Hæstiréttur íslands
Mál nr. 634/2013
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 27. nóvember 2014. |
|
Nr. 634/2013.
|
Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari) gegn Róberti Erni Jónssyni (Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl. Jón Haukur Hauksson hdl.) (Einar Gautur Steingrímsson hrl. réttargæslumaður) |
Kynferðisbrot. Börn. Skaðabætur.
R var sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn A, sem þá var 14 ára gamall, með því að hafa í gufuklefa sundlaugar berað kynfæri sín og fróað sér fyrir framan A og er A ætlaði að ganga út úr gufuklefanum gripið um axlir A og káfað á kynfærum A utanklæða og boðið honum munnmök. Var brot R talið varða við 2. mgr. 202. gr. og 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá var R á grundvelli játningar einnig sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 210. gr. a. sömu laga fyrir vörslur ljósmyndar og hreyfimynda á tölvu sem sýndu börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt. Við ákvörðun refsingar var litið til 5. tölul. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Var refsing R ákveðin fangelsi í átta mánuði og honum gert að sæta upptöku á tölvu. Þá var R gert að greiða A 600.000 krónur í skaðabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 5. september 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu af fyrri lið ákæru, en til vara að refsing verði milduð vegna þeirra sakargifta. Jafnframt krefst hann að refsing verði milduð fyrir brot samkvæmt síðari lið ákæru. Þá krefst ákærði þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, til vara sýknu af henni, en að því frágengnu að hún verði lækkuð.
A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 800.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi hefur ákærði neitað að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í fyrri lið ákæru. Í dóminum er reifað það sem kom fram hjá fjölmörgum vitnum, þar á meðal brotaþola, er skýrslu gáfu meðan á rannsókn málsins stóð og við meðferð þess fyrir dómi. Með skírskotun til framburðar þessara vitna fyrir dómi, sem hefur stoð í skýrslum þeirra hjá lögreglu svo og í myndum úr öryggismyndavélum, er fallist á röksemdir héraðsdóms fyrir því að ákærði hafi brotið af sér gegn brotaþola á þann hátt sem lýst er í umræddum ákærulið. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Í 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er mælt fyrir um að dómur skuli reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Af þessari meginreglu leiðir að því aðeins á að vísa í dómi til framburðar ákærða og vitna hjá lögreglu að þess sé þörf, til dæmis vegna ósamræmis milli þess sem þar kemur fram og framburðar fyrir dómi. Á sama hátt fer það gegn reglunni að vísa í röksemdum fyrir dómsniðurstöðu til munnlegra skýrslna sem gefnar hafa verið hjá lögreglu nema sérstök ástæða gefi tilefni til. Þessa var ekki gætt í hinum áfrýjaða dómi og er það aðfinnsluvert.
Það athugast að héraðsdómi var sem fyrr greinir áfrýjað 5. september 2013. Málsgögn bárust Hæstarétti á hinn bóginn ekki fyrr en 20. ágúst 2014. Á þessari miklu töf hefur enginn skýring komið fram, en í ljósi þess tíma sem rekstur málsins hefur tekið í heild eru ekki næg efni til að láta þetta hafa áhrif á ákvörðun viðurlaga.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Róbert Örn Jónsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 896.062 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hæstaréttarlögmanns, 622.500 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Einars Gauts Steingrímssonar hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 15. júlí 2013.
Mál þetta var höfðað með birtingu ákæru ríkissaksóknara þann 13. maí 2013, á hendur Róberti Erni Jónssyni, kt. [...], [...] en með dvalarstað að [...] í [...], fyrir eftirtalin kynferðisbrot framin miðvikudaginn 6. mars 2013 í Sundmiðstöðinni við [...] í [...]:
- Kynferðisbrot gegn A, kennitala [...], þá 14 ára gömlum, með því að hafa í gufuklefa Sundmiðstöðvarinnar berað kynfæri sín og fróað sér fyrir framan A og er A ætlaði að ganga út úr gufuklefanum greip ákærði um axlir hans og káfaði á kynfærum A utanklæða og bauð honum munnmök.
Telst þetta varða við 2. mgr. 202. gr. og 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
- Kynferðisbrot með því að hafa haft í vörslu sinni eina ljósmynd og 5 hreyfimyndir á tölvu sem sýndu börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt. Lögregla haldlagði framangreind gögn í tölvu sem fannst í farangri ákærða.
Telst þetta varða við 1. mgr. 210. gr. a almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einnig er þess krafist að ákærði sæti upptöku á tölvu (munur 375528) samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga, sbr. ákærulið 2.
Einkaréttarkrafa.
Af hálfu B, kt. [...], vegna ólögráða A, kt. [...], er krafist að ákærða verði gert að greiða miskabætur samtals að fjárhæð kr. 800.000,- auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 6. mars 2013 þar til mánuður er liðinn frá birtingu skaðabótakröfunnar, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
Ákærði neitaði sök vegna ákæruliðar 1 og krafðist sýknu. Þá mótmælti hann bótakröfunni. Ákærði játaði við þingfestingu málsins háttsemi samkvæmt ákærulið 2 og krefst vægustu refsingar vegna þeirrar háttsemi. Ákærði samþykkti upptökukröfu ákæruvaldsins.
Aðalmeðferð málsins hófst 5. júní sl. og var framhaldið þann 19. júní sl. og var málið tekið til dóms að henni lokinni.
Málavextir.
Upphaf máls þessa er að þann 6. mars var óskað aðstoðar lögreglu að Sundmiðstöðinni við [...] í [...] vegna manns er hafði leitað á ungan dreng þar. Var ákærði handtekinn í kjölfar þess og færður á lögreglustöð. Var blóðsýni tekið úr ákærða og mældist í honum alkóhól 2,22 prómill og tetrahýdrókannabínól 0,8 ng/ml. Var ákærði yfirheyrður daginn eftir þegar víman var runnin af honum. Í framhaldi var tölva ákærða haldlögð og rannsökuð þar sem þau gögn fundust sem ákært er fyrir í ákærulið 2. Neitaði ákærði strax hjá lögreglu að hafa verið einn í gufubaði og ekki spjallað við neinn þar.
Fyrir liggur að nokkrir unglingar voru í sundi á sama tíma og ákærði. Kemur fram á myndum úr upptökukerfi Sundmiðstöðvarinnar að ákærði er í sama heita potti og nokkrir unglingar. Þá lýsti fjöldinn af unglingum því að ákærði hafi verið í gufubaði ásamt brotaþola og tveir unglingar urðu vitni að því að brotaþoli varð einn eftir í gufunni með ákærða.
Lýsti brotaþoli því strax fyrir félögum sínum, að maður hefði káfað á sér í gufuklefanum, er hann kom aftur í heita pottinn til þeirra. Í beinu framhaldi fór brotaþoli til starfsmanns og sagði frá atvikinu. Í kjölfar var hringt í lögregluna sem handtók ákærða á staðnum.
Barnaverndarnefnd [...] kærði háttsemina til lögreglu með bréfi þann 7. mars sl.
Skýrslur aðila og vitna fyrir lögreglu og dómi.
Verða nú raktar skýrslur ákærða og vitna fyrir lögreglu og dómi eftir því sem ástæða þykir til.
Ákærði neitaði sök hjá lögreglu og kvaðst aldrei hafa verið einn í gufuklefanum með brotaþola og ekki hafa rætt við neinn þar.
Ákærði kvaðst fyrir dóminum hafa farið í sund umræddan dag og ekki átt samskipti við nokkra manneskju nema stúlkuna í afgreiðslunni þegar hann kom í Sundmiðstöðina. Kvaðst hann hafa farið nokkrum sinnum í gufuna, hann hafi í eitt skipti verið einn í gufunni en þar hafi líka komið hópur fólks, bæði ungt fólk og eldra fólk. Neitaði ákærði að hafa verið einn í gufunni með nokkrum eða að hafa sýnt af sér kynferðislega háttsemi. Þá neitaði ákærði því að hafa verið með bendingar til krakka á staðnum um að koma í gufuna. Ljósmyndir prentaðar úr eftirlitskerfi Sundmiðstöðvarinnar voru bornar undir ákærða. Mótmælti hann því að mynd sýndi að honum risi hold, frekar væri um brot í buxum að ræða. Þá sagði hann það tilviljun ef fætur hans hafa snert einhverja í heitu pottunum, hann hafi ekki verið að reyna að hafa samskipti við einn né neinn. Ákærði kvaðst ekki hafa hneigð til ungra drengja. Þá sagði hann það barnaefni sem fannst í tölvu hans hafa verið sótt fyrir löngu og hann ekki skoðað það í langan tíma.
Skýrsla var tekin af brotaþola 11. mars sl. í Barnahúsi. Lýsti brotaþoli því að hann stundaði og æfði sund á hverjum degi og væri mikill íþróttamaður. Brotaþoli kvaðst aðspurður vera kominn í Barnahús í skýrslutöku af því að maður hafi reynt að nauðga sér. Kvað hann að í umrætt sinn hafi hann verið nýbúinn á æfingu og krakkarnir farið í pottinn eins og vanalega til að slaka á og róa vöðvana. Þau hafi síðan ákveðið að fara í gufubað. Þau hafi verið mjög mörg í gufunni og krakkarnir síðan farið aftur út í pott en hann ákveðið að vera aðeins lengur og slaka á. C, vinkona hans, hafi komið inn aftur og spurt hann hvort hann væri ekki að koma og hann svarað því að hann ætlaði að liggja aðeins lengur. Hann hafi þá verið einn eftir í klefanum ásamt tveimur öðrum mönnum. Fljótlega hafi annar maðurinn farið út úr gufuklefanum en brotaþoli ákveðið að liggja í um fimm mínútur í viðbót og slaka á. Hann hafi síðan reist sig upp og þá hafi maðurinn farið að tala við sig og sagt eitthvað um það hvað væri „djöfull“ heitt þar inni. Brotaþoli kvaðst hafa svarað með jái og síðan staðið upp og ætlað að fara en maðurinn sagt eitthvað sem hann hafi ekki heyrt. Þegar brotaþoli var að standa upp hafi hann tekið eftir því að maðurinn hafi verið að runka sér. Hann hafi farið með höndina inn fyrir sundbuxurnar á sér og tekið liminn út fyrir sundbuxurnar. Brotaþola hafi fundist það mjög óviðeigandi og talið að hann væri að sjá eitthvað vitlaust vegna hitans inni. Þegar brotaþoli var að ganga út hafi maðurinn sprottið upp, gengið upp að honum, sett handlegginn yfir axlirnar á brotaþola og gripið í klofið á honum utanklæða og spurt hann, eins og um boð hafi verið að ræða, hvort ekki mætti bjóða honum tott. Brotaþoli kvaðst ekki hafa áttað sig á því hvort maðurinn var að bjóðast til að totta brotaþola eða bjóða brotaþola að totta sig. Brotaþoli hafi „sjokkerast“ og ekki vitað hvað hann ætti að gera. Hann hafi svo ýtt við manninum, sagt nei við hann og farið út í heita pottinn og sagt krökkunum hvað hafði gerst. Brotaþoli kvaðst hafa fengið „svona sjokk“ og ekki vitað hvernig sér leið. Að áeggjan vinna sinna, svo og að honum hafi fundist að maðurinn ætti ekki að komast upp með þetta, hafi hann farið til sundlaugarvarðar og skýrt frá þessu. Á meðan beðið var eftir lögreglu hafi brotaþoli farið að titra og ekki getað hætt því. Þegar hann hafi séð lögregluna hafi hann brotnað saman og farið að gráta. Honum hafi liðið eins og að það hafi verið búið að brjóta algjörlega á sér. Brotaþoli lýsti manninum sem þybbnum, með hár á bringu og maga, með úfið svart hár og hliðartopp en hárið rakað upp með eyranu. Hann hafi verið með sérkennileg armbönd, sem virtust vera fléttuð úr leðri með einhverjum svörtum og hvítum kubbum á. Þá hafi hann verið í svörtum sundbuxum eða sundskýlu.
Aðspurður kvaðst brotaþoli eiga erfitt með að sofa á nóttunni eftir þetta því að atvikið komi alltaf upp í kollinum á honum. Honum líði mjög illa eftir þetta og það hafi verið mjög erfitt að fara aftur á æfingar því hann hafi verið óöruggur um það hvernig aðrir myndu bregðast við eftir atvikið. Þá þyki honum mjög erfitt að fara í skólann.
Brotaþoli teiknaði í Barnahúsi afstöðumynd af gufuklefanum, sjálfum sér, ákærða, vinahópnum og öðrum manni og liggur sú teikning fyrir í málinu.
A kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið með vinum sínum að æfa sund og þau hafi farið í heita pottinn á eftir. Hann hafi verið með D, E, F og G. Hann mundi ekki eftir fleirum. Þau hafi farið í gufuklefann og hann sest vinstra megin séð frá hurðinni þegar komið sé inn, krakkarnir fyrir miðju og ákærði hægra megin. A hafi lagst og reynt að slaka á. Krakkarnir hafi síðan farið út úr gufunni. Eftir hafi verið brotaþoli, ákærði og einn maður til viðbótar en hann hafi farið fljótlega út úr gufunni. Fljótlega hafi ákærði sagt: „Djöfull er heitt hérna inni“. Brotaþoli hafi svarað honum einhverju og ætlað að standa upp og séð þá að ákærði var að eiga við typpið á sér og runka sér en hann hafi tekið typpið út á sér. Brotaþoli hafi haldið að hann væri að sjá ofsjónir vegna hitans og staðið upp til að fara út. Ákærði hafi þá staðið upp og gripið um öxl brotaþola eins og hann ætlaði að hindra hann í að komast út og gripið harkalega um klofið á brotaþola og byrjað að nudda typpið og sagt: „Má ég bjóða þér tott?“ Brotaþoli hafi fengið sjokk og staðið frosinn í smástund, þangað til hann hafi ýtt ákærða frá sér og farið út. Hann hafi farið beint ofan í pottinn til félaga sinna og sagt þeim frá. Þau hafi sagt honum að segja starfsfólki frá, sem hann hefði gert. Í framhaldi hafi lögreglan komið en brotaþoli hafi fallið saman og grátið. Lýsti brotaþoli ákærða þannig að hann hafi verið með stutt dökkt hár með smáskegg, ekki í góðu formi, með smábumbu og með tvö armbönd. Annað hafi verið svart og hvítt og hitt fléttað úr leðri. Brotaþoli kvaðst aldrei hafa séð þennan mann fyrr en í gufunni. Aðspurður um ástand á typpinu í gufunni sagði brotaþoli typpið á ákærða fyrst hafa verið lint en ákærði hafi verið að reyna að gera typpið stinnt. Aðspurður kvað hann D, E, G, F og einhverja fleiri, sem hann myndi ekki nöfnin á, hafa verið í pottinum þegar hann kom aftur ofan í hann.
Brotaþoli lýsti líðan sinni eftir þetta á þann hátt að hann ætti erfitt með svefn, svæfi mest fimm klukkustundir á sólarhring, hætti að borða eftir þetta, finnist óþægilegt að vera einn, reyni að einangra sig í tölvunni og sé hættur að heimsækja vini sína. Þá hafi þetta haft áhrif á sundæfingarnar og skemmt fyrir honum. Hann hugsi um þetta þegar hann fer að sofa og sé hræddur. Atvikið hafi haft mikil áhrif á sig.
B, móðir brotaþola, kom fyrir dóminn og kvaðst fyrst hafa frétt af atvikinu þegar lögreglan hringdi í hana til að sækja brotaþola. Brotaþoli hafi sagt sér að ákærði hafi ætlað að nauðga sér. Þá hafi hann sagt henni frá atburðum inni í gufuklefanum á sama hátt og ákærði lýsti fyrir dóminum. B sagði brotaþola vera mjög reiðan eftir atvikið, sem hún hafi aldrei merkt hjá honum áður, hann einangri sig og eigi erfitt með að hitta vini sína. Hann eigi erfitt með að faðma hana og hafi atvikið haft mikil áhrif á hann.
H félagsráðgjafi kom fyrir dóminn og kvað málið hafa farið í eðlilegt ferli hjá barnavernd og verið vísað áfram til lögreglu. Taldi H að brotaþoli hafi upplifað að honum yrði nauðgað, hann hafi verið mjög hræddur. Atvikið hafi valdið honum mikilli vanlíðan og geri enn. Sagði H að brotaþoli hafi lýst atvikinu á sama hátt og brotaþoli lýsti fyrir dóminum.
I sagði hjá lögreglu að það eina sem hann viti um málið sé að maðurinn hafi beðið sig um að koma með sér í gufuna, hann hafi örugglega gert það um fimm sinnum. Maðurinn hafi sagt við sig: „Gaur komdu í gufu, komdu í gufu,“ en I neitað því. I kvaðst hafa verið að leika sér í sundi með félögum sínum. Þau hafi verið J, K, L, M, N og O. Maðurinn hafi elt sig og hina krakkana um sundlaugina, hann hafi farið í heita pottinn þegar þau fóru í heita pottinn og hann hafi komið á eftir þeim í gufubaðið. Þau hafi yfirgefið gufuna um leið og maðurinn kom þangað og þá hafi hann einnig farið út úr gufunni. I lýsti manninum eins og leikaranum í Walking Dead. Hann hafi verið með skegg, augun eins og þau hafi verið bólgin, með lítið brúnt hár, lítill en ekki feitur. I sagði krakkana síðan hafa setið í heita pottinum, sem næstur sé búningsklefunum, og þá hafi maðurinn staðið fyrir framan hurðina inni í gufubaðinu, þurrkað móðuna af glerhurðinni og horft á I og krakkana í pottinum og gefið þeim merki um að koma með fingrinum. Aðspurður hvort maðurinn hafi snert aðra krakka í pottinum fannst I eins og að hann hafi teygt út höndina í átt að J þar sem þau lágu. Hann viti þó ekki hvort hann hafi bara verið að teygja úr sér. Maðurinn hafi verið í ljósblárri eða dökkblárri sundskýlu.
I kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið í sundi þetta kvöld. Hann hafi verið með K, J og fleirum. Ákærði hafi verið við opna hurð inni í gufunni og spurt sig hvort hann vildi koma í gufuna. I hafi fundist það undarlegt og foreldrum hans líka. I þekkti ákærða aftur í dómsalnum. I kvaðst hafa séð brotaþola þegar hann kom síðan inn í búningsklefann og hafi hann séð að brotaþoli var skjálfandi og hræddur.
P kvaðst hjá lögreglu hafa verið í sundlauginni umrætt kvöld með systur sinni og móður. Hann hafi farið beint í heita pottinn en þar fyrir hafi verið fullt af krökkum. Þau hafi verið að tala um mann sem hafi verið að horfa mikið á þau og reynt að fá þau inn í gufuna til sín. Hafi P tvisvar séð manninn koma út úr gufunni og séð hann gefa krökkunum bendingu með fingrinum um að koma til sín. Krakkarnir hafi síðan farið öll í gufuna nema hann sjálfur sem hafi orðið eftir í heita pottinum. Hann hafi síðan farið í búningsklefann og hitt þar strák sem sagði honum frá atvikinu. Hafi sá strákur, Q, haft eftir A að maðurinn hafi ýtt í A, girt niður um sig og byrjað að fróa sér og spurt A: „Viltu totta?“ Á meðan Q sagði P frá, hafi A komið inn í sturtuaðstöðuna og verið titrandi hræddur og kvaðst P hafa vorkennt honum mikið. P kvaðst hafa séð lögregluna fara með manninn og hafi það verið sami maðurinn og reyndi að fá þau í gufuna með sér. P lýsti manninum svo að hann væri ekki feitur og ekki mjór, um 35 ára gamall og frekar lítill. Hann hafi verið með lítið hár, samt ekki brodda, og brúnt á litinn. Hann hafi verið í svartri sundskýlu.
N sagði hjá lögreglu að hann hafi verið í sundi umrætt sinn að leika sér með vinum sínum, Q, K, I, R, S, T, L og M. Þar hafi maður elt sig og vini hans, bæði í heita pottinn og sundlaugina. Lýsti N manninum sem frekar þybbnum, rauðum í augum, meðalmanni á hæð, með tvö armbönd á hægri hendi, annað eins og reimað og hitt eins og gúmmíband. Maðurinn hafi verið í svartri sundskýlu eins og stuttbuxum. Maðurinn hafi staðið við glugga í gufunni, alltaf verið að horfa út um gluggann og benda eitthvað og gefa þeim merki með fingrinum um að koma. Maðurinn hafi talað við I vin N og hafi hann heyrt manninn segja: „Komdu, komdu inn í gufuna“. Aðspurður kvað hann A hafa verið í uppnámi þegar hann kom inn í búningsklefann á eftir og með tár í augum.
U sagði hjá lögreglu að hún hafi farið í sund með bróður sínum og móður umrætt sinn. Hún hafi strax farið í heita pottinn sem sé næstur kvennaklefanum og þar hafi verið um ellefu krakkar ofan í. Krakkarnir hafi sagt henni að það væri maður í gufuklefanum sem væri að reyna að lokka þau inn í gufuna. Hún hafi þá farið að fylgjast með þessu og tekið eftir manni sem hafi staðið í dyragættinni að gufunni og verið að gefa þeim bendingar með vísifingri um að koma í gufuna. Hann hafi gert þetta við þá krakka sem litu í átt til hans. Þau hafi rætt um þetta í heita pottinum og ákveðið síðan að fara öll saman í gufuna. Þegar þau komu í gufuna hafi maðurinn setið hægra megin við dyrnar og látið eins og hann væri sofandi. Þau hafi raðað sér á bekkinn í endanum og á móti honum en ekkert rætt við hann. Þau hafi síðan farið aftur út og í annan heitan pott. Eftir að þau voru farin úr gufunni hafi annar krakkahópur farið inn í gufuna og þá hafi eitthvað gerst. Hún hafi ekki séð þegar þau komu aftur út en nokkru seinna hafi V komið til hennar og sagt henni frá því sem A sagði þeim þegar hann kom út úr gufunni. Þá sagðist hún hafa séð lögregluna fara með mann og það hafi verið sami maður og reyndi að lokka þau inn í gufuna. Maðurinn hafi ekki verið feitur og ekki mjór, um 40 ára gamall og með frekar dökkt hár.
U kom fyrir dóminn og kvaðst hafa farið í heita pottinn með félögum sínum. Ákærði hafi verið í gufunni og verið að gefa þeim merki með fingrunum um að koma til sín. Þau hafi síðan farið öll í gufuna. Ákærði hafi einnig verið í gufunni og setið með lokuð augun. Þau hafi síðan öll farið út aftur. L, M, S, N, K, I og fleiri krakkar hafi verið með henni. U kvaðst vita hver brotaþoli væri en hann hefði verið með öðrum krökkum. Hún hafi þó heyrt á staðnum hvað hafi gerst í gufunni. U kvaðst þekkja ákærða aftur í dómsalnum.
Y sagðist hjá lögreglu hafa farið í sund umrætt sinn með börnum sínum. Hún hafi farið beint í heita pottinn á móti kvennaklefanum og hafi nokkur hópur barna verið þar fyrir. Hún hafi orðið vör við óróa í krökkunum og hafi þau verið með athyglina á gufunni. Hún hafi því farið að fylgjast með gufunni og tekið eftir manni sem stóð þar í dyragættinni og gaf krökkunum bendingu með fingrinum um að koma í gufuna. Henni hafi fundist skrýtið að dyrnar út voru lokaðar en dyrnar að gufuklefanum hafi verið opnar. Af þessum sökum hafi rýmið milli gufuklefans og útidyranna fyllst af gufu. Maðurinn hafi síðan öðru hvoru opnað útidyrnar og horft í áttina að heita pottinum sem þau voru í, ruggað sér í mjöðmunum og farið svo aftur inn í gufuna og lokað hurðinni. Þetta hafi hann gert í tvö eða þrjú skipti. Þá hafi hún einnig séð hann kíkja út um glugga, sem var á hurðinni, í átt til þeirra. Kvaðst hún hafa fengið á tilfinninguna að þessi maður væri „perri“. Y kvað krakkana hafa farið í gufuna og verið þar inni í 10-15 mínútur og komið þá út aftur. Eftir það hafi annar hópur af krökkum farið í gufuna, það hafi verið krakkar sem verið höfðu á sundæfingu. Meðal þeirra var brotaþoli en hún kvaðst þekkja móður hans. Hún hafi hins vegar ekki séð krakkana koma aftur úr gufunni þar sem hún hafði farið annað. Hún hafi síðan heyrt í búningsklefanum þegar hún fór upp úr að A hafi sagt frá því að maður hafi reynt að nauðga honum.
Q sagði hjá lögreglu að hann hafi verið í sundi og maður alltaf að elta þau. Maðurinn hafi síðan farið í gufubað og þá verið að benda á krakkana og segja þeim að koma. Þau hafi síðan farið öll inn í gufuna og þá hafi maðurinn verið að klóra sér í pungnum. Eftir að þau voru komin í búningsklefann hafi strákur komið inn hálfgrátandi og sagt þeim að maðurinn hefði tekið í axlirnar á honum, ýtt honum niður, girt niður um sig og byrjað að fróa sér fyrir framan hann og sagt: „Viltu tott?“ Hann hafi náð að ýta manninum frá sér og hlaupið út. Q lýsti manninum sem smáþybbnum, með dökkt eða brúnt hár, svolítið brúnn eins og hann væri oft í sólbaði eða ljósum. Þá hafi annar maður verið í gufunni, um 23 ára, maður sem tæki þátt í kraftakeppnum, frekar þykkur og stór með brúnt hár. Q sagðist hafa séð brotaþola eftir atvikið og hafi honum liðið mjög illa, verið frekar hræddur og sést hafi tár.
Q kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið í sundi umrætt sinn. Þar hafi verið maður sem kom alltaf nær og nær þeim og honum fundist hann elta þau. Hann hafi aðallega orðið hræddur en maðurinn hafi ekki talað neitt við þau. Maðurinn hafi bent þeim með hendinni að koma í gufuna. Þau hafi síðan farið öll saman í gufuna. Lögreglan hafi svo komið. Q sagðist hafa hitt A í búningsklefanum á eftir og hafi hann verið mjög hræddur og liðið illa. Þar hafi A sagt sér að maðurinn hafi gripið í klofið á honum og beðið hann um að totta sig. Þá hafi A verið hálfgrátandi.
T kvaðst hjá lögreglu hafa verið í heita pottinum með vinum sínum umrætt sinn. Hann hafi séð umræddan mann, sem hafi verið á milli þrítugs og fertugs, um 183 á hæð, milli þess að vera þybbinn og grannur. Skollitað hár, aðeins mikið, í dökkri sundskýlu. T sagðist hafa farið í gufuna með krökkunum og séð manninn teygja úr sér. Þá hafi hann heyrt brotaþola segja í búningsklefanum að maðurinn hafi tekið hann niður, girt niður um sig og byrjað að fróa sér og spurt brotaþola hvort hann vildi tott. T sagði að brotaþoli hafi verið mjög leiður og sár.
M lýsti atvikinu svo hjá lögreglu að hún hafi verið í Sundmiðstöðinni umrætt sinn með vinum sínum. Þar hafi verið maður sem elti þau í heita pottinn, síðan í andapottinn. Alltaf þegar þau fóru eitthvað þá hafi hann komið þangað. Þá hafi hún séð hann opna hurðina í gufuklefanum og hún og I hafi ætlað þangað inn. Þá hafi maðurinn sagt: „Það er ógeðslega heitt þarna inni.“ Þau hafi þá bara farið í laugina. Aðspurð sagði hún manninn hafa bent krökkunum á að koma í gegn um glugga á gufunni. Sagði hún að J hafi sest við hliðina á manninum í gufunni þegar krakkarnir fóru þangað og þá hafi hann verið eitthvað að klóra sér. Hélt hún að það hafi verið með hægri hendinni og utan á sundskýlunni, eiginlega á kynfærunum. Hann hafi ekkert verið að fela það. Aðspurð kvaðst hún hafa séð brotaþola í „panik“ í heita pottinum en ekki spáð í það. Hún hafi ekki heyrt hann tala en séð hann gráta.
M kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið í sundi umrætt sinn. Sagði hún mann hafa verið þar og bent krökkunum með höndunum að koma í gufubaðið til sín. Maðurinn hafi sífellt verið á eftir þeim og elt þau. Hún hafi séð brotaþola þegar hún var komin upp úr lauginni og séð brotaþola grátandi.
K sagðist hafa verið í Sundmiðstöðinni umrætt sinn með vinum sínum. Þau hafi farið í sund eftir fótboltaæfingu. Þau hafi verið í heitu pottunum og alltaf verið að skipta um potta en einn kall hafi alltaf verið að elta þau. Þau hafi grunað að hann væri barnaperri og hafi eitthvað verið að hvíslast á. Þau hafi síðan farið í gufu og hann verið þar allan tímann. Maðurinn hafi þóst vera sofandi en hafi verið að horfa á þau. Svo hafi hann verið að klóra sér í typpinu. Þegar þau fóru úr gufunni hafi hann orðið eftir. Þau hafi síðan farið um fimmtán saman aftur í gufuna og þá hafi maðurinn bara setið þarna. Svo hafi einn vinur K komið og sest við hliðina á manninum sem hafi þá byrjað að fikta í pungnum á sér. Krakkarnir hafi verið skíthræddir og farið aftur út. Þá hafi sundkrakkarnir farið inn í gufuna. Fljótleg hafi allir farið út nema þrír og svo hafi bara einn verið eftir þar inni með barnaperranum. Þetta sé það eina sem hann viti utan að maðurinn hafi líka verið að spyrja þau um kennitölur og fullt nafn þeirra. Það hafi verið í setlauginni en þar hafi hann fyrst komið á eftir þeim og farið að tala við hann. Þar hafi hann sagt: „Nei blessaður, kannast ég ekki við þig?“. K kvaðst ekki vita það en örugglega kannaðist hann ekki við sig. Maðurinn hafi þá spurt: „jú heitirðu ekki, hvað er nafnið þitt?“ K kvaðst hafa sagt honum nafn sitt en ekki kennitölu sína þegar hann spurði um hana. Meira hafi þeir ekki rætt saman.
K lýsti því að þegar þau voru í gufunni hafi J komið inn og sest hægra megin við manninn. Maðurinn hafi alltaf verið að horfa á hann með öðru auganu og fikta í typpinu á sér. Hann hafi verið í svartri sundskýlu eins og stuttbuxum. K giskaði á að maðurinn væri svona 36 ára, um 175 á hæð, millisítt hár og þykkt, svart á litinn, með smáskegg og smáþybbinn. Þá kvaðst J hafa séð lögregluna með barnaperrann sem var í gufunni.
K kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið í sundi umrætt sinn með félögum sínum eftir æfingu. Þau hafi verið í heitum potti en séð karl í millihurðinni að gufunni sem var að kíkja á þau. Hann hafi eingöngu rætt við I. Hann hafi bent krökkunum með fingrunum að koma í gufuna. Kvaðst hann ekki hafa séð sjálfur manninn klóra sér í typpinu, hann hafi heyrt það frá öðrum. K kvaðst hafa séð A í búningsklefanum á eftir og hafi honum greinilega liðið mjög illa.
Z kvaðst hafa verið í sundi umrætt sinn og farið beint í heita pottinn. Þar hafi nokkrir krakkar verið fyrir. Krakkarnir hafi sagt honum frá manni sem var búinn að elta þau í heitu pottana en væri nú í gufunni. Z kvaðst hafa tekið eftir þessum manni í gufunni því að hann hafi verið að gefa þeim bendingu með fingrinum um að koma til sín. Þau hafi síðan farið öll saman í gufuna og farið öll saman út aftur. Maðurinn hafi setið nærri hurðinni. Tveir stórir strákar hafi líka komið í gufuna og sest við hliðina á manninum. Maðurinn hafi ekki gert neitt. Þau hafi síðan farið úr gufunni og í annan heitan pott. Eftir að þau fóru úr gufunni hafi fimm aðrir krakkar farið í gufuna en það hafi verið krakkar sem æfi sund. Z kvaðst hafa verið að klæða sig þegar lögreglan kom og tók manninn sem var í gufubaðinu. Lýsti Z manninum þannig að hann hafi verið um 32 ára gamall, um 180 sm á hæð, smáþybbinn og með svart stutt hár. Hann hafi verið með eyrnalokk, smáskegg og svolítið dökkur á hörund og í sundbuxum eins og stuttbuxum, hélt að þær væru grænar á lit. Z kvaðst hafa séð að A leið illa, verið stressaður og sagst vera hæddur við að „vera þarna inni“.
J sagðist hafa verið í sundi með I og K. Fleiri krakkar hafi síðan komið í heita pottinn til þeirra. Þau hafi flakkað á milli potta en það hafi vakið athygli þeirra að einn maður hafi elt þau í pottana. Hann hafi verið grunsamlegur vegna þess að hann hafi „alltaf verið með tærnar utan í manni“. Maðurinn hafi farið á milli potta, synt og farið í gufuna. Þegar hann var í gufunni hafi hann talað við I og spurt hann hvort hann vildi koma í gufuna. Þá hafi hann horft út um gluggann á gufunni og gefið þeim bendingar um að koma inn í gufuna. Krakkarnir hafi ákveðið að fara öll saman í gufuna og verið um fimmtán saman. Enginn hafi sest nærri manninum nema J. Maðurinn hafi þá verið að klóra sér í pungnum utan á buxunum, á hlið eins og hann væri að laga þær til. Þau hafi síðan farið öll út og verið rekin upp úr skömmu síðar. J sagði að áður en krakkarnir hafi allir farið í gufuna hafi hann, I og K farið í gufuna og þessi maður þá komið inn í gufuna strax á eftir þeim og setið þar inni með þeim. Maðurinn hafi í það sinn verið að fikta í sundskýlunni sinni með höndunum á nárasvæðinu. Maðurinn hafi verið í einhvers konar sundskýlu sem hafi náð niður á lærin. J kvað manninn hafa elt þau í „liggjupottinn“ og lagst alveg við hliðina á þeim. Hann hafi komið við J með tánum, með táberginu á mjöðm J nálægt rassinum. J hafi fært sig fjær manninum en maðurinn hafi fikrað sig aðeins nær og hafi síðan verið kominn að honum þannig að handleggirnir lágu saman. Þetta hafi verið orðið mjög óþægilegt. J kvaðst hafa séð brotaþola í búningsklefunum eftir á og hafi hann verið titrandi. Hann hafi rætt við brotaþola og fannst að brotaþoli hafi verið mjög hræddur. J kvaðst aldrei hafa séð brotaþola áður. J kvaðst hafa séð lögregluna fara með manninn en ekki séð framan í hann þá. J lýsti manninum sem um 1,70 m á hæð, heldur að hann hafi verið dökkhærður, ekki með mjög sítt hár en það hafi staðið allt út í loftið og verið skollitað. Hann hafi verið milli þess að vera mjór og feitur. J lýsti fyrir lögreglu afstöðu allra í gufunni í fyrra og seinna skiptið með teikningu.
J kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið í sundlauginni í umrætt sinn með vinum sínum. Krakkarnir hafi haldið að maður væri að elta þau, en hann hafi haldið í fyrstu að það væri rugl. Maðurinn hafi verið með bendingar með fingrunum úr gufunni. J kvaðst ekki muna í dag hvort maðurinn hafi verið að klóra sér í pungnum. Í einum pottinum hafi maðurinn setið frekar nálægt honum, en tærnar á manninum hafi verið upp við sig og rekist í sig. Það hafi þó ekki verið neitt áberandi, hann hafi ekki ýtt í sig en hann hafi fundið það. Það hafi alveg eins getað verið óvart. J sagðist hafa séð brotaþola inni í búningsklefa eftir á og það hafi sést á honum að hann var í sjokki.
O kvaðst hjá lögreglu hafa verið í sundi umrætt sinn. Kvaðst hann hafa farið með krökkunum í gufuna en ekki verið að fylgjast sérstaklega með manninum sem var þá fyrir í gufunni. Þau hafi síðan farið út og sundkrakkarnir farið í gufuna á eftir þeim. O teiknaði afstöðumynd af gufunni og þeim sem þar voru inni á meðan hann var þar.
R lýsti því fyrir lögreglu að maður hafi elt krakkana í alla pottana og hvert sem þau fóru. Hún hafi því verið orðin hrædd þegar maðurinn fór í gufuna. Þá lýsti hún því hvernig maðurinn fylgdist með krökkunum út um glugga á gufuklefanum og gaf þeim merki um að koma til sín. Krakkarnir hafi síðan ákveðið að fara öll í gufuna saman. Inni í gufunni hafi maðurinn spurt þau hvað þau hétu og um kennitölur þeirra. R sagði manninn hafa verið með hönd sína undir sundskýlunni þegar þau voru þar inni. Hún hafi ekki þorað að vera í gufunni lengur og því farið út. Sundkrakkarnir hafi síðan farið í gufuna á eftir þeim. Hún hafi síðan frétt þegar hún kom upp úr lauginni að eitthvað hafi komið fyrir einn strák sem æfði sund. R lýsti manninum með dökkt skolleitt hár og rauður í augunum. Sagði R að maðurinn hefði spurt hana um nafn en hún ekki svarað honum. Það hafi verið sami maður og lögreglan tók. R kvaðst hafa verið hrædd og bjórlykt hafi verið af manninum.
R kom fyrir dóminn og sagðist hafa verið með Þ í heita pottinum. Þegar hún hafi komið ofan í pottinn hafi hún heyrt talað um ákærða. Hún hafi séð hann í dyrunum í gufuklefanum þar sem hann hafi verið að gefa þeim bendingar um að koma í gufuna. Þau hafi síðan farið öll saman í gufuklefann þar sem ákærði var. Hún hafi svo séð A fara seinna í gufuna. Hún hafi séð A í búningsklefunum og þá hafi hann verið grátandi.
L kvaðst hjá lögreglu hafa verið með vinum sínum í Sundmiðstöðinni. Hún hafi þó komið aðeins á eftir þeim og heyrt að þar væri maður sem hafi elt krakkana. Strákarnir hafi síðan farið í gufuna og maðurinn á eftir þeim. Maðurinn hafi síðan þurrkað móðuna af glugganum í gufunni og verið að biðja þau um að koma með fingrabendingum. Þau hafi síðan öll farið í gufuna og þá hafi maðurinn verið þar líka. Hún hafi þó ekki horft á manninn og því ekki vitað hvað hann gerði. Krakkarnir hafi síðan farið úr gufunni en einn sundstrákurinn hafi orðið eftir og þá hafi maðurinn gripið um klofið á honum. Hún hafi þó ekki séð þetta. L lýsti manninum með ljósbrúnt eða ljósrautt hár og smáþybbinn og svona „mið á hæð“ og í dökkri sundskýlu sem hafi verið síð. Sagði L það vera sama manninn sem lögregla tók og var í gufuklefanum. L kvaðst hafa séð brotaþola í pottinum eftir þetta og hafi hann virst hræddur.
L kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið í sundi umrætt sinn. Þar hafi verið maður sem reyndi að lokka krakkana inn í gufubaðið. Maðurinn hafi verið í milligangi að gufuklefanum og staðið þar. Maðurinn hafi verið með brúnt-rautt hár. Strákarnir hafi sagt henni að maðurinn hafi verið að elta krakkana í sundi. Aðspurð kvaðst hún muna að maðurinn hafi sett hendurnar á sér í klofið á sér en hún hafi ekki séð neitt meira.
Þ sagði hjá lögreglu að hún hafi verið í sundi og þar hafi verið maður sem hafi verið „dálítið ógeðslegur“. Maðurinn hafi verið að benda þeim á að koma til sín þegar hann var á milli gufubaðsins og útgangsins hjá gufunni. Maðurinn hafi beygt fingurna á skrýtinn hátt fram og til baka, eins og að þau ættu að koma til hans. Þau hafi séð manninn tala við I og síðan hafi þau öll farið í gufuna. Þar hafi tveir karlmenn verið fyrir. Þau hafi síðan farið út þar sem þau þorðu ekki að vera inni í gufunni lengur. Maðurinn hafi setið með hausinn niðri en verið að gjóa augunum á þau. Maðurinn hafi setið til hliðar við hurðina þegar þau komu inn. Þá hafi tveir feðgar komið inn og sest við hliðina á manninum. Þ teiknaði afstöðumynd af gufuklefanum hjá lögreglu. Lýsti hún manninum sem 40 til 50 ára gömlum, með dökkt rytjulegt hár og smákrumpur í andlitinu. Hann hafi verið meðalstór. hvorki feitur né mjór. Hann hafi verið í svartri sundskýlu sem náði niður á læri. Þ kom ekki fyrir dóminn.
S sagði hjá lögreglu að hann hafi verið í sundi umrætt sinn og hitt fleiri krakka í heita pottinum. Lýsti hann hvernig ákærði stóð í dyrum gufuklefans og einnig hvernig hann þurrkaði móðu af glugganum og benti krökkunum á að koma til sín með fingrinum í gegnum gluggann. Þau hafi síðan öll farið inn í gufuna þar sem maðurinn hafi setið og ekkert gert. Inn í gufuna hafi komið annar maður og sest við hliðina á manninum og einhver með honum. Þau hafi síðan öll farið út og í annan pott og á eftir þeim hafi sundkrakkar farið inn í gufuna. Hann hafi séð krakkana koma út á eftir en hélt að tveir krakkar hefðu orðið eftir inni í gufunni. Hann hafi síðan farið upp úr pottinum. Eftir á hafi brotaþoli sagt sér hvað gerðist. Þeir hafi verið í búningsklefanum hjá fataskápunum og brotaþoli hafi sagt við sig: „Þessi kall reyndi að nauðga mér,“ eða eitthvað slíkt. Brotaþola hafi greinilega liðið mjög illa því að hann hafi titrað allur. S kvaðst hafa séð þegar lögreglan fór með manninn en það hafi verið sami maður og var í gufunni. Sá maður hafi einnig verið með ferðatöskur með sér. Lýsti S manninum sem manni um 45 ára gömlum, pínulítið krumpuðum í framan, í rifnum gallabuxum þegar lögreglan fór með hann. Hann hafi verið 1,80 m á hæð, með venjulegt hár á síddina en dökkt á litinn. Hann hafi ekki verið feitur og ekki mjór, svona „mið“, ekki alveg hvítur, smábrúnn. Hann hafi verið í svörtum stuttbuxum sem sundskýlu. S teiknaði afstöðumynd af gufuklefanum hjá lögreglu og sýndi hvar ákærði sat.
S kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið í sundi umrætt sinn en hann hafi komið á eftir félögum sínum. Hann hafi séð ákærða í gufunni og haft dyrnar að gufunni opnar þannig að gufan leitaði í milligang. Ákærði hafi þurrkað móðuna af glugga og bent krökkunum að koma til sín. Ákærði hafi m.a. talað við I. S sagðist hafa séð brotaþola koma inn í búningsklefa og hann hafi sagt sér að maður hefði reynt að nauðga sér. Brotaþoli hafi verið skjálfandi og hræddur.
D sagðist hjá lögreglu hafa verið að koma af þrek- og sundæfingu. Maður hafi verið við hlið þeirra inni í búningsklefanum sem var á leið í sund. Krakkarnir hafi verið að tala saman og hafi maðurinn rætt við þau, m.a. hversu mörg ríki væru í Bandaríkjunum. A hafi þá tekið eftir því að maðurinn var með armbönd og fattað seinna að þetta var sami maðurinn og var síðan í gufubaðinu. Þau hafi farið á sundæfinguna og síðan í pottinn. Það hafi verið svo margir í gufubaðinu að þau hafi ákveðið að bíða aðeins en farið svo þegar fækkaði í gufubaðinu. Kalt hafi verið í gufunni svo þau hafi hellt vatni á hitanemann svo það hafi hitnað vel. Þau hafi þá farið aftur út úr gufunni. Þau hafi verið fjögur í gufunni; hann, E, A og C. Hann og E hafi farið út en C orðið eftir hjá A. A hafi sagt við C að hann færi að koma svo C hafi komið til þeirra í heita pottinn. A hafi svo komið til þeirra og sagt þeim frá atvikinu. D kvaðst hafa séð manninn í búningsklefanum. Hann hafi verið í gallabuxum, jakka og svo með armbönd, nokkur leðurarmbönd og svo armband sem sé vafið eins og búið sé til úr fallhlífarböndum. Hann hafi áður verið í svartri sundskýlu sem náði rétt niður á fæturna. Maðurinn hafi verið venjulegur í vaxtarlagi og dökkhærður. Þá kvað D annan mann hafa verið inni í gufuklefanum. Sá hafi verið stuttklipptur og dálítið þybbinn með kassalaga andlit. Hann giskaði á að sá maður væri á milli 45 og 55 ára gamall og hafi hárið verið farið að grána á honum en annars væri hann meira dökkhærður.
D kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið í sundi umrætt sinn. Hann hafi verið með E og fleirum og þeir verið á sundæfingu. Þar hafi verið maður sem talaði við þau. Honum hafi fundist það skrítið því að venjulega heilsuðu fastagestir bara. Þau hafi síðan farið í laugina, heita pottinn og síðan í gufuna. Þeim hafi fundist gufan of heit svo þau hafi ákveðið að fara út. C hafi verið síðust út fyrir utan A sem hafi sagst ætla að vera aðeins lengur. Einn fastagestur hafi verið inni í gufunni með syni sínum þegar þau komu inn, fyrir utan ákærða, en þeir hafi verið farnir úr gufunni þegar þau fóru sjálf út. A hafi síðan komið til þeirra í heita pottinn og sagt þeim frá því sem gerðist inni í gufunni.
V kvaðst hafa verið í Sundmiðstöðinni umrætt sinn. Hún hafi farið í gufuna með sundkrökkunum. Þegar krakkarnir fóru út aftur hafi brotaþoli orðið einn eftir í gufunni. Stuttu seinna hafi brotaþoli komið til þeirra og verið í sjokki og sagt þeim að maðurinn þarna inni hefði ætlað að nauðga sér. Þau hafi ekki trúað honum í fyrstu en brotaþoli þá lýst því að maðurinn hafi gripið í klof hans og spurt hvort hann vildi fá tott. Þau hafi þá hvatt brotaþola til að fara og tilkynna atvikið til sundlaugarvarðar, sem hann hefði gert. Aðspurð um manninn kvað hún hann hafa verið með brúnt hár og hvítar strípur, ekki feitan og ekki grannan. Hann hafi verið í svartri sundskýlu með rönd, miðlungs víðri og ekki alveg niður að hnjám. Brotaþoli hafi verið í sjokki. V sagði að tveir aðrir fullorðnir hafi verið í gufunni þegar hún kom inn í hana en farið fljótlega út. V teiknaði afstöðumynd af gufuklefanum og lýsti því hvar maðurinn sat er þau komu í gufuna.
V kom fyrir dóminn og lýsti því svo að krakkarnir hafi verið í heita pottinum, hún, C, G, Æ, D, A og Ö. Þau hafi síðan farið í gufuna. Hún, G og Æ hafi síðan farið út en A hafi komið síðastur út í heita pottinn. A hafi þá sagt þeim að kallinn í gufunni hafi ætlað að nauðga sér. Hann hafi sagt að maðurinn hafi gripið í sig og spurt hvort hann vildi tott. A hafi verið stífur og mjög brugðið. V sagði að annar maður hafi verið í gufunni og farið út áður en þau fóru út. Þá hafi ákærði verið eftir í gufunni.
Á sagðist hjá lögreglu hafa farið í gufuna með bræðrum sínum og hafi maðurinn sem krakkarnir voru að tala um, verið þar, en þau hafi verið að tala um einhvern barnaperra í pottinum. Sá maður hafi verið um 175 cm á hæð, frekar grannvaxinn en með smábumbu, dökkhærður og stuttklipptur, í kringum þrítugt. Lögreglan hafi handtekið sama mann og var í gufuklefanum. Minnti Á að maðurinn hafi verið í dökkri sundskýlu, svartri eða blárri, eins og boxer. Á sagðist hafa talið að maðurinn væri áfengisdauður í gufunni, hann hafi setið með hangandi haus. Hann hafi síðar séð hann reyna að klára bjór fyrir framan lögregluna.
E sagði hjá lögreglu að hann og brotaþoli hafi verið á sundæfingu. Í búningsklefanum, þegar þeir voru að klæða sig úr, hafi þeir rætt um það að E drykki ekki gos. Maður hafi blandað sér í samtalið og sagt að gos væri eitur og í Danmörku væri gos ekki drukkið. Þeir hafi ekkert frekar rætt við manninn og fundist hann skrýtinn og fundið áfengis- og reykingalykt af honum. Eftir sundæfinguna hafi þeir A farið í pottinn. Þeir hafi séð nokkra vini sína í öðrum potti og E farið þangað en A farið með öðrum krökkum í gufuna. Það næsta sem E vissi var að brotaþoli var í sjokki og síðan hafi lögreglan komið en þá hafi E verið kominn upp úr. E kvað manninn hafa verið um 1,70 m á hæð og dökkhærðan.
E kom fyrir dóminn og lýsti því svo að hann og félagar hans, A, D og Ö, hafi farið í heita pottinn eftir sundæfingu. Nokkrir krakkar hafi farið í gufuna en hann hafi sjálfur ekki farið í gufuna. Inni í búningsklefanum eftir á hafi hann fengið fréttirnar og hafi hann séð að A var í sjokki. Sagði hann að maðurinn hafi rætt við þá áður en þau fóru í sundlaugina, í búningsklefanum, og rætt um gosdrykki, m.a. í Danmörku.
Ð sagðist hjá lögreglu hafa verið í sundi með föður sínum og bræðrum í umrætt sinn. Þegar þeir voru að koma út úr karlaklefanum hafi I komið og sagt þeim frá því að perri væri í gufunni og hefði gefið þeim bendingar með fingrinum um að koma til sín í gufuna. Hann hafi því sleppt því að fara í gufuna eins og hann væri vanur. Hann hafi síðan farið með öllum hinum krökkunum í gufuna. Þar hefði verið troðið svo hann hefði sest við hliðina á manninum og Á við hlið sér. Maðurinn hafi virkað mjög skrýtilega á sig og fannst eins og hann væri á einhverju eða mjög ölvaður. Hann hafi þó ekkert sagt né gert meðan hann var þarna inni. Maðurinn hafi látið eins og hann væri að sofna, hreyft höfuðið skringilega og með hendurnar hvílandi í klofinu á sér eða á lærunum. Þegar krakkahópurinn yfirgaf gufuna hafi Ð verið eftir og fært sig þannig að hann sat gegnt manninum. Hann hafi verið þarna inni í 10-15 mínútur. Ð kvaðst hafa verið inni þegar seinni hópurinn kom inn. Ð kvaðst muna eftir brotaþola í seinni hópnum í gufuklefanum. Hann hafi legið á bekknum inni í horni. Lýsti Ð manninum þannig að hann hafi verið um 1,78 eða 1,80 á hæð, grannvaxinn, hárið hafi verið eðlilegt á sídd og dökkhærður. Hvítur á hörund og hafi hann talað íslensku við lögregluna. Þá hafi hann verið í dökkblárri sundskýlu. Ð teiknaði upp fyrir lögreglu afstöðumynd af gufuklefanum og þeim sem þar voru inni með seinni hópnum.
Ð kom fyrir dóminn og lýsti því að hann hafi farið ásamt tveimur bræðrum sínum í gufubað í umrætt sinn. Það hafi verið fullorðinn maður í gufunni en sundhópurinn hafi komið í gufuklefann þegar Ð var þar inni. Ð kvaðst muna eftir brotaþola í gufunni en hann hafi legið þar inni. Ð kvaðst ekki muna í dag hvenær hann fór út úr gufunni en sundhópurinn hafi þá verið inni. Ð kvaðst hafa fært sig yfir og setið á móti ákærða eftir að hluti af krökkunum var farinn út.
C sagðist hafa verið í Sundmiðstöðinni í umrætt sinn og verið að ljúka sundæfingu en hún æfi sund með A. Eftir sundæfinguna hafi hún farið í gufubað ásamt fleiri æfingafélögum sínum. Það hafi verið V, E, D, G, Æ og A. Í gufubaðinu hafi fyrir verið þrír karlmenn sem hún þekkti ekki. Eftir stutta stund hafi tveir karlanna farið út. Fyrst hafi V, Æ og G farið úr gufunni í heita pottinn aftur, síðan Ö og D og hún. Á meðan strákarnir voru að fylla á brúsana sína hafi hún farið aftur inn í gufubaðsklefann og spurt A hvort hann vildi ekki líka koma með í pottinn þar sem hann var orðinn einn eftir. Hann hafi svarað því að hann kæmi eftir smá, honum fyndist bara svo þægilegt þarna inni. C hafi því farið í pottinn með strákunum og hafi verið búin að vera þar stutt, kannski tvær til þrjár mínútur, þegar A hafi komið til þeirra í pottinn. Hann hafi sest og sagt þeim strax hvað hafði gerst. Þau hafi því hvatt hann til að segja starfsmanni Sundmiðstöðvarinnar frá, sem A hafi gert. Aðspurð sagði hún A hafa sagt: „Karlinn þarna inni greip um klofið á mér og spurði hvort að ég vildi ekki tott.“ Síðan hafi A sagt að hann hafi haldið að maðurinn hafi ætlað að nauðga sér. C lýsti manninum sem ljóshærðum með armbönd. Maðurinn hafi hvorki verið feitur né mjór og miðlungshár. Hún hafi þó ekki tekið sérstaklega eftir honum inni í gufunni og vissi ekki hvernig sundskýlu hann hafi verið í. Hún hafi ásamt móður sinni séð þennan mann fyrr um daginn niðri í bæ með tvær ferðatöskur í brjáluðu veðri og þær því tekið sérstaklega eftir honum þar. Sagði C að A hafi verið stjarfur þegar hann kom aftur ofan í pottinn. C teiknaði fyrir lögreglu afstöðumynd af gufuklefanum og krökkunum inni í gufunni.
C kom fyrir dóminn og sagðist hafa farið í heita pottinn eftir sundæfingu, hún, D, A, Ö, E, V, G og Æ. Þau hafi ákveðið að fara í gufu en þar hafi tveir karlar verið fyrir ásamt ákærða. Þau hafi síðan farið að tínast út og farið aftur í pottinn en fyrst hafi karlarnir tveir farið út. Hún, D, E, Ö og A hafi verið síðust út. Ö og D hafi farið fram til að fá sér vatn og hún þá verið ein eftir með A og ákærða. Hún hafi síðan farið fram til strákanna en snúið við og farið aftur í gufuna og spurt A hvort hann ætlaði ekki líka að koma í pottinn en hann sagst ætla að liggja aðeins lengur, það væri svo þægilegt þarna. Stuttu síðar hafi A komið til þeirra í heita pottinn og sagt þeim strax frá því sem gerðist. Þau hafi fyrst ekki trúað honum en séð að hann var mjög hræddur og hvatt hann til að segja starfsfólki frá. A hafi sagt eitthvað á þá leið: „Vá, shitt, kallinn í gufunni greip í klofið á mér og sagði viltu ekki tott, fock ég hélt hann ætlaði að nauðga mér.“
G kvaðst hjá lögreglu hafa verið á sundæfingu í umrætt sinn. Hún hafi ekki séð neitt og ekki séð manninn. Hún hafi verið í heita pottinum þegar brotaþoli kom í hann úr gufunni og hafi hann verið mjög skrýtinn á svipinn. Hann hafi sagt þeim hvað gerðist. Þau hin í pottinum hafi hvatt hann til að segja sundlaugarverðinum frá, sem hann hefði gert.
G kom fyrir dóminn og sagðist hafa verið að koma af sundæfingu. Hún hafi verið með V, Æ, C, A, Ö og D. Þau hafi farið í pottinn og síðan í gufuna. Þar hafi verið fyrir þrír menn en tveir þeirra verið farnir út þegar þau fóru úr gufunni. Þau hafi farið öll úr gufunni nema A sem hafi verið einn eftir í gufunni. A hafi síðan komið í pottinn til þeirra og sagt þeim að maðurinn í gufunni hafi reynt að áreita hann með því að grípa í klofið á honum og spurt hvort hann vildi drátt. A hafi verið brugðið og liðið illa, hún hafi skynjað það strax.
Ö kvaðst hafa verið á sundæfingu og farið í gufuna með C, D, E, G, V og A. „Kallinn“ hafi verið í gufunni og tveir menn og strákur á menntaskólaaldri. Mennirnir tveir hafi síðan farið úr gufunni og fljótlega hinn strákurinn. Fyrst hafi tveir krakkar úr hópnum þeirra farið úr gufunni og hafi þau þá verið fimm eftir ásamt karlinum. Ö hafi síðan farið ásamt tveimur öðrum en A viljað vera lengur. Karlinn hafi einnig verið eftir í gufunni. C hafi farið aftur inn í gufuna og spurt A hvort hann væri ekki að koma en A sagst ætla að vera aðeins lengur.
Ö hafi verið nýkominn í heita pottinn þegar brotaþoli kom þangað skrítinn á svipinn. Krakkarnir í pottinum hafi spurt hann hvað væri að og hann sagt þeim að karlinn í gufunni hefði komið upp að sér og spurt hvort hann vildi tott og síðan hafi maðurinn annaðhvort gripið um punginn á sér eða A, Ö mundi ekki hvort var. Þá kvað Ö það vera sama manninn sem lögreglan tók og hafði verið í gufunni. Ö teiknaði afstöðumynd af gufuklefanum hjá lögreglu.
Ö kom fyrir dóminn og sagðist hafa verið með C, Æ, G, E, D, V og A og þau öll farið í gufuna. Þau hafi síðan farið öll úr gufunni en A komið síðastur til þeirra í pottinn. Minnti Ö að einn annar fullorðinn maður hafi einnig verið í gufunni en farið út um leið og krakkarnir komu inn. Í pottinum hafi A sagt þeim að maðurinn hafi gengið upp að A og spurt hann hvort hann vildi tott og A þá farið út. A hafi verið mjög hissa.
É, starfsmaður Sundmiðstöðvarinnar, sagðist hjá lögreglu hafa hitt brotaþola í búningsklefunum og hafi hann verið hálfskelkaður og hræddur, klökkur og við það að fara að gráta. É kvaðst engin deili vita á brotaþola.
É kom fyrir dóminn og kvaðst ekki hafa komið neitt að málinu utan að hann hafi verið staddur í afgreiðslu þegar beðið var um lögreglu. Hann hafi farið beint inn í búningsklefa og staðið þar fyrir framan sturtuna. Hann hafi séð til A sem hafi verið hálftaugatrekktur.
Í, starfsmaður Sundmiðstöðvarinnar, lýsti því svo fyrir lögreglunni að hann hafi veitt fyrst athygli í þessu máli að ferðatöskur voru í geymslu í herbergi bak við afgreiðsluna. Maður, sem var á leið til Danmerkur, hafi beðið um að fá að geyma töskurnar þar. Hann hafi veitt strákahóp eftirtekt í heita pottinum sem voru að henda snjóboltum en einnig verið að gjóa augunum að gufunni. Þetta hafi verið 13 til 14 ára strákar sem voru í pottinum næst búningsklefunum. Í kvaðst hafa gengið fram hjá gufuklefanum og séð að hurðin þangað inn hafi verið opin og gengið þangað og litið inn. Hafi hann séð mann fyrir utan og Í sagt við hann að gufan yrði að vera lokuð. Maðurinn hafi orðið frekar súr á svipinn og Í því farið til annars starfsmanns og bent honum á að það þyrfti að fylgjast með gufunni vegna þessa. Um hálftíma síðar hafi verið kallað í talstöð og beðið um að hringt yrði í lögregluna, sem hann hafi gert. Í framhaldi hafi verið farið með manninn inn í sturtuklefa og lögreglan tekið þar við. Maðurinn hafi verið með tvær ferðatöskur, eina stóra og aðra litla, með sér. Í lýsti manninum svo að hann hafi verið á milli 30-40 ára gamall, með dökkt hár, skrýtinn til augnanna eins og þreytulegur. Hann hafi verið frekar mjór og hvítur á hörund, ca. 1,80 á hæð. Hann myndi ekki hvernig sundskýlu hann hafi verið í en rámaði í að hann hafi verið í bláum sundbuxum. Í kvaðst hafa skoðað upptökur úr eftirlitsmyndavélum og þá séð að þessi maður hafi verið í heitu pottunum, í grunna pottinum, í lauginni og pottinum næst búningsklefunum. Það hafi meðal annars sést þegar hann gekk í áttina að gufunni. Upptökur á milli kl. 19:00 og 20:30 hafi verið skoðaðar. Þá sást þegar maðurinn kom í sundið með leigubíl og bar töskurnar, en hann hafi ekki farið í sundið fyrr en 50 mínútum eftir að hann kom með leigubílnum.
Í kom fyrir dóminn og kvaðst hafa farið í skýlið kl. 19.30 til kl. 20.00. Þegar hann hafi gengið fram hjá gufunni hafi hurðin staðið opin svo hann hafi rætt við manninn um að hafa hurðina lokaða. Nokkru seinna hafi komið beiðni um að hringja í lögregluna. Hann hafi farið inn í klefa og þá séð manninn í sturtunni. Sagðist hann hafa séð A eftir að lögreglan kom og hafi hann verið niðurbrotinn.
Ó, starfsmaður Sundmiðstöðvarinnar, lýsti því hjá lögreglu að hann hafi skipt við Í í varðskýlinu úti kl. 20:00. Í hafi komið aftur til sín og sagt sér að það væri einhver ruglaður náungi í gufunni sem væri með opna hurðina vegna þess að það væri svo heitt í gufunni. Í hafi beðið hann um að loka gufunni. Í hafi síðan farið inn í sundklefa en Ó verið að fylgjast með fólkinu í lauginni. Ó hafi tekið eftir því að stór hópur krakka á aldrinum 13-14 ára hafi farið inn í gufuna og verið þar í smátíma og komið svo öll út aftur. Síðan hafi einhverjir af sundkrökkunum, sem höfðu verið í heita pottinum næst húsinu, farið inn í gufuna en Ó ekki tekið eftir því hversu mörg þau voru. Hann hafi því ekki tekið eftir því hversu mörg fóru inn og hversu mörg komu út. Hann hafi síðan verið að fylgjast með fólkinu í sundi og þá hafi drengur bankað á hurðina í skýlinu. Ó hafi ekki heyrt fyrst hvað drengurinn sagði, þar sem hann talaði svo lágt, en drengurinn síðan spurt hvort hann mætti koma inn. Drengurinn hafi komið inn og sagt sér að það væri maður inni í gufu og hafi Ó ekki heyrt hvort drengurinn sagði að maðurinn hafi gripið í klofið á drengnum eða maðurinn látið drenginn grípa í klofið á sér og einnig hvort hann hafi sagt „viltu totta hann á mér“ eða „ má ég totta hann á þér“. Drengurinn hafi talað það lágt að í öllum æsingnum hafi Ó ekki gert sér grein fyrir því hvort var. Ó sagði að sér hefði „dauðbrugðið“ og farið með strákinn inn í búningsklefa og verið með honum þar þangað til lögreglan kom. Þá kvaðst Ó hafa séð á upptökum að sá drengur sem kom í skýlið til sín, hafi fyrst farið í heita pottinn til félaga sinna, stoppað þar stutt og farið upp úr pottinum og komið beint til sín. Sagði hann að stráknum hafi verið mikið niðri fyrir þegar hann kom til sín og þess vegna hafi Ó ekki heyrt fyrst né skilið almennilega hvað drengurinn var að segja. Aðspurður kvaðst Ó ekki vera í nokkrum vafa um að eitthvað hafi komið fyrir drenginn.
Ó kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið kominn í útivörslu á sundlauginni umrætt sinn. Þar hafi verið hópur af krökkum sem hann sá að fóru í gufu. Hann hafi ekki veitt því neitt frekar athygli en þau hafi síðan komið út aftur. Þá hafi einn krakkinn úr sunddeildinni komið og sagt sér að hann hafi verið í gufunni og þar hafi maður veist að honum og spurt eitthvað í þá átt, hvort hann mætti snerta hann á sér eða öfugt, hann myndi það ekki nákvæmlega. Ó sagði að sér hefði brugðið mikið og farið með drenginn beint í búningsklefann og staðið vörð um hann þar til lögreglan kom. A hafi skolfið allur og nötrað og verið mikið niðri fyrir.
Ú varðstjóri kom fyrir dóminn og kvaðst hafa komið fyrstur í Sundmiðstöðina. Kvaðst hann hafa rætt við brotaþola í kjölfarið en hann hafi skolfið og grátið. Brotaþoli hafi sagt sér að maður í gufunni hafi meinað honum útgöngu úr gufunni og spurt sig hvort hann vildi tott auk þess að hafa sett höndina á pungsvæðið. Kvaðst Ú vísa til skýrslu sinnar og staðfesta hana. Ú kvaðst hafa rætt við nokkuð marga krakka á staðnum.
Guðmundur Sigurðsson lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa gert myndaskýrslu við rannsókn málsins. Útskýrði hann aðferðina við að gera ljósmyndaskýrslu úr eftirlitsmyndavélum í Sundmiðstöðinni. Þar hafi komið í ljós að hegðun ákærða hafi snúið að drengjum í sundi. Ákærði hafi verið að teygja sig ítrekað í áttina að drengjunum í heitu pottunum.
Ólöf Ásta Farestveit kom fyrir dóminn og kvaðst hafa haft brotaþola í sálfræðiviðtölum en hann væri búinn að koma fimm sinnum til sín. Beiðni hafi upphaflega komið frá barnaverndarnefnd [...]. Kvað hún meðferðarferlið yfirleitt taka tólf til tuttugu skipti og fara eftir persónu í hverju tilviki. Vel hafi gengið með brotaþola en hann sé búinn að vera gríðarlega reiður og pirraður og hafi það einnig bitnað á fjölskyldu hans, sérstaklega á móður hans. Brotaþoli æfi sund og hafi meint brot haft áhrif á brotaþola í tengslum við sundið og gufuklefinn minni hann á brotið. Hann sé með mjög sterka réttlætiskennd og upplifði að farið hefði verið gróflega yfir hans mörk eins og hann lýsi því. Hann upplifi brotið í sundinu og í gufuklefanum. Brotaþoli sé þroskaður og eigi auðvelt með að túlka tilfinningar sínar. Hann hafi átt erfitt með að sofa og borða eftir brotið og hugsanir hans sífellt beinst að því „hvað ef þetta eða hitt hefði gerst“ sem sé eðlilegt. Reiðin hafi brotist út í skólagöngu og heima fyrir. Hann hafi hætt að umgangast vini sína og viljað vera heima og vera reiður og pirraður þar. Hann sé góður í sundi en forðist að hugsa um og líta til gufunnar og fram til þessa hafi hann ekki farið í pottinn né í gufuna. Ólöf kvaðst gera ráð fyrir tíu til tólf skiptum til viðbótar en þau séu rétt að byrja í meðferðinni.
Y kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið í sundi umrætt sinn og farið í heita pottinn sem sé beint á móti gufuklefanum. Hún hafi tekið eftir því að ákærði stóð fyrir innan fyrri hurðina og þar fyrir innan hafi verið mikil gufa sem ætti ekki að vera. Allar hreyfingar hjá ákærða hafi verið þannig að henni hafi fyrst dottið í hug að eitthvað væri að ákærða. Hún hafi séð að ákærði hafi þurrkað móðu af rúðu á hurðinni og séð að hann gaf krökkunum bendingar með fingrunum um að koma. Krakkarnir hafi sagt við sig að barnaperri væri í gufunni sem væri að reyna að lokka þau inn í gufuna. Sonur hennar, S, hafi komið til sín og Y farið inn í [...]. Y hafi næst farið inn í búningsklefa og S hafi komið á eftir henni og sagt henni að reynt hafi verið að nauðga brotaþola. Hún hafi þá séð að lögregla var komin.
Önnur rannsóknargögn.
Í gögnum málsins eru ljósmyndir sem sýna afstöðu heitu pottanna, gufubaðsklefans, sundlaugarinnar, varðskýlisins, karla- og kvennaklefa. Þá eru ljósmyndir af ákærða, teknar daginn eftir handtöku hans. Kemur fram á myndunum að ákærði er með herraklippingu, nokkurn topp og rytjulegan hárvöxt, dökkskolleitur. Ákærði samsvarar sér vel í vexti en er með aðeins útstæðan maga. Ákærði er með tvö armbönd, annað ofið úr svörtu og hvítu efni þannig að það myndar reglulegar köflur og hitt virðist vera fléttað úr brúnu leðri. Þá eru ljósmyndir af sundbuxum ákærða sem eru svartar sundbuxur með skálmum sem ná niður á læri þegar verið er í buxunum.
Ljósmyndir úr eftirlitsmyndavélum Sundmiðstöðvarinnar liggja fyrir í málinu þar sem sjá má ákærða koma gangandi að heitum potti þar sem sjö unglingar voru í. Virðist ákærði á þessum myndum vera með reistan lim. Sex ljósmyndir eru af ákærða í heitum potti, teknar á tímabilinu 19:05 til 19:12, þar sem hann er með hönd á nárasvæðinu á sér eða kynfærum. Þá eru ljósmyndir sem sýna ákærða færa sig á milli potta og fara í vaðlaug til unglinga. Þar má sjá á ljósmyndum ákærða teygja vinstri fót í rass unglings auk þess sem sjá má hann með hönd á kynfærum utan yfir sundbuxur. Þá eru ljósmyndir þar sem sést að ákærði gerir í því að snerta dreng með hægri fæti, þar sem staða fótar hans er óeðlileg miðað við legu hans.
Ofangreindum myndum til staðfestingar eru upptökur úr upptökuvélum Sundmiðstöðvarinnar.
Forsendur og niðurstaða.
Ákærði neitar sök í málinu varðandi ákærulið 1 og kveðst aldrei hafa verið einn í gufuklefanum né rætt við nokkurn. Enginn varð vitni að þeim atburði sem ákært er fyrir og verður því niðurstaða málsins byggð á trúverðugleika aðila og vitna og annarra óbeinna sönnunargagna.
Ákærði bar því við að háttsemi sú sem ákært er fyrir ætti við annan mann en hann en fleiri hafi verið í gufuklefanum um leið og hann, auk þess sem lýsingar vitna á honum hafi verið á reiki. Að mati dómsins er ekki vafi á því að ákærði í máli þessu sé sá sem vitni hafa lýst sem geranda en vitni lýstu útliti hans og þá sérstaklega armbandi sem ákærði var með. Þá staðfestu nokkur vitni fyrir dóminum að ákærði væri sá maður sem þau sáu í gufuklefanum auk þess sem þau staðfestu að lögregla hefði handtekið sama mann og var í gufuklefanum með þeim.
Í Sundmiðstöðinni umrætt skipti voru að mestu tveir unglingahópar. Annar hópurinn hafði verið á fótboltaæfingu og kom í sund á eftir og hélt sá hópur sig að mestu saman og hinn hópurinn hafði verið að æfa sund og hélt sig að mestu saman. Var brotaþoli í síðari hópnum.
Ákærði neitar að hafa rætt við nokkurn umrætt sinn nema afgreiðslustúlku við komu sína í sundlaugina umræddan dag.
Vitnin D og E lýstu því báðir, strax hjá lögreglu og aftur fyrir dóminum að ákærði ræddi við þá í búningsklefanum áður en þeir fóru út í sundlaug. Þá lýsti vitnið I því að ákærði hefði sagt sér að koma í gufuklefann. Þann framburð styður framburður vitnanna S, M, N, K, J og Þ en Þ kvaðst hjá lögreglu hafa séð ákærða tala við I.
Ákærði neitaði því að hafa með fingrabendingum reynt að hafa samskipti við krakkana í heitu pottunum eða fá þau í gufuna til sín. Vitnin S, U og L lýstu því öll svo, bæði fyrir lögreglu og dómi, að ákærði hefði með fingrabendingum bent þeim á að koma í gufuna. Vitnin Y, K og J lýstu því fyrir dómi að ákærði hafi verið með bendingar til krakkanna í pottinum að koma í gufuna auk þess sem vitnin I, P, Y og Z lýstu því líka fyrir lögreglu.
Ákærði neitaði að hafa verið einn með einhverjum öðrum í gufuklefanum.
Vitnin C, D, G og Ö lýstu því öll, bæði fyrir lögreglu og dóminum, að þau hafi yfirgefið gufuklefann og ákærði og A hafi orðið einir eftir inni. C lýsti því einnig að hún hafi farið aftur inn í klefann og spurt A sérstaklega að því hvort hann væri ekki að koma en hann svarað því til að það væri svo notalegt að liggja þarna og hann ætlaði að vera aðeins lengur. Er framburður þessara vitna trúverðugur og eins fyrir lögreglu og dóminum.
Af öllu því sem að ofan er rakið telur dómurinn lögfulla sönnun fram komna um að ákærði hafi sýnt af sér þá hegðun sem vitni hafa lýst og einnig að hann hafi orðið einn eftir með brotaþola í gufuklefanum. Telur dómurinn framburð ákærða ótrúverðugan að öllu leyti og stangast á við framburð fjölmargra vitna.
Þá er til skoðunar hvort ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í ákærulið 1 í ákæru en ákærði neitar sök. Enginn er til frásagnar um það sem gerðist í gufuklefanum nema ákærði og brotaþoli og er það orð gegn orði.
Vitnin D, C, Ö, G og E lýstu því öll að brotaþoli hafi komið síðastur þeirra út í heita pottinn beint úr gufuklefanum. Ákærði sagði þeim þá strax frá atvikinu þannig að ákærði hafi í fyrstu runkað sér og tekið typpið út fyrir sundbuxurnar og síðan tekið um axlir brotaþola, tekið um klof hans utan yfir sundskýlu hans og spurt ákærða hvort hann vildi ekki tott. Lýstu þau öll viðbrögðum brotaþola og að honum hafi verið mikið niðri fyrir og brugðið. Þá lýstu önnur vitni því, bæði fyrir lögreglu og dóminum, að brotaþoli hafi verið miður sín og grátið í búningsklefanum eftir atvikið. Brotaþoli gaf skýrslu í Barnahúsi stuttu eftir atvikið og aftur fyrir dóminum og hefur framburður hans verið stöðugur skýr og trúverðugur að öllu leyti. Þá er lýsing hans strax á vettvangi í samræmi við síðari framburð hans. Þá styður framburður allra annarra er að málinu komu í Sundmiðstöðinni það að brotaþola hafi verið mjög brugðið og miður sín.
Ólöf Ásta Farestveit lýsti hugarástandi brotaþola eftir atvikið og styður sú lýsing þau áhrif sem brotaþoli segir sjálfur að hann hafi orðið fyrir.
Með hliðsjón af því sem að framan er rakið er það niðurstaða dómsins að leggja megi frásögn brotaþola til grundvallar því að ákærði hafi brotið gegn honum eins og nánar er lýst í 1. lið ákærunnar, en sú frásögn hans fær stoð í framburði fjölda vitna, bæði þeirra sem voru í heitapottinum þegar brotaþoli kom ofan í hann og sagði þeim frá atvikinu, starfsmanna Sundmiðstöðvarinnar svo og þeirra sem lýstu hugarástandi brotaþola í beinu framhaldi. Telst þessi háttsemi ákærða nægilega sönnuð og varða við 2. mgr. 202. gr. og 209. gr. almennra hegningarlaga. Verður ákærða gerð refsing fyrir.
Ákærði játaði sök í ákærulið 2. Er játning hans í samræmi við þau gögn sem lögð voru fram í málinu og fundust í tölvu hans. Verður hann einnig sakfelldur fyrir þá háttsemi en hún er réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Við ákvörðun refsingar verður að líta til þess að ákærði braut gegn ungum dreng sem var aðeins fjórtán ára. Ákærði var dæmdur 23. mars 2010 í sex mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir blygðunarsemisbrot og umferðarlagabrot. Hefur sá dómur ítrekunaráhrif við ákvörðun refsingar nú. Önnur brot ákærða hafa ekki áhrif við ákvörðun refsingar. Þykir refsing ákærða nú hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði. Með vísan til sakaferils ákærða þykja ekki skilyrði til að skilorðsbinda refsinguna. Þá skal ákærði sæta upptöku á tölvu eins og krafist er í ákæru.
Einkaréttarkrafa.
Þess er krafist að ákærði greiði brotaþola miskabætur að fjárhæð 800.000 krónur með vöxtum eins og lýst er í ákæru. Var bótakrafan birt ákærða þann 13. maí sl. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
Ákærði hefur með háttsemi sinni bakað sér bótaskyldu gagnvart bótakrefjanda samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga og er háttsemin til þess fallin að valda brotaþola miska. Við ákvörðun bóta verður litið til vottorðs Ólafar Ástu Farestveit og frásagnar móður brotaþola sem fær stoð í vottorði Ólafar. Þá átti brotið sér stað í Sundmiðstöð [...] þar sem brotaþoli hefur stundað sundæfingar daglega. Hefur brotið valdið honum tilfinningaröskun og andlegri áþján, sem verður að öllu leyti rakið til brota ákærða. Ákveðast miskabætur að þessu virtu 600.000 krónur, með vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.
Réttargæslumaður brotaþola gerir kröfu um málskostnað fyrir að halda kröfunni uppi. Með vísan til síðari málsliðar 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 verður bótakrefjanda ekki dæmdur málskostnaður við að halda uppi bótakröfu hafi honum verið skipaður réttargæslumaður. Ber því að hafna þeirri kröfu.
Ákæruvaldið hefur gert kröfu um að ákærði verði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar. Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 ber að dæma ákærða til að greiða sakarkostnað, sem er samkvæmt yfirliti 66.051 króna, málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Súsönnu Fróðadóttur hdl., á rannsóknarstigi og fyrir dómi, samtals 649.462 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 84.600 krónur í ferðakostnað auk þóknunar skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Gunnhildar Pétursdóttur hdl., 332.575 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Málið dæma héraðsdómararnir Ástríður Grímsdóttir, Gunnar Aðalsteinsson og Sveinn Sigurkarlsson.
D Ó M S O R Ð
Ákærði, Róbert Örn Jónsson, sæti fangelsi í átta mánuði.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, samtals 1.132.688 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Súsönnu Fróðadóttur hdl., 649.462 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 84.600 krónur í ferðakostnað auk þóknunar skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Gunnhildar Pétursdóttur hdl., 332.575 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ákærði greiði B, kt. [...], vegna ólögráða sonar síns, A, kt. [...], 600.000 krónur í miskabætur auk vaxta skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 6. mars 2013 til 13. júní 2013 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði sæti upptöku á tölvu (munur 375528).