Hæstiréttur íslands

Mál nr. 280/2011


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Rannsókn
  • Aðfinnslur


                                                                                                

Fimmtudaginn 29. september 2011

Nr. 280/2011.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir

settur saksóknari)

gegn

X

(Kristján Stefánsson hrl.)

Líkamsárás. Rannsókn. Aðfinnslur

X var ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa ráðist með ofbeldi á A á göngustíg í Laugardal, slegið hana ítrekað með hörðu áhaldi í höfuð og tekið hana hálstaki og þrengt að þar til hún missti meðvitund. Þegar málið var til meðferðar fyrir héraðsdómi hafði einn dómari fjölskipaðs dóms skilað sératkvæði þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að sýkna bæri X. Í dómi Hæstaréttar var fundið að þessu, enda gerðu ákvæði laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ekki ráð fyrir að sératkvæði væri skilað ef héraðsdómari væri í minnihluta um eitthvert atriði heldur skyldi geta ágreiningsatriðis í dómi. Viðkomandi dómara bæri þá að taka afstöðu til ákvörðunar um refsingu ákærða og kröfu brotaþola um miskabætur. Hæstiréttur taldi að ágallar á skýrslutökum lögreglu af systur X væru þess eðlis að ekki yrði litið til skýrslnanna við úrlausn málsins en hún hafði hvorki verið upplýst með fullnægjandi hætti um réttarstöðu sína sem vitnis né um það hverjir myndu fá upplýsingar um vitnisburðinn. Einnig var fundið að því að ekki hefði farið fram rannsókn á erfðaefni á blóðsýnum sem tekin voru á vettvangi árásarinnar, myndir af áverkum A hefðu ekki verið í gögnum málsins og að skort hefði greinargóðar lýsingar á hæð og útliti X og A. X hafði sjálfur játað fyrir lögreglu að hafa framið þann verknað sem hann var ákærður fyrir og kom sú skýrsla að nokkru leyti heim og saman við framburð A af árásinni en að öðru leyti ekki. Fyrir héraðsdómi bar X aftur á móti að hann hefði ranglega játað á sig sök við umrædda skýrslutöku. Skýrsla X hjá lögreglu þótti hafa verið óljós og ruglingsleg og ekki nema að hluta í samræmi við annað sem fyrir lá í málinu. Því varð sakfelling ekki reist á henni einni sér. Þrátt fyrir að framburður vitna kynni að styðja að X hefði ráðist að A nægði sá framburður einn og sér ekki til sakfellis gegn eindreginni neitun X fyrir dómi. Einnig yrði að líta til þess að við rannsókn á vettvangi og fatnaði X hefði ekkert komið fram um að hann hefði framið það brot sem hann var ákærður fyrir. X var því sýknaður.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 28. mars 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu verði staðfest, en refsing ákærða þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins og að kröfu brotaþola verði vísað frá dómi. Til vara krefst hann þess að refsing verði milduð og krafa brotaþola lækkuð.

A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 1.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

I

Í málinu er ákærða gefin að sök sérstaklega hættuleg líkamsárás „með því að hafa mánudaginn 11. október 2010, á göngustíg í Laugardalnum í Reykjavík, ráðist með ofbeldi á A, slegið hana ítrekað með hörðu áhaldi í höfuð og tekið hana hálstaki og þrengt að þar til hún missti meðvitund“ með þeim afleiðingum sem nánar er lýst í ákæru. Fjölskipaður héraðsdómur sakfelldi ákærða og stóðu tveir dómarar að þeirri niðurstöðu. Þriðji dómarinn vildi hins vegar sýkna ákærða og færði rök fyrir þeirri afstöðu sinni í svonefndu sératkvæði sem kemur á eftir dómsorði hins áfrýjaða dóms. Er slíkt í andstöðu við 2. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, þar sem ekki er gert ráð fyrir að héraðsdómari, sem verður í minnihluta um eitthvert atriði, skili sératkvæði, sbr. hins vegar 2. og 3. mgr. 209. gr. laganna, heldur er kveðið á um að ágreiningsatriðis skuli getið í dómi. Einnig segir í fyrstnefnda ákvæðinu að dómarinn skuli allt að einu taka þátt í ályktun um önnur atriði. Það hefur þeim dómara, sem greindi á við aðra dómara um hvort sakfella ætti ákærða, láðst að gera, enda tók hann hvorki afstöðu til ákvörðunar um refsingu ákærða né kröfu brotaþola um miskabætur, svo sem honum bar skylda til.

Atvikum málsins er ítarlega lýst í hinum áfrýjaða dómi. Þar er meðal annars rakið efni tveggja skýrslna, sem lögregla tók af vitninu B, systur ákærða, 9. og 23. nóvember 2010. Vegna þess að héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að ekki yrði litið til þessara skýrslna við úrlausn málsins af ástæðum, sem fjallað verður um hér á eftir, var þetta bæði óþarft og óviðeigandi.

Þegar rakinn er í hinum áfrýjaða dómi vitnisburður C hjá lögreglu 9. nóvember 2010 er frá því greint að hann hafi sagt að þau B hafi hitt ákærða á Hlemmi á milli klukkan 13 og 14 sama dag og líkamsárás sú, sem mál þetta snýst um, átti sér stað. Í beinu framhaldi er tekið fram í dóminum að hann hafi verið spurður hvenær þau hefðu hitt ákærða og hafi hann þá sagt á myndbandsupptöku af skýrslutökunni „að það hafi verið í kringum hrekkjavökuna eða 31. október“ sama ár, en þess síðan getið að í „vélrituðu skýrslunni segir 2. nóvember.“ Af samhenginu mætti ætla að átt væri við þann dag þegar þau tvö hittu ákærða skömmu fyrir árásina, en af gögnum málsins verður hins vegar ráðið að hér sé verið að vísa til þess hvenær ákærði hefði skýrt þeim frá að hann væri viðriðinn hana.

II

Eins og áður segir var tvívegis tekin vitnaskýrsla af B hjá lögreglu 9. og 23. nóvember 2010. Samkvæmt 2. mgr. 65. gr., sbr. b. lið 1. mgr. 117. gr. laga nr. 88/2008 bar lögreglu að greina vitninu, sem var aðeins 16 ára,  skýrt og skilmerkilega frá því að hún gæti skorast undan að gefa skýrslu vegna þess að bróðir hennar væri sakborningur í málinu. Þess í stað lét sá lögreglumaður, sem tók skýrsluna í fyrra skiptið, nægja að segja við vitnið eftir að hafa áminnt hana um sannsögli: „Svo náttúrulega fylgir þessari vitnaskyldu að þú þarft ekki að greina frá einhverju sem tengist einhverjum fjölskyldumeðlim eða einhverjum þér nákomnum, það er bara þú getur skotið þér undan vitnaábyrgð með því.“ Þegar B gaf síðari skýrsluna, sem eins og sú fyrri var tekin upp á mynddisk, var fyrrgreindra fyrirmæla laga nr. 88/2008 ekki gætt, þrátt fyrir að tekið sé fram í skriflegri skýrslu lögreglunnar um þá skýrslutöku að það hafi verið gert. Í upphafi hennar heyrist að vitnið spurði þann, sem tók skýrsluna, hvort aðrir muni fá vitneskju um framburð sinn. Lögreglumaðurinn svaraði á þá leið að dómari málsins hafi „náttúrulega aðgang að öllum gögnum“. Aðspurður neitaði hann því hins vegar að ákærði fengi að vita um vitnisburðinn. Þeim sem skýrsluna tók mátti hins vegar vera ljóst að með þessu væri hann að villa um fyrir vitninu því að samkvæmt 4. mgr., sbr. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 var líklegt að ákærði, sem naut aðstoðar verjanda, fengi vitneskju um framburð vitnisins þegar á rannsóknarstigi málsins eða í síðasta lagi við meðferð þess fyrir dómi eftir útgáfu ákæru, sbr. 1. mgr. 163. gr. laganna. Framangreind vinnubrögð lögreglu eru ámælisverð. Vegna þess hvernig að skýrslutökunum var staðið verður jafnframt fallist á með héraðsdómi að ekki verði litið til vitnisburðar B hjá lögreglu við úrlausn málsins, en hún færðist undan því að gefa skýrslu fyrir dómi.

Þá var rannsókn málsins að ýmsu leyti ábótavant. Meðal annars fór ekki fram rannsókn á erfðaefni í blóðsýnum sem tekin voru á vettvangi árásarinnar. Með slíkri rannsókn hefði mátt leiða í ljós hvort blóð úr öðrum en brotaþola hefði verið á brotavettvangi, en ólíklegt verður að telja, miðað við það sem fram er komið í málinu og gerð verður grein fyrir hér á eftir, að þar hefði verið að finna blóð úr ákærða. Ennfremur lágu ekki fyrir í gögnum málsins myndir af áverkum, sem brotaþoli hlaut af völdum árásarinnar, og einnig skorti á að fyrir hendi væru greinargóðar lýsingar á hæð og útliti ákærða og brotaþola.

III

Brotaþoli lýsti aðdraganda árásarinnar 11. október 2010 á þann veg fyrir héraðsdómi að hún hafi verið á leið heim til sín úr skóla um þrjúleytið og gengið eftir göngustíg nálægt Suðurlandsbraut þegar hún heyrði einhvern mann koma hlaupandi aftan að sér. Hafi hann slegið sig margoft í höfuðið, nánar tiltekið hnakkann, með einhverju, sem hann hafi haldið á, líklegast steini eða einhverju álíka hörðu. Um leið hafi árásarmaðurinn öskrað á sig og sagt eitthvað á þá leið „þú fokkings skuldar“. Síðan hafi hann tekið sig hálstaki, sennilega með hægri hendi, og hert að þannig að hún hafi fljótlega misst meðvitund og hafi hún óttast um líf sitt. Jafnframt hafi hann ýtt henni niður í jörðina og haldið henni þar til hún hafi vaknað til meðvitundar og öskrað. Við það hafi hann sleppt sér og horft á sig stutta stund, en síðan hlaupið í burtu. Kvaðst brotaþoli hafa verið öll útötuð í blóði eftir árásina. Þegar hún var beðin um að lýsa árásarmanninum sagði hún að hann hafi verið liðlega tvítugur og á hæð við hana sjálfa, það er 177 cm, eða aðeins lægri. Hafi hann verið með skollitaðan hárlokk, en aðspurð þvertók brotaþoli fyrir að hann hafi verið með aflitað hár. Spurð um hvernig sá, sem réðist á hana, hafi verið klæddur sagðist hún ekki muna vel eftir því, en hana minnti að hann hafi verið í dökkum bol eða peysu og dökkum buxum. Þó tók brotaþoli fram að hún hafi séð skóna, sem hann hafi verið í, og það hafi ekki verið þeir skór sem fundust höfðu við húsleit á heimili móður ákærða og tilheyrðu honum, en hún hafði áður lýst skóm árásarmannsins nákvæmlega við skýrslutöku hjá lögreglu.

Ákærði var handtekinn rétt fyrir kl. 11 að morgni 11. nóvember 2010. Skömmu eftir hádegið var tekin skýrsla af honum hjá lögreglu þar sem hann neitaði sök. Síðdegis sama dag gaf hann skýrslu að nýju og játaði þá að hafa ráðist á brotaþola í Laugardal 11. október 2010. Þegar ákærði var leiddur fyrir dómara daginn eftir þar sem krafist var gæsluvarðhalds yfir honum kvaðst hann draga til baka játningu sína sem hann hafi gert hjá lögreglu daginn áður. Síðan hefur hann haldið fast við þann framburð, meðal annars við aðalmeðferð málsins í héraði.

Við úrlausn á því hvort ákærði hafi gerst sekur um brot það, sem hann er ákærður fyrir, er nauðsynlegt að rekja í stórum dráttum það sem kom fram í síðari skýrslu hans hjá lögreglu 11. nóvember 2010 þar sem hann játaði að hafa framið brotið. Hafa dómendur Hæstaréttar horft á myndbandsupptöku af skýrslutökunni. Einnig er rétt að fram komi að verjandi ákærða var viðstaddur hana og höfðu þeir, að sögn ákærða, ræðst við áður en hún hófst.

Í upphafi skýrslu sinnar hjá lögreglu greindi ákærði frá því að hann hafi verið mjög drukkinn í umrætt skipti. Hann kvaðst muna „eftir einhverjum átökum“ og halda að hann hafi „hoppað á hana“, væntanlega brotaþola, „og lamið hana eitthvað í klessu eða eitthvað svoleiðis ... svona hrint henni eða eitthvað“ og gefið frá sér „eitthvað högg eða eitthvað svona dæmi“. Kvaðst ákærði hafa verið mjög reiður út af því að sér hafi, að hann hélt, „verið tvívegis hent út úr strætó eða eitthvað“ og síðar hafði hann orð á að þetta hafi verið „alveg glataður dagur“. Hafi hann látið reiði sína bitna á brotaþola á leiðinni heim. Bætti ákærði því við að allt liti út fyrir að hann „hafi gert það ... eins og ... ég hafi lamið hana með einhverju“. Spurður hvort hann myndi eftir átökunum svaraði hann: „Ég held að þetta hafi verið rosa stutt“. Ákærði kvaðst ekki muna hvernig hann hafi ráðist á brotaþola, en tók þó fram að hann hafi „örugglega verið að mæta henni“. Spurður nokkru síðar hvað hann hafi gert við hana sagðist hann ekkert vita hvernig hann hafi komið að henni og ekki einu sinni vita af hverju hann hafi gert þetta. Ítrekað spurður um árásina kvaðst hann hafa „greinilega verið ofsareiður ... og tekið kverkataki á hana ... og eitthvað [verið] að öskra á hana“. Þó sagðist hann ekki muna hvað hann hafi sagt við þetta tækifæri. Spurður hvort hann hafi tekið brotaþola kverkataki með hægri eða vinstri hendi svaraði ákærði að það hafi verið með hægri hendi. Orðrétt sagði hann síðar: „... ég held að ég hafi bara stokkið á hana og hent henni inn í ... tekið hana kverkataki og gefið henni ... nokkur högg og svo bara farið sko í einhverri ofsareiði“. Aðspurður sagðist ákærði ekki muna hvernig hann hafi verið klæddur, en brotaþoli hafi verið svipuð á hæð og hann sjálfur, síðhærð og með dökkt, brúnt hár.

Meðan á skýrslutökunni stóð var ítrekað reynt að leiða í ljós hvert ákærði hafi lagt leið sína um Laugardalinn umrætt sinn. Í fyrstu kvaðst hann hafa farið framhjá Laugardalslauginni og pylsuvagninum, sem þar er, en síðar að verið gæti að „þetta“ hafi verið „innst inni“ í garðinum, þó ekki nálægt húsdýra- og fjölskyldugarðinum, heldur meira í leiðinni heim til móður hans, það er að Kleppsvegi 54. Síðar lét ákærði svo um mælt: „... ég labbaði heim ... löngu leiðina í gegn um Laugardalinn og mætti þessari stúlku“ og enn síðar, þegar hann virtist reyna að rifja upp hvar þetta hafi verið, „einhvers staðar nálægt sundlauginni“. Spurður um hvenær árásin hafi átt sér stað svaraði ákærði að hann héldi að „þetta hafi verið ... svona um átta ... níu leytið ... um kvöldið“. Eftir árásina sagðist hann hafa hlaupið heim til móður sinnar, þvegið sér og skipt um föt. Hann hafi allur verið úti í blóði og haldið fyrst að hann hefði meitt sig, en þegar hann hafi þvegið sér um hendurnar hafi hann séð að blóðið væri ekki úr honum. Nánar aðspurður sagði ákærði að blóðið hafi bara verið á höndunum og buxunum sem hann hafi verið í.

Áberandi er, ekki síst þegar horft er á myndband af skýrslutökunni, að ákærði spurði í sífellu, meðan hún varði, hvort það, sem hann bar, væri ekki í samræmi við eitthvað annað án þess að fram kæmi hjá honum hvað hann ætti við með því. Undir lok skýrslutökunnar lét hann þessi orð falla „... ég geri mitt besta hérna bara svo að ég geti eytt kvöldinu með fjölskyldunni minni“.

IV

Framburður brotaþola fyrir dómi um árásina, sem hún varð fyrir, er í stórum dráttum í samræmi við það sem hún hafði áður borið hjá lögreglu. Því verður frásögn hennar af því, sem gerðist, lögð til grundvallar við úrlausn þessa máls, svo langt sem hún nær.

Skýrsla ákærða, sem hann gaf hjá lögreglu þar sem hann játaði að hafa ráðist á brotaþola, kemur að nokkru leyti heim og saman við framburð hennar. Þannig kvaðst hann hafa stokkið á hana og gefið henni nokkur högg, auk þess sem árásin hafi staðið stutt yfir. Þótt ákærði segðist hafa tekið brotaþola kverkataki verður við það að miða, eins og ráða má af myndbandsupptöku af skýrslutökunni, að hann hafi átt við að hafa tekið hana hálstaki og það með hægri hendi. Þá sagði ákærði að hann hafi verið öskureiður og öskrað á brotaþola. Einnig hafi hann verið allur útataður í blóði, en síðar séð að það var ekki úr honum. Þann fyrirvara verður þó að gera við þennan samanburð að frásögn ákærða af því, sem hann sagði að hefði gerst umrætt sinn, var bæði almenns eðlis og ruglingsleg. Jafnframt var lýsing ákærða á brotaþola, svo sem á hárlit hennar, sama marki brennd.

Ýmislegt sem fram kom í skýrslu ákærða samrýmist ekki frásögn brotaþola af árásinni, eins og hver hafi verið aðdragandi hennar, þar sem hann sagðist hafa mætt brotaþola, meðan hún bar að árásarmaðurinn hafi komið aftan að sér.  Þá hafði ákærði aldrei orð á því að hann hafi slegið brotaþola í höfuðið með steini eða einhverju álíka hörðu og kvaðst heldur ekki muna eftir hvort hann hafi sagt eitthvað við hana og þá hvað meðan á árásinni stóð. Einnig sagðist hann ýmist hafa hent eða hrint henni, en það orðalag er ekki í samræmi við lýsingu hennar á því að sá, sem réðist á hana, hafi ýtt henni niður í jörðina og haldið henni þar. Loks þvertók brotaþoli fyrir að árásarmaðurinn hafi verið með aflitað hár og er það í mótsögn við framburð ákærða fyrir dómi um hárlit sinn umræddan dag, svo og þeirra tveggja lögreglumanna, sem báru að hafa séð hann á Hlemmi fyrri hluta dagsins og hafi hann þá verið með hvítt eða ljóst, aflitað hár.

Sá hluti af skýrslu ákærða, þar sem hann greindi frá því hvar og hvenær árás hans á brotaþola hefði átt að eiga sér stað, styður ekki að hann hafi verið þar að verki. Þannig sagðist hann halda að hann hafi ráðist á brotaþola um átta eða níu leytið um kvöldið, sem er fjarri lagi, þar sem fyrir liggur að ráðist var á hana laust eftir kl. 15 eða um hábjartan dag. Einnig kvaðst hann hafa farið framhjá Laugardalslauginni, sem er nyrst á útivistarsvæðinu í Laugardal, á leið heim til móður sinnar að [...]. Nánar aðspurður svaraði hann að þetta gæti hafa gerst annars staðar, þó ekki nálægt húsdýra- og fjölskyldugarðinum, heldur meira í leiðinni heim, en það merkir norðar í dalnum. Þessi frásögn samrýmist því ekki að ákærði hafi lagt leið sína um göngustíginn, þar sem árásin átti sér stað, en hann er syðst á útivistarsvæðinu í dalnum. Þó lét ákærði þess getið að hann hafi farið „löngu leiðina“ um Laugardalinn umrætt sinn sem gæti vísað til þess að hann hafi gengið meðfram Laugavegi og Suðurlandsbraut frá Hlemmi áleiðis heim til móður sinnar. Með því að velja þá leið hefði hann þó óneitanlega tekið á sig mikinn krók og ekkert annað í skýrslu hans, ef frá eru talin áðurgreind tvö orð, gefur til kynna að hann hafi verið á vettvangi brotsins þegar það var framið.

Vitnið D rannsóknarlögreglumaður bar fyrir dómi að hann hafi, ásamt öðrum lögreglumanni, hitt ákærða á Hlemmi milli klukkan 17 og 18, þó líklega nær klukkan 18, þann dag er árásin átti sér stað. Hafi fatnaður ákærða þá ekki samræmst lýsingu brotaþola á fatnaði þess, sem réðist á hana, og hendur hans verið með öllu óskaddaðar. Samkvæmt þessu liðu um tvær klukkustundir frá því að ráðist var á brotaþola og þar til lögregla hafði uppi á ákærða á Hlemmi. Með því að tæplega tveggja km gönguleið er frá brotavettvangi að Kleppsvegi 54 og rúmlega tveggja og hálfs km vegalengd þaðan að Hlemmi gæti ákærði hafa komist heim til móður sinnar eftir árásina, þvegið sér og skipt þar um föt og komið sér síðan aftur á Hlemm á þeim tíma án þess að hafa hraðan á. Lýsing hans á því, sem hann sagði í margnefndri skýrslu sinni að hafi gerst eftir árásina, gæti því staðist.

Samkvæmt vitnisburði E aðstoðaryfirlögregluþjóns fyrir dómi sá hann ákærða í námunda við Hlemm um níu leytið að morgni þess dags er árásin átti sér stað. Bar hann að ákærði hafi haft í hótunum við sig og verið mjög ógnandi í fasi. Vitnið D kvaðst hafa séð ákærða í hádeginu þennan dag. Hafi hann verið í annarlegu ástandi og að auki mjög ör og æstur. Þá sagðist vitnið C hafa séð ákærða á Hlemmi þennan sama dag, að hann minnti um klukkan 14. Hafi ákærði verið að rífast þar við vagnstjóra og ekki komist inn í strætisvagn sem hann hafi ætlað sér að fara með. Jafnframt hafi hann við þetta sama tækifæri verið að rífast við einhvern annan mann nálægt Hlemmi. Samrýmist framburður þessara þriggja vitna því, sem kom fram hjá ákærða í greindri skýrslu hans hjá lögreglu, að hann hafi verið mjög ölvaður og reiður þennan dag.

Ákærði hefur borið fyrir dómi að hann hafi ranglega játað á sig sök við umrædda skýrslutöku hjá lögreglu. Skýrði hann það annars vegar með því að hann hafi verið beittur þrýstingi af hálfu lögreglunnar til að játa á sig brotið og hins vegar að hann hefði talið sig mundu losna úr haldi ef hann gengist við brotinu, en hann hafi átt afmæli þennan dag og viljað hitta fjölskyldu sína af því tilefni. Ekkert er komið fram í málinu sem styður það að ákærði hafi verið beittur ólögmætum þvingunum til að játa á sig sök. Á hinn bóginn verður ekki framhjá því horft að hann var upplýstur um ýmis atvik málsins þegar hann gaf fyrri skýrslu sína hjá lögreglu 11. nóvember 2010, auk þess sem mikið hafði verið fjallað um árásina á brotaþola opinberlega, þar á meðal í fjölmiðlum. Kann ýmislegt af því, sem hann greindi frá í síðari skýrslunni, að stafa af vitneskju um málsatvik sem hann hafði áður fengið með þessum hætti. Sú skýring ákærða á játningunni að hann hafi með því móti viljað losna úr haldi er fjarstæðukennd í ljósi þeirra alvarlegu sakargifta, sem hann var borinn, og þess að honum gafst kostur á að ræða við verjanda sinn áður en skýrslutakan hófst.

Vitnið C hefur staðfest fyrir dómi það, sem hann hafði áður borið hjá lögreglu, að ákærði hafi skýrt sér og B frá því að hann hafi ráðist á stelpu í Laugardalnum og hafi þau bæði skilið hann svo að með því hafi hann átt við árásina á brotaþola. Styður þessi framburður vitnisins að játning ákærða hafi verið sannleikanum samkvæm, enda þótt það dragi úr sönnunargildi vitnisburðarins að vitnið hefur orðið uppvíst af því að hafa borið rangt hjá lögreglu hvar og við hvaða aðstæður ákærði hafi sagt þetta.

Það hversu játning ákærða var óljós og ruglingsleg gæti stafað af því að hann hafi verið undir miklum áfengis- og fíkniefnaáhrifum á árásardeginum 11. október 2010 og minni hans af þeim sökum verið slitrótt, eins og komist er að orði í forsendum hins áfrýjaða dóms.  Hins vegar kann að vera, með vísan til þess sem að framan er rakið, að þessi óljósa og ruglingslega frásögn ákærða eigi sér þá skýringu að hann hafi ekki ráðist á brotaþola þennan dag.

V

Samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 skal dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Í 2. og 3. mgr. greinarinnar eru gerðar undantekningar frá þeirri meginreglu, þar á meðal er samkvæmt 2. mgr. heimilt að taka til greina sem sönnunargögn skýrslur sem gefnar hafa verið fyrir dómi áður en mál var höfðað.

Ákærði hefur staðfastlega neitað sök fyrir dómi allt frá því að hann var fyrst leiddur fyrir dómara 12. nóvember 2010 þar sem krafist var gæsluvarðhalds yfir honum. Þótt hann hafi játað í skýrslu, sem hann gaf daginn áður hjá lögreglu að viðstöddum verjanda sínum, að hafa ráðist á brotaþola verður sakfelling ekki reist á þeirri skýrslu, einni sér. Frásögn ákærða var að auki óljós og ruglingsleg og ekki nema að hluta í samræmi við annað það, sem fyrir liggur í málinu, eins og rakið er í IV. kafla hér að framan. Þrátt fyrir að framburður þeirra vitna, sem þar er lýst, kunni að styðja það að ákærði hafi verið að verki umrætt sinn nægir sá vitnisburður ekki til sakfellis gegn eindreginni neitun hans fyrir dómi. Við mat á því hvort ákærði sé sannur að sök verður einnig að líta til þess að við rannsókn á vettvangi og fatnaði hans, þar á meðal skófatnaði, sem hald var lagt á við húsleit á heimili móður hans, hefur ekkert komið fram er veitir vísbendingu um að hann hafi framið verknað þann sem hann er ákærður fyrir.

Að virtu öllu því, sem að framan greinir, verður ekki talið, með vísan til 108. gr. laga nr. 88/2008, að færðar hafi verið viðhlítandi sönnur á, svo að hafið sé yfir skynsamlegan vafa, að ákærði hafi gerst sekur um það brot sem honum er gefið að sök. Verður hann því sýknaður af sakargiftum í máli þessu.

Samkvæmt 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 verður bótakröfu A vísað frá héraðsdómi.

Allur sakarkostnaður málsins í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærða og þóknun réttargæslumanns A í héraði, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.

Allur  sakarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði, Stefáns Karls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Valgerðar Valdimarsdóttur héraðsdómslögmanns, allt eins og ákveðið var í hinum áfrýjaða dómi, svo og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 502.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. mars 2011.

I

Málið, sem dómtekið var 17. febrúar síðastliðinn, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 24. janúar 2011 á hendur X, [...], nú gæslufanga á Litla-Hrauni, „fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa mánudaginn 11. október 2010, á göngustíg í Laugardalnum í Reykjavík, ráðist með ofbeldi á A, slegið hana ítrekað með hörðu áhaldi í höfuð og tekið hana hálstaki og þrengt að þar til hún missti meðvitund, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut 3 ½ cm langan skurð á hnakka hægra megin, djúpan 3 cm langan skurð á enni, brot á nærkjúku hægri vísifingurs, mar á hálsi undir kverkum, mar í handarkrika hægra megin og maráverka á vinstri hendi.

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Fyrir hönd A, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 1.800.000, auk vaxta samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, sbr. 4. gr. laganna frá 11. október 2010 til þess dags er mánuður er liðinn frá því bótakrafan var kynnt fyrir ákærða en með dráttarvöxtum frá þeim degi samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. vaxtalaga til greiðsludags auk þóknunar við réttargæslu að mati dómara eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts á réttargæsluþóknun.“

Ákærði neitar sök og krefst sýknu. Þess er krafist að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.  Ákærði krefst þess að skaðabótakröfunni verði vísað frá dómi.

II

                Klukkan 15.18 mánudaginn 1. október 2010 barst lögreglunni tilkynning um líkamsárás við verslun Heimilistækja að Suðurlandsbraut 24 í Reykjavík.  Á vettvangi hittu lögreglumenn fyrir framangreindan brotaþola sem hafði verið færð í sjúkrabifreið.  Hún var í miklu uppnámi og gat vart tjáð sig fyrir geðshræringu.  Á höfði hennar var stór skurður og hafði blætt mikið úr honum í andlit hennar og föt.  Eftir að brotaþoli hafði aðeins jafnað sig skýrði hún frá því að hún hefði verið á gangi í Laugardalnum.  „Skyndilega hefði maður komið aftan að henni og barið hana í höfuðið með grjóti.  Hún vankaðist við höggið og féll til jarðar en þá stökk maðurinn ofan á hana og tók hana kverkataki og herti að þannig að hún gat ekki andað.  Aðspurð um hvort maðurinn hefði sagt eitthvað sagði brotaþoli að hann hefði sagt:  „Þú skuldar, þú skuldar!“ og svo „á ég að sleppa þér?“  Maðurinn hefði síðan sleppt henni og hlaupið á brott en brotaþoli kvaðst hafa komist á fætur og upp á Suðurlandsbraut þar sem hún náði að stöðva bifreið.  Ökumaður hennar hefði hringt á lögreglu og sjúkralið.

                Lögreglan hóf þegar leit að árásarmanninum og hafði meðal annars tal af ákærða, en lýsing brotaþola á árásarmanninum gat bent til þess að hann hefði verið þarna að verki.  Leitin bar ekki árangur og lögreglan taldi, að athuguðu máli, að ákærði hefði ekki átt þarna hlut að máli.  Segir í skýrslu rannsóknarlögreglumanns, sem annaðist frumrannsókn málsins, að lögreglumenn hafi hitt hann á Hlemmi og gengið úr skugga um „að hann tengdist málinu ekki, en fatnaður hans passaði ekki við lýsingu og hendur hans voru með öllu óskaddaðar.“  Lögreglan skoðaði vettvang og fann stað sem bar þess merki að átök hefðu getað átt sér stað þar.  Þar fannst eyrnalokkur og nokkrir blóðdropar. 

                Brotaþoli var tvívegis yfirheyrð af lögreglu þar sem hún lýsti árásinni nánar.  Það kom meðal annars fram hjá henni að hún skuldaði engum neitt nema hugsanlega kunningjum sínum einhverja smápeninga.  Þá gat hún ekki bent á óvildarmenn er kynnu að hafa ráðist á hana. 

                Brotaþoli var flutt á slysadeild eftir árásina og í vottorði þaðan segir að á hnakka hennar hægra megin hafi verið 3 ½ cm langur skurður sem virtist tilkominn eftir högg. Á enni sé skásettur skurður hægra megin sem gapi vel.  Skurðurinn sé 3 cm langur og dýpt hans inn að kúpu.  Hann virðist vera eftir högg með barefli.  Þá segir að hún sé mjög bólgin á hægri vísifingri, marin upp á handarbakið og fram allan fingurinn.  Hún eigi erfitt með að rétta úr fingrinum.  Röntgenmynd var tekin og kom í ljós að hún var brotin á nærkjúku fingursins.  Þá var hún með maráverka á handarbaki vinstri handar eftir átök og með mar á hálsi undir kverkum og í handarkrika hægra megin. 

                Lögreglan yfirheyrði tvö vitni, systur ákærða og kærasta hennar.  Systirin kvaðst hafa rekist á ákærða á Hlemmi og hafi hann sagt henni að hann væri oft að lemja einhverja róna og svo hafi hann sagt:  „Og já, þetta þarna á Suðurlandsbraut, ég gerði það.“  Hún kvaðst hafa spurt hann hvort hann ætti við þetta með stelpuna og hann játað því.  Þá kvaðst hún hafa séð hann á Hlemmi nokkrum klukkutímum fyrir árásina og hafi hann bæði verið drukkinn og undir áhrifum fíkniefna.  Hann verði alltaf ofbeldisfullur þegar hann drekki.  Hún kvað ákærða hafa verið í gráum gallabuxum, peysu sem hún talda hafa verið gráa eða svarta og í hvítum skóm.  Þá kvað hún ákærða hafa fyrst verið eins og að grobba af því sem hann hefði gert en síðan hafi hann orðið skömmustulegur eins og hann sæi eftir því.  Eftir að ákærði hafði verið handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald var systirin yfirheyrð aftur, en ákærði var í gæslu án takmarkana.  Hún kvað ákærða hafa hringt í sig frá Litla-Hrauni og spurt sig hvort hún þekkti brotaþola.  Hann hafi sagt að hann hefði ekki ráðist á hana en síðan lýst árásinni fyrir sér.  Hann hefði hlaupið brotaþola uppi og kastað múrsteini í höfuð henni.  Hann hefði síðan ráðist á hana og lamið hana nokkrum sinnum í höfuðið.  Hann hefði svo sagt að hann hefði átt að hafa brotið á henni puttann, en hann hefði brotnað þegar hún datt í jörðina.  Þá kvað hún skó ákærða vera hvíta með rauðu í. 

                Kærasti systurinnar kvað þau líklega hafa hitt ákærða á Hlemmi 2. nóvember.  Ákærði hafi örugglega verið bæði fullur og dópaður og verið að rífast við fólk.  Kærastinn kvað ákærða hafa sagt þeim að hann hefði lent í slag við róna og síðan sagt:  „Og stelpan sem var þarna í fréttum, ég gerði það.“  Hann hafi sagt þetta brosandi eins og hann væri ánægður með þetta, en kærastinn kvaðst hafa séð að ákærði var ekki ánægður með það.  Þennan dag hafi ákærði verið klæddur í hvíta skó, gráa eða svarta yfirhöfn og gráar eða bláar galla- eða íþróttabuxur, sem voru víðar. 

                Húsleit var gerð á heimili móður ákærða 10. nóvember og hald lagt á föt og skó sem taldir voru líkjast skóm árásarmannsins.  Meðal þess sem haldlagt var voru buxur sem voru skoðaðar með fjölbylgjuljósgjafa.  „Við skoðunina kom í ljós einn blettur í hnéhæð á framanverðri vinstri skálm.  Bletturinn var 0,5 sm x 1,0 sm að stærð og var miðja hans 4,5 sm inn frá ytri hliðarsaumi á vinstri skálm og 47,5 sm upp frá neðri brún skálmarinnar.  Sýni var tekið úr blettinum á bómullarpinna, sem vættur hafði verið með sæfðu vatni.  Sýnið var þá prófað áfram með ABA Hematrace staðfestingarprófi, sem er sértækt próf fyrir mennskt blóð, og var svörun einnig jákvæð.“  Það var niðurstaða tæknideildar lögreglunnar að þar eð sýnið, sem tekið var úr blettinum, hefði gefið jákvæða svörun sem blóð væri þar að finna lífsýni sem nothæf væru til DNA kennslagreiningar.  Sýnið var sent til rannsóknar til Statens Kriminaltekninsk Laboratorium í Svíþjóð ásamt samanburðarsýnum frá ákærða og brotaþola.  Niðurstöður bárust í byrjun janúar og segir þar:  „På topsen 331419-1 (bómullarpinnanum) påvisades blod.  Resultaten talar med visshet för att blodet/DNA:t kommer från Valgeirsson (Grad +4), om man borstser från möjligheten att det kommer från en nära släkting.“ 

                Ákærði var handtekinn 11. nóvember klukkan 10.59.  Í handtökuskýrslu er honum lýst þannig að sjáöldur hafi verið eðlileg, jafnvægi stöðugt, framburður greinargóður og málfar skýrt.  Ákærði var yfirheyrður að viðstöddum verjanda sínum og neitaði alfarið sök.  Hann kvaðst ekki muna eftir deginum 11. október.  Honum var bent á að vitni hefðu borið um að hann hefði viðurkennt verknaðinn fyrir þeim, en hann neitaði allri sök margítrekað.  Að yfirheyrslu lokinni var ákærði færður í fangageymslu.  Hann óskaði eftir að ræða við lögreglumenn og ræddu tveir þeirra við hann.  Ákærði spurði hversu lengi hann yrði í haldi og hvers vegna þyrfti að halda honum.  Honum var tjáð að málið væri í athugun og á meðan yrði hann í haldi eitthvað lengur.  „X spurði þá hvort að við gætum tekið af honum aðra skýrslu, því hann gæti kannski sagt okkur eitthvað meira um málið.  Hann kvaðst muna óljóst eftir umræddu atviki og vildi hann tjá sig um það.  Hann kvaðst hafa verið mjög drukkinn og að hann myndi bara brot af því sem gerðist.  Ítrekað var við X að hann þyrfti að segja sannleikann í skýrslutöku og ekki var honum gefið loforð um að hann myndi losna eftir skýrslutöku.“ 

Skýrsla var svo aftur tekin af ákærða síðar sama dag að viðstöddum verjanda og verður meginefni skýrslunnar rakið í næsta kafla. 

                Daginn eftir, 12. nóvember, var þess krafist að ákærði yrði úrskurðaður í gæsluvarðhald.  Hann mótmælti kröfunni og er bókað eftir honum:  „Kærði kveðst draga til baka játningu sína sem hann gerði hjá lögreglu í gær.  Hann kveðst hafa játað til þess að losna úr haldi.  Hann hafi átt afmæli í gær og viljað hitta fjölskyldu sína.“  Ákærði var úrskurðaður í gæsluvarðhald þennan dag og hefur setið í því síðan.  Þá var honum og gert að sæta geðrannsókn. 

                Ákærði var aftur yfirheyrður 29. nóvember af lögreglu og að viðstöddum verjanda.  Hann neitaði nú alfarið sök og sagðist ekki hafa átt hlut að máli.  Hann hafi játað á sig árásina vegna þess að hann hafi átt afmæli daginn sem hann var yfirheyrður og viljað losna þess vegna.  Þá kom og fram hjá ákærða að hann hafi verið búinn að nota mikið af áfengi, amfetamíni og rítalíni og því ekki verið með réttu ráði þegar hann var yfirheyrður fyrra sinnið.  Framburðinn megi því frekar skoða sem ákall um að hleypa honum út.  Undir ákærða voru borin sömu atriði og við fyrri skýrslutöku og voru svör hans á þá lund að hann hefði ekki ráðist á brotaþola og í fyrri skýrslutökunni hefði hann spunnið upp sögu og giskað á rétta punkta.

                Sálfræðingur rannsakaði ákærða og segir í niðurstöðum hans að ákærði sé „líklegast eðlilega greindur maður en með talsverðan misstyrk.  Helst má nefna að veikleikar tengjast vinnsluminni, vinnsluhraða, einbeitingu og athygli og er gott samræmi úr mismunandi prófþáttum greindarprófs varðandi þetta sem og gott samræmi við önnur taugasálfræðileg próf.  Þeir þættir sem hann er með mestu hömlun tengjast stýrifærni og framheilavirkni en þeir þættir hafa reynst hamlaðir hjá börnum og fullorðnum með athyglisbrest/ofvirkni (ADHD).  Lesblinda getur einnig haft einhver áhrif en þó ber að merkja að málfarslega virðist hann eðlilegur og hefur ágætis almenna þekkingu sem byggir mikið til á árvekni fyrir umhverfi og lestri, t.d. tímarita eða fréttablaða.  Niðurstöður benda einnig til ákveðinna veikleika með framheilasvæði heilans en óvíst er hvort það tengist ADHD eingöngu eða hvort um framheilaskaða sé að ræða.  Málfarslega er hann eðlilegur og virðist ekki hafa flatan affect sem þekkist meðal þeirra sem eru með framheilaskaða.  Taugasálfræðilegir veikleikar sem ADHD og framheilaskaði eiga sameiginlegt eru slök einbeiting, athygli, vinnsluminni og skammtímaminni.  Niðurstöður þessar þarf því að skoða í samhengi við sögu einstaklingsins, til dæmis í sjúkrasögu með höfuðhögg eða persónuleikabreytingar en þær upplýsingar gætu gefið betri mynd af honum.“          

                Geðlæknir rannsakaði geðhagi ákærða og í niðurstöðum hans segir:   

„1.  Það er niðurstaða mín að X sé örugglega sakhæfur.

  2. X hefur engin merki geðrofs, sturlunar eða rugls nú, í sögu né allan skoðunartímann.

3. Grunnpersónuleiki hans er ekki eðlilegur.  Ekki koma fram örugg merki um svo alvarlega persónuleikaröskun, heilaskaða eða greindarskort sem eru af þeirri gráðu að þau fyrri hann ábyrgð gerða sinna.

4.  X var örugglega meintan brotadag undir verulegri áfengisvímu og vímu eiturlyfja.  Þau ein geta útskýrt hegðun á brotadag.  Auk þess getur athyglisbrestur og ofvirkni hans hafa aukið árásargirni og hvatvísi.  X hefur einnig sögu um að misnota stera sem geta aukið árásargirni.  Hann hefur einnig merki siðblindu.

5.  Geðræn einkenni þau sem að ofan er lýst leiða ekki til ósakhæfis samkvæmt 15. grein hegningarlaga.

6.  Þau útiloka ekki að fangelsisvist né að refsing komi að gagni.

7.  X hefur þokkalegar batahorfur ákveði hann að hætta neyslu fíkniefna.  Hann virðist byrjaður að skoða sjálfan sig betur og sýna meiri viðleitni til að bæta hegðun sína og breyskleika.  Þetta ræðst þó af hans eigin heiðarleika á næstu misserum.“

                Þá kemur og fram í geðrannsókninni að ákærði hefur lengi átt við vímuefnavanda að etja og misnotað flestar tegundir fíkniefna auk áfengis.  Hann hefur verið vistaður á sjúkrastofnunum vegna þessa og eins vegna geðrænna vandamála.

                Meðal gagna málsins er vottorð hjúkrunarfræðings á geðsviði Landspítalans varðandi brotaþola.  Þar segir að hjúkrunarfræðingurinn hafi veitt brotaþola sálrænan stuðning og áfallameðferð eftir árásina.  Hjá henni hafi sálrænu eftirköstin af árásinni þróast „fljótt yfir í áfallastreituröskun og hafa einkennin aukist jafnt og þétt eftir árásina.  Hún stríðir nú við einbeitingarörðugleika, ofurárvekni og hliðrun/forðun frá því að vera í aðstæðum, taka þátt í athöfnum eða öðru sem minnir á atburðinn.  Einnig sýnir hún merki um sterk áfallaeinkenni (ótta eða óraunveruleikakennd) við ákveðnar kveikjur (áreiti) sem minna á árásina t.d. að vera ein á ferð úti, finna reykingalykt en árásaraðili angaði af reykingalykt.  Hún sýnir merki um ótta og óöryggi bæði á heimili sínu og annars staðar.  Þetta hefur haft mikil áhrif á allt hennar daglega líf t.d. dregið úr athöfnum sem hún tók þátt í áður og skert lífsgæði hennar.“  Þá kemur fram að þessi einkenni hafi haft áhrif á nám hennar.  Í lokin segir að hún þurfi „á sálrænni meðferð að halda til að takast á við afleiðingar árásarinnar en óvíst er hvort eða hvenær sálrænu einkennin ganga til baka.  Henni verður því vísað í langtíma sálræna meðferð hjá áfallasérfræðingi.  Einnig er hugsanlegt að hún þurfi á lyfjameðferð að halda til að takast á við kvíðaeinkenni.“

III

Nú verður rakið efni þeirra yfirheyrsluskýrslna lögreglu sem teknar voru upp á mynddisk.  Fyrst skýrslur sem teknar voru af systur ákærða og kærasta hennar og síðan seinni skýrslan sem tekin var af ákærða daginn sem hann var handtekinn. 

Systir ákærða var yfirheyrð þriðjudaginn 9. nóvember.  Í vélrituðu endurriti af yfirheyrslunni er bókað að henni „er kynnt vitnaskylda og vitnaábyrgð, að henni beri að segja satt og rétt frá og draga ekkert undan er málið kynni að varða, að viðlagðri refsiábyrgð.“  Þá er bókað að þar sem hún er 16 ára sé faðir hennar viðstaddur og eins hafi barnaverndaryfirvöldum verið tilkynnt um yfirheyrsluna.  Að því búnu hófst yfirheyrslan. 

Skýrsla þessi var tekin á mynddisk og þar heyrist rannsóknarlögreglumaður segja orðrétt við systurina áður en hún gerir grein fyrir sér:  „Ég ætla að kynna þér vitnaskyldu og vitnaábyrgð.  Það þýðir bara að þér ber að segja satt og rétt frá og draga ekkert undan er málið kann að varða og ef maður segir ekki satt þá er hægt að refsa manni.  Þetta er bara sem öll vitni þurfa að vita.  Svo náttúrlega fylgir þessari vitnaskyldu að þú þarft ekki að greina frá einhverju sem tengist einhverjum fjölskyldumeðlim eða einhverjum þér nákomnum, það er bara þú getur skotið þér undan vitnaábyrgð með því.“ 

Aftur var tekin skýrsla af systur ákærða miðvikudaginn 24. nóvember.  Í vélrituðu endurriti af yfirheyrslunni er bókað að henni „var kynnt vitnaskylda og vitnaábyrgð, að henni bæri að segja satt og rétt frá og draga ekkert undan er málið kynni að varða, að viðlagðri refsiábyrgð.“  Henni „var jafnframt kynnt að hún gæti skorast undan vitnaskyldu á grundvelli 117. gr. laga nr. 88/2008.“  Hún „kvaðst skilja þetta og að hún væri tilbúin að tjá sig.“  Að því búnu hófst yfirheyrslan og eftir að systirin hafði gert grein fyrir sér var farið að spyrja hana um atvik málsins. 

Skýrsla þessi var tekin á mynddisk og þar heyrist rannsóknarlögreglumaður segja orðrétt við systurina eftir að hún gerir grein fyrir sér:  „Ég ætla að kynna þér vitnaskyldu og vitnaábyrgð.  Það þýðir bara að þér ber að segja satt og rétt frá og draga ekkert undan er málið kann að varða.  Það bara þýðir það í rauninni að ef maður segir ekki satt þá er hægt að refsa manni.  Þú skilur þetta?“  Systirin jánkar þessu og svo hefst yfirheyrslan.

Samkvæmt b lið 1. mgr. 117. gr. laga nr. 88/2008 hefði átt að skýra systurinni greinilega frá því að hún gat skorast undan því að bera vitni.  Það var ekki gert í síðari yfirheyrslunni og í þeirri fyrri ekki á fullnægjandi hátt.  Þess vegna verður efni þessara skýrslna ekki rakið.

Kærasti systurinnar var yfirheyrður 9. nóvember og var hann fyrst beðinn að tjá sig sjálfstætt um málið og hann segir að þau hafi hitt ákærða rétt hjá Hlemmi:  „Við reynum alltaf að forðast hann en þarna sá hann okkur og kom til okkar með einhverjum vini sínum, sem var dökkhærður.  Hann fór að segja okkur frá einhverjum róna sem hann lenti í slag við og sagði síðan við okkur:  „Og stelpan sem var þarna í fréttunum, ég gerði það.“  Hann sagði þetta brosandi, eins og hann væri geðveikt ánægður með þetta en maður sá samt að hann var ekkert ánægður með að hafa gert þetta.“  Kærastinn var spurður hvernig hann hafi vitað um hvað ákærði hafi verið að tala og hann svaraði:  „Hann sagði stelpan sem var lamin og þetta var búið að vera í fréttunum.  Okkur var samt búið að gruna þetta fyrr, vegna þess að lýsingin passaði við hann.  Við, kærastan mín, hittum X sama dag og árásin var gerð og þá var hann klæddur í hvíta skó og einhverri svartri eða grárri yfirhöfn og mig minnir að buxurnar hafi verið gráar eða bláar gallabuxur eða íþróttabuxur, allavega víðar.  Þá var hann að fara inn í strætó nr. 14, og það var eitthvað vesen með strætóinn.  Við fórum yfir í annan strætó til að þurfa ekki að hitta hann.  Þegar við keyrðum í burtu í hinum strætónum, þá sáum við að X var eitthvað að rífast við bílstjórann og við höldum að hann hafi ekkert komist með í strætóinn.“  Síðar í yfirheyrslunni kemur fram að þetta hafi verið á milli klukkan 13 og 14.  Hann var spurður hvenær þau hefðu hitt ákærða og segir kærastinn á myndbandinu að það hafi verið í kringum hrekkjavökuna eða 31. október.  Í vélrituðu skýrslunni segir 2. nóvember. 

Nú verður rakið meginefni seinni skýrslunnar sem tekin var af ákærða daginn sem hann var handtekinn.

Honum var kynnt tilefni skýrslutökunnar og bent á að honum væri óskylt að svara spurningum, en síðan segir lögreglumaður:  „Við tókum af þér skýrslu fyrr í dag, viltu eitthvað tjá þig meira um hana, hvað viltu segja meira, hvað hefur rifjast upp?“  Ákærði svarar:  „Ég hérna, ... ég man svona aðeins betur, þú veist mig minnir að það hafi verið aðrir krakkar þarna líka sko, ég veit það, ég hérna þú veist .. þú veist ég hérna .. ég var náttúrlega rosalega fullur skilur þú veist en ég hérna, ég játa þetta á mig sko, um mig sko verknaðinn sko.“  Lögreglumaður bað ákærða að lýsa því sem gerðist og svarar hann þá:  „Ég man eftir einhverjum átökum sko, þú veist og þú veist ég held að ég, ég þetta hafi ekki verið eitthvað þú veist að ég hafi sko hoppað á hana sko og lamið hana eitthvað í klessu eða eitthvað svoleiðis.“  „Ég held að þetta hafi bara verið eitthvað svona hrint henni eða eitthvað og, og gefið frá mér eitthvað högg eða eitthvað, eitthvað svona dæmi sko.“  Í skýrslutökunni bar ákærði að hafa verið mjög drukkinn þennan dag og einnig reiður vegna þess að sér hafi verið vísað tvívegis út úr strætisvagni og reiðin bitnað á stúlkunni.  Hann hafi gengið heim til sín á Kleppsveginn og farið gegnum Laugardalinn, en það geri hann stundum.  Hann er spurður hvort hann muni eftir leiðinni heim og svarar:  „Nei en þú veist ég meina ég labba stundum í gegnum Laugardalinn sko.“    Síðar segir ákærði:  „En einhvern veginn sko fannst mér svona Laugardalslaugin og Bæjarins bestu einhvern veginn.“  Lögreglumaðurinn spyr:  „Gekkstu einhversstaðar þar?“  Ákærði svarar:  „Já var það ekki?“  Lögreglumaðurinn svarar:  „Já, ég veit það ekki ég spyr.“  Ákærði svarar:  „Já, en hérna já og sko ég örugglega skrýtið að ég fór í ... þegar ég þú veist en ég það getur alveg, eða þú veist það lítur allt út fyrir að ég hafi gert það eða þú veist en hérna .. en, en hérna eins og hérna ég hafi lamið hana með einhverju sko.“ Lögreglumaðurinn spyr:  „Er það eitthvað svoleiðis eða?“ og ákærði svarar:  „Ja það er eitthvað, eitthvað verið að segja það við mig sko.“  Lögreglumaður spyr:  „Var það þá, manstu eftir því?“ og ákærði svarar:  „Ég, ég, ég man ekki hvað það var.  Ég held ekki.“  Rétt á eftir er hann spurður:  „Manstu eftir átökunum? og hann svarar:  „Ég held að þetta hafi verið rosa stutt.“  Og skömmu síðar segir hann:  „Ég held að þetta hafi verið bara fljótt sko, ég held að þetta hafa bara verið sko .. kannski svona ein og hálf, tvær mínúta eða eitthvað sko sem ég hafi kannski örugglega ráðist á hana sko eða þú veist ef ég hef ráðist á hana.“  „Manstu hvernig þú réðst á hana?“ spyr lögreglumaður og ákærði svarar:  „Sko .. púffff .. nei ég nefnilega man það ekki skilur þú en þú veist, ég þú veist, þarf ég að muna það, ég meina ég, ég, ég, ég þú veist, þarf ég núna ég meina ég, ég, ég, ég þú veist ég, ég.“  „Þarft að reyna að rifja upp“ segir lögreglumaður og ákærði segir þá:  „Ég bara, ég held að ég hafi sko verið að labba út götuna og hrint henni bara svona frá mér skilur þú og bara lamið smá og svo bara labbað í burtu sko, ég held það hafi ekkert verið meira en það sko.“  Hann er spurður hvort hann muni hvernig hann hafi komið að brotaþola, að framan eða að aftan eða á hlið og svarar hann:  „Örugglega .. örugglega verið að mæta henni sko.“  Ákærði var nú nánar spurður hvar þetta hafi gerst og honum bent á að hann hafi minnst á Laugardalslaugina og Bæjarins bestu.  Hann svarar:  „Nei, nei ég, ég er ekki að meina Bæjarins bestu, ég meina pulsubarinn þarna við, við, við sundlaugina.  Var þetta einhvers staðar þar, mig minnir það nefnilega sko þú veist, mig minnir það sko en hérna þú veist?“  Nánar spurður um hvar þetta hafi gerst, kvað hann þetta vel hafa getað gerst í hjarta Laugardalsins þar sem allt sé, og þegar lögreglumaður spyr hvort hann eigi við Húsdýra- og fjölskyldugarðinn segir ákærði:  „...eða ekki alveg svo djúpt sko .. þetta var meira svona á leiðinni heim til mín sko.“  Lögreglumaður spyr nú hvað hafi gerst og biður ákærða að lýsa því hvernig hann kom að stúlkunni og ákærði svarar:  „Þú veist ég veit ekkert hvernig ég kom að henni, þú veist ég meina ég .. þetta var svo fljótt að gerast bara þú veist .. ég veit ekki einu sinni af hverju ég gerði það sko, þú veist fattar þú.“  Ítrekað spurður um hvað hann hafi gert við stúlkuna svarar ákærði:  „Hvað ég meina þú veist, hvað átti ég þú veist, var ekki eitthvað verið lýsing um það að það hefði verið tekin einhverju kverkataki og einhverju svona dóti var ekki verið að segja það?“  Lögreglumaðurinn segist ekki vita það og þá segir ákærði:  „Getur vel verið, þú veist eða þú veist ekkert vel verið eða ég meina jú, þú veist ég meina ætli ég, þú veist ég veit ekki alveg nákvæmlega í smáatriðum af því ég var svo fullur skilur þú, en þú veist ég alveg í smáatriðum bara ráðist á hana sko þú veist.“  Ákærði var nú hvattur til að segja allt sem hann myndi og hann segir:  „En ég bara, ég held samt en mig minnir samt að hún hafi ekki verið ein á ferð sko, getur verið samt þú veist en ... eða jú kannski ... æ æ þetta er rugl.“  Þá kemur fram hjá honum að þetta hafi verið „glataður dagur“.  Síðan segir hann:  „Ég held að strætóinn hafi bara gert útslagið .. ég labbaði heim skilur þú löngu leiðina í gegn um Laugardalinn og mætti þessari stúlku skilur þú og verið, þú veist og verið ennþá fullur af reiði skilur þú og sprungið bara á hana þú veist og bara hlaupið heim skilur þú, þú veist.  Mig minnir þetta skilur þú, þú veist .. mig minnir þetta sko.  Allur sveittur og geðveikt alveg bara; hvað er ég að pæla, hvað á ég að gera?“  Ákærði var nú spurður hvort hann hefði sagt eitthvað við stúlkuna og hann segir:  „Ég man það ekki, ég man það ekki en ég bara þú veist ég man bara að það var eitthvað svona sko, það urðu svona átök sko.“  Hann er ítrekað spurður hvað hann hafi sagt en hann segist ekki muna það en segir svo:  „Þú veist fattar þú en mig rámar eitthvað í þetta skilur þú og ég .. jú .. ég.. mér þykir þetta svo leiðinlegt ég meina þú veist ég, ég .. þú veist ég þetta .. þetta hefur bara verið eitthvað, eitthvað voðalega furðulegt að ég hafi gert þetta sko .. þú veist ég meina .. en þú veist ég meina ég man eftir að hafa séð eftir einhverju þú veist hvort þetta hafi verið það .. mjög líklega sko.“  Ákærði mundi ekki eftir hvernig stúlkan var klædd og hann taldi þetta hafa gerst um klukkan átta eða níu að kvöldi til.  Hann var nú aftur spurður nánar um árásina og þá svarar hann:  „.. ég held að þetta hafi verið bara ... já bara, ég hafi bara ráðist á hana ég hef greinilega verið ofsa reiður í volæði skilur þú veist .. þú veist tekið kverkataki á hana skilur þú, þú veist og er eitthvað að öskra á hana eitthvað skilur þú veist og hent henni eitthvað og hljóp svo í burtu.“  Hann var spurður hvort hann hefði tekið kverkatakið með hægri eða vinstri hönd og svarar:  „Pottþétt með hægri sko .. eflaust hérna, fucked up maður, eða þú veist ég, ég af því að ég af því að ég meina þetta er svo kjánalegt skilur þú að hafa gert þetta svona, að það er bara ekki, það er bara ekki þú veist.“ 

Eftir að þetta gerðist kvaðst ákærði hafa hlaupið heim til sín, farið í sturtu og skipt um föt og skó.  Hann taldi að hann hefði sett fötin í bala undir vaski.  Þennan dag hafi hann verið í ljósbláum gallabuxum, að hann haldi og spyr hann lögreglumanninn hvort það geti passað, en hann segist ekki vita það.  Það hafi verið blóð á þeim.  Þær eigi að vera heima hjá honum.  Síðar í yfirheyrslunni kom fram hjá honum að hann hafi verið allur útataður í blóði. Kvaðst ákærði hafa haldið að hann hefði meitt sig og blóðið komið úr honum, en þegar hann hafi þrifið sig um hendurnar hafi hann séð að það var ekki úr honum. Þá hafi verið blóð á gallabuxum sem hann var í.      

Ákærða var nú sýnt kort af Laugardalnum til að fá hann til að átta sig betur á staðnum og hann segir að sig rámi í stað „Já eða þú veist ekki staðinn skilur bara, þú veist í Laugardalnum þú veist, þú veist einhversstaðar nálægt sundlauginni skilur þú.“  Þá var ákærði beðinn að lýsa árásinni aftur og svarar:  „Ég, ég veit ekki sko .. ég held að ég hafi bara stokkið á hana og hent henni inn í röðina skilur þú, tekið hana kverkataki og gefið henni einhver nokkur högg og svo bara farið sko í einhverri ofsareiði sko.“  Svo bætir hann við:  „Ég gæti hafa fleygt fram einhverjum orðum líka sko en ég veit ekki bara hvað.“  Spurður um útlit stúlkunnar kvað ákærði hana hafa verið brúnhærða og síðhærða og á stærð við sig. Þá var hann spurður um klæðnað hennar og hann segist ekki muna það nákvæmlega og lögreglumaður segir þá:  „Manstu hvort flíkin sem hún var í var rauð eða græn eða blá, manstu nokkuð litinn?“ og ákærði svarar:  „Getur vel verið að hún hafi verið græn.“  Skömmu síðar segir hann:  „En þú veist það getur vel verið skilur þú ég meina ég veit ekki hvernig þetta passar saman, hvort að hún hafi verið í grænni úlpu eða eitthvað þú skilur, ég man það ekki.“  Þá var ákærði aftur spurður um hársídd stúlkunnar og segir hann það hafa verið aðeins síðara en á lögreglukonunni.  Eitthvað niður á bak segir hún og hann svarar:  „Já .. en þú veist þetta eru svona smámunir sem ég, ég, sem ég held að þú veist, að þú veist ég er að reyna að rifja upp skilur þú ég meina, ég verð að fá smá svona að vita hvort að ég sé á réttum stað með minningar eða þú veist, ha?“  Lögreglumaður svarar já, já og síðan segir ákærði:  „ .. ég geri mitt besta hérna bara svo að ég geti eytt kvöldinu með fjölskyldunni minni skilur þú.  Reyna að útskýra hvað ég man það sem að ég þú veist, já þið bara ok bara konkríd skilur þú, ok ég þú veist.“  Hann er beðinn að sýna hvernig kverkataki hann tók, en hann kveðst ekki muna það og ekki hvort hann tók það framan frá eða að aftan.  Þegar hér var komið sögu spyr ákærði hvort ekki sé komið nóg og honum er svarað að það þurfi að skoða málið.  Hann svarar: „Ertu að djóka, þarf ég að bíða eða eitthvað?“ og þegar honum er sagt að það þurfi að leggja það fyrir yfirmenn segir ákærði:  „Þið sögðuð það maður að ef ég myndi segja allt, allt sem ég myndi.“  Þá segir hann að sér þyki þetta leitt og hann vill að lögreglumennirnir komi því til skila ef þeir hitta stúlkuna. 

 Í lokin var ákærði spurður hvort það hefði verið ásetningur hans að slasa stúlkuna og hann svarar:  „Nei, ég held að það hafi ekkert verið eitthvað fyrirfram ákveðið sko, ég veit það að þetta hafi ekki verið fyrirfram ákveðið, þetta hefur bara verið eitthvað svona .. eitthvað, eitthvað .. eitthvað sprungið eða eitthvað kjaftæði, kjaftæði.“  Þá var hann spurður hvers vegna hann hefði ráðist á stúlkuna og hann svarar:  „Nei ég veit það ekki, ég veit ekki einu sinni hvaða stelpa þetta er sko, það er málið ég veit ekki sko.  Veistu hvað heitir hún?“

IV

                Ákærði neitaði sök við þingfestingu og aðalmeðferð.  Hann kvaðst hafa verið drukkinn flesta daga á þessu tímabili og lítið muna.  Ákærði kannaðist við að hafa verið eitthvað á Hlemmi en mundi ekki eftir ákveðnum atvikum eða að hafa hitt þar fólk eins og systur sína eða yfirmann fíkniefnadeildarinnar.  Þá kannaðist hann ekki við að lögreglumenn hefðu hitt hann á Hlemmi þennan dag og rætt við hann um atvik málsins.  Hann kvaðst ekkert muna eftir 11. október 2010, til dæmis ekki vita hvernig hann var klæddur.  Hann myndi lítið eftir því sem gerðist þegar hann væri undir áhrifum áfengis og fíkniefna.  Ákærði var spurður hvaða leið hann færi þegar hann gengi heim til sín á Kleppsveginn frá Hlemmi og kvaðst hann ganga eftir Borgartúni og fram hjá Laugardalssundlauginni og svo götuna upp hjá Laugarásvídeói.  Hann kvaðst ekki hafa gengið í gegnum Laugardalinn á leið heim til sín.  Ákærði kvaðst ekki kannast við að hafa rætt þessa árás við systur sína eða kærasta hennar.  Verið geti að hann hafi rætt við þau um „rónapar“ sem hafi stolið af honum síma.  Hann kannaðist við að hafa rætt við systur sína eftir að hann hafði verið yfirheyrður og var kominn á Litla-Hraun og verið að segja henni að lögreglan væri að klína einhverju á hann sem hann hefði ekki gert, það er að hann hefði barið einhverja stelpu í höfuðið og kyrkt hana.  Lögreglumenn, sem handtóku hann 11. nóvember, hefðu borið þetta á hann og sagst ætla að komast til botns í málinu og hann skyldi segja sannleikann.  Ákærði kvaðst hafa verið illa á sig kominn vegna mikillar fíkniefnaneyslu og hafa neitað sök.  Hann hafi þá verið færður aftur í fangaklefa en síðan hafi sér verið leyft að reykja í öðrum klefa og þá hafi komið þangað lögreglukona sem hafi gefið sér súkkulaði og kók og hún hafi sagt sér frá því hvað hefði komið fyrir brotaþola.  Lögreglukonan hefði sagt sér að hún kannaðist við hann og hún hefði komið í skóla hans á sínum tíma.  Meðal annars hefði hún sagt að brotaþoli hefði ekkert meitt sig svo mikið.  Á eftir hafi komið rannsóknarlögreglumenn og hafi hann spurt þá hvort hann losnaði ef hann játaði og þeir svarað „kannski“.  Ákærði kvaðst hafa átt afmæli þennan dag og verið að hugsa um að játa til að losna en verjandi hans hefði sagt honum að játa ekki eitthvað sem hann hefði ekki gert.  Ákærði kvað sig hafa rámað í eitthvað og þegar yfirheyrslan hófst hefði hann endurtekið það sem lögreglukonan hafði sagt við hann í von um að hann myndi losna úr fangaklefanum á afmælisdaginn sinn.  Í yfirheyrslunni hafi hann verið spurður um ýmis atriði varðandi brotaþola sem hann hafi ekkert vitað um þar sem lögreglukonan hafi bara sagt sér hvernig brotaþoli var lamin.  Framburður systur ákærða var borinn undir hann og kannaðist hann ekki við að hafa viðurkennt verknaðinn í samtali við hana eða gefið í skyn að hann hefði ráðist á brotaþola.  Hugsanlega væri verið að rugla saman atburðum. 

                Ákærði var enn á ný spurður af hverju hann hefði játað sök í yfirheyrslu hjá lögreglu og kvaðst hann áður hafa verið tekinn fyrir brot og þá hefði hann játað og honum verið sleppt.  Nú kvaðst hann hafa haldið að ef hann játaði myndi honum vera sleppt.  Hann ítrekaði að hafa verið búinn að nota mikið af eiturlyfjum, hreinu amfetamíni í æð, og verið í fráhvörfum.  Ákærða var bent á ýmis atriði í yfirheyrslunni sem gætu komið heim og saman við það að hann hefði ráðist á brotaþola.  Hann svaraði því til að hann hefði verið búinn að fá ákveðnar grunnupplýsingar áður en skýrslan var tekin, meðal annars um höggin og kverkatakið.  Einnig að brotaþoli hefði ekki meitt sig mikið og ekki þurft að fara á sjúkrahús.  Hann var spurður hvar hann hefði fengið upplýsingar um útlit brotaþola og kvaðst hann hafa giskað á það.  Spurður um útlit kvaðst hann hafa verið nýbúinn að aflita hárið á sér og hafi það nánast verið skjannahvítt.  Þá hafi hann verið grindhoraður enda hugsað nánast eingöngu um að útvega sér fíkniefni á þessum tíma en ekki mat. 

                Brotaþoli kvaðst hafa verið á leið heim til sín úr skólanum þennan dag um klukkan 15 og gengið eftir göngustíg ekki langt frá Laugardalshöll.  Hún kvaðst hafa heyrt einhvern koma hlaupandi á eftir sér og svo hafi hún verið slegin í höfuðið mjög fast með steini eða einhverju þvílíku.  Hún hafi verið slegin en steini eða öðru var ekki hent í hana.  Hún hafi spurt manninn hvað hann væri að gera og hann svarað „þú fokking skuldar“.  Hún kvaðst ekki muna hvort hún hafi svarað en maðurinn hafi tekið hana hálstaki mjög fast og hafi hún fundið að þetta var sterkur maður.  Við þetta hafi hún fallið í jörðina með sár á höfði og brotinn fingur.  Maðurinn hafi staðið yfir henni og spurt hana hvort hann ætti að sleppa henni núna og kveðst hún hafa öskrað já.  Maðurinn hafi staðið kyrr örstutta stund en síðan hlaupið á brott.  Brotaþoli kvaðst hafa misst meðvitund þegar hún var tekin hálstakinu.  Fyrst hafi hún þó ætlað að látast sofa í von um að maðurinn færi en síðan hafi hún misst meðvitund.  Eftir að maðurinn var farinn kvaðst hún hafa farið að verslun Heimilistækja og þar hafi kona hringt í lögreglu og á sjúkrabíl.  Brotaþoli kvaðst lítið hafa séð af manninum en áttað sig á því að annaðhvort hafi þetta verið róni eða einhver útúrdópaður náungi.  Hún kvaðst hafa séð skó árásarmannsins og þeir verið hvítir, en það hafi ekki verið þeir skór sem lögreglan sýndi henni og myndir eru af í gögnum málsins.  Hún kvaðst hafa séð að á hliðunum á skóm árásarmannsins hafi verið rautt merki eða skraut, en ekki málningarblettir.  Henni voru sýndar myndir af skóm sem haldlagðir voru á heimili ákærða og kvað hún árásarmanninn ekki hafa verið í þeim skóm.  Þá hafi hann verið í dökkum buxum og dökkum bol eða peysu, en það sá hún þegar hann var að hlaupa í burtu.  Hún kvaðst ekki muna hvort hann var með húfu eða ekki.  Spurð um útlit mannsins kvaðst hún hafa séð skollitaðan hárlokk, en hann hafi ekki verið með aflitað hár.  Hún kvaðst telja hann hafa verið rúmlega tvítugan og aðeins lægri en hún, en hún er 1,77 m á hæð.  Brotaþoli kvað árásarmanninn hafa öskrað á sig voldugri og mikilli röddu eins og hann ætlaði að drepa hana.  Þá lýsti brotaþoli áverkunum og hverjar afleiðingar árásarinnar hafa verið fyrir hana.  Henni líði enn illa og gangi hún til hjúkrunarfræðings sem meðhöndli hana vegna áfallastreitu.  Þá hafi afleiðingar árásarinnar komið niður á náminu.              

                Systir ákærða kom fyrir dóm en skoraðist undan því að bera vitni.

                Kærasti systurinnar bar að hafa séð ákærða, líklega um klukkan tvö, sama dag og árásin var gerð.  Ákærði hafi verið í slæmu ástandi og verið að rífast við mann, en ekki vissi hann um hvað.  Ákærði komst ekki með strætisvagni en þau tvö hafi haldið áfram með öðrum vagni.  Þennan dag hafi ákærði verið í gallabuxum, grásvartri peysu og hvítum skóm.  Kærastinn kvaðst hafa heyrt ákærða segja að „hann hefði gert þetta við stelpuna“ og þá átt við árásina á brotaþola.  Þegar ákærði sagði þetta var verið að ræða það að þetta hefði verið í fréttunum stuttu eftir að árásin varð og þá sagðist hann hafa gert það.  Kærastinn kvað sig og aðra sem heyrðu ákærða segja þetta hafa skynjað það eins og hann væri að segja satt.  Ákærði hefði ekki lýst neinu frekar varðandi árásina.  Kærastinn kvað ákærða hafa sagt sér þetta í herbergi í blokkinni, sem ákærði býr í.  Kærastinn kvaðst því hafa sagt ósatt hjá lögreglu en þá bar hann að ákærði hefði sagt sér þetta á Hlemmi.  Hann kvaðst hafa verið hræddur við að segja lögreglunni frá rétta staðnum vegna þess að hann taldi að það gæti komið sér og kærustunni illa ef í ljós kæmi að þau væru að umgangast ákærða á heimili hans.  Í þetta skipti kvaðst hann hafa verið nývaknaður þegar ákærði kom inn í herbergið.  Kvöldið áður kvaðst kærastinn hafa neytt áfengis og sofnað ölvunarsvefni.  Hann kvað sig og systurina hafa vaknað við að ákærði kom inn í herbergið og hafi þau systkinin aðallega ræðst við.  Annars hafi samtalið snúist um fíkniefni og þau hafi öll neytt þeirra meðan á því stóð.  Nánar spurður bar kærastinn að ákærði hefði sagt að hann hefði ráðist á stúlkuna, sem um ræðir í málinu, og hafi þau ekki verið búin að neyta fíkniefna þegar hann sagði þetta.  Hann vildi þó ekki þvertaka fyrir að ákærði hefði getað átt við aðra stúlku, en þau hafi talið að um brotaþola væri að ræða og þess vegna snúið sér til lögreglu.             

                Kona, sem kom brotaþola í aðstoðar, bar að hafa komið að henni hágrátandi og allri útataðri í blóði og hafi hún kallað á móður sína.  Maður, sem kom að, hafi hringt á lögreglu og sjúkrabíl.  Konan kvað brotaþola hafa sagt sér að hún hefði verið á leiðinni heim úr skólanum þegar maður hefði lamið sig í höfuðið með einhverju hörðu og hefði hann ætlað að nauðga sér og kyrkja. 

                Læknirinn sem skoðaði brotaþola á slysadeild staðfesti framangreint vottorð sitt.  Hann kvað skurðina á höfði hennar benda til þess að þeir hafi verið veittir með ávölu barefli eða aflöngum hlut.  Einnig komi til greina steinn eins og til dæmis fjörugrjót.  Þessi hlutur hafi lent á húðinni og sprengt hana upp í lengdarás áhaldsins.  Þá kvaðst hann hafa tekið eftir því að hún var ekki með áverka neðan mittis eða á neðri hluta líkamans.  Læknirinn taldi fingurinn hafa brotnað þegar árásarmaðurinn var að berja í hægri hönd brotaþola þegar hún var að reyna að losa hálstak hans af sér.  Marblettirnir hafi komið af því að henni var haldið.  Hann kvað hana hafa verið í miklu uppnámi og líklega vera lengi að ná sér.

                Sálfræðingur, sem athugaði ákærða, staðfesti vottorð sitt sem um er getið í II. kafla.

                Geðlæknirinn, sem rannsakaði ákærða, staðfesti niðurstöðu sína og þar með að ákærði væri sakhæfur.  Hann kvað ákærða eiga erfitt með að horfast í augu við að hann kynni að hafa ráðist á brotaþola.  Hann hafi sagt í einu orðinu að hann hafi gert þetta en í hinu vilji hann helst ekki trúa því.  Geðlæknirinn kvaðst hafa á tilfinningunni að ákærði vilji ekki trúa því að hann hafi gert þetta.  Ákærða líði ekki vel með þetta og hann hafi reynt að útskýra játningu sína með þrýstingi frá lögreglu en síðan að hann hafi átt afmæli. 

                Rannsóknarlögreglumaður sem kom að frumrannsókn málsins 11. október bar að grunur hefði vaknað um að ákærði hefði verið árásarmaðurinn.  Hann kvaðst hafa hitt ákærða á Hlemmi um hádegið og aftur milli klukkan fimm og sex 11. október og staðfesti hann það sem kemur fram í skýrslu hans að klæðnaður ákærða, sérstaklega skórnir sem voru svartir, hafi ekki passað við lýsingu brotaþola á árásarmanninum og eins voru hendur ákærða með öllu óskaddaðar.  Hann mundi ekki hvernig ákærði var klæddur um hádegið, enda hefði hann þá bara séð hann en ekki veitt honum sérstaka athygli.  Ákærði hafi verið mjög ör og æstur og í svipuðu ástandi í bæði skiptin.  Mjög lítið hafi verið rætt við hann.  Grunur hefði beinst að honum vegna þess að sést hefði til hans í annarlegu ástandi en lýsing brotaþola hefði eins getað átt við ýmsa aðra.  Ákærði hefði verið með ljóst aflitað hár. 

                Rannsóknarlögreglumaður sem var einn af þeim sem yfirheyrði ákærða kom fyrir dóm.  Hann kvað rætt hafa verið við ákærða áður en formleg yfirheyrsla hófst og hafi hann neitað sök sem hann hafi og gert í yfirheyrslunni.  Ákærði hafi þá aftur verið færður í klefa meðan farið hefði verið yfir málið.  Síðan hafi verið farið og rætt við ákærða sem vildi þá gefa nýja skýrslu þar sem eitthvað hafi verið farið að rifjast upp fyrir honum og hann vildi segja satt og rétt frá.  Ákærði kvaðst þó ekki muna glöggt eftir öllum smáatriðum.  Eftir þetta var tekin af ákærða skýrsla sem tekin var upp á mynddisk.  Ákærða hafi ekki verið gefin nein fyrirheit um að honum yrði sleppt.  Rannsóknarlögreglumaðurinn kvað engu hafa verið lýst fyrir ákærða nema að ráðist hafi verið á stúlku fyrir neðan Suðurlandsbraut, en hann benti á að lýsingar á atvikum hefðu verið í dagblöðum.  

                Annar rannsóknarlögreglumaður sem yfirheyrði ákærða kom fyrir dóm og bar að komið hefði ábending frá systur ákærða um að hann hefði verið árásarmaðurinn.  Tekin hafi verið skýrsla af henni og síðan hafi ákærði verið handtekinn.  Í fyrstu yfirheyrslu hafi ákærði neitað sökum og verið settur í klefa meðan málið var skoðað nánar.  Ákærði hafi svo óskað eftir að ræða við lögreglumenn og hafi hún ásamt öðrum farið að ræða við hann.  Hann hafi þá beðið um að tekin yrði önnur skýrsla af honum þar sem hann myndi óljóst eftir þessu.  Hann hefði verið mjög ölvaður og myndi brot og brot.  Ekki hafi verið rætt um að ákærði fengi að losna.  Hann var hins vegar hvattur til að segja satt og bara það sem hann myndi.  Eftir skýrslutökuna yrði málið skoðað og þar með hvort hann myndi losna.  Rannsóknarlögreglumaðurinn kvað annan rannsóknarlögreglumann, sem kannaðist við ákærða, hafa farið inn í klefann til hans til að ræða við hann en sá hafi ekki vitað neitt um málavexti og því ekki getað sagt ákærða neitt um málið.  Rannsóknarlögreglumaðurinn benti á að mörg atriði hefðu komið fram í framburði ákærða sem ekki höfðu komið fram í blöðum.  Þá hafi ákærði iðrast mjög.  Á þessu tímabili hafi ákærði verið í mikilli neyslu en hann hafi verið nývaknaður þegar hann var handtekinn og ekki verið búinn að fá sér skammt þennan daginn. 

                Aðstoðaryfirlögregluþjónn sá til ákærða að morgni 11. október á Hlemmi.  Hann ritaði skýrslu um það atvik sem hann staðfesti.  Hann kvaðst hafa séð ákærða á þessum stað þennan dag um klukkan níu að morgni.  Hann hafi farið mikinn og gengið þvert yfir götu í veg fyrir umferð.  Kvaðst aðstoðaryfirlögregluþjónninn hafa séð að ákærði var undir miklum áhrifum fíkniefna.  Hann kvaðst hafa horft á ákærða sem hafi brugðist illur við og sagst geta drepið hann með einu höggi.  Aðstoðaryfirlögregluþjónninn kvaðst hafa beðið ákærða um að róa sig en hann hafi fyrst gengið í kringum sig en síðan farið.  Ákærði hafi svo farið en komið aftur og hafi þá leikurinn endurtekið sig.  Að lokum hafi þó ákærði farið á brott en aðstoðaryfirlögregluþjónninn fór inn á sinn vinnustað og athugaði myndasafn og komst að því að um ákærða var að ræða.  Hann kvað ákærða hafa verið snöggklipptan og með aflitað hár, nánast hvítt, en ekki mundi hann hvernig hann var klæddur.  Hann hafi ekki verið með höfuðfat.  Nánar spurður um klæðnað ákærða orðaði hann svarið svo „að eitthvað truflaði sig í undirmeðvitundinni gallabuxur og ljós bolur“ en ekki vildi hann fullyrða að hann myndi þetta rétt. 

                Rannsóknarlögreglumaður (kona), sem fór inn í klefa til ákærða eins og getið var um, kvaðst hafa kannast við ákærða frá fyrri tíð og þekkja til fjölskyldu hans.  Hún kvaðst hafa farið til hans, gefið honum kók og Prins Polo og leyft honum að reykja og verið að tala við hann um hans mál.  Þá kvaðst hún hafa sagt honum að best væri alltaf að segja satt og rétt frá.  Hún hafi ekkert verið inni í rannsókn málsins og ekkert rætt um það við ákærða. 

Sérfræðingur lögreglu, sem tók sýni er send voru til rannsóknar, staðfesti þau gögn.  Grein var gerð fyrir þeim í II. kafla.

                Hjúkrunarfræðingur, sem hefur haft brotaþola til meðferðar og ritað vottorð um hana, staðfesti vottorðið.  Hún bar að áfallastreitueinkenni hefðu farið vaxandi hjá brotaþola sem nú væri komin með áfallastreituröskun.  Hún birtist meðal annars í því að hún forðaðist að taka þátt í ýmsu félagslegu sem hún hefði áður tekið þátt í.  Hún lokaði herberginu heima hjá sér með keðju.  Þá eigi hún við svefntruflanir að etja og einnig ætti hún erfitt með að einbeita sér og kæmi það niður á náminu.

V

                Samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi og þá segir í 2. mgr. sama ákvæðis að dómara sé heimilt að taka sem sönnunargögn skýrslur sem ákærði hefur gefið fyrir dómi áður en mál var höfðað. Þá metur dómari samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008  hverju sinni hvort sönnun, sem ekki verður vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða hafi. Jafnframt metur dómari það, ef þörf krefur, hvert sönnunargildi þær staðhæfingar hafa sem varða ekki beinlínis það atriði sem sanna skal, en ályktanir má leiða af um það, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar.

                Við fyrri skýrslutöku lögreglu 11. nóvember 2010 neitaði ákærði eindregið sök í máli þessu. Síðar sama dag var að frumkvæði ákærða tekin af honum ný skýrsla.

                Í síðarnefndu skýrslutökunni kvaðst ákærði muna óljóst eftir atburðum 11. október 2010 sökum þess hve drukkinn hann hefði verið og myndi hann því einungis brot af því sem gerðist. Fær það stoð í því sem tekið hefur verið upp orðrétt eftir ákærða í reifun dómsins á framburði hans greint sinn. Ákærði skýrði þar svo frá að hann hefði verið mjög reiður umræddan dag vegna þess að honum hefði verið hent tvívegis út úr strætisvagni og hefði reiðin bitnað á stúlkunni. Hann myndi eftir einhverjum átökum sem hann kvað hafa staðið yfir „rosa stutt“, ef til vill eina og hálfa mínútu til tvær mínútur. Ákærði, sem var á leið að [...], kvaðst fyrst örugglega hafa verið að mæta stúlkunni, en síðar að hann myndi ekkert hvernig hann kom að henni. Ákærði kvaðst greint sinn hafa gengið „löngu leiðina“ heim til sín, en hann gangi stundum í gegnum Laugardalinn. Hann hafi mætt stúlkunni og „sprungið bara á hana“. Ákærði kvaðst hafa tekið stúlkuna kverkataki „pottþétt með hægri“. Eftir árásina hafi ákærði hlaupið heim til sín, farið í sturtu vegna þess að það hafi verið blóð á sér og fötunum og hafi hann skipt um föt og skó. Hann kvaðst hafa verið allur „úti í blóði“ á höndunum. Ákærði kvaðst hafa haldið að hann hefði meitt sig og blóðið komið úr honum, en þegar hann hafi þrifið sig um hendurnar hafi hann séð að það var ekki úr honum. Þá hafi verið blóð á gallabuxum sem hann var í. Er ákærði var spurður nánar út í árásina skýrði hann svo frá: „Ég, ég veit ekki sko … ég held að ég hafi bara stokkið á hana og hent henni inn í röðina, skilur þú, tekið hana kverkataki og gefið henni einhver nokkur högg og svo bara farið sko í einhverri ofsareiði sko.“ Spurður um útlit stúlkunnar kvað ákærði hana hafa verið brúnhærða og á stærð við sig. Aðspurður um hársídd stúlkunnar kvað ákærði hárið hafa verið sítt og aðeins síðara „en á lögreglukonunni“. Ákærði kvað það ekki hafa verið ásetning hjá sér að slasa stúlkuna og hafi hann ekki einu sinni vitað hvaða stúlka þetta var. Kvaðst hann harma „þetta verk“.

                Ákærði dró játningu þessa til baka næsta dag og hefur upp frá því neitað sök. Hefur hann gefið þær skýringar á afturhvarfi frá játningu að hann hafi átt afmæli daginn sem skýrslan var tekin og þess vegna viljað losna úr haldi og eins hafi hann verið búinn að nota mikið af áfengi, amfetamíni og rítalíni og því ekki verið með réttu ráði þegar hann var yfirheyrður. Þá hafi hann verið búinn að fá ákveðnar grunnupplýsingar áður en skýrslan var tekin, meðal annars um höggin og kverkatakið. Einnig að stúlkan hefði ekki meitt sig mikið og ekki þurft að fara á sjúkrahús. Þá hafi hann giskað á útlit stúlkunnar.

                Svo sem rakið hefur verið hefur kærasti systur ákærða borið fyrir dómi að ákærði hafi játað að eigin frumkvæði fyrir sér og kærustu sinni að hafa ráðist á umrædda stúlku. Hann hefur einnig skýrt frá því að hann hafi séð ákærða á Hlemmi umræddan dag milli klukkan 13 og 14. Hafi ákærði þá verið í slæmu ástandi og verið að rífast við mann. Ákærði hafi ekki komist með strætisvagni, en kærastinn og systir ákærða hafi haldið áfram með öðrum vagni. Ákærði hafi verið í gallabuxum, grásvartri peysu og hvítum skóm. Þá hefur rannsóknarlögreglumaður, sem vann að rannsókn málsins, borið að hann hafi hitt ákærða á Hlemmi á hádegi sama dag og árásin átti sér stað og aftur síðar sama dag á milli klukkan fimm og sex og hafi ákærði verið mjög ör og æstur í bæði skiptin. Einnig hefur aðstoðaryfirlögregluþjónn skýrt svo frá að hann hafi hitt ákærða að morgni sama dags á Hlemmi og hafi ákærði sýnilega verið undir miklum áhrifum fíkniefna. Hafi ákærði haft á orðið að hann gæti drepið vitnið með einu höggi.

                Brotaþoli hefur borið að skór þeir, sem árásarmaður var í, hafi verið hvítir, en þó ekki þeir skór sem lögregla lagði hald á og sýndi henni myndir af við rannsókn málsins. Þá hefur hún sagt að hún hafi séð skollitaðan hárlokk á árásarmanni og hafi hann ekki verið með aflitað hár. Er framburður hennar um hið síðarnefnda í ósamræmi við framburð ákærða um hárlit sinn umræddan dag sem fær stoð í vætti tveggja lögreglumanna sem sögðu ákærða þá hafa verið með ljóst, aflitað hár. Við mat á nákvæmni framburðar brotaþola um framangreint verður að hafa í huga að árásarmaður kom aftan að henni og var þar allan þann tíma sem árásin stóð yfir og að hún missti meðvitund við höfuðhögg þau sem henni voru veitt og hálstak það sem hún var tekin.

                Ákærði játaði sem fyrr greinir brot sitt hjá lögreglu við yfirheyrslu 11. nóvember síðastliðinn. Enda þótt játningin sé ekki svo skýr sem skyldi vegna þess hve ákærði var undir miklum áfengis- og fíkniefnaáhrifum á árásardegi og minni hans af þeim sökum slitrótt, er hún í nokkrum veigamiklum atriðum í samræmi við lýsingu brotaþola á árásinni. Ber þar einkum að hafa í huga framburð þeirra um hálstak það, sem brotaþoli kveðst hafa verið tekin, en þeim kemur báðum saman um að árásarmaður hafi notað hægri hönd, árásarmaður hafi verið æstur og brotaþoli og árásarmaður hafi verið álíka á hæð. Þá er samræmi milli þeirrar staðreyndar að mikið blæddi úr höfði brotaþola eftir árásina og framburðar ákærða um að hann hafi verið útataður í blóði á höndum eftir hana. Taldi ákærði sig vera með sár á höndum eftir árásina þar sem svo mikið blóð var á þeim, en þegar hann hafi þvegið það af þeim hafi komið í ljós að svo var ekki. Enn fremur bar ákærði um hárlit brotaþola og -sídd og kemur sá framburður hans heim og saman við staðreyndir þar að lútandi. Þykir framburður ákærða um hæð brotaþola og hárlit og –sídd hennar ekki geta stafað frá öðrum en þeim sem var á brotavettvangi umrætt sinn. Jafnframt er til þess að líta að kærasti systur ákærða hefur fullyrt að ákærði hafi af sjálfsdáðum játað fyrir kærastanum og systurinni að hafa ráðist á stúlkuna umræddan dag, en ákærði hafði enga vitneskju um að þau höfðu greint lögreglu frá því er hann játaði brotið. Þá er ekkert fram komið í málinu um að ákærða hafi af hálfu lögreglu verið gefnar „ákveðnar grunnupplýsingar“ áður en umrædd játningarskýrsla var tekin af honum eða að hann hafi verið beittur þrýstingi af hennar hálfu. Ákærði gat ekki gefið neinar skýringar á árásinni, en samkvæmt framburði fyrrgreindra lögreglumanna, sem sáu til hans umræddan dag, var hann undir miklum vímuáhrifum, ör, æstur og ofbeldisfullur og var hann því til alls líklegur. Þá kemur brotavettvangur heim og saman við að ákærði hafi verið á leið að [...] sem þar er skammt frá, en ákærði bar við yfirheyrsluna að hann gengi stundum þangað í gegnum Laugardalinn. Í niðurstöðum geðheilbrigðisrannsóknar kemur og fram að ákærði hafi, samkvæmt frásögn hans sjálfs, örugglega verið undir verulegri áfengisvímu og vímu eiturlyfja umræddan dag og geti þau ein útskýrt hegðun hans, en auk þess geti athyglisbrestur og ofvirkni hans hafa aukið á árásargirni. Þá er þar einnig rakið að ákærði hafi sagt í einu orðinu að hann hafi gert þetta, en í hinu vildi hann ekki trúa því. Ákærða hafi ekki liðið vel með þetta og hafi hann reynt að útskýra játningu sína annars vegar með þrýstingi frá lögreglu, en hins vegar að hann hafi átt afmæli. Að lokum er rétt að geta þess að ákærði bar í fyrrnefndri skýrslu sinni að hann hefði skipt um föt og skó eftir að hann kom á [...] í framhaldi af árásinni. Kom lýsing á klæðnaði og skóm brotamanns því ekki heim og saman við lýsingu á skóm og klæðnaði ákærða er lögreglumenn höfðu afskipti af honum á Hlemmi síðar sama dag og árásin átti sér stað sem leiddi til þess að grunur beindist þá ekki að honum.

                Þegar allt framangreint er virt er það mat dómsins að með játningu ákærða fyrir lögreglu sé fram komin nægileg sönnun, sem fær stoð í öðrum gögnum málsins og ekki verður vefengd með skynsamlegum rökum, um að ákærði hafi gerst sekur um háttsemi þá sem honum er gefin að sök í ákæru og þar er réttilega heimfærð til refsiákvæða.

                Samkvæmt sakavottorði var ákæru á hendur ákærða fyrir þjófnaðarbrot frestað skilorðsbundið 3. febrúar 2003 og aftur 14. nóvember 2005 fyrir þjófnað, tilraun til ráns og brot gegn valdstjórninni. Þá var hann dæmdur 3. febrúar 2006 í 45 daga skilorðsbundið í tvö ár fyrir þjófnað og hylmingu, 28. janúar 2008 var hann dæmdur í þriggja mánaða fangelsi skilorðsbundið í tvö ár fyrir gripdeild og 13. apríl 2010 var ákærði dæmdur í 10 mánaða fangelsi fyrir rán og  tilraun til þjófnaðar.  Auk þess hefur hann á tímabilinu frá 3. febrúar 2006 til 1. október 2009 fimm sinnum sætt refsingu fyrir umferðarlagabrot og tvisvar vegna fíkniefnalagabrota.

                Við ákvörðun refsingar ber að taka tillit til þess að árás ákærða var hrottafengin og gjörsamlega tilefnislaus. Á ákærði sér engar málsbætur. Þá hefur ránsbrot það sem ákærði hlaut dóm fyrir 13. apríl 2010 ítrekunaráhrif á brot það sem hann er sakfelldur fyrir í máli þessu, sbr. 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði hlaut reynslulausn 10. september 2010 í eitt ár af eftirstöðvum 100 daga fangelsisrefsingar samkvæmt dóminum frá 13. apríl 2010. Ákærði hefur með broti sínu rofið skilyrði reynslulausnarinnar. Ber því í samræmi við 1. mgr. 65. gr. laga nr. 45/2005 um fullnustu refsinga að ákveða ákærða refsingu í einu lagi fyrir brot það sem nú er dæmt um og svo með hliðsjón af hinni óafplánuðu refsingu eftir reglum 60. gr. almennra hegningarlaga. Er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár. Til frádráttar refsingunni kemur með fullri dagatölu gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt óslitið frá 12. nóvember 2010, sbr. 76. gr. almennra hegningarlaga. 

                Samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og með hliðsjón af þeim gögnum sem liggja fyrir um afleiðingar brotsins fyrir andlega hagi brotaþola eru miskabætur henni til handa hæfilega ákveðnar 1.000.000 króna ásamt vöxtum eins og í dómsorði greinir.  Það athugast að ákærða var birt bótakrafan 29. nóvember 2010 og miðast upphafstími dráttarvaxta við þann dag er liðnir voru 30 dagar frá þeim degi.

Dæma ber ákærði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað samkvæmt 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dóminn kváðu upp héraðsdómararnir Arngrímur Ísberg, dómsformaður, Helgi I. Jónsson og Hervör Þorvaldsdóttir.

D Ó M S O R Ð

Ákærði, X, sæti fangelsi í 3 ár, en til frádráttar refsingunni skal koma gæsluvarðhald hans frá 12. nóvember 2010.

Ákærði greiði A 1.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. október 2010 til 29. desember sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði 514.069 krónur í sakarkostnað, málsvarnarlaun verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., 941.250 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Valgerðar Valdimarsdóttur hdl., 313.750 krónur.

Sératkvæði Arngríms Ísberg héraðsdómara

Ég er sammála meirihluta dómara um það sem segir í köflum I – IV en greiði sératkvæði um það sem greinir í V. kafla.

Við upphaf rannsóknar málsins beindist grunur að ákærða en lögreglumaður sem hafði tal af honum milli klukkan 17 og 18 á árásardaginn kvað lýsingu brotaþola á árásarmanninum ekki hafa komið heim og saman við útlit ákærða.  Eftir að systir ákærða og kærasti hennar höfðu skýrt lögreglu frá því að hann hefði sagt þeim að hann væri árásarmaðurinn var ákærði handtekinn.  Í fyrstu yfirheyrslu neitaði hann sök en gaf síðar sama dag skýrslu sem rakin var í megindráttum í III. kafla og þar kemur fram að hann játar á sig verknaðinn.  Daginn eftir var ákærði færður fyrir dómara og þar dró hann játningu sína til baka eins og rakið var.  Hann var aftur yfirheyrður af lögreglu 29. nóvember og neitaði sök og eins neitaði hann sök við aðalmeðferð. 

Ákæruvaldið byggir kröfu sína um sakfellingu á framangreindri skýrslu sem tekin var á mynddisk og dómarar hafa skoðað.  Þá er og byggt á skýrslum systur ákærða og kærasta hennar svo og skýrslu brotaþola.  Systir ákærða skoraðist undan því að gefa skýrslu fyrir dómi.  Þegar hún gaf fyrri skýrslu sína hjá lögreglu var ekki gætt að ákvæðum 117. gr. laga nr. 88/2008 með svo glöggum hætti sem vera skyldi og í síðari yfirheyrslunni var þessara ákvæða ekki gætt gagnvart henni eins og rakið var.  Með vísun til þeirrar afstöðu systurinnar að gefa ekki skýrslu fyrir dómi verður ekki byggt á skýrslum hennar hjá lögreglu sem haldnar voru þessum annmörkum. 

Sýknukrafa ákærða byggir á því að hann hafi játað á sig verknaðinn í þeim tilgangi að sleppa úr haldi lögreglu.  Hann hafi verið handtekinn á afmælisdaginn sinn og viljað eyða honum með fjölskyldu sinni.  Þá kom fram hjá honum að hann hefði áður verið handtekinn vegna brots og þá verið sleppt strax eftir að hann játaði.  Játning hans nú hafi verið röng og gefin í þeim eina tilgangi að sleppa.  Það komi berlega í ljós þegar hlustað sé á yfirheyrsluna að hann viti nánast ekkert um árásina.  Það sem hann segi séu ágiskanir sem séu meira og minna rangar.  Þá byggir hann og á því að sér hafi fyrir fram verið gefnar upplýsingar sem hann hafi byggt framburð sinn á.

Fyrir liggur í málinu að yfirmaður í lögreglunni sá ákærða að morgni árásardagsins og gaf skýrslu um hann.  Í skýrslunni og framburði yfirmannsins fyrir dómi kom fram að ákærði var verulega ofbeldisfullur og greinilega undir áhrifum vímuefna.  Þá kom fram að hann var stuttklipptur og með hvítt aflitað hár.  Hann taldi hann hafa verið í gallabuxum og í ljósum bol en var þó ekki viss um það en kvað ákærða ekki hafa verið með höfuðfat.

Klukkan 15.18 var árásin tilkynnt til lögreglu og hefur því verið gerð nokkrum mínútum áður á göngustíg, sem liggur samsíða Suðurlandbraut að norðanverðu.  Af gögnum málsins má sjá að árásarstaðurinn hefur verið á móts við húsið nr. 24 við Suðurlandsbraut.

Brotaþoli lýsti árásinni svo að maður hefði komið aftan að henni, barið hana í höfuðið með einhverju, líklega steini og tekið sig hálstaki (hún sagði kverkataki en lýsti hálstaki).  Við þetta hafi hún fallið í jörðina og misst meðvitund örskamma stund.  Hún gat ekki lýst útliti mannsins nema hvað hún hafi séð skollitaðan hárlokk en hár hans hafi ekki verið aflitað.  Þá kvað hún manninn hafa verið í dökkum buxum og dökkum bol eða peysu. 

Í lögregluskýrslunni, sem tekin var af ákærða og reifuð er í III. kafla, kemur fram að ákærði segist játa á sig verknaðinn.  Þegar hann er svo beðinn um að lýsa árásinni og aðstæðum kemur í ljós að margt af því sem hann segir kemur hvorki heim og saman við framburð brotaþola né aðstæður á vettvangi.  Ákærði kveður árásina fyrst hafa átt sér stað í nágrenni Laugardalslaugarinnar en síðar telur hann staðinn hafa verið í nágrenni Húsadýra- og fjölskyldugarðsins en þó ekki svo djúpt og er garðurinn reyndar mun nær árásarstaðnum en sundlaugin.  Þá kveðst ákærði hafa komið framan að brotaþola en hún kveður árásarmanninn hafa komið aftan að sér.  Ákærði gat ekki lýst árásinni nema hvað hann taldi sig hafa lamið brotaþola og hrint henni eins og rakið var.  Þá taldi hann árásina hafa verið gerða milli klukkan 8 og 9 að kvöldi en ekki var hann frekar spurður um hvort hann hefði gert hana í dagsbirtu eða hvort hafi verið dimmt.  Í upphafi yfirheyrslunnar segir þó lögreglumaður að árásin hafi verið gerð um klukkan 15 umræddan dag.  Ákærði kvað brotaþola hafa verið brúnhærða og síðhærða og á hæð við sig en ekki gat hann lýst klæðnaði hennar.  Þegar hann var spurður hvort flíkin sem brotaþoli var í hafi verið rauð eða græn eða blá svarar hann að vel geti verið að hún hafi verið græn.  Brotaþoli var í dökkblárri hettupeysu og gráum gallabuxum.  Eftir árásina kvaðst ákærði hafa allur verið útataður í blóði og hlaupið heim til sín, farið í sturtu og skipt um föt.  Hann var hins vegar ekki spurður um það hvað hann hefði gert eftir það en fyrir liggur að lögreglumenn höfðu tal af honum á Hlemmi milli klukkan 17 og 18 árásardaginn.  Við aðalmeðferð gaf ákærði þá skýringu á játningu sinni að hann hefði viljað losna á afmælisdaginn sinn en honum hafi verið sagt að hann yrði látinn laus ef hann játaði. Þá kvaðst hann hafa verið í fráhvörfum vegna eiturlyfjaneyslu.  Einnig kvaðst hann hafa áður verið tekinn fyrir brot og þá játað og verið látinn laus.  Ákærði kvaðst ekki muna hvar hann hefði verið 11. október en hann hefði verið í mikilli óreglu á þessum tíma.

Samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 hvílir sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik, sem telja má honum í óhag, á ákæruvaldinu.  Í 109. gr. sömu laga segir að dómari meti hverju sinni hvort nægileg sönnun sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum sé fram komin eins og nánar greinir í ákvæðinu.  Þá segir og að dómari meti hvaða gildi skýrslur ákærða hafi svo og framburður vitna og önnur gögn. 

Ákærði játaði við yfirheyrslu hjá lögreglu að hafa ráðist á brotaþola, en dró þá játningu síðar til baka eins og rakið hefur verið.  Þá er einnig fram komið að hann skýrði frá því í áheyrn kærasta systur sinnar að hann hefði verið árásarmaðurinn.  Við úrlausn málsins verður að meta hvaða sönnunargögnum þessi játning ákærða er studd eða hvort gögn málsins styðji þá málsástæðu hans að hún hafi verið röng. 

Lögreglan rannsakaði gildi játningar ákærða með því að spyrja hann ítarlega um árásina og hvar hann hafi gert hana.  Svör hans við þessum spurningum gefa til kynna að hann hafi ekki verið meira en svo meðvitaður um hvað hafi gerst eða hvar eða hvenær.  Þá gat hann aðeins gefið mjög takmarkaða lýsingu á brotaþola.  Samkvæmt framburði brotaþola var árásin gerð mjög skyndilega á hana og hún gat aðeins lýst árásarmanninum takmarkað.  Það kom þó fram hjá henni að hann hefði verið með skollitaðan hárlokk.  Á þessum degi var ákærði með ljóst aflitað hár, nánast hvítt samkvæmt framburði hans sem fær stoð í framburði tveggja lögreglumanna er afskipti höfðu af honum á árásardaginn.  Þá er og komið fram í málinu að á milli klukkan 17 og 18 árásardaginn höfðu lögreglumenn tal af ákærða á Hlemmi, en töldu ekki ástæðu til að gruna hann um árásina þar eð lýsing brotaþola á árásarmanninum passaði ekki við ákærða.  Brotaþoli kvað árásarmanninn hafa verið á hvítum skóm en ákærði var í svörtum skóm þegar lögreglumenn höfðu tal af honum.  Þeir höfðu séð hann á Hlemmi um hádegið árásardaginn en ekki veitt klæðnaði hans eftirtekt.  Þegar lögreglumennirnir höfðu tal af ákærða hafa verið á milli 2 og 3 tímar frá því að árásin var gerð.  Allnokkur leið er frá Suðurlandsbraut 24 og að [...] sem var heimili ákærða.  Heima hjá sér kvaðst hann hafa farið í sturtu og skipt um föt og síðan hefur hann farið aftur niður á Hlemm en um það var hann ekki spurður í yfirheyrslunni.  Þótt þetta sé ekki ómögulegt þá hefur ákærði mátt hafa hraðan á, en líta verður til þess að þennan dag var hann undir verulegum áhrifum vímuefna samkvæmt skýrslum og framburði tveggja lögreglumanna. 

Þegar allt framangreint er virt er það niðurstaða mín að verulegur vafi leiki á því að játning ákærða í lögregluyfirheyrslu 11. nóvember 2010 hafi verið rétt.  Bæði er það að skýrsla hans er mjög óljós um ýmis veigamikil atriði eins og rakið hefur verið og eins það að framburður lykilvitna málsins styðja ekki játningu hans.  Er þar bæði að líta til framburðar brotaþola og rannsóknarlögreglumannsins sem kom að rannsókn málsins á árásardaginn.  Er það mitt mat að játning ákærða verði ekki lögð til grundvallar úrlausn málsins gegn neitun hans fyrir dómi.  Það er því niðurstaða mín að sýkna ákærða, vísa bótakröfu brotaþola frá dómi og leggja sakarkostnað á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjanda hans og þóknun réttargæslumanns brotaþola en ég er sammála ákvörðun meirihlutans um fjárhæð þeirra.