Hæstiréttur íslands
Mál nr. 363/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
|
|
Föstudaginn 7. júlí 2006. |
|
Nr. 363/2006. |
Sýslumaðurinn í Kópavogi(Guðmundur Siemsen fulltrúi) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi.
Ekki voru talin skilyrði til að X sætti áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. júlí 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. júlí 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengi í málum hans, þó ekki lengur en til miðvikudagsins 2. ágúst 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðili hefur nú, svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði, sætt gæsluvarðhaldi frá 7. maí 2006 á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Í forsendum úrskurðar Héraðsdóms Reykjaness 7. maí 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi til 7. júní 2006, var tekið fram að sá tími yrði að teljast hæfilegur til að fá lyktir í mál hans miðað við að hann hefði játað brot sín greiðlega. Hæstiréttur staðfesti þennan úrskurð 10. maí 2006 í máli nr. 249/2006 með vísan til forsendna. Meðferð máls varnaraðila hefur því dregist langt fram yfir umræddan tíma.
Í geðrannsókn Tómasar Zoëga geðlæknis á ákærða 29. maí 2006 kemur fram að geð- og atferlisraskanir varnaraðila tengist ofnotkun hans á vímuefnum. Gögn málsins, þar með talin skýrsla geðlæknisins, bera með sér að varnaraðili vilji nú leita sér hjálpar til að fást við þann vanda sem þessi neysla hefur valdið honum. Verður ekki fallist á að við svo búið teljist fullnægt skilyrði c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til að varnaraðila verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. júlí 2006.
Sýslumaðurinn á Kópavogi hefur í dag krafist þess að kærði, X, [kt. og heimilisfang], sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi þar til dæmt hefur verið í málum þeim sem lögreglan hefur til meðferðar á hendur honum, en þó ekki lengur en til miðvikudagsins 2. ágúst 2006 kl. 16:00.
Í greinargerð sýslumanns kemur fram að með úrskurði héraðsdóms Reykjaness uppkveðnum 7. maí sl., sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 249/2006 þann 10. maí sl., var kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 7. júní kl. 16.00, með vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Gæsluvarðhaldið var síðan framlengt til dagsins í dag með úrskurði héraðsdóms Reykjaness uppkveðnum 7. júní sl.
Er málavöxtum lýst þannig að 7. maí sl. hafi lögreglan í Kópavogi verið kvödd að A vegna eldsvoða í bifreiðum á bifreiðastæði hússins. Er lögregla mætti á vettvang hefði logað mikill eldur í bifreiðinni B, sem er í eigu föður kærða, en eldurinn síðan borist í tvær nærliggjandi bifreiðar. Slökkvilið hefði ráðið niðurlögum eldsins, en allar bifreiðarnar virst ónýtar eftir brunann. Vegna fyrri afskipta lögreglu af kærða léki grunur á um að kærði hefði átt þátt í bruna bifreiðanna og hefði hann verið handtekinn á heimili sínu síðar sama dag. Kærði hafi nú gengist við því að hafa lagt eld að bifreiðinni B, með því að brjóta hliðarrúðu hennar og kasta inn í hana logandi handklæði. Þá leiki jafnframt grunur á um að kærði hafi í umrætt sinn gerst sekur um ölvunarakstur. Hafi hann ekki getað gefið neina skýringu á þessari háttsemi aðra en þá, að hann hafi verið föður sínum reiður þar sem hann væri sífellt að skipta sér af hans málum.
Kærði hafi nú gengist undir geðrannsókn og liggi fyrir niðurstaða Tómasar Zoëga geðlæknis. Þar komi meðal annars fram, að kærði hafi greinst með geð- og atferlisraskanir af völdum lyfja- og alkóhólnotkunar. Þá greindist kærði jafnframt með geðklofalík geðrofseinkenni af völdum ofnotkunar lyfja. Að mati geðlæknisins hafi kærði ekki verið haldinn geðveiki, andlegum vanþroska, hrörnun, rænuskerðingu eða annars samsvarandi ástands, sem orðið hafi til þess að hann hafi verið ófær um að stjórna gerðum sínum. Þá hafi engar læknisfræðilegar ástæður komið fram, sem ættu að hindra, að refsing gæti borið árangur verði kærði fundinn sekur. Lögregla kveður ofangreint mál hafa verið sent embætti ríkissaksóknara til þóknanlegrar meðferðar þann 20. júní sl.
Mál lögreglunnar í Kópavogi, er varðar ætlað brot kærða gegn 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þann 9. janúar sl., hafi þegar verið sent embætti ríkissaksóknara til þóknanlegrar meðferðar. Hefur kærði í því máli gengist við því að hafa umrætt sinn borið eld að blaðabunka í stofu íbúðar foreldra sinna að A. Af íkveikjunni hafi orðið talsverður eldsvoði, sem olli almannahættu, verulegu eignatjóni á íbúðinni og innanstokksmunum hennar, og hættu á enn frekara tjóni hefði eldurinn náð frekari útbreiðslu, en hann var slökktur af slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Hefur kærði ekki gefið aðrar skýringu á íkveikjunni en þá að hann hafi reiðst föður sínum fyrir að reyna að koma honum í meðferð.
Framangreind mál hafi nú borist embætti sýslumannsins í Kópavogi að nýju ásamt fyrirmælum ríkissaksóknara um frekari rannsókn þeirra. Sé m.a. fyrirhugað að óska eftir dómkvaðningu sérfróðs matsmanns til að leggja mat á hvort og að hvaða marki almannahætta stafaði af ætluðum brotum kærða.
Þá kemur fram í greinargerð lögreglu að kærði hafi frá árinu 1997 sjö sinnum hlotið refsingu vegna brota gegn umferðarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni og almennum hegningarlögum. Síðast hafi kærði hlotið dóm í héraðsdómi Reykjaness þann 7. desember sl. vegna hótana gagnvart barnsmóður sinni.
Kærði hafi nú tvívegis, á tiltölulega stuttum tíma eða frá síðastliðnum áramótum, lagt eld að eignum foreldra sinna í og við A. Hafi hann með því valdið umtalsverðum eignaspjöllum á íbúð þeirra og bifreið, almannahættu og hættu á enn frekari spjöllum ef eldurinn hefði náð frekari útbreiðslu en raun varð á. Teljist ætluð brot kærða varða við 164. gr. og 1., sbr. 2. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Megi vænta ákæru í málunum innan tíðar en ætluð brot kærða geti varðað hann fangelsisrefsingu sannist sök hans.
Í greinargerð kemur fram það mat sýslumannsins í Kópavogi að ekkert hafi komið fram við rannsókn málsins, sem gefi tilefni til að hnekkt verði því mati héraðsdóms, sem síðar var staðfest af Hæstarétti, að nauðsynlegt sé að kærði sæti gæsluvarhaldi til að koma í veg fyrir að hann haldi áfram brotastarfsemi meðan málum hans er ólokið en þeim teljist ekki lokið fyrr en dómur hafi verið kveðinn upp, sbr. 106. gr. laga nr. 19/1991. Þá er vakin athygli á því mati sem komi fram í úrskurði héraðsdóms frá 7. júní sl. um að niðurstöður geðrannsóknar kærða þyki renna enn styrkari stoðum undir það mat sem komi fram í úrskurðinum frá 7. maí sl. Því verði að telja að enn sé hætta á að kærði haldi áfram sömu brotastarfsemi meðan hann ekki hafi unnið bug á vanda sínum með aðstoð sérfræðinga og því séu ekki skilyrði til að hann fari frjáls ferða sinna.
Við fyrirtöku málsins í dag andmælti kærði gæsluvarðhaldskröfunni og vísaði til þess að ofangreind mál væru ekki rekin áfram með viðunandi hætti með hliðsjón af því að kærði hefði nú þegar setið í gæsluvarðhaldi um tveggja mánaða skeið.
Lögreglurannsókn ofangreindra mála hefur dregist vegna öflunar geðrannsóknar á kærða og nú síðast vegna fyrirmæla frá ríkissaksóknara um frekari rannsókn. Liggur fyrir að dómkvaddur verður sérfróður matsmaður til þess að leggja mat á það hvort og þá að hvaða marki almannahætta hafi stafað af ætluðum brotum kærða. Samkvæmt niðurstöðum geðrannsóknar á kærða kemur meðal annars fram að kærði er með geð- og atferlisraskanir af völdum lyfja og alkóhólnotkunar og er jafnframt með geðklofalík geðrofseinkenni af völdum ofnotkunar lyfja. Fallist er á að þetta sé frekar til styrktar því mati sem fram kemur í áðurgengnum rannsóknarúrskurðum héraðsdóms og verður að telja að enn sé hætta á að kærði haldi áfram sömu brotastarfsemi og þar er fjallað um meðan hann hefur ekki unnið úr framangreindum vanda með aðstoð sérfræðinga. Eru því ekki skilyrði til að kærði sé frjáls ferða sinna. Þykir því nauðsynlegt, með vísun til c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, að kærði sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi þar til málum hans lýkur með dómi. Þykir það ekki breyta þeirri niðurstöðu þótt rannsókn málsins hafi dregist af þeim ástæðum sem áður er lýst. Krafa sýslumannsins er því tekin til greina eins og hún er fram sett enda verður með vísan til ofanritaðs talið að þargreindur tími sé innan eðlilegra marka.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Kærði, X, sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi þar til dæmt hefur verið í þeim málum, sem lögregla hefur til meðferðar á hendur honum, en þó ekki lengur en til miðvikudagsins 2. ágúst nk. kl. 16.00.