Hæstiréttur íslands
Mál nr. 589/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarvistun
|
Fimmtudaginn 10. september 2015. |
|
|
Nr. 589/2015.
|
A (Unnstein Örn Elvarsson hdl.) gegn Velferðarsviði Reykjavíkurborgar (Kristbjörg Stephensen hrl.) |
Kærumál. Nauðungarvistun.
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um nauðungarvistun A á sjúkrahúsi, sem ákveðin hafði verið af innanríkisráðuneytinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. september 2015, sem barst réttinum 7. sama mánaðar en kærumálsgögn bárust fyrrnefnda daginn. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. september 2015, þar sem staðfest var ákvörðun innanríkisráðuneytisins 31. ágúst sama ár um að sóknaraðili skyldi vistaður á sjúkrahúsi. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann þóknunar til handa skipuðum verjanda sínum vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Við meðferð málsins fyrir héraðsdómi gaf C geðlæknir skýrslu en hann hefur annast sóknaraðila og ritað vottorð um heilsufar hans. Í skýrslu hans kom fram að brýnt væri að vista sóknaraðila á sjúkrahúsi vegna alvarlegs geðsjúkdóms sem stefni heilsu hans í hættu. Hann sé ekki áttaður á hvar hann sé staddur hverju sinni og geti ekki verndað sjálfan sig og sé sjálfum sér þannig hættulegur. Hann hafi ekkert sjúkdómsinnsæi. Samkvæmt þessu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fullnægt skilyrðum 3. mgr., sbr. 2. mgr., 19. gr. lögræðislaga til vistunar sóknaraðila á sjúkrahúsi gegn vilja hans. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun verjanda sóknaraðila sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun verjanda sóknaraðila, Unnsteins Arnar Elvarssonar héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 148.880 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. september 2015.
Með kröfu, sem dagsett 1. september sl., hefur sóknaraðili, A, [...], búsettur í [...], fæddur [...], farið þess á leit að felld verði úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins, 31. ágúst sl., um það að hann skuli vistast á sjúkrahúsi. Jafnframt krefst sóknaraðili þess að málskostnaður skipaðs talsmanns síns verði greiddur úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Málið var þingfest í dag og tekið samdægurs til úrskurðar.
Varnaraðili, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og áðurnefnd ákvörðun innanríkisráðuneytisins um vistun sóknaraðila á sjúkrahúsi staðfest. Um aðild varnaraðila vísast til 20. gr., sbr. d-lið 2. mgr. 7. gr., laga nr. 71/1997.
Málavextir:
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefur sóknaraðili dvalist hér í stuttan tímann. Þann 28. ágúst sl. kom hann á slysadeild LSH í fylgd lögreglu. Hann hafði verið á ferðinni fyrir utan [...] í [...] og var lögreglu kölluð til. Sóknaraðili gekk þá um og kallaði vin sinn sem var augljóslega ekki þar. Hann vildi komast til [...]. Hann var ekki viss um hversu lengi hann hafði dvalið á Íslandi, líklega fimm daga. Hann kvaðst hafa sofið í garði með styttu af manni sem heiti Amber og hann telur vera kóng. Í kjölfarið var sóknaraðili lagður inn á bráðageðdeild 32C LSH og nauðungarvistaður. Í viðtali við vakthafandi geðlækni [...] komu fram mikil geðrofseinkenni hjá sóknaraðila, bæði ranghugmyndir um geislun sem hann telur sig verða fyrir og heyrnarofskynjanir. Mat B [...]læknis bráðageðdeildar var að án meðferðar myndi ástand sjúklings halda áfram að versna. Hann væri ekki fær um að hugsa um sjálfan sig og gæti farið sér að voða án meðferðar. Hann þyrfti að komast sem fyrst aftur til [...] en þyrfti að ná jafnvægi hér fyrst áður en hann gæti farið heim.
Með kröfu varnaraðila um nauðungarvistun til innanríkisráðuneytisins frá 31. ágúst 2015 fylgdi læknisvottorð C geðlæknis. Þar kemur fram að sóknaraðili sé með augljós geðrofseinkenni sem samræmist því að hann sé haldinn alvarlegum geðrofssjúkdómi, langlíklegast geðklofa. Sóknaraðili segist hafa verið lagður inn í heimalandi sínu en telji það hafa verið röng ákvörðun og að greining hans hafi verið röng. Hann sé með miklar og sérkennilegar aðsóknarranghugmyndir um að hann sé ofsóttur af „atferlisfræðingum“ með geislum og hafi hann því flúið heimaland sitt. Hann hafi haft einkenni sem samræmist því að hann sé með heyrnarofskynjanir þar sem hann hafi verið að hrópa og tala við fólk sem sé ekki til staðar. Telur læknirinn ljóst að sóknaraðili sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og sé í miklu geðrofi. Öll saga og einkenni samræmist því að hann sé með geðklofa. Læknirinn staðfesti vottorð sitt fyrir dóminum. Fram kom í máli hans að þörf væri á að nauðungarvista sóknaraðila vegna veikinda hans. Hann væri í alvarlegu geðrofi og hættulegur sjálfum sér. Hann vildi ekki þiggja lyf.
Sóknaraðili talaði máli sínu fyrir dóminum. Hann viðurkenndi að hafa verið veikur en væri nú orðinn albata. Hann vildi komast til [...] sem fyrst. Hann væri ekki með vegabréfsáritun en taldi að hann gæti fengið hana þegar hann gæfi sig fram við vegabréfaskoðun ytra.
Talsmaður sóknaraðila vísaði til þess að skilyrði 19. gr. laga nr. 71/1997 um nauðungarvistun sóknaraðila væru ekki fyrir hendi og því bæri að fella ákvörðun innanríkisráðuneytisins úr gildi. Gæta yrði meðalhófs í málinu þar sem nauðungarvistun fæli í sér verulegt inngrip í líf sóknaraðila.
Varnaraðili byggir á því að skilyrði nauðungarvistunar hafi verið og séu enn fyrir hendi í tilviki sóknaraðila.
Niðurstaða:
Fram er komið í málinu að sóknaraðili var við komu á bráðamóttöku geðdeildar með geðrofseinkenni og ranghugmyndir. Í ljósi þessa og að virtum þeim gögnum sem lögð hafa verið fyrir dóminn verður að telja að uppfyllt séu skilyrði 3. mgr., sbr. 2. mgr., 19. gr. laga nr. 71/1997 hvað varðar ástand sóknaraðila. Nauðungarvistun hans er því óhjákvæmileg og verður ekki séð að vægari úrræði dugi. Með vísan til 3. mgr. 19. gr. laga nr. 71/1997, og með hagsmuni sóknaraðila sjálfs í huga og líkur hans á bata með inngripi nú, verður því að staðfesta ákvörðun innanríkisráðuneytisins um að hann skuli vistast á sjúkrahúsi.
Málskostnað, þar með talda þóknun til skipaðs verjanda sóknaraðila, Unnsteins Örn Elvarsson hdl. 124.000 krónur ber að greiða úr ríkissjóði.
Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Staðfest er ákvörðun innanríkisráðuneytisins, 31. ágúst sl. um það að sóknaraðili, A, skuli vistast á sjúkrahúsi.
Kostnaður af málinu, þ.m.t. þóknun til skipaðs verjanda sóknaraðila, Unnsteins Arnar Elvarsson hdl. 124.000 krónur, ber að greiða úr ríkissjóði.