Hæstiréttur íslands
Mál nr. 738/2015
Lykilorð
- Fjárdráttur
- Bókhaldsbrot
- Ársreikningur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. október 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð.
Í I. kafla ákæru er ákærða gefinn að sök fjárdráttur með því að hafa í eigin þágu á tímabilinu 1. febrúar 2011 til 1. október 2013 sem fyrirsvarsmaður einkahlutafélagsins Signature húsgagna tekið fé út af bankareikningi félagsins og millifært af honum yfir á eigin reikninga. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi hefur ákærði játað fyrir dómi að hafa tekið út og millifært féð. Taldi héraðsdómur skýringar ákærða á þessum ráðstöfunum ótrúverðugar og eru engin efni til að hnekkja því mati. Samkvæmt þessu verður staðfest niðurstaða dómsins um sakfellingu ákærða fyrir brot gegn 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærða eru í II. kafla ákæru gefin að sök meiri háttar brot gegn lögum um bókhald með því að hafa ekki fært tilskilið bókhald fyrir áðurnefnt einkahlutafélag vegna starfsemi þess á árunum 2011 og 2012. Eins og rakið er í héraðsdómi er neitun ákærða á þessum sakargiftum í andstöðu við frásögn hans hjá skiptastjóra og í skýrslugjöf hjá lögreglu. Taldi héraðsdómur framburð ákærða fyrir dómi ótrúverðugan og eru heldur engin efni til að hnekkja því mati. Þá hefur ákærði að öðru leyti játað að hafa framið þau brot sem honum eru gefin að sök í þessum ákærukafla. Samkvæmt þessu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu samkvæmt honum.
Ákærði hlaut dóm árið 1998 þar sem honum var gert að sæta tveggja mánaða fangelsi skilorðsbundið fyrir brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði hélt það skilorð og getur sá dómur að liðnum þessum tíma ekki haft áhrif við ákvörðun refsingar. Er hún hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi og skal fullnustu hennar frestað eins og í dómsorði greinir. Þá verður staðfest ákvæði dómsins um sakarkostnað.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns sem ákveðin eru með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, Böðvar Friðriksson, sæti fangelsi í eitt ár, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu héraðsdóms haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 529.976 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 15. október 2015.
Mál þetta, sem þingfest var 27. maí 2015 og dómtekið 6. október sl., er höfðað með ákæru embættis sérstaks saksóknara, skv. lögum nr. 135/2008, útgefinni 27. apríl 2015, á hendur Böðvari Friðrikssyni, kt. [...], [...], Hafnarfirði,
„fyrir eftirtalin brot gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940, lögum um bókhald nr. 145/1994 og lögum um ársreikninga nr. 3/2006:
I
Fyrir fjárdrátt með því að hafa á tímabilinu 1. febrúar 2011 til 1. október 2013 sem eigandi, stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi einkahlutafélagsins Signature húsgagna ehf., kt. [...], dregið sér samtals 9.460.719 krónur af fjármunum félagsins með millifærslum af bankareikningi þess hjá Íslandsbanka hf. nr. [...] inn á bankareikninga sína hjá Íslandsbanka hf. nr. [...] og nr. [...]bókhal og með peningaúttektum af sama bankareikningi félagsins. Ákærði ráðstafaði fénu í eigin þágu en virti um leið að vettugi gjaldfallnar skuldir félagsins, kröfuhöfum þess til tjóns. Signature húsgögn ehf. var úrskurðað gjaldþrota 10. október 2013. Þrotabú félagsins reyndist eignalaust og lauk skiptum þess 29. janúar 2014 án þess að neitt fengist greitt upp í lýstar kröfur, samtals að fjárhæð 25.573.491 króna. Samkvæmt skattframtölum ákærða taldi hann fram launatekjur frá Signature húsgögnum ehf. tekjuárið 2011 samtals 1.440.000 krónur og tekjuárið 2012 samtals 2.256.000 krónur. Millifærslur og peningaúttektir ákærða frá félaginu á framangreindu tímabili námu samtals 13.156.719 krónum en að teknu tilliti til þessara framtöldu launatekna ákærða telst fjárdráttur ákærða frá félaginu nema áðurnefndri fjárhæð, 9.460.719 krónum.
Millifærslur og peningaúttektir ákærða sem um ræðir sundurliðast svo:
|
Tilvik |
Dagsetning |
Millifært á reikning nr. / Peningaúttekt |
Fjárhæð kr. |
|
1 |
1.2.2011 |
[...] |
200.000 |
|
2 |
8.2.2011 |
[...] |
25.000 |
|
3 |
15.2.2011 |
[...] |
100.000 |
|
4 |
29.3.2011 |
[...] |
300.000 |
|
5 |
5.4.2011 |
[...] |
100.000 |
|
6 |
11.4.2011 |
[...] |
30.000 |
|
7 |
14.4.2011 |
[...] |
50.000 |
|
8 |
1.6.2011 |
[...] |
50.000 |
|
9 |
3.6.2011 |
[...] |
300.000 |
|
10 |
4.7.2011 |
[...] |
200.000 |
|
11 |
7.7.2011 |
[...] |
300.000 |
|
12 |
19.7.2011 |
[...] |
250.000 |
|
13 |
29.7.2011 |
[...] |
250.000 |
|
14 |
19.8.2011 |
[...] |
200.000 |
|
Tilvik |
Dagsetning |
Millifært á reikning nr. / Peningaúttekt |
Fjárhæð kr. |
|
15 |
24.8.2011 |
[...] |
250.000 |
|
16 |
1.9.2011 |
[...] |
300.000 |
|
17 |
4.10.2011 |
Peningaúttekt í útibúi Íslandsbanka hf. við Garðatorg í Garðabæ |
110.000 |
|
18 |
21.10.2011 |
[...] |
100.000 |
|
19 |
27.10.2011 |
[...] |
200.000 |
|
20 |
22.11.2011 |
[...] |
500.000 |
|
21 |
22.11.2011 |
[...] |
600.000 |
|
22 |
8.12.2011 |
[...] |
200.000 |
|
23 |
11.1.2012 |
Peningaúttekt í útibúi Íslandsbanka hf. við Garðatorg í Garðabæ |
75.000 |
|
24 |
16.1.2012 |
[...] |
25.000 |
|
25 |
17.1.2012 |
[...] |
250.000 |
|
26 |
23.2.2012 |
[...] |
5.000 |
|
27 |
12.3.2012 |
[...] |
50.000 |
|
28 |
19.3.2012 |
[...] |
100.000 |
|
29 |
20.3.2012 |
[...] |
566.719 |
|
30 |
4.4.2012 |
[...] |
100.000 |
|
31 |
20.4.2012 |
Peningaúttekt í útibúi Íslandsbanka hf. að Strandgötu í Hafnarfirði |
100.000 |
|
32 |
7.5.2012 |
[...] |
100.000 |
|
33 |
15.5.2012 |
[...] |
200.000 |
|
34 |
25.5.2012 |
[...] |
70.000 |
|
35 |
6.6.2012 |
[...] |
50.000 |
|
36 |
11.6.2012 |
[...] |
140.000 |
|
37 |
26.6.2012 |
[...] |
50.000 |
|
38 |
12.7.2012 |
[...] |
100.000 |
|
39 |
31.7.2012 |
[...] |
300.000 |
|
40 |
7.8.2012 |
[...] |
50.000 |
|
41 |
14.8.2012 |
[...] |
100.000 |
|
42 |
29.8.2012 |
[...] |
200.000 |
|
43 |
11.9.2012 |
[...] |
100.000 |
|
44 |
17.9.2012 |
[...] |
100.000 |
|
45 |
3.10.2012 |
[...] |
150.000 |
|
46 |
18.10.2012 |
[...] |
400.000 |
|
47 |
22.11.2012 |
[...] |
50.000 |
|
48 |
28.11.2012 |
[...] |
50.000 |
|
49 |
4.12.2012 |
[...] |
50.000 |
|
50 |
11.12.2012 |
[...] |
25.000 |
|
51 |
17.12.2012 |
[...] |
10.000 |
|
52 |
3.1.2013 |
[...] |
125.000 |
|
53 |
18.1.2013 |
[...] |
30.000 |
|
54 |
29.1.2013 |
[...] |
30.000 |
|
55 |
30.1.2013 |
[...] |
200.000 |
|
56 |
4.2.2013 |
[...] |
200.000 |
|
Tilvik |
Dagsetning |
Millifært á reikning nr. / Peningaúttekt |
Fjárhæð kr. |
|
57 |
11.2.2013 |
[...] |
10.000 |
|
58 |
18.2.2013 |
[...] |
100.000 |
|
59 |
4.3.2013 |
[...] |
50.000 |
|
60 |
12.3.2013 |
[...] |
50.000 |
|
61 |
13.3.2013 |
[...] |
125.000 |
|
62 |
14.3.2013 |
[...] |
200.000 |
|
63 |
21.3.2013 |
[...] |
50.000 |
|
64 |
9.4.2013 |
[...] |
140.000 |
|
65 |
16.4.2013 |
[...] |
120.000 |
|
66 |
22.4.2013 |
[...] |
100.000 |
|
67 |
24.4.2013 |
[...] |
15.000 |
|
68 |
29.4.2013 |
[...] |
30.000 |
|
69 |
3.5.2013 |
[...] |
120.000 |
|
70 |
3.5.2013 |
[...] |
125.000 |
|
71 |
16.5.2013 |
[...] |
200.000 |
|
72 |
29.5.2013 |
[...] |
160.000 |
|
73 |
3.6.2013 |
[...] |
50.000 |
|
74 |
4.6.2013 |
[...] |
200.000 |
|
75 |
3.7.2013 |
[...] |
100.000 |
|
76 |
23.7.2013 |
[...] |
500.000 |
|
77 |
29.7.2013 |
[...] |
500.000 |
|
78 |
1.8.2013 |
[...] |
60.000 |
|
79 |
2.8.2013 |
[...] |
10.000 |
|
80 |
7.8.2013 |
[...] |
150.000 |
|
81 |
14.8.2013 |
[...] |
25.000 |
|
82 |
28.8.2013 |
[...] |
100.000 |
|
83 |
5.9.2013 |
[...] |
500.000 |
|
84 |
1.10.2013 |
[...] |
600.000 |
|
|
|
Samtals: |
13.156.719 |
|
|
|
Framtaldar launatekjur tekjuárin 2011 og 2012: |
-3.696.000 |
|
|
|
Fjárhæð brota samtals: |
9.460.719 |
Framangreind brot teljast varða við 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
II
Fyrir meiri háttar brot gegn lögum um bókhald og lögum um ársreikninga með því að hafa sem stjórnarmaður og framkvæmdastjóri Signature húsgagna ehf., kt. [...], ekki fært tilskilið bókhald fyrir félagið vegna starfsemi þess á árunum 2011 og 2012 og vanrækt að standa skil á ársreikningum fyrir félagið til opinberrar birtingar vegna sömu ára.
Brot ákærða gegn lögum um bókhald teljast varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 36. gr. og 1. tölul. 1. mgr. 37. gr. laga um bókhald nr. 145/1994.
Brot ákærða gegn lögum um ársreikninga teljast varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 120. gr. og 1. mgr. 121. gr. laga um ársreikninga nr. 3/2006.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Ákærði kom fyrir dóminn 2. júní sl. og neitaði sök í báðum ákæruliðum en játaði að hafa ekki skilað ársreikningum fyrir félagið samkvæmt ákærulið II. Fór aðalmeðferð fram þann 6. október sl. og var málið dómtekið að málflutningi loknum.
Málsatvik.
Samkvæmt gögnum málsins rak ákærði einkahlutafélagið Signature húsgögn frá árinu 2002. Var hann eini eigandinn, aðalmaður í stjórn, framkvæmdastjóri og með prókúru. Þá var hann eini starfsmaður félagsins. Ákærði kvaðst hafa séð um bókhald, gerð reikninga, vörupantanir og greiðslu reikninga fyrir hádegi dags daglega en verslunin, sem seldi aðallega garðhúsgögn, var opin frá kl. 12.00 til 18.00 sex daga vikunnar. Á árinu 2010 fór að halla undan fæti í rekstri félagsins og bera gögn með sér að opinber gjöld voru komin í vanskil á árinu 2010. Árangurslaust fjárnám var gert hjá félaginu þann 22. mars 2013. Ákærði mætti ekki við fjárnámið sem var gert að kröfu Tollstjóra vegna opinberra gjalda, og var árangurslaust. Krafa var gerð um að félagið yrði úrskurðað gjaldþrota og var sú krafa tekin til greina með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness þann 10. október 2013. Skipaður var skiptastjóri í búinu sem tók skýrslu af forsvarsmanni félagsins og sendi í framhaldi tilkynningu til ríkissaksóknara um hugsanleg brot gegn almennum hegningarlögum, lögum um bókhald og lögum um skil ársreikninga.
Skýrslur fyrir dómi.
Ákærði kom fyrir dóminn og staðfesti það að hann hafi verið eini eigandi félagsins, í stjórn þess, framkvæmdastjóri með prókúru og eini starfsmaður þess. Ákærði kvaðst hafa talið fram lágmarkslaun en dregist hafi síðustu árin að gefa út launaseðla. Félagið hafi ekki átt bifreið en það hafi greitt útlagðan kostnað en akstursskýrsla hafi ekki verið haldin. Ákærði kvaðst hafa reynt að halda fjármunum sínum og félagsins aðskildum en farið var að halla undan rekstrinum á árinu 2010. Minnkandi sala og slæm fjárhagsstaða hafi verið orsök gjaldþrots félagsins. Ákærði staðfesti að þær millifærslur sem ákært er fyrir hafi átt sér stað og ákærði hafi framkvæmt þær en þær hafi ekki verið í refsiverðum tilgangi. Aðspurður um millifærslur eftir 12. mars 2013, kvað ákærði félagið hafi staðið illa á þeim tíma. Ákærði hafi verið að reyna að bjarga fyrirtækinu. Hann hafi verið að greiða húsaleigu, flutningskostnað og fleira sem tilheyrði rekstrinum. Eftir 3. júlí 2013 hafi félagið staðið illa og millifærslurnar hafi farið í að reyna að bjarga rekstrinum. Ákærði kvaðst m.a. hafa millifært yfir á sig til að greiða svo aftur inn á húsaleiguskuld. Þær greiðslur hafi kannski farið fram fyrir þann tíma en ákærði kvaðst ekki geta útskýrt það frekar. Ákærði kvaðst hafa lánað félaginu fé úr eigin vasa, m.a. með því að innleysa vörur úr tolli á árunum 2011 til 2013, og hafi millifærslur til hans verið að hluta til endurgreiðsla vegna þeirra útgjalda. Ákærði kvaðst einnig hafa verið að greiða sér laun og aðspurður hvort hann hafi haldið utan um þær launagreiðslur í bókhaldi félagsins kvaðst hann ekki hafa gert það, hann hafi talið að allar þær greiðslur væru rekjanlegar í gegnum bankareikningana. Ákærði kvað reksturinn hafa gengið illa á þessum árum og hann unnið sleitulaust alla daga. Hann hafi gefið upp til skatts lág laun sér til handa. Þá hafi hann persónulega átt bifreið sem hann hafi notað fyrir verslunina, m.a. til að sækja og senda húsgögn. Hann hafi því greitt eldsneytiskostnað af reikningum félagsins. Ákærði kvaðst hafa haft nokkra yfirsýn yfir skuldir félagsins á þessum árum. Þá kvaðst ákærði ekki hafa stofnað sérstakan viðskiptamannareikning í bókhaldinu sem héldi utan um þær greiðslur sem ákærði lánaði félaginu né endurgreiðslur en hann hafi talið að hann mætti gera það seinna. Aðspurður um það hvers vegna ákærði hafi ekki greitt vörsluskatta og opinber gjöld sem gjaldfallin voru þegar hann fór að millifæra fé til sjálfs sín, kvaðst hann fyrst og fremst hafa hugsað um að halda fyrirtækinu í rekstri og notað þá peninga til vörukaupa. Um það hvort hann hafi ekki getað notað þá peninga sem fyrst fóru til ákærða, beint til vörukaupa, kvað ákærði að á árinu 2012 hafi félagið ekki verið í stakk búið til að innleysa vörur í gegnum tollinn þar sem félagið hafi verið í vanskilum við tollinn. Því hafi ákærði farið að kaupa vörur inn í sínu eigin nafni. Aðspurður um misræmi í framburði ákærða hjá lögreglu um að fyrirtækið hafi einhvern tímann greitt bensín á bifreið ákærða og aftur framburði hans fyrir dóminum að félagið hafi greitt kostnað bifreiðarinnar, kvaðst ákærði ekki hafa haldið akstursdagbók en honum hafi ekki fundist óeðlilegt að félagið greiddi einhverja bensínreikninga þegar bifreiðin var notuð fyrir félagið en ákærði hafi átt bifreiðina persónulega. Þá var ákærði spurður um framburð sinn hjá lögreglunni um að enginn hafi séð um bókhald fyrirtækisins síðustu þrjú árin né að hann hafi haft endurskoðanda, og kvað ákærði að hann hafi átt við að ársreikningum hafi ekki verið skilað. Aðspurður um það hvernig ákærði hafi greitt reikninga sem hann lagði fram við upphaf aðalmeðferðar frá árinu 2012, kvaðst ákærði hafa greitt þá með peningum, „hann hafi bara fengið peninga sem hann hafi notað“. Ákærði kvaðst hafa fært þá reikninga inn í viðskiptamannabókhald félagsins, þannig hafi það átt að vera allavega. Ákærði kvað félagið hafa þurft að greiða reikninga áður en varan var tollafgreidd. Þannig hafi félagið greitt fyrir vöruna, varan hafi komið til landsins en ekki verið hægt að leysa hana út vegna fyrri skulda við tollyfirvöld. Því hafi ákærði greitt tollana persónulega. Ákærði var inntur um millifærslur af reikningi sínum til föður síns. Kvað ákærði föður sinn hafa lánað félaginu peninga en skýringin á þessari aðferð sé líklega að faðir hans hafi lánað sér persónulega peninga til að halda rekstrinum gangandi og ákærði hafi viljað greiða honum persónulega til baka. Þá hafi ákærði t.d. greitt tryggingar af bílnum sínum en hann látið félagið endurgreiða sér. Reiknaði ákærði með að það hafi verið fært á viðskiptamannareikning.
Ákærði kvaðst játa að hafa ekki skilað ársreikningum fyrir árin 2011 og 2013 en ákærði kvaðst hafa haldið bókhald á þessum tíma og hann hafi skilað því til skiptastjóra við gjaldþrotaskiptin. Ákærði kvaðst hafa séð sjálfur um færslu bókhaldsins. Öll fylgiskjöl hafi verið í möppum sem skiptastjóri fékk. Aðspurður hvort viðskiptamannabókhald, sjóðsbók, dagbók, hreyfingalistar og aðalbók hafi verið í möppunum kvaðst ákærði telja svo vera en kannski ekki þetta allt. Bókhald hafi verið fært þessi ár og bókhaldsgögn hafi átt að vera í möppunum. Seinasta árið hafi hugsanlega vantað einhver gögn og ekki verið færð inn í bókhaldið til hlítar. Staðfesti ákærði að launaseðlar hafi ekki verið gerðir fyrir þær launagreiðslur sem ákærði millifærði á sig. Ákærði kvað ástæðuna fyrir því að hann skilaði ekki ársreikningum hafa verið kostnaðurinn við það.
Vitnið Björgvin Þórðarson kom fyrir dóminn og staðfesti að hann hefði verið skipaður skiptastjóri Signature húsgagna ehf. Kvað vitnið að við skoðun á bankareikningum félagsins hafi komið í ljós úttektir af reikningum félagsins sem hafi ekki gengið upp. Vitnið kvað Tollstjóra hafa beðið um gjaldþrotaskiptin á sínum tíma. Vitnið kvaðst hafa farið fram á riftun á samningum sem ákærði hafði gert en þrotabúið hafi ekki fengið neina fjármuni endurgreidda. Spurt um það hvort launaseðlar hafi verið gefnir út vegna úttekta ákærða, kvaðst vitnið ekki hafa orðið vart við það. Þá hafi vitnið ekki séð að opinber gjöld hafi verið greidd fyrir gjaldþrotið. Vitnið kvaðst hafa fengið einhverjar bókhaldsmöppur og aðallega hafi það verið nótur úr rekstri félagsins en vitnið kvaðst ekki muna það svo nákvæmlega. Vitnið kvaðst ekki hafa fengið tölvufært bókhald félagsins afhent. Vitnið hafi ekki fengið afhent viðskiptamannabókhald, dagbók eða aðalbók. Upphaflega hafi vitnið óskað eftir bókhaldsgögnum og möppurnar hafi verið það sem vitnið fékk. Skýrsla vitnisins um afhendingu gagna félagsins var borin undir vitnið og kvaðst það staðfesta hana. Þá kvaðst vitnið aðspurt engu hafa við skýrslu sína að bæta um að ákærði hafi tjáð sér að bókhald hafi ekki verið fært síðustu tvö árin. Ítrekað aðspurt um það hvort og hvaða bókhaldsgögn ákærði hafi afhent skiptastjóra, kvað vitnið í minningunni það hafa verið reikningar og nótur en vitnið hafi engar skýringar í dag hvað möppurnar innihéldu en gögnin hafi ekki gagnast skiptastjóra við riftunarmál. Vitnið hafi ekki fengið tölvur félagsins afhentar en vitnið hafi þurft að kynna sér hjá skattstjóra hvernig launum hafi verið skilað þar sem slík gögn hafi ekki verið í bókhaldi félagsins. Vitnið kvaðst ekki geta staðfest það hvort viðskiptamannabókhald hafi verið með í gögnum sem það fékk sem skiptastjóri.
Forsendur og niðurstöður.
Í gögnum málsins liggur fyrir ársreikningur Signature húsgagna ehf. vegna rekstrarársins 2010. Kemur þar fram að yfirfæranlegt tap til næsta árs sé 6.260.383 krónur, þar af tap ársins, 1.211.018 krónur, og skuldir umfram eignir séu 5.760.383 krónur. Skuldir eru sagðar vera vegna lánardrottna 8.480.265 krónur og ógreidd opinber gjöld 17.900 krónur, ógreidd staðgreiðsla 170.795 krónur, ógreitt tryggingagjald 191.604 krónur, ógreiddur virðisaukaskattur 127.375 krónur, ógreiddur virðisaukaskattur í tolli 3.578.354 krónur og ógreidd laun og launatengd gjöld 246.120 krónur. Samtals 12.812.413 krónur. Í kröfulýsingu Tollstjóra frá 17. október 2013 kemur fram að þing- og sveitasjóðsgjöld hafi verið í vanskilum frá nóvember 2011 og allt til september 2013. Staðgreiðsla og tryggingagjald hafi verið í vanskilum frá júlí til og með nóvember 2010 og frá júní til og með nóvember 2012. Staðgreiðsla launagreiðanda hafi verið í vanskilum frá október og nóvember 2010, frá mars til desember 2011, frá júní til og með desember 2012 og janúar til og með apríl 2013. Greiðslufrestur til tveggja mánaða í tolli hafi verið í mars 2010 3.891.667 krónur og í apríl 2010 1.372.555 krónur. Þá voru dráttarvextir og kostnaður áfallinn vegna virðisaukaskatts fyrir tímabil 40 og 48 árið 2011 og í ágúst 2012 en virðisaukaskattur ógreiddur frá tímabili 16 til 48 árið 2012 og fyrir tímabil 8 2013. Samtals voru vangreidd opinber gjöld fyrir ofangreind tímabil samtals 12.855.014 krónur með vöxtum og kostnaði.
Skiptastjóri tók skýrslu af ákærða 23. október 2013. Kemur fram að ákærði afhenti skiptastjóra fylgiskjöl bókhalds vegna áranna 2011, 2012 og 2013. Skýrði ákærði frá því að hann hafi verið með leigusamning við fasteignafélagið Hof sem hafi lokið 1. september 2013. Þá hafi hann gert nýjan samning um ógreidda leigu vegna ársins 2012 upp á þrjár til fjórar milljónir sem hafi falist í því að ef félagið stæði í skilum með leigugreiðslur maí til ágúst 2013 þá yrðu eldri skuldir felldar niður. Félagið hafi greitt fjórum sinnum þrjú hundruð þúsund krónur. Fyrir dóminum taldi ákærði að hluti af millifærslunum sem ákært er fyrir hafi farið til að greiða húsaleigu. Þá kvað ákærði hvorki bókhald hafa verið fært síðustu tvö árin né skattframtölum eða ársreikningum verið skilað. Samkvæmt yfirliti úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra greiddi Signature húsgögn ehf. staðgreiðslu frá júní til nóvember 2012 vegna launa ákærða. Engin staðgreiðsla var greidd árin 2011 og 2013.
Skiptastjóri félagsins staðfesti fyrir dóminum að hann hafi ekki fengið tölvufært bókhald félagsins afhent né tölvu félagsins. Vitnið hafi ekki fengið afhent viðskiptamannabókhald, dagbók eða aðalbók.
Fyrir liggur að ákærði tók peninga út af reikningi félagsins og millifærði á persónulega bankareikninga sína á tímabilinu 1. febrúar 2011 til og með 1. október 2013, samtals 13.156.719 krónur. Ákærði gaf tekjur upp til skatts á tekjuárinu 2011 frá Signature húsgögnum ehf. 1.440.000 krónur og á tekjuárinu 2012 2.256.000 krónur. Engir launaseðlar voru útgefnir vegna þessara tekna ákærða en þær voru dregnar frá þeim fjárhæðum sem ákærði millifærði eða tók út úr félaginu án þess að gera grein fyrir þeim greiðslum. Er því ákært fyrir fjárdrátt að fjárhæð 9.460.719 krónur.
Ákærði játaði fyrir dóminum að hafa millifært þær greiðslur eða tekið út af reikningi félagsins eins og greint er í ákæru en neitaði að um refsiverðaháttsemi hafi verið að ræða. Ákærði kvaðst hafa verið til að greiða sér laun, auk þess sem hann hafi yfirfært greiðslur til sín í þeim tilgangi að greiða aftur húsaleigu fyrir félagið, endurgreiða lán frá föður hans til félagsins eða sín persónulega og til að greiða ýmsan útlagðan kostnað, sem ákærði hafi sjálfur lagt út fyrir félagið. Lagði ákærði fram því til sönnunar afrit reikninga frá TVG-Zimsen og Eimskip sem stílaðir voru á ákærða persónulega. Kvað ákærði félagið hafa verið í vanskilum hjá Tollstjóra svo ákærði hafi greitt persónulega fyrir flutning á vörum fyrir félagið. Hafi millifærslurnar m.a. verið endurgreiðsla til sín fyrir flutninga. Aðspurður hvort hann hafi fært þær greiðslur hans í þágu félagsins til bókar hjá félaginu kvaðst ákærði hafa greitt reikninga fyrir félagið, rúmlega sjö milljónir, með peningum sem hann hafi fengið. Því sjáist engar millifærslur. Ákærði gat ekki gefið neinar frekari skýringar á því hvaðan þeir peningar komu. Þá hafi ákærði lagt sína bifreið til fyrir félagið og m.a. hafi félagið verið að greiða honum til baka fyrir rekstur bifreiðarinnar og tryggingar. Hafi ákærða þótt það sanngjarnt. Engin akstursbók hafi verið haldin né annað utanumhald vegna notkunar bifreiðarinnar í þágu félagsins. Ákærði kvað rétt að hann hafi ekki gert launaseðla vegna meintra launagreiðslna til sín og fyrir dóminum svaraði hann því ýmist neitandi eða játandi að hann hafi haldið viðskiptamannabókhald vegna úttekta sinna. Aðspurður í upphafi kvað ákærði að hann hafi ekki gert viðskiptamannareikning í bókhaldi félagsins til að halda utanum greiðslur til sín.
Í 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er kveðið á um að dragi maður sér fjármuni eða önnur verðmæti, sem hann hefur í vörslum sínum, en annar maður er eigandi að, án þess þó að verknaðurinn varði við 246. gr., þá skal hann sæta fangelsi allt að 6 árum. Signature húsgögn ehf. var sjálfstæður lögaðili með réttindi og skyldur samkvæmt lögum nr. 138/1994. Með því að millifæra eða taka út fjármuni af reikningum félagsins, án þess að gera grein fyrir þeim í bókhaldi félagsins, braut ákærði gegn 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga.
Þrátt fyrir fullyrðingar ákærða um að hann hafi verið að greiða sér laun á ákærutímabilinu eða aðrar skuldir, þá var félagið, eins og rakið er að ofan, þegar komið í fjárhagslegan vanda, m.a. vegna opinberra gjalda o.fl. Þrátt fyrir það nýtti ákærði sér aðstöðu sína og færði fé frá félaginu á sinn persónulega bankareikning á löngu tímabili en lét hjá líða að greiða skuldir félagsins. Þá koma skýringar á því að ákærði hafi verið að greiða föður sínum lán, leigugjald fyrir félagið eða greiða sér fyrir greiddan flutning á vörum fyrir félagið, fyrst fram fyrir dóminum. Telur dómurinn skýringar ákærða og framburð hans fyrir dóminum um þetta ótrúverðugan og að engu hafandi, enda hefur ákærði ekki fært nein gögn fram fyrir dóminum sem leiða líkur að trúverðugleika framburðar hans. Er framburður hans um þetta því að engu hafandi. Verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem lýst er í ákærukafla I í ákæru.
Ákærði játaði fyrir dóminum að hafa ekki skilað ársreikningum fyrir félagið fyrir árin 2011 og 2012 eins og lýst er í ákærukafla II. Samrýmist það gögnum málsins og verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi og er hún réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Ákærði neitaði fyrir dóminum að hafa ekki haldið tilskilið bókhald vegna áranna 2011 og 2012. Fyrir dóminum kom fram að skiptastjóri kvaðst ekki hafa fengið önnur gögn við upphaf skipta en nótur og reikninga en samkvæmt ákæruvaldinu hafi ekkert bókhald verið í þeim gögnum, sem það fékk frá skiptastjóra og því ekki hægt að leggja slík gögn fram. Í skýrslutöku hjá skiptastjóra, þann 23. október 2013, er bókað að ákærði afhendi skiptastjóra fylgiskjöl bókhalds vegna áranna 2011, 2012 og 2013, fimm möppur. Haft er eftir ákærða að félagið skuldaði ekki laun. Þá kom fram hjá skiptastjóra fyrir dóminum að hann hafi ekki lagt hald á tölvu félagsins. Eins og mál þetta horfir við, virðist ákærði hafa haft aðgang að tölvu félagsins eftir að félagið var úrskurðað gjaldþrota. Þá hefði ákærða verið í lófa lagið að afhenda bókhaldsgögn við skýrslur hjá skiptastjóra eða lögreglu hafi þau verið til. Ákærði segir, aðspurður hjá skiptastjóra, að enginn hafi séð um bókhaldið, að það hafi ekki verið fært síðastliðin tvö ár, skattframtölum vegna félagsins hafi ekki verið skilað né ársreikningum. Sagði ákærði einnig við skýrslutöku hjá lögreglu þann 3. júlí 2015 að það hafi dregist síðustu tvö árin að gera upp, gera launaseðla og uppgjör. Ákærði kvaðst ekki hafa verið með neinn bókara eða endurskoðanda seinustu tvö árin í rekstri eða 2011 til 2013. Þá kvað hann bókhaldið ekki hafa verið fært á viðunandi hátt og hafi það verið á hans ábyrgð. Skiptastjóri félagsins kvað fyrir dóminum að bókhaldsgögn sem hann fékk við upphaf skipta hafi einungis verið fylgiskjöl og reikningar en ekki önnur bókhaldsgögn. Telur dómurinn, með vísan til framburðar ákærða hjá skiptastjóra og lögreglu um að ekkert bókhald hafi verið haldin síðust tvö ár félagsins, trúverðugan og samrýmast þeirri fullyrðingu ákæruvaldsins að ekkert bókhald fyrir þessi ár hafi fylgt með fylgiskjölum bókhaldsins fyrir þetta tímabil.
Engin bókhaldsgögn voru lögð fram með gögnum málsins og ákærði hefur ekki lagt fram nein gögn sem sýna fram á hið gagnstæða. Það hefði honum verið í lófa lagið þar sem tölva félagsins var ekki tekin úr hans höndum við upphaf gjaldþrotaskiptanna. Verður ákærði því látinn bera hallann af því.
Framburður ákærða nú fyrir dóminum, að hann hafi haldið tilskilið bókhald eins og honum bar sem stjórnarmanni og framkvæmdastjóra félagsins, er ótrúverðugur og í andstöðu við þann framburð sem ákærði gaf bæði hjá skiptastjóra og lögreglu. Verður framburður ákærða fyrir dóminum um annað að engu hafður. Telur dómurinn að ákæruvaldið hafi sýnt fram á að ákærði hafi ekki haldið tilskilið bókhald eins og honum bar sem fyrirsvarsmanni félagsins.
Í 1. mgr. 37. gr. laga um bókhald nr. 145/1994 segir að brot gegn ákvæðinu teljist ætíð meiri háttar brot. Er það því meiri háttar brot ef maður færir ekki tilskilið bókhald fyrir sjálfan sig eða lögaðila þannig að hann uppfylli ekki kröfu laga í meginatriðum skv. 1. tl. Telur dómurinn hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um ofangreinda háttsemi. Þá er háttsemi ákærða um að skila ekki ársreikningum, eins og hann gekkst við, réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi. Ákærði á sér engar málsbætur.
Ákærða hefur ekki verið gerð refsing áður samkvæmt sakavottorði. Við ákvörðun refsingar verður að líta til þess að ákærði var eini eigandi félagsins, stjórnarformaður og framkvæmdastjóri með prókúru. Misnotaði hann aðstöðu sína með úttektum í áttatíu og fjögur skipti sem hann nýtti í eigin þágu. Þá hélt ákærði áfram úttektum eftir að hann vissi að árangurslaust fjárnám hafði verið gert hjá félaginu og eftir að ákærði hafði fengið tilkynningu um að krafist væri gjaldþrotaskipta á félaginu. Var því um einbeittan ásetning ákærða að ræða.
Er refsing ákærða, með hliðsjón af því sem að framan er rakið, ákveðin fangelsi í tólf mánuði en rétt þykir að skilorðsbinda refsinguna og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði verður einnig dæmdur til að greiða allan sakarkostnað sem er þóknun skipaðs verjanda hans, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., 511.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
DÓMSORÐ.
Ákærði, Böðvar Friðriksson, sæti fangelsi í tólf mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði greiði allan sakarkostnað sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., 511.500 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.