Hæstiréttur íslands

Mál nr. 577/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Dómari
  • Ómerking úrskurðar héraðsdóms
  • Aðfinnslur


                                                         

Miðvikudaginn 9. nóvember 2011.

Nr. 577/2011.

Kristjón Benediktsson

(Óskar Sigurðsson hrl.)

gegn

Landsbankanum hf.

(Arnar Þór Stefánsson hrl.)

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Dómarar. Ómerking úrskurðar héraðsdóms. Aðfinnslur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem bú K var tekið til gjaldþrotaskipta. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að þar sem líta megi svo á að sú ákvörðun að synja málsaðila um að leggja fram gögn í dómsmálum sé dómsathöfn, sbr. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 91/1991, hafi aðstoðarmann héraðsdómara brostið vald til þess að synja K um að leggja fram greinargerð af sinni hálfu í þinghaldi. Var hinn kærði úrskurður því ómerktur og málinu vísað heim til meðferðar á ný.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. október 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. október 2011 þar sem bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst aðallega ómerkingar hins kærða úrskurðar, en til vara að hafnað verði kröfu varnaraðila um að bú hans skuli tekið til gjaldþrotaskipta. Þá krefst hann kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Krafa varnaraðila um að bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta var lögð fram á dómþingi 23. júní 2011. Mætti hæstaréttarlögmaður fyrir hönd sóknaraðila og varð samkomulag um það með aðilum, með vísan til 3. mgr. 70. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 4. gr. laga nr. 23/2009, að meðferð málsins yrði frestað. Jafnframt var bókað að boðað væri til nýs þinghalds 29. september 2011. Við það tækifæri sótti sóknaraðili sjálfur þing og óskaði eftir að leggja fram greinargerð af sinni hálfu. Í bókun um það, sem fram fór í þinghaldinu, sagði að það væri háð af nafngreindum héraðsdómara. Ennfremur  var meðal annars bókað: „Dómari gætir upplýsingaskyldu sinnar gagnvart skuldara, sem er ólöglærður. Dómari vísar mótmælum skuldara á bug sem of seint fram komnum ... þar sem við þingfestingu málsins hefði þing verið sótt af hálfu skuldara án þess að mótmæli kæmu fram af hans hálfu og samkomulag orðið með aðilum um sameiginlegan frest í þrjá mánuði skv. 3. mgr. 70. gr. laga nr. 21/1991.“ Í þinghaldinu var málið tekið til úrskurðar samkvæmt kröfu varnaraðila og hinn kærði úrskurður kveðinn upp 6. október 2011. 

Krafa sóknaraðila um ómerkingu hins kærða úrskurðar er reist á því að aðstoðarmaður héraðsdómara hafi tekið málið fyrir og stýrt áðurgreindu þinghaldi 29. september 2011. Hafi aðstoðarmaðurinn synjað sér um framlagningu greinargerðar þótt hann hafi ekki haft heimild til þess þar sem um hafi verið að ræða ákvörðun í skilningi 1. mgr. 112. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991. Í svari héraðsdómara 26. október 2011 við fyrirspurn sóknaraðila kom meðal annars fram: „Hér með er staðfest að áðurgreint mál ... var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness hinn 29. september 2011 og var þinghaldinu stjórnað af A, aðstoðarmanni dómara. Við Héraðsdóm Reykjaness hefur það tíðkast að halda svokölluð gjaldþrotaþing einu sinni í mánuði, en þá eru teknar fyrir allar kröfur um gjaldþrotaskipti sem borist hafa dómnum hverju sinni og birting fyrirkalls hefur tekist í. Hefur aðstoðarmanni dómara verið falið að stjórna þessum þinghöldum, en dómari tekur við stjórn þinghaldsins ef skera þarf úr ágreiningi.“

Samkvæmt 17. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla má ráða til héraðsdómstóla lögfræðinga sem ætlað er að vera héraðsdómurum til aðstoðar.  Eins og tekið er fram í athugasemdum með frumvarpi til þeirra laga er þessum löglærðu aðstoðarmönnum ekki heimilt að gegna dómstörfum  þótt þeir megi veita dómurum margvíslega aðstoð við meðferð og úrlausn dómsmála. Þar sem líta verður svo á að sú ákvörðun að synja málsaðila um að leggja fram gögn í slíkum málum sé dómsathöfn, sbr. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 91/1991, brast aðstoðarmann héraðsdómara vald til þess að synja sóknaraðila um að leggja fram greinargerð af sinni hálfu í þinghaldinu 29. september 2011. Af þessari ástæðu verður ekki hjá því komist að ómerkja hinn kærða úrskurð og vísa málinu heim til meðferðar á ný.

Rétt er að kærumálskostnaður falli niður.

Með skírskotun til fyrrgreindra ummæla héraðsdómara í svari hans til sóknaraðila er ámælisvert að þess skuli ekki getið í bókun um það, sem fram fór í þinghaldinu  29. september 2011, að það hafi verið háð af aðstoðarmanni dómarans. Þá er þess að gæta að í niðurlagi 3. mgr. 70. gr. laga nr. 21/1991 er svo fyrir mælt að frestur samkvæmt þeirri málsgrein megi lengstur verða þrír mánuðir, enda sé skuldari einstaklingur sem ekki stundar atvinnurekstur. Samkvæmt því brast héraðsdómara lagaheimild til þess að fresta meðferð málsins lengur en þrjá mánuði, eins og gert var.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. október 2011.

Málið var þingfest 23. júní sl. og tekið til úrskurðar 29. september sl.

Landsbankinn hf., kt. [...], Austurstræti 11, Reykjavík, krefst þess í málinu að bú Kristjóns Benediktssonar kt. [...], Blikanesi 22, Garðabæ, verði tekið til gjaldþrotaskipta.

Skiptabeiðandi kveðst eiga kröfu á hendur skuldara sem að viðbættum dráttarvöxtum og kostnaði nemi 241.227.237 krónum. Gögn í málinu sýna að gert var árangurslaust fjárnám hjá skuldara þann 24. febrúar 2011. Skiptabeiðni var móttekin af héraðsdómi 6. maí 2011.

Fyrirkall, ásamt skiptakröfu, var löglega birt skuldara. Þegar krafa skiptabeiðanda var tekin fyrir á gjaldþrotaþingi þann 23. júní sl. var þing sótt af hálfu skuldara. Samkomulag var gert með aðilum um að fresta meðferð málsins sbr. 3. mgr. 70. gr. laga nr. 21/1991. Þegar krafa skiptabeiðanda var tekin fyrir á gjaldþrotaþingi þann 29. september sl. sótti skuldari sjálfur þing og mótmælti kröfunni. Dómari vísaði mótmælunum á bug sem of seint fram komnum, þar sem við þingfestingu málsins hefði þing verið sótt af hálfu skuldara án þess að mótmæli kæmu fram af hans hálfu og samkomulag orðið með aðilum um sameiginlegan frest í þrjá mánuði skv. 3. mgr. 70. gr. laga nr. 21/1991. Ekki hafa verið lögð fram gögn í málinu, sem sýna fram á að hin árangurslausa aðfarargerð, sem gerð var hjá skuldara 24. febrúar sl., gefi ekki rétta mynd af fjárhag skuldara. Með vísan til framangreinds telst fullnægt skilyrðum 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 til að verða við kröfu skiptabeiðanda og er bú skuldarans því tekið til gjaldþrotaskipta.

Úrskurðurinn er kveðinn upp af Ragnheiði Bragadóttur, héraðsdómara.

ÚRSKURÐARORÐ:

Bú Kristjóns Benediktssonar kt. [...], er tekið til gjaldþrotaskipta.