Hæstiréttur íslands
Mál nr. 712/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Kröfulýsing
- Skiptastjóri
- Verkkaup
|
|
Föstudaginn 4. mars 2011. |
|
Nr. 712/2010. |
Húsaviðhald og viðgerðir ehf. (Einar Gautur Steingrímsson hrl.) gegn þrotabúi KBK ehf. (Benedikt Ólafsson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Kröfulýsing. Skiptastjóri. Verkkaup.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu H ehf. í þrotabú K ehf. Félagið K ehf. hafði verið stofnað til kaupa á fasteignum og voru eigendur þess tveir, B og J. H ehf. gerði kröfu í þrotabú K ehf. á grundvelli reiknings vegna vinnuframlags við tvær fasteignir í eigu K ehf. og byggði á því að fyrirsvarsmaður þess B, sem jafnframt var annar eigenda K ehf., hefði lagt fram vinnu sína í þágu félagsins sem húsasmíðameistari og byggingastjóri en ekki gert félaginu reikning fyrir þeirri vinnu jafnóðum vegna bágrar fjárhagsstöðu þess. Þrotabú K ehf. hélt því á hinn bóginn fram að við stofnun félagsins hafi hluthafar þess, B og J, gert með sér samkomulag um að þeir myndu leggja fram vinnu til félagsins án endurgjalds og að vinnuframlag þeirra yrði metið að jöfnu. Í héraðsdómi, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, var talið nægjanlega í ljós leitt að báðir eigendur K ehf. hefðu lofað að leggja fram vinnu sína við uppbyggingu félagsins án endurgjalds og aldrei hefði staðið til að greitt yrði fyrir það vinnuframlag. Var fyrirsvarsmaður H ehf. talinn bundinn af loforði sínu um endurgjaldslaust vinnuframlag í þágu félagsins og kröfu hans í þrotabúið hafnað. Fyrir Hæstarétti hélt H ehf. því fram að skiptastjóri K ehf. hefði verið vanhæfur til að taka afstöðu til kröfunnar og fara með rekstur búsins. Var ekki talið að H ehf. hefði fært nægileg rök fyrir því ákvæði 2. mgr. 75. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti væru því til fyrirstöðu að skiptastjóri hefði getað gegnt starfinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. desember 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Frekari gögn bárust réttinum eftir það. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. nóvember 2010, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila sem hann hafði lýst í bú varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að krafa hans verði samþykkt eins og henni var lýst í bú varnaraðila með kröfulýsingu 7. maí 2010. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Að tilhlutan sóknaraðila voru teknar skýrslur 23. desember 2010 fyrir dómi af Braga Gunnarssyni, fyrirsvarsmanni sóknaraðila, og Garðari G. Gíslasyni héraðsdómslögmanni sem kvaðst hafa verið Braga til aðstoðar í deilum við meðeiganda hans að KBK ehf. frá miðjum september 2009, en bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta 5. mars 2010. Endurrit skýrslutökunnar hefur verið lagt fyrir Hæstarétt auk nokkurra nýrra skjala.
Fyrir Hæstarétti byggir sóknaraðili á því að skiptastjóri varnaraðila „hafi verið vanhæfur til að taka afstöðu til kröfunnar og vanhæfur til að fara með rekstur búsins. Beri því að fella úr gildi ákvörðun hans um að hafna kröfu sóknaraðila.“ Sóknaraðili hefur ekki fært nægileg rök fyrir því að ákvæði 2. mgr. 75. gr. laga nr. 21/1991 séu því til fyrirstöðu að skiptastjóri hafi getað gegnt starfinu. Verður því ekki fallist á þessa kröfu hans.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað, sem verður ákveðinn eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Húsaviðhald og viðgerðir ehf., greiði varnaraðila, þrotabúi KBK ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. nóvember 2010.
Þetta mál barst dóminum með bréfi skiptastjóra í þrotabúi KBK ehf. mótteknu 22. júní 2010. Málið var þingfest 17. september og tekið til úrskurðar 11. nóvember 2010 að aflokinni aðalmeðferð.
Sóknaraðili, Húsaviðhald og viðgerðir ehf., kt. 530203-2550, Lyngrima 22, Reykjavík, krefst þess að krafa sín, nr. 9 í kröfuskrá skiptastjóra, verði samþykkt eins og henni var lýst í þrotabú KBK ehf. með kröfulýsingu dags. 7. maí 2010.
Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili, þrotabú KBK ehf., kt. 520907-0410, krefst þess að dómkröfu sóknaraðila verði hafnað og að staðfest verði sú afstaða skiptastjóra í þrotabúi KBK ehf. að hafna kröfu sóknaraðila sem sé nr. 9 í skrá yfir lýstar kröfur í þrotabúið.
Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi sóknaraðila.
Með bréfi, er barst dóminum 3. mars sl., óskaði stjórn KBK ehf. eftir því að bú félagsins yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Fallist var á kröfuna með úrskurði 5. sama mánaðar og skiptastjóri skipaður. Með kröfulýsingu, dagsettri 7. maí, lýsti sóknaraðili almennri kröfu í búið, á grundvelli reiknings dags. 1. mars sl. Með reikningnum er krafist greiðslu að fjárhæð 11.499.131 krónu fyrir 2.052,5 tíma vinnu við fasteignirnar að Klausturvegi 1 og 3-5 á Kirkjubæjarklaustri. Á fundi í þrotabúinu, 26. maí sl., hafnaði skiptastjóri kröfu sóknaraðila sem aftur mótmælti afstöðu skiptastjóra. Ekki tókst að jafna ágreininginn. Með bréfi, dagsettu 22. júní, vísaði skiptastjóri í þrotabúinu þessu máli til dómsins á grundvelli 171. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991.
Málavextir
Þann 6. september 2007 stofnaði Bragi Gunnarsson, fyrirsvarsmaður og eigandi sóknaraðila og húsasmíðameistari, ásamt Jóni Grétari Ingvasyni lyfjafræðingi, félagið KBK ehf. til kaupa á fasteignum á Kirkjubæjarklaustri. Félagið var í eigu þeirra beggja að jöfnu og sátu þeir báðir í þriggja manna stjórn félagsins auk Braga Björnssonar hdl., sem var formaður stjórnar. Félagskjörinn endurskoðandi var Gunnar Þór Ásgeirsson, löggiltur endurskoðandi hjá PricewaterhouseCoopers, og sat hann flesta stjórnarfundi.
Þann 18. september 2007 keypti félagið fasteignir að Klausturvegi 1, þar sem áður var sláturhús, og Klausturvegi 3-5, þar sem áður voru verslanir Kaupfélags Vestur-Skaftfellinga, í þeim tilgangi að breyta húsnæðinu í aðstöðu fyrir ferðaþjónustu (gistingu, veitingarekstur, afþreyingu o.fl.). Kaupverðið nam 26 milljónum króna. Verkið var í fyrstu fjármagnað með láni í erlendum myntum að jafnvirði 16.000.000 króna með veði í heimili fyrirsvarsmanns sóknaraðila og með láni frá Jóni Grétari að fjárhæð 16.000.000 króna.
Ráðast þurfti í gagngerar endurbætur á húsnæðinu. Eins og eðlilegt var gekk við þær framkvæmdir á þá fjármuni sem upphaflega voru lagðir inn í félagið. Að sögn sóknaraðila lagði fyrirsvarsmaður hans, Bragi Gunnarsson, fram sína vinnu til félagsins sem byggingarstjóri og húsasmíðameistari. Vegna þess að lausafjárstaða félagsins hafi verið slæm hafi hann ekki jafnóðum gert því reikning fyrir þeirri vinnu sem innt var af hendi. Þegar ljóst varð að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta, og þar með færi fram uppgjör skulda og eigna, hafi sóknaraðili tekið saman þá vinnu sem hann sem húsasmíðameistari hafði innt af hendi í þágu félagsins.
Málsástæður sóknaraðila
Sóknaraðili krefst þess að krafa hans verði tekin til greina eins og henni var lýst með kröfulýsingu dags. 7. maí 2010. Sóknaraðili byggir á því að fyrirsvarsmaður sóknaraðila hafi lagt fram vinnu sína sem húsasmíðameistari og byggingarstjóri í þágu félagsins. Vegna bágrar lausafjárstöðu félagsins hafi hann hins vegar ekki gert því reikning fyrir þeirri vinnu jafnóðum. Þegar ljóst hafi orðið að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta, og þar með færi fram uppgjör skulda og eigna, hafi fyrirsvarsmaður sóknaraðila tekið saman þá vinnu sem hann, sem húsasmíðameistari og byggingarstjóri framkvæmdanna, hafði innt af hendi í þágu félagsins og lýst fyrir skiptastjóra, sbr. kröfulýsingu dags. 7. maí 2010.
Jón Grétar Ingvason, meðeigandi fyrirsvarsmanns sóknaraðila að félaginu, hafi einnig lýst kröfu í þrotabúið vegna eigin vinnuframlags í þágu félagsins. Þeirri kröfu hafi verið hafnað líkt og kröfu sóknaraðila. Sóknaraðili byggir á því að eðlismunur sé á vinnu fagmanns, húsasmíðameistara, og vinnu Jóns Grétars, sem sé lyfjafræðingur, við fasteignirnar. Sóknaraðili byggir á því að augljóst sé að hefði hvorugur eigenda félagsins verið húsasmiður að mennt, þá hefði félagið þurft að leita til húsasmíðameistara um vinnu við fasteignirnar og eðli málsins samkvæmt þurft að greiða fyrir þau verk jafnóðum. Sóknaraðili bendir á að í fylgigögnum með kröfulýsingu sóknaraðila sé nákvæm sundurliðun á verkþáttum og í hverju vinna í þágu hins gjaldþrota félags hafi falist.
Skiptastjóri varnaraðila hafi hafnað kröfu sóknaraðila í búið á þeim grundvelli að af bókhaldi búsins sæist ekki að samið hefði verið við sóknaraðila um vinnu eða verktöku í þágu KBK ehf. Jafnframt hafi skiptastjóri vísað til þess að ekki væri að sjá að varnaraðili hafi fengið greiðslu frá KBK ehf. eða krafið félagið um greiðslu. Enn fremur vísi skiptastjóri til þess að reikningur, dags. 1. mars 2010, sem fylgi kröfulýsingu, sé ekki til í bókhaldi hins gjaldþrota félags.
Sóknaraðili byggir á því að sú staðreynd að reikningur hafi ekki verið gefinn út vegna vinnunnar, jafnóðum og hún var innt af hendi, geti ekki leitt til þess að fyrirsvarsmanni sóknaraðila hafi ekki borið neinar greiðslur fyrir vinnu í þágu félagsins. Það sé óumdeilt í málinu að fyrirsvarsmaður sóknaraðila hafi innt þá vinnu af hendi í þágu hins gjaldþrota félags, sem sóknaraðili krefjist nú greiðslu fyrir, en deilt sé um það hvort honum hafi borið að gera það endurgjaldslaust. Sóknaraðili byggir á því að fráleitt sé að halda því fram að ætlunin hafi verið að fyrirsvarsmaður sóknaraðila ynni endurgjaldslaust í þágu félagsins um ókomin ár.
Skiptastjóri hafi einnig rökstutt höfnun kröfunnar með þeim rökum að stjórnarformaður félagsins hefði skýrt frá því að eigendur félagsins hefðu í upphafi samið svo um að þeir myndu, endurgjaldslaust, leggja félaginu til vinnu við framkvæmdirnar. Sóknaraðili byggir á því að framburður stjórnarformannsins verði ekki lagður til grundvallar þar sem Jón Grétar hafi einnig lýst kröfu í búið vegna eigin vinnuframlags í þágu félagsins.
Sóknaraðili telur, með vísan til alls framangreinds, að krafa hans í búið skuli samþykkt eins og henni var lýst fyrir varnaraðila með kröfulýsingu dags. 7. maí 2010 og þar af leiðandi að varnaraðila verði gert að greiða honum málskostnað.
Sóknaraðili vísar til 113. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, og almennra reglna vinnuréttar, kröfuréttar og samningaréttar. Krafa um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður varnaraðila
Varnaraðili, þrotabú KBK ehf., vísar til þess að við stofnun félagsins hafi hluthafar þess, Bragi Gunnarsson og Jón Grétar Ingvason, gert með sér samkomulag um að þeir myndu leggja fram vinnu sína til félagsins án endurgjalds og að vinnuframlag þeirra yrði metið að jöfnu. Þetta samkomulag hafi verið margítrekað á hluthafa- og stjórnarfundum og sé staðfest bæði af stjórnarformanni og endurskoðanda félagsins.
Varnaraðili byggir á því að þessi yfirlýsing hafi verið skuldbindandi loforð gagnvart félaginu. Þannig hafi hluthafar og stjórnarmenn verið skuldbundnir til að leggja félaginu til vinnu sína, af hvaða toga sem væri, án endurgjalds.
Fyrirsvarsmaður sóknaraðila, Bragi Gunnarsson, hafi iðnréttindi sem trésmíða-meistari og fullnægi kröfum um byggingarstjóra, sbr. 51. gr. skipulags- og byggingalaga. Hann hafi tekið að sér framkvæmdastjórn við mannvirkið og ábyrgst að framkvæmdin yrði í samræmi við samþykkta uppdrætti og viðeigandi lög og reglur. Hann hafi sótt um leyfi til byggingarfulltrúa til að vera byggingarstjóri verksins og hafi það verið veitt. Báðir eigendur hlutafjár í félaginu hafi lagt fram vinnu til félagsins. Þetta vinnuframlag hafi ekki verið metið eða vegið innbyrðis á milli þeirra, enda umsamið að svo skyldi ekki vera og skyldi framlagið metið að jöfnu.
Varnaraðili bendir á að sóknaraðili sé einkahlutafélag í eigu Braga Gunnarssonar og að KBK ehf. hafi aldrei átt í samskiptum við sóknaraðila, Húsaviðhald og viðgerðir ehf., og hafi aldrei falið því félagi að vinna nokkur verkefni fyrir sig. Varnaraðili telji að krafan sé sett í þennan búning til þess að reyna að villa fyrir og að Bragi Gunnarsson sé með þeim hætti að reyna að komast hjá því að standa við greint loforð sitt gagnvart varnaraðila.
Krafa sóknaraðila sé vegna vinnu Braga Gunnarssonar í þágu félagsins og falli undir fyrrgreint loforð, þrátt fyrir að hún sé sett fram í nafni einkahlutafélags í eigu Braga Gunnarssonar. Þessa vinnu eigi samkvæmt greindu loforði að leggja til félagsins án endurgjalds.
Varnaraðili mótmælir kröfu sóknaraðila annars vegar á þeim forsendum að á milli KBK ehf. og sóknaraðila hafi ekki verið neitt samningssamband og hafi KBK ehf. ekki stofnað til skuldar við sóknaraðila með neinum hætti. Á hinn bóginn mótmælir varnaraðili kröfu sóknaraðila á grundvelli framangreinds loforðs.
Framburður fyrir dómi
Fyrir dómi gáfu skýrslu Bragi Gunnarsson, fyrirsvarsmaður sóknaraðila og fyrrum framkvæmdastjóri varnaraðila KBK ehf., Jón Grétar Ingvarsson, fyrrum stjórnarmaður varnaraðila, Gunnar Þór Ásgeirsson, fyrrum löggiltur endurskoðandi varnaraðila, og Bragi Björnsson hdl., fyrrum formaður stjórnar varnaraðila.
Bragi Gunnarsson kvaðst vera menntaður húsasmíðameistari. Þar sem húsasmíðar væru sérgrein hans hafi hann verið uppáskrifaður byggingarstjóri á endurbótum á húseignum varnaraðila.
Hann bar að félagið KBK ehf. hafi í upphafi ekki fengið mikla fyrirgreiðslu. Hann hafi því gert sér fulla grein fyrir því að það yrði erfitt fyrir félagið að fjármagna verkefnið, sérstaklega á meðan verið væri að koma rekstrinum af stað. Það hafi orðið að samkomulagi milli eigenda félagsins að ekki yrði rukkað fyrir vinnuframlag jafnt og þétt eftir framvindu verksins heldur yrði rukkað fyrir vinnuframlagið þegar kominn væri rekstrargrundvöllur eða við sölu eigna eða uppgjörs á félaginu.
Hann lýsti furðu sinni á yfirlýsingu, dags. 9. júní sl., undirritaðri af Braga Björnssyni, Gunnari Þór Ásgeirssyni, og Jóni Grétari Ingvasyni, og kvaðst mótmæla því sem komi fram í yfirlýsingunni. Hann benti á að samkvæmt fundargerð 26. febrúar 2010, undirritaðri af öllum stjórnarmönnum félagsins, hafi hann lýst kröfu sóknaraðila á hendur félaginu ríflega þremur mánuðum áður en yfirlýsingin sé gefin út. Á þeim fundi hafi kröfu hans verið svarað með því að Jón Grétar hafi gert samskonar kröfu á félagið.
Hann kvaðst hafa verið mjög mótfallinn því að félagið yrði gefið upp til gjaldþrotaskipta enda hafi hann talið raunverulegan möguleika á því að skipta milli eigendanna eignum félagsins og skuldum. Allar eignir þess hafi verið veðbandalausar og því hafi ekki verið nein ástæða til að lýsa félagið gjaldþrota.
Sérstaklega spurður um samningssamband sóknaraðila og KBK ehf. bar hann að Húsaviðhald og viðgerðir ehf. séu félag í hans eigu og hafi verið það frá 2003. Hann hafi verið byggingarstjóri og framkvæmdastjóri KBK ehf. og hafi því séð um framkvæmdirnar á Kirkjubæjarklaustri. Ekki hafi verið rætt um það sérstaklega að vinnan væri innt af hendi í nafni sóknaraðila en þar sem hann hafi verið byggingarstjóri hafi það verið hans hlutverk að ráða menn til verka og sjá um að lögum og reglugerðum væri framfylgt. Hafi hluti af því verið að ráða Húsaviðhald og viðgerðir til verksins. Tilgreint vinnuframlag, 2052 tímar, sem krafist sé endurgjalds fyrir, hafi hann sjálfur innt af hendi. Á þessum tíma hafi þetta verið eina verkefnið sem hann sinnti sem húsasmíðameistari.
Jón Grétar Ingvarsson, bar að vegna góðra kynna af fyrirsvarsmanni sóknaraðila hafi honum litist vel á samstarf þeirra í millum um uppbyggingu ferðaþjónustu á Kirkjubæjarklaustri. Þeir hafi gengið í það saman að kaupa húseignirnar. Þar sem kaupverðið hafi ekki verið ýkja hátt fyrir hvorn um sig hafi þeir reiknað með því að þeir myndu standa straum af upphafskostnaði sjálfir. Hann hafi fundið mjög fljótt á fyrirsvarsmanni sóknaraðila að það yrði þungt fyrir hann. Niðurstaðan hafi því orðið sú að á móti framlagi Jóns Grétars myndi Bragi útvega veð fyrir láni sem yrði tekið fyrir sömu upphæð.
Hann bar að þeir hefðu báðir unnið fyrir félagið og frá upphafi hafi verið ákveðið að þeir myndu ekki taka laun fyrir vinnu sína. Aldrei hafi verið rætt um annað. Þeir hafi strax séð að þeir gætu báðir unnið að niðurrifi sem þurfti að fara fram í upphafi og þeir myndu leggja fram jafna tíma og halda utan um það sín í milli. Þeir hafi unnið hlið við hlið og hafi báðir gengið jafnt í verkið. Smám saman hafi meira lent á honum að hafa samskipti við skipulagsyfirvöld, hönnuði og þess háttar. Hann kvaðst vera menntaður lyfjafræðingur, skipstjóri, vélamaður með gæsluréttindi og hafa unnið fyrir sér sem verkamaður og ígildi smiðs. Á því tímabili sem hann og fyrirsvarsmaður sóknaraðila hafi unnið saman fyrir KBK ehf. hafi mjög lítil önnur byggingarvinna verið unnin en að rífa innan úr húsunum og kvaðst hann jafnvígur til þeirra verka og fyrirsvarsmaður sóknaraðila.
Að sögn Jóns Grétars varð honum fyrst ljóst á fundi hjá skiptastjóra að Bragi Gunnarsson teldi sig eiga kröfu á félagið. Hann kvaðst ekki hafa heyrt minnst á félagið Húsaviðhald og viðgerðir ehf. fyrr en á fundi hjá skiptastjóra og kannaðist ekki við að KBK ehf. hafi átt í viðskiptum við það félag.
Krafa hans um laun frá félaginu sé tilkomin vegna launakröfu sóknaraðila. Krafa sóknaraðila hafi komið honum mjög á óvart og hafi hann talið eðlilegt að það sama gilti um þá báða og því hafi hann einnig gert slíka kröfu í búið.
Vitnið Gunnar Þór Ásgeirsson, löggiltur endurskoðandi og fyrrum löggiltur endurskoðandi varnaraðila, staðfesti undirritun sína á yfirlýsingu dags. 9. júní 2010 og staðfesti efni hennar rétt eftir bestu vitund sinni. Borin var undir hann merking svohljóðandi setningar í yfirlýsingunni: „Þá kom ítrekað fram á fundum og var ágreiningslaust með aðilum að stjórnarmenn skyldu ekki njóta launa fyrir störf sín í þágu félagsins. “Bar vitnið að skilja bæri þetta svo að báðir eigendur félagsins skyldu leggja fram vinnu sína til félagsins án endurgjalds.
Fundargerð stjórnarfundar KBK ehf. 26. febrúar 2010 var borin undir vitnið. Bar það að haldnir hefðu verið tveir fundir í félaginu í desember 2008. Á þeim hafi ýmis mál félagsins verið rædd, þar með talið kröfur og fjármögnun. Þá hafi það komið skýrt fram, bæði hjá Jóni Grétari og Braga Gunnarssyni, að upphaflega hafi verið ráðgert að hvorugur þeirra nyti launa fyrir störf sín í þágu félagsins. Þá hafi líka komið fram, þegar rædd voru næstu skref og framtíðarfyrirkomulag, að þeir ætluðu ekki að þiggja laun fyrir það sem þeir leggðu fram. Talsvert hafi verið rætt um það hvernig inna ætti vinnuframlagið af hendi en þó hafi komið skýrt fram að þeir fengju ekki greidd laun fyrir sitt vinnuframlag. Í desember 2008 hafi því ekki verið neinn ágreiningur um þetta atriði.
Vitnið bar að það hafi í fyrsta sinn komið fram á fundi 26. febrúar 2010 að Bragi Gunnarsson teldi sig eiga kröfu á hendur félaginu. Allt fram til þess tíma hafi hann ekki gert kröfu um laun fyrir vinnu sína fyrir félagið og slík kröfugerð gangi þvert gegn því sem hann hefði áður talað um. Allar áætlanir um framtíð félagsins hafi auk þess byggt á því að stjórnarmenn fengju ekki nein laun fyrir vinnuframlag sitt til félagsins.
Vitnið kvaðst þó hafa bent þeim á að halda utan um það hvert vinnuframlag þeirra væri til þess að auðveldara væri að gera sér grein fyrir því hversu dýr þessi fjárfesting væri þó þeir fengju ekki greitt fyrir vinnu sína. Það hafi ekki þýtt að til stæði einhvern tíma seinna að greiða þeim fyrir framlagða vinnu heldur hafi þetta einvörðungu verið til þess að halda mætti utan um heildarkostnaðinn við framkvæmdina.
Vitnið kvaðst ekki kannast við að fyrirtækið Húsaviðhald og viðgerðir ehf. hefði unnið fyrir KBK ehf.
Vitnið, Bragi Björnsson hdl., fyrrum formaður stjórnar varnaraðila, staðfesti undirritun sína á yfirlýsingu dags. 9. júní 2010 og staðfesti efni hennar rétt eftir bestu vitund sinni. Borin var undir hann merking svohljóðandi setningar í yfirlýsingunni: „Þá kom ítrekað fram á fundum og var ágreiningslaust með aðilum að stjórnarmenn skyldu ekki njóta launa fyrir störf sín í þágu félagsins.“ Bar vitnið að samkomulag hafi verið á milli Jón Grétars og Braga Gunnarssonar að á meðan á uppbyggingu á Kirkjubæjarklaustri stæði og uppbyggingu félagsins myndu þeir ekki taka sér laun. Þetta hafi margoft komið fram og sé það staðfest með þessari tilvitnuðu setningu.
Þeir tveir hafi með stofnun þessa félags ætlað sér að byggja upp ferðaþjónustu, meðal annars með gistingu. Þeir hafi ætlað sér að starfa við félagið í framtíðinni og þegar fyrirtækið væri komið í fullan rekstur og myndu þeir þá hugsanlega taka sér laun. Á meðan uppbygging færi fram og á meðan félagið væri ekki í neinum rekstri, öðrum en þeim að byggja sig upp og ekki væru neinar tekjur af rekstri félagsins, þá hafi þeir ekki ætlað að þiggja laun.
Vitnið áréttaði að ekki hafi staðið til að félagði greiddi einhvern tíma síðar fyrir vinnuframlag á uppbyggingartímanum. Hins vegar hafi eigendur félagsins ráðgert, að þegar félagði væri farið að hafa tekjur síðar meir yrðu þeir launþegar hjá félaginu. Þeir hafi ekki ætlað að taka greiðslur fyrir það vinnuframlag sem þeir lögðu fram við uppbyggingu félagsins.
Borin var undir vitnið fundargerð stjórnarfundar frá 26. febrúar 2010. Vitnið bar að það hefði verið í fyrsta sinn á þessum stjórnarfundi sem vitnið hafi heyrt það frá Braga Gunnarssyni að hann færi fram á laun fyrir vinnu í þágu félagsins og á fundinum hafi verið bókað eftir Jóni Grétari að hann teldi sig að sama skapi eiga sambærilega kröfu á hendur félaginu. Mögulegt sé að rétt fyrir eða rétt eftir áramót 2009 og 2010 hafi vitnið heyrt ávæning af því frá lögmanni Braga Gunnarssonar að hann vildi losna út úr félaginu og teldi sig eiga að fá eitthvert endurgjald fyrir vinnu sína. Það hafi komið vitninu á óvart og vitnið hafi ekki heyrt þessa kröfu beint frá Braga Gunnarssyni fyrr en á fundinum 26. febrúar. Sama eigi við um launakröfu Jóns Grétars.
Fram að þessum stjórnarfundi, sem boðað hafi verið til til þess að ákveða að gefa bú félagsins upp til gjaldþrotaskipta, hafi verið algerlega ágreiningslaust í huga vitnisins að stjórnarmenn ætluðu ekki að þiggja laun fyrir vinnu sína. Vitnið hafi unnið töluvert fyrir félagið og hafi ekki þegið nein laun fyrir þau störf. Þegar þarna var komið sögu hafi ekki lengur verið nein starfsemi á vegum félagsins.
Margoft hafi komið fram á stjórnarfundum og rætt sérstaklega að eigendur og stjórnarmenn ætluðu ekki að þiggja laun frá félaginu fyrr en það væri farið að afla tekna. Vitnið, sem stjórnarformaður, hafi innt Braga Gunnarsson sérstaklega eftir því hvernig hann ætlaði að sjá fyrir sér, þar sem það hafi vakið furðu vitnisins að hann væri reiðubúinn að vinna svona mikið endurgjaldslaust fyrir félagið. Bragi hafi svarað því til að hann hefði borð fyrir báru og væri með eitthvert annað félag í rekstri, ynni sem smiður í öðrum verkefnum og hefði íhlaup sem dygðu til. Hann hefði því lífsviðurværi sitt af öðru en félaginu.
Sérstaklega spurt um óformlegar fundargerðir félagins vísaði vitnið til þess að eigendur félagsins hefðu einungis verið tveir, þeir hafi unnið, nánast daglega, hlið við hlið og tekið ákvarðanir sameiginlega. Ekki hafi verið boðað formlega til funda í félaginu. Fundargerðirnar hafi verið á því formi að Jón Grétar hafi tekið niður minnispunkta. Aldrei hafi verið deilt um þetta á fundum og hafi vitnið talið þetta fullnægjandi og taldi sama fyrirkomulag í yfirgnæfandi meirihluta hlutafélaga sem séu jafn lítil og það félag sem hér sé til skipta.
Vitnið bar að eigendur fyrirtækisins hafi báðir séð rekstur þess fyrir sér sem framtíðaratvinnu sína. Þeir hafi séð möguleika í að reka félag sem þetta á þessum stað. Til hefði staðið að Bragi Gunnarsson héldi utan um daglegan rekstur og Jón Grétar ynni meira að skipulagningu, markaðssetningu og slíku. Á líftíma félagsins hafi vinna þeirra farið í að auka verðmæti eigna félagsins. Vitnið hafi ályktað að þeir teldu endurgjald sitt fólgið í því að auka verðmæti eignanna og yrði hugsanlega tekinn út arður seinna þegar félagið væri ef til vill farið að skila einhverjum tekjum. Aldrei hafi verið litið svo á að félagið skuldaði eigendum og stjórnarmönnum fyrir vinnuframlag þeirra á uppbyggingartíma félagsins. Í þessu félagi eins og bróðurparti félaga af sömu stærð verði menn að leggja á sig ómælda vinnu endurgjaldslaust á meðan á uppbyggingu standi.
Vitnið kvaðst ekki kannast við félagið Húsaviðhald og viðgerðir og vissi ekki til þess að KBK ehf. hefði átt viðskipti við það félag.
Niðurstaða
Með kröfulýsingu, dagsettri 7. maí 2010, gerði sóknaraðili, Húsaviðhald og viðgerðir ehf., kröfu í þrotabú KBK ehf. á grundvelli reiknings. Krafist er 11.499.131 krónu fyrir 2.052,5 tíma vinnu við fasteignirnar að Klausturvegi 1 og 3-5 á Kirkjubæjarklaustri. Fyrirsvarsmaður og eigandi sóknaraðila er fyrrum framkvæmdastjóri og eigandi varnaraðila.
Fyrirsvarsmaður sóknaraðila bar fyrir dómi að það hafi orðið að samkomulagi milli eigenda félagsins að ekki yrði rukkað fyrir vinnuframlag jafnt og þétt eftir framvindu verksins heldur yrði rukkað fyrir vinnuframlagið þegar kominn væri rekstrargrundvöllur fyrir félagið eða við sölu eigna eða uppgjör á félaginu.
Hann kvaðst hafa innt af hendi alla þá vinnu, 2.052 tíma, sem endurgjalds sé krafist fyrir. Á þessum tíma hafi þetta verið eina verkefnið sem hann hafi sinnt sem húsasmíðameistari. Ekki hafi verið rætt um það sérstaklega að framkvæmdirnar væru inntar af hendi í nafni sóknaraðila en þar sem hann hafi verið byggingarstjóri framkvæmda KBK ehf. hafi það verið hans hlutverk að ráða menn til verka og sjá um að lögum og reglugerðum væri framfylgt. Hafi hluti af því verið að ráða Húsaviðhald og viðgerðir ehf. til verksins.
Aðrir sem komið hafa fyrir dóminn hafa borið að frá upphafi félagsins hafi verið samið um það að vinnu við uppbyggingu myndu eigendur þess inna af hendi endurgjaldslaust og ekki yrði síðar meir greitt fyrir vinnuframlag á uppbyggingartímanum eða að með vinnuframlaginu stofnaðist skuld við félagið.
Þrátt fyrir útgáfu reikningsins sem kröfulýsing sóknaraðila byggir á og þrátt fyrir að fyrirsvarsmaður sóknaraðila hafi lýst því yfir á stjórnarfundi KBK ehf. 26. febrúar 2010 að hann teldi félag í sinni eigu eiga kröfu á varnaraðila hefur ekki verið sýnt fram á reikningurinn eigi stoð í samningi sem komist hafi á milli sóknaraðila og varnaraðila.
Með áðurnefndum reikningi er krafist greiðslu fyrir vinnu sem fyrirsvarsmaður sóknaraðila vann í þágu varnaraðila, félags sem hann var eigandi að. Með framburði vitnanna Gunnars Þórs Ásgeirssonar og Braga Björnssonar þykir nægjanlega í ljós leitt að báðir eigendur varnaraðila hafi lofað að leggja fram vinnu sína við uppbyggingu félagsins án endurgjalds. Hafi aldrei staðið til að greitt yrði fyrir það vinnuframlag. Þykir það ekki geta kollvarpað þessu loforði um endurgjaldslaust vinnuframlag að fyrirsvarsmaður sóknaraðila er húsasmíðameistari og var skráður byggingarstjóri á framkvæmdum varnaraðila. Einmitt þessi fagþekking hans hlýtur að hafa verið forsenda þátttöku hans í félaginu því ráða má af því sem fram kom fyrir dómi að hann hafi ekki getað lagt mikla fjármuni til félagsins. Að mati dómsins er fyrirsvarsmaður sóknaraðila því bundinn af þessu loforði sínu um endurgjaldslaust vinnuframlag í þágu félagsins.
Af þessum ástæðum verður kröfu sóknaraðila hafnað og staðfest afstaða skiptastjóra til kröfunnar.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til skyldu varnaraðila til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Húsaviðhalds og viðgerða ehf., í þrotabú KBK ehf.
Sóknaraðili greiði varnaraðila, þrotabúi KBK ehf., 150.000 krónur í málskostnað.