Hæstiréttur íslands

Mál nr. 307/2001


Lykilorð

  • Gjaldþrotaskipti
  • Riftun
  • Gjöf
  • Hjón
  • Kyrrsetning


Miðvikudaginn 24

 

Miðvikudaginn 24. apríl 2002.

Nr. 307/2001.

Petra Jónsdóttir

(Sveinn Skúlason hdl.)

gegn

þrotabúi Kristjáns J. Karlssonar

(Ásgeir Magnússon hrl.)

 

Gjaldþrotaskipti. Riftun. Gjöf. Hjón. Kyrrsetning.

K, sem einn var þinglýstur eigandi fasteignar, ráðstafaði hluta söluverðs eignarinnar til eiginkonu sinnar, P. Eftir að bú K var tekið til gjaldþrotaskipta leitaði þrotabúið riftunar á greiðslum þessum. P hafði ekki tekist að sanna að umrædd fasteign hefði að hluta verið hjúskapareign hennar og var umrædd ráðstöfun K því talin gjafagerningur í merkingu 131. gr. laga nr. 21/1991. Með vísan til 2. mgr. 131. gr. var rift greiðslu sem K hafði innt af hendi til P rúmum sex mánuðum fyrir frestdag, þar sem P hafði ekki leitast við að sýna fram á að K hefði þá verið gjaldfær. Greiðslum, sem inntar voru af hendi á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag var rift með vísan til 1. mgr. 131. gr. laganna. Greiðsla sem innt var af hendi eftir að bú K var tekið til gjaldþrotaskipta var talin ólögmæt og P gert að endurgreiða hana án þess að til riftunar þyrfti að koma á þeirri ráðstöfun. P var samkvæmt þessu dæmd til að greiða þrotabúi K heildarfjárhæð þessara greiðslna og staðfest var kyrrsetning í fasteign P til tryggingar þeirri kröfu.   

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. ágúst 2001. Hún krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Málavextir eru þeir að áfrýjandi og Kristján J. Karlsson munu hafa gengið í hjúskap 23. mars 1969. Af gögnum málsins verður ráðið að Kristján hafi 22. nóvember 1968 gert kaupsamning um hluta af húseigninni Grænutungu 8 í Kópavogi og fengið afsal fyrir eigninni 12. nóvember 1970. Í aðilaskýrslu áfrýjanda fyrir héraðsdómi kom fram að hjónin hafi eftir giftinguna flutt þar inn. Þessa eign seldi Kristján og gaf út afsal fyrir henni 13. desember 1972. Hann fékk síðan afsal 25. apríl 1973 fyrir „lóðinni nr. 17 við Víðilund í Garðahreppi“. Ekki liggur fyrir í málinu kaupsamningur um þessa eign, en áfrýjandi bar fyrir héraðsdómi að um hafi verið að ræða kaup á fokheldu húsi og hafi andvirði íbúðarinnar að Grænutungu 8 gengið til þeirra. Fasteignin að Víðilundi 17 var seld með afsali 26. október 1984. Kristján fékk 15. maí 1984 afsal fyrir „byggingarlóðinni nr. 29 við Blikanes í Garðabæ.“ Báru áfrýjandi og Kristján fyrir héraðsdómi að jafnframt hafi verið samið við seljanda lóðarinnar um að hann byggði hús á henni. Hafi andvirði hússins við Víðilund 17 verið varið til byggingarinnar.

 Með kaupsamningi 9. apríl 1999 var fasteignin Blikanes 29 seld og var afsal jafnframt gefið út fyrir henni sama dag. Í þeim skjölum voru Kristján og áfrýjandi bæði tilgreind sem seljendur. Söluverð eignarinnar var 19.500.000 krónur. Af þeirri fjárhæð skyldu kaupendur greiða alls 18.331.291 krónu með peningum í sex áföngum á tímabilinu frá undirritun kaupsamningsins til 10. júní 2000, en að öðru leyti átti að greiða kaupverðið með því að kaupendurnir tækju að sér áhvílandi veðskuldir að fjárhæð samtals 1.168.709 krónur. Með kaupsamningnum tóku seljendur að sér að létta verulegum veðskuldum af eigninni. Af þeim sökum mun hafa orðið að samkomulagi að nafngreindur lögmaður tæki við öllum greiðslum frá kaupendum og sæi um að aflétta veðskuldunum. Af þeim hluta greiðslna kaupendanna, sem ekki þurfti að verja á þennan hátt, ráðstafaði lögmaðurinn fjórum sinnum fé í þágu áfrýjanda. Þannig greiddi lögmaðurinn 7. maí 1999 Lögfangi ehf. 446.900 krónur vegna skuldar áfrýjanda og þrívegis innti hann af hendi greiðslur vegna kaupa hennar á fasteign að Dofraborgum 13 í Reykjavík, en nánar tiltekið voru það 2.514.043 krónur 11. október 1999, 535.000 krónur 15. nóvember 1999 og 1.600.000 krónur 4. febrúar 2000.

Bú Kristjáns J. Karlssonar var tekið til gjaldþrotaskipta 18. janúar 2000. Frestdagur við skiptin er 16. nóvember 1999. Í máli þessu leitar þrotabúið riftunar á framangreindum ráðstöfunum á hluta af andvirði fasteignarinnar Blikaness 29 í þágu áfrýjanda og greiðslu á því fé, sem þannig var varið. Að kröfu stefnda kyrrsetti sýslumaðurinn í Reykjavík 17. júlí 2000 eignarhluta áfrýjanda í Dofraborgum 13 til tryggingar greiðslukröfu hans. Í málinu er jafnframt leitað staðfestingar á þeirri gerð.

II.

Áfrýjandi ber fyrir sig að fasteignin Blikanes 29 hafi að hluta verið í hjúskapareign sinni. Af þeim sökum hafi ekki verið um að ræða riftanlegan gjafagerning úr hendi Kristjáns J. Karlssonar þegar hluta af söluverði eignarinnar var ráðstafað í þágu áfrýjanda. Um þessa málsástæðu áfrýjanda verður að líta til þess að Kristján J. Karlsson var einn þinglýstur eigandi að Blikanesi 29, svo og þeim húseignum, sem hjónin bjuggu í áður og að framan er greint frá. Þinglýst eignarheimild Kristjáns veitir líkindi fyrir því að fasteignin Blikanes 29 hafi í heild verið hjúskapareign hans, sbr. dóm Hæstaréttar í dómasafni 1998, bls. 121. Til að hnekkja þeim líkindum nægir áfrýjanda ekki að sanna að henni hafi verið unnt að láta af hendi fé til að greiða hluta kaupverðs eða byggingarkostnaðar eignarinnar, heldur verður áfrýjandi að sýna fram á að hún hafi gert það í reynd í nánar tilteknum tilvikum, sbr. dóm Hæstaréttar í dómasafni 1997, bls. 2252. Áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt gögn, er sýna að á árinu 1969 hafi hún innleyst skyldusparnað að fjárhæð 23.767 krónur og að á árinu 1974 hafi hún tekið tvö lán hjá lífeyrissjóði að fjárhæð samtals 400.000 krónur. Þótt hún hafi þannig fært fram nokkrar líkur á að hún hafi getað lagt fram eitthvað fé til kaupa á þeim eignum, sem hjónin bjuggu áður í og gengu síðar til kaupa á Blikanesi 29, hefur hún engin gögn lagt fram til að sýna að hún hafi raunverulega innt af hendi greiðslur í þessu skyni. Þannig hafa hvorki verið lögð fram gögn til að sanna tilteknar greiðslur hennar til kaupanna né kaupsamningar um þær fasteignir, sem hér um ræðir, til að sýna kaupverð þeirra eða tilhögun á greiðslu þess, sem tengja mætti við hugsanleg framlög hennar. Áfrýjanda hefur því ekki tekist að sanna að fasteignin Blikanes 29 hafi að hluta verið hjúskapareign hennar. Var ráðstöfun á hluta andvirðis eignarinnar til áfrýjanda því gjafagerningur í merkingu 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

 Eins og að framan er rakið var í þágu áfrýjanda innt af hendi greiðsla af andvirði fasteignarinnar að fjárhæð 446.900 krónur 7. maí 1999 eða rúmum sex mánuðum fyrir frestdag við gjaldþrotaskipti stefnda. Þar sem áfrýjandi hefur ekki leitast við að sýna fram á að Kristján J. Karlsson hafi þá verið gjaldfær verður með vísan til 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 að fallast á kröfu stefnda um riftun þessarar ráðstöfunar. Með vísan til 1. mgr. sömu lagagreinar verður jafnframt fallist á kröfu stefnda um riftun á ráðstöfun 2.514.043 króna 11. október 1999 vegna kaupa áfrýjanda á fasteign að Dofraborgum 13 og ráðstöfun á 535.000 krónum í sama skyni 15. nóvember 1999, en báðar þessar greiðslur voru inntar af hendi á síðustu sex mánuðunum fyrir frestdag. Þegar síðasta greiðslan að fjárhæð 1.600.000 krónur fór fram 4. febrúar 2000 vegna kaupa áfrýjanda á Dofraborgum 13 voru liðnar rúmar tvær vikur frá því að úrskurður gekk um gjaldþrotaskipti á búi Kristjáns J. Karlssonar. Þrotamaðurinn hafði þá misst rétt til að ráða yfir þeim réttindum, sem til búsins skyldu falla, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga nr. 21/1991. Gat áfrýjandi ekki unnið rétt á hendur búinu samkvæmt 3. mgr. þeirrar lagagreinar, enda hlaut henni þá að vera kunnugt um gjaldþrotaskipti á búi eiginmanns síns. Ráðstöfun síðastgreindrar fjárhæðar var því ólögmæt og ber áfrýjanda að endurgreiða hana stefnda án þess að til riftunar þurfi að koma á þessari ráðstöfun.

Með vísan til þess, sem að framan greinir, verður áfrýjandi dæmd til að greiða stefnda heildarfjárhæð þeirra greiðslna, sem ráðstafað var í þágu hennar af söluverði fasteignarinnar að Blikanesi 29, eða 5.095.943 krónur með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir frá 17. ágúst 2000, en ekki verða dæmdur vextir samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 fram til þess tíma, svo sem stefndi hefur krafist. Þá verður staðfest kyrrsetning, sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði 17. júlí 2000 í eignarhluta áfrýjanda í fasteigninni Dofraborgum 13 til tryggingar þeirri kröfu.

Áfrýjandi verður dæmd til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Rift er greiðslum Kristjáns J. Karlssonar til áfrýjanda, Petru Jónsdóttur, á samtals 3.495.943 krónum, sem inntar voru af hendi 7. maí, 11. október og 15. nóvember 1999.

Áfrýjandi greiði stefnda, þrotabúi Kristjáns J. Karlssonar, 5.095.943 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 17. ágúst 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Áfrýjandi greiði stefnda samtals 750.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var 10. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Ásgeiri Magnússyni hrl. f.h. þrotabús Kristjáns J. Karlssonar, kt. 310348-2019, Skipholti 50b, Reykjavík, á hendur Petru Jónsdóttur, kt. 030648-2189, Dofraborgum 13, Reykjavík, með stefnu sem birt var 17. ágúst 2000.

Dómkröfur stefnanda eru:

„I.  Að rift verði með dómi afhendingargerningi Kristjáns J. Karlssonar kt. 310348-2019 til Petru Jónsdóttur kt. 030648-2189, sem felst í eftirfarandi peningagreiðslum til hennar:

1)  Greiðslu að fjárhæð kr. 446.900, sem afhent var 07.05. 1999.

2)  Greiðslu að fjárhæð kr. 2.514.043, sem afhent var 11.10. 1999.

3)  Greiðslu að fjárhæð kr. 535.000, sem afhent var 15.11. 1999.

4)  Greiðslu að fjárhæð kr. 1.600.000, sem afhent var 04.02. 2000.

II.  Að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda samtölu ofangreindra fjárhæða, þ.e. kr. 5.095.943 með ársvöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31.05. 2000 til stefnubirtingardags, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá stefnu-birtingardegi til greiðsludags.

III.  Að stefnda verði dæmd til að þola staðfestingu á kyrrsetningargerð Sýslumannsins í Reykjavík, sem fram fór í fasteign hennar að Dorfaborgum 13, Reykjavík þann 17.07. 2000.

Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu að mati réttarins eða skv. framlögðum málskostnaðarreikningi, þ. á m. alls kostnaðar við framangreinda kyrrsetningu."

Stefnda krefst þess aðallega að verða alfarið sýknuð af öllum dómkröfum stefnanda.  Jafnframt krefst hún þess að hafnað verði kröfu stefnanda um staðfestingu kyrrsetningargerðar sýslumannsins í Reykjavík, sem fram fór í fasteigninni Dorfa­borgum 13, Reykjavík, þann 17. júlí 2000.  Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda stefndu að skaðlausu og með hliðsjón af framlögðum málskostnaðar-reikningi auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun, þar sem stefnda sé ekki virðis­aukaskyldur aðili.

Málavextir eru að 18. janúar 2000 var bú Kristjáns J. Karlssonar, kt. 310348-2019, tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness.  Var Ásgeir Magnússon hæstaréttarlögmaður skipaður til að gegna starfi skiptastjóra í þrotabúinu.  Á fundi 9. febrúar 2000 tjáði Kristján skiptastjóra að hann væri eignalaus en hann hefði áður átt fasteign að Blikanesi 29, Garðabæ, sem hann hefði selt 9. apríl 1999 fyrir um það bil 20.000.0000 króna og hefði kaupverðið rétt dugað fyrir áhvílandi veðskuldum.

Samkvæmt kaupsamningi var einbýlishúsið að Blikanesi 29 í Garðabæ selt 9. apríl 1999 á 19.500.000 krónur.  Við undirritun kaupsamnings 5.000.000 króna.  Þann 10. júlí 1999 3.000.000 króna; 10. október 1999 3.000.000 króna; 10. janúar 2000 3.000.000 króna; 10. apríl 2000 3.000.000 króna og 10. júní 2000 1.331.291 króna.  Þá yfirtaka kaupendur áhvílandi veðskuldir samtals að fjárhæð 1.168.707 krónur.

Krafa stefnanda er byggð á því að hluti söluandvirðis eignarinnar að Blikanesi, að fjárhæð 5.095.943, tilheyri þrotabúinu.  Til að tryggja fullnustu kröfunnar fékk stefnandi, þrotabú Kristjáns J. Karlssonar, kyrrsetta eign stefndu, Petru Jónsdóttur, að Dorfaborgum 13 í Reykjavík, en stefnda, sem er eiginkona Kristjáns J. Karlssonar, hafði með kaupsamningi 11. október 1999 keypt þessa eign með eiginmanni sínum þar sem hluti hennar verður 99% á móti 1% eiginmannsins.

Stefnda byggir á því að hún hafi fengið við sölu á fasteigninni að Blikanesi 29 í Garðabæ í sinn hlut eignarhluta sinn af nettó andvirði fasteignarinnar svo sem hún eigi rétt á.

Krafa stefnanda er reist á því að eiginmanni stefndu, Kristjáni J. Karlssyni, hafi verið óheimilt eins og fjárhag hans var komið er fasteign að Blikanesi 29, Garðabæ, var seld að ráðstafa hluta af söluandvirði einbýlishússins til stefndu svo stuttu fyrir frestdag, sem var 16. nóvember 1999, án þess að gera áður upp við lánardrottna sína.  Eignin hafi verið þinglýst eign hans og hljóti söluandvirðið því að teljast hans hjúskapareign.  Hér sé því um gjafagerning að ræða sem brjóti í bága við ákv. 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og sé gerningurinn því riftanlegur.

Kröfu um staðfestingu kyrrsetningargerðarinnar er byggð á því að stefnanda hafi verið brýn nauðsyn á að tryggja hagsmuni sína með því að kyrrsetja eignir stefndu til tryggingar greiðslu ofangreindra krafna.  Ljóst væri að gjafagerningur Kristjáns J. Karlssonar til stefndu sé tilraun til undanskots eigna, sem bæði hjónin beri ábyrgð á, og að slíkt undanskot geti allt eins endurtekið sig þegar fram sé komin kröfugerð á hendur stefndu vegna riftunar þeirra.  Af hálfu stefnanda sé talið líklegt að stefnda muni reyna að torvelda stefnanda fullnustu í skráðum eignum stefndu fyrir kröfum stefnanda svo sem staðið hefði verið að umdeildri eignayfirfærslu þrotamanns til eiginkonu sinnar.

Stefnda telur málsástæður sínar þær, að hún hafi átt fullan rétt á að fá greitt af nettó söluverði fasteignarinnar að Blikanesi 29, Garðabæ við sölu hennar í mars 1999, sbr. 58. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, þar sem kveðið sé á um að maki hafi ráðstöfunarrétt yfir eign sinni.  Kristján J. Karlsson hafi nýtt nettó eignarhluta sinn til þess að greiða skuldir sínar, en í 67. gr. hjúskaparlaga sé kveðið á um að hvort hjóna beri ábyrgð á þeim skuldbindingum sem á því hvíla, hvort sem þær hafa stofnast fyrir hjúskapinn eða síðar, sbr. og 68. gr. sömu laga, þar sem kveðið sé á um að annað hjóna geti ekki skuldbundið hitt með samningsgerð sinni nema sérstaklega sé heimilað í lögum eða samningi hjóna, en samkvæmt 69. gr. hjúskaparlaganna sé hvoru hjóna aðeins heimilt gagnvart þriðja manni að gera á ábyrgð beggja samninga sem venjulegir eru vegna sameiginlegs heimilishalds, svo og vegna þarfa barna.

Kröfur, sem lýst hafi verið í þrotabú Kristjáns J. Karlssonar, segir stefnda að séu til komnar vegna reksturs Kristjáns á sameignarfélaginu Blástur sf. svo og sameignarfélaginu Álfhóll sf., en bæði þessi félög hafi Kristján rekið með föður sínum, Karli Einarssyni.  Stefnda hafi ekki tekið þátt í þeim rekstri og hafi ekki verið í ábyrgðum fyrir kröfum á hendur þessum sameignarfélögum.  Af þessu megi ljóst vera, að kröfur þær sem urðu tilefni gjaldþrotameðferðar á búi Kristjáns hafi ekki stafað af heimilisrekstri hans eða stefndu.  Viðvarandi taprekstur á þeirri starfsemi er sameignarfélögin höfðu með höndum hefði valdið gjaldþroti Kristjáns. Bú föður Kristjáns hefur þar af leiðandi einnig verið tekið til skipta.

Ráðstöfun sem hér um ræðir á söluandvirði fasteignarinnar að Blikanesi 29 sé ekki gjafagerningur í skilningi 131. gr. gjaldþrotalaga 21/1991, eins og stefnandi haldi fram, enda hafi stefnda ekki fengið í sinn hlut meira en sem nemur réttum eignarhluta hennar af söluandvirði fasteignarinnar.  Stefnda hafi þvert á móti borið skarðan hlut frá borði, þar sem megnið af þeim áhvílandi veðskuldum, sem greiddar voru af andvirði fasteignarinnar að Blikanesi 29, hafi einmitt verið tilkomnar út af taprekstri sameignarfélaganna.  Með veðsetningum, sem átt hefðu sér stað frá því vorið 1990, hafi Kristján verið að fleyta áfram taprekstri, sem stöðugt safnaði skuldum, án þess að sá rekstur væri nokkuð á vegum stefndu.  Af þessum ástæðum eigi stefnda raunar endurgjaldskröfu á hendur maka sínum.

Af veðbandayfirlit er liggur frammi í málinu megi sjá, að fasteignin Blikanes 29 hafi ekki verið veðsett síðan 1984 uns taprekstrarferlið hófst á árunum 1989 - 1990.  Frá þeim tíma hafi stöðugt sigið á ógæfuhliðina og eignin stöðugt verið veðsett vegna nýrra skulda umrædds reksturs.  Margar skilmálabreytingar hafi átt sér stað á áhvílandi veðlánum sem sýna svo ekki verður um villst að reksturinn skilaði engu.

Stefnda hafi varið andvirði eignarhluta síns til að kaupa húsnæði til heimilisþarfa hjónanna, en það sé einmitt húsnæðið að Dofarborgum 13 er stefnandi hafi fengið kyrrsett.

Niðurstaða:  Stefnda byggir á því að fasteignin að Blikanesi 29 í Garðabæ hafi ekki síður verið hennar eign en eign eiginmanns hennar, Kristjáns J. Karlssonar, áður en þau hjónin seldu eignina með kaupsamningi 9. apríl 1999.  Umdeild ráðstöfun á söluandvirði fasteignarinnar hafi því ekki verið gjafagerningur í skilningi 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, heldur hafi hún einungis fengið greitt hluta af því sem hún átti sjálf af andvirði eignarinnar.  Í því sambandi ber stefnda fyrir sig ákvæði 1. mgr. 58. gr., 67. gr. og 68. gr hjúskaparlaga nr. 31/1993 svo sem greint var frá.

Í máli þessu er ekki deilt um eignaskipti milli hjóna við skilnað, heldur hvaða eignir úr sameiginlegu búi hjóna teljast með réttu falla til þrotabús, er bú annars þeirra er tekið til gjaldþrotaskipta.

Fasteignin að Blikanesi 29 í Garðabæ var þinglýst eign Kristjáns þegar umrædd sala fór fram.  Fyrir þann tíma máttu skuldheimtumenn Kristjáns ætla að fasteignin stæði óskipt til fullnustu á kröfum á hendur honum, sbr. 29. gr. þing­lýsinga­laga nr. 39/1978.  Verður því að leggja til grundvallar úrlausn málsins að fasteignin hafi verið hjúskapareign Kristjáns.

Samkvæmt framangreindu verður stefnda dæmd til að greiða stefnanda umkrafða fjárhæð sem ekki er tölulegur ágreiningur um.  Þá verður staðfest kyrrsetning sýslumannsins í Reykjavík sem fram fór 17. júlí 2000 í eignarhluta stefndu, Petru Jónsdóttur, í Dorfaborgum 13 í Reykjavík.

Rétt er að stefnda greiði stefnanda 550.000 krónur alls í málskostnað.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Rift er afhendingargerningi Kristjáns J. Karlssonar, kt. 310348-2019, til Petru Jónsdóttur, kt. 030648-2189, sem felst í eftirfarandi peningagreiðslum til hennar:

1)  Greiðslu að fjárhæð kr. 446.900, sem afhent var 7. maí 1999.

2)  Greiðslu að fjárhæð kr. 2.514.043, sem afhent var 11. október 1999.

3)  Greiðslu að fjárhæð kr. 535.000, sem afhent var 15. nóvember 1999.

4)  Greiðslu að fjárhæð kr. 1.600.000, sem afhent var 4. febrúar 2000.

Stefnda, Petra Jónsdóttir, greiði stefnanda, þrotabúi Kristjáns J. Karlssonar, 5.095.943 krónur með ársvöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31.maí 2000 til 17. ágúst 2000, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.

Staðfest er kyrrsetning sýslumannsins í Reykjavík sem fram fór 17. júlí 2000 í eignarhluta stefndu, Petru Jónsdóttur, í Dorfaborgum 13 í Reykjavík.

Stefnda greiði stefnanda 550.000 krónur alls í málskostnað.