Hæstiréttur íslands

Mál nr. 771/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Nauðungarsala


 

Fimmtudaginn 23. janúar 2014.

Nr. 771/2013.

Þórarinn Karl Gunnarsson

(Magnús Guðlaugsson hrl.)

gegn

Frjálsa hf.

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

 

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Nauðungarsala.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem bú Þ var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu F hf. Þ hafði tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á skuld L ehf. við F hf. sem tryggð var með 1. veðrétti í húsnæði í eigu L ehf. Ekki var greitt af skuldabréfinu og var hin veðsetta eign seld F hf. nauðungarsölu. Í málinu krafðist F hf. þess að bú Þ yrði tekið til gjaldþrotaskipta og vísaði til eftirstöðva skuldar samkvæmt veðskuldabréfinu sem meðal annars væri tryggð með sjálfskuldarábyrgð Þ. Hæstiréttur taldi F hf. ekki hafa fært viðhlítandi sönnur á að markaðsverð eignarinnar hafi verið lægra en nam upphæð veðkröfu félagsins við nauðungarsölu hennar, að viðbættum þeim veðkröfum sem gengu framar kröfunni að rétthæð, svo sem honum væri skylt að gera samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu eins og henni var breytt með 4. gr. laga nr. 60/2010. Þar með teldist ósannað að F ehf. ætti lögvarða kröfu á hendur Þ og gæti það ekki krafist gjaldþrotaskipta á búi hans á grundvelli 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Var kröfu F hf. um gjaldþrotaskipti því hafnað og hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.

 

Dómur Hæstaréttar.

 

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. desember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. nóvember 2013 þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um gjaldþrotaskipti. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Samkvæmt gögnum málsins keypti Lindarbær ehf. iðnaðarhúsnæði í smíðum að Kistumel 14 í Reykjavík af Kistuhlíð ehf. með kaupsamningi 26. nóvember 2008. Umsamið kaupverð var 40.068.000 krónur og skyldi það meðal annars greiðast með láni að fjárhæð 28.047.600 krónur frá varnaraðila sem þá hét Frjálsi fjárfestingarbankinn hf. Í kaupsamningum var tekið fram að lánið myndi „hvíla á 1. veðrétti á hinni seldu fasteign“ og var þar nánar kveðið á um skilmála þess. Degi síðar var gefið út veðskuldabréf að fjárhæð 28.774.000 krónur. Í bréfinu kom fram að um væri að ræða verðtryggt lán með breytilegum vöxtum. Var lánstími sagður vera 362 mánuðir og fyrsti gjalddagi 2. febrúar 2009. Samkvæmt bréfinu var varnaraðili kröfuhafi og Lindarbær ehf. skuldari, en sóknaraðili tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð á skuldinni. Var skuldin tryggð með 1. veðrétti í áðurgreindu húsnæði og tekið fram að þegar hún væri fallin í gjalddaga gæti veðhafi látið selja hina veðsettu eign nauðungarsölu til fullnustu kröfunnar án undangengins dóms, sáttar eða aðfarar. Með breytingu á skilmálum bréfsins 2. febrúar 2009 var svo um samið að fyrsti gjalddagi lánsins yrði 2. mars 2009.

Ekki var greitt af skuldinni samkvæmt veðskuldabréfinu á síðarnefndum gjalddaga og fór svo að hin veðsetta eign var seld varnaraðila nauðungarsölu á uppboði 27. ágúst 2012 á 3.000.000 krónur. Samkvæmt frumvarpi til úthlutunar á söluverði námu sölulaun í ríkissjóð og kröfur, tryggðar með lögveði í eigninni, samtals 1.407.472 krónum. Af uppgjöri vegna nauðungarsölunnar verður ráðið að veðkrafa varnaraðila á hendur Lindarbæ ehf. og þar með sóknaraðila sem sjálfskuldarábyrgðarmanni hafi numið 50.939.976 krónum miðað við 27. ágúst 2013. Í uppgjörinu sagði að „lögveð“ á eigninni væru að fjárhæð 1.439.852 krónur, án þess að sú upphæð væri þar sundurliðuð. Þá var við uppgjörið stuðst við verðmat Fasteignafélagsins Hlíðar ehf. á eigninni, en það félag er dótturfélag varnaraðila og að öllu leyti í eigu hans. Í matinu var söluverð eignarinnar áætlað á þessum tíma 31.400.000 krónur. Samkvæmt því og að teknu tilliti til fyrrgreindrar fjárhæðar „lögveða“ kom fram í uppgjörinu að 29.960.148 krónur hefðu greiðst upp í kröfuna við sölu eignarinnar til varnaraðila.

Hinn 21. ágúst 2013 var tekin fyrir hjá sýslumanni beiðni Íslandsbanka hf. um að gert yrði fjárnám hjá sóknaraðila til fullnustu fjárkröfu bankans á hendur honum. Varnaraðili var ekki mættur við fjárnámsgerðina og var henni lokið án árangurs að kröfu bankans.

Varnaraðili krafðist þess 19. september 2013 að bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Í kröfunni var vísað til skuldar samkvæmt fyrrnefndu veðskuldabréfi sem meðal annars væri tryggð með sjálfskuldarábyrgð sóknaraðila. Þá sagði að gjaldþrotaheimildin styddist við hið árangurslausa fjárnám hjá honum sem áður er getið. Ennfremur var krafa varnaraðila á hendur sóknaraðila sundurliðuð miðað við 19. september 2013. Var höfuðstóll kröfunnar sagður vera 30.569.008 krónur, innborgun á hana 29.960.148 krónur og eftirstöðvar hennar, að meðtöldum vöxtum, kostnaði og virðisaukaskatti, 24.116.316 krónur.

Eftir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar hefur varnaraðili aflað nýs vottorðs um fasteignamat iðnaðarhúsnæðisins að Kistumel 14. Samkvæmt vottorðinu var fasteignamat eignarinnar 16.010.000 krónur og endurstofnverð hennar 36.404.000 krónur árið 2013, miðað við byggingarstig 3 og matsstig 8.

II

Samkvæmt 65. gr. laga nr. 21/1991 getur lánardrottinn krafist að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta að tilskildum skilyrðum uppfylltum. Frumskilyrði er að sá, sem krefst gjaldþrotaskipta á þeim grundvelli, eigi lögvarða kröfu á hendur þeim sem hann kveður skulda sér hana.

Með 4. gr. laga nr. 60/2010 var 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu breytt. Er í 1. mgr. hennar kveðið á um að sá, sem notið hefur réttinda yfir eign er seld hefur verið nauðungarsölu en ekki fengið þeim fullnægt með öllu af söluverðinu, geti því aðeins krafið gerðarþola eða annan um greiðslu þess sem eftir stendur af skuldbindingunni að því leyti sem hann sýnir fram á að markaðsverð eignarinnar við samþykki boðs hefði ekki nægt til fullnustu kröfunnar. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 60/2010 segir í skýringum við 4. gr. að í breytingunni felist að það verði hlutverk þess, sem vill innheimta eftirstöðvar veðskuldar hjá gerðarþola eða ábyrgðarmanni skuldar, að sýna fram á hvert var markaðsverð eignarinnar á þeim tíma sem hún var seld. Kröfuhafi megi þannig ekki krefja um meira en nemur mismun á eftirstöðvum skuldarinnar og markaðsverði hinnar seldu eignar.

Eftir framangreinda breytingu hvílir samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/1991 sú skylda á þeim, sem naut veðréttar í eign og telur sig ekki hafa fengið þeim rétti fullnægt við nauðungarsölu eignarinnar, að færa sönnur á að sú hafi verið raunin. Af því leiðir að sá hinn sami verður að sýna fram á með fullnægjandi hætti hvert hafi verið markaðsverð eignarinnar á þeim tíma þegar hún var seld þannig að ljóst sé að það hafi verið lægra en krafa hans, til dæmis á hendur ábyrgðarmanni skuldar sem tryggð var með veði í eigninni, að teknu tilliti til þeirra veðkrafna sem gengu framar kröfunni að rétthæð. Takist það ekki verður litið svo á að hann hafi fengið veðrétti sínum fullnægt við sölu eignarinnar og þar með eigi hann ekki lengur lögvarða kröfu á hendur upphaflegum skuldara hennar, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 10. maí 2012 í máli nr. 487/2011. Þegar svo háttar til getur hann ekki sem lánardrottinn krafist gjaldþrotaskipta á búi hins upphaflega skuldara eftir 65. gr. laga nr. 21/1991 vegna sömu kröfu.

III

Samkvæmt uppgjöri vegna nauðungarsölunnar á iðnaðarhúsnæðinu að Kistumel 14, er fram fór 27. ágúst 2012, nam veðkrafa varnaraðila, sem sóknaraðili bar sjálfskuldarábyrgð á, 50.939.976 krónum miðað við þann dag. Þótt ekki liggi fyrir í málsgögnum útreikningar á kröfufjárhæðinni hefur sóknaraðili ekki beinlínis andmælt henni og verður hún því lögð til grundvallar við úrlausn málsins. Á hinn bóginn greinir aðila á um hvert hafi verið markaðsverð húseignarinnar á þeim tíma sem hún var seld.

Varnaraðili heldur því fram að markaðsverð eignarinnar á þeim tíma hafi numið 31.400.000 krónum eins og fram kemur í verðmati Fasteignafélagsins Hlíðar ehf. 28. ágúst 2013. Verði litið framhjá því telur varnaraðili að miða beri við skráð fasteignamat eignarinnar sem hafi verið 15.190.000 krónur árið 2012 og 16.010.000 krónur árið 2013. Því til stuðnings vísar hann til 27. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna þar sem kveðið er á um að skráð matsverð fasteignar skuli vera gangverð umreiknað til staðgreiðslu, miðað við heimila og mögulega nýtingu á hverjum tíma, sem ætla má að eignin hefði í kaupum og sölum.

Sóknaraðili telur að varnaraðili hafi ekki fært sönnur á að markaðsverð eignarinnar hafi verið lægra en nam kröfu hans á hendur sér á þeim tíma sem eignin var seld. Í fyrsta lagi sé verðmat Fasteignafélagsins Hlíðar ehf. ótækt til sönnunar þar sem um sé að ræða dótturfélag varnaraðila og geti því mat þess ekki talist óvilhallt honum. Í öðru lagi sé fasteignamat eignarinnar miðað við það byggingarstig að aðeins burðarvirki hússins hafi verið reist, en það ekki orðið fokhelt. Bygging hússins hafi hins vegar verið komin á síðarnefnda stigið er Lindarbær ehf. keypti eignina af Kistuhlíð ehf. 26. nóvember 2008 fyrir 40.068.000 krónur. Síðan hafi sóknaraðili séð um að innrétta húsnæðið sem hafi verið fullbúið þegar eignin var seld nauðungarsölu 27. ágúst 2012. Hefur varnaraðili ekki mótmælt þessum staðhæfingum sóknaraðila um ástand húseignarinnar á árunum 2008 og 2012.

Fallist er á með sóknaraðila að Fasteignafélagið Hlíð ehf. geti, vegna eignatengsla við varnaraðila, ekki talist óháður og óvilhallur aðili í máli þessu. Gegn andmælum sóknaraðila er mat félagsins af þeim sökum ekki tækt til sönnunar um það hvert hafi verið markaðsverð umræddrar eignar 27. ágúst 2012. Sama máli gegnir um skráð fasteignamat á eigninni sem er miðað við að húsið sé komið miklum mun skemmra í byggingu en það var þegar á árinu 2008 og gefur því engan veginn til kynna hvert hafi verið gangverð eignarinnar um fjórum árum síðar.

Samkvæmt öllu því, sem að framan greinir, hefur varnaraðili ekki fært viðhlítandi sönnur á að markaðsverð eignarinnar hafi verið lægra en nam upphæð veðkröfu hans við nauðungarsölu hennar, að viðbættum þeim veðkröfum sem gengu framar kröfunni að rétthæð, svo sem honum er skylt að gera samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/1991. Þar með telst ósannað að varnaraðili eigi lögvarða kröfu á hendur sóknaraðila og getur því ekki krafist gjaldþrotaskipta á búi hans á grundvelli 65. gr. laga nr. 21/1991. Af þeim sökum verður hafnað kröfu varnaraðila um skiptin og hinn kærði úrskurður felldur  úr gildi.

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hafnað er kröfu varnaraðila, Frjálsa hf., um að bú sóknaraðila, Þórarins Karls Gunnarssonar, verði tekið til gjaldþrotaskipta.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 250.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. nóvember 2013.

I

Með beiðni, dags. 19. september 2013, sem barst dómstólnum 24. september 2013, krafðist sóknaraðili, Frjálsi hf., kt. [...], Lágmúla 6, Reykjavík, þess að bú varnaraðila, Þórarins Karls Gunnarssonar, kt. [...], Glitvöllum 27, Hafnarfirði, yrði tekið til gjaldþrotaskipta með vísan til 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Við fyrirtöku gjaldþrotaskiptabeiðninnar 31. október 2013 var sótt þing af hálfu beggja aðila. Varnaraðili mótmælti kröfunni og var þá þingfest ágreiningsmál þetta, sbr. 1. mgr. 168. gr. laga nr. 21/1991. Málið var tekið til úrskurðar að afloknum munnlegum málflutningi 14. nóvember sl.

Sóknaraðili krefst þess að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila að mati dómsins.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila, um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta, verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati dómsins.

II

Málavextir eru þeir að 21. ágúst 2013 fór fram árangurslaust fjárnám hjá varnaraðila hjá sýslumanninum í Hafnarfirði. Var gerðarþoli ekki mættur þegar fjárnámið fór fram en bókað er að skilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 90/1989 sé fullnægt til að gerðin fari fram, þótt ekki sé mætt fyrir gerðarþola.

Byggðist fjárnámið á veðskuldabréfi sem gefið var út af Lindarbæ ehf., kt. [...], til Frjálsa fjárfestingabankans hf., kt. [...], Lágmúla 6, Reykjavík, upphaflega að fjárhæð 28.774.000 krónur tryggt með 1. veðrétti í Kistumel 14, Reykjavík. Bar veðskuldabréfið 9,25% vexti og átti að greiðast á þrjátíu árum með mánaðarlegum afborgunum. Var bréfið vísitölutryggt með grunnvísitölu 315,5 stig. Var fyrsti gjalddagi lánsins 2. febrúar 2009. Þann sama dag undirrituðu aðilar skilmálabreytingu sem var árituð á frumrit bréfsins. Var bréfinu skilmálabreytt þannig að lengt var í láninu um einn mánuð og næsti gjalddagi sagður 2. mars 2009. Var fasteignin seld nauðungarsölu 27. ágúst 2012 og greiddust upp í kröfuna 1.592.528 krónur samkvæmt áritun á veðskuldabréfið. Undirritaði varnaraðili skuldabréfið sem sjálfskuldarábyrgðaraðili.

Þá fylgdi með gögnum til dómsins verðmat frá 28. ágúst 2012 á Kistumel 14, þar sem fram kemur í lýsingu á eigninni að eignin sé nýtt 285,2 fm atvinnuhúsnæði, skiptist í 196,0 fm iðnaðarhúsnæði á jarðhæð auk 89,2 fm millilofts, alls 285,2 fm. Stórar innkeyrsludyr 4,5 m á hæð og 3,6 m á breidd. Mesta lofthæð sé ca. 8 m. Gert sé ráð fyrir kaffistofu og ræstiherbergi. Malbikað bílaplan. Húsið sé stálgrindarhús á steyptum undirstöðum. Sökklar og botnplata sé staðsteypt og milliveggir milli eignarhluta séu úr 100 mm steinullareiningum. Söluverð er sagt 31.400.000 krónur. Matið er unnið af fasteignafélaginu Hlíð ehf. Kemur fram í matinu að lóðarmat eignarinnar sé 1.280.000 krónur en ekkert brunabótamat né fasteignamat var komið á eignina.

Samkvæmt sundurliðun skuldarinnar í gjaldþrotaskiptabeiðninni er heildarskuld varnaraðila þann 19. september 2013, 24.116.316 krónur að meðtöldum öllum kostnaði sem á kröfuna hefur fallið og að frádregnum 29.960.148 krónum sem tekið er fram að sé innborgun á kröfuna. Kemur fram í beiðninni að samningsvextir séu reiknaðir til 2. mars 2009 og dráttarvextir eftir það.

III

Sóknaraðili kveðst byggja kröfu sína um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta á því að uppfyllt séu skilyrði 65. gr. laga nr. 21/1991. Umrætt veðskuldabréf hafi farið í vanskil 2. mars 2009 og 27. ágúst 2012 hafi veðandlagið verið selt nauðungarsölu. Byggir sóknaraðili á því að verðmat liggi fyrir um verðmæti fasteignarinnar en verði litið framhjá verðmatinu þá beri að taka mið af fasteignamati, sbr. 27. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Byggir sóknaraðili á því að varnaraðili hafi ekki hnekkt því verðmati sem framkvæmt var af fasteignafélaginu Hlíð ehf. og því standi það mat óhaggað. Engar aðrar eignir standi til tryggingar skuld varnaraðila og óumdeilt að lánið sé í vanskilum. Þá geti varnaraðili aldrei átt kröfu á hendur sóknaraðila vegna reiknings sem gefinn sé út af þriðja aðila til fjórða aðila eins og varnaraðili byggir á.

Sóknaraðili kveðst vísa til 65. gr. laga nr. 21/1991, einkum 1. tl. 2. mgr. Hann kveður kröfuna um málskostnað byggjast á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og að krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988. Sóknaraðili kveðst ekki vera virðisaukaskattsskyldur og því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi sóknaraðila.

IV

Varnaraðili kveðst byggja kröfu sína um að beiðni sóknaraðila, um gjaldþrotaskipti á búi hans, verði hafnað í fyrsta lagi á því að honum hafi aldrei verið sýnt fram á tilvist þeirrar kröfu sem sóknaraðili byggir beiðni sína á. Varnaraðili hafi aldrei fengið að sjá nein viðhlítandi gögn sem sýni hver sé mismunur á eftirstöðvum hinnar umkröfðu skuldar og markaðsvirði fasteignarinnar sem seld var nauðungarsölu. Sóknaraðili hafi metið verðmæti fasteignarinnar sjálfur og hafi varnaraðili aldrei fengið að sjá það mat. Varnaraðili sé ekki í þeirri stöðu að geta verðmetið fasteignina sjálfur, það sé sóknaraðila að sýna fram á að mat það sem hann hafi útbúið sé rétt og hljóti hlutlaust mat fasteignasala eingöngu að koma til skoðunar í slíku tilfelli. Vísar varnaraðili til 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu en þar kom skýrt fram að það sé þess sem réttindi átti yfir eign sem seld sé nauðungarsölu að sýna fram á að markaðsvirði eignarinnar hafi ekki nægt til að fullnusta kröfuna. Út frá þessu sé það alveg ljóst að sóknaraðili þurfi að sýna fram á hvert markaðsvirði eignarinnar hafi verið á söludegi til þess að hægt sé að ákveða hve há skuldin sé samkvæmt nefndu veðskuldabréfi, eða eftir atvikum hvort hún sé til staðar. Slíkt hafi sóknaraðili ekki gert og sé því dregið í efa að uppgjör það sem umdeild krafa byggist á sé rétt og að fasteignamat það sem sóknaraðili leggi til grundvallar í útreikningum sínum sé byggt á hlutlausu mati. Eina skjalið sem varnaraðili hafi fengið sé verðmat frá Fasteignafélaginu Hlíð ehf., þar sem komi fram að lóðarmat Kistumels 14 sé 1.280.000 krónur, sbr. dskj. 7. Þá bendir varnaraðili á að Fasteignafélagið Hlíð ehf. sé dótturfélag Frjálsa fjárfestingabankans hf., og sé alfarið í eigu bankans og því augljóslega ekki um hlutlaust mat að ræða, sbr. dskj. nr. 8. Þetta verðmat sé einnig bara lóðarmat og því ekki með neinu móti hægt að styðjast við það. Þá sé einnig bent á að matið sé dagsett 28. ágúst 2012 og hafi því verið gert eftir að nauðungarsalan fór fram. Vísaði varnaraðili til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 487/2011.

Varnaraðili byggir kröfu sína í öðru lagi á því að Kistuhlíð ehf., dótturfélag sóknaraðila, hafi ekki uppfyllt sínar skyldur skv. nefndum kaupsamningi sem lagður var fram. Líkt og fram komi í kaupsamningnum þá hafi Kistuhlíð ehf. átt að greiða eftirstöðvar reiknings sem þá hafi ekki verið búið að gefa út. Reikningurinn hafi verið  gefinn út 8. desember 2008 og ljóst sé að hluti reikningsins hafi verið greiddur skv. kaupsamningnum en eftirstöðvar hans að fjárhæð 9.039.158 krónur hafi varnaraðili ekki enn fengið greiddar. Þetta sé sú vinna sem varnaraðili hafi unnið og hafi átt að greiðast skv. kaupsamningi. Reikningurinn sé gefinn út af félagi í eigu varnaraðila, Hnullungi ehf., en það félag hafi unnið verkið fyrir Lindabæ ehf., og hafi reikningurinn átt að greiðast af dótturfélagi sóknaraðila. Í ljósi þess að dótturfélag sóknaraðila hafi ekki greitt reikning Hnullungs ehf., þá hafi varnaraðili ekki fengið greitt fyrir alla sína vinnu. Skuldajöfnuður hafi ekki átt sér stað og sóknaraðili hafi ekki með neinu móti komið til móts við varnaraðila hvað þetta varði. Ljóst sé að þessi vanskil af hálfu dótturfélags sóknaraðila sé stór þáttur af fjárhagsvandræðum varnaraðila. Af öllu ofansögðu sé ekki hægt að taka kröfu sóknaraðila, um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta, til greina og beri að hafna henni.

IV

Málsaðila greinir á hvort sóknaraðili hafi sýnt fram á að hann eigi þá kröfu sem hann byggir kröfu sína um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta á.

Ekki er ágreiningur um efni skuldabréfsins né er ágreiningur um að árangurslaust fjárnám hafi farið fram að kröfu sóknaraðila hjá varnaraðila þann 21. ágúst 2013 og krafa sóknaraðila er reist á.

Varnaraðili lagði fram óundirritað eintak af kaupsamningi milli Kistuhlíðar ehf. og Lindarbæjar ehf. þar sem síðarnefnda félagið kaupir af Kistuhlíð ehf. fasteignina Kistumel nr. 14, 116 Reykjavík. Var kaupverðið 40.068.000 krónur og skyldu greiðast við undirritun kaupsamnings 12.020.400 krónur. Sú fjárhæð skyldi greiða samkvæmt samþykktum reikningum fyrir vinnuframlag sem kaupandi innti af hendi fyrir seljanda og þegar reikningur lægi fyrir vegna vinnu kaupanda við malbikun við Kistumel 14-18, þó eigi síðar en 15. desember 2008. Er tekið fram að sú fjárhæð sé 5.638.320 krónur. Þá skyldi við undirritun kaupsamnings greiða með útgreiðslu láns frá Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. 28.047.600 krónur. Var skilmálum veðskuldabréfsins lýst í kaupsamningum eins og kemur fram í kafla II hér að ofan.

Telur dómurinn óuppgerða reikninga milli Kistuhlíðar ehf. og Lindarbæjar ehf. ekki hafa neina þýðingu við úrlausn þessa máls. Auk þess er sá reikningur útgefinn af Hnullungi ehf. á hendur varnaraðila þessa máls og er alls ósannað að sú fjárhæð hafi átt að koma til greiðslu upp í það veðskuldabréf sem hér er byggt á. Þá verður ekki tekið undir þær varnir varnaraðila að verðmat það sem lagt var til grundvallar og útgefið af Fasteignafélaginu Hlíð ehf., við úthlutun uppboðsandvirðis fasteignarinnar, sé ómarktækt. Varnaraðili hefur ekki gert reka að því að hnekkja því mati sem honum hefur þó verið í lófa lagið en varnaraðili lagði fram yfirlit frá Fasteignaskrá Íslands skrifað út 23. ágúst 2012 þar sem fram kemur að fasteignamat eignarinnar er 34.831.000 krónur. Er fasteignamatið 3,4 milljónum hærra en verðmatið sem gert var þann 28. ágúst 2012. Fyrir liggur uppgjör nauðungarsölunnar og kemur þar fram að verðmat eignarinnar sé 31.400.000 krónur, kaupverð á uppboðinu hafi verið 3.000.000 króna og mismunur sé 28.400.000 krónur. Þá kemur fram í uppgjörinu að uppsafnað sé 29.960.148 krónur, sem verður ekki skilið á annan hátt en að það sé mismunur á lögveði 1.439.852 krónur og verðmati eignarinnar og komi til greiðslu upp í kröfu sóknaraðila Í kröfu sóknaraðila nú kemur fram að sama fjárhæð hefur verið bókuð sem innborgun á skuldina. Eftirstöðvar eru sagðar 24.116.316 krónur, sem er að stærstum hluta dráttarvextir auk annars kostnaðar við innheimtu kröfunnar. Þrátt fyrir að nýtt fasteignamat hafi verið lagt fram hefur varnaraðili ekki sýnt fram á að neinar líkur séu fyrir því að verðmat eignarinnar geti verið það mikið hærra á söludegi að vafi leiki á að sóknaraðili eigi fjárkröfu á hendur varnaraðila. Telur dómurinn að sóknaraðili hafi uppfyllt skilyrði 57. gr. laga nr. 90/1991 eins og henni var breytt með lögum 60/2010.

Þá hefur varnaraðili ekki borið fyrir sig að árangurslausa fjárnámið, sem gert var 21. ágúst sl. og krafa sóknaraðila byggist á, gefi ranga mynd af fjárhag hans né nokkur gögn verið lögð fram sem gætu sýnt fram á það. Eru skilyrði 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 því uppfyllt.

 Með vísan til alls framangreinds ber að fallast á kröfur sóknaraðila og taka bú varnaraðila til gjaldþrotaskipta.

Í ljósi niðurstöðu málsins er varnaraðila gert að greiða sóknaraðila 180.000 krónur í málskostnað. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Að kröfu sóknaraðila, Frjálsa hf., er bú varnaraðila, Þórarins Karls Gunnarssonar, Glitvöllum 27, Hafnarfirði, tekið til gjaldþrotaskipta.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 180.000 krónur í málskostnað.