Hæstiréttur íslands

Mál nr. 239/2003


Lykilorð

  • Laun
  • Stjórnsýsla
  • Kjarasamningur


Fimmtudaginn 5

 

Fimmtudaginn 5. febrúar 2004.

Nr. 239/2003.

Akraneskaupstaður og

(Þórunn Guðmundsdóttir hrl.)

námsleyfasjóður grunnskólakennara

(Kristinn Hallgrímsson hrl.)

gegn

Hafdísi Fjólu Ásgeirsdóttur

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

 

Laun. Stjórnsýsla. Kjarasamningur.

Grunnskólakennarinn H krafðist þess að laun, sem hún hafði þegið meðan á námsleyfi hennar stóð, yrðu greidd samkvæmt hærri launaflokki en gert var. Beindi H kröfum sínum óskipt að A og n. A var sýknaður vegna aðildarskorts. Hvorki var talið að lög né kjarasamningar kvæðu á um hvaða laun skyldi greiða kennurum í námsleyfi. Í ljósi þess hlutverks sem n er falið með 25. gr. laga nr. 66/1995 var það talið á verksviði n að setja slíkar reglur að gættum almennum stjórnsýslureglum. Talið var að á grundvelli fyrri framkvæmdar og reglna um n, sem giltu á þeim tíma sem H var veitt námsleyfið og þegar hún hóf töku þess, hafi H getað haft réttmætar væntingar um að njóta fullra launa í námsleyfinu. Stjórn n hafi ekki verið heimilt að láta nýjar reglur um laun í námsleyfum taka gildi varðandi H eftir að hún hafði hafið töku námsleyfis síns. Því hafi H átt rétt á að njóta í námsleyfinu fastra launa er starfinu fylgdu eins og verið hafði í eldri framkvæmd. Var n dæmdur til að greiða H umkrafða fjárhæð.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Akraneskaupstaður skaut málinu til Hæstaréttar 19. júní 2003 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Námsleyfasjóður grunnskólakennara áfrýjaði málinu fyrir sitt leyti 19. júní 2003 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og að áfrýjendur verði dæmdir til að greiða henni óskipt  málskostnað fyrir Hæstarétti.

I.

Stefnda er grunnskólakennari við Grundaskóla á Akranesi. Stefnda sótti um námsleyfi 30. september 2000. Var umsókninni beint til Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem samkvæmt 25. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla, annast skrifstofuhald fyrir áfrýjandann námsleyfasjóð. Laut umsóknin að námsleyfi í 12 mánuði „tímabilið“ 2001 til 2002. Á umsóknareyðublaðinu voru reitir fyrir launaflokk og launaþrep, sem stefnda fyllti út. Stjórn áfrýjandans námsleyfasjóðs svaraði erindinu 27. nóvember sama árs og samþykkti að veita stefndu umbeðið námsleyfi skólaárið 2001 til 2002. Var þar meðal annars tekið fram að staðfesting viðkomandi skóla og frekari gögn um námið þyrftu að hafa borist fyrir 1. mars 2001. Ekki var í svarinu vikið að launakjörum stefndu í námsleyfinu.

 Þann 9. janúar 2001 var undirritaður nýr kjarasamningur milli launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands fyrir grunnskóla. Í samningnum fólust róttækar kerfisbreytingar á launum kennara, sem taka skyldu gildi 1. ágúst 2001, en fyrri kjarasamningur var framlengdur til þess tíma með tilteknum breytingum.

 Stefnda hóf námsleyfi sitt 1. ágúst 2001. Voru henni þann dag greidd „laun í námsleyfi“ fyrir ágústmánuð miðað við launaflokk 236.5 í nýja kjarasamningnum. Launin voru innt af hendi af áfrýjandanum Akraneskaupstað á launaseðli merktum kaupstaðnum. Var sami háttur hafður á um greiðslu launa til stefndu í upphafi hvers mánaðar í námsleyfinu til og með greiðslu vegna marsmánaðar 2002, að öðru leyti en því að eftir ágústmánuð 2001 voru námsleyfislaunin miðuð við launaflokk 235.5.

Stjórn áfrýjandans námsleyfasjóðs kom saman til fundar 14. ágúst 2001 og tók samhljóða ákvörðun um laun kennara og skólastjóra í námsleyfi skólaárið 2001 til 2002. Í henni kom meðal annars fram að allir kennarar í námsleyfi skyldu fá grunnlaun samkvæmt launaflokki 232 í nýgerðum kjarasamningi. Við þennan launaflokk skyldu þó bætast launaflokkar annars vegar vegna menntunar og leyfisbréfs en hins vegar vegna símenntunar og var um þessa flokka vísað til tiltekinna greina  kjarasamningsins. Var námsleyfisþegum og „launagreiðendum þeirra“, þar á meðal stefndu og áfrýjandanum Akraneskaupstað, tilkynnt þessi ákvörðun með bréfi daginn eftir.

Með bréfi 29. ágúst 2001 mótmælti Kennarasamband Íslands framangreindri ákvörðun námsleyfasjóðs og krafðist þess að kennarar og skólastjórar nytu sömu launa í námsleyfi og þeir væru með í starfi. Með bréfi 10. október sama árs fór Félag grunnskólakennara þess á leit við námsleyfasjóð að þeim félagsmönnum, sem í orlofi væru skólaárið 2001 til 2002 yrðu til viðbótar fyrri ákvörðun greiddir tveir launaflokkar úr svonefndum skólastjórapotti samkvæmt grein 1.3.2 í kjarasamningnum. Áfrýjandinn námsleyfasjóður hafnaði erindi síðarnefnda félagsins 7. nóvember 2001 með vísan til fyrrnefndrar bókunar á stjórnarfundinum 14. ágúst. Félag grunnskólakennara mun hafa gert sams konar kröfu um hækkun launa í námsleyfi á hendur áfrýjandanum Akraneskaupstað með bréfi 9. janúar 2002. Því hafnaði Akraneskaupstaður 5. febrúar 2002 með vísan til þess að kaupstaðurinn greiddi þessi laun í umboði áfrýjandans námsleyfasjóðs og hefði ekki vald til að ákveða kjör kennara í námsleyfi.

 Í máli þessu gerir stefnda kröfu til þess að áfrýjendum verði óskipt gert að greiða sér laun í námsleyfi samkvæmt launaflokki 238.5 í margnefndum kjarasamningi á tímabilinu ágúst 2001 til mars 2002. Tekur fjárkrafa hennar mið af mun á þessum launaflokki og þeim launaflokkum, sem hún samkvæmt framansögðu fékk greitt eftir á meðan á námsleyfinu stóð. Ekki er tölulegur ágreiningur um þá kröfu.

II.

Í 25. gr. laga nr. 66/1995, sbr. 1. gr. laga nr. 1/1997, er kveðið á um að sveitarstjórnir greiði upphæð er svari til 1,3% dagvinnulauna kennara og skólastjóra í sérstakan sjóð. Úr sjóði þessum skulu greidd laun kennara og skólastjóra vegna námsleyfa allt að einu ári. Stjórn sjóðsins er skipuð fimm mönnum, tveimur tilnefndum af heildarsamtökum kennara á skyldunámsstigi og þremur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Skal stjórnin meta umsóknir um framlög úr sjóðnum og ákveða árlega úthlutun, sem lokið skal fyrir 1. desember ár hvert. Þá skal stjórn sjóðsins setja sér starfsreglur og birta þær.

 Þrátt fyrir skýrt lagaákvæði um að laun kennara í námsleyfum skuli greidd úr sjóðnum hefur framkvæmdin verið sú að einstök sveitarfélög hafa annast greiðslu námsleyfislaunanna, en fengið útgjöldin endurgreidd frá námsleyfasjóði á þriggja mánaða fresti. Var sá háttur hafður á um greiðslu námsleyfislauna stefndu. Ekki liggja í málinu fyrir neinir formlegir samningar milli áfrýjandans námsleyfasjóðs og einstakra sveitarfélaga varðandi þetta fyrirkomulag. Stefnda heldur því fram að þessi framkvæmd hafi helgast af því að áfrýjandinn námsleyfasjóður hafi ekki átt aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og kennarar í námsleyfi hafi því ekki getað áunnið sér lífeyrisrétt í þeim sjóði, að minnsta kosti ekki í B-deild hans, ef námsleyfasjóðurinn væri launagreiðandi. Áfrýjandinn námsleyfasjóður tekur undir að aðgangur að þessum lífeyrissjóði kunni að vera ein ástæða fyrir framkvæmdinni, sem hafi að þessu leyti verið ákveðin kennurum til hagsbóta, en á hinn bóginn hafi þessi háttur á afgreiðslu launanna horft til einföldunar í framkvæmd.

Samkvæmt framansögðu er skýrlega kveðið á um það í 25. gr. laga nr. 66/1995 að laun í námsleyfi kennara skuli greidd úr námsleyfasjóði. Ljóst er og að allur kostnaður vegna greiðslu launa í námsleyfum er borinn af sjóðnum. Einnig er ljóst samkvæmt sama ákvæði að allar ákvarðanir, er tengjast því hvort einstökum kennara er veitt námsleyfi og hversu lengi, eru teknar af áfrýjandanum námsleyfasjóði án nokkurrar þátttöku viðkomandi sveitarfélags. Sjóðurinn setur sér einnig starfsreglur, sem um leið eru almennar reglur varðandi námsleyfin. Þá hafa ákvarðanir um greiðslu námsleyfislauna verið teknar af stjórn námsleyfasjóðs, þar á meðal sú ákvörðun, sem um er deilt í máli þessu. Þegar þetta er allt virt, sem og það að stefnda var ekki við störf hjá áfrýjandanum Akraneskaupstað meðan á námsleyfi hennar stóð, verður að telja að kröfum vegna launa í námsleyfi verði réttilega beint að áfrýjandanum námsleyfasjóði en sýkna beri áfrýjandann Akraneskaupstað vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Breytir engu í þeim efnum þótt Akraneskaupstaður hafi samkvæmt framansögðu í framkvæmd annast greiðslu námslaunanna til stefndu í umboði námsleyfasjóðs og þar með sinnt öllum þeim skyldum, sem því fylgdu, svo sem greiðslu í lífeyrissjóð og til stéttarfélags enda voru þau útgjöld endurgreidd af hálfu áfrýjandans námsleyfasjóðs með sama hætti og námsleyfislaunin. Það fær heldur ekki breytt þessari niðurstöðu þótt þessi framkvæmd kunni að hafa skapað stefndu réttindi, er tengd eru starfsaldri, umfram það sem ella hefði orðið.

 Rétt er að stefnda og áfrýjandinn Akraneskaupstaður beri hvor sinn kostnað af rekstri málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.

III.

Í 40. gr. laga nr. 63/1974 um grunnskóla voru ákvæði um námsleyfi kennara. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar gat menntamálaráðuneytið veitt kennara orlof allt að einu ári með föstum embættislaunum, ef það mat umsókn hans fullnægjandi. Í lögum nr. 49/1991 um grunnskóla, sem leystu fyrrgreind lög af hólmi, voru hliðstæð ákvæði í 42. gr., en þar var í 1. mgr. einnig kveðið á um að veita mætti kennara námsleyfi á föstum launum í allt að eitt ár. Er ágreiningslaust að í gildistíð þessara laga var framkvæmd ríkisins á launagreiðslum í námsleyfum kennara þannig að þeir nutu þeirra föstu launa, er starfi þeirra fylgdu.

 Með lögum nr. 66/1995, sem leystu af hólmi lög nr. 49/1991, var rekstur grunnskóla fluttur frá ríki til sveitarfélaga. Ákvæði um námsleyfi kennara er í 25. gr. þeirra, en þar er, eins og að framan er rakið, kveðið á um að úr námsleyfasjóði skuli kennurum greidd laun. Hér er ekki kveðið á um að greiða skuli föst laun andstætt því sem gert var í eldri ákvæðum. Í athugasemdum með greininni í frumvarpi til grunnskólalaga var tekið fram að ákvæðum greinarinnar væri „ætlað að viðhalda sams konar möguleikum kennara og skólastjóra til námsleyfa og gilt hafa skv. 42. gr. gildandi grunnskólalaga.“ Þá var gildistaka laganna meðal annars háð því skilyrði samkvæmt b. lið 57. gr. þeirra að Alþingi hefði samþykkt lög um ráðningarréttindi kennara, sem tryggi þeim efnislega óbreytt ráðningarréttindi hjá nýjum vinnuveitanda.

 Stefnda heldur því fram að í ljósi eldri lagaákvæða og langrar hefðar um framkvæmd þeirra, sem og með hliðsjón af framangreindum ummælum um 25. gr.  í greinargerð og ákvæði 57. gr., verði að líta svo á lög standi því í vegi að laun kennara í námsleyfi verði ákveðin önnur en föst laun, er fylgja starfi þess kennara er námsleyfi fær. Eins og að framan er rakið er í núgildandi lögum ekki kveðið á um að greiða skuli kennurum í námsleyfi föst laun andstætt því sem áður var. Enda þótt ljóst sé af framangreindum ummælum í greinargerð með 25. gr. grunnskólalaganna að vilji hafi staðið til þess að lögin leiddu ekki til breytinga á möguleikum kennara til námsleyfa verður ekki talið að þau ummæli né önnur framangreind rök stefndu leiði til þess að skýra verði ákvæðið svo að lögbundið sé að námsleyfislaun kennara skuli samsvara föstum launum, er hann hefði haft í starfi.

Í framangreindum kjarasamningi Kennarasambands Íslands og launanefndar sveitarfélaga um grunnskóla eru engin efnisákvæði um laun kennara í námsleyfi og er áfrýjandinn námsleyfasjóður ekki aðili að samningnum. Í 10. kafla samningsins er fjallað um endurmenntun og eftirmenntun. Þar er í grein 10.1 varðandi framhaldsnám kennara vísað til ákvæða laga um grunnskóla og reglna áfrýjandans námsleyfasjóðs. Verður ekki talið að ákvæði kjarasamningsins standi því í vegi að laun kennara í námsleyfi verði ákveðin önnur en föst laun, er starfi hans fylgja. Þá verður heldur ekki séð að 24. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna eigi við um ákvörðun launa kennara í námsleyfum.

Samkvæmt framansögðu verður hvorki talið að lög né kjarasamningar kveði á um hvaða laun skuli greiða kennurum í námsleyfi. Verður að telja í ljósi þess hlutverks, sem áfrýjandanum námsleyfasjóði er falið með 25. gr. laga nr. 66/1995, að það sé á hans verksviði að setja slíkar reglur að gættum almennum stjórnsýslureglum.

 Aðila greinir ekki á um að frá gildistöku laga nr. 66/1995 fram til 1. ágúst 2001 voru laun kennara í námsleyfi miðuð við föst laun er starfinu fylgdu eins og verið hafði í gildistíð eldri grunnskólalaga. Það voru því þær reglur sem giltu í lok ársins 2000 þegar umsókn stefndu um námsleyfið var samþykkt. Samkvæmt 6. mgr. 25. gr. laga nr. 66/1995 skal stjórn áfrýjandans námsleyfasjóðs setja sér starfsreglur og birta þær. Meðal gagna málsins eru ódagsettar reglur um sjóðinn, sem ekki er ágreiningur um að gilt hafi á þeim tíma er stefndu var veitt námsleyfið og þegar hún hóf töku þess. Í þessum reglum eru ekki ákvæði um hver vera skuli laun kennara í námsleyfum. Af 4. gr. þeirra, sem fjallar um skilyrði fyrir veitingu námsleyfa, verður þó ekki betur séð en gengið sé út frá því að miðað skuli við föst laun í þeim efnum. Stefnda gat því þegar umsókn hennar var samþykkt síðla árs 2000, haft réttmætar væntingar um að njóta fullra launa í námsleyfinu. Eins og að framan er rakið voru í janúarmánuði 2001 undirritaðir nýir kjarasamningar, sem fólu í sér róttækar breytingar á launakerfi kennara. Þessar breytingar gáfu stjórn námsleyfasjóðs fullt tilefni til að taka nýjar ákvarðanir um launaviðmiðun í námsleyfum kennara á komandi skólaári. Það bar sjóðsstjórninni þó að gera án ástæðulauss dráttar í ljósi þess sem að framan er rakið. Þessa gætti sjóðstjórnin ekki heldur tók ákvörðun sína 14. ágúst 2001, tveimur vikum eftir að námsleyfi stefndu hófst, og því var reglunum ætlað að gilda með afturvirkum hætti gagnvart stefndu. Verður að telja að stjórn áfrýjandans námsleyfasjóðs hafi ekki verið heimilt með samþykkt í ágústmánuði 2001 að láta nýjar reglur um laun í námsleyfum taka gildi varðandi stefndu, sem þá hafði hafið töku námsleyfis síns. Átti hún því rétt á að njóta í námsleyfinu fastra launa er starfinu fylgdu eins og verið hafði í eldri framkvæmd.

 Með hinum nýja kjarasamningi voru, eins og að framan er rakið, gerðar miklar breytingar á launakerfi kennara. Var skólastjórum meðal annars falið vald til að ákveða kennurum  viðbótarlaunaflokka  úr svonefndum skólastjórapotti samkvæmt grein 1.3.2 og skyldi sú ákvörðun endurskoðuð árlega. Það var því engan veginn eins augljóst og verið hafði í gildistíð eldri kjarasamnings að ákveða hvaða laun stefnda hefði haft ef hún hefði ekki farið í námsleyfi, en eðli málsins samkvæmt tók  skólastjóri Grundaskóla ekki ákvörðun um úthlutun viðbótarlaunaflokka til stefndu skólaárið 2001 til 2002 þar sem hún var ekki í starfi. Af vottorði skólastjórans og framburði hennar fyrir héraðsdómi verður þó ráðið að stefnda hefði í starfi umrætt skólaár að minnsta kosti notið launa samkvæmt þeim launaflokki, sem hún miðar við í kröfugerð sinni og að framan er rakið. Verður krafa stefndu á hendur áfrýjandanum námsleyfasjóði grunnskólakennara því tekin til greina og sjóðurinn dæmdur til að greiða henni 128.731 krónu með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

Áfrýjandinn námsleyfasjóður grunnskólakennara greiði stefndu málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandinn Akraneskaupstaður skal vera sýkn af kröfu stefndu, Hafdísar Fjólu Ásgeirsdóttur. Málskostnaður milli þessara aðila fellur niður í héraði og fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandinn námsleyfasjóður grunnskólakennara greiði stefndu, Hafdísi Fjólu Ásgeirsdóttur, 128.731 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 11.212 krónum frá 1. ágúst 2001 til 1. september sama árs, af 27.787 krónum frá þeim degi til 1. október sama árs, af 44.362 krónum frá þeim degi til 1. nóvember sama árs, af 60.937 krónum frá þeim degi til 1. desember sama árs, af 77.512 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2002, af 94.585 krónum frá þeim degi til 1. febrúar sama árs, af 111.658 krónum frá þeim degi til 1. mars sama árs en af 128.731 krónu frá þeim degi til greiðsludags.

Áfrýjandinn námsleyfasjóður grunnskólakennara greiði stefndu samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 31. janúar 2003.

                Stefnandi þessa máls er Hafdís Fjóla Ásgeirsdóttir, kt. 300757-2279, Höfðabraut 5 Akranesi. Stefnt er Akraneskaupstað, kt. 410169-4449, Stillholti 16-18 Akranesi, og Námsleyfasjóði grunnskólakennara, kt. 491096-2929, Háaleitisbraut 11 Reykjavík.

                Upphaflega var stefnt Sambandi íslenskra sveitarfélaga, kt. 550269-4739, f.h. Námleyfasjóðs grunnskólakennara, en í þinghaldi við upphaf aðalmeðferðar létu lögmenn aðila bóka þetta: ,,Lögmenn lýsa yfir að þeir séu sammála um að Samband íslenskra sveitarfélaga eigi ekki aðild að málinu, heldur Námsleyfasjóður grunnskólakennara án milligöngu sambandsins."

                Málið var höfðað með framlagningu stefnu í dóm 15. október 2002. Það var tekið til dóms að lokinni aðalmeðferð 16. janúar 2003.

 

                Dómkröfur

Stefnandi krefst þess að stefndu verði in solidum dæmdir til þess að greiða stefnanda kr. 128.731. með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af kr. 11.212 frá 1. ágúst 2001 til 1. sept. s.á., en frá þeim degi af kr. 27.787 til 1. október s.á. en frá þeim degi af kr. 44.362 til 1. nóvember s.á., en frá þeim degi af kr. 60.937 til 1. desember s.á., en frá þeim degi af kr. 77.512 til 1. janúar 2002, en frá þeim degi af kr. 94.585 til 1. febrúar s.á., en frá þeim degi af kr. 111.658 til 1. mars 2002 en frá þeim degi af kr. 128.731 til greiðsludags.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði in solidum dæmdir til þess að greiða stefnanda málskostnað skv. gjaldskrá Löggarðs ehf.

                Stefndi Akraneskaupstaður krefst þess - að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda. Stefndi krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tilliti til skyldu stefnda til að greiða 24,5% virðisaukaskatt af þjónustu lögmanna.

                Stefndi Námsleyfasjóð grunnskólakennara krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda.  Þá krefst stefndi málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.

 

                 Málsatvikum er svo lýst í stefnu:

Stefnandi er lærður sem kennari með kennarapróf frá Kennaraháskóla Íslands 1981. Hún hefur starfað sem grunnskólakennari við Grundaskóla á Akranesi. Hún hefur öll árin starfað sem sérkennari og auk þess sinnt störfum fagstjóra 5 tíma í viku. Hún er félagsmaður í Félagi grunnskólakennara sem aftur á aðild að Kennarasambandi Íslands.

Árið 2000 sótti stefnandi um námsleyfi til stefnda Námsleyfasjóðs. Námsleyfasjóður segir stefnandi að sé rekin á grundvelli 25. gr. grunnskólalaga nr. 66/1995. Reglur um námsleyfi eigi upphaflega rót sína að rekja aftur til grunnskólalaga nr. 63/1974, en í 40. gr. þeirra laga hafi verið að finna ákvæði þess efnis að kennarar ættu þess kost að taka sér leyfi frá störfum til endurmenntunar. Samkvæmt ákvæðinu hafi verið heimilt að veita kennara orlof allt að einu ári á launum. Reglurnar hafi síðan verið teknar upp í grunnskólalögin nr. 49/1991, en í 42. gr. þeirra komi fram að menntamálaráðherra gæti veitt kennara námsleyfi á föstum launum í allt að eitt ár til þess að efla þekkingu sína og færni. Úthlutun námsleyfa hafi á þessum tíma verið á vegum nefndar sem skipuð var fulltrúum kennarasamtaka, skólastjóra og menntamálaráðuneytis. Þá segir í stefnu að samkvæmt svari forstöðumanns Launaskrifstofu ríkisins hafi kennarar notið samningsbundinna breytinga á kjörum meðan á námsleyfi frá störfum hjá ríkinu stóð. Ríkinu sem launagreiðanda á þessum tíma hafi verið tryggðar greiðslur á fjárlögum til þess að standa straum af námsleyfum þessum. Þannig hafi á þessum tíma ekki verið til neinn sérstakur námsleyfasjóður. 

Með lögum nr. 66/1995 um grunnskóla yfirtóku sveitarfélögin rekstur grunnskóla. Stefnandi vitnar til athugasemda með frumvarpi að lögunum, en þar segi  um 25. gr. laganna að ætlunin sé að viðhalda sams konar möguleikum kennara og skólastjóra til námsleyfa og gilt hefðu skv. 42. gr. gildandi grunnskólalaga (l. nr. 49/1991). Í því skyni því skyni hafi verið settur á stofn námsleyfasjóður.  Með lögum nr. 11/1997 hafi ákvæði 25. gr. grunnskólalaga nr. 66/1995 um námsleyfasjóð verið breytt þannig að í stað 1% framlags af dagvinnulaunum kennara og skólastjóra til sjóðsins skyldu sveitarfélög framvegis greiða 1.3% af dagvinnulaunum til sjóðsins.

Námsleyfasjóður starfar skv. reglum sem sjóðurinn hefur sjálfur sett sér. Stjórn sjóðsins er skipuð 5 mönnum þar af þremur tilnefndum af Sambandi ísl. sveitarfélaga og tveimur tilefndum af heildarsamtökum kennara á skyldunámsstigi. Stjórn sjóðsins metur umsóknir og velur styrkþega.  Stefnandi segir að stefndi Námsleyfasjóður hafi tilkynnt sveitarfélögum að styrkir hans til sveitarfélaga miðist við launaflokk umsjónarkennari 2 skv. kjarasamningi Launanefndar og Kennarasambands Íslands (K.Í.). Kennarar í námsleyfi fái laun greidd frá viðkomandi sveitarfélagi en það fái hins vegar styrk frá Námsleyfasjóði sem standa eigi straum af launagreiðslum þessum. Þannig hafi stefnandi fengið laun sín greidd frá Akraneskaupstað meðan hún var í námsleyfi. Greitt hafi verið af launum hennar í lífeyrissjóð og tekið félagsgjald af launum hennar til KÍ. Á engan hátt hafi hún fengið laun sín greidd frá stefnda Námsleyfasjóði.  

Umsókn stefnanda um námsleyfi var samþykkt 27. nóvember 2000  í Námsleyfasjóði og var stefnandi í námsleyfi skólaárið 2001/2002.

Stefnandi segir að laun hennar á námsleyfistímabili hafi verið greidd skv. launaflokki 235.5 nema fyrir ágústmánuð, en þá hafi laun verið greidd skv. launaflokki 236.5. Samkvæmt gr. 1.3.1 í kjarasamningi KÍ og Launanefndar  eigi að raða stefnanda í launaflokk 233 sem sérkennara, síðan eigi hún tvo launaflokka fyrir aldur og einn fyrir framhaldsnám. Þannig sé lágmarksréttur hennar launaflokkur 236.5. Skv. gr. 1.3.2 í kjarasamningi KÍ og Launanefndar skuli skólastjóri úthluta ákveðnum launaflokkum til viðbótar sem m.a. ræðst af færni, starfsskiptingu og öðru því sem upp er talið í gr. 1.3.2.

Með bréfi Félags grunnskólakennara dags. 9. janúar 2002 var stefndi Akraneskaupstaður krafinn um leiðréttingu launa til handa stefnanda sem hún hafði fengið eftir að hún fór í námsleyfi.  Með bréfi stefnda, dags. 5. febrúar 2002, var kröfunni hafnað á þeirri forsendu að stefndi væri að greiða laun í umboði  stefnda Námsleyfasjóðs og því væri það einfaldlega ekki á valdi sveitarfélagsins að ákveða kjör kennara í námsleyfi.

 

Í greinargerð stefnda Akraneskaupstaðar er um málavexti er að mestu vísað til stefnu.  Sérstaklega er tekið fram að ekki séu gerðar athugasemdir við tölulega kröfugerð stefnanda.

Stefndi Akraneskaupstaður vísar til 25. gr. grunnskólalaganna nr. 66/1995, þar sem segir m.a. að sveitarstjórnir skuli greiða sem “svarar 1,3% af dagvinnulaunum kennara og skólastjóra í sveitarfélaginu í sérstakan sjóð er Samband íslenskra sveitarfélaga annast rekstur á og varðveitir.  Úr sjóði þessum skulu greidd laun kennara og skólastjóra við grunnskóla vegna námsleyfa allt að einu ári.”  Þá komi fram í 6. mgr. 25. gr. að stjórn sjóðsins setji sér starfsreglur og birti þær. Í kjarasamningi sé ekki að finna ákvæði um námsleyfi. Stefndi Námsleyfasjóður starfi á grundvelli 25. gr. laga nr. 66/1995.

Á það er bent í greinargerð stefnda Akraneskaupstaðar að  kennari beini umsókn sinni til Námsleyfasjóðs, meðstefnda, ef hann óskar eftir því að fá námsleyfi. Þurfi hann ekki atbeina eða samþykki þess sveitarfélags er hann starfar hjá.  Telji stjórn Námsleyfasjóðs, meðstefnda,  að umsækjandi uppfylli skilyrði til að fá námsleyfi og fallist á umsóknina  sé viðkomandi sveitarfélagi tilkynnt um námsleyfið. Tilhögun greiðslna til kennara í námsleyfi hafi verið með þeim hætti að sveitarfélagið greiði kennaranum þau laun í námsleyfi er stjórn Námsleyfasjóðs hefur ákveðið og sé það gert mánaðarlega.  Meðstefndi Námsleyfasjóður endurgreiði sveitarfélaginu útlagðan kostnað/útlögð laun kennara í námsleyfi á 3ja mánaða fresti. Frá gildistöku grunnskólalaganna frá 1995 hafi það verið stjórn Námsleyfasjóðs sem hafi ákveðið hve háar greiðslur skuli vera til kennara í námsleyfi.  Sveitarfélögin hafa ekki á nokkurn hátt komið þar nærri.  Fái sveitarfélögin ekki hærri endurgreiðslu frá stefnda Námsleyfasjóði en sem svarar til þeirrar fjárhæðar er stjórn Námsleyfasjóðs hefur samþykkt.

 

Í greinargerð stefnda Námsleyfasjóðs grunnskólakennara er um málavexti m.a. vísað til greinargerðar stefnda Akraneskaupstaðar.

Af hálfu þessa stefnda er málavöxtum ennfremur svo lýst að á árinu 1996 hafi sveitarfélög tekið við rekstri grunnskóla af íslenska ríkinu.  Hafi tilflutningur á starfsemi grunnskóla frá ríki til sveitarfélaga farið fram að undangengnum viðræðum hagsmunaaðila, þ.m.t. Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands.  Þá hafi Alþingi samþykkt ný lög um grunnskóla, sbr. lög nr. 66/1995.  Umrædd lög hafi tekið gildi þegar við setningu þeirra og skyldu að fullu hafa komið til framkvæmda þann 1. ágúst 1996, sbr. ákvæði 57. gr. laganna.  Um réttindi og skyldur stefnanda fari því eftir ákvæðum laga nr. 66/1995 um grunnskóla, laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, ákvæðum laga nr. 72/1996, um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda svo og samkvæmt ákvæðum kjarasamnings Launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands.

Þá kemur fram að stefndi Námsleyfasjóður grunnskólakennara var formlega stofnaður á árinu 1996 og skráður hjá Hagstofu Íslands. Hann hafi í samræmi við ákvæði 6. mgr. 25. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla sett sér starfsreglur.  Þann 14. ágúst 2001 hafi á fundi stjórnar stefnda Námsleyfasjóðs verið gerð svofelld samhljóða samþykkt:

“Eftirfarandi var samþykkt varðandi greiðslur í námsleyfi kennara:

Allir kennarar í námsleyfi fái grunnlaun skv. lfl. 232.  Við þennan launaflokk bætast launaflokkar skv. 1.3.3., menntun og leyfisbréf og skv. 1.3.5., símenntun.

Varðandi skólastjóra þá verður þeim greidd grunnlaun í samræmi við stærð skóla en álagsflokkar vegna sérdeilda og/eða lengdrar viðveru greiðast ekki.

Ofanrituð samþykkt gildir fyrir skólaárið 2001 til 2002 en ákvörðun um næsta skólaár er frestað til fundar sem verður haldinn mánudaginn 3. september n.k. kl. 16:00.”

Allt frá yfirtöku sveitarfélaga á rekstri grunnskóla, segir í greinargerð stefnda Námsleyfasjóðs, hafa kennarar sótt um námsleyfi til Námsleyfasjóðs grunnskólakennara sem starfi samkvæmt framangreindum heimildum.  Svo hafi verið um stefnanda þessa máls.

Með bréfi Kennarasambands Íslands til stjórnar stefnda Námsleyfasjóðs, dags. 29. ágúst 2001, hafi ofangreindri samþykkt stjórnar Námsleyfasjóðs frá 14. ágúst 2001 verið mótmælt.  Í því bréfi segi m.a. að Kennarasamband Íslands dragi þá ályktun að um brot á kjarasamningi sé að ræða vegna þess að skv. samþykkt stjórnar Námsleyfasjóðs fái kennarar ekki laun miðað við launaflokk skv. kjarasamningi.  Með bréfi formanns Félags grunnskólakennara í Kennarasambandi Íslands, dags. 10. október 2001, til stjórnar Námsleyfasjóðs, hafi þess verið farið á leit að þeim félagsmönnum sem voru í orlofi á vegum Námsleyfasjóðs skólaárið 2001-2002 yrðu greiddir tveir launaflokkar skv. gr. 1.3.2 í kjarasamningi.

Með bréfi stjórnar stefnda Námsleyfasjóðs til Félags grunnskólakennara, dags. 7. nóvember 2001, hafi samþykkt stjórnar frá 14. ágúst 2001 verið áréttuð.  Í niðurlagi bréfsins segi einnig að í samræmi við fyrrnefnda samþykkt séu laun í námsleyfi greidd yfirstandandi orlofsár.

 

                Málsástæður og lagarök stefnanda

                Krafa á hendur stefnda Akraneskaupstað: Af hálfu stefnanda er á því byggt að stefndi Námsleyfasjóður geti ekki einhliða ákvarðað henni laun eftir launaflokki sem hann ákveður, né eigi stefndi Akraneskaupstaður að fara eftir slíkri ákvörðun,  heldur eigi um laun hennar í námsleyfi að fara eftir þeim kjarasamningi sem hún tekur laun eftir.

Það sé staðreynd og viðurkennt af hálfu ríkisins meðan grunnskólinn var hjá því, að laun til kennara tóku breytingum skv. ákvæðum kjarasamninga meðan á námsleyfi stóð. Stefnandi telur það einnig vera staðreynd að ekki hafi verið ætlunin að breyta þessu fyrirkomulagi er grunnskólinn var færður yfir til sveitarfélaganna. Til marks um það sé athugasemd með frumvarpi að lögum nr. 66/1995 um grunnskóla en þar segi um 25 gr: ,,Ákvæðum greinarinnar er ætlað að viðhalda sams konar möguleikum kennara og skólastjóra til námsleyfa og gilt hafa skv. 42. gr. gildandi grunnskólalaga”.

Í 42. gr. grunnskólalaga nr. 49/1991 hafi verið kveðið á um að Menntamálaráðuneytið gæti veitt kennurum námsleyfi á föstum launum í allt að eitt ár. Þá sé einnig vert að benda á 57. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla sem átt hafi að tryggja kennurum og skólastjórnendum sömu réttindi fyrir og eftir flutning grunnskólans til sveitarfélaganna.  

Stefnandi segist hafa verið ráðin hjá stefnda Akraneskaupstað sem kennari. Ráðningu hennar hafi ekki verið slitið við það að hún fór í námsleyfi, heldur hafi hún verið í fullu gildi,  enda henni áfram greidd laun frá stefnda. Þau laun geti aldrei verið lægri en réttur hennar skv. kjarasamningi segir til um, sbr. 24. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. 

Þá segir stefnandi að stefndi Námsleyfasjóður sé ekki launagreiðandi í skilningi laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna né í skilningi kjarasamnings KÍ og Launanefndar. Hann veiti einungis sveitarfélögum styrk til þess að fjármagna launagreiðslur meðan á námsleyfum stendur.

 

Stefnandi segir að skv. gr. 1.3.1 í kjarasamningi eigi henni að vera raðað í launaflokk 236.5, þar sem hún er sérkennari fædd 1957 og með framhaldsmenntun. Hún hefði einnig átt að fá tvo launaflokka til viðbótar  skv. gr. 1.3.2 í kjarasamningi KÍ og Launanefndar,  hefði hún verið við störf.  Á því er byggt að hún eigi að halda sömu launum í námsleyfi eins og hún hefði haft, hefði hún verið við störf. Við mat skv. gr. 1.3.2 bendir hún á að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins greiði öllum lífeyrisþegum tvo launaflokka vegna greinarinnar. Stjórnir Endurmenntunarsjóðs K.Í. og Námsleyfasjóðs K.Í. fylgi sömu reglu. Skólastjóri Grundaskóla hafi með fram lagðri yfirlýsingu staðfest að stefnandi hefði að minnsta kosti fengið úthlutað þremur launaflokkum, hefði hún verið í starfi.

Þar sem fyrir liggi að stefnanda hefði þannig verið raðað í launaflokk 238.5 eigi hún að njóta þeirra réttinda, enda hafi henni ekki verið sagt upp. Ráðning hennar og önnur ráðningartengd réttindi haldist í námsleyfi, og þannig eigi 24. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opb. starfsmanna í raun hér við einnig. Ákvæði kjarasamninga séu ákvæði um lágmarkskjör.

 

Krafa á hendur stefnda Námsleyfasjóði grunnskólakennara: Stefnandi segir að krafa hennar á hendur þessum stefnda  grundvallist á þeirri staðreynd, að skv. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 66/1996 sé sjóðnum falið það hlutverk að greiða grunnskólakennurum laun í námsleyfum þeirra. Þá sé með hliðsjón af meginreglunni er fram komi í 1. og 2. mgr. 18.gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála nauðsynlegt að stefna sjóðnum þar sem skyldur hans og Akraneskaupstaðar fari saman í máli þessu. Þá byggir stefnandi á sömu sjónarmiðum og málsástæðum og hann byggir kröfu sína á hendur stefnda Akraneskaupstað.

Stefnandi leggur áherslu á að ætlun löggjafans hafi verið sú að kennarar nytu sömu réttinda að því er varðar námsleyfi eins og þeir höfðu er ríkið sá um rekstur grunnskólans. Fyrir liggi staðfesting frá starfsmannaskrifstofu Fjármálaráðuneytis um, og það sé í raun óumdeilt, að kennara hafi á þeim tíma fengið allar þær launahækkanir og öll þau kjör er fylgdu kjarasamningi þeirra meðan á námsleyfi stóð. Þannig hafi þeir haldið sömu grunnlaunum og staðgenglar þeirra nutu. Stefndi Námsleyfasjóður geti nú ekki skert kjör kennara og tekið þá einhliða ákvörðun að greiða laun ekki í samræmi við kjarasamning þeirra, enda vandséð hvar mörkin lægu í þeim efnum ef slíkt væri viðurkennt.  Slíkt sé auk þess í andstöðu við áratuga hefð og í andstöðu við þau loforð sem samtökum kennara voru gefinn og löggjafinn setti fram í 57. gr. laga um grunnskóla nr. 66/1995.  Stefndi Námsleyfasjóður geti ekki sjálfur ákveðið hvaða laun eigi að greiða, heldur verði hann að halda í heiðri þann kjarasamnings sem kennarar taka laun eftir. Sá samningur sé samningur um lágmarkskjör, sbr. 24.gr. laga 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Hér sé um launagreiðslu að ræða. Til marks um það sé að greitt sé af launum þessum í lífeyrissjóð. Þá séu öll önnur launatengd gjöld greidd. Í 25. gr. grunnskólalaga nr. 66/1995 sé tekið fram að sjóðurinn skuli greiða kennurum laun í námsleyfi en ekki styrk. Því hafi sjóðurinn ekki heimild til þess að ákvarða laun sem séu í andstöðu við umsamin laun kennara skv. þeirra kjarasamningi. Slíkt væri brot á því samkomulagi sem gert var við flutning grunnskólans og minnt var á hér að framan.

Stefnandi bendir að lokum á það að skv. fram lagðri fundargerð stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hafi lífeyrissjóðurinn tekið upp regluna sem fram kemur í grein 1.3.2 í kjarasamningi KÍ og Launanefndar og haft hana sem viðmiðun við ákvörðun viðmiðunarlauna.

                Stefnandi sundurliðar dómkröfu sína þannig: Hún hafi fengið laun greidd skv. launaflokki 235.5 fyrir tímabilið september 2001 til mars 2002. Í ágúst 2001 hafi hún fengið greitt skv. launaflokki 236.5. Hún eigi skv. röðun og grein 1.3.1 og 1.3.2 í kjarasamningi að fá laun skv. launaflokki 238.5 fyrir þetta sama tímabil. Launaflokkur 238.5 hafi verið kr. 195.337 fram að áramótum en kr. 201.198 eftir það. Það sem á vanti:

1.             Laun í ágúst 2001                                             kr. 11.212

2.             Laun í sept.-des. 2001, 4x16.575 kr. 66.300

3.             Laun í jan.-mars 2002, 3x17.073 kr. 51.219

                Samtals                                                  kr. 128.731

 

Málsástæður og lagarök stefnda Akraneskaupstaðar

Sýknukrafa þessa stefnda er í fyrsta lagi byggð á því að stefndi eigi ekki aðild að málinu, en aðildarskortur leiði til sýknu, sbr. 16. gr. laga nr. 91/1991.  Í öðru lagi heldur stefndi því fram að stjórn meðstefnda Námsleyfasjóðs hafi fulla heimild til að ákvarða laun kennara í námsleyfi og einnig að eigi séu efnisrök til að taka til greina kröfu stefnanda um launaflokkahækkun skv. gr. 1.3.2 í kjarasamningi KÍ og Launanefndar.

 

 

I.

Stefndi Akraneskaupstaður vísar til þess sem hann hefur áður rakið,  með hvaða hætti staðið er að því að kennarar (þ.á m. stefnandi) fá námsleyfi.  Ákvörðunarvald og forræði á því hvort kennari fá námsleyfi og hvaða greiðslur kennara fá sé í höndum stjórnar  stefnda Námsleyfasjóðs.

Námsleyfasjóður starfi á grundvelli 25. gr. laga nr. 66/1995, en ekki samkvæmt kjarasamningi KÍ og Launanefndar sveitarfélaga.  Í ákvæðinu segi  að laun kennara skuli greidd úr sjóðnum.  Samkvæmt orðanna hljóðan sé því sjóðurinn greiðandi launa kennara í námsleyfi.  Beri að skýra ákvæðið í samræmi við skýrt efni þess, og sé það í samræmi við hefðbundin lögskýringarsjónarmið.

Það hafi verið fyrst og fremst af hagkvæmnisástæðum að stefndi greiddi stefnanda laun í námsleyfi samkvæmt ákvörðun og fyrirmælum meðstefnda, Námsleyfasjóðs.   Sjóðurinn hafi síðan endurgreitt stefnda fjárhæðina á 3ja mánaða fresti ásamt launatengdum gjöldum.  Launaseðlar stefnanda séu útgefnir af stefnda, en á þeim sé skýrlega tekið fram að um sé að ræða laun í námsleyfi. 

Sú óvenjulega staða er uppi, segir stefndi, að Námsleyfasjóður ákveður að taka til greina umsókn stefnanda um námsleyfi án þess að stefndi hafi nokkuð um það að segja og úr sjóðnum séu laun stefnanda greidd, þó að með óbeinum hætti sé. Þá sé það sjóðurinn, meðstefndi, sem ákveður fjárhæð launa í námsleyfi, en ekki stefndi.  Ef stefndi greiddi stefnanda hærri fjárhæð en meðstefndi hefði samþykkt myndi stefndi ekki fá þá fjárhæð greidda úr sjóðnum.  Samt verði ekki staðhæft að ráðningarsamband stefnanda og stefnda rofni eða falli niður við það að stefnandi fari í námsleyfi. Engu að síður telji stefndi óhjákvæmilegt vegna orðalags 25. gr. laga nr. 66/1995 að líta svo á að það hafi verði meðstefndi Námsleyfasjóður sem greiddi stefnanda laun í námsleyfinu en ekki stefndi.  Samkvæmt því eigi stefndi ekki aðild að málinu og beri því að sýkna hann, sbr. 16.gr. laga nr. 91/1991.

Þá vekur stefndi athygli á að Kennarasamband Íslands hefur beint andmælum sínum og kröfum vegna meðstefnda Námsleyfasjóðs til stjórnar sjóðsins, en ekki til stefnda Akraneskaupstaðar.  Sýni það glöggt að stéttarfélag stefnanda líti sjálft svo á að meðstefndi hafi forræði á málefnum sjóðsins, þ.m.t. á launum kennara í námsleyfi.

 

II.

Þá heldur stefndi Akraneskaupstaður því fram, að meðstefndi Námsleyfasjóður hafi fulla heimild til að ákvarða fjárhæð launagreiðslna til kennara í námsleyfi.  Meðstefndi starfi á grundvelli 25. gr. laga nr. 66/1995 en ekki samkvæmt kjarasamningi KÍ og Launanefndar sveitarfélaga.  Stjórn sjóðsins sé skipuð tveimur mönnum tilnefndum af heildarsamtökum kennara á skyldunámsstigi, en stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga tilnefni þrjá. 

Frá gildistöku laga nr. 66/1995 til 1. janúar 2001 hafi kennarar í námsleyfi fengið greidd þau grunnlaun er þeir höfðu haft árið fyrir námsleyfi, án allrar yfirvinnu eða annarra aukagreiðslna.  Með kjarasamningum Launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands fyrir grunnskóla, er gildi tóku þann 1. janúar 2001, hafi verið gerðar miklar breytingar á launakerfi/flokkun kennara. Aukagreiðslur hafi verið teknar inn í launaflokka.  Á fundi stjórnar meðstefnda þann 14. ágúst 2001 hafi verið til umfjöllunar að taka ákvörðun um hvaða laun fylgi kennurum í námsleyfi.  Segi í bókun stjórnarinnar:  “Í hinum nýja kjarasamningi eru margir launaflokkar bundnir álagi á kennara í starfi en það álag er ekki til staðar í námsleyfi.” Samþykkt hafi verið að allir kennarar í námsleyfi fengju grunnlaun samkvæmt launaflokki 232, og við þennan launaflokk bættust launaflokkar samkvæmt 1.3.3, menntun og leyfisbréf, og skv. 1.3.5, símenntun.  Þá hafi ennfremur verið samþykkt að skólastjórar fengju ekki greidda álagsflokka vegna sérdeilda og/eða lengrar [svo] viðveru.  Þessari samþykkt sjóðsins hafi  síðar verið andmælt af hálfu Kennarasambands Íslands. 

Stefndi Akraneskaupstaður heldur því fram að meðstefndi starfi samkvæmt 25. gr. grunnskólalaga, en ekki samkvæmt kjarasamningi KÍ og Launanefndar.  Honum beri að setja sér starfsreglur. Stjórn meðstefnda hafi fulla heimild til að ákveða hvað teljist hæfileg laun í námsleyfi, en að sjálfsögðu með hliðsjón af gildandi kjarasamningi.  Vegna fyrirmæla 25. gr. grunnskólalaga sé stefnda ekki annað fært en að fara eftir ákvörðunum meðstefnda.

Stefnandi hafi með því að sækja um og taka námsleyfi gengist undir að námsleyfið verði með þeim skilmálum er meðstefndi ákveður, enda fari námsleyfið ekki eftir kjarasamningi.  Mótmælir stefndi því að verið sé að brjóta ákvæði kjarasamnings um lágmarkskjör.

Þar sem stefnandi vitnar í stefnu til ummæla í greinargerð með frumvarpi til  25. gr. grunnskólalaga, telur stefndi telur að þessi ummæli sýni aðeins þá fyrirætlun að til eigi að vera sjóður er geri kennurum og skólastjórum kleift að fara í námsleyfi.  Telur stefndi að ekki verði dregnar víðtækari ályktanir af ummælunum.

Þá heldur stefndi því fram, að ákvörðun meðstefnda byggist á lögmætum sjónarmiðum, þeim að gætt skuli jafnræðis milli kennara er fá námsleyfi, svo og þess að sem flestir kennarar fái námsleyfi.

Stefndi telur og bendir á að heimild til launaflokkahækkunar samkvæmt grein 1.3.2 í kjarasamningi KÍ og Launanefndar sé bundin við að kennari sé að störfum. Horft skuli til ábyrgðar og skoða sérstaklega ,,umfang umsjónarstarfa, faglega, stjórnunarlega og fjárhagslega ábyrgð.”  Þessu sé ekki til að dreifa þegar kennari er í námsleyfi.  Þá ítrekar stefndi þau sjónarmið er koma fram í bókun stjórnar meðstefnda að röðun kennara í launaflokka samkvæmt kjarasamningi ráðist af álagi í starfi, en um álag vegna kennslustarfs sé ekki að ræða í námsleyfi.

Í gr. 1.3.2 í kjarasamningi segi að röðun úr launaflokkapottinum skuli endurskoða árlega út frá störfum og persónulegri færni.  Þessi röðun geti því breyst og sé tekið sérstaklega fram að endurmat kennara geti hækkað eða lækkað. Laun kennara geti því breyst frá einu ári til annars.

Stefnandi geri kröfu um röðun í launaflokk 233, sérkennara.  Þessi launaflokksröðun byggist m.a. á því að kennari hafi með höndum sérkennslu, sem nemi a.m.k. 50% af starfi.  Því sé ekki til að dreifa þegar um er að ræða kennara í námsleyfi. Bendir stefndi hér á að sérkennslu sé mismikil frá ári til árs.

Þá bendir stefndi á að í yfirlýsingu skólastjóra Grundaskóla, sem vitnað er til í stefnu, segi aðeins að ef stefnandi hefði verið við störf hefði stefnandi fengið ákveðna launaflokkahækkun. Stefndi telur því að yfirlýsingin hafi ekki þýðingu.

Stefndi telur einnig að framkvæmdin fyrir gildistöku laga nr. 66/1995 hafi ekki þýðingu við úrlausn þessa máls.  Við gildistöku laganna hafi verið komið á nýju fyrirkomulagi námsleyfa kennara. Þá telur stefndi það einnig þýðingarlaust með hvaða hætti Lífeyrissjóður starfsmanna ákvarðar lífeyrisþegum röðun til ákvörðunar á lífeyri, enda gilda þar önnur sjónarmið en við töku námsleyfa.

Þá bendir stefndi á að fulltrúi Kennarasambandsins hafi samþykkt launa-flokkaröðun á fundi meðstefnda þann 14. ágúst 2001 fyrir skólaárið 2001 til 2002. Telur stefndi að sú ákvörðun hafi verið bindandi fyrir m.a. stefnanda.

Af hálfu stefnda er lögð á það áhersla að röðun kennara í launaflokk í námsleyfi skv. 25. gr. grunnskólalaganna sé ekki ákvörðuð af kjarasamningi; að ákvörðun meðstefnda um launaflokkaröðun kennara í námsleyfi hafi byggst á lögmætum, málefnalegum og almennum mælikvarða, sem eigi sér fulla stoð í kjarasamningi. Ekki sé um brot að ræða á ákvæðum um lágmarkskjör.

 

Málsástæður og lagarök stefnda Námsleyfasjóðs grunnskólakennara

Stefndi Námsleyfasjóður grunnskólakennara byggir sýknukröfu sína m.a. á því að hann hafi að fullu og öllu leyti staðið við allar skuldbindingar gagnvart stefnanda og samkvæmt því verði engar frekari kröfur hafðar uppi á hendur honum.

Stefndi heldur því fram til stuðnings sýknukröfunni að stefnandi hafi notið greiðslna í samræmi við gildandi samþykktir og reglur á hverjum tíma og samkvæmt því verði engar frekari kröfur hafðar uppi á hendur honum. Hann bendir á að um réttindi, skyldur svo og starfskjör stefnanda fari samkvæmt ákvæðum laga nr. 66/1995 um grunnskóla, ákvæðum laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, ákvæðum laga nr. 72/1996 um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda svo og samkvæmt ákvæðum kjarasamnings Launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands.  Byggir stefndi á því að ákvæði nefnds kjarasamnings hafi ekki að geyma umfjöllun um heimildir stefnanda til að njóta launaðs námsleyfis.  Samkvæmt því verði slíkur réttur því ekki leiddur af kjarasamningsbundnum skyldum viðsemjanda á hverjum tíma.  Varðandi rétt stefnanda til að njóta launaðs námsleyfis verði einungis vísað til ákvæðis 25. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla.  Slíkur réttur stefnanda fari því alfarið eftir nefndu ákvæði og sæti takmörkunum eftir fyrirmælum sama ákvæðis svo og starfsreglna sem settar hafa verið á grundvelli þess.

Af ákvæði 25. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla verði ráðið, að Námsleyfasjóði sé ætlað það hlutverk að veita kennurum námsleyfi í samræmi við starfsreglur.  Réttur kennara til launaðs námsleyfis sé ekki skilyrðislaus; samkvæmt 3. mgr. nefndrar 25. gr. skuli stjórn sjóðsins meta umsóknir um framlög úr sjóðnum og ákveða árlega úthlutun.  Þá hafi starfsreglur einnig að geyma takmarkanir sama efnis.  Stefndi tekur fram að starfsreglur sjóðsins hafi verið samþykktar samhljóða sem og t.d. samþykkt stjórnar sjóðsins frá 14. ágúst 2001. 

Af hálfu stefnda er á því byggt að Námsleyfasjóður eigi sjálfur um það ákvörðunarvald hvaða greiðslur verði inntar af hendi í námsleyfi kennara.  Slíkur réttur verði einungis leiddur af ákvæði 25. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla.   Réttur til greiðslu launa í námsleyfi sé því ívilnandi réttur og beri að skýra ákvæði 25. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla með hliðsjón af því.   Samkvæmt þessu sé stjórn Námsleyfasjóðs í reynd algjörlega óbundin við ákvörðun á samþykktum sjóðsins um viðmið sem lögð verða til grundvallar greiðslum í námsleyfi.  Samkvæmt því sé stjórn Námsleyfasjóðs óbundin af ákvæðum kjarasamnings á hverjum tíma.  Í máli þessu liggi fyrir að stefnandi naut greiðslna í námsleyfi í samræmi við ákvæði samþykkta sjóðsins, og geti stefnandi samkvæmt því engar frekari kröfur gert til greiðslna.  Mótmælir stefndi málsástæðu um að greiðslur til stefnanda í launuðu námsleyfi hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna og ákvæðum kjarasamnings um lágmarkskjör.  Samkvæmt framangreindu beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Af hálfu stefnda Námsleyfasjóðs er ennfremur á því byggt að stefnanda beri ekki réttur til launa samkvæmt kjarasamningi í námsleyfi enda hafi kjarasamningur ekki að geyma fyrirmæli þessa efnis.  Þess í stað njóti stefnandi greiðslna frá stefnda, en í framkvæmd sé það svo að stefndi endurgreiði sveitarfélögum kostnað sem rekja má til þessa.  Ætla megi að slík tilhögun miði öðru fremur að því að tryggja starfsmanni að öðru leyti samfelld og óslitin réttindi, t.d. vegna greiðslna í veikindum, barnsburðarleyfi o.þ.h. Stefndi áréttar að hvorki ákvæði kjarasamnings né ákvæði laga mæli fyrir um að starfsmaður skuli njóta sérstakra réttinda í námsleyfi, sbr. þó umfjöllun 25. gr. laga nr. 66/1995.  Í ljósi framanritaðs þykir stefnda sýnt að stefnandi njóti ekki launa frá vinnuveitanda á meðan á námsleyfi stendur, heldur njóti hann í reynd greiðslna úr Námsleyfasjóði grunnskólakennara samkvæmt reglum sem sá sjóður hefur sjálfur sett.  Af framangreindu leiði að ekki sé unnt að draga víðtækari ályktanir af tilhögun greiðslna í námsleyfi en af framangreindum heimildum leiðir.

Af hálfu stefnda Námsleyfasjóðs er ennfremur á því byggt að mismunandi sjónarmið og áherslur ríki varðandi störf stefnanda annars vegar og launað námsleyfi hans hins vegar.  Í ljósi uppbyggingar kjarasamnings þykir stefnda sýnt að margvíslegar greiðslur, sem kennarar kunna almennt að njóta, tengjast sérstöku álagi í starfi o.þ.h.  Augljóst sé að sambærileg sjónarmið eigi ekki við í launuðu námsleyfi og samkvæmt því hafi stefndi samþykkt reglur sem gera greinarmun á þessu tvennu.  Í því sambandi beri að hafa í huga að réttur stefnanda til launa í námsleyfi grundvallast ekki á gildandi kjarasamningi.  Jafnvel þó svo slíkur réttur yrði leiddur af ákvæðum kjarasamnings þyki stefnda sýnt að heimilt væri að beita öðrum sjónarmiðum við ákvörðun greiðslna í launuðu námsleyfi, m.a. vegna þess að álag o.þ.h., sem sérstakar greiðslur tengjast samkvæmt kjarasamningi, eigi ekki við undir slíkum kringumstæðum.  Samkvæmt því væri bæði eðlilegt og málefnalegt að leggja slík sjónarmið til grundvallar. Þá séu slíkar álagsgreiðslur ennfremur ákvarðaðar tímabundið af skólastjórum og eftir atvikum hverju sinni. Stefnda sýnist að réttur til að gera greinarmuninn væri óumdeilanlega fyrir hendi jafnvel þótt réttur yrði leiddur af ákvæðum kjarasamnings.

Af hálfu stefnda er því mótmælt að afstaða Fjármálaráðuneytis skipti almennt og yfirhöfuð nokkru máli við úrlausn þessa máls.  Beri í því sambandi að leggja til grundvallar að ný lög gilda nú um grunnskóla auk þess sem kjarasamningur er á milli annarra aðila.  Framangreindu til viðbótar bendir stefndi á að verulegar breytingar hafi orðið á ákvæðum kjarasamnings frá árinu 1996, þ.e. frá því að Fjármálaráðuneytið fór með fyrirsvar gagnvart Kennarasambandi Íslands.  M.a. í ljósi grundvallarbreytinga á ákvæðum kjarasamnings hafi stjórn stefnda gert viðeigandi breytingar á reglum um greiðslur í námsleyfi.  Á sama hátt er því alfarið mótmælt að afstaða, túlkun og/eða framkvæmd Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hafi hér nokkur áhrif.

Af hálfu stefnda er því ennfremur mótmælt að í umdeildri afstöðu [svo í grg.] felist brot á ákvæðum 57. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla, þ.e. að tilgangur laganna hafi verið sá að tryggja kennurum efnislega óbreytt ráðningarréttindi hjá nýjum vinnuveitanda. Heldur stefndi því fram að tilgreind réttindi teljist á engan hátt ráðningarbundinn réttindi, enda sé mælt fyrir um þau í 25. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla.  Í því sambandi beri að hafa í huga að það sé ekki á valdi vinnuveitanda að veita launuð námsleyfi, heldur hafi stjórn Námsleyfasjóðs grunnskólakennara um það ákvörðunarvald.  Þá byggir stefndi ennfremur á því að allar launagreiðslur samkvæmt hinum nýja kjarasamningi hafi hækkað svo mikið frá gildistöku laga nr. 66/1995, að stefnandi njóti nú, þrátt fyrir að dómkröfur hans verði ekki teknar til greina, miklu hærri greiðslna í námsleyfi en hann hefði gert fyrir gildistöku laganna, jafnvel þótt tekið væri tillit til almennra launahækkana.  Beri þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda í þessu máli.

Fari svo að dómur komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi geti leitt rétt sinn af ákvæðum kjarasamnings, líkt og fram komi í stefnu, byggir stefndi sýknukröfu sína á því að þá beri að líta á starfsreglur stefnda Námsleyfasjóðs sem og samþykktir stjórnar sjóðsins, þ.m.t. samþykktir stjórnar frá 14. ágúst 2001, sem kjarasamning eða ígildi kjarasamnings.  Beri við slíkar kringumstæður að líta til þess að stjórn sjóðsins hefur tekið samhljóða ákvörðun um tilgreinda tilhögun, og verði hún því lögð til grundvallar við úrlausn máls.

Af hálfu stefnda er því ennfremur haldið fram að hann verði aldrei krafinn um hærri greiðslur en samþykkt hans kveður á um.  Fari svo að dómur taki til greina kröfu stefnanda um greiðslu mismunar, hljóti sú krafa að beinast að vinnuveitanda. Þannig sé kröfu ranglega beint að stefnda Námsleyfasjóði.  Krefst hann við þær kringumstæður sýknu á grundvelli aðildarskorts, sbr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Stefndi bendir á að hann fari ekki með fyrirsvar fyrir sveitarfélög við gerð kjarasamninga og sé samkvæmt því ekki samningsaðili um kaup og kjör. Stefndi verði því aldrei bundinn af slíkum gerningum sem launagreiðandi.  Af því leiði að sýkna beri stefnda, eftir atvikum á grundvelli 16. gr. laga  nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 

Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna; til laga nr. 66/1995 um grunnskóla; til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einkum ákvæði 16. gr. þeirra.  Um málskostnað vísar stefndi til ákvæða 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Málfríður Hrönn Ríkharðsdóttir skólastjóri Grundaskóla Akranesi kom fyrir dóminn sem vitni. Í málinu liggur frammi svarbréf hennar til lögmanns stefnanda, dags. 30. apríl 2002. Þar kemur fram að stefnandi ,,hefði fengið að lágmarki þrjá launaflokka úr lauanflokkapottinum, hefði hún verið hér í starfi," þ.e skólaárið 2001-2002. Þessa yfirlýsingu staðfesti vitnið. Hún staðfesti að stefnandi hefði verið fagstjóri í sérkennslu í Grundaskóla. Henni hefði átt að raða að grunni til í launaflokk 233 vegna sérkennslu, og til viðbótar hefði hún átt að fá einn launaflokk skv. gr. 1.3.3 í kjarasamningi (Viðbótarflokkar vegna prófa og leyfisbréfa), og þrjá launaflokka skv. gr. 1.3.5 (Viðbótarlaunaflokkar vegna símenntunar). Að lágmarki hefði hún því átt að raðast í launaflokk 237. Vitnið taldi að stefnandi hefði átt skv. þessu að vera í launaflokki 240. [Aths. dómara: Lögmaður stefnanda gat þess í málflutningi að vitnið hefði ofmetið aldur stefnanda og þar með talið hana eiga að fá þrjá launaflokka skv. gr. 1.3.5, en þeir ættu í raun að vera tveir.]

 

Forsendur og niðurstöður

                Stefnandi er kennari við grunnskóla í Akraneskaupstað. Hún var í námsleyfi samkvæmt ákvörðun stefnda Námsleyfasjóðs skólaárið 2001-2002. Hún var á launum í námsleyfinu. Þau voru greidd af atvinnurekanda hennar, stefnda Akraneskaupstað, en hann fékk þær greiðslur endurgreiddar úr Námsleyfasjóði í samræmi við 1. mgr. 25. gr. grunnskólalaga nr. 66/1995, þar sem segir að úr sjóði þessum skuli greidd laun kennara og skólastjóra við grunnskóla vegna námsleyfa allt að einu ári.

                Kjarasamningur sá sem stefnandi átti að taka laun eftir var gerður 9. janúar 2001 og kom til framkvæmda skólaárið 2001-2002, það ár sem stefnandi var í námsleyfi. Aðilar kjarasamningsins voru (og eru) Launanefnd sveitarfélaga f.h. sveitarfélaga í landinu og Kennarasamband Íslands f.h. Félags grunnskólakennara og Skólastjórafélags Íslands. Stefnandi er starfsmaður stefnda Akraneskaupstaðar sem kennari við grunnskóla á Akranesi. Hún er í Félagi grunnskólakennara og þannig bundinn af þessum samningi. Á sama hátt er stefndi Akraneskaupstaður bundinn af samningi þessum gagnvart stefnanda.

                Ráðningarsamningur stefnanda og stefnda Akraneskaupstaðar rofnaði ekki þótt stefnandi færi í námsleyfi, enda greiddi þessi stefndi henni laun allan námsleyfistímann. Úr hendi stefnda Akraneskaupstaðar átti stefnandi rétt á þeim launum sem kjarasamningur kvað á um.

 

                Lengi hefur tíðkast að kennarar hafa átt kost á námsleyfi eða orlofi frá störfum á launum til að auka þekkingu sína og kennarahæfni. Um þetta voru ákvæði í eldri grunnskólalögum en þeim sem nú gilda, þ.e. meðan ríkið annaðist rekstur grunnskóla. Þannig sagði t.a.m. í 2. mgr. 40. gr. laga nr. 63/1974 um grunnskóla: ,,Ef menntamálaráðuneytið telur umsókn og greinargerð kennara fullnægjandi, getur það veitt honum orlof allt að einu ári með föstum embættislaunum." Í 1. mgr. 42. gr. grunnskólalaga nr. 49/1991 sagði: ,,Menntamálaráðuneytið getur veitt kennara námsleyfi á föstum launum í allt að eitt ár til að efla þekkingu sína og starfshæfni." Í hvorum tveggja þessara ákvæða eru nefnd föst laun.

Í málinu hefur verið lagður fram ráðningarsamningur stefnanda við Fjármálaráðuneytið frá 13. júní 1994. Þar segir m.a.: ,,Um launagreiðslur, launaflokk og starfsaldur til launa fer eftir því sem í samningi þessum greinir og samkvæmt kjarasamningi þess stéttarfélags sem tilgreint er að ofan, eins og hann er á hverjum tíma . . ." Þá hefur og verið lagt fram svarbréf Fjármálaráðuneytisins, dags. 30 apríl 2002, við fyrirspurn lögmanns stefnanda um laun grunnskólakennara í námsleyfum. Þar segir: ,,Laun grunnskólakennara í námsleyfum á skólaárinu 1995 til 1996 og fyrr voru með þeim hætti hjá ríkinu að greidd voru mánaðarlaun, þ.e. föst laun fyrir dagvinnu skv. gr. 1.1.1 í kjarasamningum. Þau laun tóku þeim breytingum sem leiddu [svo] af breyttum kjarasamningum, aldursþrepi eða launaflokki vegna starfsaldurs á leyfistímanum." 

Í 57. gr. grunnskólalaga nr. 66/1995 segir að lög þessi öðlist þegar gildi og komi að fullu til framkvæmda 1. ágúst 1996, ,,enda hafi Alþingi þá samþykkt : a [. . .] b. Lög um ráðningarréttindi kennari og skólastjórnenda við grunnskóla sem tryggi þeim efnislega óbreytt ráðningarréttindi hjá nýjum vinnuveitanda . . ."  25. grein grunnskólalaganna nr. 66/1995 fjallar um Námsleyfasjóð, um það hvernig sveitarfélög skulu greiða í hann, um laun og styrki úr honum, um stjórn hans, úthlutun úr honum, um rekstur og skrifstofuhald og að lokum um það að stjórn sjóðsins skuli setja sér starfsreglur og birta þær. Í greininni segir í 1. mgr.: ,,Úr sjóði þessum skulu greidd laun kennara og skólastjóra við grunnskóla vegna námsleyfa allt að einu ári." Í greinargerð með frumvarpi að lögunum segir í athugasemdum við þessa grein: ,,Ákvæðum greinarinnar er ætlað að viðhalda sams konar möguleikum kennara og skólastjóra til námsleyfa og gilt hafa skv. 42. gr. gildandi grunnskólalaga."

                Af tilvitnunum sem hér hafa verið saman dregnar er sýnilegt að það hefur ekki verið ætlan löggjafans að breyta þeirri reglu að kennari í námsleyfi fengi greidd ,,föst laun", svo sem verið hafði um langan aldur. Í málinu er ekki komin fram nein vísbending um annað.

 

Í forsendum hér að framan er sagt að stefnandi hafi átt rétt á því að stefndi Akraneskaupstaður greiddi henni þau laun veturinn 2001-2002 sem kjarasamningur kvað á um. Akraneskaupstaður greiddi henni hins vegar laun eftir ákvörðun stefnda Námsleyfasjóðs.

Í títtnefndri 25. gr. grunnskólalaga nr. 66/1995 segir í 6. mgr.: ,,Stjórn sjóðsins setur sér starfsreglur og birtir þær." Þessar reglur eru meðal dómskjala. Í þeim er ekki kveðið á um það hver skuli vera laun einstakra kennara í námsleyfi, enda verður ekki séð að slík ákvæði sett af stefnda Námsleyfasjóði eigi sér stoð í lögum. Engu að síður samþykkti stjórn stefnda m.a. þetta á fundi sínum 14. ágúst 2001 (skv. fram lögðu bréfi formanns stjórnarinnar til Félags grunnskólakennara, dags. 7. nóvember 2001): ,,Allir kennarar í námsleyfi fái grunnlaun samkv. lfl. 232. Við þennan launaflokk bætast launaflokkar skv. 1.3.3, menntun og leyfisbréf og skv. 1.3.5, símenntun" 

Það er álit dómarans að stjórn stefnda Námsleyfasjóðs hafi ekki verið bær til að taka þá ákvörðun um laun kennara í námsleyfi sem hún gerði. Því beri og að hafna sem stefndi heldur fram að hér sé um ígildi kjarasamnings að ræða. Skiptir í því sambandi ekki máli þótt fulltrúar kennara í stjórn stefnda hafi greitt samþykktinni atkvæði, enda var samþykkt þessari mótmælt af Kennarasambandi Íslands. Lítur dómarinn svo á að stefndi Námsleyfasjóður sé bundinn af kjarasamningum um laun kennara í námsleyfi. Er reyndar sýnilegt að stjórnin telur sig vera það, þar sem telja verður að í samþykktinni felist túlkun á þeim samningi. Á hér ekki að skipta máli þótt í kjarasamningi sé ekki berum orðum kveðið á um hver eigi að vera laun kennara í námsleyfi. Dómari fellst ekki á það með stefnda Námsleyfasjóði að réttur kennara til þeirra launa verði einungis leiddur af 25. gr. grunnskólalaga.

 

Stefnandi telur að henni beri að raða í fyrstu í launaflokk 233 skv. gr. 1.3.1 í kjarasamningi. Við þetta eigi að bætast einn launaflokkur samkv. gr. 1.3.3 og tveir launaflokkar skv. gr. 1.3.5. Þá beri henni a.m.k. tveir launaflokkar samkv. gr. 1.3.2, sem kveður á um viðbótarlaun vegna verkaskiptingar og færni. Er hér um að ræða svokallaðan launapott. Segir í upphafi greinarinnar að ,,til að ná fram markmiðum þessa kjarasamnings hefur skólastjóri jafnframt til umráða sem svarar til þriggja launaflokka kennara og leiðbeinenda við skólann m.v. launaflokk 235,5. þrep . . ." Samkvæmt yfirlýsingu Málfríðar Hrannar Ríkharðsdóttur skólastjóra Grundaskóla, sbr. vætti hennar fyrir dóminum, hefði stefnandi ekki átt að fá minna úr þessu potti en þrjá launaflokka. Dómari telur að ekki fari milli mála að launaflokkar kennara skv. gr. 1.3.2 séu hluti af föstum launum hans. Í því sambandi var á það bent af hálfu stefnanda í málflutningi að þeir launaflokkar væru ekki einungis greiddir þegar kennari væri að störfum, heldur einnig í orlofi.

Við aðalmeðferð málsins var þetta bókað: ,,Vegna fyrirspurnar dómara lýsa lögmenn aðila yfir að ekki er tölulegur ágreiningur um dómkröfu stefnanda, og ekki er ágreiningur um hvernig raða hefði átt stefnanda í launaflokk skv. kjarasamningi skólaárið 2001-2002, ef hún hefði verið við kennslu það skólaár."

 

Í 1. mgr. 25. gr. grunnskólalaga segir að úr Námsleyfasjóði ,,skulu greidd laun kennara og skólastjóra við grunnskóla vegna námsleyfa allt að einu ári." Í þessu felst ekki að stefndi Námsleyfasjóður sé launagreiðandi kennara í námsleyfi. Framkvæmdin hefur verið sú að það sveitarfélag sem er atvinnurekandi eða vinnukaupandi kennara í starfsleyfi greiðir honum launin og fær útlagðar greiðslur síðan endurgreiddar af stefnda Námsleyfasjóði.

Atvinnurekandi eða vinnukaupandi stefnanda er stefndi Akraneskaupstaður, og,  eins og fyrr segir,  verður ekki talið að vinnurréttarlegt samband stefnanda og þessa stefnda hafi rofnað þótt stefnandi færi í námsleyfi. Með vísan til forsendna hér að framan verður stefndi Akraneskaupstaður dæmdur til að greiða stefnanda dómkröfuna. Jafnfram lítur dómari svo á að stefnda Námsleyfasjóði beri samkvæmt nefndu ákvæði 25. gr. að endurgreiða stefnanda þessa fjárhæð. Verður því orðið við kröfu stefnanda um að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða henni dómkröfuna með þeim vöxtum sem krafist er.

Eftir úrslitum máls er rétt að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnanda málskostnað. Skal hann vera 300.000 krónur.

                Guðni Á. Haraldsson hrl. sótti málið fyrir stefnanda. Tryggvi Bjarnason hdl. hélt uppi vörn fyrir stefnda Akraneskaupstað og Óskar Norðmann hdl. fyrir stefnda Námsleyfasjóð grunnskólakennara.

                Finnur Torfi Hjörleifsson kveður upp þennan dóm.

 

D Ó M S O R Ð

 Stefndu, Akraneskaupstaður og Námsleyfasjóður grunnskólakennara, greiði stefnanda, Hafdísi Fjólu Ásgeirsdóttur, in solidum kr. 128.731. með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af kr. 11.212 frá 1. ágúst 2001 til 1. sept. s.á., en frá þeim degi af kr. 27.787 til 1. október s.á. en frá þeim degi af kr. 44.362 til 1. nóvember s.á., en frá þeim degi af kr. 60.937 til 1. desember s.á., en frá þeim degi af kr. 77.512 til 1. janúar 2002, en frá þeim degi af kr. 94.585 til 1. febrúar s.á., en frá þeim degi af kr. 111.658 til 1. mars 2002 en frá þeim degi af kr. 128.731 til greiðsludags.

                Stefndu greiði stefnanda in solidum 300.000 krónur í málskostnað.