Hæstiréttur íslands
Mál nr. 611/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Hæfi dómara
|
|
Miðvikudaginn 24. september 2014 |
|
Nr. 611/2014.
|
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari) gegn X (Björgvin Þorsteinsson hrl.) |
Kærumál. Hæfi dómara.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu X um að dómsformaður í máli ákæruvaldsins gegn honum viki sæti, en hafnað var kröfu hans um að meðdómsmenn í málinu vikju sæti. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að dómsformaðurinn skyldi víkja sæti en felldi úrskurðinn að öðru leyti úr gildi með vísan til þess að þar sem dómsformaðurinn hefði verið vanhæfur til að fara með málið hefði ekki getað komið í hans hlut að skera úr um hæfi meðdómsmanna sem skyldi bíða nýs dómsformanns.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. september 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. september 2014, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að dómsformaður í máli sem sóknaraðili hefur höfðað á hendur varnaraðila viki sæti, en hafnað kröfu hans um að meðdómsmenn í málinu gerðu hið sama. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi um að dómsformaður víki sæti í málinu.
Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 16. september 2014. Hann krefst þess að tekin verði til greina krafa sín um að meðdómsmönnum verði gert að víkja sæti í málinu.
Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða hans að dómsformanni beri að víkja sæti í málinu. Úr því að dómsformaður var vanhæfur til að fara með málið gat ekki komið í hans hlut að að skera úr um hæfi meðdómsmanna, heldur bíður það nýs dómsformanns.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um að dómsformaður skuli víkja sæti í máli þessu, en að öðru leyti er úrskurðurinn felldur úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. september 2014.
Í þinghaldi 10. september síðastliðinn krafðist ákærði þess að dómendur vikju sæti í málinu vegna vanhæfis.
Kröfu sína byggir ákærði á því að í úrskurði dómsformanns frá 25. júní síðastliðnum, þar sem hafnað var kröfu hans um að yfirmatsmönnum yrði vikið frá, komi fram í lok úrskurðarins að dómsformaður telji ummæli yfirmatsmanna, sem í úrskurðinum greinir, vera réttmæta hneykslun á framferði verjanda ákærða. Ákærði telur að með þessu hafi dómsformaður tekið undir sjónarmið yfirmatsmannanna sem nú hafi valdið því að Hæstiréttur hafi vikið þeim frá störfum þar sem ákærði hefði réttmæta ástæðu til að draga óhlutdrægni þeirra í efa. Með vísun til þess sem að framan greinir úr úrskurði dómsformanns telur ákærði að hið sama hljóti að eiga við um hann. Ákærði byggir á því að meðdómsmenn hafi tekið þátt í málsmeðferðinni með dómsformanni og þótt þeir hafi ekki kveðið upp úrskurðinn þá hljóti seta þeirra í dóminum með dómsformanni að valda vanhæfi þeirra á sama hátt. Ákærði vísar til g-liðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 máli sínu til stuðnings.
Sækjandi málsins mótmælti kröfu ákærða og krafðist þess að henni yrði hafnað.
Í framangreindum úrskurði dómsformanns var því hafnað að víkja yfirmatsmönnum frá en ákærði hafði krafist þess vegna ummæla þeirra er í úrskurðinum getur. Ummælin voru sprottin af hneykslun þeirra á því að verjandi ákærða skildi ekki boð um að mæta á yfirmatsfund sem boð um að mæta á yfirmatsfund heldur sem boð um að mæta á undirbúningsfund. Í framhaldinu varð svo ekkert af yfirmatsfundi. Hæstiréttur sneri úrskurði dómsformanns við með dómi sínum 25. ágúst síðastliðinn. Í dómi Hæstaréttar segir að ákærði hafi, eftir að yfirmatsmenn létu nefnd ummæli falla, haft réttmæta ástæðu til að draga óhlutdrægni þeirra í efa. Dómsformaður tók undir orð yfirmatsmannanna og taldi að um réttmæta hneykslun þeirra væri að ræða á framferði verjanda ákærða. Hæstiréttur taldi ummæli yfirmatsmannanna valda vanhæfi þeirra og er þá einboðið að ummæli dómsformanns í úrskurðinum valdi vanhæfi hans. Það er því fallist á kröfu ákærða og víkur dómsformaður sæti í málinu.
Dómsformaður kvað einn upp nefndan úrskurð, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 88/2008. Það eru því engin efni til að meðdómsmennirnir víki úr dómnum og er þeirri kröfu ákærða hafnað.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð.
Dómsformaður í máli ákæruvaldsins gegn X víkur sæti en kröfu um að meðdómsmenn víki sæti er hafnað.