Hæstiréttur íslands
Mál nr. 99/2012
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Vátrygging
- Gjafsókn
A höfðaði mál til viðurkenningar á bótaskyldu úr ábyrgðarlið heimatryggingar B hjá T hf. vegna líkamstjóns er hann varð fyrir er á hann féll tré í eigu B sem A var, ásamt öðrum, að fella. Í héraðsdómi var ekki fallist á að slysið yrði rakið til saknæmrar háttsemi B heldur óhappatilviks og aðgæsluleysis A sjálfs og var T hf. sýknað. Staðfesti Hæstiréttur hinn áfrýjaða dóm með skírskotun til forsendna hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. febrúar 2012. Hann krefst þess að viðurkennd verði bótaskylda úr ábyrgðarlið heimatryggingar B hjá stefnda vegna slyss sem áfrýjandi varð fyrir 27. september 2008 er á hann féll tré í eigu B, sem áfrýjandi vann ásamt öðrum við að fella. Áfrýjandi krefst málskostnaðar fyrir Hæstarétti líkt og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að sök verði skipt og málskostnaður látinn niður falla.
Eins og að framan greinir höfðar áfrýjandi mál þetta sem viðurkenningarmál. Af gögnum málsins verður með vissu ráðið að hagsmunir þeir sem áfrýjandi leitar dómsviðurkenningar um svari til áfrýjunarfjárhæðar, sbr. 3. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Rétt þykir að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans sem verður ákveðin eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 350.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 2011.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 4. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af A, […], gegn Tryggingamiðstöðinni, Síðumúla 24, Reykjavík, með stefnu birtri 5. apríl sl.
Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði með dómi, bótaskylda úr ábyrgðarlið heimatryggingar B hjá stefnda, vegna slyss sem stefnandi varð fyrir þann 27. september 2008 við […] á […], er tré í eigu B, sem hann var að vinna við að fella, féll á hann. Þá krefst hann málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda.
Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu af dómkröfum stefnanda en til vara að sök verði skipt milli aðila. Þá er krafist málskostnaðar en til vara að hann falli niður.
II
Málavextir
Hinn 27. september 2008 var stefnandi ásamt nágranna sínum, C o.fl., að búta niður með keðjusög tré sem brotnað höfðu í óviðri um viku áður á lóð í bakgarði C við […]. Garðurinn snýr að bakgarði fasteignar B við […] og söguðu þeir enn fremur hátt tré sem þar var. Við fall þess trés náði stefnandi ekki að koma sér undan í tæka tíð og féll það ofan á stefnanda sem við það hlaut varanlega örorku. Ekki liggja fyrir mælingar á hæð trésins en af myndum af dæma má ráða að það hafi a.m.k. verið yfir fimm metra hátt.
B er með heimatryggingu hjá stefnda en um er að ræða samsetta tryggingu sem inniheldur m.a. ábyrgðartryggingu og krefst stefnandi bóta úr henni.
Greinir málsaðila á um hver hafi verið aðdragandinn að því að stefnandi tók að sér að saga niður tré og hver aðkoma B (vátryggingartaka) hafi verið að því. Stefnandi heldur því fram að B hafi farið þess á leit við hann og félaga hans að fella umrætt tré fyrir sig. Hafi hann jafnframt gefið þeim fyrirmæli um hvernig standa skyldi að verkinu. Af hálfu stefnda er vísað til þess að er B hafi orðið þess var að stefnandi og félagar hans væru að saga tré í garði C hefði hann minnst á það við þá að það þyrfti að fella tré í hans garði. Hafi B farið aftur inn í hús sitt með dótturdóttur sinni, D. Þau hafi síðar heyrt hávaða í keðjusöginni og séð að þeir félagar hafi verið að saga tré sem hafi staðið á lóðamörkum […] og […]. Hafi þau farið út aftur og D tekið myndskeið af því sem fyrir augu þeirra bar upp á síma sinn. Stefndi mótmælir því sem röngu og ósönnuðu að B hafi beðið um að þetta tiltekna verk yrði framkvæmt.
Fyrir dóminum gáfu skýrslur stefnandi, E og D. Þá voru enn fremur lagðar fram skýrslur sem teknar höfðu verið fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra 21. október sl. af B, C og F.
III
Málsástæður stefnanda
Af hálfu stefnanda er á því byggt að vátryggingartaki, B, beri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda. Ekki hafi verið réttilega staðið að trjáfellingunni og beri eigandi lóðarinnar og trésins, vátryggingartaki ábyrgð á því. Um hafi verið að ræða afar hættulegt verk og því enn brýnna en ella að verkið væri rétt skipulagt og fyllsta öryggis gætt. Sú skylda hafi hvílt á vátryggingartaka að tryggja öryggi þeirra sem að verkinu hafi komið, enda hafi það verið unnið fyrir hann sem eiganda trésins, en því hafi hann ekki sinnt.
Stefnandi vísar á bug fullyrðingum stefnda um að vátryggingartaki hafi ekki gefið stefnanda sérstök fyrirmæli um fellingu trésins og hvernig að verkinu yrði staðið sem og þeirri staðhæfingu að stefnandi og samverkamenn hans hafi byrjað að fella tréð án vitneskju vátryggingataka. Í skýrslutöku af vátryggingartaka, fyrir dómi 21. október 2010, viðurkenni hann þátttöku sína í verkinu. Af skýrslutökunni sé ljóst að samkomulag hafi verið gert á milli vátryggingartaka og stefnanda um að fella umrætt tré. Þá kveðst hann einnig hafa veitt leiðbeiningar um hvernig stefnandi og samverkamenn hans ættu að bera sig að við verkið, en í umræddri skýrslutöku segi m.a. „ég held að ég hafi nú kannski farið til [C] og sagt að það væri nú vaninn þegar væri verið að fella svona tré, það væri að saga V inn í tréð þeim megin sem tréð ætti að falla. Og saga svo aftur hinum megin“. Þá hafi hann viðurkennt að hafa fylgst með verkinu auk þess sem dótturdóttir hans hafi tekið hluta athafnarinnar upp á myndband.
Stefnandi vísar til þess að af framlagðri lögregluskýrslu, dags. 27. september 2008, megi sjá hversu illa hafi verið að verkinu staðið. Ljósmyndir sýni að aðstæður í garði vátryggingartaka hafi verið erfiðar og augljóst að um afar hættulegt verk hafi verið að ræða. Þar af leiðandi hafi verið enn brýnna en ella að verkið væri vel skipulagt og fyllsta öryggis gætt.
Stefnandi mótmælir því að vátryggingartaki geti ekki borið skaðabótaábyrgð á slysinu, en stefnandi telur að hann hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi, og þar af leiðandi saknæma og ólögmæta háttsemi af hálfu vátryggingartaka við skipulagningu verksins.
Um lagarök vísar stefnandi til skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum og almennra ólögfestra reglna íslensks réttar um skaðabætur, fyrst og fremst sakarreglunnar. Um málskostnað vísar hann til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra.
Málsástæður stefnda
Af hálfu stefnda er vísað til þess að tengsl vátryggingartaka við fellingu trésins geti ekki leitt til skaðabótaskyldu af hans hálfu og þar með úr ábyrgðartryggingu hans. Hann beri ekki skaðabótaábyrgð við það eitt að vera annar eigandi þeirrar fasteignar hvers tré stóð á mörkum lóða […] og […]. Verk sem unnin séu á eða við fasteign, hvort heldur sem er að beiðni eiganda eða ekki, séu fyrst og fremst á ábyrgð þeirra sem þau framkvæmi. Vátryggingartaki hafi ekki framkvæmt sjálft verkið eða lagt til þess verkfæri. Hafi honum ekki borið skylda til að standa að skipulagi verksins og gæta að öryggi við framkvæmd þess. Fráleitt sé að halda því fram að hann hafi hvort heldur átt að annast verkstjórn með fellingunni eða að honum hafi borið að leiðbeina þeim er verkið hafi unnið. Í framburði sínum fyrir dómi geti vátryggingartaki þess að kannski hafi hann sagt þeim er sá um að saga tréð, C, að vaninn væri að saga fleyg inn í tréð þeim megin sem það ætti að falla, en það geti og á engan hátt bakað honum skaðabótaábyrgð. Þá verði heldur ekki séð að ranglega hafi verið staðið að verklagi við sjálfa trjáfellinguna. Slysið verði ekki rakið til atvika sem vátryggingartaki beri skaðabótaábyrgð á heldur til þess andvaraleysis stefnanda sjálfs sem hafi staðið svo nálægt væntanlegri fallstefnu trésins að hann hafi ekki átt undankomuleið er tréð féll endanlega niður.
Varakrafa stefnda er rökstudd með sama hætti og aðalkrafa um sýknu og þá sérstaklega vísað til hins sértæka, að stefnandi hafi verið einn þeirra sem hafi staðið að fellingu trésins og þess almenna að öllum þeim sem komnir séu af barnsaldri megi vera ljóst að ekki eigi að standa í nálægð við fallstefnu trés sem komið sé að falli.
IV
Niðurstaða
Í máli þessu deila aðilar um hvort stefnandi eigi rétt á skaðabótum úr hendi stefnda vegna tjóns er hann varð fyrir er tré, sem stóð á lóð B við […], féll á stefnanda, en hann vann að því ásamt fleirum að fella það. B er með svokallaða heimatryggingu hjá hinu stefnda félagi og beinir stefnandi kröfum sínum að því með heimild 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Óumdeilt er að samkvæmt skilmálum tryggingarinnar þarf að sýna fram á að vátryggður hafi með saknæmum hætti valdið öðrum tjóni til þess að skilyrðum um greiðslu úr tryggingunni sé fullnægt.
Málsaðila greinir á um hver hafi verið aðdragandinn að því að stefnandi tók að sér verkið og hver aðkoma B hafi verið að því. Fyrir liggur að stefnandi, C og E voru að búta niður tré, sem brotnað hafði í óviðri, í bakgarði C. Gaf B, nágranni þeirra, sig á tal við þá. Fullyrðir stefnandi að B hafi beðið þá félaga um að saga niður tré í garði B. B segir hins vegar að hann hafi minnst á það við stefnanda að það þyrfti að fella tré í hans garði en synir B hafi áður sagað greinar þess. Stefnandi hafi sagt honum að hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur af þessu, hann þekkti mann sem hefði tæki og tól til að gera þetta. B kveðst að loknu samtali þeirra hafa farið inn í hús sitt en síðar orðið þess áskynja að stefnandi og félagar hans voru að saga niður tré í garði hans. Hafi hann farið út og fylgst með verkinu. Að mati dómsins verður að leggja til grundvallar að stefnandi og félagar hans hafi fellt tréð með samþykki B enda virðist hann ekkert hafa gert til að stöðva þá í því þegar hann varð þess áskynja að þeir höfðu hafist handa við verkið. Stendur þá eftir hvort aðstæðum á vettvangi hafi verið ábótavant eins og haldið er fram af hálfu stefnanda og hvort B beri ábyrgð á þeim.
Fyrir liggur að tréð í garði B var fellt þannig að C sagaði fleyg neðst í tréð með keðjusög, sem hann hafði fengið lánaða hjá nafngreindum manni, og þá var fest band í tréð sem stefnandi, E og F toguðu í. Áður en þeir komu að verkinu höfðu greinar verið sagaðar af trénu. Af myndum sem lögregla tók á vettvangi má þó sjá að hluti greinanna stóð enn út úr trénu. B kveðst ekki hafa gefið stefnda og félögum hans fyrirmæli um hvernig ætti að fella tréð en hafi þó sagt þeim að það væri vaninn þegar verið væri að fella tré að sagað væri „V“ inn í tréð þeim megin sem það ætti að falla og sagað svo aftur hinum megin. Stefnandi sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að B hefði sagt þeim að saga fleyg í tréð en hugmyndin að því að festa band í tréð hefði komið frá C. Er það í samræmi við framburð C. E segir að B hafi talað við þá um að tréð þyrfti að falla í ákveðna átt frá húsunum og hann minnti að B hefði sagt þeim að saga fleyg í tréð. Á myndbandi sem tekið var er verið var að saga niður tréð sést að B er viðstaddur trjáfellinguna á þeim tíma sem tréð fellur til jarðar. Af framangreindu má ráða að stefnandi, C, E og F hafi unnið að fellingu trésins í samráði við B.
Ekki gilda sérstakar reglur um hvernig fella skuli tré en víða má finna fræðsluefni um hvernig best sé að standa að því. Var slíkt fræðsluefni afhent dóminum til hliðsjónar af hálfu beggja aðila. Í fræðsluefninu kemur fram að nauðsynlegt sé að meta aðstæður til fellingar en oft sé hæð og staðsetning trésins þannig að ekki sé mögulegt að fella það í einu lagi. Þurfi því að minnka umfang þess með því að klippa eða saga af þeim greinarnar til að byrja með og jafnvel saga bol þess í áföngum. Virðist hér verið að vísa til þess að svo þröngt geti verið um tré að fall þess í einu lagi myndi valda tjóni á nærliggjandi fasteignum og lausamunum. Tréð er síðan fellt með því að saga fleyg í það að neðan og þá er kaðall festur ofarlega í stofn trésins til að stýra fallinu. Togar þá einhver í kaðalinn á meðan annar sagar tréð niður.
Að mati dómsins er, með hliðsjón af því fræðsluefni sem málsaðilar vísuðu til um trjáfellingu og aðstæðum á vettvangi, sem sjá má á ljósmyndum lögreglu og myndbandsupptöku, ekki unnt að fallast á það með stefnanda að ranglega hafi verið staðið að fellingu umrædds trés í garði B. Verkið var unnið í samræmi við það sem tíðkast og þá virðist nægilegt pláss hafa verið í garðinum til þess að tréð gæti fallið niður í heilu lagi án þess að valda tjóni. Almennt stafar hætta af fellingu trés af þessari stærðargráðu og mátti hún vera öllum viðstöddum ljós, án þess að sérstaklega væri varað við henni. Verður samkvæmt þessu ekki fallist á það með stefnanda að slys hans verði rakið til saknæmrar háttsemi B, jafnvel þótt lagt yrði til grundvallar að hann bæri að einhverju leyti ábyrgð á framkvæmd verksins, heldur verður slysið alfarið rakið til óhappatilviks og aðgæsluleysis stefnanda sjálfs. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Kolbrún Sævarsdóttir, settur héraðsdómari, kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., er sýknaður af kröfum stefnanda, A, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.