Hæstiréttur íslands

Mál nr. 57/2009


Lykilorð

  • Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
  • Akstur sviptur ökurétti


Miðvikudaginn 20

 

Miðvikudaginn 20. maí 2009.

Nr. 57/2009.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir, settur saksóknari)

gegn

Unnari Sigurði Hansen

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Akstur sviptur ökurétti.

X var ákærður fyrir umferðalagabrot með því að hafa ekið sviptur ökurétti og undir áhrifum ólöglegra ávana- og fíkniefna. Var brot hans talið varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. X hafði verið sviptur ökurétti ævilangt með dómi 12. mars 1998 fyrir umferðarlagabrot. Frá þeim tíma hafði hann margoft verið dæmdur fyrir að aka sviptur ökurétti. Var honum í samræmi við dómvenju gert að sæta fangelsi í fimm mánuði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 24. desember 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, sem hann nú hefur dregið til baka, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða en þyngingar á refsingu og staðfestingar sviptingar ökuréttar.

Ákærði unir dómi.

Ákærði er sakfelldur fyrir að hafa ekið 14. júlí 2008 sviptur ökurétti og undir áhrifum ólöglegra ávana- og fíkniefna, en farið var með málið eftir ákvæðum 125. gr. þágildandi laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Er sakarferli ákærða nægilega lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram var hann sviptur ökurétti ævilangt með dómi 12. mars 1998 fyrir brot umferðarlagabrot. Honum hafa níu sinnum frá árinu 1998, árin 2000, 2005, 2006 og 2008, verið gerð viðurlög fyrir að aka sviptur ökurétti, þar af þrisvar sinnum sekt hjá lögreglustjóra 4. ágúst 2000 auk þess að honum var ekki gerð sérstök refsing 28. september 2006 fyrir að aka sviptur ökurétti. Þegar litið er til magns fíkniefna í blóði ákærða og sakarferils hans verður honum í samræmi við dómvenju gert að sæta fangelsi í fimm mánuði.

Niðurstaða héraðsdóms um ökuréttarsviptingu og sakarkostnað verður staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Unnar Sigurður Hansen, sæti fangelsi í fimm mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um ökuréttarsviptingu og sakarkostnað eru óröskuð.

Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins 136.611 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 8. október 2008.

Mál þetta höfðaði sýslumaðurinn á Akranesi með ákæru 19. ágúst 2008 á hendur ákærða, Unnari Sigurði Hansen, kt. 170966-4659, óstaðsettum í húsi, en með dvalarstað að Torfufelli 46 í Reykjavík. Málið var dómtekið 23. september 2008.

Ákærða er gefið að sök umferðarlagabrot á Akranesi „með því að hafa mánudaginn 14. júlí 2008, um kl. 23:35, ekið bifreiðinni PS-649, sviptur ökurétti og undir áhrifum bannaðra ávana- og fíkniefna, vestur Skagabraut og Suðurgötu uns lögreglan stöðvaði aksturinn á móts við hús nr. 113 við Suðurgötu.Í blóðsýni sem tekið var úr ákærða í framhaldi af handtöku mældist 125 ng/ml af MDMA, 65 ng/ml af amfetamíni og 65 ng/ml af metamfetamíni og í þvagi greindist MDMA, metamfetamín, metýlfenídat, tetrahýdrókannabínólsýra og amfetamín. MDMA, metamfetamín, metýlfenídat, tetrahýdrókannabínólsýra og amfetamín eru í flokki ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru á íslensku forráðasvæði samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni og reglugerðum settum samkvæmt þeim.” Brot ákærða er talið varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987 með áorðnum breytingum. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, með áorðnum breytingum. 

Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið þau brot sem honum er gefin að sök í ákæru og er játning hans studd sakargögnum. Eru því efni til að leggja dóm á málið samkvæmt 125. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir brotin, sem réttilega eru færð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði er fæddur árið 1966 og á að baki óslitin sakaferill allt aftur til ársins 1985. Hefur hann samtals hlotið 31 dóm fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, umferðarlögum, vopnalögum, tékkalögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Á sakavottorði ákærða eru ekki tilgreind brot gegn 45. gr. eða 45. gr. a umferðarlaga. Hins vegar hlaut ákærði dóm 12. mars 1998 meðal annars fyrir brot gegn 44. gr. umferðarlaga og var sviptur ökurétti ævilangt. Þá hefur ákærði hlotið sex dóma og gengist undir þrjár lögreglustjórasáttir fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga frá því hann var sviptur ökurétti með fyrrgreindum dómi. 

Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin þriggja mánaða fangelsi.

Með vísan til þeirra lagaákvæða sem í ákæru greinir verður áréttuð ævilöng ökuréttarsvipting ákærða.

Samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991, verður ákærði loks dæmdur til greiðslu sakarkostnaðar eftir yfirliti lögreglu um sakarkostnað og ákvörðun dómsins um málsvarnarlaun verjanda, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem greinir í dómsorði. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða ferðakostnað verjanda samkvæmt reikningi. 

Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Unnar Sigurður Hansen, sæti fangelsi í þrjá mánuði.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.

Ákærði greiði 205.333 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar, héraðsdómslögmanns, 69.720 krónur og ferðakostnað verjandans að fjárhæð 10.450 krónur.