Hæstiréttur íslands

Mál nr. 106/2002


Lykilorð

  • Hjón
  • Skilnaðarsamningur
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. október 2002.

Nr. 106/2002.

Melkorka Guðmundsdóttir

(Helgi Birgisson hrl.)

gegn

Jóhanni Sigurði Ólafssyni

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

 

Hjón. Skilnaðarsamningur. Frávísun frá héraðsdómi að hluta. Sératkvæði.

M krafðist þess að yfirlýsing um breytingu á skilnaðarsamkomulagi sínu og J yrði dæmd ógild og að J yrði dæmdur til að greiða henni í samræmi við ákvæði samkomulagsins. Tekið var fram að ekki yrði leyst úr greiðslukröfu M án þess að taka afstöðu til skuldbindingargildis yfirlýsingarinnar. Þar sem hún hafði ekki sýnt fram á að hún hefði af því hagsmuni að lögum að jafnframt yrði sérstaklega leyst úr kröfu hennar um að yfirlýsingin yrði dæmd ógild var þeirri kröfu hennar vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi. Talið var að samkvæmt efni sínu væri yfirlýsingin í raun ekki breyting á fjárskiptasamningi aðila um annað en að framlengja frest um að innleysa íbúð þeirra á tilteknum kjörum. Hefði því ekki borið nauðsyn til að hún yrði staðfest hjá sýslumanni samkvæmt 95. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 til þess að hún héldi gildi sínu milli aðila enda hefði munnleg yfirlýsing sama efnis haft sömu réttaráhrif. Benti því ekkert til að yfirlýsingin hefði verið gerð til málamynda. Þá þótti M ekki hafa sýnt fram á að sú háttsemi J sem var undanfari skilnaðar þeirra, efni yfirlýsingarinnar eða aðferðir J við að ná henni fram ættu að leiða til þess að þessi breyting á skilnaðarsamningi þeirra skyldi metin ógild eftir ákvæðum laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Í ljósi þess að M naut aðstoðar lögmanns við gerð fjárskiptasamnings þeirra og ekki var annað leitt í ljós en að hún hafi ráðið efni hans var engin ástæða til að telja hann bersýnilega ósanngjarnan í skilningi 2. mgr. 95. gr. laga nr. 31/1993. Var talið að yfirlýsing M aðeins tíu dögum eftir lok upphaflegs samningsfrests um að hún héldi sig við umsamda fjárhæð þegar íbúðin yrði seld gæti ekki leitt til þess að samningur þeirra yrði með þessari breytingu talinn bersýnilega ósanngjarn. Var J því sýknaður af kröfum M.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. febrúar 2002. Hún krefst þess að yfirlýsing hennar 10. september 1999 um breytingu á skilnaðarsamkomulagi aðila frá 22. júlí 1999 verði dæmd ógild og að stefndi greiði henni 950.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 450.000 krónum frá 15. október 1999 til 20. mars 2000 en af 950.000 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms en til vara lækkunar kröfu áfrýjanda. Hann krefst og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Í málinu liggur fyrir samningur aðila um skilnað og skilnaðarkjör frá 22. júlí 1999, sem staðfestur var fyrir sýslumanninum í Hafnarfirði sama dag, en þeim var veittur lögskilnaður 29. sama mánaðar. Í 3. gr. samningsins er mælt fyrir um hvernig fara skuli með fasteign þeirra að Dofrabergi 9, Hafnarfirði. Segir þar að stefndi eigi þess kost fyrir 1. september 1999 að kaupa hlut áfrýjanda í fasteigninni. Byggt skuli þá á því að söluverðmæti eignarinnar nemi 8.900.000 krónum. Stefndi átti þá að greiða áfrýjanda helmingshlut hennar í nettóverðmæti þeirra í eigninni, sem miðað við þetta verð var talið nema 834.495 krónum. Yrði ekki af kaupum stefnda fyrir þetta tímamark með framangreindum hætti skyldi íbúðin sett í sölu og áttu eftirstöðvar söluverðmætis hennar að skiptast jafnt á milli þeirra að teknu tilliti til skulda og þess sem ógreitt væri af kaupverði hennar til þeirra. Framangreint söluverð var það verð sem þau höfðu gefið fyrir eignina þegar þau keyptu hana í apríl 1999. Í yfirlýsingu sinni 10. september 1999 lýsti áfrýjandi því síðan yfir að hún muni ekki gera kröfu til helmingshlutdeildar í íbúðinni við sölu hennar á frjálsum markaði og muni eignarhlutur hennar úr íbúðinni því nema sömu fjárhæð og þau höfðu samið um 22. júlí. Þessa fjárhæð greiddi stefndi henni 15. september 1999, sama dag og þau samþykktu kauptilboð í íbúðina. Kauptilboðið var að fjárhæð 10.800.000 krónur, en eignin hafði verið sett í sölu hjá Fasteignasölunni Ás og var ásett söluverð samkvæmt söluyfirliti 11.200.000 krónur. Ágreiningur málsaðila fyrir Hæstarétti snýst eingöngu um þessa yfirlýsingu áfrýjanda.

II.

Krafa áfrýjanda um greiðslu úr hendi stefnda er á því reist að yfirlýsing hennar hafi verið til málamynda eða á annan hátt óskuldbindandi gagnvart honum. Verður því ekki leyst úr greiðslukröfu hennar án þess að taka afstöðu til skuldbindingargildis yfirlýsingarinnar. Áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á að hún hafi af því hagsmuni að lögum að jafnframt verði sérstaklega leyst úr kröfu hennar um að yfirlýsingin verði dæmd ógild. Verður þeirri kröfu hennar vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi.

III.

Fyrsta málsástæða áfrýjanda er að yfirlýsing hennar hafi verið gefin til málamynda og hafi ekki átt að hafa gildi milli þeirra og breyta skilnaðarsamningi þeirra frá 22. júlí 1999, enda hafi hún ekki verið staðfest hjá sýslumanni eins og skilnaðarsamningurinn, sbr. 95. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.

Samkvæmt efni sínu er yfirlýsingin í raun ekki breyting á fjárskiptasamningi aðila frá 22. júlí um annað en að framlengja frest stefnda samkvæmt 2. mgr. 3. gr. samningsins til að innleysa íbúðina á þeim kjörum sem þar eru tilgreind. Bar því ekki nauðsyn til að hún yrði staðfest hjá sýslumanni til þess að hún héldi gildi sínu milli aðila, enda hefði munnleg yfirlýsing áfrýjanda sama efnis haft sömu réttaráhrif, sem voru að gera stefnda kleift að leysa íbúðina til sín á fyrrnefndum kjörum sem þau höfðu samið um, sem hann og gerði, að því er virðist með fullu samkomulagi aðila á þeim tíma. Ekkert bendir því til að yfirlýsing áfrýjanda hafi verið gerð til málamynda, enda bar hún því ekki við þegar þau samþykktu kauptilboðið 15. september 1999 eða þegar kaupsamningur var undirritaður 15. október og fyrsta greiðsla samkvæmt honum fór fram og ekki fyrr en snemma árs 2000, eftir að hún hafði leitað til lögmanns.

Verði ekki fallist á að yfirlýsing hennar hafi verið gefin til málamynda en talið að samkomulag hafi komist á milli aðila um breytingu á skilnaðarsamningi þeirra telur áfrýjandi með vísan til 30. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, með síðari breytingum, að þetta samkomulag sé ógilt og ósanngjarnt af stefnda að bera það fyrir sig. Áfrýjandi hefur á engan hátt sýnt fram á að sú háttsemi stefnda sem var undanfari skilnaðar þeirra í júlí 1999, efni yfirlýsingarinnar eða aðferðir stefnda við að ná henni fram, eigi að leiða til þess að þessi breyting á skilnaðarsamningi þeirra skuli metin ógild eftir tilgreindum ákvæðum laga nr. 7/1936.

Þriðja málsástæða áfrýjanda er að yfirlýsing hennar um breytingu á skilnaðarsamningi verði dæmd ógild eftir 2. mgr. 95. gr. laga nr. 31/1993 þar sem skipti á eignum yrðu þá bersýnilega ósanngjörn. Vísar áfrýjandi til þess að þau hafi samið 22. júlí 1999 um helmingaskipti á íbúðinni, annars vegar miðað við verð hennar í apríl sama ár, 8.900.000 krónur, sem stefndi átti kost á að innleysa hana á fyrir 1. september, og hins vegar verð við sölu hennar á frjálsum markaði eftir þann tíma. Stefndi hafi ekki innleyst íbúðina fyrir 1. september og því sé bersýnilega ósanngjarnt að hann fái að innleysa hana eftir þann tíma og greiða henni ekki helming hennar á mismuninum á verðinu frá í apríl 1999 og söluverðinu í september sama ár. Stefndi bendir hins vegar á það, að þegar aðilar sömdu í júlí 1999 hafi fasteignaverð hækkað mikið frá því í apríl og þau hafi samið um að meta íbúðina á lægra verði en fengist hefði í júlí. Um mánaðarmótin ágúst/september 1999 hafi legið ljóst fyrir að íbúðin yrði seld. Til þess að spara kaupsamning þeirra í milli hafi samkomulag orðið um að hann leysti íbúðina til sín og seldi hana og þess vegna hafi áfrýjandi gefið út yfirlýsinguna 10. september, til þess að framlengja frest hans fram yfir 1. september. Þetta hafi báðum verið ljóst, enda hafi þau verið í góðu sambandi á þessum tíma. Samband þeirra hafi í raun ekki slitnað fyrr en áfrýjandi hafi farið af heimilinu í desember 1999.

Mat á því hvort breyting sú, sem áfrýjandi gerði einhliða á fjárskiptasamningi aðila með yfirlýsingu sinni 10. september 1999, hafi leitt til þess að hann yrði bersýnilega ósanngjarn hlýtur að verulegu leyti að byggjast á því hvort hækkun hafi orðið á verði íbúðar þeirra frá apríl til júlí 1999, og síðan til september sama ár. Á því er byggt í héraðsdómi að ekki liggi fyrir upplýsingar um þróun fasteignaverðs á greindu tímabili en þó sé ljóst að talsverð hækkun hafi orðið á fasteignaverði frá 28. apríl til 15. september 1999. Áfrýjandi hefur engin gögn lagt fram til þess að hnekkja þessu mati. Verður því að byggja á því að við fjárskiptin 22. júlí 1999, þegar aðilar sömdu um að verð íbúðarinnar í apríl skyldi gilda við yfirtöku stefnda á íbúðinni, hafi þeim verið ljóst að verð íbúðarinnar á frjálsum markaði hefði þá þegar hækkað. Áfrýjandi naut aðstoðar lögmanns við gerð þessa samnings og er ekki annað leitt í ljós en að hún hafi ráðið efni hans og er því engin ástæða til að telja hann bersýnilega ósanngjarnan. Yfirlýsing áfrýjanda til stefnda um að hún haldi sig við umsamda fjárhæð þegar íbúðin verði seld, aðeins tíu dögum eftir lok upphaflegs samningsfrests, getur ekki leitt til þess að fjárskiptasamningur þeirra verði með þessari breytingu talinn bersýnilega ósanngjarn.

Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Kröfu áfrýjanda um að framangreind yfirlýsing hennar 10. september 1999 verði dæmd ógild er vísað frá héraðsdómi. Hinn áfrýjaði dómur skal að öðru leyti vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 


Sératkvæði

Hrafns Bragasonar og

Péturs Kr. Hafstein

Við erum sammála II. kafla í atkvæði meirihlutans. Við teljum einnig, að engin viðhlítandi sönnunargögn hafi verið færð fram fyrir því, að yfirlýsing áfrýjanda 10. september 1999 hafi verið málamyndagerningur, svo sem hún heldur fram.

Fjárskiptasamningur aðila frá 22. júlí 1999 var gerður í samræmi við 1. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Naut áfrýjandi aðstoðar lögmanns við gerð samningsins og var hann staðfestur af báðum aðilum fyrir sýslumanni. Í 2. mgr. 3. gr. samningsins var kveðið á um það, að stefndi skyldi eiga þess kost fyrir 1. september að kaupa hlut áfrýjanda í fasteigninni Dofrabergi 9 í Hafnarfirði. Þá skyldi við það miðað, að söluverðmæti eignarinnar næmi 8.900.000 krónum, en fyrir þá fjárhæð höfðu aðilar keypt íbúðina þremur mánuðum fyrr. Stefndi átti þá að greiða áfrýjanda helmingshlut hennar í nettóverðmæti þeirra í eigninni, sem miðað við þetta áætlaða söluverð var talinn nema 834.495 krónum. Í 3. mgr. 3. gr. fjárskiptasamningsins var hins vegar sagt, að yrði ekki af þessum kaupum stefnda fyrir umsaminn tíma skyldi íbúðin sett í sölu á frjálsum markaði og eftirstöðvar andvirðis hennar þá skiptast að jöfnu milli þeirra að teknu tilliti til greiðslu áhvílandi skulda og ógreiddra eftirstöðva kaupverðsins.

Eins og mál þetta liggur fyrir er engan veginn ljóst, að málsaðilar hafi lagt til grundvallar, að verð fasteignarinnar við gerð fjárskiptasamningsins í júlí væri hærra en í apríl, svo að nokkru næmi, þannig að stefndi hafi í raun átt að fá mun meira í sinn hlut en áfrýjandi. Engra gagna nýtur í málinu um þróun fasteignaverðs á þessum tíma og sá lögmaður, sem samdi fjárskiptasamninginn, var ekki kvaddur til skýrslugjafar fyrir héraðsdómi. Því verður ekki fullyrt, að með 2. mgr. 3. gr. samningsins hafi átt að víkja tímabundið frá meginreglu hjúskaparlaga um helmingaskipti milli hjóna við skilnað. Hvað sem því líður leysti stefndi eignina ekki til sín fyrir 1. september 1999 og eigninni var komið til sölu á fasteignamarkaði. Samkvæmt skýru ákvæði 3. mgr. 3. gr. samningsins átti nettóandvirði fasteignarinnar þá að koma til jafnra skipta milli aðila. Til þess kom þó ekki, þar sem áfrýjandi gaf hinn 10. september 1999 út yfirlýsingu þess efnis, að hún myndi ekki gera kröfu til helmingshlutdeildar í íbúðinni, eins og skilnaðarsamningurinn hefði mælt fyrir um.

Þessi yfirlýsing áfrýjanda var einhliða gerningur hennar og myndi hún, ef talið væri að byggja mætti á henni, leiða til verulegra breytinga á skilnaðarskilmálunum. Myndi hún verða til þess, að í hlut stefnda kæmi rúmlega 75% af skírri eign búsins. Önnur skilnaðarkjör breyta þessu ekki og 104. gr. hjúskaparlaga getur ekki haft hér áhrif, þegar litið er til lengdar sambúðar þeirra og annarra atriða. Áfrýjandi krefst þess, að framhjá þessari yfirlýsingu verði litið við skiptin, þar sem þau yrðu ella bersýnilega ósanngjörn og vísar hún í því efni til 2. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga. Eftir berum orðum þess ákvæðis er unnt að fella úr gildi fjárskiptasamning, sem gerður er vegna væntanlegs skilnaðar að borði og sæng eða lögskilnaðar, ef hann var bersýnilega ósanngjarn á þeim tíma, er til hans var stofnað. Eins og aðstæðum er háttað í þessu máli þykir óhjákvæmilegt að meta skuldbindingargildi yfirlýsingar áfrýjanda með hliðsjón af þeim réttaröryggissjónarmiðum, er búa að baki 2. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga. Það er ljóst, að yrði hún lögð til grundvallar væri með afdrifaríkum hætti verið að hverfa frá nýlega umsömdum helmingaskiptum í samræmi við grundvallarreglur hjúskaparlaga. Hefur engin sennileg skýring verið færð fram í málinu á því, hvers vegna áfrýjandi hafi í raun viljað skerða svo mjög hlut sinn við skiptin. Verður ekki heldur framhjá því horft, að áfrýjandi naut hvorki aðstoðar lögmanns né leiðbeiningar sýslumanns við samningu yfirlýsingarinnar, eins og raun hafði verið á við gerð fjárskiptasamningsins. Þegar allt þetta er virt þykir okkur rétt að virða yfirlýsinguna að vettugi og taka greiðslukröfu áfrýjanda til greina með þeirri breytingu, að dráttarvextir dæmist ekki fyrr en frá þeim degi er mánuður var liðinn frá kröfubréfi áfrýjanda 20. febrúar 2000, en í málinu er ekki tölulegur ágreiningur. Eftir atvikum er eðlilegt að láta málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti falla niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 29. nóvember 2001.

Mál þetta, sem tekið var til dóms 1. þessa mánaðar, var höfðað 26. júní 2000.

Stefnandi er Melkorka Guðmundsdóttir, Dvergholti 19, Hafnarfirði, en stefndi Jóhann Sigurður Ólafsson, Álfholti 56b, Hafnarfirði.

Stefnandi krefst þess að yfirlýsing stefnanda, dagsett 10. september 1999, um breytingu á skilnaðarsamkomulagi málsaðila frá 22. júlí 1999, verði með dómi dæmd ógild, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.170.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 450.000 krónum frá 15. október 1999 til 1. janúar 2000, en frá þeim degi af 670.000 krónum til 20. mars 2000, en frá þeim degi af 1.170.000 krónum til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Stefnandi krefst málskostnaðar að skaðlausu að mati réttarins.

Stefndi krefst þess aðallega að hafnað verði kröfu stefnanda um að yfirlýsing hennar frá 10. september um breytingu á skilnaðarsamkomulagi verði dæmd ógild og að hann verði sýknaður af öllum fjárkröfum stefnanda umfram 220.000 krónur auk vaxta samkvæmt ákvörðun dómsins, en til vara að fjárkröfur stefnanda verði verulega lækkaðar. Stefndi krefst málskostnaðar að mati réttarins.

I.

Helstu málavextir eru þeir, að málsaðilar hófu sambúð á árinu 1990 og gengu í hjónaband þann 12. ágúst 1995. Þann 28. apríl 1999 festu þau kaup á íbúð að Dofrabergi 9 í Hafnarfirði. Kaupverð íbúðarinnar var 8.900.000 krónur. Þann 4. júlí 1999 slitu þau samvistir.  Þann 22. júlí 1999 gerðu þau með sér samning um skilnað og skilnaðarkjör sem staðfestur var hjá sýslumanni. Þeim var veitt lögskilnaðarleyfi þann 29. júlí 1999.

Í 3. gr. skilnaðarsamkomulagsins var kveðið á um eignir og skuldir aðila. Þar kemur fram að við sambúðarslit hafi eignir þeirra verið íbúð að Dofrabergi 9, Hafnarfirði, eftirstöðvar söluverðs íbúðar að Fögrukinn 18, Hafnarfirði, bifreiðin SH-278, Peugeot 406, árgerð 1998 og innbú. Samkvæmt skilnaðarsamkomulaginu átti stefndi þess kost fyrir 1. september 1999 að kaupa hlut stefnanda í fasteigninni. Byggðu aðilar á því að söluverðmæti fasteignarinnar væri 8.900.000 krónur. Var gengið út frá því að nettóverðmæti fasteignarinnar næmi 1.668.900 krónum og skyldi helmingur þess, eða 834.495 krónur koma í hlut stefnanda. Tekið var fram í samkomulaginu, að yrði ekki af kaupum stefnda á hlut stefnanda fyrir 1. september 1999, yrði íbúðin þegar sett í sölu á frjálsum markaði og nettóandvirði hennar skipt að jöfnu milli aðila.

Stefndi keypti ekki hlut stefnanda í íbúðinni fyrir 1. september 1999. Íbúðin var sett í sölu hjá fasteignasölunni Ási í Hafnarfirði. Ekki liggur fyrir hvenær það var gert. Það mun þó hafa verið fyrir 14. september 1999 því þann dag var gert tilboð í íbúðina að fjárhæð krónur 10.800.000. Málsaðilar samþykktu tilboðið 15. september s.á. og var kaupsamningur undirritaður 15. október s.á. Lagt hefur verið fram söluyfirlit frá fasteignasölunni vegna íbúðarinnar. Þar er ásett verð íbúðarinnar 11.200.000 krónur. Ekki kemur þar fram hvenær íbúðin var sett í sölu.

Þann 10. september 1999 undirritaði stefnandi svohljóðandi yfirlýsingu: “Ég undirrituð, Melkorka Guðmundsdóttir, kt. 041173-6029, lýsi því hér með yfir að ég mun ekki gera kröfu til helmingshlutdeildar í íbúð 03.02 í húsinu við Dofraberg í Hafnarfirði eins og fram kemur í skilnaðarsamkomulagi mínu við Jóhann Sigurð Ólafsson, kt. 190666-5859.

Eignarhlutur minn í íbúðinni mun því nema um kr. 834.000,- þegar hún verður seld.”

Þann 15. september 1999 greiddi stefndi 834.000 krónur inn á reikning stefnanda. Er upplýst í málinu með framburði aðila að stefndi varð sér úti um þá fjármuni með því að fá fyrir tilstilli stefnanda heimild til yfirdráttar í Íslandsbanka hf. að fjárhæð krónur 800.000. Var yfirdrátturinn tryggður með veði í íbúð aðila samkvæmt veðbréfi útgefnu 13. september 1999. Í kaupsamningi um íbúðina 15. október s.á var ákvæði um að fasteignasalinn sæi um að greiða yfirdráttarskuldina upp með hluta af greiðslu kaupverðs og aflétta veðinu af íbúðinni.

Með bréfi lögmanns stefnanda dagsettu 20. febrúar 2000 var stefndi krafinn um greiðslu þess sem á skorti að stefnandi fengi helming af nettóandvirði hinnar seldu íbúðar, eða 950.000 krónur, í samræmi við skilnaðarsamkomulag aðila. Jafnframt var stefndi krafinn um húsaleigu.

Í svarbréfi lögmanns stefnda, dagsettu 13. mars s. á. var athygli vakin á því að aðilar hefðu breytt skilnaðarsamkomulagi sínu með yfirlýsingu stefnanda þann 10. september 1999. Þá hefði legið fyrir að stefndi myndi selja íbúðina og hefði stefnandi þá fallið frá kröfu sinni um helmingshlutdeild eins og skilnaðarsamningurinn hafði gert ráð fyrir. Þá hefði stefndi staðgreitt umsaminn eignarhluta stefnanda í íbúðinni, 834.000 krónur, áður en íbúðin seldist og tekið til þess lán , þar sem stefnandi hafði þá fundið íbúð sem hún vildi festa. Með þessu hefði stefndi tryggt að stefnandi gæti fest kaup á íbúðinni.

Í svarbréfi lögmanns stefnanda, dagsettu 15. mars 2000, var því haldið fram að umrædd yfirlýsing stefnanda hefði verið útbúin að beiðni stefnda til þess að auðvelda honum greiðslumat vegna fyrirhugaðra íbúðarkaupa. Með yfirlýsingunni hefði ekki verið að breyta skilnaðarsamkomulaginu.

Fram hefur komið í málinu og ekki verið andmælt að við upphaf sambúðar aðila hafi stefnandi engar eignir átt en stefndi átt um 2,3 milljónir króna í peningum og bifreið. Þessum fjármunum hafi verið varið til kaupa á fyrstu íbúð málsaðila að Melási í Garðabæ.

Málsaðilar komu fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og gáfu munnlegar skýrslur. Fram kom hjá stefnanda að hún hefði eingöngu undirritað yfirlýsingu sína frá 10. september 1999 til að auðvelda stefnanda greiðslumat vegna fyrirhugaðra íbúðarkaupa hans. Hún hefði ekki verið að falla frá helmingshlutdeild í söluandvirði íbúðarinnar. Fram kom að stefnandi vann sem ritari á lögfræðistofu og fastaeignasölu á þessum tíma.

Stefndi kvað það ósannindi að yfirlýsingin hefði verið gerð vegna greiðslumats hans. Grundvöllur yfirlýsingarinnar hefði verið að hann hefði í raun verið að leysa til sín íbúðina og selja hana aftur en með yfirlýsingunni hefði mátt komast hjá því að greiða sölulaun tvisvar. Þá hefði verið haft í huga að hann átti 2,3 milljónir við upphaf sambúðar en stefnandi ekkert. Hefði verið umsamið að ahnn fengi meira út úr fasteigninni en stefnandi fengi meirihluta innbús.

II.

Af hálfu stefnanda er á því byggt að samkvæmt skilnaðarsamkomulagi aðila hafi söluandvirði íbúðar aðila átt að skiptast að jöfnu milli þeirra. Stefndi hafi hins vegar sniðgengið skilnaðarsamkomulagið hvað varðar fjárskipti. Hann hafi ekki greitt stefnanda helming af söluandvirði íbúðarinnar eins og kveðið sé á í samkomulaginu frá 22. júlí 1999, en borið fyrir sig yfirlýsingu undirritaða af stefnanda þar sem fram komi að hún falli frá rétti sínum til helmingshlutdeildar í íbúðinni. Yfirlýsng þessi hafi hins vegar eingöngu verið gerð til þess að auðvelda stefnda greiðslumat vegna fyrirhugaðra íbúðarkaupa. Stefnandi mótmæli því að stefndi geti borið yfirlýsinguna fyrir sig, enda sé hún bersýnilega ósanngjörn, auk þess sem hún hafi verið gerð til málamynda.

Stefndi hafi átt þess kost fyrir 1. september 1999 að kaupa hlut stefnanda í íbúðinni þar sem söluverðmæti eignarinnar hafi verið ákveðið 8.900.000 krónur. Samkvæmt því hefði hlutur stefnanda að frádregnum áhvílandi skuldum átt að nema 834.495 krónum. Þennan rétt hafi stefndi ekki nýtt sér og hafi íbúðin því verið sett í frjálsa sölu samkvæmt skilnaðarsamkomulagi. Hún hafi verið seld þann 15. október 1999 á 10.800.000 krónur. Að frádregnum áhvílandi skuldum hafi krónur 1.784.495 átt að koma í hlut stefnanda. Stefndi hafi aðeins greitt stefnanda 834.495 krónur og borið fyrir sig áðurgreinda yfirlýsingu, sem stefnandi heldur fram að gefin hafi verið til að auðvelda stefnda greiðslumat. Með yfirlýsingunni hafi alls ekki staðið til að breyta skilnaðarsamkomulagi aðila frá 22. júlí 1999, enda væri stefnandi þannig að falla frá hlut að fjárhæð u.þ.b. 1.000.000 krónur.

Yfirlýsing stefnanda hafi verið til málamynda og því aldrei ætlað að hafa nein réttaráhrif milli aðila, enda báðum aðilum það ljóst þegar yfirlýsingin var undirrituð þann 10. september 1999, en um málamyndagerninga gildi 34. gr. sml. nr. 7/1936. Þá er á því byggt af hálfu stefnanda að ætlað samkomulag sé ógilt með vísan til bæði 30. gr. sml. og 36. gr. sml. Stefndi hafi gefið viljandi upp rangar upplýsingar til þess að ná fram yfirlýsingu sem ætlunin hafi verið að nota á annan hátt en samkomulag var um. Yfirlýsing sem fengin sé með slíkum hætti skuldbindi ekki þann sem gaf hana. Með vísan til háttsemi stefnda, efnis yfirlýsingarinnar og aðferða við að ná fram breytingu á því samkomulagi sem áður hafði verið gert, verði að telja það ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að bera yfirlýsinguna fyrir sig. 

Ætli stefndi í raun að bera áðurnefnda yfirlýsinguna stefnanda fyrir sig í fjárskiptum aðila, sé í raun um að ræða breytingu á skilnaðarsamkomulagi því sem gert var þann 22. júlí 1999. Stefnandi hafi aldrei haft í hyggju að falla frá hlutdeild í söluandvirði íbúðarinnar, enda byggi hlutdeild hennar á meginreglu hjúskaparlaga um helmingaskipti. Ef stefnandi væri með yfirlýsingu sinni að falla frá greiðslu þessari væri hún að falla frá stórum hluta þeirra eigna sem höfðu myndast í hjúskapartíð þeirra. Af þeirri ástæðu telji stefnandi einnig ógildingarákvæði 95. gr. hjskl. nr. 31/1993, með síðari breytingum, eiga við um yfirlýsinsgu hennar, enda skipti á eignum bersýnilega ósanngjörn eins og þau séu orðuð í yfirlýsingunni.

Kröfur stefnanda sundurliðast þannig:

 

Umsamin hlutur stefnanda vegna bifreiðar

kr.   220.000

Helmings hlutdeild í söluandvirði íbúðar

 

að frádegnum kr. 834,495

kr.   950.000

                                                                          Samtals

kr.1.170.000

Dráttarvaxtakröfu sína miðar stefnandi við að 450.000 krónur hafi skort á greiðslu til hennar vegna útborgunargreiðslu við sölu íbúðar 15. október 1999, þá beri henni dráttarvextir af 220.000 krónum vegna bifreiðar frá 1. janúar 2000 og loks hefði hún átt að fá 450.000 krónur greiddar vegna hlutdeildar í afborgun af íbúð þann 20. mars 2000.

Kröfum sínum til stuðnings vísar stefnandi til hjúskaparlaga nr. 31/1993, með síðari breytingum, einkum 95. og 103. gr. Einnig til samningalaga nr. 7/1936, með síðari breytingum, einkum 30. gr., 34. gr. og 36. gr.

III.

Af hálfu stefnda er aðalkrafa byggð á því að stefnandi hafi af fúsum og frjálsum vilja átt frumkvæði  að því að haga málum með þeim hætti sem fjárskiptasamningur og yfirlýsing hennar frá 10. september 1999 beri með sér. Stefnandi hafi sjálf samið yfirlýsinguna og fengið vinnufélaga sína til að votta. Stefndi hafi þar hvergi komið nærri.

Fjárskipti aðila samkvæmt fjárskiptasamningi og þeirri breytingu á honum sem gerð var með yfirlýsingunni telji stefndi endurspegla þá ákvörðun málsaðila að byggja fjárskipti að hluta á 104. gr. hjúskaparlaga. Fráleitt sé að yfirlýsingin hafi verið málamyndagerningur til að blekkja Íbúðalánasjóð. Þá hafi yfirlýsingin engu breytt fyrir greiðslumat stefnda og á engan hátt verið nauðsynleg til að hann fengi greiðslumat.

Stefnandi hafi talið niðurstöðuna sem fjárskiptasamningurinn byggði á og yfirlýsingin tryggði, sanngjarna í ljósi þess hvernig eignamyndunin varð og í ljósi fyrri loforða, m. a. skriflegra þeirra í milli um það að hún ætlaði ekki að gera kröfu til fjármuna sem hann hefði komið með í búið. Hlutdeild sú í söluverði fasteignarinnar sem stefnandi með yfirlýsingunni afsalaði sér sé mun lægri en sú fjárhæð sem hún hafði áður skuldbundið sig til að gera ekki kröfu til.

Af hálfu stefnda er því mótmælt að um málamyndagerning hafi verið að ræða sbr. 34. gr. sml. Því síður hafi yfirlýsingin verið fengin fram hjá stefnanda með svikum, sbr. 30. gr. sml., eins og haldið sé fram í stefnu. Samkomulag það er málsaðilar gerðu sín í milli og sem felst í yfirlýsingunni sé heimilt að lögum sbr. 104. gr. hjúskaparlaga. Ákvæði 36. gr. sml. eigi því ekki við.

Varakröfu sína byggir stefndi á því, að komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að yfirlýsinguna beri að telja málamyndagerning, þurfi að draga frá fjárkröfum stefnanda kostnað sem stefndi hafi borið en stefnandi beri ýmist helmingsábyrgð á eða að fullu ábyrgð á. Í fyrsta lagi sé þar um að ræða greiðslu áhvílandi lána á húsinu. Í öðru lagi allan sölukostnað vegna sölu fasteignar búsins. Þann  kostnað hafi stefndi einn borið, en stefnandi beri helmingsábyrgð á þeim kostnaði eigi samkomulag þeirra ekki að gilda. Í þriðja lagi hafi stefndi greitt stefnanda 834.495 löngu áður en fasteign þeirra var seld í samræmi við samkomulagið og yfirlýsinguna. Verði talið að hlutur stefnanda sé helmingur söluverðs, þrátt fyrir samkomulagið og yfirlýsinguna, verði að líta á þessa greiðslu sem lán stefnda til stefnanda sem beri dráttarvexti fram að þeim tíma að fyrsta afborgun vegna sölu fasteignarinnar var greidd. Í fjórða lagi verði að draga frá fjárkröfum stefnanda hlutdeild stefnda í “svörtum” tekjum sem stefndi afsalaði til stefnanda við skilnaðinn. Í fimmta lagi geri stefndi kröfu um hlutdeild stefnanda í kostnaði við ferð þeirra til útlanda um mánaðarmótin október/nóvember.

Í greinargerð stefnda var gert ráð fyrir framlagningu gagna vegna þessarra frádráttarliða við meðferð málsins.

IV.

Niðurstaða.

Ósannað þykir gegn  eindregnum andmælum stefnda og vegna skorts á sönnunargögnum, að yfirlýsing stefnanda 10. september 1999 hafi verið gerð til málamynda og eingöngu í þágu fyrirhugaðs greiðslumats stefnda vegna umsóknar um lán frá Íbúðalánasjóði. Þá þykir ósannað að stefndi hafi gefið stefnanda viljandi rangar og villandi upplýsingar til þess að ná fram yfirlýsingu sem ætlunin hafi verið að nota á annan hátt en samkomulag var um. Samkvæmt þessu er ekki fallist á ógildingu áðurgreindrar yfirlýsingar á grundvelli 34. gr.eða 30. gr. samningalaga nr.7/1936. Þá þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á skilyrði til ógildingar yfirlýsingarinnar á grundvelli  36. gr. sömu laga. Kemur þá til skoðunar hvort ógilda megi yfirlýsinguna á grundvelli 95. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Í 2. mgr. þess ákvæðis segir: “Nú hafa hjón vegna væntanlegs skilnaðar að borði og sæng eða lögskilnaðar gert samning um fjárskipti sín og er þá unnt að fella hann úr gildi að nokkru eða öllu með dómi ef hann er bersýnilega ósanngjarn á þeim tíma er til hans var stofnað.”  Líta ber á yfirlýsingu stefnanda sem samning í skilningi síðastgreinds lagaákvæðis, en yfirlýsingin fól í sér breytingu á fyrra samkomulagi aðila. Aðilar keyptu saman íbúðina að Dofrabergi 9 þann 28. apríl 1999, þau gerðu með sér fjárskiptasamninginn 15. júlí 1999, stefnandi undirritaði yfirlýsingu sína 10. september 1999 og loks samþykktu aðilar kauptilboð í eignina 15. september 1999.  Ekki liggja fyrir upplýsingar um þróun fasteignaverðs á greindu tímabili en þó er ljóst að talsverð hækkun hefur orðið á fasteignaverði frá 28. apríl til 15. september 1999, en ekki hvenær á tímabilinu mestu hækkanirnar áttu sér stað.

Með þeim fyrirvara að ekki liggur fyrir hvert verðmæti innbús aðila var og hvernig það skiptist, er ljóst að í hlut stefnda kemur meira út úr fjárskiptunum en í hlut stefnanda. Á hinn bóginn ber til þess að líta að stefndi átti mun meiri fjárverðmæti en stefnandi er sambúð þeirra hófst. Þá ber til þess að líta að mjög skammur tími leið frá því að aðilar undirrituðu skilnaðarsamning sinn og þar til stefnandi undirritaði umþrætta yfirlýsingu. Ganga verður út frá því að stefnanda hafi verið kunnugt um markaðsverð íbúðar aðila er hún undirritaði yfirlýsinguna, sem var um svipað leyti og aðilar fengu tilboð í eignina sem þau samþykktu. Verður eigi framhjá því horft að stefnandi starfaði á þessum tíma sem ritari á lögfræði- og fasteignastofu auk þess sem hún hafði haft lögamann sér til fulltingis er þau stefndu undirrituðu skilnaðarsamninginn. Þá ber að líta til þess að á þessum tíma tók stefnandi við úr hendi stefnda athugasemdalaust sömu fjárhæð og í hennar hlut skyldi koma samkvæmt yfirlýsingu hennar.  Var þetta og sama fjárhæð og gert hafði verið ráð fyrir í skilnaðarsamningi að stefndi skyldi greiða stefnanda vildi hann leysa til sín hlut hennar í fasteigninni.  Að öllu þessu virtu þykir stefandi ekki hafa fært á að sönnur að fjárskipti aðila samkvæmt yfirlýsingunni hafi verið bersýnilega ósanngjörn er stefnandi undirritaði yfirlýsinguna. Ber því að sýkna stefnda af  aðalkröfu stefnanda um að yfirlýsing hennar dagsett 10. september 1999, um breytingu á skilnaðarsamkomulagi málsaðila frá 22. júlí 1999 skuli dæmd ógild, svo og af af þeim hluta fjárkröfu stefnanda sem varðar hlutdeild hennar í söluverðmæti fasteignar aðila eða af krónum 950.000. Aðilar eru á hinn bóginn ásáttir um að stefndi skuldi stefnanda 220.000 krónur vegna hlutdeildar hennar í bifreið aðila. Verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda 220.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá stefnubirtingardegi 26. júlí 2000 til  1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Finnbogi H. Alexandersson, héraðsdómari, kveður dóminn upp.

D ó m s o r ð

Stefndi, Jóhann Sigurður Ólafsson, greiði stefnanda, Melkorku Guðmundsdóttur, 220.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá stefnubirtingardegi 26. júlí 2000 til  1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Stefndi er sýknaður  af öðrum kröfum stefnanda á hendur honum í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.