Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-121
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Umferðarlagabrot
- Akstur sviptur ökurétti
- Hraðakstur
- Ölvunarakstur
- Ökuréttarsvipting
- Endurupptaka
- Hegningarauki
- Ómerkingarkröfu hafnað
- Frávísunarkröfu hafnað
- Handtaka
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 5. ágúst 2022 leitar Þorvaldur Árni Þorvaldsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 8. apríl 2022 í máli nr. 504/2021: Ákæruvaldið gegn Þorvaldi Árna Þorvaldssyni á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Dómurinn var birtur 12. júlí 2022. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.
3. Með dómi héraðsdóms 11. desember 2017 var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir nánar tilgreind umferðarlagabrot. Með úrskurði Endurupptökunefndar 28. janúar 2019 var málið endurupptekið að beiðni leyfisbeiðanda þar sem að dómurinn hafði verið reistur á röngum forsendum sem lutu að sjónarmiðum um hegningarauka. Með dómi héraðsdóms 15. júlí 2021 var leyfisbeiðandi á ný sakfelldur fyrir framangreind umferðarlagabrot en að teknu tilliti til sjónarmiða um hegningarauka og Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu með dómi 8. apríl 2022.
4. Leyfisbeiðandi byggir annars vegar á því að áfrýjun lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu. Hins vegar byggir hann á því að málsmeðferð fyrir héraðsdómi og Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant og að dómurinn sé bersýnilega rangur. Leyfisbeiðandi vísar einkum til þess að í öndverðu hafi verið gefið út fyrirkall samkvæmt 1. mgr. 161. gr., sbr. 1. mgr. 155. gr. laga nr. 88/2008 en að undir rekstri hins endurupptekna máls í héraði hafi hann verið handtekinn og færður fyrir dóm samkvæmt 162. gr. laganna. Hann byggir á því að gefa hafi átt út nýtt fyrirkall við endurupptöku málsins og því hafi handtaka hans verið ólögmæt auk þess sem það hafi valdið vanhæfi ákæruvalds og dómara. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að ekki hafi verið heimilt að leggja fram nýtt sakavottorð fyrir héraðsdómi eftir að málið hafði verið dómtekið og leggja það til grundvallar.
5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðninni er því hafnað.