Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-237
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Fíkniefnalagabrot
- Sönnunarmat
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
Með beiðni 1. september 2020 leitar X leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 20. desember 2019 í málinu nr. 723/2018: Ákæruvaldið gegn X á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Dómur Landsréttar var birtur leyfisbeiðanda 12. ágúst 2020.
Með dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa ásamt Y staðið að innflutningi á 11.550 ml af vökva sem innihélt amfetamínbasa ætlaðan til söludreifingar í ágóðaskyni. Fíkninefnin voru falin í 23 hálfslítra plastflöskum í eldsneytistanki bifreiðar sem leyfisbeiðandi ók en Y var farþegi í frá [...] í Póllandi til Þýskalands og Danmerkur en þaðan með farþegaferjunni Norrænu, með viðkomu í Þórshöfn í Færeyjum, til Seyðisfjarðar þar sem fíkniefnin fundust við leit tollvarða. Refsing leyfisbeiðanda var ákveðin fangelsi í 5 ár. Með héraðsdómi 25. apríl 2018 hafði leyfisbeiðandi verið sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Aftur á móti var Y sakfelldur og refsing hans ákveðin fangelsi í 6 ár og 6 mánuði. Hann áfrýjaði dóminum ekki til Landsréttar.
Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt. Hann vísar sérstaklega til lokamálsliðar ákvæðisins þar sem hann hafi verið sýknaður af ákæruefninu í héraðsdómi en sakfelldur fyrir Landsrétti. Leyfisbeiðandi telur niðurstöðu Landsréttar um sekt hans ranga og ekki studda fullnægjandi rökum. Byggir leyfisbeiðandi á því að málsmeðferð fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant og í andstöðu við 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um milliliðalausa málsmeðferð. Vísar leyfisbeiðandi til þess að megininntak reglunnar um milliliðalausa sönnunarfærslu sé að sá dómari eða þeir dómarar sem komi til með að kveða upp efnisdóm í máli, taki sjálfir skýrslur af ákærða og vitnum ásamt því að meta önnur sönnunargögn sem færð eru fyrir dóminn, sbr. dóm Hæstaréttar 8. nóvember 2007 í máli nr. 206/2007. Landsréttur hafi í niðurstöðu sinni vísað til framburðar meðákærða fyrir lögreglu og héraðsdómi og byggt niðurstöðu sína um sekt leyfisbeiðanda meðal annars á meintu ósamræmi milli framburðar hans og meðákærða um tilgang ferðarinnar. Réttinum hafi því borið að hlutast til um að kveðja meðákærða fyrir dóminn, sbr. d. lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá hafi Landsréttur byggt á fullyrðingu nafngreinds lögreglumanns um óskilgreind hljóð frá bensíntanki bifreiðarinnar þegar hann ók henni frá Seyðisfirði til Egilsstaða. Telur leyfisbeiðandi að engin gögn í málinu styðji þennan framburð og vísar til þess að Landsréttur hafi ekki kvatt vitnið fyrir réttinn heldur hafi við aðalmeðferð málsins eingöngu verið spiluð upptaka af vitnisburði lögreglumannsins fyrir héraðsdómi. Að lokum vísar leyfisbeiðandi til þess að málið hafi verulega almenna þýðingu varðandi beitingu meginreglunnar um milliliðalausa málsmeðferð.
Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðni um áfrýjunarleyfi. Telur ákæruvaldið að nægilegt sé að skoða ljósmyndir af bensíntanki bifreiðarinnar sem leyfisbeiðandi ók til þess að átta sig á þeim skarkala sem heyrst hefur frá bensíntankinum vegna þeirra 23 flaskna sem þar voru faldar. Hafi það ekki getað dulist nokkrum manni sem var í bifreiðinni þegar henni var ekið. Um þetta hafi fyrrgreindur lögreglumaður borið og upptaka af framburði hans verið spiluð við aðalmeðferð málsins í Landsrétti. Einnig bendir ákæruvaldið á að leyfisbeiðandi hafi kosið að tjá sig ekki við skýrslugjöf fyrir Landsrétti auk þess sem tekið hafi verið fram í greinargerð hans til réttarins að verjandi hans teldi ekki þörf á munnlegum skýrslum þar fyrir dómi.
Eins og hér hefur verið rakið kom leyfisbeiðandi fyrir dóm við aðalmeðferð málsins í Landsrétti og kaus að tjá sig ekki um sakargiftir. Þá var spiluð upptaka af skýrslu lögreglumanns fyrir héraðsdómi. Frekari munnleg sönnunarfærsla fór ekki fram fyrir Landsrétti. Telja verður mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar um hvort þessi málsmeðferð hafi verið fullnægjandi með tilliti til reglunnar um milliliðalausa sönnunarfærslu, sbr. 2. málslið 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Er þá jafnframt haft í huga að leyfisbeiðandi var sakfelldur í Landsrétti en hafði verið sýknaður í héraði. Þegar þannig hagar til skal að jafnaði orðið við ósk um áfrýjunarleyfi, sbr. lokamálslið sömu málsgreinar. Samkvæmt þessu verður beiðnin tekin til greina.