Hæstiréttur íslands

Mál nr. 622/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Erfðaskrá
  • Séreign


                                     

Fimmtudaginn 4. desember 2008.

Nr. 622/2008.

A

B og

C

(Jóhannes Ásgeirsson hrl.)

gegn

D

E og

F

(Ásdís J. Rafnar hrl.)

 

Kærumál. Erfðaskrá. Séreign.

Dánarbú hjónanna M og K var tekið til opinberra skipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í október 2007. Ágreiningur kom upp milli erfingja M um hvort nánar tilgreint land sem faðir þeirra, M, hafði tekið í arf eftir föður sinn G, og þær eignir sem í stað þess höfðu komið, skyldi vegna ákvæðis í erfðaskrá teljast séreign M við skiptin. Í umræddu ákvæði segir svo: Allt land sem ég ánafna sonum mínum með erfðaskrá þessari, ber þeim að gera að séreign sinni. Ágreiningi erfingja M var skotið til héraðsdóms þar sem þau A, B og C kröfðust þess að fyrrgreint land yrði talið séreign M við skiptin. Héraðsdómur hafnaði þeirri kröfu og vísaði til þess að ekkert hefði fram komið í málinu sem leitt gæti til þess að umrætt ákvæði í erfðaskrá G, föður M, yrði túlkað með öðrum hætti en samkvæmt orðanna hljóðan. Í niðurstöðu Hæstaréttar, sem staðfesti niðurstöðu héraðsdóms, segir meðal annars að í orðalaginu, að landið beri sonum að gera að séreign sinnihlyti að felast að kaupmála þyrfti til með samþykki eiginkonu.

  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson. 

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 5. nóvember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. október 2008, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila „um að land sem hinn látni, M, tók í arf eftir föður sinn, G, og afmarkast þannig, að það takmarkast af X að vestan, Y að norðan, Z að sunnan og að austan af túngirðingu frá Z í punkt A til B. Til C, eins og þeir eru markaðir í uppdrætti Ásgeirs H. Karls­sonar. Innan túngirðingar sem markast að norðan af heimreið, að austan ræður línan G-Q að sunnan markaskurður í punkt T úr honum í punkt V þaðan með Z að vestur­horni túngirðingar, að vestan er túngirðing og þær eignir sem í stað þess hafa komið, skuli vegna fyrirmæla í erfðaskrá, dags. 7. nóvember 1960 teljast séreign M við skiptin.“ Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að tilgreint land eins og því er lýst í hinum kærða úrskurði skuli vegna ákvæðis í erfðaskrá teljast séreign M við skiptin.

Varnaraðilar kærðu úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 18. nóvember 2008 með heimild í 3. mgr. 153. gr., sbr. 4. mgr. 150. gr. og 1. mgr. 149. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur um annað en málskostnað. Krefjast þær málskostnaðar úr hendi sóknaraðila í héraði og kærumálskostnaðar.

Dánarbú hjónanna M, sem lést [...] apríl 2007 og K, sem lést [...]. júlí sama ár, var tekið til opinberra skipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 2. október 2007. Ágreiningsefni máls þessa var skotið til úrlausnar héraðsdóms með bréfi skiptastjóra 27. nóvember 2007.

Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði kom G á skrifstofu hæstaréttarlögmanns til þess að fá aðstoð hans við að gera erfðaskrá, og var hún gerð 7. nóvember 1960. Fyrir héraðsdómi bar lögmaðurinn að arfleifandi hefði sagt nákvæmlega fyrir um það hvernig erfðaskráin skyldi orðuð og í engu hafi þar verið frá vikið. G heitnum hefði verið unnt að mæla svo fyrir í erfðaskránni að land sem hann ánafnaði sonum sínum yrði þeirra séreign, eins og hann gerði beinum orðum um land sonardóttur sinnar, en efnismunur liggur að þessu leyti í orðum erfðaskrárinnar. Í orðalaginu, að landið beri sonunum „að gera að séreign sinni“, hlýtur að felast að kaupmála þurfi til með samþykki eiginkonu. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur.

Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, A, B og C, greiði óskipt varnaraðilum, D, E og F, hverri um sig 50.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. október 2008.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 2. október 2007 var dánarbú hjónanna M, kt. [...], sem lést [...] apríl 2007, og K, kt. [...], sem lést [...] júlí 2007, tekið til opinberra skipta. Með bréfi skiptastjóra mótteknu 27. nóvember 2007 var ágreiningsefni máls þessa skotið til úrlausnar dómsins. Málið var þingfest var 14. desember s.á. Með úr­skurði dómsins uppkveðnum 28. maí 2008 var liðum 2-6 í aðalkröfu varnaraðila og vara­kröfum varnaraðila vísað frá dómi. Úrskurðurinn var staðfestur með dómi Hæsta­réttar uppkveðnum 26. júní s.á. Málið var tekið til úrskurðar 14. október sl.

Sóknaraðilar eru A, kt. [...], [...], Mosfellsbæ, B, kt. [...], [...], Mosfellsbæ og C, kt. [...], [...], Kópavogi.

Varnaraðilar eru D, kt. [...] [...], Mosfellsbæ, E, kt. [...], [...], Hafnarfirði og F, kt. [...], [...], Mosfellsbæ.

Endanlegar dómkröfur sóknaraðila eru að land sem hinn látni, M, tók í arf eftir föður sinn, G, og afmarkast þannig, að það tak­markast af X að vestan, Y að norðan, Z að sunnan og að austan af túngirðingu frá Z í punkt A til B. Til C, eins og þeir eru markaðir í upp­drætti Ásgeirs H. Karlssonar. Innan túngirðingar sem markast að norðan af heim­reið, að austan ræður línan G-Q að sunnan markaskurður í punkt T úr honum í punkt V þaðan með Z að vesturhorni túngirðingar, að vestan er túngirðing og þær eignir sem í stað þess hafa komið, skuli vegna fyrirmæla í erfðaskrá, dags. 7. nóvember 1960 teljast séreign M við skiptin.

Þá er krafist málskostnaðar.

Dómkröfur varnaraðila eru að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá er krafist máls­kostnaðar.

I

Í bréfi skiptastjóra kemur fram að hin látnu hafi gengið í hjúskap [...] 1967 og eignast saman tvær dætur E og F. Fyrir hafi K átt dótturina D og taki hún arf eftir móður sína og stjúpföður eins og arfborið barn hans samkvæmt erfða­skrá, dags. 18. september 1995. M hafi átt tvö börn, A og B, með fyrri eiginkonu sinni, H. M og H hafi skilið lögskilnaði [...] 1963. Þá hafi M átt fyrir dótturina C.

Á fyrsta skiptafundi í dánarbúinu þann [...]. október 2007 hafi Valborg Snævarr hrl. lagt fram erfðaskrá G frá 7. nóvember 1960, þar sem arf­leifandi mæli fyrir um að allt land sem hann ánafni sonum sínum, þ. á m. látna M, skuli þeir gera að séreign sinni. Lögmaðurinn hafi upplýst, að meginhluti þeirra eigna sem séu í búinu hafi komið í stað þess lands sem G ánafnaði M.

Á skiptafundi 15. sama mánaðar hafi verið bókað vegna erfðaskrár G:  Jóhannes Ásgeirsson lýsir því yfir að umbj. hans telji að erfðaskrá G frá 7. nóvember 1960 beri að túlka þannig að land sem hinn látni, M, tók í arf eftir föður sinn, G, hafi verið séreign hans, sem og þær eignir sem í stað þess hafi komið. Eigi þær eignir því ekki að koma til skipta til erfingja K. Ásdís Rafnar hrl. mótmælir því fyrir hönd umbjóðenda sinna að umrædd erfðaskrá geti haft réttaráhrif við búskiptin og telur hana þeim óviðkomandi.

Á skiptafundi 9. nóvember sl. hafi Valborg Snævarr hrl. lýst því yfir f.h. um­bjóð­anda síns, C, að hún tæki undir það með erfingjunum, A og B, að það land sem M hafi tekið í arf eftir föður sinn hafi verið séreign hans samkvæmt erfðaskrá G, og ætti því ekki að koma til skipta til erfingja K.

Af hálfu skiptastjóra hafi því verið lýst yfir á fundinum að hann myndi vísa ágrein­ingnum um réttaráhrif erfðaskrár G til úrlausnar héraðsdóms.

Í hnotskurn snúist ágreiningur málsaðila um erfðaskrána frá 7. nóvember 1960 þar sem G m.a. ánafnaði M hluta úr landi Þ í [...].

Börn M, C, A og B krefjist viðurkenningar á því að um­rætt land hafi vegna fyrirmæla í erfðaskrá G verið séreign föður þeirra og því geti það og þær eignir sem í stað þess hafa komið ekki komið til skipta til erfingja K.

Börn K og M, D, E og F, telji að hafna eigi kröfu C, A og B. Fyrir því hafi þau m.a. fært þau rök að kaupmálinn hafi ekki verið gerður um að tilteknar eignir væru séreign M. M hafi átt stóran hluta jarðarinnar Þ er faðir hans féll frá. Við hjúskaparslit M og H hafi M skipt búshelmingi H samkvæmt fjár­slita­samn­ingi jafnt á milli barna þeirra A og B. Síðar hafi M keypt hluta jarðarinnar af A á ný (1972). M og K hafi síðar reist saman nýja húseign á Þ og gert um hana kaupmála og jafnframt lóð í kringum húsið, sem B hafi áritað á sínum tíma. Þá hafi hjónin stofnað saman hluta­félag og einkahlutafélag í helmingseigu hvors og sé hlutafélagið eigandi að hluta Þlands sem eftir sé og fjármunir dánarbúsins í vörslu Kaupþings séu andvirði sölu einkahlutafélagsins. Þá bendi erfingjar á að þegar K hafi látist hafi hún setið í óskiptu búi eftir M m.a. á grundvelli ákvæðis í erfðaskrá þeirra hjóna og hafi B, A og C ekki gert athugasemdir við þá skipan mála, en þegið fyrir­framgreiddan arf úr búi föður síns.

Framangreindu ágreiningsefni erfingja um erfðaskrána frá 1960 sé vísað til Héraðs­dóms Reykjavíkur í samræmi við 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

II

Sóknaraðilar, A og B, byggja á að fullvíst sé að G heitinn hafi viljað binda með óyggjandi hætti að jörðin Þ héldist í hans ættlegg. Í erfðaskrá hans, sem gerð hafi verið eftir að sonur hans, M, skildi að borði og sæng, hafi erfðahlutir verið kvaðabundnir. Um arfshluta son­anna og bræðranna, I og M, sem tilgreindir séu nákvæmlega, segi svo: Allt land sem ég ánafna sonum mínum með erfðaskrá þessari, ber þeim að gera að séreign sinni.

Í máli þessu sé meginatriðið vilji arfleifanda. Ekki orki tvímælis við lestur erfða­skrár­innar hver hafi verið vilji G. Þlandið skuli vera í séreign afkomenda arfleifanda.

Vilji arfleifanda sé skýr og ótvíræður. Þó svo að orðalagið ber að gera að séreign sinni sé óljóst þá skíni vilji arfleifanda í gegn sé erfðaskráin lesin í heild sinni og orki ekki tvímælis að eftir þeim vilja beri að fara, við túlkun erfðaskrárinnar. Byggja sókn­ar­aðilar á því að arfþegi þurfi ekki að gera neinar sérstakar ráðstafanir til að varð­veita sér­eign sem hann hefur hlotið í arf og gildi einu hvort hann sé í hjúskap eða ekki þegar arfur falli til hans. Arfurinn sé og verði hans séreign. Arfurinn sé bundinn þessari kvöð.

Sóknaraðili, C, byggir kröfur sínar á sömu sjónarmiðum. Telur hún ein­sýnt að vilji G hafi verið sá að gera arf eftir sig að séreign erfingja sinna skv. erfðaskránni, þ.e. niðja sinna, til að tryggja að eignirnar héldust í fjöl­skyldunni og hann talið sig vera að gera það með undirritun erfðaskrárinnar. Erfðaskrána beri að túlka að öllu leyti til samræmis við þann vilja arfláta. 

Þá tekur sóknaraðili undir það að G hafi ekki þurft að gera frekari ráðstafanir en erfðaskrána til að tryggja að arfur væri séreign erfingja, enda ljóst af ákvæði 2. töluliðs 1. mgr. 23. gr. þágildandi hjúskaparlaga nr. 20/1923 að nægjan­legt væri að arfleifandi mælti fyrir um slíkt í erfðaskrá sinni, að arfur skuli vera sér­eign í hjúskap.  Svo hafi verið gert í erfðaskránni frá 7. nóvember 1960.  Erfðaskrá G sé gild og beri því að fara að ákvæðum hennar enda hafi hún ekki verið vefengd með þeim hætti sem lög geri ráð fyrir.

Sóknaraðili byggir kröfu sína á hjúskaparlögum 20/1923, sem í gildi voru á þeim tíma sem erfðaskráin var gerð, og á erfðalögum 42/1949, sem og til samanburðar og skýringar nýrri lögum um bæði efnin.

III

Varnaraðilar byggja á að ef erfðaskrá G hefði það gildi sem sóknaraðilar halda fram, hefði á það reynt við búskiptin við hjónaskilnað M og H. Þess í stað hafi M greitt börnum sínum, sem séu sóknaraðilar máls þessa, bús­hluta H, helming félagsbús þeirra við fjárhagsuppgjörið vegna skilnaðarins.

Varnaraðilar halda því fram að í því orðalagi erfðaskrárinnar þar sem segir: Allt land sem ég ánafna sonum mínum með erfðaskrá þessari ber þeim að gera að séreign sinni, felist eingöngu tilmæli um aðgerðir sem erfingjarnir sjálfir hafi átt sjálfsvald um að koma í framkvæmd með kaupmála í hjúskap sínum og að tómlæti um framkvæmd þeirra tilmæla hafi þær lögfylgjur sem M kaus, þ.e. að eignir þessar voru hjú­skap­areignir í hjúskap hans og K. Með sama hætti og eignir þær voru hjú­skap­areign, sem hann átti við hjónaskilnað sinn og H og hann hafði erft eftir móður sína. Hvorki I né M hafi orðið við tilmælum um að gera land sem þeir erfðu eftir föður sinn að séreign sinni með kaupmála í hjúskap sínum. Byggðu þeir skiptingu landsins eftir föður sinn á samkomulagi sín á milli með at­beina lögfróðs aðila.

Kaus G enda að leggja það í ákvörðunarvald sona sinna að stofna til séreignar í hjónaböndum sínum. Annað hafi ekki vakað fyrir honum. Um arf B hafi orða­lagið verið allt annað og ótvírætt að um þær eignir sem hún erfði skyldu vera hennar sér­eign, sbr. ...og verður ætíð að vera hennar séreign og gangi að erfðum í beinan kvenlegg ...  Verði m.a. af þessum sökum ekki á því byggt af hálfu sóknaraðila, sem þeir halda fram með tilvísun til 37. gr. erfðalaga nr. 8/1962, að ákvæði í erfðaskrá G sé annars efnis en til hafi verið ætlast og það stafi af misritun eða öðrum mistökum, að vafi sé um hvað raunverulega vakti fyrir arfleifanda.

Í 23. gr. laga nr. 20/1923 komi fram að séreign sé allt sem gert er að séreign með kaup­mála og gjafir sem gefnar séu öðru hjónanna með því skilyrði að þær skuli vera sér­eign svo og arfur, enda þótt skylduarfur sé, hafi arfleifandi sett slíkt skilyrði í erfðaskrá.

Í 77. gr. laga nr. 31/1993 segi að arfleifandi geti ákveðið að arfur skuli vera séreign í hjúskap erfingja.

Hefðbundið orðalag um séreign erfingja í erfðaskrám sé og hafi verið að ákveðin eign eða arfshluti skuli vera séreign viðkomandi, sbr. 23. gr. laga nr. 20/1923. Samkvæmt venjulegri málfarsnotkun þýði ber þeim að gera ákveðna aðgerð, það þurfi ákveðna aðgerð til að eignin verði séreign skv. lögum. Enda hafi það verið sam­eig­in­legur skilningur erfingjanna að þeim væri það í sjálfsvald sett hvort þeir færu að til­mælum föður síns eða ekki. Erfðaskrár skuli túlka þröngt. Arfleifanda, sem njóti að­stoðar lögfróðs manns, sé skylt að tjá sig skýrt í þessum efnum vegna, m.a. mikil­vægra hagsmuna maka af því að þekkja réttarstöðu sína. Með orðalaginu varðandi arf bræðr­anna sé ekki ákveðið að eignirnar skuli vera þeirra séreign, þeim sé bent á að skoða gerð kaupmála þannig að þær verði séreign. Önnur túlkun sé ekki möguleg m.t.t. laga og réttar og venjulegrar málnotkunar. Sami lögfróði aðilinn hafi gengið frá yfirlýsingum um samkomulag bræðranna um skiptingu landsins.

Í tilmælunum felist ekki kvöð í neinum þeim skilningi sem sóknaraðilar byggi á. Um séreignir í hjúskap gildi ákveðnar og sérstakar reglur laga, bæði um hvernig til þeirra sé stofnað og um meðferð þeirra við hjúskaparslit og andlát. Samkvæmt erfða­lögum nr. 42/1949 og 8/1962 séu ákvæði um kvaðaarf og nauðsyn samþykkis dóm­málaráðuneytisins á slíkum ráðstöfunum í erfðaskrám. Eigi þau ákvæði ekki við í máli þessu. Kvöð af arfi falli niður í síðasta lagi við andlát erfingja, sbr. 3. mgr. 50. gr. erfðalaga sbr. 51. gr.

IV

Með erfðaskrá dagsettri 7. nóvember 1960 ánafnaði G m.a. tveimur sonum sínum hluta úr landi Þ  [...]. Í erfðaskránni er kveðið á um að allt land, sem hann ánafni sonum sínum með erfðaskránni, beri þeim að gera að séreign sinni. Snýst ágreiningur máls þessa um það hvort að land það sem að sonur G, M, tók í arf eftir föður sinn skuli vegna tilvitnaðra fyrirmæla í erfða­skránni teljast séreign hans við skiptin á dánarbúi hans og eiginkonu hans K.

Sveinbjörn Dagfinnsson, hæstaréttarlögmaður, sem skráði erfðaskrána að beiðni G, kveður hann hafa mælt skýrt og klárt fyrir um það hvað þar skyldi standa. Það hafi verið afgerandi vilji G að landið sem erfðaskráin varðaði yrði séreign. Hann haldi að ekki hafi farið á milli mála að erfingjarnir hafi litið á landið sem séreign. G hafi með erfðaskránni viljað koma eins og hægt væri í veg fyrir erfiðleika eftir á út af landinu. 

Vitnisburður lögmannsins þykir ekki afdráttarlaus um það að það hafi verið ætlan G að kveða á um það með erfðaskránni að arfurinn væri séreign sona hans. Er í því sambandi rétt að hafa í huga að í erfðaskránni er kveðið á um að arfur sem sonar­dóttir hans, B, fær verði ætíð að vera hennar séreign, þ.e. orðalagið er annað en hvað varðar arf til bræðranna.

Þá liggur fyrir að við skilnað M og fyrri eiginkonu hans, H, að borði og sæng, [...] 1961, var ákveðið að hluti hennar af félags­búi hjónanna félli til barna þeirra. Eignuðust börn þeirra þar með hálfa jörðina Þ I skuldlausa á móti föður sínum. Ljóst þykir af því, að við þau skipti hafi ekki verið við það miðað að land það sem M tók í arf eftir föður sinn væri hans séreign.

Þykir því ekkert fram komið sem leitt getur til þess að erfðaskráin verði túlkuð öðru vísi en samkvæmt orða sinna hljóðan og þannig að í henni felist fyrirmæli um að synir hans geri arfinn að séreign. Fyrir liggur að hvorki M né bróðir hans fóru eftir þeim fyrirmælum erfðaskrárinnar að gera arfinn að séreign, en á það er að líta að það var ekki á valdi þeirra einna að uppfylla þau.

Samkvæmt því verður kröfum sóknaraðila í máli þessu hafnað.

Rétt þykir að aðilar beri hver sinn kostnað af málinu.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfum sóknaraðila, A, B og C, um að land sem hinn látni, M, tók í arf eftir föður sinn, G, og afmarkast þannig, að það takmarkast af X að vestan, Y að norðan, Z að sunnan og að austan af túngirðingu frá Z í punkt A til B. Til C, eins og þeir eru markaðir í uppdrætti Ásgeirs H. Karls­sonar. Innan túngirðingar sem markast að norðan af heimreið, að austan ræður línan G-Q að sunnan markaskurður í punkt T úr honum í punkt V þaðan með Z að vestur­horni túngirðingar, að vestan er túngirðing og þær eignir sem í stað þess hafa komið, skuli vegna fyrirmæla í erfðaskrá, dags. 7. nóvember 1960 teljast séreign M við skiptin.

Málskostnaður fellur niður.