Hæstiréttur íslands
Mál nr. 320/2014
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Afleiðusamningur
- Skuldajöfnuður
|
|
Fimmtudaginn 15. janúar 2015. |
|
Nr. 320/2014.
|
LBI hf. (Kristinn Bjarnason hrl.) gegn Íslenskum verðbréfum hf. (Reimar Pétursson hrl.) |
Fjármálafyrirtæki. Slit. Afleiðusamningur. Skuldajöfnuður.
L hf. og Í hf. gerðu í janúar 2008 með sér gjaldmiðla- og vaxtaskiptasamning og var lokadagur samningsins 25. ágúst 2009. Í málinu, sem L hf. höfðaði á hendur Í hf., greindi aðilana á um uppgjör samningsins í kjölfar þess að forveri L hf. var tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu á grundvelli laga nr. 125/2008 og síðar til slita. Var krafa L hf. um heimtu skuldar samkvæmt samningnum reist á því að L hf. ætti rétt á fjárhagslegu uppgjöri sem tæki mið af því að verða eins settur og skiptasamningurinn hefði verið efndur að fullu fram til lokadags. Hæstiréttur taldi að Í hf. hefði mátt skilja tilkynningu L hf. 16. október 2008, um að skiptasamningnum yrði „lokað“, svo að með henni væri L hf. einhliða að fella niður skiptasamninginn og lýsa því yfir að framvegis myndi hann hvorki efna samninginn af sinni hálfu né ætlast til þess af Í hf. Að öllu virtu var fallist á með Í hf. að L hf. ætti ekki rétt til uppgjörs á skiptasamningnum sem tæki mið af því að L hf. yrði eins settur og samningurinn hefði verið réttilega efndur af hálfu beggja aðila til lokadags. Því næst vísaði Hæstiréttur til þess að í skuldajafnaðaryfirlýsingu Í hf. 20. janúar 2009 kæmi skýrlega fram viðurkenning þess að L hf. ætti á hendur Í hf. gilda og skýra kröfu samkvæmt skiptasamningnum en að miða bæri uppgjör hans við 7. október 2008. Af þeim sökum var Í hf. ekki talinn geta borið fyrir sig fyrningu, umboðsskort eða vanefndir af hálfu L hf. Taldi rétturinn að Í hf. hefði ekki getað, án þess að annað kæmi til, gengið út frá því síðastgreindan dag að skiptasamningurinn yrði til frambúðar ekki efndur af hálfu L hf. Að virtu því hvernig líta mætti á yfirlýsingu L hf. 16. október 2008 var fallist á varakröfu Í hf. sem reist var á því að uppgjör skyldi miðast við þann dag. Var Í hf. gert að greiða L hf. 146.892.482 krónur vegna uppgjörs samningsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. maí 2014. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 267.238.172 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. ágúst 2009 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara lækkunar á kröfu áfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
I
Í hinum áfrýjaða dómi er rakið efni gjaldmiðla- og vaxtaskiptasamnings þess er málsaðilar gerðu 21. janúar 2008 og með hvaða hætti þeir efndu samningsskyldur sínar. Eins og þar kemur fram var upphafsdagur samningsins 22. janúar 2008, lokadagur 25. ágúst 2009 og vaxtadagar voru fjórir á ári, 25. febrúar, 25. maí, 25. ágúst og 25. nóvember. Er ágreiningslaust að báðir aðilar efndu skyldur sínar samkvæmt samningnum með því að skiptast á fjárhæðum höfuðstóls í upphafi og með greiðslu vaxta á gjalddögum þeirra í febrúar, maí og ágúst 2008 en eftir þann tíma hafa engar greiðslur átt sér stað.
Fjármálaeftirlitið ákvað 7. október 2008 að taka yfir vald hluthafafundar í áfrýjanda sem þá hét Landsbanki Íslands hf., víkja stjórn hans frá og skipa honum skilanefnd. Hún sendi stefnda tölvubréf 16. sama mánaðar og sagði þar að í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins „liggja réttindi og skyldur vegna afleiðusamninga áfram hjá Landsbanka Íslands hf. Að óbreyttu liggur fyrir að umræddum afleiðusamningum verður lokað. Í því felst m.a. að sjóðstreymis- og gengisvarnir á lána- og eignasöfnum viðskiptavina falla niður. Í kjölfarið munu afleiðustöður í hagnaði mynda kröfu viðskiptavinar á Landsbanka Íslands hf. en tapsstöður mynda kröfu Landsbanka Íslands hf. á viðskiptavini. Leitast verður við að samræma aðgerðir viðskiptabankanna til að tryggja að allir viðskiptavinir njóti sömu málsmeðferðar.“ Í lok tölvubréfsins var stefndi hvattur til að senda fyrirspurnir á tiltekið netfang hjá áfrýjanda.
Stefndi sendi áfrýjanda með bréfi 20. janúar 2009 yfirlýsingu um skuldajöfnuð. Í upphafi hennar kvaðst stefndi hafa 18. desember 2008 sent áfrýjanda tölvubréf þar sem boðuð hafi verið skuldajafnaðaryfirlýsing. Þá sagði að í tölvubréfinu hefði komið fram að þær kröfur sem stefndi hygðist nota til skuldajafnaðar byggðu á skuldabréfum útgefnum af áfrýjanda en þær kröfur áfrýjanda sem stefndi hygðist skuldajafna gegn byggðust á jákvæðri nettóstöðu áfrýjanda vegna skiptasamnings þess sem aðilar hefðu gert. Í yfirlýsingunni var til þess vitnað að umræddar kröfur uppfylltu öll almenn skilyrði skuldajafnaðar, þar sem þær væru gagnkvæmar, sambærilegar, „hæfar til að mætast, þ.e. gjalddagi þeirra krafna sem ÍV hyggst nota til skuldajafnaðar er kominn og lausnardagur krafna Landsbankans kom við lok skiptasamningsins; og loks eru kröfurnar bæði gildar og skýrar að efni.“ Í yfirlýsingunni var rakið efni kröfu áfrýjanda, vitnað til áðurgreindra skuldabréfa sem áfrýjandi gaf út og sagt að þau hafi fallið í gjalddaga 7. október 2008 „við yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á stjórn Landsbankans ... og á því tímamarki lá fyrir að skuldabréfin yrðu ekki efnd skv. efni sínu. Brustu þannig forsendur fyrir áframhaldandi gildi skiptasamningsins og verður að telja rétt að miða uppgjörsfjárhæð hans við þá dagsetningu“ enda hefðu engar greiðslur á grundvelli ákvæða hans átt sér stað síðan. Þá sagði að stefndi „lýsir hér með yfir skuldajöfnun á ofangreindri kröfu Landsbankans skv. tilgreindum skiptasamningi og kröfum ÍV skv. tilgreindum skuldabréfum ... Er þess hér með óskað að skilanefnd Landsbankans samþykki ofangreinda skuldajafnaðaryfirlýsingu og feli starfsmönnum bankans að hafa samvinnu við ÍV um nákvæman útreikning eftirstandandi kröfu þess félags.“
Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi svaraði áfrýjandi yfirlýsingu stefnda um skuldajöfnuð með tölvubréfi 16. febrúar 2009. Sagði þar að skilanefnd áfrýjanda hefði tekið málið til meðferðar og hafnað skuldajöfnuði þar sem fyrirsjáanleg vanefnd heimilaði ekki gjaldfellingu skuldabréfs. Í framhaldinu lýsti stefndi kröfu við slit áfrýjanda með bréfi 29. október 2009 og er í hinum áfrýjaða dómi gerð grein fyrir lyktum þeirrar kröfulýsingar og samskiptum áfrýjanda og stefnda fram að höfðun máls þessa. Áfrýjandi höfðaði málið 31. október 2012 og er krafa hans á því reist að hann eigi rétt á fjárhagslegu uppgjöri sem taki mið af því að verða eins settur og skiptasamningurinn hefði verið efndur að fullu fram til lokadags. Tekur áfrýjandi í kröfugerð sinni tillit til þeirra vaxtagjalddaga sem voru í hagnaði fyrir stefnda, reiknar á þá dráttarvexti og dregur frá kröfu sinni. Er ekki tölulegur ágreiningur um útreikning kröfunnar með þessum hætti teljist forsendur hennar á rökum reistar. Með sama hætti er ekki tölulegur ágreiningur um útreikning fjárhæða í varakröfum stefnda sem miða við svokallaða núvirðisaðferð teljist forsendur slíks uppgjörs til staðar.
II
Hvorki var í skiptasamningnum 21. janúar 2008 né í skilmálum þeim sem aðilarnir sömdu um að skyldu gilda í lögskiptum sínum kveðið á um heimild annars þeirra til að segja samningnum upp eða ákveða á annan hátt einhliða að fella niður gagnkvæmar skyldur þeirra. Í skilmálum um viðskiptin voru áfrýjanda á hinn bóginn áskildar heimildir til að bregðast við vanefndum stefnda með því að gjaldfella skuldbindingar áður en komið væri að umsömdum gjalddaga en ágreiningslaust er að stefndi hafði ekki vanefnt skyldur sínar við áfrýjanda fyrir 16. október 2008.
Tilkynning áfrýjanda 16. október 2008 sem áður er rakin var einhliða yfirlýsing af hans hálfu og skuldbindandi fyrir hann. Fjölmargir viðskiptamenn áfrýjanda sem gert höfðu afleiðusamninga fengu sömu tilkynningu og stefndi og virðast viðtakendurnir hafa átt það eitt sameiginlegt að eiga hlut að ógjaldföllnum afleiðusamningum við áfrýjanda. Gerði áfrýjandi þá ekki greinarmun á því hvers efnis samningarnir væru, hver aðstaða viðsemjandans væri eða á hvorn aðilann hallaði í viðskiptunum. Var efni tilkynningarinnar samkvæmt þessu óljóst um hver yrðu afdrif afleiðusamninga viðtakenda eins og stefnda. Tók áfrýjandi með þessu þá áhættu að hver og einn viðtakandi myndi leggja þann skilning í efni tilkynningarinnar sem átt gæti við um aðstöðu sína. Af þessu leiðir eins og greinir meðal annars í dómi Hæstaréttar 26. janúar 2012 í máli nr. 245/2011 að skýra verður tilkynninguna og ákvarða réttaráhrif hennar í hverju tilviki.
Stefndi mátti skilja tilkynninguna 16. október 2008 svo að með henni væri áfrýjandi einhliða að fella niður skiptasamninginn og lýsa því yfir að framvegis myndi hann hvorki efna samninginn af sinni hálfu né ætlast til þess af stefnda. Sú staðreynd að áfrýjandi gerði ekki reka að því að framkvæma greiðslur á vaxtagjalddaga 25. nóvember 2008 renndi enn frekari stoðum undir að stefndi gæti litið svo á að áfrýjandi hefði einhliða fellt samninginn niður í samræmi við efni tilkynningarinnar. Stefndi brást eins og áður er rakið þannig við henni að hann lýsti yfir skuldajöfnuði 20. janúar 2009 og tók sérstaklega fram að 7. október 2008 hefðu forsendur brostið fyrir áframhaldandi gildi skiptasamningsins og væri rétt að miða uppgjör hans við þá dagsetningu, enda hefðu engar greiðslur á grundvelli samningsins átt sér stað eftir það tímamark. Eftir að stefndi hafði lýst yfir skuldajöfnuði lét áfrýjandi við það eitt sitja að andmæla því að réttur til skuldajafnaðar væri til staðar en gerði á hinn bóginn ekki athugasemd við þann skilning stefnda að samningnum hefði verið lokað og miða bæri uppgjör hans við það. Var þó í ljósi framangreinds til þess brýn ástæða af hálfu áfrýjanda væri hann annarrar skoðunar. Af þessu leiddi að áfrýjandi gat ekki síðar krafist efnda á samningnum allt til lokadags eða reist rétt til frekari greiðslna í samræmi við efni hans. Samkvæmt þessu er fallist á með stefnda að áfrýjandi eigi ekki rétt til uppgjörs á skiptasamningnum sem tekur mið af því að áfrýjandi verði eins settur og samningurinn hefði verið réttilega efndur af hálfu beggja aðila til lokadags en á því er krafa hans um greiðslu á 267.238.172 krónum reist.
Í skuldajafnaðaryfirlýsingu stefnda, sem í samræmi við eðli slíkra yfirlýsinga fól í sér bindandi loforð af hans hálfu, kom skýrlega fram viðurkenning á því að áfrýjandi ætti á hendur stefnda gilda og skýra kröfu samkvæmt skiptasamningnum en miða bæri uppgjör samningsins við 7. október 2008. Þegar af þessari ástæðu verður stefndi hvorki sýknaður af kröfu áfrýjanda á þeim grundvelli að hún sé fyrnd né að þann aðila sem undirritaði skiptasamninginn fyrir hans hönd hafi skort umboð til þess. Þá leiðir og af þeirri afstöðu stefnda til kröfu áfrýjanda sem fram kom í skuldajafnaðaryfirlýsingunni að stefndi getur heldur ekki krafist sýknu á þeim grundvelli að vanefndir áfrýjanda leiði til þeirrar niðurstöðu.
Yfirlýsing áfrýjanda 16. október 2008 var ekki um riftun skiptasamningsins vegna vanefnda stefnda heldur einhliða niðurfellingu gagnkvæmra samningsskyldna þeirra. Af því leiðir að ekki á sér lagastoð sú krafa stefnda að honum beri í uppgjöri aðila einungis að standa áfrýjanda skil á því sem stefndi móttók frá honum á grundvelli samningsins, 14.002.897 krónur. Þegar áfrýjanda var skipuð skilanefnd 7. október 2008 hafði skiptasamningurinn verið réttilega efndur af hálfu beggja aðila og næsti gjalddagi vaxta var 25. nóvember það ár. Stefndi gat því ekki án þess að annað kæmi til gengið út frá því 7. október 2008 að skiptasamningurinn yrði til frambúðar ekki efndur af hálfu áfrýjanda og getur uppgjör samningsins samkvæmt því ekki miðast við þann dag. Eins og áður segir mátti stefndi líta þannig á yfirlýsinguna 16. október 2008 að áfrýjandi hygðist ekki efna samninginn af sinni hálfu til frambúðar og jafnframt að hann ætlaðist ekki til þess af stefnda. Verður því fallist á þriðju varakröfu stefnda um að uppgjör samningsins skuli miðast við þann dag. Samkvæmt henni nemur fjárhæð kröfu áfrýjanda á þeim degi 146.892.482 krónum og sætir sá útreikningur ekki tölulegum ágreiningi. Með vísan til dóms Hæstaréttar 4. október 2013 í máli nr. 562/2013 getur krafa sem stefndi kann að eiga á grundvelli hlutdeildar í þeim skuldabréfum sem nánar er gerð grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi ekki komið til skuldajafnaðar við kröfu áfrýjanda.
Samkvæmt framansögðu verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda 146.892.482 krónur með dráttarvöxtum frá þeim degi sem áfrýjandi gerir kröfu um.
Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnaði í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndi, Íslensk verðbréf hf., greiði áfrýjanda, LBI hf., 146.892.482 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. ágúst 2009 til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 2.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. mars 2014.
I
Mál þetta var höfðað 31. október 2012 og tekið til dóms 22. janúar 2014.
Stefnandi er Landsbanki Íslands hf., Álfheimum 74, Reykjavík.
Stefndi er Íslensk verðbréf hf., Strandgötu 3, Akureyri.
Dómkröfur
Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 267.238.172 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af stefnufjárhæð frá 25. ágúst 2009 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda og að við ákvörðun hans verði tekið tillit til virðisaukaskatts.
Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu.
Stefndi hefur uppi í málinu gagnkröfu samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefndi krefst ekki sjálfstæðs dóms um gagnkröfu sína en hann krefst þess að gagnkröfunni verði skuldajafnað á móti kröfum stefnanda sem leiði til þess að taka verði aðalkröfu hans um sýknu til greina.
II
Málavextir
Hinn 21. janúar 2008 gerðu aðilar með sér svokallaðan gjaldmiðla- og vaxtaskiptasamning. Samkvæmt slíkum samningi er aðilum skylt að skiptast á gjaldmiðlum á gjalddaga höfuðstólsskipta og vöxtum á vaxtagjalddögum. Í þessu felst að samningsaðili skuldbindur sig til að selja gagnaðila sínum eina mynt og kaupa aðra af honum í staðinn. Gjalddagar á höfuðstólsskiptum í samningum af þessum toga eru ýmist einn eða tveir, þ.e. aðeins í lok samnings ef hann er einn en í upphafi og lok samnings ef þeir eru tveir. Á gjalddögum höfuðstólsskipta skiptast aðilar samtímis á greiðslum í samræmi við efni samningsins. Þeir skiptast einnig á vöxtum sem reiknast samkvæmt ákvæðum samningsins af höfuðstól skuldbindingar hvors aðila á samningstíma. Gjalddagar vaxtaskipta eru mismargir eftir efni samninganna. Afleiðusamningar eru í eðli sínu samningar þar sem verðmæti samningsins ræðst af þróun undirliggjandi gjaldeyris og vöxtum frá upphafi samnings til lokagjalddaga. Samkvæmt h-lið 2. töluliðar 1. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007 eru skiptasamningar afleiðusamningar.
Samningur aðila sem um er deilt í máli þessu kveður á um að aðilar áttu að skiptast á greiðslum sem næmu vöxtum á viðmiðunarfjárhæð hvors aðila á vaxtagjalddögum og á viðmiðunarfjárhæðum gjaldmiðla á upphafsdegi og á lokagjalddaga. Á upphafsdegi samningsins, 22. janúar 2008, greiddi stefndi stefnanda 327.250.000 krónur en fékk í staðinn 5.000.000 USD frá stefnanda. Stefnanda bar síðan að greiða stefnda vexti sem námu þriggja mánaða REIBOR vöxtum eins og þeir voru skráðir tveimur bankadögum fyrir upphaf vaxtatímabils, að viðbættu 2,6% álagi, af 327.250.000 krónum á hverjum vaxtagjalddaga sem voru 25. febrúar, 25. maí, 25. ágúst og 25. nóvember ár hvert, í fyrsta sinn 25. febrúar 2008. Stefndi átti aftur á móti að afhenda stefnanda fjárhæð sem nam þriggja mánaða USD-BBA-LIBOR vöxtum eins og þeir voru skráðir tveimur bankadögum fyrir upphaf vaxtatímabilsins, að viðbættu 0,7% vaxtaálagi, af 5.000.000 USD á hverjum gjalddaga, sem voru þeir sömu og hjá stefnanda. Á lokagjalddaga áttu aðilar síðan að skiptast á fjárhæðum, þannig að stefnda bar að greiða stefnanda 5.000.000 USD en stefnandi skyldi greiða stefnda 327.250.000 krónur. Í samningnum er einnig gert ráð fyrir að stefndi greiði stefnanda á upphafsdegi 124.488 USD.
Ágreiningslaust er að báðir aðilar efndu samningsskyldur sínar samkvæmt samningnum með því að skiptast á fjárhæðum höfuðstóls í upphafi og vöxtum á gjalddögum vaxta 25. febrúar, 25. maí og 25. ágúst 2008 en eftir þann tíma hafa engar greiðslur átt sér stað.
Hinn 17. janúar 2008 áttu aðilar málsins einnig í viðskiptum sem fólust í því að stefndi keypti af stefnanda skuldabréf fyrir 4.875.512,5 USD (sem að viðbættri greiðslu að fjárhæð 124.488 sem getið er hér að framan gerir USD 5.000.000,5). Skuldabréf þetta var hluti af skuldabréfaútgáfu, verðviðauka, stefnanda sem kallaðist LANISL Float 25/08/2009, ISIN nr. US515OX1AB50. Dagsetning á uppgjöri viðskiptanna er 22. janúar 2008. Vexti af þessu bréfi átti stefnandi að greiða 25. febrúar, 25. maí, 25. ágúst og 25. nóvember ár hvert en höfuðstól bréfsins átti að greiða 29. ágúst 2009. Féllu því saman vaxtagreiðslur af þessu bréfi og vaxtagreiðslur af skiptasamningnum sem áður er getið og þá er lokadagur á greiðslu skuldabréfsins hinn sami og lokadagur skiptasamningsins. Ákvæði í skiptasamningnum lýsa því hvernig aðilar skuli skiptast á greiðslum og má þá ráða að þegar stefnandi greiðir vexti af skuldabréfinu er stefndi skuldbundinn til að greiða þá strax til stefnanda sem raunar sér um allar millifærslur á greiðslum vegna beggja samninganna. Þá má sjá að á móti þessum vöxtum á stefnandi að greiða vexti af 327.250.000 króna höfuðstól. Í raun greiddi stefndi því ekki fyrir skuldabréfið sem hann keypti heldur greiddi hann 327.250.000 krónur inn á skiptasamninginn sem stefndi tók og greiddi í Bandaríkjadölum fyrir skuldabréfið. Þegar skiptasamningurinn og skuldabréfakaupin eru skoðuð saman sést að stefnandi er í raun að lána stefnda 327.250.000 krónur og að hann á að fá þá fjárhæð til baka ásamt vöxtum í íslenskum krónum. Markmið skiptasamningsins var því að verja stefnda fyrir áhættu af gengi Bandaríkjadals gagnvart krónu.
Um samningssamband aðila samkvæmt gjaldmiðlaskiptasamningnum giltu ákvæði samningsins sjálfs. Í 3. gr. samningsins er tekið fram að auk þeirra ákvæða sem fram komi í samningnum gildi almennir skilmálar fyrir markaðsviðskipti hjá Landsbanka Íslands hf. en þessa skilmála undirritaði stefndi ekki. Í málflutningi beggja aðila var miðað við að nefndir skilmálar stefnanda giltu um samning aðila. Í almennum skilmálum stefnanda er vísað til þess að ákvæði almennra skilmála fyrir framvirk gjaldmiðlaviðskipti og skiptasamninga, útgefnir af sambandi íslenskra viðskiptabanka og sambandi íslenskra sparisjóða, 1. útgáfa, febrúar 1998, gildi einnig um öll markaðsviðskipti hjá stefnda eftir því sem við eigi. Sé misræmi milli skilmálanna gildi skilmálar stefnanda.
Fjármálaeftirlitið ákvað hinn 7. október 2008 að taka yfir vald hluthafafundar stefnanda og vék stjórn hans frá. Samtímis skipaði eftirlitið stefnanda skilanefnd sem tók við heimildum stjórnar samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög nr. 2/1995, í samræmi við 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, eins og þeim var breytt með lögum nr. 44/2009. Fjármálaeftirlitið ákvað hinn 9. október 2008 með heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, að ráðstafa eignum og skuldum stefnanda til Nýja Landsbanka Íslands hf. Samkvæmt 1. tölulið ákvörðunarinnar skyldi öllum eignum stefnanda, hverju nafni sem þær nefndust, ráðstafað til Nýja Landsbanka Íslands hf. Í viðauka með ákvörðuninni voru tilgreind ákveðin réttindi sem undanþegin voru framsalinu. Í 2. málslið 7. töluliðar nefndrar ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins var mælt fyrir um að ákvörðunin næði til allra afleiðusamninga stefnanda. Hinn 12. október 2008 ákvað Fjármálaeftirlitið að allir afleiðusamningar skyldu vera áfram hjá stefnanda og felldi eftirlitið þar með úr gildi 2. málslið 7. töluliðar ákvörðunarinnar sem tekin var 9. október 2008. Eftir þessa ákvörðun voru réttindi og skyldur samkvæmt afleiðusamningum aftur komin til Landsbanka Íslands hf.
Í tilefni af þessari ákvörðun sendi skilanefnd Landsbanka Íslands frá sér yfirlýsingu, m.a. til stefnda, þar sem fram kemur að að óbreyttu liggi fyrir að afleiðusamningum þeim sem ákvörðun Fjármálaeftirlitsins tekur til verði lokað. Í því felist m.a. að sjóðstreymis- og gengisvarnir á lána- og eignasöfnum viðskiptavina falla niður. Í kjölfarið munu afleiðustöður í hagnaði mynda kröfu viðskiptavinar á Landsbanka Íslands hf. en tapstöður mynda kröfu Landsbanka Íslands hf. á viðskiptavini.
Að framkominni þessari yfirlýsingu stefnanda ritaði stefndi honum bréf, dagsett 20. janúar 2009, og lýsir yfir skuldajöfnuði við kröfur stefnanda samkvæmt gjaldmiðlaskiptasamningi aðila, sem að hluta til er tekinn upp í bréfinu. Þá tekur stefndi fram að við yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á stefnanda, hinn 7. október 2008, hafi legið fyrir að skuldabréfin yrðu ekki efnd samkvæmt efni sínu. Með því hafi forsendur fyrir áframhaldandi gildi skiptasamningsins brostið og því verði að telja rétt að miða uppgjörsfjárhæð hans við þá dagsetningu. Í bréfinu er að finna lýsingu á þeim skuldabréfum sem stefnandi hyggst nota til skuldajöfnunar á kröfu stefnanda samkvæmt gjaldmiðlaskiptasamningnum. Í niðurlagi bréfsins er síðan sett fram ósk stefnda þess efnis að stefnandi samþykki skuldajafnaðaryfirlýsinguna og feli starfsmönnum stefnda að hafa samvinnu við stefnanda um nákvæman útreikning á eftirstandandi kröfu stefnanda. Þessu bréfi stefnanda svaraði stefndi með tölvupósti hinn 16. febrúar 2009. Þar kemur fram að skilanefnd stefnanda hafi tekið málið til meðferðar og skuldajöfnun verið hafnað þar sem fyrirsjáanleg vanefnd heimili ekki gjaldfellingu skuldabréfs. Sé óskað frekari upplýsinga eða rökstuðnings er stefnda bent á að hafa samband við ákveðna aðila.
Af gögnum málsins verður ekki ráðið að frekari samskipti hafi átt sér stað milli aðila vegna þessa máls fyrr en stefndi lýsti kröfum samkvæmt nefndu skuldabréfi og öðru til í slitabú stefnanda með bréfi dagsettu 29. október 2009. Þeirri kröfu var hins vegar hafnað með bréfi slitastjórnar stefnanda hinn 5. ágúst 2010 með þeim rökum að Deutsche Bank Trust Company Americas sé það sem kallað er „Trustee“ viðkomandi skuldabréfaútgáfu og slitastjórnin hafi viðurkennt heimild þess félags til að lýsa heildarkröfu á grundvelli skuldabréfaútgáfunnar. Stefndi andmælti afstöðu slitastjórnarinnar með bréfi dagsettu 29. október 2010. Afstaða slitastjórnar var síðar viðurkennd með dómum Hæstaréttar Íslands, t.d. í máli nr. 562/2013, en það mál varðaði sömu skuldabréfaútgáfu stefnanda. Með bréfi dagsettu 5. september 2012 afturkallar stefndi mótmæli sín við afstöðu slitastjórnar stefnanda en áskilur sér áfram rétt til skuldajöfnunar. Í framhaldi af þessu eiga aðilar samskipti í gegnum tölvupóst og án þess að þeim takist að jafna ágreining sinn.
III
Málsástæður og lagarök
Stefnandi reisir kröfu sína á því að skuld stefnda við hann samkvæmt gjaldmiðla- og vaxtaskiptasamningi aðila nemi stefnufjárhæð auk dráttarvaxta en við útreikning kröfunnar hafi verið tekið tillit til þeirra gjalddaga sem voru í hagnaði fyrir stefnda. Sá hagnaður hafi verið framreiknaður með dráttarvöxtum og að því búnu dreginn frá stefnufjárhæð. Stefnandi heldur því fram að aðilar hafi gert með sér bindandi samning sem stefndi hafi staðfest með undirritun sinni. Aðilar hafi skuldbundið sig til að efna samninginn samkvæmt efni hans og stefndi þannig verið skuldbundinn til að greiða stefnanda ákveðnar greiðslur og fá aðrar í staðinn.
Stefnandi byggir á því að uppgjör afleiðusamningsins skuli fara fram eftir þeim skilmálum sem réðu réttarsambandi aðila. Stefndi hafi ekki ritað undir almenna skilmála stefnanda en samþykkt þá með því að undirrita nefndan samning. Með vísan til loka málsgreinar gjaldmiðla- og vaxtaskiptasamningsins gildi skilmálarnir í viðskiptum aðila. Þar komi fram að um viðskiptin gildi til viðbótar ákvæðum samningsins almennir skilmálar stefnanda. Þetta leiði til þess að skilmálar stefnanda gildi um samninginn þó svo að þeir hafi ekki verið undirritaðir sérstaklega af stefnda. Stefnandi vísar til þess að samkvæmt samningi aðila hafi greiðslur sem þeir áttu að inna af hendi verið færðar í íslenskar krónur og þeim skuldajafnað á umsömdum gjalddögum þannig að aðeins mismunur stóð eftir og því hafi einungis annar aðilanna borið greiðsluskyldu sem þá nam nettó mismun þeirra greiðsla sem hvor aðili átti að fá og honum bar að inna af hendi. Samkvæmt þessu hafi aðeins komið til greiðslu nettó tap aðila á hverjum gjalddaga. Stefnandi reisir rétt sinn til skuldajöfnunar á 4. gr. þeirra almennu skilmála sem giltu um viðskiptin svo og almennum reglum kröfuréttar um skuldajöfnun. Segir hann reglu skilmálanna í samræmi við ákvæði 40. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007.
Stefnandi vísar einnig til þess að í 4. gr. og 7. mgr. 7. gr. almennra skilmála fyrir markaðsviðskipti hjá stefnanda sé kveðið á um heimild stefnanda til að umreikna kröfur á hendur stefnda í íslenskar krónur á gjalddaga. Við umreikning í íslenskar krónur sé miðað við miðgengi Seðlabanka Íslands á viðkomandi gjaldmiðlum á gjalddaga. Stefnandi heldur því fram að í kröfu hans sé tekið fullt tillit til skuldbindinga beggja aðila, þannig að kröfur þeirra eru reiknaðar með sama hætti og með sömu forsendum. Greiðsluskuldbindingarnar séu jafnaðar út að því marki og á þeim tímapunkti sem þær eru hæfar til að mætast og vísar hann í þessu efni til skjals sem hann hefur lagt fram í málinu. Þá bendir stefnandi á að hann er útreikningsaðili samkvæmt þeim samningi sem komst á með aðilum.
Stefnandi gerir í stefnu grein fyrir sjónarmiðum sínum varðandi nokkrar af málsástæðum stefnda. Stefnandi heldur því fram að dómur Hæstaréttar í málin nr. 415/2011 taki á þeirri málsástæðu stefnda að hann hafi ekki ætlað að taka sjálfstæða áhættu af samningi aðila. Í nefndum dómi hafi rétturinn komist að þeirri niðurstöðu að stefndi, sem var annar aðila málsins, hafi borið sjálfstæða greiðsluskyldu á afleiðusamningnum sem um var deilt í málinu. Hér eigi hið sama við og afleiðusamningur þessa máls sé sjálfstæður samningur sem feli í sér sjálfstæðar skyldur og því beri að hafna þessari málsástæðu stefnda.
Þá haldi stefndi því fram að starfsmaður sá sem undirritaði afleiðusamninginn hafi ekki haft til þess umboð. Þessu mótmælir stefnandi og vísar til þess að starfsmaðurinn hafi verið framkvæmdastjóri og prókúruhafi stefnda þegar hinn umdeildi samningur var gerður. Tilgangur stefnda hafi á þeim tíma m.a. verið að eiga viðskipti með verðbréf fyrir eigin reikning og sinna annarri starfsemi sem tengist framangreindum tilgangi. Af þeim sökum hafi framkvæmdastjóri og prókúruhafi stefnda haft fullnægjandi umboð til að binda stefnda að þessu leyti. Jafnframt bendir stefnandi á að stefndi er, og var, fjármálafyrirtæki með starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu og því hafi stefnandi mátt ganga út frá því að framkvæmdastjóri slíks félags væri bær til að binda félagið við gerð afleiðusamnings.
Hvað lagarök varðar vísar stefnandi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um efndir samninga og fjárskuldbindinga. Auk þess sem hann vísar til almennra skilmála um markaðsviðskipti hjá stefnanda. Þá vísar hann til laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, sérstaklega 40. gr. um heimildir til skuldajöfnunar. Þá vísar stefnandi til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Krafa um dráttarvexti er reist á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu sem og 7. mgr. 7. gr. almennra skilmála stefnanda um markaðsviðskipti. Krafa um málskostnað úr hendi stefnda er studd við 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað er reist á lögum um virðisaukaskatt.
Stefndi reisir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að krafa stefnanda sé fyrnd. Krafan byggist á skiptasamningi en samkvæmt 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda sé fyrningarfrestur slíkra krafna fjögur ár. Stefndi heldur því fram að skiptasamningurinn hafi verið gjaldfallinn fjórum árum áður en mál þetta var höfðað. Stefnanda hafi hinn 7. október 2008 verið skipuð skilanefnd. Hinn 16. október sama ár hafi stefnandi upplýst að ekki yrði um frekari efndir af hans hálfu samkvæmt skiptasamningnum. Mál þetta hafi stefnandi höfðað með birtingu stefnu 31. október 2012 og þá hafi fyrningarfrestur til heimtu kröfunnar verið liðinn.
Í annan stað byggir stefndi á því að skiptasamningurinn hafi ekki verið bindandi fyrir stefnda þar sem sá starfsmaður sem ritaði undir samninginn fyrir hans hönd hafi ekki haft umboð til að skuldbinda stefnda. Stefndi mótmælir þeirri fullyrðingu stefnanda að viðkomandi starfsmaður hafi verið framkvæmdastjóri stefnda. Auk þess hefði þurft að leita samþykkis stjórnar stefnda fyrir viðskiptunum sbr. 2. mgr. 68. gr. laga um hlutafélög, sbr. einnig 22. og 23. gr. samþykkta stefnda. Með tölvupósti til stefnanda, dagsettum hinn 25. mars 2008 hafi sérstaklega verið vakin athygli á þessu. Stefnanda hafi því verið þetta ljóst og því beri að sýkna stefnda.
Í þriðja lagi reisir stefndi kröfu sína um sýknu á því að krafa stefnanda miðist við að stefnandi fái fulla efndahagsmuni sína af samningnum bætta, þ.e. krafan miðast við að samningurinn hafi verið efndur að fullu til lokadags. Stefnandi taki ekkert tillit til þess að honum var skipuð skilanefnd 7. október 2008 og að endingu tekinn til slitameðferðar. Þá taki hann heldur ekkert tillit til þess að hinn 16. október 2008 lá fyrir að stefnandi myndi ekki fyrir sitt leyti standa við samninginn. Heldur stefndi því fram að það hljóti að vera forsenda fyrir því að stefnandi geti krafist fullra efnda að hann hefði lýst því yfir afdráttarlaust, strax 7. október 2008, að hann myndi efna samninginn og leggja fram fullnægjandi tryggingar fyrir efndum sínum og standa í framhaldi af því skil á greiðslum samkvæmt samningnum. Hér verði að gæta þess að gengisþróun getur hæglega orðið á þann veg að tap myndist fyrir stefnanda.
Í fjórða lagi reisir stefndi sýknukröfu sína á því að hann eigi gagnkröfu á stefnanda sem honum sé heimilt að skuldajafna á grundvelli 100. gr. laga nr. 21/1991. Hann geri ekki sjálfstæða kröfu um dóm fyrir þeirri kröfu en krefst þess að henni verði skuldajafnað á móti kröfu stefnanda, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga um meðferð einkamála. Fallist dómurinn á þennan rétt stefnda beri að sýkna hann af öllum kröfum stefnanda. Gagnkrafa stefnda grundvallast á skuldabréfi því sem hann keypti við gerð skipasamningsins og sams konar skuldabréfi sem stefndi keypti hinn 18. apríl 2008. Stefndi lýsti kröfu í bú stefnanda á grundvelli þessara bréfa að fjárhæð 6.644.704 USD miðað við hinn 22. apríl 2009. Samkvæmt miðgengi Seðlabanka Íslands á þeim degi, sem var 130,71 króna fyrir hvern Bandaríkjadal, nam lýst krafa 868.529.260 krónum. Stefndi lýsti yfir skuldajöfnun vegna gagnkröfunnar með bréfi dagsettu 20. janúar 2009 og gerði stefnandi lengi vel engar athugasemdir við þá skuldajöfnun og virtist hafa litið svo á að tilkynningin ætti rétt á sér. Krafa stefnda sé mun hærri en stefnukrafa málsins. Stefndi heldur því fram að öll skilyrði til skuldajöfnunar séu uppfyllt og honum því, með vísan til 100. gr. nefndra laga nr. 21/1991, heimilt að nota hana til skuldajöfnunar. Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi efnislega viðurkennt tilvist og fjárhæð kröfunnar. Hann hafi hins vegar hafnað því að unnt sé að nota hana til skuldajöfnunar. Þá afstöðu byggi stefnandi á því að vörslur skuldabréfanna hjá erlendum umsýsluaðila, Deutsche Bank, girði fyrir rétt stefnanda til skuldajöfnunar. Stefndi hafnar þessu og byggir á því að vörslufyrirkomulagi sé ekki ætlað að breyta eðli eða inntaki eignarréttinda stefnanda yfir skuldabréfunum. Þessu til stuðnings bendir stefndi á ákvæði útgáfulýsingar skuldabréfanna og viðeigandi ákvæði laga í New York en lög þess ríkis giltu um skuldabréfin. Þau ákvæði laga í New York sem einkum er vísað til eru greinar 8-202(f), 8-503(2) í lagabálki fylkisins sem fjallar um viðskipti (e. „Uniform Commercial Code“). Auk þessa verði að gæta að því að heimildir samkvæmt nefndri 100. gr. eru rýmri en alla jafna leiðir af samningum aðila. Heimildir stefnda til skuldajöfnunar við gjaldþrotaskipti útgefanda eru því rýmri en felast í útgáfulýsingunni og þeim ákvæðum laga í New York sem giltu um útgáfuna. Varðandi þessa málsástæðu vísar stefndi enn fremur til þess hversu ósanngjörn sú niðurstaða er sem stefnandi krefst. Stefndi hafi fjárfest í skuldabréfum stefnanda fyrir u.þ.b. 328.000.000 króna. Þessa fjárhæð greiddi hann stefnanda í reiðufé. Til að verja sig fyrir áhættu af þróun á gengi Bandaríkjadals á móti krónu vegna þessa samnings hafi hann gert skiptasamning við stefnanda. Nú haldi stefnandi því fram að stefndi eigi að greiða sér til viðbótar u.þ.b. 270.000.000 króna án þess að tekið sé tillit til krafna stefnda á hendur stefnanda. Ákvæði 100. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. sé ætlað að koma í veg fyrir slíka niðurstöðu.
Varakröfu um lækkun á kröfum stefnanda reisir stefndi í fyrsta lagi á því að meðhöndla verði skipun Fjármálaeftirlitsins á skilanefnd fyrir stefnda hinn 7. október 2008 og yfirlýsingu skilanefndarinnar 16. sama mánaðar, sem fyrirvaralausa og ólögmæta riftun skiptasamningsins. Stefndi segir það meginreglu íslensks réttar að við riftun skuli aðilar skila hvor öðrum þeim greiðslum sem þeir hafa fengið frá gagnaðila sínum og byggir á því að þessa reglu skuli leggja til grundvallar við uppgjörið. Stefndi heldur því fram að 10. gr. almennra samningsskilmála fyrir framvirk gjaldmiðla-viðskipti og skiptasamninga geti ekki átt við um uppgjörið. Í þeirri grein sé mælt fyrir um ákveðnar reiknireglur sem byggjast á þeirri meginforsendu að sýnt sé fram á tilvist banka sem hefði viljað ganga inn í samninginn í stað stefnanda og hvaða verð hann hefði áskilið sér fyrir slíkt. Í þessu máli liggi ekkert fyrir um að annar banki væri tilbúinn til að ganga inn í samninginn og því verði að nota almennu regluna um að greiðslum sé skilað. Ef eingöngu er horft til greiðslna af skiptasamningnum sjálfum, en horft framhjá kaupum stefnda á skuldabréfinu sem stefndi gaf út, gengu greiðslur á milli aðila þannig að hinn 22. janúar 2008 greiddi stefndi stefnanda 327.500.000 krónur en fékk frá stefnanda 4.875.512,5 UDS. Miðað við miðgengi Seðlabanka Íslanda á þeim degi kostaði hver Bandaríkjadalur 65,5 krónur. Mismunur á greiðslum var því 8.153.931 króna stefnanda í hag. Síðan skiptust aðilar á greiðslum 22. febrúar, 26. maí og 22. ágúst 2008. Að teknu tilliti til gengis krónu gagnvart Bandaríkjadal fékk stefndi 307.331 krónu 22. febrúar 2008, 9.944.425 krónur 26. maí og 11.905.072 krónur 22. ágúst. Niðurstaða þessara greiðslna sé sú að stefndi hafi verið í plús sem nam 14.002.897 krónum (307.331+9.944.425+11.905.072-8.153.931=14.002.897). Heldur stefndi því fram að stefnandi geti ekki átt kröfu um hærri greiðslu en þetta.
Fallist dómurinn ekki á þetta byggir stefndi á því að um uppgjörið gildi 9. og 10. gr. almennra skilmála fyrir framvirk gjaldmiðlaviðskipti og skiptasamninga og skuli miða uppgjörið við 7. október 2008 þegar stefnanda var skipuð skilanefnd. Í nefndri 10. gr. sé fjallað um hvernig uppgjör skuli reiknað þegar skiptasamningi lýkur fyrir umsaminn gjalddaga. Þeirri aðferð hafi verið lýst sem „núvirðisaðferð“ og henni lýst í skilmálunum. Í aðalatriðum feli hún í sér að núvirða mismun á greiðslum samkvæmt skiptasamningnum og þeim greiðslum sem hefði þurft að greiða öðrum aðila fyrir að gera sams konar samning á uppgjörsdeginum og grundvallast útreikningurinn á markaðsaðstæðum á uppgjörsdegi. Stefndi segir að þótt markaðsaðstæður hafi verið sérstakar hinn 7. október 2008 liggi fyrir upplýsingar um gengi Bandaríkjadals á móti krónu á þeim degi og ávöxtunarkrafa. Þá voru tilboð á skjá hjá Bloomberg í gerð samninga um skipti á Bandaríkjadal og krónu til eins árs fyrir frádrag 13,50%. Engin vitneskja sé hins vegar um það hversu raunhæf slík tilboð voru eða fyrir hvaða fjárhæðir. Með því að nota þessar upplýsingar, þótt ófullkomnar séu, sé unnt að reikna út uppgjör skiptasamningsins með núvirðisaðferðinni miðað við 7. október 2008. Stefndi vísar til þess að hann hafi fengið dr. Hersi Sigurgeirsson stærðfræðing til að reikna þetta út. Hann hafi við núvirðinguna stuðst við mismunandi vexti millibankalána í Reykjavík eftir tímalengd þeirra á þessum degi. Vextir hafi þá verið á bilinu 15,75% til 16,1% og einn Bandaríkjadalur kostað 100,13 krónur. Niðurstaða útreikninganna með núvirðisaðferðinni á nefndum degi hafi verið 111.475.306 krónur.
Fallist dómurinn enn ekki á röksemdir stefnda byggir hann kröfu sína um lækkun dómkrafna stefnanda í þriðja lagi á því að núvirðisaðferð skuli beitt en miðað við markaðsaðstæður 16. október 2008 þegar stefnda barst tilkynning stefnanda um að skiptasamningnum yrði lokað. Á þeim degi hafi ekki legið fyrir upplýsingar hjá Bloomberg um tilboð í eins árs skiptasamning á Bandaríkjadal fyrir krónu. Daginn áður eða 15. október 2008 hafi hins vegar legið fyrir slíkt tilboð með frádragi upp á 17% og er við það miðað hér. Sami stærðfræðingur hafi reiknað kröfuna út miðað við millibankavexti á bilinu 12,25% til 12,64% og að Bandaríkjadalur kostaði 111,6 krónur. Niðurstaðan úr þeim útreikningi hafi verið 146.892.482 krónur.
Að endingu mótmælir stefndi dráttarvaxtakröfu stefnanda og krefst þess að dráttarvextir verði ekki dæmdir nema frá dómsuppsögu verði fallist á kröfu stefnanda.
Hvað lagarök varðar vísar stefnandi m.a. til almennra reglna samninga- og kröfuréttar, til laga um vexti og verðtryggingu, laga um meðferð einkamála, laga um hlutafélög, laga um gjaldþrotaskipti o.fl., laga um fyrningu kröfuréttinda og New York Uniform Commercial Code.
IV
Niðurstaða
Líkt og að framan greinir snýst deila máls þessa um svokallaðan gjaldmiðla-skiptasamning sem aðilar gerðu hinn 21. janúar 2008. Í aðalatriðum var efni samningsins í þá veru að í upphafi lét stefnandi af hendi Bandaríkjadali en fékk frá stefnda krónur í staðinn. Á gjalddögum vaxta, sem voru 25. febrúar, 25. maí, 25. ágúst og 25. nóvember ár hvert, áttu þeir að skiptast á vöxtum og á lokadegi samningsins, hinn 25. ágúst 2009, stóð til að aðilar skiptust aftur á höfuðstól samningsins þannig að stefnandi skilaði sömu fjárhæð í íslenskum krónum til stefnda og hann hafði í upphafi samningsins fengið frá stefnda og öfugt. Aðilar skiptust á höfuðstólsgreiðslum á upphafsdegi 22. janúar 2008 og vaxtagreiðslum í samræmi við samninginn á gjalddögum vaxta 25. febrúar, 25. maí og 25. ágúst 2008. Þegar kom að vaxtaskiptum 25. nóvember 2008 hafði stefnanda verið skipuð slitastjórn og ekkert varð af efndum þann dag eða síðar.
Kröfur stefnanda miðast við að aðilum beri að efna gjaldmiðlaskiptasamninginn eftir efni hans. Hefur stefnandi reiknaðu út í íslenskum krónum, miðað við skráð gengi Bandaríkjadals hjá Seðlabanka Íslands á hverjum tíma, þær vaxtagreiðslur sem aðilum bar að skiptast á og síðan umreiknað greiðslu sem stefnda bar að greiða í Bandaríkjadölum á lokadegi og dregið frá þeirri fjárhæð þá fjárhæð sem honum bar að greiða stefnda á lokadegi. Í útreikningi sínum hefur stefnandi tekið tillit til þess að honum bar að greiða stefnda hærri fjárhæðir á vaxtagjalddögum en stefnda bar að greiða honum og reiknað dráttarvexti á þær fjárhæðir frá gjalddaga þeirra til þess tíma er aðilum bar að skiptast á höfuðstólsgreiðslum. Ekki er tölulegur ágreiningur um þennan útreikning stefnanda.
Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi vanefnt gjaldmiðlaskiptasamninginn sem leiði til þess að forsendur fyrir því að stefndi gæti krafist efnda hans hafi brostið. Stefndi mótmælir því jafnframt að hann hafi nokkru sinni vanefnt samninginn. Stefnandi hafi hinn 16. október 2008 lýst því yfir að gengisvarnir væru niður fallnar og telur stefndi einsýnt að slík yfirlýsing feli í sér stórkostlega vanefnd á samningi um gengisvarnir.
Óumdeilt er að það var í verkahring stefnanda að annast allar greiðslur samkvæmt gjaldmiðlaskiptasamningnum og það var í hans verkahring að millifæra greiðslur af og á reikning stefnda hjá bankanum. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að stefnandi hafi á nokkurn hátt hlutast til um að efna samninginn eftir vaxtagjalddagann 25. ágúst 2008. Stefnandi hefur ekki borið því við að það hafi hann ekki gert vegna atvika er varða stefnda.
Af hálfu beggja aðila var á því byggt við flutning málsins að auk ákvæða í gjaldmiðlaskiptasamningnum sjálfum giltu almennir skilmálar fyrir markaðsviðskipti hjá Landsbanka Íslands hf. Samkvæmt 10. gr. þeirra skilmála giltu einnig almennir skilmálar fyrir framvirk gjaldmiðlaviðskipti og skiptasamninga. Ef misræmi væri á milli ákvæða skilmálanna tveggja giltu skilmálar stefnanda. Í 7. gr. skilmála stefnanda var ákvæði um heimildir hans til að gjaldfella skuldbindingar viðskiptamanns. Hins vegar er þar ekki að finna ákvæði um úrræði viðskiptamanns vegna vanefnda bankans. Í 2. mgr. 7. gr. er að finna ákvæði um að bankanum sé heimilt en ekki skylt að gjaldfella eða loka samningi án fyrirvara þegar viðskiptamaður vanefndir skuldbindingar sínar verulega. Hvaða vanefndir teljist verulegar er síðan skilgreint í 3. mgr. 7. gr. Þá er í öðrum málsgreinum 7. gr. lýst til hvaða aðgerða bankanum er heimilt að grípa komi til vanskila af hálfu viðskiptamanns. Í almennum skilmálum fyrir framvirk gjaldmiðlaviðskipti og skiptasamninga eru ákvæði um vanefndir og úrræði vegna þeirra. Ákvæði þessara skilmála taka til beggja samningsaðila.
Áður er getið tilkynningar stefnanda frá 16. október 2008 og efni hennar rakið hér að framan en þar var um að ræða einhliða yfirlýsingu stefnanda sem telst skuldbindandi fyrir hann líkt og fram kemur í dómi Hæstaréttar í máli nr. 303/2013 en í því máli hafði stefnandi gert kröfur á viðskiptavin sinn á grundvelli efnislega sams konar samninga og hér um ræðir. Í dóminum kemur einnig fram að fjölmargir viðskiptamenn stefnanda sem gert höfðu afleiðusamninga hafi fengið sömu tilkynningu. Efni hennar sé óljóst um hver afdrif afleiðusamninga viðtakanda eins og stefnda yrðu. Því verði að skýra tilkynninguna og ákvarða réttaráhrif hennar í hverju tilviki fyrir sig. Í tilkynningunni kom fram að afleiðusamningum „verður lokað“, án þess að tilgreint væri hvenær það skyldi gert. Þá sagði að í lokun fælist meðal annars að sjóðstreymis- og gengisvarnir á lána- og eignasöfnum viðskiptavina féllu niður.
Viðbrögð stefnda við tilkynningunni voru þau að hann lýsti yfir skuldajöfnuði eins og áður er rakið. Kemur þá til skoðunar hvaða áhrif sú yfirlýsing stefnda hefur á samning aðila. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að með þessu hafi stefndi viðurkennt að stefnandi ætti kröfu á hann samkvæmt gjaldmiðlaskiptasamningnum en stefndi telur þvert á móti að í yfirlýsingunni sé enga slíka viðurkenningu að finna. Hann hafi átt kröfu á stefnanda og lýst því yfir, að ef stefnandi ætti á hann kröfu, þá myndi hann nota kröfu sína til skuldajöfnunar. Í yfirlýsingu stefnda um skuldajöfnun er tekið fram að forsendur fyrir gildi skiptasamningsins séu brostnar og því beri að miða uppgjör hans við 7. október 2008 er Fjármálaeftirlitið tók stefnanda yfir. Stefnandi svaraði bréfi þessu með tölvupósti og hafnaði skuldajöfnun með þeim rökum að fyrirsjáanleg vanefnd heimili ekki gjaldfellingu skuldabréfs. Hann gerði hins vegar enga kröfu á hendur stefnda vegna skiptasamningsins. Ekki verður fallist á með stefnanda að stefndi hafi með yfirlýsingu sinni um skuldajöfnun samþykkt að gjaldmiðlaskiptasamningurinn væri í gildi og að hann skyldi efndur samkvæmt efni sínu.
Í nefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 303/2013 kemur fram að yfirlýsing stefnanda um lokun afleiðusamninga hafi hvorki átt sér stoð í almennum skilmálum fyrir markaðsviðskipti hjá Landsbanka Íslands hf. né í almennum skilmálum fyrir framvirk gjaldmiðlaviðskipti og skiptasamninga. Tilkynningin hafi heldur ekki verið reist á því að lokunin væru viðbrögð við vanefndum stefnda sem ætti sér stoð í lögum eða ólögfestum reglum kröfuréttar. Þá tekur rétturinn fram að stefndi hafi mátt líta svo á, að með tilkynningunni væri stefnandi einhliða að fella niður afleiðusamningana og lýsa því yfir að framvegis myndi hann hvorki efna samningana af sinni hálfu né ætlast til efnda af hálfu stefnda.
Næst er vikið að því að sú staðreynd að stefndi gerði engan reka að því að framkvæma greiðslur á gjalddögum samninganna hlyti að renna nægum stoðum undir að stefndi mætti líta svo á að stefnandi hefði fellt samningana einhliða niður til samræmis við það sem sagði í tilkynningu hans 16. október 2008. Í því hafi falist að stefnandi gæti ekki síðar krafist efnda á samningunum eða reist rétt til greiðslna á efni þeirra. Þótt stefnandi hafi í tilkynningunni sagt að í kjölfar lokunar myndu „afleiðustöður í hagnaði mynda kröfu viðskiptavinar á Landsbanka Íslands hf. en tapstöður mynda kröfur Landsbanka Íslands á viðskiptavini“ gat þessi hluti tilkynningarinnar ekki haft réttaráhrif samkvæmt efni sínu. Loks segir í dóminum: „Það var hvorki á valdi áfrýjanda samkvæmt þeim reglum sem giltu um afleiðusamningana né almennum reglum kröfuréttar að lýsa, einhliða og án vanefnda af hálfu stefnda, yfir niðurfellingu samninganna sem fól í sér brottfall á gagnkvæmri efndaskyldu aðila, en gera samt sem áður kröfu um uppgjör samkvæmt efni samninganna, þar með talið gjaldmiðlaskiptum. Verður í því sambandi að hafa í huga að gjaldmiðlaskipti áttu samkvæmt samningunum að fara fram á lokagjalddögum þeirra á árunum 2010 og 2011 og var ómögulegt í október 2008 að segja fyrir um hver staða íslensku krónunnar yrði þá gagnvart þeim gjaldmiðlum sem samningarnir tilgreindu.“ Allt framanrakið á við í þessu máli og þá verður ekki talið að nefnd yfirlýsing stefnda um skuldajöfnun verði skilin svo að stefndi hafi með henni samþykkt að afsala sér þeim rétti sem almennar reglur veittu honum við þessar aðstæður. Þá bera gögn málsins ekki með sér að stefnandi hafi gert nokkurn reka að því að halda kröfu sinni upp á stefnda fyrr en með höfðun máls þessa ef frá eru talin tölvupóstsamskipti sem benda til að einhverjar viðræður hafi átt sér stað um samninginn án þess að séð verði hvenær þau áttu sér stað. Af þessum sökum ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Að fenginni þessari niðurstöðu verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir, að teknu tilliti til umfangs málsins, hæfilega ákveðinn 1.500.000 krónur.
Af hálfu stefnanda flutti málið Stefán Reykjalín Guðmundsson héraðsdómslögmaður en af hálfu stefnda Reimar S. Pétursson hæstaréttarlögmaður.
Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan að gættum ákvæðum 1. mgr. 115. gr. laga um meðferð einkamála.
Dómsorð:
Stefndi, Íslensk verðbréf hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Landsbanka Íslands hf.
Stefnandi greiði stefnda 1.500.000 krónur í málskostnað.