Hæstiréttur íslands
Mál nr. 685/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slitameðferð
- Réttindaröð
|
|
Miðvikudaginn 26. janúar 2011. |
|
Nr. 685/2010. |
Drómi hf. (Jóhann Pétursson hdl.) gegn Sparisjóðabanka Íslands hf. (Andri Árnason hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Réttindaröð.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfum D hf. var hafnað við slitameðferð S hf. Málið átti rætur að rekja til sölu tilekinna sparisjóða á eignarhlutum þeirra í I hf. nú S hf. Í tengslum við kaupsamninginn var gerður samningur um verðtryggingu hlutabréfa. D hf. greiddi S hf. tiltekna fjárhæð í samræmi við samninginn. Kvað D hf. greiðsluna hafa verið innta af hendi fyrir mistök þar sem forsendur fyrir greiðsluskyldu hans hafi ekki gengið eftir. Ekki var fallist á þetta og staðfesti Hæstiréttur hinn kærða úrskurð með vísan til forsendna hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst héraðsdómi 6. desember 2010 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2010, þar sem kröfu sóknaraðila, sem lýst er að neðan, var hafnað og honum gert að greiða 500 þúsund krónur í málskostnað. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinum kærða úrskurði verði hrundið og að aðalkrafa sóknaraðila við slit varnaraðila að fjárhæð 434.152.843 krónur verði viðurkennd sem sértökukrafa samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991. Til vara krefst sóknaraðili þess að krafa sömu fjárhæðar verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga. Í báðum tilvikum krefst sóknaraðili dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. febrúar til greiðsludags. Verður að skilja síðast nefnda kröfu svo að krafist sé viðurkenningar kröfu um dráttarvexti með sama hætti og viðurkenningar er krafist um höfuðstól. Þá krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að greiða honum málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Varnaraðili krefst staðfestingar á hinum kærða úrskurði og kærumálskostnaðar.
Verulega skortir á að málsaðilar hafi, meðal annars með framlagningu gagna, skýrt til fulls tilefni þess ágreinings sem úr var leyst með hinum kærða úrskurði. Þessir annmarkar eru þó ekki þess háttar að ekki sé unnt að leggja dóm á málið. Af gögnum þess verður ráðið að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hf. hafi ásamt nokkrum öðrum sparisjóðum selt fyrirtæki með heitinu SM 1 ehf., og að því er virðist fleiri aðilum, eignarhluti sína í Icebank hf., samtals annaðhvort 52,86% eða 56,58% af heildarhlutafé í því félagi. Virðist hafa verið samið um þetta í október 2007, en samningar þar að lútandi hafa ekki verið lagðir fram í málinu. Í tengslum við kaupsamninginn var síðan 2. desember 2007 gerður sá samningur um „verðtryggingu hlutabréfa“ sem mál þetta fjallar um og lýst er að meginefni í hinum kærða úrskurði. Þar er líka gerð grein fyrir því að sóknaraðili hafi tekið við réttindum Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. samkvæmt síðast nefndum samningi og að nafni Icebank hf. hafi verið breytt í nafn varnaraðila.
Með samningnum 2. desember 2007 veitti sóknaraðili varnaraðila tryggingu fyrir ákveðnu gengi á tilteknum hlutum í Exista hf. miðað við tilgreinda daga í nóvember 2008, en þessu er lýst í úrskurði héraðsdóms. Má ráða af gögnum málsins að hlutabréfin í Exista hf. hafi verið í eigu varnaraðila og sóknaraðili hafi í reynd verið að ábyrgjast kaupanda eða kaupendum hlutabréfanna ákveðið verðmæti á þeim með því að gangast undir þessa skuldbindingu við varnaraðila beint.
Í samræmi við samninginn 2. desember 2007 greiddi sóknaraðili 8. desember 2008 til varnaraðila 434.152.843 krónur, en það er sú fjárhæð sem greinir í kröfu hans. Kveður hann greiðsluna hafa verið innta af hendi fyrir mistök þar sem forsendur fyrir greiðsluskyldu sinni samkvæmt 6. gr. samningsins 2. desember 2007 hafi ekki gengið eftir. Er þar kveðið svo á að það sé „forsenda fyrir ábyrgð ábyrgðarveitanda samkvæmt samningi þessum að samningar um sölu Spron hf., BYR sparisjóðs, Nb.is-sparisjóðs hf., Sparisjóðs Kópavogs og Sparisjóðs Norðlendinga á samtals 52,68% hlutafjár í Icebank hf., ... hafi verið réttilega frágenginn, ásamt lánssamningnum og veðsamningnum og að kaupendur hafi ekki vanefnt samninga sína.“ Má fallast á það sem segir í hinum kærða úrskurði að skilja verði málflutning sóknaraðila svo að hann byggi á því að kaupendur eða að minnsta kosti hluti þeirra hafi vanefnt samninga sína.
Að veittum þessum skýringum á málavöxtum, sem virðist mega ráða af málsgögnum, verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Drómi hf., greiði varnaraðila, Sparisjóðabanka Íslands hf., 400.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2010.
I
Mál þetta sem þingfest var 23. júní 2010 var tekið til úrskurðar 27. október 2010. Sóknaraðili er Drómi hf., Lágmúla 6, Reykjavík, en varnaraðili er Sparisjóðabanki Íslands hf., Rauðarárstíg 27, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að krafa hans að fjárhæð 434.152.843 krónur verði viðurkennd sem sértökukrafa samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferð varnaraðila en til vara krefst hann þess að krafa hans sömu fjárhæðar verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Í báðum tilvikum krefst sóknaraðili dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 9. febrúar 2009 til greiðsludags. Þá krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að greiða honum málskostnað.
Dómkröfur varnaraðila eru aðallega þær að kröfum sóknaraðila verði hafnað en til vara að krafa sóknaraðila að fjárhæð 434.152.843 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. febrúar 2009 til 22. apríl 2009 njóti réttarstöðu við slitameðferð varnaraðila á grundvelli 113. gr. laga nr. 21/1991 og að dráttarvextir eftir 22. apríl 2009 njóti réttarstöðu samkvæmt 114. gr. sömu laga. Þá krefst varnaraðili þess að sóknaraðila verði gert að greiða honum málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti.
II
Atvik þau sem mál þetta á rætur sínar að rekja til varða sölu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf., hér eftir nefnt SPRON hf., Byrs sparisjóðs, NB.is sparisjóðs hf., Sparisjóðs Kópavogs og Sparisjóðs Norðlendinga á samtals 56,58% hlut í Icebank hf. (nú Sparisjóðabanka Íslands hf.varnaraðila málsins) og viðskiptum tengdum þeirri sölu. Í tengslum við þessi viðskipti gerðu SPRON hf. og varnaraðili með sér samning, dagsettan 2. desember 2007, um verðtryggingu hlutabréfa í Exista hf., sem kveður meðal annars á um ábyrgð SPRON hf. gagnvart varnaraðila en forsendur fyrir ábyrgð eru tilgreindar í 6. gr. samningsins. Skyldi greiðsludagur ábyrgðarinnar vera 8. desember 2008. Í 6. gr. samningsins, segir að forsenda fyrir ábyrgð sóknaraðila sé að samningar um sölu fyrrgreindra aðila á 52,86% hlutafjár í Icebank hf. hafi verið réttilega frágengnir ásamt lánasamningum og veðsamningum og að kaupendur hafi ekki vanefnt samninga sína.
Hinn 8. desember 2008 greiddi sóknaraðili 434.152.843 krónur inn á reikning varnaraðila í samræmi við ábyrgðarskuldbindingu samkvæmt samningi aðila. Telur sóknaraðili að greiðslan hafi verið innt af hendi fyrir mistök þar sem skilyrði 6. gr. fyrrnefnds samnings hafi ekki verið uppfyllt. Með bréfi lögmanns sóknaraðila til varnaraðila 9. janúar 2009 var þess krafist að greiðslan yrði bakfærð inn á reikning sóknaraðila fyrir lok dags hinn 12. janúar 2009 þar sem greiðslan hefði átt sér stað fyrir mistök hjá sóknaraðila. Var ekki fallist á endurgreiðslukröfuna en nokkur samskipti áttu sér stað í kjölfarið milli aðila þar sem kröfunni var haldið til streitu af hálfu sóknaraðila en henni hafnað af hálfu varnaraðila.
Hinn 21. mars 2009 ákvað Fjármálaeftirlitið að taka yfir vald hluthafafunda SPRON hf. og varnaraðila og víkja stjórn félaganna frá störfum á grundvelli 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Voru skilanefndir skipaðar yfir báðum félögunum og síðan slitastjórnir sem enn eru yfir báðum félögunum.
Samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlits var skilanefnd SPRON hf. gert að stofna sérstakt hlutafélag í eigu SPRON hf. sem taka skyldi við öllum eignum og tryggingarréttindum SPRON hf., þ.m.t. öllum veðréttindum. Á þeim grundvelli var hlutafélagið Drómi hf., sóknaraðili máls þessa, stofnað.
Sóknaraðili lýsti kröfu í bú varnaraðila hinn 3. nóvember 2009 á grundvelli 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og krafðist þess að varnaraðili léti sóknaraðila í té það fé sem hann ætti í vörslum varnaraðila.
Slitastjórn varnaraðila hafnaði kröfu sóknaraðila með tilkynningu 19. nóvember 2009 á þeim grundvelli að ekki væru skilyrði til greiðslu kröfunnar og mótmælti sóknaraðili höfnun slitastjórnarinnar með bréfi 26. nóvember 2009. Var haldinn fundur í kjölfarið á grundvelli 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 til þess að reyna að jafna ágreininginn og lagði sóknaraðili meðal annars fram viðbótargögn til stuðnings kröfu sinni. Slitastjórn varnaraðila sendi sóknaraðila bréf 28. maí 2010 þar sem fram kom að ekki væri fallist á röksemdir sóknaraðila og stæði afstaða slitastjórnarinnar til kröfunnar því óröskuð. Með því að ekki tókst að jafna ágreining aðila var honum vísað til dómsins með bréfi 8. júní 2010.
III
Sóknaraðili kveður kröfur sínar tilkomnar vegna samnings um verðtryggingu hlutabréfa sem gerður hafi verið í tengslum við sölu SPRON hf., Byrs sparisjóðs hf., NB.is sparisjóðs hf., Sparisjóðs Kópavogs og Sparisjóðs Norðlendinga á samtals 52,58% hlut þessara aðila í varnaraðila. Í samningnum sé kveðið á um ábyrgð sóknaraðila gagnvart varnaraðila, þ.e. að sóknaraðili verðtryggði tiltekið magn hluta að nafnvirði í Exista og að tilteknum skilyrðum uppfylltum skyldi sóknaraðili greiða varnaraðila ákveðna fjárhæð hinn 8. desember 2008 í samræmi við 5. gr. samningsins. Hafi samningurinn verið gerður samhliða viðskiptum með hluti í varnaraðila.
Heldur sóknaraðili því fram að ábyrgð samkvæmt samningnum skyldi ekki koma til greiðslu nema að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Í 6. gr. samningsins sem tekur til forsendna ábyrgðar komi skýrlega fram að forsenda sóknaraðila fyrir ábyrgð samkvæmt honum sé að samningar um sölu áðurgreindra aðila á samtals 52,86% hlutafjár í varnaraðila hafi verið réttilega frágengnir ásamt lánasamningum og veðsamningum og að kaupendur hafi ekki vanefnt samninga sína. Samningurinn hafi því verið órjúfanlega tengdur kaupum á hlut í varnaraðila og sé því í eðli sínu skuldbinding til greiðslu afsláttar væru ákveðin skilyrði uppfyllt við tiltekið tímamark. Hins vegar hafi forsendur ábyrgðar aldrei verið uppfylltar og hafi því ekki verið til staðar hinn 8. desember 2008 þar sem hluti kaupenda hefði vanefnt samninga sína um kaup á hlut í varnaraðila, þ.á m. einn stærsti einstaki kaupandinn að hlutum sóknaraðila í varnaraðila.
Í bréfi lögmanns sóknaraðila til varnaraðila 9. janúar 2009 og tölvupóstsamskiptum milli lögmannsins og varnaraðila í janúar og febrúar 2009 komi skýrt fram að umræddur kaupandi hafi vanefnt skuldbindingar sínar og þar með hafi greiðsluskylda sóknaraðila aldrei verið til staðar og greiðsla sú sem málið varði hefði því ekki átt að eiga sér stað. Þá hafi fleiri samningar ekki heldur verið réttilega frágengnir. Kaupin hafi því ekki verið réttilega frágengin eins og 6. gr. samningsins um verðtryggingu hlutabréfa kveði á um.
Þá vísar sóknaraðili til þess að varnaraðili hafi gert sams konar samning við Byr sparisjóð um verðtryggingu hlutabréfa eins og þann sem áður sé nefndur milli aðila þessa máls. Hafi sóknaraðili og Byr unnið að nokkru leyti saman að þessum viðskiptum. Í samskiptum lögmanns Byrs og varnaraðila á árinu 2008 og 2009 komi fram að Byr hafi neitað að greiða varnaraðila á grundvelli samnings um verðtryggingu hlutabréfa enda sé samningurinn í raun skuldbinding til greiðslu afsláttar en fyrir hafi legið að kaupin hafi verið stórlega vanefnd af nokkrum kaupendum auk þess sem vanefndir hefðu verið fyrirsjáanlegar hjá öðrum og því hefði legið fyrir að kaupin yrðu aðeins efnd að litlu leyti. Hafi í þessum bréfaskiptum verið byggt á sömu málsástæðum og sóknaraðili geri í máli þessu og því sé ljóst að skilyrði 6. gr. samnings aðila hafi ekki verið uppfyllt 8. desember 2008. Hafi frekari vanefndir legið fyrir og því hafi greiðsluskylda sóknaraðila ekki verið fyrir hendi.
Sóknaraðili byggir ennfremur á því, að greiðsla á 434.152.843 krónum til varnaraðila hinn 8. desember 2008 hafi verið innt af hendi fyrir mistök en millifærsla á fjárhæðinni hafi verið framkvæmd án þess að greiðsluskylda væri fyrir hendi. Sóknaraðili reisir því kröfu sína á réttarreglum um endurgreiðslu ofgreidds fjár. Ábyrgð samkvæmt nefndum samningi hafi verið skráð sem skuldbinding í kerfum sóknaraðila fyrir mistök og hafi því farið athugasemdalaust í gegn. Hafi sóknaraðili því innt af hendi greiðsluna í rangri trú í ljósi þess að forsendur ábyrgðar samkvæmt samningnum hafi aldrei verið til staðar. Til greiðsluskyldu hafi því aldrei stofnast.
Umræddur samningur sé um margt sérstakur og í honum sé ítarlega vikið að skilyrðum sem uppfyllt þyrftu að vera til þess að ábyrgð samkvæmt honum kæmi til greiðslu. Sé verulega óeðlilegt og ósanngjarnt ef slíkur samningur yrði kaupendum til hagsbóta þar sem kaupin hafi ekki verið að fullu efnd enda hafi verið um það samið að ábyrgð samkvæmt samningnum félli niður yrðu kaupin ekki efnd að fullu.
Þegar sóknaraðili hafi gert sér grein fyrir því að mistökin hefðu átt sér stað hafi hann þegar krafist þess að umrædd greiðsla yrði bakfærð inn á reikning sinn en án árangurs. Hafi því verið leitað til lögmanns sem hafi í janúar 2009 krafist peningafjárhæðarinnar fyrir hönd sóknaraðila en þær aðgerðir hafi ekki borið árangur fyrir fall varnaraðila. Hafi sóknaraðili því gert allt sem í hans valdi hafi staðið til leiðréttingar á mistökunum og ekki sýnt af sér tómlæti í málinu.
Í bréfi slitastjórnar varnaraðila til sóknaraðila 28. maí 2010 segi að ekki verði séð að varnaraðila hafi verið tilkynnt um að kröfulýsandi myndi bera fyrir sig ákvæði 6. gr. eða að varnaraðila hafi verið ljóst eða mátt vera ljóst að forsendur ábyrgðar hafi verið fallnar niður í skilningi umrædds ákvæðis. Telji sóknaraðili að af þessu megi ráða að varnaraðili hafni kröfu sóknaraðila á grundvelli grandleysis varnaraðila þegar greiðslan hafi átt sér stað. Því mótmæli sóknaraðili enda sé enga tilkynningarskyldu að finna í 6. gr. samningsins auk þess sem sóknaraðili hafi borið ákvæði greinarinnar fyrir sig allt frá því hann hafi hafist handa við að krefja varnaraðila um að endurgreiða féð sem sé eign sóknaraðila. Þá sé ekki hægt að fallast á það að varnaraðila hafi á þessum tíma ekki verið ljóst að forsendur ábyrgðar væru ekki til staðar. Hefði varnaraðili verið grandlaus hefði það ekki tryggt honum betri rétt gagnvart sóknaraðila þar sem hann geti ekki gert tilkall til eða haft eignarrétt yfir því fé sem sóknaraðili hafi greitt fyrir mistök. Slíkt standist hvorki meginreglum samninga-og kröfuréttar né meginreglum laga um endurgreiðslu ofgreidds fjár. Af bréfaskiptum Byrs sparisjóðs og varnaraðila megi ráða að varnaraðila hafi mátt vera ljóst að 6. gr. umrædds samnings um verðtryggingu hlutabréfa hafi ekki verið uppfyllt. Varnaraðili geti því með engu móti borið fyrir sig grandleysi. Því til viðbótar megi nefna að af bréfi varnaraðila til Byrs 27. febrúar 2009 megi ráða að varnaraðila hafi verið fullkunnugt um að vanefndir hafi átt sér stað og þær afleiðingar sem þær hefðu á efni samnings um verðtryggingu hlutabréfa frá 2. desember 2007.
Til áréttingar um grandsemi varnaraðila vísar sóknaraðili enn frekar til tölvupóstsamskipta þáverandi starfsmanns SPRON hf. og Geirmundar Kristjánssonar, þáverandi stjórnarformanns varnaraðila, sem þá hafi jafnframt gegnt stöðu sparisjóðsstjóra í Sparisjóði Keflavíkur. Beri þau með sér að varnaraðila hafi verið að fullu ljóst að stærsti kaupandi greindra viðskipta hefði ekki staðið við gerða samninga og komi þar skýrt fram að stjórnarformanni varnaraðila hafi verið fullkunnugt um að tiltekin greiðsla hafi ekki verið innt af hendi, sbr. tölvupóst, dagsettan 7. apríl 2008. Þá sé í bréfi SPRON hf. til sparisjóðsstjóra Sparisjóðsins í Keflavík frá 25. apríl 2008 að finna umfjöllun er lúti að vanefndum stærsta einstaka kaupanda hlutar sóknaraðila o.fl. í varnaraðila, en viðtakandinn hafi verið stjórnarformaður varnaraðila. Því sé ljóst að varnaraðila hafi verið að fullu kunnugt um stöðu mála. Einnig sé vísað til bréfs sama aðila til Byrs sparisjóðs frá 18. nóvember 2008 þar sem getið sé umræddra vanefnda sem staðfesti enn frekar grandsemi varnaraðila þegar hann hafi tekið við greiðslu frá sóknaraðila 8. desember 2008. Hafi vararaðila því verið ljóst að forsendur ábyrgðar samkvæmt samningi um verðtryggingu hlutabréfa hafi verið fallnar niður.
Varnaraðili hafi því tekið við fénu í slæmri trú og því virðist sem þeir erfiðleikar sem varnaraðili hafi staðið frammi fyrir hafi átt sinn þátt í því að fénu hafi verið haldið eftir í stað þess að láta sóknaraðila það í té. Þrátt fyrir það ástand sem þá hafi ríkt á fjármálamörkuðum og þau áhrif sem inngrip Fjármálaeftirlitsins í rekstur varnaraðila með ákvörðun sinni hinn 21. mars 2009 hafi haft sé ekki hægt að líta fram hjá því að sóknaraðili eigi tilkall til fjárins.
Krafa sóknaraðila sé reist á meginreglu íslensks réttar um endurheimtu ofgreidds fjár, þ.e. að ofgreitt fé beri að endurgreiða og hefði varnaraðili með vísan til þeirrar meginreglu átt að leiðrétta nefnd mistök án tafar enda eigi hann ekki með réttu tilkall til þess fjár sem sé eign sóknaraðila og lagt hafi verið inn á reikning varnaraðila fyrir mistök.
Í þessu máli verði að horfa til þess lykilatriðis að sóknaraðili hafi lagt féð inn á reikning varnaraðila fyrir mistök þar sem áður greind skilyrði greinds samnings hafi ekki verið uppfyllt. Því sé ítrekað að um sé að ræða fé sem sé eign sóknaraðila og geti varnaraðili og kröfuhafar hans því með engu móti átt tilkall til þeirra fjármuna. Hafi varnaraðila mátt vera ljóst að greiðslan hafi byggst á mistökum sóknaraðila og því sé nauðsynlegt að sóknaraðili endurheimti þau réttindi óskert. Því sé þess krafist með vísan til 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að varnaraðili afhendi sóknaraðila 434.152.843 krónur auk dráttarvaxta og kostnaðar.
Verði ekki fallist á aðalkröfu krefst sóknaraðili þess að krafa sömu fjárhæðar verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Kröfu þessa byggir sóknaraðili á sömu málsástæðum og rökum og aðalkröfu að þeim málástæðum undanskildum sem lúta sérstaklega að rökstuðningi vegna 109. gr. laga nr. 21/1991.
Um lagarök fyrir málskostnaðarkröfu vísar sóknaraðili til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV
Varnaraðili styður aðalkröfu sína um að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað þeim rökum að ekki séu skilyrði til að fallast á viðurkenningu á greiðslu umræddrar fjárhæðar sem fæli í sér endurgreiðslu til sóknaraðila á greiðslu sem innt hafi verið af hendi á grundvelli samningsskyldu og án fyrirvara hinn 8. desember 2008.
Í því sambandi byggir varnaraðili á því að umrædd greiðsla hafi verið innt af hendi á grundvelli samkomulags frá 2. desember 2007 milli SPRON hf. annars vegar og varnaraðila hins vegar. Hafi sá samningur um verðtryggingu hlutabréfa í Exista hf. falið í sér sjálfstæð réttindi til handa varnaraðila til að krefja SPRON hf. um fjárhæð sem hafi falið í sér tryggingu á tilteknu gengi bréfa í Exista hf. Hafi varnaraðili sem rétthafi samkvæmt samkomulaginu átt rétt á umræddri greiðslu 8. desember 2008 að tilteknum skilyrðum uppfylltum varðandi gengisþróun bréfa Exista hf. sem óumdeilt sé að hafi verið uppfyllt. Þá hafi varnaraðila borið skylda til að heimta umrætt fé af sóknaraðila og því sé ekki unnt að fallast á kröfu sóknaraðila um endurgreiðslu fjárins sem innt hafi verið af hendi á grundvelli samkomulags aðila frá 2. desember 2007.
Í 6. gr. samkomulagsins komi fram að það sé forsenda fyrir ábyrgð ábyrgðarveitanda SPRON hf. að samningar um sölu SPRON hf., Byrs sparisjóðs, NB.is sparisjóðs hf., Sparisjóðs Kópavogs og Sparisjóðs Norðlendinga á samtals 52,68% hlut í Icebank hf. hafi verið réttilega frágengnir ásamt lánasamningum og veðsamningum og að kaupendur hefðu ekki vanefnt samninga sína. Hafi umræddir samningar, þ.e. samningur aðila um verðtryggingu hlutabréfa í Exista hf., annars vegar og umræddir kaupsamningar um hluti í Icebank hf. hins vegar, verið óneitanlega tengdir. Engu að síður sé á því byggt af hálfu varnaraðila að engin skilyrði séu til að fallast á kröfur sóknaraðila í málinu.
Í þessu sambandi byggir varnaraðili á því að SPRON hf. hafi ekki, á því tímamarki sem krafan hafi komið á gjalddaga, tilkynnt varnaraðila að ábyrgðin hafi ekki verið virk að mati SPRON hf. eða að skilyrði hefðu verið fyrir því að líta svo á að forsendur ábyrgðar samkvæmt 6. gr. samkomulagsins hefðu breyst eða brostið. Af þeim sökum verði ekki fallist á að greiðslan hafi ekki verið innt af hendi í samræmi við skuldbindingar SPRON hf. á þeim tíma sem greiðslan hafi verið greidd til varnaraðila. Þvert á móti byggi varnaraðili á því að sóknaraðili hafi á umræddu tímamarki ekki freistað þess að víkja sér undan ábyrgð sinni þó svo að tilefni kunni að hafa verið til þess áður en að gjalddaga hafi komið hinn 8. desember 2008. Af þessu beri sóknaraðili allan halla. Sé sérstaklega tekið fram að engu skipti þó svo að þáverandi stjórnarformaður varnaraðila hafi í öðrum störfum sínum haft pata af því að viðræður væru í gangi milli sóknaraðila og tiltekinna kaupenda varðandi endanlega fjármögnun eiginfjárhluta vegna kaupanna.
Af hálfu varnaraðila sé sérstaklega á því byggt að þó svo að fallast mætti á að hluti kaupenda hefði á tilteknu tímamarki vanefnt samninga sína vegna kaupa á hlutum í varnaraðila, sem sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á, geti það ekki að lögum dugað til að líta megi svo á að skuldbinding SPRON hf. hafi verið talin fallin niður 8. desember 2008.
Að því leyti sem líta megi svo á að samningur varnaraðila og SPRON hf. um verðtryggingu hluta í Exista hf. tengist kaupsamningum nokkurra aðila um hluti í varnaraðila sé það eingöngu að því marki að með því hefði verið tryggt að verðmæti varnaraðila, þá Icebank hf., hefði verið til samræmis við þær forsendur sem aðilar kaupsamninganna hafi gefið sér við ákvörðun kaupverðs hluta í varnaraðila. Ljóst sé að sú skuldbinding hafi gilt gagnvart hverjum og einum kaupanda sem á slíkum forsendum hefði getað litið á umræddan samning um verðtryggingu hlutafjár sem forsendu kaupa af sinni hálfu. Hafi varnaraðila að því leyti borið skylda til að krefjast ábyrgðarfjárhæðarinnar úr hendi sóknaraðila. Þá sé ljóst að varnaraðili hafi sjálfur tryggt fjármögnun nokkurra kaupenda vegna kaupanna. Þegar af þeirri ástæðu að hluti kaupsamninganna hafi án efa verið réttilega efndir sé ekki unnt að fallast á kröfu sóknaraðila í málinu.
Því til viðbótar sé byggt á því að jafnvel þótt tilteknir kaupsamningar hefðu ekki verið réttilega efndir að mati sóknaraðila sé ekki annað upplýst en að SPRON hf. hafi hvorki á tímamarki gjalddaga ábyrgðarinnar né síðar gert ráðstafanir til að leysa sig undan umræddum kaupsamningum gagnvart einstökum kaupendum. Þeir teljist því enn í fullu gildi og hafi verið það hvort tveggja þegar greiðsla á ábyrgðinni hafi átt sér stað og einnig þegar krafa um endurgreiðslu hafi komið fram 9. janúar 2009. Verði því ekki séð að saman geti farið að krefjast þess að kaupendur efni að fullu kaupsamninga sína um hluti í Icebank hf. og að SPRON hf. líti svo á að hann sé laus undan ábyrgð samkvæmt samkomulaginu um verðtryggingu hlutabréfa.
Skipti engu í þessu sambandi að SPRON hf. eða sóknaraðili hafi síðar fallið frá frekari innheimtu umsamins kaupverðs samkvæmt umræddum samningum enda hafi það átt sér stað löngu eftir að umrædd greiðsla, sem krafa sé gerð um endurgreiðslu á, hafi átt sér stað.
Þá verði ekki fallist á það með sóknaraðila að það hafi þýðingu í málinu að Byr sparisjóður hafi ekki enn greitt ábyrgðarskuldbindingu samkvæmt sambærilegum samningi um verðtryggingu hlutafjár við varnaraðila og byggt það á þeim grundvelli að skilyrði ábyrgðar hafi ekki verið fyrir hendir á gjalddaga skuldbindingarinnar. Í því skyni sé vakin athygli á því að krafa hafi verið gerð á hendur Byr sparisjóði um greiðslu sambærilegrar ábyrgðar á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingar um verðtryggingu hlutabréfa í Exista hf. og muni kröfu þar að lútandi verða lýst við slitameðferð þess sparisjóðs.
Af hálfu varnaraðila sé sérstaklega á því byggt að ekki þyki lagaskilyrði vera fyrir hendi til þess að fallast á endurgreiðslu umræddrar fjárhæðar á grundvelli sjónarmiða um endurgreiðslu ofgreidds fjár. Greiðslan hafi byggt á samningi aðila um verðtryggingu hlutabréfa í Exista hf., dagsettum 2. desember 2007, en skuldbinding sóknaraðila hafi fallið í gjalddaga 8. desember 2008 og hafi fjárhæðin verið greidd í samræmi við samningsskuldbindinguna án nokkurs fyrirvara um réttmæti greiðslunnar. Í því sambandi veki varnaraðili athygli á því að almennt sé viðurkennt að fyrirvaralaus greiðsla geti jafngilt endanlegu uppgjöri milli aðila og þá einkum hafi greiðandinn jafnframt sýnt af sér tómlæti um leiðréttingu síðar. Auk þessa sé talið að sérstaklega rík ástæða sé til þess að skuldari geri fyrirvara um réttmæti greiðslu vilji hann koma í veg fyrir að hún verði talin endanlegt uppgjör í þeim tilvikum er honum megi vera ljóst að vafi geti leikið á um greiðsluskyldu. Hafi greiðandi látið slíkt undir höfuð leggjast sé ekki óeðlilegt að viðtakandi hafi ástæðu til að ætla að með fyrirvaralausri greiðslu hafi greiðandi fallið frá mótbárum sínum og samþykkt að um réttmæta kröfu hafi verið að ræða og þar með fyrirgert rétti sínum til endurheimtu. Þá hafi verið bent á að þegar greiðandi hafi tilkynnt kröfuhafa að ekki yrði greitt fyrr en ákveðin skilyrði væru uppfyllt, samþykki fengið o.s.frv., gæfi greiðsla viðtakanda réttmæta ástæðu til að ætla að um endanlegt uppgjör hefði verið að ræða og að greiðandinn hefði gengið úr skugga um að öll skilyrði til greiðslu hefðu verið uppfyllt. Eins og atvikum málsins sé háttað hafi varnaraðili ekki verið aðili að fyrrgreindum hlutafjárkaupum og því verði ekki annað séð en að staðið hafi sóknaraðila nær að tilkynna varnaraðila að skilyrði ábyrgðar væru ekki uppfyllt áður en til greiðslunnar hafi komið 8. desember 2008. Að öðrum kosti hefði varnaraðili mátt gera ráð fyrir því að greiðslan hefði verið lokauppgjör skuldbindingar enda hefði varnaraðili ekki haft ástæðu til að ætla annað en að fyrrgreindir hlutafjársamningar sóknaraðila og kaupenda hefðu enn verið í fullu gildi sem þeir hafi og verið á þeim tímapunkti. Að mati varnaraðila sé sóknaraðila því ekki stætt á að bera því við eftir á að forsendur ábyrgðar hafi ekki verið fyrir hendi þegar umrædd ábyrgðargreiðsla var greidd til varnaraðila á umsömdum gjalddaga enda hafi það verið algjörlega á valdi og áhættu sóknaraðila að meta hvort skilyrði ábyrgðar hefðu verið fyrir hendi eða ekki og tilkynna varnaraðila hefði hann talið greiðsluskyldu ábyrgðar ekki uppfyllta.
Þá veki varnaraðili jafnframt athygli á því að samkvæmt viðauka, dagsettum 28. nóvember 2007 við kaupsamning SM 1 ehf. og sóknaraðila frá 8. október 2007 hafi gjalddagi kaupverðs hlutafjárins verið 31. mars 2008 eða rúmum átta mánuðum áður en gjalddagi ábyrgðarskuldbindingarinnar hafi runnið upp. Af því leiði að sóknaraðila hafi verið eða mátt vera fullljóst á gjalddaga ábyrgðarskuldbindingarinnar hinn 8. desember 2008 að SM 1 ehf. hefði ekki staðið við skuldbindingu sína samkvæmt viðaukanum. Hefði sóknaraðila þá þegar borið að tilkynna varnaraðila að forsendur ábyrgðar hefðu ekki verið fyrir hendi hefði hann á annað borð ætlað að bera slíkar ástæður fyrir sig. Af því leiði einnig að hvorki verði fallist á það með sóknaraðila að hann hafi verið í rangri trú þegar ábyrgðarskuldbindingin var greidd til varnaraðila né að hann hafi litið svo á að greiðsluskylda hefði ekki stofnast. Verði því ekki fallist á að sóknaraðili hafi litið svo á að um mistök hafi verið að ræða þegar ábyrgðin var greidd enda hafi honum verið eða mátt vera fullljóst í rúma átta mánuði að SM 1 ehf. hefði ekki greitt kaupverð hlutafjárins á umsömdum gjalddaga. Þegar af þeirri ástæðu telji varnaraðili að ekki geti orðið af endurheimtu ábyrgðargreiðslu á grundvelli reglna um ofgreiðslu fjár þar sem skilyrði slíkrar endurheimtu sé að greiðandi hafi greitt fyrir mistök.
Verði engu að síður fallist á það með sóknaraðila að um mistök hefði verið að ræða þegar greiðslan hafi verið greidd telji varnaraðili að líta verði til þess að um óforsvaranleg mistök hafi verið að ræða þar sem sóknaraðili hefði auðveldlega getað gengið úr skugga um það áður en til greiðslunnar kom hvort greiðsluskilyrði hefðu verið uppfyllt þar sem sóknaraðila hafi staðið nær að rannsaka og kanna réttmæti kröfunnar enda hann í betri aðstöðu en varnaraðili til að meta réttilega umfang skuldbindingarinnar. Vegna aðstöðu sóknaraðila sem aðila að hlutafjárkaupum í varnaraðila verði að telja sanngjarnt að hann beri áhættuna af mistökunum enda hafi hann haft greiðari aðgang en varnaraðili að því að kynna sér hvort skilyrði ábyrgðargreiðslu hefðu verið uppfyllt. Vísi varnaraðili í þessu sambandi til þess að almennt sé viðurkennt að því auðveldara sem það hefði verið að koma í veg fyrir mistök þeim mun ríkari ástæða sé til að meta vanrækslu til sakar. Þegar greiðandi hafi þannig í ógætni átt sök á því að greitt hafi verið án þess að greiðsluskilyrði hefðu verið uppfyllt sé endurheimta að jafnaði útilokuð.
Af þessu leiði að varnaraðili hafi réttilega mátt ganga út frá því að greiðsla sóknaraðila fæli í sér viðurkenningu af hálfu hans á því að skilyrði umræddrar ábyrgðar hefðu verið fyrir hendi. Hafi greiðslan þannig skapað það traust hjá varnaraðila að um almennt uppgjör skuldbindingar hefði verið að ræða. Verði því að telja að greiðslan hafi verið algjörlega á áhættu sóknaraðila og geti þannig ekki komið til álita sem grundvöllur endurheimtukröfu. Því verði ekki fallist á að sóknaraðili eigi tilkall til þeirra fjármuna sem inntir voru af hendi til varnaraðila 8. desember 2008.
Telji varnaraðili að þessar málsástæður hverja um sig og til samans svo og heildarmat á aðstæðum öllum í málinu eigi að leiða til þess, að sóknaraðili eigi ekki tilkall til þeirra fjármuna sem hann hafi innt af hendi til varnaraðila.
Til stuðnings varakröfu varnaraðila um að krafa sóknaraðila skuli njóta stöðu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, en ekki 109. gr. sömu laga, verði ekki fallist á aðalkröfu varnaraðila, vísar varnaraðili til þess, að umræddir fjármunir séu ekki sérgreindir í fjárhag varnaraðila í skilningi 109. gr. laga nr. 21/1991 og hafi ekki verið, hvorki við upphaf slitameðferðar né við móttöku þeirra hinn 8. desember 2008. Umræddir fjármunir hafi verið greiddir inn á almennan bankareikning varnaraðila og séu á engan hátt sérgreindir svo að unnt sé að afhenda þá með þeim hætti sem áskilið sé í 109. gr. gjaldþrotaskiptalaganna.
Ljóst sé einnig að endurgreiðslukrafa sóknaraðila sé almenns eðlis og geti undir engum kringumstæðum haft aðra réttarstöðu en almenn krafa í skilningi 113. gr. laga nr. 21/1991 enda komi önnur réttindaflokkun ekki til greina. Slík endurgreiðslukrafa geti ekki lotið að sérgreindum fjármunum í vörslum varnaraðila, þ.e. fjármunum í vörslum varnaraðila sem teljist sérstaklega sérgreind eign sóknaraðila.
Þá verði að skilja kröfugerð sóknaraðila svo að krafist sé dráttarvaxta til greiðsludags, þ.e. umfram upphafsdag slitameðferðar hinn 22. apríl 2009. Í kröfulýsingu hafi einungis verið gerð krafa um slíka vexti til þess dags. Verði vart talið að sóknaraðili geti með þeim hætti bætt við kröfugerð þá sem leiða megi af kröfulýsingunni. Í kröfulýsingunni sé hins vegar að því er virðist gerð krafa um dráttarvexti frá greiðsludegi, þ.e. 8. desember 2008, en í kröfugerð þessa máls sé upphafstími dráttarvaxta tiltekinn 9. febrúar 2009. Telja verði sóknaraðila bundinn af síðarnefndri kröfugerð að þessu leyti. Þá sé þess krafist af hálfu varnaraðila að dráttarvextir eftir 22. apríl 2009 teljist til eftirstæðra krafna, sbr. 114. gr. laga nr. 21/1991.
Kröfu sína um málskostnað styður varnaraðili við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og varakröfu sína byggir hann á 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
V
Í máli þessu er deilt um það hvort sóknaraðili eigi kröfu á hendur varnaraðila og ef svo er hvernig skipa skuli henni í skuldaröð við slitameðferð varnaraðila.
Sóknaraðili byggir kröfur sínar á samningi um verðtryggingu hlutabréfa í Exista hf. sem gerður var í tengslum við sölu SPRON hf. og fleiri aðila um sölu á 52,58% hlut þeirra í forvera varnaraðila Icebank hf. Samkvæmt samningi aðila verðtryggði sóknaraðili 84.301.523 hluti að nafnvirði í Exista hf. Kveður umræddur samningur á um ábyrgð sóknaraðila gagnvart varnaraðila þannig að ef gengi Exista hf. verði lægra en 31,0 samkvæmt útreikningi á lokaverði sem útlistað er í 3. gr. samningsins eigi varnaraðili fjárkröfu á hendur sóknaraðila sem nemi mismuni á verðmæti tilgreindra hluta í Exista hf. vegna gengismunarins. Þá segir í samningi aðila að krafan skuli koma til greiðslu 8. desember 2008 enda hafi varnaraðili sett fram kröfu um greiðslu fyrir þann tíma. Í 6. gr. samningsins er fjallað um forsendur ábyrgðar sóknaraðila. Þar segir að það sé forsenda fyrir ábyrgð sóknaraðila samkvæmt samningnum að samningar um sölu SPRON hf., BYR sparisjóðs, Nb.is-sparisjós hf., Sparisjóðs Kópavogs og Sparisjóðs Norðlendinga á hlutafé í Icebank hf. hafi verið réttilega frágengnir, ásamt lánssamningum og veðsamningum og að kaupendur hafi ekki vanefnt samninga sína.
Ekki er ágreiningur um fjárhæðir í máli þessu og óumdeilt að skilyrði samnings aðila varðandi gengisþróun hlutabréfa í Exista hf. voru uppfyllt. Þá liggur fyrir að sóknaraðili greiddi kröfu varnaraðila í samræmi við samninginn hinn 8. desember 2008 og var hún greidd án nokkurs fyrirvara. Telur sóknaraðili að forsendur ábyrgðar hafi ekki verið uppfylltar og því hafi greiðsluskylda hans ekki verið fyrir hendi og greiðslan því verið framkvæmd vegna mistaka. Telur sóknaraðili að svo virðist sem ábyrgð samkvæmt samningnum hafi fyrir mistök verið skráð sem skuldbinding í kerfum sóknaraðila og því hafi hún farið athugasemdalaust í gegn umrætt sinn. Hafi sóknaraðili þannig innt greiðsluna af hendi í rangri trú.
Eins og fram er komið kemur fram í 6. gr. samnings aðila að forsenda fyrir ábyrgð sóknaraðila sé að samningar við kaupendur hluta í varnaraðila hafi verið réttilega frágengnir, ásamt lánasamningum og veðsamningum og að kaupendur hafi ekki vanefnt samninga sína. Ekki liggur annað fyrir en að gengið hafi verið réttilega frá tilvitnuðum samningum enda verður málatilbúnaður sóknaraðila ekki skilinn öðruvísi en að hann byggi kröfur sínar á því að kaupendur hafi vanefnt samninga sína.
Kaupsamningar varðandi kaup á hlutum í varnaraðila liggja ekki fyrir í máli þessu en fyrir liggur viðauki við kaupsamning við einn kaupendanna, SM 1 ehf., þar sem breytt var ákvæði kaupsamnings um greiðslu kaupverðs þannig að 32,6% af höfuðstól umsamins kaupverðs skyldi greitt 31. mars 2008 en eftirstöðvar kaupverðsins við undirritun samningsviðaukans 28. nóvember 2007. Fyrir liggur í málinu að SM 1 ehf. greiddi ekki á gjalddaga samkvæmt viðauka hinn 31. mars 2008 og bera gögn málsins með sér að ágreiningur kom upp vegna meintrar ábyrgðar Sparisjóðs Keflavíkur á þeirri greiðslu gagnvart seljendum en tölvupóstsamskipti fóru meðal annars fram milli sóknaraðila og Sparisjóðs Keflavíkur vegna þessa. Sóknaraðili var einn af seljendum hlutanna og því aðili að kaupsamningum þeim sem hér um ræðir en varnaraðili var ekki aðili að þeim samningum. Við greiðslu hinn 8. desember 2008 hlaut sóknaraðila því að vera það ljóst að fyrrgreindur kaupandi SM 1 ehf. hefði ekki staðið skil á kaupverði hluta í varnaraðila á tilgreindum tíma en skilja verður málatilbúnað sóknaraðila þannig að það sé megin ástæða þess að hann telji að forsendur fyrir ábyrgð samkvæmt samningi aðila hafi brostið en varnaraðili hefur ekki lagt fram nein haldbær gögn um að aðrir kaupsamningar hafi verið vanefndir.
Í ljósi þess að sóknaraðili er aðili að þeim samningum sem vísað er til í 6. gr. samnings aðila auk þess sem ábyrgð hans veltur á því hvort skilyrðum ákvæðisins hafi verið fullnægt verður að telja að það hafi staðið sóknaraðila nær að kanna til hlítar hvort forsendur ábyrgðar hans væru fyrir hendi þegar hann greiddi samkvæmt samningi aðila á gjalddaga hans. Þar sem sóknaraðili bar ekki fyrir sig að forsendur væru brostnar mátti varnaraðili því gera ráð fyrir að greiðslan væri uppgjör skuldbindingar enda hafði hann ekki ástæðu til að ætla annað. Þykir því ekki skipta máli hvort varnaraðili hafi vitað eða mátt vita af því að einhver vanskil væru á kaupum hlutanna. Þá þykir sóknaraðili ekki hafa sýnt fram á það svo óyggjandi sé að þær forsendur sem greinir í ákvæði samnings aðila fyrir greiðsluskyldu hafi ekki verið fyrir hendi þannig að greiðsluskylda hafi ekki stofnast af hans hálfu samkvæmt samningi aðila.
Sóknaraðili greiddi samkvæmt samningi aðila á gjalddaga athugasemdalaust og mátti varnaraðili treysta því að greiðslan væri réttmæt og í samræmi við samning aðila. Verður því ekki séð að sóknaraðili hafi greitt í rangri trú eða vegna mistaka eða að óeðlilegt og ósanngjarnt sé að samningur aðila hafi verið efndur svo sem sóknaraðili heldur fram. Þá verður sóknaraðili að bera allan hallann af því hvernig hann skráir skuldbindingar sínar í kerfum sínum og leysir það hann ekki undan ábyrgð. Þá verður ekki séð að það hafi þýðingu í máli þessu að Byr sparisjóður hafi ekki enn greitt ábyrgðarskuldbindingu samkvæmt sambærilegum samningi um verðtryggingu hlutafjár og hér er fjallað um.
Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið verður kröfum sóknaraðila hafnað í máli þessu.
Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 krónur þar með talinn virðisaukaskattur.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Íris Björk Hreinsdóttir hdl. en af hálfu varnaraðila flutti málið Andri Árnason hrl.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kröfum sóknaraðila, Dróma hf., er hafnað í máli þessu.
Sóknaraðili greiði varnaraðila, Sparisjóðabanka Íslands hf. 500.000 krónur í málskostnað.