Hæstiréttur íslands

Mál nr. 439/2007


Lykilorð

  • Refsiheimild
  • Fiskveiðibrot


         

Fimmtudaginn 24. janúar 2008.

Nr. 439/2007.

Ákæruvaldið 

(Valtýr Sigurðsson, ríkissaksóknari)

gegn

Sigurði Pálmasyni

(Stefán Ólafsson hrl.)

 

Fiskveiðibrot. Refsiheimild.

S, sem var skipstjóri á bátnum K, var ákærður fyrir línuveiðar á friðuðu svæði sem lokað var fyrir línu- og togveiðum. Í málinu bar S fyrir sig að refsiákvæði 2. töluliðar 2. gr. reglugerðar nr. 809/2002 um friðunarsvæði við Ísland uppfyllti ekki kröfur um skýrleika og gæti því ekki talist fullnægjandi refsiheimild. S bar því einnig við að hann hefði verið í góðri trú við umræddar veiðar þar sem hann hefði farið eftir upplýsingum heimamanna sem vanir voru veiðum á svæðinu. Í niðurstöðu Hæstaréttar var talið að refsiheimild 2. töluliðar 2. gr. reglugerðar nr. 809/2002 og 5. gr. laga nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands væri skýr og ótvíræð. Ennfremur sagði að S sem var með skipstjórnarréttindi og gerði bátinn út í atvinnuskyni hefði mátt vera kunnugt um hvaða lög og reglugerðir giltu um veiðar á hinu friðaða veiðisvæði, en þess yrði að krefjast af skipstjórnarmönnum að þeir þekktu lög og reglugerðir sem snúa að veiðum og sérstaklega snerta atvinnu þeirra. Var S dæmdur til greiðslu 400.000 króna sektar í Landhelgissjóð.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 9. ágúst 2007 af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og honum ákvörðuð refsing. Fyrir Hæstarétti féll ákæruvaldið frá kröfu um upptöku á andvirði afla og veiðarfæra.

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing verði milduð.

Varðskipið Týr stóð fiskibátinn Kló RE 147 að línuveiðum á friðuðu svæði aðfaranótt 25. ágúst 2005 inn af Reykjafjarðaráli á Húnaflóa, en það svæði var lokað fyrir línu- og togveiðum. Staðarákvarðanir varðskipsins og bátsins á þeim tíma er hann var staðinn að veiðunum eru tilgreindar í ákæru. Eru þær óumdeildar í málinu. Samkvæmt ákæru er brot ákærða talið varða við 2. tölulið 2. gr., sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 809/2002 um friðunarsvæði við Ísland og 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. og 16. gr. laga nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 79/1997 eru íslenskum skipum bannaðar veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelgi Íslands nema á þeim veiðisvæðum og veiðitímum sem tilgreind eru í ákvæðinu, enda undanþiggi ráðherra ekki tiltekin svæði slíkum veiðum. Er þar nánar kveðið á um að þegar rætt sé um viðmiðunarlínu sé átt við línu sem dregin er umhverfis landið á milli 48 nánar tilgreindra staða sem gefnir eru upp í ákvæðinu með tilgreindum punktum. Þrír fyrstu staðirnir, sem taldir eru upp í ákvæðinu og marka viðmiðunarlínuna eru Horn, Selsker og Ásbúðarrif. Í 2. tölulið 2. gr. þágildandi reglugerðar nr. 809/2002, sbr. nú samsvarandi ákvæði reglugerðar nr. 310/2007, kemur fram að veiðar með fiskibotn- og flotvörpu og línuveiðar séu bannaðar á svæði norðaustur af Horni sem markast af línum sem dregnar eru á milli sjö nánar tilgreindra punkta. Að sunnan markist svæðið af línu sem dregin er í 12 sjómílna fjarlægð frá viðmiðunarlínu, sbr. lög nr. 79/1997. Ljóst er af þessum orðum reglugerðarinnar að nauðsynlegt er að gæta ákvæða laga nr. 79/1997 þegar suðurmörk umrædds hólfs eru fundin. Eru þau því afmörkuð þannig að lína er dregin í 12 mílna fjarlægð frá viðmiðunarlínu sem í þessu tilviki liggur milli Horns, Selskers og Ásbúðarrifs, sbr. 5. gr. laganna. Eru ákvæði 2. töluliðar 2. gr. reglugerðar nr. 809/2002 og 5. gr. laga nr. 79/1997 að þessu leyti skýr og ótvíræð refsiheimild.

         Ákærði, sem var skipstjóri í umræddri veiðiferð, var með skipstjórnarréttindi og gerði bátinn út í atvinnuskyni. Þess verður að krefjast af skipstjórnarmönnum að þeir þekki lög og reglugerðir sem snúa að veiðum og sérstaklega snerta atvinnustarfsemi þeirra, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 430/2003 í dómasafni réttarins 2004 bls. 870. Honum mátti því vera kunnugt um hvaða lög og reglugerðir giltu um veiðar á hinu friðaða veiðisvæði á Húnaflóa og þá hvernig suðurmörk þess skyldu fundin, sem var einfalt verk. Ummæli ákærða um að hann hafi treyst leiðbeiningum heimamanna á Skagaströnd sem vanari voru veiðum á þessu svæði breyta engu þar um. Ákærði hefur þannig unnið sér til refsingar samkvæmt 15. gr. laga nr. 79/1997. Í því ákvæði er vísað um viðurlög til 16. og 17. gr. laganna. Eftir að brot ákærða var framið var lágmarkssekt samkvæmt þeim ákvæðum afnumin með 3. gr. laga nr. 22/2005 að því tilskildu að ekki væri um ítrekað brot að ræða. Skal sekt eftir þá lagabreytingu eigi nema hærri fjárhæð en 4.000.000 krónum, en við ítrekað brot eigi lægri en 400.000 krónum. Er refsing ákærða ákveðin með hliðsjón af 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu svo kunnugt sé. Útgáfa ákæru og meðferð málsins fyrir héraðsdómi dróst úr hófi. Þegar litið er til framangreinds og brots ákærða er refsing hans hæfilega ákveðin 400.000 króna sekt, en verði sektin ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppsögu dómsins skal hann sæta fangelsi í 24 daga. Skal sektarfjárhæðin renna í Landhelgissjóð Íslands, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 79/1997.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Sigurður Pálmason, greiði 400.000 króna sekt í Landhelgissjóð Íslands innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 24 daga.

Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 396.904 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í héraði og fyrir Hæstarétti, Stefáns Ólafssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 373.500 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 20. júní 2007.

I

Mál þetta, sem þingfest var 6. desember 2006 og dómtekið 6. þessa mánaðar, er höfðað af lögreglustjóranum á Blönduósi 17. nóvember 2006 á hendur Sigurði Pálmasyni, fæddum 24. mars 1948, til heimilis að Arnarsmára 2, Kópavogi „fyrir fiskveiðibrot, með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 2. ágúst 2005, sem skipstjóri á línubátnum Kló RE-147, skipaskrárnr. 2062, sem er 5,92 brúttórúmlestir og 9,12 m að mestu lengd, verið að línuveiðum á friðuðu svæði inn af Reykjafjarðaráli á Húnaflóa.  Eftirfarandi staðarákvarðanir voru gerðar af varðskipinu Tý:

 

Kl. 00:14          RE-147:                         r/v 111,2° og fjarlægð 3,71 sjóml.     

Staður varðskips:             66°25,919´N – 021°33,958´V              

                         Gefur þetta stað bátsins um 1,8 sjóml. innan lokaða svæðisins.

Kl. 00:20          RE-147:                         r/v 110,0°og fjarlægð 2,62 sjóml.

                         Staður varðskips        66°25,652’N – 021°31,457´V

                         Gefur þetta stað bátsins um 2,0 sjóml. innan lokaða svæðisins.

Kl. 00:26          RE-147                          r/v 104,0° og fjarlægð 1,48 sjóml.

                         Staður varðskips        66°25,380´N – 021°28,959´V

                         Gefur þetta stað bátsins um 2,1 sjóml. innan lokaða svæðisins.

Kl. 00:34          RE-147                          r/v 052,2°og fjarlægð 0,37 sjóml.

                         Staður varðskips        66°25,060´N – 021°26,190´V

                         Gefur þetta stað bátsins um 2,3 sjóml. innan lokaða svæðisins.

Kl. 00:47          RE-147                          r/v 070,0°og fjarlægð 0,05 sjóml.

                         Staður varðskips        66°25,559’N – 021°25,779’V

                         Gefur þetta stað bátsins um 2,5 sjóml. innan lokaða svæðisins.

Kl. 01:36          RE-147                          r/v 300,3° og fjarlægð 0,12 sjóml.

                         Staður varðskips        66°26,335´N – 021°26,873´V

                         Gefur þetta stað bátsins um 2,7 sjóml. innan lokaða svæðisins.

Kl. 02:06          RE-147                          r/v 012,8°og fjarlægð 0,12 sjóml.

                         Staður varðskips        66°26,680´N – 021°27,168´V

                         Gefur þetta stað bátsins um 3,0 sjóml. innan lokaða svæðisins.

Kl. 02:51          RE-147                          r/v 212,7°og fjarlægð 0,20 sjóml.

                         Staður varðskips        66°27,230’N – 021°29,030’V

                         Gefur þetta stað bátsins um 2,6 sjóml. innan lokaða svæðisins.

 

             Afli bátsins reyndist: 2.242 kg af óslægðum þorski, 1.986 kg af óslægðri ýsu, 198 kg af óslægðum steinbít, 24 kg af óslægðri keilu, 8 kg af óslægðum hlýra, 6 kg af óslægðum karfa, og 1 kg af óslægðri lúðu.

             Telst þetta varða við 2. tl. 2. gr. sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 809/2002, um friðunarsvæði við Ísland og 1. mgr. 9. gr., 1. mgr. 15. gr. og 16. gr. laga nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

   Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku samkvæmt 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. og 2. og 3. mgr. 16. gr. laga nr. 79/1997, á andvirði þess afla sem fékkst með ólögmætum hætti, samtals kr. 586.986,- auk áfallinna vaxta, en fjárhæðin var haldlögð af embættinu og lögð inn á bankareikning. Jafnframt er krafist upptöku andvirðis veiðarfæra kr. 25.000,- en það voru 25 línubjóð sem voru notuð við hinar ólögmætu fiskveiðar.“

II

Málavextir

             Samkvæmt skýrslu Landhelgisgæslu Íslands var varðskipið Týr við eftirlit á Húnaflóa hinn 2. ágúst 2005. Í ratsjá varðskipsins sást skip inni á svæði sem lokað var fyrir línu- og togveiðum. Staðsetningar skipsins og varðskipsins eru þær sem í ákæru greinir. Klukkan 00:45 sáu varðskipsmenn fiskiljós á skipi og tvo menn á dekki við að draga línu og þá kom í ljós að umrætt skip var Kló RE-147, skipaskrárnúmer 2062. Stuttu síðar kallaði skipstjóri bátsins í varðskipið í gegnum talstöð og tilkynnti skipherra varðskipsins þá skipstjóranum að hann væri á veiðum í hólfi sem lokað væri fyrir línuveiðum. Jafnframt var honum tilkynnt að varðskipsmenn myndu koma um borð í bát hans til vettvangsrannsóknar. Á þessum tíma var enn gerð staðarákvörðun og er hennar getið í ákæru undir tímasetningunni 00:47. Síðar voru gerðar fleiri staðarákvarðanir sem jafnframt er lýst í ákæru. Í framhaldi af samtali skipherra og skipstjóra Klóar RE fóru tveir menn úr áhöfn varðskipsins um borð í Kló RE. Gerð var áætlun um afla bátsins sem fékkst á 25 bala af línu. Skipstjóra Klóar RE var tilkynnt að hann hefði verið staðinn að meintum ólöglegum línuveiðum inni á lokuðu svæði og þá var honum gert að sigla til Skagastrandar þar sem mál hans yrði tekið fyrir af sýslumanninum á Blönduósi. Í skýrslunni kemur ennfremur fram með hvaða tækjum mælingar voru gerðar og hvaða skipverjar varðskipsins önnuðust mælingarnar. Ákærði hefur ekki rengt staðsetningar sem fram koma í ákæru og er því ekki ágreiningur um þær.

 

III

Framburður fyrir dóminum

Ákærði kvaðst hafa verið á veiðum á þessu svæði tveimur dögum áður og fiskað ágætlega. Hann kvað marga báta hafa verið á þessu svæði og þar af nokkrir frá Húnaflóa. Ákærði sagðist hafa róið frá Skagaströnd en þar hafi hann fengið upplýsingar um það hvar þetta lokaða svæði væri og hann hefði farið þangað og fiskað ásamt öðrum í góðri trú án þess að hafa sjálfur fullkomlega aðgætt að því hvernig þetta svæði væri afmarkað og taldi sig vera alveg öruggan. Ákærði greindi frá því að hann teldi reglugerðina til þess fallna að valda misskilningi og skapa vandræði því það hefði verið einfalt að setja síðasta punktinn í hólfið líkt og hina og koma þannig í veg fyrir mál eins og þetta. Í raun hafi allur flotinn misskilið þetta eins og hann. Ákærði benti á að hann væri með farmannapróf frá Stýrimannaskólanum sem sé hæsta stig menntunar sem þar er hægt að fá en þrátt fyrir það hafi hann ekki skilið reglugerðina fullkomlega fyrr en hann hafði talað við bekkjarbróður sinn, sem sé skipherra, og hann hafi símleiðis sagt honum hvernig þessi útreikningur ætti að vera. Eftir það samtal hafi hann skilið hvernig ætti að finna síðasta punktinn og það hafi í raun verið einföld þriggja talninga miðun tekin 12 mílur frá þrem punktum og strikað á milli og þar sem línurnar skerist sé síðasti punkturinn. Hann kvaðst hafa lesið reglugerðina og ekki skilið hana en hann hafi síðan rætt við heimamenn og treyst þeim upplýsingum sem þeir gáfu, enda hafi menn verið þarna á veiðum í mörg ár. Ákærði kvaðst hafa fengið upplýsingar um punkta varðandi hólfið hjá vitninu Sævari Hallgrímssyni, trillusjómanni á Skagaströnd. Sævar hafi skrifað punktana niður fyrir hann á miða en Sævar hafi tjáð honum að hann hefði fengið upplýsingarnar sem á miðanum voru hjá vitninu Sigurði Steinari, skipherra á varðskipinu. Ákærði kvaðst hafa hringt í Sigurð Steinar vegna þessa og þá hafi hann sagt að vitnið Sævar ætti að vera með réttar upplýsingar en hann hafi líka sagt að hann gæti ekki að því gert þótt menn misskildu hann. Ákærði kvaðst því ekki hafa haft ástæðu til annars en að treysta þeim upplýsingum sem á miðanum voru.

             Vitnið Sigurður Steinar Ketilsson skipherra bar að stýrimaður á varðskipinu hefði tilkynnt honum að skip væri inni í friðuðu svæði sem oft er kallað Reykjarfjarðarálsvæðið. Hann hafi þá strax farið upp í brú og byrjað að mæla með stýrimönnunum. Fyrst hafi þeir séð eitt skip þarna og síðan annað. Síðan hafi komið í ljós að Kló RE var að draga línu og mælingar hafi leitt í ljós að skipið var á lokuðu svæði. Vitnið bar að ákærði hafi talið sig vera fyrir sunnan hið friðaða svæði en það hafi ekki reynst rétt. Hann sagði að það hefði verið einhver misskilningur í gangi um útsetningu á þessu svæði en það væri alveg ljóst í reglugerðinni að gefin eru upp 7 hnit og síðan afmarkast suðurhluti svæðisins af 12 mílum skv. lögum nr. 79/1997, sem eru lögin um heimild til veiða innan lögsögunnar, og það sé ekki hægt að setja það svæði út með hniti, það verði að setja út, annaðhvort með hring í ,,plotterinn“, eða í sjókort með hringfara og draga línur á milli þessara viðmiðunarpunkta eins og lögin mæli fyrir um. Vitnið kvaðst enga skýringu geta gefið á því hvers vegna þessi leið er farin við afmörkun hólfsins að sunnanverðu í stað þess að setja einfaldlega inn áttunda punktinn með hniti eins og alla hina og loka þannig hólfinu. Vitnið bar að í hans huga segi það sig bara sjálft hvaða punkta sem getið er í 5. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands skuli nota til að draga línur úr á þessu svæði þrátt fyrir að þeirra sé ekki getið í reglugerð.

             Vitnið Hjalti Skarphéðinn Kristinsson sjómaður kvaðst vera með svokölluð 30 tonna réttindi og hafa róið frá Skagaströnd frá árinu 2001. Hann kvaðst hafa lesið reglugerðina varðandi þetta hólf en ekki skilið hana og m.a. fengið stýrimann á togara, sem sé mun meira menntaður en hann, til að aðstoða sig en hann hafi heldur ekki skilið þessa reglugerð. Af þeim sökum hafi hann ásamt fleirum í rúm tvö ár reynt að fá upplýsingar um þetta hólf. Þeir hafi ári áður en atvik þessa máls áttu sér stað eytt hálfum degi í að hringja eftir upplýsingum. Þeir hafi hringt í Hafrannsóknastofnun, Fiskistofu og Landhelgisgæsluna og alls staðar fengið þau svör að þeir gætu verið á þeim stað sem Kló RE var við veiðar. Þeir hafi verið að reyna að fá úr því skorið hvort draga ætti línu á milli lausu punktanna því hólfið endi ekki á neinum punkti og því vanti endapunktinn á það. Niðurstaða þeirra hafi að endingu verið sú að þeim hafi ekki verið sagt að bannað væri að veiða á þessu svæði. Vitnið taldi sig hafa fengið skýr svör um þetta. Vitnið greindi frá því að nokkrum dögum fyrir þennan atburð hafi hann verið í sambandi við Fiskistofu í þeim tilgangi að fá mann þaðan með sér inn í hólfið. Hann hafi spurt um staðsetningu og fengið hana og ekki gert neinar athugasemdir. Taldi vitnið að þessi starfsmaður Fiskistofu hefði annaðhvort hringt í hann eða látið vita ef starfsmaðurinn hefði talið að um ólöglegar veiðar væri að ræða. Vitnið taldi að samtal hans við starfsmann Landhelgisgæslunnar (endurrit samtalsins er meðal gagna málsins) bendi eindregið til þess að maðurinn hafi verið óhæfur til að sinna sínu starfi þar sem hann hafi ekki getað útskýrt hvernig þetta umrædda hólf er afmarkað. Vitnið kvað menn hafa fiskað í þessu hólfi í fleiri, fleiri ár óáreittir en samt hafi þeir kannað stærð þess á hverju ári. Hann kvaðst halda að hann hefði fyrst veitt þarna á árinu 2001. Vitnið kannaðist við að hafa gefið ákærða þær upplýsingar að heimilt væri að veiða á þessu svæði.

Vitnið Sævar Rafn Hallgrímsson sjómaður var dómkvaddur til að meta til verðs veiðarfæri Klóar RE. Vitnið staðfesti matsgerð sína. Vitnið bar að ákærði hefði fengið upplýsingar hjá honum varðandi hið friðaða hólf. Hann kvaðst hafa sagt honum hvernig sjómenn á Skagaströnd hefðu starfað við þetta hólf og hann sagt honum að þeir miðuðu við línu dregna úr punkti 7 í punkt 1 en þannig sé þetta í öllum siglingabókum og Sjómannaalmanakinu. Vitnið kannaðist við að hafa látið ákærða hafa miða með hnitum varðandi þetta. Vitnið bar að fjórum til fimm mánuðum áður en þetta gerðist hefði hann hringt í Landhelgisgæsluna í þeim tilgangi að spyrjast fyrir um hvernig þetta hólf væri. Þeir hafi ekki getað útskýrt það betur en svo að honum hafi verið gefið símanúmerið hjá Sigurði Steinari skipherra. Sigurður Steinar hafi sagt honum að hólfið væri eins og fram kemur á blaðinu sem hann afhenti ákærða. Vitnið bar að hann hafi líkt og aðrir sett punktana sem gefnir eru upp í reglugerðinni inn í GPS-tæki og þannig hafi hann fengið út hvernig hólfið ætti að vera og þetta hafi allir aðrir sem þarna réru gert. Vitnið kvaðst hafa róið í þetta hólf frá því eftir árið 2000 og það hafi enginn vitað um þennan áttunda punkt.

Vitnið Jón Ebbi Björnsson, varðstjóri hjá Landhelgisgæslu Íslands, átti samtal við vitnið Hjalta Kristinsson en útskrift af því samtali er meðal gagna málsins. Vitnið kvaðst í fyrstu ekki hafa áttað sig á því hvaða hólf Hjalti átti við en honum hafi ekki þótt spurningar Hjalta nægilega markvissar. Vitnið kvaðst hafa verið með tvær reglugerðir í huga þegar hann var að reyna að átta sig á því hvaða hólf var verið að spyrja um og hann hafi boðist til að senda þær báðar til spyrjandans með faxi en hann hafi ekki haft tök á að taka við þeim. Vitnið kvaðst ekki hafa heimild til að gefa upp ákveðna punkta þegar svona háttar til heldur sé honum eingöngu heimilt að lesa upp þá punkta sem getið er í reglugerð og síðan að reyna að koma reglugerðunum til spyrjenda ef því er að skipta. Vitnið mundi ekki eftir mörgum hólfum sem eru með sama hætti og þetta umrædda hólf, þ.e. að reikna þurfi út einn punkt hólfsins en hinir séu gefnir upp í reglugerð.

IV

Niðurstaða

             Af hálfu ákærða var því haldið fram við flutning málsins að reglugerðin sem vísað er til í ákæru hafi ekki verið sett með stjórnskipulegum hætti þar sem ekki hafi verið leitað umsagnar Hafrannsóknastofnunar áður en hún var sett og þá sé reglugerðin ekki í þeim búningi sem hún var upphaflega. Ekki verður fallist á þessi rök ákærða. Í 9. gr. nefndra laga nr. 79/1997 segir að áður en ákvarðanir séu teknar samkvæmt greininni skuli að jafnaði leita umsagnar Hafrannsóknastofnunar. Samkvæmt þessu er ekki skylt að leita umsagnar Hafrannsóknastofnunar, auk þess liggur fyrir að Hafrannsóknastofnun gerði tillögu á árinu 1993 um að svæði í Reykjarfjarðaráli yrði lokað með reglugerð. Því liggur fyrir tillaga Hafrannsóknastofnunar um lokun á svæðinu og skiptir þá ekki máli þótt það sé ekki nákvæmlega hið sama og stofnunin mælti með.

Ákærði byggði vörn sína einnig á því að refsiheimildir þær sem vísað er til í ákæru séu ekki nægilega skýrar og þar af leiðandi geti þær ekki verið grundvöllur refsingar. Umrætt hólf er eins og áður hefur komið fram afmarkað með sjö punktum sem tilgreindir eru í reglugerð nr. 809/2002. Í reglugerðinni segir síðan: ,,Að sunnan afmarkast svæðið af línu sem dregin er í 12 sjómílna fjarlægð frá viðmiðunarlínu sbr. lög nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.“ Ætlast verður til af skipstjórnarmönnum að þeir kanni áður en veiðar hefjast hvort veiðar eru heimilar á viðkomandi svæði. Við lestur 2. tl. 2. gr. nefndrar reglugerðar nr. 809/2002 má sjá að hinu friðaða svæði er lokað að sunnan með ákveðnum hætti og ber reglugerðin með sér að svæðinu verður ekki lokað með því að draga línu úr punkti 1 í punkt 7 líkt og ákærði gerði. Leggja verður til grundvallar að til að finna áttunda punktinn og loka þar með hinu friðaða hólfi að sunnanverðu hafi við lestur 2. tl. 2. gr. nefndrar reglugerðar sbr. 5. gr. laga nr. 79/1997 legið fyrir að draga varð línur úr Horni, Selsskeri og Ásbúðartjörn, enda ekki um aðra punkta að ræða í lögum nr. 79/1997 til að miða við á þessu svæði. Verður því ekki fallist á með ákærða að reglugerðin hafi verið svo óskýr að hún geti ekki orðið grundvöllur refsingar í málinu.

Í máli þessu er ekki deilt um staðsetningu á bát ákærða, Kló RE, þegar skipverjar á varðskipinu Tý höfðu afskipti af honum. Í 15. gr. laga nr. 79/1997 segir að brot gegn lögunum varði viðurlögum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi. Af framburði ákærða verður augljóslega ráðið að um ásetning var ekki að ræða af hans hálfu. Kemur því til skoðunar hvort háttsemi hans verði metin honum til gáleysis. Ákærði hefur haldið því fram að hann hafi verið í góðri trú um að honum hafi verið heimilt að veiða með línu á þessum stað. Með framburði vitna sem að framan er rakinn telst sannað að sjómenn á Skagaströnd, en þaðan réri ákærði á þessum tíma, hafi veitt á þessu svæði jafnvel í áraraðir og talið það heimilt. Vitnin báru að þau hafi ásamt fleirum reynt að fá úr því skorið hvernig ætti að loka hólfinu og hefðu ásamt fleirum reynt að afla upplýsinga um það. Vitnið Sævar Rafn bar að í öllum siglingabókum og Sjómannaalmanakinu sé hólfinu lokað með því að draga línu úr punkti 1 í punkt 7 eins og þeir hafi gert. Hann kvaðst hafa hringt í Landhelgisgæsluna til að fá upplýsingar en þar hafi hann ekki fengið aðrar útskýringar en þær að best væri að hringja í vitnið Sigurð Steinar skipherra. Það hafi hann gert og skrifað niður eftir honum þær upplýsingar sem hann hafi afhent ákærða á miða. Við mat á því hvort ákærði sýndi af sér gáleysi í umrætt sinn verður að meta hvort hann hafi í raun gert það sem ætlast má til af honum sem góðum og gegnum skipstjóra varðandi upplýsingaöflun um hið títtnefnda hólf. Áður er þess getið að reglugerðin sem segir til um hvernig hólfið er afmarkað telst ekki svo óskýr að þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna ákærða. Hins vegar er ljóst að hún er alls ekki skýr því ekki verður með neinum hætti ráðið hvers vegna 8. punkturinn er einfaldlega ekki merktur með hniti eins og aðrir punktar reglugerðarinnar. Er hún þannig í raun villandi. Fram hefur komið að sjómenn á Skagaströnd skildu hana einfaldlega ekki og báru vitni að þau ásamt fleirum hefðu mikið reynt til að fullvissa sig um afmörkun hólfsins. Ákærði kom til Skagastrandar og þar var honum sagt hvernig heimamenn hefðu róið í hólfið í allmörg ár. Hann kvaðst sjálfur ekki hafa skilið reglugerðina almennilega og raunar hafi hann ekki skilið hana fyrr en eftir að hann talaði við skipherra hjá Landhelgisgæslunni sem hafi skýrt þetta út fyrir honum.

Í ljósi trúverðugs framburðar vitna fyrir dóminum þess efnis að ákærði hafi fengið hjá þeim upplýsingar um afmörkun hólfsins jafnframt því sem honum var tjáð að þarna hefðu heimamenn stundað veiðar árum saman og þess að reglugerðin er langt frá því að vera skýr um afmörkun hólfsins verður það ekki metið ákærða til gáleysis að hafa verið á veiðum á þeim stað og stund sem í ákæru greinir. Verður hann því sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins í máli þessu.

Að fenginni þessari niðurstöðu ber að sýkna ákærða af kröfu ákæruvaldsins um upptöku á andvirði afla og veiðarfæra.

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins ber að greiða allan sakarkostnað úr ríkissjóði. Samkvæmt yfirliti rannsóknara er sakarkostnaður við rannsókn málsins 91.548 krónur. Af þeirri fjárhæð eru 87.648 krónur vegna réttargæslu skipaðs verjanda ákærða Stefáns Ólafssonar hæstaréttarlögmanns á rannsóknarstigi málsins. Fallist er á að þessi fjárhæð sé hæfileg vegna réttargæslu lögmannsins en fjárhæð þóknunar vegna réttargæslu og fjárhæð málsvarnarlauna skal ákveða í einu lagi sbr. 2. mgr. 44. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Til viðbótar þessum kostnaði eru málsvarnarlaun lögmannsins en þau þykja hæfilega ákveðin 124.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Við ákvörðun málsvarnarlauna er tekið tillit til þess að samhliða máli þessu var rekið annað samkynja mál.

Af hálfu ákæruvaldsins sótti málið Bjarni Stefánsson, lögreglustjóri á Blönduósi.

Halldór Halldórsson dómstjóri kveður upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ

Ákærði, Sigurður Pálmason, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

Ákærði er sýkn af kröfu ákæruvaldsins um upptöku andvirðis afla og veiðarfæra.

Sakarkostnaður að fjárhæð 216.048 krónur, þar af réttargæslu- og málsvarnarlaun Stefáns Ólafssonar hæstaréttarlögmanns, 212.148 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Málsvarnar- og réttargæslulaun innifela virðisaukaskatt.