Hæstiréttur íslands

Mál nr. 17/1999


Lykilorð

  • Landamerki


                                                                                                                 

Fimmtudaginn 23. september 1999.

Nr. 17/1999.

Sigurjón Haraldsson

Anna Rúnarsdóttir og

Sigríður Sveinsdóttir

(Steingrímur G. Kristjánsson hrl.)

gegn

Ingibjörgu Jónsdóttur og

Guðrúnu Jónsdóttur

(Benedikt Ólafsson hdl.)

og gagnsök

Landamerki.

SH, A og SS, og I og G greindi á um merkingu orðlagsins „utan við Timburdal“ í landamerkjabréfum, um örnefnin Langadalshöfða og Efri-Hruna og staðsetningu merkjapunkta í samræmi við það. Talið var að orðalagið utan við Timburdal þýddi norðan dalsins enda væri það í samræmi við málvenju á þessu svæði. Þótt nokkur rök stæðu til að telja línuna liggja í beina stefnu norðan Timburdals í vörðu á Langadalshöfða, bentu gögn málsins til óvissu um legu línunnar í höfðanum. Með hliðsjón af aðstæðum öllum og landslagi var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að miðað skyldi við hæsta punkt í sunnanverðum Langadalshöfða. Að virtum gögnum málsins, þar á meðal framburði vitna, og staðháttum var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að fallast á kröfur I og G um staðsetningu Efri-Hruna.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.

Aðaláfrýjendur skutu máli þessu til Hæstaréttar 13. janúar 1999. Þeir krefjast þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til nýrrar meðferðar. Til vara krefjast þeir þess að viðurkennt verði að landamerki jarðarinnar Leynings og sjálfstæðrar spildu úr landi Leynings, annarsvegar, og jarðarinnar Ytri-Villingadals, hinsvegar, séu úr Rauðakletti í Sjónarhól og þaðan utan við Timburdal í Langadalshöfða í mitt Kringluvatn og þaðan í Efri-Hruna, þ.e. samkvæmt uppdrætti af landamerkjum úr Rauðakletti bein lína í punkt B í Sjónarhóli, þaðan bein lína í punkt CC í Langadalshöfða, þaðan bein lína í punkt D í Kringluvatni og þaðan bein lína í punkt EE í Efri-Hruna. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Málinu var gagnáfrýjað með stefnu 22. mars 1999. Gagnáfrýjendur krefjast þess að viðurkennt verði að landamerki framangreindra jarða verði ákveðin úr Rauðakletti í Sjónarhól, og þaðan utan við Timburdal í Langadalshöfða í mitt Kringluvatn og þaðan í Efri-Hruna. Þá verði viðurkennt að staðsetning landamerkja í Langadalshöfða sé þar sem línur frá Kringluvatni og Sjónarhóli skerast í merkjapunkti C á uppdrætti af landamerkjum og staðsetning Efri-Hruna sé ákveðin í punkti E á uppdrættinum. Loks er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð ný skjöl. Meðal þeirra er uppdráttur af landamerkjum jarðanna Ytri-Villingadals og Leynings í Eyjafjarðarsveit samkvæmt héraðsdómi.  Á uppdráttinn eru markaðar kröfulínur ásamt dómlínu og hnitaskrá, en þar koma fram hnit og merking punkta á kröfulínum og dómlínu.

Dómarar Hæstaréttar gengu á vettvang ásamt aðilum og lögmönnum þeirra.

I.

Aðalkröfu sína reisa aðaláfrýjendur á því í fyrsta lagi að héraðsdómur hafi látið undir höfuð leggjast að taka varakröfu gagnáfrýjanda í héraði til efnisúrlausnar, en hún komi fram á skjali sem í ágripi er merkt nr. IV. Aðaláfrýjendur gera ekki þessa varakröfu fyrir Hæstarétti og verður þessi málsástæða þegar af þeirri ástæðu ekki talin valda ómerkingu héraðsdóms.

Í öðru lagi er aðalkrafan á því reist að héraðsdómur hafi komist að niðurstöðu um merkin milli punkta G og D á meðfylgjandi uppdrætti, sem hvorugur málsaðili hafi krafist eða miðað málsástæður við. Dómlína héraðsdóms er dregin innan marka krafna gagnáfrýjenda og verður héraðsdómur því ekki ómerktur af þessum sökum.

II.

Málavöxtum og málsástæðum er lýst í héraðsdómi. Aðila greinir á um merkingu orðalagsins „utan við Timburdal“ í landamerkjabréfum og um örnefnin Langadalshöfða og Efri-Hruna og því staðsetningu merkjapunkta í samræmi við það.

Í landamerkjabréfi Ytri-Villingadals 29. maí 1885 sem staðfest er af eigendum jarðarinnar Leynings segir m.a.: „Að utan: Úr Rauðakletti í Sjónarhól og þaðan utan við Timburdal í Langadalshöfða í mitt Kringluvatn og þaðan í Efri-Hruna.” Umboðsmaður Ytri-Villingadals gerði samhljóða athugasemd við merkjabréf Leynings sem gert var nokkrum dögum fyrr með nokkuð öðru orðalagi. Merki jarðanna eru óumdeild frá Rauðakletti í Sjónarhól, sem merktur er B (533177/ 537795) á uppdrætti. Af orðalagi athugasemdarinnar og merkjalýsingarinnar verður ótvírætt ráðið að utan við Timburdal þýði að merkin liggi norðan dalsins enda er það í samræmi við málvenju á þessu svæði.

Af kröfugerð aðila sést að þá greinir á um hvar draga á merkjalínuna í Langadalshöfða. Þegar litið er til orðalags merkjabréfs Ytri-Villingadals hníga til þess nokkur rök að telja línuna liggja áfram í beina stefnu. Því getur einnig verið til styrktar að varða hefur verið hlaðin nánast á slíkri línu. Varðan er hins vegar smá og erfitt er að greina hana úr fjarlægð og merkjalýsingarnar verða samræmdar því að ekki sé um beina línu að ræða. Í bókinni Örnefni í Saurbæjarhreppi útgefinni 1957, sem Angantýr Hjálmarsson var annar höfundur að, en hann var alinn upp í Villingadal, segir um örnefni jarðarinnar Leynings: „Langadalshöfðinn er suður frá Sveinkhöfðabrekkunni og nær suður að Þjófalág, en merkin eru syðst í höfðanum og Kúalágarnar austan í honum, sú ytri á ská, út og upp í miðjan höfðann, en hin upp í hann syðst.” Örnefnalýsing Ytri-Villingadals í bók þessari er sama efnis. Þar segir auk þess að Langidalur sé að mestu í Leyningslandi. Af því sem hér hefur verið rakið má telja nokkra óvissu um legu merkjalínunnar um Langadalshöfðann. Þykir af aðstæðum öllum og landslagi mega fallast á dómlínu héraðsdóms um merkjapunkta G (533695/537583), við norðurjaðar Timburdals, og H (533944/537270), hæst á höfðanum sunnan til, og í mitt Kringluvatn, sem á uppdrætti er merkt D (534029/537002).

III.

Samkvæmt kröfugerð aðila fyrir Hæstarétti halda þeir því fram að merkjalínan liggi úr miðju Kringluvatni í Efri-Hruna. Þá greinir hins vegar á um hvor af tveimur hólum við Torfufellsá sé Efri-Hruni. Segja gagnáfrýjendur hólinn vera í punkti sem á uppdrætti er merktur E, en aðaláfrýjendur að hann sé nokkru ofar í punkti sem merktur er EE. Nokkru neðar með ánni eða austar er hóll, sem gagnáfrýjendur telja að heiti Neðri-Hruni, og er hann neðan við gömlu brúna sem var á ánni og segja þeir að hún hafi legið á milli Hrunanna. Þennan hól vilja aðaláfrýjendur kalla Syðri-Tjarnargerðishól og hól sem á uppdrætti er merktur E telja þeir Neðri-Hruna. Í örnefnalýsingu fyrir Ytri-Villingadal í bókinni Örnefni í Saurbæjarhreppi, sem áður er nefnd, segir: „Landamerki liggja úr Langadalshöfða suður í Kringluvatn. Þaðan eru þau ekki alveg ákveðin; mun þó sennilegt, að þau liggi suður í mynnið á Torfufellsgilinu. Samt telja sumir, að þau séu í Efri-Hruna. Járnhryggurinn er sunnan Járnhryggslautar og Syðri-Járnhryggslautin er sunnan hans. Bæli heitir víður og grunnur grasbolli, suður og fram úr Syðri-Járnhryggslautinni en Efri-Hruninn er hóll við Torfufellsána, neðan Bælisins. Bælishvammurinn er við ána, suður og vestur frá Bælinu, en Hrafnsnesið er ofan við hann.” Sú óvissa um merki sem hér er vitnað til varðar sýnilega muninn á merkjabréfum jarðanna en ekki deilu um það hvar staðsetja eigi Efri-Hruna. Í örnefnalýsingu Leynings er í þessari sömu heimild Neðri-Hruni talinn rétt sunnan við Tjarnargerðisvatn, þ.e. á þeim stað er gagnáfrýjendur staðsetja hólinn. Önnur vitni en þau sem tengjast Leyningi eftir 1930 staðsetja Efri-Hruna í punkti E á uppdrætti. Þegar þessi gögn eru virt og staðhættir skoðaðir þykir bera að staðfesta úrlausn héraðsdóms um að Efri-Hruni sé í punkti E (534317/536577).

IV.

Niðurstaða málsins verður samkvæmt framanrituðu sú að staðfesta beri ákvörðun héraðsdóms um merki jarðanna.

Samkvæmt þessari niðurstöðu þykir hvor aðila eiga að bera sinn kostnað af málinu í héraði, en aðaláfrýjendur að greiða gagnáfrýjendum málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

                                                   Dómsorð:

Ákvörðun héraðsdóms um landamerki jarðanna Ytri-Villingadals og Leynings í Eyjafjarðarsveit skal vera óröskuð.

Hvor aðila skal bera sinn kostnað af málinu í héraði.

Aðaláfrýjendur, Sigurjón Haraldsson, Anna Rúnarsdóttir og Sigríður Sveinsdóttir, greiði gagnáfrýjendum, Ingibjörgu og Guðrúnu Jónsdætrum, 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 7. júlí 1998.

Mál þetta, sem dómtekið var 10. júní s.l. hafa Ingibjörg Jónsdóttir, kt. 250943-4589, og Guðrún Jónsdóttir, kt. 010760-7719, Ytri-Villingadal, Eyjafjarðarsveit, höfðað hér fyrir dómi með stefnu birtri 12. desember 1997 á hendur Sigríði Sveinsdóttur, kt. 010923-4769, Rimasíðu 27 B, Akureyri og á hendur Sigurjóni Haraldssyni, kt. 180365-3389, Leyningi, Eyjafjarðarsveit, og Önnu Rúnarsdóttur, kt. 021263-5599, s.st. með stefnu birtri 13. desember 1997.

Þá er málið höfðað með gagnstefnu aðalstefndu á hendur aðalstefnendum þingfestri 15. janúar 1998.

Fjallað verður um málið í einu lagi þar sem kröfur aðila er þær sömu bæði í aðalsök og gagnsök.

Dómkröfur aðalstefnenda eru þær að viðurkennt verði með dómi að landamerki jarðanna Ytri-Villingadals annars vegar og Leynings, svo og sjálfstæðrar landspildu úr landi Leynings hins vegar séu svo sem hér segir:

„Úr Rauðakletti í Sjónarhól og þaðan utan við Timburdal í Langadalshöfða í mitt Kringluvatn og þaðan í Efri-Hruna.“

Einnig er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að staðsetning landamerkja í Langadalshöfða sé þar sem línur frá Kringluvatni og Sjónarhóli skerast á uppdrætti af landinu sem lagður er fram í málinu og merktur dskj. nr. 2 og staðsetning Efri-Hruna og merkjapunkts í honum sé staðfest í samræmi við staðsetningu hans á sama uppdrætti.

Landamerki jarðanna verði þá svo sem hér segir:

„Úr punkti A í Rauðakletti bein lína í punkt B í Sjónarhóli, þaðan bein lína í punkt C í Langadalshöfða, þaðan bein lína punkt D í Kringluvatni og þaðan bein lína í punkt E í Efri-Hruna, allt samkvæmt uppdrætti á dskj. nr. 2.“

Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum reikningi.

Aðalkrafa aðalstefndu er sú að viðurkennt verði með dómi að landamerki jarðanna Leynings og Ytri-Villingadals annars vegar svo og sjálfstæðrar landspildu úr landi Leynings hins vegar séu svo sem hér segir:

„Úr Rauðakletti í Sjónarhól og þaðan utan við Timburdal í Langadalshöfða í mitt Kringluvatn og þaðan í Efri-Hruna.“

Einnig er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að landamerkjapunktar séu eins staðsettir og merkt er á dskj. nr. 25 þannig:

„Úr punkti A í Rauðakletti bein lína í punkt B í Sjónarhóli, þaðan bein lína í punkt CC í Langadalshöfða, þaðan bein lína í punkt D í Kringluvatni og þaðan bein lína í punkt EE í Efri-Hruna.“

Allt samkvæmt uppdrætti á dskj. nr. 25.

Þá krefjast aðalstefndu málskostnaðar samkvæmt framlögðum reikningi.

Til vara krefjast aðalstefndu þess að viðurkennt verði með dómi að landamerki jarðanna Leynings og Ytri-Villingadals annars vegar svo og sjálfstæðrar landspildu úr landi Leynings hins vegar séu svo sem hér segir:

„Úr Rauðakletti í Sjónarhól og þaðan utan við Timburdal í Langadalshöfða í mitt Kringluvatn og þaðan í Efri-Hruna.“

Einnig er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að landamerkjapunktar séu eins staðsettir og merkt er á dskj. nr. 26 þannig:

„Úr punkti A í Rauðakletti bein lína í punkt B í Sjónarhóli, frá Sjónarhóli liggi bein lína rétt norðan Timburdals í Klöpp á Timburdalshrygg, merktur punktur F á dskj. nr. 26, þaðan bein lína í punkt CC í Langadalshöfða, þaðan bein lína í punkt D í Kringluvatni og þaðan bein lína í punkt EE Efri-Hruna.“

Allt samkvæmt uppdrætti á dskj. nr. 26.

Jafnframt krefjast stefndu málskostnaðar samkvæmt framlögðum reikningi.

Aðalstefnendur lýsa málavöxtum og málsástæðum svo: Aðalstefnendur séu eigendur jarðarinnar Ytri-Villingadals í Eyjafjarðarsveit, sem eigi landamerki að jörðinni Leyningi í sömu sveit, eign aðalstefndu, Sigurjóns og Önnu. Aðalstefnda Sigríður ásamt dánarbúi Indriða Kristjánssonar hafi verið eigandi jarðarinnar Leynings, en selt hana Sigurjóni og Önnu með kaupsamningi dags. 01.01.1993. Við kaupin hafi verið undanskilin hluti af landi jarðarinnar, þannig að samkvæmt þinglýsingabókum Eyjafjarðarsýslu sé aðalstefnda, Sigríður, eigandi landspildu vestan Hestsvatns og skóglendis innan girðingar Skógræktarfélags Eyjafjarðar. Land þetta ásamt landi jarðarinnar Leynings eigi merki að landi aðalstefnenda.

Við sölu jarðarinnar Leynings hafi aðalstefnendur fengið hugboð um að aðalstefndu hefðu aðra skoðun á merkjum milli jarðanna en þær höfðu sjálfar og við nánari athugun hafi þessi grunur verið staðfestur.

Í löggiltri landamerkjabók Eyjafjarðarsýslu sé landamerkjum Ytri-Villingadals svo lýst: „Landamerki milli Ytri-Villingadals og Leynings eru samkvæmt staðfestri landamerkjaskrá fyrir Ytri-Villingadal: „Að utan: Úr Rauðakletti í Sjónarhól og þaðan utan við Timburdal í Langadalshöfða í mitt Kringluvatn og þaðan í Efri-Hruna.“ Að vestan ræður fjallið.“ Yfirlýsing þessi sé undirrituð af öllum hlutaðeigandi aðilum 29. maí 1885.

Landamerkjum Leynings sé þannig lýst: „Að sunnanverðu eru merkin í svokallaðan Rauðaklett og frá honum í Sjónarhól, þaðan í Kringluvatn og frá því bein stefna suður í Torfufellsgil og úr Torfufellsgilkjaftinum bein stefna ofan eyrarnar í Halldórsstaðagil.“ Merkjaskrá þessi sé undirrituð 20. maí 1885, eingöngu af eigendum Leynings, en eigandi í Ytri-Villingadal geri svohljóðandi athugasemd: „Landamerki milli Ytri-Villingadals eru samkvæmt staðfestri landamerkjaskrá fyrir Ytri-Villingadal af eigendum Leynings „Úr Rauðakletti í Sjónarhól, þaðan utan við Timburdal í Langadalshöfða í mitt Kringluvatn og þaðan í Efri-Hruna.“ Þessum tveim lýsingum beri ekki saman. Samkvæmt merkjalýsingu fyrir Ytri-Villingadal sé merkjalínan dregin frá Sjónarhóli utan við Timburdal í Langadalshöfða og þaðan í mitt Kringluvatn, en samkvæmt merkjalýsingu fyrir Leyning sé línan dregin beint úr Sjónarhóli í mitt Kringluvatn.“

Aðalstefnendur byggi m.a. á því að landamerkjalýsing fyrir Ytri-Villingadal sé staðfest af báðum aðilum, þ.e. eigendum jarðanna Ytri-Villingadals og Leynings, en lýsing á aðliggjandi merkjum jarðanna í landamerkjalýsingu Leynings sé eingöngu undirrituð af eigendum þeirrar jarðar. Það virðist því augljóst að landamerkjalýsingu Ytri-Villingadals beri að leggja til grundvallar um merki jarðanna, þar sem lýsingar merkja séu ósamhljóða. Þessi málsástæða lúti að fyrri hluta kröfugerðar stefnenda hér að framan.

Síðari hluti ágreinings aðila máls þessa lúti að staðsetningu örnefnisins Efri-Hruni og staðsetningu merkjapunkts á Langadalshöfða.

Með bréfi til sýslumannsins á Akureyri, dags. 2. janúar 1997 hafi þess verið farið á leit af hálfu stefnenda að aðilar máls þessa væru boðaðir til fundar til sáttaumleitana vegna ágreinings um landamerki. Fundur hafi verið haldinn 26. febrúar 1997 og hafi allir aðilar málins verið boðaðir til fundarins. Í framhaldi af þeim fundi hafi verið gengið á merkin hin 11. júlí 1997.

Enginn ágreiningur hafi verið um staðsetningu Rauðakletts, Sjónarhóls og Kringluvatns, en ekki hafi aðilar orðið sáttir um það hvort eða hvar merkin skyldu koma í Langadalshöfðann og hvar staðsetning Efri-Hruna væri. Sættir hafa ekki tekist og sé ágreiningur aðila staðfestur um staðsetningu ofantalinna merkjapunkta.

Á uppdrætti á dskj. nr. 2 séu staðsettir merkjapunktar sem upp séu taldir í fyrrgreindri merkjalýsingu fyrir Ytri-Villingadal, auðkenndir bókstöfum svo sem hér segir: A Rauðiklettur, B Sjónarhóll, C Langadalshöfði, D Kringluvatn, E Efri-Hruni. Til glöggvunar séu einnig önnur örnefni sem máli skipti við rökstuðning og kröfugerð stefnenda færð inn á uppdrátt þennan. Staðsetning merkjapunkts C á framlögðum uppdrætti á dskj. nr. 2 sé í vörðu á sunnanverðum Langadalshöfða norðan við Timburdal. Bein lína sé frá vörðu þessari um Sjónarhól í Rauðaklett. Varða þessi hafi verið þarna staðsett svo lengi sem elstu menn muni og hafi ávallt verið talin merkjapunktur enda falli staðsetning hennar algjörlega að lýsingu í landamerkjaskrá fyrir Ytri-Villingadal. „Úr Rauðakletti í Sjónarhól og þaðan utan við Timburdal í Langadalshöfða“. Ekki segi í lýsingunni hvar í Langadalshöfða merkið sé, en ljóst sé að línan skuli dregin utan Timburdals, þ.e. norðan dalsins. Ef dregin sé bein lína frá Rauðakletti og í Sjónarhól og lína þessi sé síðan framlengd falli hún utan Timburdals og endi í umræddri vörðu á Langadalshöfðanum.

Efri-Hruni sé samkvæmt staðfestri landamerkjalýsingu fyrir Ytri-Villingadal syðsti merkjapunktur á merkjum jarðarinnar og Leynings. Samkvæmt vitund þeirra er best til þekki og þeim örnefnaskrám sem tiltækar séu þ.e. bókin „Örnefni í Saurbæjarhreppi“ eftir Angantý H. Hjálmarsson og Pálma Kristjánsson er út hafi komið árið 1957 og örnefnaskrá Örnefndastofnunar, séu „Hrunar“ í landi jarðanna tveir Efri-Hruni og Neðri-Hruni. Tjarnargerði sé eyðibýli í Leyningslandi, sem talið sé hafa farið í eyði um 1800, það hafi staðið á svonefndum Tjarnargerðishól norðan Tjarnargerðisvatns, er liggi norðan við Neðri-Hruna. Skammt fyrir ofan við Torfufellsána sé Efri-Hruni neðan svonefnds Bælis er liggi norðan og austan Bælishvamms. Staðsetningarpunktur E á dskj. nr. 2 falli nákvæmlega að þessari lýsingu og punkturinn staðsettur í miðjan Hrunann.

Aðalstefndu lýsa málsástæðum og öðrum atvikum svo: Í landamerkjabók Eyjafjarðarsýslu sé landamerkjum Leynings lýst þannig: „Fyrst heimalandi: Takmörk þess að neðan er Eyjafjarðará og að ofan fjallsbrúnin. Millum Jórunnarstaða og Leynings eru merkin í vörðu norðanvert við svokallað Básgil niður við ána og svo bein stefna til fjalls eftir vörðulínu sem gjörð hefur verið. Að sunnanverðu eru merkin í svokallaðan Rauðaklett og frá honum í Sjónarhól, þaðan í Kringluvatn og frá því bein stefna suður í Torfufellsgil og úr Torfufellsgilskjaftinum bein stefna ofan eyrarnar í Halldórsstaðagil. Líka fylgir jörðinni afrétt svokallaður Leyningsdalur. Takmörk hans að neðan er Torfufellsá og fjallsbrún að ofan, Galtá að framan og Svartá að heiman.“ Merkjaskrá þessi hafi verið undirrituð 20. maí 1885 af eigendum Leynings og Jórunnarstaða, umboðsmaður yfir Ytri-Villingadal undirriti einnig með svohljóðandi athugasemd: „Landamerki milli Ytri-Villingadals og Leynings eru samkvæmt staðfestri landamerkjaskrá fyrir Ytri-Villingadal af eigendum Leynings: „Úr Rauðakletti í Sjónarhól þaðan utan við Timburdal í Langadalshöfða í mitt Kringluvatn og þaðan í Efri-Hruna.“ Landamerkjum Ytri-Villingadals sé svo lýst í sömu heimild og undirrituð 29. maí 1885: „Að sunnan milli Syðri- og Ytri-Villingadals er bein stefna tekin rétt sunnan við Grámannaklett rétt við hann beint upp í stóra þúfu undir melbarði því sem gamall merkjagarður sést liggja framan á og ofan á fjalli og síðan eftir garðinum út eftir, eftir því sem séður garður heldur, utanvert í Tittlingsgil (sjá sáttarnefndabók Saurbæjarprestakalls 17. júlí 1813) að utan úr Rauðakletti í Sjónarhól og þaðan utan við Timburdal í Langadalshöfða í mitt Kringluvatn og þaðan í Efri-Hruna, að vestan ræður fjallið.“

Ofangreindum landamerkjalýsingum beri saman um landamerki Leynings og Ytri-Villingadals og styðjist það við skráðar heimildir og yfirlýsingar sem lagðar hafa verið fram í dóminum. Framangreind athugasemd umboðsmanns Ytri-Villingadals sé því nákvæmari lýsing á landamerkjum Leynings frá 20. maí 1885 sem sé svo staðfest frekar með undirritun 29. maí 1885.

Á uppdrætti á dskj. nr. 25 séu staðsettir merkjapunktar sem upp séu taldir í fyrrgreindum merkjalýsingum fyrir Leyning auðkenndir með bókstöfum svo sem hér segir: A Rauðiklettur, B Sjónarhóll, CC Langadalshöfði, D Kringluvatn, EE Efri-Hruni.

Staðsetning merkjapunkts CC á framlögðum uppdrætti á dskj. nr. 25 sé í klöpp syðst í Langadalshöfða og liggi landamerkjalína beint yfir klöpp utan við Timburdal. Hvort tveggja styðjist við skráðar frásagnar sem lagðar hafa verið fram í dóminum.

Staðsetning landamerkjapunkts EE sé í Efri-Hruna í Torfugilskjaftinn, en Efri-Hruni sé næst neðan Hrafnsnestanga og bælishvamms við Torfufellsá og styðjist það við skráðar frásagnar sem lagðar hafi verið fram í dóminum og við núverandi girðingu og yfirlýsingu frá 16. ágúst 1975.

Landamerki hafi verið ákveðin árið 1885 og hafi verið látin átölulaus til þingfestingar þessarar aðalsakar. Lagareglur um hefð komi því sterklega til álita við túlkun um hvar landamerkin liggi.

Um varakröfu sína segja aðalstefndu að á uppdrætti á dskj. nr. 26 séu staðsettir merkjapunktar sem upp séu taldir í fyrrgreindum merkjalýsingum fyrir Leyning auðkenndir með bókstöfum, sbr. dskj. nr. 25. En auk þess punktur merktur F sem sé Klöpp norðan Timburdals á Timburdalshrygg. [SVO]

Vísað sé til sömu málsástæðna og vegna aðalkröfu nema hvað varðar línu frá punkti B. Sjónarhóll til punkts CC í Langadalshöfða. Aðalstefndu haldi því fram að hún liggi eins og sýnt sé á uppdrætti á dskj. nr. 26. Frá Sjónarhóli rétt norðan Timburdals í Klöpp á Timburdalshrygg, [SVO] merktur punktur F á dskj. nr. 26, beina línu í punkt CC á Langadalshöfða, þaðan beina línu í mitt Kringluvatn, punkt D, þaðan í Efri-Hruna punkt EE.

Uppdrátt þann er aðalstefndu vísa til vegna varakröfu sinnar (dskj. nr. 26) hafa þau ekki lagt fram í málinu og hefur varakrafan ekki frekar verið rökstudd og verður ekkert sérstaklega fjallað um hana frekar.

Við aðalflutning gáfu skýrslur aðalstefnendur málsins, svo og vitnin Þorlákur Hjálmarsson, Högni Svanbergsson, Sigfús Jónsson, Jón Lúðvík Gunnarsson, Baldur Sigurðsson, Angantýr Hjálmarsson, Kristján Óskarsson og Bjarni Hermannsson.

Aðalstefndu gáfu ekki skýrslur fyrir dóminum þrátt fyrir áskorun lögmanns aðalstefnenda þar um.

Svo sem að framan greinir er lýsing málsaðila á hinum umþrættu merkjum sú sama í kröfum þeirra og snýst ágreiningurinn um staðsetningu hluta merkjapunkta þeirra er þar eru upp taldir.

Dómurinn hefur á vettvangi staðsett helstu kennileiti og merkjapunkta þá er skipta máli með GPS tæki og fylgir uppdráttur dóminum. Hnit eru samkvæmt ISIV 93 og er í metrum.

Ekki er ágreiningur um punktinn A, þ.e. Rauðaklett, í fjallinu og að merkin séu á beinni línu þaðan í punkt B, þ.e. svonefndan Sjónarhól, (austur 533177, norður 537795).

Aðalstefnendur halda því fram að merkin liggi á áframhaldandi beinni línu utan við Timburdal og á Langadalshöfða, sem þeir telja vera punkt C og þaðan í Kringluvatn punkt D, sem er ágreiningslaus punktur.

Aðalstefndu telja línuna hins vegar vera beina línu úr Sjónarhóli, þ.e. punkti B, og í punkt D yfir Langadalshöfðann nálægt punkti sem þeir merkja CC og í Kringluvatn. Þessi lína aðalstefndu liggur yfir svokallaðan Timburdal, en aðalstefndu hafa mótmælt því að orðalagið utan við Timburdal þýði norðan við hann.

Dómurinn telur að með athugasemd sinni við merkjalýsingu Leynings dags. 20. maí 1885, þ.e. utan við Timburdal, hafi eigendur Ytri-Villingadals verið að árétta að Timburdalur væri í landi Ytri-Villingadals og utan við þýði því norðan við, sem er í samræmi við málvenju á þessu svæði. - Samkvæmt þessu stenst krafa aðalstefndu um að línan liggi beint úr Sjónarhóli yfir Timburdal í Langadalshöfða og Kringluvatn ekki.

Verður því að líta svo á að merki jarðanna liggi á línu frá áðurgreindum punkti B og í punkt við norðurjaðar Timburdals sem dómurinn hefur merkt bókstafnum G (og hefur hnitið austur 533695, norður 537583) og er þar um að ræða beina línu úr Rauðakletti í Sjónarhól og í þann punkt.

Aðalstefnendur halda því fram að lína þessi eigi að framlengjast beint áfram í punkt sem þeir merkja C eins og áður greinir og telja þann punkt vera á Langadalshöfða þar sem reist hefur verið varða. Svæði það er ber örnefnið Langadalshöfði er nokkuð á reiki hjá vitnum, en ekki er ágreiningur um að höfði sá sem er norðan Þjófalágar og liggur til norðurs að nokkurri lægð er nefnd er Kúalág beri örnefnið Langadalshöfði, en aðalstefnendur halda því fram að örnefnið eigi einnig við hrygg eða mel er gengur þar norður af allnokkra leið meðfram Langadal, en á þeim hrygg er umgetin varða.

Aðalstefndu halda því fram að norðan Kúalágar eigi örnefnið Langadalsmelur við. Í merkjalýsingum er hvorki vörðunnar getið né annars sérstaks kennileitis nema Langadalshöfða.

Af aðstæðum öllum og landslagi telur dómurinn að við það megi miða að merkjapunktur sem nefndur er Langadalshöfði sé háhöfðinn norðan Þjófalágar, en ekki staður á hryggnum er liggur þar norður af. Hefur dómurinn merkt þennan punkt bókstafnum H (hnit austur 533944, norður 537270) og telur merkin beina línu frá áðurnefndum punkti G í þennan punkt H.

Ekki er ágreiningur um að svonefnt Kringluvatn sé merkjapunktur (hnit austur 534029, norður 537002) og teljast merkin því bein lína frá punkti H í punkt D.

Ágreiningur er með aðilum um hvar svonefndur Efri-Hruni sé, sem getið er um í merkjalýsingu. Telja aðalstefnendur Efri-Hruna vera í punkti merktum E (hnit austur 534317, norður 536577). Aðalstefndu telja Efri-Hruna hins vegar vera nokkru ofar með ánni eða í punkti sem þeir hafa merkt EE. Nokkru neðar með ánni eða austar er hóll sem aðalstefnendur segja að heiti Neðri-Hruni og er hann neðan við gömlu brúna á ánni sem aðalstefnendur segja að hafi legið á milli Hrunanna.

Framburður vitna þeirra er gerst virðast hafa þekkt til á þessum slóðum bendir til þess að Neðri-Hruni sé hóll sá er liggur suður af Tjarnargerðisvatni neðan við gömlu brúna á Torfufellsá og að Efri-Hruni sé hóll sá sem aðalstefnendur halda fram og hafa merkt með bókstafnum E á uppdrætti svo sem að framan getur. Staðhæfing aðalstefndu um að girðing, er liggur suður að ánni nálægt þeim stað er þeir telja vera merkin, sé gömul merkjagirðing, er ekki studd nægjanlegum gögnum til að á því verði byggt. Dómurinn telur óeðlilegt að geta ekki um Torfufellsgilkjaftinn sem merkjapunkt ef svo hefði átt að vera þar sem um mjög glöggt og óbreytanlegt kennileiti er að ræða.

Með vísan til framangreinds verður að telja að merki jarðanna sé lína frá punkti D og í punkt E eins og aðalstefnendur halda fram.

Er niðurstaða dómsins þá sú að dæma beri merki jarðanna línu úr Rauðakletti um punkt B í Sjónarhól í punkt G norðan við Timburdal og þaðan í punkt H efst á Langadalshöfða, þaðan í punkt D í Kringluvatni og þaðan lína í punkt E í Efri-Hruna og bein lína þar áfram að að Torfufellslandi. Uppdráttur í samræmi við framangreint fylgir dómsorði, með innfærðum hnitum.

Rétt þykir að dæma aðalstefndu til að greiða aðalstefnendum málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn kr. 250.000,-.

Dóminn kveða upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri og meðdómendurnir, Haraldur Sveinbjörnsson, byggingaverkfræðingur og Ævarr Hjartarson, ráðunautur.

D ómsorð :

Landamerki jarðanna Ytri-Villingadals og Leynings í Eyjafjarðarsveit skulu vera þessi: Lína sem hugsast dregin frá fjallsbrún um Rauðaklett (A) í Sjónarhól (B, hnit austur 533177, norður 537795), þaðan í punkt G við norðurjaðar Timburdals (hnit austur 533695, norður 537583), þaðan lína í punkt H í Langadalshöfða (hnit austur 533944, norður 537270), en þaðan lína í Kringluvatn (D, hnit austur 534029, norður 537002) og þaðan lína um punkt E á Efri-Hruna (hnit austur 534317, norður 536577) og áfram að Torfufellslandi.

Aðalstefndu, Sigurjón Haraldsson, Anna Rúnarsdóttir og Sigríður Sveinsdóttir greiði aðalstefnendum, Ingibjörgu og Guðrúnu Jónsdætrum kr. 250.000,- í málskostnað.