Hæstiréttur íslands
Mál nr. 129/2013
Lykilorð
- Líkamsárás
- Neyðarvörn
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 19. september 2013. |
|
Nr. 129/2013.
|
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari) gegn Sturlu Viðari Jakobssyni (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Líkamsárás. Neyðarvörn. Skilorð.
S var ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa kastað bjórglasi í andlit A á veitingastað. Brot S taldist sannað og var hann því dæmdur fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en S hélt því fram að um hefði verið að ræða ósjálfrátt varnarviðbragð í neyðarvörn. Við ákvörðun refsingar var litið til 3. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga enda hafði S kastað glasinu í kjölfar þess að A kastaði stól í S. Var S dæmdur til 5 mánaða fangelsisrefsingar sem var skilorðsbundin til tveggja ára. S var dæmdur til að greiða A 300.000 krónur í miskabóta auk vaxta.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 7. janúar 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess að einkaréttarkröfu brotaþola, A, verði aðallega vísað frá héraðsdómi, en til vara að hún verði lækkuð.
Brotaþoli hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Verður því litið svo á að hann krefjist þess að staðfest verði ákvæði hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu sína, sbr. 1. mgr. 208 gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Við mat á þeirri málsvörn ákærða að um ósjálfráð varnarviðbrögð hans hafi verið að ræða er hann kastaði bjórglasi í höfuð brotaþola er í forsendum hins áfrýjaða dóms meðal annars vísað til framburðar ákærða í skýrslu hans hjá lögreglu. Skýrslan var þó ekki borin undir ákærða fyrir dómi og hann spurður um efni hennar. Fær það ekki samrýmst 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en þar segir að dómur skuli reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Að þessu gættu, en með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms að öðru leyti verður hann staðfestur.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði greiði samtals 276.236 krónur í áfrýjunarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 6. nóvember 2012.
Mál þetta, sem dómtekið var 12. f.m., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 11. júní 2012, á hendur Sturlu Viðari Jakobssyni, kt [...].
Ákærða er gefin að sök sérstaklega hættuleg líkamsárás „með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 12. júní 2010, á veitingastaðnum Dillon, Laugavegi 30 í Reykjavík, kastað bjórglasi í andlit A þannig að glasið brotnaði með þeim afleiðingum að A hlaut skurð á vinstri augabrún, vinstra megin á nefi og efri vör, sár á vinstri kinn og á hvirfil“. Er þessi háttsemi talin varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Í ákæru er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þar er jafnframt getið bótakröfu, sem A gerir á hendur ákærða. Krefst hann þess að ákærða verði gert að greiða sér miskabætur að fjárhæð 300.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. júní 2010 til 20. júlí 2012, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði krefst aðallega sýknu af refsikröfu ákæruvalds og að bótakröfu verði vísað frá dómi. Til vara er þess krafist að refsing ákærða verði felld niður og að hann verði sýknaður af kröfu um bætur. Til þrautavara er sú krafa gerð að ákærða verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa og að hún verði skilorðsbundin. Þá er krafist sýknu af bótakröfu.
I
Ákærði hefur fyrir dómi gengist við því að hafa kastað bjórglasi í andlit A á veitingastaðnum Dillon við Laugaveg í Reykjavík aðfaranótt laugardagsins 12. júní 2010. Þá hefur ákærði ekki dregið það í efa að þessi háttsemi hans hafi haft þær afleiðingar sem lýst er í ákæru. Hann hefur á hinn bóginn borið því við að um ósjálfráð varnarviðbrögð vegna yfirvofandi og yfirstandandi árásar hafi verið að ræða af hans hálfu. Ásetningur til líkamsárásar hafi því ekki verið fyrir hendi og í öllu falli verði að meta háttsemi hans sem neyðarvörn, sbr. 1. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Af þessu leiði að sýkna beri ákærða af refsikröfu ákæruvalds. Verði ekki á þetta fallist standa að mati hans full rök til þess að honum verði ekki gerð refsing. Ákæruvaldið hafnar málsvörn ákærða samkvæmt framansögðu, en að henni frágenginni byggir hann á því að atvik hafi verið með þeim hætti að líta beri til 3. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga við ákvörðun refsingar hans.
Við rannsókn málsins hjá lögreglu kom fram að ákærði og A voru í hópi tónleikagesta á veitingastaðnum Dillon þá er umrætt atvik átti sér stað. Skýrði A svo frá í skýrslu sem tekin var af honum 15. júní 2010 að hann hafi af tilteknum ástæðum reiðst ákærða, sem hann þekkti, og í þeim ham tekið stól og hent honum í ákærða. Hann hafi síðan gengið í átt að ákærða, sem þá hafi kastað bjórglasi í höfuð hans. Framburður ákærða um atburðarás við skýrslugjöf hjá lögreglu 5. október 2010 var á sama veg, en að auki kom fram hjá honum að hann hafi fengið högg á hnakkann og bakið þá er stólnum var kastað í hann. Er haft eftir honum að hann hafi vankast við höggið og hafi verið smá tíma að átta sig á því sem gerst hafði, en þegar hann sneri sér við hafi hann séð A sem hafi verið að gera sig líklegan í frekari átök. Þessu næst er eftirfarandi bókað eftir ákærða: „Ég sá mitt óvænna og henti glasi að honum og lenti það í höfði hans. Það var ekki ásetningur minn að skaða [A] heldur að stöðva hann í frekari meiðingum. Það var mjög óheppilegt að glasið skyldi lenda í andliti hans en ég henti því í algerri sjálfsvörn og til að koma í veg fyrir frekari átök.“
Tilgreining í ákæru á þeim áverkum sem A hlaut styðst við framlagt læknisvottorð. Þá hefur ákærði lagt fram í málinu ljósmyndir sem að hans sögn renna stoðum undir að stóllinn sem hent var í hann hafi lent á höfði hans, en á myndunum sést að hann er með sár á hnakkanum. Er óumdeilt að ein þessara ljósmynda var tekin að kvöldi laugardagsins 12. júní 2010, en hinar 22. sama mánaðar. Af hálfu ákæruvalds er því á hinn bóginn haldið fram að með þessu hafi ekki verið sýnt fram á að ákærði hafi hlotið þennan áverka þegar hann fékk stólinn í sig.
II
Í skýrslu ákærða við aðalmeðferð málsins kom fram að þá er umrætt atvik átti sér stað hafi hann staðið uppi á stól til að geta séð betur það sem fram fór á hljómsveitarpallinum. Hann hafi átt sér einskis ills von þegar hann fékk högg á hnakkann og stóll kastaðist yfir höfuð hans. Kvaðst hann telja að hann hafi fengið einn stólfótinn í höfuðið. Hann hafi vankast við höggið. Þegar hann leit við hafi hann séð A koma aðvífandi og talið hann vera að ráðast á sig. Áður en hann vissi af hafi bjórglas sem hann hélt á „flogið“ úr hendi hans og lent í andlitinu á A. Þessi atburðarás hafi tekið nokkrar sekúndur. Nánar aðspurður um ástand sitt í kjölfar höggsins skýrði ákærði svo frá að hann hafi fundið fyrir svima, hann hafi séð ljósdepla og fundist sem hann væri að missa jafnvægið þar sem hann stóð á stólnum. Allt hafi byrjað að fljóta og vagga fyrir framan hann og hann hafi um stund verið lítt áttaður á umhverfi sínu og aðstæðum. Hann hafi enn verið vankaður þegar hann sneri sér við og kastaði glasinu. Þegar hann sá A koma gangandi í áttina að sér hafi honum fundist sem hann væri að gera sig stærri og hann hafi haft hendur niður með síðum eins og hann væri að búa sig undir „að fara upp í boxarastöðu“. Hann hafi skynjað þetta eða túlkað sem ógnun. Hann hafi svo rankað við sér um það leyti sem glasið splundraðist á höfði A. Meðan þessu fór fram hafi hann staðið á stólnum. Þeir hefðu í kjölfarið eitthvað tekist á en fljótlega hafi verið gengið á milli þeirra og þeir skildir að. Að sögn ákærða voru þrír til fjórir metrar á milli þeirra þegar hann sá A nálgast sig. Hann hafi ekkert hugsað út í þá hættu sem var samfara því að kasta glasinu, enda um ósjálfráð viðbrögð af hans hálfu að ræða. Aðspurður kvaðst ákærði ekki geta sagt til um það hvernig hann kastaði glasinu en var þó helst á því að það hafi verið líkast því þegar kúlu er kastað í keilu. Glasið hafi verið venjulegt 500 ml bjórglas.
Fyrir dómi skýrðu A og ákærði svo frá að þeir hafi hist á veitingastaðnum Dillon skömmu áður en það atvik sem hér er til umfjöllunar átti sér stað og að þá hafi allt verið í góðu á milli þeirra. Í skýrslu A kom fram að saga sem honum var sögð eftir það hafi orðið til þess að hann reiddist ákærða, tók stól og kastaði í áttina að honum. Ákærði hafi staðið uppi á borði þegar þetta gerðist en A á gólfi veitingastaðarins. Allt að fimm metrar hafi verið á milli þeirra þá er stólnum var kastað í ákærða. Ákærði hafi snúið sér við og kvaðst A þá hafa gengið í áttina að honum. Hann hafi síðan verið kominn alveg upp að ákærða þegar ákærði kastaði glasinu. Ákærði hafi þá enn staðið uppi á borðinu. Þessi atburðarás hafi tekið nokkrar sekúndur, á að giska fimm til sjö. Um hafi verið ræða 500 ml bjórglas og það hafi brotnað þegar það lenti á höfði hans. Þá kom fram hjá A að hann væri sannfærður um að stóllinn hafi ekki lent í höfði ákærða og sennilegast væri að ákomustaðurinn hafi verið neðri hluti líkama hans og þá fæturnir. Loks skýrði A svo frá að engin meining hafi verið á bak við það af hans hálfu þegar hann gekk í áttina að ákærða eftir að hafa kastað stólnum, en það hafi mögulega komið þannig út að hann hygðist ráðast á ákærða.
Vitnið B, sem er vinur A, kvaðst í skýrslu sinni fyrir dómi hafa orðið var við að einhver slagsmál væru í gangi inni á veitingastaðnum og farið að grennslast nánar fyrir um þau. Hann hafi þá séð að það voru A og ákærði sem þar áttu hlut að máli. Ákærði hafi staðið uppi á borði eða stól og snúið að vitninu, en A hafi staðið á gólfinu á milli vitnisins og ákærða og snúið baki í vitnið. Eitt stórt skref hafi verið á milli vitnisins og A. Ákærði hafi haldið á stóru bjórglasi og vitnið séð hann brjóta það á „hausnum“ á A. Þar sem ákærði hafi gnæft yfir A hafi hann kastað glasinu niður fyrir sig. Um stóra handarhreyfingu af hálfu ákærða hafi verið að ræða og í þeim augljósa tilgangi að mati vitnisins að brjóta glasið á höfði A. Var vitnið helst á því að ákærði hafi sleppt glasinu örstuttu áður en það skall á höfði A og brotnaði. A hafi verið illa leikinn eftir og mikið hafi blætt úr höfði hans.
Vitnið C kvaðst í skýrslu sinni fyrir dómi hafa séð þegar A henti stól í ákærða. Ákærði hafi þá setið uppi á hálfvegg eða skilrúmi, sem var rétt rúmlega einn metri á hæð, og A staðið um það bil einn metra frá honum. Í fyrstu var vitnið á því að stóllinn hafi lent í baki ákærða, en kvaðst síðar í vitnisburði sínum ekki geta útilokað að höfuð hans hafi orðið fyrir honum. Kvaðst vitnið ekki geta skýrt frá atvikum umfram þetta.
III
Með játningu ákærða og skýrslum vitna er fyllilega í ljós leitt að ákærði hafi, aðfaranótt laugardagsins 12. júní 2010, á veitingastaðnum Dillon við Laugaveg í Reykjavík, kastað bjórglasi í höfuð A þannig að glasið brotnaði. Við þetta hlaut A þá áverka sem greinir í ákæru málsins.
Svo sem fram er komið teflir ákærði fram þeirri málsvörn að ásetningur hans hafi ekki staðið til þess að kasta glasinu í A. Fyrir dómi gaf hann þá skýringu á þessu að hann hafi vankast við höggið sem hann fékk þá er A kastaði stól í hann og að hann hafi af þeim sökum verið lítt áttaður á umhverfi sínu og aðstæðum allt þar til glasið brotnaði. Tiltók ákærði jafnframt að um ósjálfráð varnarviðbrögð við yfirstandandi og yfirvofandi árás hafi verið að ræða. Af skýrslu hans hjá lögreglu 5. október 2010, tæpum fjórum mánuðum eftir að atvikið átti sér stað, verður á hinn bóginn ekki annað ráðið en að framangreint ástand hafi verið afstaðið þegar hann kastaði glasinu. Þannig ber lýsing ákærða á atburðarás eftir að hann kom auga á A það ótvírætt með sér að hann hafi, þegar þá var komið sögu, verið ágætlega meðvitaður um það sem var gerast. Fyrir dómi lýsti hann vissum atvikum í þeirri atburðarás sem þarna varð nokkuð ítarlega og fær það ekki samrýmst þeirri staðhæfingu hans að hann hafi gert sér litla grein fyrir því sem fram fór allt þar til glasið brotnaði á höfði A. Í ljósi þessa og að virtum dómsframburði ákærða í heild, en jafnframt með hliðsjón af vitnisburðum fyrir dómi, sem áður eru raktir, er þessari málsvörn ákærða hafnað og á það fallist með ákæruvaldinu að um ásetningsverk hafi verið að ræða.
Ákærði hefur jafnframt borið því við að verknaður hans hafi verið unninn í neyðarvörn. Verði því að telja, hvað sem öðru líður, að háttsemi hans sé refsilaus samkvæmt 1. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt því ákvæði er það skilyrði neyðarvarnar að ekki hafi verið beitt vörnum sem séu augsýnilega hættulegri en sú árás sem vofir yfir. Þótt ákærði hafi mátt óttast það að á hann yrði ráðist, var sú háttsemi hans að kasta glasinu á þann veg sem lýst hefur verið stórhættuleg og í ljósi atvika hættulegri en yfirvofandi árás og tjón, sem af henni mátti vænta, gaf ástæðu til. Verður því ekki fallist á að verknaðurinn hafi verið unninn í neyðarvörn. Af sömu ástæðum kemur 2. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga heldur ekki til álita í málinu.
Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómsins að sannað sé að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem saksókn á hendur honum tekur til og að hún sé réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Hann er því sakfelldur fyrir hættulega líkamsárás. Samkvæmt sakavottorði hefur hann ekki áður gerst sekur um refsivert brot. Þá hefur verið leitt í ljós við meðferð málsins að atvik í aðdraganda þess að ákærði kastaði glasinu í A hafi verið með þeim hætti að líta beri til 3. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga við ákvörðun refsingar ákærða honum til málsbóta. Að þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fimm mánuði, en með hliðsjón af því að hann hefur ekki áður sætt refsingu og jafnframt í ljósi þess dráttar sem varð á rannsókn málsins hjá lögreglu, sem ekki hefur verið gefin skýring á, þykir rétt að binda fullnustu refsingar hans skilorði með þeim hætti sem í dómsorði greinir.
IV
A á rétt til miskabóta úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykir kröfu þar um í hóf stillt og verður hún því tekin til greina. Þá verður ákærða jafnframt gert að greiða A málskostnað, sbr. seinni málsliður 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en hann þykir að teknu tilliti til virðisaukaskatts hæfilega ákveðinn 150.600 krónur.
Samkvæmt framansögðu verður ákærða gert að greiða A 450.600 krónur. Um vexti af tildæmdum miskabótum fer svo sem í dómsorði greinir, en bótakrafan var birt ákærða 20. júní 2012.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað málsins samkvæmt yfirliti sækjanda um hann og ákvörðun dómsins um málsvarnarlaun skipaðs verjanda, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Þorgeir Ingi Njálsson dómstjóri kvað upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Ákærði, Sturla Viðar Jakobsson, sæti fangelsi í 5 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði A 300.000 krónur í miskabætur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. júní 2010 til 20. júlí 2012, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, og 150.600 krónur í málskostnað.
Ákærði greiði 341.350 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.