Hæstiréttur íslands
Mál nr. 28/1999
Lykilorð
- Skiptaverðmæti
- Sjómaður
- Kjarasamningur
- Aflamark
|
|
Föstudaginn 18. júní 1999. |
|
Nr. 28/1999. |
Þormóður rammi - Sæberg hf. (Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.) gegn Magnúsi Þorgeirssyni (Ástráður Haraldsson hrl. Björn L. Bergsson hdl.) |
Skiptaverðmæti. Sjómenn. Kjarasamningur. Aflamark.
Útgerðarfélagið S lagði afla sinn upp hjá fiskverkuninni Þ. Félögin sömdu um að auk fjárgreiðslu legði Þ til eitt tonn af veiðiheimildum fyrir hver tvö tonn af afla sem S legði upp. Ágreiningur reis um hvaða verð ætti að miða við í hlutaskiptum áhafnar á skipi S og taldi skipverjinn M að leggja ætti markaðsverð veiðiheimilda Þ við þá fjárhæð sem Þ greiddi S fyrir aflann. Þar sem veiðiheimildirnar voru S ekki til frjálsrar ráðstöfunar var þessari kröfu hafnað og fallist á þá kröfu S að við hlutaskiptin yrði miðað við meðalverð sem úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna gaf út, enda var ekki sýnt fram á að unnt hefði verið að fá hærra verð fyrir aflann.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 20. janúar 1999. Hann krefst sýknu af öllum kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Mörg ný skjöl hafa verið lögð fyrir Hæstarétt.
I.
Eins og fram kemur í héraðsdómi var stefndi háseti á rækjutogaranum Baldri EA-108, nú Hvannabergi ÓF-72, á tímabilinu frá 21. desember 1995 til 21. mars 1996. Afli skipsins var verkaður í þrjár afurðir, frysta rækju á Japansmarkað, suðurækju og iðnaðarrækju, sem fór til frekari vinnslu í landi. Fyrir iðnaðarrækjuna fékk áfrýjandi 115.000 krónur í peningum fyrir hvert tonn ásamt hálfu tonni af aflamarki í rækju, sem hann skuldbatt sig til að landa hjá kaupandanum á móti jafnmiklu af eigin aflamarki. Var um svokölluð „tonn á móti tonni“ viðskipti að ræða. Uppgjör sitt við stefnda miðaði áfrýjandi aðeins við peningagreiðslurnar en tók ekkert tillit til aflamarksins. Leitað var til stéttarfélags stefnda til að kanna, hvort rétt hefði verið staðið að uppgjöri launa hans vegna þess verðmætis iðnaðarrækju, sem skipið kom með að landi. Höfðaði stéttarfélag stefnda mál gegn áfrýjanda fyrir Félagsdómi, sem kvað upp þann dóm 5. mars 1997, að áfrýjandi hefði brotið kjarasamning aðila með því að taka ekki tillit til verðmætis móttekins aflamarks fyrir seldan afla við tilgreiningu heildarskiptaverðmætis.
Þrátt fyrir dóm Félagsdóms gerði áfrýjandi ekki upp laun við stefnda, og boðaði Sjómannafélag Ólafsfjarðar 15. maí 1997, að verkfall myndi hefjast á skipinu 6. júní 1997. Áfrýjandi höfðaði þá mál fyrir Félagsdómi til þess að fá verkfallið dæmt ólögmætt, en með dómi Félagsdóms 3. júní 1997 var kveðið á um það, að verkfall til þess að knýja á um umræddar greiðslur væri lögmætt. Hinn 5. júní 1997 greiddi áfrýjandi stefnda 29.898 krónur til viðbótar þeirri fjárhæð, sem hann hafði áður greitt honum. Var skiptaverðmætið miðað við meðalverð frosinnar rækju á þeim tíma, sem henni var landað, samkvæmt niðurstöðu úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna, og reiknaður mismunur þess verðs og þeirrar peningagreiðslu, sem áfrýjandi fékk fyrir landaðan afla. Með þeirri greiðslu telur áfrýjandi sig hafa gert að fullu upp við stefnda. Stefndi telur aftur á móti að miða beri skiptaverðmætið við markaðsverð móttekins aflamarks, auk beinnar peningagreiðslu.
II.
Með dómi Hæstaréttar 15. febrúar 1996, H.1996.522, var dæmt um það, að kostnaður af kaupum á aflamarki teldist til útgerðarkostnaðar, sem óheimilt væri að láta skipverja taka þátt í. Ágreiningur máls þess, sem hér er til úrlausnar, varðar ekki kvótaviðskipti, heldur snýst hann um það, hvernig finna skuli út skiptaverðmæti aflans.
Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð yfirlýsing fyrrverandi framkvæmdastjóra Þormóðs ramma hf. og Sæbergs hf. 27. nóvember 1998. Þau fyrirtæki hafa nú verið sameinuð, en eins og lýst er í héraðsdómi gerði Sæberg hf. út Baldur EA-108, nú Hvannaberg ÓF-72, og Þormóður rammi hf. keypti aflann. Í yfirlýsingunni segir meðal annars: „Samningarnir fólu í sér að kaupandi aflans Þormóður rammi hf. færði yfir til skips seljandans, þá Baldurs EA, aflaheimildir af skipum sínum auk þess sem greitt var umsamið verð fyrir aflann. Það var forsenda fyrir þessum viðskiptum, að skip seljandans veiddi upp í hinar yfirfærðu aflaheimildir og rækjunni sem aflaðist út á þær yrði landað hjá kaupandanum Þormóði ramma hf. Enginn ágreiningur hefur nokkurn tíma verið milli aðilanna um þessi efnisatriði í samningi þeirra og raunar er það alkunna í atvinnugreininni að samningar um „tonn á móti tonni“ feli í sér skuldbindingar af þessu tagi um nýtingu aflaheimildanna.“ Er ágreiningslaust milli aðila málsins, að viðskipti þessi fari fram á framangreindan hátt.
Samkvæmt framansögðu var um gagnkvæman samning að ræða milli útgerðarmannsins og kaupanda aflans. Aflamarkið, sem útgerðarmaðurinn fékk, var honum ekki til frjálsrar ráðstöfunar og hafði því ekki sjálfstætt markaðsgildi fyrir hann.
III.
Eins og að framan greinir telur áfrýjandi verðmæti aflamarksins, sem hann fékk vegna aflans umfram fégreiðslu, vera mismun þess, sem greitt var fyrir landaðan afla í peningum og þess, sem hann hefði getað fengið fyrir aflann, ef hann hefði selt hann í annars konar viðskiptum, og miðar hann þar við meðalverð úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 84/1995 um úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, sbr. nú lög nr. 13/1998 um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, er það hlutverk nefndarinnar að ákveða fiskverð, sem nota skal við uppgjör á aflahlut áhafnar einstakra skipa, eins og nánar er kveðið á um í lögunum. Á nefndin að afla ítarlegra gagna um fiskverð og birta reglulega upplýsingar um það, þannig að þær gagnist útvegsmönnum og sjómönnum sem best, sbr. 2. gr. Í 5. gr. er kveðið á um það, að nefndin skuli við ákvörðun sína taka mið af því fiskverði, sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla. Samkvæmt kjarasamningi Sjómannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna, grein 1.26, III, um ráðstöfun afla í skiptum milli óskyldra aðila, getur áhöfn krafist samnings um uppgjörsverð og náist ekki samkomulag milli áhafnar og útgerðar skal vísa málinu til úrskurðarnefndar. Gögn málsins bera með sér, að það meðalverð, sem úrskurðarnefndin miðar við, hefur verið notað við ákvörðun skiptaverðs, þegar ágreiningur um slíkt hefur verið lagður fyrir nefndina á því tímabili, sem hér um ræðir.
Samkvæmt framangreindum kjarasamningi, grein 1.26, I, skal útgerðarmaður tryggja skipverjum hæsta gangverð fyrir fiskinn. Í máli þessu liggur ekki fyrir, að unnt hefði verið að fá hærra verð fyrir hinn umdeilda hluta aflans en meðalverð það, sem áfrýjandi byggði endanlegt uppgjör sitt við stefnda á. Telst áfrýjandi því hafa gert að fullu upp skiptahlut stefnda og ber að sýkna hann.
Eftir atvikum er rétt að fella niður málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Þormóður rammi - Sæberg hf., skal vera sýkn af kröfum stefnda, Magnúsar Þorgeirssonar.
Málskostnaður fellur niður í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. nóvember 1998.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var 20. október sl., er höfðað af Magnúsi Þorgeirssyni, kt. 170272-5019, Ægisgötu 3, Ólafsfirði, með stefnu þingfestri 30. september 1997 á hendur Þormóði ramma-Sæbergi hf., kt. 681271-1559, Aðalgötu 10, Siglufirði.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð kr. 103.565 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla l. nr. 25/1987 af kr. 54.910 frá 15.01.1996 til 15.04. s.á., en af kr. 94.005 frá þeim degi til 01.05. s.á., en af kr. 103.565 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum kr. 32.939.Þess er jafnframt krafizt, að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 15.01. 1997. Enn fremur er krafizt málskostnaðar að mati réttarins, auk álags, er nemi virðisaukaskatti af honum.
Dómkröfur stefnda, að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda.Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu.
II.
Málavaxtalýsing stefnanda
Stefnandi kveður málavexti vera þá, að Sæberg hf. hafi verið útgerðaraðili v/b Baldurs EA-108, nú Hvannberg ÓF-72, skipaskrárnr. 2206, allt fram til 01.01.1997, og hafi skipið verið gert út frá Ólafsfirði.Sæberg hf. hafi nú verið sameinað fyrirtækinu Þórmóði ramma hf., og sé hinu nýja sameinaða fyrirtæki, Þormóði ramma-Sæbergi hf., stefnt í máli þessu, sbr. XIV. kafla l. um hlutafélög nr. 30/1995.
Hagsmunasamtök sjómanna og útgerðarmanna hafi um langt árabil átt í deilum um lögmæti þess, að sjómenn séu látnir taka þátt í útgerðarkostnaði skipa með því að fjármagna kaup á kvóta, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar frá 1996, bls. 522.Ýmsum öðrum sambærilegum aðferðum hafi verið beitt við kvótakaup, og hafi ein þessara aðferða verið nefnd “tonn á móti tonni”, sem mál þetta fjalli um.
Nánar tiltekið séu málavextir þeir, að stefnandi hafi starfað hjá stefnda sem háseti frá árinu 1995 á rækjutogaranum Baldri EA-108, nú Hvannbergi ÓF-72.Forsaga málsins sé sú, að Skipstjóra- og stýrimannafélag Norðlendinga kannaði f.h. félagsmanns í því félagi, hvort rétt hefði verið staðið að uppgjöri launa þess starfsmanns vegna þess aflaverðmætis, sem Baldur kom með að landi í formi iðnaðarrækju.Þegar stefnandi byrjaði að starfa hjá stefnda, hafi afli skipsins verið verkaður í þrjár afurðir, þ.e. frysta rækju á Japansmarkað, suðurækju og iðnaðarrækju, en sú síðast nefnda hafi farið til frekari vinnslu í landi.Ágreiningur aðila hafi staðið um útreikning aflaverðmætis þess hluta rækjunnar, sem fór í frekari vinnslu sem iðnaðarrækja.Á tímabilinu 21.12.1995 til 21.03.1996 hafi heildarmagn rækju úr þeim veiðiferðum, sem stefnandi tók þátt í, sem verkuð og landað var sem iðnaðarrækja, verið 171.209 kg.
Fyrir þennan afla hafi stefnda verið greiddar kr. 115.000 fyrir hvert tonn í peningum og eitt tonn af rækjukvóta (rækjuaflamark).Hér hafi því verið um svokölluð “tonn á móti tonni” viðskipti að ræða.Þrátt fyrir að kaupandi iðnaðarrækjunnar hafi greitt fyrir aflann bæði með peningum og kvóta, hafi aðeins verið gert upp gagnvart stefnanda og öðrum skipverjum miðað við peningagreiðslur þær, sem inntar voru af hendi í þessum viðskiptum.
Í hinum svokölluðu “tonn á móti tonni” viðskiptum fái útgerðarmaður tvenns konar greiðslu fyrir landaðan afla.Annars vegar fái útgerðin peningagreiðslu miðað við magn, og hins vegar fái hún kvóta í formi aflamarks þeirrar fisktegundar, sem viðskiptin varði.
Til þess að lýsa því hvernig þessi viðskipti fari fram, sé nærtækast að lýsa í stuttu máli viðskiptum stefnda og þeirra aðila, sem keyptu umrædda iðnaðarrækju af honum.Sem dæmi sé tekin löndun, sem fram fór þann 26.04.1995 og sem tilgreind sé á dskj. nr. 2 og 3.Allar upplýsingar um aflamagn og skiptingu komi frá Fiskistofu.Samkvæmt dskj. nr. 2 og 3 hafi Baldur EA-108 landað þann 26.04.1995 74.234 kg af iðnaðarrækju.Greitt hafi verið fyrir rækjuna kr. 115 pr/kg í peningum í skiptum við sjómenn og hafi heildaraflaverðmæti í uppgjörum til launa fyrir þennan hluta aflans verið kr. 8.536.910.Jafnframt því að stefndi fengi greitt í peningum fyrir þessa löndun hafi kaupandi iðnaðarrækjunnar, útgerð Sigluvíkur SI-2, greitt stefnda fyrir aflann með aflamarki í rækju.Greiðslan í formi kvóta fyrir þessa löndun hafi verið helmingur hins selda magns (tonn á móti tonni), þ.e. fyrir þau 74.234 kg af iðnaðarrækju, sem stefndi afhenti útgerð Sigluvíkur, hafi kaupandi afhent 37.117 kg af aflamarki í rækju.Greiðslan í formi aflamarks hafi farið þannig fram, að kaupandinn yfirfærði umrætt magn yfir á skip stefnda án frekari greiðslu.Samkvæmt skráningu hjá Fiskistofu hafi afhending kvótans farið fram þann 29.05.1995, sbr. dskj. nr. 4.Niðurstaðan hafi því verið sú, að stefndi fékk greiddar kr. 8.636.910 í peningum og 37.117 kg af aflamarki í úthafsrækju fyrir aflann.Á þeim tíma, sem þessi yfirfærsla aflamarksins fór fram, hafi gangverð á aflamarki úthafsrækju, samkvæmt upplýsingum frá fiskmörkuðum, verið a.m.k. kr. 60 pr/kg.Verðmæti þess aflamarks, sem yfirfært var með þessum hætti, hafi því verið kr. 2.227.020.Heildarverðmæti aflans hafi því verið kr. 10.763.930.Raunverulegt aflaverðmæti hafi því verið kr. 2.227.020 hærra en tilgreint hafi verið í uppgjöri til stefnanda vegna þessarar einu veiðiferðar.
Alls hafi stefnandi farið í 2 veiðiferðir á skipi stefnda á því tímabili, sem hér um ræði. Heildarmagn iðnaðarrækju, sem landað hafi verið úr þeim veiðiferðum, sem stefnandi tók þátt í, hafi verið 171.209 kg.Fyrir þennan afla hafi útgerð stefnda fengið greitt bæði með peningum og aflamarki.Greiðslur í formi peninga hafi verið gerðar upp gagnvart stefnda.
Verðmæti þeirrar greiðslu, sem fólst í afhendingu aflamarks, hafi hins vegar ekki verið gert upp gagnvart stefnanda.Fyrir fyrrnefnd 171.209 kg hafi stefndi fengið greitt með aflamarki alls helming hins landaða magns, eða 85.605 kg.Verðmæti þessa aflamarks, sem aldrei hafi verið gert upp gagnvart stefnanda, sé að mati stefnanda alls kr. 6.070.751.Byggi sú kröfugerð stefnanda á því, að verðmæti aflamarksins, sem afhent var í viðskiptum stefnda við fiskkaupendur, hafi verið hið sama og gangverð þess á markaði.Á umræddum tíma hafi markaðsverð á aflamarki úthafsrækju verið frá kr. 60-75.Sé kröfugerð stefnanda nánar útlistuð á dskj. nr. 2, sem geymi útreikning Sjómannasambands Íslands á kröfugerð stefnanda.Samkvæmt nefndum útreikningi sé óuppgerður launahlutur til stefnanda alls kr. 94.005.Við þá tölu bætist 10,17% orlof, og sé krafan því alls kr. 103.565.Gjalddagar hvers vangreidds launahlutar reiknist frá 15. mánaðardegi næsta mánaðar eftir löndun.
Atferli stefnda hafi að þessu leyti sætt opinberri rannsókn, og hafi verið tekin lögregluskýrsla af forsvarsmanni Sæbergs hf. vegna þessa, sbr. dskj. nr. 9.
Stéttarfélag stefnanda hafi ítrekað krafizt lögmæts uppgjörs á launum stefnanda án árangurs.Hafi farið svo, að Farmanna- og fiskimannasamband Íslands höfðaði mál fyrir Félagsdómi og krafðist þess, að aðferðir stefnda við uppgjör launahluta að þessu leyti yrðu dæmdar ólögmætar og brot á kjarasamningi aðila.Dómur hafi fallið í Félagsdómsmáli nr. 15/1996 þann 05.03.1997.Hafi þar verið viðurkennt, að stefndi hefði brotið kjarasamning aðila með því hátterni, sem lýst hafi verið hér að framan.Orðrétt segi í dómi Félagsdóms:“Stefndi, Landssamband íslenskra útvegsmanna f.h. Útvegsmannafélags Norðurlands vegna Sæbergs hf., telst hafa brotið gegn grein 1.03 í kjarasamningi Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna með því að taka ekki tillit til verðmætis móttekins aflamarks fyrir seldan afla við tilgreiningu heildarskiptaverðmætis.”Þrátt fyrir að málið sé í raun dæmt í Félagsdómi að efni til hafi stefndi enn ekki gert upp laun við stefnanda.
Eftir ítrekaðar kröfugerðir stéttarfélaga þeirra skipverja, sem starfað hafi á Baldri EA-108, nú Hvannbergi ÓF-72, hafi stéttarfélag undirmanna, Sjómannafélag Ólafsfjarðar, tilkynnt þann 15.05.1997, að verkfall myndi hefjast á umræddu skipi stefnda þann 06.06.1997, ef stefndi sinnti ekki samnings- og lögbundinni skyldu sinni til þess að gera réttilega upp við félagsmenn sína, þ.e. gera upp laun vegna verðmætis þess aflamarks, sem stefndi hafði þegið sem greiðslu fyrir afla.Hafi verkfallið verið byggt á því, að stefndi hefði ekki sinnt þeirri dómskyldu, sem Félagsdómur lagði fyrirtækinu á herðar.Allt að einu hafi stefndi neitað að gera upp launin, en höfðaði þess í stað mál fyrir Félagsdómi, í þeim tilgangi að fá verkfallið dæmt ólögmætt.Hafi Sjómannafélagi Ólafsfjarðar verið stefnt fyrir Félagsdóm þann 25.03.1997 í þessu skyni.Hafi stefndi tapað málinu, og hafi verkfall til þess að knýja á um umræddar greiðslur verið talið lögmætt.
Til þess að afstýra frekara verkfalli, eftir að hafa tapað málinu öðru sinni í Félagsdómi, hafi stefndi síðan greitt hluta af kröfum félagsmanna Sjómannafélags Ólafsfjarðar, m.a. stefnanda.Stefndi hafi hins vegar ekki greitt kröfur félagsmanna annarra stéttarfélaga.Hlutagreiðsla stefnda hafi numið kr. 29.898 og hafi hún verið innt af hendi þann 05.06.1997, eftir að stefnda hafði verið sent innheimtubréf, sbr. dskj. nr. 14.Greiðslan hafi verið greidd beint til stefnanda.Stefndi hafi á engan hátt gert grein fyrir því, hvernig fjárhæð hlutagreiðslu hans sé reiknuð út, né heldur staðið skil á uppgjöri vegna þessa launahluta.
Málsástæður stefnanda
Stefnandi byggir málssókn sína á því, að þegar hafi verið dæmt um það, að uppgjörshættir stefnda séu ólögmætir í máli Félagsdóms nr. 15/1996, en sá dómur hafi res judicata áhrif í máli þessu.
Stefnda sé þannig skylt að gera upp aflaverðmæti og greiða laun í samræmi við ákvæði laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins og ákvæði greina 1.26 og 1.27 í kjarasamningi Landssambands íslenzkra útvegsmanna og Sjómannasambands Íslands, sbr. dskj. nr. 8.
Samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum laga og kjarasamninga beri útgerðarmönnum að greiða laun miðað við það heildaraflaverðmæti, sem útgerðin fái fyrir aflann.Málsókn þessi byggi á því, að við uppgjör aflahlutar hafi stefndi vísvitandi lagt rangt aflaverðmæti til grundvallar við ákvörðun skiptaverðmætis og þannig dregið stóran hluta aflaverðmætis undan hlutaskiptum.Með þessum starfsaðferðum hafi stefndi greitt stefnanda lægri aflahluti en honum hafi borið samkvæmt lögum og kjarasamningi, sbr. l. nr. 24/1986 um skiptaverðmæti o.fl.
Lögin um skiptaverðmæti séu grundvöllur að launakerfi sjómanna og hluti af kjarasamningi Landssambands íslenzkra útvegsmanna annars vegar og Sjómannasambands Íslands hins vegar.Ljóst sé, að verðmæti aflans, í skilningi 1. gr. laganna, geti aldrei verið háð einhliða ákvörðun útgerðarmanns, enda væri þá algerlega þýðingarlaust að ákveða skiptaprósentu með kjarasamningsgerð og löggjöf sem þessari, ef útgerðarmaður gæti síðan breytt forsendum útreiknings af eigin hentugleika.Sú háttsemi stefnda, að miða uppgjör launahluta og greiða skipverjum launahluti miðað við kr. 115 pr/kg, þegar stefndi raunverulega seldi sama afla fyrir mun hærra verð, þar sem hluti greiðslu fór fram með greiðslu aflamarks í úthafsrækju, sem ekki hafi komið til skipta til sjómanna, hafi að mati stefnanda falið í sér ólögmæta ráðstöfun stefnda og jafnframt brot á tilvitnuðum lögum, sem og kjarasamningi aðila.
Að mati stefnanda verði að skýra ákvæði fyrrnefndra laga og kjarasamning aðila þannig, að allt það verðmæti, sem skip komi með að landi úr veiðiferð, komi til skipta við ákvörðun launahluta.Í grein 1.26 í kjarasamningi komi fram, að við hlutaskipti skuli miða við það heildarverðmæti, sem útgerðin fái fyrir aflann.Af þessu sé augljóst, að öll verðmæti komi til skipta og í þeim efnum skipti ekki máli, hvort greitt sé fyrir aflann með peningum eða einhverju öðru.Ef greitt sé með öðrum verðmætum en peningum, verði að meta þær greiðslur til peningavirðis og skipta þeim verðmætum, eins og lög og kjarasamningar geri ráð fyrir.
Stefnandi vísar til meginreglna vinnuréttar um greiðslu verkkaups og meginreglna samningaréttar um skyldu til efnda samninga, auk laga nr. 30/1987 um orlof.Þá styður stefnandi kröfu sína við l. nr. 55/1980, l. nr. 19/1979 og l. nr. 80/1938.Vaxtakröfur styður hann við III. kafla l. nr. 25/1987 og málskostnaðarkröfu við l30. gr. l. nr. 91/1991.Kröfu um virðisaukaskatt styður hann við l. nr. 50/1988 og kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur.
Málsástæður stefnda
Stefndi kveður ágreiningslaust, að stefnandi hafi farið í þær veiðiferðir, sem geti í stefnu, og enn fremur, að um hafi verið að ræða svokölluð "tonn á móti tonni" viðskipti í þeim ferðum, sem um ræði.Hins vegar sé því mótmælt, að heildaraflaverðmæti, sem skiptahlutur stefnanda hafi nú verið miðaður við, sé ekki hæsta gangverð á afla á þeim tíma, sem um ræði, sbr. ákvæði 1.26 kjarasamnings LÍÚ og Sjómannasambands Íslands.Staðreyndir málsins séu þær, að eftir dómi Félagsdóms frá 5. marz 1997 í málinu nr. 15/1996, hafi stefnanda verið greiddar kr. 32.938 í viðbót við þá fjárhæð, sem hann hafði áður fengið greidda frá stefnda.Hafi stefndi gert það í samræmi við þá niðurstöðu dómsins, að komi kvóti sem endurgjald í viðbót við fégreiðslu fyrir afla, verði að telja líkur á, að slíkt hafi áhrif á fégjaldið til lækkunar.Í slíkum tilvikum eigi áhöfnin kröfu til þess, að við hlutaskiptin sé miðað við hærra verð en greitt hafi verið í peningum.Í máli því, sem hér um ræði, hafi þetta einmitt verið gert af hálfu stefnanda.Telji hann því, að eftir uppkvaðningu fyrrgreinds Félagsdóms, hafi hann að fullu gert upp við stefnanda í samræmi við nefndan dóm.Við uppgjörið hafi skiptahlutur stefnanda verið miðaður við sannanlegt meðalverð frosinnar rækju á þeim tíma, er henni var landað, sbr. niðurstöðu Úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna á dskj. nr. 17.Það sé því ljóst, að stefndi hafi metið kvótaverðmæti það, sem hann fékk frá kaupanda aflans, til verðs við ákvörðun skiptaverðmætis vegna lokauppgjörs á launum stefnanda fyrir vinnu hans, í samræmi við fyrrgreindan dóm.Hafi stefndi einnig staðið stefnanda skil á orlofsgreiðslum af fyrrgreindri upphæð, en stefnandi haldi öðru fram í stefnu sinni.
Í "tonni á móti tonni" viðskiptum skuldbindi útgerðarmaður sig til að landa afla sínum hjá þeim aðila, sem láti aflakvóta í té.Fyrir aflann sé svo greitt umsamið verð. Kvótinn, sem útgerðarmaðurinn fái, sé honum því ekki til frjálsrar ráðstöfunar og hafi því ekkert beint markaðsgildi fyrir hann.Hann geti ekki selt hann og ekki veitt upp í hann, landað aflanum síðan annars staðar og fengið almennt markaðsverð fyrir aflann.Þar að auki skuldbindi útgerðarmaðurinn sig til að selja þessum aðila aflann vegna þessa kvóta á fyrir fram umsömdu verði.Verðmæti kvótans fyrir útgerðarmanninn sé því aldrei hreint markaðsverð hans, enda sé greiðsla í formi kvótans hluti af gagnkvæmum samningi hans og aflakaupandans, sem innihaldi fleiri atriði, sem líta verði til.Þar sem um sé að ræða gagnkvæman samning, sé ekki hægt að líta á markaðsverð kvóta, þar sem aðeins komi fégreiðsla á móti til samanburðar, heldur verði að finna út raunverulegt verðmæti kvótans í þeim viðskiptasamningi, sem um ræði hverju sinni.Í þeim viðskiptum, sem hér um ræði, sé þetta einfalt. Raunverulegt verðmæti kvótans, sem stefndi fékk umfram fégreiðslu fyrir afla sinn, sé mismunur þess, sem greitt var fyrir landaðan afla í peningum og þess, sem stefndi hefði getað fengið fyrir aflann, ef hann hefði selt hann í frjálsum viðskiptum.
Verð það, sem stefndi hefði fengið í frjálsum viðskiptum fyrir aflann, sé einungis hægt að finna út með því að miða við meðalverð afla á þeim tíma, sem landanir eigi sér stað.Upplýsingar um það sé að finna á dskj. nr. 17.
Stefnandi krefjist þess, að skiptaverðmæti skuli miða við greidda fjárhæð í krónutölu og að auki markaðsverð kvóta á þeim tíma, sem um ræði.Með þessari aðferð verði skiptaverðmætið mun hærra en markaðsverð afla.Það sé af og frá, að samningur stefnda við aflakaupanda geti sjálfkrafa valdið því að verðmæti afla hans verði meira en markaðurinn segi til um og útgerðarmaður og aflakaupandinn miði við í samningi sínum.Í reikningsaðferð stefnanda felist í raun verðlagning, sem sé að engu leyti í samhengi við staðreyndir málsins.Með því sé átt við, að "tonn á móti tonni" viðskipti sé gagnkvæmur samningur útgerðarmanns og aflakaupanda, eins og áður segi.Samningurinn sé til hagsbóta fyrir alla aðila, þar sem útgerðarmaðurinn fái aukinn kvóta til veiða, aflakaupandinn fái meiri fisk til ráðstöfunar og sjómenn hærri laun vegna aukins afla. Útgerðarmaðurinn skuldbindi sig til að landa bæði sínu tonni og tonni fiskkaupa á tilteknu umsömdu verði og fá greitt fyrir það með peningum og tonni aflakaupandans.Eðlilega lækki krónutalan, sem útgerðarmaðurinn fái sem fégreiðslu, enda komi tonnið góða einnig sem greiðsla.
Með því að nota útreikning stefnanda væri verið að láta útgerðina gera upp við sjómennina miðað við hærra skiptaverðmæti en stefndi hafi raunverulega fengið fyrir aflann.Ekki sé hægt að miða við, að útgerðarmaðurinn hefði keypt kvóta á frjálsum markaði, þar sem um slíkt sé ekki að ræða.Málsgrundvöllurinn verði að byggja á þeim viðskiptum, sem áttu sér raunverulega stað, en ekki einhverju allt öðru, enda yrði niðurstaða málsins með slíkri aðferð í engu samræmi við staðreyndir málsins.Útreikningsaðferð sjómanna sé aðeins leikur að tölum, sem eigi sér enga stoð í raunveruleikanum.Til grundvallar viðskiptum stefnda og aflakaupandans liggi fyrir raunverulegar tölur, sem segi til um raunverulegt verðmæti kvótans, sem stefndi tók sem greiðslu fyrir afla sinn og hafi verið staðið skil á til stefnanda að fullu. Því fari fjarri, í viðskiptum “tonn á móti tonni”, að afhentar aflaheimildir séu reiknaðar á fullu markaðsverði inn í viðskiptin, þó að ljóst þyki, að þær hafi áhrif til lækkunar á það verð, sem greitt sé fyrir aflann í peningum. Telji stefndi því, að hann hafi að fullu greitt stefnanda launakröfu hans og leiði það óhjákvæmilega til sýknu hans. Telji stefnandi, að endanlegt uppgjör hans sé ekki miðað við hæsta gangverð, beri hann sönnunarbyrðina fyrir því.
Stefndi kveðst byggja sérstaklega á því, að með því að taka við upphaflegri greiðslu án fyrirvara, hafi stefnandi samþykkt það verð, sem hlutaskiptin voru miðuð við. Ekki sé á því nokkur vafi, að áhöfn fiskiskips geti gert bindandi samning við útgerð sína um það verð, sem miða skuli hlutaskipti við í tilviki, þar sem aflaheimild komi til viðbótar við greitt verð. Komi það beinlínis fram í 3. gr. l. nr. 84/1995, að slíkir samningar skuli vera meginreglan, þar sem deilumálum verði ekki skotið til úrskurðarnefndar laganna, nema samningar hafi ekki tekizt milli útgerðar og áhafnar. Sé raunar í grein 1.26 í kjarasamningi LÍÚ við Sjómannasamband Íslands gert ráð fyrir slíkum samningi milli útgerðar og áhafnar. Athugasemdalaus viðtaka stefnanda á upphaflegu uppgjöri geti ekki verið annað en samþykki hans á uppgjörsmátanum og launagreiðslunni sem slíkri. Hljóti hún að jafngilda fyrir fram gerðum samningi um skiptaverðið. Telji stefndi í þessu sambandi, að sér hafi verið óskylt að inna frekari greiðslu af hendi til stefnanda eftir að Félagsdómurinn gekk. Þó að stefndi hafi innt þá greiðslu af hendi umfram skyldu, hljóti stefnandi að teljast jafnbundinn og áður af upphaflegri fyrirvaralausri kvittun sinni.
Fallist dómurinn ekki á, að stefnandi hafi, með þessari fyrirvaralausu viðtöku sinni, glatað rétti sínum til frekari greiðslna úr hendi stefnda, þá byggi stefndi á því, að stefnandi hafi glatað rétti sínum með fyrirvaralausri viðtöku á svokölluðu lokauppgjöri. Með þeirri greiðslu hafi stefndi gert upp við stefnanda umfram skyldu, og hafi stefnandi tekið við því lokauppgjöri sem fullnaðargreiðslu líkt og hinni fyrri, án nokkurs fyrirvara. Hafi þó hvílt enn ríkari skylda á honum til þessa en í fyrra skiptið, þar sem kjaramál launþega stefnda höfðu verið til umfjöllunar hjá Félagsdómi.
Í þessu sambandi bendi stefndi á, að fyrrgreindur dómur Félagsdóms fjalli ekki um fjárkröfu einstakra sjómanna á hendur stefnda, heldur hafi í því máli aðeins verið leitað viðurkenningar á, að uppgjörsmáti sá, er þá var viðhafður, hafi brotið í bága við ákvæði kjarasamninga. Ljóst sé, að stefnandi vissi, hvernig uppgjöri hans var háttað, þegar hann tók við launagreiðslu sinni, án nokkurs fyrirvara. Þetta hafi hann gert, þrátt fyrir að hinn 26. apríl 1992 hafi verið gefin yfirlýsing af fulltrúum Sjómannasambands Íslands og VSÍ um, að útgerðarmanni væri óheimilt að draga frá heildaraflaverðmæti kostnað vegna kaupa á kvóta og stöðugar deilur hafi verið síðastliðin ár um, hvernig haga skyldi þessum málum. Af þessum sökum hafi hvílt sérstök skylda á stefnanda að gera athugasemd, hafi hann ekki verið sáttur við uppgjör sitt og talið, að með því hefði verið á honum réttur brotinn. Það sé almenn regla í vinnurétti, að launþegi, sem megi verið ljós skekkja í launaútreikningi, verði að gera athugasemdir án ástæðulauss dráttar. Í máli því, sem hér sé til umfjöllunar, hafi stefnandi engar slíkar athugasemdir gert, fyrr en með innheimtubréfi dags. 30. maí 1997, dskj. nr. 14, og því verði að telja, að réttur hans til frekari launagreiðslna úr hendi stefnda séu fallnar niður vegna aðgerðarleysis hans sjálfs.
Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu, að stefndi hafi ekki gert að fullu upp við stefnanda eða að krafa hans sé ekki fallin niður fyrir aðgerðarleysi, krefst stefndi þess, að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar með vísan til fyrrgreindra sjónarmiða.
Dráttarvaxtakröfu stefnanda er sérstaklega mótmælt. Verulegur ágreiningur sé um uppgjörsmáta þann, sem stefnandi byggi kröfu sína á, og eðlilegt sé, að úr honum sé leyst fyrir dómstólum. Þegar greiðslurnar voru inntar af hendi á gjalddaga, hafi enginn ágreiningur verið um þær, enda hafi stefnandi tekið við þeim án nokkurs fyrirvara. Verði krafa stefnanda tekin til greina, krefst stefndi þess því, að dráttarvextir verði reiknaðir frá dómsuppsögu, en til vara frá þingfestingu málsins. Telji dómurinn þá niðurstöðu ekki í samræmi við atvik málsins, krefst stefndi þess, að upphafstíma dráttarvaxta beri að miða við 30. júní 1997, þ.e. mánuði eftir að stefnandi fyrst krafði stefnda um greiðslu kröfu sinnar, sbr. dskj. nr.14. Einnig sé mótmælt þeirri aðgerð stefnanda að krefjast dráttarvaxta af fjárhæð, sem honum hafi þegar verið greidd. Með því sé átt við, að stefnandi dragi þá fjárhæð, sem hann hafi þegar fengið úr hendi stefnda, ekki frá kröfu sinni fyrr en á greiðsludegi.
Til stuðnings sýknukröfu sinni vísar stefndi til meginreglu samningaréttar um skuldbindingargildi samninga, laga nr. 84/1995 um úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, meginreglna kröfuréttar um fullnaðarkvittanir og tómlætis stefnanda. Málskostnaðarkröfu sína styður stefndi við XXI. kafla l. nr. 19/1991 (sic í grg.), einkum 130. gr.
III.
Forsendur og niðurstaða
Í dómi Félagsdóms í málinu nr. 15/1996: Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, vegna Skipstjóra- og stýrimannafélags Norðurlands gegn Landssambandi íslenzkra útvegsmanna f.h. Útvegsmannafélags Norðurlands vegna Sæbergs hf. er kveðið á um það, að taka beri tillit til verðmætis móttekins aflamarks fyrir seldan afla við tilgreiningu heildarskiptaverðmætis. Stendur ágreiningur aðila um það, hvernig reikna beri verðmæti aflamarksins.
Stefndi hefur greitt inn á kröfu stefnanda samtals kr. 32.939, sem hann telur fullnægjandi uppgjör til stefnanda vegna hluta hans í umdeildu aflamarki. (Í grg. stefnda, er talað um kr. 32.938, en um er að ræða samlagningarskekkju, sbr. dskj. nr.16). Er uppgjör þetta þannig fengið, að tekinn er mismunurinn á meðalverði frosinnar rækju samkvæmt útreikningi úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna, sbr. dskj. nr. 17, og beingreiðslum, sem stefndi fékk fyrir landaðan afla. Af hálfu stefnanda er þessum uppgjörsmáta mótmælt.
Fallast má á það með stefnanda, að útreikningur úrskurðarnefndarinnar sýni ekki rétt meðalverð rækjunnar, þar sem ekki er tekið inn í þann útreikning verðmæti aflamarks. Verð á rækjunni ræðst þannig af því, hvernig útgerðarmenn semja við kaupendur, þ.e., hvort eingöngu sé greitt með peningum eða samið sé um annars konar viðskipti, svo sem "tonn á móti tonni" eða "tvö tonn á móti tonni". Í slíkum viðskiptum lækkar peningagreiðslan hlutfallslega.
Samningur sá, sem stefndi gerði um "tonn á móti tonni" viðskipti, liggur ekki fyrir í málinu, og eru allar fullyrðingar stefnda um takmörkun hans á yfirráðarétti yfir greiðslu í aflamarki ósannaðar. Ber því að leggja til grundvallar við hlutaskipti fullt verðmæti aflamarksins, eins og það var á frjálsum markaði á þeim tíma, sem um ræðir, og er það í samræmi við niðurstöðu framangreinds dóms Félagsdóms í málinu nr. 15/1996, tilvitnaðan kjarasamning og lög nr. 24/1986.
Stefndi hefur í sjálfu sér ekki vefengt þau gangverð aflamarks, sem stefnandi miðar við í útreikningi sínum og eru sögð stafa frá Sjómannasambandi Íslands, sbr. dskj. nr. 3. Ber því að taka kröfur stefnanda til greina að fullu, en dráttarvextir reiknast eins og greinir í dómsorði.
Stefndi hefur viðurkennt kröfu stefnanda með innborgunum, en málshöfðun þessi fylgdi í kjölfarið. Er því ekki fallizt á varnir stefnda, sem byggðar eru á tómlæti.
Þá er ekki fallizt á sjónarmið stefnda um fyrirvarlausa móttöku stefnanda á uppgjöri, en fram kemur, að stefndi greiddi laun stefnanda inn á reikning hans í Sparisjóði Ólafsfjarðar, og liggur hvergi fyrir kvittun af hálfu stefnda eða önnur viðurkenning á fullnaðaruppgjöri.
Eftir þessum úrslitum bar að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 75.000 og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð:
Stefndi, Þormóður rammi-Sæberg hf., greiði stefnanda, Magnúsi Þorgeirssyni, kr. 103.565 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla l. nr. 25/1987 af kr. 54.910 frá 15.01.1996 til 15.04. s.á., en af kr. 94.005 frá þeim degi til 01.05. s.á., en af kr. 103.565 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum kr. 32.939, og leggjast dráttarvextir við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 15.05. 1996. Enn fremur greiði stefndi stefnanda kr. 75.000 í málskostnað.