Hæstiréttur íslands
Mál nr. 406/2005
Lykilorð
- Ómerking
- Heimvísun
- Varnir
|
|
Fimmtudaginn 16. mars 2006. |
|
Nr. 406/2005. |
Edda Óskarsdóttir(Benedikt Ólafsson hrl.) gegn Húsfélaginu Fannborg 3, 5, 7 og 9 (Guðmundur Pétursson hrl.) |
Ómerking. Heimvísun. Varnir.
E höfðaði mál á hendur Í, K og fjórum húsfélögum, H, H1, H2 og H3, til greiðslu skaðabóta vegna slyss sem hún varð fyrir. Með héraðsdómi var kröfu á hendur H1, H2 og H3 vísað frá dómi þar sem ekki var talið að þau nytu aðildarhæfis, en Í, K og H voru sýknuð. E undi dómi að öðru leyti en að því er kröfu á hendur H varðaði. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að héraðsdómur hefði fjallað um kröfur og málsástæður H1, H2 og H3 eins og þeim væri einnig haldið fram af H, þó að húsfélagið hefði ekki skilað greinargerð í héraði. Vísað var til þess að samkvæmt 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 skuli stefndi leggja fram skriflega greinargerð vilji hann halda uppi vörnum í máli. Varð samkvæmt framansögðu ekki komist hjá að ómerkja án kröfu hinn áfrýjaða dóm að því er H varðaði og vísa málinu heim í hérað til meðferðar og dómsálagningar að nýju.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. september 2005. Hún krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.417.252 krónur með 4,5% ársvöxtum af 1.199.633 krónum frá 7. desember 1999 til 7. desember 2000 en af 2.417.252 krónum frá þeim degi til 9. mars 2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af sömu fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni var veitt í héraði.
Stefndi krefst aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður þá felldur niður.
Mál þetta var höfðað í héraði á hendur Kópavogsbæ, íslenska ríkinu, stefnda og þremur öðrum húsfélögum, Húsfélaginu Fannborg 3, Húsfélaginu Fannborg 5 og Húsfélaginu Fannborg 7-9 til greiðslu skaðabóta vegna slyss er áfrýjandi varð fyrir 7. desember 1999. Héraðsdómari vísaði frá dómi kröfu á hendur síðastnefndum þremur húsfélögum þar sem hann taldi þau ekki njóta aðildarhæfis, en sýknaði íslenska ríkið, Kópavogsbæ og stefnda af kröfu áfrýjanda á þeim grunni að þeir væru ekki skaðabótaskyldir vegna þess slyss sem áfrýjandi varð fyrir umrætt sinn. Áfrýjandi undi héraðsdómi að öðru leyti en að því er kröfu á hendur stefnda varðar.
Héraðsdómur fjallaði um kröfur og málsástæður framangreindra þriggja húsfélaga eins og þeim væri einnig haldið fram af stefnda þó að hann hafi ekki skilað greinargerð í héraði. Þrátt fyrir það var sótt dómþing af hans hálfu allt þar til málið var dómtekið. Samkvæmt 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 skal stefndi leggja fram skriflega greinargerð vilji hann halda uppi vörnum í máli. Verður samkvæmt framansögðu ekki komist hjá að ómerkja án kröfu hinn áfrýjaða dóm að því er stefnda varðar og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera ómerkur að því er varðar stefnda, Húsfélagið Fannborg 3, 5, 7 og 9, og er málinu að því leyti vísað heim í hérað til meðferðar og dómsálagningar að nýju.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 9. júní 2005.
Mál þetta var þingfest 4. desember 2002, tekið til dóms 3. maí sl. en endurupptekið og dómtekið í dag. Stefnandi er Edda Óskarsdóttir, kt. 021042-4209, Löngubrekku 20, Kópavogi. Stefndu eru húsfélagið Fannborg 3, 5, 7 og 9, Kópavogi, Húsfélagið Fannborg 3, Kópavogi, Húsfélagið Fannborg 5, Kópavogi, Húsfélagið Fannborg 7-9, Kópavogi, íslenska ríkið og Kópavogsbær.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda 2.879.623 krónur ásamt 4,5% ársvöxtum af 1.030.570 krónum frá 7. desember 1999 til 11. júní 2001, af 2.879.623 krónum frá þeim degi til 15. júlí 2001 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 422.730 krónum sem stefnandi fékk greiddar frá Tryggingastofnun ríkisins hinn 31. mars 2001.
Þess er krafist að vextir og dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti og að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda málskostnað eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Af hálfu allra stefndu húsfélaganna er aðallega krafist sýknu en til vara lækkunar á kröfum stefnanda. Í aðalkröfu er krafist málskostnaðar en í varakröfu að málskostnaður falli niður.
Af hálfu stefnda ríkisins er þess aðallega krafist að það verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og að stefnda verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda. Til vara er gerð krafa um að kröfur verði lækkaðar og að málskostnaður verði þá látinn falla niður.
Af hálfu stefnda Kópavogsbæjar er aðallega krafist sýknu og málskostnaðar en til vara að sök verði skipt í málinu og stefnukröfur lækkaðar verulega og málskostnaður felldur niður.
I.
Málsatvik eru þau að hinn 7. desember 1999 er stefnandi var að yfirgefa Heilsugæslustöðina í Kópavogi að Fannborg 7-9 á leið sinni í pósthúsið, sem þá var handan byggingarinnar að Digranesvegi 9, rann hún til í hálku á göngusvölum sem tilheyra fasteigninni. Húsin nr. 3, 5, 7, og 9 við Fannborg í Kópavogi eru eitt fjöleignarhús í skilningi laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús og sérstakt húsfélag er starfrækt í húsinu. Heilsugæslan í Kópavogi er til húsa á 1. hæð að Fannborg 7-9 en á næstu hæðum fyrir ofan eru íbúðir í eigu einstaklinga. Það húsnæði sem starfsemi heilsugæslunnar er í eiga ríkið að 85 hundraðshlutum en Kópavogsbær að 15 hundraðshlutum. Frá inngangi heilsugæslunnar liggja göngusvalir meðfram húsinu til sitthvorra handa. Steyptur handriðsveggur er á göngusvölunum og aðskilur veggurinn þær frá bifreiðastæðum. Sérstök lýsing var ekki á göngusvölunum til suðurs, þá leið er stefnandi gekk, en einhverja birtu mun hafa gætt frá gluggum heilsugæslunnar.
Tilkynnt var um slysið til lögreglu kl. 10:17 en þá var samkvæmt vottorði Veðurstofu Íslands skýjað, frost 1,3 stig og jörð alþakin jafnfallinni lausamjöll. Nóttina áður hafði verið hiti en tekið að frysta undir morgun.
Nánar bar atvikið að með þeim hætti að stefnandi var í vinnu sinni þar sem hún hafði meðal annars þann starfa að fara í Búnaðarbanka Íslands í Hamraborg og síðan á pósthúsið. Hún kvaðst að jafnaði hafa lagt bifreið sinni á bifreiðastæði við bankann og síðan gengið framhjá heilsugæslunni og áfram á umræddum göngusvölum til suðurs á leið sinni á pósthúsið. Þessa leið hafi hún oft gengið síðastliðin 11 ár. Umræddan morgun hafði hún átt erindi á heilsugæsluna og hitt þar lækni sinn, Hjört Þór Hauksson. Hún hafi verið að fara af hans fundi er slysið varð. Hafi hún verið komin nokkra metra út á göngusvalirnar á leið sinni í pósthúsið er hún hafi skyndilega tekist á loft og dottið. Myrkur hafi verið og hún ekki séð hálku á svölunum. Stefnandi kvaðst hafa getað gert vart við sig með því að banka á glugga heilsugæslunnar og kalla á hjálp. Læknir hennar Hjörtur Þór og hjúkrunarkonan Rhotalind Ingólfsdóttir hafi komið út og veitt henni fyrstu hjálp en síðan hafi sjúkrabíll komið og sótt hana. Fyrir dómi sagði Hjörtur Þór að mikil hálka hafi verið á göngusvölunum umræddan morgun og hafi hún stafað af leka meðfram niðurfallsrennum frá hæðinni fyrir ofan. Hálkuglæra hafi náð frá húsi og næstum alveg út að handriði. Ómögulegt hafi verið að sjá hálkuna vegna ónógrar lýsingar.
Rhotalind sagði að renna á húsinu hafi lekið og skæni myndast á svölunum. Myrkur hafi verið og því ómögulegt að sjá hálkuna. Aðspurð sagði Rhotalind að hún hafi unnið á heilsugæslustöðinni í þessu húsnæði frá 1980 og hafi engin slys orðið á fólki á svölunum á þessum tíma svo hún viti. Hún sagði jafnframt að hálka myndaðist alltaf á vetrum annað slagið á þessum svölum. Hafi svo verið bæði fyrir og eftir slysið.
Í lögregluskýrslu 7. desember 1999 segir að hálka hafi myndast á litlum stað þar sem vatn hafi lekið með niðurfalli frá svölum á næstu hæð fyrir ofan.
Júlíus Jónasson hefur verið formaður húsfélagsins Fannborg nr. 3, 5, 7 og 9, frá 2001. Hann sagði að ráðist hafi verið í nokkrar framkvæmdir utandyra árið 2000 og þá meðal annars skipt um rennur og húsið málað. Er slysið varð hafi ekki verið búið að stofna eitt sameiginlegt húsfélag fyrir öll húsin heldur hafi hver stigagangur verið með sér húsfélag. Á árinu 1997 hafi eitthvað viðhald farið fram á rennum húss nr. 7 og 9.
Við byltuna fór stefnandi úr ökklalið á vinstri fæti og brotnaði á ökkla. Á slysadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss í Fossvogi þurfti stefnandi að gangast undir aðgerð sama dag og var brotið rétt af og fest með plötu á innanverðum sköflungi og innanverðum sperrilegg ásamt skrúfu. Gifs var fjarlægt þann 21. janúar 2000 og 4. febrúar 2000 var skrúfa fjarlægð. Eftir þetta hefur stefnandi verið hjá sjúkraþjálfa í æfingum og í desember 2001 dvaldist hún á Heilsuhælinu í Hveragerði til að reyna að ná einhverjum bata.
Í örorkumati Júlíusar Valssonar læknis frá 11. júní 2001 segir meðal annars að stefnandi hafi verið hraust og einkennalaus fyrir slysið en eftir það hafi hún talsverð óþægindi frá vinstri ökklalið og vinstra legg. Hún sé með verki í ökklaliðnum og upp eftir fætinum sem versni við gang og stöður og göngugeta hennar sé takmörkuð. Talsverður þroti og bjúgur sæki á fótinn og þurfi hún að nota sérstakan teygjusokk. Göngugeta hennar sé stórlega skert eftir slysið og einkennin hái henni talsvert í daglegu lífi. Niðurstaða læknisins er sú að tímabundið atvinnutjón stefnanda sé 100% frá 7. desember 1999 til 1. apríl 2000. Varanlegur miski sé 20% en varanleg örorka 30%.
Málinu var skotið til örorkunefndar og í áliti hennar 25. nóvember 2003 segir meðal annars að greinilegur bjúgur sé yfir vinstri ökkla og stefnandi sé aum við þreifingu bæði yfir ökklanum miðjum og innanverðum. Hún hafi verið í fullu starfi fyrir slysið en eftir slysið hafi hún farið í 50% vinnu. Hún hafi reynt síðar að auka vinnuna í 100% en það ekki gengið og hún farið að vinna 60% vinnu. Þannig hafi hún unnið til áramóta 2002 en þá hafi hún hætt störfum utan heimilis vegna vandamála frá ökkla og astmavandamáls. Hún hafi haft stöðuga verki og óþægindi og lítið álagsþol frá ökklanum. Niðurstaða örorkunefndar er að tímabundið atvinnutjón stefnanda sé 100% frá slysdegi 7. desember 1999 til 1. apríl 2000. Varanlegur miski hennar sé 15% en varanleg örorka 20%.
Að ósk stefnanda voru dómkvaddir sem matsmenn 3. febrúar 2004 þeir Brynjólfur Jónsson bæklunarlæknir og Gísli Einarsson endurhæfingalæknir. Matsgerð þeirra er dagsett 19. janúar 2005 og er niðurstaða hennar að tímabundið atvinnutjón stefnanda sé 100% frá slysdegi til 16. apríl 2000 en 50% frá þeim degi til 7. desember 2000. Varanleg örorka stefnanda sé metin 20% og miski ennfremur 20%.
Stefnandi byggir dómkröfur sínar á því að líkamstjón hennar megi rekja til stórfellds gáleysis húseiganda og stórfellds vanbúnaðar á fasteigninni.
Stefnandi byggir dómkröfu sína gagnvart ríki og sveitarfélagi á því að þau hafi borið enn ríkari ábyrgð, nánast hlutlæga ábyrgð, á líkamstjóni stefnanda þar sem þau hafi verið með rekstur opinberra stofnanna í húsnæðinu svo sem rekstur heilsugæslustöðvarinnar og bókasafns. Þannig hafi umferð almennings verið beint um þennan gangveg þar sem stefnandi hafi slasast.
Vanbúnaður hafi verið á þakrennulögnum hússins og gangvegurinn verið óupplýstur fyrir almenning sem sé ótækt á svo fjölfarinni leið. Vatnslekastraumur hafi frosið þvert yfir gangveginn og myndað hálkubletti og slysagildu fyrir gesti og gangandi. Þessi aðbúnaður á gangstétt í kringum eignina hafi verið óforsvaranlegur og vítaverður sem stefndu beri fulla og ótakmarkaða skaðabótaábyrgð á. Ábyrgð stefndu sé þeim mun ríkari þar sem svalagangurinn sé eini gangvegurinn fyrir almenna vegfarendur sem leita þurfi eftir þjónustu á heilsugæslustöðina, bókasafnið eða pósthús. Þá þurfi gestir og íbúar hússins að fara um þennan gangveg.
Stefnandi telur stefndu hafa valdið tjóni sínu með saknæmum og ólögmætum hætti og tjónið sé sennilega afleiðing af því athafnaleysi stefndu sem vítaverður skortur á viðhaldi fasteignar sé.
Stefndu ríkið og Kópavogsbær beri ábyrgð á þeirri vanrækslu að hafa almenningsleiðir ekki greiðfærar fyrir vegfarendur. Ríkið og Kópavogsbær beri hlutlæga ábyrgð á tjóni stefnanda þar sem almenningur komist ekki hjá því að ganga eftir þessum gangvegi á leið sinni í Heilsugæslustöðina í Kópavogi og fleiri stofnanir í húsinu. Þannig sé ábyrgð þessara aðila ríkari en eiganda fasteignarinnar þar sem almenningi sé beint um þessa hættulegu gangvegi til að afla sér nauðsynlegrar þjónustu. Þessa þjónustu sé eingöngu hægt að afla sér í þessu tiltekna vanbúna húsi.
Stefnandi kveðst stefna aðallega húsfélaginu Fannborg 3-9 en öðrum húsfélögum sé stefnt ex tudo á grundvelli 54. gr. og 1. mgr. 67. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. Samkvæmt skiptasamningi og lóðarleigusamningi fyrir fasteignina Fannborg 3-9 í Kópavogi sé umræddur gangstígur í óskiptri sameign allra fasteignarinnar.
Stefnandi sundurliðar kröfu sína þannig:
„1. Stefnandi hefur fengið tímabundið atvinnutjón sitt greitt að fullu frá vinnuveitanda.
2. Þjáningabætur: Stefnandi var veik í skilningi 3. gr. skaðabótalaga í 131 dag frá slysdegi, þar af rúmliggjandi í 7 dag eftir slysið
og síðan veik með fótaferð í 124 daga. Viðmiðunarfjárhæðir þjáningarbóta skv. 3. gr. hefur hækkað miðað við breytingar á vísitölu
sbr. 2.mgr. 15. gr. skaðabótalaga.
7 dagar rúmliggjandi x kr. 1.830,- kr. 12.810,-
124 dagar án rúmlegu x kr. 830,- kr. 122.760,-
Samtals kr. 135.570,-
3. Varanlegur miski sbr. 4. gr. skaðabótalaga. Miskinn hefur verið metinn 20%.
Viðmiðunarfjárhæð miska skv. 4. gr. hefur hækkað
miðað við breytingar á grunnvísitölu skaðabótalaga (3282) til vísitölu í des 2000 (3990), sbr. 1. mgr. 15. gr. skaðabótalaga.
Varanlegur miski 4.474.00,- x 20% kr. 895.000,-
4. Tekjuviðmiðun vegna varanlegrar örorku er skv. 5. gr. skbl, en skv. 3. mgr. 7. gr. eru lágmarkslaun skv. tilvitnaðri grein kr. 1.459.000,-. Varanleg örorka hefur verið metin 20%.
Launaviðmiðun skv. 7. gr. hefur hækkað miðað við breytingar á lánskjaravísitölu frá slysdegi (3817) til vísitölu í 7. des. 2000, þ.e. þegar stöðuleikapunktur lá fyrir skv. örorkumati (3990), skv. 2. mgr. sbr. 1. mgr. 15. gr. skaðabótalaga.
Að viðbættum 6% framlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð kr. 87.600,-.
Árslaun kr. 1.459.000,- x 6,037 x 20% + 87.600 kr. 1.849.053,-
Þjáningabætur kr. 135.570,-
Varanlegur miski kr. 895.000,-
Varanleg örorka kr. 1.849.053,-
Samtals kr. 2.879.623,-
Stefnandi fékk greiddar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins kr. 422.730,-
hinn 31. marz 2001 sem koma til frádráttar kröfunni á þeim degi.
Krafist er 4,5% vaxta vegna varanlegs miska og þjáningarbóta skv. 16. gr. skbl. frá tjónsdegi þann 7. desember 1999 til 11. júní 2001 sem er upphafsdagur metinnar örorku. Vextir reiknast af samanlagðri fjárhæð þjáningarbóta, varanlegs miska og varanlegar örorku frá þeim degi til 15. júlí 2001, en þá var liðinn einn mánuður frá því að örorkumatið barst stefndu. Krafizt er dráttarvaxta frá þeim tíma.“
II.
Stefndu húsfélögin byggja á því að stefnandi hefði með eðlilegri aðgæslu auðveldlega getað komið í veg fyrir slysið. Hún hafi verið kunn aðstæðum og hafnað sé því að lýsingu hafi verið ábótavant. Stórir gluggar séu á heilsugæslunni fyrir framan þann stað er slysið varð. Þessir gluggar gefi góða birtu. Engin skylda hvíli á húseigendum að lýsa sérstaklega upp gönguleiðir eins og þær sem hér um ræðir.
Samkvæmt vottorði veðurstofu hafi snjór verið yfir öllu og frost þannig að vegfarendur hafi mátt gera ráð fyrir hálkublettum hvar sem var. Umrædd gönguleið sé opin fyrir úrkomu og því geti hálkublettir auðveldlega myndast á henni óháð tilfallandi leka úr rennum hússins. Fyllsta ástæða hafi því verið til að sýna varkárni. Í lögregluskýrslu komi fram að hálka hafi myndast á litlum stað og það hafi gerst nýlega. Því sé skiljanlegt að ekki hafi verið búið að grípa til einhverra ráðstafana vegna hennar. Auk þess séu veðurskilyrði á Íslandi þannig yfir vetrarmánuðina að hálka geti myndast mjög skyndilega og því verði þeir er hér búa alltaf að vera viðbúnir því.
Því er mótmælt að ástand rennanna hafi verið á þann veg að talist geti saknæmur vanbúnaður af hálfu stefndu. Lögð sé áhersla á að útilokað sé að koma í veg fyrir leka af því tagi sem hér um ræðir.
Verði ekki fallist á ofangreind sjónarmið er samt sem áður krafist sýknu á eftirfarandi forsendum. Það húsnæði sem Heilsugæslustöðin í Kópavogi sé í sé 85% eign ríkissjóðs og 15% eign Kópavogskaupstaðar. Þessir aðilar beri því fjárhagslega ábyrgð á rekstri stöðvarinnar þar með talið hugsanlega skaðabótaábyrgð. Heilsugæslustöðin sé opinber stofnun sem stefni til sín fólki til að sinna lögbundinni þjónustu sinni og því hljóti forráðamenn hennar að þurfa að sjá til þess að aðgengi sé forsvaranlegt. Tvímælalaust hvíli ríkari ábyrgð að þessu leyti á forsvarsmönnum heilsugæslunnar en hinum ýmsu eigendum íbúða í húsinu. Sú staðreynd að heilsugæslan sé til húsa þarna leiði óhjákvæmilega til mun meiri umferðar um svæðið en annars væri. Ábyrgð heilsugæslustöðvarinnar ætti því að vera meiri. Heilsugæslan og umræddur svalagangur tilheyri húsinu nr. 7-9 við Fannborg í Kópavogi enda heilsugæslan þar til húsa. Það sé víðsfjarri inngangi húsanna nr. 3 og 5. Þó svo að í lóðarleigusamningi komi fram að sameiginleg lóð sé fyrir eignirnar Fannborg 3-9, Kópavogi hljóti að verða að líta til þess að samkvæmt gögnum frá Hagstofu Íslands hafi húsfélögin 3 og 5, Kópavogi hvort um sig sína kennitölu og séu því sjálfstæðar persónur að lögum. Það sama gildi um húsfélagið 7-9 í Kópavogi. Hvert húsfélag um sig hafi sína vátryggingu og hvert húsfélag hafi sjálfstæðan fjárhag. Þeir sem eigi erindi að Fannborg 3 og 5 þurfi ekki að nota umræddan svalargang og fyrir liggi að rennurnar sem eiga að hafa lekið tilheyri húsinu Fannborg 7-9.
Varakröfu sína um lækkun byggir stefndi í fyrsta lagi á því að verði ekki fallist á sýknukröfuna hljóti stefnandi að verða að bera meginhluta tjónsins sjálf vegna eigin sakar.
Stefnukröfum er mótmælt sem of háum og vísast til kafla IV. varðandi umfjöllun um það atriði.
III.
Stefndi ríkið gerir athugasemdir við fyrirsvar og aðild. Í málinu hafi stefnandi stefnt fjórum húsfélögum. Þá hafi hún stefnt Heilsugæslustöðinni í Kópavogi og þar til fyrirsvars fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherra. Ríkinu sé ekki stefnt vegna hinna stefndu húsfélaga enda ekki fyrirsvari fyrir þau. Í málinu virðist stefnandi ekki stefnda eigendum fasteignarinnar nema að hluta. Heilsugæslan í Kópavogi sé ekki sem stofnun eigandi þessa húsnæðis heldur ríkissjóður og Kópavogsbær. Taka beri þó fram að stefnandi lýsi því þannig í stefnu að hún beini kröfum sínum að ríkinu. Kröfugerð, fyrirsvar og aðild málsins kunni því að vera vanreifuð að frávísun varði, sbr. 17., 18. og 80. gr. laga nr. 91/1991.
Þá krefst stefnda ríkið sýknu vegna aðildarskorts sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 þar sem Heilsugæslunni í Kópavogi sé ekki stefnt sem eiganda þess húsnæðis sem hún sé starfrækt í. Samkvæmt framlögðum gögnum sé ríkissjóður og Kópavogsbær eigendur að þeim eignarhluta sem heilsugæslan sé starfrækt í í tilteknum hlutföllum. Verði talið að ríkinu sé réttilega stefnt fyrir hönd Heilsugæslunnar í Kópavogi er á því byggt að bótakröfum í dómsmálum verði ekki beint að henni einni heldur sé nauðsyn á að beina henni að öllum eigendum. Umrædd húsfélög geti tæplega átt aðild að málinu, sbr. til hliðsjónar 54. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994. Þá bendir stefnda ríkið einnig á að það geti ekki borið ábyrgð á gatnakerfi meðstefnda Kópavogsbæjar verði talið að umrætt svæði tilheyri því.
Stefnda ríkið bendir á að ríki og Kópavogsbær séu þinglýstir eigendur að afmörkuðum eignarhluta í Fannborg 7 og 9, Kópavogi þar sem Heilsugæslustöðin í Kópavogi sé hýst og starfrækt. Samkvæmt yfirlýsingu frá 10. maí 1978 sé eignarhald ríkisins 85% og Kópavogsbæjar 15% af þessum eignarhluta, sbr. þá fyrirmæli laga nr. 56/1973 en nú 18. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990. Verði stefndi ekki sýknaður vegna aðildarskorts hljóti málssóknin að þurfa að beinast að öllum eigendum húseignanna sameiginlega. Ekki verði annað ráðið af lóðarleigusamningi og yfirlýsingum um eignarskipti en að eigendur hafi haft sameiginleg umráð og réttindi í allri sameign, þar á meðal gönguleiðum, tröppum og þessháttar en þetta göngusvæði geti ekki talist hluti af sérgreindum eignarhluta heilsugæslunnar.
Stefndi mótmælir því að aðstæður og búnaður við húsið hafi verið óforsvaranlegar eða til þess fallinn að skapa hættulegar eða vítaverðar aðstæður. Aðstæður og aðbúnaður hafi að öllu leyti verið í samræmi við það sem almennt tíðkist við sambærilegar kringumstæður. Hálka hafi getað myndast á svölunum eins og annars staðar á þessum árstíma þegar komið sé fram í desember. Frost hafi verið í veðri og hálka víða og snjór. Við þessar aðstæður hafi stefnandi þurfti að fara sérstaklega varlega og hafi hún mátt búast við hálku á vegi sínum á höfuðborgarsvæðinu hvar sem hún færi utandyra. Sérstaklega hafi hún þurft að gæta sín þar sem skuggsýnt var.
Stefndi mótmælir því að ætlað tjón stefnanda megi á einhvern hátt rekja til ásetnings eða gáleysis húseiganda eða vanbúnaðar á fasteigninni. Því sé skilyrði skaðabótaskyldu ekki fullnægt. Niðurföllum sé ekki ætlað að koma í veg fyrir hálkumyndun og geti það ekki enda myndist hálka víða á gönguleiðum nærri húsum sökum veðurfars. Í raun skipti engu máli hvernig hálka myndist. Á þessum göngusvölum geti fallið úrkoma, snjór eða rigning og geti því hálka myndast eins og annars staðar utandyra. Þá sé ósannað að það hafi verið niðurföllunum um að kenna að hálka myndaðist eða að niðurföllin hafi verið í ósamræmi við lög eða byggingarreglugerð. Vegfarendum beri að sýna sérstaka aðgæslu þegar hálka sé á vegum og gangstígum og velja þær leiðir sem séu greiðar og upplýstar. Stefnandi hafi átt þess kost að ganga aðra leið að pósthúsinu, á upplýstu svæði með því að fara niður tröppurnar framan við aðalinnganginn. Hún hafi oft farið þessa leið og þekkt aðstæður.
Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir saknæmri og ólögmætri háttsemi af hálfu stefnda. Slík sönnun hafi ekki tekist. Stefnandi hafi ekki sannað að vitað hafi verið um sérstaka hættu á greindum stað af hálfu húseiganda. Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á og byggi heldur ekki á að bygging, búnaður eða ástand fasteignarinnar hafi verið í ósamræmi við lög og reglur. Beri því að sýkna stefnda ríkið af kröfum stefnanda. Sýknukrafan er einnig byggð á því að tjón stefnanda megi rekja til óhappatilviljunar.
Stefnukröfum er mótmælt sem of háum og vísast til kafla IV. varðandi umfjöllun um það atriði.
IV.
Sýknukrafa stefnda Kópavogsbæjar er á því byggð að slys stefnanda sé ekki sök stefnda eða starfsmanna hans en megi rekja til eigin sakar stefnanda sjálfs. Stefndi Kópavogsbær sé aðeins eignaraðili að þeim sérgreinda eignarhluta af fasteigninni Fannborg 7-9 sem tilheyri Heilsugæslunni í Kópavogi en sé ekki eignaraðili að fasteigninni að öðru leyti. Eignarhluti fasteignarinnar á hæðinni fyrir ofan, þaðan sem vatnið lak, sé í eigu annarra aðila en stefnda. Geti stefndi Kópavogsbær því ekki borið ábyrgð á þessum niðurfallsbúnaði eða slysum sem rekja megi til hans.
Þá hafi stefndi ekki með lýsingu göngusvalanna að gera eða hálkueyðingu á þeim. Þessar göngusvalir tilheyri ekki gangstéttakerfi bæjarins. Það hafi verið í verkahring sameigenda svalanna eða viðkomandi húsfélaga að sjá um þessa þætti. Við inngang að heilsugæslunni hafi hins vegar verið góð lýsing. Ósannað sé að ástand göngusvalanna hafi verið sameigendum saknæmt í skilningi skaðabótaréttar enda hafi aldrei verið kvartað vegna ástands þeirra. Sú skylda verið ekki lögð á stefnda að lýsa sérstaklega upp göngusvalir við hús eða halda þeim ávallt fríum við hálkubletti enda yrði slíkt ógerlegt eins og veðurfari á Íslandi sé háttað.
Stefndi mótmælir því að hann beri hlutlæga ábyrgð á líkamstjóni stefnda. Lagaheimild og dómvenjur skorti til að leggja hlutlæga ábyrgð á stefnda.
Stefndi telur aftur á móti að stefnandi eigi sjálf sök á slysinu. Hún hafi verið staðkunnug á svæðinu og hafi henni því mátt vera ljósar allar aðstæður á göngusvölunum þar sem hún datt. Rökkur og snjór hafi verið úti og hálka á göngusvölunum og gangstéttum. Göngusvalirnar séu opnar fyrir veðri og úrkomu og því megi almennt ekki reikna með að þar væri hálkulaust frekar en annars staðar í bænum. Þá hljóti hálkubletturinn, sem stefnandi kveðst hafa runnið á, að hafa verið sýnilegur þar sem birtu hafi lagt frá gluggum heilsugæslustövarinnar.
Verði ekki fallist á sýknu byggir stefndi varakröfu sína á því að skipta beri sök í málinu og lækka stefnukröfur.
Undir rekstri málsins tók kröfugerð stefnanda nokkrum breytingum. Í málflutningi flutti lögmaður stefnda Kópavogsbæjar málið varðandi bótaþáttinn f.h. allra stefndu. Gerði hann eftirfarandi athugasemdir varðandi endanlega kröfugerð stefnanda:
,,Laun stefnanda voru lág árinu fyrir slys eða kr. 736.433 árið 1997 og kr. 782.969, árið 1998. Ber því að miða við lágmarkslaun skv. 3. mgr. 7. gr. skbl. uppreiknuð til stöðugleikadags, kr. 1.459.000, sbr. niðurstöðu HR í máli nr. 363/2003. Ekki ber að bæta við 6% lífeyrissjóðsframlagi, sbr. dóm HR í máli nr. 223/2003.
Þjáninga- og miskabætur miðast við verðlag í maí 2005. Vextir reiknast til 2. maí 2005. Dráttarvextir koma ekki til greina fyrr en frá dómsuppsögudegi, en örorkumat dómkvaddra matsmanna lá ekki fyrir fyrr en 19. janúar 2005 og endanleg kröfugerð ekki fyrr en 2. maí 2005. Örorkubætur Tryggingastofnunar ber að draga frá höfuðstól örorkubóta, en ekki sem innborgun inn á bætur.
Þjáningabætur skv. 3. gr. 139.710
Dagar rúmliggjandi 7 x 1.890 kr. 13.230
Dagar án rúmlegu 124 x 1.020 kr. 126.480
Vextir 4,50% 37.571
Varanlegur miski skv. 4. gr. 1.067.100
Varanlegur miski 5.535.500 x 20% 1.067.100
Vextir 4,50% 286.965
Varanleg örorka skv. 5. - 8. gr. 1.217.769
Árslaun kr. 1.459.000 x 5.62200 x 20% 1.640.499
Örorkubætur tryggingastofnunar -422.730
Vextir 4,50% 260.762
_______________
Samtals: 2.424.579
Vextir skv. 16. gr. 585.298
Heildarbætur er skerðist í hlutfalli við eigin sök: 3.009.877”
V.
Í málinu er Húsfélaginu Fannborg 3, 5, 7 og 9 stefnt aðallega, eins og segir í stefnu, en húsfélagi í hverjum stigagangi fyrir sig er stefnt ex tudo, eins og segir í stefnu. Þá er fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherra stefnt fyrir hönd Heilsugæslunnar í Kópavogi eins og segir í upphafi stefnu þar sem aðild er tilgreind. Síðar í stefnu er þessi aðild skilgreind þannig að ráðherrunum sé stefnt fyrir hönd ríkisins og verður við það miðað. Þá er Kópavogsbæ stefnt og er aðild Kópavogsbæjar og ríkis skýrð þannig að þeir séu eigendur Heilsugæslunnar í Kópavogi og beri því ríkari ábyrgð en aðrir stefndu á tjóni stefnanda.
Í 54. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús segir að ábyrgð eiganda út á við gagnvart kröfuhöfum húsfélags á sameiginlegum skyldum og skuldbindingum sé persónuleg og sé ábyrgðin solidarísk. Ábyrgð eigenda er einnig bein, en þó skal kröfuhafi, áður en hann beinir kröfu að einstökum eiganda, fyrst reyna fá hana greidda af húsfélaginu. Dómur á hendur húsfélagi er aðfararhæfur gagnvart einstökum eigendum ef þeir hafa átt þess kost að gæta réttar síns.
Í 56. gr. segir að húsfélög séu til í öllum fjöleignarhúsum í krafti ákvæða laganna, sbr. 3. mgr. 10. gr. og þarf ekki að stofna þau sérstaklega eða formlega. Í 2. mgr. 56. gr. segir að réttindi og skyldur til þátttöku í húsfélagi séu órjúfanlega tengd eignarrétti að einstökum eignarhlutum. Í 2. mgr. 71. gr. segir að húsfélag geti verið aðili að dómsmáli bæði til sóknar og varnar.
Óumdeilt er að Fannborg 3, 5, 7 og 9 telst eitt fjöleignarhús í skilningi laganna og er þar starfrækt húsfélag. Formaður þess húsfélags kom fyrir dóm og staðfesti tilvist og starfsemi félagsins. Samkvæmt því telst aðild rétt hvað varðar Húsfélagið Fannborg 3, 5, 7 og 9. Öðru máli gegnir um aðild húsfélaga einstakra stigaganga því lög um fjöleignarhús gera ekki ráð fyrir nema einu húsfélagi í húsi sem skilgreint er sem fjöleignarhús. Stefndu Húsfélagið Fannborg 3, Húsfélagið Fannborg 5 og Húsfélagið Fannborg 7-9 eru því ekki persónur að lögum sem geta átt réttindi og borið skyldur, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málið er því vanreifað af hendi stefnanda að þessu leyti og er því óhjákvæmilegt að vísa sjálfkrafa frá dómi kröfu hennar á hendur ofangreindum húsfélögum.
Heilsugæslan í Kópavogi er ekki eigandi að eignarhluta í fjöleignarhúsinu heldur er það stefnda ríkið og stefndi Kópavogsbær sem eiga það húsnæði er hýsir heilsugæsluna, ríkið að 85 hundraðshlutum en Kópavogsbær 15 hundraðshlutum. Þessir stefndu eru því eigendur að séreignarhluta í heildareigninni, sbr. 4. gr. fjöleignarhúsalaga og fylgir eignarhluta þeirra skyldur og réttindi eftir hlutfallstölum.
Stefnandi hefur stefnt þessum stefndu sérstaklega á þeim grunni að þeir beri ríkari ábyrgð en aðrir stefndu, jafnvel hlutlæga ábyrgð. Þessi málatilbúnaður verður ekki talinn annmörkum háður og verður að játa stefnanda heimild til að reisa kröfur á hendur stefndu á fleiri en einum grunni bæði er varðar aðild og málsástæður. Enda er krafa á hendur húsfélaginu reist á almennu skaðabótareglunni en krafa á hendur ríki og Kópavogsbæ á sjónarmiðum um hlutlæga bótaábyrgð.
Slysið varð 7. desember 1999 um klukkan 10:00 um morgun. Lögregla fór á vettvang og í skýrslu hennar segir að stefnandi hafi dottið á litlum hálkubletti sem hafi myndast á göngusvölunum vegna leka frá vatnsrennu. Í málinu hafa verið lagðar fram ljósmyndir er teknar voru á vettvangi tveimur dögum eftir slysið og dómari fór á vettvang og skoðaði aðstæður fyrir aðalmeðferð. Samkvæmt vottorði Veðurstofu Íslands var þíða daginn áður en tók að frysta undir morgunn þann 7. desember. Jörð var þá alþakin jafnfallinni lausamjöll.
Fram hefur komið að stefnandi var að fara sína venjulegu leið sem hún hafði margoft farið um ellefu ára skeið á vegum vinnu sinnar. Þá fór hún í Búnaðarbanka Íslands og á pósthúsið og lagði að jafnaði bifreið sinni hjá bankanum og gekk síðan á pósthúsið. Þá lá leið hennar framhjá anddyri Heilsugæslunnar í Kópavogi og til suðurs meðfram húsinu á hinum umræddu göngusvölum þar sem slysið varð. Í þetta skipti átti hún erindi á heilsugæsluna. Er því erindi lauk gekk hún út á göngusvalirnar til suðurs og hafði ekki gengið lengi meðfram húsinu er hún féll með fyrrgreindum afleiðingum. Hún sagðist ekki hafa séð hálkuna og engin sérstök lýsing var þá á þessari leið. Steyptur handriðsveggur er á göngusvölunum. Vitnin tvö, Hjörtur Þór Hauksson og Rhotalind Ingólfsdóttir, sögðu að myrkur hafi verið og ómögulegt að sjá hálkuna. Rhotalind sagði jafnframt að engin slys hafi áður orðið á fólki á þessum stað svo hún viti en hún hafði starfað hjá heilsugæslunni í þessu húsi frá árinu 1980. Hún sagði að hálka myndaðist alltaf annað slagið á göngusvölunum yfir vetrarmánuðina. Komið hefur fram að núna er þessi leið upplýst.
Við mat á bótaábyrgð verður að taka tillit til að stefnandi hafði margoft farið þessa leið og gjörþekkti því aðstæður. Þó lekið hafði frá vatnsrennu og hálka vegna þess myndast voru það svipaðar aðstæður og við mátti búast utandyra í desember en umræddar göngusvalir standa opnar fyrir veðri. Ekki er í ljós leitt að stefndu hafi mátt vita af einhverri sérstakri slysahættu á göngusvölunum. Það er því mat dómsins að aðstæður hafi ekki verið með þeim hætti að lögð verði bótaskylda á stefndu. Verður talið að rekja megi tjón stefnanda til óhappatilviks.
Allir stefndu verða því sýknaðir af kröfum stefnanda enda standa hvorki lög né dómvenja til þess að dæma stefnda ríkið og stefnda Kópavogsbæ á grundvelli hlutlægrar skaðabótaábyrgðar.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður milli aðila.
Stefnandi hefur gjafsókn í málinu. Gjafsóknarkostnaður hennar, sem er þóknun lögmanns hennar, Elinborgar J. Björnsdóttur hdl., 450.000 krónur auk virðisaukaskatts að fjárhæð 110.250 krónur og útlagður kostnaður að fjárhæð 349.900 krónur, eða samtals 910.150 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Ekki er unnt að taka til greina þingfestingar- og stefnubirtingarkostnað stefnanda í máli er áður var höfðað en fellt niður af hálfu stefnanda.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
DÓMSORÐ:
Vísað er frá kröfu stefnanda, Eddu Óskarsdóttur, á hendur stefndu, Húsfélaginu Fannborg 3, Húsfélaginu Fannborg 5 og Húsfélaginu Fannborg 7-9.
Stefndu, Húsfélagið Fannborg 3, 5, 7 og 9, íslenska ríkið og Kópavogsbær, skulu vera sýkn af kröfum stefnanda í þessu máli.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda samtals að fjárhæð 910.150 krónur greiðist úr ríkissjóði.