unnin var eftir að aðalstefnandi tók yfir verkið af Formaco þann 1. mars 2009.

      Í framangreindu ákvæði 13. gr. samnings aðila er að finna ákvæði sem lýtur að skilum á milli verka Formaco og aðalstefnanda. Svo sem fram er komið er samningur aðila viðbótarsamningur við fyrri verksamning Formaco og eru ákvæði um breytingar á skyldum aðila þessa máls frá því sem gilti í samningi gagnstefnanda við Formaco. Þannig lækka greiðslur gagnstefnanda og aðalstefnandi tekur að sér afmarkaðan þátt af samningsskyldum Formaco, fyrst og fremst framleiðslu glugga og hurða en ekki uppsetningu. Í 13. tölulið segir: „Engin ófrágengin deilumál eða viðbótar- eða aukaverk frá Formaco færast yfir í nýtt félag. Umsamið viðbótarverð fyrir SG fög greiðist til IDEX glugga ehf. Öll deilumál, viðbótar- og aukaverk teljast uppgerð á milli aðila og er innifalin í þessu uppgjöri. Umbeðin og samþykkt viðbótar- og aukaverk eftir 01.03.2009, falla ekki undir þetta.“

      Aðilar deila um túlkun þessa samningsákvæðis sem einkum reynir á í tilviki eins og þessu, þ.e. þar sem viðkomandi verk var umbeðið og samþykkt fyrir 1. mars en vinnu ekki að fullu lokið fyrr en eftir þann dag. Ekki er deilt um að verkið sé viðbótarverk og eftir því hafi verið óskað. Í umræddu samningsákvæði er leitast við að skýra hvaða samningsskyldur aðalstefnandi yfirtekur af Formaco. Verður að telja, miðað við framangreint samningsákvæði, að aðalstefnanda hafi mátt vera ljóst að gagnstefnandi taldi sig hafa gert upp verk sem beðið hafði verið um og samþykkt fyrir umræddan yfirtökudag. Hafi honum því borið að afla sér samþykkis, eða að minnsta kosti gera gagnstefnanda grein fyrir því að hann hygðist krefjast viðbótarkostnaðar vegna þessa verks með sama hætti og ef um nýtt viðbótarverk væri að ræða. Ekkert í gögnum málsins bendir til að aðalstefnandi hafi gert gagnstefnanda grein fyrir þessu og getur hann því ekki eftir á, krafið hann um frekari greiðslu kostnaðar. Kröfu aðalstefnanda í þessum lið er því hafnað.

g)     Viðbótarverk 2009-212. Kröfufjárhæðin vegna þessa verks er 29.527 kr. Gagnstefnandi andmælir ekki greiðslu þessa hluta og er krafan því tekin til greina.

h)            Viðbótarverk 2009-213. Krafan samkvæmt þessum lið er að fjárhæð 21.552 kr. og byggir á vinnu við að bora göt fyrir raflagnir í karm við útgarð. Gagnstefnandi hafnar greiðslu þar sem aðalstefnanda hafi borið samkvæmt verksamningi að skila körmum með götum og verði því að vinna það verk á sinn kostnað.

      Í II. hluta verklýsingar, kafla 7.2.0 segir að verktaki skuli tryggja fullnægjandi lagnaleiðir í glugga- og hurðaprófílum frá kerfislofti að búnaði í hurðum og opnanlegum rafdrifnum fögum eftir því sem við eigi. Samkvæmt framangreindu ákvæði, sem er hluti samnings aðila, bar aðalstefnanda að skila gluggaefni með lagnaleiðum fyrir raflagnir. Í því felst að í gluggaprófílum þarf að vera rými fyrir lagnir og jafnframt að gera þurfi göt á prófíla fyrir raflagnir. Götin verða hins vegar ekki gerð fyrr en við samsetningu og uppsetningu glugga en efni í þá kom að mestu ósamsett á verkstað. Því verður að telja borun gata fremur tilheyra uppsetningu glugganna en framleiðslu þeirra á verkstæði. Eftir að aðalstefnandi tók við verki sem Formaco sinnti áður, var verkinu skipt þannig að aðalstefnandi framleiddi gluggana og skilaði þeim á verkstað en gagnstefnandi sá um uppsetningu þeirra. Því er það á verksviði gagnstefnanda að gera göt í karma samhliða og uppsetningu. Sú vinna sem unnin var af aðalstefnanda er því viðbótarverk sem honum ber greiðsla fyrir. Gagnstefnandi hefur ekki mótmælt fjárhæð reiknings og er krafan því að fullu tekin til greina.

i)         Viðbótarverk 2009-214. Kröfufjárhæðin vegna þessa verks er 228.230 kr. Gagnstefnandi andmælir ekki greiðslu þessa hluta og er krafan því tekin til greina.

j)             Viðbótarverk 2009-215. Krafa er um greiðslu fyrir smíði 12 horna á glugga í görðum að beiðni gagnstefnanda, samtals 403.200 kr. Gagnstefnandi hafnar því að greiða álag vegna yfirvinnu og telur rétta reikningsfjárhæð eiga að vera 336.000 kr. Við aðalmeðferð málsins féll aðalstefnandi frá kröfu sinni um álag vegna yfirvinnu. Ekki er því lengur ágreiningur um kröfuna og er hún tekin til greina.

k)            Viðbótarverk 2009-216. Kröfufjárhæðin vegna þessa verks er 21.888 kr. Gagnstefnandi andmælir ekki greiðslu þessa hluta og er krafan því tekin til greina.

l)             Viðbótarverk 2009-217. Krafan byggir á vinnu við að bora göt fyrir raflagnir í karm við útgarð að beiðni gagnstefnanda. Fjárhæð kröfu er 36.257. Krafa aðalstefnanda er tekin til greina með sömu röksemd og viðbótarverk 2009-213 í lið h.

m)           Viðbótarverk 2009-218. Kröfufjárhæðin vegna þessa verks er 158.470 kr. Gagnstefnandi andmælir ekki greiðslu þessa hluta og er krafan því tekin til greina.

n)            Viðbótarverk 2009-219. Krafan byggist á vinnu við að bora göt fyrir raflagnir í karm við útgarð að beiðni gagnstefnanda. Fjárhæð kröfu er 36.257 kr. Krafa aðalstefnanda er tekin til greina með sömu röksemd og viðbótarverk 2009-213 í lið h.

0)       Viðbótarverk 2009-220. Verkið fólst í afhendingu drenstúta samkvæmt beiðni gagnstefnanda. Krafa aðalstefnanda fyrir efni og sendingarkostnað er að fjárhæð 8.000 kr. Gagnstefnandi hafnar greiðslu umrædds kostnaðar þar sem umrætt efni sé hluti af tilboði stefnanda í verkið.

      Í orðsendingu aðalstefnanda til gagnstefnanda 28. maí 2010 kemur fram að hann hafi dregið þennan reikning til baka. Verður að líta svo á að með því hafi aðalstefnandi tekið undir sjónarmið gagnstefnanda um að varan sé hluti af upphaflegum verksamningi. Kröfu samkvæmt þessum lið er því hafnað.

p)            Viðbótarverk 2009-221. Hluti reiknings nr. 71 er krafa aðalstefnanda um greiðslu fyrir viðbótarverk nr. 2009-221 sem fólst í afhendingu á fjórum pökkum af póstaskrúfum samkvæmt beiðni gagnstefnanda. Aðalstefnandi telur sig hafa afhent nægjanlegt efni til verksins áður og krefjist því greiðslu fyrir viðbótarefni að fjárhæð 23.257 kr. Gagnstefnandi hafnar greiðslu umrædds kostnaðar þar sem efnið hafi verið hluti af tilboði aðalstefnanda í verkið.

      Engin gögn liggja fyrir í málinu sem staðfesta eða hrekja fullyrðingu aðalstefnanda um að afhending þessa efnis hafi verið umfram það sem fólst í tilboði hans. Fyrir liggur að honum bar að afhenda allt efni í glugga þá sem tilboð hans tekur til og ekki er um það deilt að skrúfur af því tagi sem hér um ræðir voru hluti af því sem bar að afhenda. Verður í verki af þeirri stærð sem hér um ræðir að gera ráð fyrir að fjöldi skrúfa sem þarf til verksins geti ekki legið fyrir á tilboðsstigi auk þess sem með sanngirni má gera ráð fyrir einhverri rýrnun slíkra smáhluta á verktíma sem aðalstefnandi verður að gera ráð fyrir við tilboðsgerð. Því er ekki fallist á að um viðbótarverk sé að ræða og kröfu aðalstefnanda í þessum lið hafnað.

q)            Viðbótarverk 2009-224. Krafist er greiðslu fyrir vinnu við 56 horn á glugga í görðum. Fjárhæð kröfu fyrir þetta viðbótarverk er 1.914.200 kr. Gagnstefnandi samþykkir að greiða umræddan kostnað fyrir utan álag á vinnu, þ.e. 1.568.000 kr. Við aðalmeðferð málsins féll aðalstefnandi frá kröfu sinni um álag vegna yfirvinnu. Ekki er því lengur ágreiningur um kröfuna og er hún tekin til greina.

r)             Viðbótarverk 2009-225. Kröfufjárhæðin vegna þessa verks er 58.974 kr. Gagnstefnandi andmælir ekki greiðslu þessa hluta og er krafan því tekin til greina.

s)             Viðbótarverk 2009-226. Krafist er greiðslu vegna endursmíði tveggja glugga að fjárhæð 570.307 kr. Gagnstefnandi samþykkti að greiða reikninginn en mótmælti sérstöku álagi á verklaun vegna yfirvinnu og taldi fjárhæðina því eiga að vera 492.530 kr. vegna verksins. Við aðalmeðferð málsins féllst aðalstefnandi á þá lækkun og er krafan tekin til greina með þeirri lækkun.

t)             Viðbótarverk 2009-227. Krafist er greiðslu fyrir 12 hurðahandföng af annarri og dýrari gerð en útboðsgögn kváðu á um sem hafi þurft að sérpanta. Krafan er að fjárhæð 347.928 kr. Gagnstefnandi hafnar greiðslu vegna umrædds kostnaðar þar sem gögn að baki þessari kröfu séu ófullnægjandi.

      Fyrir liggur í gögnum málsins, m.a á minnisblaði frá eftirlitsaðila, að vegna kröfu frá arkitektum hafi verið óskað eftir tilteknum hurðahandföngum af sérstakri gerð sem ekki voru þau sem fylgdu hurðakerfi því sem aðalstefnandi bauð samkvæmt samningi. Í útboðsgögnum er ekki áskilið að handföng séu af tiltekinni gerð og því er ekki haldið fram að þau handföng sem aðalstefnandi lagði til hafi ekki verið í samræmi við útboðsskilmála. Sú mótbára gagnstefnanda að gögn að baki kröfu séu ófullnægjandi á ekki við rök að styðjast. Krafa aðalstefnanda er því tekin til greina að fullu.

u), v) og w) Viðbótarverk 2009-228, 229 og 231. Kröfufjárhæð vegna þessara verka er samtals 1.423.403 kr. Gagnstefnandi andmælir ekki greiðslu þessara krafna og eru þær því teknar til greina.

x)            Viðbótarverk 2009-232. Krafa aðalstefnanda byggir á aukavinnu við leiðréttingar á teikningum vegna útgáfu nýrrar hurðaskrár. Fjárhæð kröfu er 331.065 kr. Gagnstefnandi samþykkir að greiða 112.167 kr. vegna þessa verkþáttar sem byggi á mati stefnda á eðlilegri þóknun fyrir umrædda vinnu og verkkaupi hafi samþykkt.

      Í þessum kröfulið er ekki deilt um greiðsluskyldu heldur fjárhæð reiknings. Í niðurstöðu matsmanns er reikningur aðalstefnanda vegna vinnu tæknimanna talinn of hár og eðlilegt endurgjald talið vera 149.172 kr. Aðalstefnandi mótmælir niðurstöðu matmanns án viðhlítandi rökstuðnings. Með vísan til þess sem að framan greinir um sönnunargildi matsgerðar er krafa aðalstefnanda tekin til greina með sömu fjárhæð og matsgerð kveður á um.

y)            Viðbótarverk 2010-102. Krafist er greiðslu fyrir breytingar á festingum í fasöðu í byggingu 1 að beiðni stefnda. Aðalstefnandi krefur gagnstefnanda um greiðslu 45.455 kr. vegna þessa verkliðar. Gagnstefnandi hafnar greiðslu þar sem umræddar festingar hafi í upphafi verið rangt smíðaðar af aðalstefnanda miðað við samningsgögn. Af því leiði að hann sjálfur á að bera kostnað við að breyta þeim til samræmis við kröfur samningsgagna enda hluti af verksamningi að leggja fram samþykktar festingar.

      Ekki verður séð að breytingar þær sem aðalstefnandi krefur gagnstefnanda um greiðslu fyrir að vinna hafi verið nauðsynlegar vegna breytinga á verkinu á verktíma. Ekki liggja fyrir gögn sem sýna fram á að gerðar hafi verið breytingar á hönnunargögnum á verktímanum eða önnur gögn sem styðja fullyrðingar hans um að hann hafi orðið að breyta teikningum sínum af ástæðum sem gagnstefnandi beri ábyrgð á. Kröfu aðalstefnanda samkvæmt þessum lið er því hafnað.

z)     Viðbótarverk 2010-102. Kröfufjárhæðin vegna þessa verks er 45.455 kr.   Gagnstefnandi andmælir ekki greiðslu þessa hluta og er krafan því tekin til greina.

                Samkvæmt því sem að ofan greinir fellst dómurinn á kröfu aðalstefnanda um greiðslu krafna samtals að fjárhæð 6.253.945 kr. vegna reiknings nr. 71.

                Reikningur nr. 64

                Umræddur reikningur var útgefinn 18. janúar 2010 vegna pöntunar gagnstefnanda á 200 stk. af svonefndum „oval head“ skrúfum. Aðalstefnandi krefur gagnstefnanda um greiðslu að fjárhæð 4.769 kr. vegna þeirra kaupa. Gagnstefnandi hafnar greiðsluskyldu og kveður efnið vera hluta af því sem innifalið var í tilboði aðalstefnanda.

Engin gögn liggja fyrir í málinu sem staðfesta eða hrekja fullyrðingu aðalstefnanda um að afhending þessa efnis hafi verið umfram það sem fólst í tilboði hans. Fyrir liggur að honum bar að afhenda allt efni í glugga þá sem tilboð hans tekur til og ekki um það deilt að skrúfur af því tagi sem hér um ræðir voru hluti af því sem bar að afhenda. Verður í verki af þeirri stærð sem hér um ræðir að gera ráð fyrir að fjöldi skrúfa sem þarf til verksins geti ekki legið fyrir á tilboðsstigi auk þess sem með sanngirni má gera ráð fyrir einhverri rýrnun slíkra smáhluta á verktíma sem aðalstefnandi verður að gera ráð fyrir við tilboðsgerð. Því er ekki fallist á að um viðbótarverk sé að ræða og kröfu aðalstefnanda í þessum lið hafnað.

Reikningur nr. 74, útgefinn 31. mars 2010

Reikningurinn er að fjárhæð 9.413.376 kr. og byggir á eftirfarandi viðbótarverkum:

a)            Viðbótarverk 2010-103. Kröfufjárhæðin vegna þessa verks er 89.235 kr. Gagnstefnandi andmælir ekki greiðslu þessa hluta og er krafan því tekin til greina.

b)            Viðbótarverk 2010-104. Krafa samkvæmt þessum lið er vegna endurpöntunar á gleri og vinnu við hurðir í áfanga 1 að fjárhæð 1.420.553 kr. Gagnstefnandi fellst á að greiða 117.422 kr. af þessum reikningi en hafnar frekari greiðslu.

         Krafa aðalstefnanda byggir á því að pöntun gagnstefnanda á umræddum glerjum hafi verið viðbót við það sem honum bar að afhenda, þ.e. að hann hafi þegar afhent samskonar gler og voru í þessari pöntun. Gagnstefnandi hafnar greiðsluskyldu að öðru leyti en að ofan greinir og byggir á því að umrætt magn af gleri hafi þurft að panta vegna þess að sumt af því hafi aldrei borist, annað hafi komið en verið af rangri stærð og eða verið brotið eða kvarnað upp úr því við afhendingu. Sá hluti sem gagnstefnandi hefur fallist á að greiða er það magn sem hann telur að hafi skemmst í meðförum sínum eða undirverktaka á hans vegum.

         Í gögnum málsins er ekki að finna yfirlit yfir það efni sem aðalstefnandi afhenti né heldur staðfestingar gagnstefnanda á móttöku þess. Þá eru heldur ekki gögn um það að gagnstefnandi hafi yfirfarið efni sem hann tók við áður en það var tekið úr gámum eða þeim umbúðum sem það barst í. Þá liggja heldur ekki fyrir tilkynningar um gallað gler í sendingum. Þannig verður ekki staðreynt á grundvelli framlagðra gagna hvaða magn var afhent né gengið úr skugga um hvort frávik hafi verið í stærð glerja eða hvort glerið hafi verið gallað eða skemmt við afhendingu. Þar af leiðandi ræðst niðurstaðan í þessum lið af því á hvorum aðila sönnunarbyrðin hvílir.

         Í minnisblaði gagnstefnanda dags. 17. apríl 2009 er beiðni um pöntun þeirra glerja sem umdeildur reikningur byggir á. Í minnisblaðinu er því ekki haldið fram að glerin hafi ekki borist heldur segir þar að nokkuð sé um að gler hafi brotnað, sé gallað eða af rangri stærð. Meðfylgjandi minnisblaðinu eru teikningar þar sem merkt er inn á, á ýmsum stöðum „kvarnað úr gleri, sprungið gler“. Í skeyti sem aðalstefnandi sendi gagnstefnanda vegna framangreindrar pöntunar kemur fram að hann áskilji sér viðbótagreiðslu vegna umræddra glerja. Af þessu minnisblaði og öðrum skeytasendingum aðila verður ekki annað ráðið en að báðir aðilar hafi gengið út frá því að um viðbótarpöntun hafi verið að ræða og hvergi er að finna gögn þar sem gagnstefnandi heldur því fram að glerið hafi ekki borist. Telst því ósannað að vantað hafi í fyrri sendingar.

         Á minnisblaðinu er því haldið fram að eitthvað af gleri sem var afhent hafi verið af rangri stærð. Öðrum gögnum er ekki til að dreifa sem renna styrkari stoðum undir þá fullyrðingu og engin tilraun er gerð af hálfu gagnstefnanda til að sýna fram á fjölda þeirra glerja. Verður samkvæmt þessu að telja að honum hafi ekki tekist að sanna hvort eða hve mikið magn af afhentu gleri hafi verið af rangri stærð. Loks heldur gangstefnandi því fram að hluti glers hafi komið brotinn á verkstað. Samkvæmt samningi aðila hafði aðalstefnandi engum verkskyldum að gegna á verkstað, öfugt við það sem forveri hans, Formaco, hafði áður. Jafnframt segir í samningnum að gagnstefnandi taki við allri uppsetningarvinnu og að honum sé skylt að tilkynna strax tjón, m.a. það sem rekja megi til flutnings efnis. Með vísan til framangreindra samningsákvæða og almennra reglna um áhættuskipti við kaup á vöru hvílir ábyrgðin á því að glerið skemmist eftir að það var afhent á byggingarstað, á gagnstefnanda. Gagnstefnandi hefur ekki lagt fram nein gögn sem styðja þá fullyrðingu hans að glerið hafi verið gallað við afhendingu. Verður hann að bera hallann af þeim sönnunarskorti.

         Með vísan til ofangreinds er niðurstaða varðandi þennan kröfulið sú að gagnstefnanda beri að greiða fyrir umdeilt gler enda hefur hann ekki sýnt fram á að hann hafi átt rétt á því án endurgjalds vegna þess að vantað hafi í fyrri sendingar eða að áður afhent vara hafi verið gölluð. Krafa aðalstefnanda samkvæmt þessum lið er því tekin til greina.

c)            Viðbótarverk 2010-105. Krafa samkvæmt þessum lið felur í sér endurgjald vegna vinnu við 14 horn á glugga í görðum í húsi 6 vegna breytinga á hönnun arkitekta og er krafist greiðslu 449.811 kr. vegna þessa. Aðalstefnandi féll frá kröfu sinni um yfirvinnuálag á launlið kröfunnar og er eftir það ekki ágreiningur milli aðila um þennan kröfulið. Er krafan því tekinn til greina eftir lækkun með 396.004 kr. vegna verksins.

d)            Viðbótarverk 2010-106. Krafan byggist á reikningi vegna glers í glugga í áfanga 1 fyrir hús 3 og er að fjárhæð 2.441.125 kr. Gagnstefnandi hefur fallist á að greiða 208.651 kr. vegna þessa liðar en hafnar greiðslu að öðru leyti, þar sem þær rúður sem þurfti að endurpanta hafi ekki komið, ekki fundist á verkstað eða ekki verið af réttri stærð miðað við samningsgögn. Krafa aðalstefnanda byggist á því að pöntun gagnstefnanda á umræddum glerjum hafi verið viðbót við það sem honum bar að afhenda, þ.e. að hann hafi þegar afhent samskonar gler og voru í þessari pöntun. Mál þetta er af sama tagi og ágreiningur um viðbótarverk 2010-104 í b-lið hér að framan. Þá heldur gagnstefnandi því jafnframt fram til stuðnings sýknukröfu sinni af þessum lið að honum hafi ekki verið kunnugt um hvaða efni var komið á verkstað við yfirtöku stefnanda þann 1. mars 2009 þar sem engin formleg verkskil hafi farið fram. Að mati dómsins verður gagnstefnandi sjálfur að bera hallann af sönnunarskorti sem leiðir af því að formleg verkskil fóru ekki fram. Með þessum rökum og að öðru leyti með vísan til rökstuðnings fyrir niðurstöðu í b-lið varðandi viðbótarverk 2010-104 hér að framan er krafa aðalstefnanda tekin til greina.

e)            Viðbótarverk 2010-107. Krafan er að fjárhæð 3.057.420 kr. og byggist á reikningi fyrir gler og umsýslu vegna pöntunar á því. Gagnstefnandi hefur fallist á að greiða 645.373 kr., vegna glers sem kann að hafa brotnað í hans umsjá, en hafnar greiðslu annars kostnaðar með sömu rökum og fjallað er um í umfjöllun um viðbótarverk 2010-106. Krafa aðalstefnanda er tekin til greina með sömu rökum og rakin eru í umfjöllun í b-lið að framan varðandi viðbótarverk 2010-104.

f)             Viðbótarverk 2010-108. Krafan, sem er að fjárhæð 651.683 kr., byggir á því að aðalstefnandi hafi endurpantaði gler í glugga í áfanga 1 vegna breytinga sem arkitektar gerðu á gluggunum. Gagnstefnandi hefur samþykkt greiðslu vegna þessa liðar að fjárhæð 433.210 kr. Gagnstefnandi hafnar kröfunni að öðru leyti og vísast til sömu skýringa og eiga við viðbótarkröfu 104 hér að framan, þ.e. að gler hafi vantað í gáma eða komið í rangri stærð. Röksemdum gagnstefnanda er hafnað með sömu rökum og koma fram undir b-lið hér að framan og er krafa aðalstefnanda því tekin til greina.

g)            Viðbótarverk 2010-109. Krafist er greiðslu 1.303.550 kr. vegna endursmíði á lausum fögum sem aðalstefnandi heldur fram að hafi skemmst á verkstað en gagnstefnandi hafnar greiðslu og kveður fög þessi hafa verið afhent í því ástandi.

         Óumdeilt er að umdeild gluggafög voru á verkstað í vörslu gagnstefnanda þegar krafa um lagfæringar á skemmdum var gerð. Í gögnum málsins er vísbending um að þau hafi verið afhent af Formaco áður en aðalstefnandi tók verkið yfir. Áður hefur dómurinn komist að þeirri niðurstöðu varðandi deilu aðila um galla eða skemmdir á vöru, að áhættan af því að varan skemmist liggi hjá gagnstefnanda eftir að hann hefur sannanlega tekið við vörunni. Í því felst að hann getur ekki krafist úrbóta á grundvelli galla nema hann sanni eða geri sennilegt að varan hafi verið afhent í því ástandi eða að skemmdir megi rekja til atvika sem aðalstefnandi beri af öðrum ástæðum ábyrgð á, svo sem vegna sakar starfsmanna sinna. Gagnstefnandi hefur ekki sýnt fram á eða gert sennilegt að það eigi við í þessu tilviki. Verður hann því sjálfur að bera kostnað af lagfæringum á umræddum gluggafögum. Gagnstefnandi hefur ekki gert athugasemdir við fjárhæð reiknings aðalstefnanda fyrir þetta verk og er krafa hans því tekin til greina að öllu leyti.

                Samkvæmt því sem að framan er rakið er viðurkennd krafa vegna reiknings nr. 74 samtals 9.359.570 kr.

         Reikningur nr. 77, útgefinn 2. mars 2010, að fjárhæð 2.614.690 kr.

         Reikningurinn er að fjárhæð 2.614.690 kr. og sundurliðast í eftirfarandi viðbótarverk:

a)            Viðbótarverk 2010-110. Krafan felst í greiðslu fyrir 40 metra af 60 cm breiðum EPDM-dúk að fjárhæð 65.845 kr. Gagnstefnandi hafnar greiðslu og kveður efnið innifalið í tilboði stefnanda.

Aðalstefnandi afhenti framangreint magn af EPDM-dúk að beiðni gagnstefnanda til þéttingar á þakglugga. Beiðnin var send með tölvuskeyti 22. febrúar 2010. Í orðsendingu aðalstefnanda til gagnstefnanda, dags. 28. maí 22010, kemur fram að aðalstefnandi telji sig ekki eiga að afhenda dúk af þessu tagi til þéttingar þakglugga og vísar í því sambandi til útboðsteikninga þar sem fram komi að þakdúkur skuli þéttast við glugga. Er það í samræmi við skýrslu Sigurðar Hreinssonar fyrir dómi.

Af gögnum málsins, einkum þeim teikningum sem lagðar hafa verið fram, má ráða að ekki var gert ráð fyrir notkun á EPDM-dúk til þéttingar á þakglugga og er því krafa um afhendingu slíks dúks vegna frágangs þakglugga ekki hluti af samningsverki. Aðalstefnandi á því rétt á viðbótargreiðslu vegna þessarar sendingar. Með vísan til þessa er krafa hans tekin til greina.

b)            Viðbótarverk 2010-111. Krafist er greiðslu á 140.811 kr. vegna gerðar horna á glugga í görðum í húsi 6 vegna breytinga á hönnun arkitekta. Gagnstefnandi hefur viðurkennt greiðsluskyldu vegna umræddrar kröfu en mótmælti fjárhæð hennar með vísan til þess að í reikningi aðalstefnanda er gert ráð fyrir álagi á tímakaup vegna yfirvinnu. Ekki verður séð á reikningi aðalstefnanda að sú mótbára eigi við rök að styðjast þar sem uppgefið tímakaup samkvæmt reikningi er í samræmi við umsamið meðalgjald í tímavinnu án álags vegna yfirvinnu. Er því krafa aðalstefnanda að fullu tekin til greina.

c) og d) Viðbótarverk 2010-112 og 113. Kröfufjárhæðin vegna þessa verka er samtals 162.922 kr. Gagnstefnandi andmælir ekki greiðslu vegna þessara viðbótarverka og er krafan því tekin til greina.

e)            Viðbótarverk 2010-114. Krafa samkvæmt þessum lið er vegna kostnaðar af vinnu tæknimanna vegna breyting á teikningum. Fjárhæð kröfu er 456.183 kr.

Í gögnum málsins kemur fram að breyta þurfti samþykktum framleiðsluteikningum, sem byggðu á raunmælingum aðalstefnanda, vegna breytinga sem leiddu af flotun gólfs sem fór fram síðar. Er því um viðbótarverk að ræða. Í matsgerð kemur fram að matsmaður telji endurgjald of hátt miðað við það verk sem unnið var. Eðlilegt endurgjald telur hann vera 146.630 kr. Aðalstefnandi mótmælti niðurstöðu matsgerðar að því er fjárhæð varðar en hefur ekki rökstutt mótmæli sín með viðhlítandi hætti. Er krafa aðalstefnanda því tekin til greina með lækkun til samræmis við niðurstöðu matsgerðar.

f)             Aukaverk 2010-115. Aukaverk þetta lýtur að breytingum á svonefndum K-festingum. Fjárhæð kröfu er 105.900 kr.

                Fyrir liggur að aðalstefnanda bar að leggja fram lausn á festingum sem gagnstefnandi samþykkti og honum hefur ekki tekist að sanna að sú vinna sem hann krefur gagnstefnanda um greiðslur fyrir samkvæmt þessum lið stafi af breyttum kröfum eða breyttri hönnun á verktímanum. Er því ekki fallist á að um viðbótarverk sé að ræða og er kröfu aðalstefnanda um greiðslu samkvæmt þessum lið hafnað.

g)            Viðbótarverk 2010-116. Krafa að fjárhæð 48.877 kr. vegna vinnu við að kanna möguleika á breytingu á sk. skúffum í görðum að ósk arkitekta. Gagnstefnandi hafnar greiðslu með vísan til þess að umsýsla aðalstefnanda með hönnunargögn teljist eðlilegur hluti verksins en ekki viðbótarverk.

         Fallist er á rök gagnstefnanda og kröfu aðalstefnanda því hafnað.

h)            Aukaverk 2010-117 Aðalstefnandi kveður kröfu vegna þessa liðar tilkomna vegna ákvörðunar gagnstefnanda um að breyta úr svokölluðu „Add-on FW50+AOS“ kerfi, sbr. útboðsgögn, yfir í svokallað „FW50+50mm“ kerfi. Fjárhæð kröfunnar er 976.881 kr. Þetta hafi sparaði verkkaupa umtalsverðar fjárhæðir i öðrum verkliðum. Gagnstefnandi hafnar greiðslu á þeim grundvelli að frá upphafi verks, þ.e. áður en aðalstefnandi tók við verki af Formaco ehf., hafi þessi verkliður verið skilgreindur sem verkþáttur á ábyrgð verktaka, þar sem framleiðsla stálfestinga milli prófíls og stáls væri hluti af verki undirverktaka, þ.e. Formaco og síðar aðalstefnanda. Með nýjum samningi við aðalstefnanda hafi allur ágreiningur um verkmörk verið afgreiddur og enginn ágreiningur orðið um þetta atriði. Aðalstefnandi hafi síðan lagt til aðra prófíla en samið hafi verið um sem voru samþykktir af hálfu verkkaupa og eftirlitsaðila. Engin krafa hafi komið fram frá aðalstefnanda um það að hann ætti rétt á viðbótargreiðslu vegna þessara breytinga enda um að ræða breytingu frá áður samþykktu verki að frumkvæði hans sjálfs.

Að mati dómsins er í ljós leitt að breytt hönnun sem aðalstefnandi lagði til og gagnstefnandi samþykkti fól í sér dýrari útfærslu af hálfu aðalstefnanda en leiddi á hinn bóginn til lækkunar á kostnaði við aðra verkliði. Mátti gagnstefnanda vera ljóst þegar hann samþykkti þessa verktilhögun í upphafi að hún myndi leiða til viðbótarkostnaðar sem aðalstefnandi myndi með réttu krefja gagnstefnanda um. Matsmaður telur endurgjald fyrir vinnu tæknimanna í hærra lagi en samt ekki bersýnilega ósanngjarnt. Þá telur matsmaður endurgjald fyrir umfram efnismagn sanngjarnt. Krafa aðalstefnanda er því tekin til greina.

i)             Viðbótarverk 2010-118. Krafa að fjárhæð 657.270 kr. felst í greiðslu fyrir hönnun og uppsetningu sérlausna vegna áfellu ofan við hurðir í byggingu 1. Útboðsgögn, teikning (31) 5.20 deili 3 eða verklýsing, hafi ekki borið með sér að taka þyrfti tillit til sérlausna. Gagnstefnandi hafnar því að greiða umræddan kostnað og telur hann hluta af samningsverki.

                Dómurinn telur ljóst, m.a. með vísan til þess að matsmaður segi um þennan verklið að hann telji þá lausn sem sýnd sé á útboðsteikningum ekki ganga upp, að um aukaverk sé að ræða sem leitt hafi af ófullnægjandi útboðsgögnum. Í matsgerð er eðlilegt endurgjald fyrir þennan lið talið 225.293 kr. lægra en krafa aðalstefnanda og það rökstutt með eftirfarandi hætti: „Matsmaður telur umkrafið endurgjald sanngjarnt og eðlilegt fyrir þær fimm hurðir sem um ræðir. Matsþoli upplýsti að reiknað hafi verið með lóðréttum pósti á milli hurða og telur matsmaður að láréttur póstur sem bætt var ofan við hurðir komi í hans stað og því sé hann ekki aukinn kostnaður. Stefnandi mótmælti niðurstöðu matsmanns hvað fjárhæð varðar í þessum lið án viðhlítandi rökstuðnings.“ Með vísan til framangreinds er krafa aðalstefnanda viðurkennd en lækkuð til samræmis við niðurstöðu matsmanns og verður því 431.977 kr.

Samkvæmt framansögðu er krafa aðalstefnanda á grundvelli reiknings nr. 77 tekin til greina með 1.925.066 kr.

Reikningur nr. 78, útgefinn 2. mars 2010

Um er að ræða reikning vegna viðbótarverks 2010-119 að fjárhæð 519.614 kr. vegna öryggisglers.

Aðilar deila ekki um að skipta hafi þurft út umræddu gleri þar sem í ljós kom eftir uppsetningu að glerin voru skemmd. Gagnstefnandi hafnar greiðslu þar sem hann telur allar líkur á að glerin hafi skemmst í flutningi stefnanda.

Með vísan til ákvæða í samningi aðila og almennra reglna um áhættuskipti við kaup á vöru hvílir ábyrgðin á því að glerið skemmist eftir að það var afhent á byggingarstað, á gagnstefnanda. Hann hefur ekki lagt fram nein gögn sem styðja þá fullyrðingu hans að glerið hafi verið gallað við afhendingu. Verður gagnstefnandi að bera hallann af þeim sönnunarskorti. Krafa aðalstefnanda er því tekin til greina.

Reikningur nr. 82, útgefinn 30. apríl 2010

Umræddur reikningur, sem er að fjárhæð 6.091.511 kr., felur í sér kröfu um greiðslu fyrir eftirfarandi viðbótarverk:

a)            Viðbótarverk 2010-120. Aðalstefnandi krefst greiðslu fyrir framleiðslu á prófíl sem skemmdist í höndum gagnstefnanda. Fjárhæð kröfunnar er 64.238 kr. og kveður hann að gagnstefnandi hafði samþykkt þennan lið í tilraunum aðila til uppgjörs.

                Ekki virðist deilt um að framleiða hafi þurfti prófíl á ný sem gagnstefnandi hafði þegar móttekið. Ekkert liggur fyrir um að skemmdirnar séu að völdum aðalstefnanda og er krafa hans um greiðslu samkvæmt þessum lið því tekin til greina. 

b)            viðbótarverk 2010-121 Krafist er greiðslu vegna breytinga á teikningum vegna þess að mál á hurð í prufurými hafi breyst við flotun gólfa. Fjárhæð kröfunnar er 57.023 kr. Gagnstefnandi hafnar greiðslu og telur verkið hluta af samningsverki aðalstefnanda enda hluti af verksamningi að leggja fram allar teikningar af gluggum og hurðum fyrir verkkaupa til samþykktar.

                Niðurstaða hvað þennan lið varðar er sú að fallist er á kröfu aðalstefnanda enda hefur hann gert það líklegt að um aukaverk sé að ræða. Vísast um það atriða til röksemda sem fram koma í umfjöllun um kröfu samkvæmt reikningi nr. 14 hér að framan. Matsmaður taldi reikninginn of háan fyrir þetta verk og taldi sanngjarnt endurgjald fyrir vera 16.292 kr. Krafa aðalstefnanda er því viðurkennd með þeirri lækkun sem leiðir af niðurstöðu matsgerðar.

c)            Viðbótarverk 2010-122. Krafan byggir á vinnu við að breyta teikningum á 24 hurðum vegna ónákvæmi við flotun gólfa. Fjárhæð kröfu er 782.028 kr. Gagnstefnandi hafnar því að greiða umræddan kostnað þar sem vinnan hafi verið innifalin í hönnunarvinnu aðalstefnanda.

Dómurinn tekur kröfu aðalstefnanda til greina með vísan til sömu röksemda og koma fram í umfjöllun um kröfu samkvæmt reikningi nr. 14. Lækka ber fjárhæð kröfunnar í 505.060 kr. með hliðsjón af mati matsmanns sem áleit þá fjárhæð endurspegla sanngjarna þóknun fyrir verkið.

d)            Viðbótarverk 2010-123. Aðalstefandi krefur gagnstefnanda um greiðslu 684.274 kr. vegna vinnu sem leiddi af breytingum á hurðaskrá. Gagnstefnandi viðurkennir greiðsluskyldu en mótmælir fjárhæð reiknings. Fyrir liggur niðurstaða matsgerðar þar sem matsmaður telur umkrafið endurgjald eðlilegt og sanngjarnt. Með vísan til þess er krafa aðalstefnanda tekin til greina.

e)            Viðbótarverk 2010-124. Krafan, að fjárhæð 97.753 kr., byggist á vinnu vegna breytinga á hurðaskrá. Gagnstefnandi hafnar greiðslu og vísar til þess að breytingarnar hafi verið unnar að frumkvæði aðalstefnanda og á hans ábyrgð.

Fyrir liggur tölvuskeyti þar sem gagnstefnandi sendir aðalstefnanda nýja útgáfu af hurðaskrá, merkt 11. útgáfa. Af gögnum málsins má ráða að hér sé um breytingu að ræða frá eldri útgáfum af hurðaskrám. Er því um breytingar frá áður samþykktum hönnunargögnum að ræða sem felur í sér viðbótarverk. Vísast til umfjöllunar að framan um skýrslur aðila fyrir dómi þar sem báðir aðilar bera að nýjar teikningar og hönnunargögn hafi falið í sér verkbeiðni af hálfu gagnstefnanda. Þegar slík verkbeiðni er send af gagnstefnanda verður að ganga út frá því að krafist verði endurgjalds vegna vinnu hennar, hvort sem það hefur verið sérstaklega áskilið eða ekki af hálfu aðalstefnanda. Matsmaður telur endurgjald fyrir vinnu eðlilegt og sanngjarnt. Með framangreindum rökstuðningi er krafa aðalstefnanda tekin til greina.

f)             Viðbótarverk 2010-125. Krafan byggist á því að umrætt verk sé viðbótarverk þar sem það hafi falist í breytingum á áður samþykktum teikningum á 11 hurðum í húsi 3 sem leiddu af ónákvæmni við flotun gólfa. Gagnstefnandi hafnar greiðslu og telur verkið hluta af samningsverki. Krafa aðalstefnanda í þessum lið er að fjárhæð 358.429 kr. en í matsgerð kemur fram að matsmaður telur eðlilegt endurgjald vera 187.361 kr.

                Hér er um að ræða breytingar frá áður samþykktum teikningum og felur það því í sér viðbótarverk. Vísast til röksemda í b-lið um viðbótarverk 2010-121 varðandi þessa niðurstöðu. Er krafa aðalstefnanda því tekin til greina með þeirri lækkun sem matsgerð gerir ráð fyrir en aðalstefnandi hefur andmælt niðurstöðu matsgerðar án þess að gera viðhlítandi grein fyrir forsendum þeirra andmæla.

g)            Viðbótarverk 2010-126. Krafan er að fjárhæð 290.666 kr. vegna sérpantaðra hurðahandfanga. Gagnstefnandi hafnar kröfunni og telur hana studda ófullnægjandi gögnum.

Fyrir liggur í gögnum málsins, m.a. á minnisblaði frá eftirlitsaðila, að vegna kröfu frá arkitektum hafi verið óskað eftir hurðahandföngum af tiltekinni gerð sem ekki voru þau sem fylgdu hurðakerfi því sem stefnandi bauð samkvæmt samningi. Í útboðsgögnum er ekki áskilið að handföng séu af tiltekinni gerð og því er ekki haldið fram að þau handföng sem aðalstefnandi lagði til hafi ekki verið í samræmi við útboðsskilmála. Sú mótbára gagnstefnanda að gögn að baki kröfu séu ófullnægjandi á ekki við rök að styðjast. Krafa samkvæmt þessum lið er því að fullu tekin til greina.

h)            Viðbótarverk 2010-127. Krafa samkvæmt þessu lið er að fjárhæð 68.547 kr. vegna lagfæringa á festingum sem voru rangt smíðaðar í upphafi vegna villu í teikningum. Gagnstefnandi hafnar greiðslu og telur aðalstefnanda bera ábyrgð á þeim mistökum sem leiddu til þess að lagfæra þurfti umræddar festingar.

Að mati dómsins hefur aðalstefnandi ekki lagt fram gögn sem sýna að skekkja hafi verið í teikningum sem umræddar festingar voru í upphafi smíðaðar eftir. Hefur hann því ekki sýnt fram á að þessi vinna sé umfram það sem var innifalið í greiðslu fyrir samningsverk eða stafi ekki af mistökum hans sjálfs. Kröfu aðalstefnanda samkvæmt þessum lið er því hafnað.

i)             Viðbótarverk 2010-128. Hér er krafist greiðslu 59.578 kr. fyrir 32 m af 650 mm breiðum EPDM-dúk.

Óumdeilt er að aðalstefnandi afhenti framangreint magn af EPDM-dúk að beiðni gagnstefnanda til þéttingar á þakglugga. Beiðnin var send með tölvuskeyti 21. september 2009. Þar kemur fram að umrætt efni eigi að fara í þéttingu á þakglugga. Auk þess segir: „… það var búið að senda í þetta svo þetta er auka magn.“ Með vísan til þessa og þeirra röksemda sem fram koma í a-lið umfjöllunar um kröfur samkvæmt reikningi nr. 77 (viðbótarverk 2010-110) er krafa aðalstefnanda tekin til greina.

j)             Viðbótarverk 2010-129. Krafan byggist á vinnu við áður samþykktar teikningar á sjö hurðum í húsi 2 og 3 vegna ónákvæmni við gólfílögn. Fjárhæð kröfu er 228.091 en matsmaður taldi sanngjarnt endurgjald vera 122.192 kr. Með vísan til sömu röksemda og koma fram í b-lið (viðbótarverk 2010-120) er krafa aðalstefnanda tekin til greina með þeirri lækkun sem felst í mati matsmanns, sem aðalstefnandi hefur ekki andmælt með viðhlítandi rökum.

k)            Viðbótarverk 2010-130. Aðalstefnandi krefur gagnstefnanda um 536.015 kr. greiðslu vegna vinnu við breytingar á sjö hurðum og vísar til 12. útgáfu hurðaskrár. Gagnstefnandi hefur fallist á að greiða 99.704 kr. vegna verksins sem hann telur eðlilega þóknun fyrir umrædda vinnu og verkkaupi hafi samþykkt.

Í niðurstöðu matsgerðar er sanngjarnt og eðlilegt endurgjald fyrir þennan kröfulið talið vera 97.364 kr. Telja verður að gagnstefnandi sé hins vegar bundinn við fyrri yfirlýsingu sína um hærri greiðslu og er því viðurkennt að gagnstefnandi skuldi aðalstefnanda 99.704 kr. vegna þessa viðbótarverks.

l)             Viðbótarverk 2010-131. Aðalstefnandi krefst greiðslu 373.293 kr. vegna vinnu við að bora göt fyrir raflagnir í karma við útgarð. Gagnstefnandi hafnar greiðsluskyldu og telur að aðalstefnanda hafi borið að skila körmum með umræddum götum á samkvæmt samningi aðila.

        Við úrlausn þessa liðar þarf að taka afstöðu til þess hvort umrætt verk tilheyrir framleiðslu eða uppsetningu glugga. Í umfjöllun um viðbótarverk 2009-213 í h-lið á reikningi 71 er það niðurstaða dómsins að verkið tilheyri uppsetningarvinnu og sé þar af leiðandi á verksviði gagnstefnanda. Vísast til nánari rökstuðnings til umfjöllunar um framangreindan kröfulið. Krafa aðalstefnanda er að fullu tekin til greina.

m)           Viðbótarverk 2010-132. Krafan er að fjárhæð 130.338 kr. vegna vinnu við að leiðrétta framleiðsluteikningar af horngluggum. Að sögn aðalstefnanda var vinna þessi nauðsynleg þar sem fyrri teikningar höfðu verið gerðar á grundvelli teikninga arkitekta sem síðar kom í ljós að voru rangar, þ.e. ekki í samræmi við raunmál. Gagnstefnandi hafnar greiðslu þar sem þessi vinna hafi verið innifalin í hönnunarvinnu stefnanda enda hluti af verksamningi að leggja fram allar teikningar af gluggum og hurðum fyrir verkkaupa til samþykktar. Matsmaður telur endurgjald fyrir vinnu tæknimanna eðlilegt og sanngjarnt.

                Svo sem áður hefur komið fram leggur dómurinn til grundvallar í mörgum liðum að fyrir hafi legið teikningar af hálfu aðalstefnanda sem gagnstefnandi hafi ekki gert athugasemdir við eða mótmælt því að unnið væri eftir þeim. Af þeim sökum verður gagnstefnandi að greiða fyrir vinnu sem leiðir af breytingum á þeim teikningum. Fyrir liggur í gögnum málsins að gagnstefnandi sendi aðalstefnanda breytt mál með tölvuskeytum í september 2009 og aðalstefnandi áskildi sér rétt til greiðslu fyrir breytingarnar sem viðbótarverks. Niðurstaða matsgerðar er sú að endurgjaldið sem aðalstefnandi krefur um sé eðlilegt og sanngjarnt. Með þessum rökstuðningi er krafa aðalstefnanda tekin til greina.

n)            Viðbótarverk 2010-133. Aðalstefnandi byggir kröfu sína í þessum lið á því að hann hafi þurft að endurhanna hluta festinga þakglugga í húsi 1 og sérsmíða 42 festingar. Ekki hafi verið mögulegt að smíða glugga í þeim málum sem sýnd voru í útboðsgögnum. Krefur hann gagnstefnanda um greiðslu 273.177 kr. Gagnstefnandi hafnar greiðsluskyldu og kveður umrædda hönnunarvinnu hluta af upphaflegum verksamningi aðila á grundvelli fyrirliggjandi útboðsgagna.

                Dómurinn fellst ekki á þá málsástæðu gagnstefnanda að verk þetta hafi verið hluti af samningsverki á grundvelli fyrirliggjandi útboðsganga. Telja verður ljóst að breyta þurfti teikningum vegna þess að afstaða mannvirkis var ekki eins og útboðsteikningar gerðu ráð fyrir. Útboðsteikningar gerðu ráð fyrir einföldum eyrum ofan eða utan á stálbita. Eyrum þurfti að breyta en áður gerð eyru nýttust með tilteknum viðbótum. Fyrir liggur að gagnstefnandi óskaði eftir tilteknum fjölda festinga og af gögnum málsins verður ekki séð að hann hafi gert athugasemdir við áskilnað aðalstefnanda um viðbótargreiðslu vegna þessa. Í fyrirliggjandi matsgerð er endurgjald fyrir vinnu tæknimanna talið eðlilegt og sanngjarnt en endurgjald fyrir efni í hærra lagi en þó ekki bersýnilega ósanngjarnt. Með framangreindum rökstuðningi verður krafa aðalstefnanda tekin til greina.

o)            Viðbótarverk 2010-134. Aðalstefnandi krefur gagnstefnanda um endurgjald fyrir 240 m af 0,6 m breiðum EPDM-dúk vegna þakglugga á A og B göngugötum og Krossgötu. Fjárhæð kröfu samkvæmt þessum lið er 408.873 kr. Gagnstefnandi hafnar greiðslu umrædds kostnaðar þar sem um hafi verið ræða efni sem hafi verið hluti af tilboði aðalstefnanda í verkið.

                Svo sem áður hefur verið fjallað um má ráða af gögnum málsins, einkum þeim teikningum sem lagðar hafa verið fram, að ekki sé gert ráð fyrir notkun á EPDM-dúk til þéttingar á þakglugga í upphaflegum útboðsteikningum. Krafa um afhendingu á slíku efni til notkunar í þakglugga er því ekki hluti af samningsverki. Aðalstefnandi á því rétt á viðbótargreiðslu fyrir þessa sendingu og er krafa hans tekin til greina.

p)            Viðbótarverk 2010-135. Aðalstefnandi féll frá kröfu samkvæmt þessum lið í upphafi aðalmeðferðar.

q)            Viðbótarverk 2010-136. Krafa byggist á kostnaði við að skipta út, að beiðni gagnstefnanda, þremur rafdrifnum hurðapumpum af „Slim Drive“ gerð sem gagnstefnandi og hönnuður höfðu áður samþykkt en aðalstefnandi heldur því fram að hann hafi lagt til aðra lausn í upphafi. Reikningurinn er vegna vinnu auk greiðslu fyrir þrjár hurðapumpur af gerðinni „GEZE 160“. Gagnstefnandi hafnar kröfu aðalstefnanda með vísan til þess að þær pumpur sem hann upphaflega lagði til hafi ekki uppfyllt kröfur samkvæmt samningsgögnum og því hafi aðalstefnanda borið að útvega aðrar pumpur sem stæðust kröfur samnings aðila.

                Fyrir liggur að gagnstefnandi fór fram á aðra gerð af hurðapumpum en upphafleg útboðsgögn kváðu á um. Síðar kom í ljós að þær virkuðu ekki og var þá óskað eftir að pumpur af þeirri gerð sem upphaflega var gert ráð fyrir að yrðu notaðar yrðu settar upp. Ekki verður séð að aðalstefnandi hafi haft frumkvæði að því að reynt var að nota aðra gerð hurðpumpa, heldur kom beiðni þar að lútandi frá gagnstefnanda. Þá verður heldur ekki séð að aðalstefnandi beri ábyrgð á því að sú lausn hentaði ekki og að þess í stað var aftur horfið til notkunar þeirrar gerðar sem upphaflega var ráðgert. Er því um viðbótarverk að ræða sem gagnstefnandi ber að greiða fyrir. Fjárhæð kröfunnar, 841.611 kr., hefur ekki verið mótmælt og er krafa aðalstefnanda því tekin til greina að fullu.

r)             Viðbótarverk 2010-137. Aðalstefnandi smíðaði prófíla í stað annarra sem höfðu skemmst. Gagnstefnandi hafnar greiðsluskyldu, hann telur þá hafa komið skemmda á verkstað eða skemmst í meðförum Formaco á meðan það félag sá um uppsetningu glugga. Fjárhæð kröfunnar er 751.954 kr.

Í samræmi við þegar fram komna afstöðu dómsins er á því byggt að gagnstefnandi beri ábyrgð á vöru eftir að hún hefur verð afhent á verkstað og beri jafnframt sönnunarbyrðina fyrir því að varan hafi komið gölluð á verkstað. Sú sönnun hefur ekki tekist í þessu tilviki og engum gögnum er til að dreifa um ástand umræddra prófíla nema frásagnir aðila sjálfra. Þá hefur gagnstefnandi heldur ekki lagt fram gögn sem sanna eða gera sennilegt að skemmdir megi rekja til athafna eða athafnaleysis Formaco og heldur ekki rökstutt hvernig ábyrgð á mögulegum skemmdum af þess hálfu hafi færst yfir til aðalstefnanda. Því er ósannað að skemmdir prófílanna séu af völdum aðalstefnanda og fyrir liggur að hann smíðaði nýja prófíla að beiðni gagnstefnanda í stað annarra sem voru skemmdir í vörslum gagnstefnanda. Í því felst viðbótarverk sem gangstefnanda ber að greiða fyrir. Með framangreindum rökstuðningi er krafa aðalstefnanda í þessum lið tekin til greina.

                Samkvæmt framansögðu er krafa aðalstefnanda á grundvelli reiknings nr. 82 því tekin til greina með 4.906.364 kr.

                Reikningur nr. 94, útgefinn 20. apríl 2010

                Reikningur að fjárhæð 15.093 kr. er fyrir 200 stk. af skrúfum (5,5x48) og er skýringin á reikningi sögð vera vegna „flugstöðvar 5300“ en gagnstefnandi hafi á þessum tíma unnið að verki við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Gagnstefnandi hafnar greiðslu og kveður efnið hafa verið innifalið í tilboði aðalstefnanda.

Gagnstefnandi hefur ekki mótmælt þeirri skýringu á reikningi að umrædd vara hafi verið afhent vegna vinnu hans við annað verk sem áreiðanlega féll utan samnings aðila. Krafa aðalstefnanda er því tekin til greina.

                Með hliðsjón af öllu framansögðu er niðurstaða dómsins sú að taka beri til greina kröfu aðalstefnanda um greiðslu vegna viðbótar- og aukaverka með 24.812.938 kr.

Kröfur gagnstefnanda í gagnsök

                Heildarkrafa sem gagnstefnandi telur sig eiga á hendur aðalstefnanda nemur 65.793.117 kr. Dómkrafa í gagnsök er að fjárhæð 36.747.038, sem er mismunur heildarkröfunnar og þeirra krafna sem gagnstefnandi viðurkennir að honum beri að greiða aðalstefnanda. Kröfugerð í gagnstefnu er í þremur liðum sem byggjast á mismunandi málsástæðum; í fyrsta lagi er hluti kröfunnar byggður á því að gagnstefnandi eigi rétt til greiðslu kostnaðar vegna ýmissa viðbótar- og aukaverka og útlagðs kostnaðar vegna vanefnda aðalstefnanda, í öðru lagi að hann eigi rétt til bóta vegna galla í verki aðalstefnanda og í þriðja lagi er byggt á því að gagnstefnandi eigi rétt til tafabóta vegna afhendingardráttar. Verður nú gerð nánar grein fyrir niðurstöðu dómsins vegna hvers kröfuliðar um sig.

                Kröfur gagnstefnanda vegna þess sem í gagnstefnu eru kölluð auka- og viðbótarverk eru í 22 liðum og nema samtals 38.243.117 kr. Kröfurnar kveður gagnstefnandi byggjast á 14. gr. viðaukasamnings aðila. Þar er kveðið á um heimild gagnstefnanda til að reikningsfæra kostnað af verkþáttum sem rekja megi til skekkju eða ágalla í framleiðslu aðalstefnanda. Þá vísar gagnstefnandi jafnframt til greinar I 0.8.2 í 1. hluta útboðs- og samningsskilmála en þar er fjallað um kröfur til aðalstefnanda um vandvirkni og fagmennsku og að honum beri við vinnu sína að hafa heildarhagsmuni verksins að leiðarljósi. Við málflutning vísaði gagnstefnandi jafnframt til ákvæða í 5. mgr. í inngangi samnings aðila sem fjallar um ábyrgð aðalstefnanda á verki Formaco sem þegar var búið að greiða fyrir. Jafnframt vísaði hann til 11. tölul. samningsins um skyldu aðalstefnanda til að útvega allt efni til glugga- og hurðasmíði.

                Til stuðnings kröfum í einstökum kröfuliðum vísar gagnstefnandi til vinnuskýrslna, reikninga, fundargerða og annarra gagna málsins, sem tekin eru saman sem eitt dómsskjal sem varð dómsskjal nr. 60. Aðalstefnandi mótmælir öllum kröfum gagnstefnanda. Sýknukrafa hans byggir á því að hann hafi í öllum tilvikum staðið við samningsskyldur sínar, hann hafi formlega mótmælt öllum reikningum gagnstefnanda á minnisblöðum og í orðsendingum eftir því sem tilefni hafi verið til. Aðalstefnandi telur reikninga gagnstefnanda vera tilbúning og ekki eiga við rök að styðjast auk þess sem hann kveður gagnstefnanda ekki hafa virt ákvæði 14. gr. samnings aðila þar sem kveðið er á um að gagnstefnandi skuli tilkynna aðalstefnanda án tafar komi í ljós skekkja eða ágallar á verki þess síðarnefnda og gefa aðalstefnanda kost á að vinna úrbætur sjálfur sé þess nokkur kostur enda tefji það ekki verkið.

                Svo sem að framan greinir eru kröfur gagnstefnanda í þessum lið byggðar á ákvæði 14. gr. samnings aðila sem efnislega er rakið hér að framan. Krafa þessi er ranglega nefnd krafa um greiðslu vegna viðbótar- og aukaverka en í verktakarétti eru þau hugtök notuð um verk sem verktaki vinnur gegn viðbótargreiðslu frá verkkaupa samkvæmt ákvæðum samninga aðila og staðlaðra samningsskilmála, sbr. m.a. ákvæði 16. gr. ÍST 30:2003. Framangreint ákvæði í samningi aðila kveður hins vegar á um rétt gagnstefnanda sem verkkaupa til að reikningsfæra tiltekinn kostnað á aðalstefnanda, verktaka, vegna vinnu við útbætur sem rekja má til ágalla á verki hans. Skilyrði þess að gagnstefnandi geti krafið aðalstefnanda um greiðslu kostnaðar á grundvelli þessa ákvæðis, eru þau að gagnstefnandi sýni fram á að hann, eða aðilar á hans vegum, hafi orðið að vinna að útbótum sem rekja megi til galla í framleiðslu aðalstefnanda. Þá er jafnframt kveðið á um það í umræddu ákvæði að aðalstefnanda skuli án tafar tilkynnt um þá ágalla sem koma í ljós og honum gefinn kostur á að vinna verkið sjálfur enda tefji það ekki verkið. Fallast má á það með gagnstefnanda að úrbótarétt aðalstefnanda verði að skoða í ljósi þess að verkefni hans samkvæmt samningi aðila fólst í afhendingu vöru en ekki í uppsetningu. Af því leiðir að úrbótaréttur hans nær fyrst og fremst til afhendingar ógallaðrar vöru. Telja verður að gagnstefnandi hafi nokkuð rúman rétt til að vinna að úrbótum sjálfur þar sem slíkt sé hagfelldara fyrir hann eða líklegra til að skila betra verki.

Málsástæður og lagarök aðila vegna einstakra kröfuliða eru rakin í köflum IV og V í dóminum. Niðurstaða dómsins um einstaka kröfuliði er eftirfarandi:

1.            Lagfæringar. Gagnstefnandi krefst þess að gagnstefndi greiði fyrir efni og vinnu við lagfæringar, m.a. fyrir veggpappa, kíttun með hurðum á austurhlið nýbyggingar HR og áfellur í kringum flóttahurðir að sunnan. Fjárhæð kröfu samkvæmt þessum lið er 342.995 kr. Aðalstefnandi hafnar greiðsluskyldu og kveður engan rökstuðning að finna í kröfugerð gagnastefnanda fyrir því af hverju hann eigi að greiða þessa kröfu auk þess sem úrbótaréttur hans hafi ekki verið virtur.

                Kröfu samkvæmt þessum lið styður gagnstefnandi með afriti af vinnuskýrslum frá fyrirtækjunum Tréverki og áli ehf. og Kanti ehf. auk reiknings fyrir efniskaup hjá Byko. Þá er í nefndu dómsskjali nr. 60 að finna yfirlit yfir kröfuna á skjali sem gert er af gagnstefnanda í júní 2010. Hvorki í þessum gögnum né annar staðar er gerð grein fyrir því hvernig verk þau sem nefnd fyrirtæki unnu, og framangreindar vinnuskýrslur vitna um, tengjast aðalstefnanda þessa máls og ætluðum vanefndum hans á samningsskyldum sínum. Þá vísar gagnstefnandi ekki til neinna gagna til stuðnings þeirri fullyrðingu sinni að aðalstefnanda hafi verið gefinn kostur á að bæta sjálfur úr þeim ágöllum sem gagnstefnandi kveður vera ástæðu þess að önnur fyrirtæki hafi verið fengin til útbóta. Þá verður af gögnum málsins ekki heldur séð hvernig fjárhæð kröfunnar er fundin né heldur gögn um útlagðan kostnað gagnstefnanda, annan en reikninginn frá Byko. Því verður að telja að gagnstefnandi hafi hvorki sýnt fram á að aðalstefnandi hafi vanefnt samning aðila með þeim hætti að honum beri að bæta tjón vegna þess né hvert umfang þess tjóns hafi verið. Með þessum röksemdum er kröfu gagnstefnanda hafnað.

2.            Frágangur glugga. Gagnstefnandi krefst þess að aðalstefnandi greiði fyrir efniskaup vegna frágangs og vísar í því efni til 11. gr. í viðaukasamningi aðila.

Deila aðila í þessum lið lýtur að því hvort aðalstefnandi hafi afhent það efni sem honum bar samkvæmt samningi aðila en samkvæmt 11 gr. í viðaukasamningi þeirra bar aðalstefnanda að útvega allt efni í verkið, annað en það sem sérstaklega er undanskilið í nefndu ákvæði. Við mat á því hvaða efni hér um ræðir vísa báðir aðilar til útboðsteikninga frá 20. maí 2008 þar sem verkmörk eru lituð inn á teikningar. Engar magntölur er hins vegar að finna í þessum teikningum eða öðrum gögnum sem lögð hafa verið fram. Til stuðnings kröfu sinni hefur gagnstefnandi lagt fram áðurnefnda teikningu, afrit fundargerða þriggja verkfunda í febrúar 2008, fundar 18. ágúst og fundar 10. september sama ár. Í framangreindum fundagerðum eru engar vísbendingar um það hvert magn þess efnis hafi verið sem innifalið var í samningi aðila. Þá leggur gagnstefnandi fram sundurliðun kröfunnar í skjali sem unnið er af honum sjálfum í júní 2010 og afrit reikninga vegna efniskaupa í samræmi við þá sundurliðun.

                Af gögnum málsins verður ekki ráðið hvert magn efnis hafi verið sem aðalstefnanda bar að afhenda en ekki er um það deilt að honum bar að afhenda allt efni sem tengdist uppsetningu glugga sem hann framleiddi samkvæmt sama samningi, miðað við verkið eins og það er teiknað á útboðsteikningum. Þá hafa heldur ekki verið lögð fyrir dóminn gögn sem sýna hve mikið efni aðalstefnandi í raun afhenti. Því verður ekkert ráðið af gögnum málsins hvort aðalstefnandi hafi vanefnt skyldu sína í þessu efni svo sem gagnstefnandi heldur fram. Þótt gögn málsins styðji fullyrðingar gagnstefnanda um að hann hafi keypt efni hjá þriðja aðila af þeirri gerð sem notað var til frágangs á gluggum, svo sem þéttilista og kítti, þá geta ástæður þess verið ýmsar aðrar en þær að aðalstefnandi hafi ekki afhent umsamið magn, s.s. þær að efnið hafi einnig verið notað til annarra verka, að meira efni hafi þurft en gert var ráð fyrir í upphafi eða að efni hafi farið forgörðum af ástæðum sem aðalstefnandi ber ekki ábyrgð á. Sönnunarbyrði um það að aðalstefnandi hafi vanefnt samning sinn með því að afhenda ekki það efni sem honum bar hvílir á gagnstefnanda og hefur honum ekki tekist sú sönnun. Kröfu gagnstefnanda samkvæmt þessum lið er því hafnað

3.            Gler. Krafa samkvæmt þessum lið er að fjárhæð 634.410 kr. og byggist á því að gagnstefnandi telur sig hafa orðið fyrir kostnaði vegna þess að aðalstefnandi hafi ekki staðið rétt að afhendingu glers. Vísar hann til greinar 20.7 í ÍST 30 þar sem segir að efni sem fullnægir ekki kröfum sem settar séu beri verktaka að flytja á brott af vinnustað án tafar. Vinnan sem gagnstefnandi krefst greiðslu fyrir kveður hann hafa falist í því að telja gler og endursenda gallað gler, eða gler sem ekki passaði þar sem það átti að vera, til baka til aðalstefnanda. Starfsmenn gagnstefnanda hafi þurft að fara í gegnum allar glerkistur sem komu á verkstað og leita að þeim rúðum sem þurfti að senda til baka og ganga þannig frá þeim að þær kæmust óskemmdar á verkstæði. Einnig hafi komið fyrir að sent hafi verið gler á verkstað sem áttu að fara til annarra verkefna aðalstefnanda. Þá hafi komið fyrir að gler hafi komið brotið á verkstað í kistunum eða brotnað á verkstað af ástæðum sem aðalstefnandi beri ábyrgð á. Aðalstefnandi beri ábyrgð á því að afhenda rétt efni á verkstað og beri því að greiða gagnstefnanda fyrir flokkun glers og endursendingu.

                Aðalstefnandi hafnar greiðsluskyldu samkvæmt þessum lið. Byggir hann sýknukröfu á því að enga sundurliðun á kröfunni sé að finna í gagnstefnu, gögn til stuðnings henni séu ófullnægjandi og hún eigi sér enga stoð í raunveruleikanum. Umsjón efnis á verkstað hafi verið í höndum gagnstefnanda og á hans ábyrgð enda hafi hann tekið á móti öllu gleri sem flutt var í áföngum í gámum frá Eistlandi. Hafi gler verið flutt á rangan stað hafi það verið vegna ákvarðana gagnstefnanda sjálfs en ákvörðun um hvar glerja bæri hluta af verkinu hafi verið breytt eftir að gler hafi verið pantað frá framleiðanda erlendis. Því beri gagnstefnandi sjálfur ábyrgð á því ef þurfti að endursenda gler af verkstað í verksmiðju aðalstefnanda. Þá séu mistök við glerísetningu alfarið á ábyrgð gagnstefnanda enda ísetning glers á hans höndum. Sérhver rúða hafi verið merkt þannig að ekki fór á milli mála í hvaða glugga hún var ætluð en gagnstefnandi og starfsmenn á hans vegum hafi ekki farið eftir þessum merkingum þrátt fyrir ítrekaðar leiðbeiningar frá aðalstefnanda í því efni. Þá hafi gagnstefnandi enga tjónaskýrslu gert og aldrei tilkynnt um flutningstjón né sent fráviksskýrslur samkvæmt gæðakerfi sínu.

                Deilt er um það í þessum lið hver beri ábyrgð á þeirri vinnu sem leggja þurfti í til að flokka og endursenda gler sem barst á verkstað. Fyrir liggja til stuðnings kröfu gagnstefnanda 10 vinnuskýrslur frá Tréverki og áli ehf. og Kanti ehf. vegna vinnu af þessu tagi sem unnin var á tímabilinu frá miðjum maí og fram í miðjan desember 2009. Engin gögn hafa verið lögð fyrir dóminn sem sýna hvenær umrætt gler barst gagnstefnanda né hvernig frá því var gengið eða í hvernig ástandi það var við móttöku. Þá liggja ekki fyrir nein gögn sem sýna magn afhents glers eða kvittun fyrir móttöku þess. Ekki er um það deilt í málinu að aðalstefnanda hafi borið að afhenda framleiðslu sína á verkstað, og er það í samræmi við ákvæði 7. töluliðar samnings aðila þar sem því er lýst hvaða hluta heildarverksins sem Formaco hafði áður með höndum, gagnstefnandi tók yfir. Verður við það að miða, á grundvelli þessa samnings og með vísan til 1. mgr. 7. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 að gagnstefnandi hafi veitt vörunum viðtöku þegar þær voru komnar á verkstað hans. Samkvæmt reglum sömu laga ber gagnstefnandi ábyrgð á söluhlut frá því hann veitir vörunni viðtöku, þ.e. frá því hún kom á verkstað hans, sbr. 1. mgr. 13. gr. laganna. Ekki er um það deilt að vinna sú sem gagnstefnandi krefst greiðslu fyrir samkvæmt þessum lið var unnin eftir að hann veitti vörunni viðtöku. Getur hann ekki krafið aðalstefnanda um greiðslu vegna þeirrar vinnu nema hann sýni fram á að hana sé að rekja til ágalla sem aðalstefnandi beri ábyrgð á. Í þessu tilviki gætu slíkir ágallar verið þeir að aðalstefnandi hafi ekki afhent rétta vöru eða hún hafi ekki verið í réttu ástandi, þ.e. annaðhvort gölluð (brotið gler) eða ekki flokkuð rétt. Gagnstefnandi fullyrðir að ástæða þess að hann lagði í framangreinda vinnu hafi einmitt verið þessir vankantar á afhendingu aðalstefnanda. Hann hefur hins vegar ekki lagt fram nein gögn sem styðja þessa fullyrðingu og verður hún því að teljast ósönnuð. Kröfu gagnstefnanda samkvæmt þessum lið er því hafnað.

4.            Glerskipti. Gagnstefnandi krefst þess að aðalstefnandi greiði kostnað vegna glers sem þurfti að endurpanta vegna framleiðslugalla, brotins glers og glers af rangri stærð. Aðalstefnanda hafi verið send lituð teikning, þann 1. apríl 2009, þar sem sýndar hafi verið þær rúður sem þurfti að endurpanta og var tilkynnt um slíka kröfu gagnstefnanda á verktíma án þess að úr væri bætt. Krafa gagnstefnanda vegna ofangreindra liða er að fjárhæð 3.960.873 kr. Aðalstefnandi hafnar greiðsluskyldu.

        Gagnstefnandi leggur fram til stuðnings kröfum sínum samkvæmt þessum lið vinnuskýrslur frá Tréverki og áli vegna vinnu í desember 2009, reikninga vegna útlagðs kostnaðar við glerskipti, vinnuskýrslur frá Kanti ehf. í nóvember 2009 og teikningar sem svara til þeirra sem lýst er hér að framan og lista yfir endurpantað gler. Ekkert þessara gagna veitir vísbendingu um að glerið hafi komið gallað eða brotið á verkstað. Í minnisblaði gagnstefnanda frá 26. febrúar 2009 segir að komið hafi í ljós að gler í innigarð 2.02 passi ekki í gluggakarm og á minnisblaði frá 17. apríl sama ár er listi yfir gler sem gagnstefnandi telur að þurfi að endurpanta vegna þess að það hafi ekki borist í réttri stærð eða sé gallað með öðrum hætti.

        Svo sem rakið hefur verið áður ber gagnstefnandi sönnunarbyrðina fyrir þeirri fullyrðingu að varan sem aðalstefnandi afhenti hafi verið gölluð við afhendingu. Með vísan til ofangreindra gagna, er það mat dómsins að gagnstefnandi hafi ekki fært fullnægjandi sönnur þess að glerið sem aðalstefnandi afhenti hafi verið gallað við afhendingu og ef svo var, hve stór hluti afhendingar aðalstefnanda hafi verið haldinn göllum. Af þeim gögnum sem að framan er lýst má ráða að einhver hluti glers hafi verið af rangri stærð en ekki hve mikið magn það var. Þá verður af gögnum málsins ekki ráðið hvort það gler sem skipta þurfti út vegna þess að það var brotið, hafi brotnað í meðförum gagnstefnanda eða verið brotið við afhendingu. Með vísan til framangreinds er kröfu gagnstefnanda í þessum lið hafnað.

5.            Gustlokun. Gagnstefnandi krefst þess að aðalstefnandi greiði kostnað við gustlokun. Sá kostnaður sé tilkominn vegna þess að gallað efni var sent á verkstað af hálfu aðalstefnanda. Í þeim tilvikum sem aðalstefnandi afhenti ekki efni á réttum tíma, sem leiddi til þess að eina eða fleiri rúður vantaði í þá glugga sem settir voru upp, hafi þurft að grípa til aðgerða til að loka gluggagötum til að vinna annarra verktaka innanhúss gæti haldið áfram. Í slíkum tilvikum hafi gagnstefnandi lokað þeim gluggagötum þar sem vantaði gler með krossviðarplötum eða með brotnum rúðum sem höfðu borist á verkstað. Í sumum tilvikum hafi verið einfaldara og ódýrara að nota brotnar rúður sem bárust á verkstað sem gustlokun í stað þess að sníða niður krossvið í gluggana í sama tilgangi. Þegar nýjar rúður bárust á verkstað var brotnu rúðunum skipt út. Fjárhæð kröfu vegna þessa liðar sé 2.768.425 kr.

                Framlögð gögn, sem eru reikningar og vinnuskýrslur vegna vinnu gangstefnanda og undirverktaka á hans vegum við gustlokun, sýna að gagnstefnandi hefur unnið sjálfur og látið aðra vinna við gustlokun á byggingartíma hússins. Svo sem rakið er í lið 4 er ósannað hvort og í hve miklum mæli vara aðalstefnanda hafi verið gölluð við afhendingu. Verður hann því ekki krafinn um greiðslu kostnaðar við að bregðast við því að bíða hafi þurft eftir ógölluðu efni. Í framlögðum gögnum vegna þessa kröfuliðar eru engin gögn sem varpa frekara ljósi á orsakatengslin milli umræddrar gustlokunar og athafna eða athafnaleysis aðalstefnanda sem bakað geti honum greiðsluskyldu á grundvelli 14. gr. samnings aðila eða öðrum ákvæðum sem gagnstefnandi vísar til. Þá ber einnig að líta til þess að gagnstefnandi krefst tafabóta, m.a. vegna tafa á afhendingu glers en ekki verður krafist annarra bóta fyrir sömu tafir samhliða greiðslu tafabóta hafi um þær verið samið, sbr. grein 24.5. í ÍST 30. Með framangreindum rökstuðningi er kröfu samkvæmt þessum kröfulið hafnað.

6.            Gúmmíþéttilistar. Gagnstefnandi krefst þess að aðalstefnandi greiði fyrir vinnu sem til féll þegar skipta þurfti um gúmmíþéttilista á gluggum sem Formaco og undirverktakar þeirra höfðu sett upp en uppfylltu ekki kröfur verksamnings. Aðalstefnandi hafi lagt til allt efni í þessa vinnu en gagnstefnandi hafi lagt til vinnu, vinnupalla og vinnulyftur. Krafa samkvæmt þessum lið sé að fjárhæð 1.288.139 kr. vegna vinnu, vinnupalla og vinnulyfta sem gagnstefnandi lagði til en aðalstefnandi hafi lagt til efnið.

                Ekki virðist um það deilt að skipta hafi þurft um umrædda þéttilista og lét aðalstefnandi gagnstefnanda endurgjaldslaust í té nýja lista. Að mati dómsins felst í því viðurkenning á ábyrgð aðalstefnanda á því að rangir þéttilistar voru afhentir í upphafi.Verður að leggja til grundvallar að vinnan við að skipta út listunum hafi verið bein afleiðing af því. Gangstefnanda er rétt að krefja aðalstefnanda um kostnað af því sbr. 14. tölul. í samningi aðila. Aðalstefnandi ber því við að hann hafi átt að eiga kost á því sjálfur að annast þessar lagfæringar fremur en að vera krafinn um greiðslu vegna vinnu annarra vegna þessa. Eins og hér stendur verður að telja sanngjarnt og eðlilegt að gagnstefnandi hafi nokkurt svigrúm til að ákveða sjálfur hverjir annist vinnu á verkstað, að úrbótaréttur aðalstefnanda sæti takmörkunum vegna þessa og miðist fyrst og fremst við réttinn til að framleiða og afhenda vörur á verkstað í samræmi við aðalskyldu hans samkvæmt verksamningi aðila. Krafa gagnstefnanda samkvæmt þessum lið er því tekin til greina

7.            Horn í görðum. Gagnstefnandi krefst þess að aðalstefnandi greiði kostnað vegna frágangs við samskeyti samlokueininga við gluggapósta með fyllilista, pressulista og loki. Samið hafi verið við sjálfstæðan verktaka, Kant ehf., um smíði og uppsetningu þessara horna. Eftir að Kantur ehf. hafi sett upp þessar samlokueiningar samkvæmt teikningu og tilboði hafi þess verið krafist af eftirliti að gengið yrði frá láréttum samskeytum þessara samlokueininga með sama frágangi og ef samlokueiningin væri úr gleri. Vinnu við þennan viðbótarfrágang beri aðalstefnandi að greiða. Fjárhæð samkvæmt þessum lið nemi 90.953 kr.

Hvorki í greinargerð gagnstefnanda né í framlögðum gögnum er gerð grein fyrir því með skilmerkilegum hætti hvaða verk er um að ræða né á hvaða forsendum greiðsluskylda hvílir á aðalstefnanda. Með vísan til þessa er kröfu hans samkvæmt þessum lið hafnað.

8.            Hurðapumpur og pinnar. Samkvæmt verksamningi áttu hurðir að koma frá verksmiðjum með öllum búnaði. Gagnstefnandi krefst þess að aðalstefnandi greiði fyrir vinnu við að setja hurðapumpur á þær tvær hurðir sem komu án þeirra á verkstað. Fjárhæð kröfu samkvæmt þessum lið er 45.296 kr.

                Ekki verður séð að aðila hafi greint á um að hurðir bæri að afhenda með öllum búnaði, þ.m.t. hurðapumpum og pinnum. Virðist ekki hafa orðið ágreiningur um þetta atriði nema varðandi þær tvær hurðir sem hér er deilt um. Í ljósi þess að skilningur aðila á því hvað teldust fullbúnar hurðir í öðrum tilvikum en þessu fól í sér ákomnar pumpur, verður niðurstaða málsins sú að aðalstefnanda hafi borið að afhenda þessar hurðir í sama ástandi. Krafa gagnstefnanda samkvæmt þessum lið er því tekin til greina.

9.            Láshringir. Gagnstefnandi krefst þess að aðalstefnandi greiði kostnað vegna tiltekinna láshringja í þakglugga og vinnu við að setja þá upp, sbr. 5. grein í viðaukasamningi. Í þakglugga í görðum við nýbyggingu HR hafi verið krafa um að nota ákveðna láshringi eða spennuskífur. Þessa láshringi/spennuskífur hafi þurft að nota að innanverðu í þakglugga í görðum og koma þeim á ryðfría teina. Aðalstefnandi hafi hins vegar sent svarta, óryðvarða láshringi. Eftirlitið hafi leyft notkun þeirra í þakglugga á milli húss tvö og þrjú en sett það skilyrði að framvegis yrðu notaðir ryðfríir láshringir með þessum ryðfríu teinum. Óskað hafi verið eftir því að aðalstefnandi léti í té ryðfríu láshringina. Til bráðabirgða hafi verið notast við gúmmíteygjur í stað láshringjanna. Að lokum hafi reynst nauðsynlegt að skipta teygjunum út og hafi gagnstefnandi þurft að leggja til bæði efni og vinnu vegna þess. Kostnaður vegna vinnu Kants ehf. og innkaupa gagnstefnanda er sundurliðaður í dómsskjölum en krafa samkvæmt þessum lið er að fjárhæð 402.235 kr.

                Af verksamningi verður ekki ráðið að gerð hafi verið krafa um að umræddir láshringir væru úr ryðfríu stáli eins og síðar var gerð krafa um og ósannað er að um það hafi verið samið síðar. Kröfu gagnstefnanda er því hafnað.

10.          Lok/þykkingar. Gagnstefnandi krefst greiðslu fyrir viðbótar- eða aukaverk vegna frágangs við gluggapósta sem þykkja þurfti með sérstökum skúffum. Fjárhæð þessa kröfuliðar er 1.672.619 kr.

                Líta verður svo á, miðað við það sem fram er komið um verklag og framleiðsluferli umræddra gluggapósta að verkið sem gagnstefnandi krefst greiðslu fyrir samkvæmt þessum lið, tilheyri uppsetningarhluta verksins fremur en framleiðslu. Svo sem verkaskiptingu aðila var háttað verður aðalstefnanda ekki gert að greiða fyrir það. Kröfu gagnstefnanda er því hafnað.

11.          Rauðar festingar. Gagnstefnandi krefst þess að aðalstefnandi greiði vinnu við að koma smellufestingum í gluggapósta. Fjárhæð kröfu samkvæmt þessum lið er 318.134 kr. Kröfu samkvæmt þessum lið er hafnað með sömu röksemd og kemur fram í lið 10.

12.          Seinni kíttun. Samkvæmt teikningum og fleiri gögnum hafi allir gluggapóstar, láréttir og lóðréttir, sem koma að veggjum, lofti og gólfi átt að vera 225 mm á dýpt, sbr. lið 10 hér að ofan. Millipóstar við opnanleg fög og hurðir hafi átt að vera 175 mm á dýpt. Formaco hafi á sínum tíma farið fram á að fá að nota 175 mm prófíl í þessa láréttu gluggapósta við loft og gólf. Vegna þessara vinnubragða aðalstefnanda krafðist eftirlitið þess að tvíkíttað yrði með láréttum gluggapóstum við gólf og loft m.a. til að koma í veg fyrir rakaþéttingu við gluggana og til að óhreinindi söfnuðust ekki í fúguna undir gluggapóstunum. Í þeim tilfellum þegar aðalstefnandi hafi sent ósamsetta gluggapóstana á verkstað og smiðir á verkstað hafi þurft að setja lokin/þykkinguna á 175 mm póstinn hafi eftirlitið krafist tvöfaldrar kíttunar. Ef gluggapóstarnir höfðu komið rétt samsettir frá verksmiðju aðalstefnanda hafi ekki verið gerð krafa um tvöfalda kíttun. Gagnstefnandi krefst þess að aðalstefnandi greiði fyrir vinnu við tvöfalda kíttun sem hafi komið til vegna óska þeirra um breytingu frá upphaflegum kröfum verksins. Yfirlit yfir vinnu verktaka má finna í framlögðum dómsskjölum. Samtals nemi krafa samkvæmt þessum lið 2.372.996 kr.

                Óumdeilt er að breytingar voru gerðar á framleiðsluaðferð tiltekinna prófíla að tillögu aðalstefnanda. Gagnstefnandi taldi nauðsynlegt og lét kítta aftur í samskeyti á prófílum sem mynduðust vegna breyttrar tilhögunar framleiðslunnar. Aðalstefnandi mótmælti því að þörf væri fyrir umrædda kíttun. Í skýrslu Heiðars Víkings Eiríkssonar, fulltrúa Schüco á Íslandi, fyrir dómi var tekið undir þetta sjónarmið aðalstefnanda og sú niðurstaða nánar rökstudd. Gagnstefnandi hefur ekki lagt fram önnur gögn sem styðja staðhæfingu hans um hið gagnstæða. Verður því að telja nægilega í ljós leitt að umrædd kíttun hafi ekki verið nauðsynleg af ástæðum sem aðalstefnandi beri ábyrgð á og verður gagnstefnandi sjálfur að bera kostnað við að framfylgja eigin ákvörðun í þessu efni. Kröfu gagnstefnanda í þessum lið er því hafnað.

13.          Skemmdir/gallaðir álprófílar. Í þessum lið krefur gagnstefnandi aðalstefnanda um greiðslu að fjárhæð 2.649.709 kr. vegna galla í framleiðslu prófíla sem afhentir voru í tíð forvera hans Formaco. Vísar gagnstefnandi til ákvæðis 5. mgr. viðaukasamningsins þar sem kveðið er á um það að Idex gluggar yfirtaki ábyrgð á því verki Formaco sem búið sé að greiða fyrir. Krafan virðist vera vegna vinnu gagnstefnanda og undirverktaka hans sem tengjast því að skipta út gölluðum prófílum.

Af gögnum málsins, einkum minnisblöðum frá eftirlitsaðila, má sjá að gerðar voru athugasemdir við frágang og ástand prófíla á tilteknu tímabili áður en aðalstefnandi tók yfir verkið, þ.e. í nóvember og desember 2008 og fram í janúar 2009. Ekki virðist um það deilt að aðalstefnandi eða forveri hans Formaco hafi lagfært skemmda gluggapósta eða afhent nýja í stað ónýtra en krafan í þessum lið er vegna vinnu gagnstefnanda og undirverktaka á hans vegum í tengslum við lagfæringar á gluggum. Til stuðnings kröfunni eru lagðar fram vinnuskýrslur undirverktaka.

                Í samningi aðila er svohljóðandi ákvæði um ábyrgð aðalstefnanda á verkum Formaco: „Idex gluggar ehf. yfirtaka ábyrgð á því verki Formaco sem búið er að greiða fyrir. Idex gluggar ehf. ber ábyrgð á hugsanlegum framleiðslu- og útlitsgöllum á prófílum sem síðar koma í ljós. Idex gluggar ehf. ber ekki ábyrgð á göllum og skemmdum sem rekja má til slæmrar umgengni annarra á verkstað eða vinnu annarra.“ Ákvæði þetta er afdráttarlaust hvað varðar ábyrgð aðalstefnanda á verki forvera síns og felur m.a. í sér að aðalstefnandi ber ábyrgð á því að þeir verkhlutar sem þegar höfðu verið afhentir og greitt fyrir séu ekki gallaðir eða skemmdir. Á hinn bóginn verður gagnstefnandi að sanna að varan hafi verið gölluð eða skemmd af ástæðum sem Formaco bar ábyrgð á og jafnframt verður hann að sýna fram á að það hafi valdið honum tjóni og hvert umfang tjóns hans var. Í framlögðum gögnum eru vísbendingar um að gagnstefnandi hafi ítrekað gert Formaco viðvart um gallaða eða skemmda prófíla og ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en Formaco og/eða aðalstefnandi hafi gert við eða látið í té nýja prófíla enda er bótakrafan hér studd gögnum um vinnu við að skipta um prófíla. Ekki verður af framlögðum gögnum ráðið hvert magn skemmdra prófíla var og heldur ekki hver tengsl þeirra eru við þá vinnu sem er grundvöllur bótarkröfunnar. Á minnisblöðum eftirlitsaðila verksins, verkfræðistofunnar Eflu, sem er helsta heimildin fyrir því að galli hafi fundist í prófílum, eru engar upplýsingar um magn prófíla né lýsing á því hvort búið er að smíða úr þeim glugga og setja upp í byggingunni. Verður því engu slegið föstu um það hve mikið af prófílum var gallað eða skemmt né hve miklu tjóni það olli gagnstefnanda. Þegar af þeirri ástæðu ber að hafna kröfu gagnstefnanda samkvæmt þessum lið

14.          Stálfestingar. Fjárhæð kröfu samkvæmt þessum lið er 684.812 kr. Af gagnstefnu má ráða að krafa þessi sé bótakrafa vegna afhendingadráttar, annars vegar stálfestinga í ótiltreinda glugga og hins vegar gluggapósta í hús 2 og 3.

                Samkvæmt grein 24.5 í ÍST 30 getur verkkaupi ekki krafist annarra bóta en tafabóta vegna seinkunar á afhendingu verks hafi um þær verið samið. Krafa gagnstefnanda er ekki sett fram sem tafabótakrafa þar sem hvorki er getið umsamins né raunverulegs skiladags og raunar óljóst hvaða verkhluti það var sem tafðist að afhenda. Með þessum rökstuðningi er kröfu gagnstefnanda í þessum lið hafnað.

15.          Aðgerðir til að verja pósta með krossvið. Gagnstefnandi krefst þess að aðalstefnandi greiði fyrir vinnu við að koma fyrir krossviðarhlífum og flytja á milli hurða sem settar voru á hurðarkarma. Um sé að ræða viðbótarkostnað sem féll til þegar hurðir voru afhentar of seint af hálfu aðalstefnanda og leiddi til þess að breyta þurfti þeim hurðum sem notaðar hafi verið sem gönguhurðir í verkinu. Krafa vegna þessa liðar er að fjárhæð 160.620 kr. Kröfu gagnstefnanda er hafnað með sömu röksemdum og koma fram um lið 14.

16.          Vinnupallar. Gagnstefnandi krefst þess að aðalstefnandi greiði fyrir vinnu við að lagfæra staðsetningu vinnupalla sem Formaco hafði sett upp með röngum hætti. Á minnisblaði frá gagnstefnanda til Formaco, dags. 10. mars 2009, er krafist lagfæringar á vinnupöllunum, við henni var ekki brugðist. Gangstefnandi telur sig hafa orðið fyrir 256.338 kr. kostnaði við að bæta úr þessu og krefur aðalstefnanda um greiðslu þess kostnaðar.

                Í samningi aðila, sem gerður var í maí 2009 segir að verkskil skuli miðast við 1. mars s.á. Þá segir í samningnum að á móti lækkun á samningsfjárhæðinni falli nánar greindir verkþættir úr verksamningnum, þar á meðal er kostnaður vegna vinnupalla og lyfta frá 1. mars 2009 (9. tölul.). Að auki er í samningnum ákvæði þess efnis að aðilar séu sammála um að engin ófrágengin deilumál milli Formaco og gagnstefnanda færist yfir til aðalstefnanda (13. tölul.). Af tilvitnuðum ákvæðum er ljóst að uppsetning vinnupalla var ekki á verksviði aðalstefnanda og hann ber ekki ábyrgð á óuppgerðri deilu gagnstefnanda við Formaco vegna pallauppsetninga. Kröfu gagnstefnanda samkvæmt þessum lið er því hafnað.

17.          Þakgluggi milli húsa nr. 2 og 3. Gagnstefnandi krefst þess að aðalstefnandi greiði fyrir kostnað við að skipta út rúðum sem ekki uppfylltu kröfur verklýsingar. Í útboðs- og samningsskilmálum, hluta 1, kafla 7.2. 113 og 7.2.114, komi fram að allt gler skuli vera öryggisgler, hert gler í ytri skífu og samlímt í neðri skífu. Eftir að gluggaísetningarmenn hafi glerjað tvo þakglugga, sem eru á milli húsa nr. 2 og 3, hafi komið í ljós að í 24 rúðum sem voru í miðjum glugganum hafi ekki verið öryggisgler eins og verklýsing geri ráð fyrir. Eftirlitsaðili verksins hafi óskað eftir því að þessum rúðum yrði skipt út og settar yrðu í staðinn rúður í samræmi við verklýsingu og ákvæði byggingarreglugerðar. Verkkaupi og eftirlitsaðili hafi sérstaklega farið fram á að sömu aðilar og settu upp þakgluggann ynnu allt verkið, þar með talið að skipta út þessum rúðum, þannig að ljóst mætti vera hvar ábyrgðin lægi, kæmi upp leki í þakglugga síðar. Gagnstefnandi sendi reikning vegna þessa á aðalstefnanda ásamt skýringum og sundurliðun kostnaðar. Krafa gagnstefnanda er að fjárhæð1.676.719 kr. og kveðst hann þá hafa tekið tillit til afsláttar frá undirverktaka auk þess sem ekki sé gerð krafa um 12% stjórnunarkostnað vegna þessa verkþáttar.

                Ekki er um það deilt að afhent var röng tegund glerja og komu þau mistök ekki í ljós fyrr en búið að var setja hluta þeirra upp í þakglugga hússins. Gagnstefnandi getur því krafið aðalstefnanda um greiðslu á kostnaði við lagfæringar sem af þessu hlutust á grundvelli 14. tölul. samnings aðila. Þá hefur gagnstefnandi að mati dómsins sýnt fram á að hann hafi af því hag að sami aðili annaðist uppsetningu allra þakglugga og því hafi honum verið rétt að láta vinna verkið og krefja aðalstefnanda um kostnað í stað þess að heimila honum sjálfum bæta úr. Krafa samkvæmt þessu lið er því tekin til greina.

18.          Stjórnunarkostnaður. Gagnstefnandi krefst 10.000.000 kr. greiðslu vegna aukins stjórnunarkostnaðar sem leiddi af því að verkið tók mun lengri tíma en áætlað var af ástæðum sem aðalstefnandi beri ábyrgð á.

                Svo sem að framan greinir krefst gagnstefnandi tafabóta vegna afhendingadráttar á tilteknum verkliðum aðalstefnanda. Ekki verður krafist annarra bóta fyrir sömu tafir samhliða greiðslu tafabóta hafi um þær verið samið, sbr. grein 24.5. í ÍST 30. Kröfu gagnstefnanda samkvæmt þessum lið er því hafnað.

19.          Akstur. Krafist er greiðslu vegna aksturskostnaðar við að sækja efni til aðalstefnanda og koma því á verkstað. Gagnstefnandi kveður sig hafa þurft að fara margar ferðir á tímabilinu 15. febrúar 2009 til 1. febrúar 2010 og krefst greiðslu 1.020.352 kr. vegna þessa.

                Ekki verður af framlögðum gögnum ráðið hvernig fjárhæð þessa kröfuliðar er fundin út. Þá liggur heldur ekki fyrir að umræddar ferðir, sem reikningar eru lagðir fram vegna, hafi verið farnar vegna vanefnda stefnanda á því að koma efni af sér á verkstað en fallast má á þá forsendu kröfunnar að aðalstefnanda hafi borið að skila efni á verkstað. Gagnstefnandi hefur hins vegar ekki fært sönnur á að umræddur ferðakostnaður sé vegna vanefnda aðalstefnanda né heldur hefur hann gert nægilega grein fyrir því hvernig fjárhæð kröfunnar er fundin. Kröfu hans er með þessum rökum hafnað.

20.          Hurðapumpur o.fl. Gagnstefnandi krefst þess að aðalstefnandi greiði fyrir kaup á hurðapumpum frá fyrirtækinu Járni og gleri sem og efni sem þurfti til vegna verksins. Kröfu sinni til stuðnings leggur gagnstefnandi fram dagskýrslur verktaka og reikninga vegna vörukaupa. Samtals nemur fjárhæð kröfunnar 1.060.540 kr.

                Gögn málsins varpa ekki ljósi á atvik máls með þeim hætti að sjá megi af þeim með hvaða rökum aðalstefnandi eigi að greiða fyrir umræddar vörur. Kröfu gagnstefnanda samkvæmt þessum lið er því hafnað.

21           Efni til verksins Gagnstefnandi krefst þess að aðalstefnandi greiði fyrir efni sem hann lagði ekki til en honum bar að afhenda samkvæmt samningi aðila. Um sé að ræða gler og „cover cap“ ásamt öðru smávægilegu efni. Samtals nemi krafa samkvæmt þessum lið 1.390.437 kr.

                Sú skylda hvílir á aðalstefnanda að afhenda allt efni til gluggasmíði samkvæmt samningi aðila. Af gögnum málsins má ráða að umrætt efni hafi vantað og kemur ítrekað fram í fundagerðum gagnstefnanda að beðið sé eftir afhendingu aðalstefnanda á þessu efni. Aðalstefnandi var ekki viðstaddur þessa fundi og ekki kemur skýrt fram í gögnum málsins hvernig kröfu var komið á framfæri við hann. Hins vegar liggur fyrir í póstsamskiptum aðila frá 5. ágúst og 6. september 2010 að aðalstefnandi neitar að afhenda nokkurt efni nema gagnstefnandi greiði ógreidda reikninga. Aðalstefnandi byggir varnir sínar á þeirri málsástæðu einni að krafan sé ekki studd nægum gögnum. Á það er ekki fallist. Þykir gagnstefnandi hafa sýnt fram á það með framlögðum gögnum að um efni hafi verið að ræða sem nauðsynlegt var til að ganga frá gluggum og aðalstefnandi hafi ekki afhent það þrátt fyrir áskorun þar að lútandi. Því er fallist á kröfu gagnstefnanda samkvæmt þessum lið.

22.          Stjórnunarkostnaður. Gagnstefnandi krefur um greiðslu fyrir þann stjórnunarkostnað, efni og vinnu sem ekki falli undir liði 1-21 að framan en sé hluti af kröfum hans á hendur aðalstefnanda sem komi skýrt fram á framlögðum reikningum gagnstefnanda á hendur aðalstefnanda. Sá kostnaður nemi samtals 3.193.584 kr.

                Engin leið er að henda reiður á hvernig fjárhæð þessa kröfuliðar er fundin út, hvaða verkliði og efni sé um að ræða né á hvaða grundvelli greiðsluskylda hvíli á aðalstefnanda . Kröfu samkvæmt þessum lið er því hafnað.

                Samkvæmt öllu framansögðu er krafa gagnstefnanda vegna þessa kröfuliðar, sem er í 22 liðum að fjárhæð 38.243.117 kr. , tekin til greina vegna kröfuliða númer 6, 8, 17 og 21 en hafnað vegna annarra liða. Viðurkennd er því krafa gagnstefnanda að fjárhæð 4.400.591 kr. (1.288.139+45.296+1.676.719+1.390.473).

                Krafa gagnstefnanda um bætur vegna galla er í tveimur liðum, samtals að fjárhæð 8.000.000 kr. Gallakrafan er annars vegar að fjárhæð 5.000.000 kr. vegna glerja sem reyndust of stór og hins vegar að fjárhæð 3.000.000 kr. vegna skorts á glerábyrgð. Við upphaf aðalmeðferðar féll gagnstefnandi frá 14.000.000 kr. bótakröfu vegna leka í opnanlegum fögum.

Kröfu sína byggir gagnstefnandi á því að verkið hafi engan veginn staðist kröfur sem gerðar séu í útboðsgögnum eða sem almennt megi gera til slíkra verka. Því eigi gagnstefnandi rétt á að aðalstefnandi bæti honum það tjón sem hann hafi orðið fyrir vegna þessa með skaðabótum eða afslætti í samræmi við almennar reglur. Þá vísar gagnstefnandi til greinar I 0.8.2a í útboðs- og samningsskilmála og greinar 20.6 í ÍST 30 þar sem fram kemur að sé galli á verkinu og hafi hann ekki verið lagfærður innan hæfilegs tíma sé verkkaupa heimilt að halda eftir upphæð sem samsvari kostnaði við að lagfæra gallann. Þá vísi gagnstefnandi til úttektar verkfræðistofunnar Eflu sem fór fram 28. júní 2010 á verki aðalstefnanda sem hann kveður staðfesta margvíslega galla á verkinu, m.a. að ekki hefur fengist yfirlýsing frá sérfræðingi í gleri sem staðfesti að það sé í lagi að hafa of þröngt gler í falsi.

Sýknukrafa aðalstefnanda er byggð á því að krafan sé vanreifuð, ósannað sé að verk hans sé haldið göllum, og ákvæði 20.6 í ÍST 30 hafi ekki veitt gagnstefnanda heimild til að halda eftir greiðslu. Þá er mati gagnstefnanda á fjárhæðum einnig mótmælt. Jafnvel þótt í ljós væri leitt að einhverjir gallar hafi verið á verki aðalstefnanda heldur aðalstefnandi því fram að réttur gagnstefnanda til afsláttar eða skaðabóta sé fallinn niður vegna þess að honum hafi ekki verið gefinn kostur á að bæta úr ágöllum svo sem skylt sé samkvæmt 14. tölulið samningsins. Verktaki hafi almennt víðtækan úrbótarétt í verktakarétti og að gagnstefnandi hafi án ástæðu falið öðrum eða framkvæmt sjálfur úrbætur, sem hann geti ekki krafið aðalstefnanda um greiðslu kostnaðar vegna. Þá sé ljóst að með vanskilum sínum á greiðslu fyrir verkið, sérstaklega framvindureikningum aðalstefnanda, hafi gagnstefnandi í sumum tilvikum beinlínis sjálfur tekið áhættu af því að úrbótum af hálfu aðalstefnanda yrði ekki sinnt enda hafi greiðslufall gagnstefnanda veitt honum rétt til að halda að sér höndum. Ítrekað sé að ætlaða galla, sem gagnstefnandi krefjist greiðslu vegna og hafi verið til umfjöllunar við úttektina, hafi mátt rekja til uppsetningar og skemmda sem hafi verið unnar á gluggunum og hurðum á vinnustaðnum á verktímanum, sem gagnstefnandi beri sjálfur ábyrgð á.

                Sé verk haldið galla getur verkaupi átt rétt til skaðabóta vegna þess tjóns sem af gallanum hlýst. Sönnunarbyrðin fyrir því að verk sé haldið galla og um fjárhæð tjóns hvílir á þeim sem setur fram slíka kröfu. Í málatilbúnaði gagnstefnanda er gerð krafa um bætur annars vegar vegna þess að hluti af gleri sem sett hafi verið upp hafi verið of stór. Því fylgi aukin hætta á að gler brotni og endist því skemur en gler af réttri stærð. Hins vegar er krafist bóta vegna þess að gagnstefnandi hafi ekki fengið afhent ábyrgðarskírteini vegna glers. Við aðalmeðferð málsins gerði gagnstefnandi grein fyrir því að í kröfu hans fælist krafa um að bætur yrðu dæmdar að álitum að öðrum kosti sýknað að svo stöddu.

                Af minnisblöðum sem fyrir liggja í málinu, m.a. þeim sem fylgdu úttekt verkfræðistofunnar Eflu frá 28. júní 2010 má ráða að aðilar hafi á fyrri stigum málsins rætt um vandamál sem tengjast of stóru gleri. Ekki virðist ágreiningur um það að í einhverja glugga hússins hafi verið sett gler sem var stærra en viðmið þau sem framleiðandi gluggakerfisins gefur upp. Hins vegar virðast aðilar máls ekki sammála um afleiðingar þessa, þ.e. hvort glerið geti engu að síður talist ógallað. Þá liggur heldur ekki fyrir hve mörg gler er um að ræða né heldur hver kostnaður er af útbótum á því. Ekki verður af gögnum ráðið hvort nauðsynlegt sé að skipta út umræddu gleri eða hvort aðrar og einfaldari ráðstafanir geti talist fullnægjandi. Þá liggur ekkert fyrir í málinu um það hvort gagnstefnandi hafi verið krafinn um úrbætur vegna þessa af hálfu eiganda hússins. Það er álit dómsins að þótt fallast megi á það með gagnstefnanda að einhver hluti glers kunni að vera gallaður sökum þess að það er af rangri stærð, þá hafi hann hvorki fært fram sönnur á að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna þessa né hvert umfang þess tjóns er. Því eru ekki forsendur til að dæma honum skaðabætur vegna þessa liðar, hvorki að álitum né miðað við ákveðið umfang tjóns. Þá hafa engin gögn verið lögð fyrir dóminn sem sýna fram á að gagnstefnanda hafi ekki verið mögulegt að leggja fram frekari sönnunargögn fyrir kröfu sinni á þeim tíma sem hún var sett fram. Er því heldur ekki tilefni til að sýkna að svo stöddu svo sem gagnstefnandi byggði á við aðalmeðferð málsins.

                Síðari liður skaðabótakröfu gagnstefnanda lýtur að bótum vegna þess að aðalstefnandi hafi ekki lagt fram ábyrgðaryfirlýsingu á gleri frá framleiðanda þess svo sem honum bar að gera samkvæmt samningi aðila. Gerð er krafa um þriggja milljón króna bætur vegna vöntunar á þessari ábyrgðaryfirlýsingu. Krafan er ekki studd gögnum um að gagnstefnandi hafi orðið fyrir tjóni eða rökstutt nánar hvernig fjárhæð kröfunnar er fundin út. Hins vegar er ekki er  ágreiningur milli aðila um skyldu aðalstefnanda til að leggja fram umrædda ábyrgðaryfirlýsingu og við aðalmeðferð kvað aðalstefnandi að sú yfirlýsing yrði lögð fram um leið og uppgjör verksins hefði farið fram. Fallast ber á það með aðalstefnanda að sú skylda hans til að afhenda ábyrgðaryfirlýsingu verði ekki virk fyrr en viðskiptum aðila lýkur og greiðslur hafi verið inntar af hendi. Þegar af þeirri ástæðu að skylda aðalsstefnanda til að leggja fram ábyrgðaryfirlýsingu er ekki orðin virk verður kröfu um bætur vegna vanefnda á þeirri skyldu hafnað á þessu stigi máls.

                Samkvæmt ofangreindu er niðurstaða dómsins sú að hafna beri öllum kröfum gagnstefnanda um greiðslu skaðabóta vegna galla.

                Gagnstefnandi gerir kröfu um greiðslu tafabóta úr hendi aðalstefnanda að fjárhæð 19.550.000 kr. Byggir hann kröfu sína á því að aðalstefnandi hafi ekki skilað neinum verkþætti á umsömdum afhendingardögum en í fylgiskjali 1 með samningi aðila séu skiladagar ákveðnir og í samningnum sjálfum sé kveðið á um tafabætur að fjárhæð 100.000 kr. á dag vegna hvers dags eftir 31. júlí 2009 vegna afhendingardráttar þakglugga og 50.000 kr. á dag vegna afhendingadráttar á öðrum verkliðum miðað við tilgreinda afhendingardaga. Krafa gagnstefnanda um tafabætur styðjist að auki við grein I 0.5.4 í 1. hluta útboðs- og samningsskilmála, sem fjalli um fresti og tafabætur.

                Gagnstefnandi krefst tafabóta vegna þriggja verkliða og kveðst einskorða kröfu sína við þessa þrjá liði vegna þess að þeir hafi haft afgerandi áhrif á heildarframvindu verksins og tafir á þeim hafi leitt til kostnaðar og tjóns fyrir gagnstefnanda og valdið töfum á vinnu annarra verktaka. Nánar sundurliðar gagnstefnandi kröfu sína þannig að hann krefst tafabóta vegna tafa á afhendingu þakglugga í 45 daga á tímabilinu 31. júlí 2009 til 14. september sama ár, samtals að fjárhæð 4.500.000 kr. (100.000 kr. pr/dag*45). Þá krefst hann bóta vegna verkþáttar sem kallaður er „Garður 6“ (útigarður við byggingu 6) í 149 daga á tímabilinu 15. september 2009 til 11. febrúar 2010, samtals að fjárhæð 7.450.000 kr. (50.000 kr. pr/dag *149). Loks krefst gagnstefnandi bóta vegna tafa á afhendingu hurða, lausra faga og annars í 152 daga á tímabilinu frá 15. október 2009 vegna hluta þessara verka og frá 30. október 2009 vegna annarra hluta til 31. mars 2010, samtals að fjárhæð 7.600.000 krónur (50.000 kr. pr/dag *152).

                Aðalstefnandi krefst sýknu af kröfu um greiðslu tafabóta eða til vara lækkunar krafna og mótmælir sérstaklega útreikningi þeirra. Byggir hann á því að tafir á verkinu megi rekja til ástæðna sem gagnstefnandi sjálfur beri ábyrgð á, m.a. seinkunar á verkinu vegna ófullnægjandi hönnunar og annars undirbúnings framkvæmda, og því veiti ákvæði 16. töluliðar viðaukasamnings aðila honum ekki rétt til tafabóta. Jafnvel þótt einhverjar tafir hafi orðið á tilteknum tíma hafi þær ekki tafið heildarverkið og geti ekki orðið grundvöllur tafabóta, óháð öðrum skilyrðum. Þá hafi gagnstefnandi vanefnt aðalskyldu sína samkvæmt viðaukasamningnum um greiðslu á réttum framvindureikningum aðalstefnanda. Ætluð skylda aðalstefnanda til afhendingar hafi því fallið niður á meðan gagnstefnandi hafi staðið í vanskilum. Þrátt fyrir það hafi aðalstefnandi afhent gagnstefnanda allt efni og á hann því enga kröfu á hendur aðalstefnanda um greiðslu tafabóta.

                Engar tilkynningar hafi borist frá gagnstefnanda um að einstök afgreiðsla eða fleiri afgreiðslur af hans hálfu hafi tafið heildarverkið, ef frá er talin afhending smáhluta, s.s. kítti og dúkur sem ágreiningur er um hver ætti að útvega. Á öllu afhendingarferlinu frá því í mars 2009 hafi aðalstefnandi aldrei verið boðaður á verkfundi né hafi neinar tilkynningar verið sendar honum um seinkanir af hendi gagnstefnanda, aðalverktakans, eins og ákveðið hafi verið þegar 1. áfanga var seinkað um hálft ár. Það sé allavega ekki gluggaafhendingum frá mars 2009 um að kenna. Ástæðan hafi einfaldlega verið sú að uppsteypa var langt á eftir áætlun. Allt þetta megi sjá á framvinduskýrslum gagnstefnanda þegar þær séu bornar saman við áætlanir. Skorað hafi verið á gagnstefnanda að leggja öll slík gögn fram. Alvarleg handvömm hafi komið í ljós við hönnun og ósamræmis gæti milli kjallara og jarðhæðar. Því sé algerlega mótmælt að gagnstefnandi geti vegna þessa sótt tafabætur til aðalstefnanda

                Þá byggir aðalstefnandi á því að hvert viðbótar- og aukaverk aðalstefnanda og kröfur gagnstefnanda um breytta verktilhögun veiti honum rétt til lengri afhendingartíma frá því sem upphaflega var samið um. Gagnstefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir því, að allar óafhentar einingar hefðu komið honum að notum frá og með umsömdum skiladögum. Enn fremur byggir aðalstefnandi sýknukröfu sína á því að honum hafi verið ókleift af ástæðum sem ekki séu honum að kenna að standa við upphaflegar tímaáætlanir. Annars vegar sé þær ástæður að rekja til atvika sem gagnstefnandi beri ábyrgð á. Hann hafi látið aðalstefnanda í té ófullnægjandi útboðsgögn, hafi ekki svarað fyrirspurnum hans eða veitt honum svör of seint og með ófullkomnum hætti og síðan beri hann ábyrgð á töfum vegna þess að hafa ekki greitt gagnstefnanda framvindureikninga þegar þeir hafi fallið í gjalddaga. Hins vegar byggir aðalstefnandi á almennum reglum um forsendubrest eða 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Er þar vísað til þess að meginástæðan þess að heildarverkið hafi tafist hafi verið fall íslensku viðskiptabankanna haustið 2008 og setning neyðarlaganna svokölluðu, laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Þá sé enn fremur á því byggt að í kjölfar hruns viðskiptabankanna hafi það reynst aðalstefnanda erfitt að fjármagna innkaup aðfanga erlendis frá. Hann hafi orðið að greiða allar vörur fyrir fram og hafi því átt í vandræðum með innkaupin eftir að gagnstefnandi hafi byrjað að vanefna greiðslur reikninga. Afleiðingar þessa ástands hafi einnig haft áhrif á þann verkþátt sem snúi að Formaco ehf., sem hafi leitt til þess að ekki var unnt að leggja fram bankaábyrgðir til erlendra framleiðenda, gera hafi þurft minni og fleiri pantanir og staðgreiða öll efniskaup erlendis frá. Loks byggir aðalstefnandi á því að krafa gagnstefnanda um tafabætur sé fallin niður vegna stórkostlegs tómlætis með því að halda henni ekki fram á fyrri stigum málsins en krafa þessi hafi fyrst komið fram í gagnstefnu þessa máls.

Svo sem að framan er rakið mótmælir aðalstefnandi því ekki að tafir hafi orðið á afhendingu þeirra verkþátta sem gagnstefnandi krefst tafabóta fyrir og að tímabil tafanna hafi verið það sem gagnstefnandi heldur fram. Varnir hans lúta hins vegar að því að tafirnar stafi af orsökum sem hann beri ekki ábyrgð á svo sem að framan er rakið.

Ákvæði samnings aðila um tafabætur eru skýrar. Þar er kveðið á um að komi til afhendingadráttar, miðað við þá afhendingardaga sem skilgreindir eru í fylgiskjali 1 með samningnum, reiknist sérstakar tafabætur. Fjárhæð tafabóta samkvæmt ákvæðinu er 50.000 kr. á dag fyrir önnur verk en afhendingu þakglugga sem átti að afhenda 31. júlí 2009, en varðandi þann verklið eru tafabætur ákveðnar 100.000 kr. á dag. Þá er fjallað um tafabætur í 24. gr. ÍST 30 samningsskilmálanna. Þar er kveðið á um það í grein 24.5.1 að tafabætur séu áætlaðar miðað við hugsanlegt tjón og verkkaupi þurfi ekki að sanna raunverulegt tjón vegna tafa en í grein 24.5 segir að verkkaupi geti ekki krafist annarra bóta vegna seinkunar á verki en tafabóta ef um þær hafi verið samið.

Fyrir liggur að heildarverkið sem gagnstefnandi stýrði tafðist um nokkurn tíma. Þá hefur aðalstefnandi lagt fram gögn sem sýna að tafir á verki hans má a.m.k. að hluta til rekja til atriða sem gagnstefnandi ber ábyrgð á. Meðal gagna málsins sem styðja þessa fullyrðingu aðalstefnanda er minnisblað frá honum í lok mars 2009 þar sem fram kemur að vinna við hurðir, sem ekki er tíundað nánar hvenær beri að skila, muni tefjast þar sem ekki hafi verið endanlega ákveðið hvernig frágangi þeirra eigi að vera háttað. Þá er í minnisblaði hans frá 25. júní sama ár, m.a. fjallað um tafir á framleiðslu glugga vegna þess að endanleg hönnunargögn liggi ekki fyrir. Þessi gögn ásamt fleirum veita vísbendingar um að aðalstefnandi hafi haft tilefni til að krefjast framlenginga á skiladögum á grundvelli greinar 24.2 í ÍST 30. Aðalstefnandi hefur á hinn bóginn ekki sýnt fram á að hann hafi sent gagnstefnanda rökstudda tilkynningu þar að lútandi og tilgreint hve langan frest hann þurfi til að skila einstökum verkhlutum svo sem áskilið er  í grein 24.3. í ÍST 30. Því getur hann ekki borið fyrir sig að honum hafi bótalaust verið heimilt að skila verki eftir umsamda skiladaga á þeirri forsendu að tafir megi rekja til gagnstefnanda.

Þá heldur aðalstefnandi því fram að vanefnd gagnstefnanda á þeirri höfuðskyldu sinni að greiða reikninga á gjalddaga hafi veitt honum rétt til að halda að sér höndum og geti ekki leitt til bótagreiðslu af hans hálfu vegna tafa eftir að gagnstefnandi var komin í vanskil. Á minnisblaði frá 1. júlí 2009 tilkynnti aðalstefnandi gagnstefnanda að hann myndi ekki afgreiða vöru frá verksmiðju fyrr en ógreiddir reikningar yrðu greiddir. Í orðsendingu 9. september sama ár lýsir aðalstefnandi því aftur yfir að hann telji að gagnstefnandi beri ábyrgð á töfum á verkinu þar sem þær megi rekja til erfiðleika sem leiði af því að gagnstefnandi hafi ekki greitt gjaldfallna reikninga. Samkvæmt ákvæðum samnings aðila skyldi aðalstefnandi gefa út framvindureikninga mánaðarlega og gera sérstaka reikninga um viðbótar- og aukaverk. Samkvæmt samningi aðila skyldi gagnstefnandi greiða framvindureikninga í lok næsta mánaðar eftir útgáfu þeirra, sbr. 2. mgr. 7. .gr. upphaflega undirverktakasamningsins. Óumdeilt er að gagnstefnandi vanefndi þessa samningsskyldu sína. Ógreiddir framvindureikningar nema rúmlega 20 milljónum króna samtals og gagnstefnandi hefur ekki andmælt greiðsluskyldu vegna þeirra. Þá hefur hann jafnframt viðurkennt greiðsluskyldu á ýmsum reikningum fyrir viðbótar- og aukaverk. Elsti ógreiddi framvindureikningurinn er reikningur nr. 29, dagsettur 31. ágúst 2009 með gjalddaga 30. september s.á. Það er mat dómsins að gagnstefnandi geti ekki með réttu hætt að greiða fyrir framvindu verksins og á sama tíma krafist tafabóta vegna tafa á framvindu þess. Vanefndir hans á greiðslum girða þannig fyrir réttmæti kröfu hans um gagngjald sem honum hefði að öðrum kosti borið. Með þessum rökstuðningi verður krafa gagnstefnanda um tafabætur ekki tekin til greina eftir það tímamark þegar vanefndir hans á greiðslu framvindureikninga hefst, sem er svo sem að framan er getið 30. september 2009.

Þá heldur aðalstefnandi því fram að hvað sem líði upphaflegum rétti gagnstefnanda til greiðslu tafabóta sé sá réttur hans fallinn niður sakir tómlætis þar sem krafa um greiðslu tafabóta hafi fyrst komið fram í gagnstefnu. Líkt og rík skylda er lögð á verktaka að gera skilmerkilega grein fyrir kröfu um framlengingu verktíma, telji hann forsendur þess vera fyrir hendi, ber verkkaupa að tilkynna verktaka tímanlega ef hann hyggst hafa uppi kröfu um greiðslu bóta vegna tafa. Að jafnaði skal hafa uppi slíka kröfu í síðasta lagi áður eða við úttekt verksins. Fyrir liggur að lokaúttekt fór fram 28. júní 2010. Gagnstefnandi mótmælir því að um tómlæti sé að ræða af hans hálfu og bendir á fundargerð frá 7. apríl sama ár þar sem fram kemur að verkinu, sem þá er enn ólokið, hafi átt að vera lokið í október árið á undan, þessar tafir hafi valdið gagnstefnanda verulegu tjóni og hann áskildi sér allan rétt varðandi tjón vegna þeirra tafa. Þá bendir gagnstefnandi einnig á bréf frá lögmanni sínum til aðalstefnanda frá 23. ágúst 2010 þar sem rakið er það sjónarmið gagnstefnanda að hann telji aðalstefnanda bera ábyrgð á mörgu því sem tafið hafi verið. Í bréfinu er gerð krafa um að aðalstefnandi ljúki við sinn verkhluta og jafnframt er sett fram krafa um tafabætur í samræmi við ákvæði samnings aðila. Með vísan til þeirra gagna sem að framan eru rakin, og fleiri gagna sem varpa ljósi á ágreining aðila um gæði verks aðalstefnanda og orsakir tafa á ýmsum stigum, er það álit dómsins að gagnstefnandi hafi gert aðalstefnanda ljóst með nægilega skýrum hætti að hann myndi halda uppi kröfu um tafabætur á grundvelli samnings aðila. Gagnstefnandi hafði því ekki gefið aðalstefnanda vonir um að hann hefði fallið frá þessari kröfu sinni.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið um sjónarmið sem lúta að réttmæti kröfu gagnstefnanda til tafabóta er það niðurstaða dómsins að gagnstefnandi eigi rétt til tafabóta á grundvelli ákvæðis í samningi aðila þar að lútandi, enda ekki um það deilt að afhending verksins dróst og hefur aðalstefnandi ekki mótmælt því að afhending hafi farið fram á þeim dögum sem gagnstefnandi heldur fram. Þá leiða reglur um réttaráhrif tómlætis ekki til þess að þessi réttur hans sé fallinn niður. Hins vegar hefur vanefnd gagnstefnanda á greiðsluskyldu sinni hvað varðar framvindureikninga þær afleiðingar að hann getur ekki krafist tafabóta fyrir það tímabil þegar hann sannanlega vanefndi greiðslur og óumdeilt er að elsti ógreiddi framvindureikningurinn er frá 30. september 2009. Niðurstaða dómsins er því sú að taka beri til greina kröfur gagnstefnanda um greiðslu tafabóta fyrir tímabilið fram til 30. september 2009 sem er gjalddagi framangreinds reiknings. Viðurkenndar verða því tafabætur vegna afhendingar á þakglugga samtals í 45 daga frá 31. júlí til 14. september 2009, 100.000 kr. fyrir hvern dag í samræmi við ákvæði samnings aðila, samtals að fjárhæð 4.500.000 kr. Þá á gagnstefnandi jafnframt rétt á tafabótum vegna verkliðar sem kallaður er „Garður 6“ frá 15. september 2009 til 30. sama mánaðar, 50.000 kr. á dag í 15 daga, samtals 750.000 kr. Tafabótum vegna tímabilsins eftir það tímamark er hafnað. Fallist er því á að gagnstefnandi eigi rétt til tafabóta að fjárhæð 5.250.000 kr. Ekki er fallist á það sjónarmið aðalstefnanda varðandi útreikning tafabóta að ekki beri að leggja saman bætur vegna tafa á einstökum verkliðum svo sem kröfugerð gagnstefnanda byggir á.

----------------------------------------

Samkvæmt öllu því sem að framan er rakið er það niðurstaða dómsins að ógreiddir reikningar vegna viðbótar- og aukaverka sem gagnstefnanda ber að greiða aðalstefnanda nemi 24.812.398 kr. Auk þess ber gagnstefnanda að greiða ógreidda framvindureikningar að fjárhæð 20.532.201 kr., og hefur þá verið tekið tillit til ótilgreindra innborgana sem inntar voru af hendi 5. og 8. febrúar 2010, samtals að fjárhæð 7.000.000 kr. Gagnstefnandi verður því dæmdur til að greiða aðalstefnanda 45.344.599 kr. með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 miðað við gjalddaga hvers reiknings sbr. 1. mgr. 5. gr. sömu laga, eins og nánar greinir í dómsorði.

Til frádráttar ofangreindri greiðslu koma kröfur gagnstefnanda í gagnsök sem dómurinn hefur fallist á. Er þar annars vegar um að ræða kröfur um greiðslu kostnaðar að fjárhæð 4.400.591 kr. en það er samtala krafna samkvæmt kröfuliðum 6, 8, 17 og 21. Ekki verður séð af gögnum málsins að gagnstefnandi hafi gert aðalstefnanda reikning vegna ofangreindra kröfuliða eða með öðrum hætti krafist greiðslu fyrr en í máli þessu. Því er ekki efni til að taka til greina kröfu hans um greiðslu dráttarvaxta eða skuldajöfnuð frá fyrra tímamarki heldur en við þingfestingu gagnsakar í þessu máli. Hins vegar er greiðsla tafabóta að fjárhæð 5.250.000 kr. sem kemur til skuldajafnaðar frá þeim tíma sem krafist er. Samtals nema viðurkenndar fjárkröfur í gagnsök því 9.650.591 kr. sem gagnstefnanda er heimilt að skuldajafna á móti kröfu aðalstefnanda miðað við þingfestingardag gagnsakar.

                Málsaðilar gera báðir kröfu um greiðslu málskostnaðar og hafa lagt fram reikninga ásamt tímaskýrslum. Á grundvelli 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og í ljósi þess að aðalstefnandi vinnur málið að mestu verður gagnstefnanda gert að greiða málskostnað aðalstefnanda. Málskostnaðarreikningur lögmanns aðalstefnanda byggir á framlögðum tímaskýrslum. Þá krefst hann greiðslu málskostnaðar vegna vinnu vitnisins Sigurðar Hreinssonar, fyrrum starfsmann aðalstefnanda, auk ferðakostnaðar hans vegna skýrslutöku við aðalmeðferð. Við ákvörðun um fjárhæð málskostnaðar, er höfð hliðsjón af framlagðri tímaskýrslu og fallist er á það með aðalstefnanda að vinna vitnisins teljist til málskostnaðar á grundvelli g-liðar 129. gr. laga 91/1991. Á hinn bóginn er til þess að líta við ákvörðun um málskostnað að málareksturinn allur og umfang málsins er meira en málavextir með réttu gefa tilefni til. Ýtrustu kröfum er haldið uppi með umfangsmikilli gagnaöflun sem ekki verður í öllum tilvikum séð að hafi þýðingu í málinu. Telja verður að báðir aðilar máls beri ábyrgð á umfangi þess. Með hliðsjón af framansögðu telst hæfilegur málskostnaður því vera 4.600.000 kr.

                Dóm þennan kveður upp Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari ásamt meðdómsmönnunum Ásmundi Ingvarssyni byggingaverkfræðingi og Jóni Ágústi Péturssyni byggingatæknifræðingi.

D ó m s o r ð

Gagnstefnandi skal greiða aðalstefnanda 45.344.599 kr. með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 sbr. 1. mgr. 5. gr. sömu laga, af 1.241.027 kr. frá 31. júlí 2009 til 30. september 2009, af 5.745.282 kr. frá þeim degi til 30. nóvember 2009, af 6.780.382 kr. frá þeim degi til 31. desember 2009, af 12.310.016 kr. frá þeim degi til 31. janúar 2010, af 27.633.273 kr. frá þeim degi til 5. febrúar 2010, af 22.162.393 kr. frá þeim degi til 8. febrúar 2010, af 20.633.273 kr. frá þeim degi til 31. mars 2010, af 35.681.878 kr. frá þeim degi til 30. apríl 2010, af 43.032.922 kr. frá þeim degi til 31. maí 2010 og af 45.344.599 kr. frá þeim degi til greiðsludags.

Til frádráttar framangreindri kröfu er gagnstefnanda heimilt að skuldajafna 9.650.591 kr. miðað við þingfestingardag gagnsakar.

Gagnstefnandi skal greiða aðalstefnanda 4.600.000 kr. í málskostnað.