Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-289
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Veðskuldabréf
- Endurgreiðsla ofgreidds fjár
- Fullnaðarkvittun
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Með beiðni 23. október 2019 leitar ALM Fjármögnun ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 27. september sama ár í málinu nr. 929/2018: Línulagnir ehf. gegn ALM Fjármögnun ehf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Línulagnir ehf. leggjast gegn beiðninni.
Ágreiningur í málinu lýtur að því hvort leyfisbeiðandi sé greiðsluskyldur gagnvart gagnaðila vegna ofgreiðslna á grundvelli skuldabréfs útgefnu af Suðurhlíð ehf. 10. nóvember 2010 til Dróma hf. Skuldabréfið var innfært í þinglýsingabók 19. nóvember 2010 ásamt skjali sem bar heitið „Lán á milli sömu aðila (sama kennitala)“. Í því skjali kom fram að hið nýja skuldabréf kæmi í stað fyrra skuldabréfs sem útgefið var 28. desember 2007. Skilmálum síðara bréfsins var breytt 13. janúar 2012 „í samræmi við endurútreikning á grundvelli 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu“ og var það áritað um þá skilmálabreytingu. Gagnaðili sendi fyrrum eiganda skuldabréfsins, Hildu ehf., beiðni í september 2015 um endurútreikning lánsins í samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar um gildi fullnaðarkvittana við greiðslu ólögmætra gengistryggðra lána. Vísaði gagnaðili til þess að upphaflega hefði verið um gengistryggt lán að ræða sem breytt hefði verið í óverðtryggt íslenskt lán 10. nóvember 2010. Hilda ehf. hafnaði þeirri beiðni. Gagnaðili greiddi upp bréfið 20. mars 2017 með fyrirvara og áskildi sér rétt til endurgreiðslu og höfðaði málið í framhaldinu. Héraðsdómur sýknaði leyfisbeiðanda af endurgreiðslukröfu gagnaðila með vísan til aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Með fyrrnefndum dómi Landsréttar var viðurkennt að gagnaðili væri greiðsluskyldur gagnvart leyfisbeiðanda. Var vísað til þess að samkvæmt 3. gr. tilskipunar 9. febrúar 1798 um áritun afborgana á skuldabréf gildi viðskiptabréfsreglur um mótbárutap skuldara ekki um vaxtagreiðslur af viðskiptabréfi, en krafa gagnaðila væri um endurgreiðslu ofgreiddra vaxta. Þá var vísað til þeirrar meginreglu um aðilaskipti almennra krafna að skyldur skuldara skuli ekki aukast við framsal og að skuldari haldi mótbárum sínum.
Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur. Vísar hann til þess að dómurinn hafi horft framhjá því að krafa gagnaðila byggi ekki á ofgreiðslu vaxta á því skuldabréfi sem leyfisbeiðandi byggi rétt sinn á heldur eldri lánssamningi sem hafði að geyma ólögmæta gengistryggingu. Þá kröfu hafi leyfisbeiðandi aldrei átt og því hafi hann ekki fengið ofgreidda vexti vegna ólögmætrar gengistryggingar. Tekur leyfisbeiðandi fram í þessu sambandi að hann telji öll lögskipi gagnaðila eða Suðurhlíðar ehf. gagnvart Hildu ehf. eða Dróma ehf. vera sér óviðkomandi. Þá telur leyfisbeiðandi að úrlausn málsins geti haft verulegt almennt gildi varðandi túlkun viðskiptabréfsreglna.
Að virtum fyrirliggjandi gögnum reynir í málinu á álitefni varðandi túlkun viðskiptabréfsreglna og verða þau talin hafa almennt gildi. Er beiðni um áfrýjunarleyfi því tekin til greina.