Hæstiréttur íslands
Mál nr. 522/2005
Lykilorð
- Ökuréttarsvipting
- Akstur án ökuréttar
- Ölvunarakstur
|
|
Miðvikudaginn 24. maí 2006. |
|
Nr. 522/2005. |
Ákæruvaldið(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari) gegn Birgi Kristjánssyni (Páll Arnór Pálsson hrl.) |
Ölvunarakstur. Akstur án ökuréttar. Ökuréttarsvipting.
B var sakfelldur fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis. Hafði B frá árinu 1968 hlotið 14 refsidóma fyrir ölvun við akstur, en með 11 þeirra var hann jafnframt dæmdur fyrir akstur sviptur ökurétti. Með vísan til sakaferils B og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 var honum gert að sæta fangelsi í sex mánuði og sviptur ökurétti ævilangt.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 23. nóvember 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst mildunar refsingar.
Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann frá árinu 1968 hlotið 14 refsidóma fyrir ölvun við akstur, en með 11 þeirra var hann jafnframt dæmdur fyrir akstur sviptur ökurétti. Hann hlaut þrjá síðustu dómana á árunum 1995, 1999 og 2002, þann fyrsta í febrúar 1995, fangelsi í 18 mánuði, annan í janúar 1999, fangelsi í 12 mánuði og loks í maí 2002, fangelsi í 6 mánuði. Með fyrstu tveimur dómunum voru dæmdar með eftirstöðvar refsingar samkvæmt reynslulausn sem hann hafði hlotið, 296 dagar með þeim fyrri en 260 dagar þeim síðari. Ævilöng ökuréttarsvipting hans var áréttuð í öllum þremur dómunum. Refsing ákærða er með vísan til sakaferils hans og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um ökuréttarsviptingu og sakarkostnað verða staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um málskostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Birgir Kristjánsson, sæti fangelsi í 6 mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um ökuréttarsviptingu og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 209.267 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Páls A. Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. október 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 10. október 2005, á hendur Birgi Kristjánssyni, kt. 221044-4879, Hátúni 10b, Reykjavík, fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni RD-614, sunnudaginn 29. maí 2005, undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 2,18) og sviptur ökurétti frá miðborg Reykjavíkur, uns akstri lauk við gatnamót Skúlagötu og Snorrabrautar.
Þetta er talið varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993, 2. gr. laga nr. 23/1998 og 8. gr. laga nr. 84/2004.
Af hálfu ákærða er krafist vægustu refsingar er lög leyfa.
Farið var með mál þetta samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.
Ákærði hefur skýlaust játað brot sitt. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og er brot hans rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.
Ákærði er fæddur í október 1944. Ákærði á að baki langan brotaferil. Hefur hann allt frá árinu 1963 hlotið fjölmarga dóma fyrir ölvunarakstur sem og sviptingarakstur. Ítrekunaráhrif þessara dóma eru ekki fyrnd sbr. 3. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga. Síðast var ákærði dæmdur í 6 mánaða fangelsi og ævilanga sviptingu ökuréttar með dómi Héraðsdóms Reykjaness 14. maí 2002.
Refsingu ákærða ber að tiltaka með hliðsjón af 72. og 77. gr. almennra hegningarlaga og þykir hún hæfilega ákveðin fangelsi í 7 mánuði.
Ákærði er með vísan til 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga sviptur ökurétti ævilangt.
Ákærði greiði 22.517 krónur í sakarkostnað.
Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Birgir Kristjánsson, sæti fangelsi í 7 mánuði.
Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.
Ákærði greiði 22.517 krónur í sakarkostnað.