Hæstiréttur íslands

Mál nr. 16/2016

Vátryggingafélag Íslands hf. (Heiðar Örn Stefánsson hrl.)
gegn
A (Oddgeir Einarsson lögmaður)
og gagnsök

Lykilorð

  • Skaðabótamál
  • Vinnuslys
  • Líkamstjón
  • Fasteign
  • Gjafsókn

Reifun

A krafðist bóta úr frjálsri ábyrgðartryggingu B hf., sem félagið hafði tekið hjá V hf., vegna vinnuslyss sem hann varð fyrir er hann féll úr lagerrými vörugeymslu á millilofti um fjóra metra niður á steinsteypt gólf en A hafði verið að setja glerplötur á vörubretti ásamt þremur öðrum starfsmönnum B hf. Hafði öryggishlið á hæðinni, sem hefði að öllu jöfnu girt fyrir op niður á neðri hæð, verið dregið frá. Í dómi Hæstaréttar kom fram að A hefði sem vöruhússtjóri verið yfirmaður þeirra starfsmanna sem hefðu unnið umrætt verk og hefði haft með höndum verkstjórn þess í skilningi 20., 21. og 23. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Af þeim sökum hefði A borið að tryggja öryggi sitt og annarra starfsmanna með því að gera viðeigandi varúðarráðstafanir. Var talið að orsök slyssins yrði ekki rakin til atvika sem V hf. bæri fébótarábyrgð á, heldur þess að öryggishliðið hefði ekki verið fyrir opinu og A ekki gætt að sér við þær aðstæður.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. janúar 2016. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að verða aðeins dæmdur skaðabótaskyldur að hluta og að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum.

Gagnáfrýjandi skaut málinu fyrir sitt leyti til Hæstaréttar 23. mars 2016. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 31.329.724 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 15. september 2010 til 15. október 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt.

Dómendur fóru á vettvang 20. september 2016.

I

Samkvæmt skýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu 14. janúar 2008 barst henni klukkan 18.40 sama dag tilkynning um vinnuslys í fyrirtækinu B hf. við […], en þar hafði gagnáfrýjandi, starfsmaður fyrirtækisins, fallið úr lagerrými vörugeymslu á millilofti um fjóra metra niður á steinsteypt gólf og slasast alvarlega. Sagði í skýrslunni að er slysið átti sér stað hafi þrír menn, C, D og E, verið að vinna með gagnáfrýjanda við að færa glerplötur, 295 x 99 cm að flatarmáli, á vörubretti sem staðsett var við brún á efri hæð, en lyftari síðan átt að koma af neðri hæðinni og taka brettið af þeirri efri. Þegar mennirnir voru að setja glerplötu á vörubrettið hafi gagnáfrýjandi og C gengið aftur á bak að brúninni og D og E áfram við hinn enda plötunnar. Hafi gagnáfrýjandi stigið fram af brúninni þegar hann gekk aftur á bak og fallið niður af henni á höfuðið. Þá var haft samband við Vinnueftirlitið og kom starfsmaður þess á vettvang klukkan 19.50. Vettvangur var rannsakaður og ljósmyndir teknar. Kom þar meðal annars fram að á efri hæðinni var öryggishlið, 1,17 m á hæð.

Í skýrslu Vinnueftirlitsins 14. janúar 2008 kom fram að við vinnu sína hafi framangreindir menn fjarlægt öryggishliðið, sem var á vöruloftinu, til að geta flutt vörubretti „til og frá.“ Þegar þeir hafi verið að leggja síðustu glerplötuna, sem til stóð að flytja, á vörubretti hafi þeir staðið hver við sitt hornið þegar gagnáfrýjandi, sem sneri baki að opinu, hafi stigið „af einhverjum orsökum“ með annan fótinn út af loftinu og fallið niður. Um orsök slyssins sagði í skýrslunni að hana mætti „helst rekja“ til þess að engar ráðstafanir hafi verið gerðar til að koma í veg fyrir fallhættu þegar „handrið“ á vörulofti var fjarlægt. Fyrirmæli í skýrslunni um úrbætur voru þau að alltaf skyldi leitast við að gæta fyllsta öryggis þegar flytja ætti vörur upp á vöruloft og niður af því og að gera skyldi ráðstafanir til að tryggja fullt öryggi starfsmanna við vinnu á vörulofti þegar fjarlægja þyrfti „handrið.“

Samkvæmt matsgerð tveggja lækna 16. júní 2010, sem aðilar öfluðu sameiginlega, var varanleg örorka gagnáfrýjanda vegna afleiðinga slyssins metin 100% og varanlegur miski 80 stig.

Með bréfi 6. febrúar 2008 fór gagnáfrýjandi fram á afstöðu aðaláfrýjanda til bótaskyldu  úr frjálsri ábyrgðartryggingu B hf., en bótaskyldu var hafnað  með bréfi 11. apríl sama ár. Gagnáfrýjandi skaut málinu 10. júní 2009 til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Komst nefndin 21. júlí sama ár að þeirri niðurstöðu að líkamstjón gagnáfrýjanda bættist ekki úr framangreindri ábyrgðartryggingu félagsins hjá aðaláfrýjanda. Hinn 27. júlí 2010 greiddi aðaláfrýjandi gagnáfrýjanda 17.803.154 krónur úr slysatryggingu launþega. Gagnáfrýjandi höfðaði síðan mál þetta 15. september 2014. Að undangenginni aðalmeðferð 30. september 2015 var málið dómtekið og hinn áfrýjaði dómur kveðinn upp 9. október sama ár.

II

Í málinu liggur fyrir ráðningarsamningur gagnáfrýjanda og F hf., sem undirritaður var af gagnáfrýjanda og forstjóra félagsins 26. júní 2007, en þar kom fram að gagnáfrýjandi myndi hefja störf sem vöruhússtjóri hjá félaginu 7. ágúst sama ár, en þá mun sameining fyrirtækjanna F hf. og B hf. hafa átt sér stað. Væri hlutverk hans samkvæmt starfslýsingu, sem fyrir lægi sem viðauki við ráðningarsamninginn. Fram kom í ráðningarsamningnum að starf vöruhússtjóra svaraði til stöðu framkvæmdastjóra. Samkvæmt ódagsettri starfslýsingu vöruhússtjóra félagsins, sem gerð mun hafa verið af forstjóra þess, bar vöruhússtjóra að sjá til þess að farið væri að öryggis- og verklagsreglum í vöruhúsi. Gagnáfrýjandi hefur neitað að hafa fengið starfslýsinguna í hendur. Samkvæmt launaseðlum greiddi gagnáfrýjandi iðgjald til Verkstjórafélagsins Þórs. Í tilkynningu vinnuveitanda til Vinnueftirlitsins  18. janúar 2008 var starfsheitið verkstjóri tilgreint. Þá var gagnáfrýjandi sagður vera verkstjóri í vöruhúsi í áðurnefndri skýrslu Vinnueftirlitsins.

III

Gagnáfrýjandi kvaðst hafa verið ráðinn sem lagerstjóri til F hf. árið 1999, en fyrirtækið hafi flutt í […] um áramótin 2000 til 2001 og verið þar síðan. Hann hafi hætt störfum þar í tvö og hálft ár, en komið aftur til starfa þegar fyrirtækið B hf. var tekið við og þá ráðinn sem vöruhússtjóri. Um atvik að slysinu skýrði gagnáfrýjandi svo frá að hann minnti að settar hafi verið fjórar glerplötur á brettið, sem um ræðir í málinu. Kvaðst hann telja að ekki hefði verið unnt að hafa öryggishliðið uppi meðan verkið var unnið, þar sem lyftarinn hefði þá ekki náð brettinu niður.

Að beiðni gagnáfrýjanda voru skýrslur teknar fyrir dómi af vitnum að slysinu og verður nú gerð grein fyrir framburði þeirra.

E skýrði svo frá að hann hafi verið bifreiðarstjóri hjá fyrirtækinu B hf. þegar slysið átti sér stað, en jafnframt hafi hann unnið þar innandyra. Er slysið varð hafi verið búið að fara með nokkrar plötur „þarna fram á endann“ er gagnáfrýjandi hafi stigið aftur á bak og dottið niður. Hafi gagnáfrýjandi „verið yfir húsinu þarna“ og vitnið alltaf litið á hann sem verkstjóra þar og hann gefið fyrirskipanir um hverju ætti að henda. Öryggishlið hafi verið opið þegar verkið var unnið. Vitnið kvaðst hafa spurt gagnáfrýjanda að því hvort ekki ætti að loka hliðinu, en gagnáfrýjandi svarað því neitandi. Vitnið kom aftur fyrir dóm við aðalmeðferð málsins, þar sem það var spurt um ódagsetta yfirlýsingu, sem það gaf stuttu eftir slysið. Þar kom fram að vitnið hafi haft á orði við gagnáfrýjanda hvort ekki væri ástæða til að hafa öryggishliðið fyrir meðan „þeir væru að undirbúa“, en gagnáfrýjandi, sem stýrt hafi verkinu, sagt að það væri óþarfi. Vitnið staðfesti að hafa ritað yfirlýsinguna sem og efni hennar. Vitnið kvað hafa verið hægt að hafa hliðið lokað meðan verið var að raða á brettið og ekki verið erfitt að taka brettið niður á eftir með því að taka hliðið frá.

C kvaðst hafa unnið sem bifreiðarstjóri hjá áðurnefndu fyrirtæki á þeim tíma er slysið varð, en einnig unnið í vöruhúsi þess. Hafi vitnið verið í öðru verki „niðri“ ásamt D er gagnáfrýjandi hafi kallað á þá upp til aðstoðar. Aðdragandi slyssins hafi verið sá að fjórir starfsmenn hafi verið að bera glerplötu, hver á sínu horni. Þeir hafi síðan lagt hana frá sér á bretti, sem á hafi verið bunki af slíkum plötum. Hafi þeir verið búnir að leggja plötuna frá sér er gagnáfrýjandi hafi risið upp, tekið skref aftur fyrir sig og farið fram af brúninni. Vitnið vissi ekki hver hefði fjarlægt öryggishliðið. Taldi vitnið að unnt hefði verið að leggja glerplöturnar á brettið án þess að fjarlægja hliðið með því að setja framlengingu á gaffla lyftarans, toga í brettið og keyra svo aftur lengra inn í það. Spurt um hver hafi stjórnað verkinu svaraði vitnið: „Ég hugsa að [A] hafi sennilega verið hæstráðandi í húsinu þegar þetta var.“

D kvað aðalstarf sitt hjá fyrirtækinu hafa verið að keyra út vörur, en einnig hafi hann unnið á lager og ýmis önnur störf. Umrætt sinn hafi gagnáfrýjandi og E kallað á sig til aðstoðar upp á vöruloftið. Þegar starfsmennirnir hafi verið að bera síðustu plötuna og gagnáfrýjandi að leggja hana frá sér hafi hann risið upp, tekið eitt skref aftur á bak og fallið niður. Öryggishlið hafi oftast verið fyrir opinu, en það tekið niður þegar verið var að vinna sérstök verkefni. Gagnáfrýjandi hafi verið mjög strangur í öryggismálum og fylgt því eftir að starfsmenn væru með hjálma og viðeigandi öryggisbúnað og sett út á ef svo var ekki. Vitnið kvað gagnáfrýjanda hafa verið verkstjóra í vöruhúsinu.

IV

Svo sem áður greinir var aðdragandi slyssins sá að gagnáfrýjandi var ásamt þremur starfsmönnum fyrirtækisins B hf. að bera glerplötur á vörubretti í lagerrými á efri hæð í húsnæði fyrirtækisins að […]. Hafði öryggishlið á hæðinni, 1,17 m á hæð, sem að öllu jöfnu var girt fyrir op niður á neðri hæð, verið dregið frá og báru starfsmennirnir plöturnar að opinu, þar sem þeim var staflað á bretti er lyftari hífði síðan niður á neðri hæð. Mun slysið hafa átt sér stað eftir að síðasta platan hafði verið lögð á brettið, en þá tók gagnáfrýjandi skref aftur á bak og féll um fjóra metra niður á jarðhæð hússins.

Sem vöruhússtjóri var gagnáfrýjandi yfirmaður þeirra starfsmanna, sem unnu umrætt verk með honum, og hafði með höndum verkstjórn þess í skilningi 20., 21. og 23. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Af þeim sökum bar gagnáfrýjanda að tryggja öryggi sitt og annarra starfsmanna með því að gera viðeigandi varúðarráðstafanir. Af gögnum málsins og skoðun á vettvangi verður ekki ráðið að nauðsynlegt hafi verið að hafa framangreint öryggishlið opið þegar glerplötunum var staflað á brettið. Þvert á móti verður að telja að ekkert hafi verið því til fyrirstöðu að hafa það lokað þegar þetta var gert og opna það síðan fyrir lyftara til niðurhífingar. Liggur ekkert fyrir í málinu um að gerð öryggishliðsins hafi verið ábótavant. Samkvæmt þessu verður orsök slyssins ekki rakin til atvika, sem aðaláfrýjandi ber fébótaábyrgð á, heldur þess að öryggishliðið var ekki fyrir opinu þegar glerplatan var lögð á brettið og gagnáfrýjandi gætti ekki að sér við þær aðstæður. Verður aðaláfrýjandi því sýknaður af kröfu gagnáfrýjanda.

Rétt er að málskostnaður á báðum dómstigum falli niður.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað verður staðfest, en um gjafsóknarkostnað hans hér fyrir dómi fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Vátryggingafélag Íslands hf., er sýkn af kröfu gagnáfrýjanda, A.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarákvæði héraðsdóms er staðfest.

Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 800.000 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. október 2015

                Mál þetta höfðaði A, […], með stefnu birtri 15. september 2014 á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf., […].  Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 30. september sl. 

                Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 38.841.441 krónu með 4,5% ársvöxtum af 16.227.865 krónum frá 14. janúar 2008 til 1. mars 2009, af 38.841.441 krónu frá þeim degi til 16. júlí 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 38.841.441 krónu frá þeim degi til greiðsludags. 

                Stefnandi krefst málskostnaðar að mati dómsins eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en honum var veitt gjafsókn 28. ágúst 2013. 

                Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda, til vara þess að stefnukröfur verði lækkaðar verulega.  Þá krefst hann málskostnaðar að mati dómsins. 

                Stefnandi var starfsmaður fyrirtækisins B, en áður hafði hann starfað hjá F.  Í janúar 2008 var unnið að því hjá B að rýma til í húsnæði þess að […].  Um klukkan 18.40 þann 14. janúar voru stefnandi og þrír aðrir starfsmenn á efri hæð hússins og báru glerplötur að brún hæðarinnar og lögðu á bretti sem var við brúnina.  Síðan átti að taka brettið niður á neðri hæð með lyftara.  Við þessar aðfarir féll stefnandi skyndilega aftur á bak fram af brúninni og lenti á gólfinu um fjórum metrum neðar.  Hlaut hann talsverð meiðsl sem lýst verður síðar.  Krefst hann í málinu skaðabóta vegna þessara áverka. 

                Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi aðilaskýrslu og leiddir voru sem vitni E og G.  Þann 20. júní 2008 höfðu að kröfu stefnanda verið teknar skýrslur af vitnum að atvikinu í Héraðsdómi Reykjavíkur.  Þá komu fyrir dóminn E, C, D, H, sem voru samstarfsmenn stefnanda, svo og I, starfsmaður Vinnueftirlits ríkisins, og J, K og L, lögreglumenn. 

                Áður en aðalmeðferð hófst gengu dómari og lögmenn aðila ásamt stefnanda á vettvang.  Húsnæðinu hefur ekki verið breytt í neinu verulegu frá því að slysið varð, […].  Grindarhlið er fyrir stóru opi á vegg á efra loftinu og er fram komið að það var opið þegar umrætt slys varð.  Hægt er að loka opinu með eldvarnar­hurð, sem er tengd við brunavarnarkerfi hússins.  Sjá má af ljósmyndum sem teknar voru strax eftir slysið að hillurekkar hafa staðið upp að hluta af gatinu á þeim tíma. 

                Vitnið E sagði að þeir hefðu verið búnir að bera nokkrar gler­plötur fram á brúnina á efra loftinu.  Stefnandi hafi verið við brúnina.  Hann hafi allt í einu stigið aftur á bak og dottið niður. 

                Vitnið D sagði að þeir hefðu verið að bera síðustu plötuna og verið að leggja hana niður, þegar stefnandi reis upp og tók eitt skref aftur á bak og datt fram af brúninni. 

                E sagðist hafa spurt hvort það ætti ekki að loka hliðinu áður en þeir fóru að bera plöturnar fram á brún.  Stefnandi kvaðst ekki hafa heyrt þetta og neitaði því að hann hefði ákveðið sérstaklega að hliðið skyldi vera opið.  Þeir C og D mundu ekki eftir neinum orðaskiptum um þetta.  Í andmælum H, þjónustustjóra hjá B og næsta yfir­manni stefnanda, við skýrslu Vinnueftirlitsins um slysið, kemur fram að stefnandi hafi ekki viljað hafa handriðið uppi þótt aðrir starfsmenn hefðu óskað eftir því sérstaklega.  Við skýrslutöku fyrir dómi staðfesti H að þarna hefði hann fullyrt of mikið, hann hefði einungis haft þetta eftir E.

                Stefnandi sagði að hann héldi að það tæki um það bil fimm mínútur að setja upp hliðið.  Aðrir voru ekki spurðir um þetta og nánari upplýsingar um gerð hliðsins liggja ekki frammi í málinu.  Þá komu ekki fram nákvæmar upplýsingar um hversu algengt það hefði verið að menn ynnu svo að segja frammi á brúninni án þess að hliðið væri lokað.  Vitnin sögðu að í þessu tilviki ekki hefði verið hægt að nota trillu sem hefði verið til.  Þetta hafi verið mjög þungar plötur og þeir hafi þurft að vera fjórir saman til að bera þær. 

                Stefnandi kvaðst telja að ekki hefði verið hægt að hafa hliðið lokað á meðan þeir settu glerplöturnar á brettið.  Þá hefði brettið þurft að vera svo innarlega að lyftarinn hefði ekki náð því.  E kvaðst telja að unnt hefði verið að raða á brettin þótt hliðið væri lokað, hægt hefði verið að ná brettunum með lyftaranum. 

                Stefnandi og vitni báru um að mikið hefði verið að gera hjá fyrirtækinu vikurnar fyrir slysið.  Unnið var að því að rýma milliloftið og þurfti að vinna talsvert utan venjulegs vinnutíma. 

                Aðilar deila um nákvæma stöðu stefnanda hjá vinnuveitanda sínum, B.  Sjálfur kvaðst hann hafa verið vöruhússtjóri.  Áður hefði hann verið lager­stjóri hjá F.  Hann kvaðst ekki hafa litið á sig sem verkstjóra. 

                Stefnandi lagði fram skjal sem ber fyrirsögnina Vöruhúsastjóri F hf.  Starfslýsing.  Þar eru í mörgum liðum talin upp verkefni í vöruhúsinu, en einnig gerð grein fyrir akstursþjónustu félagsins, útisvæði og bílaflota.  Skjal þetta er ódagsett og ekki undirritað, en nafn M er prentað undir og mun M hafa verið forstjóri F. 

                Stefnandi kvaðst ekki hafa séð þetta skjal áður.  Sagði hann að sér hefði aldrei verið sagt að hann ætti að bera ábyrgð á öryggismálum. 

                Í ráðningarsamningi stefnda, dags. 26. júní 2007, er vitnað til starfslýsingar sem fyrir liggi og fylgi sem viðauki við ráðningarsamninginn. 

                Þeir E, C, D og H sögðu allir að stefnandi hefði verið verkstjóri. 

                Sama kvöld og slysið varð kom fulltrúi vinnueftirlitsins á vettvang.  Í ódagsettri skoðunarskýrslu segir m.a.:  „Þegar búið er að fjarlægja handriðið er ekkert sem varnar því að starfsmenn geti fallið niður af vöruloftinu.  Nauðsynlegt er að tryggja flutning á vörum milli hæða með öruggum hætti.“  Skýrslan var unnin af I eftirlitsmanni.  Í skýrslu hennar fyrir dómi kom fram að vinnu­eftirlitið segði ekki hvernig ætti að endurbæta vinnuaðstæður.  Ýmsar leiðir væru færar til þess.  Það hafi ekkert verið gert til að hindra fall manna fram af brúninni þegar hliðið var ekki uppi. 

                Fram kom að ekki hafði verið skipaður öryggisvörður hjá B eins og lögboðið er í 5. gr. laga nr. 46/1980.  Þá höfðu starfsmenn heldur ekki valið öryggistrúnaðarmann.  Ekki er ljóst hvort skylt var að skipa öryggisnefnd samkvæmt 6. gr. laganna. 

                Málsaðilar sammæltust um að fela N, sérfræðingi í endur­hæfingarlækningum, og O, sérfræðingi í heila- og taugasjúkdómum, að meta örorku stefnanda.  Matsgerð þeirra er dags. 16. júní 2010.  Er hún raunar eina gagnið sem lagt hefur verið fram um áverka stefnanda. 

                Matsmenn telja að fyrst hafi verið tímabært að meta afleiðingar slyssins þann 1. mars 2009, sem sé stöðugleikapunktur.  Tímabundið atvinnutjón sé frá slysdegi til þess dags, svo og tímabil þjáningabóta.  Hafi stefnandi verið rúmliggjandi allan tímann.  Miska meta þeir til 80 stiga, en að varanleg örorka sé 100%. 

                Í matsgerð er því lýst að stefnandi fékk mikla höfuðáverka.  Segir að röntgen­rannsóknir hafi sýnt innskúmsblæðingu framan til í heila og gagnaugalappa vinstra megin, svo og blæðingu aðlægt heilastofni.  Brot var greint í hnakkabeini vinstra megin og í ennisbeini og kúpubotni hægra megin.  Í brjóstholi hafi verið loftbrjóst og brot á 8. og 11. brjósthryggjarlið.  Bringubein hafi verið tvíbrotið og brot verið á 2.-8. rifi vinstra megin. 

                Matsmenn gera nánari grein fyrir mati sínu, en ekki er ástæða til að rekja það nánar þar sem niðurstöður þeirra eru ekki dregnar í efa. 

                Aðilar áttu nokkur samskipti um bótakröfuna og kom snemma fram sú afstaða stefnda að viðurkenna ekki bótaskyldu B.  Málið var lagt fyrir Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum í júní 2009.  Lauk nefndin álitsgerð sinni 21. júlí sama ár.  Þar segir m.a.:  „Af gögnum málsins þykir mega slá því föstu að [stefnandi] gegndi stöðu verkstjóra í skilningi laga nr. 46/1980 í vöruhúsi [B] þar sem slysið varð.  Honum átti ekki að geta dulist sú mikla hætta sem fólst í því að hafa ekki öryggis­hliðið fyrir opinu á sama tíma og glerplöturnar voru lagðar á bretti á gólfbrúninni fast við opið.  Ekkert bendir til þess að nauðsynlegt hafi verið að koma plötunum fyrir á brettinu fyrir opnu hliði.  Það stóð [stefnanda] næst að sjá til þess að fyllstu varúðar­ráðstafana væri gætt meðan umrætt verk var unnið.  Yfirmenn [stefnanda] máttu treysta því hann skipulegði  verkið með þeim hætti að ekki skapaðist slysahætta fyrir hann sjálfan eða aðra starfsmenn [B] sem þarna unnu.“ 

                Taldi nefndin að ekki skyldi bæta tjón stefnanda úr ábyrgðartryggingu B hjá stefnda. 

                Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi byggir á því að vinnuveitandi hans, B hf., sé bóta­skyldur vegna slyssins sem hann varð fyrir.  Hann krefjist bóta úr hendi stefnda, sem ábyrgðartryggjanda B, sbr. 44. gr. laga nr. 30/2004. 

                Stefnandi vísar til skyldu vinnuveitanda til að gæta fyllsta öryggis á vinnustað.  Vísar hann til 13. gr. laga nr. 46/1980 og 1. og 4. mgr. 3. gr. reglna nr. 581/1995.  Einnig vísar hann til byggingarreglugerða nr. 441/1998 og 112/2012. 

                Stefnandi vísar til þess að vinnueftirlitið hafi gert athugasemdir við aðbúnað á slysstað.  Frágangur opsins hafi ekki verið nægilega góður.  Þá komi fram í framburði eftirlitsmanns vinnueftirlitsins að unnt hefði verið að hafa mun öruggari útfærslu á handriði og þá hefði verið hægt að nota öryggislínur. 

                Stefnandi telur vinnuveitanda sinn ekki hafa gert nóg til að tryggja öryggi á vinnustaðnum.  Öryggisvörður hafi ekki verið tilnefndur samkvæmt 5. gr. laga nr. 46/1980.  Þá hafi hvorki verið kosinn öryggistrúnaðarmaður né skipuð öryggisnefnd. 

                Varðandi sakarmatið byggir stefnandi auk framangreinds á fjórum atriðum.  Þegar slysið varð hafi stefnandi og aðrir starfsmenn unnið við þrif, en þeir séu ekki vanir því.  Aðstæður hafi því verið óvenjulegar og erfiðari fyrir starfsmennina.  Vinnuálag hafi verið mikið og síðustu mánuðina fyrir slysið hafi stefnandi unnið mikla yfirvinnu.  Þá hafi þessi hætta oft skapast áður á vinnustaðnum.  Menn hafi iðulega staðið á brúninni þegar vörur voru teknar niður af loftinu.  Yfirmönnum hafi því verið ljós hættan sem var fyrir hendi.  Loks hafi slysið orðið er bornar voru þungar glerplötur.  Það sé óvenjulegt og því hafi verið sérstök ástæða til að tryggja öryggi starfsmanna. 

                Þá byggir stefnandi á því að fyrirtækið stundi hættulega starfsemi þar sem menn fari með þunga muni og tæki. 

                Stefnandi mótmælir því að sök á slysinu verði skipt.  Telur hann að sök vinnu­veitanda síns sé yfirgnæfandi í samanburði við meint aðgæsluleysi hans sjálfs. 

                Stefnandi vísar til reglu 1. mgr. 23. gr. a skaðabótalaga, en bætur til starfs­manns verði ekki skertar vegna eigin sakar nema hann hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi.  Þá hafi tilskipun EBE nr. 89/391 lagagildi hér á landi.  Samkvæmt henni gildi sú meginregla að skyldur starfsmanna skuli ekki hafa áhrif á meginregluna um að það sé vinnuveitandi sem fyrst og fremst beri ábyrgð á heilsu og öryggi starfsmanna.  Hafi EFTA-dómstóllinn talið að það samræmdist tilskipuninni einungis í undantekningar­tilfellum að gera starfsmann ábyrgan fyrir öllu eða stærstum hluta tjóns síns af vinnu­slysi, ef vinnuveitandi hafi ekki að eigin frumkvæði farið að reglum um öryggi á vinnustað.  Í þessu máli liggi fyrir að B hafi brotið lög um öryggi á vinnustöðum. 

                Bótakrafa stefnanda er sundurliðuð í stefnu og ítarleg grein gerð fyrir útreikningi hvers liðar.  Hér verður einungis gerð nánari grein fyrir þeim liðum sem stefndi gerir athugasemd við: 

                1.  Þjáningabætur 904.200 krónur. 

                2.  Varanlegur miski 5.207.985 krónur. 

                3.  Álag á miskabætur 2.603.993 krónur. 

                Stefnandi krefst vaxta samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga af þessum fjárhæðum frá slysdegi til 16. júlí 2010.  Þann dag hafi verið mánuður liðinn frá því að stefndi fékk allar upplýsingar sem nauðsynlegar voru til að reikna út skaðabætur til stefnanda.  Krefst hann dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags. 

                4.  Bætur vegna varanlegrar örorku 22.613.576 krónur. 

                Reiknað tjón nemur 49.235.875 krónum.  Frá dragast greiðslur slysatryggingar launþega, 14.463.729 krónur og eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris, 12.158.570 krónur. 

                Stefnandi krefst vaxta af þessari fjárhæð frá upphafsdegi metinnar örorku til 16. júlí 2010, en dráttarvaxta frá þeim degi. 

                5.  Bætur vegna kostnaðar við gagnaöflun 154.200 krónur. 

                Stefnandi segir þetta útlagðan kostnað við gagnaöflun lögmanns síns, m.a. vinnu við matsgerð, ritun vitnaskýrslna o.fl. 

                Stefnandi krefst vaxta samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga af þessari fjárhæð frá slysdegi til 16. júlí 2010, en dráttarvaxta frá þeim degi. 

                6.  Sjúkrakostnaður 5.000.000 krónur. 

                Kröfu þessa byggir stefnandi á 1. gr. skaðabótalaga.  Segir hann augljóst að slysið sé svo alvarlegt að hann verði fyrir meiri sjúkrakostnaði en ella.  Hann þurfi ráðgjöf, endurhæfingu og lyf.  Krafa þessi sé hófleg. 

                Stefnandi krefst vaxta samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga af þessari fjárhæð frá slysdegi til 16. júlí 2010, en dráttarvaxta frá þeim degi. 

                7.  Bætur vegna lögfræðikostnaðar 2.357.487 krónur. 

                Hér vísar stefnandi einnig til 1. gr. skaðabótalaga.  Miðar hann hér við stefnu­fjárhæð málsins og innheimtuþóknun samkvæmt gjaldskrá lögmanns síns.  Er útreikningurinn nánar sundurliðaður í stefnu. 

                Stefnandi krefst vaxta samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga af þessari fjárhæð frá slysdegi til 16. júlí 2010, en dráttarvaxta frá þeim degi. 

                Krafa stefnanda nemur samtals 38.841.441 krónu. 

                Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefnandi byggir á því að samkvæmt almennum sönnunarreglum sem gildi hér sem endranær hvíli sönnunarbyrðin á stefnanda um að slysið verði rakið til atvika sem vinnuveitandi hans beri ábyrgð á og þar með að bótaréttur hafi stofnast úr ábyrgðar­tryggingu vinnuveitandans hjá stefnda. 

                Stefndi segir ósannað að vinnuveitandi beri skaðabótaábyrgð á slysinu.  Atvik sýni að slysið verði rakið til aðgæsluleysis stefnanda og óhappatilviljunar sem engum verði gefin sök á.  Saknæm háttsemi annarra hafi ekki valdið slysinu. 

                Fram sé komið að stefnandi hafi sjálfur sagt að óþarfi væri að hafa öryggis­hliðið lokað á meðan plöturnar voru bornar á brettið.  Honum hafi verið ljóst að hliðið var ekki lokað og því hafi hann ekki sýnt næga aðgát við vinnu sína. 

                Stefndi mótmælir því sem röngu og ósönnuðu að aðstæður á vinnustaðnum hafi verið óforsvaranlegar og hættulegar. 

                Stefndi byggir á því að stefnandi hafi verið verkstjóri í vöruhúsinu þegar slysið varð og þekkt allar aðstæður þar mjög vel.  Því hafi hvílt á honum skyldur samkvæmt 20. –23. gr. laga nr. 46/1980, m.a. til að sjá til þess að starfsskilyrði væru fullnægjandi hvað varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi.  Honum hafi að lögum verið skylt að gæta þess að öryggi starfsmanna væri tryggt.  Þá hafi honum einnig borið að hlutast til um úrbætur, annað hvort sjálfur eða tilkynna vinnuveitanda sínum um það sem hann teldi ábótavant.  Stefnandi hafi ekki gert neinar athugasemdir við aðstæðurnar á vinnu­staðnum.  Hafi einhverju verið ábótavant hafi það verið á ábyrgð stefnanda sjálfs. 

                Stefndi byggir á því að óþarfi hafi verið að hafa opið óvarið á meðan gler­plöturnar voru bornar að brúninni.  Þá hafi einnig verið hægt að hafa brunavarnarhurð fyrir. 

                Stefndi segir að sú lýsing á slysinu að stefnandi hafi snúið baki að opinu og stigið skref aftur á bak þegar hann setti glerplötuna niður, sýni að hann hafi sýnt af sér verulegt gáleysi. 

                Stefndi mótmælir tilvísun stefnanda til 1. mgr. 23. gr. a skaðabótalaga.  Ákvæðið hafi verið sett með lögum nr. 124/2009 og tekið gildi eftir að slysið varð.  Því skuli einungis beita um slys sem verða eftir gildistöku þess. 

                Stefndi mótmælir tilvísun stefnanda til dóms Hæstaréttar í máli nr. 88/1975.  Dómur þessi hafi ekki fordæmisgildi fyrir þetta mál. 

                Stefndi segir það rangt og ósannað að vinnuveitandi stefnanda hafi brotið gegn lögum, reglugerðum og reglum um öryggi á vinnustöðum.  Hann mótmælir almennri tilvísun til 13. gr. laga nr. 46/1980, svo og til byggingarreglugerða nr. 441/1998 og nr. 112/2012.  Vegna tilvísunar til 4. mgr. 3. gr. reglna nr. 581/1995 segir stefndi að gögn málsins sýni að gengið hafi verið frá opinu á forsvaranlegan hátt.  Ekkert bendi til annars en að hliðið hafi verið í lagi.  Loks telur stefndi ósannað að það hefði breytt einhverju þótt tilnefndir hefðu verið öryggisvörður og öryggistrúnaðarmaður. 

                Stefndi styður varakröfu sína um lækkun stefnukröfu við framangreind sjónar­mið um eigin sök stefnanda, sem eigi í það minnsta að leiða til þess að sök verði skipt. 

                Stefndi mótmælir því kröfu stefnanda um álag á miska samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga.  Þessari heimild sé beitt í undantekningartilvikum þegar um sé að ræða alvarlegt og fjölþætt líkamstjón og tjónþoli er háður aðstoð um daglegar þarfir.  Svo sé ekki í þessu máli.  Tjón stefnanda sé allt til tekið þegar örorka hans sé metin 80%. 

                Stefndi mótmælir útreikningi á bótum vegna varanlegrar örorku.  Sýnt hafi verið fram á 10% mótframlag vinnuveitanda til lífeyrissjóðs á árinu 2007, en ekki vegna áranna 2005 og 2006.  Sé ósannað að framlagið hafi numið 10% á þeim árum. 

                Stefndi mótmælir kröfum vegna kostnaðar við gagnaöflun, vegna sjúkra­kostnaðar og vegna lögfræðikostnaðar.  Kostnaður af gagnaöflun sé ósannaður og hljóti að verða hluti af málskostnaði þessa máls.  Sjúkrakostnaður sé ósannaður og krafan að auki vanreifuð.  Þá greiði hið opinbera mest allan sjúkrakostnað.  Lögfræði­kostnað sé ekki skylt að greiða nema sem málskostnað sem dæmdur sé samkvæmt lögum nr. 91/1991. 

                Vaxtakröfum stefnanda mótmælir stefndi.  Vextir eldri en fjögurra ára frá málshöfðun séu fallnir niður fyrir fyrningu.  Þá krefst hann þess að dráttarvextir reiknist ekki fyrr en frá dómsuppsögu, en þá fyrst yrði ljóst hvort stefnandi ætti kröfu.  Hann bendir á að fjárkrafa hafi ekki verið sett fram á hendur sér fyrr en stefna í málinu var birt. 

                Niðurstaða

                Skýrslur vitna lýsa mjög vel aðdragandanum að slysi stefnanda.  Skoðun á vettvangi og ljósmyndir sem lögreglan tók strax eftir slysið sýna aðstæður vel.  Fjórir menn báru saman þungar glerplötur og lögðu á bretti frammi á brún loftsins.  Þetta var bersýnilega hættulegt. 

                Stefnandi heldur því fram að ekki hafi verið hægt að hafa öryggishliðið lokað á meðan glerplöturnar voru bornar fram að brúninni.  Þá hefðu þær verið of innarlega til að lyftarinn næði brettinu sem þær voru lagðar á.  Vitnið E kvaðst hins vegar halda að þetta hefði verið hægt.  Frekari upplýsingar um þetta hafa ekki verið lagðar fram.  Unnt hefði verið að fela dómkvöddum matsmönnum að mæla fjarlægð frá brún og prófa hvort lyftari sá sem var til staðar hefði getað náð bretti sem hefði verið hlaðið bak við lokað hliðið.  Sönnunarbyrðina hér verður að leggja á stefnda, en það stóð vinnuveitanda stefnanda nær að upplýsa um möguleika þess búnaðar sem hann nýtti í rekstrinum.  Verður því að leggja til grundvallar þá frásögn stefnanda að ekki hefði verið hægt að vinna verkið með öðrum og öruggari hætti. 

                Sannað er að stefnandi var verkstjóri á staðnum í skilningi laga nr. 46/1980.  Breytir hér engu þótt hann hafi haft annað starfsheiti og að ósannað sé að fyrir hann hafi verið lögð sú starfslýsing vöruhúsastjóra sem stefnandi lagði fram óundirritaða í dóminum. 

                Vinnuveitanda stefnanda var samkvæmt 5. gr. laga nr. 46/1980 skylt að tilnefna öryggisvörð.  Þá bar honum að sjá til þess að starfsmenn tilnefndu öryggis­trúnaðarmann úr sínum hópi.  Þessi vanræksla kann að vera meðal orsaka þess að vinnuaðstæður voru svo hættulegar sem raun bar vitni.  En án tillits til þess að þessi vanræksla vitnar um sinnuleysi fyrirtækisins um slysahættu á vinnustaðnum, var mjög hættulegt að hafa stórt op í vegg á loftinu alveg niður að gólfi.  Öryggishliðið var stundum opið þegar menn voru við störf á hæðinni.  Hlaut stjórnendum fyrirtækisins að vera ljós sú mikla hætta sem var á alvarlegum slysum starfsmanna vegna þessa.  Nauðsynlegt hefði verið að haga flutningi milli hæða með öðrum og öruggari hætti, t.d. með því að nota lyftu.  Vegna þessa ágalla á vinnuaðstöðu verður að fella bóta­skyldu vegna slyssins á vinnuveitanda stefnanda, B hf.  Bótakröfunni er réttilega beint að stefnda samkvæmt 44. gr. laga nr. 30/2004, en aðild hans er ekki mótmælt. 

                Stefnandi var verkstjóri eins og áður segir.  Honum hlaut að vera ljós sú hætta sem honum sjálfum og öðrum var búin þegar þeir athöfnuðu sig frammi á brúninni, algerlega óvarðir.  Hann hefur því vanrækt skyldur sínar samkvæmt 2. mgr. 23. gr. laga nr. 46/1980. 

                Þegar borin er saman eigin sök stefnanda og vanræksla vinnuveitanda hans verður að telja að sök vinnuveitandans sé yfirgnæfandi og því sé ekki heimilt að skerða bætur til stefnanda með sakarskiptingu.  Er komist að þessari niðurstöðu án þess að líta þurfi til áðurnefndrar tilskipunar Evrópusambandsins nr. 89/391.  Þá hafði 1. mgr. 23. gr. a í skaðabótalögum nr. 50/1993, sbr. 1. gr. laga nr. 124/2009, ekki tekið gildi þegar stefnandi slasaðist. 

                Stefndi mótmælir ekki kröfum um þjáningabætur og bætur vegna varanlegs miska. 

                Kröfu sína um álag á miskabætur samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga rökstyður stefnandi ekki sérstaklega.  Hann hefur ekki sýnt fram á að skilyrði séu til þess að ákveða slíkt álag.  Afleiðingar slyssins eru að sönnu verulegar, enda miskinn metinn til 80 stiga.  Verður kröfu um álag hafnað. 

                Bætur vegna varanlegrar örorku eru óumdeildar að öðru leyti en því að stefndi telur ósannað að stefnandi hafi notið 2% mótframlags launagreiðanda vegna viðbótar­lífeyrissparnaðar á árunum 2005 og 2006.  Stefnandi lagði síðar fram afrit launaseðla sinna fyrir þessi ár, en þeir bera með sér að greitt hafi verið vegna viðbótar­lífeyrissparnaðar á þessum árum.  Verður mótbárum stefnda því hafnað, en krafan viðurkennd eins og hún er gerð. 

                Stefnandi áskildi sér að leggja fram gögn og afla matsgerðar um sjúkrakostnað ef kröfu hans undir þeim lið yrði mótmælt.  Hann gerði það ekki þótt kröfunni væri mótmælt.  Hann hefur aðeins skýrt þessa kröfu með almennum orðum án þess að tengja það við gögn um áverka stefnanda og framtíðarhorfur um nauðsynlega umönnun.  Verður að hafna þessum kröfulið. 

                Stefnandi bætir við kröfu sína með sérstökum liðum kostnaði við gagnaöflun og lögfræðikostnaði.  Skaðabótakrafa sem byggist á sakar- og vinnuveitandaábyrgð nær í þessu tilviki til líkamstjóns þess sem stefnandi varð fyrir.  Kostnaður af læknis­meðferð og annarri umönnun er hluti bótakröfunnar að svo miklu leyti sem stefnandi ber hann sjálfur.  Kostnaður af að krefja hinn bótaskylda aðila eða tryggingafélag hans um bætur er hins vegar ekki hluti bótakröfunnar, en greiðist eftir atvikum sem máls­kostnaður úr hendi gagnaðila samkvæmt XXI. kafla laga nr. 91/1991, eða sem gjafsóknarkostnaður samkvæmt 127. gr. laganna úr ríkissjóði.  Verður því hafnað að dæma þessa liði sem hluta bótakröfunnar. 

                Krafa stefnanda verður því dæmd með 28.725.761 krónu, sem sundurliðast svo:

                Þjáningabætur                                                                                                    904.200 krónur

                Varanlegur miski                                                                                5.207.985 krónur

                Bætur vegna varanlegrar örorku                                                     22.613.576 krónur

                Stefndi mótmælir vaxtakröfum stefnanda.  Annars vegar telur hann að vextir sem féllu á kröfurnar fyrir 15. september 2010 séu fallnir niður vegna fyrningar.  Hins vegar krefst hann þess að dráttarvextir verði ekki dæmdir nema frá dómsuppsögu. 

                Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 15. september 2014.  Vextir verða því dæmdir frá 15. september 2010, sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfu­réttinda.  Ber krafan frá þeim degi vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr., sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.  Samkvæmt 9. gr. sömu laga ber krafan dráttarvexti að liðnum mánuði frá þeim degi er kröfuhafi leggur fram þær upplýsingar sem þörf er á til að meta tjónsatvik og ákveða bætur.  Afhending matsgerðar dugar ekki ein og sér til þess.  Verða dráttarvextir því dæmdir frá 15. október 2014. 

                Stefnandi hefur gjafsókn.  Útlagður kostnaður stefnanda nemur 154.200 krónum.  Með hliðsjón af tímaskýrslu lögmanns stefnanda og tilkynningu dómstóla­ráðs nr. 1/2015 er málflutningsþóknun ákveðin með virðisaukaskatti 2.000.000 króna.  Stefndi verður dæmdur til að greiða 2.154.200 krónur í málskostnað í ríkissjóð. 

                Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. 

D ó m s o r ð

                Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnanda, A, 28.725.761 krónu með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr., sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 15. september 2010 til 15. október 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. 

                Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 2.154.200 krónur, greiðist úr ríkissjóði. 

                Stefndi greiði 2.154.200 krónur í málskostnað í ríkissjóð.