Hæstiréttur íslands

Mál nr. 80/2004


Lykilorð

  • Landskipti
  • Sameign
  • Hefð
  • Frávísun frá héraðsdómi


Fimmtudaginn 28

 

Fimmtudaginn 28. október 2004.

Nr. 80/2004.

Ólafur Þorri Gunnarsson og

Sigurður Eggertsson

(Ólafur Björnsson hrl.)

gegn

Jens Jóhannssyni

Árna Jóhannssyni og

Böðvari Gíslasyni

(Karl Axelsson hrl.)

og gagnsök

 

Landskipti. Sameign. Hefð. Frávísun máls frá héraðsdómi.

Deila málsaðila var sprottin af landskiptum á svonefndum Þveráraurum, sem lokið var árið 1995. Var ekki á það fallist með þeim Ó og S, að landskipti á spildunni hafi farið fram með landskiptagerðum árin 1931 og 1950. Varð krafa þeirra um ógildingu landskiptagjörðarinnar frá 1995 því ekki á þeim ástæðum reist. Þá var ekki heldur fallist á þau rök að ógilda bæri landskiptin sökum annmarka á meðferð málsins fyrir landskiptamönnum. Af hálfu Ó og S var því einnig haldið fram að þeir hafi unnið eignarhefð hvor á sinni spildu á Þveráraurum. Ekki lá skýrt fyrir hvenær spildurnar höfðu hvor um sig verið girtar og hvernig afnotum þeirra hafði nánar verið háttað á þeim tíma, sem síðar var liðinn. Var málið því svo vanreifað að þessu leyti að dómur varð ekki á það lagður. Samkvæmt því varð ekki komist hjá að vísa málinu af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason.

Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 20. febrúar 2004. Þeir krefjast þess að ógilt verði landskiptagjörð 30. október 1995, er varðar skipti lands á Þveráraurum úr Teigstorfu í Fljótshlíð. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjendur áfrýjuðu héraðsdómi fyrir sitt leyti 21. apríl 2004. Þeir krefjast staðfestingar héraðsdóms um annað en málskostnað og að þeim verði dæmdur málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti.

Deila málsaðila er sprottin af landskiptum á svonefndum Þveráraurum, sem lokið var 30. október 1995. Reisa aðaláfrýjendur kröfu sína einkum á því að skilyrði hafi ekki verið fyrir hendi til að taka landið til skipta þar eð því hafi þegar verið skipt í fyrri landskiptum 5. júní 1931 og 4. nóvember 1950. Þá sé meðferð málsins fyrir landskiptamönnum haldin margs kyns annmörkum, sem einnig eigi að leiða til þeirrar niðurstöðu að landskiptin 1995 verði ógilt. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hafnað kröfu aðaláfrýjenda, sem á þessum ástæðum er reist.

Aðaláfrýjendur reisa kröfu sína loks á því að þeir hafi unnið eignarhefð hvor á sinni spildu á Þveráraurum. Að því er Bollakot varðar er haldið fram að þegar eftir landskiptin 1950 hafi spilda á aurunum, sem liggur þvert yfir þá í framhaldi af landi jarðarinnar sunnan auranna, verið afgirt og umráðum hennar hagað svo eftir það að fullkominn eignarréttur hafi skapast. Að því er Smáratún varðar segir í stefnu til héraðsdóms að land „norðan miðlínu Þverár“ tilheyri jörðinni fyrir hefð. Gagnáfrýjendur telja á hinn bóginn að skilyrði 1. gr. og 2. gr. laga um hefð nr. 46/1905 séu ekki uppfyllt svo aðaláfrýjendur hafi mátt vinna hefð á spildunum. Halda þeir jafnframt fram að sameigandi fái ekki hefð að hluta sameignar.

Ekki liggur skýrt fyrir hvenær spildurnar hafi hvor um sig verið girtar og hvernig afnotum þeirra hafi nánar verið háttað á þeim tíma, sem síðan er liðinn. Er málið því svo vanreifað að þessu leyti að dómur verður ekki á það lagður. Verður samkvæmt því ekki komist hjá að vísa málinu af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.

Rétt er að aðilarnir ber hver sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Málinu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 24. nóvember 2003.

 

Mál þetta, sem dómtekið var 20. október 2003, er höfðað 14. janúar sl.

Stefnendur eru Ólafur Þorri Gunnarsson, Bollakoti, Fljótshlíð og Sigurður Eggertsson, Smáratúni, Fljótshlíð.

Stefndu eru Jens Jóhannsson, Teigi 1, Fljótshlíð, Árni Jóhannsson, Teigi 2, Fljótshlíð og Böðvar Gíslason, Butru, Fljótshlíð.

Stefnendur krefjast þess að ógilt verði með dómi landskiptagerð 30. október 1995 er varðar landskipti á Þveráraurum úr Teigstorfu, Fljótshlíð, Rangárvallasýslu. Stefnendur krefjast og málskostnaðar úr hendi stefndu in solidum.

Stefndu, Jens Jóhannsson, Árni Jóhannsson og Böðvar Gíslason krefjast sýknu af kröfu stefnenda og  málskostnaðar úr hendi stefnenda in solidum.

 Með úrskurði Héraðdóms Suðurlands 21. febrúar 2003 var varakröfu stefnenda á hendur stefndu og íslenska ríkinu vísað frá dómi. 

 

Málsatvik

Undir jörðina Teig í Fljótshlíð lágu áður hjáleigurnar Finnshús, Ámundakot, (nú Smáratún), Bollakot  og Miðkot. Samkvæmt jarðatali J. Johnsen 1847 var höfuðbólið Teigur metið til 40 hundraða að dýrleika en hjáleigurnar Finnshús, Ámundakot, Miðkot og Bollakot allar til samans til 40 hundraða að dýrleika. Í  jarðamati frá 1861 eru jarðirnar einnig tilgreindar sem hjáleigur Teigs, en í  fasteignabók frá 1922 eru jarðirnar hins vegar taldar upp með sjálfstæðum hætti.

Samkvæmt landamerkjabréfi frá 14. maí 1890 er Butra einnig talin með hjáleigunum og mynduðu jarðir þessar svokallaða Teigstorfu.

 Í málinu liggur fyrir landskiptagerð frá 5. júní 1931, sem tók til ákveðins óræktaðs lands milli Ámundakots, Miðkots og Bollakots og voru einungis fyrirsvarsmenn þeirra jarða aðilar að landskiptagerð þessari.

Með landskiptagerð 4. nóvember 1950 varð samkomulag um að skipta ákveðnum hluta Teigstorfunnar, eða landi neðan Þverár, og svo graslendi upp af túnum Teigsbæja. Í landskiptagerðinni er tilgreint að til skipta skuli koma ,,1) allt land neðan Þverár og 2) graslendið upp af túnum Teigsbæja. En láta haldast þau skipti sem eru á túnum og slægjum milli bæja…,,Var svo landi úthlutað þannig: Landinu fyrir sunnan Þverá er skipt í reglulegar skákir frá Þverá suður í Landeyjamörk. Enn fremur skákir afmarkaðar a) með vörðum efst á graslendinu nálægt Þverá og b) aftur með vörðum suður á Affallsbökkum... Ráða þessi mörk heim í Þverár farveg...”

Í gögnum málsins er greint frá því að á síðari hluta 18. aldar hafi  Markarfljót tekið mjög að brjóta tún og beitilönd í innanverðri Fljótshlíð. Stór kvísl úr Markarfljóti hafi brotið sér farveg í Þverá og allt orðið að aur og svörtum sandi sem áður hafði verið gróið land.

Á Alþingi voru samþykkt lög á árinu 1932 um fyrirhleðslu Þverár og Markarfljóts, en árið 1946 hófust framkvæmdir við Þórólfsfell og hlaðinn var mikill varnargarður frá Fellinu og fram á aurana, en nokkru fyrr hafði verið hlaðinn garður frá Háamúla og fram á sandana. Einnig var hlaðið fyrir Affall og Ála til varnar landbroti. Í dag eru Þveráraurar grasi grónir.

Árið 1972 var beðið um landskipti á hluta Teigstorfu í Fljótshlíðarhreppi, á svokölluðum Þveráraurum. Þá var skipuð skiptanefnd, en hún lauk ekki störfum. Landskipti biðu um hríð, meðan leyst var úr landamerkjadeilu Teigstorfu og Heylækjartorfu. Aðilar að gerðardómsmáli sem lauk 19. janúar 1977 voru eigendur Heylækjartorfu og Teigstorfu, en í málinu var ágreiningur um tilgreind mörk Teigstorfu og Heylækjartorfu.  Ný landskiptanefnd hóf störf árið 1980 og var Jóhann Franksson de Fontenay skipaður oddamaður hennar. Sú nefnd komst að þeirri niðurstöðu að fá þyrfti skriflegan úrskurð sýslumanns um hvaða land væri óskipt á Þveráraurum. Áður en niðurstaða fékkst féll oddamaður nefndarinnar frá.  Í júní 1988 var Einar Þorsteinsson héraðsráðunautur skipaður formaður landskiptanefndarinnar og landskiptamenn útnefndir að nýju 9. september 1993. Nefndin hélt tvo fundi, fyrst í apríl 1994, og síðar 30. október 1995, en þá lauk skiptum. Stefnandi, Ólafur Þ. Gunnarsson, krafðist yfirlandskipta með bréfi 29. mars 1996 til Sýslumannsins í Rangárvallasýslu, en með bréfi 15. maí 1996  óskaði hann eftir því að beðið yrði með að skipa yfirlandskiptanefnd, þar sem hann hygðist höfða dómsmál til viðurkenningar á því að öllu landi á Þveráraurum hefði þegar verið skipt. Stefnandi, Sigurður Eggertsson, krafðist yfirlandskipta með bréfi 24. apríl 1996.

Sættir voru reyndar með aðilum hjá Sýslumanninum í Rangárvallasýslu á árunum 1997 og 1998, en án árangurs og með bréfi sýslumanns til aðila landskiptamálsins 8. febrúar 1999 tilkynnti sýslumaður að ekki yrði um frekari sáttatilraunir að ræða af hálfu embættisins. Viðbrögð við þessu bréfi bárust fyrst 6. mars 2000, en þá óskuðu stefndu eftir milligöngu sýslumanns um að landskiptamenn gengjust fyrir því að sett yrðu upp merki á grundvelli skiptanna. Með bréfi sýslumanns 3. maí 2000 var fallist á þessa beiðni. Stefnendur mótmæltu þeirri ákvörðun og kröfðust afturköllunar hennar með bréfi 12. maí 2000 en til vara yfirlandskipta. Sýslumaður sendi bréf til landeigenda 5. september 2000 og ítrekaði að ekki yrði um frekari sáttatilraunir að ræða og því giltu undirlandskiptin frá 30. október 1995. Með bréfi stefnenda til sýslumanns 31. janúar 2001 var þess enn krafist að yfirlandskiptanefnd yrði skipuð og tók sýslumaður 4. apríl 2001  ákvörðun um að hafna framkominni beiðni um yfirlandskipti. Þá ákvörðun kærðu stefnendur til dómsmálaráðuneytisins og staðfesti ráðuneytið ákvörðun sýslumanns með úrskurði sínum 29. október 2001. Varakrafa stefnenda, sem vísað hefur verið frá, laut að því að felldur yrði úr gildi úrskurður Dómsmálaráðuneytisins. 

 Dómari fór á vettvang ásamt aðilum málsins og lögmönnum þeirra í upphafi aðalmeðferðar málsins 20. október sl.

  Ágreiningur máls þessa snýst fyrst og fremst um það hvort svokölluðum Þveráraurum hafi verið skipt með landskiptagerð árið 1950 og eftir atvikum hvort hluta þeirra hafi verið skipt með skiptagerð frá 1931.

 

Málsástæður og lagarök stefnenda

    Stefnendur styðja aðalkröfu sína einkum með því að þar sem skipti á umræddu landi hafi þegar farið fram með landskiptagerðum frá 5. júní 1931 og 30. október 1950, hafi landamerki jarðanna legið ljós fyrir á þessu svæði. Stefnendur benda á að samkvæmt eldri heimildum svo sem jarðabók Árna Magnússonar hafi land Smáratúns (áður Ámundakots) og Bollakots/Miðkots legið að Þverá um aldir. Stefnendur byggja á því að orðalag skiptagerðanna verði ekki skilið á annan hátt en að miðlína Þverár, eins og hún hafi verið 1931, ráði merkjum þar sem land jarða komi saman á Þveráraurum, sbr. 3. gr. vatnalaga nr. 15/1923. Ef ágreiningur sé um landamerki, verði að leysa úr því í sérstöku landamerkjamáli. Stefnendur segja orðalag skiptagerðarinnar frá 1950 vera sérstaklega skýrt að þessu leyti, en þar komi fram að öllu landi Teigstorfu neðan Þverár sé skipt en ,,hraunin og nokkurt graslendi með þeim, óskipt upprekstarland, eins og verið hefur.” Stefnendur segja að hvergi sé sagt í skiptagerðinni að óskipt land verði á Þveráraurum. Því hafi ekki verið lagaskilyrði til landskipta samkvæmt 1. mgr. 1. gr. landskiptalaga nr. 46/1941. Landskipti á þessu landi hafi því beinlínis verið óheimil samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 1. gr. landskiptalaga, sbr. 16. gr. sömu laga.

    Þá byggja stefnendur á því að landskiptamönnum hafi borið að vísa kröfu um landskipti frá þar sem í ljós hafi komið að ágreiningur hafi verið um til hvaða landsvæðis skiptin hafi átt að ná, eða hvort um óskipt land hafi yfir höfuð verið að ræða á þessu svæði. Stefnendur segja að samkvæmt gögnum málsins hafi legið fyrir allt frá árinu 1987 að ágreiningur væri um hvort og þá hvaða land sé óskipt á Þveráraurum. Þennan ágreining hafi hafi borið að leysa fyrir dómstólum áður en skipti hefðu getað farið fram, sbr. 3. gr. landskiptalaga nr. 46/1941. Því séu skiptin frá 1995 lögleysa sem fella beri úr gildi.

    Stefnendur kveða landskiptagerðina vera stjórnvaldsákvörðun tekna í skjóli laga nr. 46/1941 og kveði hún á um réttindi og skyldur aðila með bindandi hætti. Við skiptin hafi ekki verið gætt grundvallarreglna stjórnsýsluréttarins.

Í fyrsta lagi benda stefnendur á að rannsóknarreglan hafi verið brotin þar sem ekki verði séð að nefndarmenn hafi kannað sjálfstætt allar heimildir um landsvæði það sem til skipta hafi verið. Í málinu liggi fyrir að nefndarmenn hafi ekki haft skiptagerðina frá 1931  undir höndum, en það sé grundvallarskjal í málinu. Valdi það eitt og sér því að fella beri landskiptagerðina úr gildi, enda hafi forsendur fyrir skiptunum þá verið alrangar. Stefnendur byggja einnig á því að hvorki verði séð að nefndarmenn hafi kannað eða látið meta landgæði þess lands sem búið hafi verið að skipta, né þess lands sem óskipt sé, en ekki sé ágreiningur í málinu um að hluti torfunnar, þ.e. beitiland á nyrsta hluta þess á svokölluðum Hraunum, sé óskipt. Stefnendur halda því þannig fram að skiptin séu einnig ósanngjörn þegar tekið sé tillit til landgæða þess lands sem skipt var 1995 og til þess lands sem þegar sé búið að skipta. Horfa verði á torfuna í heild þegar leitast sé við að ná fram sanngjörnum skiptum í samræmi við jarðarhundruð.

Í öðru lagi byggja stefnendur á því að skiptagerðin sé andstæð lögmætisreglunni en megininntak hennar sé að stjórnvöldum sé óheimilt að skerða lögvarin réttindi borgaranna án skýrrar lagaheimildar. Með skiptagerðum þeim sem lágu fyrir frá 1931 og 1950 hafi skapast stjórnarskrárvarinn séreignarréttur stefnenda á því landi. Ekki sé heimild til að skerða slíkan eignarrétt á grundvelli laga nr. 46/1941 um landskipti.

Stefnendur byggja einnig á því að þegar landskipti fóru fram hafi verið ljóst að land Bollakots (Miðkots) á Þveráraurum hafi verið afgirt í um 45 ár. Því hafi skapast fullkominn eignarréttur á grundvelli hefðar til handa eiganda Bollakots á því landi. Ekki sé heimild til að svipta eiganda Bollakots hluta af því landi án bóta, enda hafi ekki verið sýnt fram á að Bollakot fengi með þeim hætti hlutfallslega meira land en jörðinni hafi borið, miðað við landgæði. Jafnvel þó svo væri, þá hafi ekki verið sýnt fram á að ekki sé hægt að bæta öðrum jörðum það upp við skipti á því landi þegar horft sé til þess hve verðmætt land Butra hafi fengið ofan Þverár. Hið sama megi segja um land Smáratúns norðan miðlínu Þverár, það land sé klárlega eign Smáratúns fyrir órofa hefð. Sé í þessu sambandi ljóst að skiptagrundvöllurinn sé rangur og því beri að fella landskiptagerðina úr gildi.

 

Málsástæður og lagarök stefndu

Stefndu hafna öllum málsástæðum stefnenda.

Stefndu kveða það liggja ljóst fyrir að Þveráraurum hafi ekki verið skipt fyrir landskipti þau sem fram fóru 1995. Raunar sé það óupplýst í málinu hvenær upphafleg skipti Teigstorfunar hafi átt sér stað og hvort þau hafi farið fram með lögformlegum hætti. Í málinu liggi fyrir svokölluð skiptagerð á óræktuðu landi milli Ámundakots, Miðkots og Bollakots frá 5. júní 1931. Sú skiptagerð sé án nokkurrar þýðingar fyrir stefnendur þessa máls enda hafi þáverandi eigendur jarða þeirra enga aðild átt að skiptunum. Umrædd skiptagerð hafi því ekki neitt gildi að lögum. Verði talið að umrædd skiptagerð geti haft einhverja þýðingu formlega séð, hafi hún enga efnislega þýðingu fyrir úrlausn máls þessa og hniki í engu við gildi landskiptanna frá 1995.

Í landskiptagerðinni frá 1950 sé einungis ákveðinn og afmarkaður hluti hins óskipta lands tekinn til skipta, þ.e. allt land neðan Þverár og graslendið upp af túnum Teigsbæja. Þá segi í landskiptagerðinni að haldast skuli þau skipti sem séu á túnum og slægjum milli bæja. Svo sem fyrr segi liggi hins vegar ekkert fyrir um það hvenær þau skipti hafi farið fram og/eða hvort þau hafi átt sér stað með lögformlegum hætti. Verði tilvísun þessi því túlkuð afar þröngt. Stefndu segja þannig liggja ljóst fyrir að efri hluta Þveráraura hafði aldrei verið skipt og hafi ekki verið skipt með skiptagerðinni frá 1950. Verði það ekki ráðið af skiptagerðinni að þau skipti sem fram fóru á landi neðan/sunnan Þverár hafi náð nema að aurunum. Hið skipta land sé þvert á móti afmarkað með þeim hætti að vísa í vörður efst á graslendinu nálægt Þverá. Staðfesti þessi tilgreining að landskiptin hafi eingöngu náð að aurunum. Sú niðurstaða styðjist ennfremur við staðhætti fram um og yfir 1950.  Vegna náttúrulegra aðstæðna hafi Þveráraurar verið algerlega ónýtanlegir og því næsta fráleitt að menn hafi sérstaklega ætlað skiptunum að ná til auranna. Loks leggi stefndu á það áherslu að fyrirliggjandi og eldri skiptagerðir verði aldrei túlkaðar með rýmkandi hætti eða út fyrir þá tilgreiningu sem með óyggjandi hætti verði af þeim ráðin.

Í öðru lagi hafna stefndu þeirri málsástæðu stefnenda að landskiptamönnum hafi borið að vísa frá kröfu um landskipti í ljósi þess að ágreiningur væri uppi um það til hvaða lands skiptin ættu að ná. Skiptabeiðni hafi eðli málsins samkvæmt verið beint til sýslumanns sem hafi borið að kanna forsendur hennar og hafna því þá að skipa skiptamenn, samkvæmt 1. mgr. 4. gr. landskiptalaga nr. 46/1941, hefði hann ekki talið forsendur til að skipti færu fram. Sýslumaður hafi augljóslega talið að engar slíkar hindranir stæðu skiptum í vegi og hafi það ekki verið á valdsviði landskiptamanna að vísa kröfunni frá. Stefndu segja tilvísun stefnenda til 3. mgr. 3. gr. landskiptalaga nr. 46/1941, vera þýðingarlausa í þessu sambandi. Þá hafi stefnendur ekki áður talið ástæðu til þess að hafa uppi formleg mótmæli við réttmæti og lögmæti framkominnar skiptabeiðni. Forsendur landskiptamanna hafi því staðist í einu og öllu og því séu engin efni til þess nú að fella landskiptagerð þeirra úr gildi, jafnvel þótt að fallist yrði á það með stefnendum að fyrir hafi legið óvissa um þessa þætti fyrir skiptin á aurunum.

Í þriðja lagi hafna stefndu því að brotið hafi verið í bága við reglur stjórnsýsluréttarins við gerð landskiptagerðarinnar. Stefndu mótmæla því að landskiptagerð skoðist sem stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýsluréttar enda gildi sérlagaákvæði landskiptalaga nr. 46/1941 alfarið um framkvæmd landskipta. Stefndu hafna því að rannsóknarregla hafi verið brotin. Einnig hafna stefndu því að fyrirliggjandi skipti séu ósanngjörn og að lögmætisreglan hafi verið brotin.

Í fjórða lagi hafna stefndu því að eigendur Bollakots og Smáratúns hafi unnið hefð á hluta hins umþrætta lands. Stefndu benda á að á hefðarsjónarmiðum hafi aldrei verið byggt af hálfu stefnenda undir landskiptunum og sé þessari málsástæðu nú fyrst hreyft. Þá séu skilyrði hefðarlaga nr. 46/1905, einkum 1. og 2. gr. þeirra ekki fyrir hendi. Aldrei hafi verið litið svo á af öðrum að girðingar þær sem stefnendur vísi til og byggi kröfur sínar á, séu merkjagirðingar. Þvert á móti hafi stefnendur og fyrri eigendur jarðanna Bollakots og Smáratúns vitað vel að umrætt land var í óskiptri sameign. Stefndu leggja sérstaka áherslu á það að lagarök og réttarframkvæmd standi því alfarið í vegi að sameigandi fái hefðað hluta sameignar. Fari svo að talið verði að hefðarreglur geti komið til álita í málinu, þá benda stefndu á að auk þess að huglæg skilyrði 2. mgr. 2. gr. hefðarlaga nr. 46/1905 séu ekki uppfyllt, þá bresti alla sönnun fyrir óslitnu eignarhaldi í skilningi 1. gr. laganna.

Loks vekja stefndu athygli á því að stefnendur hafi í engu getað bent á það í hverju efnislegir annmarkar landskiptanna felist. Stefnendur hafi vísað til þess að búið hafi verið að skipta umræddu landi og svo því að þeir hafi verið búnir að hefða hluta landsins. Hins vegar hafi ekki verið bent á efnislega annmarka í forendum eða úrlausn landskiptamanna.

 

Niðurstaða

Í málinu liggur frammi ljósrit landskiptagerðar frá 1931. Með henni fóru fram ,,skifti á óyrktu landi, er liggur á milli jarðanna Ámundakots, Miðkots og Bollakots í Fljótshlíð.” Samkvæmt skiptagerðinni fékk Ámundakot ,,austast hluta landsins vestur að tröðunum í Miðkoti og beina stefnu til norðurs, að sjá í hábunguna í Þríhyrningshálsi.”

Mörkin milli Miðkots og Bollakots ákváðust þannig:,,...bein lína neðst í engjamörkin milli Teigs og Bollakots í heimreiðina á Grjótá neðan við túnið. Að öðru leyti takmarkar engjagarður að ofan og Þverá að neðan áðurnefndar landspildur.”

Af orðalagi skiptagerðarinnar verður ekki með glöggum hætti ráðið að Þveráraurum hafi verið skipt að einhverju leyti. Við mat á gildi skiptagerðarinnar fyrir aðila máls þessa verður einnig að líta til þess að einungis fyrirsvarsmenn ofangreindra jarða undirrituðu hana, en ekki eigendur jarða stefndu. Þegar framangreint er virt verður ekki á það fallist með stefnendum að lögfest skipti hafi farið fram á Þveráraurum með framangreindri skiptagerð.

Ágreiningslaust er að í kjölfar þess að garðar voru reistir til varnar því að Markarfljót rynni í Þverá árið 1946 urðu stórfelldar breytingar á vatnsmagni árinnar. Með tímanum urðu svo þær breytingar á árfarveginum að þar sem áður hafði verið sandur og aur í farvegi Þverár, varð grasi gróið land.

Í skiptagerð frá 1950 segir að tekið hafi verið til skipta allt land neðan Þverár og að landinu fyrir sunnan Þverá hafi verið skipt í reglulegar skákir suður í Landeyjamörk...,,Ráða þessi mörk heim í Þverár farveg.”

Einn stefndu óskaði eftir landskiptum á Þveráraurum árið 1972 og lauk landskiptum með landskiptagerð á árinu 1995. Samkvæmt ljósriti sem lagt hefur verið fram um störf landskiptanefndar, sem skipuð var á árinu 1980, voru uppi þrjár skoðanir meðal eigenda jarða málsaðila um það hvað óskipt væri í Þverárfarvegi. Í fyrsta lagi að Þveráraurum hafi verið skipt með öðru landi árið 1950, í öðru lagi að þá hafi verið skipt í miðjan farveg Þverár og í þriðja lagi að þá hafi verið skipt öllu láglendi upp að syðri bökkum Þverárfarvegs, sem þá hafi verið óskiptur með öllu. Þá var bókað á fundi nefndarinnar 20. febrúar 1986 að ástæðan fyrir því að ,,Guðjón í Tungu” hafi ekki undirritað landskiptagerð árið 1950 hafi verið sú að aurunum hafi þá ekki verið skipt.

Á fundi landskiptanefndar 20. febrúar 1986 kom og fram ágreiningur málsaðila um hvort Þveráraurum hafi verið skipt árið 1950. Þar var m.a. bókað eftir Eggerti, föður annars stefnanda, að ,,einn skiftamaður hefði neitað að skrifa undir skiftagjörð 1950 vegna þess að hann hefði viljað draga línur á umræddan Þveráraur. Þá hefðu allir sæst á að reikna ekki með neinum aur. Þetta hefði verið gert á þeirri forsendu að sá sem fengi hlutfallslega of mikinn aur þyrfti að kosta meiru til girðinga..”. Þar er og bókað eftir Þorra, öðrum stefnenda þessa máls, að aurinn fyrir landi Bollakots hafi verið girtur í 30 ár.

Orðalag landskiptagerðarinnar frá 1950 er afar óljóst um hvort Þveráraurum var þá skipt og verður af orðalagi hennar ekki fullyrt að ,,allt land neðan Þverár” hafi tekið til Þverárauranna, sem þá voru gróðurlausir og illnýtanlegir. Samkvæmt 1. tl. 1. gr. laga nr. 46/1941 getur komið til landskipta eftir landskiptalögum ef lögfest skipti hafa eigi áður farið fram. Þegar framangreint er virt og litið til þess að einn skiptamanna undirritaði ekki skiptagerðina 1950 vegna þess að hann taldi að aurunum hefði ekki verið skipt þá, verður ekki talið sannað að lögfest skipti á Þveráraurum hafi farið fram með landskiptagerð árið 1950.

Af orðalagi fundargerða landskiptanefndar þeirrar er skipuð var árið 1980 má ráða að ekki var með öllu ljóst til hvaða lands landskiptin ættu að ná og hvaða landi hafði þegar verið skipt.  Þótt vafi hafi leikið á því til hvaða lands skiptin ættu að ná og hvaða landi hefði þegar verið skipt, verður ekki fallist á með stefnendum að landskiptamönnum hafi borið að vísa frá kröfu um landskipti, enda hefur ekkert komið fram um að ágreiningur hafi verið um eignarhlutföll óskipts lands, í skilningi  3. mgr. 3. gr. laga nr. 46/1941.

 Stefnandi, Ólafur Þorri Gunnarsson bar fyrir dómi að landskiptagerðin frá 1931 hefði fyrst komið í ljós í kjölfar landskiptanna 1995. Landskiptanefndin sem lauk störfum þá hefur því  ekki haft hana undir höndum. Mál telst hins vegar nægjanlega rannsakað í skilningi rannsóknarreglu stjórnsýslulaga þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að unnt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Eins og rakið hefur verið hér að framan hefur skiptagerðin að mati dómsins ekki efnislega þýðingu fyrir úrlausn máls þessa og verður því ekki fallist á að leitt geti til ógildingar á skiptagerðinni frá 1995 að hin eldri skiptagerð kom ekki til skoðunar hjá landskiptanefnd.

Málsástæður byggðar á ósanngirni undirlandskipta án þess að nánari grein sé gerð fyrir þeim af hálfu stefnenda koma ekki til skoðunar í máli þessu, enda er ekki vafalaust með hliðsjón af landskiptalögum nr. 46/1941 að slík úrlausnarefni eigi undir lögsögu dómsins.

 Eins og komið hefur fram fellst dómurinn ekki á að skiptagerðirnar frá 1931 og 1950 hafi skapað þann rétt stefnenda til Þveráraura að óheimilt hafi verið að taka þær til skipta í landskiptunum 1995. Því verður ekki fallist á að lögmætisregla hafi verið brotin gagnvart stefnendum.

Ágreiningslaust er að eigendur Bollakots hafa girt af land á Þveráraurum og hefur landið verið afgirt í rúm 40 ár. Ágreiningur er hins vegar um hvort um sé að ræða merkjagirðingu eða afréttargirðingu sem sett hafi verið til varnar því að afréttarfé gengi í land Bollakots.

Af hálfu stefnenda hafa engar sönnur verið á það færðar að þeir hafi haft svo víðtæk eignarráð hins afgirta lands að þau bendi til eignarréttar og að þeir hafi útilokað aðra frá því að ráða yfir landinu. Verður því ekki talið að skilyrðum 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um óslitið eignarhald sé fullnægt varðandi hið afgirta landsvæði.

Með vísan til alls framangreinds eru stefndu sýkn af aðalkröfu stefnenda, en í ljósi atvika málsins og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þykir rétt að hvorir aðila greiði sinn kostnað af málinu, bæði að því er tekur til aðalkröfu og varakröfu.

Ingveldur Einarsdóttir, settur dómstjóri kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð:

Stefndu, Jens Jóhannsson, Árni Jóhannsson og Böðvar Gíslason eru sýknaðir af kröfum stefnenda, Ólafs Þorra Gunnarssonar og Sigurðar Eggertssonar.

Málskostnaður fellur niður.