Hæstiréttur íslands
Mál nr. 562/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Hald
|
|
Fimmtudaginn 1. nóvember 2007. |
|
Nr. 562/2007. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Jón H. B. Snorrason, saksóknari) gegn X (Oddgeir Einarsson hdl.) |
Kærumál. Hald.
Sóknaraðili lagði hald á 6.900.000 krónur sem fundust við húsleit að Y. Einnig fundust þar ýmsir hlutir sem tengjast meðferð fíkniefna. Varnaraðili krafðist þess að ákvörðun sóknaraðila um haldlagninguna yrði felld úr gildi. Rökstuddur grunur var um að féð tengdist sölu og dreifingu fíkniefna og að um væri að ræða háttsemi sem varðað gæti við lög. Voru skilyrði 1. mgr. 78. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála því uppfyllt og var kröfu varnaraðila hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. október 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. október 2007, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að felld yrði úr gildi sú ákvörðun sóknaraðila að leggja hald á 6.900.000 krónur, sem fundust við húsleit að Yrsufelli 9, Reykjavík, 12. júlí 2007, jafnframt var því hafnað að sóknaraðila væri skylt að skila varnaraðila fénu. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verið felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 19/1991 skal leggja hald á muni ef ætla má að þeir hafi sönnunargildi í opinberu máli, þeirra hefur verið aflað á refsiverðan hátt eða ætla má að þeir kunni að verða gerðir upptækir. Eins og nánar greinir í héraðsdómi fundust við húsleit samkvæmt dómsúrskurði peningar þeir, sem hald var lagt á, ásamt ýmsum hlutum sem tengjast meðferð fíkniefna. Voru peningarnir í sjö misstórum einingum á þremur stöðum í íbúðinni. Varnaraðili kveður féð vera sína eign og sé um að ræða hluta af slysabótum sem hann hafi fengið greiddar í desember 2006.
Geymslumáti fjárins og skýringar á honum er tortryggilegur. Rökstuddur grunur er um að fé þetta tengist sölu og dreifingu fíkniefna og að um sé að ræða háttsemi sem varðað geti við lög nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en rannsókn málsins er ekki lokið. Á grundvelli þess sem rakið er hér að framan og með vísan til 1. mgr. 78. gr. laga nr. 19/1991 þykja skilyrði fyrir haldlagningu fjárins vera uppfyllt. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 26. október 2007.
Með bréfi dagsettu 3. október sl. krafðist X, kt. [...], [...], Reykjavík, þess að ákvörðun Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að leggja hald á peninga hans, samtals 6.900.000 krónur, sem fundust við húsleit að Y þann 12. júlí 2007 verði felld úr gildi og lögreglu gert að skila fénu með vöxtum. Þá krefst lögmaður hans hæfilegrar þóknunar.
Lögreglustjóri krefst þess að kröfu varnaraðila verði hafnað.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júlí 2007 var lögreglu heimiluð húsleit á dvalarstað A að Y. Umráð íbúðarinnar hefur B. Byggði úrskurðurinn á því að grunur beindist að A um dreifingu fíkniefna úr íbúð þessari.
Við leitina fundust ýmsir munir, sprautur og sprautunálar, grammavogir og marijuanakvörn. Þá fannst talsvert af peningum. Hluta af fénu, 36.000 krónur og 1.500 evrur, hefur A sagst eiga sjálfur. Þá fundust samtals 6.900.000 krónur í sjö einingum. Fimm umslög fundust í fataskáp í svefnherbergi íbúðarinnar, í þremur þeirra var 1.000.000 krónur, 1.005.000 krónur í því fjórða og 1.015.000 krónur í því fimmta. Í geymslukassa á hillu í svefnherberginu fundust 1.080.000 krónur og loks 800.000 krónur í öðrum kassa í fataskápnum.
Þetta fé kveðst varnaraðili eiga. Við skýrslugjöf hjá lögreglu 27. júlí sl. sagði varnaraðili að hann og A væru kunningjar og B væri vinkona sín. Hann ætti þá peninga sem hald hefði verið lagt á, B hefði geymt þá fyrir sig. Hún hafi séð að hann var með þessa peninga í bílnum sínum og boðist til að geyma þá. Hann hafi tekið þetta fé allt út úr banka í nokkrum afgreiðslum. Féð hafi verið hluti af slysabótum sem hann hafi fengið greiddar vegna umferðarslyss.
Þessi skýrsla varnaraðila er í samræmi við skýrslu er B gaf hjá lögreglu 25. júlí sl. Þá sagði A við húsleitina að hann væri að geyma féð fyrir annan mann, sem hann vildi ekki nafngreina. Síðar hefur hann hjá lögreglu sagt varnaraðila eiga þessa peninga.
Af gögnum málsins má sjá að varnaraðili fékk greiddar 21.500.000 krónur frá tryggingafélagi með milligöngu lögmannsstofu í desember 2006. Hann hefur millifært 20.649.850 krónur af einum bankareikningi á annan þann 8. mars 2007. Á tímabilinu 12. mars til 15. júní 2007 var tekið út af reikningnum 24 sinnum, samtals 8.350.220 krónur. Tvæt úttektir eru áberandi hæstar, 14. mars voru teknar út 2.400.000 krónur og 2. maí voru teknar út 3.000.220 krónur. Auk þessara úttekta var fé millifært af reikningnum nokkrum sinnum.
Varnaraðili telur sig hafa sýnt fram á eignarrétt sinn að umræddu fé og hvernig það komst í hans eigu. Enginn annar en hann hafi gert tilkall til fjárins. Séu ekki nein skilyrði að lögum til að lögregla leggi hald á féð.
Lögregla segir að varnaraðili hafi tekið háar fjárhæðir út af reikningi sínum. Veltan á reikningnum sé mjög óeðlileg og þarfnist nánari rannsóknar. Varnaraðili hafi samkvæmt skattframtölum lágar tekjur, en aki um á dýrri bifreið er hann þurfi að borga af mánaðarlega. Miðað við yfirlit um bankareikning sé einkaneysla hans mikil og meiri en tekjur hans geti staðið undir. Því séu fjármálaumsvif varnaraðila til rannsóknar. Þá vísar lögregla til þess að allir þeir sem málinu tengjast séu undir rökstuddum grun um að selja fíkniefni. Geymsla peninganna hafi verið mjög óvenjuleg og því sé varnaraðili og fleiri aðilar undir rökstuddum grun um peningaþvætti. Til rannsóknar séu meint brot gegn 264. gr. almennra hegningarlaga og lögum nr. 65/1974. Sé því heimilt að leggja hald á umræddar fjárhæðir samkvæmt. 78. gr. laga nr. 19/1991.
Forsendur og niðurstaða.
Samkvæmt 78. gr. laga nr. 19/1991 skal leggja hald á muni ef ætla má að þeir hafi sönnunargildi í opinberu máli, ef þeirra hefur verið aflað á refsiverðan hátt eða ef ætla má að þeir kunni að verða gerðir upptækir. Óumdeilt er að peningaseðlar eru munir í skilningi 78. gr.
Varnaraðili hefur sýnt fram á að hann hafi fengið umtalsvert fé greitt í lok síðasta árs. Bera hann og B á sama veg hjá lögreglu um að hann eigi umrædda peningaseðla. Hins er að gæta að úttektir varnaraðila af reikningi sínum hafa verið nokkuð stöðugar um nokkurra mánaða skeið og bendir það ekki sterklega til þess að hann hafi verið að safna fé saman af bankareikningnum til geymslu í bifreið sinni og síðan í íbúð vinkonu sinnar. Þá er rannsókn á peningamillifærslum og -notkun varnaraðila ekki langt á veg komin. Er ekki augljóst að umrætt fé sé eign varnaraðila.
Skýringar varnaraðila eru við fyrstu sýn ótrúverðugar og eru uppfyllt skilyrði 78. gr. laga nr. 91/1991 til að leggja hald á féð. Er uppi rökstuddur grunur um fíkniefnasölu og peningaþvætti. Verður kröfu varnaraðila því hafnað. Ekki verður mælt fyrir um greiðslu málflutningsþóknunar á þessu stigi.
Úrskurðarorð:
Kröfu varnaraðila, X, er hafnað.