Hæstiréttur íslands

Mál nr. 518/2008


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Skilorð
  • Skaðabætur


Miðvikudaginn 20

 

Miðvikudaginn 20. maí 2009.

Nr. 518/2008.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari)

gegn

Teiti Guðmundssyni

(Sigmundur Hannesson hrl.)

 

Líkamsárás. Brot gegn valdstjórninni. Skilorð. Skaðabætur.

T var ákærður fyrir líkamsárás skv. 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og brot gegn valdstjórninni skv. 106. gr. laganna með því að hafa slegið dyravörð á veitingastað í andlitið með þeim afleiðingum að hann hlaut skurðsár á efri vör og missti framtönn í efri góm og hafa er lögregla hafði afskipti af honum veist með ofbeldi og hótunum um ofbeldi að lögreglumanni, sparkað í fætur hans og hótað honum lífláti. T neitaði því að hafa ráðist á dyravörðinn en kvaðst hafa lent í útistöðum við lögreglu þar sem hún hafi farið mannavillt. Talið var sannað með framburði vitna að T hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök, fyrir utan að ekki var talið sannað að T hafi sparkað í fætur lögreglumannsins. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að árás T á dyravörðinn var algerlega tilefnislaus og ósvífin og jafnframt að hótun hans gegn lögreglumanninum var gróf og til þess fallin að vekja hjá honum ótta um líf hans og heilsu. Var refsing T ákveðin fangelsi í fimm mánuði, en með hliðsjón af drætti sem varð á rannsókn málsins þótti mega skilorðsbinda refsinguna. Þá var T dæmdur til að greiða dyraverðinum miskabætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. ágúst 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða en að refsing hans verði þyngd og hann dæmdur til að greiða El Khiyati Harrimache 659.650 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Ákærði krefst sýknu af sakargiftum í 1. ákærulið og að refsing samkvæmt hinum áfrýjaða dómi verði milduð. Þá krefst hann sýknu af bótakröfu.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða, refsingu hans og sakarkostnað. Þá verður einnig staðfest ákvæði hans um miskabætur til brotaþola og lögmannskostnað hans, en fyrir Hæstarétti getur hann ekki komið að nýrri kröfu um tannlæknakostnað, sem ekki var gerð í héraði.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Teitur Guðmundsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 271.652 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 5. ágúst 2008.

Mál þetta, sem þingfest var 7. maí sl. og dómtekið 10. júní sl. er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 31. mars 2008 á hendur Teiti Guðmundssyni, kt. 030476-5659, Sólheimum 23, Reykjavík,

„fyrir eftirtalin hegningarlagabrot framin í Vestmannaeyjum aðfaranótt 4. ágúst 2006:

1. Líkamsárás, með því að hafa á veitingastaðnum Drífanda, Bárustíg 2, slegið dyravörðinn El Khiyati Harrimache í andlitið, með þeim afleiðingum að hann hlaut skurðsár á efri vör og missti framtönn í efri góm.

2. Brot gegn valdstjórninni, með því að hafa er lögregla hafði afskipti af ákærða í kjölfar ofangreinds brots veist með ofbeldi og hótunum um ofbeldi að lögreglumanninum Ríkharði Erni Steingrímssyni, en ákærði sparkaði í fætur hans og hótaði honum lífláti.

Háttsemi ákærða samkvæmt ákærulið 1 telst varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981, en samkvæmt lið 2 við 106. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 11. gr. laga nr. 101/1976 og 1. gr. laga nr. 25/2007.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu El Khiyati Harrimache, kennitala 220873-2349, er krafist skaðabóta að fjárhæð kr. 1.143.175, auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 4. ágúst 2006, en síðan með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga.“

Verjandi ákærða krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður og að málsvarnarlaun greiðist úr ríkissjóði. Til vara krefst verjandi ákærða vægustu refsingar. Verjandi ákærða krefst jafnframt frávísunar skaðabótakröfu El Khiyati Harrimache en til vara lækkunar hennar.

Við þingfestingu málsins þann 7. maí sl. mætti ákærði fyrir dóminn og neitaði sök. Aðalmeðferð málsins fór fram þann 10. júní sl. og var málið að því loknu dómtekið.

Málavextir.

Í frumskýrslu lögreglu, dagsettri 4. ágúst 2006, er sagt svo frá málavöxtum að rekstraraðili veitingastaðarins Drífanda hefði hringt og óskað eftir aðstoð lögreglu vegna dyravarðar sem hefði verið sleginn í andlit af gesti veitingastaðarins. Lögregla hefði farið á staðinn og hitt fyrir utan staðinn El Khiyati sem hefði verið með skurð á efri vör sem blætt hefði úr. Hann hefði sagt lögreglu að hann hefði beðið ákærða inni á veitingastaðnum í þrígang að fara niður af veitingaborði þar sem ákærði hefði verið dansandi á borðinu. Ákærði hefði í engu sinnt tilmælum hans heldur allt í einu slegið hann með krepptum hnefa á munninn með fyrrgreindum afleiðingum auk þess sem framtönn hefði losnað og týnst.

Þegar lögreglumenn hefðu tekið ákærða tali varðandi málavexti hefði hann snúist gegn þeim. Hefði því orðið að taka ákærða tökum og fella hann á kviðinn í götuna og setja í handjárn. Þá strax hefði ákærði byrjað að hafa í hótunum við lögreglumann nr. 9716. Ákærði kvaðst myndu drepa þann sem væri vinstra megin við hann en það hefði verið lögreglumaður nr. 9716. Þegar lögreglumenn hefðu verið að færa ákærða í lögreglubifreið hefði hann endurtekið hótun um að drepa lögreglumanninn. Í lögreglubifreiðinni á leið á lögreglustöð hefði ákærði haldið áfram með sömu hótanir. Hefði ákærði m.a. sagt að ,,hann vissi alveg hver þessi lögreglumaður væri og hann hefði áður lent í þessu sköllótta fífli í lyftunni.“

Lögreglumenn nr. 0410 og 9716 hefðu fært ákærða að boði varðstjóra áleiðis í fangaklefa en hann hafi þá enn verið í handjárnum. Á þeirri leið hefði ákærði endurtekið líflátshótanir gagnvart lögreglumanni nr. 9716. Þá hefði ákærði tvívegis reynt að skalla lögreglumanninn en ekki tekist. Þá hefði ákærði sparkað nokkrum spörkum í fætur hans og ítrekað fyrri hótanir. Hótanir ákærða hefðu eingöngu beinst að þessum lögreglumanni þó svo fleiri lögreglumenn hefðu verið á vettvangi.

El Khiyati hefði verið færður á slysadeild. Að því loknu hefðu lögreglumenn farið á Drífanda til að leita að framtönn El Khiyati en án árangurs. Kl. 05:43 hefði rekstraraðili Drífanda hringt og tilkynnt að tönnin hefði fundist við þrif starfsfólks.

Meðal gagna málsins er áverkavottorð vegna El Khiyati Harrimache. Í vottorðinu er sagt frá því að El Khiyati hefði leitað til læknanemans Hörpu Torfadóttur á Heilsugæslustöð Vestmannaeyja þann sama dag kl. 4:30 í fylgd lögreglu. Hann hefði sagst hafa verið að vinna á Drífanda og hefði verið að taka drukkinn mann af borði sem hefði slegið til hans með glasi með þeim afleiðingum að stórt sár hefði komið á efri vör og vinstri framtönn hefði dottið úr. Við skoðun sæist stórt skurðsár sem næði gegnum alla þykkt á miðsvæði á efri vör ásamt einu minna sári sem sé vinstra megin við miðlínu efri varar og sem sé grunnt. Töluverð eymsl væru yfir efri kjálka. Einnig vantaði framtönn vinstra megin í efri góm. Töluverðan saumaskap hefði þurft til að laga vörina. Þar sem tönnin hefði ekki fundist fyrr en síðar um nóttina hefði ekki verið hægt að setja hana aftur upp. Röntgenmynd sýndi að kjálki væri ekki brotinn. Miklir verkir hefðu fylgt þessu og hefði El Khiyati ítrekað þurft að leita til Heilsugæslunnar vegna þeirra. Verkirnir hefðu varað í um viku og hefði hann verið óvinnufær á þeim tíma. Áverkarnir hefðu ekki ógnað lífi hans. Hugsanlegt sé að hann fái töluverð ör í vörina sem þurfi að lagfæra síðar hjá lýtalækni. Einnig þurfi hann að fara til tannlæknis til að lagfæra skaða á tönnum. 

Framburður ákærða og vitna fyrir lögreglu og fyrir dómi.

Ákærði gaf tvisvar skýrslu hjá lögreglu 4. ágúst 2006. Ákærði kvaðst kannast við að hafa verið á veitingastaðnum Drífanda aðfaranótt 4. ágúst 2006 og kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis. Ákærði kvaðst halda að hann hefði verið búinn að drekka um þrjár kippur af áfengum bjór. Ákærði kannaðist við að hafa verið að dansa uppi á borðum og að einhver dyravörður hefði beðið ákærða um að fara niður. Hann kvaðst hins vegar ekki kannast við að hafa slegið dyravörðinn.  Hann kvaðst ekki vita  hverning hann hefði fengið áverka á hægri hnúa,  en hann kvaðst vera viss um að hafa fengið áverka í andliti og hægri lófa við handtöku.   Ákærði kvað ekkert hafa verið bak við hótanir gagnvart lögreglumönnum, heldur hefði hann verið ósáttur við að hafa verið handtekinn og kvaðst hafa sagt ýmislegt sem hann sjái að hann hefði betur látið ósagt. Aðspurður um að ákærði hefði reynt að skalla til eins þeirra lögreglumanna sem hefði handtekið hann kvaðst ákærði ekki eiga sér neinar málsbætur vegna þess atviks og kvaðst hafa gert það í bræðikasti vegna þess að hann hefði verið ósáttur við handtökuna.

Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði verið á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum árið 2006. Hann kvaðst ekki kannast við að hafa slegið dyravörð í andlitið. Aðspurður af hverju lögregla hefði komið á staðinn sagðist ákærði ekki vita hversu langur tími hefði liðið frá því hann hefði lent í þessu þangað til lögreglan hefði komið en Svavar lögreglumaður hefði komið og spjallað við ákærða og sagt að ákærði passaði við einhverja lýsingu. Þá hefði ákærði verið fyrir utan staðinn að spjalla við fólk. Ákærði taldi að farið hefði verið mannavillt.  Ákærði kvað sár á höndum sínum hafa komið eftir átökin við lögregluna. Hann hefði hálfpartinn farið að hlæja og fyrst haldið að Svavar lögreglumaður væri að gera að gamni sínu. Lögreglumaðurinn hefði sagt að þetta væri ekkert grín og ákærði yrði að koma.  Einhvern tíma í framhaldi af því hafi einhver lögreglumaðurinn virst missa þolinmæðina og tekið ákærða hálstaki. Ákærði hefði ekki vitað að þetta væri lögreglumaður sem hefði tekið hann hálstaki og ákærði hefði tekið á móti eins og hann hefði orðið fyrir árás. Aðspurður hvernig ákærði hefði fengið þessa áverka í átökum við lögregluna sagði ákærði að hann hefði byrjað á að skalla einhvern veginn aftur fyrir sig og sparka. Síðan hefði ákærði náð að snúa niður lögreglumanninn sem hefði verið fyrir aftan ákærða og náð á honum hálstaki. Lögreglumaðurinn hefði bitið ákærða í höndina.  Ákærði kvað einn læknirinn hafa sagt að þetta væri greinilegt bitsár, en ákærði mundi ekki nafn læknisins. 

Ákærði kvaðst hafa verið inni á skemmtistaðnum en ekki hafa orðið vitni að því þegar ráðist hafi verið á þennan dyravörð. Hann kvaðst ekki hafa vitað hvaða dyravörður þetta væri fyrr en daginn eftir þegar ákærði hefði komið niður á Drífanda. Þegar ákærði hefði séð þennan strák þá hefði ákærði munað eftir honum. Hann hefði verið að reka fólkið frá borðinu og þar á meðal ákærða. Að öðru leyti kvaðst ákærði ekki muna meira eftir honum. Hann kvaðst hafa rætt við brotaþola og sagt honum að hann teldi sig ekki hafa gert þetta.   Í framhaldi af því kvaðst ákærði hafa beðist afsökunar á þessu með fyrirvara ef eitthvað myndi  rifjast upp fyrir honum, sem það hefði ekki gert. Nánar aðspurður um hvað hefði orðið til þess að það urðu átök á meðan ákærði hefði verið staddur fyrir utan staðinn sagði ákærði að hann hefði bara fylgst með Svavari lögreglumanni. Svavar hefði fljótlega gert ákærða grein fyrir því að það væri full alvara á bak við þetta. Ákærði hefði ekkert verið að fylgjast með einhverjum lögregluþjóni fyrir aftan sig. Ákærði hefði sagt við Svavar að hann héldi að þetta væri mesta bull sem hann hefði heyrt á ævinni. Fyrir utan að hann hefði sagt að það tæki 10 mínútur að taka þessa skýrslu þá yrði ákærði settur í fangelsi og svo væri þetta gert daginn eftir. Ákærði hefði sagt honum hvar hann gisti, hann gæti bara komið og sótt hann þá.  Allt í einu hefði ákærði verið gripinn hálstaki og hefði hann haldið að einhver hefði ráðist á hann. Svavar hefði rokið að ákærða og hefði hann ekki gert sér grein fyrir því hvort hann væri að koma ákærða til hjálpar eða hvort hann væri að fara að aðstoða við handtöku. Ákærði taldi að áverki á hægri hönd hans, fyrir ofan baugfingur, hefði orðið til þarna. Ákærði kvaðst vera mjög staðfastur á því að hann hafi ekki hótað neinum lögreglumanni en kvaðst hafa verið brjálaður út í einhvern sem hefði bitið sig. Aðspurður hvort ákærði hefði haft í hótunum við hann kvað ákærði nei við, ekki beint, en hann hefði hótað einhverjum sem hefði bitið ákærða. Ákærði kvaðst ekki hafa beint hótunum að neinum ákveðnum manni, en hann hefði alltaf sagt  „fíflið sem beit mig“. Ákærði kvaðst ekki hafa undirritað lögregluskýrslur þar sem hann hafi verið ósáttur við að þeir hafi umorðað það sem hann sagði. Þeir hafi ekki heldur viljað setja handtöku ákærða inn í skýrslu. Ákærði kvað sér eiginlega hafa verið lögð orð í munn því hann hefði ekki getað lýst neinni atburðarás nema handtökunni.   Ákærði kvaðst hafa neytt áfengis en ekki fíkniefna.

Vitnið El Khiyati Harrimache, gaf skýrslu hjá lögreglu 4. ágúst 2006. Vitnið kvaðst hafa verið að störfum sem dyravörður aðfaranótt 4. ágúst 2006 og sagðist hafa verið búinn að hafa afskipti af ákærða. Vitnið kvaðst ekki þekkja ákærða en kvaðst hafa séð hann oft áður. Vitnið sagði að ákærði hefði verið uppi á borðum og hafi vitnið ítrekað verið búið að segja ákærða að fara niður en ákærði hefði ekki farið eftir því. Vitnið sagði að ákærði hefði síðan farið niður af borðinu og hefði þá slegið vitnið eitt högg í andlitið með glasi sem ákærði hefði haldið á í hægri hendi. Hefði höggið lent á munni vitnisins sem hefði misst meðvitund. Vitnið kvaðst hafa verið flutt á sjúkrahúsið þar sem gera hefði þurft að sárum vitnisins. Vitnið sagðist m.a. hafa misst aðra framtönnina og skorist í munni. Vitnið sagði að margir hefðu verið nálægt þegar ákærði hefði slegið vitnið en kvaðst ekki vita nöfn þeirra.

Vitnið skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði verið að vinna á Drífanda umrætt kvöld.  Hann kvað ákærða hafa verið að dansa uppi á borði og hefði hann beðið hann að fara niður.  Hann hefði hlýtt því en farið aftur upp á borð.  Hefði þetta endað með því að ákærði hefði kýlt sig. Vitnið kvaðst telja sig þekkja ákærða sem þann sem hefði slegið hann og staðfesti jafnframt að lögregla hefði handtekið þann sem kýldi hann. 

Vitnið Valgerður Friðriksdóttir gaf skýrslu hjá lögreglu þann 4. ágúst 2006. Vitnið kvaðst hafa verið plötusnúður á Drífanda kvöldið áður og kvaðst muna eftir manni sem hefði slegið El Khiyati. Vitnið sagði að maðurinn hefði verið mjög kurteis fyrr um kvöldið. Undir lokin hefði hann verið orðinn nokkuð æstur þar sem hann hefði viljað að vitnið spilaði lög sem honum líkaði. Vitnið sagði að allt í einu hefði maðurinn farið upp á bekk í norðurenda hússins, tekið bjórglas sem þar hefði verið og hent því á borð svo að glasið hefði brotnað og glerbrotum hefði rignt yfir vitnið. Vitnið kvaðst hafa kallað eftir aðstoð og hefði El Khiyati komið strax. Vitnið kvaðst hafa séð manninn koma hlaupandi í átt að honum með hnefann á lofti og slegið hann mjög föstu höggi beint á munninn með krepptum hnefa hægri handar með þeim afleiðingum að hann hefði fallið í gólfið og legið eftir. Árásarmaðurinn hefði síðan lagst ofan á hann. Einhver, sem vitnið kvaðst ekki vita hver væri, hefði komið að og tekið árásarmanninn ofan af El Khiyati. Svavar Þór Georgsson hefði síðan náð að koma árásarmanninum út. Vitnið kvaðst aðspurt ekki hafa séð El Khiyati eftir árásina og gæti því ekki sagt hvaða áverka hann hefði fengið eftir árásina.

Vitnið kvaðst fyrir dómi hafa verið að vinna sem plötusnúður aðfaranótt 4. ágúst 2006. Kvaðst vitnið hafa verið á sviði úti í horni sem væri aðeins ofar heldur en fólkið. Einhver strákur hefði staðið uppi á borði. Dyravörður hefði bent honum á að koma niður og maðurinn hefði brjálast og stokkið á hann. Vitnið kvaðst ekki hafa vitað hver árásarmaðurinn hefði verið. Vitnið kvað dyravörðinn hafa dottið í gólfið og vitnið hefði staðið upp og veifað höndunum til þess að fá einhverja til að hjálpa dyraverðinum. Hefðu annað hvort Bjarni eða Svavar komið á vettvang. Vitnið kvaðst hafa séð þegar lögreglan kom og handtók mann. Vitnið sagðist aðspurð vera viss um að það væri sá maður sem hefði verið tekinn út. Vitnið kvaðst ekki geta borið kennsl á árásarmanninn en kvaðst ráma í hvernig hann hefði verið klæddur. Nánar aðspurð sagði vitnið að hann hefði verið í einhverju hvítu.

Aðspurð hvort vitnið gæti lýst klæðnaði árásarmanns þetta kvöld kvaðst vitnið ekki geta gert það nákvæmlega. Ítrekað aðspurð sagðist vitnið halda að hann hefði ekki verið í hvítum buxum. Kannski peysu eða bol. Vitnið sagði að það væri svolítið flókið fyrir vitnið að reyna að rifja upp eitt kvöld af kannski hundrað kvöldum sem vitnið væri búið að vera að vinna þarna. 

Vitnið Svavar Vignisson, lögreglumaður, gaf skýrslu fyrir lögreglu þann 5. október 2007. Vitnið kvaðst hafa verið á vakt umrædda nótt og sagðist muna eftir að óskað hefði verið eftir aðstoð á veitingastaðnum Drífanda vegna líkamsárásar á dyravörð. Vitnið kvaðst hafa farið ásamt lögreglumönnum nr. 9412 og 9716. Vitnið sagði að þeir hefðu rætt við dyravörðinn sem ráðist hefði verið á og hafi hann sagt að ákærði hefði slegið hann eftir að hann hefði ítrekað beðið ákærða að fara niður af borði inni á staðnum. Vitnið sagði að þeir hefðu rætt við ákærða þar sem hann hefði verið fyrir utan staðinn. Ákærði hefði strax veitt mótspyrnu og hafi þeir þurft að taka hann lögreglutökum og leggja hann í götuna þar sem hann hefði verið handjárnaður. Ákærði hefði síðan verið færður inn í lögreglubifreið og á lögreglustöðina þar sem hann hefði verið vistaður í fangageymslu. Vitnið kvaðst ekki muna hvað ákærði hefði sagt en sagði að reiði ákærða hefði eingöngu beinst gegn lögreglumanni nr. 9716, en vitnið sagðist muna eftir að ákærði hefði tvisvar reynt að skalla lögreglumanninn. Nánar aðspurður sagði vitnið að ákærði hefði bæði reynt að skalla lögreglumann nr. 9716 inni í lögreglubifreiðinni og aftur inni í fangageymslu. Vitnið sagðist aðspurt muna að ákærði hefði sparkað í lögreglumann nr. 9716 bæði inni í lögreglubifreiðinni og aftur inni í fangageymslu.

Vitnið skýrði svo frá fyrir dómi að lögregla hefði verið kölluð á Drífanda þar sem maður hefði verið með læti og slegið dyravörð. Svavar dyravörður hefði bent lögreglunni á ákærða og hefðu þeir haft afskipti af honum. Vitnið kvaðst ekki þekkja ákærða en sagðist vita hver hann væri. Hann hefði verið ölvaður og brugðist illa við því að lögreglan væri að handtaka hann. Hann hefði veitt mótþróa og þeir hefðu lagt hann í götuna og járnað og farið með hann í bílinn og þaðan fyrir varðstjóra sem hefði sagt þeim að setja hann inn í klefa. Vitnið kvaðst ekki muna hvort það hefði verið inni á staðnum eða fyrir utan sem þeir hefðu haft afskipti af ákærða. Vitnið sagði að ákærði hefði verið mjög æstur og ölvaður og hann hefði beint reiði sinni strax að Ríkharði Erni lögreglumanni. Ákærði hefði hótað Ríkharði einhverjum leiðindum og reynt að sparka í hann.  Vitnið kvað ákærða hafa verið handtekinn sökum þess að hann hefði slegið dyravörð sem hefði missti tönn og hefði verið mjög órólegur og æstur og þeir hefðu ekki náð að ræða við hann.  Hefði ákvörðun verið tekin að fara með hann upp á stöð og ræða við hann. Vitni hefðu bent á ákærða og sagt að hann hefði slegið dyravörðinn. 

Vitnið Haraldur Geir Hlöðversson, lögreglumaður, gaf skýrslu hjá lögreglu þann 4. október 2007. Vitnið kvaðst hafa verið að störfum sem lögreglumaður í umrætt sinn. Óskað hefði verið eftir að lögregla færi á veitingastaðinn Drífanda vegna dyravarðar sem gestur staðarins hefði slegið í andlitið. Þegar vitnið og lögreglumenn nr. 9716 og 0410 hefðu komið á staðinn hefðu þeir hitt dyravörðinn fyrir utan. Dyravörðurinn hefði verið með skurð á efri vör og hefði blætt úr skurðinum. Dyravörðurinn hefði lýst atburðunum þannig að hann hefði ítrekað verið búinn að biðja ákærða að fara niður af borði á veitingastaðnum en ákærði hefði ekki sinnt því. Ákærði hefði síðan slegið dyravörðinn með krepptum hnefa í andlitið og hefði höggið lent á munni hans með þeim afleiðingum að framtönn hefði losnað. Vitnið sagði að ákærði hefði verið fyrir utan staðinn þegar þeir hefðu komið. Þegar þeir hefðu spurt ákærða út í atburðinn hefði ákærði strax snúist gegn vitninu og hinum lögreglumönnunum þannig að þeir hefðu þurft að taka ákærða tökum og setja hann í handjárn. Vitnið sagði að ákærði hefði strax byrjað að hafa í hótunum við lögreglumann nr. 9716 og hefði sagst ætla að drepa hann. Ákærði hefði endurtekið þessa hótun þegar þeir hefðu verið að færa hann í lögreglubifreiðina og á meðan þeir hefðu verið að flytja hann á lögreglustöðina. Vitnið kvaðst muna að ákærði hefði sagt að hann vissi hver þessi lögreglumaður væri og að hann hefði áður lent í þessu „sköllótta fifli í lyftunni“. Vitnið sagði að þegar þeir hefðu verið að færa ákærða inn í fangaklefa í handjárnum hefði hann ítrekað þessar hótanir í garð lögreglumannsins. Ákærði hefði jafnframt í tvígang reynt að skalla lögreglumanninn en það hefði ekki tekist. Þá hefði ákærði sparkað tvisvar í fætur lögreglumannsins. Vitnið sagði að ákærði hefði ítrekað hótað að drepa lögreglumanninn frá því hann hefði verið handtekinn og þar til hann hefði verið færður í fangageymslu. Vitnið sagði aðspurt að hvorki vitninu né lögreglumanni nr. 0410 hefði verið hótað.

Vitnið skýrði svo frá fyrir dómi að það ræki minni til þess að lögreglan hefði verið boðuð þarna vegna einhverra átaka sem þar áttu að hafa átt sér stað. Þegar þeir hefðu komið þangað hefðu málsaðilar verið komnir út og hefðu verið fyrir sunnan veitingastaðinn.  Hefði lagað blóð úr munnviki eða úr vör dyravarðarins. Dyravörðurinn hefði bent lögreglu á ákærða sem hefði verið rétt þarna hjá. Lögreglan hefði snúið sér að ákærða og ætlað að hafa tal af honum. Ákærði hefði brugðist illa við afskiptum þeirra og þeim viðskiptum hefði lokið þannig að þeir hefðu  þurft að handtaka hann með valdi, setja í handjárn og flytja á lögreglustöðina. Vitnið kvaðst muna að á leiðinni hefði ákærði haft uppi hótanir í garð Ríkharðs Arnar lögreglumanns. Þær hefðu verið grófar, líflátshótanir sem hann hefði hótað bæði honum og fjölskyldu hans og öllum sem hugsanlega væru tengdir honum á einhvern hátt. Aðspurður hvort vitnið hefði séð ákærða beita Ríkharð Örn einhverju líkamlegu ofbeldi kvaðst vitnið ekki vita það.

Vitnið mundi ekki hvort einhver lögreglumannanna hefði staðið fyrir aftan ákærða við handtökuna og komið að honum aftan frá.  Vitnið kvaðst ekki vita hvernig ákærði fékk áverka sína. Vitnið kannaðist ekki við að lögreglumaðurinn Ríkharður hefði bitið ákærða.

Vitnið Ríkharður Örn Steingrímsson, lögreglumaður, gaf símaskýrslu fyrir lögreglu þann 2. nóvember 2007. Vitnið kvaðst ráma í umrætt atvik og kvaðst muna að þeir hefðu handtekið ákærða við veitingastaðinn Drífanda. Vitnið kvaðst einnig muna að ákærði hefði verið með hótanir í garð vitnisins en sagðist ekki muna hvers eðlis þessar hótanir hefðu verið. Vitnið sagðist einnig muna að þegar þeir hefðu verið að færa ákærða inn í fangageymslu hefði ákærði náð að sparka í vitnið en vitnið kvað sér ekki hafa orðið meint af. Vitnið sagði að ákærði hefði ítrekað reynt að sparka í sig meðan á þessu hefði staðið.

Vitnið skýrði svo frá fyrir dómi að strax hefði verið bent á ákærða sem geranda. Hann hefði verið tekinn og orðið mjög illur við það. Hefði þurft að beita hann tökum og hann járnaður og færður á lögreglustöð og í fangaklefa. Í lögreglubifreiðinni og á lögreglustöðinni hefði ákærða einhverra hluta vegna verið mjög illa við vitnið og hótað vitninu á ýmsa vegu allan tímann, án þess að ákærði hefði hótað sérstaklega hinum lögreglumönnunum. Vitnið kvaðst ekki muna til þess að hafa nokkurn tíma haft afskipti af ákærða áður. Aðspurður hvort ákærði hefði beitt eða reynt að beita vitnið einhverju líkamlegu ofbeldi sagði vitnið að ákærði hefði látið öllum illum látum, sparkað í átt að vitninu og reynt að skalla vitnið. Ákærða hefði ekki tekist að veita vitninu neina áverka. Aðspurður sagði vitnið það rétt skilið að þegar lögregla hefði komið á vettvang þá hefði verið bent á ákærða af hálfu fólks á vettvangi. Vitnið kvaðst ekki muna hver hefði bent á ákærða. Vitnið neitaði því aðspurður að hafa bitið ákærða.

Aðspurður um ástæðu handtökunnar sagði vitnið að fyrir hefðu legið upplýsingar um að ákærði hefði verið gerandi í þessari líkamsárás.  Það hefði verið talið að sá sem hefði orðið fyrir árásinni væri illa meiddur. Hann hefði verið ölvaður og þurft hefði að fá nánari upplýsingar og kanna með málavexti nánar. Auk þess hefði þetta gerst inni á skemmtistað og þurft hefði að koma honum í burtu frá staðnum til að fá næði til að geta fengið nauðsynlegar upplýsingar. Aðspurður hvernig staðið hefði verið að handtökunni og hvort verið gæti að einhver lögreglumannanna hefði komið aftan að ákærða við handtökuna kvaðst ekki geta fullyrt neitt nákvæmlega um eitthvað þess háttar. Vitnið kvaðst ekki muna betur en að þetta hefði farið fram eftir þeim aðferðum sem er beitt við handtökur. Aðspurður hvort það væri rétt skilið að ákærði hefði ekki slegið í vitnið eða veitt vitninu einhverja áverka heldur hafi hann gert tilraun til þess sagði vitnið að ákærði hefði náð að slá og sparka í vitnið en vitnið hefði náð að forða sér frá að það yrðu áverkar af því.  Vitnið kvað ákærða hafa hótað sér eftir að hann hefði komið inn í lögreglubifreiðina og síðar á lögreglustöðinni þar til hann hefði verið kominn inn í fangaklefa. Vitnið kvaðst ekki átta sig á því hvers vegna það hefðu verið hótanir í garð vitnisins. Vitnið kvaðst ekki muna til þess að hafa haft afskipti af ákærða áður. Aðspurður um hvernig staðið hefði verið að handtökunni og hvernig áverkar á ákærða hefðu orðið til sagði vitnið að það hefðu verið átök við að koma honum inn í lögreglubifreiðina og hann hefði lent í götunni fyrir utan lögreglubifreiðina. Hann hefði verið mjög æstur og streist á móti. Vitni mundi ekki nákvæmlega hver hefði verið með ákærða í tökum, þeir hefðu verið allir saman í þessu. Vitnið kvað ákærða hafa beint hótunum sínum sérstaklega að vitninu. 

Vitnið Þröstur Bjarnhéðinsson, kom fyrir dóm.  Ekki þykir ástæða til að gera grein fyrir framburði hans.  

Vitnið Svavar Þór Georgsson, gaf skýrslu hjá lögreglu 4. ágúst 2006. Vitnið kvaðst hafa verið að störfum á veitingastaðnum Drífanda aðfaranótt 4. ágúst 2006. Vitnið sagði að maður hefði verið þar inni, sem vitnið kvaðst ekki vita hvað héti.  Hann hefði verið mjög rólegur fyrr um kvöldið en síðan hefði hann orðið æstur og verið að dansa uppi á borðum. Ítrekað hefði verið búið að biðja manninn að fara niður af borðunum en hann hefði ekki sinnt því. Vitnið sagði að ásamt vitninu hefði El Khiyati verið þarna að störfum. El Khiyati hefði haft afskipti af þessum manni en vitnið kvaðst ekki vita hvað hefði farið þeim á milli. Vitnið kvaðst hafa séð manninn slá El Khiyati eitt högg í andlitið með hægri hendi og hefði hann vankast við höggið. Vitnið kvaðst hafa farið til árásarmannsins og leitt hann út á götu en kvaðst hafa misst takið á honum þar. Maðurinn hefði þá snúið sér við og slegið vitnið tvisvar í bringuna. Vitnið kvaðst þó ekki vera með neina áverka eftir það. Vitnið kvaðst hafa séð áverka á munni El Khiyati eftir samskiptin við þennan mann og hefði blætt úr munni hans. Vitnið kvaðst hafa séð áverka á hægri hendi árásarmannsins eftir árásina og hefði blætt úr honum.

Vitnið skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði séð El Khiyati verða fyrir líkamsárás og hefði árásarmaðurinn verið mjög ölvaður. El Khiyati hefði ætlað að stöðva árásarmanninn og vísa honum á dyr en þá hafi hann „snappað“ og ráðist á hann. Vitnið kvað fyrstu viðbrögð sín hafa verið að koma árásarmanninum frá þeim sem  var sleginn. Þarna hafi líka verið frændi vitnisins sem hefði verið að vinna þarna áður og þeir hefðu farið með hann út fyrir og síðan hefði lögreglan komið. Vitnið kvaðst ekki vera í vafa um að maðurinn sem sló El Khiyati væri sami maður og lögregla hefði handtekið. 

Vitnið kvaðst ekki hafa lýst árásarmanninum fyrir lögreglu en sagði að annar hefði gert það. Vitnið kvaðst ekki muna hver, en kvaðst halda að hann heiti Bjarni eða Þröstur, eigandi staðarins. Aðspurður hvort Þröstur hefði verið vitni að þessu sagðist vitnið ekki muna nákvæmlega hverjir hefðu verið þarna, allavega vitnið, El Khiyati og stelpur sem hefðu verið að vinna þarna á staðnum. Aðspurður hvort vitnið hefði verið látinn benda á hver árásarmaðurinn væri kvaðst vitnið alveg geta bent á hann. Aðspurður hvort vitnið gæti lýst árásarmanninum sagði vitnið að hann hefði verið stuttklipptur, þrekinn eða hraustlegur og hann ekki beint feitur. Vitnið kvaðst vita alveg hvaða maður þetta væri. Aðspurður kvaðst vitnið hafa hitt árásarmanninn þarna daginn eftir. Vitnið hefði verið þarna inni á staðnum og hann hefði komið þarna og beðist afsökunar. Aðspurður kvaðst vitnið hafa séð þegar árásarmaðurinn hefði verið færður inn í lögreglubifreið. Vitnið neitaði að hafa vitað deili á árásarmanninum á þeim tímapunkti þegar þessi atburður hefði gerst. Vitnið kvaðst hafa séð þegar atburðurinn gerðist. Vitnið hefði séð höggið og þegar hann hefði dottið í gólfið. Þá hefði vitnið rokið beint á dyravörðinn, samstarfsmann vitnisins, og farið með hann afsíðis. Síðan hefðu þeir nokkrir farið fram, tekið manninn, farið með hann út og haldið honum niðri þangað til lögreglan hefði komið og þá hefði lögreglan tekið manninn. 

Niðurstaða.

Ákæruliður 1.

Ákærða er í fyrsta lið ákæru gefið að sök líkamsárás gegn El Khiyati Harrimache með því að slá hann í andlitið á þeim stað og tíma og með þeim afleiðingum sem greinir í ákæruliðnum.

Ákærði hefur kannast við að hafa verið á veitingastaðnum Drífanda aðfaranótt 4. ágúst 2006. Ákærði neitar því staðfastlega að hafa slegið El Khiyati Harrimache og segir að lögregla hefði farið mannavillt. Ákærði kvaðst við aðalmeðferð hafa fengið áverka, sem hann hefði verið með á hönd, í átökum við lögreglumenn. Ákærði sagði jafnframt við aðalmeðferð að lögregla hefði neitað að setja inn í lögregluskýrslu upplýsingar um þessi átök sem ákærði kvaðst hafa lent í. Einnig hefði lögregla umorðað orð ákærða og lagt honum orð í munn. Því hefði ákærði neitað að undirrita framburðarskýrslur sem lögregla hefði tekið af ákærða.

Í málinu liggja fyrir tvær framburðarskýrslur teknar af ákærða. Hvorug skýrslan er undirrituð af ákærða. Sami lögreglumaður tekur báðar skýrslurnar. Fyrri skýrslan er undirrituð af nafngreindum lögreglumanni sem vottur viðstaddur skýrslutöku, síðari skýrslan er undirrituð af öðrum nafngreindum lögreglumanni sem votti að undirskrift. Þessir lögreglumenn komu ekki fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins og voru því ekki spurðir út í framkvæmd skýrslutöku af ákærða þó að tilefni hafi verið til þess. Samkvæmt þessu og með vísan til dóms Hæstaréttar Íslands frá 22. mars 2007 í máli nr. 520/2006 verður ekki byggt á skýrslum ákærða við lögreglurannsókn málsins.

Neitun ákærða fyrir dómi er ekki í samræmi við framburð vitna í málinu. Vitnið El Khiyati Harrimache sagði að ráðist hefði verið á vitnið og að ákærði hefði verið árásarmaðurinn. Vitnið Svavar Þór Georgsson kvaðst hafa séð mann ráðast á El Khiyati Harrimache  og að sá maður hefði verið handtekinn af lögreglu. Vitnið Svavar Vignisson hefur borið að El Khiyati Harrimache eða Svavar Þór Georgsson hafi bent vitninu á ákærða sem árásarmanninn. Vitnið Haraldur Geir Hlöðversson hefur einnig sagt að El Khiyati Harrimache hafi bent vitninu á ákærða sem árásarmanninn. Vitnið Ríkharður Örn Steingrímsson sagði fyrir dómi að bent hafi verið á ákærða sem árásarmanninn en kvaðst ekki muna hver hefði gert það. Að mati dómsins er framburður þessara vitna trúverðugur.

Framburður ákærða um viðskipti ákærða við lögreglu á vettvangi er ekki í samræmi við framburð vitna í málinu. Lögreglumennirnir Svavar Vignisson, Haraldur Geir Hlöðversson og Ríkharður Örn Steingrímsson hafa allir neitað því að atburðarásin hafi verið með þeim hætti sem ákærði lýsti. Framburður þeirra er samhljóða um að ákærði hefði brugðist illur við afskiptum lögreglumannanna á vettvangi og að þeir hefðu þurft að taka ákærða lögreglutökum og setja hann í handjárn. Framburður þessara vitna er trúverðugur að mati dómsins. Framburður ákærða um að hann hafi farið til læknis sem hafi talið áverka ákærða vera eftir bit þykir ekki trúverðugur, þar sem ákærði gat ekki nafngreint viðkomandi lækni. Þá hefur vitnið Svavar Þór lýst því að vitnið hefði séð áverka á hægri hendi árásarmannsins eftir árásina og hefði blætt úr honum. Að mati dómsins er þessi framburður vitnisins trúverðugur. Að þessu virtur þykir framburður ákærða um að hann hafi hlotið áverka á hægri hendi í viðskiptum við lögreglu ekki trúverðugur.

Meðal gagna málsins er áverkavottorð vegna El Khiyati Harrimache. Lýsing áverka í vottorðinu fær nokkra stoð í framburði vitnanna Svavars Þórs Georgssonar, Svavars Vignissonar og Haraldar Geirs Hlöðverssonar. Lýsing áverka í vottorðinu er í samræmi við lýsingu í ákæru.

Að öllu þessu virtu verður að telja nægilega sannað, þrátt fyrir eindregna neitun ákærða, að ákærði hafi gerst sekur um líkamsárás þá sem honum er gefin að sök í ákærulið I og að afleiðingar líkamsárásarinnar hafi orðið þær sem þar er lýst. Er verknaður ákærða réttilega heimfærður til 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

Ákæruliður 2.

Í öðrum lið ákæru er ákærða gefið að sök brot gegn valdstjórninni með því að hafa, þegar lögregla hafði afskipti af honum í kjölfar þess brots sem greinir í ákærulið I, „veist með ofbeldi og hótunum um ofbeldi að lögreglumanninum Ríkharði Erni Steingrímssyni, en ákærði sparkaði í fætur hans og hótaði honum lífláti.“

Ákærði neitar sömuleiðis sök í þessum lið ákæru. Framburður ákærða er ekki í samræmi við framburð lögreglumannanna Svavars Vignissonar, Haraldar Geirs Hlöðverssonar og Ríkharðs Arnar Steingrímssonar. Vitnið Svavar Vignisson hefur borið að ákærði hafi hótað Ríkharði „einhverjum leiðindum“ og reynt að sparka í hann. Vitnið Haraldur Geir Hlöðversson segir að ákærði hafi hótað Ríkharði lífláti en kvaðst fyrir dómi ekki muna eftir að ákærði hafi beitt Ríkharð líkamlegu ofbeldi. Vitnið Ríkharður Örn Steingrímsson segir að ákærði hafi hótað vitninu „á ýmsa vegu“ og að ákærði hafi sparkað í vitnið.

Framburður framangreindra vitna fyrir dómi er misvísandi um það hvort ákærði hafi sparkað í vitnið. Einungis vitnið Ríkharður Örn Steingrímsson ber að ákærði hafi sparkað í vitnið en ekki kemur fram í framburði vitnisins hvort ákærði hafi sparkað í fætur vitnisins eða annars staðar. Verður því, gegn eindreginni neitun ákærða, að telja ósannað að ákærði hafi sparkað í fætur lögreglumannsins Ríkharðs Arnar Steingrímssonar.

Framburður framangreindra vitna er samhljóða um að ákærði hafi haft í hótunum við lögreglumanninn Ríkharð Örn Steingrímsson. Ekki er fram komið hjá vitnunum Svavari Vignissyni og Ríkharði Erni Steingrímssyni í hverju hótanir ákærða hafi falist. Vitnið Haraldur Geir Hlöðversson lýsti því að ákærði hafi hótað Ríkharði lífláti. Að mati dómsins er ekkert fram komið sem hnekkt getur framburði þessara vitna. Verður því, þrátt fyrir eindregna neitun ákærða, að telja nægilega sannað að ákærði hafi gerst sekur um brot gegn valdstjórninni með því að hafa hótað lögreglumanninum Ríkharði Erni Steingrímssyni lífláti. Varðar brot ákærða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

Ákvörðun refsingar.

Ákærði er fæddur árið 1976. Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann tvisvar gengist undir sáttir. Í fyrra skiptið 2. nóvember 2005 fyrir ölvunarakstur og í síðara skiptið þann febrúar sl. fyrir fíkniefnalagabrot. Verður því höfð hliðsjón af ákvæðum 78. gr. almennra hegningarlaga við ákvörðun refsingar ákærða.  Ákærði hefur verið fundinn sekur um brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940 og gegn 1. mgr. 106. gr. sömu laga. Við ákvörðun refsingar ákærða verður litið til þess að árás ákærða á El Khiyati Harrimache var algjörlega tilefnislaus og ósvífin og jafnframt að hótun ákærða gegn lögreglumanninum Ríkharði Erni Steingrímssyni var gróf og til þess fallin að vekja hjá lögreglumanninum ótta um líf hans og heilsu. Með hliðsjón af þessu þykir refsing ákærða vera hæfilega ákveðin fangelsi í fimm mánuði. Með hliðsjón af þeim drætti sem varð á rannsókn málsins þykir mega skilorðsbinda refsinguna og skal hún niður falla að liðnum 2 árum frá uppkvaðningu dóms þessa. Með vísan til þessarar niðurstöðu skal ákærði greiða sakarkostnað, sem er málsvarnarlaun verjanda ákærða, Erlends Þórs Gunnarssonar héraðsdómslögmanns, sem er hæfilega ákveðin kr. 279.000 að virðisaukaskatti meðtöldum, auk ferðakostnaðar verjandans, kr. 17.180, auk kostnaðar við öflun áverkavottorðs, kr. 7.500.

Bótakrafa.

El Khiyati Harrimache krefst skaða- og miskabóta úr hendi ákærða, samtals að fjárhæð kr. 1.143.175 með vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 4. ágúst 2006 en síðan með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., vaxtalaga. Bótakrafan er sundurliðuð þannig að um sé að ræða miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga að fjárhæð kr. 1.000.000 og lögfræðikostnaður að fjárhæð kr. 143.175.

Miskabótakrafan er rökstudd með því að samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sé heimilt að láta þann sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veldur líkamstjóni greiða miskabætur til þess sem misgert var við. El Khiyati telji að árás ákærða hafi verið stórhættuleg og til þess fallna að valda miklu tjóni. Hending ein hafi valdið því að ekki hafi farið verr enda stórhættulegt að slá fólk í andlitið með glasi. Við mat á miskabótum verði að líta til þess að árásin hafi verið tilefnislaus og hrottafengin og teljist vera brot á 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Sé því krafa El Khiyati Harrimache um 1.000.000 í miskabætur afar hófleg. Gerður sé fyrirvari um breyttar kröfur ef í ljós komi frekara tjón, s.s. vegna tannlæknakostnaðar og varanlegs miska og örorku.

Ákærði hefur í máli þessu verið fundinn sekur um brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga gagnvart bótakrefjanda. Hann var hins vegar ekki ákærður fyrir að hafa slegið hann með glasi í andlitið.  Allt að einu eru uppfyllt skilyrði a-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga til að ákærði verði dæmdur til að greiða El Khiyati Harrimache miskabætur. Verður ákærði dæmdur til að greiða honum miskabætur sem eru hæfilega ákveðnar  200.000 krónur.

Krafa um lögfræðikostnað  þykir ekki úr hófi og verður á hana fallist.

Samkvæmt gögnum málsins var bótakrafan kynnt ákærða þann 23. nóvember 2007. Verður ákærði því dæmdur til að greiða vexti samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 af höfuðstól kröfunnar frá 4. ágúst 2006 til 23. desember 2007 en dráttarvexti frá þeim degi til greiðsludags.

Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp dóminn.  Dómsuppsaga hefur dregist vegna mikilla embættisanna dómarans.

Dómsorð :

Ákærði, Teitur Guðmundsson, sæti fangelsi í fimm mánuði en fullnustu refsingarinnar skal frestað og fellur hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins.

Ákærði greiði sakarkostnað málsins, sem er málsvarnarlaun verjanda ákærða, Erlends Þórs Gunnarssonar héraðsdómslögmanns, kr. 279.000 að virðisaukaskatti meðtöldum, auk ferðakostnaðar verjandans, kr. 17.180, auk kostnaðar við öflun áverkavottorðs, kr. 7500.

Ákærði greiði El Khiyati Harrimache kr. 343.175 ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 4. ágúst 2006 til 23. desember 2007 en dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.