Hæstiréttur íslands

Mál nr. 461/2007


Lykilorð

  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi


         

Fimmtudaginn 17. apríl 2008.

Nr. 461/2007.

Ice-W ehf.

(Ólafur Eiríksson hrl.)

gegn

Atlantsskipum-Evrópu ehf.

(Magnús Guðlaugsson hrl.)

 

Vanreifun. Frávísun máls frá héraðsdómi.

Aðilar áttu í viðskiptum í nokkur ár um geymslu og sjóflutning á fiskafurðum Á ehf., síðar I ehf. Ágreiningur reis milli þeirra um skuld samkvæmt reikningi að fjárhæð 1.657.588 krónur. Skipafélagið A ehf. taldi reikninginn vera vegna leigu á fimm gámum sem félagið kvað stefnda hafa haft hjá sér á starfsstöð sinni. Stefndi mótmælti því enda hefði hann ekki tekið heila gáma á leigu hjá A ehf. heldur komið með afurðir sínar á starfsstöð A ehf. og geymt á brettum í gámum í eigu skipafélagsins. Hann hefði hins vegar aldrei tekið heila gáma á leigu heldur aðeins borið að greiða fyrir geymslu bretta. Í dómi Hæstaréttar var talið að umræddur reikningur og sérstakt yfirlit sem lagt var fram í héraði til útskýringar á reikningnum væri ekki í samræmi við kröfugerð A ehf. í málinu og þótti málatilbúnaður félagsins stangast á við e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vegna þessarar vanreifunar var fallist á kröfu I ehf. um að vísa málinu frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 21. júní 2007. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 8. ágúst sama ár og var héraðsdómi áfrýjað öðru sinni 5. september 2007. Áfrýjandi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi og honum dæmdur málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann sýknu af kröfu stefnda auk málskostnaðar fyrir Hæstarétti en að því frágengnu lækkunar á kröfu stefnda og að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum.

Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara að héraðsdómur verði staðfestur á þann hátt að áfrýjanda verði gert að greiða stefnda 1.307.375 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum frá 30. september 2005 til greiðsludags auk þess sem hann krefst staðfestingar á ákvæði héraðsdóms um málskostnað. Að því frágegnu krefst stefndi staðfestingar héraðsdóms að frádreginni greiðslu áfrýjanda á 1.418.846 krónum 4. september 2007. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi mun hafa skipt um nafn og heitir nú Ice-W ehf. í stað Á.B. ehf.

I

Aðilar áttu í viðskiptum í nokkur ár um geymslu og sjóflutning á fiskafurðum áfrýjanda. Stefndi heldur því fram fyrir Hæstarétti að áfrýjandi hafi leigt af sér frystigáma og haft á starfstöð sinni í Grindavík. Áfrýjandi kveðst á hinn bóginn ekki hafa leigt af stefnda heila gáma, heldur komið með afurðir sínar á starfstöð stefnda í Kópavogi og geymt þær á brettum í gámum stefnda þar. Hann hafi aldrei tekið heila gáma á leigu hjá stefnda heldur greitt fyrir geymslu bretta en vera kunni að hann skuldi stefnda fjárhæð fyrir þá geymslu sem sé önnur og lægri en stefndi krefst.

Í héraði krafðist stefndi þess upphaflega að áfrýjandi yrði dæmdur til að greiða sér skuld samkvæmt níu reikningum, samtals 3.035.442 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum. Áfrýjandi viðurkenndi réttmæti hluta af þessari fjárkröfu er varðaði flutning á afurðum en andmælti eins og áður segir kröfu um greiðslu fyrir leigu á frystigámum. Hann krafðist frávísunar málsins í héraði á þeim grunni að krafa stefnda væri svo vanreifuð að vörn yrði áfátt og að ekki væri unnt að leggja dóm á málið. Þeirri kröfu hans var hrundið með úrskurði héraðsdóms 15. janúar 2007 og málið tekið til efnismeðferðar. Í þinghaldi 5. febrúar 2007 féll stefndi frá kröfu samkvæmt tveimur af þessum reikningum. Þá lækkaði hann fjárhæð reiknings frá 6. júní 2005 vegna leigu á frystigámum úr 1.657.588 í 1.230.504 krónur. Eftir það nam höfuðstóll kröfu hans 2.537.879 krónum, sem er sá höfuðstóll er áfrýjandi var í héraði dæmdur til að greiða stefnda. Málavöxtum og málsástæðum aðila er nánar lýst í héraðsdómi.

II

Stefndi reisir kröfu sína um frávísun málsins frá Hæstarétti á því að áfrýjun þess sé ósamrýmanleg greiðslu áfrýjanda 4. september 2007 á hluta skuldarinnar samkvæmt dómsorði héraðsdóms.

Hinn 30. ágúst 2007, eftir að hafa tekið út fyrri áfrýjunarstefnu sína, en án þess að hafa þingfest málið fyrir Hæstarétti, sendi áfrýjandi stefnda bréf þar sem hann lýsti því að hann hygðist greiða þann hluta dæmdrar fjárhæðar er varðaði flutninga stefnda í þágu áfrýjanda. Hins vegar samþykkti hann ekki kröfu stefnda um leigu á frystigámum og myndi hann áfrýja á ný vegna hennar. Óskaði hann eftir að stefndi sendi sér „uppgjör á þeim hluta sem á að greiða“ ásamt staðfestingu á því að skrifað yrði upp á nýja áfrýjunarstefnu. Stefndi svaraði bréfi áfrýjanda sama dag með umbeðinni sundurliðun á þeim hluta skuldarinnar er áfrýjandi vildi greiða og lét þess getið að hann myndi árita nýja áfrýjunarstefnu um birtingu. Í sundurliðun stefnda var tekin með dæmdur málskostnaður í héraði og vextir af honum. Áfrýjandi sendi stefnda orðsendingu um hæl og kvaðst hafa gleymt að taka fram að hann vildi einnig leita endurskoðunar á málskostnaðinum. Í kjölfarið greiddi hann samkvæmt sundurliðun stefnda en án málskostnaðarins. Stefndi kveðst hafa ráðstafað greiðslunni inn á elsta ógreidda reikning í viðskiptum aðila en það er sá reikningur sem áfrýjandi vill ekki samþykkja. Samkvæmt þessu eru gögn málsins andstæð fullyrðingum stefnda um greiðslu áfrýjanda á ótilteknum hluta dómskuldar. Þau bera þvert á móti með sér að um hafi verið að ræða greiðslu á tilgreindum hluta skuldarinnar með fyrirvara um áfrýjun vegna þess sem eftir stóð. Var greiðslan því ekki til þess fallin að vekja þá trú hjá stefnda að áfrýjandi sætti sig við afgreiðslu héraðsdóms á úrlausn um dómkröfu hans og hygðist ekki áfrýja dóminum. Því verður ekki fallist á kröfu stefnda um frávísun málsins frá Hæstarétti.

III

Samkvæmt framanrituðu er hin umþrætta skuld reist á reikningi 6. júní 2005, upphaflega að fjárhæð 1.657.588 krónur. Eftir dóm héraðsdóms gaf skýrslu Eggert Hrafn Kjartansson sem af hálfu stefnda annaðist viðskipti við áfrýjanda um notkun vörubretta á starfstöð stefnda í Kópavogi. Lýsing hans á viðskiptunum var í samræmi við fullyrðingar áfrýjanda. Hann staðfesti jafnframt áritun sína á reikninga stefnda um geymslu á afurðum áfrýjanda, þess efnis að áfrýjandi skyldi greiða fyrir geymslu á brettum samkvæmt tilgreindri gjaldskrá. Þá eru í gögnum málsins gögn um bréfaskipti milli fyrirsvarmanns áfrýjanda og starfsmanns stefnda er tók við starfi Eggerts þar sem sá síðarnefndi lýsir yfir að stefndi sé að hreinsa upp önnur mál, eins og komist er að orði, en skorti upplýsingar um þessi viðskipti.

Í stefnu til héraðsdóms lýsir stefndi málsatvikum og málsástæðum svo að skuld áfrýjanda sé „vegna þjónustu stefnanda til handa stefnda á tímabilinu júní 2005 til mars 2006 skv. framlögðum reikningum“, alls níu talsins. Í þinghaldi 5. febrúar 2007 lækkaði stefndi eins og áður segir framangreindan reikning 6. júní 2005 í 1.230.504 krónur. Reikningurinn ber ekki með sér þá skuld sem stefndi kveður nú að til staðar sé og fylgdu honum ekki gögn til skýringar. Ekki er getið um það tímabil sem leiga á að hafa staðið yfir. Þá stendur meðal annars undir dálki er nefnist „magn“ tölurnar 1,00 og 26,00, en undir dálki er nefnist „ein. verð“ tölurnar 1.630.288 og 1.050. Stefnda reyndist ekki unnt að útskýra þessar tölur sérstaklega í samhengi við dómkröfu. Á reikningnum er einnig að finna aðrar upplýsingar sem stefndi taldi sig skýra frekar með sérstöku yfirliti sem lagt var fram í héraði. Á því yfirliti á meðal annars að koma fram hvenær áfrýjandi hafi haft tilgreinda gáma á leigu, alls fimm talsins. Þær dagsetningar sem nefndar eru á yfirlitinu eru aðrar en greinir í stefnu í héraði og er það að auki óskýrt um það tímabil er stefndi miðar við.

Samkvæmt framanrituðu er kröfugerð stefnda í ósamræmi við fyrirliggjandi gögn og málavexti eins og hann lýsir þeim. Er málatilbúnaður hans því í andstöðu við e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vegna þessarar vanreifunar er fallist á aðalkröfu áfrýjanda um frávísun málsins frá héraðsdómi.

Eftir atvikum máls og þessum úrslitum verður stefndi, með vísan til 2. mgr. 130. gr. og 166. gr. laga nr. 91/1991, dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Stefndi, Atlantsskip-Evrópa ehf., greiði áfrýjanda, Ice-W ehf., samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 23. mars 2007.

Mál þetta, sem dómtekið var 26. febrúar sl. að lokinni aðalmeðferð, er höfðað af Atlantsskipum-Evrópu ehf., Vesturvör 29, Kópavogi, á hendur stefnda Á.B. ehf., Verbraut 3, Grindavík, með stefnu birtri 30. maí 2006.  

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð 2.537.879 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 1.230.504 krónum frá 30. júlí 2005 til 30. september 2005, af 1.576.159 krónum frá þeim degi til 30. október 2005, af  2.138.104 krónum frá þeim degi til 30. desember 2005, af 2.141.652 krónum frá þeim degi til 30. apríl 2006 og af 2.537.879 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum að upphæð 334.906 krónum. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

Stefndi krafðist þess aðallega að málinu yrði vísað frá héraðsdómi en til vara krafðist hann sýknu að hluta af kröfum stefnanda og verulegrar lækkunar krafna hans. Þá krefst stefndi þess að dráttarvextir verði ekki dæmdir fyrr en frá dómsuppsögu, komi til þess að fallist verði á hluta af kröfugerð stefnanda. Loks krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt málskostnaðaryfirliti.

Málið var þingfest 28. júní 2006 og tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda 4. janúar 2007. Krafðist stefnandi þess að frávísunarkröfu stefnda yrði hafnað. Með úrskurði uppkveðnum 15. janúar sl. var frávísunarkröfunni hafnað. Í dómi þessum eru því eingöngu til úrlausnar endanlegar dómkröfur stefnanda samkvæmt ofanrituðu og varakrafa stefnda sem og málskostnaðarkrafa hans.          

I.

Málsatvikum lýsir stefnandi þannig að krafan byggist á 9 reikningum sem er nánar lýst með eftirfarandi hætti:

Nr.                 Útgáfudagur           Gjalddagi             Fjárhæð

1.                       06.06.2005             30.07.2005             1.657.588

2.                       16.06.2005             30.07.2005             42.003           

3.                       25.06.2005             30.07.2005             28.476           

4.                       16.08.2005             30.09.2005             10.547

5.                       26.08.2005             30.09.2005             335.108         

6.                       27.09.2005             30.10.2005             221.977

7.                       27.09.2005             30.10.2005             339.968

8.                       09.11.2005             30.12.2005             3.548

9.                       09.03.2006             30.04.2006             396.227

 

Stefnandi breytti kröfugerð sinni til lækkunar í þinghaldi 5. febrúar sl. Fjárhæð stefnukröfu samkvæmt reikningi dagsettum 6. júní 2005 var lækkuð í 1.230.504 krónur og fallið var frá kröfum samkvæmt reikningum dagsettum 16. og 25. júní 2005, sá fyrri að fjárhæð 42.003 krónur og sá seinni að fjárhæð 28.476 krónur.

Stefnandi er þjónustufyrirtæki á sviði flutninga á milli landa, ásamt tengdri starfsemi. Stefnandi kveður ofangreinda reikningar vera vegna þjónustu stefnanda til handa stefnda á tímabilinu júní 2005 til mars 2006 skv. framlögðum reikningum.    

Á árinu 2005 hafi verið greiddar inn á skuldina  eftirgreindar innborganir:

27.09.  kr. 1.000,  27.09. kr. 15.000,  20.10. kr. 9.628 og 13.02.2006 kr. 309.078, sem dragist frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi. Eftirstöðvar skuldarinnar hafi ekki fengist greiddar þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, en regla þessi fái m.a. lagastoð í 45., 47. og 54. gr. laga nr.  50/2000. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga  nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing vísast til 33. gr. laga nr. 91/1991.

                                                                           II.

Stefndi lýsir málsatvikum þannig að aðilar málsins hafi gert með sér munnlegan samning um að stefnandi tæki að sér allan sjófluting á vörum stenda, m.a. til Evrópu og Asíu. Hluti af þeim samningi og í raun forsenda hans af hálfu stefnda hafi verið að stefnandi gæti tekið við og geymt frystivöru hér á landi þar til hún væri seld eða send til útlanda. Stefnandi hafi hins vegar ekki yfir að ráða frystihúsi eða –rými líkt og samkeppnisaðilarnir hér á landi, Eimskip og Samskip, en stefndi hefði áður flutt vörur  sínar með Samskipum. Stefnandi hafi því boðið stefnda til leigu rými undir vörupalla í frystigámum sem stefnandi ætti og nýtti til sömu nota. Forsenda stefnda fyrir slíkri lausn hafi verið að hann fengi góð verð fyrir frystigeymsluna og var svo umsamið við stefnannda að stefndi greiddi sama verð fyrir hvern pall eða bretti sem geymd yrðu í gámunum og stefndi byði viðskiptavinum sínum fyrir sömu þjónustu í frystigeymslu í Vlissingen í Hollandi. Það verð sé u.þ.b. þriðjungur af því verði sem Samskip bjóði hér á landi fyrir geymslu palla í frystigeymslu sinni. Hafi stefndi gengið að því boði og flutt eftir það vörur sínar með stefnanda.

Ljóst hafi verið frá upphafi að stefndi sóttist eftir tvenns konar þjónustu „í einum pakka,“ í fyrsta lagi sjóflutningi og í öðru lagi frystigeymslu vöru á pöllum hér á landi. Séu ástæður geymslunnar þær að oft þurfi stefndi að bíða nokkurn tíma þar til nægjanlegt magn liggur fyrir og þar til unnið hafi verið upp í pantanir sem hagkvæmt sé að senda út í gámum á vegum stefnanda eða samkeppnisaðila hans.

Um nánara fyrirkomulag frystigeymslunnar skyldi fara eins og venja sé hér á landi. Það þýði að stefndi afhendi vörur á pöllum sem geymdir séu í frosti. Þegar nægjanlegt magn hafi verið selt og/eða safnað í frysti til þess að senda út með gámum, sé varan tekin saman og send. Síðan sé gert upp fyrir geymslu samkvæmt fjölda palla sem geymdir eru í frosti sem fara úr sendingu í gám, margfaldað með dagafjölda þeirra í geymslu.

Stefnandi hafi sent stefnda reikning vegna frystigámaleigu sumarið 2005 en stefndi hafi þegar gert athugasemd við stefnanda og hafi sagt að hann hefði ekki tekið á leigu frystigáma heldur hefði hann einungis leigt af stefnanda frystigeymslu fyrir palla pr. dag. Að öðru leyti hefði hann ekkert um það að segja hvar pallarnir væru geymdir, hvorki í hvaða gámi eða með hverju öðru sem stefnandi kysi að geyma í frosti með vörum stefnda, þ.e. stúfun frystigáma sem stefndi geymdi hjá stefnanda var honum óviðkomandi. Eggert, þáverandi starfsmaður stefnanda og viðsemjandi stefnda, hefði staðfest þetta samkomulag milli aðila sem áður er lýst sem og skilningi stefnda á því.

Hins vegar hafi það gerst um haustið 2005 að stefnandi hefði sent stefnda yfirlit reikningsviðskipta þeirra, þ. á m. yfir ógreidda reikninga fram til 27. september 2005. Á yfirlitinu hefði verið endurtekinn sá misskilningur að stefndi ætti að greiða stefnanda 1.657.588 krónur vegna gámaleigu. Stefndi hefði enn á ný gert athugasemd við þennan lið yfirlitsins og hefði framangreindur Eggert ritað á yfirlitið að leiðrétta bæri þennan misskilning og að fella ætti þennan lið niður og senda nýjan reikning sem yrði vegna pallaleigu í frosti miðað við verð á slíkri leigu í Vlissingen í Hollandi.

Í kjölfarið hefði stefndi greitt þá upphæð sem viðskiptayfirlitið bar með sér, að frádreginni kröfunni vegna gámaleigu, 2.521.593 krónur (4.179.181 – 1.657.588) auk nýs reiknings að fjárhæð 301.433 krónur eða alls 2.823.026 krónur. Hefði stefndi því talið sig skuldlausan við stefnanda.

Þegar fyrrgreindur Eggert hætti að vinna fyrir stefnanda, hefði tekið við störfum hans Óskar Sv. Friðriksson sem hafi sent stefnda tölvupóst til að spyrjast fyrir um reikning vegna gámaleigu. Hefði stefndi svarað erindi hans á sama veg og áður og jafnframt tekið fram að leysa þyrfti öll mál aðila í eitt skipti fyrir öll og vísað til þess að stefndi hefði orðið fyrir töluverðu tjóni vegna afhendingar á vörum stefnda í Rússlandi án þess að framvísað hefði verið frumritum farmbréfa. Ekki hefðu fengist skýr svör hjá stefanda en stefndi hefði ítrekað ósk um skýr svör í mars 2006 auk þess sem hann hefði margoft reynt að leysa málið munnlega en án árangurs.

Í greinargerð stefnda kemur fram að hann mótmæli hvorki réttmæti þeirra reikninga sem stefnt er fyrir og falla utan gámaleigu né þeirra reikninga sem stefndi hafi sannanlega greitt. Þeir reikningar sem falli utan gámaleigu nemi þó einungis 1.307.375 krónum. Hins vegar hafnar stefndi með öllu kröfum um gámaleigu enda sé stefnandi bundinn við munnlegt samkomulag aðila um pallaleigu. Hafi stefndi með ómótmæltum og sönnuðum innáborgunum sínum til stefnanda sem og áritunum fulltrúa stefnanda um rangindi eigin reikninga á hluta reikninga, sem stefnt sé fyrir, þegar viðurkennt að sýkna beri stefnda af greiðslu þeirra og að draga verði þessar fjárhæðir, þ.e. 1.657.588 krónur, 42.003 krónur og 28.476 krónur frá stefnukröfunni.

Kröfu stefnanda um dráttarvexti er mótmælt sem svo óvissri og umdeildri að dráttarvextir verði ekki lagðir á fyrr en frá dómsuppsögu. Stefndi vísar til skorts á innheimtubréfum og til ákvæða laga nr. 38/2001.

Um lagarök að öðru leyti vísar stefndi til meginreglna samningaréttar og kröfuréttar, þar á meðal til laga nr. 50/2000. Málskostnaðarkrafa stefnda er reist á ákvæðum 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun vísast til ákvæða laga nr. 50/1988.

III.

Ágreiningur er með aðilum um það hvort stefndi hafi tekið á leigu gáma hjá stefnanda til flutnings á frystivörum eins og stefnandi byggir mál sitt á eða hvort stefndi hafi einungis tekið á leigu palla til að setja í frystigáma á vegum stefnanda eins og stefndi heldur fram.

Í skýrslu Björns Halldórssonar, framkvæmdarstjóra stefnda, fyrir dóminum kom fram að stefndi hefði tekið ákvörðun um að flytja allar framleiðsluvörur sínar með stefnanda. Sú vara, sem stefndi hafi flutt með stefnanda, sé úrgangsvara og því ekki eiginleg markaðsvara þótt það séu allt að einu kaupendur að henni. Útflutningurinn hefði ekki borið háan flutningskostnað en samkvæmt samkomulagi aðila hefði stefndi átt kost á að geyma vörur í Vlissingen í Hollandi á lægsta verði ef hann þyrfti á geymslu að halda. Um það hefði hins vegar ekki verið um að ræða hér, heldur hefði vara stefnda verið í gámunum á meðan verið var að fylla þá af vörum annarra og hefði stefndi ekki átt að greiða sérstaklega fyrir það. Hefði verið um það rætt milli aðila að stefndi greiddi pallettuleigu, þ.e. leigu á brettum sem eru geymd í gámunum en starfsmaður stefnanda að nafni Eggert hefði séð um samningsgerð aðila.

Af hálfu stefnda hefur því verið haldið fram að áritanir á framlögðu reikningsyfirliti dagsettu 31. desember 2005 og á reikningi dagsettum 6. júní 2005 stafi frá fyrrgreindum Eggerti. Síðargreindur reikningur er í nafni Neptunus ehf. og er engin skýring fram komin á því með hvaða hætti sá reikningur tengist viðskiptum aðila máls þessa. Þá hefur framangreindur Eggert ekki komið fyrir dóminn til skýrslugjafar um áritanirnar eða önnur atriði sem að viðskiptum og hugsanlegum samningum aðila sneri. Þegar litið er til framlagðra reikninga og framanritaðs í heild verður að telja ósannað að samningar hafi komist á milli aðila með þeim hætti og að efni til eins og stefndi byggir kröfur sínar á. 

Óumdeilt er að aðilar málsins gerðu með sér munnlegan samning um að stefnandi tæki að sér allan sjóflutning á vörum stefnda, m.a. til Evrópu og Asíu eins og fram kemur í greinargerð stefnda. Þá hefur stefndi kannast við að hafa þegið þjónustu hjá stefnanda vegna geymslu á hráefni stefnda í gámum á vegum stefnanda og staðfesti Björn framkæmdastjóri stefnda það hér fyrir dóminum. Auk þess kom fram í skýrslu framkvæmdastjórans að uppgjör milli aðila væru enn ófrágengin. Ekkert er fram komið um að það verð fyrir gámaleigu, sem stefnandi gerir kröfu um, sé of hátt eða ósanngjarnt enda hefur því ekki verið borið við af hálfu stefnda. Stefndi hefur ekki mótmælt efni þeirra reikninga sem stefnt er fyrir og varða annað en gámaleigu, alls að fjárhæð 1.307.375 krónur. Þótt ljóst sé að stefnandi hefur undir rekstri málsins lækkað kröfur sínar verður ekki fallist á það með stefnda að endanlegar kröfur stefnanda séu svo óvissar og umdeildar að dráttarvextir verði ekki lagðir á tildæmda fjárhæð fyrr en við dómsuppsögu í málinu. Með hliðsjón af því sem að framan hefur verið rakið ber því að taka endanlegar kröfur stefnanda í málinu til greina eins og nánar segir í dómsorði.

Eftir niðurstöðu málsins og með vísan til ákvæða 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 286.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Stefndi, Á.B. ehf., greiði stefnanda, Atlantsskipum Evrópu ehf., 2.537.879 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 1.230.504 krónum frá 30. júlí 2005 til 30. september 2005, af 1.576.159 krónum frá þeim degi til 30. október 2005, af  2.138.104 krónum frá þeim degi til 30. desember 2005, af 2.141.652 krónum frá þeim degi til 30. apríl 2006 og af 2.537.879 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum að fjárhæð 16.000 krónur þann 27. september 2005, 9.628 krónur þann 20. október sama ár og 309.078 krónur þann 13. febrúar 2006.

Stefndi greiði stefnanda 286.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.